Íslenskt menningarlíf hefur átt góðu gengi að fagna og fer hróður þess um víða veröld. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér. Hér á landi hefur verið almennt breið sátt um það að hlúa að menningarlífinu með því að fjárfesta í listnámi, tryggja aðgang að slíku námi, styðja við grasrótarsamtök í menningarlífinu og skapa vettvang fyrir listamenn til þess að hlúa að frumsköpun. Þar hafa starfslaun listamanna þjónað sem mikilvægt verkfæri til að efla menningarstarf í landinu. Listamannalaun í einhverju formi eru rótgrónari en margan grunar, en saga þeirra nær allt aftur til 1891 þegar Alþingi samþykkti að veita skáldalaun. Umgjörð þeirra var fyrst formgerð með lagasetningu árið 1967 þegar lög um listamannalaun voru samþykkt og síðar voru uppfærð árin 1991 og 2009.
Árlegur kostnaður við listamannalaun er 978 milljónir króna. Til að setja þá tölu í samhengi er um að ræða 1,5% af útgjöldum til háskólastigsins og 0,06% af fjárlögum ársins 2024.
Nýverið voru kynntar tillögur til breytinga á listamannalaunum þar sem lagt var upp með að fjölga þeim í skrefum til ársins 2028, en engar breytingar hafa átt sér stað á kerfinu í 15 ár. Eru boðaðar breytingar gerðar í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar sem fram kemur í stjórnarsáttmála, að unnið skuli að því að styrkja faglega starfslauna- og verkefnasjóði listamanna. Þær eru því eðlilegt skref og forgangsraðað verður í þágu þeirra á málefnasviði menningarmála innan menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Í breytingunum felst meðal annars að komið verði á fót tveimur nýjum þverfaglegum sjóðum; Vexti sem er sjóður sem ætlaður er fyrir listamenn undir 35 ára aldri, og Vegsemd, sjóði fyrir listamenn yfir 67 ára aldri. Vexti er ætlað að styðja sérstaklega við unga listamenn sem hafa ekki enn skapað sér styrka stöðu innan sinnar listgreinar og er m.a. ætlað að mæta þeirri gagnrýni sem heyrst hefur, að lítil nýliðun sé innan kerfisins. Að sama skapi er Vegsemd sérstakur, þverfaglegur sjóður fyrir eldri listamenn sem hafa varið sinni starfsævi til listsköpunar.
Ég tel eðlilegt að við stöndum með listafólkinu okkar í blíðu jafnt sem stríðu, enda er menning eitthvað sem sameinar okkar – sérstaklega þegar vel gengur. Öll fyllumst við til að mynda stolti þegar íslenskum listamönnum gengur vel á erlendri grundu og kastljós umheimsins beinist að landinu vegna þess. Dæmi er um listamenn sem hlotið hafa eftirsóttustu verðlaun heims á sínu sviði sem á einhverjum tímapunkti þáðu listamannalaun á ferli sínum til þess að vinna að frumsköpun sinni. Ísland er auðugra og eftirsóttara land fyrir vikið, fyrir okkur sjálf sem hér búum og alla þá gesti sem hingað koma.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. apríl 2024.
Það má með sanni segja að páskahretið hafi haft mikil áhrif á ferðalög landsmanna síðustu daga. Víða voru vegalokanir með tilheyrandi vandkvæðum fyrir þá sem þurftu að komast leiðar sinnar. Það er mjög skiljanlegt að umræður um jarðgöng verði háværari þegar vegir lokast í lengri tíma. Ég tek undir þá umræðu og tel afar brýnt að ávallt séu í gangi framkvæmdir við jarðgöng á hverjum tíma, ef ekki tvenn. Jarðgöng eru mikilvæg fyrir samfélagsuppbyggingu á hverjum stað, eins og dæmin sanna og geta skipt sköpum fyrir atvinnurekstur á landsbyggðinni svo ekki sé minnst á öryggið.
Beðið er eftir mörgum göngum
Undanfarin fjögur ár hefur ekki verið unnið að neinum göngum og mikilvægt að tímabil stöðnunar verði rofið. Samgönguáætlun er til umfjöllunar hjá Alþingi og viðbúið að það þurfi að hægja á einhverjum framkvæmdum til þess að draga úr þenslu og ná niður verðbólgu. Niðurskurður er ekki í kortunum en áhersla á forgangsröðun verkefna í samgönguáætlun verður í því ljósi. Þegar því tímabili er lokið, sem verður vonandi sem fyrst er mikilvægt að endurskoða samgönguáætlun og hefja framkvæmdir af fullum krafti. Mikilvægir jarðgangakostir eru víða um land, en óhætt er að fullyrða að þörfin sé brýnust á Tröllaskaga, Austfjörðum og á Vestfjörðum. Um liðna helgi var Öxnadalsheiði lokuð og umferðinni vísað um Tröllaskaga og umferðarteppa myndaðist við Múlagöng þar sem umferðarstjórn var tekin upp. Ófært var til Seyðisfjarðar fimm daga í röð, en um er að ræða erfiðan fjallveg sem er í töluverðri hæð yfir sjó. Fjöldi ferðamanna sem kom með Norrænu sat fastur auk þess sem ekki var mögulegt að koma með aðföng til bæjarins. Það er mikil mildi að ekki komu upp alvarleg atvik eða veikindi á þessum tíma þar sem næsta víst er að erfitt hefði verið að bregðast við.
Það er að mörgu að hyggja en ég fagna því að undirbúningur er hafinn vegna gangna í gegnum Almenninga, frá Siglufirði yfir Fljót þar sem segja má að Siglufjarðarvegur sé ekki á vetur setjandi. Hér er um að ræða göng sem mikilvægt er að komist sem fyrst í gagnið. Með þeim má koma á góðum og öruggum samgöngum milli Fljóta, Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Til að bæta við óskalistann þá myndi það einnig auka verulega umferðaröryggi ef ráðist yrði í ný göng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur og undir Öxnadalsheiði. Að mínu mati þarf að huga að því í alvöru hvort setja ætti slíkar framkvæmdir í einkaframkvæmd, með það að markmiði að hraða framkvæmdum.
Gjaldtaka
Til að ná árangri í jarðgangagerð þarf að ráðstafa auknu fjármagni til undirbúnings. Ferlið er flókið og tekur langan tíma. Til þess að hraða uppbyggingu og viðhald samgönguinnviða þarf nýja nálgun. Nú er unnið að greiningu á gjaldtöku í vegasamgöngum og beðið er eftir tekjumódeli fyrir jarðgöng á Íslandi frá verkefnastofu sem er á vegum fjármálaráðuneytisins og innviðaráðuneytisins. Það er hægt að færa rök fyrir því að það sé réttlætanlegt að hafa hófsama gjaldtöku í jarðgöngum á Íslandi, við þekkjum það hér á svæðinu. Með þeim hætti er hægt að hraða uppbyggingu jarðganga en hafa sanngirni fyrir íbúa að leiðarljósi og haga gjaldtöku þannig að þeir sem þurfa að fara oftar greiði lægra gjald en hinn almenni ferðamaður.
Svo er rétt að minnast á það að enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra undirritaði viljayfirlýsingu í fyrra við bandaríska fyrirtækið EarthGrid um möguleika á notkun kyndilborunar á Íslandi, m.a. á jarðgöngum fyrir umferð. Mikilvægt er að kanna hvort slík tækni er raunhæfur kostur á Íslandi en prófanir á tækninni standa nú yfir.
Það sem mestu munar er að við þurfum að halda áfram við að bæta vegakerfið, með hagsmuni allra að leiðarljósi.
Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 3. apríl 2024.
Fyrsta landsáætlun Íslands um sjaldgæfa sjúkdóma
Skömmu fyrir páska skilaði vinnuhópur á vegum Willums Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra, drögum að landsáætlun um sjaldgæfa sjúkdóma. Landsáætlun er ætlað að vera leiðbeinandi um þjónustu við einstaklinga og aðstandendur þeirra sem falla undir skilmerki um sjaldgæfa sjúkdóma.
Sjaldgæfir sjúkdómar hafa víðtæk áhrif á aðstandendur og eykst álagið með versnandi sjúkdómi og miklu varðar að bæta lífsgæði einstaklinga sem glíma við sjaldgæfa sjúkdóma. Oft og tíðum hefur verið talað um hversu flókið það getur verið að afla sér upplýsinga og fá viðeigandi þjónustu. Með þessari landsáætlun eru nú lagðar fram tillögur sem fela í sér umtalsverðan sparnað í vinnuframlagi þeirra fjölmörgu sem að koma við greiningu á sjaldgæfum sjúkdómum ásamt tillögum sem minnka álag á sjúklinga og aðstandendur. Nóg er það fyrir.
Skýr heildarsýn
Í landsáætluninni er fjallað um fimm áhersluþætti og dregnar fram helstu áskoranir, tillögur til úrbóta og væntan ávinning af framkvæmd þeirra. Áherslurnar eru eftirfarandi:
Stuðla að hraðri og öruggri greiningu hjá þeim sem grunur er um að hafi sjaldgæfan sjúkdóm.
Tryggja aðgengi að meðferð og eftirfylgd sem taki mið af þörfum notenda.
Sjá til þess að þjónusta sé samfelld.
Bæta daglegt líf þeirra sem eru með sjaldgæfa sjúkdóma.
Vinna að góðri skráningu og samræmdum kóða fyrir sjúkdóma og meðferð.
Hópurinn leggur einnig til að stórefla Miðstöð sjaldgæfra sjúkdóma við Landspítalann með því að miðstöðin verði miðja þekkingar, greininga og heilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma og fjölskyldur þeirra. Áhersla er lögð á að einfalda núverandi þjónustukerfi þannig að hægt sé að sækja þekkingu og þjónustu sem mest á einum stað. Enn fremur er lagt til að upplýsingar um sjaldgæfa sjúkdóma, réttindi, þjónustu o.fl. verði gerðar sem aðgengilegastar þannig að hægt sé að nálgast þær á einum stað.
Líta verður á áætlunina sem viðmið fyrir varanlegar breytingar fyrir sjaldgæfa sjúkdóma. Sjaldgæfir sjúkdómar eiga það sameiginlegt að greining, meðferð, endurhæfing og eftirfylgd krefst sérhæfðar þekkingar og mikillar þverfaglegrar samvinnu sem nær út fyrir heilbrigðisþjónustu. Fyrir utan mikilvægi þess að hafa þjónustu sem þessa til staðar þá getur áætlun sem þessi sparað töluverðan kostnaður í heilbrigðiskerfinu og þjóðfélaginu almennt með markvissari þjónustu við þau sem eru með sjaldgæfa sjúkdóma og fjölskyldur þeirra
Mikilvægt framfaraskref
Það er afar mikilvægt er að heilbrigðiskerfið sé í stakk búið til þess að bregðast við sjaldgæfum sjúkdómum svo að þeir sem greinast með þá verði ekki hornreka í heilbrigðiskerfinu. Samkvæmt skilgreiningu Lyfjastofnunar Evrópu eru sjaldgæfir sjúkdómar (e. orphan diseases) sjúkdómar sem eru lífshættulegir eða valda langvarandi fötlun hjá fimm eða færri af hverjum 10.000 manns á EES-svæðinu. Þekking á þessum sjúkdómum er oft fágæt, rannsóknir á þeim takmarkaðar og lækning fjarlæg. Með þessari landsáætlun, sem er mikið framfaraskref, er verið að styrkja umgjörðina um þessa einstaklinga og aðstandendur þeirra, ásamt því að tryggja að betur sé fylgst með öllum sjaldgæfum sjúkdómum og séð til þess að heilbrigðisstarfsfólk hafi aðgang að nýjustu þekkingu í meðferðum við þeim.
Um leið og ég fagna þessari góðu vinnu sem ég veit að skiptir gríðarlegu máli fyrir þá sem hana snertir, þá er mikilvægt að fylgja henni vel eftir og tryggja að þær aðgerðir sem þar eru lagðar til komist til framkvæmda.
Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Fyrir síðustu kosningar var heilbrigðiskerfið mikið til umfjöllunar enda stærsta sameiginlega verkefni þjóðarinnar. Verkefni heilbrigðiskerfisins eru ærin og þurfa stöðugrar skoðunar við og þar má aldrei slá slöku við hvorki í umbótum, þróun eða nýsköpun. Við í Framsókn vorum tilbúin til að taka við heilbrigðisráðuneytinu og það var heilla skref að Willum Þór Þórsson var valinn Heilbrigðisráðherra. Á undanförnum vikum og mánuðum hafa borist margar jákvæðar fréttir úr heilbrigðiskerfinu og langar mig að draga nokkrar þeirra saman á einn stað, þótt aðeins verði stiklað á stóru.
Samningar tryggja jafnt aðgengi
Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er kveðið á um að hið opinbera skuli tryggja öllum landsmönnum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu óháð efnahag eða öðrum aðstæðum. Eftir áralangt samningsleysi við sérfræðilækna var ekki hægt að segja að allir hefðu sama aðgang að heilbrigðisþjónustu. Síðastliðið sumar var loks gengið frá samningum við sérfræðilækna sem höfðu verið samningslausir allt frá árinu 2019, með þessum samningum lækkaði greiðsluþátttaka einstaklinga sem hafði hækkað jafnt og þétt í samningsleysinu. Þessi samningur styrkir umgjörð um starfsemi sérfræðilækna og stuðlar að framþróun þjónustunnar ásamt því að tryggja aðgengi að henni.
Þá var annar tímamótasamningur gerður á síðasta ári þegar 24 ára stöðnun var rofin með þriggja ára samningum milli Sjúkratrygginga Íslands og tannréttingasérfræðinga. Þar með sköpuðust forsendur til að auka greiðsluþátttöku ríkisins í tannréttingum og voru styrkir til almennra tannréttinga nær þrefaldaðir. Þessir samningar fylgja eftir markmiðum ríkisstjórnarinnar um að draga úr kostnaði sjúkratryggðra vegna heilbrigðisþjónustu.
Biðlistar styttast
Markvisst hefur verið unnið að því að fjölga lýðheilsutengdum aðgerðum í þeim tilgangi að tryggja tímanlegt aðgengi að þjónustunni, stytta biðlista og bæta þannig skilvirkni í heilbrigðiskerfinu. Hér er um að ræða aðgerðir líkt og liðskiptaaðgerðir, aðgerðir á augasteinum, kvennaaðgerðir s.s. vegna endómetríósu, sem og ýmsar hrygg- og efnaskiptaaðgerðir. Segja má að þessar aðgerðir séu liður í viðhaldi góðrar lýðheilsu. Aðgerðir af þessu tagi geta verið undirstaða lífsgæða, tryggt virkni einstaklinga jafnt í lífi og starfi og því mikilvægt að þeir sem þurfa á þeim að halda þurfi ekki að bíða.
Í þessu samhengi má nefna að aldrei hafa verið framkvæmdar jafn margar valkvæðar liðskiptaaðgerðir á mjöðmum og hnjám eins og árið 2023 en þær voru samtals 2.138. Aukningin nam tæpum 60% á milli ára en aðgerðum fjölgaði um rúmlega 800. Þá fór meðalbiðtími eftir liðskiptaaðgerð úr 9,5 mánuðum í 4,6 mánuði á Landsspítala á árinu 2023. Megináherslan hefur verið að ná niður biðlistum, stytta bið sjúklinga eftir aðgerðum og tryggja aðgang óháð efnahag. Hér er mikilvægt að halda því til haga að stefnan er að tryggja öllum þjónustuna sem á þurfa að halda en ekki að fjölga aðgerðum utan opinberra stofnanna og því síður að einkavæða þjónustu.
Þetta eru ekki einu biðlistarnir sem þurft hefur að ná niður. Með breyttu skipulagi og auknu fjármagni hefur tekist að stytta verulega biðtíma barna eftir göngudeildarþjónustu hjá barna- og unglingadeild Landsspítalans (BUGL). Biðtími á BUGL var orðin óásættanlegur en að jafnaði biðu um 100-130 börn eftir þjónustu og þurftu þau oft að bíða mánuðum saman. Undir lok janúarmánaðar voru 26 börn sem biðu og biðin eftir þjónustu innan við einn og hálfur mánuður. Starfsfólk BUGL á hrós skilið fyrir ómetanlega vinnu sem hefur gert þetta kleift.
Áframhaldandi umbætur
Það er stefna Framsóknar að lækka greiðsluþátttöku sjúkratryggðra og farið hefur verið í ýmsar aðgerðir sem miða að því markmiði. Má þar nefna breytingar á reglugerð um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda innanlands sem fjölgar endurgreiddum ferðum úr tveimur í þrjár. Þá hefur greiðsluþáttöku verið komið á vegna aðgerða til að fjarlægja brjóstapúða sem komið hefur verið fyrir í fegrunarskyni ef það telst vera læknisfræðilega nauðsynlegt. Vinnuhópur hefur mótað drög að landsáætlun um sjaldgæfa sjúkdóma. Henni er ætlað að vera leiðbeinandi um þjónustu við einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma og aðstandendur þeirra. Þá hefur ráðherra skipað starfshóp til að móta heildarstefnu í áfengis- og vímuvörnum. Eins og sjá má er brugðist við á fjölbreyttum sviðum og í samræmi við bestu þekkingu á hverjum tíma.
Ekki er hægt að slá botninn í þessa grein án þess að nefna hjúkrunarheimilin. En heilbrigðisráðherra hefur með samkomulagi við fjármála- og efnahagsráðherra ákveðið að breyta fyrirkomulagi við öflun húsnæðis fyrir hjúkrunarheimili. Nú er áformað að ríkið leigi húsnæði af aðilum sem þá sjá þá alfarið um að byggja, viðhalda og reka húsnæðið. Rekstur húsnæðis gæti þá orðið óháður þeim sem veitir hjúkrunarþjónustuna. Hjúkrunarþjónustan verður eftir sem áður ýmist veitt af fyrirtækjum í velferðarþjónustu og sveitarfélögum samkvæmt þjónustusamningum við ríkið, eða af ríkisreknum heilbrigðisstofnunum. Áskorunin er að hraða uppbyggingu hjúkrunarrýma vegna vaxandi þarfar og til að tryggja þjónustu við aldraða á réttum stað og á réttum tíma
Eins og ég sagði í upphafi er aldrei hægt að slá slöku við í heilbrigðismálum en hér að framan hef ég nefnt nokkra mikilvæga áfanga sem hafa náðst á kjörtímabilinu, með öflugri forystu og í góðri samvinnu við fólkið sem starfar í kerfinu af fagmennsku og ósérhlífni.
Við í þingflokki Framsóknar munum áfram halda okkar manni við efnið og vitum að keppnismaður eins og Willum Þór mun halda áfram við umbætur í heilbrigðiskerfinu af fullum krafti út kjörtímabilið.
Líneik Anna Sævarsdóttir, situr í velferðarnefnd Alþingis og er þingmaður Framsóknar.
Það er óhætt að segja að framkomnar þjóðlendukröfur fjármála- og efnahagsráðherra í allar eyjar og sker umhverfis landið sem eru ofan sjávar á stórstraumsfjöru hafi vakið gríðarlega mikil viðbrögð almennings. Sveitarstjórnarfólk víða um land hefur verulegar áhyggjur af málinu og segir kröfulýsinguna vera gríðarstórt inngrip í mat á eignarrétti og framtíðarsýn fjölmargra íbúa og landeigenda um land allt. Auk þess hefur borið á gagnrýni að ekkert samráð hafi verið haft við eigendur þessara eyja. Í staðinn fyrir samráð eða póst frá óbyggðanefnd fréttu eigendur af kröfunni í gegnum fjölmiðla. Þá eru flestar eyjar sem kröfurnar beinast að þinglýstar eignir einstaklinga, sveitarfélaga og annarra aðila og í sumum tilvikum hefur ríkið selt eyjar sem það ætlar nú að taka aftur til sín.
Hefði þurft grófara sigti
Upphaflegur tilgangur með setningu laga um þjóðlendur var að leysa úr ágreiningi sem ríkt hafði í áratugi um eignarhald á hálendisvegum landsins eða þau svæði sem lengst hafa verið nefnd afréttir og almenningar. Þvert á upphaflegar áætlanir eru þessar kröfulýsingar ríkisins nú að skapa óvissu þar sem engin óvissa var fyrir, auk þess sem þær leggja stein í götu hugmynda einkaframtaks um framkvæmdir og sköpun, enda ná þessar kröfur inn á byggð svæði. Þessi mál taka öllu jafnan tvö ár hjá óbyggðanefnd og eftir það er hægt að skjóta úrskurðinum til dómstóla með tilheyrandi töfum til jafnvel fjölda ára. Það segir sig sjálft að öll fjárfesting á þessum svæðum er í uppnámi á meðan.
Að mínu mati er nú fulllangt seilst frá upphaflegum markmiðum laganna. Nú þegar er verið að sækjast eftir landsvæðum þar sem nú eru m.a. fasteignir. Svæði sem rúmast innan deiliskipulags sveitarfélaga. Það er eðlilegt að fólk sé ósátt því að ljóst er að þetta mun hafa töluverðan kostnað í för með sér fyrir sveitarstjórnir og eigendur þessara landsvæða. Þessar hugmyndir óbyggðanefndar hefðu þurft að fara í gegnum mun grófara sigti auk þess sem horfa hefði mátt á gömul skjöl sem nú þegar eru til staðar. Þannig hefði mátt koma í veg fyrir óþarfaupphlaup. Hér er jafnvel um að ræða eyjar þar sem búseta var eða hefur verið um margar aldir og flestar metnar til fasteignaverðs.
Kröfur að ósekju?
Á sama tíma kemur fram í fréttum að ríkið hafi í tæp tíu ár reynt að hafa þinglýstar eignir af bændum í Syðri – Fljótum, en samkvæmt opinberum kortasjám er ríkið búið að eigna sér stóran hlut af þeirri jörð og ber fyrir sig að Landgræðslan eigi landið. Þessai deila auk þeirra varna sem eigendur eyja og skerja þurfa nú að há við ríkið sæta furðu. Í öllum slíkum málum er mikilvægt að gætt sé að jafnvægi og að ríkið fari ekki fram með offorsi gagnvart einstaklingum. Ég tek undir áhyggjur landeiganda á þessari þróun og tel mikilvægt að staldrað verði við og verklagið endurskoðað.
Í ágætri bók eftir Nicholas Wapshott, sem ber titilinn „The Sphinx“, er fjallað um baráttuna sem Franklin D. Roosevelt, fv. forseti Bandaríkjanna, háði gegn einangrunarhyggju í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar. Einangrunarsinnar voru alfarið á móti því að Bandaríkin sendu herafla til að verja lýðræðisríki í Evrópu. Meðal helstu andstæðinga Roosevelts var vinur hans Joseph P. Kennedy, viðskiptajöfur og sendiherra, ásamt einstaklingum á borð við Walt Disney og Henry Ford. Þeir töldu að Bandaríkin, hið nýja heimsveldi, ætti ekkert erindi í stríðsátök handan Atlantshafsins. Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér vegna þess að umræðan víða um heim í dag er af sama toga. Sterk öfl í Bandaríkjunum tala fyrir einangrunarhyggju, sem er ekki jákvætt fyrir frið, velsæld og alþjóðaviðskipti.
Blikur á lofti í alþjóðaviðskiptum
Allt er í heiminum hverfult og tímabil alþjóðavæðingar, eins hún hefur birst eftir seinni heimsstyrjöld, virðist mögulega hafa runnið sitt skeið. Hlutfall vöru- og þjónustuútflutnings á heimsvísu náði hámarki árið 2008 og hefur síðan þá farið lækkandi. Heimshagkerfið hefur séð mikinn vöxt í viðskiptahindrunum síðastliðinn áratug. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sýnt fram á að heimsframleiðsla geti dregist saman um 7% á næstunni, ef viðskiptahindranir aukast. Þetta er þróun sem þjóðir heims verða að hafa augun á og sporna við til að stuðla að áframhaldandi lífskjarasókn í veröldinni.
Aukinn ófriður á heimsvísu og meiri skipting viðskipta eftir pólitískri hugmyndafræði hefur leitt af sér mikla fjölgun í viðskiptahindrunum. Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum voru settar alls 3.000 viðskiptahindranir á síðasta ári, sem er þreföldun frá árinu 2019. Saga hagfræðinnar hefur kennt okkur að þegar viðskipti þjóða dragast saman, þá versna lífskjör. Ekkert þjóðríki hefur ávinning af því að skipta hagkerfi heimsins í fylkingar. Þess vegna skiptir samvinna þjóða og alþjóðasamstarf svo miklu máli.
Hagsæld Íslands grundvallast á alþjóðaviðskiptum
Íslendingar stunduðu umfangsmikil viðskipti á sinni gullöld (930-1262), fundu Norður-Ameríku og ferðuðust alla leið til Bakú í Aserbaísjan. Sagnaritararnir varðveittu germanska menningararfinn og samin voru einstök bókmenntaverk, líkt og Íslendingasögurnar og aðrar bókmenntaperlur. Á þessum tíma ríkti bókmenntaleg hámenning á Íslandi og segja má að landið hafið verið miðstöð viðskipta og skapandi greina í Norður-Atlantshafi. Mikil viðskipti voru við Grænland og þaðan komu dýrgripir a borð við fálka, rostungstennur og náhvalstennur. Þetta blómaskeið leið undir lok á 13. öld þegar innanlandsófriður hófst og veðurfar kólnaði. Landið einangraðist frá Evrópu og á endanum glataði það sjálfstæði sínu. Eftir svartadauða versnuðu lífsskilyrði verulega og náði sú þróun hámarki á 18. öld, þegar hver hungursneyðin rak aðra ásamt erfiðum jarðhræringum. Danskir ráðamenn töldu jafnvel skynsamlegt að flytja alla Íslendinga til Danmerkur. Einangrun landsins hafði gríðarleg áhrif á þessa neikvæðu þróun og eins það, að eignarhald á utanríkisviðskiptum hvarf frá landsmönnum.
Sá mikli kraftur sem verið hefur í alþjóðaviðskiptum undanfarna áratugi hefur verið aflvaki þess að lífskjör hundraða milljóna manna hafa batnað. Ísland hefur tekið virkan þátt í þessari þróun og er engum blöðum um það að fletta að efnahagslegur vöxtur landsins hefur byggst á opnum alþjóðaviðskiptum. Um leið og Ísland hóf aftur að stunda frjáls viðskipti og fór að nýta auðlindir landsins í eigin þágu jukust hér lífsgæði og auðsæld. Tæknivæðing samfélagsins lagði sitt af mörkum í þessari samfelldu framfarasögu, skilaði aukinni skilvirkni og nýtingu framleiðsluþátta. Þannig störfuðu í upphafi 20. aldarinnar um 80% af vinnuaflinu í landbúnaði og sjávarútvegi en 100 árum síðar er samsvarandi hlutfall um 10%. Á sama tíma hefur verðmætasköpun aukist umtalsvert. Utanríkisviðskipti hafa orðið mun fjölbreyttari en þegar um 90% gjaldeyristekna komu frá sjávarútvegi fyrir tæpum fjórum áratugum. Meginútflutningsstoðir hagkerfisins eru fjórar í dag; ferðaþjónusta, sjávarútvegur, iðnaður og skapandi greinar.
Einangrunarsinnar sækja í sig veðrið
Á síðustu öld hafa Bandaríkin verið leiðandi í frjálsum viðskiptum en síðustu misseri hafa stjórnvöld verið að hverfa af þeirri braut. Mikil skautun hefur einkennt alla pólitíska umræðu og óvenjubreið spjót hafa tíðkast milli Demókrata og Repúblikana í umræðunni um ríkisfjármál, jafnréttismál og frjáls viðskipti. Ofan á það er ljóst að verkafólk í Bandaríkjunum hefur borið skarðan hlut frá borði vegna hnattvæðingar, sem hefur falist í því að mikið af bandarískum störfum fluttist til ríkja þar sem launakostnaður var mun lægri. Raunlaun þessa hóps hafa að mestu staðið í stað meðan kostnaður vegna húsnæðis og menntunar hefur vaxið mikið. Þessi þróun hefur leitt af sér óþol gagnvart vaxandi hnattvæðingu í Bandaríkjunum. Hins vegar er hægt að láta alþjóðaviðskiptin vinna fyrir allt samfélagið, ef viljinn er fyrir hendi. Stjórnmálin hafa því síðustu misseri einbeitt sér að því að flytja störf aftur heim. Mun harðari innflytjendastefna var tekin upp og hefur sett þrýsting á vinnumarkaðinn, sem er að valda verðbólgu. Loft allt hefur verið lævi blandið í samskiptum tveggja stærstu hagkerfa heimsins, Kína og Bandaríkjanna. Stjórnvöld beggja ríkja hafa markvisst unnið að því að gera efnahagskerfi sín minna háð hvort öðru. Þessi þróun er ekki hagstæð fyrir lítið opið hagkerfi eins og Ísland er. Til að hagsæld aukist áfram á Íslandi er afar mikilvægt að aðgengi að helstu mörkuðum sé greitt, hvort heldur fyrir vörur eða þjónustu.
Í upphafi greinarinnar fór ég aftur í söguna og fjallaði um þá einangrunarhyggju sem einkenndi bandaríska stjórnmálaumræðu á 4. áratugnum. Roosevelt var mikill vandi á höndum, því hann taldi útilokað annað en að styðja við forsætisráðherrann og félaga sinn Winston Churchill og lýðræðisríkin í Evrópu. Öll vitum við í dag að aðkoma Bandaríkjanna og liðsauki þeirra við bandalagsríki sín skipti sköpum í að hafa sigur á Hitler og bandamönnum hans. Umræðan í Bandaríkjunum í dag er keimlík þeirri sem var á 4. áratugnum og munu næstu forsetakosningar ráða miklu um þróun öryggis- og varnarmála í Evrópu og Mið-Austurlöndum. Farsæl samvinna ríkja varðar veginn fyrir áframhaldandi velsæld og öryggi á heimsvísu. Sagan sjálf sýnir okkur það líkt og rakið hefur verið hér að ofan.
Páskarnir eru hátíð trúar og birtunnar. Birtuhluti sólarhringsins er að verða lengri en hinn myrki. Þetta er einnig tími vonar og upprisu. Vonandi fer að birta til í alþjóðamálum. Gleðilega páska!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. mars 2024.
Í kastljósi á RÚV á þriðjudag var fjallað um eftirlit með snyrtistofum vegna hugsanlegs mansals og eftirlits með fagmenntun þeirra sem starfa þar. Snyrtifræði er löggild iðngrein hér á landi og er varin í lögum um handiðnað. Á grundvelli þeirra laga ber lögreglu að hafa eftirlit með framkvæmd ákvæða laganna. Það er ljóst að lítið sem ekkert eftirlit er haft með snyrtistofum hér á landi og réttindum þeirra sem þar starfa. Hvað þá eftirlit með öðrum ólöglegum athæfum líkt mansali sem er öllu alvarlegri og athæfi sem aldrei á að líða.
Í vetur hef ég lagt fram fyrirspurnir til dómsmálaráðherra á Alþingi um eftirlit með snyrtistofum hér á landi sem staðfestir umfjöllunina um vöntun á eftirliti. Í svari við fyrirspurn minni kom fram að samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra hefur lögreglan á síðastliðnum þremur árum haft til rannsóknar tvær snyrtistofur vegna brota á lögum um handiðnað, á grundvelli ábendingar, en í báðum tilvikum var rannsókn hætt. Ekki var svarað hversu mörgum snyrtistofum lögreglan hefur haft eftirlit með til þess að kanna hvort starfsmenn uppfylli skilyrði þess að starfa sem snyrtifræðingar í samræmi við lög um handiðnað, og gefur svarið vísbendingu um hversu virkt eftirlitið er.
Verjum lögverndaða iðnmenntun
Þeir snyrtifræðingar sem starfa hér á landi hafa sótt sér menntun og reynslu samkvæmt þeim stöðlum sem settir hafa verið. Þá menntun ber að virða líkt og aðra iðnmenntun. Okkur ber líka einnig að fagna erlendum iðnmeisturum sem koma hingað til lands og sannarlega eru með fagmenntun til slíkra starfa. Þá er nauðsynlegt að heilbrigðiseftirlitið og vinnueftirlitið skerpi á eftirlitinu og að staðfest sé með einhverjum ferlum að þeir sem starfi í greininni séu með löggildingu í faginu.
Lélegt eftirlit með snyrtistofum vekur einnig upp spurningar hvort sama sé upp á teningnum þegar kemur að eftirliti öðrum iðngreinum sem falla undir lög um handiðnað. Á undanförnum árum hefur eftirspurn aukist hér á landi eftir iðnaðarfólki og öllum vinnandi höndum á því sviði verið fagnað. En það þarf að fylgja eftir með eðlilegu eftirliti þannig að iðnaðarfólk sem fyrir eru geti treyst því að sömu kröfur séu gerðar til allra sem starfa í faginu og ekki síst til þess að önnur ólögleg starfsemi fái síður að blómstra hér á landi.
Markvissar aðgerðir munu skila árangri á húsnæðismarkaði
Of hátt vaxtastig og hert lánþegaskilyrði hafa haft letjandi áhrif á framkvæmdaaðila með þeim afleiðingum að við erum ekki að byggja nauðsynlegt magn íbúða til að anna eftirspurn. Á sama tíma sjáum við marga sem hafa góða greiðslugetu og mikinn vilja til að komast út á markaðinn og eignast húsnæði falla á greiðslumati. Hér er um að ræða fjölda fólks sem nú þegar eru að greiða háa húsaleigu. Það má segja að Seðlabankinn hafi á undanförnu hlaðið í snjóhengju kynslóða sem bíða eftir tækifæri til að komast út á markaðinn á sama tíma og hann hefur tafið fyrir þeirri nauðsynlegu uppbyggingu sem fram undan er. Þetta mun hafa afleiðingar. Þess utan hefur nú heilt bæjarfélag bæst við sem eykur enn á hlið eftirspurnar eftir húsnæði. Hér má vel spyrja sig að því hvort Seðlabankanum hafi ekki verið færð of mikil völd í hendur.
Kröftugar aðgerðir hins opinbera
Stjórnvöld liðkuðu fyrir gerð langtíma kjarasamninga með ýmsum aðgerðum þar sem aðgerðir á húsnæðismarkaði voru fyrirferðarmiklar. Til að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði verður ráðist í aðgerðir sem nema um 50 milljörðum króna á samningstímanum. Þar er markmiðið helst að auka stöðugleika á húsnæðismarkaði og vinna gegn auknum kostnaði almennings vegna húsnæðis. Þá verður ráðist í öfluga uppbyggingu íbúðarhúsnæðis þar sem stutt verður við byggingu 1.000 íbúða á ári á samningstímanum með stofnframlögum til almennra íbúða og hlutdeildarlána. Þar mun ríkissjóður leggja til 7-9 milljarða króna í stofnframlög á ári og tryggja hlutdeildarlán til að treysta húsnæðisöryggi og viðráðanlegan húsnæðiskostnað. Þessu til viðbótar og því semég fagna alveg sérstaklega er að vinna er hafin við skilvirkari stjórnsýslu húsnæðis- og byggingarmála auk þess sem veita á lífeyrissjóðum rýmri heimild til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði.
Auknum vaxtakostnaði heimila mætt
Á árinu 2024 verða greiddir út allt að 7 milljarðar í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Hámark sérstaks vaxtastuðnings mun nema 150.000 kr. fyrir einstakling, 200.000 fyrir einstæða foreldra og 250.000 fyrir sambúðarfólk að teknu tilliti til skerðinga vegna tekna og eigna. Gert er ráð fyrir að sérstakur vaxtastuðningur greiðist beint inn á höfuðstól húsnæðisláns en heimilt verði að óska eftir að nýta hann til lækkunar á afborgunum í tiltekinn tíma. Sérstakur vaxtastuðningur kemur til afgreiðslu í tengslum við álagningu í maí 2024.
Aðferð húsaleiguígilda tekin upp frá og með júní Ársverðbólga hækkaði nokkuð óvænt nú í marsmánuði þegar vísitala neysluverðs hækkaði um 0,8% milli mánaða. Reiknuð húsaleiga, það er kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hefur vegið þungt í útreikningum á vísitölu neysluverðs. Við í Framsókn höfum lengi talað fyrir því að reiknuð húsaleiga væri ekki reiknuð inn í vísitölu með þessum hætti, heldur tekin upp betri og sanngjarnari leið. Hagstofa Íslands hefur um nokkurt skeið unnið að endurskoðun aðferða við mat á reiknaðri húsaleigu í vísitölu neysluverðs. Frá og með júní næstkomandi verður aðferð húsaleiguígilda notuð þess í staðvið útreikning á reiknaðri húsaleigu í vísitölu neysluverðs og munu niðurstöður sem birtar verða 27. júní 2024 því byggja á þeirri aðferð.
Húsaleiguígildi byggja á gagnasafni leigusamninga sem finna má í nýrri leiguskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), en breytingar á húsleigulögum árið 2022 veitti HMS greiðari aðgang að upplýsingum um stóran hluta leigumarkaðsins. Vonast er til þess að nýja aðferðafræði dragi úr áhrifum sem skammtímasveiflur á fjármálamörkuðum hafa haft á mat Hagstofunnar á húsnæðisliðnum.
Ég hef fjallað um það í fjölda greina hversu mikilvægt það er að ná tökum á húsnæðismarkaðnum sem er stór liður í því verkefni að ná tökum á verðbólgu og þar samhliða lækkun vaxta. Þá er það augljóst að án styrkrar forystu Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra, í uppbyggingu nýs húsnæðiskerfis fyrir tekju- og eignalitla væri staðan mun verri. Markvissar aðgerðir á húsnæðismarkaði líkt og farið hefur verið í munu skila árangri en Seðlabankinn þarf einnig að fara hugsa til framtíðar.
Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Nýverið kom út skýrsla Ríkisendurskoðunar „Ópíóíðavandi – staða, stefna og úrræði“. Farið varið í hraðúttekt til þess að greina misnotkun á ópíóðum í ljósi þess að fréttaflutningur um aukinn vanda hafði aukist á síðustu árum. Ekki þótti ljóst hvaða aðilar hefðu bestu yfirsýn um vandann og hvernig væri tekið á honum. Það er margt gott og áhugavert sem kemur fram í þessari skýrslu en annað sem er þess fallið að valda misskilningi þar með talið umræða um forystuleysi í málaflokknum. Í skýrslunni kemur fram að enginn aðili hafi fulla yfirsýn yfir hve margir glími við ópíóíðavanda á landinu. Staðreyndin er sú að heilbrigðisráðuneytið tekur fulla forystu í málaflokknum og hefur ekki skorast undan því. Hér er um að ræða sjúkdóm sem er líf- sál og félagslegur og því eru félagsaðstæður einstaklinga margbrotnar og flóknar. Verkefnið kallar á samstarf milli ráðuneyta sem og sveitarfélaga, enda er stór liður í bataferli þessara einstaklinga að hafa skjól yfir höfuðið. Ópíóíðavandinn er alvarlegur og hvert mannslífs sem tapast þar er einu lífi of mikið.
Margvíslegar aðgerðir
Heilbrigðisráðuneytið með Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í fararbroddi hefur síðustu misseri unnið að krafti við að berjast við misnotkun á ópíóðum. Tillögur heilbrigðisráðherra um aðgerðir til að sporna við skaða af völdum ópíóíða voru samþykktar í ríkisstjórn í apríl 2023 og á samkvæmt fjárlögum á að verja 150 milljónum í aðgerðirnar á þessu ári og eru margar þeirra vel á veg komnar. Tilraunaverkefni er hafið um niðurtröppun ópíóíða, svefn- og róandi lyfja í heilsugæslu. Þá hefur starfshópur tekið til starfa um skaðaminnkun og fleira. Auk þess vinnur heilbrigðisráðuneytið að stefnum í málaflokknum. Það er skaðaminnkunarstefnu og stefnu í áfengis- og vímuvörnum. Í lýðheilsustefnu til ársins 2030 er lögð áhersla á mikilvægi skýrrar stefnumörkunar og aðgerða í málefnum áfengis- og vímuvarna.
Þá má nefna að Sjúkratryggingum Íslands hefur verið falið að gera heildarsamning um þjónustu SÁÁ og aukið aðgengi að viðhaldsmeðferð. Auk þess hefur heilbrigðisráðuneytið í tvígang lagt 30 milljónir til félagasamtaka í verkefni til þess að sporna við skaða af völdum fíknisjúkdóma auk þess sem Lýðheilsusjóður hefur verið stækkaður. Þá er búið er að dreifa Naloxone í bíla hjá viðbragðsaðilum þá sjá Vorteymi og Frú Ragnheiður einnig um að dreifa nefúðanum. Þess utan hefur Lyfjastofnun hafist handa við að kanna hvort mögulegt sé að gera naloxon nefúða að lausasölulyfi á Íslandi. Lyfið er notað þegar þörf er á tafarlausri neyðarmeðferð vegna ofneyslu ópíóða sem valdið getur öndunarstoppi og dauða.
Forvarnir númer eitt, tvö og þrjú
Í baráttunni við fíknivandann er er hvert líf sem glatast ekki aðeins tölfræði heldur djúpstæður harmleikur og áminning um sögu einstaklings sem varð undir í baráttunni við fíknisjúkdóm. Fíkn er langt frá því að vera eingöngu viljabrestur heldur er fíkn flókið samspil erfðafræðilegra, umhverfis- og sálfræðilegra þátta sem krefjast margþættra viðbragða. Aðgerðir sem miða að því að draga úr neyslu ávana- og vímuefna, hverju nafni sem þær nefnast, skila samfélaginu ávinningi. Árangur Íslands í forvörnum ungmenna hefur verið einstakur og eftirtektarverður og þann árangur megum við ekki gefa eftir. Þróun vímuefnaneyslu ungmenna hafa tekið stakkaskiptum í jákvæða átt síðustu ár. Leiðin niður á við getur tekið mun skemmri tíma en að ná árangri og því skipta forvarnir og heilsuefling miklu máli. Mikilvægt er að fræða og þjálfa þá sem vinna með ungmennum í daglegu starfi, með því að gera forvarnir og heilsueflingu sem hluta af skipulögðu uppeldis- og fræðslustarfi höfum við meiri möguleika á að ná til þeirra sem ella gætu orðið fíknisjúkdómum að bráð.
Í síðustu viku voru samþykkt lög um breytingar á búvörulögum nr. 99/1993, framleiðendafélög. Þær miklu umræður sem fylgt hafa í kjölfarið hafa væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum manni enda hafa stór orð verið látin falla sem eiga ekki öll rétt á sér.
Staða íslenskra bænda hefur verið erfið um langt skeið. Stóraukning á innfluttum landbúnaðarvörum og stökkbreytingar í verði á aðföngum hefur reynst greininni erfið síðustu ár, bara á síðasta ári jókst innflutningur á kjöti um 17%. Rekstur afurðastöðva í sauðfjár- og nautakjöti hefur lengi átt undir höggi að sækja og augljóst er ef að íslenskt lamba- og nautakjöt á að standast samkeppni frá innfluttu kjöti þarf að bregðast við. Hagræðing verður að eiga sér stað hjá afurðastöðvum til að standast erlenda samkeppni. Afurðastöðvar eru almennt að hluta í eigu bænda. Með þessum breytingum á búvörulögum sem nú hafa verið samþykkt er kjötafurðarstöðvum gert kleift að vinna saman eða sameinast til að ná fram rekstrarhagræði sem gagnast bæði bændum og neytendum.
Hagur bænda og neytenda
Því hefur verið haldið á lofti að þessar breytinga komi til með að stuðla að einokun, hækka vöruverð og verðbólgu. Þessar fullyrðingar eru á þunnum ís. Staðreyndin er sú að hagur bænda og neytenda fer saman. Íslenskur landbúnaður þarf á íslenskum neytendum að halda og á sama tíma þarf innlend framleiðsla að vera samkeppnishæf við innflutta matvöru. Ef ekki er veitt svigrúm til hagræðingar í greininni er næsta víst að neytendur færi sig í auknu mæli yfir í erlenda staðgönguvöru með þeim afleiðingum að það fjari undan íslenskum landbúnaði. Það sama myndi gerast ef sú hagræðing sem nú er möguleg skilar sér ekki til íslenskra neytenda. Hátt verð á innlendri landbúnaðarvöru veldur því að neytendur versla aðrar vörur. Þetta er einfalt reiknisdæmi. Að þessu leyti fara hagsmunir bænda og neytenda saman.
Rétt skal vera rétt
Þá er það hreinlega rangt það sem hefur verið haldið fram að afurðastöðvum sé nú heimilt að sameinast án takmarkana. Þeir sem skoða lögin geta séð að í þau eru skrifuð ákveðin skilyrði hyggist afurðastöðvar nýta sér þessa heimild. Þessi skilyrði voru sett inn í ljósi þess að samrunareglur eiga ekki lengur við. Þessi skilyrði tryggja að allir framleiðendur eru jafnsettir hvað varðar möguleika á að koma búfé til slátrunar óháð staðsetningu. Þá er afurðastöðvum skylt að selja öðrum vinnsluaðilum afurðir til frekari vinnslu á sömu viðskiptakjörum og vinnsluaðilum sem lúta þeirra stjórn. Með þessum skilyrðum er stuðlað að samkeppni og tryggt að aðrir vinnsluaðilar greiði sama verð fyrir sömu vöru og aðilar sem lúta stjórn framleiðendafélaga.
Þá er ekki heimilt að setja skorður við því að framleiðendur færi viðskipti sín til annars aðila. Er þessu skilyrði ætlað að efla og tryggja samningsstöðu bænda og tryggja að samkeppni ríki áfram á markaði. Að lokum er tryggður réttur til að eiga einungis viðskipti við framleiðendafélag um afmarkaða þætti, svo sem slátrun. Með þessu skilyrði er stuðlað að því að tryggja samningsstöðu bænda og fyrirbyggja hindranir fyrir minni keppinauta í slátrun og vinnslu. Þannig verður bændum auðveldað að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir ef þeir kjósa að gera það.
Sérstaða íslenskra kjörframleiðslu
Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklalyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag. Nýútkomin skýrsla hóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins í samvinnu við matvæla og umhverfis-, orku- og loflagsráðherra um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería tekur undir þær staðhæfingar. Í skýrslu hópsins kemur fram að fæðuöryggi muni enn minnka þar sem sýklalyfjaónæmi hefur einnig áhrif á dýraheilbrigði og þar með matvælaframleiðslu. Sýklalyfjanotkun hér á landi í landbúnaði er með því minnsta sem þekkist og hefur það verið staðfest í eftirliti Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar um notkun sýklalyfja í landibúnaði
Það er ekki ofsagt að íslensk matvælaframleiðsla eigi sér sérstöðu á heimsvísu og undir þetta taka helstu sérfræðingar á sviði sýkla- og veirufræða. Þeir hafa brýnt fyrir okkur að verja þurfi þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi. Á grunni sérstöðunnar á Ísland að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með banni á dreifingu matvæla sem í greinist sýklalyfjaónæmar bakteríur. Það er bein skylda okkar að standa með íslenskri matvælaframleiðslu. Þá þarf að þora að stíga þau skref sem þarf til að koma því þannig fyrir að heilnæmt kjöt sé á boðstólum íslenskra neytanda á viðráðanlegu verði.
Samstaða frekar en sundrung
Við sem smáþjóð þurfum að standa vörð um innlenda framleiðslu og fyrir því eru fleiri en ein ástæða. Fyrst má þar nefna mikilvægi þess að halda framleiðslunni innanlands vegna allra þeirra starfa sem hún skapar, fyrir utan þá staðreynd að við viljum viðhalda innlendum landbúnaði og matvælaframleiðslu í landinu. Að ótöldu fæðuörygginu, matvælaöryggi með heilnæmi landbúnaðarvara og mikilvægi þess að vera sjálfbær.
Framsókn hefur í gegnum tíðina staðið með landbúnaði og mun ávallt gera, enda á flokkurinn uppruna sinn í sveitum landsins og hefur sú taug aldrei slitnað öll þessi ár. Þingmenn Framsóknar hafa í gegnum tíðina gert sitt besta til þess að vera öflugir málsvarar bænda í landinu. Okkar verkefni nú er að halda áfram að ræða mikilvægi innlends landbúnaðar og koma sjónarmiðum okkar á framfæri við samstarfsflokkanna sem og aðra flokka á Alþingi með hag bænda og neytenda að leiðarljósi.
Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmenn Framsóknar.
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.