Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti Alþingi á þriðjudaginn skýrlsu um loftslagsfundinn í París og samkomulagið sem þar náðist.
„Virðulegi forseti. Það er mér ánægja að fá að flytja á Alþingi stutta skýrslu um loftslagsfundinn í París og samkomulagið sem þar náðist. Margir hafa kallað samkomulagið sögulegt og tel ég óhætt að taka undir það.
Loftslagsbreytingar af manna völdum eru einn mesti vandi sem mannkynið stendur frammi fyrir. Ef ekki tekst að koma böndum á losun gróðurhúsalofttegunda er hætta á stórfelldri röskun á lífríki jarðar og lífsskilyrðum komandi kynslóða. Vandinn verður mestur í framtíðinni eftir tugi ára en krefst aðgerða nú.
Í París tóku þjóðir heims sig saman um að standa að metnaðarfullu samkomulagi sem felur í sér nýtt upphaf, nýja heimsmynd. Skilaboðin eru skýr, þau eru um breytta hegðun einstaklinga og fyrirtækja og markvissar aðgerðir ríkja. Árangurinn er ekki síst góðum undirbúningi Frakka að þakka.
Parísarsamkomulagið er sannarlega sögulegt. Í fyrsta sinn er gert ráð fyrir aðgerðum allra ríkja heims í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Það var ógleymanlegt að skynja andrúmsloftið á Parísarfundinum sem þróaðist í átt til samkomulags og skynja þá hugarfarsbreytingu sem orðið hefur hjá stjórnvöldum, atvinnulífi og einstaklingum.
Ísland var í þeim hópi þjóða sem þrýstu á metnaðarfullt markmið á lokaspretti samningsins. Við berum öll ábyrgð á því að finna lausnir á þessu hnattræna verkefni og það skiptir engu máli hvort ríki eru stór eða smá, allir eiga og verða að leggja sitt að mörkum.
Markmið um hlýnun innan við 2°C var staðfest í Parísarsamkomulaginu en jafnframt segir að reynt verði að gera enn betur svo að hlýnun geti haldist innan við 1,5°C. Markmið hvers og eins ríkis er ekki nákvæmlega útfært enn þá en stóra myndin liggur nokkurn veginn fyrir. Það er ljóst að Parísarsamkomulagið mun kalla á herta viðleitni á Íslandi til þess að draga úr losun og auka bindingu kolefnis.
Íslendingar fjárfestu í upphafi síðustu aldar í betri framtíð með hitaveituframkvæmdum. Ég tel að fáar fjárfestingar hafi borgað sig betur. Þar sýndu Íslendingar einstaka framsýni og með henni fengum við risavaxið forskot þegar kemur að því að vinna gegn loftslagsbreytingum. Sú þekking sem Íslendingar búa yfir fleytir okkur af stað og er mikilvægur hlekkur í hnattrænu verkefni.
Á lofstslagsráðstefnunni í París flutti forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, ávarp við opnun á sérstökum orkudegi fundarins. Þar var meginþemað möguleikar jarðhitans á heimsvísu. Þá hélt hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson ávarp um stofnun á hnattrænum samstarfsvettvangi um jarðhita þar sem Ísland er í fararbroddi ásamt mörgum öflugum ríkjum og alþjóðastofnunum. Jarðhiti var þó ekki það eina sem Ísland lagði til málanna í París. Aldrei fyrr höfum við staðið fyrir eins öflugri kynningu af Íslands hálfu á þingum loftslagssamningsins. Þannig lögðu fulltrúar Reykjavíkurborgar af festu fram yfirlýsingu yfir 100 íslenskra fyrirtækja um aðgerðir í loftslagsmálum auk þess sem íslensk stjórnvöld stóðu fyrir fimm viðburðum í Norræna skálanum á fundinum. Auk jarðhitans og orkumála var þar fjallað um landgræðslu og áhrif loftslagsbreytinga á haf og jökla. Viðburður umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um landgræðslu og loftslagsmál var sérlega vel sóttur í skálanum og ekki síður hefur fólk um allan heim kynnt sér efni hans á vefnum.
Fjölmargir starfsmenn ráðuneyta og stofnana komu að þessum kynningum, samningafundum og öðrum verkefnum fyrir og á fundinum sem og undirbúningi hans. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka íslensku sendinefndinni og ekki síst formanni hennar, Huga Ólafssyni.
Við skynjuðum mikinn áhuga á því sem við erum að gera og það færði mér heim sanninn að Ísland á sannarlega erindi í alþjóðlega umræðu um loftslagsmál. Það horfa margir til endurnýjanlegrar orku hér og uppbyggingar hennar og að sú uppbygging sé til fyrirmyndar. Það er eftirspurn eftir þekkingu okkar á sviði jarðhita, landgræðslu, skipatækni o.fl.
Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin samþykkti og kynnti fyrir Parísarfundinn sóknaráætlun í loftslagsmálum. Þar eru 16 verkefni sem miða að minnkun losunar, aukinni kolefnisbindingu, þátttöku í alþjóðlegum verkefnum og styrkingu innviða. Þessi verkefni bætast við það starf sem er unnið fyrir. Með þeim kemur nýtt fjármagn, liðsauki og aukinn kraftur í framkvæmd loftslagsmála. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk stjórnvöld ráðstafa fjármagni sérstaklega til heildstæðrar áætlunar um aðgerðir í loftslagsmálum. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið vinnur að útfærslu verkefnanna og hefur yfirumsjón með framfylgd þeirra. Með þessari áætlun sýnir ríkisstjórnin vilja sinn í verki.
Samþykkt Parísarsamkomulagsins og sá áhugi sem var sýndur í París á framlagi Íslands verður byr í segl sóknaráætlunar. Sá ráðherra sem hér stendur og ríkisstjórnin í heild vill vinna í anda Parísarsamkomulagsins og tryggja að Ísland leggi þar hönd á plóg í hnattrænu verkefni með metnað og sanngirni að leiðarljósi.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið vill vinna með öllum þeim sem hafa hlutverk í þessu sambandi, félagasamtökum, atvinnulífinu, sveitarstjórnum, vísindasamfélaginu og almenningi. Það þarf víðtækt samstarf þessara aðila til að við náum markmiðum okkar.
Ég tel mjög mikilvægt að Alþingi láti sig loftslagsmálin varða bæði í umræðu og til að móta hinn lagalega ramma. Það var ánægjulegt að alþingismenn sóttu Parísarfundinn. Ég vænti góðs af samvinnu við þá og þingið allt.
Ég vil í lokin vitna til orða hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem flutti ræðu fyrir Íslands hönd á leiðtogafundi í upphafi loftslagsþingsins. Þar lagði hann áherslu á að verkefnið fram undan væri erfitt og flókið en við þyrftum að nálgast það með jákvæðni og áræðni. Ég tek heils hugar undir það. Ríkisstjórnin hefur sýnt þann vilja í verki með gerð sóknaráætlunarinnar.
Vissulega er vá fyrir dyrum þar sem loftslagsvandinn er, en við megum ekki láta draga úr okkur kjark eða starfsgleði. Steinöldinni lauk ekki vegna þess að steinarnir kláruðust heldur urðu breytingar og við tók ný tækni.
Við lögðum í það verk að hitaveituvæða Ísland, m.a. á svokölluðum köldum svæðum, þótt ekki væri fyrir fram hægt að gefa sér að árangurinn og ávinningurinn yrði eins mikill og við vitum nú. Ég tel að við getum sömuleiðis dregið úr losun í samgöngum og atvinnustarfsemi með tilkomu nýrrar tækni. Á þann hátt eigum við sambærilegan möguleika á orkubyltingu eins og var í húshitun.
Það styrkir og hvetur að sjá víðs vegar í þjóðfélaginu virka þátttakendur í loftslagsmálum. Ráðstefnur um málefnið eru skipulagðar og atvinnulífið og sveitarfélög láta sér málefnið varða. Þá er jákvætt að m.a. þjóðkirkjan hyggur á endurheimt votlendis á jörðum sínum, sem mun gagnast í baráttunni gegn loftslagsvánni.
Ég geng glöð til verka eftir þann góða árangur sem náðist í París og vona að við hér náum að vinna saman að þessu brýna hagsmunamáli Íslendinga og jarðarbúa allra svo að við náum settu marki og sómi sé að.“