Categories
Greinar

Á­form um einka­væðingu á vatns­veitu Sand­gerðis

Deila grein

13/10/2024

Á­form um einka­væðingu á vatns­veitu Sand­gerðis

Í nútímasamfélagi er eitt mikilvægasta verkefni okkar að tryggja jafnan aðgang að grunninnviðum eins og vatni og rafmagni. Nú liggja fyrir áform um einkavæðingu á vatnsveitu Sandgerðis í Suðurnesjabæ, áform sem geta haft víðtækar og ófyrirséðar afleiðingar fyrir íbúa. Samkvæmt tillögu núverandi meirihluta bæjarstjórnar – Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Bæjarlistans – er til skoðunar að selja vatnsveituna til HS Veitna. Við teljum þetta mál kalla á athygli og þátttöku íbúa.

Ákvörðun um einkavæðingu grunninnviða á borð við vatnsveitu á ekki aðeins við um rekstur heldur snýr hún beint að því hvernig við tryggjum jafnan og sanngjarnan aðgang að nauðsynlegum auðlindum. Með því að selja vatnsveituna til einkaaðila, eins og núverandi meirihluti leggur til, er verið að opna á möguleika þess að þjónusta muni fara frá almannaeign yfir í hendur einkafjárfesta, með ófyrirséðum afleiðingum. Þar sem þjónustugæði og verðlagning geta ráðist af arðsemiskröfum fjárfesta frekar en samfélagslegum hagsmunum.

Við þekkjum dæmi þar sem slík sala hefur farið fram áður, til dæmis í Garði, þar sem vatnsveitan var seld einkaaðilum. Þar missti sveitarfélagið yfirráð yfir mikilvægum vatnsréttindum við Árnarétt, sem nú gegnir lykilhlutverki á Reykjanesi vegna jarðhræringa. Nú er rekstur vatnsveitunnar í höndum HS Veitna, fyrirtækis sem er að stórum hluta í eigu einkafjárfesta. Reynslan ætti því að vera okkur víti til varnar þar sem slík sala hefur ekki endilega leitt til aukinna hagsbóta fyrir íbúa.

Upptaktur að einkavæðingu

Á 56. fundi framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar lagði Einar Jón Pálsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins og formaður ráðsins, fram starfsáætlun fyrir vatnsveituna. Þar kom í ljós að viðræður væru hafnar við HS Veitur um möguleg kaup á vatnsveitunni í Sandgerði, án þess að formleg umræða hefði átt sér stað innan stjórnsýslu Suðurnesjabæjar. Því er afar mikilvægt að íbúar Suðurnesjabæjar viti hvaða afleiðingar einkavæðing getur haft og hvaða áhrif hún hefur á rekstur og stjórnun vatnsveitunnar. Með því að vera vel upplýst og taka virkan þátt í umræðunni getum við tryggt að hagsmunir íbúa séu settir í forgang.

Grunninnviðir í eigu almennings

Grunninnviðir eins og vatnsveita eru lífsnauðsynlegir fyrir samfélagið. Opinber eign á slíkum innviðum tryggir aðgang allra óháð búsetu eða efnahag. Þegar auðlindir og grunninnviðir færast í hendur einkaaðila, er hætta á að þjónustan verði ekki lengur veitt á jafnræðisgrundvelli, þar sem hagsmunir fjárfesta geta orðið fyrirferðarmiklir.

Gagnsæi og aðkoma íbúa

Við eigum að standa vörð um vatnsveituna sem almannaeign og tryggja að hún haldist í opinberri eigu. Það er á ábyrgð okkar að tryggja að auðlindir okkar séu ekki seldar frá okkur án þess að við fáum tækifæri til að segja okkar skoðun.

Aðkoma íbúa að svona stórum ákvörðunum er lykilatriði. Stöndum saman og tryggjum að grunnþjónusta, eins og vatnsveitan, verði áfram í höndum almennings. Það er mikilvægt að íbúar séu vel upplýstir um slík áform og fái tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri þegar kemur að sölu á sameiginlegum innviðum.

Anton Guðmundsson og Úrsúla María Guðjónsdóttir bæjarfulltrúar Framsóknar í Suðurnesjabæ.
Sunneva Ósk Þóroddsdóttir varabæjarfulltrúi Framsóknar.
Magnús Sigfús Magnússon óháður bæjarfulltrúi.

Categories
Fréttir Greinar

Arð­semi vetrarþjónustu

Deila grein

11/10/2024

Arð­semi vetrarþjónustu

Fyrsti vetrardagur er að nálgast, þótt haustið hafi verið milt þá eru veðurspárnar farnar að boða breytta tíma.

Okkur hefur auðnast að byggja upp, á köflum, ágætt vegakerfi um landið. Þjóðvegakerfið á Íslandi er um 13.000 km. Það er baráttumál íbúa allra landshluta að byggja upp traust og örugg samgöngumannvirki, en hvað þarf til að þau virki sem slík allt árið um kring? Jú, það er öflug vetrarþjónusta.

Breytt samfélag

Það er mikil umferð um vegi landsins allt árið um kring og vetrarþjónusta á vegum landsins er því alltaf að verða mikilvægari. Í dag eru uppi allt aðrar aðstæður heldur en voru hér um aldamótin. Á þeim tíma var samfélagsgerðin önnur. Þá var innan hvers byggðarlags eitt samfélag, þar sem íbúar sóttu sína vinnu, skóla, heilsugæslu og félagslíf innan byggðarlagsins. Í dag eru landfræðileg mörk byggðarlaga og samfélaga mun stærri. Atvinnusóknarsvæði eru stöðugt að stækka, fólk sækir vinnu lengra, keyrir börnin í skólann og jafnvel í leikskóla um langan veg og þjónustan færist svo sífellt á færri staði.

Snjómokstursreglur

Snjómokstursreglur Vegagerðarinnar eru frá árinu 2011. Það hefur margt gerst í lífi þjóðarinnar frá þeim tíma, ferðaþjónusta og fiskeldi, samfélög hafa sameinast og vegaumbætur hafa orðið víða. Þó að snjómokstursreglur hafi verið uppfærðar að hluta á sumum stöðum hefur heildarendurskoðun ekki farið fram.

Styttri opnunartími getur hamlað uppbyggingu atvinnulífs og samfélaga og samkeppnishæfni sveitarfélaga veikist. Það munar nokkuð á milli landshluta þegar litið er til þjónustutíma. Ef við horfum til Vestfjarða þá hefur uppbygging stofnvega verið umtalsverð síðasta áratug, fiskeldi og ferðaþjónusta sívaxandi en þjónustutími vetrarþjónustu ekki fylgt sömu þróun. Þeir sem búa eða eiga erindi á sunnan- og norðanverða Vestfirði þurfa að sætta sig við töluvert skemmri þjónustutíma heldur en íbúar fyrir norðan og á austanverðu landinu.

Við tölum um kostnað á vetrarþjónustu og kostnaðurinn fari vaxandi, 5-6 milljarðar króna er há tala og vissulega erfitt að áætla þennan kostnað og á meðan við höfum sett okkur markmið og vetrarþjónustureglur þá getur sá kostnaður sveiflast.

Ávinningur vetrarþjónustu

Við getum litið á vegakerfið sem æðakerfi landsins, sem ber næringu og orku til og frá byggðarlögum landsins, þar sem samfélagið er undir. Helstu stoðir íslensks efnahagslífs renna líka eftir vegakerfi landsins, ferðaþjónusta, sjávarútvegur og fiskeldi. Allar tafir á því rennsli er hreint tekjutap fyrir þjóðina og þau byggðarlög sem búa ekki við öruggar samgöngur allt árið um kring missa afl.

Nú er veturinn á næsta leiti og þegar áætlað fjármagn í vetrarþjónustu er reiknað út verðum við að taka inn þann ávinning sem sú þjónusta skilar í þjóðarbúið. Þá getum við verið sannfærð um að aftur komi vor í dal.

Megi veturinn verða mildur og miskunnsamur

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Sam­eigin­legt verk­efni okkar allra

Deila grein

10/10/2024

Sam­eigin­legt verk­efni okkar allra

Í vikunni lagði undirrituð fram tillögu til þingsályktunar um rannsókn á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana. Þetta er í annað sinn sem tillagan er lögð fram, nú með nokkrum breytingum sem byggðar eru á góðri þróun, þar sem starfshópur á vegum Lífsbrúar hjá embætti landlæknis hefur tekið til starfa.

Málið snertir okkur öll sem samfélag. Sjálfsvíg og andlát vegna óhappaeitrana eru viðkvæmir og sársaukafullir atburðir sem hafa djúpstæð áhrif á aðstandendur, fjölskyldur og samfélagið í heild. Áhrifin teygja anga sína víða en samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni verða að meðaltali 135 einstaklingar fyrir áfalli eða samskonar áhrifum í kjölfar sjálfsvígs eins einstaklings. Talið er að um sex þúsund manns verði fyrir áhrifum af sjálfsvígum á hverju ári hér á landi. Sjálfsvíg eru því ekki einungis persónulegur harmleikur, heldur verkefni sem við berum öll ábyrgð á að vinna með virkum hætti.

Þegar andlát á sér stað, er það rannsakað til að gera grein fyrir dánarmeini. Rannsóknir lögreglu og héraðslækna fara fram til að ákveða hvort andlát hafi borið að með saknæmum hætti eða ekki. Sjálfsvíg eru ekki rannsökuð afturvirkt þar sem undanfari þeirra er skoðaður í þaula í leit að þáttum sem komu einstaklingnum í það hugarástand sem hann var í við andlátið. Nauðsynlegt er að slík rannsókn fari fram með þeim hætti að fara afturvirkt yfir lýðfræðilegar breytur, aðstæður, atburði og möguleg áföll sem einstaklingurinn upplifði í undanfara sjálfsvígs eða dauðsfall vegna óhappaeitrunar. Þá er m.a. átt við brottfall úr skóla, atvinnumissi eða langvarandi atvinnuleysi, sambandsslit, makamissi, ofbeldi, neyslu vímugjafa og hvað annað sem getur haft áhrif.

Starfshópur á vegum Lífsbrúar, miðstöðvar sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis, hefur þegar hafið mikilvæga vinnu við að rannsaka afturvirkt mögulegt orsakaferli og áhrifaþætti sem geta verið viðvarandi í lífi einstaklinga í undanfara sjálfsvígs og óhappaeitrana. Þessi rannsókn er metnaðarfull og mikilvæg í áframhaldandi vinnu okkar við að bæta forvarnir og myndun fyrirbyggjandi aðgerða í þeirri von að geta komið í veg fyrir andlát af þessu tagi. Markmið tillögunnar er að styðja starfshópinn í vinnu sinni við að afla nauðsynlegra gagna og uppsetningu þeirra svo að rannsóknin skili árangri, sem nýtist til framtíðar, við að ná til einstaklinga í áhættuhópum og öðlast betri skilning á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana.

Í lok rannsóknarinnar skal starfshópurinn skila skýrslu til ráðherra með viðeigandi tölfræði og tillögum að aðgerðum, bæði fyrirbyggjandi og í forvarnarstarfi. Einnig þarf að tryggja að hægt verði að skoða ofangreindar breytur reglulega og á aðgengilegan hátt svo að hægt sé meta árangur aðgerða. Í kjölfar þessarar vinnu verði ákveðið hvort koma eigi á fót sambærilegum starfshópi eða rannsóknarnefnd, sem væri varanlegur liður innan stjórnsýslunnar.

Mikilvægi tillögunnar

Þingheimur hefur allur sameinast á bak við tillöguna, þvert á flokka, sem sýnir fram á mikilvægi hennar. Það er fáheyrt að slíkur stuðningur myndist um þingsályktunartillögu þingmanns, og fyrir það er ég þakklát.

Gagnaöflun af þessu tagi þarf að vera yfirgripsmikil svo hægt sé að gefa heildræna mynd af orsakaferlum, vinna árangursríkar forvarnir og greina áhættuhópa í samfélaginu, þ.e. þá hópa sem líklegri eru til að upplifa sjálfsvígshugsanir, gera tilraun til sjálfsvígs eða deyja í sjálfsvígi eða sökum óhappaeitrunar, umfram hefðbundnar breytur á borð við kyn, aldur og búsetu. Það er mikilvægt að öll gögn sem safnað er séu sett fram á skýran og aðgengilegan hátt svo þau nýtist við að stýra stefnumörkun.

Við verðum að horfa á málið með opnum hug og viðurkenna að sjálfsvíg og andlát vegna óhappaeitrana eru oft niðurstaða margra flókinna þátta sem þarf að greina og skilja til hlítar. Með betri skilningi á orsakaferlum og helstu áhrifaþáttum er hægt að styðja betur við þá sem eiga við andlega erfiðleika að stríða, og gera viðeigandi ráðstafanir áður en hættan á sjálfsskaða eykst. Þetta er ein af þeim leiðum sem hægt er að fara til að tryggja að einstaklingar í áhættuhópum fái þá aðstoð sem þeir þurfa til að ná jafnvægi í lífi sínu og komast í gegnum erfiðleikatímabil.

Við viljum alltaf gera betur

Það er ljóst að við höfum öfluga aðila í samfélaginu okkar sem vinna dag hvern að því að bæta líðan fólks og grípa inn í þar sem þörfin er mest. Við höfum marga sem starfa af heilum hug að geðheilbrigðismálum, sjálfsvígsforvörnum og stuðningi við aðstandendur. Það er nauðsynlegt að þessi vinna verði áfram efld og að við höldum áfram að vera vakandi fyrir leiðum til að bæta geðheilbrigði og lýðheilsu í samfélaginu.

Við verðum að sýna samstöðu, hlúa að þeim sem þurfa á hjálp að halda og tryggja að enginn þurfi að ganga einn í gegnum erfiða tíma. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra.

Ég vona að sú vinna sem starfshópur Lífsbrúar vinnur skili þeim árangri sem við viljum öll sjá – að draga úr sjálfsvígum og dauðsföllum vegna óhappaeitrana með greinagóðri rannsókn og nýtingu afurðar hennar við að mynda árangursríkar aðgerðir.

Það er vel við hæfi að birta þessa grein í dag þar sem Gulur september, sem tileinkaður er geðheilbrigði og sjálfsvígsforvörnum, lýður undir lok í dag, alþjóða geðheilbrigðisdeginum. Ég vil hvetja öll þau, sem glíma við andleg vanlíðan, að leita hjálpar og brýna fyrir okkur öllum að vera vakandi fyrir merkjum um andleg vanlíðan hjá þeim sem standa okkur nærri og vera til staðar.

Ég vil einnig nýta tækifærið og þakka Guðrúnu Jónu hjá embætti landlæknis og Högna Óskarssyni, geðlækni, fyrir aðstoðina við þetta mikilvæga mál.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Tíma­mót fyrir kvenheilsu

Deila grein

10/10/2024

Tíma­mót fyrir kvenheilsu

Októbermánuður er tileinkaður vitundarvakningu um brjóstakrabbamein en það er algengasta krabbameinið meðal íslenskra kvennaog um 200 ný tilfelli greinast á hverju ári. Brjóstaskimun gegnir lykilhlutverki í forvörnum og baráttunni gegn sjúkdómnum, þar sem hún eykur verulega líkurnar á árangursríkari meðferð og bata.

Til að ná sem bestum árangri er nauðsynlegt að þátttaka í skimun sé góð. Því er mikilvægt að fræða konur um mikilvægi skimunar og tryggja jafnt aðgengi fyrir allar konur, óháð búsetu eða efnahag.

Lægra komugjald

Til að auka þátttöku í lýðgrunduðum brjóstaskimunum og stuðla að jafnræði, hefur komugjald fyrir brjóstaskimun nú verið lækkað úr 6.000 krónum í 500 krónur, sama gjald og fyrir leghálsskimun. Lýðgrunduð brjóstaskimun felst í því að skima heilbrigt og einkennalaust fólk með það að markmiði að greina krabbamein snemma, áður en einkenni koma fram.

Fyrr á þessu ári fól ég samráðshóp að vinna drög að aðgerðaáætlun til næstu fimm ára í krabbameinsmálum, sú vinna er grunnur að þingsályktunartillögu sem lögð verður fram á Alþingi nú í haust. Í tillögum samráðshópsins kom skýrt fram að vinna þyrfti að bættri þátttöku í krabbameinsskimunum, ákvörðun um að lækka gjaldið er liður í að ná þeim markmiðum.

Hvetjum til þátttöku í skimunum

Embætti landlæknis heldur úti mælaborði um þátttöku í krabbameinsskimun á landsvísu, og þessi gögn gefa mikilvægar upplýsingar um nýtingu skimunarþjónustunnar meðal kvenna. Þar kemur fram að mæting sé mismunandi eftir landshlutum og samfélögum. Þar kemur jafnframt fram að yngri konur og konur af erlendum uppruna skila sér síður í skimun.

Það er brýnt að hvetja þær og aðrar konur til þátttöku í skimunum. Hér getur samfélagið allt lagt sitt af mörkum og vinnuveitendur gegna lykilhlutverki, eins og Samhæfingarstöð skimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur verið að kynna síðustu daga. Sérstaklega hefur verið bent á að vinnuveitendur kvenna af erlendum uppruna þurfi að upplýsa þær um rétt til að mæta í skimun á vinnutíma og hvetja til þátttöku.

Setjum heilsuna í fyrsta sæti

Unnið hefur verið markvisst að því að auka þátttöku kvenna í skimun m.a. með auknu aðgengi og minni hindrunum. Verkefni okkar er að stuðla að betri þátttöku með því að skapa umhverfi þar sem fólk er vel upplýst, fær stuðning og hvatningu til að fara í skimun.

Með því að lækka komugjaldið, samhliða góðri fræðslu og hvatningu í atvinnulífinu, tryggjum við betur að allar konur geti forgangsraðað heilsu sinni með því að mæta í brjóstaskimun. Með því að fara í skimun getur hver kona tekið skref til að vernda eigin heilsu og aukið lífsgæði sín. Til mikils er að vinna bæði fyrir einstaklinga og samfélagið í heild!

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Skrepp í skimun, októ­ber tími um­hugsunar

Deila grein

10/10/2024

Skrepp í skimun, októ­ber tími um­hugsunar

Forvarnir og skimun gegn krabbameinum er eitt stærsta lýðheilsuverkefni sem sett hefur verið á laggirnar hérlendis. Nýgengi krabbameina hefur aukist frá því skráningar hófust fyrir 70 árum. Ýmsar skýringar liggja þar að baki, meðal annars aukinn mannfjöldi, aukin krabbameinsáhætta, hækkandi meðalaldur þjóðar, skimanir og bætt greiningartækni. Tilgangur skimunar fyrir krabbameini er að bjarga mannslífum, draga úr nýgengi (tíðni) og dánartíðni af völdum ákveðinna tegunda krabbameina.

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið meðal kvenna og rannsóknir sýna að regluleg skimun fyrir brjóstakrabbameini getur lækkað dánartíðni vegna sjúkdómsins um 20%.

Gjald fyrir brjóstaskimun fer í 500 kr.

Það er verulegt áhyggjuefni að dregið hefur úr þátttöku kvenna í skimunum, bæði fyrir brjóstakrabbameini og leghálskrabbameini. Þetta á við um alla aldurshópa þó mest í yngsta aldurshópnum, þá eru konur í hópi innflytjenda síður líklegar til að mæta í skimun en aðrar. Ástæður sem nefndar eru sem hindrun fyrir að mæta í skimun eru of hátt verð og að þurfa að taka frí frá vinnu til að mæta. Nú hefur heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, ákveðið að mæta gagnrýni um að kostnaður við skimun dragi úr vilja kvenna til að mæta og brjóstaskimun mun því aðeins kosta 500 krónur frá og með 14. október n.k. Það jafn mikið og konur greiða fyrir leghálsskimun hjá heilsugæslunni.

Atvinnurekendur með í átakið

Konur eiga rétt á fríi úr vinnu til að mæta í skimun það er ástæða til að atvinnurekendur komi með í átakið „skrepp í skimun“ Það er ánægjulegt að sjá að Félag kvenna í atvinnulífinu taki höndum saman með Krabbameinsfélaginu í árlegri vitundarvakningu um brjóstakrabbamein.

Vinnustaðir þurfa líka að sýna sveigjanleika, sér í lagi úti á landi þar sem brjóstaskimun stendur aðeins yfir í nokkra daga í einu í hverjum landshluta. Þá þarf að koma á móts við konur sem ferðast milli staða til að sækja skimun sem oft þýðir 2-4 klukkustundir frá vinnu. Þegar um stóra kvennavinnustaði er að ræða er mikilvægt að skipuleggja vinnuna þessa daga þannig að svigrúm myndist til að skreppa frá. Það er allra hagur að fylgst sé reglulega með heilsufari á vinnustöðum, skimun fyrir krabbameini er einn liður í því.

Sýnum kærleik og minnum konur á að mæta, á vinnustöðum, innan fjölskyldna og vinahópa. Það er mikilvægt.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmenn Framsóknar og nefndarmenn í velferðarnefnd Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Bókmenntastefna með ríka áherslu á ungt fólk

Deila grein

10/10/2024

Bókmenntastefna með ríka áherslu á ungt fólk

Í vik­unni mælti ég á Alþingi fyr­ir metnaðarfullri bók­mennta­stefnu til árs­ins 2030. Með henni vilj­um við efla ís­lenska rit­menn­ingu og tryggja að ís­lensk tunga dafni til framtíðar. Stefn­an legg­ur áherslu á marg­vís­leg atriði, en í kjarn­an­um er það að tryggja fjöl­breytta og kraft­mikla út­gáfu bóka á ís­lensku og auka lest­ur á öll­um aldri, en með sér­stakri áherslu á yngri kyn­slóðir. En hvað ger­ir út­gáfa bóka á ís­lensku svo mik­il­væga? Hvers vegna þarf þjóðfé­lagið að fjár­festa í henni?

Íslensk­ar bók­mennt­ir eru grund­völl­ur menn­ing­ar okk­ar. Þær varðveita sögu, þjóðsög­ur og hefðir og end­ur­spegla þróun sam­fé­lags­ins í gegn­um tíðina. Bæk­ur eru lyk­ill að því að skilja menn­ingu okk­ar, hug­mynda­fræði og sjón­ar­mið. Aðeins með því að skapa og varðveita ís­lensk­ar bók­mennt­ir get­um við tryggt að framtíðar kyn­slóðir fái að kynn­ast ríkri menn­ing­ar­arf­leifð okk­ar, skilja ræt­ur sín­ar bet­ur og viðhalda tungu­mál­inu.

Það er ekk­ert laun­ung­ar­mál að tungu­málið okk­ar stend­ur frammi fyr­ir áskor­un­um af völd­um snjall­tækja og stór­auk­ins aðgangs að ensku snemma á mál­töku­skeiði. Við sjá­um til að mynda að í ný­legri könn­un­um hef­ur áhugi barna á lestri stór­lega minnkað frá ár­inu 2000. Þetta eru slæm­ar frétt­ir sem þarf að bregðast við með fjöl­breytt­um ætti. Margt hef­ur áunn­ist á und­an­förn­um árum en það eru ýmis tæki­færi til þess að gera bet­ur í þess­um efn­um. Í bók­mennta­stefn­unni er lögð sér­stök áhersla á börn og ung­menni. Má þar til dæm­is nefna að starfs­um­hverfi höf­unda barna- og ung­menna­bóka verði styrkt sér­stak­lega og viðbótar­fjármagni verði tíma­bundið veitt til Barna­menn­ing­ar­sjóðs til að styrkja verk­efni sem byggj­ast á og stuðla að auk­inni miðlun á ís­lensk­um sagna­arfi til barna og ung­menna ásamt því að kannaðir verði mögu­leik­ar á því að styðja sér­stak­lega við þýðing­ar á er­lend­um bók­mennt­um eða sam­bæri­legu efni sem höfðar til barna og ung­menna á ís­lensku. Þá er einnig lagt til að stuðlað verði að auk­inni kynn­ingu og sýni­leika á hlut­verki og störf­um rit­höf­unda, mynd­höf­unda og þýðenda, meðal ann­ars í starfi grunn­skóla og fram­halds­skóla, vegna mik­il­væg­is þeirra fyr­ir ís­lenska tungu og sköp­un­ar­kraft kom­andi kyn­slóða.

Með því að gefa út fjöl­breytt­ar bæk­ur á ís­lensku fyr­ir börn og full­orðna auk­um við notk­un og skiln­ing á tungu­mál­inu. Um ald­ir höf­um við skrifað sög­una á ís­lensku og því ætl­um við að halda áfram um ókomna tíð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Jöfn tæki­færi til menntunar

Deila grein

09/10/2024

Jöfn tæki­færi til menntunar

Menntun er einn af hornsteinum samfélagsins og okkar hlutverk er meðal annars að jafna stöðu einstaklinga til náms óháð búsetu. Þannig styrkjum við enn frekar tækifæri, velferð og lífsgæði fólks í heimabyggð og tækifæri til áframhaldandi búsetu.

Það er óásættanlegt að árið 2024 séu landsmenn ekki í sömu stöðu þegar kemur að því að sækja sér háskólanám. Við Íslendingar búum í dreifðu landi þar sem fjarlægðir geta verið miklar og veðurskilyrði stundum erfið. Það skiptir miklu máli að menntakerfið sé í stakk búið að taka tillit til námsmanna, enda er tækni og þekking á slíkum aðstæðum til staðar.

Því vil ég vekja athygli á þörfinni fyrir brýnar breytingar á fyrirkomulagi inntökuprófa til háskóla. Slíkar breyting eru ekki aðeins réttlætismál, heldur einnig lykill að því að tryggja jöfn tækifæri fyrir alla nemendur, óháð búsetu.

Þarf próftaka einungis að vera í Reykjavík?

Núverandi fyrirkomulag inntökuprófa til grunnnáms í læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði krefst þess að allir próftakar mæti til Reykjavíkur. Þetta getur sett þá nemendur sem búa utan höfuðborgarsvæðisins í flókna stöðu. Ferðakostnaður, gisting og annar tilfallandi kostnaður getur haft áhrif á nemendur og fjölskyldur þeirra. Þessi kostnaður er ekki aðeins fjárhagslegur heldur er þetta einnig spurning um jafnræði kynjanna, skuldbindingar og hvernig við verjum tíma okkar.

En kostnaðurinn einn skapar ekki allar hindranirnar. Íslenskt veðurfar getur verið óútreiknanlegt og ferðalög á milli landshluta geta fallið niður sökum ófærðar. Eins og dæmi frá síðasta vori sýna þegar nemendur komust ekki að Austan þar sem flug var fellt niður vegna óveðurs. Mikil óvissa og óöryggi skapaðist hjá nemendum í tengslum við aflýsingu flugsins til Reykjavíkur. Þetta er ekki í fyrsta skiptið né það síðasta sem slíkar ófyrirséðar aðstæður koma upp.

Það er óásættanlegt að nemendur verði af tækifærinu til próftöku vegna ófærðar í landi þar sem allra veðra er von, þegar lausnin eru til staðar svo að nemendur geti tekið þessi inntökupróf, í heimabyggð eða nálægt heimili.

Tryggjum aðgengi

Rafrænt prófakerfi, eins og Inspera, hefur m.a. verið tekið í notkun hjá Háskóla Íslands og og Háskólanum á Akureyri sem gerir mögulegt að bjóða próftöku á fleiri stöðum á landinu. Aðrar menntastofnanir hafa einnig lokið að innleiða sérstök kerfi sem bjóða upp á rafræna próftöku. Með slíkum tækifærum getum við skapað betra aðgengi að menntun fyrir nemendur um allt land. Það er bæði réttlætismál og samfélagslega hagkvæmt að nýta þessar tæknilausnir til að gera menntun aðgengilegri fyrir alla.

Lausnirnar eru til. Við getum boðið upp á inntökupróf í grunnnámi læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði á fleiri stöðum en aðeins í Reykjavík. Staðir eins og m.a. Ísafjörður, Akureyri, Egilsstaðir og Hornafjörður hafa þegar reynslu af því að veita háskólaþjónustu og sjá um prófaumsýslu í samstarfi við Háskóla Íslands og aðrar háskólastofnanir. Með góðum undirbúningi og samvinnu við staðbundin þekkingarsetur sem uppfylla gæðakröfur, er hægt að tryggja að próftaka á þessum stöðum verði jöfn og örugg.

Jöfn tækifæri eru arðbær fjárfesting

Reikna má með að aukinn kostnaður fylgi því að bjóða upp á próftöku á fleiri stöðum, en sá kostnaður er nauðsynleg fjárfesting í jafnrétti til náms. Huga þarf að ýmsum þáttum eins og undirbúningi prófstaða, þjálfun starfsfólks til að sinna tækniaðstoð, og tryggja að búnaður og aðstaða sé til staðar. Þetta eru verkefni sem krefjast aukins kostnaðar og vinnu, en það er mikilvægt að við gerum það sem þarf til að tryggja að allir hafi jöfn tækifæri til að sækja háskólanám.

Það er skylda okkar sem samfélag að tryggja jöfn tækifæri til menntunar fyrir alla, óháð búsetu. Með því að nýta tæknina og bjóða próftöku í heimabyggð stuðlum við ekki aðeins að jafnrétti heldur einnig að betri frammistöðu nemenda. Menntun er lykillinn að framtíðinni og það er á okkar ábyrgð að tryggja að allir hafi aðgang að þeim lykli, óháð því hvar þeir búa.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is. 8. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Sjálf­skipaðir sér­fræðingar sam­göngu­mála

Deila grein

08/10/2024

Sjálf­skipaðir sér­fræðingar sam­göngu­mála

Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með umræðunni um framkvæmdina á nýrri Ölfusárbrú. Hver sjálfskipaði sérfræðingurinn á fætur öðrum stígur fram og segir sína skoðun á hvers konar tegund brúar eigi að vera byggð yfir Ölfusá, áætlanir um ársdagsumferðir hafðar að engu og framkvæmdin og nauðsyn hennar dregin í heild sinni í efa.

Umferðarþungi á svæðinu

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni þá er umferð árið 2024 um hringveg undir Ingólfsfjalli á hverjum sólarhring um 14.500 ökutæki. Áætlað er að á opnunarári 2028 að 7200 ökutæki muni aka yfir brúnna á hverjum degi. Þrátt fyrir það mun áfram vera umferð yfir gömlu brúnna eða um 10 til 11 þúsund ökutæki á hverjum sólarhring samkvæmt afar varfærnum áætlunum Vegagerðarinnar.

Ekki aðeins það heldur fara talsvert miklir þungaflutningar í gegnum Selfoss, sem hefur í för með sér bæði álag á gömlu brúnna, sem þolir illa þann mikla þunga sem fylgir því og hefur maður heyrt að vörubílstjórar vilja alls ekki mætast á brúnni. Ný brú losar þungaflutninga frá Selfossi að mestu og tryggir öryggi bæjarbúa enn frekar.

Náttúran er harður húsbóndi

Á þessu svæði eru jarðskjálftar tíðir en það eru vísbendingar um það að sprungur séu í botni Ölfusár. Við þurfum brúarmannvirki sem stendur af sér bæði þá jarðskjálfta sem koma á svæðinu og þegar það verða flóð í Ölfusá, en það er reglulegur atburður. Þess má geta að þegar það kemur flóð í Ölfusá, sem er vatnsmesta á landsins, þá flæðir hún iðulega yfir bakka sína. Árið 1968 varð mikið flóð sem flæddi inn í bæinn og olli miklum skemmdum. Það sama gerðist árið 2006. Því er ekki talið öruggt að byggja brú yfir Ölfusá með millistöplum í árfarveginum, því allar breytingar á rennsli árinnar, til dæmis vegna undirstaðna nýrrar brúar geta aukið flóðahættu á Selfossi og nágrenni.

Rökstuðningur og staðreyndir fyrir vali á brúartegund

Þá er heldur ekki fræðilegur möguleiki að stífla Ölfusá til að byggja brú á þurru landi eins og var gert í Hornafjarðarfljóti og Þorskafirði þar sem straumþungi er hvergi nærri því sem Ölfusáin býður okkur uppá. Þá eru haflengdir brúnna í Þorskafirði og Hornafjarðarfljóti í kringum 35 – 45 metrar en haflengd Ölfusárbrúar er 145 til 155 metrar. Þær miklu kröfur sem gerðar eru til nýrrar Ölfusárbrúar meðal annars vegna alls þess sem að framan er rakið gerir það að verkum að ódýrari framkvæmd eða önnur tegund brúar er ekki valmöguleiki án þess að við hreinlega gefum eftir öryggissjónarmið og endingargildi brúarinnar. Fyrir mitt leyti er það ekki boðlegt.

Ef við skoðum brúartegundir miðað við haflengdir þá eru steyptar brýr sjaldan notaðar þegar haflengdir eru lengri en 40-50 metrar. Stagbrýr eins og sú sem gert er ráð fyrir að rísi norðan við Selfoss með veglínu um Efri Laugardælaeyju eru talsvert algengari í tilfellum þar sem brúin þarf haflengd yfir 120 metra.

Til að setja þetta í samhengi við aðrar brýr á Íslandi þá er lengsta brúarhaf á Íslandi í dag 112 m á hengibrú yfir Skjálfandafljót í Bárðardal, brú sem byggð var 1955. Það eru 11 brýr á landinu þar sem brúarhafið er yfir 70 m þar af eru líklega 3 byggðar miðað við nútímaumferð, bogabrú yfir Fnjóská frá 1999 með 92 m haflengd, bogabrú á Mjóafjörð á Djúpvegi með 107 m haflengd frá 2008 og bogabrú á Þjórsá frá 2003 með 78 m haflengd.

Það er öllum ljóst sem ekið hafa um svæðið að ekki verður hjá því komist að að minnka álagið á núverandi brú yfir Ölfusá sem var byggð árið 1945. Brúin sem slík er komin til ára sinna og verður sífellt erfiðara að viðhalda henni. Ekki nóg með það, þá er það vægast sagt orðið aðkallandi að taka umferðina út fyrir Selfoss og leysa umferðarhnútana sem myndast beggja megin við núverandi brú.

Allar umræður um að Selfyssingar séu að fá minnisvarða og rándýrt hönnunarverk stenst ekki skoðun. Verkfræðilegar áskoranir sem fyrst og fremst hafa ráðist af staðháttum, sem og raunhæfar lausnir á þeim voru höfð að leiðarljósi við þá hönnun sem varð fyrir valinu. Við viljum brú sem stendur af sér veður og þær aðstæður sem móðir náttúra býður okkur uppá og geti þjónað þjóðinni til framtíðar. Vissulega er kostnaðurinn hærri en við byggingu hefðbundinnar steyptrar brúar en sá viðbótarkostnaður kemur til vegna turns og stagkapalkerfis, en undirstöðurnar eru reyndar færri og framkvæmdin flóknari. En umhverfið, jarðlög, og aðstæður í Ölfusár gera þetta eina færa kostinn til framtíðar. Við erum að byggja brú sem við viljum að standi í 200 ár en ekki 20 ár eða skemur.

Vanáætluð umferð og sjónarmið um sjálfbærni

Sjálfbærni er ekki aðeins náttúra og umhverfi heldur einnig heilsa, vellíðan, samfélag og menning. Sjálfbær þróun er áhersla á heildarsýn og langtímahugsun en ekki skammtímalausnir eða gróða. Ný brú mun bæta öryggi fólks á leið sinni um Suðurland auk þess sem lífsskilyrði íbúa á Selfossi munu batna umtalsvert. Ný brú mun einnig bera stofnlagnir fyrir hitaveitu, neysluvatn, rafmagns og samskipta sem núverandi brú ber tæplega eða alls ekki og það hefur valdið vandkvæðum þegar kemur að flutningi á heitu vatni frá borholum inn á heimili í Árborg.

Ef við lítum til sjálfbærni í efnahagi þá er verkefnið metið fjárhagslega sjálfbært en gert er ráð fyrir að með töku hóflegs veggjalds mun vera hægt að greiða hraðar niður framkvæmdakostnað brúarinnar, svo ekki sé talað um tímasparnað og greiðfærni fólks sem á leið um svæðið. Árið 2019 var dagleg umferð um núverandi brú yfir 10.400 ökutæki. Það eru 10.400 ökutæki sem leggja leið sína í gegnum Selfoss á degi hverjum það árið. Þessi tala hefur hækkað töluvert með aukningu ferðamanna sem að stærstum hluta leggur leið sína yfir Hellisheiðina og skoðar Suðurlandið. Það hefur verið ítrekað vanáætlað hversu mikil umferð er um núverandi brú eða hver hún mun verða á komandi árum. Þær áætlanir hafa alltaf sprengt sig fyrir þann tíma sem gert er ráð fyrir.

Karp um kostnað og afvegaleidd umræða

Höldum staðreyndum á lofti varðandi fjármögnun framkvæmdarinnar. En það stendur ekki til að fjármagna framkvæmdina með skattfé heldur veggjöldum, þeir borga sem nota. Meintur sparnaður sem myndi skapast af því að byggja þjóðveginn upp sunnan við Árborg er því tómur hljómur þar sem slík uppbygging þyrfti að vera á veginum um Óseyrarnes. Fjárfesting í samgöngum sem hafa þegar átt sér stað á veginum milli Hveragerðis og Selfoss. Við værum því bara að bíta í skottið á okkur og hafa skattgreiðendur að fíflum með slíkri ákvarðanatöku. Auðvitað eru allir að reyna að ota sínum tota fyrir hagsmuni sinna sveitarfélaga. Skiljanlegt en við megum ekki setja umræðuna enn frekar á villigötur því næg er vitleysan nú þegar. Hver sérfræðingurinn á fætur öðrum og fyrrum ráðherrar koma fram og tjá sig um málið, vonandi óafvitandi um hverskonar vanvirðingu slíkar staðhæfingar inn í umræðuna sýna íbúum Árborgar og Sunnlendingum öllum. Þessi framkvæmd með tilheyrandi vegaframkvæmd er gríðarleg lífskjarabót fyrir íbúa svæðisins. Hér er um að ræða mesta hagsmunamál svæðisins síðustu ára og til þess fallin að bæta öryggistilfinningu þeirra sem eiga leið um svæðið og þeirra sem búa á Selfossi. Sú sem hér skrifar væri til í að fara að sjá gröfur og vinnutæki mæta á svæðið og hefja það gríðarlega mikilvæga starf að reisa þessa brú, fyrir okkur sem búum á Suðurlandi og einnig alla þá sem sækja okkur heim, hvort sem það eru erlendir eða innlendir gestir. Sjálfskipaðir sérfræðingar samgöngumála mega því gjarnan reyna að láta stjörnu sína skína annarsstaðar í staðinn fyrir að flækjast fyrir í umræðu um svo brýna og skynsamlega umferðarbót sem ný Ölfusárbrú verður.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fjölgun lóða, hér er leiðin!

Deila grein

08/10/2024

Fjölgun lóða, hér er leiðin!

Þann 23. febrúar 2022 flutti ég eftirfarandi tillögu í bæjarstjórn Hafnarfjarðar:

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir fyrir sitt leyti að svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins verði tekið til endurskoðunar með það að markmiði að fjölga byggingarsvæðum.“

Greinargerð: Ljóst er að fyrirsjáanlegur skortur er á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og engin nýbyggingarsvæði til staðar í einhverjum sveitarfélögum samkvæmt svæðisskipulaginu. Svæðisskipulagið gerir bæði ráð fyrir þéttingu byggðar, sem oft er flókin og gengur hægt, og nýbyggingarsvæðum þar sem byggja má hratt og hagkvæmt. Mikilvægt er að slík svæði séu til staðar til framtíðar.“

Óskað var eftir minnisblaði frá umhverfis- og skipulagssviði Hafnarfjarðarbæjar um tillöguna sem svo var tekið fyrir á fundi þann 12. apríl sama ár og gefur góða mynd af stöðunni. Þeirri stöðu hef ég oft og ítrekað haldið á lofti í umræðunni um húsnæðismál á síðustu árum. Umrætt minnisblað fylgir hér greininni.

Allt þetta hefur svo verið staðfest margoft og nú síðast á stórum fundi sem ég hélt um húsnæðismál og áhrif þeirri á efnahagsmálin til lengri og skemmri tíma í Bæjarbíói þann 14. ágúst síðastliðinn. Þar komu til mín fulltrúar frá iðnaðinum, stjórnsýslunni, fjármálakerfinu og verkalýðshreyfingunni. Niðurstaðan: okkur fjölgar meira en áætlanir gerðu ráð fyrir, það þarf að byggja meira og það þarf að fjölga lóðum til að ná því markmiði.

Þrátt fyrir að aldrei í sögunni hafi verið byggt meira af íbúðum en á árunum 2019-2024, þá þarf að byggja meira. Það er því ánægjulegt, fyrir mig alveg sérstaklega, að stöðugt sé að fjölga í þeim hópi sem áttar sig á þeirri stöðu. Hún er vond til framtíðar og það sýna okkur allar tölur. Í mínum huga má alveg segja með réttu að Seðlabankinn hafi hlaðið í snjóhengju kynslóða sem ekki komast út á markaðinn með sinni vaxtastefnu og hertum lánþegaskilyrðum. Sú stefna hefur haft gríðarlega neikvæð áhrif á bæði húsbyggjendur og væntanlega kaupendur.

Frumvarp lagt fyrir Alþingi

Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040 er um margt mjög gott. Það sameinar sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu í þeirri sýn og því markmiði að tryggja náið samstarf um skipulagsmál og hagkvæman vöxt svæðisins til ársins 2040. Það er mikilvægt, enda er höfuðborgarsvæðið eitt búsetusvæði, einn atvinnu- og húsnæðismarkaður með sameiginleg grunnkerfi, útivistarsvæði, auðlindir og náttúru. En forsendur hafa breyst og nægir þar að nefna fólksfjölgun. Slíkt kallar á endurskoðun.

Best væri ef sveitarfélögin hættu að tala og kæmu sér strax saman um endurskoðun vaxtamarka svæðisskipulagsins. Eins og staðan er í dag, þá er nóg að eitt sveitarfélag komi í veg fyrir slíka skynsamlega útvíkkun vaxtamarka svo hægt sé að bregðast við þeirri þróun sem hér hefur átt sér stað á síðustu árum. Þrátt fyrir að vona það besta, þá tel ég erfitt að treysta á slíka samstöðu og hef því lagt fram frumvarp þess efnis að sveitarfélag eins og t.d. Hafnarfjörður, sem er í þeirri stöðu sem blasað hefur við frá árinu 2022 að allt byggingarland innan vaxtamarka til ársins 2040 er að klárast (sjá meðfylgjandi minnisblað), geti sótt um undanþágu á svæðisskipulaginu til þess að byggja húsnæði í ástandi þar sem m.a. ríkir húsnæðisskortur.

Þetta mál hefur verið lengi í vinnslu og óskað var eftir meðflutningi úr öllum flokkum á þingi í fyrri hluta septembermánaðar. Ég hef því bæði flutt tillögu sem bæjarstjórnarfulltrúi í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, þar sem mér gafst ekki nægur tími til að fylgja henni þar eftir og kem nú fram með frumvarp sem þingmaður til að leysa þessi mál til framtíðar.

Ég tel að frumvarpið sé mjög gott og brýnt, sérstaklega við núverandi aðstæður, en ekki er loku fyrir það skotið að í meðförum þingsins verði gerðar breytingar á frumvarpinu komi fram tillögur til hins betra, enda er markmið þess eitt og er alveg skýrt. Það þarf að byggja meira, við þurfum að byggja fyrir venjulegt fólk og tryggja það að við, til framtíðar, komumst úr vítahring hárrar verðbólgu og vaxta vegna áskorana á húsnæðismarkaði. Þar þurfa öll sveitarfélög að hafa svigrúm og getu til að taka þátt. Húsnæðismál eru risavaxið efnahagsmál sem þola enga bið. Frumvarpið læt ég fylgja hér með til frekari skoðunar, en flutningsmenn þess eru auk mín aðrir þingmenn Framsóknar og þingmenn Miðflokksins.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Hér má sjá frumvarpið. 

Tengd skjöl:

Categories
Greinar

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið

Deila grein

04/10/2024

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið

Þrátt fyrir að þjóðin sé lítil í alþjóðlegu samhengi, skiptir innlend matvælaframleiðsla miklu máli fyrir fæðuöryggi, efnahag og menningu landsins. Í ljósi vaxandi óvissu í heiminum varðandi matvælaöryggi, loftslagsmál og alþjóðlegar birgðakeðjur, er mikilvægi íslensks landbúnaðar meira en nokkru sinni fyrr.

Fæðuöryggi í ótryggum heimi

Einn mikilvægasti þátturinn í íslenskum landbúnaði er fæðuöryggi. Ísland, sem eyland, hefur alltaf þurft að hugsa vel um sínar auðlindir. Þótt innflutningur hafi aukist verulega á undanförnum áratugum, eru innlend matvæli enn þá lykilþáttur í því að tryggja að þjóðin hafi aðgang að öruggum og hollum matvörum. Og þann þátt eigum við að efla.

Heimsfaraldurinn, stríðsátök og aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður sýna okkur hversu mikilvægt það er að treysta ekki um of á innfluttar matvörur. Með því að styðja við innlenda matvælaframleiðslu tryggjum við að þjóðin sé ekki eins viðkvæm fyrir áföllum í alþjóðlegum matvælamörkuðum. Íslenskir bændur eru lykilaðilar í því ferli að viðhalda þessu fæðuöryggi.

Stuðningur við byggðir landsins

Íslenskur landbúnaður er ekki aðeins mikilvægur fyrir matvælaframleiðslu, heldur er hann líka burðarás margra sveitarsamfélaga. Búskapur veitir störf á landsbyggðinni og stuðlar að byggðafestu. Án öflugs landbúnaðar gæti margt af þessum samfélögum átt undir högg að sækja.

Störf í landbúnaði eru ekki aðeins bundin við akrana og fjósin – þau teygja sig einnig yfir í matvælavinnslu, dreifingu og sölu. Með öðrum orðum, þegar við kaupum íslenskar landbúnaðarvörur erum við ekki aðeins að styðja bændur, heldur líka fjölda annarra starfa sem treysta á þessa framleiðslu.

Í þessu samhengi eru íslenskir landbúnaðarframleiðendur lykilþáttur í þeirri sjálfbærnistefnu sem Ísland hefur sett sér. Með því að auka innlenda framleiðslu minnkum við kolefnisspor sem fylgir innflutningi og getum jafnframt stutt við vistvænni matvælaframleiðslu.

Gæði íslenskra vara og menningararfur

Íslenskar landbúnaðarafurðir eru þekktar fyrir gæði sín. Þessi gæði byggja á hreinu lofti, óspilltu vatni og ströngum reglum um dýravelferð. Þessar vörur, hvort sem það eru mjólkurvörur, kjöt eða grænmeti, eru ekki aðeins mikilvægar fyrir neytendur hér á landi, heldur hafa þær einnig aukið samkeppnishæfni Íslands á alþjóðamarkaði. Íslenskar vörur njóta vaxandi vinsælda vegna upprunans og þeirrar tryggingar sem fylgir því að þær séu framleiddar við hrein og örugg skilyrði.

Landbúnaðurinn hefur einnig menningarlegt gildi.

Íslenskar búskaparhefðir, s.s. framleiðsla á skyri, hangikjöti og öðrum hefðbundnum afurðum, eru mikilvægur hluti af menningu þjóðarinnar. Þetta er ekki aðeins arfur sem tengir okkur við fortíðina, heldur einnig mikilvægur þáttur í því að viðhalda sjálfstæði og sérstöðu íslenskrar matarmenningar.

Framtíð íslensks landbúnaðar

Framtíðin kallar á aukna nýsköpun og tækni í landbúnaði. Með því að nýta tækifærin sem felast í tækniframförum, svo sem aukinni sjálfvirkni og betri ræktunaraðferðum, getur íslenskur landbúnaður haldið áfram að þróast í takt við alþjóðlegar kröfur um gæði, umhverfisvernd og sjálfbærni.

Íslenskir bændur og samfélagið allt standa frammi fyrir áskorunum, en einnig fjölmörgum tækifærum. Með því að efla íslenskan landbúnað getum við tryggt ekki aðeins fæðuöryggi og sjálfbærni, heldur einnig sterka stöðu okkar í heiminum. Það er því ljóst að landbúnaður er ekki aðeins lífsnauðsynlegur fyrir tilveru bændanna sjálfra, heldur fyrir alla Íslendinga.

Landbúnaður er, og mun áfram vera, ómissandi hluti af sjálfstæði og sjálfbærni íslensks samfélags.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 2. október 2024.