Categories
Greinar

Lögreglan efld

Deila grein

28/11/2018

Lögreglan efld

Á síðasta ári var bætt við stöðugildum hjá flestum lögregluembættum um landið til að styrkja skilvirkni lögreglunnar í kynferðisbrotamálum. Þar með var hafin vinna við að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota innan réttavörslukerfisins. Sú aðgerðaáætlun felur m.a. í sér að renna styrkari stoðum undir samstarf milli lögreglu og ákæruvalds til að bæta stöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum og styrkja réttarstöðu þeirra.

Lögreglan er oftast fyrsti staðurinn sem brotaþolinn leitar til. Það er mikilvægt fyrir brotaþola að móttaka og þekking þeirra sem þeir mæta sé sem faglegust og það sé hægt að treysta á að málin fari í öfluga og skjóta rannsókn. Sérþekking á þessum málum er nauðsynleg hjá þeim sem fyrstir taka á móti brotaþolum því fyrstu viðbrögð skipta miklu máli um hvernig brotaþolinn kemur út úr málinu.

Efling rannsóknar

Þegar kemur að málefnum brotaþola skiptir áreiðanleg og fljótvirk rannsókn þessara mála innan lögreglunnar höfuðmáli. Það er líka mikilvægt fyrir samfélagið að tryggja nægilegt svigrúm svo hægt sé að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum eins og eftirliti með nettælingum og barnaníðsefni. Forvarnir þarf að efla með því að byggja upp enn frekari faglega þekkingu þeirra aðila sem vinna með þessi mál. Það byggir upp traust og hvetur brotaþola frekar til að leita réttar síns í erfiðum málum.

Aukin þjónusta

Í fjárlögum fyrir árið 2019 er gert ráð fyrir framlagi sem nemur einu stöðugildi til að styrkja málsmeðferð lögreglunnar á Norðurlandi vestra í rannsóknum. Þar með er búið að bæta við stöðugildi hjá öllum lögregluembættum á landinu vegna þessa. Lögreglan um allt land hefur ekki verið ofalin síðustu ár þrátt fyrir fjölda verkefna sem hafa bæst við. Mikil aukning á fjölda ferðamanna hefur stóraukið umferð á vegum landsins. Aukið umferðareftirlit lögreglunnar á Norðurlandi vestra hefur leitt af sér 28% fækkun umferðarslysa í umdæminu sem af er ári sem er afar jákvæð þróun. Lögreglunni á Norðurlandi vestra var falið það verkefni að hafa umsjón með fíknaefnahundum hjá lögregluembættum landsins og verður áhugavert að fylgjast með hvernig það verkefni mun þróast á komandi árum.

Þessi styrking á embættinu ætti að bæta þjónustu lögreglunnar í umdæminu verulega. Nú getur lögreglan einbeitt sér betur að þjónustu við borgarana og sinnt umferðagæslu betur þar sem búið er að bæta við stöðugildi fyrir sérþjónustu og rannsóknir.

Umferð um svæðið hefur aukist mikið allt árið og því mikilvægt að lögreglan sinni því með auknum þunga svo íbúar og aðrir vegfarendur finni sig öruggari auk þess sem hægt er að sinna forvörnum og almennri gæslu. Ég fagna þessari eflingu á lögregluembættinu á Norðurlandi vestra.  Lögreglan ætti að hafa betri tíma til að vera sýnilegri og sinna frekari forvörnum og gæslu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður Norðvesturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á feykir.is 27. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Dynjandisheiðin – vetrarþjónusta

Deila grein

28/11/2018

Dynjandisheiðin – vetrarþjónusta

Nú er innan við ár þangað til slegið verður í gegn í framkvæmdum við Dýrarfjarðargöng. Þá erum við farin að eygja gríðarlega samgöngubót á Vestfjörðum. Heilsárssamgöngur milli norður- og suðursvæðis er að verða að veruleika. Það verða liðnir tveir áratugir af þessari öld þegar við sjáum þetta raungerast. Ótrúlegt! En gott og vel við fögnum þessu ákaft.

Fyrir liggur að farið verður í  uppbyggingu á Dynjandisheiðinni meðfram og í framhaldi á framkvæmdum við Dýrafjarðargöng. Mörgum finnst þær framkvæmdir fái ekki nægjanlega áherslu í framlagðri samgönguáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi. Það má taka undir þær áhyggjur og er það augljóst að hraða þarf eins og hægt er uppbyggingu heiðarinnar.

Samvinnuleið í vegamálum

Nokkuð hefur verið talað um gjaldtöku vegna samgöngumannvirkja. Til að hraða samgönguframkvæmdum er unnið að útfærslu gjaldtökuleiða sem nýtist á ákveðnum mannvirkjum. Slík gjaldtaka á einstaka mannvirkjum býr til svigrúm í samgönguáætlun og því hægt að ráðast fyrr í einstök verkefni en gert er ráð fyrir í áætluninni.  Fyrr í haust var hætt gjaldtöku við Hvalfjarðargöng en hún er dæmi um góða samvinnuleið í úrbótum á samgöngumálum. Til þessa er horft og vonir eru bundnar við að framkvæmdir við Dynjandisheiðina verði hægt að þoka fram um leið og samvinnuleiðir í vegamálum verða að raunveruleika.

Vetrarþjónusta

Vetrarþjónusta á Dynjandisheiði fylgir nú G-reglu Vegagerðarinnar. Samkvæmt henni er mokað tvisvar í viku, haust og vor, á meðan snjólétt er en ekki mokað frá 1. nóv. til 20. mars. Þessi regla endurspeglar þá órjúfanlegu leið sem þær systur  Dynjandis- og Hrafnseyrarheiðar byggja. Aðstæður á Hrafnseyrarheiðinni hafa stýrt þessari reglu, eðlilega.

Nú skilja leiðir og sá erfiði fjallvegur yfir Hrafnseyrarheiðina verður ekki til staðar eftir opnun ganga og þá er eðlilegt að vetrarþjónusta á Dynjandisheiði verði endurskoðuð. Sá þrýstingur er þegar komin fram og ekkert sem bendir til þess að svo verði ekki. Vetrarþjónusta þarf ekki að haldast í hendur við framkvæmdalok við heiðina og jafnvel nauðsynleg að auka þjónustuna strax til að fá reynslu hvernig eigi að festa hana í sessi í framtíðinni.

Það er ekkert sem staðfestir þann orðróm sem virðist vera uppi að ekki verði farið í aukna vetrarþjónustu á Dynjandisheiðinni eftir opnun Dýrafjarðarganga. Hvorki í samgönguáætlun eða í umræðu um hana eða endurspeglar það áætlun Vegagerðarinnar né stjórnvalda.

Áfram er hægt að fagna opnun Dýrafjarðarganga og horfa fram á heilsárssamgöngur milli norður og suðursvæðis Vestfjarða eftir árið 2020.

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður Norðvesturkjördæmis

Greinin birtist fyrst á bb.is 28. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Heima er best

Deila grein

28/11/2018

Heima er best

Flest vonumst við til að fá að eldast, halda heilsu og geta búið áfram á eigin heimili. Tölfræðin sýnir okkur að lífaldur Íslendinga er að hækka og heilsa eldra fólks að batna.

Hugtakið velferðartækni er tiltölulega nýtt á Íslandi en það nær yfir fjölmargar tæknitengdar lausnir í þágu notenda sem eru til þess fallnar að viðhalda eða auka færni, samfélagsþátttöku og lífsgæði. Velferðartækni getur fyrirbyggt eða verið viðbót við þá stuðningsþörf sem veitt er. Einnig getur hún aukið skilvirkni í þjónustunni og auðveldað samskipti milli notenda, aðstandenda og starfsfólks. Hugtakið er einkum notað á Norðurlöndunum en þau hafa unnið markvisst að því að kanna hvernig nýta megi nútímatækni til að þróa velferðarþjónustu. Velferðartækni er eitt af áherslumálunum í norrænu samstarfi og er nefnt sérstaklega í formennskuáætlun Noregs í Norðurlandaráði fyrir árið 2018. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er áhersla lögð á nýsköpun í heilbrigðismálum með því að nýta nýjustu tækni á því sviði og að styrkja þjónustu fyrir aldraða, þ.e. heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu.

Velferðartækni hluti af heilbrigðisstefnu

Íslendingar geta nýtt sér reynslu nágranna okkar á Norðurlöndum og útfært verkefni sem þar hafa verið framkvæmd með góðum árangri. Undirrituð hefur því ásamt hópi þingmanna úr flestum flokkum lagt fram þingsályktunartillögu sem fjallar um að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem meti með hvaða hætti velferðartækni nýtist í þjónustu við eldra fólk og fólk með fatlanir. Hópurinn á að leggja áherslu á að skoða hvernig aðferðir, t.d. í fjarþjónustu, geti nýst hér á landi með hliðsjón af reynslu annars staðar á Norðurlöndum. Lagt er til að hópurinn skili áliti sem nýtist við gerð heilbrigðisstefnu sem nú er unnin í heilbrigðisráðuneytinu.

Ég er sannfærð um að í velferðartækni felast fjölmörg tækifæri fyrir okkur til að bæta þjónustu við aldraða og fólk með fatlanir, sem gerir fólki kleift að búa lengur heima hjá sér og njóta bestu þjónustu og lífsgæða.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Samgöngur til framtíðar

Deila grein

23/11/2018

Samgöngur til framtíðar

Það má sjá bætt vinnubrögð í nýrri samgönguáætlun því hér í fyrsta skipti er hún í samræmi við samþykkta fjármálaáætlun frá Alþingi. Samgönguáætlun skal stefna að því að samgöngukerfi landsins myndi eina samþætta heild sem þjóni íbúum og atvinnulífi sem best. Auka á aðgengi fólks að vörum og þjónustu og bæta hreyfanleika.

Meginstoðir
Samgönguáætlun skal stefna að því að samgöngukerfi landsins myndi eina samþætta heild sem þjóni íbúum og atvinnulífi sem best. Það er ánægjulegt að sjá þær meginstoðir sem samgönguáætlun byggir á en lögð er áhersla á þær stóru stofnbrautir sem eru út úr höfuðborginni og nú á líka að klára grunnnet vegakerfisins á Vestfjörðum.

Strax á næsta ári skal hefja framkvæmdir við 2+1 veg á Kjalarnesi. Það er verkefni sem kallað hefur verið eftir og er mjög brýnt þar sem núverandi vegur uppfyllir engan veginn öryggiskröfur eða stendur undir þeirri gríðarlegu umferðaraukningu sem orðið hefur á undanförnum árum. Grunnnet á Vestfjörðum er í forgangi og búið að tryggja fjármagn í uppbyggingu á vegum á Dynjandisheiði um leið og hönnun á vegstæðinu er lokið og sú leið hefur farið í gegnum umhverfismat. Einnig er búið að tryggja fjármagn í uppbyggingu á vegum í Gufudalssveit. Þá geta Vestfirðingar loksins sagt að þeir búi við eðlilegt samgöngukerfi að mestu.

Samvinnuleið í vegamálum
Nokkuð hefur verið talað um um gjaldtöku vegna samgöngumannvirkja þegar horft er í einkaframkvæmdir. Til að hraða samgönguframkvæmdum er unnið að útfærslu gjaldtökuleiða sem nýtist á ákveðnum mannvirkjum. Slík gjaldtaka á einstaka mannvirkjum býr til svigrúm í samgönguáætlun og hægt að ráðast fyrr í einstök verkefni en gert er ráð fyrir í áætluninni. Nú um mánaðamótin var hætt gjaldtöku við Hvalfjarðargöng en hún er dæmi um góða samvinnuleið í úrbótum á samgöngumálum. Í þessu sambandi gætum við nefnt jarðgöng og stórar framkvæmdir í kringum höfuðborgina eins og Sundabraut og tvöföldun Reykjanesbrautar.

Tengivegir og vetrarþjónusta
Um land allt býr fólk við malarvegi sem eiga að þjóna samgöngum til skóla og í vinnu dagsdaglega. Oft eru þetta vegir sem uppfylla ekki kröfur um burðarþol og alls ekki þeær öryggiskröfur sem nútíminn gerir til slíkra samgangna. Dæmi eru um að börn þurfi að heiman og heim að hristast á holóttum malarvegi langan veg í skóla. Það skiptir miklu máli að lögð verði áhersla á að leggja bundið slitlag á tengivegi. Í þessu sambandi vil ég nefna Vatnsnesveg í Vestur-Húnavatnssýslu. Þar hefur umferð stóraukist á undanförnum árum, enda má finna á þeirri leið eina ferðamannaperlu okkar sem er Hvítserkur. Núverandi vegur hefur ekki staðið undir þeirri miklu umferð og getur því ekki talist til nútíma samgöngumannvirkja.

Í tillögu að nýrri samgönguáætlun er gert ráð fyrir að veita aukið fjármagn til að styrkja og leggja bundið slitlag á umferðarlitla tengivegi. Það er vonandi að hægt verði að leggja aukna áherslu á tengivegina og vetrarþjónustu með því að horfa á samvinnuleiðir í nýframkvæmdum á stórum framkvæmdum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Land er auðlind

Deila grein

22/11/2018

Land er auðlind

Undanfarið hefur talsverð umræða átt sér stað í samfélaginu um eignarhald á bújörðum. Margir hafa áhyggjur af því að Íslendingar séu með andvaraleysi að tapa eignarhaldi á auðlindum á landi. Í september birtist álit starfshóps um endurskoðun eignarhalds á bújörðum. Þar voru settar fram átta tillögur að breytingum á jarðalögum og ábúðarlögum í því skyni að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins. Forsætisráðuneytið mun leiða áframhaldandi vinnu með tillögurnar, enda snúa sumar þeirra að fleiru en einu ráðuneyti.

Ég álít allt land vera auðlind, landið sjálft, jarðveginn og gróðurinn sem þar þrífst. Sumt land nýtist til matvælaframleiðslu, annað til útivistar og auk þess geta fylgt landi önnur gæði sem enn auka á verðmæti þess, t.d. veiði og vatnsréttindi. Meðferð og notkun alls lands skiptir alla landsmenn máli, bæði nú og til framtíðar. Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun og meðferð lands og því geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og á hverri annarri fasteign.

Þjóðlendur eru nú um 44% landsins, öðru landi er skipt upp í jarðir og þéttbýli. Bújarðir ná því yfir meira en 50% Íslands og eru um 7.000 talsins. Undanfarin ár hefur fólk sem ekki er búsett á Íslandi sóst í auknum mæli eftir eignarhaldi á jörðum. Við það færist eignarhald auðlinda úr landi, auk þess hafa vaknað spurningar um eignasöfnun á fárra hendur og ítrekað kemur upp vandi vegna óþekkts og óljóss fyrirsvars jarða.

Reglulega kemur upp umræða um mögulegar leiðir til að hafa áhrif á ráðstöfun lands en útfærslan hefur þvælst fyrir okkur. Ástæðuna tel ég m.a. vera að það vantar ákveðinn grunn. Annars vegar þarf að undirbyggja markmið landnýtingar í skipulagsáætlunum sveitarfélaga og hins vegar þarf að bæta skráningu á landi.

Stjórnvöld geta beitt ýmsum tækjum til að hafa áhrif á ráðstöfun lands. Ég tel mögulegt að festa í lög eða reglugerð skilyrði um að einstaklingar sem öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir landi skuli hafa lögheimili hér á landi eða hafa haft það áður í tiltekinn tíma. Ég tel að slíkar takmarkanir eigi ekki að vera bundnar við land í landbúnaðarnotum, heldur ná yfir allt land. Eignarhaldi og umsjón lands eiga að fylgja skýr ábyrgð og skyldur.

Stjórnvöld og almenningur hafa áhrif á landnýtingu í gegnum skipulagsáætlanir sveitarfélaga. Þar er hægt að setja markmið um búsetu og sjálfbæra landnýtingu. Sveitarfélög geta skilgreint landbúnaðarland sem halda skal í ræktanlegu ástandi. Þau geta líka tilgreint jarðir þar sem heilsársbúseta telst æskileg og geta þar komið inn fleiri sjónarmið en nýting til landbúnaðar, svo sem styrking samfélaga, öryggissjónarmið, eftirlit lands, eftirlit minja og náttúruvernd.

Við þurfum að þekkja landið, skrá það og skipuleggja. Á þeim grunni getum við útfært eðlilegar takmarkanir og búið til hvata til búsetu, nýtingar og nýsköpunar, í strjálbýli.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Ólgan í pólitíkinni

Deila grein

21/11/2018

Ólgan í pólitíkinni

Það er ólga í bæjarpólitíkinni í Vestmannaeyjum þessa dagana. Það ætti engum að dyljast það sem á annað borð fylgist með umræðunni. Í henni eru stóru orðin sjaldnast spöruð og því er ekki nema von um að fólk spyrji mig hvort allt sé hreinlega að verða vitlaust.

Meiri- og minnihlutinn hafa vissulega tekist á, meira að segja nokkuð harkalega í hinum ýmsu málum, stórum og smáum. Og manni finnst stundum eins og smáum málum sé breytt í stórmál og að það sé fyrst og fremst gert til þess að vísvitandi skapa ókyrrð og öldurót í bæjarpólitíkinni. En í hverju gæti þessi ólga falist?

  • Ólgan getur falist í því að draga ítrekað í efa heiðarleika Helgu Jóhönnu Harðardóttir formanns fjölskylduráðs, eina heiðarlegustu og samviskusömustu manneskju sem ég hef hitt, í stað þess að umræðan snúist fyrst og fremst um það hvort breyta eigi aldursviðmiðum við úthlutun frístundastyrks til ungmenna.
  • Ólgan getur falist í því að vera tilbúin til þess að saka meirihlutann um ólýðræðisleg vinnubrögð og svik við kjósendur fyrir það eitt að vilja fara að lögum sem sjálfstæðismenn hafa brotið ár eftir ár, allar götur frá árinu 2012.
  • Ólgan getur falist í því að mæta á fund fræðsluráðs án þess að svo mikið sem kynna sér þau gögn sem lágu fyrir fundinum og vera tilbúin til þess, með sömu gömlu rökunum um einræðisleg vinnubrögð, að berjast gegn afnámi ósanngjarnrar vísitölutengingar leikskólagjalda sem orsakaði það að fjölskyldufólk í Vestmannaeyjum þurfti að borga hæstu leikskólagjöld á landinu.
  • Ólgan getur falist í því að koma því þannig fyrir að ekki færri en þrjá bæjarstjórnarfundi þurfti til þess að klára eins ópólitískt mál og hugsast getur; skipun almannavarnarnefndar.
  • Og það er hægt er að skapa ólgu með útúrsnúningum um að meirihlutanum ætli að fela kostnað við framkvæmdir, þrátt fyrir að vita það mæta vel að sérsamþykkt við fjárhagsáætlun þarf til að fara í kostnaðarsamar framkvæmdir á vegum bæjarins, og þær samþykktir eru ræddar bæði í bæjarráði og í bæjarstjórn áður en endanleg ákvörðun er tekin.

Þegar stjórnmálaöfl boða svo til súpukennslustundar í ólgu og pólitískum óróleika er ekki nema eðlilegt að velta því fyrir sér hvort ástandið þurfi virkilega að vera með þeim hætti sem einkennt hefur kjörtímabilið hingað til. Fyrir mína parta er það alveg ljóst að fólk á að geta sameinast um að vinna að hag bæjarins og íbúa hans á sanngjarnan á heiðarlegan hátt. Úfin pólitísk alda og jafnvel brotsjór er ekki eðlilegt ástand.

Viljum við ekki róa í sameiningu um lygnari sjó?

Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs í Vestmannaeyjum.

Greinin birtist fyrst á eyjarfrettir.is 19. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Til hamingju með alþjóðadag barna

Deila grein

20/11/2018

Til hamingju með alþjóðadag barna

Alþjóðadagur barna er haldinn hátíðlegur í dag, 20. nóvember og í tilefni þess er um allan heim vakin sérstök athygli á málefnum sem varða stöðu og réttindi barna. Þetta er mikilvægur dagur fyrir börn og okkur öll, ekki síst vegna þess að þennan dag fyrir 29 árum var Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna samþykktur.

Alþingi Íslendinga samþykkti í tengslum við 25 ára afmæli Barnasáttmálans að helga 20. nóvember ár hvert fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins. Á alþjóðadegi barna minnum við því á þau mikilvægu réttindi sem Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna veitir öllum börnum um allan heim og hve mikilvægt það er að þessi réttindi séu virt og að þeim sé jafnframt fagnað. Það er mikilvægt fyrir samfélagið allt að börn njóti verndar og réttinda á öllum tímum og öllum stöðum, á heimilum sínum, í skólanum og hvar annars staðar í samfélaginu, þannig að þau geti lifað, vaxið, lært og náð að blómstra á eigin forsendum.  Þetta eru ekki bara falleg orð heldur fjárfesting til framtíðar, því hamingja og velgengni barna er fjárfesting í næstu kynslóð. Við eigum að vera meðvituð um þetta og hafa metnað til að gera sífellt betur til að byggja upp betra samfélag og betri heim fyrir börn.

Hér á Íslandi tökum við þessi mál alvarlega og því er þegar hafin endurskoðun á þjónustu við börn og á réttindum barna, þvert á ráðuneyti með aðkomu allra hlutaðeigandi ráðherra og helstu sérfræðinga, þvert á pólitík með samvinnu allra flokka á þingi og þvert á kerfi og fagþekkingu. Allt er þetta skipulagt á þeim grundvelli að við viljum setja börnin í fyrsta sæti og fjárfesta í þeim og framtíð þeirra. Þarfir barna eru mismunandi, almennar og sértækar og það er til margs að líta. Verkefnið er sannarlega umfangsmikið en sú samvinna, samstaða og ástríða fyrir því að gera vel sem einkennir vinnu og samskipti í málaflokknum í tengslum við þessi áform fyllir mig eldmóði og bjartsýni um að raunverulegar breytingar í þágu barna verði að veruleika á næstu árum.

Til marks um mikilvægi þessa og skýran vilja stjórnvalda um að auka áherslu á málefni barna og ungmenna, verður samkvæmt þingsályktunartillögu sem nú liggur fyrir á Alþingi gerð breyting á embættistitli mínum. Frá 1. janúar 2019, sem er þrjátíu ára afmælisár Barnasáttmálans, verður titill minn félags- og barnamálaráðherra. Nýtt ráðuneyti félagmála mun leiða endurskoðun á þjónustu við börn, móta stefnu Íslands til framtíðar og markmið í málefnum barna, tryggja að börn séu í forgangi í allri stefnumótun og tengja betur saman stefnu í málefnum barna og stefnu í efnahagsmálum. Aukið samstarf allra aðila er lykilþáttur við heildarendurskoðun núverandi kerfis, þjónustunnar og úrræða fyrir börn. Þegar rætt er um samstarf og samvinnu í málefnum barna megum við ekki gleyma okkar dýrmætustu ráðgjöfum; börnunum sjálfum.  Barnasáttmálinn kveður skýrt á um að börn skuli ávallt fá að tjá sig um mál sem þau varðar. Við viljum í þessari vinnu að gefa börnum tækifæri til að tjá skoðanir sínar og tala fyrir réttindum sínum og annarra barna heima hjá sér, í skólanum og úti í samfélaginu.

Það er spennandi ferðalag framundan sem við öll þurfum að taka þátt í. Verkefni sem nær yfir öll kerfi og alla pólitík. Verkefni sem, ef vel tekst til, verður besta fjárfesting sem við sem samfélag höfum gert.

Til hamingju með daginn öll börn í nútíð og framtíð, til hamingju allir landsmenn.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Allt land er auðlind og þarf að vera í eigu landsmanna

Deila grein

19/11/2018

Allt land er auðlind og þarf að vera í eigu landsmanna

Allt land er auðlind, landið sjálft, jarðvegurinn og gróðurinn sem þar þrífst. Sumt land nýtist til matvælaframleiðslu, annað til útivistar og auk þess geta fylgt landi önnur gæði sem enn auka verðmæti þess t.d. veiði og vatnsréttindi.

Meðferð og notkun alls landsins skiptir alla landsmenn máli bæði nú og til framtíðar. Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun og meðferð lands, því geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og hverri annarri fastegin.

Eignarhald, ráðstöfunarréttur og ábyrgð á landi þarf að vera í höndum landsmanna. Stjórnvöld og almenningur geta haft áhrif á landnýtingu í gegnum skipulagsáætlanir þar sem sveitarfélög geta sett landnýtingu mismunandi skorður eftir náttúrufari, eðli ræktunar og manngerðs umhverfis.

Stjórnvöld geta beitt ýmsum tækjum til að hafa áhrif á ráðstöfun lands.  Án tafar þarf ríkisvaldið að setja skilyrði um að sá sem vill eignast land eða jörð hafi búsetu á Íslandi eða hafi áður haft hér fasta búsetu í a.m.k. 5 ár.  Þessa reglu þarf að aðlaga EES samningnum á málefnalegan hátt og það er einfalt að gera.

Einnig þarf að fylgja eftir áliti starfshóps um endurskoðun eignarhalds á bújörðum frá því í september 2018,  um aðrar mögulegar breytingar á jarðalögum og ábúðarlögum til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins.  Þessum tillögum voru gerð ítarleg skil í Bændablaðinu þann 1. nóvember s.l. og þegar hefur verið boðað að forsætisráðuneytið mun leiða áframhaldandi vinnu með tillögurnar.

Sveitarfélög geta notað skipulagsáætlanir betur en nú er gert  til að setja kvaðir um landnýtingu.  Sveitarfélög geta skilgreint landbúnaðarland sem halda skal í ræktanlegu ástandi í skipulagi.   Einnig væri athugandi að skilgreina í skipulagi,  jarðir þar sem heilsársbúseta er æskileg og geta þar komið inn fleiri sjónarmið en nýting til landbúnaðar,  s.s. öryggissjónarmið, eftirlit lands og náttúruvernd.  Í Landsskipulagsstefnu er nú þegar gert ráð fyrir að sett verði  fram leiðarljós um landnotkun í dreifbýli til leiðbeiningar fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga.

Þá geta stjórnvöld beitt skattlagningu til að hafa áhrif á nýtingu fasteigna eins og jarða og húsa sem á þeim standa. Þannig mætti beita fasteignaskatti sem hvata til nýtingar eigna í strjálbýli með því að leggja hærri skatt á eignir sem ekki eru í notkun.

Bætt skráning landeigna er forsenda þess að hægt verði að beita stjórntækjum markvisst við ráðstöfun lands. Til þess þarf að byggja upp miðlæga landeignaskrár sem inniheldur hnitsetta afmörkun allra landeigna; þjóðlenda, jarða og lóða.

Tæknin fyrir Landeignaskrá er til staðar,  aðeins þarf að setja reglur um skráningu og ganga skipulega til verks.  Landeignaskrá Íslands yrði gunnur að skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu á auðlindum jarðar með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 2018.

Categories
Greinar

Efling afurðastöðva í kjötiðnaði.

Deila grein

15/11/2018

Efling afurðastöðva í kjötiðnaði.

Nú liggur frammi frumvarp á Alþingi um breytingar á búvörulögum sem undirrituð er fyrsti flutningsmaður að. Frumvarpið felur í sér breytingar á þann hátt að  þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast og gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Það gæti m.a. falist ísamvinnu um flutning sláturgripa, dreifingu afurða og sölu á erlendamarkaði.

Eins og segir í greinagerð með frumvarpinu  er þetta gert í því skyni að undanþiggja afurðastöðvar í kjötiðnaði ákvæðum samkeppnislaga. Þá er allt kjöt undir. Með frumvarpinu er tilgangurinn er að veita innlendum kjötiðnaði tækifæri til að hagræða og til að bregðast við ört vaxandi samkeppni við afurðir frá erlendum mörkuðum. Afurðarstöðvar í kjötiðnaði hafa nú takmarkaða möguleika til samstarfs og sameiningar þar sem það er í andstöðu við ákvæði samkeppnislaga. Það skilar sér í of háum rekstrarkostnaði, háu verði til neytenda og lágu afurðaverði til bænda. Þá dregur það úr tækifærum til sóknar á erlenda markaði. Frumvarpinu er líka ætlað að bregðast við auknum innflutningi á landbúnaðarafurðum, en í dag eru um 20% af heildarneyslu innflutt kjöt. Litlar afurðastöðvar um landið hafa ekki einar og sér burði til að keppa á þessum markaði. Veruleikinn er að íslenskur landbúnaðar á nú þegar í alþjóðlegri samkeppni.

Hagur neytenda og bænda

Vandi sauðfjárbænda hefur mikið verið í umræðunni og var á sett á stað nefnd til að skoða hvaða úrræði væru í sjónmáli til að laga stöðu sauðfjárbænda. Í þeim viðræðum hefur verið nefnt að það þurfi að fara ofan í rekstrarumhverfi afurðastöðva. Í landinu eru níu afurðustöðvar sem hafa leyfi til að sinna sauðfjárslátrun. Þessar afurðastöðvar eru í eigu bænda að mestu leiti og því má segja að það sé alltaf hagur bænda að það sé grundvöllur til að hagræða í rekstri.  Verði frumvarpið samþykkt verður afurðastöðvum gert kleift að vinna saman og eða sameinast til að vinna t.d. að markaðstarfi erlendis eða hagræða í rekstri, það ætti að skila lægra verði til neytenda og hærri verði til bænda.

Í skýrslu KPMG um úttekt á afurðastöðvum er m.a. sagt að margt bendi til þess að fjöldi sláturhúsa sé of mikill og þeim þurfi að fækka til að auka hagræði í greininni. Þar segir líka að fækkun afurðastöðva gæti aukið arðsemi, sláturhúsin sem eftir verða hefðu svigrúm til að sjálfvirknivæðingar til að bregðast við erfileikum við að manna afurðastöðvarnar yfir háannatímann.

Hagsmunir bænda og neytenda fara saman og því er það sameiginlegt baráttumál að standa vörð um íslenska matvælaframleiðslu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 15. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Frelsi til heilbrigðis

Deila grein

12/11/2018

Frelsi til heilbrigðis

Ólafur Stephensen skrifar líflega grein í Morgunblað föstudagsins þar sem hann finnur að ýmsu því sem ég nefndi í grein minni í blaðinu á fimmtudag og varaði fólk við því, meðal annars, að taka of mikið mark á mér sem dýralækni. Munurinn á okkur Ólafi liggur þegar kemur að dýralækningum og dýraheilbrigði ekki síst í því að ég er dýralæknir en hann ekki. Er þá þessum hluta rökræðunnar lokið.

Einstök staða Íslands

Það sem einna helst einkennir líf, hvort sem það er mannlíf eða dýralíf, er að það þróast. Þetta á ekki einungis við um það að lífverur eldist, heldur einnig það að við vitkumst og þróumst í hugsun eftir því sem tíminn líður. Fyrir nokkrum áratugum mæltu amerískir læknar með einstaka sígarettutegundum í auglýsingum en sú aukabúgrein lækna er líklega úr sögunni. Sykurinn sem amma mín taldi meinhollan hefur einnig hrunið niður vinsældalista þeirra sem leggja áherslu á góða heilsu. : Læknar og dýralæknar (svo því sé haldið til haga) um allan heim hafa af því stórar áhyggjur að við blasi faraldur sé ekki brugðist hratt við notkun sýklalyfja í landbúnaði. Þá komum við að þeirri staðreynd að Íslendingar eru sem þjóð í þeirri stöðu sem flestar þjóðir heims vildu vera í. Ég mæli því ekki með því við Ólaf og verslunina að fara í slagsmál við lækna og dýralækna þegar kemur að heilbrigði manna og dýra á Íslandi.

Hrátt kjöt er ekki eins og hvert annað vörunúmer

Sá slagur sem Ólafur og verslunin eru í og hafa náð nokkrum árangri í er á sviði frjálsrar verslunar. Þá er bara spurningin sú hvort kjörbúðin sé rétti vettvangurinn fyrir matarslag. Hvort frjáls verslun með hrátt kjöt sé bara eins og hvert annað bókhaldsnúmer þegar við blasir á þeim mörkuðum sem verið er að opna að ástandið er bara alls ekki nógu gott. Og langt frá því.

Vakning um allan heim

EES-samningurinn er Íslendingum gríðarlega mikilvægur, ekki síst þegar kemur að hagsmunum sjávarútvegsins. Það að bera saman íslenskar sjávarafurðir og afurðir verksmiðjubúa meginlandsins er þó eins og að bera saman tómata og ananas. Ég lít svo á að það sé þess virði að berjast fyrir breytingum á EES-samningnum til þess að vernda þá góðu stöðu sem við höfum á sviði landbúnaðar, dýraheilbrigðis og lýðheilsu. Um þetta er gríðarleg vakning um allan heim en ekki síst á Norðurlöndum.

Tökum ekki áhættuna

Það erfiða við þetta mál er ekki síst það að ef við leyfum tímanum að leiða í ljós hvort það hafi áhrif á lýðheilsu Íslendinga að flytja inn hrátt kjöt þá verður okkur í Framsókn engin fró í því að standa upp eftir 20 ár og segja við Ólaf og félaga: „I told you so“.

Fyrir áhugasama þá er rétt að benda þeim á að gúggla nöfn veirufræðingsins Margrétar Guðnadóttur heitinnar og Karls G. Kristinssonar, yfirlæknis á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, og sjá hvað greinar þeirra hafa að segja um innflutning á hráu kjöti og sýklalyfjaónæmi. Því þótt þau séu ekki dýralæknar þá hafa þau mikið til málanna að leggja.

Útdregið: Læknar og dýralæknar (svo því sé haldið til haga) um allan heim hafa af því stórar áhyggjur að við blasi faraldur sé ekki brugðist hratt við notkun sýklalyfja í landbúnaði. Þá komum við að þeirri staðreynd að Íslendingar eru sem þjóð í þeirri stöðu sem flestar þjóðir heims vildu vera í.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dýralæknir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. nóvember 2018.