Categories
Fréttir

Tillaga um neyðarbirgðir matvæla

Deila grein

18/03/2025

Tillaga um neyðarbirgðir matvæla

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, hefur mælt fyrir tillögu til þingsályktunar um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða á Alþingi. Tillagan felur í sér að atvinnuvegaráðherra verði falið að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt er að framleiða hér á landi við endurskoðun búvörusamninga árið 2026. Markmiðið er að tryggja lágmarksbirgðir af landbúnaðarafurðum í landinu hverju sinni.

Skilgreining á neyðarbirgðum

Nauðsynlegt er að skýra hvað átt er við með neyðarbirgðum, til hve langs tíma sé horft og hvaða aðstæðna. Mismunandi vá sem steðjað getur að getur kallað á mismunandi viðbúnað. Bæði þarf að horfa til birgða af vörum sem tilbúnar eru til neyslu auk aðfanga eins og orku, eldsneytis, áburðar, fóðurs og umbúða. Þá er trygg greiðslumiðlun einnig mikilvæg forsenda þess að útvega megi lykilaðföng eins og fóður, lyf og umbúðir.

Reynsla af áföllum og framtíðarsýn

„Mikilvægt er, þegar litið er til framtíðar, að horfa til reynslu af þeim áföllum sem á okkur hafa dunið á undanförnum árum. Ýmsar hamfarir, heimsfaraldrar og stríðsátök geta gert það að verkum að flutningsleiðir til landsins stöðvist. Við þær aðstæður þarf að tryggja að lágmarksbirgðir séu til af matvælum í landinu á hverjum tíma,“ sagði Þórarinn Ingi. Samkvæmt skýrslu um neyðarbirgðir sem flutt var á Alþingi í byrjun október árið 2022 er staða neyðarbirgða í landinu ekki viðunandi. Kortleggja þarf stöðuna betur og leggja til áhrifaríkar aðgerðir og leiðir til að tryggja að lágmarksbirgðir matvæla séu til fyrir þjóðina á hverjum tíma.

Inngrip ríkisvaldsins og geymslugjald

Byggja þarf upp fyrirkomulag sem tryggir að nægilegt magn afurða sé til á hverjum tíma sem og að jafnvægi ríki á markaði með landbúnaðarafurðir. Fyrirkomulagið getur falið í sér inngrip ríkisvaldsins í formi stuðnings til að geyma afurðir í tiltekinn tíma hjá afurðastöðvum/framleiðendum til að tryggja birgðahald. Slíkt fyrirkomulag þekkist í öðrum löndum til að tryggja lágmarksbirgðahald og jafnvægi á mörkuðum. Slíkar aðgerðir þurfa að miða að mismunandi tegundum framleiðsluvara og geymslutíma þeirra þar sem beita þarf ólíkum leiðum fyrir mismunandi tegundir landbúnaðarafurða.

Uppbygging kornræktar á Íslandi

Skoða þarf einnig sérstaklega uppbyggingu kornræktar og geymslu á kornbirgðum hér á landi. Byggja þarf upp viðamikil kornsamlög þar sem fjárfest yrði í innviðum vegna kornræktar til manneldis og skepnufóðurs. Talsverðir fjármunir verða settir í að auka kornrækt á Íslandi á næstu árum, en tveir milljarðar króna eiga að fara í kynbætur á plöntum, þróun á jarðbótum og fjárfestingu í innviðum. Það er mikilvægt fyrsta skref en gera þarf meira. Flutningsmenn telja að skoða þyrfti svipað fyrirkomulag og með hin hefðbundnu matvæli hvað varðar geymslugjald til þess að tryggja að umframbirgðir yrðu til staðar á hverjum tíma. Með þessu fyrirkomulagi væri hægt að festa kornrækt í sessi sem búgrein hér á landi, bæta fæðuöryggi þjóðarinnar og efla innlenda framleiðslu til framtíðar.

Categories
Fréttir

Hver eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar vegna tjóns bænda?

Deila grein

18/03/2025

Hver eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar vegna tjóns bænda?

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, beindi fyrirspurn til forsætisráðherra á Alþingi vegna verulegs tjóns sem bændur urðu fyrir á síðasta ári, einkum vegna kals í túnum og erfiðra skilyrða í grænmetis- og kartöfluræktun.

Tjón bænda metið allt að 1,5 milljörðum

Í máli Sigurðar Inga kom fram að tjónið hjá ræktendum væri metið á milli 1,3 og 1,5 milljarða króna. Hann benti jafnframt á að slíkur stuðningur væri ekki hluti af hinu almenna stuðningskerfi landbúnaðarins og því væri staðan sérlega erfið fyrir bændur sem nú þyrftu að fjárfesta í útsæði, fræi og áburði fyrir komandi ræktunarár.

„Ég sá að eðlilegar landgræðslubætur og tjónabætur vegna ágangs álfta og gæsa voru greiddar út 12. febrúar, eða það var alla vega frétt um það úr Stjórnarráðinu, en hérna er um að ræða annars konar mál sem kemur sem betur fer ekki upp nema endrum og eins.“

Stuðningskerfi bændum ekki nægilegt

Sigurður Ingi sagði ríkisstjórnina á hverjum tíma oft hafa tekið slík mál til umfjöllunar þegar þau kæmu upp.

Sigurður Ingi spurði forsætisráðherra hvort núverandi ríkisstjórn hefði fjallað um málið og hvaða aðgerðir væru fyrirhugaðar. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að brugðist yrði við tjóninu með hraði, enda væri staða bænda orðin afar bágborin þegar kæmi að undirbúningi næsta ræktunartímabils.

Forsætisráðherra vill styrkja tryggingakerfi bænda

Forsætisráðherra svaraði því til að hún væri meðvituð um alvarlega stöðu bænda og nefndi að því miður væru engar tryggingar sem gætu gripið þennan hóp. Hún staðfesti að atvinnuvegaráðherra væri með málið til skoðunar, meðal annars með tilliti til hugsanlegs fjárauka. Hún lagði jafnframt áherslu á nauðsyn þess að koma á tryggingakerfi fyrir bændur til framtíðar, þar sem slíkar aðstæður gætu reglulega komið upp.

Notið varasjóðinn

Sigurður Ingi brást við svari forsætisráðherra með því að túlka svar hennar á jákvæðan hátt en sagði jafnframt óþarft að skjóta á fyrri ríkisstjórn fyrir að hafa ekki gert ráð fyrir slíkum atburðum í fjárlögum. Hann benti á að varasjóður væri einmitt ætlaður til að bregðast við ófyrirséðum aðstæðum og að ríkisstjórnin ætti nú að nota hann til að koma bændum til hjálpar.

Categories
Fréttir

Breið samstaða um ítarlega rannsókn á orsökum sjálfsvíga og óhappaeitrana

Deila grein

17/03/2025

Breið samstaða um ítarlega rannsókn á orsökum sjálfsvíga og óhappaeitrana

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu á Alþingi um ítarlega rannsókn á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana. Markmið tillögunnar er að safna og samhæfa umfangsmikil gögn sem geti nýst við greiningu áhættuhópa og mótun fyrirbyggjandi aðgerða.

Nauðsynlegt að safna betri gögnum

Í ræðu sinni á Alþingi benti Ingibjörg á mikilvægi þess að samfélagið standi saman gegn þessum alvarlegu málum og hvatti almenning til að vera vakandi fyrir merkjum andlegrar vanlíðanar. „Við verðum að bregðast við af festu og ábyrgð,“ sagði hún. „Það er tímabært að við höfum betri gögn til að skilja undirliggjandi orsakaferli og móta markvissari aðgerðir. Í því skyni felur þessi tillaga í sér stuðning við rannsóknarverkefni sem starfshópur á vegum Lífsbrúar, miðstöðvar sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis, hefur þegar hafið.“

Samstarf ríkis og félagasamtaka lykilatriði

Ingibjörg lagði áherslu á mikilvægi samstarfs ríkisins og félagasamtaka á borð við Rauða krossinn, Píeta samtökin, Bergið Headspace, Geðþjónustu Landspítalans og BUGL, sem vinna mikilvægt starf í forvörnum. Hún sagði enn fremur nauðsynlegt að bæta úr þeim annmörkum sem eru á núverandi gagnasöfnun, svo hægt verði að grípa fyrr inn í og bjarga mannslífum.

„Við höfum séð hve mikilvægt það er að grípa inn í tímanlega. Öflugt forvarnastarf skiptir sköpum og aðdáunarverð vinna á sér stað dag hvern hér á landi, bæði hjá stofnunum og hjá félagasamtökum. Margir aðilar hafa lagt sitt af mörkum, þar á meðal heilbrigðisstofnanir, félagasamtök á borð við Rauða krossinn, Píeta samtökin, Bergið Headspace, Geðþjónustu Landspítalans og BUGL. Samstarf ríkis og félagasamtaka er lykilatriði í því að ná til þeirra sem þurfa mest á stuðningi að halda.“

Tillagan gerir ráð fyrir því að starfshópur Lífsbrúar fái stuðning til að afla allra nauðsynlegra gagna, greina þau ítarlega og skila niðurstöðum með tillögum um markvissar forvarnaraðgerðir.

„Vinna starfshópsins sem um er fjallað í tillögu þessari getur skipt sköpum í baráttu okkar gegn sjálfsvígum og dauðsföllum vegna óhappaeitrana. Við eigum að verða okkur úti um og nota öll þau tól sem hægt er að nýta í baráttunni og með tillögu þessari erum við að tryggja okkur mikilvæg tól til framtíðar. Við höfum þörf fyrir að ávallt fari fram rannsókn í kjölfar sjálfsvígs eða dauðsfalls vegna óhappaeitrana.“

Breiður stuðningur þvert á flokka

Að baki tillögunni stendur allur þingflokkur Framsóknar, Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins ásamt fjölmörgum öðrum þingmönnum.

Mikilvægt að ræða andlega heilsu opinskátt

Ingibjörg minnti að lokum á að andleg vellíðan eigi aldrei að vera feimnismál og hvatti þá sem líður illa til að nýta sér þau hjálparúrræði sem eru í boði. Hægt er að hringja í hjálparsíma Rauða krossins 1717, fara á netspjallið 1717.is, hringja í 1700 hjá Heilsuveru eða í Píeta símann 552-2218.

Categories
Fréttir Greinar

Orkuöryggi almennings er forgangsmál

Deila grein

15/03/2025

Orkuöryggi almennings er forgangsmál

Hver hefði trúað því fyr­ir aðeins nokkr­um miss­er­um að orku­ör­yggi al­menn­ings á Íslandi yrði mál mál­anna? En þannig er staðan á Íslandi í dag.

Hinn 13. mars sl. lagði ég fram til­lögu til þings­álykt­un­ar um að tryggja orku­ör­yggi al­menn­ings. Orku­ör­yggi al­menn­ings verður að vera eitt af for­gangs­mál­um Alþing­is. Það er fátt sem skipt­ir meira máli fyr­ir lífs­gæði lands­manna en ör­uggt aðgengi að raf­orku á hag­kvæmu verði.

Við höf­um nú orðið vitni að mestu hækk­un­um á raf­orku­verði til al­menn­ings í ára­tugi, og þess­ar hækk­an­ir eru alls ekki vegna skorts á raf­orku. Skýr­ing­in ligg­ur í reglu­verki sem vernd­ar ekki venju­lega not­end­ur, okk­ur al­menn­ing. Hér áður fyrr var þessi laga­lega vörn skýr og Lands­virkj­un gegndi því hlut­verki að tryggja orku­ör­yggi heim­ila. Með nýrri orku­lög­gjöf var þessi for­gang­ur felld­ur niður, án þess að koma í stað annarra úrræða sem styðja við okk­ur sem not­um inn­an við fimmt­ung raf­orku­fram­leiðslunn­ar.

Heim­il­in, ein­stak­ling­ar í rekstri og minni fyr­ir­tæki mega ekki lenda í sam­keppni við stór­not­end­ur sem eru með trausta lang­tíma­samn­inga, á sama tíma og við hin, al­menn­ing­ur og minni fyr­ir­tæki, erum varn­ar­laus fyr­ir hækk­un­um.

Eft­ir­spurn eft­ir end­ur­nýj­an­legri orku eykst stöðugt bæði hér­lend­is og er­lend­is, og í dag er ekk­ert sem kem­ur í veg fyr­ir að stærri aðilar bjóði ein­fald­lega hærra verð í ork­una en al­menn­ing­ur get­ur staðið und­ir. Þetta er óá­sætt­an­leg staða fyr­ir heim­ili, bænd­ur og minni fyr­ir­tæki sem eru upp­spretta fjöl­breyti­leika í at­vinnu­lífi og mik­il­vægt mót­vægi gegn samþjöpp­un valds á markaðnum. Hags­mun­ir þess­ara hópa eru um leið hags­mun­ir lands­byggðar­inn­ar; fólk sem býr á köld­um svæðum og sem þarf raf­orku til upp­hit­un­ar hús­næðis býr við tvö­falda áhættu.

Ég trúi því og treysti að Alþingi lag­færi þetta órétt­læti. Því bind ég von­ir við að um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra und­ir­búi laga­breyt­ing­ar sem tryggi stöðu og hags­muni al­menn­ings. Við þurf­um að tryggja for­gang heim­ila og viðhalda hag­kvæmu raf­orku­verði sem hef­ur verið grund­vall­ar­hluti af lífs­kjör­um lands­manna.

Á sama tíma þurf­um við einnig að taka upp­lýst­ar og ábyrg­ar ákv­arðanir um nýj­ar virkj­an­ir til að styðja við fjöl­breytt­an iðnað og vöxt sam­fé­lags­ins. Það er efni í aðra grein.

Tryggj­um ör­ugga raf­orku til allra lands­manna.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. mars 2025.

Categories
Fréttir

Orkuöryggi almennings verður að vera forgangsmál

Deila grein

14/03/2025

Orkuöryggi almennings verður að vera forgangsmál

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu um að tryggja orkuöryggi almennings á Íslandi. Hún leggur áherslu á að hátt raforkuverð til almennings stafi ekki af skorti á orku heldur skorti á regluverki sem tryggi réttindi heimila og minni notenda. „Orkuöryggi almennings verður að vera eitt af forgangsmálum Alþingis. Það er fátt sem skiptir meira máli fyrir lífsgæði landsmanna en öruggt aðgengi að raforku á hagkvæmu verði.“

Halla Hrund bendir á að orkuþörf heimila á Íslandi sé innan við 5% af raforkuframleiðslu þjóðarinnar og minni notendur, s.s. hárgreiðslustofur, bændur og minni fyrirtæki, noti samtals um 20% orkunnar. Aftur á móti fari 80% raforkunnar til stórnotenda eins og álvera og gagnavera sem njóta langtímasamninga.

Regluverk veikir stöðu almennings

Samkvæmt Höllu Hrund var tryggt orkuöryggi almennings áður fyrr lagalega verndað. „Landsvirkjun gegndi því hlutverki að tryggja orkuöryggi heimila. Með nýrri orkulöggjöf var þessi forgangur felldur niður, án þess að koma í staðinn öðrum úrræðum sem styðja við almenning,“ segir hún.

Hún telur óásættanlegt að heimili og minni fyrirtæki þurfi að keppa við stórnotendur sem bjóði einfaldlega hærra verð í raforkuna en almenningur getur staðið undir. Þetta skapi sérstaklega ótryggar aðstæður fyrir fólk á köldum svæðum sem er háð rafmagni til upphitunar húsnæðis.

Brýn þörf á lagabreytingum

Í þingsályktunartillögunni er lagt til að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra leggi fram frumvarp á yfirstandandi vorþingi sem tryggi stöðu almennings og stuðli að stöðugu og hagkvæmu raforkuverði.

„Við höfum orðið vitni að mestu hækkunum á raforkuverði til almennings í áratugi, og þessar hækkanir eru alls ekki vegna skorts á raforku. Við þurfum að tryggja forgang heimila og viðhalda hagkvæmu raforkuverði sem hefur verið grundvallarhluti af lífskjörum landsmanna,“ segir Halla Hrund.

„Tryggjum raforkuöryggi fyrir alla landsmenn“

Halla Hrund leggur áherslu á að Alþingi verði að lagfæra þetta óréttlæti með skýrum lagabreytingum sem setja almenning í forgang.

„Ég trúi því og treysti að Alþingi lagfæri þetta óréttlæti. Við verðum að tryggja orkuöryggi heimila, bænda og minni fyrirtækja sem eru uppspretta fjölbreytileika í atvinnulífi og mikilvægt mótvægi gegn samþjöppun valds á markaðnum,“ segir hún.

Að lokum bendir hún á að þótt forgangur heimila sé brýnn, þurfi einnig að taka upplýstar ákvarðanir um nýjar virkjanir til að styðja við fjölbreyttan iðnað og vöxt samfélagsins. „Það er efni í aðra umræðu. En fyrst og fremst verðum við að tryggja örugga raforku til allra landsmanna.“

Categories
Fréttir

„Við þurfum skýra samræmda stefnu í efnahagsmálum“

Deila grein

14/03/2025

„Við þurfum skýra samræmda stefnu í efnahagsmálum“

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, var málshefjandi í sérstakri umræðu um stöðu efnahagsmála í aðdraganda fjármálaáætlunar á Alþingi. Sagði hann við blasa meiri háttar áskoranir bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Hann lagði áherslu á nauðsyn þess að þingið ræði helstu áskoranir og tækifæri sem Ísland stendur frammi fyrir, sérstaklega í ljósi óvissu í alþjóðamálum.

Alþjóðleg óvissa hefur áhrif á íslenskt efnahagslíf

„Breytingar á tollaumhverfi, líkur á aukinni verðbólgu, áframhaldandi stríðsátök og sveiflur í hrávöruverði skapa krefjandi aðstæður utan frá sem krefjast varfærinnar og markvissrar hagstjórnar. Það blasir við að staða mála er mörkuð mun meiri óvissu en síðastliðið haust,“ sagði Sigurður Ingi. Hann lagði áherslu á að við yrðum að vera vakandi yfir því hvernig þessi þróun hefur áhrif á stöðu Íslands og hvernig bregðast megi við til að tryggja velferð almennings.

Hagræðing og sjálfbær fjármál í forgrunni

Ríkisstjórnin hefur kynnt tillögur um hagræðingu í opinberum rekstri sem forsenda sjálfbærra fjármála ríkisins. Einnig hefur verið lagt fram langtímaáætlun fjármálaráðuneytisins um efnahagsmál sem lýsir umtalsverðri óvissu um stöðu efnahagsmála.

Sigurður Ingi spurði fjármála- og efnahagsráðherra um viðbrögð og aðgerðaáætlanir ríkisstjórnarinnar vegna hugsanlegra breytinga á tollaumhverfi og sölu ríkiseigna. Hann benti á að fram settar tölur um áætlaðan sparnað væru byggðar á veikum grunni og kallaði eftir skýrum svörum um hvort tillögur hagræðingarhópsins yrðu settar fram í komandi fjármálaáætlun. Hann lagði einnig áherslu á nauðsyn þess að tryggja að aðstæður haldist til frekari vaxtalækkunar.

Óvissa um sölu ríkiseigna

Þá vék hann einnig að sölu ríkiseigna og spurði sérstaklega um stöðu Íslandsbanka og Isavia.

„Hvað með sölu ríkiseigna? Væntanlega stendur til að selja Íslandsbanka á næstunni þrátt fyrir andstöðu Flokks fólksins, alla vega á síðasta kjörtímabili, í hinni samhentu ríkisstjórn. Stendur það til? Hvað með Isavia? Á síðustu mánuðum mínum í fjármálaráðuneytinu lét ég vinna skýrslu til að fá betri upplýsingar um eignarhald og rekstrarfyrirkomulag á slíku fyrirkomulagi eins og hjá Isavia. Er sú skýrsla komin fram, mér skilst það, og verður hún birt?“

Framsókn kallar eftir gegnsæi og samstöðu

Sigurður Ingi undirstrikaði mikilvægi skýrrar stefnu og afstöðu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Hann kallaði eftir samstöðu Alþingis og auknu gegnsæi við stjórn ríkisins til að tryggja velferð almennings og bregðast við óvissu í alþjóðamálum. Hann lýsti yfir vilja Framsóknar til heiðarlegs og málefnalegs samtals um efnahagsmál.

„Við nálgumst tíu ára afmæli laga um opinber fjármál. Lögin hafa gjörbreytt stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Í ljósi tíu ára reynslu og áforma um nýja stöðugleikareglu, sem við í Framsókn styðjum, sem ríkisstjórnin hefur kynnt er tilefni til að ræða hvort ekki sé kominn tími til að meta hvort lögin hafi yfirleitt skilað tilætluðum árangri og hvað megi bæta.“

Ítrekaði Sigurður Ingi mikilvægi þess að stjórnvöld og Alþingi standi saman í mótun efnahagsstefnu landsins.

Skýr stefna og afstaða ríkisstjórnarinnar er nauðsyn. Samstaða Alþingis vegna stöðunnar í alþjóðamálum hefur sjaldan verið eins mikilvæg og nú. Við þurfum skýra samræmda stefnu í efnahagsmálum og aukið gegnsæi við stjórn ríkisins. Við í Framsókn erum tilbúin í heiðarlegt og málefnalegt samtal um allt ofangreint. Við verðum að standa saman.“ sagði Sigurður Ingi að lokum.

Categories
Fréttir Greinar

Uppbygging hjúkrunarheimila á Íslandi

Deila grein

14/03/2025

Uppbygging hjúkrunarheimila á Íslandi

Upp­bygg­ing hjúkr­un­ar­heim­ila hef­ur verið eitt brýn­asta verk­efnið í ís­lensku vel­ferðar­kerfi und­an­far­in ár. Með hækk­andi meðal­aldri þjóðar­inn­ar vex þörf­in fyr­ir hjúkr­un­ar­rými hratt, en fram­kvæmd­in hef­ur því miður reynst hæg. Fram­kvæmda­áætl­un til árs­ins 2028 var lögð fram af fyrri rík­is­stjórn með það að mark­miði að bæta úr skorti á hjúkr­un­ar­rým­um, strax á þessu ári. Nú þegar ný rík­is­stjórn hef­ur tekið við vakn­ar spurn­ing­in hvort þau muni fylgja þeirri stefnu og tryggja fram­gang verk­efn­is­ins eða gera breyt­ing­ar á fyr­ir­komu­lag­inu.

Í síðustu viku lagði ég fram fyr­ir­spurn til fé­lags- og vinnu­markaðsráðherra um hvernig ný stjórn­völd hygðust tryggja raun­hæfa og tím­an­lega upp­bygg­ingu hjúkr­un­ar­heim­ila. Ég benti á mik­il­vægi póli­tísks vilja svo fjár­magn fylgdi sett­um mark­miðum. Því var mik­il­vægt að fá skýr svör um hvort ný rík­is­stjórn hygðist fylgja áætl­un­inni eða hvort stefnu­breyt­ing væri fyr­ir­huguð.

Hver er staðan nú?

Sam­kvæmt ný­legri skýrslu um fram­kvæmda­áætl­un hjúkr­un­ar­heim­ila er ljóst að á næstu árum þarf að byggja og bæta yfir 900 hjúkr­un­ar­rými, þar af fjölg­un um 724 rými. Á þessu ári er gert ráð fyr­ir um 250 nýj­um hjúkr­un­ar­rým­um, þar á meðal á Boðaþingi og Nesvöll­um sem verða opnuð með vor­inu og búið er að leigja aðstöðu í Urðar­hvarfi.

Ný verk­efni eins og hjúkr­un­ar­heim­ili á Ak­ur­eyri, í Húsa­vík, Pat­reks­firði og á höfuðborg­ar­svæðinu voru á dag­skrá fyrri rík­is­stjórn­ar þar sem fara átti svo­kallaða leigu­leið til að flýta fyr­ir fram­kvæmd­um.

Fram­kvæmd­ir og framtíðar­sýn

Ein af lyk­il­spurn­ing­um sem ég beindi til ráðherra var hvort rík­is­stjórn­in ætlaði að fylgja þeirri stefnu fyrri rík­is­stjórn­ar að nota leigu­leiðina til að hraða upp­bygg­ingu. Þessi aðferð fel­ur í sér að ríkið aug­lýs­ir eft­ir fast­eigna­fé­lög­um eða bygg­ing­araðilum til að reisa og reka hjúkr­un­ar­heim­il­in, en ríkið tek­ur þau síðan á lang­tíma­leigu. Þetta hef­ur reynst skila skjót­ari ár­angri en hefðbund­in fram­kvæmda­leið.

Svar ráðherra var óljóst, sagði þau vera að vinna verkið og fram­kvæma en svaraði engu til með leigu­leiðina. Þetta lof­orð um fram­kvæmd er án efa já­kvætt, en það þarf að tryggja að skýr­ar fjár­veit­ing­ar og samn­ing­ar fylgi með. Án fjár­magns og sam­stöðu rík­is og sveit­ar­fé­laga geta fram­kvæmd­ir taf­ist óþarf­lega, eins og dæm­in sanna. Ég mun áfram fylgj­ast náið með hvernig þess­ar fram­kvæmd­ir þró­ast, því það skipt­ir máli að eldri borg­ar­ar okk­ar fái þann stuðning og þá umönn­un sem þeir eiga skilið.

Á næstu árum mun eft­ir­spurn eft­ir hjúkr­un­ar­rým­um aðeins aukast. Fyr­ir­spurn mín til ráðherra var því ekki bara spurn­ing um fram­kvæmda­áætlan­ir, held­ur um sam­fé­lags­lega ábyrgð. Nú er það verk­efni rík­is­stjórn­ar­inn­ar að láta verk­in tala og munu næstu mánuðir leiða í ljós hvort hún ætl­ar að standa við lof­orð og tryggja að upp­bygg­ing hjúkr­un­ar­heim­ila verði ekki aðeins orð á blaði held­ur áþreif­an­leg­ur veru­leiki.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður og þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. mars 2025.

Categories
Fréttir

„Leikskólapláss varða framtíð barna okkar, jafnrétti á vinnumarkaði og efnahagslega stöðu fjölskyldna“

Deila grein

13/03/2025

„Leikskólapláss varða framtíð barna okkar, jafnrétti á vinnumarkaði og efnahagslega stöðu fjölskyldna“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, fór yfir í störfum þingsins, hver staðan í Reykjavík væri við að tryggja öllum börnum leikskólapláss, en hundruð foreldra bíða nú eftir slíku fyrir börnin sín. „Að tryggja öllum börnum leikskólapláss er mikilvægt verkefni sveitarfélaga. Þau varða framtíð barna okkar, jafnrétti á vinnumarkaði og efnahagslega stöðu fjölskyldna.“

Framsókn í borgarstjórn Reykjavíkur hefur lagt til tímabundnar heimgreiðslur til foreldra sem bíða eftir leikskólaplássi. Hugmyndin er að greiðslurnar séu bundnar við virka umsókn og falli niður strax og barnið fær úthlutað rými. Meirihluti borgarstjórnar hafnaði þessari tillögu.

„Heimgreiðslur geta dregið úr fjárhagslegu álagi á fjölskyldur sem standa frammi fyrir bili milli fæðingarorlofs og leikskólavistar. Sveitarfélög ættu að nýta sér þetta tímabundna úrræði samhliða því að fjölga leikskólaplássum með samvinnu við atvinnulífið og fjölbreyttari rekstrarformum,“ sagði Ingibjörg.

„Við í Framsókn viljum styðja við fjölskyldur með raunhæfum úrræðum sem bæta lífsgæði barna og foreldra.“

Ingibjörg kallaði eftir viðbrögðum Kolbrúnar Baldursdóttur, alþingismanns, frá Flokki fólksins, varðandi viðhorf til heimgreiðslna og hugsanlegra annarra lausna, svo sem lengingar fæðingarorlofs eða leikskóla rekna af fyrirtækjum eins og Alvotech hefur boðið fram.

„Hver er þín sýn á heimgreiðslur til foreldra? Styður þú rök meiri hluta borgarstjórnar um að þetta sé óraunhæft úrræði eða telur þú að slíkar greiðslur geti skipt sköpum fyrir fjölskyldur í erfiðri stöðu? Styður þú lengingu fæðingarorlofs sem lausn til að draga úr þessu bili sem myndast á milli fæðingarorlofs og leikskóla? Og hvað finnst þér varðandi annað rekstrarform leikskóla eins og Alvotech var reiðubúið í?,“ sagði Ingibjörg að lokum.

Störf þingsins – Ingibjörg Isaksen:
Categories
Fréttir

Gagnrýnir ráðherra fyrir rangar upplýsingar um viðbragðstíma í Háholti

Deila grein

13/03/2025

Gagnrýnir ráðherra fyrir rangar upplýsingar um viðbragðstíma í Háholti

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, gagnrýndi harðlega í ræðu á Alþingi nýlega ákvörðun stjórnvalda um að hafna nýtingu Háholts í Skagafirði fyrir vistun barna. Sagði hann mennta- og barnamálaráðherra, Ásthildi Lóu Þórsdóttur, um að fara með rangar upplýsingar varðandi viðbragðstíma neyðaraðila á svæðinu, sem gætu haft þau áhrif að ranglega sé metið að staðurinn henti ekki fyrir vistun barna og þannig útilokað mögulega mikilvægt úrræði á röngum forsendum.

„Ráðherra heldur því fram að viðbragðstíminn í Háholti sé 30 mínútur. Raunveruleikinn er sá að frá Sauðárkróki að Háholti eru aðeins 22 km. Það myndi því þýða að ekið væri á aðeins 40 km. hraða í neyðarakstri, sem er auðvitað fjarstæðukennt,“ sagði Stefán Vagn.

Sagði hann sveitarfélagið hafa fengið ófullnægjandi eða engin svör frá ráðuneytinu varðandi nýtingu húsnæðisins í Háholti og að enginn fulltrúi hafi einu sinni komið á staðinn til að kanna aðstæður.

„Þetta eru rökleysur og sýna fram á illa upplýsta ákvörðun. Ég hvet ráðherra til að endurskoða málið, koma sjálf á staðinn og kanna aðstæður og tryggja að ákvörðun um nýtingu Háholts verði tekin á grundvelli réttra upplýsinga og raunverulegra staðreynda,“ sagði Stefán Vagn að lokum.

Störf þingsins – Stefán Vagn Stefánsson:

Categories
Fréttir

Sjávarflóð verða algengari – kallað eftir sérstökum viðlagasjóði

Deila grein

13/03/2025

Sjávarflóð verða algengari – kallað eftir sérstökum viðlagasjóði

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, ræddi á Alþingi þau miklu áhrif sem sjávarflóð höfðu nýlega á Suðurnesjum. Hún benti á að slíkar náttúruhamfarir séu orðnar sífellt tíðari og lagði áherslu á loftslagsbreytingar sem aðalorsökina. Hærra sjávarborð væri afleiðing bæði hlýnunar hafsins og bráðnunar jökla, en að áhrifin væru önnur hér á landi, sérstaklega vegna nálægðar Íslands við Grænland.

„Við sjáum þegar slíka atburði eiga sér stað erlendis, eins og í New York vegna sjávarflóða og Kaliforníu vegna skógarelda, þá draga tryggingafélög sig gjarnan út af þeim svæðum sem verða verst úti,“ sagði Halla Hrund.

Í ljósi þessa kallaði hún eftir framtíðarsýn stjórnvalda og spurði hvort kominn væri tími á að stofna sérstakan sjóð til að mæta afleiðingum sjávarflóða. „Við þurfum að skoða hvort það sé nauðsynlegt að stofna sérstakan viðlagasjóð, sambærilegan þeim sem nú þegar tekur á skriðuföllum og snjóflóðum.“

Halla Hrund benti sérstaklega á áhættusvæði eins og Suðurnes, Seltjarnarnes og Reykjavík sem gætu staðið frammi fyrir aukinni tíðni flóða í framtíðinni.

Störf þingsins – Halla Hrund Logadóttir: