Categories
Fréttir

Verðtryggingarmálin – Næstu skref verði tímasett á allra næstu dögum

Deila grein

21/10/2015

Verðtryggingarmálin – Næstu skref verði tímasett á allra næstu dögum

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja ræðu mína á að lesa stuttan texta upp úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins, en þar segir, með leyfi forseta:
„Unnið verður að því að dómsmál og önnur ágreiningsmál, sem varða skuldir einstaklinga og fyrirtækja, fái eins hraða meðferð og mögulegt er. Óvissu um stöðu lántakenda gagnvart lánastofnunum verður að linna.“
Flýtimeðferð dómsmála
Á sumarþingi 2013 var samþykkt þingsályktun í tíu liðum sem varðaði skuldavanda íslenskra heimila sem til var kominn vegna efnahagshrunsins haustið 2008. Fimmti liður tillögunnar felur það í sér að lögfest verði flýtimeðferð dómsmála sem tengja skuldavanda heimilanna og varða ágreining um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu. Frumvarp þessa efnis var samþykkt á sumarþingi 2013.
Það sem ég vil velta upp með þessari umræðu er hvað veldur því að t.d. Hagsmunasamtök heimilanna hafa núna í rúmlega þrjú ár þurft að standa í málaferlum vegna lögmæti verðtryggingar. Hvað veldur því að málið fær ekki flýtimeðferð? Þetta stóra mál hefur tekið allt of langan tíma.
Afnám verðtryggingar
Þá kem ég að næsta efni ræðu minnar sem er afnám verðtryggingar. Sjötti liður þeirrar tillögu sem samþykkt var á sumarþingi 2013 felur í sér að settur verði á fót sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum. Fram kemur að tillögur og tímasett áætlun liggi fyrir í árslok 2013. Ríkisstjórnin skipaði sérfræðingahóp sem skilaði af sér tillögum og um var að ræða meirihlutaálit og sérálit. Deilt var um hvaða leið væri best, en allir voru sammála um markmiðið, þ.e. afnám verðtryggingar.
Nú er það svo að verðtryggingarmálin eru á borði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Nú verðum við að fá að vita hver næstu skref eiga að vera og mikilvægt er að þau verði tímasett á allra næstu dögum.“
Elsa Lára Arnardóttir — í störfum þingsins  20. október 2015.

Categories
Fréttir

„Ég beini því til biskups, þeirri bæn og ósk“

Deila grein

21/10/2015

„Ég beini því til biskups, þeirri bæn og ósk“

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Ég hef verið í Þjóðkirkjunni mestallt mitt líf og tel að kirkjan sé einn af hornsteinum þjóðfélagsins sem við byggjum. Þess vegna hefur það valdið mér mikilli hryggð að heyra undanfarnar vikur að það sé hópur fólks sem kirkjunnar þjónar taka ekki á móti jafn opnum örmum og öðrum og beita fyrir sig svokölluðu samviskufrelsi. Þarna er ég að ræða um samkynhneigð pör sem nokkrir prestar Þjóðkirkjunnar hafa tekið sér leyfi til þess að neita að gefa saman í heilagt hjónaband.
Kirkjunnar þjónar eru opinberir embættismenn
Kirkjunnar þjónar eru ekki eingöngu í þjónustu kirkjunnar, þeir eru opinberir embættismenn. Það er gagnstætt bæði stjórnarskrá og stjórnsýslulögum að mismuna fólki í stjórnvaldsathöfnum. Ég tel ástæðu til að geta þess hér að þessu voru gerð ágæt skil um daginn í grein eftir ágætan varaþingmann Vinstri grænna, Andrés Inga Jónsson, þar sem hann fór yfir þetta mál.
Finni sér einfaldlega annan starfsvettvang
Nú virðist það vera þannig, samkvæmt einhverjum skoðanakönnunum, að hér sé um örfáa presta að ræða sem treysta sér ekki til þess að gefa saman samkynhneigð pör. Ég beini því til biskups, þeirri bæn og ósk, að ef það er svo að þessir ágætu prestar treysta sér ekki til þess að uppfylla þessi skilyrði þá finni þeir sér einfaldlega annan starfsvettvang. Ég held að það væri þeim líka hollt að lesa 40. vers úr 25. kafla Matteusarguðspjalls, með leyfi forseta:
„Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.““
Þorsteinn Sæmundsson – í störfum þingsins 20. október 2015.

Categories
Fréttir

Almenningssamgöngur – verðum að hafa heildarsýn

Deila grein

21/10/2015

Almenningssamgöngur – verðum að hafa heildarsýn

líneik„Virðulegi forseti. Samgöngur eru meðal annars heilbrigðismál, menntamál, velferðarmál, atvinnumál, umhverfismál, menningarmál og svona gætum við haldið áfram. Af sömu ástæðu eru almenningssamgöngur mikilvægar, liður í að tryggja félagslegt réttlæti um land allt og liður í þróun samfélaga, svo sem við uppbyggingu ferðaþjónustu. En hver er stefnan í þessum málum?
Á árinu 2012 hófst þróunarverkefni í almenningssamgöngum. Þingið samdi við landshlutasamtök sveitarfélaga um þróun þjónustu með tilteknum fjárstuðningi og að þau tækju um leið við tilteknum sérleyfum frá Vegagerðinni. Frá því að samningar voru gerðir hefur því miður orðið forsendubrestur, því að endurgreiðsla olíugjalds vegna almenningssamgangna hefur verið felld niður í skrefum og sérleyfi, einkaréttur til aksturs á tilteknum leiðum hefur ekki haldið fyrir dómstólum. Þetta hefur leitt til þess að landshlutasamtök sveitarfélaga hafa ýmist safnað skuldum vegna verkefnisins eða þróunin hefur stöðvast án þess að komið sé heildstætt kerfi. Þegar litið er til baka virðist ekki hafa verið ljóst í upphafi hvaða viðmið voru höfð til hliðsjónar hjá ríkinu við skiptingu fjármagns eða að skilgreind hafi verið lágmarkskrafa um þjónustu.
Skynsamlegt er að fela heimamönnum á hverju svæði umsjón með almenningssamgöngum á landi en við verðum samt að hafa heildarsýn á verkið. Á það til dæmis að vera forgangsmál að tengja saman samgöngur á landi, í lofti og á sjó, eða viljum við setja einhverjar lágmarkskröfur svo sem um að hægt sé að komast hringinn um landið með almenningssamgöngum sem ekki er hægt í dag? Er hægt að leita ódýrari lausna fyrir minni staði með því að samþætta við aðra þjónustu? Viljum við setja okkur einhver umhverfismarkmið? Til að þróa verkefnið áfram verðum við að minnsta kosti að setja okkur markmið, tryggja að lagaumhverfið styðji þjónustuna og setja ramma um útdeilingu fjármuna til verkefnisins í samræmi við markmiðin.“
Líneik Anna Sævarsdóttir – í störfum þingsins 20. október 2015.

Categories
Fréttir

Verðtryggingin – „Tíminn er ekki runninn frá okkur“

Deila grein

21/10/2015

Verðtryggingin – „Tíminn er ekki runninn frá okkur“

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Þegar ég fór að undirbúa mig í gær til að flytja þennan ræðustúf hér í dag fór ég yfir nokkrar ræður sem ég flutti í kosningabaráttunni 2013. Ég talaði um verðtrygginguna á hverjum einasta fundi og hversu mikilvægt það væri fyrir heimili landsins að hún yrði afnumin af neytendalánum. Það var sannfæring mín þá og það er sannfæring mín í dag. Framsóknarflokkurinn hélt meira að segja nokkra fundi sem fjölluðu sérstaklega um verðtrygginguna og afnám hennar. Þeir fundir voru vel sóttir og Framsóknarflokkurinn vann glæsilegan kosningasigur. Áherslur okkar í baráttunni voru fyrst og fremst leiðrétting stökkbreyttra húsnæðislána og afnám verðtryggingar á neytendalánum. Ég get því ekki annað en túlkað sigur okkar í kosningabaráttunni sem stuðning fjölmargra Íslendinga við þessi kosningaloforð okkar. Í ályktunum undanfarinna flokksþinga Framsóknarflokksins segir að framsóknarmenn vilji að verðtrygging á neytendalánum verði afnumin. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna segir síðan, með leyfi forseta:
„Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og endurskipulagningu húsnæðislánamarkaðarins verður skipuð á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og mun skila af sér fyrir næstu áramót.“
Þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar var fylgt eftir með þingsályktunartillögu í júní 2013. Hópurinn var stofnaður og skilaði minni- og meirihlutaáliti. Menn deildu um hvaða leið væri best að fara en voru sammála um markmiðið, þ.e. að afnema skuli verðtrygginguna.
Virðulegi forseti. Áætlun ríkisstjórnarinnar hefur staðist hingað til. Tíminn er ekki runninn frá okkur en hann mun gera það ef við höldum ekki vel á spöðunum næstu vikur og mánuði. Nú liggur verkefnið á borði hæstv. fjármálaráðherra, ég treysti því að hann vinni málið vel og hlakka til að sjá frumvarpið þegar það birtist okkur.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir — í störfum þingsins  20. október 2015.

Categories
Fréttir

„Mögulegt framtíðarsöluvirði bankans rennur til ríkisins en ekki til kröfuhafa“

Deila grein

21/10/2015

„Mögulegt framtíðarsöluvirði bankans rennur til ríkisins en ekki til kröfuhafa“

Karl_SRGB„Virðulegur forseti. Nú hafa borist þær fréttir að kröfuhafar Glitnis hyggist bjóða ríkinu Íslandsbanka til að uppfylla stöðugleikaskilyrði. Þessari breytingu á afstöðu kröfuhafa ber að fagna. Þessi niðurstaða að ríkið taki Íslandsbanka yfir virðist betri en það sem áður var boðið. Fyrri tillaga þeirra fól í sér möguleika á að erlendir aðilar mundu eignast bankann. Þá hefði stór hluti af söluvirði bankans og arðgreiðslur úr honum væntanlega farið úr landinu og skapað meiri þrýsting á greiðslujöfnuð til langs tíma. Ef þetta gengur eftir þýðir það væntanlega að greiðslujafnaðaráhrif af mögulegum arðgreiðslum næstu árin hverfa og þessar mögulegu arðgreiðslur falla þá í staðinn til ríkissjóðs á þeim tíma sem ríkið á bankann. Það þýðir einnig að mögulegt framtíðarsöluvirði bankans rennur til ríkisins en ekki til kröfuhafa. Það er ávinningur af hvoru tveggja fyrir ríkið. Að sjálfsögðu á eftir að fara betur yfir þessa tillögu, en við fyrstu sýn virðist hér vera betri kostur á borðinu en kom fram í sumar.
Ef þetta verður raunin er mikilvægt að faglega verði staðið að öllu sem tengist rekstri og framtíðarsöluferli bankans. Stjórnvöld hafa hvergi hvikað frá þeim markmiðum sem kynnt voru í vor þegar haftaafnámsáætlunin var gerð opinber. Tilgangur þessarar áætlunar er að losa um höft án þess að stefna efnahagslegum stöðugleika í hættu, sem sé að taka á greiðslujafnaðarvanda þjóðarbúsins sem til kominn er vegna slitameðferðar þrotabúanna. Þannig er það ekki markmið í sjálfu sér að skapa tekjur fyrir ríkissjóð eða refsa slitabúunum fyrir þátt sinn í bankahruninu.“
Karl Garðarsson — í störfum þingsins  20. október 2015.

Categories
Fréttir

„Steinöldinni lauk ekki af því að steinarnir kláruðust, heldur af því að ný tækni tók við“

Deila grein

20/10/2015

„Steinöldinni lauk ekki af því að steinarnir kláruðust, heldur af því að ný tækni tók við“

sigrunmagnusdottir-vefmynd„Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að tala um þetta mál. Sex ráðuneyti undirbúa nú loftslagsráðstefnuna í París. Ég lít svo á að það sé áskorun til okkar allra að gera eitthvað nýtt. Við getum litið þannig á að nú séum við að fara í nýtt upphaf, að við stöndum á tímamótum þar sem við þurfum öll að taka okkur saman og jafnvel að breyta hugsunarhætti og umgengni okkar almennt.
Þurfum að finna nýjar leiðir
Arctic Circle-ráðstefnan um helgina endaði nú svo ágætlega. Ég held að það hafi verið Færeyingar sem sagði þar: Steinöldinni lauk ekki af því að steinarnir kláruðust heldur af því að ný tækni tók við. Það er það sama og við leggjum höfuðáherslu á, við þurfum við að taka það sem áskorun og ég er sammála því að heimurinn finni nýjar leiðir. Við höfum sett það fram að við ætlum að minnka jarðefnaeldsneytisnotkun og þá þurfum við að kalla eftir öðrum orkugjöfum. Við erum fyrirmynd í þeim efnum, finnst allflestum þeim útlendingum sem ég hef rætt við undanfarna daga. Þeir líta til okkar sem fyrirmyndar, enda viljum við vera í fararbroddi í umhverfismálum. Það er það sem við ætlum okkur að gera og við erum að vinna að sóknaráætlun, Íslendingar, sem við munum leggja fram á Parísarfundinum í byrjun desember.“
„Ég held að ríkisstjórn Íslands geri sér fullkomlega grein fyrir því að hafið er okkar dýrmæti og að því þurfum við að huga og reyna að gæta þess og minnka mengun.
40% losun fyrir 2030
Varðandi Evrópusambandið þá tilkynnti Ísland markmið sín 30. júní s.l., eða samþykkt ríkisstjórnar þann dag, að við stefndum að þessu sameiginlega markmiði um 40% losun fyrir 2030 miðað við 1990 í samvinnu við Noreg og ríki ESB. Það er það sem ríkisstjórnin er búin að samþykkja. Jafnhliða erum við, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, að undirbúa sérstaka sóknaráætlun þar sem við Íslendingar leggjum fram markmið okkar.
Það er hægt að skipta þeim verkefnum í þrjú svið. Það eru í fyrsta lagi aðgerðir til að draga úr nettólosun gróðuhúsalofttegunda á Íslandi. Annað er verkefni sem við vinnum á alþjóðavísu og hið þriðja er efling stjórnsýslu og vöktunar í lofslagsmál. Það er mjög mikilvægt að við reynum að efla þá innviði til að við getum borið saman hvernig þróunin verður. Eitt er mjög ánægjulegt og það er að tekist hefur góð samvinna við atvinnugreinarnar í landinu um að minnka notkun gróðurhúsalofttegunda.“
Sigrún Magnúsdóttirum Loftslagsráðstefnuna í París í byrjun desember, í störfum þingsins 19. október 2015.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun kjördæmisþings framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi

Deila grein

14/10/2015

Stjórnmálaályktun kjördæmisþings framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi

logo-framsokn-gluggiKjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Vogum 9.-10. október 2015 lýsir ánægju með góðan árangur sem náðst hefur í stjórn landsmála á þeim rúmu tveimur árum frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum undir forsæti Framsóknarflokksins. Flestir mælikvarðar sem stuðst er við, til að vega og meta hagsæld þjóða, stefna upp á við. Þeirri stöðu hefur verið náð með forystu Framsóknarflokksins sem hefur haldið fast í gildi sín sem frjálslyndur félagshyggjuflokkur.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Vogum 9.-10. október 2015 hvetur Framsóknarmenn til að halda á lofti þessum góða árangri. Almenn ánægja ríkir um leiðréttingu húsnæðislána og nú liggur fyrir áætlun um afnám hafta. Afnema skal verðtryggingu af neytendalánum.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Vogum 9.-10. október 2015 hvetur ríkisstjórnina til að vinna áfram að málefnum hinna dreifðu byggða. Ljúka skal við uppbyggingu háhraðanets, þriggja fasa rafmagns auk annarar grunnþjónustu sem krafist er í nútímasamfélag. Kjördæmisþingið hvetur ríkisstjórnina til að flytja verkefni á landsbyggðina og fjölga þar opinberum störfum.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Vogum 9.-10. október 2015 leggur áherslu á mikilvægi þess að endurskoða tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Aukin verkefni hafa verið færð til sveitarfélaga frá ríkinu án þess að nægjanlegir fjármunir hafi fylgt með þeim. Sveitarstjórnir eru mikilvægar sínu nærumhverfi og auka þarf völd þeirra til ákvarðanatöku á sínum málum.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Vogum 9.-10. október 2015 leggur þunga áherslu á umferðaöryggi og viðhald vega svo að allir komist um landið með öruggum og greiðum hætti. Viðhald vega er farið að slaga upp í stofnkostnað. Hefja skal byggingu á nýrri brú yfir Ölfusá hjá Selfossi eigi síðar en 2017.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Vogum 9.-10. október 2015 bendir á að viðhaldi og uppbyggingu hafna er ábótavant og nauðsynlegar úrbætur brýnar, s.s. á Suðurnesjum og uppbygging Þorlákshafnar sem inn- og útflutningshafnar. Brýnt er að halda áfram rannsóknum við Hornafjörð og Landeyjarhöfn. Tryggja öruggar samgöngur til Vestmannaeyja með nýja ferju sem stenst nútímakröfur farþega, hvort sem hún siglir til Landeyjarhafnar eða Þorlákshafnar.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Vogum 9.-10. október 2015 hvetur ríkisstjórnina til að standa vörð um flugvelli innanlands og áframhaldandi uppbyggingu þeirra þar sem þeir gegna mikilvægu hlutverki á sviði almannavarna, samgangna og dreifingu ferðamanna um landið. Mikilvægt er að ekki verði hróflað við Reykjavíkurflugvelli, og að opnaðar verði fleiri gáttir inn í landið, eins og á Egilsstöðum.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Vogum 9.-10. október 2015 leggur áherslu á trausta heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Efla þarf grunnþjónustu í heilbrigðismálum kjördæmisins, s.s. heilsugæslu, geðheilbrigðisþjónustu, uppbyggingu hjúkrunarheimila og fjölbreyttari úrræða í þjónustu við aldraða. Hækka þarf lífeyrisgreiðslur til aldraðra og öryrkja til samræmis við lágmarkslaun. Jafnframt þarf að lækka lyfjakostnað þeirra verulega. Nýr Landspítali verði byggður á betri stað.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Vogum 9.-10. október 2015 leggur áherslu á að fundnar verði leiðir til að efla næringarvitund í átt að bættri lýðheilsu, með því að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttum. Góð lýðheilsa er beinn sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Vogum 9.-10. október 2015 lýsir yfir fullum stuðningi við nýtt húsnæðiskerfi sem félags- og húsnæðismálaráðherra hefur kynnt, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 2.64 m.kr í uppbyggingu félagslegs húsnæði og í nýtt húsnæðiskerfi. Nýtt fyrirkomulag að bæta hag heimilanna með meiri stuðning við lágtekjufólk, auknu framboði á ódýrum og hagkvæmum íbúðum og bættri stöðu leigjenda og leigusala. Tillögurnar byggja á löngu samstarfsferli og viljayfirlýsingu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins frá síðasta vori sem lágu til grundvallar því að kjarasamningar til langs tíma náðust. Öruggt húsnæði er ein af grundvallarþörfum landsmanna. Þingið skorar á alla stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi að sameinast um að ná tillögunni fram á yfirstandandi þingi.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Vogum 9.-10. október 2015 lýsir áhyggjum yfir þeirri manneklu sem lögreglan í Suðurkjördæmi glímir við og hvetur ríkisstjórnina til að auka fjármagn til löggæslunnar svo tryggja megi öryggi íbúa og ferðamanna betur en nú er.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Vogum 9.-10. október 2015 leggur áherslu á að menntasetur í kjördæminu verði efld og þeim tryggður rekstrargrundvöllur. Það er nauðsynlegt að gera fólki kleift að stunda nám heima í héraði. Þingið hvetur stjórnvöld til að standa vörð um starf Íþróttakennaraháskóla Íslands á Laugarvatni.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Vogum 9.-10. október 2015 hvetur stjórnvöld til að stuðla að aukinni matvælaframleiðslu. Hagræðing í matvælaframleiðslu hefur skilað neytendum miklu á undanförnum árum, en hún má ekki verða á kostnað eðlilegrar samkeppni.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Vogum 9.-10. október 2015 telur mikilvægt að halda áfram að auka hagsæld íbúa þessa lands með hagkvæmni og hugvitsemi í veiðum og vinnslu til að hámarka tekjur þjóðarbúsins af nýtingu sameiginlegra auðlinda. Sjávarútvegurinn hefur mikilvægu hlutverki að gegna í að auka byggðafestu víða um land. Ábyrgðin er mikil og ber greininni skylda til að huga að samfélagslegri þátttöku sinni í því samhengi. Mikilvægt er að ákveðinn hluti veiðileyfagjalds skili sér í hafnarbótasjóð og fari til viðhalds og hafnarmannvirkja. Þá hvetur þingið stjórnvöld til að tryggja sanngjarnt gjald fyrir aðgang að auðlindum hafsins.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Vogum 9.-10. október 2015 leggur áherslu á að hlúð verði að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu í kjördæminu. Þingið hvetur til að vandað verði til uppbyggingar í ferðaþjónustu og mikilvægt sé að finna gjaldtöku af ferðamönnum góðan farveg. Blönduð leið getur verið heppileg til að fjármunir skili sér til uppbyggingar fyrir bæði ríki og sveitarfélög.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Vogum 9.-10. október 2015 minnir á að standa beri vörð um náttúru Íslands. Um leið er rétturinn tryggður til að njóta hennar. Mikilvægt er að huga að sjálfbærri nýtingu til heilla fyrir samfélagið allt og komandi kynslóðir. Þingið fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um aukna kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu og hvetur til þess að sem fyrst verði hafist handa við að vinna eftir þeim áformum. Í náttúruverndarlögum verði heimilt að taka bílastæðagjald og endurskoða ákvæði laganna um frjálsa för ferðamanna. Herða þarf reglugerðir um fyrirtæki í ferðaþjónustu.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Vogum 9.-10. október 2015 vill að Landsbankinn verði samfélagsbanki í eigu þjóðarinnar með það markmiði að þjóna samfélaginu í stað þess að hámarka hagnað. Til að bregðast við fákeppni á bankamarkaði er nauðsynlegt að Landsbankinn hafi þann tilgang að bjóða góða þjónustu á bestu kjörum til að efla samkeppni í bankaþjónustu á landsvísu.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Vogum 9.-10. október 2015 skorar á alþingismenn flokksins í kjördæminu að fylgja eftir tillögu frá síðasta flokksþingi um að leggja niður erfðafjárskatt.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Vogum 9.-10. október 2015 bendir á að með aukningu umferðar um landið er ljóst að aðstoð og hjálp björgunarsveita og lögreglu er ört vaxandi. Við þessu þarf að bregðast, til dæmis með að skilda allar bílaleigur og ferðaskrifstofur til að tryggja sig og bílinn eða leigutaka fyrir leitarkostnaði.

Categories
Fréttir

Krafa um að knattspyrnuvellir verði endurnýjaðir og hættuminna efni notað

Deila grein

13/10/2015

Krafa um að knattspyrnuvellir verði endurnýjaðir og hættuminna efni notað

Villlum„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða hér um gúmmíkurl úr afgangsdekkjum sem notað hefur verið á leik- og íþróttasvæði hérlendis, aðallega á knattspyrnuvelli. Skýrar reglur eru til staðar um meðhöndlun og förgun ónýtra hjólbarða en þegar búið er að kurla dekkin niður og dreifa þeim á íþróttasvæði barna og unglinga gilda engar reglur. Þó er ljóst að eiturefnin eiga mun greiðari leið út í umhverfið úr dekkjakurlinu en þegar þau eru bundin í heila hjólbarða.
Segja má að umræðan hafi byrjað um þetta mál fyrir alvöru fyrir fimm árum og í kjölfar þeirrar umræðu sendi Læknafélag Íslands frá sér einróma áskorun þess efnis að stjórnvöld bönnuðu notkun á gúmmíkurli sem inniheldur krabbameinsvaldandi efni og önnur eiturefni á íþrótta- og leiksvæðum.
Einhverra hluta vegna náði umræðan þá og þessi áskorun Læknafélagsins ekki tilætluðum árangri. Þrátt fyrir vísbendingar um að kurlið geti mögulega valdið sjúkdómum, þá brugðumst við ekki við varnaðarorðum á þeim tíma. Málið er á borði fjölmargra aðila eins og sveitarfélaga, knattspyrnuyfirvalda og heilbrigðiseftirlits og Umhverfisstofnunar og auðvitað fjölmargra samtaka sem láta sig velferð og heilsu barna varða. Fjölmargar rannsóknir og skýrslur eru til um þetta efni og Norðmenn hafa rannsakað þetta þó nokkuð og bent á hættuna á umhverfisáhrifum af kurlinu á nærlendi gervigrasvalla.
Nú hafa Heimili og skóli, landssamtök foreldra, farið fram á það að slíkir vellir verði endurnýjaðir og hættuminna efni notað. Við verðum líkt og aðrar þjóðir að bregðast við og helst að banna þessa notkun og fara í þá vinnu að skipta dekkjakurlinu út fyrir hættuminni efni.
Ég hef nú leitað eftir stuðningi allra flokka og fengið jákvæð viðbrögð við þingsályktunartillögu þar sem hæstv. umhverfisráðherra verður falið að ganga í þetta mál.“
Willum Þór Þórssoní störfum þingsins 6. október 2015.

Categories
Fréttir

Tökum verðtrygginguna úr sambandi

Deila grein

13/10/2015

Tökum verðtrygginguna úr sambandi

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Það eru liðin sjö ár frá hruni, hruni sem hafði gífurlega mikil áhrif á íslenskt efnahagslíf og fjölda einstaklinga og fjölskyldur í landinu. Atvinnuleysi jókst hratt, lán hækkuðu eins og enginn væri morgun dagurinn og heimili landsins áttu sífellt erfiðara með að ná endum saman. Þetta gerði það að verkum að talsverður fjöldi missti heimili sitt og í of mörgum tilvikum heyrðist af splundruðum fjölskyldum vegna skilnaða og annarra áfalla sem dundu yfir.
Það er óhætt að halda því fram að þetta hafi verið erfiður tími fyrir margar fjölskyldur og þess vegna er með ólíkindum að heyra þegar nokkrir einstaklingar halda því fram að hér hafi í raun ekki orðið hrun. Því miður heyrum við einstaka sinnum fréttaflutning þess efnis þessa dagana. Það get ég bara alls ekki skilið vegna þess að enn þann dag í dag sjáum við anga hrunsins birtast.
Enn eru til dæmi um það að einstaklingar fái ekki úrlausn sinna mála og má þar nefna fólk með ólögmæt gengistryggð lán sem fær þau ekki leiðrétt.
Á þessu kjörtímabili hefur þó verið farið í 150 milljarða króna skuldaaðgerð fyrir heimili landsins. Um er að ræða beina niðurfellingu og séreignarsparnaðarleið. Þess má geta að í hverjum mánuði fara um 500 milljónir í formi skattafsláttar inn á verðtryggðar húsnæðisskuldir og sérstaka húsnæðissparnaðarreikninga. Auk þess eru frumvörp sem eiga að bæta ástandið á leigumarkaði að detta inn í þingið á næstu dögum.
Í morgunútvarpi Bylgjunnar heyrði ég viðtal við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson þar sem hann talaði um hversu erfitt það væri fyrir ungt fólk að kaupa sér íbúð. Hann talaði meðal annars um byggingarreglugerð og hátt lóðaverð í því samhengi. Ég er honum mjög sammála um að það eru þættir sem við verðum að endurskoða í allri þeirri húsnæðisvinnu sem er í gangi. Þetta var mikilvægt innlegg hjá hv. þingmanni.
Ég er hins vegar föst á því að við verðum að taka úr sambandi það vaxtaform sem heimilin búa við þegar þau fjárfesta í húsnæði, þ.e. verðtrygginguna. Það er stór lykill að bættu ástandi á húsnæðismarkaði.“
Elsa Lára Arnardóttirí störfum þingsins 6. október 2015.

Categories
Fréttir

Mikilvægt er að skimað verði fyrir kvíða og þunglyndi hjá öllum grunnskólabörnum

Deila grein

13/10/2015

Mikilvægt er að skimað verði fyrir kvíða og þunglyndi hjá öllum grunnskólabörnum

Karl_SRGB„Virðulegur forseti. Talið er að um 15–20% barna eigi í geðrænum vanda á hverjum tíma og að um 5% þurfi sérfræðiþjónustu. Á göngudeild Barna- og unglingageðdeildar, BUGL, eru nú rúmlega 770 börn til meðferðar á aldrinum 4–17 ára. Þrátt fyrir þennan fjölda eru 120 til viðbótar á biðlista.
Þetta kemur fram í fyrsta hluta greinaflokks um geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Í fyrra voru bráðakomur á BUGL nánast ein á dag alla daga ársins og hér er ég bara að tala um bráðakomur. Undir það flokkast til dæmis sjálfsvígshugsanir og depurð. Heildarkomur á deildina í fyrra voru um 6.500.
Í velferðarráðuneytinu er nú unnið að stefnuáætlun í geðheilbrigðismálum. Síðastliðin tvö ár hefur undirritaður verið í hópi þingmanna sem hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að skimað verði fyrir kvíða og þunglyndi hjá öllum börnum og að þau sem þurfi aðstoð fái hana.
Velferðarnefnd þingsins vísaði málinu til ráðuneytisins í sumar þar sem ráðherra og starfsmenn hafa brugðist við af ábyrgð. Því má búast við að í nýrri geðheilbrigðisáætlun verði gert ráð fyrir að skimað verði fyrir kvíða og þunglyndi hjá öllum grunnskólabörnum. Þetta eru afar góð tíðindi því að algengt er að börn einangrist vegna kvíða og þunglyndis, flosni upp úr skóla, einangrist félagslega og verði jafnvel óvinnufær til framtíðar. Það eru líka mörg dæmi um sjálfsvíg. Andleg veikindi eru ein helsta ástæða brotthvarfs úr framhaldsskóla.
Þeim fjármunum sem fara í þetta verkefni er vel varið. Sparnaður í þessum málaflokki er dýr, ekki bara fyrir einstaklinga heldur samfélagið í heild sinni. Því ber að fagna hvernig tekið er á málinu, auk þess sem Morgunblaðið á hrós skilið fyrir að vekja athygli á því.“
Karl Garðarssoní störfum þingsins 6. október 2015.