Categories
Fréttir

ESB er á rangri leið

Deila grein

19/03/2015

ESB er á rangri leið

frosti_SRGBRæða Frosta Sigurjónssonar, alþingismanns, frá umræðum á Alþingi um Evrópumál, munnlega skýrslu utanríkisráðherra.
„Virðulegi forseti. Við ræðum hér munnlega skýrslu utanríkisráðherra um framkvæmd ríkisstjórnarinnar á stefnumörkun varðandi ESB aðildarferlið, stefnumörkun sem nú hefur verið áréttuð frekar í bréfi til ESB. Aðalatriði bréfsins eru þessi:
1.  Ríkisstjórnin hefur engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju.
2.  Þessi stefna kemur í staðinn fyrir skuldbindingar fyrri ríkisstjórnar í tengslum við aðildarviðræður.
3.  Að ekki skuli líta á Ísland sem umsóknarríki og ESB lagi verklag sitt á því.
Með þessu hefur aðildarferlinu sem hófst árið 2009 verið lokið og öllum er orðið ljóst að ríkisstjórnin lítur ekki á Ísland sem umsóknarríki. Því ber að fagna.
Ríkisstjórnin hafði fulla stjórnskipulega heimild til að árétta stefnu sína bréflega við ESB, án aðkoma utanríkismálanefndar
Hér hafa spunnist áhugaverðar umræður um form málsins, þ.e. hvort ráðherranum hafi verið heimilt að árétta stefnu ríkisstjórnarinnar bréflega við ESB án þess að bera það bréf sérstaklega undir utanríkismálanefnd. Stjórnlagafræðingar eru á einu máli um að ríkisstjórnin hafi til þess fulla stjórnskipulega heimild. Greinargerðir sérfræðinga eru skýrar um þetta efni og liggja fyrir. Áhrif þingsályktunartillagna byggja aðeins á þeim þingstyrk sem þeim býr að baki hverju sinni og þær geta ekki bundið þing framtíðarinnar.
Sú þingsályktun sem hér um ræðir er frá 2009. Hún innihélt mikla fyrirvara og sú ríkisstjórn sem þá var við völd áskildi sér ítrekað allan rétt til að afturkalla umsóknina. Ef þingsályktunin væri bindandi, eins og sumir vilja halda hér fram, þá hlýtur líka áskilnaðurinn um að mega slíta viðræðum hvenær sem er einnig að vera í fullu gildi. Þannig að hvort sem þingsályktunin er í gildi eða ekki gildi, þá er ríkisstjórnin í fullum rétti til að binda enda á aðildarumsóknina.
Lýðræðislegt umboð aðildarumsóknarinnar var mjög veikt
Hér hefur líka komið fram að lýðræðislegt umboð aðildarumsóknar var mjög veikt. Höfðu Vinstri grænir umboð kjósenda sinna til að standa að slíkri aðildarumsókn hafandi talað fullum hálsi gegn aðild í kosningabaráttu sinni? Í sjónvarpsþætti daginn fyrir kosningar harðneitaði formaður Vinstri grænna því að aðildarumsókn kæmi til greina. Þrátt fyrir hið veika lýðræðislega umboð vildi fyrri ríkisstjórn ekki bæta úr því og felldi tillögur um að bera aðildarumsóknina undir þjóðaratkvæði.
En víkjum nú frá forminu og að sjálfu efni málsins, aðildarferlinu að ESB sem við viljum ekki taka þátt í lengur. Allar viðhorfskannanir undanfarin ár hafa sýnt að þjóðin hefur ekki áhuga á aðild að ESB, en vilji til inngöngu hlýtur að vera forsenda þess að staðið sé í slíkum viðræðum. Viðhorfskannanir hafa reyndar sýnt að fólk er forvitið að sjá hvað kæmi út úr samningaviðræðum um aðild, en sannleikurinn er sá að ESB hætti að bjóða upp á könnunarviðræður eftir að Norðmenn höfnuðu slíkum samningum í tvígang í þjóðaratkvæðagreiðslu, enda dettur engum í Noregi í hug að hefja slíka erindisleysu í þriðja sinn.
Eftir ófarir ESB í Noregi virðist stækkunardeildin hafa fundið upp nýja taktík. Nú skyldi byrjað á öfugum enda.
1. Ríkisstjórnir gátu nú sótt um aðild að ESB án þess að spyrja þjóðina fyrst.
2. Aðlögun hafin að regluverki ESB án þess að spyrja þjóðina og með öllum þeim kostnaði sem því fylgir.
3. Setja opnunar- og lokunarskilyrði á kaflana og geyma þá erfiðustu þar til í lokin til að auka líkur á að hægt væri að ná fram málamiðlunum.
ESB bauð lykilfólki kynningarferðir til Brussel, allt innifalið
Á meðan aðlögun er í fullum gangi er unnið í markaðs- og kynningarmálum. Í stað þess að gefa lýðræðislegum öflum, þingflokkum og já- og nei-fylkingum svigrúm til að takast á um rökin með og á móti aðild freistaðist ESB til að henda sér á árarnar með já-hreyfingunni. ESB bauð lykilfólki kynningarferðir til Brussel, allt innifalið. Dældi milljörðum í að styrkja valin málefni, styrkirnir voru kallaðir aðlögunarstyrkir. Setti á fót kynningarfyrirtæki í þágu aðildar, Evrópustofa var það kallað og varði hundruðum milljóna til að kynna valkostina og kosti Evrópusambandsins. Á meðan höfðu sjálfsprottnar já- og nei-hreyfingar úr litlu að moða til að kynna sín rök og sjónarmið.
Vínarsáttmálinn leggur bann við afskiptum ríkja í innanríkismál hvors annars
Umsvif ESB eru umhugsunarverð í ljósi þess að fram undan var þjóðaratkvæði um aðildina og í ljósi þess að Vínarsáttmálinn leggur bann við afskiptum ríkja í innanríkismál hvors annars. Lög um stjórnmálaflokka banna það alveg sérstaklega að flokkar afli fjármagns frá erlendum aðilum til að kynna sín sjónarmið. Augljóslega er það mjög þarft ákvæði. En er þá alveg í lagi að erlendur aðili hefji hér stórfellt kynningarstarf í þágu helsta baráttumáls tiltekins stjórnmálaflokks? Þetta er að mínu mati spurning sem þingið þarf að skoða nánar í ljósi fenginnar reynslu.
En aftur að aðlögunarferlinu. Lokakaflinn á þessu dýra og ólýðræðislega aðlögunarferli var sá að þegar allt væri tilbúið og aðlögun í raun orðinn hlutur þá yrði loks valinn heppilegur tímapunktur til að spyrja þjóðina leyfis, spyrja hvort hún vildi ganga í ESB, en það væri þá bara formsatriði því að í reynd væri fullveldi Íslands þá komið til Brussel og kannski bara tómt vesen að flytja það til baka.
En hverjar voru þær væntingar sem vaktar voru um ESB og umsóknina? Hafa þær staðist á einhvern hátt? Aðildin átti að taka 16 mánuði en urðu strand eftir 40. Könnunarviðræður reyndust vera aðlögunarferli. Evran átti að vera lausn en reyndist vera óleysanlegt vandamál. Hið milda ESB sem átti að hjálpa aðildarríkjum í vanda hefur ekki sýnt sig í vandræðum Grikklands. Þar er harkan ein. ESB beitti sér gegn hagsmunum Íslands í Icesave-málinu. Írar voru látnir axla skuldir einkabanka þar í landi. Þeir fengu ekkert val. Er ESB lýðræðislegra en Ísland? Hér kalla menn eftir beinu lýðræði. Er beint lýðræði í ESB? Ég hef ekki orðið var við það. Eru einhverjar þjóðaratkvæðagreiðslur þar um einstök mál? Alls ekki. Er ekki verið að tala um að þar sé lýðræðishalli? Embættismenn sem enginn hefur kosið setji þar öll lög. Enginn getur kosið þá í burtu. Aðildarumsóknin var sögð eiga að bæta ímynd landsins eftir hrun. Af fréttum er að dæma, sem við höfum verið að sjá núna viðbrögð við, að umsóknin hafi verið afturkölluð, henni slitið eða hvernig á að kalla það, það er talið vera tákn um að við séum fær um að standa á eigin fótum. Það er styrkur Íslands að hafa afþakkað þessa aðildarumsókn.
Jafnvel fyrrverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, sem var einn helsti talsmaður ESB-aðildar segir að ESB sé á rangri leið
Á þeim árum sem hafa liðið frá því aðildarumsóknin var lögð fram hefur komið kyrfilega í ljós að ESB-aðild er ekki lausn á vanda Íslands. Jafnvel fyrrverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, sem var einn helsti talsmaður ESB-aðildar segir að ESB sé á rangri leið og að Ísland sé alls ekki á leiðinni inn í það bandalag.
Því er haldið fram að fullveldi Íslands styrkist við það að glata forræði yfir stórum málaflokkum en fái í staðinn 1% þingsæta á Evrópuþinginu
Aðild að ESB er orðið svo óvinsælt baráttumál að sjálf samtökin sem berjast fyrir ESB-aðild þora ekki að kalla sig Já ESB eins og eðlilegt væri, en kalla sig Já Ísland. Öllu er snúið á hvolf í þessari baráttu. Því er sem dæmi haldið fram að fullveldi Íslands styrkist við það að glata forræði yfir stórum málaflokkum en fái í staðinn 1% þingsæta á Evrópuþinginu. Þjóðin sér auðvitað í gegnum svona tal, enda fengu þingflokkar sem höfðu inngöngu á stefnuskrá sinni innan við 13% atkvæða í síðustu alþingiskosningum. Þeir sem áður sögðust vera ESB-aðildarsinnar með stolti draga nú í land og segjast bara vilja ólmir sjá samninginn til að geta gert upp hug sinn. Þeir láta sem enn sé hægt að kíkja í pakkann eins og Noregur gerði. Ég minni þá aftur á aðildarferlið, sem ég lýsti fyrr í ræðu minni, og eðli þess, að láta þjóðina standa frammi fyrir orðnum hlut þegar hún er loks spurð álits.
Á hvaða leið er ESB?
En á hvaða leið er ESB, eigum við yfirleitt erindi inn í þann pakka, eða ætti ég að segja vandamálapakka? Myntbandalaginu er spáð hruni að minnsta kosti einu sinni í mánuði, þó enn hafi það ekki gerst og enginn skilur í því að Grikkland skuli ekki vera gengið úr myntbandalaginu því að evran er allt of sterk fyrir Grikkland eins og allir sjá. Fjármagnsflótti er frá Grikklandi og enginn skilur í því að ekki séu komin fjármagnshöft. Schäuble hótar því að hætta að láta gríska banka fá peninga sem mundi þýða endalok gríska hagkerfisins eins og við þekkjum það og kaos yrði í Grikklandi.
Atvinnulausir í Evrópusambandinu eru 24 milljónir. Evrópa unga fólksins er Evrópa atvinnuleysisins. Vaxandi pólitísk óánægja er og minnkandi traust er á stofnunum ESB innan sambandsins og öfgahreyfingar eru að ná fótfestu. Ekki síst í kjölfar harðræðis aðgerða og niðurskurðar í ríkjum sem hafa glímt við vandamál eftir fjármálahrunið 2008. Þau glíma við allt of sterka evru og í stað þess að njóta stuðnings eru fúkyrðin farin að ganga á víxl milli Þjóðverja og Grikkja, hálfgert kalt stríð ríkir. Eins og ég segi, Schäuble hefur hótað lýðræðislega kjörnum leiðtogum Grikkja að slökkva á bankakerfinu ef þeir láti ekki að stjórn og fyrirmælum ESB. Hvar er lýðræðið í því? Bretar íhuga nú að kjósa hugsanlega um útgöngu sína innan tveggja ára vegna þess að þeir hafa engin áhrif í ESB.
Junker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefur talað um að nú þurfi að stofna ESB her og Þjóðverjar taka vel í það. Vissulega er málið umdeilt, en þessi umræða ein og sér ætti að sannfæra Íslendinga um að við eigum ekkert erindi inn í þetta verðandi hernaðarbandalag og stórveldi.
Fagnaðarefni að ríkisstjórnin hafi bundið enda á aðildarferlið
Ég fagna því að ríkisstjórnin hefur bundið enda á aðildarferlið og ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að finna þá leið sem hefur skilað þeim mikilvæga árangri að Ísland er ekki lengur umsóknarríki. Ég fagna því að þessu skammarlega bjölluati í Brussel er lokið. Ég mundi líka fagna því ef ESB mundi framvegis hlífa íslensku þjóðinni við frekari innbyrðis átökum um sjálfstæði og fullveldi. Það væri mikið fagnaðarefni ef við gætum hætt að eyða orku okkar í að kljást um aðild að ESB en gætum þess í stað lagst öll á eitt við að bæta líf komandi kynslóða í okkar gjöfula og góða landi.“
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Hvað er í pakkanum er alls ekkert leyndarmál

Deila grein

19/03/2015

Hvað er í pakkanum er alls ekkert leyndarmál

Silja-Dogg-mynd01-vefRæða Silju Daggar Gunnarsdóttur, alþingismanns, frá umræðum á Alþingi um Evrópumál, munnlega skýrslu utanríkisráðherra.
„Hæstv. forseti. Ég man eftir því þegar ég var enn í menntaskóla, fyrir rúmum 20 árum, að Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi formaður Alþýðuflokksins, mætti í skólann minn í frímínútum nokkrum vikum fyrir þingkosningar og talaði mjög fallega um Evrópusambandið og þá möguleika sem það byði upp á. Ég skal viðurkenna að það var gaman að hlusta á Jón Baldvin, enda ræðumaður góður og heillandi maður. Evrópusambandið hljómaði þá í mínum eyrum sem spennandi valkostur. En það Evrópusamband sem Jón Baldvin talaði um fyrir rúmum 20 árum er allt annað Evrópusamband en það er í dag.
Með inngöngu muni Ísland tapa sjálfu sér
Innganga Íslands í Evrópusamband nútímans hugnast mér ekki. Hvers vegna hugnast mér það ekki? Jú, það er mín skoðun að með inngöngu í Evrópusambandið muni Ísland tapa sjálfu sér, tapa fullveldinu, missa yfirráð yfir auðlindum sínum að mestu og þar með tapa gríðarlegum tækifærum til framtíðaruppbyggingar og þróunar. Tapa frelsinu, svo ég gerist svolítið dramatísk.
Hvað er í pakkanum er alls ekkert leyndarmál
Á síðasta vorþingi voru kynntar tvær skýrslur um aðildarviðræður Íslands við ESB, annars vegar skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson lét vinna fyrir Alþingi og hins vegar skýrsla Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands sem aðrir létu vinna fyrir sig. Báðar skýrslurnar fengu mjög ítarlega umræðu á hinu háa Alþingi. Eftir lestur þeirra sannfærðist ég enn frekar um að Íslandi væri betur borgið utan ESB en innan þess. Menn hafa lengi talað um að þeir vilji fá að kíkja í pakkann og síðan fá að greiða atkvæði um samning. Það liggur fyrir hvað er í pakkanum, það er alls ekkert leyndarmál, en aðildarsinnar hafa byggt sinn málflutning í gegnum árin á því að við gætum mögulega landað „feitum samningi“ við Evrópusambandið. Svo er ekki.
Hugarburður eða óskhyggja að varanlegar undanþágur séu í boði
Í fyrsta lagi gengur ESB út frá því að umsóknarríki sækist eftir aðild. Þau lönd sem óska eftir aðild að sambandinu gangast síðan undir ákveðin grundvallarskilyrði. Í meginatriðum snúast þau um að aðildarríki samþykki sáttmála Evrópusambandsins, markmið þess, stefnu og þær ákvarðanir sem teknar hafa verið þegar þær öðluðust gildi. Innkoma nýs ríkis leiðir ekki til þess að nýtt samband verði til, auk þess sem umsóknarríki ber að samþykkja réttarreglur sambandsins, acquis comunitar á frönsku. Þá er umbreytingarfrestur takmarkaður og felur ekki í sér undanþágu frá grunnsáttmálum og meginreglum sambandsins, hvort sem um er að ræða í landbúnaðar- eða sjávarútvegsmálum. Varanlegar undanþágur eru ekki í boði. Það að halda öðru fram er hreinn hugarburður eða óskhyggja. Við gætum mögulega fengið sérlausnir, en þær hafa takmarkað lagalegt gildi og því er ekki hægt að treysta á þær til lengri tíma. Evrópusambandið fer eitt með óskiptar valdheimildir yfir varðveislu auðlinda í sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins. Allar breytingar á þeirri stefnu verða einungis ákveðnar á vettvangi þess. Meginreglan er að fiskveiðiskip sambandsins skuli hafa jafnan aðgang að hafsvæðum og auðlindum í því.
Að þessu sögðu spyr ég mig: Í hvað erum við að eyða tíma þings og þjóðar? Liggur málið ekki ljóst fyrir?
Í fyrsta lagi: Ef við ætlum að halda aðildarviðræðum áfram er algert grundvallaratriði að þjóðin vilji ganga inn í Evrópusambandið. Einnig þarf pólitískur vilji að vera til staðar. Svo er ekki.
Í öðru lagi: Það er alveg ljóst að við getum ekki samið við Evrópusambandið um sjávarútvegsmálin. Dæmin sýna að við munum ekki fá varanlegar undanþágur.
Við vitum hvað er í pakkanum.
Umsókn síðustu ríkisstjórnar um aðild að ESB árið 2009 var byggð á sandi. Þjóðin var ekki spurð fyrst hvort hún vildi ganga í Evrópusambandið og annar stjórnarflokkurinn á þeim tíma, Vinstri grænir, lofaði fyrir kosningar að hann mundi aldrei sækja um aðild að Evrópusambandinu. Vitna ég þar um í beina útsendingu í sjónvarpssal RÚV kvöldið fyrir kosningar.
Núverandi stjórnarflokkar hafa staðið við gefin loforð
Núverandi stjórnarflokkar hafa staðið við gefin loforð. Stefna beggja stjórnarflokka var skýr fyrir kosningar, sú að hag Íslands sé best borgið utan ESB og að ekki skuli haldið áfram viðræðum án þjóðaratkvæðagreiðslu. Svoleiðis var það.
Niðurstaða stjórnarsáttmálans er einnig alveg skýr. Þar kemur meðal annars fram að gera átti hlé á viðræðum við ESB og þeim ekki fram haldið án þjóðaratkvæðagreiðslu, jafnframt að úttekt yrði gerð á viðræðum og stöðunni innan ESB og þróun þess. Það var gert.
Við töluðum ekki í kosningabaráttunni um að það ætti að greiða atkvæði um málið á kjörtímabilinu. Á fundum forsætisráðherra með forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og forseta leiðtogaráðsins í júlí 2013 var þessi nýja stefna ríkisstjórnar Íslands útskýrð. Á þeim fundum kom skýrt fram að þessir tveir leiðtogar stofnana ESB mundu fagna skýrri stefnu varðandi aðildarferlið.
Viðræður við ESB hafa nú ekki átt sér stað í fjögur ár
Viðræður við ESB hafa nú ekki átt sér stað í fjögur ár. Aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið sigldu í strand árið 2011 vegna sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og í upphafi árs 2013 gerði þáverandi utanríkisráðherra hlé eða hægði á aðildarferlinu. Núverandi ríkisstjórn vill ekki ganga í Evrópusambandið og sterkur þingmeirihluti er þar að baki. Að þessu sögðu hlýtur maður að velta fyrir sér af hverju það komi mönnum á óvart að hæstv. utanríkisráðherra sendi ESB formlegt bréf þar sem hann gerir grein fyrir að ríkisstjórnin hyggist ekki endurvekja aðildarferlið og fer fram á að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki. Á sama tíma er áhersla lögð á að styrkja framkvæmd EES-samningsins og nánara samstarf við ESB á grunni hans.
Mjög eðlilegt og heiðarlegt gagnvart vinum okkar í Evrópusambandinu
Íslensk stjórnvöld hafa svarað kalli ESB um skýra stefnu í þessum málum sem er mjög eðlilegt og heiðarlegt gagnvart vinum okkar í Evrópusambandinu. Þess vegna hefði ég haldið að stjórnarandstaðan hefði tekið þessari lendingu fagnandi. En, nei, menn tala hér um svik, brot á þingræði, jafnvel á lýðræðinu, og ég veit ekki hvað. Steininn tók svo úr þegar stjórnarandstaðan sendi ESB bréf þar sem hún sagði að bréf hæstv. utanríkisráðherra væri marklaust og að hann hefði brotið lög. Slík vinnubrögð eru fordæmalaus á hinu háa Alþingi, eftir því sem ég kemst næst.
Menn velta nú fyrir sér þeirri spurningu hvort ríkisstjórnin muni efna til þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu. Svarið er: Nei, ríkisstjórnin hefur engin áform um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræður við Evrópusambandið þar sem slíkt væri atkvæðagreiðsla um mál sem hún er mótfallin. Kæmi til þess að hefja ætti aðildarferlið að nýju telur núverandi ríkisstjórn mikilvægt að það væri ekki gert án þess að spyrja þjóðina fyrst hvort hún vildi ganga í Evrópusambandið.
Hvers vegna mátti málið ekki liggja óhreyft?
Hvers vegna mátti málið ekki liggja óhreyft? Meðal annars vegna þess að það hefur gildi í utanríkismálum að vera eitt af umsóknarríkjum ESB. Við erum hluti af EFTA og ESA og við erum aðilar að Norðurskautsráði og NATO svo eitthvað sé nefnt. Við höfum gert nokkra fríverslunarsamninga og hyggjumst gera fleiri slíka samninga. Það hentar ekki að vera á sama tíma umsóknarríki að ESB. Hvers vegna ættu ríki að vilja gera samninga við okkur sem rakna sjálfkrafa upp ef við göngum í Evrópusambandið? Auk þess er þetta stefna beggja stjórnarflokka og engin ástæða til að halda lífi í ferli um aðild að sambandi sem engin vissa er fyrir hvernig muni þróast á næstunni. Sjaldan hefur verið meiri óvissa um hvers lags samband ESB verður innan fárra ára. Því ættu Íslendingar að ganga sjálfviljugir inn í þá óvissu?
Er þetta pakkatal bara ekki orðið gott hjá okkur? Ég legg til að við látum hér staðar numið og snúum okkur af öðrum og þarfari málum til að vinna að.“
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Elsa Lára: „þak verði sett á verðtryggingu eldri lána“

Deila grein

19/03/2015

Elsa Lára: „þak verði sett á verðtryggingu eldri lána“

Elsa-Lara-mynd01-vefurFrumvörp er varða afnám verðtryggingar af neytendalánum verð lögð fram á þessu vorþingi samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Snemma árs 2016 munu fyrstu skrefin verða stigin og þá munu verðtryggð neytendalán til lengri tíma en 25 ára verða óheimil.
Elsa Lára Arnardóttir, alþingismaður, fór yfir í störfum Alþingis, í vikunni, sérálit Vilhjálms Birgissonar, er sat í sérfræðingahópi um afnám verðtryggingar af neytendalánum. Hann taldi affærasælast að verðtryggð neytendalán yrðu með öllu óheimil. Og að gripið yrði til mótvægisaðgerða eins og niðurgreiðslna höfuðstóls fyrstu ár lánstímans á óverðtryggðum lánum.
Elsa Lára sagði í lok ræðu sinnar: „Í sérálitinu kemur fram að þak verði sett á verðtryggingu eldri lána og er það einstaklega mikilvægt. Langar mig í því samhengi að vitna í ræðu samflokksmanns míns, hæstvirts þingmanns Willum Þórs Þórssonar, en hann sagði, með leyfi forseta: „Þrátt fyrir að nú um stundir í hálflokuðu hagkerfi ríki stöðugleiki þá er fram undan afnám hafta og kjarasamningar. Það yrði gríðarleg kjarabót og skynsamlegt innlegg í kjarasamninga að koma böndum á eldri verðtryggð lán og bíða ekki boðanna í að skipta yfir í óverðtryggt húsnæðislánakerfi.“ Þarna erum ég og hæstvirtur þingmaður hjartanlega sammála.“
Ræða Elsu Láru Arnardóttur:

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Af ungum þingmönnum og fjárheimildir

Deila grein

18/03/2015

Af ungum þingmönnum og fjárheimildir

Vigdís HauksdóttirVigdís Hauksdóttir, alþingismaður og formaður fjárlaganefndar Alþingis, var í andsvörum við Steingrími J. Sigfússyni, alþingismann, á Alþingi í gær. En Steingrími J. voru ofarlega í huga fréttir af kostnaði við „áróður ráðherranna fyrir sjálfa sig“ af opinberu skattfé.
Vigdís var snögg til að minna Steingrím J. á að „það hafi aldrei verið tekið saman hver ráðstöfunarkostnaðurinn vegna Icesave á sínum tíma var í raun mikill þegar hv. þingmaður var fjármálaráðherra, þannig að það sé sagt. En nú hefur verið skipt um stjórn eins og við vitum og þá er öll venjubundin vinna sem áður fór fram í ráðuneytinu er orðin mjög tortryggileg. En það er svo sem alveg í anda þeirra flokka sem nú sitja í stjórnarandstöðu og það verður bara að hafa það.“
„Ég vil aðeins benda á að umboðsmaður Alþingis var í ítarlegu viðtali í Ríkissjónvarpinu í gær þar sem hann fór yfir það að honum þættu þingmenn vera orðnir of ungir í starfi,“ sagði Vigdís.
Eftir mikla endurnýjun á Alþingi að loknum síðustu alþingiskosningum „þá erum við víst orðin svo reynslulaus að nú þarf að fara að ráða sérstaka aðila inn í ráðuneytin til að hjálpa viðkomandi ráðherrum til að takast á við starfið og það er vel,“ sagði Vigdís.
En varðandi „af hvaða fjárlagalið þessi ráðgjöf sé tekin, þá get ég ekki svarað því, en ég geri engar athugasemdir við að ráðherrar kaupi sér aðstoð úti í bæ, hvort sem það er hjá almannatenglum eða lögmönnum sérstaklega í ljósi þess ef ráðuneytin halda sig innan fjárheimilda,“ sagði Vigdís að lokum.
Ræða Vigdísar Hauksdóttur:

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Gunnar Bragi: evrópumál, munnleg skýrsla til Alþingis

Deila grein

18/03/2015

Gunnar Bragi: evrópumál, munnleg skýrsla til Alþingis

GBSMUNNLEG SKÝRSLA – Þriðjudaginn 17. mars 2015 – Evrópumál
„Virðulegi forseti,
Ég þakka fyrir það tækifæri sem hér gefst til að fara með nánari hætti yfir framkvæmd ríkisstjórnar á stefnumörkun sinni varðandi ESB aðildarferlið sem nú hefur verið áréttuð og skýrð frekar í bréfi til ESB.
Ég hygg að þessi umræða sé ekki síður mikilvæg til viðbótar við góða umræðu hér í gær, ekki síst af hálfu forseta Alþingis, til að leitast við að skýra frekar þær stjórnskipunarlegu heimildir sem hér eru til grundvallar. Það er nefnilega svo að aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru á mjög traustum stjórnskipunarlegum grunni. Það hefur umræðan smátt og smátt leitt fram undanfarna daga.
Það hefði í þessu máli farið betur á því að stjórnarandstaðan hefði spurt fyrst og skotið svo.
Hér er nefnilega um tiltölulega einfalt mál að ræða. Engum á að koma á óvart að ríkisstjórnin kjósi að búa svo um hnútana að þessu umsóknarferli sé nú lokið og að við teljum okkur ekki lengur til umsóknarríkja.  Um það fjallar bréfið fyrst og síðast.
Stefna ríkisstjórnarinnar
Virðulegi forseti,

  • Það fer vel á því að ég byrji á því að fara á ný yfir nokkrar staðreyndir máls þannig að samhengið sé enn einu sinni útskýrt.
  • Það var gengið til kosninga á árinu 2013. Í aðdraganda þeirra og í raun allt síðasta kjörtímabil, var ljóst hver stefna núverandi ríkisstjórnarflokka væri. Við vildum ekki í ESB og við vildum hætta aðildarviðræðum. Um þetta vitna á köflum hörð átök hér í þinginu á síðasta kjörtímabili.
  • Þessir flokkar fengu skýrt brautargengi í kosningunum, m.a. með þá stefnu að Íslandi væri betur borgið utan ESB og mynda síðan ríkisstjórn sem hefur þetta á sinni stefnuskrá. Til samræmis við það voru aðildarviðræður settar í hlé meðan málið var skoðað frekar. Niðurstaða þeirrar skoðunar liggur fyrir og var rædd hér og í utanríkismálanefnd klukkutímum saman á síðasta þingi.
  • Ríkisstjórnin lagði í framhaldinu fram tillögu á síðasta þingi um að draga aðildarumsóknina til baka. Það ber vitni um skýra stefnu ríkisstjórnarflokkana. Sú tillaga var rædd, jafnvel enn lengur en skýrsla Hagfræðistofnunar, bæði hér í þingsal og í utanríkismálanefnd.
  • Ríkisstjórnin hefur margsinnis lýst yfir hver sé vilji hennar þegar kemur að þeirri stöðu sem aðildarumsóknin er í, okkur hefur aldrei hugnast þessi staða að Ísland sé flokkað sem umsóknarríki þegar alls ekki stendur til að semja um eitt eða neitt við ESB sem snýr að mögulegri aðild.
  • Hér fóru sem sagt fram kosningar þar sem afstaða fyrra þings laut í lægra haldi og gjörbreytti pólitísku landslagi á Íslandi. Það er skylda ríkisstjórnarinnar að fylgja eftir þeim stefnumálum sem meirihlutinn kaus. Mönnum hefur verið tíðrætt um lýðræðislega stjórnarhætti síðustu daga. Í því samhengi verður að halda því til haga að það samræmist ekki lýðræðislegum stjórnarháttum ef ný ríkisstjórn væri bundin af að fylgja eftir stefnumálum fyrri ríkisstjórnar sem kjósendur hafa hafnað.

Samskipti við utanríkismálanefnd

  • Ég hef á kjörtímabilinu ítrekað gert utanríkismálanefnd grein fyrir þessari afstöðu ríkisstjórnarinnar.
  • Það var gert þegar hléi fyrri ríkisstjórnar var fram haldið, þegar samninganefndin og –hóparnir voru leystir frá störfum, þegar framkvæmdastjórnin féll frá samningsbundnum greiðslum til IPA verkefna og nú síðast þegar þingsályktunartillaga um að draga aðildarumsóknina til baka var til meðferðar á síðasta þingi.
  • Þannig hefur sú afstaða sem nú hefur verið áréttuð við framkvæmdastjórn og ráð ESB margoft verið rædd við utanríkismálanefnd. Bréfið felur eingöngu í sér aðra útfærslu á þeim áformum sem í þingsályktunartillögunni voru fólgin.
  • Af þessu má öllum vera ljóst að það sem ríkisstjórnin er að gera með því bréfi sem hér er gert að umræðuefni, er að skýra sína stefnu. Eftir slíkum skýrleika hefur ítrekað verið kallað af hálfu ESB allt frá því fyrri ríkisstjórn setti viðræðurnar í hlé í aðdraganda kosninganna 2013, m.a. af fyrri leiðtogum stofnana ESB.
  • Og auðvitað er það svo að það er ávallt matsatriði hvenær leitað er eftir formlegu samráði við utanríkismálanefnd, sérstaklega þegar um einhver ný skref er að ræða í máli sem þegar hefur verið til ítarlegrar umfjöllunar í nefndinni. Ekki síst þegar skýr stefna ríkisstjórnarflokkana liggur fyrir.
  • Ég minni menn á það hér að 14. janúar 2013 að morgni mánudags kom fyrri ríkisstjórn saman og setti í raun og veru viðræðurnar í hlé [fusion_builder_container hundred_percent=”yes” overflow=”visible”][fusion_builder_row][fusion_builder_column type=”1_1″ background_position=”left top” background_color=”” border_size=”” border_color=”” border_style=”solid” spacing=”yes” background_image=”” background_repeat=”no-repeat” padding=”” margin_top=”0px” margin_bottom=”0px” class=”” id=”” animation_type=”” animation_speed=”0.3″ animation_direction=”left” hide_on_mobile=”no” center_content=”no” min_height=”none”][þó því hafi verið gefið eitthvað annað nafn]. Ekki þótti ástæða til að eiga um þetta samráð við utanríkismálanefnd fyrr en síðla þann sama dag. Fyrirennari minn í embætti gekk í gegnum samskonar mat í sambandi við Líbíumálið og komst að þeirri niðurstöðu að hann þyrfti ekki að hafa samráð um hvert og eitt skref. Niðurstaða mín í þessu máli sem hér er til umræðu varð sú sama.

Um tilurð bréfsins

  • Þannig á það engum að dyljast að ríkisstjórnin hefur haft það á sinni stefnuskrá að binda enda á þetta ferli. Ýmis skref sem stigin hafa verið bera það skýrt með sér.
  • Á sama tíma hefur það verið mín skoðun að best færi á því ef unnt væri, að reyna að loka málinu með sameiginlegri niðurstöðu okkar og ESB.
  • Það var í því skyni sem ég hafði að því frumkvæði gagnvart formennsku ESB að slík lausn var rædd.
  • Niðurstaða samtala minna við formennskuna og milli embættismanna okkar, formenskunnar og framkvæmdastjórnarinnar varð sú að ef ríkisstjórnin kysi að taka frekari skref í málinu færi best á því að það væri gert t.d. með bréfi þar sem afstöðu hennar væri frekar lýst.
  • Það er sú leið sem varð ofan á í þessu máli.

Innihald bréfsins
Virðulegi forseti,

  • Í bréfi ríkisstjórnarinnar er að finna þrjá meginþætti.

o   að ríkisstjórnin hafi engin áform að hefja aðildarviðræður að nýju,

o   að þessi nýja stefna komi í stað hvers kyns skuldbindinga fyrri ríkisstjórnar í tengslum við aðildarviðræður og

o   að ekki skuli líta á Ísland sem umsóknarríki og að rétt sé að ESB lagi verklag sitt að því.

  • Með þessu hefur því aðildarferli sem hófst 2009 verið lokið og því tryggilega komið til skila að ríkisstjórnin lítur ekki á Ísland sem umsóknarríki.
  • Með þessu er útfærslan á stefnu ríkisstjórnarinnar skýrð frekar í samræmi við grunnstefin í stjórnarsáttmálanum og í tillögunni um að draga til baka aðildarumsóknina.
  • Í þeirri umræðu sem farið hefur fram síðustu daga um innihald bréfsins þá bendi ég háttvirtum þingmönnum á að í viðtali við mig í Morgunblaðinu að morgni síðsta föstudags er það alveg skýrt af minni hálfu hvað í bréfinu felst og felst ekki.
  • Mín skoðun er síðan sú að til að endurvekja þetta ferli þá þurfi að endurnýja umsóknina og það fari best á því að það verði þjóðin sem það geri í atkvæðagreiðslu. Hvernig að því verði staðið er mál seinni tíma; síðari ríkisstjórna en ekki síður ESB sem í raun leggur línurnar um það hvernig staðið skuli að málum.

Um viðbrögð ESB

  • Nú er staðan einfaldlega sú að málið er á borði ESB og það er fyrir sambandið að vega það og meta hvernig það bregst við bréfinu.
  • Það hefur verið vilji ríkisstjórnarinnar að framkvæma þessa útfærslu stefnu sinnar í sem mestri sátt við Evrópusambandið.
  • Hver eru slík framkvæmdaratriði?

o   Við erum að óska eftir því að Ísland verði tekið af listum sem umsóknarríki.

o   Við viljum að hætt verði að bjóða Íslandi til funda Evrópusambandsins sem umsóknarríki.

o   Og að síðustu óskum við þess ESB bjóði Íslandi að taka þátt í sameiginlegum yfirlýsingum um utanríkismál (og viðskiptaþvinganir) sem EFTA/EES ríki (eins og það hefur gert í áraraðir) en ekki sem umsóknarríki.

  • ESB hefur í samtölum mætt því sem í bréfinu stendur með skilningi. Í öllum þeim samtölum sem ég hef átt við forystumenn ESB og aðildarríkja þess hefur ávallt komið skýrt fram að þau beri fulla virðingu fyrir vilja stjórnvalda á Íslandi í þessu efni.
  • Þannig á ég ekki von á öðru en að ESB bregðist við okkar bréfi með þeim hætti að viðurkenna okkar niðurstöðu og laga sína framkvæmd að því þannig að skýrt sé að Ísland sé ekki lengur í hópi umsóknarríkja.
  • En ég vona einnig að okkur auðnist upp úr þessu að efla enn frekar okkar samstarf við ESB á grunni EES samningsins og á ýmsum öðrum sviðum þar sem við eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta.
  • Ég mun a.m.k. nálgast ESB á þann hátt líkt og ég hef gert frá upphafi.

Um stjórnskipunarlegar heimildir og áhrif þingsályktana
Virðulegi forseti,

  • Umræðan um þetta mál snýst nú orðið nánast eingöngu um form málsins. Um það hvaða stjórnskipunarlegu heimildir ríkisstjórnin hafi til að bregðast við með þessum hætti.
  • Þar hafa ýmis þung orð fallið í okkar garð sem eiga sér enga stoð í réttri túlkun laga og stjórnskipunar.
  • Ég ber fulla virðingu fyrir því að stjórnarandstöðunni finnist framhjá sér og þinginu gengið og sjálfsagt að taka umræðu um það líkt og gert var hér í gær.
  • Í þeirri umræðu megum við hins vegar ekki missa sjónar á réttri túlkun íslenskrar stjórnskipunar.
  • Framhjá því verður nefnilega ekki litið að það er samdóma álit allra viðurkenndra stjórnskipunarsérfræðinga sem hafa tjáð sig um þetta mál að ríkisstjórnin hafi til þessa fulla stjórnskipunarlega heimild.
  • Aðalatriðið í þessu máli er sú grundvallarregla í stjórnskipuninni að utanríkismál eru á forræði framkvæmdarvaldsins, en ekki löggjafans. Í því felst að Alþingi getur ekki gripið inn í meðferð utanríkismála, nema í því eina tilviki þar sem því er ætlað sérstaklega að heimila ríkisstjórninni að fullgilda tiltekna þjóðréttarsamninga samkvæmt 21. gr. stjórnarskrárinnar.
  • Þetta þýðir að löggjafinn getur ekki gefið formleg og bindandi fyrirmæli til framkvæmdarvaldsins um meðferð utanríkismála – og skýrir það m.a. af hverju aðkoma utanríkismálanefndar er aðeins ráðgefandi en nefndin getur ekki gefið ríkisstjórninni bindandi fyrirmæli.
  • Eðlilega fylgir ríkisstjórn í þingræðisríki vilja meirihluta þingsins á hverjum tíma vegna þess að hún starfar í umboði hans. Við ákvörðunartöku í utanríkismálum, eins og öðrum málum, hlýtur hún að taka tillit til þess og eftir atvikum leita eftir pólitískum stuðningi þingsins við þau mál sem hún telur sig þurfa á að halda. Það á t.d. við um þá stuðningsyfirlýsingu sem fyrri ríkisstjórn leitaði eftir um þau áform hennar að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ályktun Alþingis var hins vegar ekki lögformlegt skilyrði fyrir að umsóknin yrði lögð fram, enda var ekki til hennar vísað í umsókninni sjálfri.
  • Ekki er ástæða til að draga í efa pólitískt vægi slíkra ályktana þegar þær eru samþykktar. Hæstvirtur forseti Alþingis lýsti því svo úr þessum ræðustól í gær að þingsályktanir bindi ekki stjórnvöld umfram það sem leiðir af þingræðisvenjunni. Af því leiðir að áhrif þingsályktunar helst í hendur við þann þingstyrk sem að baki henni býr. Ef þingstyrkur dvínar eða hverfur, hlýtur þýðing fyrirmæla sem í þeim felast að breytast í samræmi við það og eftir atvikum fjara út. Framkvæmd þingsályktunar sem varðar umdeilt pólitískt mál, getur þannig verið undir því komin að viðkomandi stefnumál njóti áfram tilskilins stuðnings í þinginu.
  • Þetta er samhljóða niðurstaða þeirra lögfræðilegu álita sem um þetta hefur verið aflað, bæði af minni hálfu og forseta Alþingis. Bæði byggjast þau á umfjöllun virtra fræðimanna, bæði innlendra og erlendra, og eru í takt við þau viðhorf sem stjórnlagafræðingar hafa lýst í fjölmiðlum undanfarna daga.
  • Sjálfsagt er hins vegar að Alþingi hafi eftirlit með framkvæmd ályktana sem það hefur samþykkt og fylgist með því hvernig þeim reiðir af. Í því skyni hefur í þingsköp verið tekið ákvæði sem gerir ráð fyrir að ríkisstjórnin geri Alþingi árlega grein fyrir framkvæmd þingsályktana með sérstakri skýrslu frá forsætisráðherra. Á grundvelli upplýsinga sem þar koma fram getur svo Alþingi tekið afstöðu til hvort ástæða sé til að bregðast við á einhvern hátt.
  • Í þessu samhengi er athyglisvert að skoða skýrslu forsætisráðherra um framkvæmd ályktana sem samþykktar voru á árunum 2005-2009. Þar sést vel að sökum takmarkaðra fjármuna virðist framkvæmd þeirra t.d. helgast mjög af pólitískri forgangsröðun þeirra ríkisstjórna sem þá sátu. Einnig má finna dæmi um að ályktunum Alþingis sem innihéldu tímaleg viðmiðanir hafi ekki verið fylgt og mál tafist svo árum skiptir. Afdrif ESB-ályktunarinnar eru að þessu leyti ekkert frábrugðin því sem um gildir um framkvæmd margra þessara ályktana.
  • Að þessu athuguðu er því ekki ástæða til að efast um að heimildir ríkisstjórnarinnar til að ljúka ferlinu á þann hátt sem gert var sl. fimmtudag sé fyllilega í samræmi við íslensk stjórnlög. Að halda öðru fram er hreinn fyrirsláttur sem ekki er til annars fallinn en að drepa umræðunni á dreif og leiða athyglina frá því aðalatriði málsins að viðræðuferlið er á enda og verður ekki endurvakið á vakt þessarar ríkisstjórnar.

Lokaorð
Virðulegi forseti,

  • Sú umræða sem nú fer fram um ESB málið sýnir okkur enn einu sinni að það voru grundvallar mistök hjá fyrri ríkisstjórn að leggja af stað í þennan leiðangur án þess að bera það undir þjóðina.
  • Stefna núverandi ríkisstjórnar er skýr um það að hagsmunum Íslands er best borgið utan ESB. Frá því verður ekki vikið nema nýr meirihluti skapist hér á Alþingi fyrir því en til þess þarf þá nýja ríkisstjórn og að mínu mati nýtt umboð og endurnýjun umsóknar.
  • En myndist sá meirihluti þá er ekkert í þeim ákvörðunum sem nú hafa verið teknar af hálfu núverandi ríkisstjórnar sem hefta för slíks meirihluta að þessu leyti. Þ.e.a.s. að því gefnu að ESB láti sem ekkert hafi í skorist og taki Samfylkingunni og öðrum sem henni fylgja að málum jafn fagnandi og á árinu 2009.
  • Eftir allt sem á undan er gengið ætla ég að leyfa mér að halda áfram að næra þann efa minn um að svo verði.“

IS-bref-til-ESB.
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.[/fusion_builder_column][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]

Categories
Fréttir

Vísbending um vanþekkingu stjórnarandstöðunnar á þingræðisreglunni

Deila grein

18/03/2015

Vísbending um vanþekkingu stjórnarandstöðunnar á þingræðisreglunni

ÞórunnStaða Alþingis var rædd á Alþingi í gær að lokinni yfirlýsing forseta Alþingis, Einars K. Guðfinnssonar.
Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður og þingflokksformaður framsóknarmanna, sagði við þá umræðu að stóryrði úr ræðustól Alþingis eða í fjölmiðlum væru ekki til að auka virðingu þingsins. Umræðan fari oft að snúast um ýmis hugtök og núna síðast um „þingræði“. En að vandamálið sé að ekki sé alltaf sami skilningur á hugtakinu.
„Þingræðisreglan svokallaða felur í sér að meiri hluti Alþingis þarf að styðja ráðherra. Reglan er stjórnskipunarvenja sem á stoð í 1. gr. stjórnarskrárinnar, en þar stendur: „Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn“,“ sagði Þórunn og bætti við, „með öðrum orðum, ríkisstjórn situr í skjóli Alþingis þar sem þingræði ríkir og þurfa ráðherrar að fylgja fyrirmælum þingsins.“
„Þingræði þýðir í raun að ríkisstjórn þarf að njóta stuðnings meiri hluta þingsins,“ sagði Þórunn.
„Stefna ríkisstjórnarinnar hefur legið ljós fyrir frá upphafi. Utanríkisráðherra greindi þinginu frá afstöðu sinni strax í upphafi kjörtímabils, gerði það með bréfi til utanríkismálanefndar þannig að þinginu á að hafa verið ljóst að ráðherra telur sig ekki bundinn þingsályktunartillögunni. En það að kalla nýlegt bréf utanríkisráðherra til forustu Evrópusambandsins, sem staðfestir stefnuna og skýrir stöðuna, atlögu að þingræðinu er vísbending um mögulega vanþekkingu manna á því hvað þingræðisregla felur í sér og hvað þingræði þýðir,“ sagði Þórunn.
Og bætti við: „Staðan sem hér er uppi er sú að minni hluti á hverjum tíma getur tekið mál í gíslingu og gert atlögu að þingræðinu með því að koma í veg fyrir að vilji þingsins komi fram. Það er afleitt vopn sem eykur ekki virðingu Alþingis, því að ásýnd þess þegar á málþófi og eilífum ræðum um fundarstjórn forseta stendur er ekki góð. Hvenær rétta tímasetningin er til að breyta þessu veit ég ekki, en þó held ég að mikilvægt sé að þingskapanefnd reyni að finna leiðir til þess að hér geti vinnulag orðið markvissara og skilvirkara, því að þótt eitthvað hafi viðgengist er ekki þar með sagt að svo eigi að vera áfram.“
Að lokum sagði Þórunn: „Megi okkur öllum farnast vel í því að vinna landi og þjóð gagn.“
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

„Ísland ljóstengt – landsátak í uppbyggingu fjarskiptainnviða“

Deila grein

12/03/2015

„Ísland ljóstengt – landsátak í uppbyggingu fjarskiptainnviða“

Sigmundur-davíð„Það er megintillaga starfshópsins að skilgreina aðgang að háhraðanettengingu sem grunnþjónustu sem standa skal öllum landsmönnum til boða, óháð búsetu,“ segir í inngangi skýrslu starfshóps er var ætlað að finna útfærslu á markmiðum í stefnuyfirlysingu ríkisstjórnarinnar er varða byggðamál. Í skýrslunni, „Ísland ljóstengt – landsátak í uppbyggingu fjarskiptainnviða“ er einnig vikið að sjónarmiðum um öryggi og áreiðanleika fjarskiptatenginga.
Settar eru fram tillögur um leiðir til átaks og eru megin tillögur starfshópsins eftirfarandi:

  1.  Aðgangur að háhraða fjarskiptatengingu verði grunnþjónusta sem standa skal öllum landsmönnum til boða óháð búsetu.
  2. Alþjónustumarkmið eða markmið í anda alþjónustu verði sett sem 100 Mb/s frá árinu 2020, ásamt tilheyrandi gæðaviðmiðum.
  3. Skilgreint verði átaksverkefni á landsvísu til sex ára (2015–2020) um uppbyggingu ljósleiðaraaðgangsneta á svæðum þar sem markaðsbrestur er til staðar.
  4. Fjarskiptasjóður aðstoði þá staði með sértækum aðgerðum sem fjarskiptafyrirtækin geta ekki veitt netþjónustu.

Útbreiðsla góðra nettenginga er því ein af meginforsendum ákvörðunar um búsetu og úrslitaatriði um þróun byggðar. Góðar nettengingar eru fyrirtækjum ekki síður mikilvægar. Samkeppnishæfni svæða og íbúabyggða má því, ásamt öðrum grunnþáttum mæla út frá ástandi fjarskipta.
Eitt af áhersluatriðum í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er að ráðast í átak í fjarskiptamálum. Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur bæði í hátíðarræðu 17. júní 2014 og í ávarpi á gamlársdag 2014 áréttað þau áform ríkisstjórnar sinnar.
„Til að leggja undirstöður að þessu markmiði er nauðsynlegt að ráðast í átak í öllum landshlutum. Starfshópurinn gerir þá tillögu að á næstu árum megi, með samstarfi við sveitarfélög og virkum útboðum á almennum markaði, vinna að settu markmiði,“ segir í inngangi skýrslunnar.
Hér má nálgast skýrsluna.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Gunnar Bragi: Afleiðingar loftslagsbreytinga á norðurslóðum kalla á aukna alþjóðlega samvinnu

Deila grein

11/03/2015

Gunnar Bragi: Afleiðingar loftslagsbreytinga á norðurslóðum kalla á aukna alþjóðlega samvinnu

GBSGunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, lagði áherslu á stefnumótun í norðurslóðamálum sem sameinaði verndun náttúruauðlinda og nýtingu þeirra til að tryggja sjálfbæra þróun, í ræðu á alþjóðlegri ráðstefnu um verndun norðurslóða, sem haldin var í Brussel þann 4. mars. Lagði ráðherra áherslu á alþjóðlega samvinnu þegar kæmi að því að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga, ekki síst á norðurslóðum.
„Evrópusambandið og aðildarríki þess hafa mikilvægu hlutverki að gegna, þegar litið er til alþjóðavægis sambandsins. Sum úrlausnarefnin sem blasa við okkur eru mikilvæg fyrir allan heiminn, til dæmis hvernig draga má úr losun gróðurhúsalofttegunda. Slíkar áskoranir verður aðeins tekist á við með samhentu alþjóðlegu átaki.“
Gunnar Bragi lýsti m.a. hvernig Íslendingum hefði tekist að gera fiskveiðar sínar og orkuframleiðslu sjálfbæra. Hann sagði Íslendinga, eins og aðrar þjóðir á norðurhveli, finna fyrir miklum áhrifum vegna loftslagsbreytinga. Miklar breytingar hefðu orðið á fiskistofnum í íslenskri lögsögu á síðustu árum; einkum loðnu, makríl og síld.
„Við höfum á undanförnum árum orðið vitni að breytingum á hefðbundinni hegðun fiskistofna í og í kring um íslensku efnahagslögsöguna,“ sagði Gunnar Bragi. „Þetta eru mikilvægar breytingar sem tengjast loftslags- og umhverfisbreytingum og kalla á aukna vísindasamvinnu á norðurslóðum.“
Gunnar Bragi kallaði því eftir ábyrgri auðlindastjórnun, án ríkisstyrkja, og samvinnu vísindamanna á norðurslóðum til að tryggja að sjávarútvegur yrði áfram sú sjálfbæra auðlind sem hún hefði reynst Íslendingum.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Jöfnum raforkukostnað að fullu

Deila grein

11/03/2015

Jöfnum raforkukostnað að fullu

PállLög um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku voru samþykkt á Alþingi þann 3. mars. Markmið laganna er að jafna raforkukostnað dreifbýlis og þéttbýlis og er mikilvægt skref í þá átt að jafna aðstæður til búsetu á landinu öllu. Samkvæmt lögunum verður lagt sérstakt jöfnunargjald á þá raforku sem dreifiveitur taka á móti frá flutningskerfi Landsnets.
Í ræðu sinni við 2. umræðu um frumvarpið á Alþingi fagnaði Páll Jóhann Pálsson þingmaður Framsóknarflokksins því að málið væri nú loks komið til afgreiðslu þó hann hefði viljað að það næði fram að ganga fyrir áramót. Páll Jóhann benti á að kostnaður við dreifingu raforku er mun meiri í dreifbýli en í þéttbýli og að dreifbýlisgjaldskrár veitna séu því talsvert hærri en gjaldskrár sem gilda fyrir dreifingu raforku í þéttbýli.
Að óbreyttu liggi því fyrir að hækka þyrfti frekar taxta í dreifbýli þar sem færri geti staðið undir kostnaðinum við það kerfi. Á meðan fjölgi hins vegar notendum í þéttbýli og þar með aukist hagkvæmni þess kerfis.
Nauðsynlegt er að bregðast við þessari þróun og á því er tekið í frumvarpinu með því að tekið verði upp í áföngum sérstakt jöfnunargjald á raforku sem fer um dreifikerfi dreifiveitna til að standa undir fullum jöfnuði kostnaðar við dreifingu raforku.
Páll Jóhann vísaði til þess að vilji hefði komið fram hjá ríkisstjórinni til lengri tíma stefnumótunar um að niðurgreiða að fullu kostnað við flutning og dreifingu raforku til húshitunar frá og með árinu 2016.
„Ég held að það sé fullur vilji hjá öllum til þessa,“ sagði Páll Jóhann, „þannig að ég get ekki annað en fagnað þessu skrefi, en við erum ekki hætt. Við ætlum okkur að jafna kostnaðinn algerlega og ég vona að fólk verði sammála og samstiga í því.“
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Viðbrögð við afbrotum barna – sáttamiðlun

Deila grein

07/03/2015

Viðbrögð við afbrotum barna – sáttamiðlun

líneikLíneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi viðbrögð við afbrotum barna og þá sérstaklega sáttamiðlun í störfum þingsins í vikunni. En umboðsmaður barna sendi innanríkisráðherra nýlega bréf um viðbrögð við afbrotum barna. Þar er komið inn á sáttamiðlun og mikilvægi hennar sem úrræði fyrir börn sem hafa brotið af sér. Er ráðherra spurður m.a. um notkun á þessu úrræði á síðustu árum. Jafnframt er spurst fyrir um framtíðarsýn ráðherra varðandi úrræði.
„Tilraunaverkefni í sáttamiðlun hófst hér á landi árið 2006. Sáttamiðlun byggist á hugmyndafræði uppbyggilegrar réttvísi og felur í sér að leitast er við að ná sáttum milli þess sem brýtur af sér og brotaþola. Úrlausn minni háttar mála er færð til einstaklinganna sjálfra sem gefur möguleika á skjótvirkari meðferð mála. Á sama tíma er ákveðinn þungi tekinn af ákæruvaldinu. Sáttamiðlun er talin henta sérstaklega vel fyrir börn og ungmenni þar sem þau þurfa að horfast í augu við afleiðingar háttsemi sinnar og bæta fyrir brot sitt,“ sagði Líneik Anna.
Og hún bætti við: „Slíkt er almennt talið mun betur til þess fallið að hafa uppbyggileg og þroskandi áhrif en hefðbundnar refsingar. Er því ljóst að sáttamiðlun er það úrræði sem er best í samræmi við hagsmuni og réttindi barna og hefur barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna sérstaklega hvatt aðildarríki til að beita úrræðum sem byggja á uppbyggilegri réttvísi.“
„Mér finnst fullt tilefni til að allsherjar- og menntamálanefnd kynni sér svar hæstv. ráðherra þegar þar að kemur og leiti frekari upplýsinga ef tilefni verður til,“ sagði Líneik Anna að lokum.
Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur:

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.