Categories
Greinar

Ísland er land tækifæranna

Deila grein

21/06/2018

Ísland er land tækifæranna

Þingveturinn hefur verið skemmtilegur og stór mál verið afgreidd í þinginu, eins og lög velferðarráðherra um notendastýrða persónulega þjónustu fyrir fatlað fólk, NPA og samhliða breytingar á lögum um félagsþjónustu. Mjög mikilvæg mál sem afgreidd voru í sátt eftir margra ára undirbúningsvinnu. Fjármálaáætlun til næstu fimm ára var afgreidd í þinglok en þar er áhersla á uppbygginu samgöngu-, mennta- og velferðar- og heilbrigðismála.

Gott samfélag fyrir alla

Verkefni stjórnvalda hverju sinni er að skapa sterkt samfélag og auka samkeppnishæfni landsins þannig að Ísland verði land tækifæranna fyrir alla landsmenn. Menntakerfi gegna lykilhlutverki í samkeppnishæfni þjóða. Ísland er þar engin undantekning. Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að menntakerfið sé í stakk búið til takast á við áskoranir framtíðar. Í því ljósi hefur menntamálaráðherra hrint af stað undirbúningsvinnu við gerð menntastefnu Íslands til ársins 2030.

Bætt umgjörð kennarastarfsins

Menntakerfið þarf að vera sveigjanlegt og mætt þörfum ólíkra einstaklinga. Unnið er að því að bæta umgjörð kennarastarfsins og auka nýliðun stéttinni. Ánægjuleg tíðindi bárust á dögunum um að umsóknartölur í kennaranámið lágu fyrir, en um talsverða fjölgun er að ræða. Einnig er verið að efla verk-, iðn- og starfsnám ásamt því að styrkja fullorðinsfræðslu. Staðreyndin er sú að mun færri eru í starfsnámi á Íslandi eða um 32 prósent meðan þetta hlutfall er um 50 prósent í Noregi og  öðrum ríkjum í Evrópu. Íslenskt starfsmenntakerfi er öflugt en það hefur skort hvatningu til að sækja námið, þrátt fyrir góðar atvinnuhorfur og tekjumöguleika. Unnið er að því að einfalda aðgengi að náminu, auka skilvirkni þess og lækka kostnað nemenda við að sækja námið. Atvinnulífið er fullt af tækifærum fyrir einstaklinga með þessa menntun.

Auknir fjármunir til menntamála

Það sem af er kjörtímabili hafa þegar verið stigin mikilvæg skref til þess að efla menntakerfið. Framlög til háskólastigsins voru aukin um tæpa 2,9 milljarða eða 6,9% í ár miðað við fjárlög 2017. Hækkun er ætlunin að efla bæði kennslu og rannsóknir svo bæta megi þjónustu við nemendur og styrkja alþjóðlegt samstarf. Framlög til framhaldsskólanna hækkuðu um 1.290 milljónir króna í ár miðað við fjárlög 2017, eða 4,4%. Unnið er að eflingu verk-,iðn-, og starfsnáms með ýmsum hætti og voru efnisgjöld á nemendur í skylduáföngum til að mynda afnumin. Framfærslugrunnur LÍN var hækkaður úr 92% af reiknaðri framfærslu í 96%. Breytingar upp á 340 milljónir. Við ætlum að halda áfram á sömu braut.

Viðhald og umferðaröryggi

Ríkisstjórnin vill hraða uppbyggingu í vegamálum til að tryggja umferðaröryggi vegfarenda og treysta fjölbreytt atvinnulíf um land allt. Fjórum milljörðum króna var varið aukalega til brýnna vegaframkvæmda. Fjármagnið fer í viðhaldsverkefni vítt og breitt um landið með sérstaka áherslu á vegi á Suðurlandi sem fóru illa í vetur og búa við mikinn umferðarþunga. Þá er gert ráð fyrir 16,5 milljörða viðbótarfjármagni til næstu þriggja ára til samgöngumála. Samgönguráðherra hefur lagt ríka áherslu á að fjármagn verði sett í til að bæta öryggi í umferðinni. Til marks um það þá var vetrarþjónusta á þjóðvegakerfinu aukin í byrjun árs og mokstursdögum fjölgað á ákveðnum leiðum á Suðurlandi. Góðar hálkuvarnir auka öryggi og þörfin var brýn víða þar sem umferð hefur aukist með tilkomu aukinna ferðalaga yfir veturinn.

Ríkisstjórn Framsóknar, VG og Sjálfstæðisflokks hefur afkastað miklu á stuttum tíma. Starfsandinn er góður og verkefnin næg. Uppbygging til sjávar og sveita er hafin.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Suðra 21. júní 2018.

Categories
Greinar

Ævintýrið í Rússlandi að hefjast

Deila grein

15/06/2018

Ævintýrið í Rússlandi að hefjast

Velgengni íslensku landsliðanna í knattspyrnu hefur fyllt okkur stolti, gleði og tilhlökkun. Árangurinn blæs líka baráttuanda og krafti í fjölda barna og unglinga sem fylgjast spennt með sínum fyrirmyndum. Vegna þessa er hlaupið hraðar, sparkað fastar og stefnt hærra. Íþróttafólkið okkar býr yfir metnaði, dugnaði og vinnusemi. Það hefur sett sér markmið, keppt að þeim sama hvað dynur á og haldið í gleðina yfir stórum sem smáum sigrum.

Að baki góðum árangri íslensks íþróttafólks er þrotlaus vinna þess og samfélagsins í gegnum áratugina. Í þessu samhengi langar mig að nefna þrennt sem skiptir máli til að styrkja umgjörðina í kringum við íþróttirnar. Í fyrsta lagi fjárfesting í innviðum en það er sú aðstaða sem við búum íþróttafólkinu okkar. Í öðru lagi baklandið, en það er fólkið sem leggur sitt af mörkum með stuðningi sínum, elju og ástríðu. Þetta eru fjölskyldurnar, starfsfólkið í íþróttahúsunum, sjálfboðaliðarnir og aðrir velunnarar. Þau eru að uppskera ríkulega þessa dagana. Í þriðja lagi jafn aðgangur að íþróttastarfi, óháð aðstæðum og efnahag. Það skiptir sköpum að öll börn njóti jafnra tækifæra til þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi, en rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif þess að taka þátt í slíku starfi.

Framundan eru spennandi og skemmtilegir tímar. Ævintýrið í Rússlandi er rétt að byrja. Við fylgjumst spennt með framgangi karlalandsliðsins sem brátt spilar sinn fyrsta heimsmeistaramótsleik gegn Argentínu. Ísland er fámennasta ríki veraldar til að vinna sér inn þátttökurétt á heimsmeistaramótinu og vegna þessa beinast augu margra hingað í undrun og forvitni yfir þessum árangri. Í tengslum við fyrsta leikinn í Moskvu er skipulögð menningarkynning á vegum íslenskra stjórnvalda þar í borg. Sérstök áhersla er lögð á barnabókmenntir og tónlist. Með því viljum við tengja saman íþróttir og menningu og kynna þá miklu grósku sem á sér stað á báðum þessum sviðum.

Íþróttir eru samofnar þjóðarsálinni. Það er því engin tilviljun að sameiningarmáttur íþróttanna er mikill. Íþróttafólkið okkar veitir innblástur og tækifæri til þess að efna til mannamóta og gleðjast. Sem ráðherra íþróttamála sendi ég baráttukveðjur og bestu óskir til Rússlands og óska öllum landsmönnum gleðilegrar fótboltahátíðar næstu vikurnar þar sem slagorðið verður tvímælalaust: Áfram Ísland!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir.

Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Categories
Greinar

Ný byggðaáætlun

Deila grein

15/06/2018

Ný byggðaáætlun

Alþingi samþykkti þann 11. júní síðastliðinn þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun til sjö ára. Í mínum huga er hér um tímamóta­skjal að ræða sem vert er að fagna.

Áætlunin er afurð af víðtæku samráði um allt land. Ég ýtti verkefninu formlega úr vör sem byggðamálaráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í mars 2016. Drög að áætlun voru kynnt í ríkisstjórn í janúar 2017 en nauðsynlegt reyndist að þróa hana áfram og var það gert í nánu samstarfi við ýmsa aðila, m.a. Samband íslenskra sveitarfélaga. Sú góða vinna hefur nú leitt til þeirrar farsælu niðurstöðu sem byggðaáætlun 2018 til 2024 er.

Byggðaáætlun er í fyrsta skipti lögð fram með skýrum og mælanlegum markmiðum. Markmið stjórnvalda í byggðamálum eru að jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Meðal mælikvarða sem stuðst verður við eru hlutfall heimila og fyrirtækja í dreifbýli með aðgang að ljósleiðaratengingu og hlutfall íbúa sem eru í innan við 30 kílómetra fjarlægð frá heilsugæslustöð, grunnskóla og dagvöruverslun. Við sem vinnum að framkvæmd og eftirfylgni áætlunarinnar sem og aðrir hafa því skýra mælistiku fyrir því hvernig okkur miðar áfram í að þróa byggð og búsetu hér á landi á jákvæðan og sjálfbæran hátt.

Aðgerðir áætlunarinnar eru 54 og bera einstök ráðuneyti og stofnanir ábyrgð á framkvæmd þeirra. Meðal aðgerða sem unnið verður að á tímabilinu er gerð þjónustukorts sem sýni með myndrænum hætti aðgengi landsmanna að þjónustu hins opinbera og einkaaðila. Við lok verkefnis liggi fyrir gagnagrunnur sem hægt verði að nýta til frekari stefnumörkunar og mótunar aðgerðaáætlunar í byggðamálum. Þá verður með fjarheilbrigðisþjónustu leitast við að jafna aðgengi almennings að almennri og sérhæfðri heilbrigðisþjónustu, svo sem læknum, hjúkrunarfræðingum, ljósmæðrum, sálfræðingum og talmeinafræðingum.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóg við mótun nýrrar byggðaáætlunar.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Höfundur er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. júní 2018.

Byggðaáætlun 2018-2024 samþykkt á Alþingi

Categories
Greinar

Menntastefna Íslands til ársins 2030

Deila grein

13/06/2018

Menntastefna Íslands til ársins 2030

Menntakerfi gegna lykilhlutverki í samkeppnishæfni þjóða. Ísland er þar engin undantekning. Ég legg mikla áherslu á að menntakerfið okkar sé sem best í stakk búið til takast á við áskoranir framtíðar. Í því ljósi hef ég hrint af stað undirbúningsvinnu við gerð menntastefnu Íslands til ársins 2030.

Til að bæta lífskjör enn frekar og auka útflutningstekjur landsins þarf að huga sérstaklega að verðmætasköpun byggðri á hugviti og verkþekkingu. Því er nauðsynlegt að efla menntakerfið.

Menntakerfið þarf að skapa sterkan þekkingargrunn, vera sveigjanlegt og geta aðlagað sig tækniþróun á hverjum tíma. Að auki þarf það að veita menntun fyrir alla og þar með mæta mismunandi þörfum einstaklingsins. Skilgreind námsmarkmið þurfa að fylgja hverju hæfniþrepi menntunar og mælikvarðar til þess að meta árangurinn. Við viljum að íslenskt menntakerfi verði í fremstu röð þeirra landa sem við berum okkur saman við.

Nú þegar eru ýmis verkefni í gangi í mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem tengjast þessari stefnumörkun. Unnið er að því að bæta umgjörð kennarastarfsins og auka nýliðun kennara. Einnig er verið að efla verk-, iðn- og starfsnám ásamt því að styrkja fullorðinsfræðslu. Verið er að styrkja umgjörð barna með annað móðurmál en íslensku. Fyrirhuguð er skýrari stefnumótun fyrir útgáfu námsgagna og endurskoðun námsmats.

Það sem af er kjörtímabili hafa þegar verið stigin mikilvæg skref til þess að efla menntakerfið. Til að mynda hafa fjárframlög verið aukin verulega til bæði framhaldsskóla- og háskólastigsins, framfærslugrunnur námslána var hækkaður og vinna nýrrar verkefnastjórnar um endurskoðun á námslánakerfinu hefur gengið vel. Við ætlum að halda áfram á sömu braut.

Gerð nýrrar menntastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 verður heildstæð nálgun á eflingu menntakerfisins og mótuð í samvinnu við lykilaðila. Ég er sannfærð um að sú vinna muni skila sér í öflugra samfélagi og betri lífskjörum fyrir þjóðina.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. júní 2018.

Categories
Greinar

Hægri umferð í 50 ár

Deila grein

13/06/2018

Hægri umferð í 50 ár

Með miklu og samhentu átaki í aðdraganda þess að skipt var úr vinstri yfir í hægri umferð á Íslandi fyrir 50 árum var lagður grunnur að vitund Íslendinga um ábyrgð sína í umferðaröryggismálum og mikilvægi forvarna og fræðslu.

Slysum fækkaði umtalsvert í kjölfar H-dagsins öfugt við fullyrðingar andstæðinga þessara breytinga um hið gagnstæða. Ber þar án efa að þakka þeim sem báru hitann og þungann af undirbúningnum, en öflug vitundarvakning um umferðaröryggi varð í aðdraganda 26. maí 1968.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að við forgangsröðun í vegamálum verði litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða. Á þessu ári er áætlað að verja auknu fé til aðgerða á sviði umferðaröryggis. Aðgerðirnar snerta fræðslu og eftirlit með okkur ökumönnum, aðgerðir á vegakerfinu og rannsóknir á hegðun okkar í umferðinni.

Markmiðið að fækka umferðarslysum
Í mínum huga er alveg ljóst að hver króna sem fer til þess að auka umferðaröryggi okkar skilar sér. Er þá sama hvert litið er. Eftirlit lögreglu nær þeim sem brjóta umferðarreglur og kennir okkur lexíu, fræðslan nær til allra aldurshópa vegfarenda og stuðlar að því að gera okkur að betri vegfarendum, aðgerðir og endurbætur á vegum miða að því að minnka áhættu og draga úr afleiðingum umferðarslysa og færa okkur vitneskju um hvar við getum bætt úr.

Öryggisaðgerðir
Meðal öryggisaðgerða á þjóðvegum eru að bæta merkingar enn frekar, til dæmis þar sem vegir liggja að einbreiðum brúm. Auk þess er markvisst unnið að því að fækka einbreiðum brúm. Þá þarf að eyða svartblettum, þ.e. ráðast í aðgerðir á svæðum þar sem slys hafa verið tíð. Dæmi um það er að lengja vegrið, laga vegfláa og bæta úr þar sem umhverfi vega getur verið skeinuhætt fólki ef t.d. bíll lendir útaf. Þá er brýnt að fjölga stöðum meðfram vegum þar sem ferðamenn geta stöðvað til að njóta landsins án þess að valda sjálfum sér eða öðrum hættu.

Nýjar eftirlitmyndavélar
Umferðaröryggisáætlun er sett fram með samgönguáætlun og nú er til skoðunar aðgerðaáætlun áranna 2018 til 2021. Eitt fjárfrekasta einstaka verkefnið nú er að endurnýja eftirlitsmyndavélar með ökuhraða og er gert ráð fyrir að kaupa nokkrar nýjar myndavélar á hverju þessara fjögurra ára. Undanfarin ár hafa verið skráð milli 20 og 45 þúsund brot á ári hverju og eykst fjöldinn í réttu hlutfalli við fjölgun eftirlitsmyndavéla. Þá má nefna að innheimt sektarfjárhæð vegna hraðakstursbrota eftir myndavélaeftirlit námu 217-293 milljónum króna árin 2015-2017.

Meira aðhald
Unnið er að heildarendurskoðun umferðarlaga. Markmiðið er að stuðla enn frekar að umferðaröryggi en brýnt er að bregðast við þeirri þróun sem hefur orðið í samfélaginu á undanförnum árum. Umferðasektirnar veita okkur aðhald í umferðinni sem við fáum ef við erum staðin að því að brjóta umferðarreglur. Ný reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum hefur tekið gildi. Lágmarkssektarupphæð er nú 20 þúsund krónur en var áður 5 þúsund kr. Undantekning er þó sekt við því að hafa ekki ökuskírteini meðferðis, hún verður 10 þúsund krónur. Þá hefur sekt fyrir að nota farsíma við stýrið án handfrjáls búnaðar hækkað í 40 þúsund krónur. Það er dauðans alvara að virða ekki þessar reglur – sektir fyrir að brjóta umferðarlög eiga að koma við kaunin á okkur. Eftirlit og sektir ef við brjótum af okkur veita aðhald og eru til þess fallin að gera okkur að betri vegfarendum. Það er kjarni málsins þegar umferðaröryggi er annars vegar.

Tímamót fyrir 50 árum
H-dagurinn 26. maí 1968 markaði tímamót og nýja hugsun í umferðaröryggismálum hér á landi. Þökk sé þeim sem vörðuðu þessa leið svona vel til framtíðar. Fyrst og fremst er ábyrgðin samt hjá okkur sjálfum – við ráðum því sjálf hvaða árangri við náum í umferðaröryggi og slysavörnum. Lítum í eigin barm.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins.

Categories
Greinar

Ráðstafanir gegn örplastmengun

Deila grein

08/06/2018

Ráðstafanir gegn örplastmengun

Örplastmengun er vaxandi vandamál en það finnst víða í náttúrunni. Umræða um örplast í snyrtivörum hefur verið talsvert áberandi en sannleikurinn er sá að stór hluti örplastagna á uppruna sinn annars staðar frá en að mestu koma agnirnar frá dekkjum. Nauðsynlegt er að kortleggja uppruna örplasts og leiðir þess til sjávar og grípa til aðgerða til verndar umhverfinu.  Í ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála er verið að undirbúa slíka úttekt.

Engar íslenskar rannsóknir

Norðurlöndin hafa gert áætlun um aðgerðir gegn plastmengun í náttúrunni og í tengslum við hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem var haldin í júní árið 2017 lýstu mörg ríki, Ísland þar á meðal, yfir vilja sínum til að stefna að því að banna örplast í snyrtivörum þar sem það er meðal mengunarefna sem geta haft neikvæð áhrif á lífríki hafsins. Á Íslandi hafa ekki verið gerðar rannsóknir á magni örplasts frá snyrtivörum í umhverfinu en reikna má með að magn þess sé hlutfallslega það sama og á Norðurlöndum. Í Danmörku hefur verið gerð skýrsla þar sem birt er yfirlit yfir helstu uppsprettur örplasts í umhverfinu og skiptast þær sem hér segir: Dekk 60%, skófatnaður (sólar) 7,3%, skipamálning 7,1%, vegamálning 5,1% og önnur málning 4,2%. Aðrar uppsprettur eru um 17% og þar af koma 0,1% frá snyrtivörum. Rannsóknir frá Noregi og Svíþjóð sýna svipaðar niðurstöður.

Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn plasti

Eins og fram kemur er örplast sem berst út í umhverfið frá snyrtivörum einungis brot af heildarmagni örplasts í umhverfinu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er kveðið á um eflingu rannsóknarstarfs, stuðning við nýsköpun og varnir gegn plastmengun í hafi. Kveðið er á um að ráðist verði í langtímaátak gegn einnota plasti með sérstakri áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og hreinsun plasts úr umhverfi lands og stranda. Gera þurfi átak í fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga en veruleg þörf sé á uppbyggingu í þessum málaflokki. Ljóst er að hér á landi er skortur á upplýsingum um örplast í fráveitum og því er þörf á að rannsaka málið og kortleggja það. Þó hefur Ísland tekið þátt í norrænu samstarfsverkefni með Svíþjóð og Finnlandi. Meðal annars voru öragnir í fráveitu í Klettagörðum og Hafnarfirði skoðaðar. Rannsakað var hvort skolphreinsistöðvar væru gátt fyrir öragnir út í umhverfið, magn öragna í viðtakanum (hafinu) metið við útfallsrör og upplýsingum safnað saman svo að hægt væri að meta áhrif þeirra á lífverur. Helstu niðurstöður voru að gróf síun á skolpi fæli í sér takmarkaða hreinsun á örögnum og að enginn munur væri á fjölda öragna í inn- og útflæði í íslenskum sýnum.

Fráveiturnar hreinsa ekki öragnir

Þá lét Reykjavíkurborg taka saman minnisblað í nóvember árið 2016 um nokkur atriði sem varða örplast í skolpi á höfuðborgarsvæðinu, einkum með tilliti til möguleika á hreinsun örplasts úr skolpinu. Jafnframt var metinn kostnaður við þær aðgerðir sem líklegar eru til að tryggja viðunandi hreinsun. Meginniðurstöður eru þær að við núverandi aðstæður hreinsar fráveitukerfi höfuðborgarsvæðisins lítið sem ekkert af örplasti úr skolpi. Fullkomnar hreinsistöðvar myndu ná að hreinsa úr skolpi langstærstan hluta þess örplasts sem þangað berst. Nú eru einkum tvær aðferðir notaðar til að hreinsa örplast úr skolpi, en það eru settjarnir eða síukerfi.

Að þessu sögðu þá er ljóst að tilefni er til að gera enn betur í þessu málaflokki. Góður árangur næst með samstilltu átaki sveitarfélaga og ríkisvaldsins. Umhverfismálin eru mál framtíðarinnar.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. maí 2018.

 

Categories
Greinar

Dramb er falli næst í pólitík, Þorsteinn Víglundsson

Deila grein

07/06/2018

Dramb er falli næst í pólitík, Þorsteinn Víglundsson

»Hér er á ferðinni ríkisstjórn sérhagsmuna, íhaldsstjórn, ríkisstjórn þriggja Framsóknarflokka.« Bein tilvitnun í ræðu Þorsteins Víglundssonar í Eldhúsdagsumræðum frá Alþingi. Síðan ræðir Þorsteinn mjög um átökin milli alþjóðahyggju og þjóðernishyggju, frjálslyndis eða íhaldsmennsku og hann eignar Viðreisn Jón Sigurðsson, frelsishetju okkar Íslendinga.

Þegar maður hefur horft á pólitíska umræðu, ég vil segja í veröldinni allri í áratugi, sér maður að versti ókostur stjórnmálamanna er hrokinn og fyrirlitning öðrum sýnd og sjálfsvissa um eigið ágæti. Hjá hinum fornu Grikkjum var hroki og dramb (húbris) talinn versti eiginleiki mannsins. Þegar einhver upphóf sjálfan sig umfram það sem hann átti inni fyrir, gerði meira úr sjálfum sér en efni stóðu til.

Ég horfði eins og oft áður á Eldhúsdagsumræður frá Alþingi, þar var eins og jafnan áður margt vel sagt og annað að mínu viti verra. Mér fannst t.d. að myndarlegur þingmaður, Þorsteinn Víglundsson í Viðreisn, örugglega vel gefinn maður, sýna fádæma hroka. Ræða hans var að hluta tilvitnanir og úrklippur úr ræðum og skrifum Jóns Sigurðssonar forseta, mannsins sem varð frelsishetja Íslands, hann talaði eins og Jón væri flokksmaður Viðreisnar, væri hann enn á meðal vor.

En Viðreisn er flokkur stofnaður um eitt málefni, að ganga í ESB og taka upp evru. Jón Sigurðsson er okkar afreksmaður fyrir að hafa með rökum frelsað okkur undan danska kónginum og úr því ESB sem þá var uppi. Merkilegt, hér verða til nýir flokkar eins og Viðreisn og Björt framtíð sem staglast á eigin ágæti. Þeir eru flokkar alþjóðahyggju og frjálslyndis meðan einhver vondur »fjórflokkur,« haldinn »framsóknarmennsku«, sem er nýtt slagorð eða áróðursbragð um menn af verri endanum. Menn sem stjórna öllum »Fjórflokknum,« svona vondur andi. Þetta eru svona orðaleppar eins og Ólafur á Hrísbrú hafði um alla prestana á Mosfelli í Innansveitarkróniku Laxness, en hann nefndi þá gjarnan sem hóp: »Þessir andskotar«.

Þekktu sjálfan þig, Þorsteinn, og flokkinn þinn. Hvað hefur svo gerst? Báðir þessir flokkar komust í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, sem að mínu viti er ágætismaður. Björt framtíð hélt miðilsfund um miðja nótt og taldi sig eiga þjóðina að baki sér og réðst ódrengilega að forsætisráðherranum fyrrverandi. Þjóðin svaraði, flokkurinn dó í kosningunum. Viðreisn fylgdi Bjartri framtíð með svigurmælum um Sjálfstæðisflokkinn og Bjarna Benediktsson. Hvað gerðist? Þeir voru við dauðans mörk þegar að kosningum kom. En þá gripu þeir til mannfórna, stofnanda og formanni flokksins, Benedikt Jóhannessyni, var steypt fyrir björg, sennilega vond lykt af honum, of skyldur hinum framsæknu og duglegu Engeyingum. Kratinn úr landbúnaðarráðuneytinu, vinkona mín Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, tók við af því hversu »alþjóðleg og frjálslynd«, hún er og hafði verið, eins og fíll í glervörubúð atvinnuvegaráðuneytisins og bar þar litla virðingu fyrir elstu atvinnugreinum landsins, landbúnaði og sjávarútvegi. Enda var hún í girðingunni með heildsölum og Högum en ekki bændum, vildi færa fórnir fyrir innflytjendur sérstaklega, eða þannig virkaði hún í starfi sínu sem ráðherra. Og þessi stórmerki flokkur rétt marði það að fá fjóra þingmenn kjörna.

Ætli þjóðin sé svona illa að sér eða bara »vitlaus«. Eða voru þetta makleg málagjöld þessara nýju flokka vegna drambsins?

En kinnroðalaust þorum við framsóknarmenn í mannjöfnuð við alla aðra flokka með þá afburðaforystumenn sem Framsóknarflokkurinn hefur haft á að skipa í hundrað ára sögu sinni. Það er ekki sagt öðrum flokkum til niðrunar því þeir áttu líka sína afburðamenn. Þess vegna eiga menn ekki að hlusta á svona dramb og hroka sem henti Þorstein Víglundsson. Grikkirnir sögðu líka »þekktu sjálfan þig«. Og frelsarinn benti á bjálkann í auga hrokagikksins.

Guðni Ágústsson.

Höfundur er fyrrv. alþingismaður og ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. júní 2018.

Categories
Greinar

Til hamingju útskriftarnemar!

Deila grein

05/06/2018

Til hamingju útskriftarnemar!

Undanfarið hafa framhaldsskólar víða um land útskrifað nemendur af hinum ýmsu námsbrautum. Útskriftardagurinn er gleðidagur sem staðfestir farsæl verklok á námi sem unnið hefur verið að með þrautseigju og dugnaði. Það er fátt eins gefandi og það að hafa lagt á sig við nám og uppskorið eftir því. Sú þekking og reynsla sem nemendur hafa viðað að sér á skólagöngunni verður ekki tekin af þeim. Þetta er fjárfesting sem hver og einn mun búa að alla ævi.

Tímamót sem þessi opna líka nýja og spennandi kafla, blása okkur byr í seglin til þess að setja ný markmið og ná enn lengra á lífsins leið. Foreldrar fyllast stolti og kennararnir líka, þeir eiga sitt í árangri og sigrum nemendanna.

Á dögum sem þessum verður mér hugsað til baka. Sem barn hafði ég mikið dálæti á bíómyndinni um ofurhetjuna Súperman. Leikarinn Christopher Reeve fór með aðalhlutverkið og sveif skikkjuklæddur yfir New York borg, tilbúinn að bjarga deginum. Það væri ekki frásögu færandi nema að árum síðar útskrifaðist ég úr meistaranámi frá Columbia-háskóla í New York og hátíðarræðuna þá hélt sjálfur Christopher Reeve. Hann mætti á sviðið í hjólastól, þar sem hann hafði lamast í hestaslysi nokkrum árum áður. Ræða hans var mjög áhrifamikil og ég man hana enn því boðskapurinn er mér dýrmætur.

Í fyrsta lagi, fjallaði hann um mikilvægi þess að nýta þau tækifæri sem lífið býður upp á og gera alltaf það besta úr þeirri stöðu sem við erum í. Í öðru lagi, lagði hann áherslu á að sýna þakklæti og samkennd gagnvart ástvinum okkar, kennurum og þeim sem við hittum á lífsins leið. Í þriðja lagi talaði hann um þrautseigjuna og hvernig hún er oft forsenda þess að við getum náð árangri.

Ég hugsa oft til þessara orða hans. Eftir slysið varð Reeve ötull talsmaður fólks með mænuskaða og hafði mikil áhrif sem slíkur. Mér finnst hugvekja hans alltaf eiga við.  Hún er hvatning til allra, og sér í lagi þeirra glæsilegu útskriftarnema sem munu takast á við nýjar áskoranir að afloknu námi í framhaldsskóla. Þeir hefja næstu vegferð vel nestaðir af þekkingu, reynslu og vináttu sem hefur áunnist í framhaldsskólum landsins.

Ég óska öllum útskriftarnemum hjartanlega til hamingju með þennan áfanga. Megi framhaldið verða gæfuríkt hvert sem ferðinni kann að vera er heitið. Framtíðin er full af tækifærum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. júní 2018.

 

Categories
Greinar

Hin norræna plastáætlun

Deila grein

31/05/2018

Hin norræna plastáætlun

Umhverfismál eru einn af þeim málaflokkum sem Norðurlandaráð leggur mikla áherslu á. Þar eigum við ríkra sameiginlegra hagsmuna að gæta. Á fundi sínum 2. maí 2017 samþykktu umhverfisráðherrar Norðurlanda norræna áætlun um að draga úr umhverfisáhrifum plasts. Framtíðarsýn áætlunarinnar er að framvegis beri að framleiða, nýta og endurvinna plast í hringrásarkerfi sem skaði hvorki heilsu manna né umhverfið. Áætlunin, sem er stefnumarkandi, byggist á fyrri samnorrænum aðgerðum í plastmálum og er sett fram til að auka þekkingu á málefninu, leggja drög að aðgerðum og stuðla að samlegðaráhrifum, auknu samstarfi og vitundarvakningu á Norðurlöndum.

Aðgerðir

Undir „plastáætlunina“ heyra sex stefnumótandi áherslusvið fyrir norrænt samstarf um sjálfbæra plastnotkun sem eru:

  1. Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn myndun plastúrgangs og stuðningur við hönnun sem stuðlar að endurnýtingu, lengri líftíma og endurnotkun.
  2. Árangursrík kerfi fyrir meðhöndlun úrgangs og aukin endurvinnsla plastúrgangs.
  3. Samstarf um að stöðva plastmengun í hafinu og finna hagkvæmar lausnir til hreinsunar.
  4. Að efla þekkingu á örplasti og greina aðgerðir til að draga úr losun þess út í umhverfið.
  5. Að efla þekkingu á umhverfisáhrifum lífplasts, þ.e. plasts unnu úr lífmassa, og lífbrjótanlegs plasts í samanburði við hefðbundið plast.
  6. Að efla þekkingu á efnum sem valda vandræðum í tengslum við endurvinnslu plasts.

Norræna embættismannanefndin um umhverfis- og loftslagsmál ber meginábyrgð á áætluninni og hafa vinnuhópar á vegum nefndarinnar umsjón með framkvæmd áætlunarinnar. Utanaðkomandi samstarfsaðilar, svo sem stjórnvöld, rannsóknarstofnanir, atvinnulífið og félagasamtök, geta einnig komið að framkvæmd áætlunarinnar.

Auk þess að marka stefnu í aðgerðum sem draga úr plastmengun á Norðurlöndum er áætlunin einnig framlag Norðurlanda til framkvæmdar á alþjóðasamningum, þar á meðal heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna nr. 12 og 14 og átaki Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna gegn úrgangi í hafi sem ber yfirskriftina CleanSeas og er ætlað að hvetja stjórnvöld, fyrirtæki og almenning til aðgerða sem stuðla að hreinni höfum. Þá sýnir áætlunin einnig skuldbindingu Norðurlandanna til að innleiða ályktanir umhverfisþings Sameinuðu þjóðanna um úrgang og örplast í hafi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. maí 2018.

Categories
Greinar

Framsókn lætur verkin tala

Deila grein

29/05/2018

Framsókn lætur verkin tala

Liðinn vetur hefur verið afar viðburðarríkur, svo ekki sé meira sagt. Kosningar í haust, þar sem allir lögðust á eitt um að ná árangri sem skilaði okkur átta þingmönnum. Stemmingin var einstök og ég vil þakka öllum enn og aftur fyrir kröftuga og skemmtilega kosningabaráttu.

Afkastamiklir ráðherrar Framsóknar

Framsóknarflokkurinn fékk þrjú ráðuneyti og ráðherrarnir okkar hafa sýnt, á stuttum tíma, að þeir hafi gríðarlegan metnað fyrir þeim verkefnum sem fyrir liggja í ráðuneytunum. Félagsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hefur lagt áherslu á að bæta umgjörð barnaverndarmála og fjölga úrræðum fyrir börn í vanda. Nýlega samþykkti Alþingi lög frá um notendastýrða persónulega þjónustu. Um er að ræða langþráð markmið og lögin munu boða byltingu á lífsgæðum fatlaðs fólks. Menntamálaráðherrann okkar, Lilja Dögg Alfreðsdóttir hefur talað fyrir eflingu iðn- og verknáms og mikilvægi þess að bæta umgjörð kennarastéttarinnar og hefur finnska leiðin verið nefnd í því samhengi. Ráðherra hefur einnig afnumið 25 ára regluna í framhaldsskóla og framlög til framhaldsskóla, háskólastarfs og rannsókna eru stóraukin. Ráðherra samgöngu- og sveitastjórnarmála, er með í smíðum byggðaáætlun og samgönguáætlun sem kynntar verða á næstu vikum. Nú þegar hefur ríkisstjórnin líst yfir umtalsverðri aukningu fjárframlaga til viðgerða og viðhalds á vegum vítt og breytt um landið með áherslu á bætt umferðaröryggi.

Mine kære nordiske venner

Sú sem þetta ritar hefur vasast í mörgu í vetur en ég sit bæði í utanríkismálanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd auk þess að vera formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Norrænt samstarf hefur lengi verið hornsteinn utanríkisstefnu Íslendinga. Norðurlandaráð er þingmannavettvangur og mörg þeirra réttinda sem eru sameiginleg á Norðurlöndunum eiga rætur að rekja til Norðurlandaráðs. Það var stofnað árið 1952 og er skipað 87 þingmönnum. Markmið Norðurlandaráðs er að auka samstarf norrænna ríkja með markvissri hugmyndavinnu og tilmælum sem beint er til Norrænu ráðherranefndarinnar eða ríkisstjórna Norðurlanda. Íslandsdeildin lagði til dæmis fram tillögu á vorþingi ráðsins í apríl sl. sem felst í að Norðurlandaráð beini þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar að hún hafi frumkvæði að norrænu rannsóknasamstarfi um súrnun sjávar, vistkerfi og mögulegar afleiðingar súrnunar sjávar á afkomu íbúa strandbyggða Norðurlanda og leggi til fjármagn til þessa verkefni á fjárlögum.

Átta þingmannamál

Mikið hefur verið sagt og skrifað um svokallað „umskurðarfrumvarp“ sem ég lagði fram í upphafi árs en þegar þetta er ritað þá er enn óvissa um hver afdrif þess verða á yfirstandandi þingi. Að auki hef ég lagt fram sjö önnur mál sem minna hefur borið á og þar af fengið eina þingsályktunartillögu samþykkta. Hún felur í sér að forsætisráðherra innleiði verklagsreglur um fjarfundi fyrir ráðuneytin, í því skyni að auðvelda stofnunum, sveitarstjórnum og öðrum aðilum um allt land samskipti við ráðuneytin. Frumvarp um breytingar á lögum um líffæragjöf er komið vel áleiðis í Velferðarnefnd og ég bind vonir við að það fáist samþykkt á vorþingi en mér sýnist að hin málin sem ég lagði fram fáist því miður ekki afgreidd, þau eru: Breytingar á lögum um fæðingarorlof, þ.e. að þeir foreldrar sem búa langt frá fæðingastað fá viðbót við sitt fæðingarorlof í samræmi við þann tíma sem fólk þarf að vera fjarri heimili sínu og bíða fæðingar. Frumvarp um breytingar á lögum um barnalífeyri hefur ekki verið afgreitt, ekki heldur frumvarp um réttindi barna til að vita uppruna sinn og frumvarp um atvinnuleysistryggingar sem fjallar um að fangar geti áunnið sér rétt til atvinnuleysisbóta, sinni þeir námi eða vinnu á meðan á afplánun stendur. Nýlega lagði ég fram nýtt frumvarp varðandi aukið eftirlit með hættulegum dæmdum barnaníðingum, eftir að afplánun lýkur en það hefur ekki komist á dagskrá.

Ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars og góðu gengi í kosningunum framundan. Framsókn til framtíðar – XB!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist í Þjóðólfi maí 2018.