Categories
Fréttir Greinar

Holan í kerfinu

Deila grein

11/05/2024

Holan í kerfinu

Hjól samfélagsins snúast aðeins með sanngjörnum framlögum allra til samneyslunnar. Stærsti hluti almennings greiðir skatta af launum sínum, sem fara svo til ríkis og sveitarfélaga, sem starfrækja þau grunnkerfi sem við ætlumst til að séu til staðar í samfélaginu. Allir vilja að kerfin sem við treystum á virki hnökralaust og að allir leggi sitt af mörkum til samfélagsins, það finnst okkur flestum sanngjarnt.

Að taka ekki þátt

Skýrar vísbendingar eru um að hérlendis sé fólk sem sniðgengur skattgreiðslur með því að skrá launatekjur ranglega sem fjármagnstekjur. Þó flestir Íslendingar afli launatekna þá eru sumir sem afla einungis fjármagnstekna, má þar nefna vaxtatekjur, arð, söluhagnað, leigutekjur og fleira. Af fjármagnstekjum er innheimt lægri skattprósenta auk þess sem ekki er innheimt útsvar til þess sveitarfélags sem viðkomandi er búsettur í.

Innan sveitarfélaga er því fólk sem nýtir sér þjónustu þeirra án þess þó að greiða krónu fyrir. Það er því eðlilegt og sjálfsagt að sveitarfélög fái útsvar frá öllum þeim sem nýta þjónustu en sú þjónusta er annars vegna lögbundin og hins vegar ólögbundin en þykir þó í flestum tilfellum sjálfsögð.

Stoppum í gatið

Það að skapa velferðarsamfélag krefst þess að allir taki þátt og leggi sitt á vogarskálarnar. Lengi hefur verið varað við þessu ósamræmi og hvernig ákveðin hópur fólks kemst hjá réttlátum skattgreiðslum. Árlega er talið að ríkissjóður verði af mörgum milljörðum króna í núverandi fyrirkomulagi. Stjórnvöld hafa sett sér það markmið í stjórnarsáttmála að endurskoða regluverk í kringum tekjutilflutning og tryggja að þau sem hafa eingöngu fjármagnstekjur reikni sér endurgjald og greiði þannig útsvar. Í september 2022 hóf starfshópur störf á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um skattlagningu launa og reiknuð laun og skilaði hópurinn skýrslu til ráðherra í september 2023 og var hún kynnt í ríkisstjórn í desember sama ár. Lagði hópurinn m.a. til að strax yrði farið í breytingar sem ekki kölluðu á lagabreytingar auk tillagna sem þarfnast aðkomu löggjafans. Undirritaður vonast til að frumvarp þess efnis rati bráðlega inn til Alþingis. Það er sanngirnismál að klára slíka löggjöf sem allra fyrst og vonast ég til þess að um það ríki þverpólitísk samstaða á Alþingi.

Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknar og nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. maí 2024.

Categories
Fréttir

Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

Deila grein

10/05/2024

Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

Kæru flokksfélagar!

Í upphafi vil ég byrja á að þakka ykkur innilega fyrir hönd þingflokksins fyrir einstaklega flott og kraftmikið Flokksþing Framsóknar í síðasta mánuði. Að okkar mati tókst þingið vel og mun nú strax eftir helgi verða hægt að nálgast flokksþingsályktanirnar á heimasíðu flokksins.

Nú þegar líður að lokum þessa þingvetrar þéttist dagskrá okkar þingmanna, leitast er við að nýta þingfundi og nefndarfundi sem best. Mörg mál eru á dagskránni og til umræðu inn í nefndum. Þrátt fyrir þessa stöðu verður gert hlé á þingstörfum föstudaginn 24. maí fram yfir forsetakosningar. Er það gert með sama hætti og fyrir sveitarstjórnarkosningar en tilgangurinn er að þingstörfin trufli ekki eða hafi áhrif á umræðu og umfjöllun vegna forsetakosninganna.

Á síðasta rafræna fundi þingflokksins með ykkur kom fram ósk um yfirlit yfir samþykkt stjórnarmál frá okkar ráðherrum. Við höfum tekið málin saman og má nálgast þau hér.

Við í þingflokknum viljum halda áfram virku samtali og boðum hér með til fundar með flokksfólki á Teams nk. mánudag, 13. maí, kl. 20.00. Á dagskrá fundarins eru tvö stór mál, frumvarp um lagareldi og þingsályktun um samgönguáætlun til ársins 2038.

Þeir sem hafa ekki áður tekið þátt í STÖRFUM ÞINGSINS – Samtal þingflokksins við grasrótina verða nauðsynlega að skrá sig hér:

Störf þingsins – Rafrænn fundur

Hlekkur á fundinn verður sendur út skömmu fyrir fund.

Lög um lagareldi

Markmið laga um lagareldi er ætlað að skapa skilyrði til sjálfbærrar uppbyggingar lagareldis og efla þannig verðmætasköpun, atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu lagareldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Leitast skal við að fyrirbyggja hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og vistkerfi þeirra ásamt því að tryggja hagsmuni þeirra sem nýta villta nytjastofna. Til að ná því markmiði skal tryggt að eldisbúnaður og framkvæmd í lagareldi standist ströngustu staðla og kröfur sem gerðir eru til lagareldis.

Umræðan hefur verið mikil í kringum málið en þá aðallega hvað varðar tímalengd leyfisins, hvort það skuli vera tímabundið eða ótímabundið. Þingmenn hafa komið áherslum Framsóknar skýrt fram í umfjöllun um málið þar sem því hefur verið komið við en við munum fara betur yfir málið á fundinum.

Samgönguáætlun

Samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028 er lögð fram með hliðsjón af fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028. Áætlað er að fram til ársins 2038 skuli unnið að samgöngumálum í samræmi við:

a. stefnu í samgöngumálum og helstu markmið sem vinna skuli að,

b. skilgreiningu á grunnneti samgöngukerfisins sem nái til alls landsins og verði ætlað að tryggja landsmönnum greiðar samgöngur,

c. áætlun um fjáröflun til samgöngumála,

d. yfirlit um útgjöld til allra helstu þátta í rekstri samgöngustofnana, svo og viðhalds, öryggismála og nýframkvæmda á sviði flugmála, siglingamála og vegamála.

Áætlunin taki mið af og verði hluti af heildstæðri samþættri stefnu í samgöngumálum, húsnæðismálum, skipulagsmálum, byggðamálum og málefnum sveitarfélaga og gerð í samræmi við samþykktar áætlanir á vegum Alþingis og ríkisstjórnar.

Þingsályktunin er til umfjöllunar í umhverfis og samgöngunefnd en stefnt er að því að hafa drög að nefndaráliti klárt þegar þing kemur aftur saman eftir þinghlé vegna forsetakosninga.

Við munum fara yfir stöðu verkefnisins og svara spurningum eftir bestu getu.

Vona að sem flestir sjái sér fært um að mæta fyrir framan skjáinn nk. mánudagskvöld og taka þátt í samtalinu en þessi og mögulega fleiri mál munum við ræða á fundinum.

Hlakka til að sjá ykkur og hvet ykkur í leiðinni til að hnippa í aðra félaga okkar í Framsókn og minna á fundinn.

Með kveðju frá Austurvelli,
Ingibjörg Isaksen
Categories
Fréttir Greinar

Leynihótel

Deila grein

10/05/2024

Leynihótel

Í síðustu viku samþykkti Alþingi frum­varp sem hef­ur áhrif á þann fjölda íbúða sem eru í skamm­tíma­leigu til lengri tíma. Laga­breyt­ing þessi var gerð með það að mark­miði að auka fram­boð íbúðar­hús­næðis og með því stuðla að auknu jafn­vægi á hús­næðismarkaði.

Í dag get­ur hver sem er sett íbúð í sinni eigu í út­leigu í allt að 90 daga. Ef eig­andi hyggst leigja út íbúð sína til lengri tíma í skamm­tíma­leigu hef­ur hann þurft að sækja um rekstr­ar­leyfi gisti­staða. Við sjá­um mörg dæmi þess að ein­stak­ling­ar og fyr­ir­tæki kaupi íbúðir til að setja þær í heils­árs­leigu á airbnb eða hjá sam­bæri­leg­um milli­gönguaðila. Í sum­um til­vik­um má sjá að það eru marg­ar íbúðir í sömu blokk í skamm­tíma­leigu fyr­ir eitt fyr­ir­tæki allt árið og því má segja að það sé leyni­hót­el í miðju íbúðahverfi án þess að á því séu þær ör­yggis­kröf­ur og gjöld sem við setj­um á hót­el. Frum­varpið bann­ar rekstr­ar­leyfi gisti­staða í íbúðar­hús­næði í þétt­býli og því er heils­árs­leig­an ekki leng­ur mögu­leiki.

Mis­jöfn staða dreif­býl­is og þétt­býl­is

Fólki hef­ur orðið tíðrætt um fram­boðsskort á íbúðar­hús­næði á þétt­býl­um svæðum lands­ins. Töl­fræðin sýn­ir okk­ur að tals­verður fjöldi íbúða á þétt­býl­um svæðum er nýtt­ur í skamm­tíma­leigu til ferðamanna. Þessi mikla nýt­ing íbúðar­hús­næðis er ein ástæða fram­boðsskorts á höfuðborg­ar­svæðinu. Stjórn­völd hafa ákveðið að bregðast við þessu á þann veg að tak­marka heim­ild­ir til slíkr­ar út­leigu. En skamm­tíma­leig­an hef­ur mis­mun­andi áhrif á svæði lands­ins. Því taldi at­vinnu­vega­nefnd Alþing­is mik­il­vægt að tak­mörk­un þessi ætti ekki við gist­ingu í dreif­býli, eins og smá­hýsi á sveita­bæj­um og frí­stunda­hús í út­leigu. Tak­mörk­un­in var því ein­skorðuð við þétt­býl svæði. Það var gert til að tryggja að gisti­starf­semi utan þétt­býliskjarna, einkum í sveit­um, geti áfram notið sér­stöðu og stuðlað að bætt­um kjör­um íbúa þeirra svæða.

Við erum að ganga í aðgerðir til að ná betri tök­um á hús­næðismarkaðnum.

Þegar hús­næðisþörf er eins mik­il og raun ber vitni, sér­stak­lega meðal ungs fólks, geta stjórn­völd ekki setið á hönd­un­um og leyft aðilum að kaupa fjölda íbúða ein­ung­is í þeim til­gangi að leigja út til ferðamanna. Sú þróun hef­ur haft þau áhrif að fjöl­marg­ar íbúðir hafa horfið af al­menn­um hús­næðismarkaði, með til­heyr­andi áhrif­um á fram­boð, hús­næðis­verð og jafn­vel leigu­verð. Þetta eru íbúðir sem eru marg­ar í hent­ugri stærð fyr­ir ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð. Því eru það gleðifrétt­ir að þetta frum­varp hafi verið samþykkt.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar og var fram­sögumaður máls­ins í at­vinnu­vega­nefnd Alþing­is.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Stutt við barna­fjöl­skyldur

Deila grein

10/05/2024

Stutt við barna­fjöl­skyldur

Á Alþingi var vikunni mælt fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2024, en við vinnslu fjárlaga lá ekki fyrir með hvaða hætti stjórnvöld myndu koma að gerð kjarasamninga. Með frumvarpi til fjáraukalaga er nú verið að leita aukinna fjárheimilda til Alþingis vegna samninganna. Það má með sanni segja að hluti þeirra aðgerða sem mælt er hér fyrir miði að því að bæta hag barnafjölskyldna á landinu, enda er hér lögð sérstök áhersla á að stuðla að fjölskylduvænna samfélagi. Hér er fullt tilefni til að vekja sérstaklega athygli á þeim góðu og jákvæðu skrefum sem hér eru stigin í þá átt.

Vaxtastuðningur

Ungt fólk sem komið hefur inn á fasteignamarkaðinn síðustu ár hefur fundið mikið fyrir auknum vaxtakostnaði síðustu mánuði. Þessi aukni kostnaður leggst sérstaklega hart á barnafólk sem samhliða því að koma undir sér og sínum þaki yfir höfuðið þarf m.a. að greiða fyrir leikskóla, fæði, íþróttir og tómstundir svo eitthvað sé nefnt. Til þess að mæta auknum vaxtakostnaði verða á árinu greiddir út allt að 7 milljarðar króna í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Hámark sérstaks vaxtastuðnings mun nema 150.000 kr. fyrir einstakling, 200.000 fyrir einstæða foreldra og 250.000 fyrir sambúðarfólk að teknu tilliti til skerðinga vegna tekna og eigna. Gert er ráð fyrir að sérstakur vaxtastuðningur greiðist beint inn á höfuðstól húsnæðisláns en að heimilt verði að óska eftir að nýta hann til lækkunar á afborgunum í tiltekinn tíma.

Barnabætur hækka

Barnabótakerfið hefur á kjörtímabilinu verið einfaldað og stuðningur efldur, nú á að bæta um betur. Hækka á barnabætur á samningstímanum ásamt því að draga úr tekjuskerðingu, þannig mun foreldrum sem fá stuðning með þessum hætti fjölga um 10.000. Í heildina munu framlög til barnabóta hækka um 3 milljarða króna á þessu ári og um 2 milljarða króna á árinu 2025 og verða þá orðin um 21 milljarður króna á ári.

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir

Frá og með ágúst á þessu ári verða skólamáltíðir grunnskólabarna gjaldfrjálsar út árið 2027 í samræmi við gildistíma kjarasamninga á almennum markaði. Með þessum aðgerðum munu öll börn eiga kost á hollum og góðum skólamáltíðum. Börn búa vissulega við misjöfn kjör og koma úr mismunandi aðstæðum, en holl og staðgóð næring er þýðingarmikil fyrir þroska og starfsorku og óhætt er að fullyrða að vel nærð börn séu betur undirbúin til náms. Fyrir þessu hef ég talað frá því ég hóf minn feril í stjórnmálum og voru stigin markviss skref í þessa átt kjörtímabilið 2018-2022 í Hafnarfirði þegar systkinaafsláttur var í fyrsta skipti innleiddur í skólamáltíðir grunnskólabarna. Það er því sérstakt fagnaðarefni að nú sé skrefið stigið til fulls, en hér er að mínu mati um jafnréttis- og lýðheilsumál að ræða sem samhliða mun auka ráðstöfunartekjur venjulegs fjölskyldufólk umtalsvert.

Hærri greiðslur í fæðingarorlofi

Til þess að treysta fjárhagslegt öryggi ungbarnafjölskyldna og stuðla að því að markmið fæðingarorlofskerfisins um samvistir barna við báða foreldra og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs nái fram að ganga verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Þann 1. apríl 2024 voru þær hækkaðar úr 600.000 þúsund krónum á mánuði í 700.000 kr., frá og með 1. janúar 2025 í 800.000 kr. og frá og með 1. janúar 2026 í 900.000 kr.

Hækkun húsnæðisbóta

Margar ungar barnafjölskyldur eru fastar á leigumarkaði. Til þess að draga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda verða húsnæðisbætur hækkaðar. Aukið tillit verður tekið til fjölskyldustærðar með fjölgun bótaflokka frá 1. júní n.k. Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda eru hækkaðar um 25% og með því að taka tillit til fjölskyldustærðar verða þannig greiddar húsnæðisbætur fyrir allt að sex heimilismenn í stað fjögurra áður.

Betri skilyrði fyrir barnafjölskyldur

Stjórnvöld vilja skapa góð skilyrði fyrir barnafjölskyldur á Íslandi til þess að vaxa og dafna. Samhliða þessum aðgerðum leggja stjórnvöld ríka áherslu á að stuðla að minni verðbólgu og lækkun vaxta. Við sem stöfum á Alþingi vitum að róðurinn hefur verið þungur síðustu misseri og því er farið í markvissar aðgerðir sem þessar, þar sem markmiðið er að létta þeim róðurinn sem þyngstar byrðar bera nú um stundir. Aðgerðirnar sem hér hefur verið farið yfir munu auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna verulega á samningstímanum eða um 500 þúsund kr. á ári.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ófyrirsjáanlegir atburðir kalla á yfirveguð viðbrögð

Deila grein

09/05/2024

Ófyrirsjáanlegir atburðir kalla á yfirveguð viðbrögð

Eitt af mín­um fyrstu embættis­verk­um sem fjár­mála- og efna­hags­ráðherra var að mæla á þingi fyr­ir fjár­mála­áætl­un fyr­ir árin 2025-2029. Eins og kunn­ug­ir vita er um að ræða áætl­un sem ramm­ar inn fjár­mál rík­is­ins næstu fimm árin. Nán­ari út­færsla er síðan í fjár­lög­um hvers árs.

Sterk staða, for­gangs­röðun, lækk­un skulda

Í fjár­mála­áætl­un er lögð sér­stök áhersla á að verja sterka stöðu, for­gangsraða verk­efn­um og lækka skuld­ir. Í því felst að út­gjalda­vexti er haldið í skefj­um til að stuðla að lækk­un verðbólgu og vexti kaup­mátt­ar og nýj­um út­gjöld­um verður mætt með aðhaldi í öðrum rekstri. Mik­il­vægt er að lækka skuld­ir rík­is­ins, ekki aðeins til að lækka vaxta­kostnað held­ur einnig til að ríkið hafi svig­rúm til viðbragða ef áföll skella á okk­ur, hvort sem það er af nátt­úr­unn­ar hendi eða öðrum or­sök­um.

Vöxt­ur hag­sæld­ar í sér­flokki

Ef horft er á stóru mynd­ina þá er vöxt­ur hag­sæld­ar á Íslandi í al­gjör­um sér­flokki á síðustu árum. Kaup­mátt­ur launa hef­ur vaxið veru­lega frá ár­inu 2013 á meðan hann hef­ur staðið í stað eða minnkað ann­ars staðar á Norður­lönd­um og lönd­um Vest­ur-Evr­ópu. Skuld­ir í hlut­falli við ráðstöf­un­ar­tekj­ur heim­ila eru líka í sögu­legu lág­marki. Sama má segja um skuld­ir fyr­ir­tækja.

Lægri vext­ir eru sam­eig­in­leg­ir hags­mun­ir

Rík­is­stjórn­in lagði mikla áherslu á að styðja við það sam­eig­in­lega mark­mið launa­fólks og at­vinnu­rek­enda á al­menn­um markaði að ná niður verðbólgu og vöxt­um með hóf­söm­um lang­tíma­samn­ing­um. Al­menni markaður­inn gekk á und­an með góðu for­dæmi og skiptu þar miklu máli aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Nú er komið að op­in­bera markaðnum sem verður að fylgja for­dæmi þeirra sem þegar hafa samið á al­menn­um markaði. Það er stærsta hags­muna­mál alls launa­fólks að vext­ir lækki. Ábyrgð hins op­in­bera og viðsemj­enda þeirra er því mik­il. Mjög mik­il.

Mjúk lend­ing að raun­ger­ast

Aðgerðir Seðlabanka Íslands og rík­is­stjórn­ar­inn­ar eru farn­ar að hafa áhrif á verðbólgu sem hef­ur lækkað hægt en ör­ugg­lega síðasta árið. Ný fjár­mála­áætl­un styður við áfram­hald­andi lækk­un. Fjár­mála­áætl­un 2025-2029 er hóf­söm. Hún boðar eng­ar bylt­ing­ar og blóðugan niður­skurð. Staðinn er vörður um grund­vall­ar­kerfi sam­fé­lags­ins, svo sem heil­brigðis­kerfið, mennta­kerfið, lög­gæslu og fé­lags­leg úrræði. Sú mjúka lend­ing sem rík­is­stjórn­in hef­ur stefnt að frá því í heims­far­aldr­in­um er að raun­ger­ast.

Ljóst er að alltaf eru tæki­færi til um­bóta í rekstri rík­is­ins. Unnið verður að því að for­gangs­röðun fjár­muna sé ávallt í sam­ræmi við þarf­ir sam­fé­lags­ins.

Rík­is­stjórn­in held­ur yf­ir­veguð um stýrið. Ríf­ur ekki í hand­brems­una, ríf­ur ekki í stýrið. Ófyr­ir­sjá­an­leg­ir at­b­urðir kalla á yf­ir­veguð viðbrögð.

Þannig er nú það.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar og fjár­mála- og efna­hags­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Stuðningur við lang­tíma­kjara­samninga

Deila grein

08/05/2024

Stuðningur við lang­tíma­kjara­samninga

Í gær mælti ég fyrir frumvarpi um fjáraukalög sem tekur utan um þær aðgerðir ríkissstjórnarinnar sem styðja við gerð skynsamlegra langtímakjarasamninga. Það er óhætt að segja að sú samstaða sem náðist á almenna markaðnum um hófsama kjarasamninga til fjögurra ára sé gríðarlega mikilvæg til þess að hér skapist aðstæður þar sem vextir geta farið lækkandi. Sú sameiginlega sýn sem náðist milli launafólks og atvinnurekenda um í hverju hagsmunir samfélagsins fælust er til mikillar fyrirmyndar og sýnir að samvinna ólíkra aðila er ekki aðeins möguleg heldur nauðsynleg til að ná alvöru árangri.

Stjórnvöld áttu í góðu samtali við aðila vinnumarkaðarins í þjóðhagsráði. Út frá þeim samtölum vann ríkisstjórnin hörðum höndum að því að skapa umgjörð sem gæti skilað kjarasamningum til langs tíma sem myndu styðja við lækkun verðbólgu og í kjölfarið lækkun vaxta. Afraksturinn er fjölbreyttur og mun auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna verulega á samningstímanum eða um allt að 500 þúsund krónur á ári.

Sérstakur einskiptis vaxtastuðningur

Til að mæta sérstaklega þeim sem eru með há vaxtaútgjöld vegna íbúðarhúsnæðis kemur til sérstakur einskiptist vaxtastuðningur. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Heildarskostnaður er áætlaður sex milljarðar króna og er ekki gert ráð fyrir að aðgerðin verði enduretekin þar sem forsendur kjarasamninga miðast við að vaxtakostnaður heimila muni lækka.

Hærri barnabætur og minni tekjuskerðingar

Barnabætur verða hækkaðar og dregið úr tekjuskerðingum. Með þessari aðgerð mun foreldrum sem fá stuðning með þessum hætti fjölga um tíu þúsund. Viðbótarkostnaður vegna þessa er áætlaður þrír milljarðar króna.

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir

Ísland hefur skorið sig úr samanburðarlöndum þegar kemur að fjölgun barna sem búa við fátækt. Til að mæta því hafa margir lagt til að dregið verði verulega úr kostnaði fjölskyldna vegna skólamáltíða. Velferðarvaktin er meðal þeirra sem lagt hafa áherslu á þessa leið sem verður farin, að minnsta kosti út samningstímabilið og hefst frá og með næsta skólaári. Kostnaður ríkisins á þessu ári er áætlaður 1,5 milljarðar króna og munu um 45 þúsund börn njóta gjaldfrjálsra skólamáltíða.

Hærri húsnæðisbætur til leigjenda

Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda hækka um 25% og með því að taka tillit til fjölskyldustærðar verða greiddar húsnæðisbætur fyrir allt að sex heimilismenn í stað fjögurra áður. Breytingin tekur gildi fyrsta júní næstkomandi. Kostnaður vegna þessa verður um 1,3 milljarðar á árinu.

Hækkun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði

Hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verða hækkaðar úr 600 þúsund krónum á mánuði í 700 þúsund frá 1. apríl síðastliðnum. Viðbótarkostnaður er áætlaður 600 milljónir króna.

Aukin gjaldfærsla vegna hlutdeildarlána

Með aukinni gjaldfærslu er veitt svigrúm fyrir aukin hlutdeildarlán að upphæð einn milljarður króna. Kostnaður vegna þessa er 320 milljónir króna. Hlutdeildarlánin gagnast þeim sem eru með lágar tekjur litlar eignir og gerir þeim kleift að eignast eigið húsnæði.

Framlag til vinnustaðanámssjóðs hækkað

150 milljónir króna eru ætlaðar til að hækka framlag til vinnustaðanámssjóðs til að efla vinnustaðanám og fjölga tækifærum nema til starfsþjálfunar.

Aukið aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu

Með 50 milljóna króna framlagi er dregið úr kostnaði fólks við að sækja heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð.

Hækkun á hámarksábyrgð Ábyrgðarsjóðs launa

Gert er ráð fyrir 49 milljón króna hækkun framlaga til Ábyrgðarsjóðs launa vegna hækkunar á hámarksábyrgð.

Þær aðgerðir stjórnvalda sem koma fram í frumvarpi til fjáraukalaga eru mikilvægar til þess að hér skapist aðstæður fyrir lækkun vaxta. Nú er pressan á hið opinbera og viðsemjendur þeirra að fylgja skynsamlegu fordæmi almenna markaðarins. Lengra verður ekki gengið af hálfu stjórnvalda.

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. maí 2024.

Categories
Fréttir

Frumvarp um gististaði samþykkt: Rekstrarleyfi gististaða einskorðast við atvinnuhúsnæði í þéttbýli

Deila grein

07/05/2024

Frumvarp um gististaði samþykkt: Rekstrarleyfi gististaða einskorðast við atvinnuhúsnæði í þéttbýli

Frumvarp um gististaði samþykkt: Rekstrarleyfi gististaða einskorðast við atvinnuhúsnæði í þéttbýli - mynd
Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald (rekstrarleyfisskylda gististarfsemi) var samþykkt í vikunni.

Með frumvarpinu verður sú lagalega breyting að rekstrarleyfisskyld gististarfsemi skal vera í samþykktu atvinnuhúsnæði og því ekki lengur heimilt að gefa út leyfi til reksturs gististaða í íbúðarhúsnæði.

Sem dæmi má nefna að ef einstaklingur leigir út hluta af heimili sínu í þéttbýli t.d. í gegnum Airbnb getur viðkomandi áfram gert það í allt að 90 daga á ári eða sem nemur 2 milljónum króna í leigutekjur. Eftir að því marki er náð getur viðkomandi ekki sótt um rekstrarleyfi gististaða líkt og eitthvað hefur borið á.

Rekstrarleyfi gististaða verða aðeins gefin út ef um atvinnuhúsnæði er að ræða eða ef útleigueiningin er í dreifbýli t.d. bændagisting. Vakin er athygli á að heimagisting er alltaf skráningarskyld og sækja þarf um heimagistingarleyfi og endurnýja það árlega.

Frumvarpið er hluti af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar á framboðshlið íbúðarhúsnæðis, á suðvesturhorni landsins, og liður í því að mæta eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði.

„Með þessari lagabreytingu verða skýrari skil á milli íbúðarhúsnæðis og atvinnuhúsnæðis þegar kemur að gistingu og horft er til raunverulegrar notkunar húsnæðis. Því er ekki lengur hægt að kaupa íbúðarhúsnæði í þéttbýli og gera það út sem gististað umfram 90 daga regluna líkt og gerst hefur í miðborginni þar sem jafnvel heilu íbúðablokkirnar hafi breyst í hótel,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Categories
Fréttir

Áfram Ísland! Tillögur að fyrirkomulagi afreksstarfs

Deila grein

07/05/2024

Áfram Ísland! Tillögur að fyrirkomulagi afreksstarfs

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnir áform um eflingu afreksíþróttastarfs - mynd
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnir áform um eflingu afreksíþróttastarfs

Skýrsla starfshóps mennta- og barnamálaráðuneytisins um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks var kynnt á blaðamannafundi í Laugardalshöll í dag. Hlutverk starfshópsins var að yfirfara og leggja til breytingar á fyrirkomulagi, löggjöf og öðru sem hópurinn taldi þurfa til að stuðningur við afreksíþróttafólk á Íslandi verði í fremstu röð. Hópurinn hefur skilað meðfylgjandi skýrslu þar sem staða og umgjörð afreksíþrótta á Íslandi er greind og settar fram tillögur að nýrri nálgun í afreksmálum og aðgerðum til nokkurra ára.

Vésteinn Hafsteinsson, fv. afreksíþróttamaður og -þjálfari, leiðir starfshópinn. Tillögur hópsins eru umfangsmiklar og lúta m.a. að aðgerðum sem tengjast stöðu íþróttafólks og réttindum, starfsemi íþróttafélaga og sérsambanda, umgjörð afreksíþrótta fyrir mismunandi aldurshópa og einnig að hlutverki ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. Einn af lykilþáttum í tillögunum er stofnun Afreksmiðstöðvar Íslands (AMÍ) innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). AMÍ er ætlað mikilvægt hlutverk í faglegri umgjörð utan um afreksfólk og þjálfara þeirra.

Starfshópurinn telur að fyrirhugaðar breytingar muni ekki aðeins styrkja afreksíþróttastarf og stuðla að auknum árangri í framtíðinni heldur einnig hafa jákvæð áhrif á allt íþróttastarf á Íslandi. Í umfjöllun starfshópsins er horft til fyrirkomulags sem þekkist víða erlendis með góðum árangri sem sniðið er að íslenskum aðstæðum.

Tillögur starfshópsins eru byggðar á breiðri og þverfaglegri nálgun og telur starfshópurinn að þær breytingar sem lagðar eru til muni hafa umtalsvert forvarnargildi, efla almenna heilsu, farsæld og lýðheilsu á Íslandi til lengri tíma litið, og á sama tíma draga úr útgjöldum heilbrigðiskerfisins. Í þessu samhengi má einnig nefna önnur mikilvæg samfélagsleg og efnahagsleg áhrif sem sterkt íþróttalíf og uppbygging íþróttainnviða getur skapað t.d. með starfsemi á sviði íþróttatengdrar ferðaþjónustu o.fl.

Í vinnu starfshópsins hefur verið lögð rík áhersla á samráð og upplýsingaöflun meðal innlendra sem og erlendra hagaðila og álitsgjafa. Mat starfshópsins er að skapa þurfi breiða samstöðu og aðkomu aðila að verkefninu til framtíðar svo unnt verði að ná framúrskarandi árangri á alþjóðlegum vettvangi íþrótta.

Blaðamannafundur í Laugardalshöll

Fjölmargar tillögur eru settar fram í skýrslu hópsins en þær mikilvægustu að mati starfshópsins eru:

  • Afreksmiðstöð Íslands (AMÍ) verði stofnuð og skilgreint skýrt hlutverk innan ÍSÍ. Markmið AMÍ verður að afreksíþróttafólk nái betri árangri í íþróttum, auk þess að efla faglega umgjörð afreksstarfs á Íslandi og þannig auka þekkingu og nýsköpun á sviði afreksíþrótta.
  • Stofnaður verði launasjóður afreksíþróttafólks og þjálfara í íþróttum. Markmiðið er að skapa sambærilegt starfsumhverfi og þekkist í nágrannalöndunum og tryggja um leið vinnumarkaðstengd réttindi.
  • Komið verði til móts við kostnaðarþátttöku íþróttafólks í landsliðsverkefnum með auknum stuðningi ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. Markmiðið er að allir hafi jafnan möguleika á að taka þátt í landsliðsverkefnum í íþróttum.
  • Fagleg umgjörð afrekssviða í grunn- og framhaldsskólum verði efld og tengd við íþróttafélög og sveitarfélög. Markmiðið er að hlúa betur að efnilegu íþróttafólki og draga úr brotthvarfi ungmenna úr íþróttum.
  • Aðkoma atvinnulífsins að afreksíþróttum verði efld. Fleiri fyrirtæki verði virkir þátttakendur í uppbyggingu afreksíþrótta.
  • Að núverandi skipulag íþróttahreyfingarinnar á Íslandi verði skoðað. Markmiðið er að meta fyrirkomulagið og hvort nýta megi betur það fjármagn sem íþróttahreyfingin fær frá stjórnvöldum í dag.

Í framhaldinu mun mennta- og barnamálaráðherra skipa þverpólitískan stýrihóp sem ásamt ÍSÍ er ætlað að leggja fram áætlun til að útfæra og fjármagna aðgerðir. Gert er ráð fyrir að innleiðing hefjist af krafti 1. janúar 2025. Áætlað er að drög að þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun liggi fyrir 15. ágúst og að hún verði lögð fram á Alþingi á haustdögum.

Að þessu tilefni hafði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra þetta að segja á facebook síðu sinni:

,,Áfram Ísland – Við ætlum að umbylta umhverfi afreksíþrótta!

Ég hef lagt ríka áherslu á aukinn stuðning við íþróttastarf í landinu. Það var þessvegna mjög ánægjulegt í gær þegar Vésteinn Hafsteinsson kynnti tillögur sem hann og fleiri hafa unnið að fyrir stjórnvöld og íþróttahreyfinguna um hvernig bæta megi stöðu og réttindi afreksíþróttafólks á Íslandi.

Tillögurnar eru metnaðarfullar og því mikið gleðiefni að sama dag var samþykkt í ríkisstjórn að taka þær föstum tökum og vinna að því markmiði að innleiðing og framkvæmd geti hafist strax í upphafi árs 2025. Ég er sannfærður um að þessar breytingar munu verða til þess fallnar að jafna stöðu íþróttafólksins okkar miðað við nágrannalönd og að þær verði í raun algjör umbylting á allri umgjörð og stuðningskerfi íþrótta á Íslandi.

Það er ljóst að við höfum staðið höllum fæti í samanburði við nágrannalönd þegar kemur að fjárfestingu í íþróttafólkinu okkar. Við þurfum stór skref til að breyta þessari staðreynd og þau skref höfum við og munum halda áfram að taka. Við erum t.d. búin að tryggja yfir 8 milljarða í byggingu nýrrar þjóðarhallar, fjárfestingu í nýju svæðaskipulagi íþróttahreyfingarinnar, hvatasjóði til að auka þáttöku barna í íþróttum o.fl. Nú þurfum við að taka þessar tillögur með sama hætti og tryggja að þær komist til framkvæmda!

Öflugt íþróttastarf er stórt forvarnarmál en íþróttafólkið okkar er líka mikið þjóðarstolt og það er skylda okkar sem samfélags að tryggja að umgjörðin sé sambærileg og í öðrum löndum.

🇮🇸 ÁFRAM ÍSLAND!”

Categories
Fréttir

Aðgerðir í neytendamálum

Deila grein

02/05/2024

Aðgerðir í neytendamálum

Neyt­enda­mál voru einn af þeim mála­flokk­um sem sett­ir voru í brenni­dep­il við stofn­un menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins í fe­brú­ar árið 2022. Þannig hef­ur stuðning­ur við sam­tök á sviði neyt­enda­mála, eins og Neyt­enda­sam­tök­in og Hags­muna­sam­tök heim­il­anna, verið auk­inn, ráðist var í út­tekt gjald­töku og arðsemi ís­lensku bank­anna til að varpa ljósi á þró­un­ina á þeim markaði, stutt hef­ur verið við verðlags­eft­ir­lit ASÍ í þágu neyt­enda, í gangi er út­tekt á hvernig staðið er að upp­lýs­inga­gjöf og leiðbein­ing­um gagn­vart neyt­end­um í tengsl­um við lán­veit­ing­ar út frá mis­mun­andi lána­form­um, áhrif­um vaxta, verðbólgu o.s.frv.

Á Alþingi í vor mælti ég einnig fyr­ir frum­varpi um ný markaðssetn­ing­ar­lög sem marka ákveðin tíma­mót. Megin­áhersl­an í þeim er að efla neyt­enda­vernd. Sérá­kvæði verður um óhæfi­lega samn­ings­skil­mála, sem þýðir til dæm­is að ef samn­ings­skil­mál­ar í vöru- og þjón­ustu­kaup­um eru ósann­gjarn­ir gagn­vart neyt­end­um þá get­ur Neyt­enda­stofa gripið til aðgerða. Annað sem skipt­ir mig miklu máli og teng­ist ís­lensk­unni er að það er skerpt á þeirri meg­in­reglu að all­ar aug­lýs­ing­ar skuli vera á ís­lensku. Þá er ætl­un­in að draga úr hindr­un­um í gild­andi reglu­verki en lög­in séu ein­föld, skýr, aðgengi­leg og tækni­hlut­laus og leggi ekki óþarfa byrðar á at­vinnu­lífið. Einnig er lögð áhersla á að tryggja eins og kost­ur er að ákvæði lög­gjaf­ar um að þessi mál séu í sam­ræmi við lög­gjöf í Evr­ópu. Er þannig stutt við það meg­in­mark­mið í stefnu stjórn­valda að styrkja sam­keppni inn­an­lands, tryggja stöðu neyt­enda bet­ur í nýju um­hverfi netviðskipta og efla alþjóðlega sam­keppn­is­hæfni ís­lensks at­vinnu­lífs.

Í vik­unni voru birt í sam­ráðsgátt drög að nýrri heild­ar­stefnu í neyt­enda­mál­um sem ég stefni á að mæla fyr­ir á Alþingi nú á vorþingi. Sam­hliða er sett fram aðgerðaáætl­un sem unnið verði eft­ir til árs­ins 2030. Um er að ræða níu skil­greind­ar aðgerðir sem ná yfir frek­ari upp­færslu og nú­tíma­væðingu lög­gjaf­ar á sviði neyt­enda­mála, aukna áherslu á netviðskipti og staf­væðingu, aukna neyt­enda­vernd á sviði fjár­málaþjón­ustu og áherslu á fjár­mála­læsi, og sér­stak­ar þarf­ir viðkvæmra hópa neyt­enda svo dæmi séu tek­in. Í því sam­hengi lang­ar mig sér­stak­lega að nefna að reglu­verk um smá­lán verður tekið til end­ur­skoðunar til að vernda þá sem höll­um fæti standa og setja skýr­ari leik­regl­ur á því sviði. Ýmis skref hafa verið stig­in á und­an­förn­um árum í þeim efn­um en ljóst að ýmis tæki­færi eru til frek­ari úr­bóta á því sviði.

Mik­il vinna hef­ur átt sér stað inn­an menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins á und­an­förn­um árum til þess að und­ir­byggja raun­veru­leg­ar aðgerðir í þágu neyt­enda til dags­ins í dag og til framtíðar. Ég er sann­færð um að þær aðgerðir sem við mun­um halda áfram að hrinda í fram­kvæmd munu bæta sam­fé­lagið okk­ar og neyt­enda­vernd í þágu okk­ar allra.

Lilja Dögg Alfreðsdóttirmenn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. maí 2024.

Categories
Fréttir

Ávarp Einars Þorsteinssonar borgarstjóra

Deila grein

24/04/2024

Ávarp Einars Þorsteinssonar borgarstjóra

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, ávarpaði 37. Flokksþing Framsóknar sem fram fór um liðna helgi. Einar er fyrsti borgarstórinn í sögu Framsóknar og fer afar vel af stað með sínu vaska liði.

Ræðu Einars má sjá hér: https://fb.watch/rFeX9tzf7w/

Ræða borgarstjóra í heild:

Kæru vinir og félagar

Þau gæfustu lifa af – en ég kem betur að því á eftir.

Mikið er gaman að vera hérna með ykkur – á þessum áhugverðu tímum í íslenskum stjórnmálum.

Við erum á tímum þar sem við erum að takast á í umræðunni um grundvallarhugtök, hugtök sem lýsa því hvernig við ætlum að leysa stóru áskoranir samfélagsins. Og ég fyllist stolti þegar ég lít hérna yfir salinn – stolti yfir því að tilheyra hópi fólks sem velur að mæta hingað á laugardegi til þess að ræða hvað við getum gert til þess að samfélagið okkar megi þroskast, þróast og verða betra.

Og áskoranirnar eru stórar. Íslenskt samfélag vex hratt, og í Reykjavík hefur vöxturinn aldrei verið jafn hraður. Ríflega 4000 manns fluttu til borgarinnar í fyrra og á hverri viku flytja 90 manns til höfuðborgarsvæðisins. Þetta reynir á alla innviði, leik og grunnskóla, félagsþjónustu, húsnæðismálin, þjónustu við fatlað fólk, og svo auðvitað samgöngumálin. Þess vegna er gott að vera í flokki sem hefur málefni fjölskyldna í forgrunni, stendur með þeim sem höllum fæti standa og hefur leitt stærsta samgönguverkefni Íslandssögunnar sem er samgöngusáttmálinn á höfuðborgarsvæðinu.

Það er nefnilega þannig að það er útilokað fyrir höfuðborgarsvæðið allt að halda áfram að vaxa nema allar þær fjölbreyttu innviðaframkvæmdir sem sáttmálanum fylgja – komist til framkvæmda. Og auðvitað er þetta risastórt mál í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Því það þýðir ekkert að segja fólki að breyta ferðavenjum sínum, að fækka bílferðum – nema bjóða upp á raunverulegan valkost með öflugum almenningssamgöngum. Og þetta er ekki einkamál höfuðborgarsvæðisins því höfuðborgin þjónar landinu öllu.

Í drögum að borgarstefnu sem Sigurður Ingi formaður okkar setti í gang kemur fram að samfélagslegt áhrifasvæði Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins markast af Hvítá-Hvítá, þ.e. um Suðurnes, austur á Selfoss og norður að Borgarnesi. Íbúafjöldi telur um 318 þúsund íbúa eða tæp 82% þjóðarinnar.

Þá er í drögunum lagt til að Akureyri yrði skilgreind sem svæðisborg – Áhrifasvæði Akureyrar nær um Eyjafjörð og að einhverju marki austur til Húsavíkur og Mývatnssveitar. Íbúafjöldi telur rúmlega 30.000 manns eða um 8% þjóðarinnar. Samanlagt nær áhrifasvæði höfuðborgarsvæðisins og Akureyrar til 90% þjóðarinnar. 

Ég nefni þetta því ég tel afar mikilvægt að við ákvarðanir um skipulag og uppbyggingu innviða verði horft á höfuðborgarsvæðið og Akureyri og áhrifasvæðin bæði sem tvær heildir þegar kemur að atvinnusókn, búsetu og samgöngum innan þess. Þetta þýðir ekki að við eigum að gleyma öðrum landshlutum, þvert á móti – en það er mikilvægt að taka ákvarðanir sem byggja á þessari sýn um hagsmuni áhrifasvæðisins.

En hvernig leysum við stórar áskoranir?

Framsóknarflokkurinn hefur í meira en heila öld starfað á grundvelli þeirrar hugsjónar að það borgi sig að vinna saman. Við höfum alltaf trúað því að summa hlutanna geti orðið stærri en heildin með góðri samvinnu. Okkar leiðarljós gegnum öll þessi ár er það að ef við nálgumst verkefni dagsins og áskoranir morgundagsins öfgalaust af miðjunni og vinnum saman – þá náum við árangri. Samvinna virkaði í gamladaga og samvinna virkar í dag.

Það var samvinna sem leiddi af sér uppbyggingu um allt land á þeim tímum sem við vorum fátækasta þjóð Evrópu. Það bjuggu 90 þúsund manns í landinu, við vorum enn undir Dönum – og Reykvíkingar voru 15 þúsund. Og á þessum tímum hófst á grundvelli samvinnu uppbygging um allt land á sviði skólamála, verslunar, og lýðheilsumála sem renndu stoðum undir sjálfstæða þjóð.

Samfélagið á þessum tíma beinlínis hrópaði á samhent átak fólks sem vildi stuðla að nauðsynlegum framförum og jákvæðum breytingum. Þarna varð til samvinnuhugsjónin – leiðarstef okkar Framsóknarfólks – sem hefur skilað okkur umbyltingu á lífsháttum og kjörum landsmanna gegnum árin. Þetta ákall frá almenningi er enn hærra í dag.

Charles Darwin setti fram kenninguna um dýraríkið – að þau hæfustu lifðu af. Herbert Spencer sem var heimspekingur og félagsfræðingur ákvað að færa þetta yfir á samfélag manna – og meðal annars uppúr þeirri hugmynd spratt sú hugmynd að keppni – þar sem maður keppir um gæði lífsins við næsta mann skapi mestu velsældina. Þetta er grunnur markaðskerfisins – sem í grunninn er afar mikilvægt.

En við vitum að samfélagið er ekki svona einfalt – afleiðingar óheflaðrar markaðshyggju eru aukinn ójöfnuður og við sjáum að þótt jöfnuður sé mjög mikill á Íslandi þá er hann að grafa undan stærstu lýðræðisríkjum í kringum okkur. Besta – eða versta birtingarmyndin af því er sú – að allar líkur eru á því að DonaldTrump verði kosinn aftur forseti bandaríkjanna. Við sjáum slíka skautun tæta samfélög í sundur og búa til aðstæður þar sem fólk hatast og vinnur á móti hvort öðru. Mótefnið við þessu ástandi hlýtur að vera öfgalaus samvinna af miðjunni.

Og talandi um Trump – við notum aldrei andheitið við orðið polarisation/skautun– en ef við hugsum það aðeins þá er það auðvitað orðið samvinna – það er vera tilbúin að hlusta, taka mark á og virða skoðanir annarra og vinna saman að hagsmunum samfélagsins.

Þau hæfustu lifa af – Ég rakst á ansi góða setningu frá rithöfundinum Sverri Norland um daginn. Hann sagði – þau gæfustu lifa af.  Í dýraríkinu eru það dýrin eða lífverurnar sem vinna saman, meðvitað eða ómeðvitað, býflugan sem frjóvgar blómið, sveppurinn sem lifir á trénu, tréð sem veitir smáblómunum skjól. Þið vitið hvað ég er að fara. Þetta á þó enn betur við um samfélag manna. Við sjáum það af framlagi Framsóknar til samfélagsins í gegnum áratugina.

Það er áhugavert að velta orðanotkun fyrir sér í þessu samhengi. Það má velta fyrir sér þeim fjölmörgu orðum í íslenskri orðabók sem eiga það sameiginlegt að byrja á „sam“. Samvinnufélag, saman, samstarf, samheldni, samvinna, samfélag, samskipti… Allt er þetta jákvæð orð.

Ég sagði áðan að við værum á þeim tímum þar sem við þurfum að takast á við stórar áskoranir. Og sem betur fer er samvinnan við lýði. Og ekki bara hér á Íslandi – heldur fer hún vaxandi erlendis.

Meira að segja í mekka kapitalismans í Bandaríkjunum er kaupfélagshugsjónin – sem við Framsóknarfólk þekkjum svo vel – að ryðja sér til rúms undir heitinu co-ops. Labbið niður Manhattan og kíkið inn í matvörubúð undir merkjum co-ops. Íbúinn greiðir vægt gjald en tryggir sér aðgang að gæða matvælum og góðri þjónustu. Þetta rekstarform þrífst í fleiri geirum. Fólks stofnar fyrirtæki, húsnæðisfélögeða kaupir búgarð og rekur í sameiningu. Þetta er áhugaverð þróun.

Og hvað er deilihagkerfi annað en samvinnulausn? Hopphjólin sem skiptumst á að nota, airbnb, fataloppurnar – allt byggir þetta á að einn nýtir og svo næsti. Og á stærri skala þá sjáum við gríðarlega verðmætasköpun í viðskiptalífinu á grundvelli samvinnu. Allir klasarnir – Orkuklasinn, Sjávarklasinn, Fjártækniklasinn, allt gengur þetta út á að fólk sameinast yfirleitt undir einu þaki, deilir þekkingu og reynslu og vinnur saman að því að þróa lausnir sem gagnast samfélaginu en skapa líka arð fyrir eigendur. Húsið Gróska í Vatnsmýrinni er frábært dæmi um samvinnuhugsun þar sem þekkingarfyrirtæki vinna saman innan háskólasamfélagsins til að þróa lausnir og skapa verðmæti.

Hringrásarhagkerfið er dæmigerð samvinnuhugsun – þar sem einn nýtir afurðir annarra til að skapa verðmæti og grunnurinn er ávallt samvinna – eitt frábært dæmi um þetta er fyrirtækið Kerecis sem nýtir fiskroð frá fiskvinnslunni á Ísafirði og þróaði lækningavöru – og fyrirtækið var selt fyrir 175 milljarða í fyrra. Samvinna og markaðshagkerfi eru því ekki andstæður heldur er samvinnan tól til að nýta betur þekkingu og ná meiri árangri.

Við fulltrúar Framsóknar í Reykjavík höfum lagt kapp á að auka samvinnu og samtal á milli flokka í borginni. Ég held að það gangi ágætlega en borgarstjórn var hástökkvari í síðustu traustsmælingu Gallup þar sem traust á borgarstjórn jókst um 7% frá síðustu mælingu. Áskoranirnar eru margar í borginni. Við leiðum meirihlutann úr stóli borgarstjóra í fyrsta skipti og eitt af mínum fyrstu verkefnum var að fara út í öll hverfi og eiga beint og milliliðalaust samtal við borgarbúa.

Þessir fundir hafa verið afar góðir og mikil næring fyrir mig að hlusta á sjónarmið borgarbúa. Það er nefnilega hlutverk okkar stjórnmálamanna að hlusta og taka skoðanir þeirra sem fela okkur umboð sitt til greina. Jafnvel þótt við þurfum stundum að taka erfiðar ákvarðanir.

Kæru vinir – Niðurstaða mín er sú að maður gerir ekkert einn – Verkefnin okkar, stór og smá – ganga betur og ganga upp yfir höfuð ef við finnum sameiginlega fleti og vinnum saman. Þetta höfum við Framsóknarfólk alltaf vitað og almenningur veit það líka. Það er frábært að finna kraftinn sem er hér í salnum, njótum flokksþingsins og höldum áfram að vinna verkin og skila árangri. Til þess erum við.