Ræða Frosta Sigurjónssonar, alþingismanns, frá umræðum á Alþingi um Evrópumál, munnlega skýrslu utanríkisráðherra.
„Virðulegi forseti. Við ræðum hér munnlega skýrslu utanríkisráðherra um framkvæmd ríkisstjórnarinnar á stefnumörkun varðandi ESB aðildarferlið, stefnumörkun sem nú hefur verið áréttuð frekar í bréfi til ESB. Aðalatriði bréfsins eru þessi:
1. Ríkisstjórnin hefur engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju.
2. Þessi stefna kemur í staðinn fyrir skuldbindingar fyrri ríkisstjórnar í tengslum við aðildarviðræður.
3. Að ekki skuli líta á Ísland sem umsóknarríki og ESB lagi verklag sitt á því.
Með þessu hefur aðildarferlinu sem hófst árið 2009 verið lokið og öllum er orðið ljóst að ríkisstjórnin lítur ekki á Ísland sem umsóknarríki. Því ber að fagna.
Ríkisstjórnin hafði fulla stjórnskipulega heimild til að árétta stefnu sína bréflega við ESB, án aðkoma utanríkismálanefndar
Hér hafa spunnist áhugaverðar umræður um form málsins, þ.e. hvort ráðherranum hafi verið heimilt að árétta stefnu ríkisstjórnarinnar bréflega við ESB án þess að bera það bréf sérstaklega undir utanríkismálanefnd. Stjórnlagafræðingar eru á einu máli um að ríkisstjórnin hafi til þess fulla stjórnskipulega heimild. Greinargerðir sérfræðinga eru skýrar um þetta efni og liggja fyrir. Áhrif þingsályktunartillagna byggja aðeins á þeim þingstyrk sem þeim býr að baki hverju sinni og þær geta ekki bundið þing framtíðarinnar.
Sú þingsályktun sem hér um ræðir er frá 2009. Hún innihélt mikla fyrirvara og sú ríkisstjórn sem þá var við völd áskildi sér ítrekað allan rétt til að afturkalla umsóknina. Ef þingsályktunin væri bindandi, eins og sumir vilja halda hér fram, þá hlýtur líka áskilnaðurinn um að mega slíta viðræðum hvenær sem er einnig að vera í fullu gildi. Þannig að hvort sem þingsályktunin er í gildi eða ekki gildi, þá er ríkisstjórnin í fullum rétti til að binda enda á aðildarumsóknina.
Lýðræðislegt umboð aðildarumsóknarinnar var mjög veikt
Hér hefur líka komið fram að lýðræðislegt umboð aðildarumsóknar var mjög veikt. Höfðu Vinstri grænir umboð kjósenda sinna til að standa að slíkri aðildarumsókn hafandi talað fullum hálsi gegn aðild í kosningabaráttu sinni? Í sjónvarpsþætti daginn fyrir kosningar harðneitaði formaður Vinstri grænna því að aðildarumsókn kæmi til greina. Þrátt fyrir hið veika lýðræðislega umboð vildi fyrri ríkisstjórn ekki bæta úr því og felldi tillögur um að bera aðildarumsóknina undir þjóðaratkvæði.
En víkjum nú frá forminu og að sjálfu efni málsins, aðildarferlinu að ESB sem við viljum ekki taka þátt í lengur. Allar viðhorfskannanir undanfarin ár hafa sýnt að þjóðin hefur ekki áhuga á aðild að ESB, en vilji til inngöngu hlýtur að vera forsenda þess að staðið sé í slíkum viðræðum. Viðhorfskannanir hafa reyndar sýnt að fólk er forvitið að sjá hvað kæmi út úr samningaviðræðum um aðild, en sannleikurinn er sá að ESB hætti að bjóða upp á könnunarviðræður eftir að Norðmenn höfnuðu slíkum samningum í tvígang í þjóðaratkvæðagreiðslu, enda dettur engum í Noregi í hug að hefja slíka erindisleysu í þriðja sinn.
Eftir ófarir ESB í Noregi virðist stækkunardeildin hafa fundið upp nýja taktík. Nú skyldi byrjað á öfugum enda.
1. Ríkisstjórnir gátu nú sótt um aðild að ESB án þess að spyrja þjóðina fyrst.
2. Aðlögun hafin að regluverki ESB án þess að spyrja þjóðina og með öllum þeim kostnaði sem því fylgir.
3. Setja opnunar- og lokunarskilyrði á kaflana og geyma þá erfiðustu þar til í lokin til að auka líkur á að hægt væri að ná fram málamiðlunum.
ESB bauð lykilfólki kynningarferðir til Brussel, allt innifalið
Á meðan aðlögun er í fullum gangi er unnið í markaðs- og kynningarmálum. Í stað þess að gefa lýðræðislegum öflum, þingflokkum og já- og nei-fylkingum svigrúm til að takast á um rökin með og á móti aðild freistaðist ESB til að henda sér á árarnar með já-hreyfingunni. ESB bauð lykilfólki kynningarferðir til Brussel, allt innifalið. Dældi milljörðum í að styrkja valin málefni, styrkirnir voru kallaðir aðlögunarstyrkir. Setti á fót kynningarfyrirtæki í þágu aðildar, Evrópustofa var það kallað og varði hundruðum milljóna til að kynna valkostina og kosti Evrópusambandsins. Á meðan höfðu sjálfsprottnar já- og nei-hreyfingar úr litlu að moða til að kynna sín rök og sjónarmið.
Vínarsáttmálinn leggur bann við afskiptum ríkja í innanríkismál hvors annars
Umsvif ESB eru umhugsunarverð í ljósi þess að fram undan var þjóðaratkvæði um aðildina og í ljósi þess að Vínarsáttmálinn leggur bann við afskiptum ríkja í innanríkismál hvors annars. Lög um stjórnmálaflokka banna það alveg sérstaklega að flokkar afli fjármagns frá erlendum aðilum til að kynna sín sjónarmið. Augljóslega er það mjög þarft ákvæði. En er þá alveg í lagi að erlendur aðili hefji hér stórfellt kynningarstarf í þágu helsta baráttumáls tiltekins stjórnmálaflokks? Þetta er að mínu mati spurning sem þingið þarf að skoða nánar í ljósi fenginnar reynslu.
En aftur að aðlögunarferlinu. Lokakaflinn á þessu dýra og ólýðræðislega aðlögunarferli var sá að þegar allt væri tilbúið og aðlögun í raun orðinn hlutur þá yrði loks valinn heppilegur tímapunktur til að spyrja þjóðina leyfis, spyrja hvort hún vildi ganga í ESB, en það væri þá bara formsatriði því að í reynd væri fullveldi Íslands þá komið til Brussel og kannski bara tómt vesen að flytja það til baka.
En hverjar voru þær væntingar sem vaktar voru um ESB og umsóknina? Hafa þær staðist á einhvern hátt? Aðildin átti að taka 16 mánuði en urðu strand eftir 40. Könnunarviðræður reyndust vera aðlögunarferli. Evran átti að vera lausn en reyndist vera óleysanlegt vandamál. Hið milda ESB sem átti að hjálpa aðildarríkjum í vanda hefur ekki sýnt sig í vandræðum Grikklands. Þar er harkan ein. ESB beitti sér gegn hagsmunum Íslands í Icesave-málinu. Írar voru látnir axla skuldir einkabanka þar í landi. Þeir fengu ekkert val. Er ESB lýðræðislegra en Ísland? Hér kalla menn eftir beinu lýðræði. Er beint lýðræði í ESB? Ég hef ekki orðið var við það. Eru einhverjar þjóðaratkvæðagreiðslur þar um einstök mál? Alls ekki. Er ekki verið að tala um að þar sé lýðræðishalli? Embættismenn sem enginn hefur kosið setji þar öll lög. Enginn getur kosið þá í burtu. Aðildarumsóknin var sögð eiga að bæta ímynd landsins eftir hrun. Af fréttum er að dæma, sem við höfum verið að sjá núna viðbrögð við, að umsóknin hafi verið afturkölluð, henni slitið eða hvernig á að kalla það, það er talið vera tákn um að við séum fær um að standa á eigin fótum. Það er styrkur Íslands að hafa afþakkað þessa aðildarumsókn.
Jafnvel fyrrverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, sem var einn helsti talsmaður ESB-aðildar segir að ESB sé á rangri leið
Á þeim árum sem hafa liðið frá því aðildarumsóknin var lögð fram hefur komið kyrfilega í ljós að ESB-aðild er ekki lausn á vanda Íslands. Jafnvel fyrrverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, sem var einn helsti talsmaður ESB-aðildar segir að ESB sé á rangri leið og að Ísland sé alls ekki á leiðinni inn í það bandalag.
Því er haldið fram að fullveldi Íslands styrkist við það að glata forræði yfir stórum málaflokkum en fái í staðinn 1% þingsæta á Evrópuþinginu
Aðild að ESB er orðið svo óvinsælt baráttumál að sjálf samtökin sem berjast fyrir ESB-aðild þora ekki að kalla sig Já ESB eins og eðlilegt væri, en kalla sig Já Ísland. Öllu er snúið á hvolf í þessari baráttu. Því er sem dæmi haldið fram að fullveldi Íslands styrkist við það að glata forræði yfir stórum málaflokkum en fái í staðinn 1% þingsæta á Evrópuþinginu. Þjóðin sér auðvitað í gegnum svona tal, enda fengu þingflokkar sem höfðu inngöngu á stefnuskrá sinni innan við 13% atkvæða í síðustu alþingiskosningum. Þeir sem áður sögðust vera ESB-aðildarsinnar með stolti draga nú í land og segjast bara vilja ólmir sjá samninginn til að geta gert upp hug sinn. Þeir láta sem enn sé hægt að kíkja í pakkann eins og Noregur gerði. Ég minni þá aftur á aðildarferlið, sem ég lýsti fyrr í ræðu minni, og eðli þess, að láta þjóðina standa frammi fyrir orðnum hlut þegar hún er loks spurð álits.
Á hvaða leið er ESB?
En á hvaða leið er ESB, eigum við yfirleitt erindi inn í þann pakka, eða ætti ég að segja vandamálapakka? Myntbandalaginu er spáð hruni að minnsta kosti einu sinni í mánuði, þó enn hafi það ekki gerst og enginn skilur í því að Grikkland skuli ekki vera gengið úr myntbandalaginu því að evran er allt of sterk fyrir Grikkland eins og allir sjá. Fjármagnsflótti er frá Grikklandi og enginn skilur í því að ekki séu komin fjármagnshöft. Schäuble hótar því að hætta að láta gríska banka fá peninga sem mundi þýða endalok gríska hagkerfisins eins og við þekkjum það og kaos yrði í Grikklandi.
Atvinnulausir í Evrópusambandinu eru 24 milljónir. Evrópa unga fólksins er Evrópa atvinnuleysisins. Vaxandi pólitísk óánægja er og minnkandi traust er á stofnunum ESB innan sambandsins og öfgahreyfingar eru að ná fótfestu. Ekki síst í kjölfar harðræðis aðgerða og niðurskurðar í ríkjum sem hafa glímt við vandamál eftir fjármálahrunið 2008. Þau glíma við allt of sterka evru og í stað þess að njóta stuðnings eru fúkyrðin farin að ganga á víxl milli Þjóðverja og Grikkja, hálfgert kalt stríð ríkir. Eins og ég segi, Schäuble hefur hótað lýðræðislega kjörnum leiðtogum Grikkja að slökkva á bankakerfinu ef þeir láti ekki að stjórn og fyrirmælum ESB. Hvar er lýðræðið í því? Bretar íhuga nú að kjósa hugsanlega um útgöngu sína innan tveggja ára vegna þess að þeir hafa engin áhrif í ESB.
Junker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefur talað um að nú þurfi að stofna ESB her og Þjóðverjar taka vel í það. Vissulega er málið umdeilt, en þessi umræða ein og sér ætti að sannfæra Íslendinga um að við eigum ekkert erindi inn í þetta verðandi hernaðarbandalag og stórveldi.
Fagnaðarefni að ríkisstjórnin hafi bundið enda á aðildarferlið
Ég fagna því að ríkisstjórnin hefur bundið enda á aðildarferlið og ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að finna þá leið sem hefur skilað þeim mikilvæga árangri að Ísland er ekki lengur umsóknarríki. Ég fagna því að þessu skammarlega bjölluati í Brussel er lokið. Ég mundi líka fagna því ef ESB mundi framvegis hlífa íslensku þjóðinni við frekari innbyrðis átökum um sjálfstæði og fullveldi. Það væri mikið fagnaðarefni ef við gætum hætt að eyða orku okkar í að kljást um aðild að ESB en gætum þess í stað lagst öll á eitt við að bæta líf komandi kynslóða í okkar gjöfula og góða landi.“
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.
ESB er á rangri leið
19/03/2015
ESB er á rangri leið