Categories
Fréttir

„Af vondu fólki“

Deila grein

14/12/2015

„Af vondu fólki“

Karl_SRGB„Virðulegur forseti. Mér er ljúft að koma hingað upp til að fara yfir afstöðu mína til kjara aldraðra og öryrkja, ekki síst eftir atkvæðagreiðslu um afturvirkar greiðslur til þessara hópa í vikunni. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar og ítreka hana hér að ég tel að lágmarksgreiðslur til aldraðra og öryrkja eigi að ná 300 þús. kr. á þeim tæpu þremur árum sem þorra launamanna eru tryggð slík lágmarkslaun. Ég hef oftar en einu sinni skýrt frá þessu viðhorfi mínu á fundum hjá mínum flokki, síðast fyrir örfáum mánuðum.
Í dag fá aldraðir útborgað að lágmarki um 192 þús. kr. á mánuði en lífeyrir þeirra nemur um 225 þús. kr. Um næstu áramót hækkar þessi tala um 9,7% og fer lágmarkslífeyrir þá í um 245 þús. kr. Miðað við spá um launavísitölu bætast síðan 8% við til viðbótar eftir ár og verða lágmarksgreiðslur til aldraðra komnar yfir 260 þús. kr. Ríkisstjórnin á að stíga skrefið til fulls og tryggja þessum hópum 300 þús. kr. lágmarksgreiðslur á sama tíma og aðrir fá þær.
Aldraðir og öryrkjar fengu 3% hækkun um síðustu áramót, ekki frá 1. maí, og fá 9,7% til viðbótar núna um áramótin. Því var ekki hægt að greiða atkvæði með tillögu um afturvirkni greiðslna til þessara hópa. Þeir fá ekki minna en aðrir á þessu ári.
Hópur aldraðra og öryrkja getur ekki lifað af þeim lágmarksgreiðslum sem kerfið tryggir þeim í dag. Hin raunverulega kjarabót þeirra felst hins vegar í 300 þús. kr. lágmarkslífeyri, engu öðru, allra síst eingreiðslu upp á nokkrar krónur í boði stjórnarandstöðunnar. Minn ágæti félagi, Ásmundur Friðriksson, er því algjörlega á röngu róli í þessu máli.
Á umræðunni er helst að skilja að ráðamenn séu vondir menn sem vilji sjúklingum, öldruðum og öryrkjum allt hið versta.
Ég þekki ekki nokkurn mann sem styður ekki þessa málaflokka, hvorki innan þings né utan. Maður gæti haldið miðað við umræðuna á samfélagsmiðlum að hér væru ekkert nema illmenni. Svo er auðvitað ekki. Málefni sem tengjast öldruðum og öryrkjum eru ein af stóru málum okkar samtíðar.“
Karl Garðarsson — störf þingsins 11. desember 2015.

 

Categories
Fréttir

Erum að forgangsraða í grunnstoðir samfélagsins

Deila grein

09/12/2015

Erum að forgangsraða í grunnstoðir samfélagsins

vigdis-fjarlog-2015Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, er ánægð með þær breytingartillögur sem meirihluti fjárlaganefndar leggur til að þessu sinni. Í heildina leggur nefndin til fjárútlát upp á 8,8 milljarða króna. „Mér líst vel á þessar breytingar. Hér erum við að forgangsraða í grunnstoðir samfélagsins og ég tel að þingmenn geti verið ánægðir með hvernig til hefur tekist. Enn gerum við ráð fyrir hallalausum fjárlögum sem skiptir sköpum í að lækka skuldir ríkissjóðs,“ segir Vigdís en telur líklegt að frumvarpið verði rætt í þaula.
„Ég sem formaður fjárlaganefndar vona að allir þingmenn taki til máls í þessu mikilvægasta máli þingsins á hverju ári, sem fjárlögin eru.“
Gjaldahlið – breytingartillaga við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016.
Tekjuhlið – breytingartillaga við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016.
Glærur sem fylgja fjárlagafrumvarpinu.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, á Alþingi við 2. umræðu.

Categories
Fréttir

Almannavarnakerfið byggir að miklu leyti á sjálfboðastarfi björgunarsveita

Deila grein

09/12/2015

Almannavarnakerfið byggir að miklu leyti á sjálfboðastarfi björgunarsveita

ásmundur„Virðulegi forseti. Ég vil aðeins koma inn á veðrið sem gekk yfir landið í gær.
Fyrst vil ég þó taka undir það sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði um að fjárlagagerðina almennt og að óheppilegt væri að minni hluti hefði skamman tíma til þess að ljúka við nefndarálit og vinnu sína. Það hefur verið þannig í gegnum tíðina og allt of lengi að minni hlutinn hefur of knappan tíma til þess að vinna nefndarálit sín og annað því um líkt. Ég vonast þó til þess að þetta kunni að taka einhverjum breytingum þegar farið verður að vinna eftir nýju frumvarpi um opinber fjármál. En ég vil taka undir þetta. Þetta var líka svona á síðasta kjörtímabili og ugglaust þar á undan. Þarna getum við vissulega tekið okkur á.
En varðandi veðrið sem gekk yfir landið í gær vil ég taka undir með þeim sem hafa komið hér upp og verið að fjalla um það og þakkað fyrir það góða starf sem unnið er af fjölmörgum aðilum; Almannavörnum, Veðurstofunni, snjóflóðasérfræðingum, rafmagnsveitumönnum sem eru búnir að vera og eru enn að laga rafmagnsbilanir sem veðrið olli, Vegagerðinni, lögreglunni, Ríkisútvarpinu og öðrum fjölmiðlum og síðast en ekki síst björgunarsveitum landsins.
Ég vil segja það að ég er alveg sannfærður um að almenningur er mjög ánægður með þjónustu allra þessara aðila og það hvernig var staðið að þessu síðasta sólarhringinn, enda sáum við að allir tóku mark á viðvörunum, enginn var á ferð o.s.frv.
En það er full ástæða til þess að taka almennt umræðu um almannavarnakerfið og það sjálfboðastarf sem margir vinna meðal annars í björgunarsveitunum. Það er full ástæða til þess að velta því fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegt með stóraukinni komu ferðamanna að til að mynda björgunarsveitir fái ákveðna hlutdeild og aukna hlutdeild í tekjustofnum sem til verða vegna ferðaþjónustunnar.
Við eigum þetta gríðarlega góða almannavarnakerfi sem að miklu leyti byggir á sjálfboðastarfi björgunarsveita og við eigum að leita allra leiða til þess að efla það og styrkja. Þetta er umræða sem (Forseti hringir.) mér finnst að við þingmenn og stjórnvöld þurfum að fara að taka í auknum mæli, hvernig við getum eflt og bætt umgjörð björgunarsveita og annarra sem vinna slík sjálfboðastörf.“
Ásmundur Einar Daðason — störf þingsins 8. desember 2015.

Categories
Fréttir

Hvernig er verðbólgan mæld – ekkert samræmi?

Deila grein

09/12/2015

Hvernig er verðbólgan mæld – ekkert samræmi?

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Í fyrramálið mun peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynna um stýrivexti. Góður félagi minn sendi mér nokkrar spurningar sem mig langar að fara hér með, sem beinast að seðlabankastjóranum. Hér segir, með leyfi forseta:
„Í síðustu viku, nánar tiltekið fimmtudaginn 3. desember, ákvað 25 manna stjórnarráð Seðlabanka Evrópu að lækka stýrivextina úr 0,1% niður í mínus 0,3% til að örva verðbólgu. Sú verðbólga sem menn eru ósáttir við hjá ECB mældist 0,1% í október, svokölluð samræmd vísitala neysluverðs. Sama vísitala fyrir Ísland mældi verðbólguna í október vera 0,34%, samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofunnar, en birtist sem 0,4% á vef Eurostat. Á vef Eurostat má einnig sjá að hækkun samræmdrar vísitölu neysluverðs var álíka há á Íslandi og í Hollandi, umtalsvert lægri en í Svíþjóð og í Noregi mælist hún 2,4%. Í Danmörku var þessi breyting hins vegar á heilu ári 0,2%.“
Ástæðan fyrir því að ég dreg athyglina að þessu er að peningastefnunefnd notar verðbólgumælingu frá Hagstofunni sem mat verðbólguna vera 1,8% í október. Mæld á annan hátt en samræmda vísitalan sem ECB notar. Spurningin er hvers vegna Seðlabankinn og peningastefnunefnd meta ekki svo ólíka verðbólgu, þ.e. 0,1% og 0,34%, á svona gjörólíkan hátt og telur að 0,34% verðbólga krefjist þess að stýrivextir séu 6,25% sem er sú vaxtatala sem er kynnt í fréttatilkynningu til erlendra fréttastofa. Þegar seðlabankar í nágrannalöndunum okkar, m.a. með meiri hækkun húsnæðisverðs og meiri hækkun samræmdrar vísitölu neysluverðs, telja nauðsynlegt að halda stýrivöxtum í kringum 0%.
Þá segir maður líka: Hafa Seðlabankinn og peningastefnunefnd metið hverjir stýrivextir þyrftu að vera ef notuð væri samræmd vísitala neysluverðs til að meta verðbólgu á Íslandi? Hvers vegna notar Seðlabankinn annað viðmið við ákvarðanir sínar um stýrivexti en þjóðir í kringum okkur? Telur seðlabanki að 25 manna stjórnarráð ECB hafi minni skilning á virkni peningastefnu en 5 manna peningastefnunefnd SÍ? Ef ekki, hvers vegna eru þá stýrivextir á Íslandi 6,25% en mínus 0,3% hjá ECB?“
Þorsteinn Sæmundsson — störf þingsins 8. desember 2015.

Categories
Fréttir

Almannavarnarkerfið okkar og störf björgunarsveitanna

Deila grein

09/12/2015

Almannavarnarkerfið okkar og störf björgunarsveitanna

Villlum„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða hér um almannavarnakerfið okkar, viðbragðskerfið, og líkt og hv. þm. Óttar Proppé gerði áðan hrósa öllum þeim aðilum sem komu að því að skipuleggja á landsvísu viðbrögðin og viðbúnaðinn fyrir vel unnin störf. Allmargir koma við sögu og því er mikil þörf fyrir mikla samhæfingu, samvinnu og samstöðu. Það má segja að þessir þættir séu með eindæmum í þessu tilviki.
Ríkislögreglustjóri lýsti í samráði við lögreglustjóra landsins í gær yfir óvissustigi í landinu vegna óveðurs. Allir voru vel upplýstar um stöðu mála og meðvitaðar um hvað væri í vændum þar sem öryggi fólks og byggða kynni að vera í hættu. Það sem er kannski mikilvægast í þessu sambandi er viðbragðið og samráðið og það að við upplifum að almannavarnakerfið virkar. Það er ekki sjálfgefið. Ekki er heldur sjálfgefið að upplifa hversu þaulskipulagt og samhæft starfið er og um leið hversu vel upplýsingakerfið virkar. Við upplifum sterkt hversu vel ástandið er vaktað eftir því sem veðurhamurinn gengur yfir og upplýsingar að hafa jafnóðum þar sem staðan er metin í sífellu, hvort sem er hjá Almannavörnum, Veðurstofunni eða Vegagerðinni. Ekki má gleyma þætti fjölmiðla, hvort heldur er hjá fréttastöðvum sjónvarps eða útvarps eða netmiðlum.
Þáttur björgunarsveitanna er auðvitað ómetanlegur og sjálfboðaliðastarfið eins og var á vettvangi í gær, um 700 manns að störfum um allt land, auðvitað ásamt lögreglunni og öðrum viðbragðsaðilum alls staðar með viðbúnað þar sem allir lögðust á eitt um að verja öryggi borgara og eigna. Það var algjörlega til fyrirmyndar, virðulegi forseti, það eru vinnubrögð sem ber að þakka og virða.“
Willum Þór Þórsson — störf þingsins 8. desember 2015.

Categories
Fréttir

Húsfyllir á viðburði Íslands um landgræðslumál í norræna skálanum á Parísarfundinum um loftslagsmál (COP21)

Deila grein

09/12/2015

Húsfyllir á viðburði Íslands um landgræðslumál í norræna skálanum á Parísarfundinum um loftslagsmál (COP21)

cop21-IMG_0192Húsfyllir var á viðburði Íslands um landgræðslumál sem haldinn var í norræna skálanum á Parísarfundinum um loftslagsmál (COP21) í dag. Á fundinum var m.a. rætt um hvernig landeyðing og hlýnun jarðar spila saman og hversu mikilvæg landgræðsla er sem mótvægisaðgerð gegn loftslagsbreytingum.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, bauð gesti velkomna og fjallaði m.a í ávarpi sínu um hvernig Íslendingar hafa stundað landgræðslu í gegn um tíðina til að berjast gegn landeyðingu. Þá nefndi hún samstarf landsins við alþjóðastofnanir á sviði landgræðslu og mikilvægi þess að huga að jafnréttissjónarmiðum þegar unnið er að endurheimt lands.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, bauð gesti velkomna.

20151208_124025Að loknu ávarpi hennar tók til máls Monique Barbut, framkvæmdastýra eyðimerkursamnings Sameinuðu þjóðanna. Hún ræddi m.a. um mikilvægi þess að ekki tapist meira land en það sem er endurheimt, sem er eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Hún benti jafnframt á þá möguleika sem felast í endurheimt lands til að ná markmiðum um samdrátt í nettólosun gróðurhúsalofttegunda.
cop21-IMG_0225Damdin Davgadorj, sérfræðingur um landeyðingu frá Mongólíu, sagði frá ástandi mála þar í landi og þeim aðgerðum sem ráðist hefur verið í til þess að endurheimta land og stöðva landrofið. Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri fjallað um landgræðslustarf á Íslandi og loks sagði Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna, frá því hvernig skólinn vinnur að þjálfun fólks í þróunarlöndum á sviði landgræðslu.
Fólk frá öllum heimshornum sótti viðburðinn og voru líflegar umræður í kjölfar erinda framsögumanna. Fundarstjóri var Hugi Ólafsson, formaður samninganefndar Íslands í loftslagsmálum.
Desertification and Land Restoration – The Climate Connection – upptaka  frá viðburðinum

Categories
Fréttir

Setja fókusinn á gerandann en ekki þolandann

Deila grein

08/12/2015

Setja fókusinn á gerandann en ekki þolandann

Þorsteinn-sæmundsson„Herra forseti. Mig langar að gera að umtalsefni kynferðisbrot á Íslandi. Nýlegir dómar hafa valdið áhyggjum og furðu og því er rétt að fara aðeins yfir það hvort eitthvað sé hægt að laga í málsmeðferð til að ná betri árangri hvað dóma varðar.
Um það bil 120 aðilar að meðaltali leita til neyðarmóttöku á hverju ári. 40% eru undir 18 ára og eru þess vegna börn í skilningi laganna. Eitt sem vekur athygli og ætti kannski ekki að vera neitt nýtt er að í 95% tilfella neitar gerandi sök.
Ríkissaksóknari í Bretlandi hefur ákveðið að breyta nokkuð áherslum lögreglu í rannsóknum á svona málum. Í Bretlandi er 85 þús. konum nauðgað á hverju einasta ári. Rúmlega 18 þúsund kæra, 2.900 mál koma fyrir rétt og það er sakfelling í rúmlega 1 þús. málum — af öllum þessum fjölda.
Þetta er ekki alveg svona slæmt hjá okkur en engu að síður er full ástæða til að fara að dómi Breta sem nú ætla að fara að setja fókusinn á gerandann en ekki þolandann í rannsókn mála. Bretar ætla að krefjast þess að meintir gerendur upplýsi um það hvort þeir hafi fengið upplýst samþykki fyrir kynlífsathöfnum. Margir hafa orðið til þess að gera grín að þessu og segja að það sé ekki hægt að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis, en þetta er alvörumál og það er engin hemja hvað fórnarlömbum gengur illa að koma fram vegna þess hvernig rannsóknum er hagað. Í þessum málum verða hagsmunir fórnarlamba að vera ríkari en hagsmunir meintra gerenda.“
Þorsteinn Sæmundsson – störf þingsins 4. desember 2015.

Categories
Fréttir

Samvinna stjórnvalda, einstaklinga og atvinnulífs – ýtt verði undir frumkvæði og nýsköpun

Deila grein

04/12/2015

Samvinna stjórnvalda, einstaklinga og atvinnulífs – ýtt verði undir frumkvæði og nýsköpun

líneik„Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er kynnti hv. ríkisstjórn sóknaráætlun í loftslagsmálum til þriggja ára fyrir viku síðan og vil ég nú fagna þeirri áætlun sérstaklega. Áætlunin byggir á 16 verkefnum. Verkefnin og áherslurnar undir hatti sóknaráætlunarinnar eru fjölbreyttar og eiga það sameiginlegt að draga úr loftslagsbreytingum. Bæði er um að ræða verkefni sem auka bindingu kolefnis og draga úr losun kolefnis en líka stuðningur við alþjóðleg loftslagsverkefni. Í mínum huga eru allar þessar leiðir mikilvægar og í því samhengi eru engar aðgerðir of smáar til að skipta máli. Sennilega er viðhorfsbreyting okkar allra þó það sem mestu máli skiptir til lengri tíma litið.
Í öllum verkefnunum er áhersla lögð á samvinnu stjórnvalda, einstaklinga og atvinnulífs. Mjög mikilvægt er að ýtt verði undir frumkvæði og nýsköpun varðandi loftslagsvænar lausnir í samgöngum og atvinnulífi. Til þess að það geti orðið er mikilvægt að við séum meðvituð um að til þess að nýta tækifærin getum við þurft að forgangsraða uppbyggingu innviða í samræmi við það. Varðandi bindingu kolefnis eigum við líka fjölbreytt tækifæri. Stefnt er að því að sett verði aukið fé til landgræðslu og skógræktar og hafist handa við endurheimt votlendis. Þetta eru verkefni sem stjórnvöld og einkaaðilar geta varið fjármunum til en framkvæmdin þarf að fara fram í samvinnu við notendur lands og þarf að byggja á skipulagsáætlunum og heildarsýn á landnýtingu, svo sem í gegnum landsáætlun í skógrækt og landgræðslu. Á þessu sviði er líka mikilvægt að byggja á íslenskum rannsóknum og íslensku mati á árangri.
Einnig er ætlunin að gera átak til að draga úr matarsóun sem oft á tíðum veldur óþarfa kolefnislosun. Í því sambandi er mikilvægt að leita leiða til að auka meðvitund neytenda um þau kolefnisspor sem mismunandi matvæli skilja eftir sig.“
Líneik Anna Sævarsdóttir — störf þingsins 2. desember 2015.

Categories
Fréttir

Neytendur hafa greitt 4-4,5 milljörðum of mikið fyrir eldsneyti á árinu 2014

Deila grein

04/12/2015

Neytendur hafa greitt 4-4,5 milljörðum of mikið fyrir eldsneyti á árinu 2014

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Árnaðaróskir í tilefni dagsins. Fyrst af öllu er rétt að geta þess að stjórnarskrárnefnd er að störfum og hennar störf ganga nokkuð vel og engin ástæða til að halda að þau verði ekki leidd til lykta á farsælan hátt. Ég er aftur á móti staddur á sama stað og hv. þm. Elín Hirst vegna þeirrar skýrslu sem er nýkomin út frá Samkeppniseftirlitinu, Markaðsrannsókn á eldsneytismarkaðnum. Þetta er frummatsskýrsla. Það þýðir það að aðilar hafa rétt til 16. febrúar til að koma að andmælum en það verður samt að segja það að miðað við þær niðurstöður sem Samkeppniseftirlitið dregur hér fram þá er vandséð að ályktunin sé í aðalatriðum röng. Það er út af fyrir sig áhyggjuefni.
Þessi rannsókn er búin að standa yfir í tvö ár, hún er mjög vönduð. Það er út af fyrir sig áhyggjuefni að það virðist svo sem olíufélögin á Íslandi hafi ekki lært neitt af þeim atburðum sem hér urðu á árunum 1993–2001 og lauk með ákveðnum hætti sem ekki þarf að fara yfir. Og það er náttúrlega líka með öllu óþolandi sú niðurstaða sem hér kemur fram að neytendur hafi greitt 4–4,5 milljörðum of mikið fyrir eldsneyti á árinu 2014.
Það segir einnig, með leyfi forseta, á bls. 9 í þessari skýrslu: „Álagning á bifreiðaeldsneyti var óeðlilega há sem nemur allt að 18 kr. með virðisaukaskatti á hvern lítra bensíns og 20 kr. með virðisaukaskatti á hvern lítra dísilolíu á árinu 2012.“ Nú um stundir er verið að bjóða okkur 13 kr. afslátt tvisvar í mánuði og menn ganga mjög taktfast í því, öll olíufélögin, allir dreifingaraðilar, og núna síðast er verið að bjóða okkur eina viku með 13 kr. í afslátt. Þetta er náttúrlega algerlega út úr kú vegna þess að auðvitað eiga olíufélögin, ef svigrúm er til svona afsláttar og gylliboða, hreinlega að lækka eldsneytisverð í landinu. Hvert króna eldsneytis kostar heimilin í landinu 360 milljónir á ári hverju.“
Þorsteinn Sæmundsson — störf þingsins 2. desember 2015.

Categories
Fréttir

48,4% af heildarútgjöldum ríkissjóðs til velferðarmála – 306,8 milljarðar

Deila grein

04/12/2015

48,4% af heildarútgjöldum ríkissjóðs til velferðarmála – 306,8 milljarðar

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Undanfarna daga hefur mikil umræða átt sér stað um framlög ríkisstjórnar til heilbrigðis- og velferðarmála. Umræðan hefur verið hávær á þann veg að ríkisstjórnin sé ekki að forgangsraða til þessara mála.
Þessi umræða er áhugaverð í ljósi þess að samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 fara 48,4% af heildarútgjöldum ríkissjóðs til þessara málaflokka eða sem samsvarar 306,8 milljörðum. Þar fara 25,2% til heilbrigðismála, sem er stærsti útgjaldaliður fjárlaga, og nemur framlagið 159,9 milljörðum. Næst á eftir stærsta útgjaldaliðnum koma almannatryggingar og önnur velferðarmál. Þar eru útgjöld 23,2% af heildarútgjöldum ríkissjóðs og nemur sá málaflokkur 146,9 milljörðum.
Þegar við skoðum hvað ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur gert í heilbrigðismálum á þessu kjörtímabili er meðal annars hægt að nefna að stórauknu fé hefur verið bætt til Landspítalans, 840 milljónum hefur verið bætt við til að minnka biðlista, tækjakaupaáætlun upp á rúma 5 milljarða er á áætlun, sett hefur verið nýtt fjármagn til að hefja útboð á nýbyggingum á Landspítala, eða um 1,8 milljarðar í byggingar, fjármagn hefur verið stóraukið til S-merktra lyfja og verið er að auka fjármagn til tannlækningasamnings sem gerður var á síðasta kjörtímabili.
Í fjárlögum fyrir árið 2016 er áhersla lögð á uppbyggingu heilsugæslunnar til að létta álaginu á Landspítala. Það tel ég afar skynsamlega ákvörðun til að tryggja betur að heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Auðvitað er alltaf hægt að gera betur en þau góðu verk sem ríkisstjórnin hefur sýnt í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins er hvatning til að halda áfram á sömu braut til að byggja upp þá auðlind sem heilbrigðiskerfið okkar er og á að vera.
Auk þessa nema útgjöld til almannatrygginga 99 milljörðum í ár sem er aukning um 10,3 milljarða milli ára. Þessar upplýsingar má finna í fjárlögum fyrir árið 2016 og í þeirri kynningu sem hæstv. fjármálaráðherra setti fram.
Uppsöfnuð hækkun til málaflokksins nemur tæpum 17% frá árinu 2014. Þessar tölur eru hvatning til að halda áfram á sömu braut og hækka áfram kjör eldri borgara og öryrkja til framtíðar.“
Elsa Lára Arnardóttir — störf þingsins 2. desember 2015.