Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, lýsti í störfum þingsins yfir miklum áhyggjum af alvarlegri stöðu sem skapast hefur vegna fyrirhugaðrar lokunar á áframhaldandi þverfaglegri endurhæfingu fyrir ungmenni með flókin geðræn og félagsleg vandamál.
Stjórn Janusar endurhæfingar hefur óskað eftir formlegum samningaviðræðum við VIRK, heilbrigðisráðuneytið, félags- og húsnæðismálaráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið til að tryggja að starfsemin haldi áfram og að viðkvæmasti hópur ungs fólks haldi áfram að fá þá aðstoð sem hann þarfnast.
Heilbrigðisráðherra einn mælir með lokun
„Það er augljóst að enginn mælir með lokun Janusar – nema heilbrigðisráðherra. Tugir fagfélaga, sérfræðinga, geðlækna og hagsmunasamtaka, auk yfir 3.000 einstaklinga, hafa stigið fram og krafist þess að starfsemin haldi áfram. Þetta snýst ekki um rekstrarform. Þetta snýst um réttindi. Þetta snýst um lífsbjargandi úrræði sem okkar viðkvæmasti hópur ungs fólks hefur þörf fyrir,“ sagði Ingibjörg.
Árangur í aldarfjórðung
„Fram er komið tilboð frá Janusi um áframhaldandi samstarf – en það vantar vilja stjórnvalda til að taka við því og bregðast skjótt við. Við erum að tala um úrræði sem hefur í aldarfjórðung skilað árangri – þar sem yfir helmingur þátttakenda hefur komist aftur út í samfélagið í nám eða vinnu. Samt er verið að loka þessu úrræði án þess að nokkuð sambærilegt komi í staðinn.“
Áskorun til stjórnvalda
„Verður þessi ríkisstjórn sú sem tók við útréttri lausnarhönd – en gerði ekkert? Mun hún bera ábyrgð á því að úrræði sem hefur bjargað mannslífum verði lagt niður? Verða viðbrögðin áfram þögnin ein?
Tíminn er að renna út. Ég skora á ráðherra hér og nú að taka þessa beiðni til formlegrar afgreiðslu. Ég skora á þingmenn stjórnarflokka að beita sér. Það er enn hægt að finna lausnir – en það krefst pólitísks vilja,“ sagði Ingibjörg að lokum.
Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:
02/05/2025
Netárás getur lamað samfélagið á augabragðiHalla Hrund Logadóttir, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins afleiðingar umfangsmikils rafmagnsleysis á Spáni og í Portúgal, þar sem samfélög urðu fyrir alvarlegum truflunum – símalaus, netlaus og með almenningssamgöngur í ólestri.
„Ég þekki vel úr mínum fyrri störfum sem orkumálastjóri að kerfið okkar, með aukinni sjálfvirkni og snjallmælavæðingu, er að verða viðkvæmara fyrir slíkum árásum. Strangt til tekið má með slíkum árásum slökkva á hverfum, bæjarhlutum eða -félögum, jafnvel stórum parti landsins, og það má líka ráðast á lykilinnviði eins og flug,“ sagði Halla Hrund. Þó að bilunin ytra hafi ekki stafað af netárás, undirstrikar atvikið hvernig sambærileg áhrif gætu orðið hérlendis með alvarlegum afleiðingum.
Viðbúnaður þarf að vera raunhæfur – og fjármagnaður
Þrátt fyrir að ýmis jákvæð skref hafi verið stigin – svo sem samvinna Samorku, KraftCERT og almannavarna – segir Halla Hrund að núverandi viðbragðsáætlun dugi skammt. Hún tekur sérstaklega fram að:
- Raunhæfar viðbragðsáætlanir: Þær þurfa að vera yfirgripsmiklar og reglulega æfðar.
- Fjármagn til allra lykilstofnana: Ekki einungis Fjarskiptastofu, heldur einnig Samgöngustofu, raforkueftirlits og embættis landlæknis.
- Mat á varaafli mikilvægra innviða: Sérstaklega þarf að meta hvort varaafl Landspítalans og annarra lykilstofnana dugi við stórfelldum truflunum.
Netöryggi er þjóðaröryggismál
„Ég skora á ríkisstjórnina að setja þetta mál í forgang,“ sagði hún að lokum. „Netöryggi er ekki einungis tæknilegt viðfangsefni heldur beinlínis þjóðaröryggismál – og megi því ekki sinna af hálfkáki.“
Ræða Höllu Hrundar í heild sinni á Alþingi:
01/05/2025
140 ára fæðingarafmæli Jónasar Jónssonar frá HrifluVið minnumst 140 ára fæðingarafmælis Jónasar Jónssonar frá Hriflu, sem var einn áhrifamesti stjórnmálamaður og hugsuður Íslands á sinni tíð. Jónas frá Hriflu, eins og hann er jafnan kallaður, var leiðandi afl í Framsóknarflokknum og gegndi lykilhlutverki á umbrotatímum íslenskrar þjóðar. Jónas var tákn og andlit flokksins í huga Íslendinga á 20. öldinni.
Jónas frá Hriflu
Jónas Jónsson fæddist í Bárðardal árið 1885, 1. maí. Hann ólst upp við sveitastörf á bænum Hriflu, æskuheimili sínu, og kynntist þar af eigin raun þeim lífskjörum og áskorunum sem íslenskir bændur og alþýða stóðu frammi fyrir á þessum tíma. Þrátt fyrir bág kjör sóttist Jónas eftir menntun. Hann stundaði nám bæði í Danmörku og Englandi. Menntavegur hans var nokkuð óhefðbundinn en mótaði hann og varð til þess að hann fékk brennandi áhuga á uppbyggingu íslensks samfélags. Að námi loknu sneri Jónas aftur heim uppfullur af hugmyndum um félagslegar framfarir og framsókn. Hann hóf störf sem kennari og fræðimaður og lét strax að sér kveða í umræðu um þjóðfélagsmál.
Stofnun Framsóknarflokksins og pólitískar línur lagðar
Pólitísk arfleifð Jónasar frá Hriflu spannar marga þætti samfélagsins og má skilgreina hann sem róttækan umbótamann. Jónas Jónsson fæðist um svipað leyti og samvinnuhugsjónin festi hér rætur. Hann lagðist snemma á sveif með henni. Samvinnuhreyfingin var í hans augum meginstoð félagshyggjuþjóðfélagsins. „Stofnun Framsóknarflokksins var beinlínis skipulögð af honum,“ sagði Jón Sigurðsson í Ystafelli um Jónas Jónsson frá Hriflu. Framsóknarflokkurinn var stofnaður 16. desember árið 1916. Að auki var hann einn af frumkvöðlunum að stofnun Alþýðusambands Íslands og Alþýðuflokksins haustið 1916. Jónas hafði mjög skýra sýn á það hvernig hið pólitíska landslag ætti að vera á Íslandi á þessum tíma. Hann taldi að það sem myndi henta Íslandi best væri „eðlileg flokkaskipting“, þ.e. þrískipting í íhaldsflokk, frjálslyndan flokk og jafnaðarmannaflokk.
Pólitískur ferill Jónasar
Jónas fer að starfa með Framsóknarflokknum og var driffjöðrin að stofnun dagblaðsins Tímans, 17. mars 1917. Jónas var kjörinn á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn árið 1922. Jónas var þekktur fyrir skelegg viðhorf sín og kröftugar ræður þar sem hann mælti fyrir félagslegu réttlæti, menntun almennings og fullu sjálfstæði Íslands. Árið 1927 varð hann dóms- og kirkjumálaráðherra í ríkisstjórn og gegndi því embætti til 1932. Sem forystumaður í Framsóknarflokknum mótaði Jónas stefnuna á þessum umbrotatímum. Hann var formaður flokksins árin 1934 til 1944 og stýrði Framsókn í gegnum kreppuárin og síðari heimsstyrjöldina. Á þeim tíma festi flokkurinn sig í sessi sem einn af burðarásum íslenskra stjórnmála.
Menntun þjóðarinnar
Menntamál þjóðarinnar voru Jónasi einkum hugleikin og uppbygging menntakerfisins. Hann átti stóran þátt í stofnun og eflingu margra menntastofnana. Má þar nefna Menntaskólann á Akureyri, Menntaskólann á Laugarvatni, Samvinnuskólann og Héraðsskólann á Laugum. Þá gegndi hann um tíma starfi skólastjóra Samvinnuskólans, fræðslustofnun samvinnuhreyfingarinnar. Húsnæðismál Háskóla Íslands voru honum einnig mikilvæg og í byrjun fjórða áratugarins beitti hann sér fyrir setningu laga sem heimiluðu byggingu nýs háskólahúss. Með þessu lagði Jónas sitt af mörkum til að auka menntun bæði í þéttbýli og dreifbýli, í samræmi við þá sannfæringu sína að þekking og framfarir ættu að ná til allra landsmanna.
Menningarmál ætíð veigamikil
Menningarmál þjóðarinnar voru honum ætíð ofarlega í huga. Hann var eindreginn talsmaður íslenskrar tungu, bókmennta og lista og lagði áherslu á að menning þjóðarinnar byggðist á þjóðlegum grunni. Oft var Jónas gagnrýninn á listamenn eða strauma í menningu sem honum þóttu of framandlegir eða í andstöðu við hefðir þjóðarinnar. Deilur hans við ýmsa fræðimenn og rithöfunda vöktu talsverða athygli á sínum tíma, enda þótti sumum sem Jónas gengi of langt í menningarmálum. Hins vegar beitti hann sér ötullega fyrir því að styrkja umgjörð menningarmála og má nefna Menningarsjóð, stofnun Ríkisútvarpsins, styrki til listamanna úr ríkissjóði og að reist yrði Þjóðleikhús.
Lokaorð
Nú, 140 árum eftir fæðingu Jónasar frá Hriflu, má sjá að margt í framtíðarsýn hans hefur orðið að veruleika og var til þess fallið að efla íslenskt samfélag. Auðvitað hefur tíminn einnig fært samfélaginu breytingar sem Jónas gat vart séð fyrir, en grunnstef hans um menntun, samvinnu og þjóðlega sjálfsvirðingu má enn greina víða. Arfleifð Jónasar lifir þannig góðu lífi og minnir okkur á mikilvægi framtíðarsýnar og hugsjóna við uppbyggingu þjóðar. Segja má að áhrif Jónasar á íslenskt samfélag á mikilvægu mótunarskeiði eigi sér fáar hliðstæður.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. maí 2025.
28/04/2025
Reykur og speglar – Sjónhverfingar í ÁrborgÁ núlíðandi kjörtímabili hefur mikið verið rætt og ritað um rekstur í Sveitarfélaginu Árborg. Margt misjafnt verið sett fram og misgáfulegt.
Við lok síðasta kjörtímabils var sjálfstæðismönnum tíðrætt um að rekstur Sveitarfélagsins Árborgar væri á versta veg og að reksturinn væri ekki sjálfbær og að fráfarandi meirihluti hefði búið svo um hnútana að eftirlitsnefnd sveitarfélaganna væri í startholunum í Innviðaráðuneytinu til að taka yfir reksturinn. Því var haldið fram að í Árborg hefði verið farið of geist í framkvæmdir og að aðhald í rekstri væri slakt. Það sem gerðist var að ráðist var í byggingu skóla, leikskóla og íþróttahöll var byggð fyrir rúmar 1.300 mkr. Var það allur glæpurinn en sennilega gleymdist að senda inn spurningarlista upp í Valhöll hvort þetta væri í lagi og hvort ekki væru réttir verktakar ráðnir til verkanna.
Hvað sem því líður þá er rétt að halda sig við staðreyndir mála. Skuldaviðmið sveitarfélagsins fór í 156,6% í lok árs 2022 en var 147,4% árið 2023 og er nú 107,6% samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2024. Skuldaviðmið skv. reglugerð sem er sett í þeim tilgangi að setja skýr viðmið um rekstur og fjárhagsstöðu sveitarfélaga, svo þau uppfylli kröfur um fjárhagslega sjálfbærni skv. sveitarstjórnarlögum.
Skuldahlutfallið sem reiknast sem heildarskuldir af reglulegum tekjum skal ekki vera hærra en 150% enda ef hlutfallið er umfram fyrrnefnt hámark til lengri tíma er rekstur sveitarfélaga ekki sjálfbær. Hinsvegar er vert að hafa í huga að á tímum mikilla fjárfestinga kann hlutfallið að kíkja tímabundið yfir hámarksviðmiðið en ef horfur eru á að tekjur aukist í náinni framtíð þá er mögulegt að réttlæta slíka ráðstöfun.
Hvað gerðist eiginlega í Árborg?
Er nú von að fólk spyrji sig þeirrar spurningar. Hvernig gat staða sveitarfélagsins farið úr því að vera ágæt, í hræðilega og aftur í ágæta á innan við einu kjörtímabili? Undirritaður ætlar að gera tilraun til að svara þessari ágætu spurningu.
Á síðasta kjörtímabili var fjárfest verulega í innviðum og íþróttaaðstöðu til handa íbúum sveitarfélagsins. Vel var í lagt til að mæta fyrirsjáanlegri þörf á innviðum vegna fólksfjölgunar og fyrirhugaðri fólksfjölgun. Núverandi meirihluti málaði upp svo dökka mynd af fjárhagsstöðunni að ritað var um bága fjárhagsstöðu í Málgagninu og öðrum fréttamiðlum eins og að sveitarfélagið væri nánast gjaldþrota. Með 156,6% skuldaviðmið. Er það mjög hæpin túlkun á alvarleika stöðunnar.
Nefna ber að lánveitendur héldu mjög að sér höndum í lánveitingum til sveitarfélagsins, svo mjög, að sveitarfélagið þurfti að glíma tímabundið við lausafjárkreppu. Má segja að lausafjárkreppa sveitarfélagsins hafi eingöngu verið meirihluta sjálfstæðismanna um að kenna því svo dökk mynd var á borð borin. Þessi atlaga sjálfstæðismanna að sveitarfélaginu hefur haft það í för með sér að lánakjör sem sveitarfélagið hefur þurft að una við hafa verið mun óhagstæðari en efni stóðu til um og má því segja að málflutningur þeirra hafi stórskaðað lánshæfismat sveitarfélagsins til lengri tíma.
Á undanförnum árum hefur sveitarfélagið því greitt hærri vexti en eðlilegt getur talist vegna lækkaðs lánshæfismats lánveitenda. Vert er að benda á að lánveitendur eru ekki einhverjar ónafngreindar verur. Lánveitendur eru venjulegt fólk úti í bæ sem les sömu fréttir og þú, lesandi góður, og verður fyrir sömu áhrifum og allir aðrir sem fylgja fréttum líðandi stundar. Því ber að tala um rekstur Sveitarfélagsins af yfirvegun en ekki léttúð.
Tilgangurinn helgar meðalið, allir áttu að fá það á tilfinninguna að rekstrarvandi sveitarfélagsins væri alvarlegur en nú væru sjálfstæðismenn komnir í verkið og það yrði lagað. Þó var það svo að þegar rætt var um leiðir benti núverandi meirihluti ávallt á ráðgjafa KPMG og firrtu sig allri ábyrgð á lausnunum. Þau væru einfaldlega að gera það sem sérfræðingarnir væru að leggja til. Hinsvegar ber einnig að nefna í samhengi við rekstraraðhald hjá sveitarfélaginu þá hafa starfsmenn Árborgar sýnt mikla þrautsegju og bera að þakka þeim fyrir einstakt framlag á kjörtímabilinu.
Reksturinn stökkbreytist með íbúafjölgun
Nú er svo komið að fréttir um andlát sveitarfélagsins hafa verið stórlega ýktar. Svo komst skáldið góða að orði um eigið andlát og má beita sömu kómík um málflutninginn sem að framan er rakin. Skuldaviðmið hefur lækkað niður í 107%. Rekstrartekjur hafa tvöfaldast á fjórum árum. Á árinu 2020 voru heildar rekstrartekjur Sveitarfélagsins 11.000 mkr. en voru 23.000 mkr. á árinu 2024. Hér er mismunur um 12.000 mkr. eða ríflega tvöföldun á fjórum árum. Eru breytingarnar núverandi meirihluta að þakka? Svarið er einfalt, nei. Hér er um að ræða breytingar vegna verulegrar aukningar á skattheimtu og vegna íbúafjölgunar. Til viðbótar, njótum við fjárfestinga sem ráðist var í á síðasta kjörtímabili því svigrúmið til að taka við fjölgun íbúa á núverandi kjörtímabili er mögulegt án verulegra fjárútláta.
Sjálfstæðismenn hafa á kjörtímabilinu staðið fyrir stóraukinni skattlagningu á íbúa og fyrirtæki í formi útsvarshækkunar, hækkunar á fasteignaskatti og gjaldskrám. Nefna ber að einskiptisgreiðslur sem sveitarfélaginu bárust á árinu 2024 voru aukaútsvar vegna tímabundinnar hækkunar, sem nam 1.200 mkr. og nam sala á byggingarétti í Björkurstykkinu svokallaða um 1.200 ma.kr. Samanlagt eru þessir skattar um 2.400 mkr. sem innheimtir voru á árinu 2024 í eitt skipti. Langtímaskuldir hafa jafnframt verið auknar um tæpar 1.900 mkr. á kjörtímabilinu, frá árinu 2022.
Byggingaréttargjaldinu hefur nú verið breytt á miðbæjarsvæði Selfoss til lækkunar og tekin hefur verið ákvörðun um að halda ekki áfram með innheimtu á viðbótarálagi á útsvar á núlíðandi ári. Enda er tæplega lagaheimild fyrir því.
Það má spyrja sig hvort slíkar íþyngjandi álögur fyrir íbúa hafi verið nauðsynlegar í ljósi stöðunnar nú eða hvað heldur þú lesandi góður?

Arnar Freyr Ólafsson, oddviti Framsóknar og bæjarfulltrúi í Árborg.
Greinin birtist fyrst á sunnlenska.is 28. apríl 2025.
28/04/2025
Lægjum öldurnarEr sanngjarnt að greitt sé gjald fyrir notkun á sjávarauðlind þjóðarinnar? Já það er sanngjarnt. Auðlindagjöld sem nálgun í nýtingu takmarkaðra auðlinda er alþjóðlega viðurkennd leið og það er réttlátt að þjóðin fái arð af verðmætum náttúruauðlindum sínum líkt og fisknum í sjónum.
Þá er það næsta stóra spurning: Er svigrúm til að hækka veiðigjaldið? Já, það er svigrúm. Það er hins vegar mjög misjafnt eftir stærð útgerða, eðli vinnslunnar – og ekki sama hvernig það er útfært. Útfærslan hefur ólík áhrif á bæjarfélög og landshluta sem ríkisstjórninni ber skylda að horfa til.
Greiningar og gögn skipta máli
Þess vegna skipta greiningar og gögn máli; þær eru grunnur að því hvert ákvarðanir leiða okkur og hvort markmið, sem verða að vera vel skilgreind, náist. Þessu þarf ríkisstjórnin að sinna þannig að vel sé að verki staðið. Í rekstri er fyrirsjáanleiki líka grundvallaratriði. Því er eðlilegt að mikil breyting á veiðigjaldi með stuttum fyrirvara valdi titringi. Við verðum að tryggja að útflutningsgreinar Íslands séu sterkar, ekki síst nú þegar að óvissa í heiminum er mikil. Samkeppnishæfur aðgangur að alþjóðamörkuðum þrífst best í lygnu viðskiptaumhverfi en ekki í ólgusjó.
Hótanir og herská orðræða er engum til gagns
En það að útgerðin hóti lokun vinnslu; að skella í lás á landsbyggðinni um leið og hækkun gjalda eru nefnd á nafn myndar djúpa gjá í umræðunni og sú gjá er engum til góða. Hún er vatn á myllu frekari deilna. Hún mun ýta undir að sjávarútvegurinn verði talaður niður, í stað upp, í samfélaginu og auka pólitískt umrót hans og áskoranir. Saga margra byggðarlaga, eftir að kvótakerfinu var komið á, er oftar en ekki saga missis og deilna í stað sögu sóknar og trausts. Því þarf sjávarútvegurinn að nálgast orðræðu um gjöld af nýtingu auðlindarinnar af auðmýkt.
Stjórnmálin mega heldur ekki með orðræðu sinni og yfirlýsingum nánast vinna að því að gera sjávarútveginn, hryggjarstykki í efnahagslífi Íslands, að einhvers konar sameiginlegum óvin þjóðarinnar. Það er hvorki gagnlegt né við hæfi. Það að hræða fólk – hvort sem er af útgerðinni eða ríkisstjórninni eins og umræðan er núna – er ekki góð leið til sátta almennt.
Kjölfesta byggðarlaga á marga vegu
Þar sem útgerðir hafa byggt upp og fest rætur hafa samfélög vissulega dafnað á marga vegu. Nægir að nefna Höfn, Dalvík og Vestmannaeyjar. Tekjur sveitarfélaga eru meiri vegna afleiddra starfa sem tengjast sjávarútvegi svo sem í vinnslu, hafnarstarfsemi og iðnaði. Þá eru fjölmargar þjónustugreinar, mennta- og menningarlíf háðar blómlegu atvinnulífi í sjávarbyggðum. Þetta víðfeðma net sem samfélög um allt land treysta á hvílir á grunni sjávarútvegsins og hefur þróun hans og styrkur til skemmri og lengri tíma því áhrif langt út fyrir starfsemi sjálfar útgerðirnar. Þess vegna skipta greiningar og samvinna máli svo að ákvarðanataka sé upplýst og vönduð, og áhættur við allar breytingar lágmarkaðar.
Finnum farveg til samvinnu og samheldni
Því miður er tilfinningin sú að endurtekin átök tengd þessum grunnatvinnuvegi hafi leitt af sér að fólki almennt þyki almennt minna vænt um sjávarútveginn en áður; grein sem ætti að vera sterkara sameinandi afl. Saga okkar er samofin sjósókn og þar höfum við höfum byggt upp einstaka þekkingu á heimsvísu. Í störfum mínum hjá utanríkisráðuneytinu og Harvard sótti ég reglulega stærstu sjávarútvegssýningar heims, fyrst í Brussel og síðar Boston, og upplifði svo sterkt að það horfa allir til Íslands í þessari mikilvægu grein.
Verðmætasköpun og hátækni fyrir Ísland
Mörg af áhugaverðustu hátæknifyrirtækjum sem Ísland hefur gefið af sér, svo sem Marel og Kerecis, hafa einmitt sprottið fram í gegnum sjávarútveginn. Sjá má gróskuna í nýsköpun tengd sjávarauðlindinni í starfsemi Sjávarklasans sem hýsir fjölmörg fyrirtæki. Sóknartækifærin eru mörg ekki síst á landsbyggðinni líkt og líftæknifyrirtækin Genís og Primex á Siglufirði, sem bæði bæta nýtingu sjávarafurða og auka verðmætasköpun, eru dæmi um. Greinin hefur líka náð árangri í loftslagsmálum í gegnum bætta orkunýtni fiskiskipa og er sú vegferð rétt að hefjast. Margt hefur áunnist og tækifærin sem rækta má og þróa eru óteljandi.
Lægjum öldurnar
Við höfum verið og verðum að vera áfram stolt af sjávarútveginum. Dýpri gjá og átök munu ekki leiða það af sér. Deilurnar snúast fyrst og fremst um veiðigjöldin; gjöld fyrir aðgengi að sameiginlegri auðlind íslensku þjóðarinnar og þangað á umræðan umfram allt að beinast. Þar bera ríkisstjórn og hagaðilar mikla ábyrgð á að ná lendingu sem stækkar kökuna fyrir samfélagið.
Lægjum öldurnar. Hættum herskárri orðræðu og leitum vandaðra lausna í samvinnu og af yfirvegun. Fyrir þá sem sótt hafa sjóinn og þá sem sækja hann enn. Fyrir atvinnulíf um allt land. Fyrir okkur öll; fólkið í landinu, en ekki síst fyrir framtíðina.
Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Greini birtist fyrst á visir.is 27. apríl 2025.
26/04/2025
Spá 15% samdrætti í hagvexti 2025Alþjóðamarkaðir einkennast nú af miklum sveiflum og taugatitringi. Helsta ástæða er ný og óstöðug tollastefna Bandaríkjastjórnar, ásamt óvissu í efnahagsstjórn og stjórnfestu. Afleiðingarnar eru víðtækar, enda hefur heimsmynd alþjóðaviðskipta verið gjörbylt á fáum vikum og í raun 100 ár aftur í tímann.
Í þessum aðstæðum fer fram vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), þar sem kynnt var ný hagvaxtarspá. AGS spáir nú að hagvöxtur á heimsvísu verði 2,8% árið 2025 og 3,0% árið 2026 – niður úr 3,3%. Þetta jafngildir samtals 0,8 prósentustiga lækkun, eða um 15% samdrætti, sem er verulega undir meðaltali áranna 2000-2019, sem nam 3,7%. Þetta eru mikil tíðindi, einkum í kjölfar efnahagslegs áfalls covid-19 og stríðsins í Úkraínu.
Kristalina Georgieva framkvæmdastjóri AGS nefndi þrjár meginástæður þessa samdráttar:
Í fyrsta lagi, þá er óvissa kostnaðarsöm. Nútímaframleiðsla byggist á flóknum virðiskeðjum, þar sem innflutt hráefni og hlutir koma frá mörgum ríkjum. Verð á einni vöru getur ráðist af tollum í tugum landa. Þegar tollar hækka eða lækka fyrirvaralaust verður skipulagning erfið. Skip á hafi úti vita jafnvel ekki í hvaða höfn þau eiga að leggjast. Allir verða óöruggir, fjárfestar fresta ákvörðunum og allur viðnámsþróttur er aukinn.
Í öðru lagi, þá hafa auknar viðskiptahindranir strax neikvæð áhrif á hagvöxt. Tollar, líkt og aðrir skattar, afla tekna en minnka framleiðslu. Hagsagan sýnir að tollar bitna ekki aðeins á viðskiptalöndum heldur einnig á innflytjendum og neytendum, þ.e. með lægri hagnaði og hærra vöruverði. Þegar kostnaður aðfanga hækkar minnkar hagvöxtur.
Í þriðja lagi, þegar framleiðsla fær skjól fyrir samkeppni minnka hvatar til hagræðingar og nýsköpunar. Frumkvöðlastarfsemi víkur fyrir beiðnum um undanþágur, ríkisaðstoð og vernd. Þetta bitnar sérstaklega á litlum, opnum hagkerfum, eins og Íslandi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvetur aðildarríkin sín að greiða fyrir alþjóðaviðskiptum, tryggja efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika og hrinda af stað umbótum sem stuðla að hagvexti.
Ég hvet forsætisráðherra til að taka mið af þessari ráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og gjörbreyttu landslagi heimsviðskipta. Nauðsynlegt er að minnka þá óvissu sem ríkir í lykilútflutningsgreinum þjóðarinnar. Eðlilegt er að auðlindagjöld séu sanngjörn en umgjörðin verður að byggjast á gagnsæi og fyrirsjáanleika. Farsælast er að vinna með fólki og aðilum vinnumarkaðarins. Þannig er hægt að ná sameiginlegum markmiðum samfélagsins um að auka velsæld á Íslandi.
Þessi heimatilbúna óvissa ríkisstjórnarinnar mun draga úr fjárfestingu og minnka hagvöxt, því geta tekjur ríkissjóðs lækkað í stað þess að hækka. Hið fornkveðna á hér við: „Í upphafi skal endinn skoða.“
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og fv. viðskiptaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. apríl 2025.
23/04/2025
Af hverju er Framsóknarfólk hamingjusamast?Í nýlegri könnun Gallup kom fram að Framsóknarfólk er hamingjusamast þeirra er svöruðu, þrátt fyrir tímabundið lélegt gengi í skoðanakönnunum og síðstu kosningum. Þetta vakti athygli mína.
Hverjir eru hamingjusamir?
Fyrst ber að nefna hvað einkennir fólk sem er almennt hamingjusamt? Það er sátt, hefur náð árangri í lífi og starfi, er í góðum samskiptum við aðra og líður almennt vel. Þegar fólk er með gott sjálfstraust, er jákvætt og líður vel tekur það betri ákvarðanir.
Hamingjan er öfgalaus
Framsókn hefur á löngum ferli sínum haft veruleg áhrif á íslenskt samfélag. Flokkurinn hefur tekið þátt í mörgum ríkisstjórnum og haft mótandi áhrif á íslenskt samfélag. Framsókn er miðjuflokkur sem byggir stefnu sína á frjálslyndri félagshyggju, jöfnuði, samvinnu og hófsemi. Flokkurinn leggur áherslu á að finna raunhæfar lausnir í gegnum samráð og samvinnu ólíkra hagsmuna. Framsóknarfólk hefur oftar en ekki verið límið á miðjunni sem sættir ólík sjónarhorn innan ríkisstjórna og sveitastjórna öfgalaust.
Framsókn hefur tekið þátt í að skapa stöðugt og traust efnahagsumhverfi sem styður við atvinnusköpun. Hann hefur lagt áherslu á að efla innviði og tryggja jafnvægi landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Þannig hefur hann stutt við ferðaþjónustu, landbúnað og sterkar byggðir. Matvælaframleiðsla er um þessar mundir eitt mikilvægasta öryggis- og varnarmál landsins. Flokkurinn hefur verið leiðandi í málefnum innflytjenda á Íslandi. Framsóknarfólk velur að vera hófsamt, skynsamt og ná árangri.
Hamingjan felst í góðum samskiptum
Frá vöggu til grafar þurfum við á hvort öðru að halda. Mest við upphaf og lok ævinnar. Hamingja okkar veltur að stórum hluta á hversu vel okkur gengur að tengjast fólkinu í kringum okkur. Framsókn í Reykjavíkur hefur lagt áherslu á að byggja upp leikskóla með raunhæfum markmiðum. Húsnæðisuppbyggingu sem bíður fólki upp á valkosti og að tryggja samgöngur miðað við núverandi ástand. Framsóknarflokkurinn hefur lagt áherslu á mannréttindi og velferð. Tryggja heimilislausum þak yfir höfuðið og stóreflt forvarnastarf gagnvart auknu ofbeldi ungmenna. Framsókn stuðlar að því að fólk eigi í góðum samskiptum með menningu, menntun og umbyrðarlyndi.
Árelía Eydís Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins
Greinin birtist fyrst á visir.is 23. apríl 2025.
19/04/2025
Passíusálmarnir eru þjóðarauðurÍsland er auðugt land. Ríkidæmi okkar felst meðal annars í tungumálinu okkar sem sameinar þjóðina og varðveitir heimsbókmenntir miðalda. Þessi stórbrotni menningararfur hefur lagt grunn að þeirri velsæld og velferð sem við njótum í dag. Það er lofsvert að sjá hversu mikla rækt Íslendingar leggja við skapandi greinar og hvað við njótum þeirra ríkulega í okkar daglega lífi. Einnig er tilkomumikið að fylgjast með listamönnum okkar ná góðum árangri á sínu sviði, hvort heldur hér heima eða á heimsvísu. Allar listgreinar okkar eiga framúrskarandi einstaklinga – hvort sem um er að ræða myndlist, tónlist, bókmenntir, kvikmyndir eða hönnun.
Páskahátíðin er kjörinn tími fyrir samvistir við sína nánustu og njóta þess sem er í boði á vettvangi hinna skapandi greina. Vitaskuld er þetta einnig tilvalinn tími til að íhuga boðskap þessarar trúarhátíðar. Passíusálmar Hallgríms Péturssonar eru órjúfanlega tengdir páskum og hafa fylgt íslensku þjóðinni um aldir. Að mínu mati eru þetta fegurstu sálmar sem ortir hafa verið. Ég les þá ávallt í aðdraganda hátíðarinnar, enda fjalla þeir um síðustu daga Jesú Krists – píslarsöguna, dauðann og upprisuna.
Eitt af því sem heillar mig við sálmana er hversu persónulegir þeir eru. Það er eins og höfundurinn vefji eigin örlög og reynslu inn í textann. Í Passíusálmunum öðlast íslenskt mál nýjar víddir fegurðar og næmni, sem skýrir djúp áhrif þeirra á þjóðarsálina. Orð eins og ástvinahuggun, hjartageð, dásemdarkraftur, kærleikshót og hryggðarspor fylla textann af hlýju og von um betri tíð.
Passíusálmarnir eru mikið verk. Í fimmtíu sálmum er dregin upp dramatísk mynd af síðustu dögum Jesú Krists. Hápunktur verksins er í 25. sálminum, þar sem Jesús er leiddur út og Pílatus leggur til að hann verði náðaður, en mannfjöldinn heimtar að hann verði krossfestur. Þetta er jafnframt talið eitt fegursta versið í öllum sálmunum og dregur það saman meginboðskap verksins – að mannkynið allt hlaut þá gjöf að vera leitt inn til Guðs með fórn sonarins. Hér kemur 25. sálmurinn, 10. vers:
Út geng ég ætíð síðan
í trausti frelsarans
undir blæ himins blíðan
blessaður víst til sanns.
Nú fyrir nafnið hans
út borið lík mitt liðið
leggst og hvílist í friði,
sál fer til sæluranns.
Við erum rík sem þjóð að geta hallað okkur aftur um páskahátíðina og notið þessa auðuga menningararfs. Við erum líka afar lánsöm að búa í landi þar sem friður og frelsi eru ríkjandi.
Gleðilega páska!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. apríl 2025.
Stjórnmálaályktun KFNV
14/04/2025
Stjórnmálaályktun KFNV25. Kjördæmisþing Kjördæmissambands Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi ályktar:
Fyrstu skref nýrrar ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur hafa verið landsbyggðarfólki gríðarleg vonbrigði þrátt fyrir fögur loforð um að hagsmunum landsbyggðar yrði gætt.
Á þeim tíma síðan ný ríkisstjórn tók við má sjá að stór hluti þeirra mála sem hún hefur kynnt eru í raun mál frá fyrri ríkisstjórn, sem hún virðist tileinka sér. Þau mál sem eiga rætur að rekja til núverandi ríkisstjórnar eru hins vegar illa unnin, lítt ígrunduð og skortir greiningu og mat á áhrifum.
Sem dæmi má nefna nýja fjármálaáætlun, sem bersýnilega var unnin í flýti en henni fylgja hvorki lögbundnir mælikvarðar né mat á áhrifum. Ríkisstjórnin hefur nú þegar boðað niðurskurð í mikilvægum málaflokkum. Fjárframlög til vegamála og menntamála verða skert, auk – þess sem góð verkefni fyrri ríkisstjórnar verða stöðvuð, eins og í heilbrigðisþjónustu, samanber stuðning við Janus endurhæfingu.
Norðvesturkjördæmi er víðfemt svæði þar sem margir hafa lífsviðurværi sitt af landbúnaði, sjávarútvegi, ferðaþjónustu og iðnaði. Á fyrstu mánuðum nýrrar ríkisstjórnar hafa verið teknar ákvarðanir sem gera rekstur í þessum atvinnugreinum enn erfiðari. Þar má nefna illa útfært veiðigjald, aukna skattlagningu á ferðaþjónustu sem bitnar sérstaklega á litlum og meðalstórum ferðaþjónustufyrirtækjum, og nýlega hækkun raforkuverðs sem hefur sérstaklega neikvæð áhrif á iðnað, garðyrkjubændur og köld svæði.
Þá hafa verið teknar ákvarðanir – og fleiri eru í burðarliðnum – sem munu leiða til fækkunar sérhæfðra opinberra starfa utan höfuðborgarsvæðisins. Það kemur sérlega illa við íbúa í Norðvesturkjördæmi og má þar meðal annars nefna uppsagnir hjá Vinnumálastofnun og sameiningu sýslumannsembætta.
Kjördæmisþingið vill sérstaklega árétta að það harmar þá neikvæðu umræðu á Alþingi er varðar kynjajafnrétti og stöðu minnihlutahópa. Bakslag hefur orðið í mannréttindabaráttunni, einkum á Vesturlöndum, og hafa neikvæðar breytingar í því samhengi orðið augljósari.
Ísland hefur unnið mikilvægt starf til að jafna stöðu kynjanna og bæta réttindi minnihlutahópa. Því skiptir miklu máli að kjörnir fulltrúar sýni ábyrgð og stuðli ekki að hatursorðræðu. Kjörnir fulltrúar eru fyrirmyndir . og bera ríka ábyrgð á málflutningi sínum. Alþingismenn eiga ekki að vera boðberar bakslags í mannréttindum.
Samþykkt á 25. Kjördæmisþingi Kjördæmissambands Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi 12. apríl 2025 í Dæli í Víðidal.
11/04/2025
Framsókn krefst svara fyrir niðurskurð í framhaldsskólumIngibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, kallar eftir því að mennta- og barnamálaráðherra útskýri fyrirhugaðan niðurskurð á framhaldsskólastiginu. Hún lagði fram beiðni á fundi allsherjar- og menntamálanefndar þess efnis að ráðherra mætti tafarlaust á fund nefndarinnar – en beiðninni var hafnað.
„Tillögur hagræðingarhóps stjórnvalda fela í sér breytingar sem gætu raskað starfsemi framhaldsskóla verulega ef þær eru innleiddar án samráðs og stuðnings,“ segir Ingibjörg.
Samkvæmt áætlunum fjölgar nemendum um tæplega 650 næstu tvö ár – sem samsvarar einum meðalstórum skóla. Þetta gerist á sama tíma og skerðing framlaga stendur fyrir dyrum, þrátt fyrir auknar kröfur um kennslu í íslensku, einstaklingsmiðaðan stuðning og aðlögun nemenda.
Ég óskaði eftir því í morgun á fundi Allsherjar – og menntamálanefndar að mennta- og barnamálaráðherra myndi mæti á fund…
Posted by Ingibjörg Isaksen on Fimmtudagur, 10. apríl 2025
***
Minnisblað
– Niðurskurður á framhaldsskólastiginu í fjármálaáætlun 2026–2030
Helstu niðurstöður úr fjármálaáætlun
- Gert er ráð fyrir niðurskurði upp á 2,5 milljarða kr. á tímabilinu 2026–2030.
- Þetta samsvarar meira en 5% samdrætti í fjárframlögum til framhaldsskólanna, miðað við núverandi útgjöld.
- Á sama tíma er gert ráð fyrir fjölgun nemenda – um 650 nemendur á næstu tveimur árum – auk aukins kostnaðar við verknám og stuðning við fjölbreyttan nemendahóp.
Gagnrýni og áhyggjur
- Félag framhaldsskólakennara hefur lýst yfir miklum áhyggjum og telur að niðurskurðurinn geti haft áhrif á:
- gæði kennslu
- framboð námsleiða og valfaga
- starfsskilyrði kennara
- aðgengi að sértækum úrræðum fyrir nemendur með sérþarfir
- Stefán Vagn Stefánsson alþingismaður hefur bent á alvarlegan skort á markmiðum og mælikvörðum í fjármálaáætluninni, sem brýtur gegn lögum um opinber fjármál.
Viðbótarathuganir og samhengi
Samanburður við önnur skólastig
- Nauðsynlegt er að meta hvort sambærilegur niðurskurður sé fyrirhugaður í grunn- og háskólastigi – ef ekki, þarf að skýra hvers vegna framhaldsskólar dragast sérstaklega saman.
Áhrif á framtíðarmöguleika
- Gæti dregið úr möguleikum nemenda til að velja fjölbreyttar námsleiðir, sérstaklega í verknámi.
- Aukið brottfall eða lakari námsárangur til lengri tíma, sem getur haft áhrif á atvinnulíf og samfélag.
Starfsskilyrði kennara
- Hætta á auknu álagi, fækkun starfa og minni sveigjanleika í skipulagi náms.
***
