Categories
Fréttir Greinar

Það eina örugga í lífinu

Deila grein

06/06/2024

Það eina örugga í lífinu

Síðustu misseri hafa verið fréttir af rekstrarvanda líkhúsa á Íslandi. Það er morgunljóst að skýra þarf frekar stöðu þeirra hér á landi og hvernig rekstri þeirra verði best háttað til framtíðar. Móta þarf stefnu og skilgreina hver ber ábyrgð á látnum einstaklingi frá dánarvottorði til greftrunar í kirkjugarði og heimila líkhúsum gjaldtöku. En það er ekki einungis rekstrarvandi líkhúsa sem þarf að greina og finna framtíðarlausn á, við þurfum einnig að huga að með hvaða hætti sé best að koma okkur öllum fyrir til eilífðarnóns.

Dýrmætt landrými

Eftir því sem okkur fjölgar, fjölgar þeim látnu. Það liggur fyrir að andlátum mun fjölga um 100% á næstu 20 árum. Samkvæmt lögum má ekki grafa látinn einstakling nema í viðurkenndum grafreit eða kirkjugarði. Sífellt meira landsvæði fer því undir kirkjugarða og erfiðleikar við að finna hentugan stað aukast eftir því sem árin líða. Landrými í þéttbýli er dýrmætt og leggst það á sveitarfélög að leggja til aukið landrými fyrir kirkjugarða.

Þróun síðustu ára sýnir að sífellt fleiri kjósa að láta brenna sig en áður, duftreitir taka mun minna pláss og því væri ákjósanlegt að við myndum færa okkur í auknum mæli í þá áttina. Veruleikinn er sá að bálstofur og líkbrennsla er þjóðhagslega hagkvæmt verkefni. Því fylgir að minna landsvæði þarf að skipuleggja og hirða. Undir eina gröf þarf að gera ráð fyrir 2,5 m á lengd og 1,40 m á breidd. Undir duftker eru stærðarmörkin 75cm*75cm.

Jafnt aðgengi að bálstofum

En eins og staðan er í dag er aðeins ein bálstofa á landinu. Hún var byggð árið 1946, er fyrir löngu komin til ára sinna og er rekin á undanþágu. Ef horft er blákalt á stöðuna er ljóst að það borgar sig að hafa einungis eina bálstofu á landinu vegna fámennis og smæðar. En þá þarf að huga að með hvaða hætti hægt er að jafna kostnaðinn fyrir alla landsmenn þannig að bálför sé raunverulegur og aðgengilegur kostur.

Hver er framtíðin?

En þá komum við aftur að rekstrarvandanum, hver er það sem á að starfrækja líkhús og bálstofur hér á landi? Á það að vera á hendi ríkisins, sveitarfélaga eða einkaaðila? Hvernig viljum við að líkhús og kirkjugarðar landsins þróist á komandi árum? Þessa umræðu þurfum við að taka. Ef við horfum til nágrannalanda okkar er það afar misjafnt með hvaða hætti þetta er gert. Eitt er þó víst og það er að þörf á gagngerri endurskoðun á lögum um kirkjugarða.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. júní 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fjarheilbrigðisþjónusta

Deila grein

05/06/2024

Fjarheilbrigðisþjónusta

Nú í maímánuði voru samþykktar breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Með þessum breytingum var verið að bæta inn í lögin ákvæðum um fjarheilbrigðisþjónustu, skýringum á þeirri þjónustu sem flokkast þar undir ásamt ákvæði um upplýsingaöryggi. Hér er um að ræða enn eitt góða málið frá Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra og því ber að fagna.

En hvað er fjarheilbrigðisþjónusta?

Fjarheilbrigðisþjónusta er ört vaxandi hluti almennrar heilbrigðisþjónustu og notkunarmöguleikar hennar eru fjölmargir og þróunin hröð. Hugtakið fjarheilbrigðisþjónusta er nú í lögunum skilgreint sem nýting stafrænnar samskipta- og upplýsingatækni til að veita heilbrigðisþjónustu þar sem aðilar eru ekki á sama stað á sama tíma. Undir þetta falla þættir eins og fjarsamráð, fjarvöktun, myndsamtöl, netspjall og hjálparsími og er nánar fjallað um inntak þessara þátta í lögunum. Þá fellur velferðartækni einnig þarna undir og er þá vísað til notkunar á stafrænum tæknilausnum í heilbrigðisþjónustu sem styður búsetu einstaklinga í heimahúsi.

Hagnýting tækni á sviði fjarheilbrigðisþjónustu og notkun ýmiss konar snjallforrita skapar stöðugt ný tækifæri óháð staðsetningu. Ljóst er að ávinningurinn af árangursríkri innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu er ótvíræður fyrir sjúklinga, fyrir heilbrigðisstarfsmenn, heilbrigðisstofnanir og samfélagið í heild.

Betri nýting á mannauði

Við þekkjum öll þá umræðu að manna stofnanir okkar með okkar helsta fagfólki til að mæta aukinni eftirspurn. Með fjarheilbrigðisþjónustu höfum við möguleika á að nýta betur þann mannauð sem býr í kerfinu ásamt því að efla samvinnu milli stofnana og landsvæða, auka hagkvæmni, gera þjónustu aðgengilega óháð búsetu og stuðla að nýsköpun. Tækifæri opnast á samvinnu sérfræðinga og teymisvinnu við heilsugæslur á landsbyggðinni og með því færi á að nýta betur fjölbreytta menntun og reynslu heilbrigðisstarfsmanna.

Áframhaldandi innleiðing fjarheilbrigðisþjónustu er liður í því að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í heilbrigðisþjónustu með breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og aukinni eftirspurn eftir þjónustu.

Betra aðgengi

Með markvissri uppbyggingu fjarheilbrigðisþjónustu skapast ráðrúm til að veita enn betri heilbrigðisþjónustu um land allt. Betri tækifæri eru til staðar til þess að veita snemmtæka íhlutun, samfellu í umönnun sjúklinga ásamt því að auðveldara verður að fylgjast með einstaklingum með langvinna sjúkdóma. Auk þess, með því að nýta tæknina í auknum mæli má draga úr tímafrekum ferðalögum sjúklinga sem þurfa að sækja sérhæfða þjónustu í öðrum landshlutum með tilheyrandi raski á daglegu lífi og tilkostnaði. Það þekkjum við sem búum úti á landi.

Hér er um að ræða mikilvægt og stórt skref inn í framtíðina. Ávinningurinn er skýr, ekki síst í því að ná markmiðum okkar um að auka og jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og draga úr kostnaði almennings við að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Það er og hefur verið stefna okkar í Framsókn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. júní 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónustuna

Deila grein

31/05/2024

Þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónustuna

Ferðaþjón­ust­an er í dag stærsti gjald­eyr­is­skap­andi at­vinnu­veg­ur þjóðar­inn­ar og mik­il­væg­ur drif­kraft­ur hag­vaxt­ar í land­inu. Með til­komu henn­ar hef­ur orðið um­turn­un á viðskipta­jöfnuði þjóðarbús­ins á rúm­lega 10 árum. Sveifl­ur í at­vinnu­grein­inni geta þannig fram­kallað nokk­ur hröð áhrif á lyk­il­breyt­ur í efna­hags­líf­inu.

Fyrr á ár­inu var smíði á sér­stöku þjóðhags­líkani fyr­ir ís­lenska ferðaþjón­ustu lokið. Með líkan­inu verður hægt að skoða áhrif breyt­inga í starfs­um­hverfi ferðaþjón­ust­unn­ar á hag­kerf­inu. Um er að ræða fyrsta þjóðhags­lík­an fyr­ir at­vinnu­grein hér­lend­is. Ferðamála­stofa hef­ur haldið á fram­kvæmd verk­efn­is­ins fyr­ir hönd menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins en ann­ars veg­ar er um að ræða sér­stakt þjóðhags­lík­an fyr­ir ís­lenska ferðaþjón­ustu, eða svo­kallað geiralík­an, og hins veg­ar út­víkk­un á spálíkani Seðlabanka Íslands/​Hag­stofu Íslands, þannig að það taki til­lit til hlut­verks ferðaþjón­ust­unn­ar í þjóðarbú­skapn­um.

Til­koma þjóðhags­lík­ans­ins skipt­ir máli í um­gjörð ferðaþjón­ust­unn­ar og mun líkanið gera stjórn­völd­um og öðrum hagaðilum kleift að skoða með raun­hæf­um hætti áhrif breyt­inga á helstu for­send­um ferðaþjón­ustu á hag grein­ar­inn­ar sem og þjóðarbús­ins alls – og öf­ugt. Þannig verður hægt að meta áhrif­in af breyt­ing­um í þjóðarbú­skapn­um á hag grein­ar­inn­ar. Þar má nefna sem dæmi áhrif ferðaþjón­ust­unn­ar á þjóðhags­stærðir eins og VLF og at­vinnu­stig, s.s. við far­sótt­ir, mikl­ar breyt­ing­ar á flug­sam­göng­um eða ferðavilja, og áhrif geng­is, verðlags, at­vinnu­stigs og skatta á ferðaþjón­ust­una.

Unnið er að því að gera gagn­virka og ein­falda út­gáfu þjóðhags­lík­ans­ins aðgengi­lega á vefsvæði Ferðamála­stofu eða Mæla­borði ferðaþjón­ust­unn­ar, þannig að not­end­ur geti breytt meg­in­for­send­um og séð áhrif þeirra breyt­inga skv. líkan­inu á aðrar helstu hag­stærðir.

Sam­keppn­is­hæfni ferðaþjón­ust­unn­ar skipt­ir þjóðarbúið höfuðmáli og þurfa ákv­arðanir stjórn­valda að end­ur­spegla þá staðreynd í hví­vetna. Fleiri ríki sem við ber­um okk­ur sam­an við hafa á und­an­förn­um árum lagt aukna áherslu á að byggja upp ferðaþjón­ustu með mark­viss­um hætti. Ísland verður að vera á tán­um gagn­vart þeirri auknu alþjóðlegu sam­keppni sem af því leiðir. Hið nýja þjóðhags­lík­an mun hjálpa okk­ur að skilja hvaða áhrif fækk­un eða fjölg­un ferðamanna hef­ur á þjóðarbúið og und­ir­byggja enn bet­ur þær ákv­arðanir sem tekn­ar eru í mál­efn­um ferðaþjón­ust­unn­ar.

Ég er bjart­sýn fyr­ir hönd ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu sem hef­ur náð mikl­um ár­angri á und­an­förn­um ára­tug. Mikl­um vexti fylgja oft áskor­an­ir eins og við þekkj­um, en heilt yfir hef­ur okk­ur sem sam­fé­lagi tek­ist vel til við að tak­ast á við þær, enda eru mikl­ir hags­mun­ir í húfi fyr­ir þjóðarbúið í heild.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Bílastæðagjöld á Akur­eyri og á Egils­stöðum

Deila grein

30/05/2024

Bílastæðagjöld á Akur­eyri og á Egils­stöðum

Síðustu misseri hef ég bæði í greinum og í fyrirspurnum á Alþingi lýst áhyggjum mínum af síhækkandi verði á innanlandsflugi síðustu misseri. Flugsamgöngur innanlands skipta þá sem búa á landsbyggðinni miklu máli og mikilvægt er að þær séu raunhæfur kostur fyrir þá sem þar búa. Enn á ný berast fregnir af aukinni gjaldtöku sem mun nú fyrst og fremst verða íþyngjandi fyrir íbúa landsbyggðarinnar, það er gjaldtaka á bílastæðum við flugstöðvarnar á Akureyri, Egilsstöðum og Reykjavík. Nógur er kostnaðurinn nú fyrir.

Landsbyggðarskattur?

Búið er að setja upp bílastæðakerfi með aðgangsstýringu sem les bílnúmer og stefnt er að því að hefja nýtingu þess á næstunni. Markmiðið er sagt vera að bæta gestum þjónustu og ferðaupplifun, sem er verðugt markmið, en mikilvægt er að gjaldtakan sé hófleg og komi ekki á sama tíma niður á notendum þjónustunnar.

Samkvæmt gjaldskrá eru fyrstu fimm klukkustundirnar fríar en gert er ráð fyrir að dagurinn muni kosta 1750 kr. Þess ber að geta að þeir einstaklingar sem ætla að nýta sér innanlandsflug t.d. vegna heilbrigðisheimsóknar ná í flestum tilfellum ekki fram og til baka á innan við fimm klukkustundum. Fyrstu sjö dagana er gert ráð fyrir að dagurinn muni kosta 1750 kr. næstu sjö daga á eftir 1350 kr. og svo 1200 kr. hver dagur eftir 14 daga. Kostnaður vegna skemmri ferða getur því orðið töluverður, og bitnar einna helst á þeim sem búa utan Akureyri eða Egilsstaða og þurfa að keyra lengri leið á flugvöllinn. Þá þarf að huga að hvernig gjaldtakan mun horfa við bílaleigum og tryggja að kerfið sé skilvirkt fyrir þær og að óþarfa kostnaður lendi ekki á þeim, enda mikilvægur liður í ferðaþjónustu á landsbyggðinni.

Það er þörf á betri útfærslu

Vissulega hafa myndast álagspunktar á bílastæðum við flugstöðvarnar, er það þá einna helst þegar stór millilandaflug eru frá flugstöðvunum. Að mínu mati mætti réttlæta gjaldtöku vegna slíkra ferða, enda væri það í samræmi við það sem gengur og gerist við flugstöð Leifs Eiríkssonar. Sú sem hér skrifar telur mikilvægt að huga betur að útfærslu vegna styttri ferða, sér í lagi þeirra sem eru að sækja sér heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðið, en viðbúið er að viðbótarkostnaður komi til með að leggjast á fólk af landsbyggðinni sem þarf að sækja slíka þjónustu.

Sú sem hér skrifar telur mikilvægt að hægja hér aðeins á ferðinni og skilgreina betur gjaldtöku með þessum hætti. Það er ekki boðlegt leggja á auka kostnað á íbúa landsbyggðarinnar með svona einhliða aðgerð. Því hef ég komið málinu á framfæri í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og beitt mér fyrir því að gjaldtakan verði tekin til skoðunar á vettvangi nefndarinnar.

Ingibjörg Isaksen, er þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Í þágu upplýstrar umræðu: Svar við grein Páls Gunnars Pálssonar

Deila grein

30/05/2024

Í þágu upplýstrar umræðu: Svar við grein Páls Gunnars Pálssonar

Í síðasta Bændablaði kom út margt áhugaverð grein eftir Pál Gunnar Pálsson forstjóra Samkeppniseftirlitsins þar sem hann fer mikinn varðandi nýlega samþykktar breytingar á búvörulögum. Greinin er sérstaklega áhugaverð fyrir þær sakir hversu litla innsýn Páll Gunnar virðist hafa á ný samþykktum breytingum á búvörulögum og stöðu bænda hérlendis. Sé ég mig nauðbeygðan til þess að svara þessar grein sem hann ritar að hans sögn í þágu upplýstrar umræðu.

Engar sérreglur

Páll Gunnar segir að það sé ekki rétt að nýsamþykktar undanþágur séu sambærilegar þeim sem þekkjast í Noregi og innan Evrópusambandsins. Það rétt er að lögin taka tillit til aðstæðna á Íslandi og eru því að hluta til frábrugðið undanþágureglum nágrannaríkja Íslands en byggja þó að öðru leyti á þeirri grunnforsendu sem gildir í nágrannalöndunum,  að afurðastöðvum sé heimilt að hafa með sér samráð og samvinnu til að ná fram hagræðingu til hagsbóta fyrir neytendur og bændur. Auk þess stendur Ísland utan landbúnaðarstefnu ESB, sbr. 3. mgr. 8. gr. EES-samningsins. Ákvæði samningsins, og þar með samkeppnisreglur hans, ná því aðeins að litlu leyti til framleiðslukerfis landbúnaðar hér á landi, og svigrúm til að móta stefnu í málaflokknum er því umtalsvert.

Rétt er að halda því til haga að atvinnuveganefnd hefði geta gengið lengra en gert var. Lögin ganga t.d. mun skemur en undanþágureglan í Noregi. Þar gilda samrunareglur þrátt fyrir undanþágu en misnotkun á markaðsráðandi stöðu er heimil. Ef Noregur getur sérsniðið undanþágu fyrir norskan landbúnað þá getur Ísland sérsniðið undanþágu fyrir íslenskan landbúnað sem tekur mið af aðstæðum hér á landi, líkt og var gert með 71. gr. um mjólkuriðnaðinn. Rétt er að geta þess að Noregur er EFTA land líkt og Ísland og aðili að EES-samningnum.

ESB, landbúnaður og samkeppnisreglur

Landbúnaður nýtur sérstöðu í grundvallarlögum Evrópusambandsins. Í 1. mgr. 42. gr. sáttmálans um starfshætti ESB er mælt fyrir um að samkeppnisreglur sáttmálans gildi aðeins um framleiðslu og viðskipti með landbúnaðarafurðir að því marki sem Evrópuþingið og ráðið ákveða skv. 2. mgr. 43. gr. sáttmálans og með hliðsjón af markmiðum sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar sem er lýst í 39. gr. sáttmálans. Eru þau að auka framleiðni, tryggja lífskjör í dreifbýlissamfélögum, tryggja stöðugleika á mörkuðum, auka framboð á matvöru og tryggja viðunandi verð til neytenda. Í dómi dómstóls Evrópusambandsins frá 14. nóvember 2017 í máli nr. C-671/15 var því slegið föstu að áherslur samkeppnisréttar um hag neytenda geti ekki einar varðað veginn um mat á gildi samstarfs framleiðenda í landbúnaði. Þar yrði einnig að horfa til markmiða sáttmálans með hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu. Með öðrum orðum var kveðið á um ákveðin forgangsáhrif landbúnaðarstefnunnar gagnvart samkeppnisreglum sambandsins.

Framleiðendur og framleiðendafélög njóta almennrar heimildar til samstarfs sem tekur til ýmiss konar innviðaverkefna, svo sem sameiginlegrar vinnslu, dreifingar, flutninga, pökkunar, geymslu og meðhöndlunar úrgangs og sameiginlegra innkaupa á aðföngum. Í reglugerð (ESB) nr. 1308/2013 um sameiginlegt markaðskerfi fyrir landbúnaðarafurðir er sérstakur kafli um samkeppnismál. Þar er tekið fram að ráðstafanir framleiðendafélaga um framleiðslu eða sölu landbúnaðarafurða, eða sameiginlega geymslu, vinnslu eða meðferð afurða, falli ekki undir bannreglur samkeppnisákvæða sáttmála um starfshætti ESB nema markmiðum landbúnaðarstefnunnar samkvæmt sáttmálanum sé stefnt í hættu. Um leið er tekið fram að þessar ráðstafanir megi ekki fela í sér skyldu til samræmdrar verðlagningar eða leiða til útilokunar á samkeppni. Ekki er gerð krafa innan ESB um að slík félög séu sérstaklega skráð eða viðurkennd af hálfu opinberra aðila til að þau njóti hinnar almennu undanþágu. Þau geta þó óskað skráningar og þá njóta þau enn frekari réttinda í tilteknum tilvikum.

Völd bænda?

Páll Gunnar kemur inn á að Samkeppniseftirlitið hafi lýst jákvæðri afstöðu við upphaflegt frumvarp matvælaráðherra og að í umsögn við frumvarpið hafi eftirlitið lagt áherslu á að bændur myndu með skýrum hætti ráða þeim fyrirtækjum sem undanþágurnar tækju til. Með því hefðu skapast hvatar til að færa bændum meiri áhrif og völd í starfandi kjötafurðastöðvum. Staðreyndin er sú að það voru aðeins þrjú fyrirtæki sem hefðu fengið þessa undanþágu, það eru Matfugl, Stjörnugrís og Ísfugl. Hvernig áttu þessar breytingar að styrkja stöðu bænda?  Stjórn hvers félags þarf alltaf að hafa hag félagsins að leiðarljósi, þó að fyrirtæki sé í eigu bænda þá eru þeir ekki að borga meira en fyrirtækið ræður við. Allt tal um aukin völd eru því hér innantómt hjal.

Þegar ljóst var að frumvarpið kæmi ekki til með að ná þeim tilgangi sem lagt var upp með í upphafi lagði meirihluti atvinnuveganefndar til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Nefndin taldi nauðsynlegt að horfa til þess hvernig hægt væri að nálgast frumvarpið betur með það að markmiði að það myndi gagnast fleirum, þar með talið bændum.

Um einokun

Þá er það merkilegt að lesa umfjöllunina um meinta heimild til einokunar sem Páll Gunnar kemur inn á í greininni,  hann heldur því fram að með því að veita umræddar undanþágur sé verið að taka úr sambandi eftirlit með samrunum kjötafurðastöðva og opnað fyrir því að komið verði á algerri einokun á íslenskum kjötmarkaði. Þessi fullyrðing er á þunnum ís og forstjóri Samkeppniseftirlitsins kýs að skauta algerlega fram hjá þeirri staðreynd að öll samkeppni við íslenska kjötframleiðslu kemur erlendis frá. Íslenskur landbúnaður þarf á íslenskum neytendum að halda og á sama tíma þarf innlend framleiðsla að vera samkeppnishæf við innflutta matvöru. Ef ekki er veitt svigrúm til hagræðingar í greininni er næsta víst að neytendur færi sig í auknum mæli yfir í erlenda staðgönguvöru með þeim afleiðingum að það fjarar undan íslenskum landbúnaði.  Það sama myndi gerast ef sú hagræðing sem nú er möguleg skilar sér ekki á endanum til íslenskra neytenda. Hátt verð á innlendri landbúnaðarvöru veldur því að neytendur versla aðrar vörur og á sama tíma hafa sífellt fleiri íslenskir bændur verið að bregða búi, því er nú verið að reyna að breyta.

Ástæðan fyrir því að ekki var farin sú leið að fara í opinbera verðlagningu er sú að ákveðið var að treysta að afurðastöðvarnar myndu skila hagræðingunni til bænda, ef ekki þá er það næsta víst að afurðastöðvarnar munu einar af annarri fara að skella í lás, því það er engin íslensk afurðastöð ef það er enginn íslenskur bóndi. Auk þess er rétt að geta þess og halda til haga að í lögunum er að finna ákvæði sem segir að fyrir lok árs árið 2028 skuli ráðherra flytja Alþingi skýrslu þriggja óháðra sérfræðinga á sviði hagfræði og samkeppnisrekstrar um reynsluna af framkvæmd undanþágureglu 71. gr. A og meta áhrif hennar m.a. með hliðsjón af markmiðsákvæðum laganna. Meta skal sérstaklega hver ávinningur bænda og neytenda hefur verið. Það verður fróðlegt að lesa þessa skýrslu eftir fjögur ár.

Varðandi samrunaeftirlit

Þá er það sérstaklega gott að Páll Gunnar opnaði á umfjöllunina um samrunaeftirlit í grein sinni, það veitir tækifæri til þess að fjalla um það. Staðreyndin er sú að ferlið sem fer í gang við fyrirhugaðan samruna er mjög dýrt og langt, auk þess sem það er alls óvíst hvort það skili einhverjum árangri. Því er um töluverða áhættu fyrir fyrirtæki að fara þessa leið. Málsmeðferðin þegar Norðlenska, Kjarnafæði og SAH afurðir óskuðu eftir að sameinast tók mjög langan tíma, kallaði á mikla lögfræðiaðstoð og vinnu starfsmanna. Á þessum tíma var sá sem hér skrifar búinn að vera stjórnarmaður í Búsæld sem er hlutafélag bænda sem fer með eignarhlut bænda í Norðlenska og í varastjórn Norðlenska og þekki þar af leiðandi mjög vel til hvað gekk á í þessum samruna. Þeir snúningar sem Samkeppniseftirlitið tók í tengslum við þennan samruna kostuðu fyrirtækið og bændur ríflega 600 milljónir króna og því alls ekki hægt að tala um það sem einfalda og léttvæga leið til þess að feta. Þá er rétt að geta þess að umrædd viðhorfskönnun sem Páll Gunnar vísar í greininni var þannig úr garði gerð að það var engan veginn hægt að svara henni á þann hátt en að hún kæmi illa út fyrir bændur. En ekki hvað samruninn gæti þýtt fyrir bændur. Þannig er nær undantekningarlaust háttað með allar skoðanakannanir sem Samkeppniseftirlitið setur fyrir bændur, yfirleitt er niðurstaðan fyrir fram sögð.

Varðandi 15. gr. samkeppnislaga

Gagnrýnt er í greininni að ekki sé valið að nýta heimild í 15. gr. samkeppnislaga sem heimilar samstarf keppinauta ef sýnt er fram á að samstarfið stuðli að bættri framleiðslu eða dreifingu á vöru eða þjónustu og veiti viðskiptavinum sanngjarna hlutdeild í ávinningnum.  Því vil ég svara, það er eitt fyrirtæki sem hefur reynt þessa leið, Markaðsráð kindakjöts, og talið að þessi leið sé ófær því hún byggir á sjálfsmati þegar menn fara saman. Ef fyrirtæki ná ekki markmiðum sínum þá hafa þau brotið samkeppnislög og eiga yfir höfð sér mjög háar sektir, því velur því enginn að fara þessa leið. Rangt mat á skilyrðum 15. gr. samkeppnislaga kann að leiða til þess að fyrirtæki og samtök fyrirtækja teljast hafa brotið gegn 10. gr. og 12. gr. samkeppnislaga og eftir atvikum 53. gr. EES-samningsins. Brotið kann því að valda fyrirtækjum eða samtökum þeirra stjórnvaldssektum og baka starfsmönnum eða stjórnarmönnum fyrirtækjanna eða samtaka fyrirtækja refsiábyrgð skv. 41. gr. a laganna. Þá leiðir það af 33. gr. samkeppnislaga að ef skilyrðum 15. gr. er ekki fullnægt er samningurinn ógildur. Þá kann rangt mat á skilyrðum 15. gr. samkeppnislaga að leiða til þess að viðkomandi aðilar verði dæmdir til greiðslu skaðabóta ef brot þeirra á 10. eða 12. gr. samkeppnislaga hefur valdið tjóni.

Þá taldi meirihluti atvinnuveganefndar að ákvæði 15. gr. samkeppnislaga veiti ekki nægjanlegt svigrúm til samstarfs, m.a. þar sem ekki er heimilt að taka tillit til hagsmuna framleiðenda. Þess utan er tilgangur búvörulaga m.a. að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu og vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur. Þá er tilgangur laganna að kjör þeirra sem landbúnað stunda verði í sem nánustu samræmi við kjör annarra stétta og að stuðla að jöfnuði milli framleiðenda í hverri búgrein hvað varðar afurðaverð og markað. Þá skal nefnt að innan regluverks ESB, einstakra aðildarríkja og Noregs hefur verið talið nauðsynlegt og æskilegt að lögfesta sérstakar undanþágur varðandi landbúnað til viðbótar við sambærileg ákvæði 15. gr. íslensku samkeppnislaganna. Með öðrum orðum þá  eru til staðar almennar undanþágur sambærilegar þeim sem eru í 15. gr. og síðan sértækar undanþágur fyrir landbúnað. Er það talið nauðsynlegt vegna sérstaks eðlis landbúnaðarstarfsemi og hafa þær undanþágur ákveðin forgangsáhrif gagnvart samkeppnislögum

Það eru skilyrði

Enn og aftur, í ljósi upplýstrar umræðu er rétt að leiðrétta rangfærslur um hvað afurðastöðvarnar mega og mega ekki gera.  Því er rétt að fara hér betur yfir 71. gr. og skilyrði afurðastöðva til þess að nýta heimildina. Í lagagreininni segir „Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er framleiðendafélögum skv. 5. gr. heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli afurðastöðva að því er varðar framleiðslu einstakra kjötafurða og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Framleiðendafélög sem nýta sér heimild 1. mgr. skulu:“ Þá eru talin upp skilyrði í fjórum stafliðum sem ástæða er til þess að fjalla um betur og það ekki í fyrsta skiptið.  

Fyrst ber að nefna staflið a. sem segir að afurðastöðvum sem hyggjast nýta sér heimildina sé skylt að safna afurðum frá framleiðendum kjötvöru á sömu viðskiptakjörum. Þetta skilyrði var sett inn til að tryggja að allir framleiðendur séu jafnsettir hvað varðar möguleika á að koma búfé til slátrunar óháð staðsetningu og á sömu viðskiptakjörum. Með öðrum orðum, bændur geta valið hvar gripum er slátrað, öfugt við það sem Páll Gunnar heldur fram. Vissulega mun framtíðin ein leiða í ljós hvar slátrað verður í framtíðinni,  en það er nokkuð víst að lítið land eins og Ísland þarf ekki á mörgum sláturhúsum að halda.

Þá að öðru skilyrði staflið b. þar sem segir að framleiðendafélögum sé skylt að selja öðrum vinnsluaðilum afurðir til frekari vinnslu á sömu viðskiptakjörum og vinnsluaðilum sem lúta þeirra stjórn. Með þessu skilyrði er stefnt að því að stuðla að samkeppni og fyrirbyggja að aðrir vinnsluaðilar þurfi að greiða hærra verð fyrir sömu vöru og aðilar sem lúta stjórn framleiðendafélaga.

Þriðja skilyrðið stafliður c. kveður á um að ekki sé heimilt að setja skorður við því að framleiðendur færi viðskipti sín til annars aðila. Er þessu skilyrði ætlað að efla og tryggja samningsstöðu bænda og stuðla að því að samkeppni ríki áfram á markaði. Enda er ekki ljóst að allir sláturleyfishafar taki þátt í því samstarfi heimilað var með þessum breytingum.

Að lokum í staflið d. er framleiðendum tryggður réttur til að eiga einungis viðskipti við framleiðendafélag um afmarkaða þætti, svo sem slátrun. Með þessu skilyrði er stuðlað að því að tryggja samningsstöðu bænda og fyrirbyggja hindranir fyrir minni keppinauta í slátrun og vinnslu sem lögin gætu ella skapað. Með þessum hætti er þeim auðveldað að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir ef þeir kjósa að gera það.

Þessi breytingar á búvörulögum ganga aðeins út á það að heimila samstarf um þessa afmörkuðu þætti, allar fabúleringar Páls Gunnars um að undanþágurnar veiki bann við samráði við kaup á aðföngum svo sem áburði, eða samráðs við kaup á tollkvóta eiga ekki við rök að styðjast. Frumvarpið gengur ekki út á það að heimila þessa þætti og það sætir furðu að maður sem starfar sem forstjóri Samkeppniseftirlitsins skuli halda slíkum falsfréttum á lofti. Um efni frumvarpsins og breytingartillögu meirihluta atvinnuveganefndar er fjallað um í nefndarálit sem og í umræðum á Alþingi, sem líta ber á sem lögskýringargögn við túlkun þessara laga. Ekkert er þar fjallað um heimildir varðandi þá þætti sem Páll Gunnar telur reyna muni á í framtíðinni.

Um varnir og vilja bænda

Þá í grein sinni hefur forstjóri Samkeppniseftirlitsins miklar áhyggjur að varnir bænda gagnvart þeim undanþágum sem nú hafa verið veittar  séu litlar. Til að svara því vill undirritaður benda á að afurðastöðvarnar sem í hlut eiga eru ekki í meirihlutaeigu bænda, að undanskildum afurðastöðvum í svína- og kjúklingakjöti. Bændur geta því ekki veitt fyrirtækjunum eigendaaðhald með fullum þunga – og hvernig eiga menn að veita fyrirtæki eigendaaðhald, fyrirtæki verður að geta rekið sig burt frá því hverjir sitja í stjórn, markmiðið með þessum lögum er að veita möguleika á að hagræða svo hægt sé hækka verð til frumframleiðenda og halda verði samkeppnishæfu við innflutning.

Þá segir í greininni að hagsmunir starfandi kjötafurðastöðva beinast að því að þrengja svigrúm bænda til að stjórna afurðum sýnum sjálfir fremur en rýmka, s.s. með því að hækka verð á heimtöku og herða heilbrigðiskröfur. Hvaða rangfærslur er þetta! Þetta er þvert á móti skrifað inn í frumvarpið og vil ég benda Páli Gunnari að renna enn einu sinni yfir skilyrðin. Auk þess segir í greininni að eina verndin sem hin nýja löggjöf veiti bændum sé að það sé óheimilt að neita bændum um að taka við gripum til slátrunar. Þetta er rangt, þeim ber skilda til að ná í alla gripi, þeim ber skilda til þess að slátra þeim sem og að þjónusta. Þá er ekki heimilt að okra á heimtöku.  Þá veltir greinaskrifari fyrir sér hver vilji bænda sé, það rétta er að bændur höfðu ekkert um stöðuna að segja í gamla kerfinu og hafa heldur ekki núna þar sem þeim er óheimilt að semja um verð. En við getum alveg farið í það ef það er vilji Samkeppniseftirlitinu að heimila undanþágu frá samkeppnislögum þess lútandi.

Að lokum, það er svo sannarlega nýtt upphaf hjá bændum með þessum lögum, þetta er upphafið að því að breyta starfsskilyrðum bænda til góðs og þetta verður til þess að afurðastöðvar skila hagræðingunni til bænda, hvort sem það er skrifað inn í lög eða ekki. Ég fagna áhuga Páll Gunnars á málefnum bænda, en það færi betur að hann myndi ganga í takt við vilja þeirra og skilja þeirra skoðanir.

Þórarinn Ingi Pétursson, formaður atvinnuveganefndar og þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 30. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Nýr langtímasamningur við sjúkraþjálfara

Deila grein

29/05/2024

Nýr langtímasamningur við sjúkraþjálfara

Nýr samningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Félags sjúkraþjálfara til fimm ára hefur verið undirritaður og staðfestur af Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra. Þá hefur samningurinn verið samþykktur af Félagi sjúkraþjálfara sem lýsir yfir ánægju með samninginn. Samningurinn er svo sannarlega gleðileg tíðindi eftir fjögurra ára samningsleysi sem hefur bitnað hvað verst á þeim sem þurfa á þjónustu sjúkraþjálfara að halda.

Aukagjöld heyra sögunni til

Samningurinn tryggir að frá og með 1. júní næstkomandi falla niður aukagjöld sem lögð hafa verið á notendur þjónustunnar og tryggir hann þannig aðgengi þeirra sem þurfa hvað mest á henni að halda. Það má því segja að samningurinn stuðli að auknum jöfnuði. Fyrir mér er það lykilatriði. Á þeim tíma sem enginn samningur hefur verið í gildi við sjúkraþjálfara hafa Sjúkratryggingar tekið þátt í kostnaði við þjónustu þeirra samkvæmt sérstakri gjaldskrá. Sjúkraþjálfarar hafa á þeim tíma innheimt aukagjald við hverja komu sem hefur gjarnan numið á bilinu 1.500 – 3.000 kr. Líkt og fyrr segir munu sjúkraþjálfarar hætta að innheimta þessi aukagjöld frá og með 1. júní.

Mikilvægt hlutverk

Sjúkraþjálfarar gegna mjög mikilvægu hlutverki á mjög víðtæku sviði endurhæfingar og viðhalda virkni einstaklinga með margvíslega sjúkdóma og afar mikilvægt að tryggja aðgengi að þjónustu þeirra óháð efnahag. Samkvæmt upplýsingum Sjúkratrygginga sóttu rúmlega 62.000 einstaklingar þjónustu sjúkraþjálfara á liðnu ári. Heimsóknirnar voru mun fleiri, eða um 928.000. Árið 2022 leituðu 55.752 til sjúkraþjálfara sem er aukning um 11,3% á milli ára. Það sem af er ári 2024 hafa nú 41.964 farið í sjúkraþjálfun sem er 3,9% aukning frá því á sama tíma í fyrra. Þá kemur fram að bætt aðgengi að sjúkraþjálfun með aukinni greiðsluþátttöku ríkisins árið 2017 hafi dregið úr nýgengi á örorku vegna stoðkerfissjúkdóma. Það má því með sanni segja að gott aðgengi að þjónustu sjúkraþjálfara sé hagkvæm ráðstöfun opinberra fjármuna.

Aukið þróunar- og gæðastarf

Samningurinn kveður líka á um margvíslegt þróunar- og gæðastarf þjónustunnar í þágu notenda, en það felst meðal annars í þarfa- og kostnaðargreiningu og mótun aðferða við forgangsröðun þjónustu. Auk þess sem efla á möguleika til fjölbreyttari þjónustuleiða til að mæta ólíkum þörfum skjólstæðinga og auka gæði. Hér er um að ræða afar mikilvægt skref til framtíðar og viðurkenning á mikilvægi sjúkraþjálfunar sem þó lengi hefur verið vitað um. Eitt er víst að þessi samningur kemur til með að hafa jákvæð áhrif á stöðu fjölmargra Íslendinga, hvort sem það er á fjárhag eða heilsu.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á dv.is 29. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ferðamálastefna til fram­tíðar

Deila grein

28/05/2024

Ferðamálastefna til fram­tíðar

Nú er sumarið komið og farfuglarnir sem koma með vélknúnum farartækjum til landsins farnir að fara á stjá. Það má með sanni segja að ferðaþjónustan sé orðin lykilatvinnugrein hér á landi og þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustu hefur aukist ár frá ári. Fjöldi fólks starfar í greininni auk þess sem hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu fer sífellt stækkandi. Aukning í komu ferðamanna til landsins er góð en kallar á sama tíma eftir á skýrri framtíðarsýn í málefnum ferðaþjónustunnar.

Sameiginleg stefnumótun

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra lagði af því tilefni fyrr í þessum mánuði fram ferðamálastefnu til ársins 2030. Meginmarkmið ferðamálastefnunnar og aðgerðaáætlun henni tengdri er að tryggja framtíðarsýn í greininni og styðja við sjálfbærni í ferðaþjónustu á öllum sviðum. Þessi stefna er unnin á breiðum grunni og í virku samráði við hagaðila. Skipaðir voru sjö hópar sem falið var að vinna tillögur að aðgerðum inn í aðgerðaáætlun ferðamálastefnu. Afraksturinn er stefnumótun í greininni sem kemur jafnt frá stjórnvöldum og atvinnugreininni sem endurspeglar sameiginlegar áherslur og sýn til framtíðar. Fullyrða má að aldrei fyrr hafi jafn ítarlegt samráð átt sér stað við stefnumótun á sviði ferðaþjónustu hér á landi, segja má að það sé forsenda fyrir því að vel takist til með þessa lykilatvinnugrein okkar.

Markmið og stefna

Í stefnunni má finna skýra framtíðarsýn, markmið og áherslur auk aðgerðaráætlunar í 43 skilgreindum aðgerðum til þess að fylgja eftir stefnunni. Lögð er áhersla á samþættingu milli fjögurra lykilstoða, efnahags, samfélags, umhverfis og gesta. Það er, lögð er áhersla á aukna framleiðni í ferðaþjónustu, verðmætasköpun og samkeppnishæfni um land allt ásamt því að tyggja framþróun sem byggir á tækni, gögnum, nýsköpun, vöruþróun, mannauði og menntun. Þá er lögð áhersla á jákvæð áhrif ferðaþjónustu á nærsamfélög ásamt því að tryggja aukin lífsgæði um land allt. Eitt af markmiðunum stefnunnar að efla sjálfbær samfélög, uppbyggingu áfangastaða og dreifingu ferðamanna um landið allt árið um kring. Í samræmi við kröfur nútímans er að sjálfsögðu lögð rík áhersla á umhverfisvernd, minna kolefnisspor og orkuskipti. Sérstök áhersla er lögð á að fagmennska, gæði og öryggi einkenni íslenska ferðaþjónustu og upplifun gesta sé í samræmi við væntingar og náttúru.

Opið gagnarými fyrir ferðaþjónustu

Eitt af þeim atriðum sem mér líst afar vel á í stefnunni er opið gagnarými fyrir ferðaþjónustuna. Markmiðið með gagnarýminu er að þjóna hagaðilum innan ferðaþjónustunnar og afleiddum greinum með tryggu aðgengi að áreiðanlegum, opnum, samþættanlegum og stafrænum gögnum. Gagnarými sem þetta styður við gagnadrifna ákvörðunartöku, virka notkun á Jafnvægisás ferðaþjónustunnar, rannsóknir, greiningar og nýsköpun. Það mun gera öll opinber gögn sem tengjast ferðaþjónustu aðgengileg og taka á móti gögnum sem nýst geta atvinnugreininni, þar með talið frá einkaaðilum. Um er að ræða verkfæri sem kemur til með að nýtast til margs góðs.

Álagsstýring á áfangastöðum

Mikill árangur hefur náðst í að bæta aðstöðu á ferðamannastöðum á síðustu árum, bæði að frumkvæði stjórnvalda og einkaaðila. En betur má ef duga skal ef bregðast á við þeim áskorunum sem hröð fjölgun ferðamanna hefur haft í för með sér. Í stefnunni er því lagt til að útfæra fyrirkomulag álagsstýringar til þess að sporna við of miklu álagi og bæta flæði umferðar ferðamanna þar sem þörf er á. Markmiðið með álagsstýringunni er að stýra og jafna álag á áfangastöðum ferðamanna, svo vernda megi viðkvæma náttúru, menningarminjar og innviði og leitast við að koma í veg fyrir neikvæða upplifun gesta og heimamanna. En þannig má stuðlað að sjálfbærri þróun áfangastaða.

Samstarf um móttöku skemmtiferðaskipa og innviðagjald

Komur skemmtiferðaskipa til landsins hafa aukist verulega á undanförnum árum og þau hafa getu til að koma víðar við en vegakerfi landsins býður upp á. Ágangur ferðamanna um svæði getur verið vandamál. Hér vil ég sérstaklega nefna landtöku skemmtiferðaskipa inn á friðlýst svæði. Það er því sérstaklega ánægjulegt að í stefnunni sé fjallað um samstarf um móttöku skemmtiferðaskipa og nýtingu innviða. En stofna á samstarfshópa sveitarfélaga og ferðaþjónustu í hverjum landshluta sem vinni eiga að greiningu og móti stefnu landshlutans um umgjörð og komur skemmtiferðaskipa og landtöku utan hafna. Er hlutverk þeirra meðal annars að skoða þörf á álagsstýringu og uppbyggingu innviða.

Þá á að hefja sérstaka gjaldtöku á komur erlendra skemmtiferðaskipa og eiga þær tekjur að renna til uppbyggingar innviða á sviði ferðaþjónustu. Erlend skemmtiferðaskip hafa hingað til almennt greitt takmarkaða skatta til íslenska ríkisins, helst hefur verið um að ræða þjónustugjöld á borð við hafnargjöld til hafnarsjóðs, vitagjald og farþegagjald fyrir hvern farþega og nú ný nýlega gistináttagjald. Með þessu hafa skemmtiferðaskip haft ákveðið samkeppnisforskot á innlenda ferðaþjónustu en farþegar skipanna njóta með líkum hætti íslenskrar náttúru og innviða og aðrir ferðamenn sem eru hér á landi. Með þessum hætti er verið að jafna samkeppnisstöðu innlendra og erlendra fyrirtækja í ferðaþjónustu ásamt því að efla verðmætasköpun sem fjármagnar og stuðlar að aukinni uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu.

Tímamót á sviði ferðaþjónustu

Stefnan inniheldur líkt og fyrr segir marga aðra þætti og aðgerðaráætlanir. Ég hvet áhugasama til þess að kynna sér hana frekar enda um að ræða stórt og áhugaverða tillögu og ekki hægt í einni grein að fjalla um alla þætti hennar. En segja má að með framlagningu þessarar heildstæðu stefnu sé um að ræða ákveðin tímamót á sviði ferðaþjónustu á Íslandi. Fjöldinn allur af hagaðilum hefur sett mark sitt á þessa stefnu og mikilvægast er að hún er unnin sátt og samráði. Ég bind vonir við að okkur beri gæfa til að klára að afgreiða hana á þessu þingi, enda jafn mikilvæg fyrir ferðaþjónustuna, land og þjóð.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Vel gert!

Deila grein

26/05/2024

Vel gert!

Nú í liðinni viku var undirritaður nýr samningur til fimm ára milli Sjúkratrygginga Íslands og Félags sjúkraþjálfara. Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar hafa starfað án samnings frá því í janúar 2020 og hefur samningsleysið á þeim tíma bitnað á notendum þjónustunnar. Hér er um að ræða mikilvæg tímamót og ber að þakka samningsaðilum fyrir góða vinnu og Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra fyrir tryggja enn einn samninginn sem hefur það að markmiði að bæta hag landsmanna og tryggja jöfnuð.

Nýr samningur

Það er ljóst að samningurinn kemur til með að bæta aðgengi og hag þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda. Öll aukagjöld sem lögð hafa verið á þjónustuþega munu falla niður frá og með 1. júní nk. en nýr samningur mun taka að fullu gildi þann 1. október 2024 með fyrirvara um samþykki sjúkraþjálfara. Langtímasamningur sem þessi veitir sjúkraþjálfurum langþráðan stöðugleika til að styrkja og skipuleggja sín störf á komandi árum. Í samningnum er lögð áhersla á gæðastarf og upplýsingaöflun til að styðja við forgangsröðun og mótun þjónustunnar. Einnig er horft til þess að efla möguleika til fjölbreyttari þjónustuleiða til að mæta ólíkum þörfum skjólstæðinga og auka gæði. Áhersla er lögð á þróunarverkefni tengd samningnum er geta m.a. snúið að þarfagreiningum sem og nýsköpunarverkefnum.

Það má með sanni segja að þessi nýi samningur marki þýðingarmikið skref í átt að betri og aðgengilegri heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn. Sjúkraþjálfarar sinna mikilvægri þjónustu og þetta vita þeir sem hafa þurft að leita til þeirra. Þeir spila lykilrullu við að koma í veg fyrir eða draga úr afleiðingum áverka, álagseinkenna, sjúkdóma og lífsstíls sem raskað geta lífi einstaklingsins og eru mikilvægur þáttur við að viðhalda lýðheilsu þjóðarinnar.

Jákvæð áhrif

Samkvæmt upplýsingum Sjúkratrygginga sóttu rúmlega 62.000 einstaklingar þjónustu sjúkraþjálfara á liðnu ári. Heimsóknirnar voru mun fleiri, eða um 928.000. Fyrirséð er að þörfin kemur aðeins til með að aukast á komandi árum með breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og auknum kröfum um lífsgæði og virkni. Samningurinn er í samræmi við stefnu stjórnvalda um að fjárfesta í fólki. Þjónusta sjúkraþjálfara getur verið lykilþáttur í því að auðvelda eldra fólki að búa sem lengst heima ásamt því að koma fólki aftur í virkni eða viðhalda henni.

Það eru sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, efnahagslegir og félagslegir, að lögð sé aukin áhersla á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál. Heilbrigði snýst ekki aðeins um öfluga heilbrigðisþjónustu heldur það að gera fólki betur kleift að huga að eigin heilsu með því að nýta alla þá þekkingu og öll þau úrræði sem eru til staðar í samfélaginu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Samningar við sjúkraþjálfara í höfn

Deila grein

24/05/2024

Samningar við sjúkraþjálfara í höfn

Á meðan blekið er enn að þorna á stór­um samn­ing­um fyr­ir heil­brigðis­kerfið okk­ar þá mund­ar heil­brigðisráðherra, Will­um Þór Þórs­son, penn­ann á ný. Það fór ekki fram­hjá mörg­um þegar samið var við sér­greina­lækna og er fólk farið að finna fyr­ir já­kvæðum áhrif­um þess samn­ings. En nú hef­ur einnig verið samið við sjúkraþjálf­ara eft­ir fjög­urra ára samn­ings­leysi. Um er að ræða mik­il­væga samn­inga og tals­verða kjara­bót fyr­ir fólk sem þarf að sækja þjón­ustu sjúkraþjálf­ara.

Not­end­ur í fyrsta sæti

Með nýj­um lang­tíma­samn­ing­um við sjúkraþjálf­ara falla niður auka­gjöld sem not­end­ur þjón­ust­unn­ar hafa greitt á tím­um samn­ings­leys­is. Samn­ing­ur­inn stuðlar að bættu aðgengi að þjón­ust­unni og að aukn­um jöfnuði. Það á eng­inn að neyðast til þess að neita sér um þjón­ustu af þessu tagi sök­um kostnaðar en mark­mið samn­ings­ins er einnig að koma í veg fyr­ir slík til­vik.

Veru­lega bætt aðgengi að þjón­ustu sjúkraþjálf­ara hef­ur já­kvæð áhrif bæði á not­end­ur henn­ar og sam­fé­lagið allt til framtíðar. Meðal ann­ars í ljósi þess að starf sjúkraþjálf­ara felst til að mynda í fyr­ir­byggj­andi meðferð eins og að draga úr af­leiðing­um áverka, álags­ein­kenna, sjúk­dóma og lífs­stíls sem með trufl­un á hreyf­ingu geta raskað lífi ein­stak­lings­ins.

Ekki vanþörf á

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Sjúkra­trygg­ing­um Íslands hafa næst­um 42.000 manns sótt þjón­ustu sjúkraþjálf­ara á þessu ári. Í fyrra sóttu rúm­lega 62.000 ein­stak­ling­ar þjón­ust­una og heim­sókn­irn­ar voru um 928.000 tals­ins. Það eru kring­um 14,9 heim­sókn­ir á hvern ein­stak­ling. Það gef­ur auga­leið að tals­verður fjöldi lands­manna þarfn­ast þjón­ustu af þessu tagi til að fá bót meina sinna. Það verður al­mennt að fara oft til sjúkraþjálf­ara og vinna í skref­um. Allt þetta leiðir til þess að fram­an­greind auka­gjöld, sem þess­ir samn­ing­ar fella niður, geta reynst mjög há að öllu sam­an­lögðu.

Framþróun sjúkraþjálf­un­ar

Ásamt þessu er kveðið á í samn­ing­um þess­um að unnið verði að út­færslu ým­issa úr­bóta- og þró­un­ar­verk­efna ásamt því að lögð er áhersla á efl­ingu gæðastarfs með því að veita hvata til þess að sjúkraþjálf­ar­ar vinni inn­an svo­kallaðra starfs­heilda sem einnig munu ann­ast skipu­lagn­ingu og eft­ir­lit með þjón­ust­unni.

Allt þetta trygg­ir frek­ari gæði þjón­ust­unn­ar sem sjúkraþjálf­ar­ar veita, not­end­um og starfs­stétt­inni sjálfri til hags­bóta.

Fjöldi mik­il­vægra samn­inga

Það hef­ur verið nóg að gera inn­an veggja heil­brigðisráðuneyt­is­ins og Sjúkra­trygg­inga Íslands. Þar hef­ur verið unn­in þrot­laus vinna á þessu kjör­tíma­bili við að klára viðræður við mik­il­væg­ar starfstétt­ir í heil­brigðis­geir­an­um, ná samn­ing­um og binda enda á samn­ings­leys­is­tíma­bil. Samn­ing­ar við sér­fræðilækna, sjúkra­liða og samn­ing­ur um tann­læknaþjón­ustu eru góð dæmi um vinnu sem vert er að fagna. Þess­ir samn­ing­ar og þau verk­efni sem tengj­ast þeim eru not­end­um til veru­legra hags­bóta þegar horft er á stóru mynd­ina. Þeir eru til þess falln­ir að auka aðgengi fólks að nauðsyn­legri þjón­ustu og stuðla að jafn­vægi í sam­fé­lag­inu.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Lík­hús

Deila grein

23/05/2024

Lík­hús

Við á Íslandi eigum við ákveðinn húsnæðisvanda að etja og á það ekki aðeins við um íbúðarhúsnæði. Líkhús og líkgeymslur eru hús sem flestir þurfa afnot af þegar yfir lýkur en það virðist hvorki vera mikill áhugi á að eiga slík hús né á að reka þau.

Á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri sjá kirkjugarðarnir alfarið um þetta verkefni. Á öðrum stöðum hefur samfélagið leyst verkefnið með ólíkum hætti. Oftar en ekki hafa líknarfélög tekið þátt í stofnkostnaði og eru líkgeymslur þar ýmis í húsnæði á vegum kirkju, ríkis eða sveitarfélaga, oft í tengslum við heilbrigðisstofnanir. Í einhverjum tilvikum reka einkaaðilar líkhús og þá oft og tíðum líkhús sem einhver af þessum aðilum hefur komið á fót. Í sumum tilvikum tengjast kapellur eða sambærileg herbergi líkgeymslunum.

Þróun síðustu ára

Á síðustu árum hefur líkgeymslum fækkað, með bættum samgöngum, sameiningu sveitarfélaga og sókna. Samfara því hefur ágreiningur vegna reksturs þeirra og aðgengis að þeim víða komið upp á yfirborðið. Sennilega hefur líka dregið úr því að sjálfboðaliðar sinni verkefnum af þessu tagi.

Óljóst er hver á að greiða kostnaðinn við rekstur líkhúsa. Kostnaðurinn við rekstur hefur einnig aukist ár frá ári, annars vegar vegna fólksfjölgunar en hins vegar vegna tilhneigingar til að lengja tímann sem líður frá andláti að útför. Þá hefur einnig komið upp ágreiningur þegar kemur að viðhaldi eða endurnýjun búnaðar tengdum líkhúsum.

Mér finnst blasa við að skýra þurfi ábyrgð á því að halda úti og reka líkgeymslur. Eins er mikilvægt að skýra réttindi til aðgengis að líkgeymslum. Í minni byggðarlögum sýnist mér blasa við að eðlilegast væri að tengja staðsetninguna heilbrigðisstofnunum eða hjúkrunarheimilum og því að þar þurfa að vera til kælar til að geyma lík til skemmri tíma og vandséð að það sé skynsamlegt að reka fleiri en einn líkkæli í sama byggðarlagi. Á heilbrigðisstofnun er jafnframt starfsfólk til staðar sem hefur sérþekkingu í meðferð líka.

Ljóst er að þörf er á misjöfnum útfærslum á milli byggðalaga, enda er þau jafn ólík og þau eru mörg og engin ein lausn sem gengur upp fyrir alla.

Ágreiningur um rekstur líkhúsa

Svo virðist sem lengi hafi verið uppi ágreiningur milli Kirkjugarðasambands Íslands og dómsmálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis um það hvort rekstur líkhúsa sé meðtalinn í framlagi ríkisins eða ekki. Kirkjugarðsstjórn er heimilt að láta reisa kapellu og líkhús en ber ekki skylda til þess. Engin lög ná yfir það hvernig skuli fara með hinn látna frá andláti til brennslu og/eða greftrunar. Lög kveða hvorki á um hvers konar húsnæði eða geymslu skuli notast við fyrir líkhús, né hver skuli bera kostnað af líkhúsi, rekstri þess og stofnkostnaði. Nú eru engar kröfur gerðar til þess húsnæðis sem notað er sem líkhús skv. gildandi lögum. Í verklagsreglum sóttvarnarlæknis frá árinu 2018, um meðferð og flutning á líkum, má finna leiðbeiningar m.a. um hreinlæti í líkgeymslum. Í reglunum er skilgreint hvað þurfi að vera til staðar í slíku rými.

Ég lagði fram fyrirspurn um málið í janúar. Fyrir áhugasama má finna umræðuna við dómsmálaráðherra hér fyrir neðan, en umræðan fór fram þann 18. mars: https://www.althingi.is/altext/upptokur/lidur/?lidur=lid20240318T191201

Er ekki tímabært að bundið verði í lög að ríkissjóður kosti tímabilið frá andláti til greftrunar miðað við ákveðna grunnþjónustu? Lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu eru frá árinu 1993 og þau þarfnast sannarlega endurbóta, sérstaklega hvað varðar að tryggja líkhúsum landsins fullnægjandi rekstrarheimildir.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. maí 2024.