Categories
Fréttir Greinar

Árangurs­ríkur þingvetur skilar sam­fé­laginu í rétta átt

Deila grein

26/06/2024

Árangurs­ríkur þingvetur skilar sam­fé­laginu í rétta átt

Á Íslandi er gott að búa og hér höfum við byggt upp öflugt velferðarsamfélag; samfélag sem gefur atvinnulífi og einstaklingum súrefni til að vaxa og dafna, samhliða því að styðja við barnafjölskyldur og þá hópa sem höllum fæti standa. Um það sjást augljós merki nú við þinglok. Hér á landi er meiri hagvöxtur en í nágrannaríkjunum, atvinnustig er sterkt og hér hefur verið vaxandi kaupmáttur heimilanna ár eftir ár. Allt skiptir þetta máli og þegar ég horfi á stóru myndina er ég stoltur af okkar góða samfélagi sem hefur vissulega þurft að glíma við áskoranir síðustu misseri líkt og samfélög um heim allan.

Verjum lífskjör og velferð

Utanaðkomandi þættir sem við höfum litla sem enga stjórn á hafa haft óvenju mikil áhrif á okkar daglega líf. Verkefni stjórnvalda er að bregðast við með skynsamlegum aðgerðum sem miða að því að milda áhrifin á samfélagið og létta þeim byrðar sem þyngstar bera nú um stundir.

Hér ætla ég að nefna sérstaklega nýgerða langtímakjarasamninga. Þeir auka á fyrirsjáanleika þar sem markmiðið er að ná niður vöxtum og verðbólgu samhliða því að verja lífskjör og velferð hér á landi. Við gerð þessara samninga var lögð sérstök áhersla á vaxandi velsæld og stuðning við barnafjölskyldur, t.a.m. með gjaldfrjálsum skólamáltíðum og hækkun barnabóta, sérstökum vaxtastuðningi og stuðningi við leigjendur ásamt hærri fæðingarorlofsgreiðslum. Fyrir þessum raunverulegu aðgerðum hefur fólk fundið.

Fjárhagsleg staða eldri borgara á Íslandi er almennt sterk og hafa kjör hópsins batnað umtalsvert síðastliðinn áratug. Gildir það hvort sem litið er til tekna, kaupmáttar eða eigna- og skuldastöðu. Kjör hópsins á ýmsum sviðum hafa batnað umfram yngri aldurshópa. Samhliða hafa útgjöld almannatrygginga til eldri borgara aukist verulega. Kaupmáttur 67 ára og eldri hefur undanfarinn áratug vaxið um að jafnaði tæplega 4% á ári. Sömuleiðis hafa útgjöld ríkisins til málefna aldraðra aukist um 25% að raunvirði frá árinu 2017 og um 91% frá árinu 2014.

Margar jákvæðar fréttir

Markvisst hefur verið unnið að því að tryggja öllum landsmönnum aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Eftir áralangt samningsleysi hefur nú verið samið við sérgreinalækna, sjúkraþjálfara og tannlækna. Með þessum samningum lækkar greiðsluþátttaka einstaklinga sem hefur hækkað jafnt og þétt í samningsleysinu. Að draga úr greiðsluþátttöku almennings við heilbrigðisþjónustu er liður í því að jafna aðgengi að þjónustunni óháð efnahag. Á þeim forsendum var styrkur til almennra tannréttinga tæplega þrefaldaður og hækkaði úr 150 þúsund krónum í 430 þúsund krónur þann 1. september síðastliðinn. Við breytinguna lækkar kostnaðarþátttaka almennings í almennum tannréttingum um 500 milljónir á ári.

Risastór skref hafa verið tekin á þessu kjörtímabili í þágu menningar í landinu. Það hefur sýnt sig að ógrynni tækifæra felast í því að efla kvikmyndaframleiðslu á Íslandi. Verkefni af þessum toga eru atvinnu- og gjaldeyrisskapandi og landið öðlast kynningu erlendis sem getur skilað sér í jákvæðari ímynd og auknum gjaldeyristekjum vegna komu ferðamanna hingað til lands. Það er morgunljóst að stuðningur við listir og skapandi greinar skilar sér margfalt til baka til samfélagsins.

Áfram er unnið að því að efla verk- og starfsnám. Samfélagið hefur tekið miklum breytingum síðustu ár og atvinnulífið kallar á slíka menntun. Mennta- og barnamálaráðherra hefur af því tilefni lagt ríka áherslu á uppbyggingu verk- og starfsnámsaðstöðu og stefnt er að byggja 12.000 fm fyrir námið um land allt auk þess sem nýr Tækniskóli mun rísa í Hafnarfirði.

Lífeyrissjóðir og heilbrigður leigumarkaður

Alþingi samþykkti nú fyrir þinglok breytingar á ákvæðum um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða. Þar er lagt til að heimila lífeyrissjóðum að fjárfesta hluta eignasafns síns í félögum sem hafa það að meginstarfsemi að leigja út íbúðarhúsnæði til einstaklinga og til viðbótar að þeim verði heimilt að eiga stærri hlut en 20% í hverju leigufélagi sem hefur þá meginstarfsemi að leigja út íbúðarhúsnæði til langs tíma til einstaklinga. Hlutur hvers lífeyrissjóðs má þó ekki vera stærri en 50% í slíku félagi.

Ég hef á undanförnum árum skrifað fjölmargar greinar um stöðuna á húsnæðismarkaði og komið með tillögur að aðgerðum sem ég hef talið nauðsynlegt að ráðast í. Ein af þeim tillögum er meðal annars að auðvelda lífeyrissjóðum að fjárfesta í leigufélögum sem ég tel bæði mjög skynsamlega og brýna aðgerð á þeirri vegferð að byggja upp heilbrigðari leigumarkað en hér hefur verið til staðar með meira öryggi og fyrirsjáanleika fyrir fólk.

Það var því sérstaklega ánægjulegt að vera framsögumaður á þessu mikilvæga máli og að um málið hafi verið samstaða, þvert á flokka, í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Það skiptir máli, enda skref í rétta átt.

Við höfum enn verk að vinna

Verðbólga hefur lækkað, en hún er enn of há. Það verður áfram verkefni okkar stjórnmálamanna þar sem við þurfum að halda áfram að vinna að því að ná henni enn frekar niður með skynsamlegum og raunhæfum aðgerðum. Við getum í því sambandi nefnt stöðuna á húsnæðismarkaði, en þar eru að mínu mati áskoranir sem hægt er að leysa hratt og örugglega sé viljinn til staðar. Þar þurfa ríki og sveitarfélög að taka höndum saman – af mun meiri krafti og festu en hingað til. Hér þarf að halda áfram þeim góðu opinberu aðgerðum stjórnvalda til að tryggja nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði, en jafnframt skapa umhverfi svo fýsilegt sé fyrir framkvæmdaaðila á almennum markaði að byggja húsnæði.

Fólki á Íslandi er að fjölga hratt og það er fyrirséð að hér þurfi að byggja meira. Við vorum á réttri leið, en það hefur komið bakslag á síðustu árum og það má helst rekja til skorts á byggingarhæfum lóðum á nýjum svæðum. Þar hefur höfuðborgin á vakt Samfylkingarinnar borið mesta ábyrgð. Seðlabankinn hefur boðið upp á eitraðan kokteil með sinni stefnu. Hátt vaxtastig sem meðal annars eykur kostnað við byggingu húsnæðis og dregur úr vilja framkvæmdaaðila og hert lánþegaskilyrði sem torvelda kaupendum að stíga skref inn á fasteignamarkaðinn. Þannig hefur verið hlaðið í snjóhengju kynslóða sem bíða eftir tækifæri til að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Þvert á það sem þörf er á.

Að lokum

Við höfum þann eiginleika að vera tiltölulega bjartsýn þjóð. Við búum í góðu samfélagi og ég hef hér farið yfir margar góðar aðgerðir en líka þá hlið þar sem við þurfum að gera betur. Það er hægt. Við skulum tala samfélagið okkar upp, en ekki niður.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Categories
Fréttir Greinar

Fjár­fest í menningu

Deila grein

24/06/2024

Fjár­fest í menningu

Í dag er stór dagur þegar samþykktar voru breytingar á frumvarpi Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra á listamannalaunum í fyrsta skipti í 15 ár. Listamannalaun eða starfslaun listamanna eru þungamiðjan í kjörum listamannsins og markmið þeirra er að efla listsköpun í landinu. Listamenn eru mikilvægustu sendiherrar lands og þjóðar og halda merki Íslands á lofti dag hvern í alþjóðasamfélaginu.

Tímabærar breytingar

Listsköpun er afar mikilvæg hverri þjóð og nauðsynlegt að kjör listamanna haldist í horfi við kjör annarra í hagkerfinu. Fjöldi starfslauna hefur haldist óbreyttur í 15 ár eða frá því að gildandi lög tóku gildi árið 2009 auk þess sem umfang listamannalauna hefur staðið í stað frá árinu 2012, utan tímabundinnar aukningar á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru. Með þessum breytingum er verið að fjölga launasjóðum sem starfslaun eru veitt úr og fjölga árlegum úthlutunarmánuðum. Starfslaunamánuðum verður fjölgað úr 1.600 í 2.490 á fjórum árum. Mikilvægt er að umfang og fyrirkomulag listmannalauna sé endurmetið reglulega. Síðustu ár hefur fólki í landinu fjölgað, áherslur á listsköpun tekið breytingum og eftirspurn eftir listamannalaunum og árangurshlutfall umsækjenda í mismunandi sérgreinda sjóði vaxið.

Vegsemd

Þær breytingar sem hér eru komnar fram eru veigamiklar. Fyrst má nefna nýjan sjóð – Vegsemd sem er þverfaglegur sjóður fyrir listamenn 67 ára og eldri sem hafa varið starfsævi sinni til listsköpunar. Ekki er gert ráð fyrir að listamenn sæki beint um framlög úr sjóðnum heldur að listamenn 67 ára og eldri sæki um úthlutun úr hinum sérgreindu sjóðum í samræmi við sína listgrein. Lagt er til að starfslaun úr Vegsemd megi veita til allt að fimm ára í senn auk þess sem fallið er frá því að starfslaunaþegum beri að skila skýrslu um störf sín á starfslaunatíma.

Nýr kvikmyndasjóður

Þá kemur inn nýr sjóður fyrir kvikmyndahöfunda og er sjóðurinn í samræmi við kvikmyndastefnu stjórnvalda til ársins 2030. Með kvikmyndahöfundum er átt við bæði leikstjóra og handritshöfunda auk þess sem aðrir aðalhöfundar kvikmynda geta fallið þar undir, þar á meðal höfundar heimildarmynda. Þriggja manna nefnd, sem ráðherra skipar árlega, mun úthluta fé úr launasjóðnum sem Samtök kvikmyndaleikstjóra og Félag leikskálda og handritshöfunda skulu hvort um sig tilnefna þrjá nefndarmenn í.

Mikilvægi stuðnings við listamenn

Stuðningur í formi listamannalauna gríðarlega mikilvægur fyrir bæði listamennina sjálfa og samfélagið í heild, hér er um að ræða fjárfestingu sem skilar sér margfalt til baka til samfélagsins. Listamannalaun veita listamönnum öryggi og svigrúm til að einbeita sér að sköpun sinni án þess að þurfa að hafa áhyggjur af fjárhagslegum vandamálum. Með þessu fá þeir tækifæri til að þróa hæfileika sína, vinna að nýjum og krefjandi verkefnum og skapa verk sem geta haft djúpstæð áhrif á menningu okkar og samfélag. Listamenn gegna lykilhlutverki í að móta og spegla menninguna. Listamannalaun stuðla þannig að því að tryggja fjölbreytileika og nýsköpun í listum, sem er nauðsynlegt fyrir heilbrigt og þróttmikið menningarlíf.

Það er ljóst að með því að veita listamönnum listamannalaun erum við ekki aðeins að styðja við einstaklingana sjálfa, heldur einnig að efla menningu okkar, auðga samfélagið og styrkja efnahagslífið. Ég fagna þessum breytingum sem munu ævinlega stuðla að því að skapa umhverfi þar sem listir og menning geta blómstrað til hagsbóta fyrir alla.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. júní 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Sjálfsmynd þjóðarinnar endurspeglast í tungumálinu

Deila grein

19/06/2024

Sjálfsmynd þjóðarinnar endurspeglast í tungumálinu

Ný­af­staðið 80 ára lýðveldisaf­mæli mark­ar ákveðin tíma­mót í sögu þjóðar­inn­ar sem veit­ir til­efni til að líta yfir far­inn veg og horfa fram á við. Íslensk tunga er samof­in þjóðarsál­inni og lék lyk­il­hlut­verk í sjálf­stæðis­bar­áttu þjóðar­inn­ar. Þá jafnt sem nú voru mál­efni tungu­máls­ins fólki hug­leik­in. Á tím­um sjálf­stæðis­bar­átt­unn­ar stóð ís­lensk­an frammi fyr­ir áskor­un­um vegna auk­inn­ar dönsku­notk­un­ar, sér­stak­lega í stjórn­kerf­inu og mennta­kerf­inu. Þannig komu til að mynda lög Íslands út bæði á dönsku og ís­lensku, en danska út­gáf­an ein var und­ir­rituð af kon­ung­in­um og hafði þannig meira vægi í stjórn­skip­an lands­ins. Þessu var harðlega mót­mælt af sjálf­stæðis­sinn­um lands­ins, þ.m.t. Jóni Sig­urðssyni for­seta. Með þessu fyr­ir­komu­lagi væri verið að taka af Íslend­ing­um þeirra nátt­úru­lega rétt, sem lif­andi þjóðtunga eins og ís­lensk­an hefði, og ættu lög­in því ein­göngu að vera á ís­lensku. Án ís­lensk­unn­ar byggi um sig í land­inu önn­ur þjóð og ókunn­ug eins og Jón for­seti hélt fram.

Líkt og á tím­um Jóns, þá stend­ur tungu­málið okk­ar í dag frammi fyr­ir um­fangs­mikl­um áskor­un­um af áður óþekkt­um toga. Í fyrsta lagi, þá er ensk­an mál tækn­inn­ar og hún er alls staðar. Börn eru kom­in í ná­vígi við ensku strax við mál­töku og sér mál­vís­inda­fólkið okk­ar breyt­ing­ar á mál­töku barna vegna þessa. Í öðru lagi hef­ur Ísland breyst mikið sem sam­fé­lag á síðasta ald­ar­fjórðungn­um en inn­flytj­end­ur voru um 1% fyr­ir 30 árum en eru í dag um 16%. Flest­ir hafa komið hingað í leit að betra lífi og jafn­vel ýms­ir sem hafa elt maka sinn hingað til lands og stofnað fjöl­skyldu. Meg­inþorri þessa fólks hef­ur eflt landið með nýrri þekk­ingu og straum­um. Í þriðja lagi, þá reiðir ein stærsta út­flutn­ings­grein­in okk­ar sig á enska tungu í viðskipt­um sín­um en það á reynd­ar líka við um hluta sjáv­ar­út­vegs og bygg­inga­starf­semi.

Til að ná utan um þess­ar áskor­an­ir þýðir ekk­ert annað en að sýna dugnað og metnað! Við get­um sótt fram en á sama tíma varið tungu­málið okk­ar, og náð ár­angri í þágu þess. Við höf­um náð ákveðnum ár­angri, þannig hef­ur ís­lensk­an sótt veru­lega í sig veðrið í heimi tækn­inn­ar. Stærstu tæknifyr­ir­tæki heims hafa tekið mál­tækni­lausn­um Íslands opn­um örm­um og ákveðið að inn­leiða ís­lensk­una í viðmót sín. Frum­kvæði okk­ar í þess­um mál­um hef­ur vakið at­hygli víða. Þá samþykkti Alþingi í vor nýja aðgerðaáætl­un í þágu ís­lensk­unn­ar – þar eru tutt­ugu og tvær aðgerðir sem all­ar miða að því að styrkja tungu­málið. Þá hef­ur umræða um tungu­málið og þróun þess verið lif­andi og al­menn á und­an­förn­um miss­er­um, sem er vel og sýn­ir fram á að okk­ur sem þjóð er virki­lega um­hugað um stöðu Íslensk­unn­ar – rétt eins og kann­an­ir sýna. Við vilj­um að hér verði töluð ís­lenska um ókomna framtíð, og því skipt­ir máli að við vinn­um heima­vinn­una okk­ar vel og höld­um áfram að hlúa að tungu­mál­inu okk­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. júní 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Farsælt íslenskt lýðveldi í 80 ár

Deila grein

17/06/2024

Farsælt íslenskt lýðveldi í 80 ár

Ákvarðanir sem tekn­ar eru í dag skipta kom­andi kyn­slóðir máli. Kyn­slóðirn­ar í dag njóta góðs af þeim verk­um sem brautryðjend­ur fyrri tíma börðust fyr­ir. Því er fagnað í dag að lýðveldið Ísland fyll­ir 80 árin. Með stofn­un lýðveld­is­ins hinn 17. júní 1944 náðist loka­mark­miðið í sjálf­stæðis­bar­áttu þjóðar­inn­ar eft­ir áfanga­sigra ára­tug­anna á und­an. Þeir sigr­ar voru born­ir uppi af eld­hug­um þeirra tíma, sem höfðu þá bjarg­föstu trú að ís­lenskri þjóð myndi farn­ast best á grund­velli sjálf­stæðis.

Í amstri hvers­dags­leik­ans og dæg­urþrasi stjórn­mál­anna vill það kannski stund­um gleym­ast hversu um­fangs­mikl­ar sam­fé­lags­breyt­ing­ar hafa orðið á Íslandi og hvernig Ísland hef­ur í fyll­ingu tím­ans farið úr því að vera eitt fá­tæk­asta ríki í Evr­ópu yfir í að verða að einu mesta vel­meg­un­arþjóðfé­lagi ver­ald­ar. Full­veldið árið 1918 og að lok­um sjálf­stæðið árið 1944 voru horn­stein­ar þeirr­ar framtíðar sem átti eft­ir að fylgja í kjöl­farið, sem byggð var á for­send­um og ákvörðunum Íslend­inga sjálfra um eig­in framtíð.

Viðskiptafrelsi grund­völl­ur póli­tísks frels­is

Stund­um er sagt að drop­inn holi stein­inn. Það er hægt að heim­færa upp á bar­áttu Íslend­inga fyr­ir sjálf­stæði lands­ins. End­ur­reisn Alþing­is árið 1845 skapaði vett­vang fyr­ir þá sem stóðu í stafni sjálf­stæðis­bar­átt­unn­ar til þess að setja á odd­inn gagn­vart Dana­kon­ungi ýmis þau fram­fara­mál sem skiptu fram­gang þjóðar­inn­ar máli. Í hug­um margra var versl­un­ar­frelsi samofið þjóðfrels­inu, enda var það mál­efni fyr­ir­ferðar­mikið á hinu end­ur­reista Alþingi – og skyldi eng­an undra í ljósi tæp­lega 200 ára af danskri ein­ok­un­ar­versl­un frá ár­inu 1602, sem var af­num­in með frí­höndl­un­ar­lög­um sem giltu í tæp 70 ár, og fólu í sér ákveðnar til­slak­an­ir sem mörkuðu upp­hafið að því að ís­lensk­ir kaup­menn komu fram á sjón­ar­sviðið, þó svo að þeir hafi verið í minni­hluta á tíma­bil­inu. Ríkt ákall var eft­ir fullu versl­un­ar­frelsi enda var það álitið grund­völl­ur póli­tísks frels­is þjóðar­inn­ar fram á veg­inn. Birt­ist þetta meðal ann­ars í orðum af­mæl­is­barns dags­ins, Jóns Sig­urðsson­ar, sem hann ritaði í bréfi nokkru sem stílað var á bróður hans þann 29. júní 1852, þar sem Jón rit­ar: „Ef verzl­un­ar­frelsi kæm­ist á, þá vildi eg helzt kom­ast heim að verða þar, því þá veit eg pólitiskt frelsi kem­ur á ept­ir.“ Það urðu því ákveðin vatna­skil hinn 1. apríl 1855 þegar rík­isþing Dan­merk­ur samþykkti lög um versl­un­ar­frelsi sem heim­ilaði kaup­mönn­um annarra ríkja að versla við Íslend­inga og inn­lend­um versl­un­ar­mönn­um gafst nú kost­ur á að leigja er­lend skip fyr­ir starf­semi sína. Hin nýju lög áttu eft­ir að leggja grund­völl að inn­lend­um pönt­un­ar- og versl­un­ar­fé­lög­um í land­inu, sem var vita­skuld mik­il breyt­ing.

Þjóð meðal þjóða

Um­turn­un hef­ur orðið á ís­lensku sam­fé­lagi frá þeim tím­um sem rakt­ir eru hér að ofan en þessi dæmi­saga geym­ir mik­il­væg­an lær­dóm. Stofn­un lýðveld­is­ins veitti Íslandi rödd í alþjóðasam­fé­lag­inu, bæði meðal þjóða og alþjóðastofn­ana. Sem sjálf­stætt ríki hef­ur Ísland látið rödd sína heyr­ast á alþjóðavett­vangi og yfir lýðveld­is­tím­ann hef­ur frjáls­ræði og mögu­leik­ar ís­lensks viðskipa­lífs auk­ist veru­lega, meðal ann­ars á grund­velli aðild­ar okk­ar að EES-samn­ingn­um sem trygg­ir frelsi í flutn­ingi vara, þjón­ustu, fjár­magns og vinnu­afls milli aðild­ar­landa samn­ings­ins, sem og fríversl­un­ar­samn­inga sem Ísland hef­ur gert á grund­velli EFTA en einnig tví­hliða við stórþjóðir í heim­in­um svo dæmi séu tek­in. Sam­hliða þessu hef­ur stoðum at­vinnu­lífs­ins fjölgað úr einni í fjór­ar og út­flutn­ings­tekj­ur þjóðarbús­ins marg­fald­ast sem skipt­ir miklu máli fyr­ir lítið og opið hag­kerfi eins og okk­ar. Þá er nán­ast sama hvar borið er niður í sam­an­b­urði á lífs­kjör­um og lífs­gæðum ým­is­kon­ar milli ríkja, Ísland mæl­ist þar nán­ast und­an­tekn­inga­laust meðal efstu ríkja í heim­in­um, sem er eft­ir­tekt­ar­verður ár­ang­ur fyr­ir fá­menna þjóð í Atlants­hafi. Þeim kyn­slóðum sem komu á eft­ir for­vígs­mönn­um sjálf­stæðis­bar­átt­unn­ar og tóku við sjálf­stæðiskefl­inu hef­ur þannig vegnað vel í að sækja fram í þágu ís­lenskra hags­muna á grund­velli sjálfs­ákvörðun­ar­rétt­ar þjóðar­inn­ar. Ekk­ert verður hins veg­ar til úr engu, en lands­menn hafa borið gæfu til að nýta auðlind­ir lands­ins á sjálf­bær­an hátt og styðja þannig við öfl­ugt vel­ferðarsam­fé­lag, þar sem all­ir eiga að fá tæki­færi til að lifa gæfu­ríku lífi óháð efna­hag. Ávallt þarf að huga að efna­hags­legu sjálf­stæði þjóðar­inn­ar, líkt og Jón gerði forðum daga, enda legg­ur það grunn­inn að fram­sókn lands og þjóðar.

Fögn­um lýðveld­inu

Það eru for­rétt­indi að búa í lýðræðis­sam­fé­lagi eins og okk­ar og geta fagnað lýðveldisaf­mæli sem þessu. Við sjá­um það víða er­lend­is að sótt er að þeim gild­um sem við grund­völl­um sam­fé­lag og stjórn­ar­far okk­ar á. Það er óheillaþróun sem þarf sporna við. Við Íslend­ing­ar þurf­um að halda áfram að rækta lýðveldið, fjör­eggið okk­ar, og allt það sem því fylg­ir. Það ger­um við meðal ann­ars með virkri þátt­töku þjóðfé­lagsþeg­anna, heil­brigðum skoðana­skipt­um, þátt­töku í kosn­ing­um og að fagna áföng­um eins og deg­in­um í dag um allt land. Ég óska lands­mönn­um öll­um til ham­ingju með 80 ára af­mæli lýðveld­is­ins og megi Ísland vera frjálst og sjálf­stætt um ókomna tíð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin bitist fyrst í Morgunblaðinu 17. júní 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Það eru lög í landinu

Deila grein

15/06/2024

Það eru lög í landinu

Hér á landi hefur ÁTVR einkaleyfi til afhendingar og smásölu áfengis. Markmið laga um verslun með áfengi eru m.a. að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis sem byggist á bættri lýðheilsu, samfélagslegri ábyrgð og vernd ungs fólks. Þannig er einkasölufyrirkomulag áfengis liður í forvarnastefnu og lögin eru skýr sama hversu oft sem því er haldið fram að þau séu óskýr. Ef breyta á sölufyrirkomulaginu hér á landi þarf það að gerast eftir lýðræðislega umræðu og lagasetningu, slík ákvörðun er ekki í höndum verslana án samhengis við forvarnarstefnu.

Hvers vegna stýrt aðgengi?

Alþjóðlegar leiðbeiningar um forvarnir mæla með stýrðu aðgengi að áfengi. Vinna að forvörnum er margþætt verkefni sem snertir öll svið samfélagsins. Forvarnarvinna er ekki eins og hlaðborð þar sem hægt er velja eina aðgerð eða eina leið til að ná árangri. Vinna að forvörnum er miklu frekar eins og vefur eða net þar sem hver þráður þarf að halda. Ef einn þráður slitnar hefur það áhrif á öll önnur verkefni í vefnum.

Þrátt fyrir einkasöluna hefur aðgengi að áfengi á Íslandi aukist gríðarlega mikið síðustu áratugi. Sérfræðingar í lýðheilsu hafa síðustu vikur bent á birtingarmyndir áhrifa aukins aðgengis að áfengi á lýðheilsu fullorðinna s.s. að hópurinn sem drekkur áfengi flesta daga stækkar og drykkja á mann, mæld í hreinum vínanda, eykst með ýmsum fylgikvillum. Áfengi er einn af fjórum algengustu áhættuþáttum langvinnra sjúkdóma og hefur t.d. orðið sjöföldun á áfengistengdum lifrarsjúkdómum á 20 árum. Þá eru komnar fram vísbendingar um vaxandi drykkju ungmenna, sem verður að teljast verulegt áhyggjuefni.

Ætlum við að glopra niður góðum árangri?

Rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á með afgerandi hætti að aukið aðgengi að áfengi hefur slæm áhrif á heilsufar einstaklinga auk þess að hafa neikvæðar félagslegar afleiðingar.

Fyrr í mánuðinum skrifaði okkar helsti sérfræðingur í lyf- og fíknilækningum, Valgerður Rúnarsdóttir, grein á Vísi þar sem hún spyr: „Í alvöru, krakkar! Ætlum við að hafa þetta svona? Að láta lýðheilsu framtíðar lönd og leið ef einhverjir geta makað krókinn í dag?“

Ég tek heilshugar undir hennar spurningar. Það er horft til markverðs árangurs Íslendinga við að draga úr áfengisneyslu barna og ungmenna með áratuga vinnu. Stýrt aðgengi, há skattlagning ásamt fræðslu og samvinnu skólasamfélaga í gegnum íslenska forvarnarmódelið hafa skilað þessum árangri. Hættan er að missa þetta allt niður – málið er einfalt, það þarf að fara að áfengislögum og stöðva „gervinetsölu“ annars slítum við forvarnarvefinn.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. júní 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Brosum breitt

Deila grein

14/06/2024

Brosum breitt

Fyrsti heildstæði langtímasamningurinn um þjónustu tannlækna var undirritaður í morgun milli Tannlæknafélags Íslands og Sjúkratrygginga. Það má með sanni segja að það hafi verið nóg að gera síðasta ár hjá Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra við að leiða saman hópa að samningaborðinu. Nú er búið að semja við sérfræðilækna, sjúkraþjálfara og tannlækna allt með 5 ára samningum sem unnir eru í breiðri sátt. Þessi góði árangur á svo skömmum tíma er eftirtektarverður.

Greiðsluþátttaka tryggð

Með nýjum samningi er greiðsluþátttaka vegna tannlækninga fyrir börn, aldraða og öryrkja tryggð næstu fimm árin. Þá mun meðferðum sem greiddar eru af Sjúkratryggingum Íslands vera fjölgað. Auk þess er horft í samningnum til nútímavæðingar með hliðsjón af nýjungum á fjölda sviða tannlækninga en samningurinn mun að mestu snerta á verklagi tannlækna og gagnasamskiptum við Sjúkratryggingar. Samningurinn mun taka að í gildi að hluta til þann 1. júlí nk. og að fullu leyti þann 1. september nk.

Endurskoðun á reglugerð

Samhliða samningsgerðinni hefur verið unnið að heildarendurskoðun reglugerðar um þátttöku sjúkratryggðra við tannlækningar. Meðal annars verður fallið frá skilyrði um mat tannlæknadeildar sem forsendu fyrir greiðsluþátttöku í tannréttingum vegna alvarlegra meðfæddra galla en Sjúkratryggingum Íslands verður heimilt að kalla eftir slíku mati við upphaf tannréttingaferilsins. Lengi hefur verið kallað eftir þessum breytingum og nú hefur verið hlustað.

Bætt tannheilsa

Það er ljóst að þessi samningur mun leiða af sér bætta tannheilsu barna, aldraðra og öryrkja. Hér er um að ræða enn einn samning sem hefur það að markmiði að draga úr greiðsluþátttöku fólks fyrir heilbrigðisþjónustu og stuðla að jöfnu aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Aukin greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga síðustu fjögur ár hefur stuðlað að því að fjöldi einstaklinga sem leita sér þjónustu tannlækna aukist. Rétt er að geta þess að til viðbótar við þennan samning voru styrkfjárhæðir vegna almennra tannréttinga nær þrefaldaðar í september á síðasta ári. Sú hækkun varð möguleg í kjölfar tímamótasamnings Sjúkratrygginga og tannréttingasérfræðinga sem undirritaður var í júlí í fyrra.

Það ber að hrósa því sem vel er gert, og langar mig í dag að hrósa samningsaðilum sérstaklega fyrir vel unnin störf. Lengi hefur verið kallað eftir samningum sem þessum og nú eru þeir loksins í höfn. Það er svo sannarlega ástæða til þess að brosa breytt.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. júní 2024.

Categories
Greinar

Fjárfestum í lýðheilsu – aðstaða fyrir alla

Deila grein

11/06/2024

Fjárfestum í lýðheilsu – aðstaða fyrir alla

Mosfellsbær er landmikið sveitarfélag með nær óþrjótandi möguleikum á að njóta útivistar. Hér eru græn svæði frá fjöru til fjalla.

Áhersla fólks og áhugi á að það séu byggð upp útivistarsvæði og aðstaða til hreyfingar í nærumhverfi þess hefur líka aukist mikið með árunum. Það er orðinn sjálfsagður hlutur að flest íþrótta- og tómstundafélög eigi svæði, fasteignir og annað er tiheyrir þeirra sérsviði og samfélagsleg sátt virðist vera um að verja hluta af okkar sameiginlegu sjóðum í að byggja það upp.
Á síðasta ári fóru rúm 9% af skatttekjum Mosfellsbæjar til íþrótta- og æskulýðsmála en það eru um 1,7 milljarðar króna. Fyrir þetta fjármagn rekum við meðal annars sundlaugar og íþróttamannvirki, styrkjum íþrótta- og tómstundastarf og rekum félagsmiðstöð. Auk þess var varið um 260 milljónum til fjárfestinga í aðstöðu á árinu 2023 og áætlað er að fjárfesta fyrir um 990 milljónir á þessu ári í íþrótta- og tómstundamannvirkjum.

Breytingar kalla á samtal

Það er að mörgu að huga þegar svæði eru skipulögð og sér í lagi þegar breytingar eru gerðar. Þá þarf að huga að hagsmunum oft ólíkra hópa. Það er nú einmitt tilfellið í þeim hugmyndum sem uppi eru um að gera breytingar á Hlíðavelli.

Mosfellsbær hefur gert samkomulag við Golfklúbb Mosfellsbæjar um að stækka völlinn til að hægt sé að gera breytingar á honum. Breytingarnar ganga aðallega út á að snúa vellinum þannig að frekara öryggis sé gætt á göngu-, hjóla- og reiðstígum í kringum völlinn.

Samkomulagið er tilkomið vegna hættu sem hefur skapast við nýja byggð við Súluhöfða og nálægð húsa við völlinn. Öryggi þessara íbúa í og við sín heimili er lykilforsendan fyrir því að bæjarstjórn samþykkti einróma í desember að ráðast í þetta verkefni með Golfklúbbi Mosfellsbæjar.
Skipulagsmál eru í eðli sínu lýðræðislegasta ferli stjórnsýslunnar. Þegar skipulagið fyrir þetta svæði liggur fyrir þá munu hagaðilar eins og Hestamannafélagið Hörður og íbúar í nágrenninu fá tækifæri til að rýna það og koma með athugasemdir.

Það verður enginn afsláttur gefinn af því þrátt fyrir vilja bæjarstjórnar og Golfklúbbsins til að ráðast í þessar breytingar. Svona breytingar þýða þó alltaf málamiðlanir og að sætta ólík sjónarmið.

Nýtum strandlengjuna saman

Við þurfum að ganga um þessar auðlindir okkar sem felast í grænum svæðum, útsýni og ósnertri náttúru af virðingu og það verður ekki ráðist í framkvæmdir á nýjum svæðum nema að vel ígrunduðu máli og að teknu tilliti til allra sjónarmiða.

Í mörg ár hefur útivistarfólk, hvort sem það eru golfarar, hestamenn, gangandi, hlaupandi eða hjólandi, notið þess að nýta strandlengjuna saman sem útivistarparadís. Það þurfum við að gera áfram en það þarf auðvitað að vera í fyrirrúmi tillitssemi og aðgát hjá okkur öllum sem nýtum þetta svæði og sýna samstöðu svo allir geti notið þess.

Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs
Sævar Birgisson, varaformaður skipulagsnefndar

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 6. júní 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fögnum lýðveldinu

Deila grein

10/06/2024

Fögnum lýðveldinu

Hand­an við hornið er merk­is­áfangi í sögu ís­lensku þjóðar­inn­ar en þann 17. júní næst­kom­andi verða liðin 80 ár frá því að stofn­un lýðveld­is­ins átti sér stað hér á landi. Með því lauk sam­bandi milli Íslands og Dan­merk­ur sem staðið hafði yfir í ald­ir og stjórn­ar­far­inu sem við þekkj­um í dag var komið á. Á ferðum og fund­um mín­um und­an­farið bera þessi tíma­mót nokkuð reglu­lega á góma í sam­töl­um mín­um við fólk. Þökk sé góðu lang­lífi hér á landi er drjúg­ur hóp­ur núlif­andi Íslend­inga sem fædd­ist und­ir dönsk­um kóngi. Átta­tíu ár eru í raun ekki það lang­ur tími þegar maður hugs­ar út í það, en breyt­ing­arn­ar sem orðið hafa á ís­lensku sam­fé­lagi eru ótrú­leg­ar. Frá því að vera eitt fá­tæk­asta ríki Evr­ópu, yfir í það að vera í fremstu röð lífs­kjara í heim­in­um sam­kvæmt helstu mæl­ing­um. Þannig hef­ur sjálf­stæðið reynst bless­un í sókn okk­ar fram á við, blásið í okk­ur enn frek­ari kjarki til þess að gera bet­ur. Það er óbilandi trú mín að það stjórn­ar­far sem er far­sæl­ast bygg­ist á því að ákv­arðanir um vel­ferð fólks eru tekn­ar sem næst fólk­inu sjálfu.

Lýðveldið er hraust og sprelllifn­andi eins og ný­af­staðnar for­seta­kosn­ing­ar eru til vitn­is um. Öflug­ur hóp­ur fram­bjóðenda gaf þar kost á sér til að gegna embætti for­seta Íslands, fjöl­marg­ir sjálf­boðaliðar lögðu for­setafram­bjóðend­um lið með ýms­um hætti og kjör­sókn var sú besta í 28 ár. Allt upp­talið er mikið styrk­leika­merki fyr­ir lýðræðis­sam­fé­lag eins og okk­ar. Því miður er sótt að lýðræði og gild­um þess víða um heim í dag. Það er óheillaþróun sem sporna þarf við. Lýðræðið þarf nefni­lega að rækta og standa vörð um. Þar gegn­ir virkt þátt­taka borg­ar­anna lyk­il­hlut­verki, hvort sem það felst í að bjóða sig fram til embætta, skrifa skoðanap­istla, baka vöffl­ur í kosn­inga­bar­áttu, bera út kosn­inga­bæklinga eða mæta á kjörstað. Allt þetta er hluti af virku lýðræðisþjóðfé­lagi.

Mik­il­væg­ur hluti af því að rækta lýðveldið og lýðræðið er að fagna því og halda upp á mik­il­væga áfanga í sögu þess. Kom­andi lýðveldisaf­mæli er ein­mitt slík­ur áfangi en fjöl­breytt hátíðardag­skrá verður út um allt land í til­efni af 17. júní. Einnig hef­ur nefnd skipuð full­trú­um for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins, menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins, skrif­stofu Alþing­is, skrif­stofu for­seta Íslands og Þing­vallaþjóðgarðs. Nefnd­in hef­ur unnið að und­ir­bún­ingi viðburða til að halda upp á tíma­mót­in um allt land á næstu mánuðum.

Sjálf mun ég fagna þjóðhátíðar­deg­in­um vest­ur á Hrafns­eyri, fæðingastað Jóns Sig­urðsson­ar, þar sem verður skemmti­leg dag­skrá í til­efni lýðveldisaf­mæl­is­ins og einnig 1150 ára af­mæl­is Íslands­byggðar. Ég vil hvetja sem flesta til þess að taka þátt í að fagna 80 ára af­mæli lýðveld­is­ins, enda er það fjör­egg okk­ar sem við verðum að hlúa að til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júní 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Það eina örugga í lífinu

Deila grein

06/06/2024

Það eina örugga í lífinu

Síðustu misseri hafa verið fréttir af rekstrarvanda líkhúsa á Íslandi. Það er morgunljóst að skýra þarf frekar stöðu þeirra hér á landi og hvernig rekstri þeirra verði best háttað til framtíðar. Móta þarf stefnu og skilgreina hver ber ábyrgð á látnum einstaklingi frá dánarvottorði til greftrunar í kirkjugarði og heimila líkhúsum gjaldtöku. En það er ekki einungis rekstrarvandi líkhúsa sem þarf að greina og finna framtíðarlausn á, við þurfum einnig að huga að með hvaða hætti sé best að koma okkur öllum fyrir til eilífðarnóns.

Dýrmætt landrými

Eftir því sem okkur fjölgar, fjölgar þeim látnu. Það liggur fyrir að andlátum mun fjölga um 100% á næstu 20 árum. Samkvæmt lögum má ekki grafa látinn einstakling nema í viðurkenndum grafreit eða kirkjugarði. Sífellt meira landsvæði fer því undir kirkjugarða og erfiðleikar við að finna hentugan stað aukast eftir því sem árin líða. Landrými í þéttbýli er dýrmætt og leggst það á sveitarfélög að leggja til aukið landrými fyrir kirkjugarða.

Þróun síðustu ára sýnir að sífellt fleiri kjósa að láta brenna sig en áður, duftreitir taka mun minna pláss og því væri ákjósanlegt að við myndum færa okkur í auknum mæli í þá áttina. Veruleikinn er sá að bálstofur og líkbrennsla er þjóðhagslega hagkvæmt verkefni. Því fylgir að minna landsvæði þarf að skipuleggja og hirða. Undir eina gröf þarf að gera ráð fyrir 2,5 m á lengd og 1,40 m á breidd. Undir duftker eru stærðarmörkin 75cm*75cm.

Jafnt aðgengi að bálstofum

En eins og staðan er í dag er aðeins ein bálstofa á landinu. Hún var byggð árið 1946, er fyrir löngu komin til ára sinna og er rekin á undanþágu. Ef horft er blákalt á stöðuna er ljóst að það borgar sig að hafa einungis eina bálstofu á landinu vegna fámennis og smæðar. En þá þarf að huga að með hvaða hætti hægt er að jafna kostnaðinn fyrir alla landsmenn þannig að bálför sé raunverulegur og aðgengilegur kostur.

Hver er framtíðin?

En þá komum við aftur að rekstrarvandanum, hver er það sem á að starfrækja líkhús og bálstofur hér á landi? Á það að vera á hendi ríkisins, sveitarfélaga eða einkaaðila? Hvernig viljum við að líkhús og kirkjugarðar landsins þróist á komandi árum? Þessa umræðu þurfum við að taka. Ef við horfum til nágrannalanda okkar er það afar misjafnt með hvaða hætti þetta er gert. Eitt er þó víst og það er að þörf á gagngerri endurskoðun á lögum um kirkjugarða.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. júní 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fjarheilbrigðisþjónusta

Deila grein

05/06/2024

Fjarheilbrigðisþjónusta

Nú í maímánuði voru samþykktar breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Með þessum breytingum var verið að bæta inn í lögin ákvæðum um fjarheilbrigðisþjónustu, skýringum á þeirri þjónustu sem flokkast þar undir ásamt ákvæði um upplýsingaöryggi. Hér er um að ræða enn eitt góða málið frá Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra og því ber að fagna.

En hvað er fjarheilbrigðisþjónusta?

Fjarheilbrigðisþjónusta er ört vaxandi hluti almennrar heilbrigðisþjónustu og notkunarmöguleikar hennar eru fjölmargir og þróunin hröð. Hugtakið fjarheilbrigðisþjónusta er nú í lögunum skilgreint sem nýting stafrænnar samskipta- og upplýsingatækni til að veita heilbrigðisþjónustu þar sem aðilar eru ekki á sama stað á sama tíma. Undir þetta falla þættir eins og fjarsamráð, fjarvöktun, myndsamtöl, netspjall og hjálparsími og er nánar fjallað um inntak þessara þátta í lögunum. Þá fellur velferðartækni einnig þarna undir og er þá vísað til notkunar á stafrænum tæknilausnum í heilbrigðisþjónustu sem styður búsetu einstaklinga í heimahúsi.

Hagnýting tækni á sviði fjarheilbrigðisþjónustu og notkun ýmiss konar snjallforrita skapar stöðugt ný tækifæri óháð staðsetningu. Ljóst er að ávinningurinn af árangursríkri innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu er ótvíræður fyrir sjúklinga, fyrir heilbrigðisstarfsmenn, heilbrigðisstofnanir og samfélagið í heild.

Betri nýting á mannauði

Við þekkjum öll þá umræðu að manna stofnanir okkar með okkar helsta fagfólki til að mæta aukinni eftirspurn. Með fjarheilbrigðisþjónustu höfum við möguleika á að nýta betur þann mannauð sem býr í kerfinu ásamt því að efla samvinnu milli stofnana og landsvæða, auka hagkvæmni, gera þjónustu aðgengilega óháð búsetu og stuðla að nýsköpun. Tækifæri opnast á samvinnu sérfræðinga og teymisvinnu við heilsugæslur á landsbyggðinni og með því færi á að nýta betur fjölbreytta menntun og reynslu heilbrigðisstarfsmanna.

Áframhaldandi innleiðing fjarheilbrigðisþjónustu er liður í því að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í heilbrigðisþjónustu með breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og aukinni eftirspurn eftir þjónustu.

Betra aðgengi

Með markvissri uppbyggingu fjarheilbrigðisþjónustu skapast ráðrúm til að veita enn betri heilbrigðisþjónustu um land allt. Betri tækifæri eru til staðar til þess að veita snemmtæka íhlutun, samfellu í umönnun sjúklinga ásamt því að auðveldara verður að fylgjast með einstaklingum með langvinna sjúkdóma. Auk þess, með því að nýta tæknina í auknum mæli má draga úr tímafrekum ferðalögum sjúklinga sem þurfa að sækja sérhæfða þjónustu í öðrum landshlutum með tilheyrandi raski á daglegu lífi og tilkostnaði. Það þekkjum við sem búum úti á landi.

Hér er um að ræða mikilvægt og stórt skref inn í framtíðina. Ávinningurinn er skýr, ekki síst í því að ná markmiðum okkar um að auka og jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og draga úr kostnaði almennings við að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Það er og hefur verið stefna okkar í Framsókn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. júní 2024.