Categories
Greinar

Hver er Akureyri framtíðar?

Deila grein

13/09/2024

Hver er Akureyri framtíðar?

Akureyri er blómlegur bær, með öll lífsins gæði; er mikilvæg miðstöð þjónustu og skýr valkostur fyrir þau okkar sem vilja búa í þægilegu borgarumhverfi á þessu landshorni frekar en öðru. Þannig viljum við örugglega öll hafa það og á þeim forsendum viljum við, held ég flest, að bærinn haldi áfram að vaxa og dafna. En hvað þarf til, og hvað getur komið í veg fyrir að bærinn sé og verði besta útgáfan af sjálfum sér?

Allskonar

Hæfir stjórnendur vita það mæta vel að alls konar er ekki stefna, og án stefnu er harla erfitt að örva vöxt og bæta samkeppnishæfni. Samfélög lúta alveg sömu lögmálum. Þau samfélög sem móta sér skýra sýn á hvernig þau vilja þróast áfram, og hvers konar bæjarlíf þau vilja skapa sér, sjá undantekningarlaust aukinn árangur af sinni vinnu. Það sem meira er, þegar vel er haldið á málum þá þróast atvinnulífið iðulega eftir slíkri sameiginlegri sýn. Þá þarf að vera til leiðarvísir og aðgerðaráætlun, sem tengja saman auðlindir, stefnu og frumkvæði til að nýta staðbundinn styrkleika, takast á við áskoranir og fanga tækifærin.

Þurfum við að gera eitthvað?

Ég staðhæfði hér fyrir ofan að alls konar er ekki stefna. Að vona það besta er sannarlega alls engin stefna. Góðir hlutir gerast hægt og við þurfum að hafa fyrir þeim. Eða, kannski gerast þeir hratt en undirbúningurinn er langur. Millilandaflug frá Akureyri er gott dæmi um ávextina sem spretta þegar jarðvegurinn er undirbúinn af kostgæfni. Sveitarfélög og ferðaþjónustufyrirtæki  landshlutans settu sér það metnaðarfulla markmið fyrir allnokkrum árum að hér skyldi hefjast millilandaflug og stofnuðu, af töluverðri forsjálni, flugklasa um það verkefni. Með dugnaði og þrautseigju hefur tekist að koma Akureyrarflugvelli á kortið, með tilheyrandi lífsgæðum fyrir íbúa og ótöldum tækifærum fyrir atvinnulífið. Vegalaus staður hefur upp á lítið að bjóða í alþjóðlegri samkeppni. Verkefninu er hvergi nærri lokið og sannarlega ekki tímabært að nema staðar og kasta frá sér verkfærunum.

Þetta á aldrei eftir að raungerast

Ég er afskaplega hræddur um að þetta sé of algengt viðhorf og auðvelt fyrir kjörna fulltrúa að falla í gryfju sem þessa. Slíkt hugarfar er augljóslega aldrei gagnlegt og sem betur fer hefur þróun bæjarins ekki stjórnast af þannig sofandahætti. Hefði það verið raunin, þá væri Akureyri tæplegast sá blómlegi háskólabær sem hann er í dag. Bærinn væri þá ekki heldur jafn aðlaðandi fyrir þau mörgu þekkingarfyrirtæki sem starfa hér í dag, eða önnur öflug fyrirtæki sem þurfa á fjölbreyttu vinnuafli og þekkingu að halda. Atvinnulífið okkar er sannarlega ekki þjakað af þessu hugarfari. Við sjáum það glöggt á fyrirtækjum eins og Slippnum, sem hefur verið í stöðugri framþróun síðustu ár og sækir stíft ný tækifæri og nýja markaði. Kjörnir fulltrúar eiga að sjálfsögðu að taka atvinnulífið sér til fyrirmyndar og temja sér jákvætt hugarfar gagnvart uppbyggingu og sköpun verðmæta.

Þarf bærinn  að stækka?

Hugarfar sem ég hef reyndar skilning á. Ef allt er gott, hvers vegna þá að breyta nokkru – og vill maðurinn í fúlustu alvöru breyta bænum í Reykjavík? Það held ég nú ekki! Auðvitað á Akureyri að þróast á sínum forsendum. Atvinnuvegir eru hins vegar ekki ónæmir fyrir breytingum og þróun bæjarlífs ekki heldur. Breytingar eru óhjákvæmilegar hvort sem okkur líkar betur eða verr. Svipull er sjávarafli, síldin kemur og síldin fer, eins og sagt er og nágrannar okkar þekkja svo mætavel. Ef við horfum ekki fram á veginn og sjáum sóknarfærin þegar þau gefast, þá er stöðnun næsta vís og hún er helst til gjörn á að bjóða heim hnignuninni. Og það er nú ekki gestur sem við viljum fá í bæinn okkar, því hún er nær alltaf þaulsetin.

Framtíðin ræðst af forsjálni

Framtíðin ræðst af forsjálni. Við þurfum að rýna til framtíðar og móta hana strax á okkar eigin forsendum. Tæknibreytingar eru hraðar, samkeppnin um auðlindir hörð, miklar umbreytingar eru að verða á vinnumarkaði og svo mætti lengi telja. Við eigum að setja okkur vandaða og metnaðarfulla atvinnu- og framtíðarstefnu, með skýrum markmiðum sem byggja á styrkleikum sveitarfélagsins.

Hvar liggja möguleikarnir og hvernig viljum við að bærinn okkar þróist?

Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 13. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Öryggismál verða áfram á oddinum

Deila grein

12/09/2024

Öryggismál verða áfram á oddinum

Á und­an­förn­um 15 árum hef­ur ferðaþjón­usta átt stór­an þátt í því að renna styrk­ari stoðum und­ir ís­lenskt efna­hags­líf. Vöxt­ur henn­ar hef­ur aukið fjöl­breytni at­vinnu­lífs­ins um allt land og skapað ný tæki­færi fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki. Vexti nýrr­ar at­vinnu­grein­ar fylgja áskor­an­ir sem mik­il­vægt er að fást við. Þannig leiðir til að mynda fjölg­un ferðamanna af sér verk­efni sem snúa að ör­ygg­is­mál­um og slysa­vörn­um. Eitt af for­gangs­mál­un­um í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu á þessu kjör­tíma­bili hef­ur verið að styrkja um­gjörð ferðaþjón­ust­unn­ar í víðum skiln­ingi og búa henni hag­felld skil­yrði til þess að vaxa og dafna með sjálf­bær­um hætti til framtíðar í sátt við nátt­úru, menn og efna­hag. Í þings­álykt­un um ferðamála­stefnu og aðgerðaáætl­un til 2030, sem samþykkt var í júní 2024 og unn­in var í breiðri sam­vinnu fjölda hagaðila, er á nokkr­um stöðum að finna áhersl­ur sem lúta að ör­ygg­is­mál­um í ferðaþjón­ustu. Öryggi ferðamanna snert­ir mála­flokka sem heyra und­ir ýmis ráðuneyti, stofn­an­ir og sam­tök, og úr­bæt­ur á því sviði krefjast sam­starfs og sam­hæf­ing­ar þvert á stjórn­völd og at­vinnu­líf.

Í aðgerðaáætl­un ferðamála­stefnu er að finna sér­staka aðgerð sem snýr að bættu ör­yggi ferðamanna.

Mark­miðið er skýrt: að tryggja ör­yggi ferðamanna um land allt, eins og kost­ur er, hvort sem um er að ræða á fjöl­sótt­um áfanga­stöðum eða á ferð um landið al­mennt. Sér­stak­ur starfs­hóp­ur mun á næstu vik­um taka til starfa til þess að fylgja þess­ari aðgerð eft­ir, en verk­efni hans er að greina ör­ygg­is­mál í ferðaþjón­ustu, vinna að fram­gangi þeirra og tryggja sam­tal á milli aðila. Í því sam­hengi mun hóp­ur­inn meðal ann­ars skoða upp­lýs­inga­gjöf, hvernig skrán­ingu slysa og óhappa er háttað, áhættumat á áfanga­stöðum, upp­færslu viðbragðsáætl­un­ar, fjar­skipta­sam­band, viðbragðstíma viðbragðsaðila og sam­ræmda og skýra upp­lýs­inga­gjöf til ferðamanna. Starfs­hóp­ur­inn starfar á víðum grunni en hann skipa full­trú­ar Ferðamála­stofu, menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is, dóms­málaráðuneyt­is, heil­brigðisráðuneyt­is, innviðaráðuneyt­is, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðuneyt­is og Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar. Miðað er við að starfs­hóp­ur­inn hafi víðtækt sam­ráð í starfi sínu, meðal ann­ars við aðrar stofn­an­ir, sveit­ar­fé­lög, fag­fé­lög, mennta­stofn­an­ir og ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæki. Miðað er við að hóp­ur­inn skili til­lög­um sín­um í áföng­um og að fyrstu skil verði 1. des­em­ber 2024. Við erum staðráðin í því að efla Ísland sem áfangastað í víðum skiln­ingi þess orð, og byggja á þeim góða grunni sem hingað til hef­ur verið lagður. Alltaf má hins veg­ar gera bet­ur og það er mark­miðið með því að hrinda nýrri ferðamála­stefnu í fram­kvæmd, meðal ann­ars með ör­ygg­is­mál­in áfram á odd­in­um.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. september 2024.

Categories
Greinar

Ég svelt þá í nafni kven­réttinda

Deila grein

09/09/2024

Ég svelt þá í nafni kven­réttinda

„Ég svelt þá í nafni kvenréttinda” eru orð foreldris sem mætti á borgaraþing um málefni 0-6 ára í Reykjavík vegna gagnrýni á heimgreiðslur. Skoðunin er sennilega speglun á skoðun margra heimila í sömu stöðu sem eru búin með fæðingarorlofið og róa þungan róður vegna tekjutaps því að dagvistunarpláss eru af skornum skammti. Róðurinn er enn þyngri í þrálátri verðbólgu þó að þú sýnir fyrirhyggju með því að dreifa fæðingarorlofinu yfir lengri tíma eða jafnvel sparir fyrir tekjutapinu sem fylgir barneignum. Hvað þá ef einungis eitt foreldrið getur aflað tekna á meðan beðið er eftir dagvistun.

Ekkert er nýtt undir sólinni

Hugmyndir um greiðslur til foreldra vegna umönnunar barna sinna eru ekki nýjar af nálinni hérlendis. Slíkar greiðslur hafi gengið undir ýmsum nöfnum m.a. foreldrastyrkur, heimgreiðsla, umönnunargreiðsla, foreldragreiðsla, biðlistagreiðsla og þjónustutrygging.

Árið 2008 var sett á þjónustutrygging í Reykjavík sem fól í sér greiðslur til foreldra á meðan börn þeirra voru á biðlista eftir dagvistun. Nýlega hafa nokkur sveitarfélög tekið upp slíkar greiðslur til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Í dæmaskyni má nefna Hafnarfjörð, Garðabæ og Hveragerði. Umræddar umönnunargreiðslur eiga það þó sameiginlegt að falla niður þegar barn fær dagvistun.

Umönnunargreiðslur eru einnig vel þekktar á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu. Ólíkt því sem tíðkast hérlendis hefur markmið þeirra erlendis jafnan verið að auka val foreldra. Hérlendis hefur yfirlýst markmið þeirra hins vegar ekki verið að auka val foreldra, heldur frekar að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og dagvistar. Greiðslurnar hafa því verið bundnar við virka umsókn um dagvistun og hafa þær fallið niður þegar vistun hefst.

Ógn við jafnrétti?

Ég hef alla tíð verið mikill femínisti og er alin upp við mikilvægi þess að tryggja réttindi kvenna. Því situr í mér sú staðhæfing sem stundum er haldið fram að heimgreiðslur vinni gegn jafnrétti. Þau sem eru á móti heimgreiðslum hafa meðal annars bent á möguleg áhrif á jafnrétti kynjanna þar sem konur séu líklegri til að vera heima vegna þeirra. Slík röksemdafærsla virðist byggð á því að fólk geti valið að senda barn ekki í leikskóla og fengið greiðslur heim í staðinn. Það er þó ekki í takt við það sem hefur átt sér stað hérlendis enda hafa greiðslurnar, eins og fyrr segir, verið bundnar við virka umsókn um dagvistun barns. Þannig má segja að foreldrið sem fær greiðslurnar væri því hvort sem er heima að hugsa um barnið, án tekna, vegna þess að barnið fær ekki dagvistun að fæðingarorlofi loknu. Greiðslurnar koma þá að einhverju leyti til móts við það tekjutap sem foreldrar verða fyrir vegna þess að börn fá ekki dagvistun strax að loknu fæðingarorlofi. Það má því spyrja sig hvort betra er að foreldrar séu heima alveg án tekna eða fái greiðslur sem að hjálpa til við að halda heimilisbókhaldinu réttu megin við núllið.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi leikskólans fyrir menntun og þroska barna og fyrir tekjuöflun og þátttöku foreldra á vinnumarkaði. Leikskólakerfið hefur einnig stuðlað að jafnari atvinnuþátttöku foreldra. En ef við horfum á stöðuna í leikskólamálum blákalt er ljóst að sú staða mun ekki breytast í bráð jafnvel þó að það sé eitt að forgangsverkefnum sveitarfélaga að tryggja yngstu íbúunum leikskólavist. Því þó við myndum bæta við nægjanlega mörgum byggingum undir starfsemi leikskóla og tryggja ávallt nægilegt fjármagn þá þarf að manna stöður leikskólakennara sem eru ekki að finna á hverju strái. Fjölgun einstaklinga í mikilvægri stétt leikskólakennara er verðugt markmið en það mun taka tíma og því þarf að leita annarra leiða og lausna til að mæta foreldrum sem eru í bráðum vanda og bíða eftir dagvistunarplássi. Það er bara ekki hægt að gera ekki neitt.

Markmiðið með þjónustutryggingunni í Reykjavík árið 2008 var að tryggja „jafnræði borgaranna og jafnrétti kynja, að því leyti að gera báðum foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.“ Krafa var gerð um virka umsókn um dagvistun og greiðslurnar voru skilyrtar þannig að hvort foreldri um sig fékk að hámarki greitt fyrir 2/3 af heildartímabilinu. Slík skilyrðing á greiðslu getur verið mótvægi við hættunni á að einungis konur nýti sér umræddar greiðslur og stuðlar að því að báðir foreldrar skipti umönnunartímabilinu á jafnari hátt sín á milli, líkt og við þekkjum í fæðingarorlofskerfinu.

Þá hefur því verið haldið fram að það séu börnin sem mest þurfi á því að halda að fara í leikskóla sem séu heima vegna heimgreiðslna, t.d. börn innflytjenda sem þurfi að tileinka sér tungumál þess lands sem þau búa í. Þetta á ekki við rök að styðjast því að heimgreiðslurnar eru skilyrtar þannig að þær falla niður þegar tilboð um dagvistun berst og vistun hefst. Ljóst er þó að huga þarf sérstaklega að börnum sem eru ekki í leikskóla, greina hvers vegna svo er og hvort ástæða sé til að mæta því með einhverjum hætti. Einnig þarf að huga sérstaklega vel að börnum af erlendum uppruna og tungumálakunnáttu þeirra og ef til vill er mögulegt að vera með íslenskukennslu á þessum biðtíma. Við þurfum að hafa hugrekki til að horfa út fyrir kassann og leita leiða til bæta hag foreldra ungra barna þó ekki sé hægt að ná óskastöðunni strax. Það er hagur okkar allra að á Íslandi sé skapaður jarðvegur sem öll börn geta blómstrað í.

Hvað er börnunum fyrir bestu?

Rannsóknir hafa ítrekað bent á mikilvægi fyrstu áranna í lífi einstaklings og tengsl foreldra og barna. Þau sem hafa verið hlynnt valfrjálsum heimgreiðslunum hafa bent á það og telja að það sé almennt betra fyrir ung börn að vera lengur í umönnun foreldra. Margir foreldrar vilja þá dvelja lengur heima með börnum sínum eftir fæðingu.

Mín skoðun er sú að það eigi að vera á ábyrgð ríkisins að þróa fæðingarorlof í samræmi við vilja og óskir foreldra og sveitarfélaganna að bjóða upp á dagvistun til að foreldrar geti stundað vinnu. Ríkið gæti því lengt fæðingarorlofið til að mæta röddum foreldra sem vilja vera lengur heima. Reyndar er það svo að ríki og sveitarfélög hafa skuldbundið sig til að vinna saman að því að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla í síðustu kjarasamningum.

Heimgreiðslur geta hins vegar létt undir með foreldrum sem eru tilneyddir að taka lengra hlé frá vinnu en sem nemur fæðingarorlofi, vegna þess að þau fá ekki dagvistunarpláss, og hjálpað þeim að forðast fjárhagslega krísu. Erfiður fjárhagur hefur ekki síður áhrif á stöðu barna en foreldra á marga vegu. Heimgreiðslur geta því verið ákveðin lausn til að mæta foreldrum sem hafa lokið fæðingarorlofi en eru í bið eftir leikskólavist og væru án þeirra tekjulausir þetta tímabil með tilheyrandi fjárhagsbasli og álagi á tíma sem á að vera gefandi og gleðiríkur með þeim sem erfa munu landið.

Ef samþykkt verður að taka upp heimgreiðslu þarf að rýna vel félagslegu áhrifin af þeim s.s. áhrif á jafnrétti og velferð barna en gæta um leið að missa ekki sjónar á markmiðinu um að bjóða upp á nægjanlegt framboð af dagvistun að fæðingarorlofi loknu, svo foreldrar geti stundað nám sitt eða vinnu og lagt sitt að mörkum til að byggja upp okkar ágæta velferðarkerfi.

Fyrst og fremst snýst þetta um börnin og foreldra þeirra, sem mörg hver eru í stórkostlegum vanda með að brúa bilið og ná endum saman. Við eigum að hlusta á foreldra og taka þeirra óskum og ábendingum alvarlega. Þær eru ekki aukaatriði og stjórnmálin verða hverju sinni að ganga varlega þann veg að ákveða hvað sé fólki fyrir bestu og takmarka möguleika þeirra til að lifa lífi sínu á eigin forsendum út frá hugmyndafræði. Nú ríkir neyðarástand hjá foreldrum barna sem bíða eftir dagvistun meðal annars vegna innviðaskuldar síðustu kjörtímabila í viðhaldi skólabygginga og skorts á starfsfólki. Það er okkar verkefni að létta róðurinn með því að leggjast á árarnar og brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Tímabundnar og skilyrtar heimgreiðslur eru einn valkostur til þess að leysa úr þessum vanda. Við megum ekki gleyma því að börn og foreldrar lifa þennan raunveruleika í dag, á meðan rifist er yfir gömlum kreddum.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Breytingar, gjörið svo vel

Deila grein

07/09/2024

Breytingar, gjörið svo vel

Lykillinn að því að geta veitt borgarbúum góða þjónustu er að reka borgina með ábyrgum hætti. Í upphafi kjörtímabilsins kom í ljós 16 milljarða halli á borgarsjóði. Meirihlutinn einsetti sér að snúa honum í afgang á tveimur árum. Í fyrra náðist með markvissum hagræðingaraðgerðum að minnka hallann um tæpa 11 milljarða. Sex mánaða uppgjör borgarinnar í ár sýnir að við erum komin réttu megin við núllið og skilum tæplega 200 milljóna króna afgangi. Verkefninu er þó ekki lokið.

Þetta er í fyrsta sinn í fimm ár sem A – hluti borgarinnar er rekinn með afgangi en A-hluti borgarinnar er sá hluti rekstrarins sem er fjármagnaður með skatttekjum. Rekstrarniðurstaða bæði A- og B-hluta er einnig jákvæð um 406 milljónir og er 7,1 milljarði betri en á sama tíma í fyrra. Í A- og B- hluta eru fyrirtæki borgarinnar reiknuð með, m.a. Orkuveitan sem er langstærsta fyrirtæki borgarinnar.

Stöðugildi standa í stað milli ára

Þetta er áfangasigur fyrir meirihlutann í borginni og þetta er áfangasigur fyrir borgarbúa. Verkefnið er að halda áfram á sömu braut. Síðan ég settist í borgarstjórn og við í Framsókn í meirihluta borgarstjórnar höfum við séð jákvæð merki um að fjármálin séu að þróast í rétta átt með skýrum rekstraráherslum og höfum raunar verið í hagræðingaraðgerðum allt kjörtímabilið.

Stærstur hluti útgjalda borgarinnar eru laun. Þess vegna skiptir miklu máli að sýna aðhald í ráðningum. Undanfarin ár hefur stöðugildum fjölgað en nú höfum við innleitt ráðningarreglur og stafræna yfirsýn til þess að ná betri tökum á starfsmannafjölda. Í sex mánaða uppgjörinu sjáum við hversu vel þetta nýja verklag virkar, stöðugildi borgarinnar standa í stað milli ára þrátt fyrir að íbúum fjölgi og þjónusta sé aukin.

Með innri hagræðingu, betra skipulagi og sama starfsmannafjölda hjá borginni náum við að veita ört stækkandi hópi Reykvíkinga betri þjónustu í velferðarmálum, skólamálum, fjölskyldum á flótta og bætum snjómokstur og sorphirðu svo fátt eitt sé nefnt.

Skýr fókus á markmiðin

Jákvætt sex mánaða uppgjör gefur góð fyrirheit um framhaldið en við erum ekki komin fyrir vind. Nú er unnið að fjárhagsáætlun næsta árs og það er afar mikilvægt að sýna áfram þétt aðhald enda brýnt að eyða ekki um efni fram. Ég er þakklátur öflugum hópi stjórnenda borgarinnar sem vinnur samhentur með meirihlutanum að því að snúa við rekstri borgarinnar í anda þeirra breytinga sem við höfum sett á oddinn.

Áætlanir fyrir næstu misseri eru skýr, að taka fleiri skref í átt að ábyrgum rekstri og skapa svigrúm til þess að bæta enn frekar þjónustu við Reykvíkinga.

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Tölum um sam­keppni í land­búnaði

Deila grein

05/09/2024

Tölum um sam­keppni í land­búnaði

Síðan frumvarp matvælaráðherra um breytingar á búvörulögum gekk í gildi á vordögum hafa umræður verið háværar í fjölmiðlum um spillingu, einokun og hagsmunapot formanns atvinnuveganefndar á málinu. Síðast í gær fór Kastljós RÚV vandlega yfir meintan glæpaferil málsins.

Samkeppni landbúnaðarins á Íslandi

Í Kastljósi gærdagsins var rætt um samkeppni í landbúnaði á Íslandi og látið í veðri vaka að hann væri einungis í þágu bænda og afurðastöðva á kjötvörumarkaði og móti þessu mætti íslenski neytandinn síns lítið. Að vegna þessara breytinga á búvörulögum væri samkeppnin orðin engin og að ólöglegt samráð ríki.

Íslensk framleiðsla á landbúnaðarafurðum fyrir neytendamarkað býr víð gríðarlega samkeppni við erlenda aðila. Ef við erum að tala um kjötmarkaðinn þá jókst innflutningur á kjöti um 17% á árinu 2023. Hlutfallsaukning á innfluttu kjöti hefur verið svipuð í nokkur ár og nú þegar er 30% af heildarmarkaði svína og nautakjöts innfluttur.

Kjötframleiðsla innanlands árið 2023 var alls 30.076 tonn. Af því var kindakjöt 8000 tonn og hefur minnkað um 2000 tonn frá árinu 2017. Það er ljóst að íslenskt lambakjöt á í gríðarlegri samkeppni við aðra kjötframleiðslu og innflutningur sækir stöðugt á. Afurðastöðvar í sauðfjárrækt, sem eru í minni sniðum en tíðkast erlendis og eru starfræktar í sex vikur yfir árið, eru því augljóslega Davíð gegn Golíat í þessu samhengi.

Ég held að Samkeppniseftirlitið geti hallað sér rólega aftur því markaðurinn sér fullkomlega um aðhaldið. Með umræddum breytingum er vonandi hægt að styrkja íslenska sauðfjárframleiðslu og aðra íslenska kjötframleiðslu, þó ekki nema til að verjast falli. Samkeppniseftirlitið ætti frekar að taka stöðu með íslenskum afurðum og þá íslenskum neytendum í leiðinni líkt og er verið að gera í löndunum í kringum okkur.

Matvælaöryggi

Á dögunum var rætt um matvælaöryggi og að við þyrftum sem eyþjóð að beina sjónar okkar að því. Það felst þjóðhagslegt öryggi í því að huga að innlendri matvælaframleiðslu og tryggja fæðuöryggi. Við höfum hlýtt kalli markaðarins um innflutning og þá um leið fjölbreytni í vöruúrvali og lægra matvælaverði í einhverjum tilfellum. En í mörgum tilfellum er innflutningur matvöru óbeinn stuðningur við lága staðla í umhverfismálum, hreinlæti, heilbrigði og dýravelferð. Þá erum við líka að byggja undir léleg kjör og aðbúnað bænda og landbúnaðarverkafólks.

Um meinta hagsmunaárekstra

Í Kastljósi var oftar en tvisvar minnst á að formaður atvinnuveganefndar og framsögumaður málsins, Þórarinn Ingi Pétursson, hafi gengið þennan veg með eigin hagsmuni að leiðarljósi. Ég verð að segja að það hefur verið lágt hjá honum tímakaupið og þeirra sem hafa barist fyrir þessu í áraraðir. Framsókn hefur lagt fram frumvarp sama efnis síðan ég lagði það fram í nóvember 2018. Þegar Þórarinn Ingi kom inn á þing sem varamaður tók hann við málinu og hefur lagt það fram sem framsögumaður í sinni þingmennsku. Málið var unnið í samráði og samvinnu við Bændasamtökin, sem hafa stutt málið frá fyrstu framlagningu. Hagsmunir Þórarins Inga snúa að 2.8 milljóna inneign í afurðastöð sem hann og aðrir sauðfjárbændur áttu og KS hefur keypt núna. Inneignin hefur safnast upp á 12 árum þegar sauðfjárbændur hafa þurft að leggja til hluta af innleggi sínu til að rétta af tap á rekstri. Þórarinn Ingi hefur þó gefið út þá yfirlýsingu að hann ætli ekki að innheimta sinn hlut við þessa sölu. Við sem þingmenn berum ábyrgð á hagsmunum þjóðarinnar og í þessu máli var hugsað um hagsmuni heildarinnar.

Við í Framsókn höfum ávallt verið óhrædd við að benda á það augljósa; að það þurfi að styðja og vernda íslenska landbúnaðinn. Með því að styðja við íslenska landbúnaðarframleiðslu tryggjum við ekki aðeins fæðuöryggi, heldur verndum einnig störf fólks og tryggjum fjölbreytni atvinnulífsins. Það gleymist nefnilega oft að þúsundir einstaklinga starfa við matvælaframleiðslu hér á landi.

Með því að efla íslenskan landbúnað er hægt að draga úr niðursveiflunni í hagkerfinu og um leið tryggja fæðu- og matvælaöryggi í landinu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ofbeldið skal stöðvað

Deila grein

03/09/2024

Ofbeldið skal stöðvað

Þjóðin er harmi sleg­in eft­ir að frétt­ir bár­ust af því að eitt okk­ar, Bryn­dís Klara Birg­is­dótt­ir, 17 ára, lést í kjöl­far al­var­legra áverka sem henni voru veitt­ir. Það er þyngra en tár­um taki að þetta hafi gerst í okk­ar sam­fé­lagi. Sorg­in er enn erfiðari þar sem um er að ræða unga mann­eskju sem átti bjarta framtíð fyr­ir sér. Öll þjóðin finn­ur fyr­ir missin­um og sárs­auk­an­um í svona harm­leik.

Í gegn­um tíðina höf­um við búið í sam­fé­lagi þar sem tíðni al­var­legra glæpa er lág í alþjóðleg­um sam­an­b­urði. Hins veg­ar hafa á und­an­förn­um árum reglu­lega borist frétt­ir af al­var­leg­um at­vik­um hjá ungu fólki þar sem gróft of­beldi hef­ur fengið laus­an taum­inn og vopn­um er beitt, hvort sem það er inn­an veggja skóla, skemmti­staða eða á al­manna­færi. Það gef­ur auga­leið að þessi þróun er al­gjör­lega óviðun­andi og við verðum öll að stöðva hana. Að sama skapi verðum við að skilja hvað veld­ur þess­ari breyt­ingu til að geta breytt sam­fé­lag­inu til betri veg­ar. Að und­an­förnu hafa stjórn­völd í aukn­um mæli sett þunga í að mæta þess­um nýja veru­leika og munu gera það sem þarf til að stöðva þessa þróun. Þetta er eitt stærsta sam­fé­lags­verk­efni okk­ar og er ég sann­færð um að þjóðarátak gegn of­beldi muni skila okk­ur ár­angri og gera sam­fé­lagið ör­ugg­ara. Ísland er sterkt sam­fé­lag og hef­ur tek­ist á við mikl­ar áskor­an­ir í gegn­um tíðina. Við ætl­um okk­ur að vinna bug á þess­ari þróun og snúa henni við – og það get­um við. Slíkt hef­ur tek­ist í öðrum lönd­um og þangað þurf­um við meðal ann­ars að líta. Öll finn­um við hvernig harm­leik­ur sem þessi slær okk­ur og við vilj­um ekki að slíkt end­ur­taki sig. Sam­vinna fjöl­marga aðila mun skipta máli á þeirri veg­ferð sem er fram und­an. Hvort sem um er að ræða lög­reglu­yf­ir­völd, frí­stunda­heim­ili, skóla­sam­fé­lagið í víðu sam­hengi, for­eldra, fé­lags­miðstöðvarn­ar, heil­brigðis­kerfið, fé­lagsþjón­ust­una, barna­mála­yf­ir­völd, íþrótta­fé­lög, lista­fólkið okk­ar og síðast en ekki síst unga fólkið sjálft.

Tök­um hönd­um sam­an og snú­um þess­ari þróun við sem sam­fé­lag. Að því sögðu sendi ég fjöl­skyldu og vin­um Bryn­dís­ar mín­ar inni­leg­ustu samúðarkveðjur.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Gæði náms

Deila grein

02/09/2024

Gæði náms

Góður náms­ár­ang­ur er liður í því að tryggja far­sæld barna og far­sæld ein­stak­linga er mik­il­væg und­ir­staða ár­ang­urs í námi. Þess vegna verður metnaður alls starfs­fólks í skóla­kerf­inu að snú­ast um hvort tveggja; gæði náms og far­sæld.

Stefna og for­ysta stjórn­valda

Sveit­ar­fé­lög­in bera ábyrgð á skóla­starfi í leik- og grunn­skól­um en ríkið í fram­halds­skól­um og há­skól­um, engu að síður verður rík­is­valdið að axla ábyrgð á for­ystu í mennta­mál­um í sam­vinnu við hagaðila. Í þeim efn­um hafa mik­il­væg skref verið stig­in á síðustu árum og verið er að stíga enn fleiri mik­il­væg skref. Þessi vinna hef­ur í sum­ar vakið mik­il­væga þjóðfé­lagsum­ræðu um skóla­mál. Umræðan hef­ur til þessa einkum snú­ist um náms­mat en mik­il­vægt er að umræðan haldi áfram og að hún víkki út til fleiri viðfangs­efna.

Um­bóta­skref í sam­ræmi við stefnu

Mennta­stefna til árs­ins 2030 var samþykkt á Alþingi árið 2021, og er hún bæði byggð á alþjóðlegu sam­starfi og víðtæku sam­ráði inn­an­lands. Nú er unnið að inn­leiðingu stefn­unn­ar í sam­ræmi við fyrstu aðgerðaáætl­un­ina. Ein af aðgerðunum í inn­leiðing­unni er upp­bygg­ing heild­stæðrar skólaþjón­ustu um land allt sem styður við nám og far­sæld barna og ung­menna.

Mark­miðið er að stuðla að öfl­ugri skólaþróun með fjöl­breytt­um verk­efn­um sem kenn­ar­ar, skóla­stjórn­end­ur, annað fag­fólk og nem­end­ur hafa frum­kvæði að. Með öðrum orðum: það á að byggja upp öfl­uga stoðþjón­ustu til að styðja við starfið í skól­un­um en við meg­um aldrei missa sjón­ar á því að grunnþjón­ust­an fer fram í skól­un­um og þar þarf barnið að ná ár­angri.

Á síðasta ári samþykkti Alþingi ný lög um Miðstöð mennt­un­ar og skólaþjón­ustu og tók stofn­un­in til starfa 1. apríl sl. Miðstöðin er þjón­ustu­stofn­un með skýrt stuðnings- og sam­ræm­ing­ar­hlut­verk vegna skóla­starfs á leik-, grunn- og fram­halds­skóla­stigi og hún er í lyk­il­hlut­verki við inn­leiðingu mennta­stefnu.

Árið 2021 voru líka samþykkt lög um samþætta þjón­ustu í þágu far­sæld­ar barna, lög­in tóku gildi árið 2022 og áætlað er að ljúka inn­leiðingu þeirra á þrem­ur til fimm árum.

Þannig helst inn­leiðing mennta­stefnu og laga um far­sæld barna í hend­ur und­ir for­ystu mennta- og barna­málaráðuneyt­is, enda far­sæld og ár­ang­ur í námi órjúf­an­lega tengd eins og áður sagði.

Næstu skref

Kynnt hef­ur verið að í vet­ur fái Alþingi til um­fjöll­un­ar frum­vörp til laga um náms­gögn, breyt­ing­ar á ákvæðum laga um náms­mat í grunn­skól­um og frum­varp um inn­gild­andi mennt­un þar sem stefna um skólaþjón­ustu er út­færð. Einnig er áætlað að leggja fram stefnu og fram­kvæmda­áætl­un um far­sæld barna, og mun sú stefna marka ákveðin þátta­skil í inn­leiðingu far­sæld­ar­lag­anna.

Það er því al­veg ljóst að það er margt sem við þurf­um að ræða auk náms­mats­ins, s.s. náms- og kennslu­gögn fyr­ir allt mennta­kerfið, ytra og innra mat á skóla­starfi, áfram­hald­andi fjölg­un kenn­ara­nema og inn­tak náms fag­fólks sem vinn­ur með börn­um og ung­menn­um, nem­enda­lýðræði, ís­lensk­una og mennt­un barna og ung­menna með fjöl­breytt­an tungu­mála- og menn­ing­ar­bak­grunn sem og starfsþróun skóla­fólks.

Það er sann­ar­lega verið að bæta heild­ar­sýn í mennta­mál­um og stíga mik­il­væg og nauðsyn­leg fram­fara- og um­bóta­skref.

Við þurf­um að halda áfram að ræða um yf­ir­stand­andi breyt­ing­ar, mark­mið, gæði og ár­ang­ur í mennta­mál­um.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar og sit­ur í alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd Alþing­is.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Er ekki allt í gulu?

Deila grein

02/09/2024

Er ekki allt í gulu?

Gulur september er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. Um er að ræða mikilvæga og árlega vitundarvakningu þar sem fjölmargir taka höndum saman og vekja athygli á mikilvægi geðheilbrigðis og sjálfsvígsforvarna. Í gulum september sameinumst við á þeirri vegferð að vekja upp von.

Gulur er litur sjálfsvígsforvarna, táknrænn fyrir þá vitundarvakningu sem á sér stað, táknar von, hlýju og birtu ásamt því að vekja upp jákvæðar tilfinningar. Slagorð mánaðarins „er ekki allt í gulu?“ vísar til samkenndar; þess að láta sig náungann varða og hlúa að geðheilsunni.

Fjölbreytt dagskrá verður í tengslum við Gulan september sem hefst með formlegri opnun í ráðhúsi Reykjavíkur. Þann 10. september er alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna og eru landsmenn hvattir til að taka þátt og klæðast gulu.

Lífsbrú

Margt jákvætt hefur gerst á undanförnum árum þegar kemur að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum hér á landi. Verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna vinnur með miðstöð sjálfsvígsforvarna sem ber heitið Lífsbrú. Markmið miðstöðvarinnar er að vinna að sjálfsvígsforvörnum í samræmi við aðgerðaráætlun stjórnvalda.

Nafnið Lífsbrú vísar til vitundarvakningar á breiðum grunni um mikilvægi uppbyggilegs og heilbrigðs lífs, allt frá frumbernsku og leggur einnig huglæga brú yfir til þeirra sem haldnir eru sjálfsvígshugsunum; það er alltaf von.

Samhliða opnun miðstöðvarinnar var settur á laggirnar Lífsbrú-sjóður sem ætlað að byggja enn frekar undir sjálfsvígsforvarnir í samræmi við aðgerðaráætlun stjórnvalda.

Uppfærð aðgerðaráætlun

Forvarnir eru viðvarandi verkefni. Starfshópur vinnur nú að því að uppfæra aðgerðaráætlun í sjálfsvígsforvörnum í samræmi við lýðheilsu- og geðheilbrigðisstefnu.

Jafnframt er Ísland þátttakandi í Evrópuverkefninu ,,Joint Action ImpleMENTAL 2022-2024“ sem meðal annars snýr að innleiðingu gagnreyndra sjálfsvígsforvarna og nýtist vel í mótun framtíðarsýnar og aðgerðaráætlunar í sjálfsvígsforvörnum.

Samvinnuverkefni

Geðrækt og forvarnir eru samvinnuverkefni sem er samofið samfélaginu og snertir flesta anga þess. Þannig geta kraftar öflugs hugsjónafólks, félagasamtaka og stjórnvalda komið saman að umbótum og er Lífsbrú vettvangur slíkrar samvinnu. Framlag þessa hugsjónafólks og félagasamtaka er þakkarvert.

Ég vil hvetja sem flest til að taka þátt í gulum september og kynna sér dagskrána sem finna má á vef Embættis Landlæknis.

Við skulum stöðugt minna okkur á að það er alltaf von. Réttum út hjálparhönd, sýnum hlýju, skilning og samhug; framhald seiglu og vonar; allt í gulu.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­sóknar­flokkurinn tryggir heil­brigðis­þjónustu í Suðurnesjabæ

Deila grein

02/09/2024

Fram­sóknar­flokkurinn tryggir heil­brigðis­þjónustu í Suðurnesjabæ

Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa lengi kallað eftir því að heilsugæsluþjónusta verði veitt í sveitarfélaginu. Við í Framsókn hófum tafarlaust samtöl við þingmenn okkar í Suðurkjördæmi, Sigurð Inga, fjármálaráðherra, Jóhann Friðrik og Hafdísi Hrönn, til að þrýsta á málið. Einnig höfum við átt fundi og samtöl við Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. Með miklum samtakamætti og samvinnuhugsjónina að leiðarljósi er þetta mikilvæga réttlætismál nú að raungerast – heilbrigðisþjónusta verður brátt í boði í heimabyggð fyrir okkar íbúa. Með tvo bæjarfulltrúa í Suðurnesjabæ, þrjá þingmenn í Suðurkjördæmi og heilbrigðisráðherra er slagkraftur okkar í Framsókn mikill.

Ráðherra sem lætur verkin tala

Framsóknarflokkurinn hefur tekið mikilvægt skref í átt að því að tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir íbúa Suðurnesjabæjar. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, hefur unnið þrekvirki í því að efla heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum.

Í nýlegri viljayfirlýsingu, sem undirrituð var á dögunum, kemur fram að unnið verði markvisst að því að opna heilbrigðisþjónustu í Suðurnesjabæ. Starfsemin mun fara fram í húsnæði Suðurnesjabæjar að Miðnestorgi 3 eigi síðar en 1. maí 2025 og tryggja þannig íbúum aðgengi að þjónustunni í heimabyggð. Grundvöllur skipulags heilbrigðisþjónustunnar er að allir íbúar séu skráðir á heilsugæslustöð sem næst lögheimili, þannig verður heilsugæslan sterk undirstaða heilbrigðiskerfisins. Willum Þór heilbrigðisráðherra hefur sagt að það sé algjört forgangsatriði að bæta heilsugæsluna á Suðurnesjum, og það hefur hann sýnt í verki.

Samtal sveitarstjórnarmanna við þingmenn og ráðherra skiptir máli

Það er staðföst trú mín að samtal á milli sveitarstjórnarmanna, þingmanna og ráðherra skipti gríðarlega miklu máli. Við, sem sveitarstjórnarfólk, skynjum betur nærumhverfið og erum í nánari tengslum við byggðarkjarnana sem við störfum í og þarfir þeirra. Þess vegna er mikilvægt að miðla þessum upplýsingum áfram inn í landsmálin, svo að allir rói í sömu átt. Samtal við þingmenn og ráðherra Framsóknarflokksins hefur verið einstaklega gott, og mikill skilningur hefur verið á því að veita þessu stóra og mikilvæga málefni framgöngu. Einnig hafa Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS), og Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ, unnið frábæra vinnu og sett mikinn kraft í verkefnið svo það geti raungerst með skjótum hætti.

Stefna Framsóknarflokksins um heilbrigðismál undirstrikar þetta vel: „Heilbrigðiskerfið er hornsteinn samfélagsins og byggir undir hagsæld þjóðarinnar. Heilbrigðiskerfið byggir á félagslegum grunni þar sem hið opinbera tryggir landsmönnum jafnt aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Framsókn leggur áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um heilbrigðiskerfið og umfram allt tryggja jafnt og tímanlegt aðgengi að öflugri heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu.“

Framsóknarflokkurinn er flokkur samvinnu og frjálslyndis og er hreyfiafl framfara í samfélaginu. Þetta hefur Willum Þór heilbrigðisráðherra sýnt í verki.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. ágúst 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Getum við sparað saman?

Deila grein

31/08/2024

Getum við sparað saman?

Við erum stöðugt að velta því fyrir okkur hvar sé hægt að gera betur í ríkisrekstri og spara fjármuni. Hvar má fara betur með fjármuni almennings? Það hafa ýmsir uppi miklar hugmyndir sem þó eru settar í þann eina búning að báknið sé stöðugt að þenjast út og það þurfi að koma í veg fyrir það án nokkurra tillagna. Vissulega er umfang hins opinbera meira þegar fólki fjölgar jafn hratt og verið hefur undanfarin ár. Það sést best á auknu álagi á heilbrigðis- og velferðarkerfi þjóðarinnar, auknum starfsmannafjölda á öllum skólastigum og svo framvegis. Ég held samt sem áður að víða sé hægt að gera betur og hef m.a. á síðustu árum lagt fram tillögu þess efnis.

Aukið samstarf og sameiningar opinberra stofnana og fyrirtækja

Á liðnum þingum hef ég lagt fram tillögu til þingsályktunar um uppbyggingu klasa opinberra fyrirtækja og stofnana. Það er rétt að fara stuttlega yfir innihalda tillögunnar því á yfirskrift hennar mætti gera ráð fyrir að hér væri á ferð tillaga þess efnis að setja á fót nýja stofnun, þá til viðbótar við þær fjölmörgu sem nú þegar eru til staðar; sem margar eru tiltölulega litlar. En þvert á móti er hér um að ræða tillögu þess efnis að stjórnvöldum verði falið að koma opinberum stofnum og fyrirtækjum fyrir á sama stað (undir einu þaki) til þess að ná fram rekstrarlegri hagræðingu og öðrum samlegðaráhrifum. Hér má nýta hugmyndafræði klasasamstarfs, sem farið hefur vaxandi á undanförnum árum, til að efla samvinnu og samstarf opinberra stofnana og fyrirtækja ásamt því að ná fram hagræðingu. Síðast en ekki síst að færa núverandi ástand til betri vegar. Hin augljósa hagræðing og þau samlegðaráhrif sem myndu nást fram væru til að mynda með sameiginlegum rekstri tölvukerfa, móttöku, mötuneytis, húsnæðis og betri nýtingu mannauðs. Í mínum huga er hér algjörlega vannýtt dauðafæri til að hagræða enn frekar í ríkisrekstri og bæta skipulag á mörgum sviðum með sameiningu og auknu samstarfi opinberra stofnana og fyrirtækja.

Samgöngu- og umhverfismál

Skynsamlegast væri að staðsetja slíka klasa þar sem umferðarmannvirki nýtast betur, í þeim skilningi að umferð verði vísað í gagnstæða átt við mestan umferðarþunga snemma morguns og síðdegis. Hver kannast ekki við það ástand? Þá er rétt að horfa til staðsetningar þar sem finna má hágæðaalmenningssamgöngur. Þannig nýtast umferðarmannvirki vel og við minnkum álag og spörum tíma fólks. Hér er því ekki bara um almenna hagræðingu að ræða, eða stórt samgönguverkefni, heldur einnig mikilvægt innlegg í umhverfismálin. Talandi um dauðafæri, þá væri það í raun sjálfsmark ef Alþingi samþykkir ekki tillögu sem þessa.

Í lokin er rétt að nefna að ég hef tekið vel í allar tillögur sem miða að sama markmiði og hér er farið yfir. Þær hafa hins vegar verið of fáar og of litlar.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. ágúst 2024.