Categories
Greinar

Lokað á lausnir í leik­skóla­málum

Deila grein

04/03/2025

Lokað á lausnir í leik­skóla­málum

Það er afar leitt að sjá að „meirihlutinn“ sem vill ekki láta kalla sig meirihluta heldur „samstarfsflokka“ hafi ákveðið að láta kreddustjórnmál vinstri vængsins ráða för í leikskólamálum. Það kemur kannski ekki á óvart en nýr meirihluti hefur ákveðið að hafna hugmyndum um vinnustaðaleikskóla sem Framsókn reyndi að fá samþykktar í síðasta meirihluta. Þessir flokkar, Samfylking, Píratar, VG, Flokkur fólksins og Sósíalistar skulda því barnafjölskyldum skýr svör um hversvegna þeir vilja ekki skjóta fleiri stoðum undir leikskólakerfið.

Það eina sem sést í nýjum samstarfssáttmála um leikskólamál er að skipa „spretthóp“. En verkefni spretthópsins er einfaldlega að taka við nær fullbúnum tillögum frá hópi sem ég hef leitt frá því í október. Þar unnum við Árelía Eydís Guðmundsdóttir borgarfulltrúi Framsóknar og Skúli Helgason borgarfulltrúi Samfylkingar þétt saman.

Ég boðaði til mín nær vikulega þá sem máli skiptu innan borgarkerfisins og úr varð aðgerðaáætlun sem hraða mun uppbyggingu plássa um alla borg auk ný forgangsröðun viðhaldsframkvæmda sem miðar að því að koma eldri skólum aftur í rekstur.

Hryggjarstykkið í þeim tillögum var að kaupa einingahús undir leikskóladeildir, bjóða út strax og setja niður á lóðum við leikskóla í þeim hverfum þar sem eftirspurnin er mest eftir plássum. Þessi áætlun er þegar kostnaðarmetin, fjármögnuð og tímasett og unnin undir minni forystu. Þess vegna er þetta fullkomlega marklaus spretthópur meirihlutans. Tillögurnar eru tilbúnar.

Það sem barnafjölskyldur þurfa að vita um áform meirihlutans er að hann er búinn að loka á hugmyndir um leikskóla á vinnustöðum eins og á Landspítalanum eða Alvotech en viðræður við þessa vinnustaði hafa gengið vel og eru langt komnar. Fleiri vinnustaðir hefðu án efa komið í kjölfarið. Þar hefðu börn starfsmanna og börn úr hverfum borgarinnar fengið pláss sem nú verða ekki til.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík og fyrrverandi borgarstjóri

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. mars 2025.

Categories
Greinar

Styðjum barna­fjöl­skyldur

Deila grein

04/03/2025

Styðjum barna­fjöl­skyldur

Við í Framsókn leggjum fram tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur um heimgreiðslur til foreldra sem bíða eftir dagvistun fyrir börn sín. Gert er ráð fyrir að greiðslurnar séu skilyrtar við virka umsókn um dagvistun og falli niður um leið og dagvistunarplássi hefur verið úthlutað. Heimgreiðslur eru mikilvægur stuðningur fyrir foreldra sem bíða eftir dagvistunarplássi.

Ógn við jafnrétti?

„Ég svelt þá í nafni kvenréttinda“ eru orð foreldris sem mætti á borgaraþing um málefni 0-6 ára barna í Reykjavík vegna gagnrýni á heimgreiðslur. Þessi skoðun endurspeglar upplifun margra heimila sem standa frammi fyrir erfiðum aðstæðum, að loknu fæðingarorlofi, vegna skorts á dagvistun. Vandinn hefur vaxið í þrálátri verðbólgu, jafnvel þótt foreldrar sýni fyrirhyggju með því að dreifa fæðingarorlofinu eða spara fyrir tekjutapinu sem fylgir barneignum. Sér í lagi ef aðeins eitt foreldri getur aflað tekna á meðan beðið er eftir dagvistun.

Sumir telja að heimgreiðslur grafi undan jafnrétti, þar sem konur séu líklegri til að vera heima. Slík gagnrýni byggir þó á þeirri forsendu að fólk hafi val um að senda barn ekki í leikskóla og fái þess í stað greiðslur. Staðreyndin er þó sú að foreldrar eru hvort sem er heima vegna skorts á dagvistunarúrræðum. Greiðslurnar milda því það tekjutap sem myndast á meðan það er beðið eftir dagvistun og með því að skilyrða greiðslurnar við umsókn um dagvistun er dregið úr áhrifum kynjamisréttis.

Spurningin er því: hvort betra er að foreldrar séu heima án tekna eða fái greiðslur sem að hjálpa til við að halda heimilisbókhaldinu réttu megin við núllið?

Mikilvægi leikskólans

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi leikskólans fyrir menntun og þroska barna og fyrir tekjuöflun og þátttöku foreldra á vinnumarkaði. Leikskólakerfið hefur einnig stuðlað að jafnari atvinnuþátttöku foreldra. Þeir flokkar sem nú mynda meirihluta lofuðu börnum 12 mánaða og eldri dagvistunarplássi á meðan við í Framsókn töldum raunhæfara í ljósi stöðunnar að miða við 18 mánaða aldur. Jafnvel þótt það sé eitt að forgangsverkefnum sveitarfélaga að tryggja yngstu íbúunum leikskólavist verður að telja það að óraunhæft að 12 mánaða börn komist í dagvistun í bráð. Því þó við myndum bæta við nægjanlega mörgum byggingum undir starfsemi leikskóla og tryggja ávallt nægilegt fjármagn þá þarf að manna stöður leikskólakennara sem er ekki að finna á hverju strái. Fjölgun einstaklinga í mikilvægri stétt leikskólakennara er verðugt markmið en það mun taka tíma og því þarf að leita annarra leiða og lausna til að mæta foreldrum sem eru í bráðum vanda og bíða eftir dagvistunarplássi. Það er bara ekki hægt að gera ekki neitt.

Þá hefur því verið haldið fram að það séu börnin sem mest þurfi á því að halda að fara í leikskóla sem séu heima vegna heimgreiðslna, t.d. börn innflytjenda sem þurfi að tileinka sér tungumál þess lands sem þau búa í. Þetta á ekki við rök að styðjast ef að heimgreiðslurnar eru skilyrtar við umsókn um dagvistun og falla niður þegar vistun hefst. Ljóst er þó að huga þarf sérstaklega að börnum sem eru ekki í leikskóla, greina hvers vegna svo er og hvort ástæða sé til að mæta því með einhverjum hætti.

Bregðumst við neyðarástandi

Fyrst og fremst snýst þetta um börnin og foreldra þeirra, sem mörg hver eru í verulegum vanda með að brúa bilið og ná endum saman. Við eigum að hlusta á foreldra og taka þeirra óskum og ábendingum alvarlega. Þær eru ekki aukaatriði og stjórnmálin verða hverju sinni að ganga varlega þann veg að ákveða hvað sé fólki fyrir bestu og takmarka möguleika þeirra til að lifa lífi sínu á eigin forsendum. Nú ríkir neyðarástand hjá foreldrum barna sem bíða eftir dagvistun meðal annars vegna innviðaskuldar síðustu kjörtímabila í viðhaldi skólabygginga og skorts á starfsfólki. Það er okkar verkefni að létta róðurinn með því að leggjast á árarnar og brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla og draga úr framfærslukvíða foreldra. Tímabundnar og skilyrtar heimgreiðslur eru ein leið til að takast á við þennan vanda. Við megum ekki gleyma því að börn og foreldrar lifa þennan raunveruleika í dag, á meðan rifist er yfir gömlum kreddum. Við þurfum að hafa hugrekki til að horfa út fyrir kassann og leita leiða til bæta hag foreldra ungra barna þó ekki sé hægt að ná óskastöðunni um dagvistunarpláss strax. Það er hagur okkar allra að á Íslandi sé skapaður jarðvegur sem öll börn geta blómstrað í.

Ég vona að borgarstjórn taki undir tillögu okkar um heimgreiðslur og sýni það í verki að Reykjavík styðji við börn og barnafjölskyldur. Það viljum við í Framsókn svo sannarlega gera

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fagnaðarskref – dropinn holar steininn

Deila grein

04/03/2025

Fagnaðarskref – dropinn holar steininn

Það er ánægjulegt að sjá jákvæðar breytingar eiga sér stað í menntakerfinu okkar. Það er mikilvægt að sjá að þegar mál eru tekin af festu og af einlægum áhuga er hægt að ná fram raunverulegum breytingum. Á síðasta ári fékk ég símtal frá áhyggjufullu foreldri þar sem útlit var fyrir að barnið hans kæmist ekki í inntökupróf í læknisfræði sökum veðurs. Í framhaldi af þessu sendi ég inn fyrirspurn til fyrrverandi háskóla og nýsköpunarráðherra í tengslum við fjölgun próftökustaða til háskólanáms sem tengjast læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði en núverandi fyrirkomulag krefst þess að allir próftakar mæti til Reykjavíkur.

Fyrsta skrefið í fjölgun próftökustaða

Nú ári síðar er verið að bregðast við þeirri áskorun og fyrsta skrefið verður tekið í vor að fjölga próftökustöðum.

Þetta er mikilvægt framfaraskref fyrir nemendur á landsbyggðinni. Það skiptir miklu máli að menntakerfið sé í stakk búið að taka tillit til námsmanna, hvar sem þeir eru staddir á landinu enda er tækni og þekking á slíkum aðstæðum til staðar.

Nemendur leggja í langar og kostnaðarsamar ferðir til Reykjavíkur til að þreyta inntökupróf og það er staðreynd að langar vegalengdir, aukinn ferðakostnaður og ófyrirsjáanleg veðurskilyrði geta skapað verulegar hindranir fyrir landsbyggðarnema sem vilja sækja háskólanám.

Áframhaldandi þróun og metnaður til framtíðar

Það er nauðsynlegt að við höldum áfram á þessari braut og metum árangurinn af þessari breytingu. Fyrstu skrefin eru tekin með því að bjóða upp á próftöku á Akureyri í vor, og það verður fróðlegt að sjá hvernig þessi reynsla nýtist sem vonandi leiðir til þess að próftökustöðum verður fjölgað enn frekar í framtíðinni. Staðir eins og m.a. Ísafjörður, Egilsstaðir og Hornafjörður hafa þegar reynslu af því að veita háskólaþjónustu og sjá um prófaumsýslu í samstarfi við Háskóla Íslands og aðrar háskólastofnanir. Markmiðið hlýtur að vera að byggja upp kerfi sem tryggir að nemendur um allt land hafi sömu möguleika til náms, óháð búsetu þeirra.

Jákvæð þróun í menntamálum

Stefna okkar í Framsókn er alveg skýr hvað þetta varðar, að tryggja öllum sama rétt og tækifæri til menntunar óháð aðstæðum. Þessi jákvæðu skref sýna að þegar tekið er á málum af festu og vilja er hægt að ná raunverulegum árangri. Ég vil þakka rektor Háskóla Íslands og öðrum sem hafa unnið að þessari breytingu fyrir að hlusta og grípa til aðgerða. Það er von mín að þessi þróun haldi áfram og að fleiri framfaraskref verði tekin á næstu árum til að tryggja enn betra aðgengi að háskólanámi fyrir alla landsmenn.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 3. mars 2025.

Categories
Greinar

Er lýðræðið í Suðurnesjabæ í frjálsu falli?

Deila grein

02/03/2025

Er lýðræðið í Suðurnesjabæ í frjálsu falli?

Lýðræði og gagn­sæi eru grunnstoðir lýðveld­is­ins og eiga að vera tryggð í öll­um stjórn­sýslu­ein­ing­um lands­ins, þar á meðal á sveit­ar­stjórn­arstig­inu. Síðustu breyt­ing­ar sem urðu á stjórn­skipu­lagi Suður­nesja­bæj­ar voru þegar nýr meiri­hluti tók við sum­arið 2024 þar sem meiri­hlut­inn tók yfir öll lyk­il­hlut­verk í bæj­aráði. Minni­hlut­inn hef­ur því ekki aðkomu að áhrifa­mikl­um ákvörðunum í sveit­ar­fé­lag­inu og ég verð að viður­kenna að það vek­ur al­var­leg­ar áhyggj­ur um framtíð lýðræðis­ins í sveit­ar­fé­lag­inu.

Bæj­ar­ráð ein­ung­is skipað full­trú­um meiri­hlut­ans – brot á lýðræðis­leg­um venj­um?

Eft­ir meiri­hluta­skipt­in sum­arið 2024, þar sem Sjálf­stæðis­flokk­ur, Sam­fylk­ing og Bæj­arlist­inn tóku við stjórn­artaum­un­um, var tek­in ákvörðun um að bæj­ar­ráð Suður­nesja­bæj­ar yrði ein­göngu skipað full­trú­um meiri­hlut­ans. Minni­hlut­an­um, sem sam­an­stend­ur af tveim­ur bæj­ar­full­trú­um Fram­sókn­ar­flokks­ins og ein­um óháðum bæj­ar­full­trúa sem áður var í Sjálf­stæðis­flokkn­um, var aðeins út­hlutað ein­um áheyrn­ar­full­trúa í bæj­ar­ráði, án at­kvæðis­rétt­ar.

Hlut­verk bæj­ar­ráðs er eitt það mik­il­væg­asta inn­an sveit­ar­stjórn­ar, þar sem það hef­ur eft­ir­lit með fjár­mál­um sveit­ar­fé­lags­ins, sem­ur drög að fjár­hags­áætl­un, legg­ur fram til­lög­ur um viðauka við hana og hef­ur fullnaðar­ákvörðun­ar­vald í mál­um sem ekki varða veru­lega fjár­hags­lega hags­muni sveit­ar­fé­lags­ins. Þetta þýðir að all­ar þess­ar ákv­arðanir eru nú tekn­ar af meiri­hlut­an­um ein­um, án þess að minni­hlut­inn hafi nokk­urt raun­veru­legt aðhald eða aðkomu að mál­um.

Það þekk­ist ekki á byggðu bóli á Íslandi að minni­hlut­inn hafi ekki aðgang að bæj­ar­ráði með at­kvæðis­rétti. Þessi breyt­ing er því eins­dæmi og gref­ur und­an lýðræðis­legu eft­ir­liti með ákv­arðana­töku bæj­ar­ráðs.

Fækk­un bæj­ar­full­trúa: Skref aft­ur á bak í lýðræðis­legri þróun?

Annað um­deilt skref sem meiri­hlut­inn hef­ur tekið er að fækka bæj­ar­full­trú­um í Suður­nesja­bæ úr níu í sjö í næstu sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um. Á 160. fundi bæj­ar­ráðs lögðu full­trú­ar meiri­hlut­ans, Sig­ur­sveinn Bjarni Jóns­son (Sam­fylk­ingu), Lauf­ey Er­lends­dótt­ir (Bæj­arlist­an­um) og Ein­ar Jón Páls­son (Sjálf­stæðis­flokki), fram til­lögu um fækk­un bæj­ar­full­trúa. Þar sem minni­hlut­inn hafði ekki at­kvæðis­rétt í bæj­ar­ráði var til­lag­an samþykkt sam­hljóða, án mót­atkvæða eða tæki­fær­is til rök­stuðnings gegn henni.

Sam­kvæmt 11. gr. sveit­ar­stjórn­ar­laga skal fjöldi bæj­ar­full­trúa í sveit­ar­fé­lagi með 2.000-9.999 íbúa vera á bil­inu 7-11. Með 4.284 íbúa fell­ur Suður­nesja­bær um miðbik þessa bils og ætti sam­kvæmt eðli­legri stjórn­sýslu að halda í níu full­trúa, þar sem það trygg­ir víðari sjón­ar­mið og meiri fjöl­breytni í lýðræðis­legri umræðu og ákv­arðana­töku sveit­ar­fé­lags­ins, sem er ört stækk­andi.

Sam­an­b­urður við önn­ur sveit­ar­fé­lög

Sé litið til sam­bæri­legra sveit­ar­fé­laga er ljóst að níu full­trú­ar er al­geng­asta fyr­ir­komu­lagið í sveit­ar­fé­lög­um af svipaðri stærð:

Vest­manna­eyj­ar (4.703 íbú­ar) – níu bæj­ar­full­trú­ar

Skaga­fjörður (4.428 íbú­ar) –
níu bæj­ar­full­trú­ar

Ísa­fjarðarbær (3.965 íbú­ar) –
níu bæj­ar­full­trú­ar

Borg­ar­byggð (4.363 íbú­ar) –
níu bæj­ar­full­trú­ar

Norðurþing (3.226 íbú­ar) –
níu bæj­ar­full­trú­ar

Þessi gögn sýna að fækk­un bæj­ar­full­trúa í Suður­nesja­bæ er ekki í sam­ræmi við venj­ur annarra sveit­ar­fé­laga af svipaðri stærð. Með því að fækka full­trú­um minnk­ar lýðræðis­legt aðhald og dreg­ur úr fjöl­breytni sjón­ar­miða í umræðum og ákv­arðana­töku.

Er Suður­nesja­bær í frjálsu falli lýðræðis­ins?

Þess­ar tvær stóru breyt­ing­ar, ein­ræðis­legt bæj­ar­ráð og fækk­un bæj­ar­full­trúa, leiða til meiri samþjöpp­un­ar valds í hönd­um færri aðila og veita minni­hlut­an­um lít­il sem eng­in áhrif á ákv­arðana­töku í sveit­ar­fé­lag­inu. Með því að úti­loka minni­hlut­ann frá áhrif­um er búið til um­hverfi þar sem stjórn­má­laum­ræða og gagn­rýni á ákv­arðanir meiri­hlut­ans verður veik­b­urða.

Spurn­ing­in sem blas­ir við er: Er Suður­nesja­bær í frjálsu falli lýðræðis­ins? Ef bæj­ar­stjórn ætl­ar að viðhalda trausti al­menn­ings og tryggja lýðræðis­lega stjórn­ar­hætti verður hún að staldra við og end­ur­skoða ákv­arðanir sín­ar. Íbúar sveit­ar­fé­lags­ins eiga skilið stjórn­sýslu sem trygg­ir lýðræðis­legt aðhald og fjöl­breytt sjón­ar­mið í ákv­arðana­töku.

Al­ex­is de Tocqu­eville, fransk­ur stjórn­mála­heim­spek­ing­ur, sagn­fræðing­ur og rit­höf­und­ur, þekkt­ur fyr­ir grein­ingu sína á lýðræði og sam­fé­lags­legri þróun, bend­ir á að lýðræði sé ekki sjálf­gefið held­ur bygg­ist á virku aðhaldi og þátt­töku borg­ar­anna. Á sama hátt lagði Platón, grísk­ur heim­spek­ing­ur og einn áhrifa­mesti hugsuður sög­unn­ar, áherslu á að jafn­vægi í stjórn­kerfi væri for­senda stöðug­leika. Það er því und­ir bæj­ar­stjórn Suður­nesja­bæj­ar komið að hlúa að þess­um grunn­gild­um og tryggja að lýðræðið hald­ist sterkt í verki.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Efnahagsleg staða Íslands er sterk

Deila grein

28/02/2025

Efnahagsleg staða Íslands er sterk

Rík­is­stjórn Íslands hef­ur í hyggju að efna til þjóðar­at­kvæðagreiðslu um hvort Ísland eigi að hefja að nýju aðild­ar­viðræður við Evr­ópu­sam­bandið. Fram kem­ur reynd­ar í stefnu­yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­flokk­anna að at­kvæðagreiðslan snú­ist um fram­hald viðræðna við ESB. Ég á erfitt með að sjá að þetta sé fram­hald, þar sem hvert og eitt ríki Evr­ópu­sam­bands­ins verður að samþykkja aft­ur að aðild­ar­viðræður hefj­ist að nýju. Þannig að erfitt er að halda því fram að þetta sé beint fram­hald enda er hag­kerfi Íslands búið að breyt­ast mikið frá því að rík­is­stjórn Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur sett­ist við samn­inga­borðið árið 2009. Fernt í hag­kerf­inu okk­ar hef­ur tekið mikl­um um­skipt­um til batnaðar síðasta ára­tug eða svo: Lands­fram­leiðsla á mann, hag­vöxt­ur, staða krón­unn­ar og skuld­ir þjóðarbús­ins.

Ragn­ar Árna­son, pró­fess­or emer­it­us í hag­fræði við Há­skóla Íslands, varpaði ljósi á þessa stöðu nú á dög­un­um og staðfest­ir þær hag­töl­ur sem liggja fyr­ir og hafa gert í nokk­urn tíma. Í fyrsta lagi er lands­fram­leiðsla á mann í aðild­ar­ríkj­um ESB mun lægri en á Íslandi og hef­ur verið í nokk­urn tíma. Bilið á lands­fram­leiðslu á mann á Íslandi ann­ars veg­ar og evru­ríkj­um hins veg­ar hef­ur auk­ist stöðugt frá því að evr­an var tek­in upp um alda­mót­in. Árið 2023 var lands­fram­leiðsla á mann á Íslandi 19% meiri en á evru­svæðinu og 24% meiri en hjá ESB. Í öðru lagi hef­ur hag­vöxt­ur á Íslandi verið meiri á ár­un­um 2000-2023 eða um 1,5% meðan vöxt­ur­inn á evru­svæðinu er 0,9%. Hér er um­tals­verður mun­ur á og skipt­ir öllu máli þegar horft er til framtíðar. Í þriðja lagi hef­ur krón­an verið að styrkj­ast frá 2010-2024 miðað við SDR-mæli­kv­arðann en evr­an hef­ur veikst. Það ber hins veg­ar að hafa í huga að krón­an er ör­mynt og get­ur hæg­lega sveifl­ast ef hag­stjórn­in er ekki í föst­um skorðum og veg­ur út­flutn­ings­greina þjóðarbús­ins sterk­ur. Að lok­um, þá hef­ur skuld­astaða Íslands verið að styrkj­ast og nema heild­ar­skuld­ir rík­is­sjóðs um 40% af lands­fram­leiðslu. Þetta sama hlut­fall hjá Frakklandi er 110% og hjá Þýskalandi 63%.

Sök­um þess að Íslandi hef­ur vegnað vel í efna­hags­mál­um mun það einnig þýða að Ísland þurfi að greiða meira til sjóða Evr­ópu­sam­bands­ins en þegar síðast var sótt um. Pró­fess­or Ragn­ar Árna­son hef­ur reiknað út að þetta geti numið á bil­inu 35-50 millj­örðum eða um 100 þúsund krón­um á hvern lands­mann. Rík­is­stjórn Gro Har­lem Brund­t­land sótti um aðild að ESB árið 1992 og svo höfnuðu Norðmenn því að ganga inn í ESB árið 1994. Ein megin­á­stæða þess var ná­kvæm­lega þessi, að kostnaður við ESB-þátt­töku væri þjóðarbú­inu mun meiri en ávinn­ing­ur­inn.

Rík­is­stjórn­in hef­ur boðað að í upp­hafi kjör­tíma­bils­ins verði óháðum er­lend­um sér­fræðing­um falið að vinna skýrslu um kosti og galla krón­unn­ar og val­kosti Íslands í gjald­miðlamál­um. Ég hvet rík­is­stjórn­ina til að vanda veru­lega til þess­ar­ar vinnu, opna fyr­ir þátt­töku inn­lendra aðila og meta einnig efna­hags­leg­an ávinn­ing Íslands í heild sinni og út frá lyk­il­mæli­kvörðum hag­kerf­is­ins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ný ríkisstjórn og framtíð orkumála á Íslandi

Deila grein

20/02/2025

Ný ríkisstjórn og framtíð orkumála á Íslandi

Að lok­inni þing­setn­ingu, sem fram fór 4. fe­brú­ar sl. og þar sem ný rík­is­stjórn hef­ur lagt fram þing­mála­skrá vorþings, er rétt að minna á eina mik­il­væg­ustu áskor­un sam­tím­ans: orku­mál. Orku­mál hafa um langa hríð verið mikið deilu­efni á Alþingi, en í ljósi þjóðar­hags­muna er nauðsyn­legt að nálg­ast þau af meiri skyn­semi og trausti en verið hef­ur, bæði varðandi nýt­ingu auðlinda og nátt­úru­vernd. Það er von mín að umræða um orku­mál á kom­andi árum verði mark­viss og lausnamiðuð og byggi á sam­eig­in­leg­um lang­tíma­sjón­ar­miðum, öll­um til hags­bóta.

Hraðar breyt­ing­ar á orku­markaði

Ef við horf­um til síðasta ára­tug­ar sést glöggt hversu sveiflu­kennd þróun eft­ir­spurn­ar og fram­boðs á orku get­ur verið. Á þessu tíma­bili var ál­verið í Helgu­vík blásið af. Fram­boð á raf­orku var nægt og orku­verð lágt. Heims­far­ald­ur­inn sem skall á árið 2020 dró enn frek­ar úr eft­ir­spurn eft­ir orku.

Eft­ir COVID-19 far­ald­ur­inn tók orku­markaður­inn stakka­skipt­um. Verð á áli og ra­f­ræn­um gjald­miðlum hækkaði, iðnaður sótti fram og stríð í Evr­ópu ýtti enn frek­ar und­ir eft­ir­spurn eft­ir raf­orku. Á sama tíma varð raf­orku­skort­ur hér á landi vegna verstu vatns­ára í sögu Lands­virkj­un­ar. Nú hef­ur staðan aft­ur lag­ast vegna auk­inna rign­inga, en þessi öfga­fullu og sveiflu­kenndu tíma­bil minna okk­ur á að breyt­ing­ar ger­ast hratt og geta haft víðtæk áhrif. Á kjör­tíma­bil­inu munu svo verða enn frek­ari breyt­ing­ar. Þannig mun ís­lenski raf­orku­markaður­inn þró­ast til sam­ræm­is við reglu­gerðir Evr­ópu­sam­bands­ins (ESB). Síðast en ekki síst munu sum­ar þeirra virkj­ana sem fyrri rík­is­stjórn samþykkti koma til fram­kvæmda.

Alþjóðleg­ar áskor­an­ir og áhrif á Ísland

Örar breyt­ing­ar á orku­markaði und­ir­strika mik­il­vægi þess að við séum vak­andi fyr­ir þróun á alþjóðleg­um mörkuðum. Banda­rík­in og Evr­ópa hafa til­kynnt gríðarleg­ar fjár­fest­ing­ar í orku­fram­leiðslu og innviðum fyr­ir gervi­greind og spurn­ing­ar vakna um hvaða áhrif þær muni hafa á Ísland. Verðum við eft­ir­sótt­ara land fyr­ir orku­frek­an iðnað? Hver verður sam­keppn­is­hæfni Íslands í ljósi auk­inn­ar fjár­fest­ing­ar í orku­geir­an­um ann­ars staðar? Þetta eru spurn­ing­ar sem við þurf­um að ræða og svara af yf­ir­veg­un og skyn­semi.

Setj­um sam­fé­lags­áhersl­ur í for­gang

Orku­saga Íslands er sam­tvinnuð sögu ungr­ar sjálf­stæðar þjóðar sem leitaði leiða til að bæta lífs­kjör. Við byggðum hita­veit­ur, virkj­an­ir og byggðalínu og tryggðum orku­ör­yggi al­menn­ings í lög­um. Gleym­um ekki sam­fé­lags­áhersl­um nú þegar frjáls orku­markaðar ryður sér til rúms.

Tryggj­um orku­ör­yggi al­menn­ings á nýj­an leik til að koma í veg fyr­ir verðhækk­an­ir líkt og í Evr­ópu. For­gangs­röðum fjár­magni með áherslu á hita­veit­ur og jarðhita­leit, sér­stak­lega á köld­um svæðum. Ýtum und­ir að ein­angraðir staðir, eins og Vest­f­irðir og Vest­manna­eyj­ar, fái sterk­ara flutn­ings­kerfi, sem skipt­ir lyk­il­máli fyr­ir at­vinnu­líf og íbúa. Sköp­um hvata þannig að ný orku­fram­leiðsla efli at­vinnu­tæki­færi um allt land, í takt við ólík mark­mið stjórn­valda, allt frá mat­væla­fram­leiðslu til orku­skipta, en fari ekki til hæst­bjóðenda hverju sinni. Að setja slík­ar sam­fé­lags­áhersl­ur í for­gang kall­ar á skýra póli­tíska sýn og ná­kvæmni í inn­leiðingu stefnu. Þær geta hins veg­ar eflt mögu­leika íbúa og aukið verðmæta­sköp­un at­vinnu­lífs um allt land.

Ný­sköp­un og nátt­úru­vernd í orku­stefnu

Ný­sköp­un, ork­u­nýtni og nátt­úru­vernd þurfa einnig að vera lyk­il­hug­tök í orkupóli­tík framtíðar­inn­ar, ekki síst nú þegar umræðan um vindorku er að aukast. Vindorka get­ur orðið mik­il­væg viðbót við orku­fram­leiðslu lands­ins, en henni fylgja nýj­ar áskor­an­ir sem þarf að tak­ast á við af ábyrgð á grunni heild­stæðrar stefnu­mót­un­ar með verðmæti nátt­úru í huga.

Sam­vinna í orku­mál­um

Orku­mál eiga ekki að vera vett­vang­ur fyr­ir skot­graf­ir og upp­hróp­an­ir. Við þurf­um sam­vinnu, fag­lega nálg­un og lausnamiðaða stefnu sem trygg­ir hags­muni bæði nú­ver­andi og kom­andi kyn­slóða. Framtíð Íslands á það skilið.

Megi traust ríkja í nýt­ingu okk­ar ein­stöku og fjöl­breyttu auðlinda á grunni virðing­ar fyr­ir nátt­úru og um­hverfi.

Ég óska nýrri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Friður felst í því að efla varnir

Deila grein

20/02/2025

Friður felst í því að efla varnir

Þess er minnst um heim all­an að 80 ár eru síðan seinni heims­styrj­öld­inni lauk en hún fól í sér mestu mann­fórn­ir í ver­ald­ar­sög­unni. Víða hef­ur verið háð stríð eft­ir seinni heims­styrj­öld­ina en ekk­ert í lík­ind­um við hana. Öll vit­um við að friður er far­sæl­ast­ur og býr til mesta vel­meg­un í sam­fé­lagi manna.

Mikið upp­nám hef­ur ríkt í alþjóðastjórn­mál­un­um eft­ir ör­ygg­is­ráðstefn­una í München um síðustu helgi. Ýmsir hafa haft á orði að heims­mynd­in sé gjör­breytt vegna hvatn­ing­ar stjórn­ar Banda­ríkj­anna um að Evr­ópa taki á sig aukn­ar byrðar í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. En á þessi afstaða Banda­ríkj­anna að koma á óvart?

Skila­boðin hafa alltaf verið skýr um að Evr­ópa þyrfti að koma frek­ar að upp­bygg­ingu í eig­in ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Í kjöl­far stór­felldr­ar inn­rás­ar Rúss­lands í Úkraínu fyr­ir þrem­ur árum hef­ur Evr­ópu ekki tek­ist að styrkja varn­ir sín­ar í takt við um­fang árás­ar Rúss­lands, að und­an­skild­um ríkj­um á borð við Pól­land og Eystra­salts­rík­in. Evr­ópa hef­ur held­ur ekki náð að styðja við Úkraínu í þeim mæli sem þurfti til að stöðva Rúss­land. Í merki­legu viðtali sem tekið var við Jens Stolten­berg við brott­hvarf hans úr stóli fram­kvæmda­stjóra Atlants­hafs­banda­lags­ins lagði hann ríka áherslu á mik­il­vægi þess að ríki í Evr­ópu myndu styrkja og auka sam­starf í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um ásamt því að staða Atlants­hafs­banda­lags­ins yrði styrkt.

Fyr­ir Ísland er mik­il­vægt að vera með sterka banda­menn beggja vegna Atlantsála. Varn­ar­sam­starfið við Banda­rík­in hef­ur auk­ist und­an­far­in miss­eri. Ísland hef­ur tryggt nauðsyn­lega varn­araðstöðu og -búnað fyr­ir loft­rýmis­eft­ir­lit og aðrar NATO-aðgerðir. Banda­rík­in hafa tekið þátt í loft­rým­is­gæslu og stutt við varn­ir Íslands. Báðar þjóðir hafa einnig aukið upp­lýs­ingaflæði, sam­ráð og sam­eig­in­leg­ar æf­ing­ar, m.a. í neyðaraðstoð og tölvu­ör­yggi. Meg­in­mark­miðið hef­ur verið að efla tví­hliða varn­ar­sam­starf og tryggja ör­yggi á Norður-Atlants­hafi.

Ísland er ekki und­an­skilið í þeim efn­um að veita auk­inn stuðning til ör­ygg­is- og varn­ar­mála. Það er brýnt að við sinn­um okk­ar hlut­verki til þess að sinna og efla varn­ir lands­ins inn­an þeirr­ar getu sem er fyr­ir hendi. Við höf­um átt í far­sælu sam­starfi og sam­vinnu við helstu banda­lagsþjóðir okk­ar og mik­il­vægt er að fram­hald verði á því til að styðja við sjálf­stæði þjóðar­inn­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ó­verð­tryggð hús­næðis­lán til 25 ára

Deila grein

19/02/2025

Ó­verð­tryggð hús­næðis­lán til 25 ára

Í gær mælti ég fyrir þingsályktun á Alþingi þess efnis að fasteignakaupendur geti tekið óverðtryggð lán á föstum vöxtum til langs tíma. Um er að ræða gríðarlega mikilvægt hagsmunamál fyrir heimili landsins. Þessi möguleiki er sjálfsagður hjá öðrum Norðurlandaþjóðum en hefur ekki verið tryggður íslenskum neytendum. Stórar fjárhagslegar ákvarðanir á borð við fasteignakaup ættu að byggja á fyrirsjáanleika í afborgunum og hagstæðum kjörum, en íslenskir bankar bjóða ekki upp á sambærileg lán og gerist erlendis.

Þessar aðgerðir hafa verið til umfjöllunar innan fjármálaráðuneytisins og voru hluti af skoðun sem ég hóf fljótlega eftir að ég kom í fjármálaráðuneytið á síðasta ári. Nú liggur fyrir skýrsla, grundvölluð á þeirri vinnu sem ég setti af stað, og mikilvægt að afrakstur þeirrar vinnu nái nú fram að ganga. Við eigum að tryggja íslenskum heimilum sömu valmöguleika og fasteignakaupendur hafa í nágrannalöndunum í stað þess að vera föst í úreltu fjármálafyrirkomulagi sem vinnur gegn þeirra hagsmunum.

Íslenskir bankar eru of smáir og bundnir eigin fjármagnskostnaði, sem gerir þeim erfitt fyrir að veita óverðtryggð lán á hagstæðum kjörum til lengri tíma. Á hinn bóginn er íslenska ríkið og lífeyrissjóðir í sterkari stöðu til að veita slíka fjármögnun, sem gæti útvegað heimilum stöðugri og hagstæðari lánskjör.

Til að bankar geti veitt óverðtryggð fasteignalán til lengri tíma, það er yfir 20 ár, þarf íslenski fjármálamarkaðurinn að þróast. Stjórnvöld hafa hér tækifæri til að bæta regluverk og gera fjármálamarkaðinn sveigjanlegri, svo fjármálastofnanir geti boðið upp á slík lán líkt og í nágrannalöndunum. Áhrif þessarar kerfisbreytingar gæti einnig haft í för með sér lægri vaxtakostnað fyrir ríkissjóð þannig að þar er til mikils að vinna.

Gríðarlegur samfélagslegur ávinningur

Með innleiðingu óverðtryggðra langtímalána á hagstæðum föstum vöxtum fá fasteignakaupendur fyrirsjáanlega fjármögnun og eru ekki berskjaldaðir fyrir hækkandi vöxtum eða verðbólgu. Það veitir heimilum stöðugleika og dregur úr áhættu. Önnur áhrif þessarar kerfisbreytingar að fólk mun síður taka verðtryggð húsnæðislán og færa sig í stöðugra umhverfi.

Eins og áður sagði þá liggja nú fyrir útfærslur á þessari leið en þeirri vinnu var skilað til fjármálaráðuneytisins fyrir nokkrum vikum. Ríkisstjórninni er því ekkert að vanbúnaði að hefja innleiðingu þessarar kjarabótar fyrir íslensk heimili. Við í Framsókn munum fylgja þessu máli fast eftir og kalla eftir aðgerðum til þess að þetta markmið okkar náist.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Pólitísk ábyrgð

Deila grein

19/02/2025

Pólitísk ábyrgð

Ný rík­is­stjórn Kristrún­ar Frosta­dótt­ur hef­ur nú birt þing­mála­skrá sína, en skrá­in fel­ur í sér yf­ir­lit um þau mál sem rík­is­stjórn­in hyggst leggja fram á þing­inu ásamt áætl­un um hvenær þeim verður dreift. Þing­mála­skrá­in hef­ur vakið at­hygli, ekki síst vegna þess að stór hluti henn­ar bygg­ir á mál­um sem þegar voru í und­ir­bún­ingi hjá fyrri rík­is­stjórn. Það vek­ur upp spurn­ing­ar um hversu illa hafi í raun verið stjórnað áður, eins og gefið var í skyn af nú­ver­andi vald­höf­um, í ljósi þess hve margt er nú tekið upp á ný af sömu aðilum og gagn­rýndu fyrri stjórn harðlega. Vit­an­lega gef­ur þetta til kynna að fjöl­mörg mik­il­væg og brýn mál hafi verið í far­vegi og staða þjóðarbús­ins hafi verið góð.

Hvar eru kosn­ingalof­orðin?

Við yf­ir­lest­ur þing­mála­skrár­inn­ar sést að sum af þeim kosn­ingalof­orðum sem voru sett fram með mikl­um þunga fyr­ir kosn­ing­ar eru hvergi sjá­an­leg. Það virðist nefni­lega vera óskráð regla í ís­lensk­um stjórn­mál­um að kosn­ingalof­orð breyt­ast á einni nóttu (eft­ir kosn­ing­ar) í ein­hvers kon­ar stefnu­mark­mið sem ekki þarf að standa við. Það er áhyggju­efni að stjórn­mála­menn skuli ekki axla meiri ábyrgð gagn­vart kjós­end­um sín­um og sýna að lof­orð verði efnd.

Ófyr­ir­séð fjár­málastaða – eða fyr­ir fram þekkt?

Í upp­hafi stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðna var full­yrt að nýj­ar upp­lýs­ing­ar um fjár­hags­stöðu rík­is­ins gerðu nýrri rík­is­stjórn það ómögu­legt að efna gef­in lof­orð. Þetta er sér­stak­lega áhuga­vert í ljósi þess að all­ar upp­lýs­ing­ar um af­komu og efna­hag hins op­in­bera lágu þegar fyr­ir við gerð fjár­laga fyr­ir árið 2025 og voru öll­um flokk­um vel kunn­ar í fjár­laga­nefnd. Þetta vek­ur spurn­ing­ar um hvort stjórn­ar­flokk­arn­ir hafi gefið lof­orð án þess að ætla sér raun­veru­lega að standa við þau, eða hvort þeir hafi ein­fald­lega hunsað fyr­ir­liggj­andi gögn.

Sam­göngu­mál í upp­námi

Sam­göngu­mál hafa verið fyr­ir­ferðar­mik­il í umræðunni, sér­stak­lega í Norðvest­ur­kjör­dæmi. Það er já­kvætt að fram­kvæmd­ir á Dynj­and­is­heiði og í Gufu­dals­sveit eru tryggðar í fjár­lög­um fyr­ir 2025, en lof­orð um tvenn jarðgöng á hverj­um tíma, sem innviðaráðherra gaf fyr­ir kosn­ing­ar, sjást ekki í þing­mála­skránni. Ný sam­göngu­áætlun er ekki vænt­an­leg fyrr en í haust, og ljóst er að for­gangs­röðun verður lyk­il­atriði. Fólk í kjör­dæm­inu hef­ur vænt­ing­ar um að lof­orðin verði efnd og að sam­göngu­bæt­ur verði að veru­leika – ekki aðeins orð á blaði.

Á síðasta lög­gjaf­arþingi var því ít­rekað haldið fram af nú­ver­andi sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra að nægt fjár­magn væri til staðar til að hefja fram­kvæmd­ir. Þannig voru gef­in lof­orð um Álfta­fjarðargöng, göng um Mikla­dal og Hálf­dán (Suður­fjarðargöng), tvö­föld­un Hval­fjarðargangna og göng und­ir Kletts­háls.

Nú virðist sem tónn­inn sé breytt­ur. Stjórn­mál eiga þó að byggj­ast á ábyrgð, og stjórn­mála­menn verða að standa við gef­in fyr­ir­heit.

Breytt afstaða til stjórn­ar­skrár?

Eitt það furðuleg­asta í störf­um hinn­ar nýju rík­is­stjórn­ar er stefnu­breyt­ing sumra ráðherra varðandi stjórn­ar­skrána. Ráðherra sem áður sagði að bók­un 35 stæðist ekki stjórn­ar­skrá styður nú ekki aðeins málið held­ur er sjálf­ur í rík­is­stjórn sem hyggst leggja það fram. Þetta vek­ur upp spurn­ing­ar um hvort siðferði og prinsipp skipti í raun máli í stjórn­mál­um, eða hvort sjón­ar­mið ís­lenskra flokka breyt­ist ein­fald­lega eft­ir því hvort þeir séu í stjórn eða stjórn­ar­and­stöðu.

Sam­ein­ing sýslu­mann­sembætta

Til­laga um að sam­eina sýslu­mann­sembætt­in í eitt hef­ur einnig vakið mikla umræðu. Þetta myndi þýða að embætt­in, sem gegna gríðarlega mik­il­vægu hlut­verki hins op­in­bera í hverj­um lands­hluta, yrðu sam­einuð í eina miðlæga stofn­un. Við í Fram­sókn telj­um slíkt ekki til fram­fara, en styðjum þess í stað aukið sam­starf embætt­anna, skil­virk­ari verka­skipt­ingu og betri sam­vinnu.

Ábyrgð og sam­vinna í stjórn­mál­um

Þrátt fyr­ir of­an­greind­ar áhyggj­ur og sjón­ar­mið vil ég leggja áherslu á að all­ir þing­menn, óháð flokksaðild, eiga það sam­eig­in­legt að vilja vinna að hags­mun­um þjóðar­inn­ar. Þó að stefn­ur og áhersl­ur séu mis­mun­andi ætti mark­miðið alltaf að vera að gera Ísland betra í dag en í gær. Ég hlakka til sam­starfs­ins á þessu kjör­tíma­bili og vona að stjórn­mála­menn sýni bæði ábyrgð og staðfestu í ákvörðunum sín­um.

Við eig­um ávallt að stefna að því að gera bet­ur. Það á að vera meg­in­regl­an í allri póli­tík.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður og odd­viti Fram­sókn­ar í Norðvest­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. febrúar 2025.

Categories
Greinar

Opið bréf til Daða Más fjármálaráðherra

Deila grein

19/02/2025

Opið bréf til Daða Más fjármálaráðherra

Sæll Daði Már Kristó­fers­son! Þegar þú ung­ur dreng­ur stóðst á hlaðinu í Reyk­holti og horfðir yfir hið fagra hérað Borg­ar­fjörð, þá hreifstu af hinni miklu feg­urð og land­gæðum sem blöstu við í ríki Snorra Sturlu­son­ar! Gróið hérað glæsi­leg lönd bænda og land­búnaðar­ins, jarðhiti, blóm­leg bænda­býli og gott und­ir bú. Þú hef­ur hugsað til Snorra og bók­fell­anna sem naut­in gáfu til að skrifa sögu Íslands og Norður­land­anna. Þú hef­ur heill­ast af þeim tæki­fær­um sem land­búnaður­inn gaf og gæti enn gefið þjóð þinni. Þú hugsaðir um að gam­an væri að mennta þig í land­búnaðarfræðum og árið 2000 út­skrifaðistu með B.Sc.-gráðu í land­búnaðarfræðum frá Land­búnaðar­há­skóla Íslands á Hvann­eyri. Sama ár sótt­ir þú þér meist­ara­gráðu frá Agricultural Uni­versity í Nor­egi, allt eft­ir hag­fræðinámið.

Þú hef­ur sem land­búnaðar­hag­fræðing­ur sinnt land­búnaði og oft flutt góð er­indi og til­lög­ur á bændaþing­um. Nú skrifa ég þér þess­ar lín­ur af því að þú kannt fræðin bet­ur en flest­ir og komn­ar eru upp deil­ur við ESB út af skil­grein­ingu á ost­um sem snýr að öll­um EES-þjóðunum Íslandi, Nor­egi og Sviss. Um er að ræða 85% mjólkurost með jurta­feiti. Spurn­ing­in er und­ir hvort flokk­ast ost­ur­inn, mjólk eða jurta­ríkið? Þú veist jafn­vel og und­ir­ritaður að 45% vín er sterkt vín, að bjór og hvítt og rautt er létt­vín, hvað þá 85% mjólkurost­ur, hann hlýt­ur að vera frá land­búnaði. Nor­eg­ur og Sviss hafa haldið sinni skil­grein­ingu þrátt fyr­ir kröfu­gerð ESB, Nor­eg­ur í 12 ár. Verði niðurstaða þín röng tapa tíu til fimmtán bænd­ur á Íslandi vinnu sinni við að fram­leiða mjólk að talið er. Og ef þú ger­ir mis­tök munu heild­sal­ar gera kröfu um að þú far­ir rangt að á fleiri sviðum í þinni embætt­is­færslu. Ég treysti þér þar til annað kem­ur í ljós, Daði Már.

Sann­leik­ur­inn birt­ist enn og aft­ur

Er þetta er ritað, 17. fe­brú­ar, ligg­ur fyr­ir enn ein niðurstaða dóm­stóla í máli þar sem sjón­ar­miðum þeirra sem sótt hafa ít­rekað að rík­inu var hafnað enn og aft­ur. Þetta snýst um skil­grein­ing­ar skatta- og tolla­yf­ir­valda um toll­flokk­un á pizza­osti, sem eins og fyrr seg­ir er sam­sett­ur af 85% hluta mjólkurosts. Á það þá að vekja undr­un og jafn­vel átök að slík vara kall­ist ost­ur? Sér­fræðing­ar viðkom­andi stofn­ana hafa unnið sitt starf sam­kvæmt skyldu sinni og af sann­fær­ingu við viðkom­andi toll­flokk­un.

Það er skylda hvers manns, og ekki síst stjórn­mála­manna, að gæta að hags­mun­um okk­ar allra. Þeir fel­ast hvað sterk­ast í því að verja markaðs- og fram­leiðslu­hags­muni þjóðar­inn­ar sem og at­vinnu­tæki­færi okk­ar. Það er ekki til­vilj­un ein að okk­ur stærri lönd, og sam­bönd þeirra, verji fyrst og fremst markaðs- og fram­leiðslu­hags­muni sinna þjóða og þá verðmæta­sköp­un sem þeim fylg­ir.

En nú er mál að linni. Þess­ari sneypu­för sem fólg­in er í veg­ferðinni um þenn­an pizza­ost verður að ljúka. Mál­flutn­ing­ur þeirra sem sótt hafa að stofn­un­um rík­is­ins í gegn­um dóm­stóla er bor­inn fram í – að menn halda – fleytifullri fötu sann­leik­ans. En það er ekki svo – fat­an held­ur engu og allt lek­ur úr aft­ur og aft­ur eins og forðum.

Botn­inn er suður í Borg­ar­f­irði!

Guðni Ágústsson, fyrr­ver­andi alþing­ismaður og ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. febrúar 2025.