Síðustu daga hefur sprottið upp mikil og ekki síður mikilvæg umræða um framtíð menntunar og menntastofnana. Menntamálaráðherra ákvað í lok apríl síðastliðnum að setja af stað könnun um aukið samstarf eða sameiningu nokkurra framhaldsskóla á landinu. Markmið þeirrar vinnu hefur ávallt verið að styrkja faglega umgjörð námsins og rekstrarleg málefni skólanna. Það getur í einhverjum tilfellum þýtt sameiningu einstakra skóla til að búa til nýjar og öflugri einingar þar sem það er bæði hægt, og á við, til að takast á við þær breytingar og áskoranir sem fram undan eru á sviði menntamála. Sameining má hins vegar aldrei vera sameiningarinnar vegna, heldur verður að standa traustum fótum og það þarf að vera tryggt að slíkt stuðli að betra námi og traustari umgjörð nemenda og starfsfólks til framtíðar. Það er leiðarljós okkar og ég veit að slíkt er leiðarljós ráðherra málaflokksins.
Hagræðing eða sparnaður?
Með sparnaði er verið að skera niður fjármagn eða færa fjármagn úr einum málalfokki yfir í annan. Hagræðing innan málaflokks snýst hins vegar um að nýta þá fjármuni sem til staðar á betri hátt. Hún snýst um að nýta fjármuni á þá staði þar sem þeir eiga raunverulega heima. Í menntamálum eiga fjármunir að fara í að styrkja menntun nemenda, umgjörð þeirra og umgjörð starfsfólks. Þeir eiga ekki að fara í óþarfa steinsteypu eða rekstrarlega yfirbyggingu. Þetta virðist Sjálfstæðisflokknum hugnast illa. Flokki sem oft og iðulega tala í orði fyrir því að fara vel með og nýta fjármuni með skynsamlegum hætti. Óli Björn Kárason, þingmaður flokksins, skrifaði sérkennilega grein um eina af þessum umræddu tillögum í Morgunblaðið á dögunum og tók það sérstaklega fram að þau áform sem ráðherra hefði kynnt, og þingmaðurinn væri alfarið á móti og aðrir þingmenn flokksins tekið undir, væru ólík öðrum sambærilegum áformum eins og sameiningu annarra stofnana hér á landi. Hvernig má það vera? Þessi rök halda auðvitað engu vatni, ekki dropa, og jaðra við að vera hlægileg frá jafn skynsömum manni og Óla Birni. Hugmyndin er ekki að skera niður, hugmyndin er að nýta fjármuni betur og styrkja menntun. Það er allra hagur. Sjálfstæðisflokkurinn er bara flokkur hins opinbera, líður vel að þenja kerfið út, leggja auknar álögur á fólk í stað þess að fara vel með og sækja fjármuni á þá staði þar sem þeir raunverulega eru. Og standa með venjulegu fólki. Einhvern tímann hefði þetta kallast að vera kominn út í horn, eða jafnvel að magalenda út í skurði. Ég skal ekki segja.
Áskoranir í menntamálum fram undan
Bóknámsnemum er að fækka en nemendum í iðn- og tæknimenntun er að fjölga. Það er áskorun og það þarf kjark til að bregðast við þeirri áskorun. Fyrir um ári síðan var staðan sú að um 700 einstaklingar komust ekki inn í iðnnám. Staðan er einfaldlega þessi að við þurfum að fjárfesta í verknámi, starfsnámi og þá nemendum og umgjörð þeirra sem slíkt nám velja. Við þurfum sérfræðinga og öfluga einstaklinga til að taka þátt í þessum áskorunum sem fram undan eru við að byggja upp, virkja, skapa og taka þátt í nýsköpun og orkuskiptum. Þetta er að gerast mjög hratt. Ljósið í þessu öllu saman, raunar sé ég litla birtu vegna umræðunnar, er að nú hljóta kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að styðja við auknar fjárveitingar til framhaldsskólanna svo að þeir nemendur sem fari í dýrara nám fái tækifæri til að njóta þeirrar nauðsynlegu fjölbreytni sem um er rætt.
Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Greinin birtist fyrst á visir.is 21. september 2023.
Í upphafi nýs þingvetrar verða breytingar á skipan þingmanna Framsóknar í fastanefndum Alþingis.
Stefán Vagn Stefánsson er nýr formaður fjárlaganefndar og tekur hann við formennsku af Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, Vinstrihreyfingunni – grænu framboði.
Ágúst Bjarni Garðarsson tekur sæti sem aðalmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í stað Lilju Rannveigar Sigurgeirsdóttur.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir tekur sæti sem aðalmaður í utanríkismálanefnd í stað Jóhanns Friðriks Friðrikssonar. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir tekur einnig sæti sem aðalmaður í allsherjar- og menntamálanefnd í stað Jóhanns Friðriks Friðrikssonar.
Jóhann Friðrik Friðriksson tekur sæti sem aðalmaður í fjárlaganefnd í stað Þórarins Inga Péturssonar. Jóhann Friðrik Friðriksson tekur einnig sæti sem aðalmaður í efnahags- og viðskiptanefnd í stað Hafdísar Hrannar Hafsteinsdóttur.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir tekur sæti sem aðalmaður í atvinnuveganefnd í stað Stefáns Vagns Stefánssonar. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir tekur einnig sæti sem aðalmaður í velferðarnefnd í stað Hafdísar Hrannar Hafsteinsdóttur.
Líneik Anna Sævarsdóttir tekur sæti sem aðalmaður í allsherjar- og menntamálanefnd í stað Lilju Rannveigar Sigurgeirsdóttur.
Þórarinn Ingi Pétursson er nýr formaður atvinnuveganefndar og tekur hann við formennsku af Stefáni Vagni Stefánssyni.
Yfirlit yfir nefndarsetu þingmanna Framsóknar í fastanefndum:
Komum í veg fyrir upplýsingaóreiðu og umræðu með upphrópunum!
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, ræddi kynfræðslu og hinsegin fræðslu í grunnskólum í störfum þingsins. Samfélagsumræðan hefur verið hávær undanfarið vegna kynningar Menntamálastofnunar á kennsluefni í kynlífsfræðslu fyrir 7-10 ára. Fór Hafdís Hrönn yfir að foreldrar óski réttilega eftir upplýsingum um fræðsluna og setji jafnvel fyrirvara við námsefnið eða uppsetningu þess. Foreldrar vilji einnig vita hvað börnin þeirra eru að læra til að geta tekið samtalið heima við.
„Varðandi nær allt annað námsefni væri því fagnað að foreldrar sýndu slíkan áhuga en hvað þessa fræðslu varðar virðist ekki alveg það sama gilda,“ sagði Hafdís Hrönn og bætti við að foreldrar sem vilji frekari upplýsingar um fræðsluna séu ekki að beita fordómafullri orðræðu eða að dreifa falsupplýsingum.
„Foreldrar gera sitt besta í að gæta hagsmuna barna sinna af heilindum og spyrja því gagnrýninna spurninga sem krefjast skýrra svara. Hysterían myndast nefnilega vegna upplýsingaskorts til foreldra. Við þurfum að upplýsa foreldra betur um námsefnið til að koma í veg fyrir svona stöðu í framtíðinni. Með þeim hætti má einmitt koma í veg fyrir upplýsingaóreiðu og að umræða sé leidd áfram af upphrópunum, umræða sem verður að taka af yfirvegun,“ sagði Hafdís Hrönn.
„Ég styð heils hugar réttindabaráttu hinsegin og kynsegin fólks og mikilvægi þess að við fáum öll fræðslu um fjölbreytileika samfélagsins. Við þurfum líka að fræða um áskoranir einstaklinga með einhverfu og ADHD. Höldum áfram að fræða í átt að meiri samstöðu og umburðarlyndi í samskiptum milli fólks. Með þessu vil ég hvetja til aukins samtals milli heimilis og skóla því að við erum öll í þessu saman, þ.e. að koma börnunum okkar almennilega til manns svo sómi sé að fyrir samfélagið allt,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.
Ræða Hafdísar Hrannar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Kynfræðsla og hinsegin fræðsla í grunnskólum hefur verið mikið í kastljósi samfélagsumræðunnar undanfarið. Í miðju þessarar umræðu eru foreldrar sem spyrja spurninga, kalla eftir upplýsingum um fræðsluna og setja jafnvel fyrirvara við námsefnið eða uppsetningu hennar, foreldrar sem vilja vita hvað börnin þeirra eru að læra til að geta tekið samtalið líka heima við. Varðandi nær allt annað námsefni væri því fagnað að foreldrar sýndu slíkan áhuga en hvað þessa fræðslu varðar virðist ekki alveg það sama gilda. Það er undarlegt að því sé haldið fram að foreldrar séu að beita fordómafullri orðræðu, dreifa falsupplýsingum og valda usla í samfélaginu vegna þess að þeir vilja fá frekari upplýsingar um fræðsluna. Foreldrar gera sitt besta í að gæta hagsmuna barna sinna af heilindum og spyrja því gagnrýninna spurninga sem krefjast skýrra svara. Hysterían myndast nefnilega vegna upplýsingaskorts til foreldra. Við þurfum að upplýsa foreldra betur um námsefnið til að koma í veg fyrir svona stöðu í framtíðinni. Með þeim hætti má einmitt koma í veg fyrir upplýsingaóreiðu og að umræða sé leidd áfram af upphrópunum, umræða sem verður að taka af yfirvegun.
Virðulegi forseti. Ég styð heils hugar réttindabaráttu hinsegin og kynsegin fólks og mikilvægi þess að við fáum öll fræðslu um fjölbreytileika samfélagsins. Við þurfum líka að fræða um áskoranir einstaklinga með einhverfu og ADHD. Höldum áfram að fræða í átt að meiri samstöðu og umburðarlyndi í samskiptum milli fólks. Með þessu vil ég hvetja til aukins samtals milli heimilis og skóla því að við erum öll í þessu saman, þ.e. að koma börnunum okkar almennilega til manns svo sómi sé að fyrir samfélagið allt.“
Íbúar landsbyggðarinnar eru nánast farnir að taka því sem sjálfsögðum hlut að leggja land undir fót með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn til þess að sækja sér sérfræðiþjónustu til Reykjavíkur. Greiningar hafa sýnt að fólk á landsbyggðinni er ólíklegra til þess að sækja sér þjónustu sérfræðilækna heldur en fólk af höfuðborgarsvæðinu og er ólíklegt að það sé vegna þess að fólk á landsbyggðinni sé hraustara heldur fyrir sunnan. Staðreyndin er sú að oft er um langan veg að fara og aðgengi að þjónustu er ekki jafnt.
Það þarf að fjölga ferðum
Líkt og staðan er í dag getur það verið verulega kostnaðarsamt fyrir þá sem eru búsettir á landsbyggðinni að sækja sér heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðið. Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í kostnaði við tvær ferðir sjúkratryggðs á 12 mánaða tímabili, þegar um er að ræða nauðsynlega ferð og þjónustan er ekki í boði í heimabyggð. Undirrituð telur það jafnréttismál fyrir íbúa landsbyggðarinnar að endurgreiðslum vegna slíkra ferða verði fjölgað og jafna með þeim hætti aðgengi íbúa landsins að heilbrigðisþjónustu. Í því samhengi þyrfti í auknum mæli að horfa til þarfa hvers og eins. Rétt er þó að geta þess til að koma í veg fyrir misskilning að ef um alvarlega sjúkdóma er að ræða þá endurgreiða Sjúkratryggingar ferðakostnaði vegna fleiri ferða.
Jafnt aðgengi að sérfræðingum
Með nýjum samningum við sérgreinalækna var stigið mikilvægt skref í átt að betri heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn. Að ná samningunum var meðal mikilvægustu verkefna ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili og það var virkilega ánægjulegt að heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, hafi náð að landa þeim. Tækifærin eru til staðar, verkefnið er að halda áfram á sömu leið. Markmið stjórnvalda er að halda markvisst áfram að bæta heilbrigðiskerfið, tryggja öfluga heilbrigðisþjónustu og jafna aðgengi.
Sú sem hér skrifar telur þörf á að efla enn frekar þjónustu sérfræðilækna við íbúa landsbyggðarinnar. Þónokkrir sérfræðilæknar leggja land undir fót og þjónusta fólk í hinum ýmsu byggðum um land allt. Í því ljósi telur undirrituð það ákjósanlegra að fækka markvisst ferðum fólks af landsbyggðinni þar sem því verður við komið og efla enn frekar ferðir sérfræðinga út á land.
Sérfræðilæknar eru takmörkuð auðlind og því er erfitt að gera kröfu um að þeir hafi fasta starfstöðvar á hverjum degi á landsbyggðinni. En það er mögulegt að auka samstarf milli sérfræðilækna og heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og nýta þá aðstöðu sem víða er til staðar. Sú sem hér skrifar telur mikilvægt að gengið verði til samræðna við sérfræðilækna með það að markmiði að færa þjónustu þeirra nær fólkinu. Með því að fjölga ferðum sérfræðinganna út á land fyrir tilstilli ríkisins til að sinna þjónustunni í heimabyggð er það ekki bara hagræði fyrir þá sem þurfa að leita sér heilbrigðisþjónustu heldur kæmi það einnig til með að spara ríkissjóði talsverðar fjárhæðir. Með einni ferð sérfræðingsins er tugum annarra sparað sömu ferð. Þá eru ótalin jákvæð umhverfisáhrif vegna minni ferðalaga.
Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.
Greinin birtist fyrst á visir.is 19. september 2023.
„Við verðum að tryggja öruggara eftirlit og viðbrögð við slysasleppingum“
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, ræddi sjókvíaeldi og laxveiði í störfum þingsins. Rakti hún áhyggjur á möguleikum á erfðablöndun villtra laxa og strokufiska. Síðustu daga hafa verið að veiðast eldislaxar í laxveiðiám á stóru svæði en gat fannst á nótarpoka í sjókví í Patreksfirði fyrir nokkru. Þegar gatið uppgötvaðist kom í ljós að 3.500 fiska vantaði í kvína.
„Hér á landi hefur sjókvíaeldi vaxið með miklum hraða síðustu ár og vakið áhyggjur þeirra sem hafa tekjur sínar af laxveiði. Á bak við báðar þessar atvinnugreinar eru fjölskyldur, samfélög og fyrirtæki sem reiða sig á góða afkomu,“ sagði Lilja Rannveig.
„Þegar kom að skipulagningu sjókvíaeldissvæða var ákveðið að friða tilgreind svæði á landinu fyrir sjókvíaeldi með það að markmiði að minnka líkurnar á því að strokulaxar kæmust í laxveiðiárnar,“ sagði Lilja Rannveig og hélt áfram: „Staðreyndin er sú að það má alltaf gera ráð fyrir því að áföll verði og það munu alltaf einhverjir laxar sleppa úr sjókvíum.“
Til landsins eru komnir kafarar sem fara í ár, leita að laxinum og skjóta með skutulbyssu og sjókvíaeldisfyrirtækið segist ætla að bæta verkferla. „Tryggja verður öruggara eftirlit og viðbrögð við slysasleppingu svo að svona ástand endurtaki sig ekki. Trúverðugleiki og framtíð beggja atvinnugreina er í húfi.“
„Því hef ég óskað eftir sérstakri umræðu við hæstv. matvælaráðherra um slysasleppingar í sjókvíaeldi því að það er mikilvægt að við tökum umræðuna hér í þessum sal,“ Lilja Rannveig að lokum.
Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Sjókvíaeldi og laxveiði. Þessum atvinnugreinum er oft stillt upp sem andstæðum pólum. Á bak við þessar atvinnugreinar eru fjölskyldur, samfélög og fyrirtæki sem reiða sig á afkomu þeirra. Sjókvíaeldi hefur vaxið með miklum hraða hér á landi síðustu ár sem hefur vakið áhyggjur þeirra sem hafa tekjur sínar af laxveiði. Áhyggjurnar snúa að mestu leyti að möguleikum á erfðablöndun villtra laxa og strokufiska. Þegar kom að skipulagningu sjókvíaeldissvæða var ákveðið að friða tilgreind svæði á landinu fyrir sjókvíaeldi með það að markmiði að minnka líkurnar á því að strokulaxar kæmust í laxveiðiárnar. Staðreyndin er sú að það má alltaf gera ráð fyrir því að áföll verði og það munu alltaf einhverjir laxar sleppa úr sjókvíum. En fyrir nokkrum dögum fannst gat á nótarpoka í sjókví í Patreksfirði. Þegar gatið uppgötvaðist kom í ljós að 3.500 fiska vantaði í kvína. Síðustu daga hafa verið að veiðast laxar í laxveiðiám á stóru svæði — á friðuðu svæði. Sá fjöldi fiska sem hafa verið sendir í greiningu til að kanna hvort þeir séu eldisfiskar er kominn á annað hundrað. Til landsins eru komnir kafarar sem fara í ár, leita að laxinum og skjóta með skutulbyssu, sem hljómar smá eins og léleg hasarmynd. Sjókvíaeldisfyrirtækið segist ætla að bæta verkferla til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig en við verðum að tryggja öruggara eftirlit og viðbrögð við slysasleppingu svo að svona ástand endurtaki sig ekki. Trúverðugleiki og framtíð beggja atvinnugreina er í húfi. Því hef ég óskað eftir sérstakri umræðu við hæstv. matvælaráðherra um slysasleppingar í sjókvíaeldi því að það er mikilvægt að við tökum umræðuna hér í þessum sal.“
„Þegar sjóvarnargarður brast við Hvalsnes skammt frá Sandgerði í Suðurnesjabæ í byrjun mánaðarins vorum við enn og aftur minnt á mikilvægi sjóvarna. Heimilisfólk varð að vaða frá heimili sínu á þurrt land samkvæmt fréttum og Brunavarnir Suðurnesja þurftu að bíða eftir því að sjávarstaða breyttist til að dæla vatni frá húsinu,“ sagði Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, í störfum þingsins.
Sagði hann stjórnvöld hafa unnið að ýmsum forvörnum gegn óblíðum náttúruöflum, þar mætti helst nefna snjóflóðavarnir, eftirlit með jarðhræringum og mögulegum eldgosum, áætlanagerð og ýmiss konar aðra þætti er snúa að almannavarnakerfinu.
Vakti Jóhann Friðrik athygli á sérstakri bókun bæjarráðs Suðurnesjabæjar um sjóvarnir á fundi sínum, þann 13. september, en í henni segir: „Sjávarflóð eru ein tegund af náttúruvá sem við búum við hér á landi, mikilvægt er að bregðast við þessari vá á sama hátt og t.d. ofanflóðahættu þar sem góðar varnir skipta höfuðmáli til að lágmarka líkur á neikvæðum áhrifum á samfélagið.“
„Hamfarahlýnun er staðreynd og sjóvarnir eru ekki bara forgangsmál í Suðurnesjabæ heldur víða í mínu kjördæmi, svo sem í Vík, Höfn, Grindavík og víðar, og raunar um allt land. Sjávarstaða hækkar og sjóvarnir verða æ mikilvægari,“ sagði Jóhann Friðrik.
Eiga stjórnvöld að stofna sjávarflóðasjóð?
Sagði Jóhann Friðrik mikilvægt að fara sérstaklega vel yfir fjárveitingar vegna sjóvarna og að fram fari endurskoðun á fjármögnun sjóvarna.
„Við getum t.d. horft til ofanflóðasjóðs og þess forvarnahlutverks sem sjóðnum er ætlað. Á sama hátt tel ég ástæðu til þess að kanna hvort stjórnvöld eigi að stofna sjávarflóðasjóð sem hefur það að hlutverki að verjast ágangi sjávar og sjávarflóðum um landið allt, enda deginum ljósara að þörfin er knýjandi og hún á aðeins eftir að vaxa á komandi árum,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.
Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Við búum í návist óblíðra náttúruafla hér á landi. Stjórnvöld vinna að ýmsum forvörnum í þessu tilliti, má helst nefna snjóflóðavarnir, eftirlit með jarðhræringum og mögulegum eldgosum, áætlanagerð og ýmiss konar aðra þætti er snúa að almannavarnakerfinu okkar. Þegar sjóvarnargarður brast við Hvalsnes skammt frá Sandgerði í Suðurnesjabæ í byrjun mánaðarins vorum við enn og aftur minnt á mikilvægi sjóvarna. Heimilisfólk varð að vaða frá heimili sínu á þurrt land samkvæmt fréttum og Brunavarnir Suðurnesja þurftu að bíða eftir því að sjávarstaða breyttist til að dæla vatni frá húsinu. Hinn 13. september lagði bæjarráð Suðurnesjabæjar fram sérstaka bókun um málið þar sem segir, með leyfi forseta:
„Sjávarflóð eru ein tegund af náttúruvá sem við búum við hér á landi, mikilvægt er að bregðast við þessari vá á sama hátt og t.d. ofanflóðahættu þar sem góðar varnir skipta höfuðmáli til að lágmarka líkur á neikvæðum áhrifum á samfélagið.“
Virðulegi forseti. Hamfarahlýnun er staðreynd og sjóvarnir eru ekki bara forgangsmál í Suðurnesjabæ heldur víða í mínu kjördæmi, svo sem í Vík, Höfn, Grindavík og víðar, og raunar um allt land. Sjávarstaða hækkar og sjóvarnir verða æ mikilvægari. Nú þegar við fáum samgönguáætlun til meðferðar er mikilvægt að við skoðum sjóvarnir sérstaklega. Vegagerðin hefur úr takmörkuðu fjármagni að spila og því velti ég fyrir mér hvort ekki sé ástæða til þess að endurskoða fjármögnun sjóvarna hér á landi. Við getum t.d. horft til ofanflóðasjóðs og þess forvarnahlutverks sem sjóðnum er ætlað. Á sama hátt tel ég ástæðu til þess að kanna hvort stjórnvöld eigi að stofna sjávarflóðasjóð sem hefur það að hlutverki að verjast ágangi sjávar og sjávarflóðum um landið allt, enda deginum ljósara að þörfin er knýjandi og hún á aðeins eftir að vaxa á komandi árum.“
Mikilvægar og jákvæðar fréttir vegna ofanflóðavarna á Seyðisfirði og á Norðfirði
Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi framvindu uppbyggingar mannvirkja til varnar ofanflóðum í störfum þingsins og að síðasta stóra snjóflóðamannvirkið á Norðfirði til varnar íbúabyggðina hefjist strax á næsta ári, í stað 2025 eins og áætlað var. „Framkvæmdir við ofanflóðavarnir á Seyðisfirði hafa gengið hraðar en áætlað var og fjárveitingar til þeirra því auknar á þessu ári til að flýta verkefninu,“ sagði Líneik Anna.
En að halda verði „vel á spöðunum til að ná að ljúka öllum áætluðum framkvæmdaverkefnum til varnar ofanflóðum árið 2030 eins og gert er ráð fyrir í uppfærðri framkvæmdaáætlun sjóðsins frá 2020. Bæði þarf að tryggja fjármögnun og breyta og bæta hönnun eftir því sem reynsla fæst af þeim mannvirkjum sem þegar hafa verið byggð,“ sagði Líneik Anna.
„Í þessum verkefnum megum við hvergi hvika frá áætlunum“
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hyggst leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum þannig að lögin taki einnig til atvinnusvæða sem búa við ofanflóðahættu í þéttbýli og varnarmannvirkja sem þeim tengjast.
„Í dag rignir og rignir fyrir austan og ljóst að nýlega varnir og vöktunarkerfi eru þar að skila sínu. Virðulegi forseti. Í þessum verkefnum megum við hvergi hvika frá áætlunum,“ sagði Líneik Anna að lokum.
Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Í byrjun september barst mér svar við fyrirspurn sem ég lagði fram í febrúar um framvindu uppbyggingar mannvirkja til varnar ofanflóðum. Svarið segir mér að það þarf að halda vel á spöðunum til að ná að ljúka öllum áætluðum framkvæmdaverkefnum til varnar ofanflóðum árið 2030 eins og gert er ráð fyrir í uppfærðri framkvæmdaáætlun sjóðsins frá 2020. Bæði þarf að tryggja fjármögnun og breyta og bæta hönnun eftir því sem reynsla fæst af þeim mannvirkjum sem þegar hafa verið byggð. Hvort tveggja er vel mögulegt. Í svarinu eru líka mikilvægar og jákvæðar fréttir sem einnig hafa komið fram í tilkynningum frá ríkisstjórninni síðasta mánuðinn, þar á meðal að framkvæmdir við ofanflóðavarnir á Seyðisfirði hafa gengið hraðar en áætlað var og fjárveitingar til þeirra því auknar á þessu ári til að flýta verkefninu. Þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að flýta upphafi framkvæmda við næsta snjóflóðavarnargarð á Norðfirði um eitt ár þannig að þær framkvæmdir hefjist árið 2024 í stað 2025. Þar með verður síðasta stóra snjóflóðamannvirkið sem þarf til að verja íbúabyggðina þar komið. Loks segir í svari hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að hann hyggist leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum þannig að lögin taki einnig til atvinnusvæða sem búa við ofanflóðahættu í þéttbýli og varnarmannvirkja sem þeim tengjast. Í dag rignir og rignir fyrir austan og ljóst að nýlega varnir og vöktunarkerfi eru þar að skila sínu.
Virðulegi forseti. Í þessum verkefnum megum við hvergi hvika frá áætlunum.“
Við sem samfélag verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja stöðu íslenskrar tungu inn í framtíðina, ekki aðeins til að forða því að hér verði rof í merkri menningarsögu þjóðarinnar heldur einnig til að koma í veg fyrir að hér alist upp kynslóðir sem eru ófærar um að tjá sig vel á eigin móðurmáli. Þróun sem þessi er lúmsk, hún á sér stað hægt og rólega með minnkandi meðvitund okkar – og áður en við vitum af gæti sú staða komið upp að þróuninni verði ekki aftur snúið.
Sókn er besta vörnin
Ég tel að breið pólitísk sátt sé um það verkefni að snúa vörn í sókn – fyrir íslenska tungu. Fjölbreytt starf hefur verið unnið á vegum ráðherranefndar um málefni íslenskunnar og ráðuneytanna í vetur og birtist afrakstur þeirrar vinnu í aðgerðaáætlun sem kynnt var í samráðsgátt í sumar. Fjölmargar gagnlegar umsagnir bárust sem bæta munu þær aðgerðir og ljóst af fjölda þeirra og inntaki að margir eru viljugir að leggjast á árarnar með okkur. Aðgerðaáætlunin verður lögð fram sem þingsályktunartillaga á Alþingi nú í haust.
Eitt stærsta verkefnið fram undan er að tryggja að íslenska verði gjaldgeng í hinum stafræna heimi og það verkefni er langhlaup. Öflug innviðauppbygging á sviði máltækni hefur átt sér stað á síðustu 5 árum, fyrir tilstilli fyrstu máltækniáætlunar íslenskra stjórnvalda, og hefur það framtak og sú sýn vakið töluverða athygli út fyrir landssteinana. Ég vil fullyrða að sú vinna sem þegar hefur verið unnin, af íslenskum háskólum og nýskapandi fyrirtækjum í máltækni sé á heimsmælikvarða.
Áfram verður fjárfest í tungu og tækni
Nú þegar fyrstu máltækniáætluninni lokið er unnið að því að móta framtíðarfyrirkomulag fyrir áframhaldandi þróun og viðhald íslenskrar máltækni, svo sú þekking, mannauður og tækni sem orðið hefur til megi nýtast okkur sem best til framtíðar. Lykilverkefni í því samhengi er að stuðla að hagnýtingu tækninnar og innleiðingu. Starfshópur með alls 15 sérfræðingum úr atvinnulífi, stjórnkerfi og menntakerfi hefur að undanförnu kortlagt áskoranir og tækifæri sem þessu tengjast og munu niðurstöður hans nýtast við tillögugerð sem skilað verður á næstu vikum.
Fjármögnun fyrir næstu máltækniáætlun er tryggð og er gert ráð fyrir 360 milljónum króna á ári í málaflokkinn árlega út árið 2026 auk 160 milljóna til viðbótar á ári í gegn um samkeppnissjóðinn Markáætlun í tungu og tækni. Í heildina er því um að ræða um tveggja milljarða króna fjárfestingu í máltækni á tímabilinu.
Íslensk máltækni eykur lífsgæði fólks
Notkun íslenskrar máltækni getur nýst á ótal sviðum og orðið ein lykilbreytan í því að efla íslenska tungu til framtíðar. Nú þegar er íslensk máltækni nýtt til að aðstoða fjölda fólks með sjónskerðingu í daglegu lífi, einfalda upplýsingagjöf fyrirtækja og stofnana og í tungumálakennslu fyrir nýja Íslendinga.
Möguleika tækninnar þarf að kynna og byggja brú á milli vísindasamfélagsins, nýsköpunargeirans og stjórnkerfisins svo við getum nýtt þessa nýju inniviði – þessa stafrænu vegagerð – til hagsbóta fyrir alla. Nú er mikilvægt að við tökum öll höndum saman við að vinna þessum málum brautargengi. Það á við um okkur í stjórnmálunum, fólk í atvinnulífinu sem og okkur öll.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 18. september 2023.
Þróun umræðu í samfélaginu síðustu misseri hefur verið um margt umhugsunarverð, stundum byggir umræðan á staðreyndum en oftar en ekki er rangfærslum haldið á lofti. Það hefur sjaldan verið jafn mikilvægt og akkúrat nú á tímum falsfrétta að allar þær upplýsingar sem unnið er með hverju sinni sé réttar og sannar. Aðeins þannig getum við átt upplýsta og málefnalega umræðu og talað okkur saman að niðurstöðu mála. Ég lít svo á að það sé siðferðileg skylda okkar sem störfum í stjórnmálum að vanda til verka í allri umræðu og kynna okkur allar staðreyndir mála, aðeins þannig getum við tekið upplýsta ákvörðun. Annars er hættan alltaf á að við missum umræðuna út í ómálefnaleg úthróp og á villigötur. Fólk veigrar sér við að taka þátt í umræðunni með þeim afleiðingum að þeir sem hafa hæst ná að stela umræðunni. Við höfum séð þetta gerast oftar en einu sinni og erum líklega flest sammála að þetta sé ekki jákvæð þróun, við þurfum að gera betur.
Orð bera ábyrgð
Við sem höfum fengið það ábyrgðarmikla hlutverk að sitja á Alþingi gerum það í umboði þjóðarinnar. Almenningur gerir þá sjálfsögðu kröfu að á Alþingi fari fram rökræn og skynsamleg umræða. Orð sem eru látin falla í þingsal eða annars staðar úti í samfélaginu af hálfu þingmanna bera svo sannarlega ábyrgð. Almenningur treystir á og býst við að við þingmenn nálgumst alla umræðu af skynsemi og réttum staðreyndum. Okkar hlutverk er að vinna að umbóta- og framfaramálum fyrir þjóðina og það er skylda okkar sem eigum sæti á Alþingi að vera skynsemisröddin og ekki í sandkassaleik. Það sem af er þessu kjörtímabili höfum við sem störfum á Alþingi unnið í sameiningu þvert á flokka að ýmsum framfaramálum í þágu þjóðarinnar. Við erum ekki alltaf sammála en í gengum nefndirnar höfum við oft talað okkur saman að niðurstöðu. Mig langar því að nýta hér tækifærið og hvetja okkur áfram til góðra verka. Stjórnmálin eru oft skemmtileg en þau eru líka krefjandi og sérstaklega á tímum sem þessum þar sem margir eru með þungan róður. Í gegnum allt lífið færum við ákveðnar fórnir fyrir þær ákvarðanir sem hafa verið teknar. Þetta ferðalag sem lífið er býður ekki alltaf upp á mikla fyrirhyggju frá degi til dags. Við vinnum þó alltaf af sannfæringu og höfum trú á því að það sem við erum að gera sé það rétta í stöðunni hverju sinni.
Fyrir samfélagið
Að lokum vil ég hvetja okkur öll til að nálgast verkefnin fram undan með samvinnuhugsjón að leiðarljósi og nálgast umræðuna út frá skynsemi og með röksemdum og staðreyndum. Við ættum að forðast að benda fingrum í allar áttir og reyna heldur eftir fremsta megni að vinna saman, þó að okkur greini oft á um aðferðarfræðina erum við í grunninn sammála um að halda áfram að skapa gott samfélag og forsendur fyrir okkur til að vaxa og dafna. Við munum ekki ná árangri sem samfélag nema við stöndum saman og þar verður samvinnan alltaf að vera rauði þráðurinn hvort sem er á Alþingi eða annars staðar í samfélaginu.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.
Greinin birtist fyrst á visir.is 15. september 2023.
Stærsta einstaka áskorunin við gerð fjárlaga 2024 að ná verðbólgu niður!
Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður og formaður fjárlaganefndar, var talsmaður Framsóknar í fyrstu umræðu fjárlaga á Alþingi fyrir árið 2024 í dag.
Stefán Vagn sagði að augljóst væri að hvernig svo sem skipting fjármuna væri útfærð, yrði hún alltaf umdeild, sjónarmið stjórnmálaflokka á Alþingi væri misjöfn eðli málsins samkvæmt.
„Ekkert Evrópuríki sem tölur ná til hafði meiri hagvöxt á fyrri helmingi þessa árs. Þessum hraða vexti hafa fylgt mikil umsvif á vinnumarkaði. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist um 18% frá 2017 að teknu tilliti til skatta og vaxtagjalda. Atvinnuleysi er hverfandi og starfsfólki hefur fjölgað um 19.000 síðustu tvö ár,“ sagði Stefán Vagn.
Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir því að 46 milljarða kr. halla á rekstri ríkissjóðs á næsta ári. En það er rúmlega 73 milljörðum kr. betri afkoma en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins 2023. Það eru hærri tekjur og lægri útgjöld í hlutfalli við umfang hagkerfisins sem skila því.
Verðbólgan hefur reynst þrálátari hér undanfarna mánuði en er ekki séríslenskt fyrirbæri. „Er það stærsta einstaka áskorunin við gerð þessara fjárlaga að ná henni niður,“ sagði Stefán Vagn.
„Forgangsröðun í þágu mikilvægra innviði og almannaþjónustu einkennir komandi ár þar sem ríkið heldur áfram að leggja lóð á vogarskálarnar til að draga úr verðbólguþrýstingi í hagkerfinu.“
Almenn aðhaldskrafa er í fjárlögunum sem nemur 4,6 milljörðum kr. og til viðbótar sértækar aðhaldsaðgerðir sem nema um 3,8 milljörðum. Það eru aðgerðir stjórnvalda til að draga úr útgjaldavexti og sporna við þenslu ásamt útfærslu á 9 milljarða kr. óútfærðum afkomubætandi ráðstöfunum úr fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028.
Tekjuáætlun ársins 2024 gerir ráð fyrir að heildartekjur verði um 1.349 milljarðar eða 29,8% af vergri landsframleiðslu.
„Á tekjuhlið er m.a. gengið út frá forsendum um heildarendurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis, að farið sé í aukna skattlagningu á ferðaþjónustu og að auka gjaldtöku af fiskeldi,“ sagði Stefán Vagn.
Tekjur ársins fyrir 2024 eru áætlaðar að verða 15,4 milljörðum kr. meiri en í síðustu fjármálaáætlun.
„Vöxtur útgjalda ríkissjóðs að nafnvirði er þannig að stærstum hluta drifinn áfram af launa- og verðlagsbreytingum en ekki nýjum ákvörðunum. Þær eru áætlaðar um 68 milljarðar kr. á næsta ári sem er u.þ.b. tveir þriðju hluti aukningarinnar á útgjaldahliðinni og eru þær hlutfallslega miklar í sögulegu samhengi,“ sagði Stefán Vagn.
Fjárfest verði áfram í mikilvægum innviðum og vaxtargreinum hagkerfisins auk þess að bæta og styrkja þjónustu við almenning.
„Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð um 1.478 milljarðar á árinu 2024. Hækkun frá fjárlögum fyrra árs nemur um 143,1 milljarði og vega launa-, gengis- og verðlagsbreytingar þyngst eða um 67,9 milljarðar. Að þeim frátöldum hækka heildarútgjöld ríkissjóðs um 75,2 milljarða sem nemur um 5,6%. Samtals nemur hækkun rammasettra útgjalda 3,2%,“ sagði Stefán Vagn.
Töluverður hluti hækkunarinnar skýrist af:
stórauknum framlögum til byggingar nýs Landspítala og
breytinga á framsetningu á stuðningi við orkuskipti, en stuðningurinn færist frá tekjuhlið yfir á gjaldahlið.
Þá er gert ráð fyrir 17 milljarða kr. ráðstöfunum til að draga úr útgjaldavexti sem útfærðar eru í málefnasviðum ráðuneyta.
Betri afkoma hefur stutt við þá jákvæðu þróun sem birtist í skuldastöðu ríkissjóðs.
Með lækkandi skuldastöðu hefur náðst meginmarkmið fjármálastefnunnar um að stöðva vöxt skulda sem hlutfall af landsframleiðslu og rúmlega það. Áframhaldandi lækkun skulda er hins vegar grundvallaratriði á komandi ári og árum.
„Við þurfum að halda áfram að stækka kökuna, breikka tekjustofnana og fjölga tækifærum á Íslandi. Spenna á vinnumarkaði virðist hafa minnkað undanfarna mánuði. Atvinnuleysi náði lágmarki fyrr á árinu og lausum störfum hefur fækkað. Þjóðhagsspá gerir ráð fyrir að atvinnuleysi aukist lítillega og verði um 4% á árinu 2024. Þensla í þjóðarbúinu er í rénum og útlit fyrir að ágætt jafnvægi náist í þjóðarbúskapnum árið 2024 samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem liggur til grundvallar þessu fjárlagafrumvarpi. Spáin byggist á því að verulega hægi á fólksflutningum til landsins en hröð fólksfjölgun hefur verið megindrifkraftur hagvaxtar undanfarin ár,“ sagði Stefán Vagn.
Þjóðhagsspá gerir ráð fyrir því að verðbólga verði að jafnaði um 4,9% á næsta ári og fari svo lækkandi enn frekar árið 2025.
„Laun hafa hækkað meira en verðlag undanfarin ár og kaupmáttur launa hefur aukist á ný. Verðbólga leggst að jafnaði þyngst á þau sem hafa lægstar tekjur og mesta framfærslubyrði. Spornað hefur verið við þeirri þróun, m.a. með hækkun viðmiða tekjuskattskerfisins og hækkun bóta. Þannig hafa bætur almannatrygginga verið hækkaðar svo þær haldi í við verðbólgu,“ sagði Stefán Vagn.
Samspil launa, verðbólgu og vaxta er viðkvæmt og krefst ábyrgðar og samstillingar á vinnumarkaði, í opinberum fjármálum og á sviði peningamálastefnu. Hagur heimilanna vænkast samhliða auknum kaupmætti, auknum verðstöðugleika og lægra vaxtastigi.
Samhliða aðhaldi í útgjöldum er ráðist í nokkrar aðgerðir á tekjuhlið ríkisfjármálanna og má þar nefna að:
fyrsta skref verður tekið í breyttri gjaldtöku af ökutækjum og umferð á nýju ári líkt og boðað hefur verið þannig að áfram verði hægt að standa að metnaðarfullri uppbyggingu samhliða nauðsynlegu viðhaldi á vegakerfinu.
Seinna skrefið í nýju barnabótakerfi tekur gildi í ársbyrjun og hækkar framlag til málaflokksins um 1,4 milljarða samhliða breytingum.
Breytingarnar sem hafa verið innleiddar undanfarin tvö ár hafa tryggt um 3.000 fleiri fjölskyldum barnabætur en raunin hefði orðið í óbreyttu kerfi.
Í ársbyrjun er sömuleiðis gert ráð fyrir að persónuafsláttur hækki um rúmlega 5.000 kr. á mánuði og skattleysismörk hækki um rúmlega 16.000 kr. Einstaklingur með 500.000 kr. í mánaðartekjur mun því greiða um 7.314 kr. minna í skatt í janúar en hann gerði í desember 2023.
Heilbrigðismálin í forgrunni núna líkt og áður!
„Stærsta einstaka framkvæmdin í frumvarpinu er bygging nýs Landspítala en fjárheimild til verkefnisins er aukin um 10,5 milljarða kr. og verður tæplega 24 milljarðar á ári. Spítalinn sem rís nú hratt er stærsta fjárfestingarverkefni ríkisins í sögunni og mun gjörbylta aðstöðu og umgjörð heilbrigðisþjónustu í landinu. Alls aukast útgjöld til heilbrigðismála um rúmlega 14 milljarða kr. að raungildi milli áranna en auk byggingar Landspítalans má nefna rekstur hjúkrunarrýma, framlög til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga og samninga við sérgreinalækna. Framlög til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga eru aukin um rúma 3,9 milljarða til að koma til móts við aukna eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu vegna fólksfjölgunar og öldrunar þjóðar. Áhersla er lögð á að bæta geðheilbrigðisþjónustu, á lægri greiðsluþátttöku sjúklinga og styrkingu sjúkrasviða á landsbyggðinni. Í krónum talið hafa framlög til heilbrigðismála aukist mest eða sem svarar 50,4 milljörðum frá 2021,“ sagði Stefán Vagn.
Það er mikilvægt að létta skrefin inn á fasteignamarkaðinn – þar skiptir framboð mestu máli!
„Nýbyggðum íbúðum hefur fjölgað umtalsvert á þessu ári og enn er mikill kraftur í byggingu nýs íbúðarhúsnæðis en fjöldi íbúða í byggingu er við sögulegt hámark. Þá er gert ráð fyrir 2,3% vexti einkaneyslu og fjárfestingar og spáir Hagstofan áframhaldandi vexti í íbúðafjárfestingu árið 2024. Mikilvægt er að kröftug uppbygging haldi áfram en þar spila sveitarfélögin lykilhlutverk. Ríkið mun sömuleiðis halda áfram að leggja sitt af mörkum með tvöföldun stofnframlaga til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins þannig að í stað þess að 500 íbúðir verði byggðar árlega árin 2024 og 2025 með stuðningi ríkisins verði þær 1.000 á ári,“ sagði Stefán Vagn og bætti við: „Sömuleiðis verður horft til frekari lánsfjárheimilda til hlutdeildarlána í samræmi við þetta markmið en gert er ráð fyrir að áætlanir vegna lánveitinga verði endurmetnar við 2. umræðu frumvarpsins. Þannig er gert ráð fyrir að stofnframlög til uppbyggingar almenna íbúðakerfisins verði aukin um 5,7 milljarða frá fjárlögum ársins 2023 og nema þá heildarframlög til þeirra um 7,4 milljörðum á árinu 2024.“
Fjárfestingarframlög til samgönguframkvæmda nema um 32,6 milljörðum og aukast um 2,4 á milli ára. Niður fellur 4,7 milljarða kr. framlag vegna tímabundinna verkefna í fjárfestingar- og uppbyggingarátaki en á móti er gerð varanleg aukning á framlagi til vegaframkvæmda um 3,6 milljarða.
Í 2. umræðu fjárlaga fyrir árið 2023 var ráðist í aðgerðir til að vinna gegn þenslu og verðbólgu og var 3 milljarða kr. framlagi vegna vegaframkvæmda frestað til ársins 2024 sem kemur nú inn í útgjaldaramma. Þá er gert ráð fyrir 1,4 milljörðum í uppbyggingu varaflugvalla en ráðist var í þá aukningu samhliða innheimtu varaflugvallagjalds.
Framlög hafa verið aukin um ríflega 4 milljarða til menntamála!
Framlög hafa verið aukin um ríflega 4 milljarða til menntamála á tímabilinu til að mæta fjölgun nemenda í framhaldsskólum og háskólum. Framlög til nýsköpunar-, rannsókna- og þekkingargreina hafa verið aukin, m.a. með endurgreiðslum til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsókna og þróunar.
***
Allt sem tengist fjárlagafrumvarpinu!
Hér að neðan eru fjölbreytt gögn og upplýsingar sem tengjast fjárlagafrumvarpinu. Má þar nefna fylgirit frumvarpsins, skjöl og gögn, greiningar, fréttatilkynningar ráðuneyta, kynningu ráðherra og umfjöllun um frumvarpið í stuttu máli.
Öll helstu skjöl og gögn sem tengjast frumvarpinu, svo sem myndagögn úr frumvarpinu, ítarefni, töflur, töfluviðaukar og talnagögn fjárlagafrumvarpsins á Excel-formi.
Á rafrænu mælaborði má bera saman greiningu gjalda í rekstur, tilfærslur og fjárfestingu fyrir árin 2022-2026 samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustaðli um opinber fjármál.
Helstu atriði fjárlagafrumvarps 2024 sett fram með einföldum og skýrum hætti í máli og myndum. Yfirlit á einni síðu og hægt að stækka hverja mynd til að skoða nánar.
Öll fjárlagarit á einum stað, frá fjármálastefnu og fjármálaáætlun til frumvarps og samþykktra fjárlaga.
Ræða Stefáns Vagns í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegur forseti. Við ræðum hér fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024. Fjárlög eru ein af grunnlögum okkar og því afar mikilvægt að við þingmenn náum góðri og djúpri umræðu um frumvarpið hér á Alþingi í haust. Það skiptir miklu máli hvernig því fé sem ríkið hefur yfir að ráða er útdeilt, enda er verið að útdeila takmarkaðri auðlind, ef svo má segja. Mér er það ljóst að sú skipting, hvernig sem hún er útfærð, verður alltaf umdeild, enda eru sjónarmið þeirra flokka sem hér eru á þingi misjöfn eðli málsins samkvæmt. Það er samt mín trú að það sé mun meira sem sameinar okkar sjónarmið í þessum fjárlögum en það sem við erum ósammála um. Það er mikilvægt í þeirri vinnu sem fram undan er að öll sjónarmið heyrist og vinnan í fjárlaganefnd verði markviss og árangursrík á komandi þingvetri. Ég ætla að fara hér nokkrum orðum um frumvarpið eins og það kemur mér fyrir sjónir, virðulegur forseti.
Þróttur íslensks samfélags er mikill um þessar mundir. Ekkert Evrópuríki sem tölur ná til hafði meiri hagvöxt á fyrri helmingi þessa árs. Þessum hraða vexti hafa fylgt mikil umsvif á vinnumarkaði. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist um 18% frá 2017 að teknu tilliti til skatta og vaxtagjalda. Atvinnuleysi er hverfandi og starfsfólki hefur fjölgað um 19.000 síðustu tvö ár. Fjárlagafrumvarp ársins 2024 gerir ráð fyrir því að halli verði á rekstri ríkissjóðs sem nemur 46 milljörðum kr. Það er rúmlega 73 milljörðum kr. betri afkoma en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins 2023 sem rekja má hvort tveggja til hærri tekna og lægri útgjalda í hlutfalli við umfang hagkerfisins. Við erum sem sagt að vaxa út úr vandanum.
Þessi bætta staða ríkisfjármála endurspeglast jafnframt í uppfærðum afkomuhorfum yfirstandandi árs sem gera ráð fyrir jákvæðum frumjöfnuði sem nemur um 47 milljörðum kr. eða um 1,1% af vergri landsframleiðslu og er það tæplega 100 milljörðum kr. betri útkoma en áætlun fjárlaga ársins 2023 gerði ráð fyrir. Frumjöfnuðurinn var þegar orðinn jákvæður á ný í fyrra og nemur batinn yfir 190 milljörðum kr. á milli áranna 2021 og 2022.
Talsverð spenna hefur haldist í hendur við mikinn slátt í hagkerfinu og fylgifiskur þess birtist m.a. í verðbólgu. Hún er ekkert séríslenskt fyrirbæri en hefur þó reynst þrálátari hér undanfarna mánuði, því miður. Við því verður að bregðast og að mínu mati er það stærsta einstaka áskorun okkar við gerð þessara fjárlaga að ná niður verðbólgu og verðbólguvæntingum og vaxtastigi í landinu. Það eru þegar fram komnar vísbendingar um að draga muni úr þenslunni á næstu misserum.
Forgangsröðun í þágu mikilvægra innviði og almannaþjónustu einkennir komandi ár þar sem ríkið heldur áfram að leggja lóð á vogarskálarnar til að draga úr verðbólguþrýstingi í hagkerfinu. Það er sama til hvaða greininga horft er, niðurstaðan er sú sama: Ríkissjóður hefur dregið úr vexti eftirspurnar og þar með verðbólgu frá árinu 2022. Þetta fjárlagafrumvarp gerir ráð fyrir að svo verði enn á næsta ári. Ekki aðeins hefur afkomubatinn verði umfram það sem vænta mætti á áhrifum hagsveiflunnar heldur er batinn einn sá mesti sem þekkist meðal þróaðra ríkja.
Í frumvarpi til fjárlaga ársins 2024 er venju samkvæmt gert ráð fyrir almennri aðhaldskröfu og nemur hún um 4,6 milljörðum kr. Því til viðbótar eru í frumvarpinu sértækar aðhaldsaðgerðir sem nema um 3,8 milljörðum sem skýrast af aðgerðum stjórnvalda til að draga úr útgjaldavexti og sporna við þenslu ásamt útfærslu á 9 milljarða kr. óútfærðum afkomubætandi ráðstöfunum úr fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028. Almenn aðhaldskrafa í frumvarpinu er 2% auk 1% viðbótaraðhaldskröfu á ráðuneyti. Skólar hljóta lægri aðhaldskröfu eða 0,5%. Þá eru almanna- og sjúkratryggingar undanskildar ásamt heilbrigðis- og öldrunarstofnunum, löggæsluembættum, fangelsum og dómstólum. Almenna aðhaldskrafan var aukin í fjármálaáætlun til að styðja við markmið um hóflegan vöxt útgjalda og draga úr þenslu. Í því ljósi var einnig gert ráð fyrir frestun fjárfestingarverkefna.
Tekjuáætlun ársins 2024 gerir ráð fyrir að heildartekjur verði um 1.349 milljarðar eða 29,8% af vergri landsframleiðslu. Á tekjuhlið er m.a. gengið út frá forsendum um heildarendurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis, að farið sé í aukna skattlagningu á ferðaþjónustu og að auka gjaldtöku af fiskeldi. Loks gerir tekjuáætlun ráð fyrir áframhaldandi áhrifum ráðstafana sem farið var í á þessu ári, m.a. varaflugvallagjaldinu og breytinga á virðisaukaskattsendurgreiðslum vegna íbúðarhúsnæðis. Samanlagt er áætlað að framangreindar ráðstafanir skili ríkissjóði um 25 milljarða kr. auknum tekjum á næsta ári.
Tekjur ríkissjóðs hafa tekið hratt við sér á grunni hins sterka efnahagsbata og samhliða hefur verið gætt að því að sýna nokkurt aðhald á útgjaldahliðinni. Birtist aðhaldið meðal annars í því að á meðan tekjuhliðin hefur tekið við sér og vaxið hraðar en nemur vexti landsframleiðslunnar eru frumgjöld um hálfu prósentustigi lægri sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á árunum 2023 og 2024 en þau voru árið 2022. Með öðrum orðum, það er ekki verið að ráðstafa öllum viðbótartekjum sem leiða af hagsveiflunni í ný og aukin útgjöld heldur er í staðinn verið að nýta þær til að bæta afkomu ríkissjóðs. Tekjur ársins fyrir 2024 eru áætlaðar að verði 15,4 milljörðum meiri en í fjármálaáætlun sem samþykkt var í júní og nemur aukningin 1,2% milli áætlun. Vöxtur útgjalda ríkissjóðs að nafnvirði er þannig að stærstum hluta drifinn áfram af launa- og verðlagsbreytingum en ekki nýjum ákvörðunum. Þær eru áætlaðar um 68 milljarðar kr. á næsta ári sem er u.þ.b. tveir þriðju hluti aukningarinnar á útgjaldahliðinni og eru þær hlutfallslega miklar í sögulegu samhengi.
Áfram er fjárfest í mikilvægum innviðum og vaxtargreinum hagkerfisins auk þess að bæta og styrkja þjónustu við almenning.
Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð um 1.478 milljarðar á árinu 2024. Hækkun frá fjárlögum fyrra árs nemur um 143,1 milljarði og vega launa-, gengis- og verðlagsbreytingar þyngst eða um 67,9 milljarðar. Að þeim frátöldum hækka heildarútgjöld ríkissjóðs um 75,2 milljarða sem nemur um 5,6%. Samtals nemur hækkun rammasettra útgjalda 3,2%. Töluverður hluti hækkunarinnar skýrist annars vegar af stórauknum framlögum til byggingar nýs Landspítala og hins vegar breytinga á framsetningu á stuðningi við orkuskipti, en stuðningurinn færist frá tekjuhlið yfir á gjaldahlið. Þá er gert ráð fyrir 17 milljarða kr. ráðstöfunum til að draga úr útgjaldavexti sem útfærðar eru í málefnasviðum ráðuneyta.
Betri afkoma hefur stutt við þá jákvæðu þróun sem birtist í skuldastöðu ríkissjóðs. Þegar fjármálaáætlun 2021–2025 var lögð fram á fyrsta ári kórónuveirufaraldursins voru horfur á því að skuldahlutfallið yrði um og yfir 50% af vergri landsframleiðslu árin 2023 og 2024. Nú er ljóst að hlutfallið náði hámarki langtum neðar árin 2021 og 2022 og gangi áætlanir eftir mun það lækka smám saman og verða innan við 31% af vergri landsframleiðslu í árslok 2024. Það er meira en 20 prósentustigum lægra hlutfall á næsta ári en viðmið fjármálaáætlunarinnar gerði ráð fyrir.
Með lækkandi skuldastöðu höfum við náð meginmarkmiði fjármálastefnunnar um að stöðva vöxt skulda sem hlutfall af landsframleiðslu og rúmlega það. Áframhaldandi lækkun skulda er hins vegar grundvallaratriði á komandi ári og árum.
Til viðbótar við afkomubatann og aðhald er tónninn því settur með enn frekari aðgerðum. Eitt grundvallaratriðið í því samhengi er að fjármálareglur taka gildi ári fyrr en áætlað var en þeim var tímabundið vikið til hliðar í heimsfaraldrinum. Við þurfum að halda áfram að stækka kökuna, breikka tekjustofnana og fjölga tækifærum á Íslandi. Spenna á vinnumarkaði virðist hafa minnkað undanfarna mánuði. Atvinnuleysi náði lágmarki fyrr á árinu og lausum störfum hefur fækkað. Þjóðhagsspá gerir ráð fyrir að atvinnuleysi aukist lítillega og verði um 4% á árinu 2024. Þensla í þjóðarbúinu er í rénun og útlit fyrir að ágætt jafnvægi náist í þjóðarbúskapnum árið 2024 samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem liggur til grundvallar þessu fjárlagafrumvarpi. Spáin byggist á því að verulega hægi á fólksflutningum til landsins en hröð fólksfjölgun hefur verið megindrifkraftur hagvaxtar undanfarin ár. Það er enn nokkuð í land með að verðbólga verði á ný í samræmi við markmið þótt gert sé ráð fyrir því að hún fari fremur hratt lækkandi.
Raungerist þessar fyrirætlanir skapast forsendur fyrir lækkun vaxta. Lækkun raunvaxta getur stuðlað að áframhaldandi kröftugri fjárfestingu. Samkvæmt þjóðhagsspá er gert ráð fyrir því að verðbólga verði að jafnaði um 4,9% árið 2024 og fari svo lækkandi enn frekar árið þar á eftir.
Laun hafa hækkað meira en verðlag undanfarin ár og kaupmáttur launa hefur aukist á ný. Verðbólga leggst að jafnaði þyngst á þau sem hafa lægstar tekjur og mesta framfærslubyrði. Spornað hefur verið við þeirri þróun, m.a. með hækkun viðmiða tekjuskattskerfisins og hækkun bóta. Þannig hafa bætur almannatrygginga verið hækkaðar svo þær haldi í við verðbólgu.
Þjóðhagsspáin byggir á þeirri forsendu að laun hækki með svipuðum hætti og á árunum 2019–2020 en þá var verðbólga jafnframt lægri en hún er nú. Á þessum grundvelli er talið að kaupmáttur launa vaxi áfram árið 2024 og að vextir geti byrjað að lækka á því ári sem er, eins og áður sagði, gríðarlega mikilvægt fyrir fjölskyldur og heimili og fyrirtæki í landinu. Hagur heimilanna vænkast samhliða auknum kaupmætti, auknum verðstöðugleika og lægra vaxtastigi. Þetta samspil launa, verðbólgu og vaxta er viðkvæmt og krefst ábyrgðar og samstillingar á vinnumarkaði, í opinberum fjármálum og á sviði peningamálastefnu.
Til viðbótar við mikinn viðsnúning á síðustu misserum er, eins og áður sagði, 17 milljarða ráðstafanir útfærðar í frumvarpinu til þess að hægja á vexti útgjalda. Þar af er gert ráð fyrir að launakostnaður stofnana lækki um 5 milljarða kr. Mun því koma til nokkurrar fækkunar stöðugilda í stofnanakerfinu sem bæði getur komið fram í gegnum starfsmannaveltu eða uppsagnir. Vörður verður þó áfram staðinn um framlínustarfsmenn, m.a. á sviði heilbrigðismála, löggæslu, dómstóla og menntamála. Þá lækka önnur rekstrargjöld á borð við ferðakostnað auk þess sem lögð verður áhersla á hagkvæmari opinber innkaup en stefnt er á um 4 milljarða hagræðingu með þeim aðgerðum. Enn fremur er aukið aðhald innan ráðuneyta og dregið úr nýjum verkefnum og með því stefnt á 8 milljarða kr. hagræði.
Samhliða aðhaldi í útgjöldum er ráðist í nokkrar aðgerðir á tekjuhlið ríkisfjármálanna og má þar nefna að fyrsta skref verður tekið í breyttri gjaldtöku af ökutækjum og umferð á nýju ári líkt og boðað hefur verið þannig að áfram verði hægt að standa að metnaðarfullri uppbyggingu samhliða nauðsynlegu viðhaldi á vegakerfinu. Seinna skrefið í nýju barnabótakerfi tekur gildi í ársbyrjun og hækkar framlag til málaflokksins um 1,4 milljarða samhliða breytingum. Breytingarnar sem hafa verið innleiddar undanfarin tvö ár hafa tryggt um 3.000 fleiri fjölskyldum barnabætur en raunin hefði orðið í óbreyttu kerfi. Nýju fyrirkomulagi fylgir einnig töluvert hagræði fyrir barnafjölskyldur þar sem stuðningurinn er efldur með hækkun fjárhæða, minni skerðingum og lægri jaðarsköttum. Þá verða einnig teknar upp svokallaðar samtímagreiðslur barnabóta en í því felst að biðtími eftir greiðslum verður aldrei meiri en fjórir mánuðir, en biðtíminn gat áður verið allt að ár frá fæðingu barns. Í ársbyrjun er sömuleiðis gert ráð fyrir að persónuafsláttur hækki um rúmlega 5.000 kr. á mánuði og skattleysismörk hækki um rúmlega 16.000 kr. Einstaklingur með 500.000 kr. í mánaðartekjur mun því greiða um 7.314 kr. minna í skatt í janúar en hann gerði í desember 2023.
Virðulegur forseti. Heilbrigðismálin eru í forgrunni núna líkt og áður. Stærsta einstaka framkvæmdin í frumvarpinu er bygging nýs Landspítala en fjárheimild til verkefnisins er aukin um 10,5 milljarða kr. og verður tæplega 24 milljarðar á ári. Spítalinn sem rís nú hratt er stærsta fjárfestingarverkefni ríkisins í sögunni og mun gjörbylta aðstöðu og umgjörð heilbrigðisþjónustu í landinu. Alls aukast útgjöld til heilbrigðismála um rúmlega 14 milljarða kr. að raungildi milli áranna en auk byggingar Landspítalans má nefna rekstur hjúkrunarrýma, framlög til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga og samninga við sérgreinalækna. Framlög til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga eru aukin um rúma 3,9 milljarða til að koma til móts við aukna eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu vegna fólksfjölgunar og öldrunar þjóðar. Áhersla er lögð á að bæta geðheilbrigðisþjónustu, á lægri greiðsluþátttöku sjúklinga og styrkingu sjúkrasviða á landsbyggðinni. Í krónum talið hafa framlög til heilbrigðismála aukist mest eða sem svarar 50,4 milljörðum frá 2021.
Það er mikilvægt að létta skrefin inn á fasteignamarkaðinn. Þar skiptir framboð mestu máli samhliða áframhaldandi lækkun verðbólgu sem ætti að fylgja lækkun vaxta. Nýbyggðum íbúðum hefur fjölgað umtalsvert á þessu ári og enn er mikill kraftur í byggingu nýs íbúðarhúsnæðis en fjöldi íbúða í byggingu er við sögulegt hámark. Þá er gert ráð fyrir 2,3% vexti einkaneyslu og fjárfestingar og spáir Hagstofan áframhaldandi vexti í íbúðafjárfestingu árið 2024. Mikilvægt er að kröftug uppbygging haldi áfram en þar spila sveitarfélögin lykilhlutverk. Ríkið mun sömuleiðis halda áfram að leggja sitt af mörkum með tvöföldun stofnframlaga til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins þannig að í stað þess að 500 íbúðir verði byggðar árlega árin 2024 og 2025 með stuðningi ríkisins verði þær 1.000 á ári. Sömuleiðis verður horft til frekari lánsfjárheimilda til hlutdeildarlána í samræmi við þetta markmið en gert er ráð fyrir að áætlanir vegna lánveitinga verði endurmetnar við 2. umræðu frumvarpsins. Þannig er gert ráð fyrir að stofnframlög til uppbyggingar almenna íbúðakerfisins verði aukin um 5,7 milljarða frá fjárlögum ársins 2023 og nema þá heildarframlög til þeirra um 7,4 milljörðum á árinu 2024.
Fjárfestingarframlög til samgönguframkvæmda nema um 32,6 milljörðum og aukast um 2,4 á milli ára. Niður fellur 4,7 milljarða kr. framlag vegna tímabundinna verkefna í fjárfestingar- og uppbyggingarátaki en á móti er gerð varanleg aukning á framlagi til vegaframkvæmda um 3,6 milljarða.
Í 2. umræðu fjárlaga fyrir árið 2023 var ráðist í aðgerðir til að vinna gegn þenslu og verðbólgu og var 3 milljarða kr. framlagi vegna vegaframkvæmda frestað til ársins 2024 sem kemur nú inn í útgjaldaramma. Þá er gert ráð fyrir 1,4 milljörðum í uppbyggingu varaflugvalla en ráðist var í þá aukningu samhliða innheimtu varaflugvallagjalds.
Framlög hafa verið aukin um ríflega 4 milljarða til menntamála á tímabilinu til að mæta fjölgun nemenda í framhaldsskólum og háskólum. Framlög til nýsköpunar-, rannsókna- og þekkingargreina hafa verið aukin, m.a. með endurgreiðslum til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsókna og þróunar.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að prósentuhækkun atvinnuleysisbóta verði 4,9% til samræmis við hækkun bóta almannatrygginga og spá Hagstofunnar um hækkun verðlags á næsta ári. Áætlaður kostnaður vegna hækkunarinnar er um 1,6 milljarðar kr. Áætluð heildarútgjöld vegna hækkunar atvinnuleysisbóta og bóta almannatrygginga eru samanlagt 17,7 milljarðar kr. í fjárlögum ársins 2024.
Virðulegur forseti. Mig langar í lokin aðeins að ræða verklag varðandi fjárlög og framsetningu þeirra. Það er mín skoðun eftir að hafa setið í tvö ár í fjárlaganefnd að það færi ágætlega á því og sennilega betur, til þess að dýpka einmitt þessa umræðu hér í þingsal í dag, ef fjárlaganefnd gæti fengið drögin að fjárlagafrumvarpi um viku fyrr áður en þau eru kynnt, í trúnaði að sjálfsögðu, þannig að nefndarmenn gætu verið búnir að kynna sér betur efni fjárlaganna fyrir þessa umræðu. Það er mín tilfinning og mitt mat að slík breyting yrði klárlega til bóta fyrir alla þá sem í nefndinni sitja og gæfi nefndarmönnum miklum mun betri kost á því að fara dýpra í umræðuna hér í upphafi og yrði einnig góður undirbúningur fyrir starf vetrarins í nefndinni.
Virðulegur forseti. Ég læt þessari yfirferð minni hér í 1. umræðu fjárlaga lokið og bind vonir við og kalla eftir góðu samstarfi nefndarmanna í fjárlaganefnd í áframhaldandi vinnu fyrir fjárlög ársins 2024.“
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.