Categories
Fréttir Greinar

Holan í kerfinu

Deila grein

11/05/2024

Holan í kerfinu

Hjól samfélagsins snúast aðeins með sanngjörnum framlögum allra til samneyslunnar. Stærsti hluti almennings greiðir skatta af launum sínum, sem fara svo til ríkis og sveitarfélaga, sem starfrækja þau grunnkerfi sem við ætlumst til að séu til staðar í samfélaginu. Allir vilja að kerfin sem við treystum á virki hnökralaust og að allir leggi sitt af mörkum til samfélagsins, það finnst okkur flestum sanngjarnt.

Að taka ekki þátt

Skýrar vísbendingar eru um að hérlendis sé fólk sem sniðgengur skattgreiðslur með því að skrá launatekjur ranglega sem fjármagnstekjur. Þó flestir Íslendingar afli launatekna þá eru sumir sem afla einungis fjármagnstekna, má þar nefna vaxtatekjur, arð, söluhagnað, leigutekjur og fleira. Af fjármagnstekjum er innheimt lægri skattprósenta auk þess sem ekki er innheimt útsvar til þess sveitarfélags sem viðkomandi er búsettur í.

Innan sveitarfélaga er því fólk sem nýtir sér þjónustu þeirra án þess þó að greiða krónu fyrir. Það er því eðlilegt og sjálfsagt að sveitarfélög fái útsvar frá öllum þeim sem nýta þjónustu en sú þjónusta er annars vegna lögbundin og hins vegar ólögbundin en þykir þó í flestum tilfellum sjálfsögð.

Stoppum í gatið

Það að skapa velferðarsamfélag krefst þess að allir taki þátt og leggi sitt á vogarskálarnar. Lengi hefur verið varað við þessu ósamræmi og hvernig ákveðin hópur fólks kemst hjá réttlátum skattgreiðslum. Árlega er talið að ríkissjóður verði af mörgum milljörðum króna í núverandi fyrirkomulagi. Stjórnvöld hafa sett sér það markmið í stjórnarsáttmála að endurskoða regluverk í kringum tekjutilflutning og tryggja að þau sem hafa eingöngu fjármagnstekjur reikni sér endurgjald og greiði þannig útsvar. Í september 2022 hóf starfshópur störf á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um skattlagningu launa og reiknuð laun og skilaði hópurinn skýrslu til ráðherra í september 2023 og var hún kynnt í ríkisstjórn í desember sama ár. Lagði hópurinn m.a. til að strax yrði farið í breytingar sem ekki kölluðu á lagabreytingar auk tillagna sem þarfnast aðkomu löggjafans. Undirritaður vonast til að frumvarp þess efnis rati bráðlega inn til Alþingis. Það er sanngirnismál að klára slíka löggjöf sem allra fyrst og vonast ég til þess að um það ríki þverpólitísk samstaða á Alþingi.

Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknar og nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Leynihótel

Deila grein

10/05/2024

Leynihótel

Í síðustu viku samþykkti Alþingi frum­varp sem hef­ur áhrif á þann fjölda íbúða sem eru í skamm­tíma­leigu til lengri tíma. Laga­breyt­ing þessi var gerð með það að mark­miði að auka fram­boð íbúðar­hús­næðis og með því stuðla að auknu jafn­vægi á hús­næðismarkaði.

Í dag get­ur hver sem er sett íbúð í sinni eigu í út­leigu í allt að 90 daga. Ef eig­andi hyggst leigja út íbúð sína til lengri tíma í skamm­tíma­leigu hef­ur hann þurft að sækja um rekstr­ar­leyfi gisti­staða. Við sjá­um mörg dæmi þess að ein­stak­ling­ar og fyr­ir­tæki kaupi íbúðir til að setja þær í heils­árs­leigu á airbnb eða hjá sam­bæri­leg­um milli­gönguaðila. Í sum­um til­vik­um má sjá að það eru marg­ar íbúðir í sömu blokk í skamm­tíma­leigu fyr­ir eitt fyr­ir­tæki allt árið og því má segja að það sé leyni­hót­el í miðju íbúðahverfi án þess að á því séu þær ör­yggis­kröf­ur og gjöld sem við setj­um á hót­el. Frum­varpið bann­ar rekstr­ar­leyfi gisti­staða í íbúðar­hús­næði í þétt­býli og því er heils­árs­leig­an ekki leng­ur mögu­leiki.

Mis­jöfn staða dreif­býl­is og þétt­býl­is

Fólki hef­ur orðið tíðrætt um fram­boðsskort á íbúðar­hús­næði á þétt­býl­um svæðum lands­ins. Töl­fræðin sýn­ir okk­ur að tals­verður fjöldi íbúða á þétt­býl­um svæðum er nýtt­ur í skamm­tíma­leigu til ferðamanna. Þessi mikla nýt­ing íbúðar­hús­næðis er ein ástæða fram­boðsskorts á höfuðborg­ar­svæðinu. Stjórn­völd hafa ákveðið að bregðast við þessu á þann veg að tak­marka heim­ild­ir til slíkr­ar út­leigu. En skamm­tíma­leig­an hef­ur mis­mun­andi áhrif á svæði lands­ins. Því taldi at­vinnu­vega­nefnd Alþing­is mik­il­vægt að tak­mörk­un þessi ætti ekki við gist­ingu í dreif­býli, eins og smá­hýsi á sveita­bæj­um og frí­stunda­hús í út­leigu. Tak­mörk­un­in var því ein­skorðuð við þétt­býl svæði. Það var gert til að tryggja að gisti­starf­semi utan þétt­býliskjarna, einkum í sveit­um, geti áfram notið sér­stöðu og stuðlað að bætt­um kjör­um íbúa þeirra svæða.

Við erum að ganga í aðgerðir til að ná betri tök­um á hús­næðismarkaðnum.

Þegar hús­næðisþörf er eins mik­il og raun ber vitni, sér­stak­lega meðal ungs fólks, geta stjórn­völd ekki setið á hönd­un­um og leyft aðilum að kaupa fjölda íbúða ein­ung­is í þeim til­gangi að leigja út til ferðamanna. Sú þróun hef­ur haft þau áhrif að fjöl­marg­ar íbúðir hafa horfið af al­menn­um hús­næðismarkaði, með til­heyr­andi áhrif­um á fram­boð, hús­næðis­verð og jafn­vel leigu­verð. Þetta eru íbúðir sem eru marg­ar í hent­ugri stærð fyr­ir ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð. Því eru það gleðifrétt­ir að þetta frum­varp hafi verið samþykkt.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar og var fram­sögumaður máls­ins í at­vinnu­vega­nefnd Alþing­is.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Stutt við barna­fjöl­skyldur

Deila grein

10/05/2024

Stutt við barna­fjöl­skyldur

Á Alþingi var vikunni mælt fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2024, en við vinnslu fjárlaga lá ekki fyrir með hvaða hætti stjórnvöld myndu koma að gerð kjarasamninga. Með frumvarpi til fjáraukalaga er nú verið að leita aukinna fjárheimilda til Alþingis vegna samninganna. Það má með sanni segja að hluti þeirra aðgerða sem mælt er hér fyrir miði að því að bæta hag barnafjölskyldna á landinu, enda er hér lögð sérstök áhersla á að stuðla að fjölskylduvænna samfélagi. Hér er fullt tilefni til að vekja sérstaklega athygli á þeim góðu og jákvæðu skrefum sem hér eru stigin í þá átt.

Vaxtastuðningur

Ungt fólk sem komið hefur inn á fasteignamarkaðinn síðustu ár hefur fundið mikið fyrir auknum vaxtakostnaði síðustu mánuði. Þessi aukni kostnaður leggst sérstaklega hart á barnafólk sem samhliða því að koma undir sér og sínum þaki yfir höfuðið þarf m.a. að greiða fyrir leikskóla, fæði, íþróttir og tómstundir svo eitthvað sé nefnt. Til þess að mæta auknum vaxtakostnaði verða á árinu greiddir út allt að 7 milljarðar króna í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Hámark sérstaks vaxtastuðnings mun nema 150.000 kr. fyrir einstakling, 200.000 fyrir einstæða foreldra og 250.000 fyrir sambúðarfólk að teknu tilliti til skerðinga vegna tekna og eigna. Gert er ráð fyrir að sérstakur vaxtastuðningur greiðist beint inn á höfuðstól húsnæðisláns en að heimilt verði að óska eftir að nýta hann til lækkunar á afborgunum í tiltekinn tíma.

Barnabætur hækka

Barnabótakerfið hefur á kjörtímabilinu verið einfaldað og stuðningur efldur, nú á að bæta um betur. Hækka á barnabætur á samningstímanum ásamt því að draga úr tekjuskerðingu, þannig mun foreldrum sem fá stuðning með þessum hætti fjölga um 10.000. Í heildina munu framlög til barnabóta hækka um 3 milljarða króna á þessu ári og um 2 milljarða króna á árinu 2025 og verða þá orðin um 21 milljarður króna á ári.

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir

Frá og með ágúst á þessu ári verða skólamáltíðir grunnskólabarna gjaldfrjálsar út árið 2027 í samræmi við gildistíma kjarasamninga á almennum markaði. Með þessum aðgerðum munu öll börn eiga kost á hollum og góðum skólamáltíðum. Börn búa vissulega við misjöfn kjör og koma úr mismunandi aðstæðum, en holl og staðgóð næring er þýðingarmikil fyrir þroska og starfsorku og óhætt er að fullyrða að vel nærð börn séu betur undirbúin til náms. Fyrir þessu hef ég talað frá því ég hóf minn feril í stjórnmálum og voru stigin markviss skref í þessa átt kjörtímabilið 2018-2022 í Hafnarfirði þegar systkinaafsláttur var í fyrsta skipti innleiddur í skólamáltíðir grunnskólabarna. Það er því sérstakt fagnaðarefni að nú sé skrefið stigið til fulls, en hér er að mínu mati um jafnréttis- og lýðheilsumál að ræða sem samhliða mun auka ráðstöfunartekjur venjulegs fjölskyldufólk umtalsvert.

Hærri greiðslur í fæðingarorlofi

Til þess að treysta fjárhagslegt öryggi ungbarnafjölskyldna og stuðla að því að markmið fæðingarorlofskerfisins um samvistir barna við báða foreldra og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs nái fram að ganga verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Þann 1. apríl 2024 voru þær hækkaðar úr 600.000 þúsund krónum á mánuði í 700.000 kr., frá og með 1. janúar 2025 í 800.000 kr. og frá og með 1. janúar 2026 í 900.000 kr.

Hækkun húsnæðisbóta

Margar ungar barnafjölskyldur eru fastar á leigumarkaði. Til þess að draga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda verða húsnæðisbætur hækkaðar. Aukið tillit verður tekið til fjölskyldustærðar með fjölgun bótaflokka frá 1. júní n.k. Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda eru hækkaðar um 25% og með því að taka tillit til fjölskyldustærðar verða þannig greiddar húsnæðisbætur fyrir allt að sex heimilismenn í stað fjögurra áður.

Betri skilyrði fyrir barnafjölskyldur

Stjórnvöld vilja skapa góð skilyrði fyrir barnafjölskyldur á Íslandi til þess að vaxa og dafna. Samhliða þessum aðgerðum leggja stjórnvöld ríka áherslu á að stuðla að minni verðbólgu og lækkun vaxta. Við sem stöfum á Alþingi vitum að róðurinn hefur verið þungur síðustu misseri og því er farið í markvissar aðgerðir sem þessar, þar sem markmiðið er að létta þeim róðurinn sem þyngstar byrðar bera nú um stundir. Aðgerðirnar sem hér hefur verið farið yfir munu auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna verulega á samningstímanum eða um 500 þúsund kr. á ári.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ófyrirsjáanlegir atburðir kalla á yfirveguð viðbrögð

Deila grein

09/05/2024

Ófyrirsjáanlegir atburðir kalla á yfirveguð viðbrögð

Eitt af mín­um fyrstu embættis­verk­um sem fjár­mála- og efna­hags­ráðherra var að mæla á þingi fyr­ir fjár­mála­áætl­un fyr­ir árin 2025-2029. Eins og kunn­ug­ir vita er um að ræða áætl­un sem ramm­ar inn fjár­mál rík­is­ins næstu fimm árin. Nán­ari út­færsla er síðan í fjár­lög­um hvers árs.

Sterk staða, for­gangs­röðun, lækk­un skulda

Í fjár­mála­áætl­un er lögð sér­stök áhersla á að verja sterka stöðu, for­gangsraða verk­efn­um og lækka skuld­ir. Í því felst að út­gjalda­vexti er haldið í skefj­um til að stuðla að lækk­un verðbólgu og vexti kaup­mátt­ar og nýj­um út­gjöld­um verður mætt með aðhaldi í öðrum rekstri. Mik­il­vægt er að lækka skuld­ir rík­is­ins, ekki aðeins til að lækka vaxta­kostnað held­ur einnig til að ríkið hafi svig­rúm til viðbragða ef áföll skella á okk­ur, hvort sem það er af nátt­úr­unn­ar hendi eða öðrum or­sök­um.

Vöxt­ur hag­sæld­ar í sér­flokki

Ef horft er á stóru mynd­ina þá er vöxt­ur hag­sæld­ar á Íslandi í al­gjör­um sér­flokki á síðustu árum. Kaup­mátt­ur launa hef­ur vaxið veru­lega frá ár­inu 2013 á meðan hann hef­ur staðið í stað eða minnkað ann­ars staðar á Norður­lönd­um og lönd­um Vest­ur-Evr­ópu. Skuld­ir í hlut­falli við ráðstöf­un­ar­tekj­ur heim­ila eru líka í sögu­legu lág­marki. Sama má segja um skuld­ir fyr­ir­tækja.

Lægri vext­ir eru sam­eig­in­leg­ir hags­mun­ir

Rík­is­stjórn­in lagði mikla áherslu á að styðja við það sam­eig­in­lega mark­mið launa­fólks og at­vinnu­rek­enda á al­menn­um markaði að ná niður verðbólgu og vöxt­um með hóf­söm­um lang­tíma­samn­ing­um. Al­menni markaður­inn gekk á und­an með góðu for­dæmi og skiptu þar miklu máli aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Nú er komið að op­in­bera markaðnum sem verður að fylgja for­dæmi þeirra sem þegar hafa samið á al­menn­um markaði. Það er stærsta hags­muna­mál alls launa­fólks að vext­ir lækki. Ábyrgð hins op­in­bera og viðsemj­enda þeirra er því mik­il. Mjög mik­il.

Mjúk lend­ing að raun­ger­ast

Aðgerðir Seðlabanka Íslands og rík­is­stjórn­ar­inn­ar eru farn­ar að hafa áhrif á verðbólgu sem hef­ur lækkað hægt en ör­ugg­lega síðasta árið. Ný fjár­mála­áætl­un styður við áfram­hald­andi lækk­un. Fjár­mála­áætl­un 2025-2029 er hóf­söm. Hún boðar eng­ar bylt­ing­ar og blóðugan niður­skurð. Staðinn er vörður um grund­vall­ar­kerfi sam­fé­lags­ins, svo sem heil­brigðis­kerfið, mennta­kerfið, lög­gæslu og fé­lags­leg úrræði. Sú mjúka lend­ing sem rík­is­stjórn­in hef­ur stefnt að frá því í heims­far­aldr­in­um er að raun­ger­ast.

Ljóst er að alltaf eru tæki­færi til um­bóta í rekstri rík­is­ins. Unnið verður að því að for­gangs­röðun fjár­muna sé ávallt í sam­ræmi við þarf­ir sam­fé­lags­ins.

Rík­is­stjórn­in held­ur yf­ir­veguð um stýrið. Ríf­ur ekki í hand­brems­una, ríf­ur ekki í stýrið. Ófyr­ir­sjá­an­leg­ir at­b­urðir kalla á yf­ir­veguð viðbrögð.

Þannig er nú það.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar og fjár­mála- og efna­hags­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Stuðningur við lang­tíma­kjara­samninga

Deila grein

08/05/2024

Stuðningur við lang­tíma­kjara­samninga

Í gær mælti ég fyrir frumvarpi um fjáraukalög sem tekur utan um þær aðgerðir ríkissstjórnarinnar sem styðja við gerð skynsamlegra langtímakjarasamninga. Það er óhætt að segja að sú samstaða sem náðist á almenna markaðnum um hófsama kjarasamninga til fjögurra ára sé gríðarlega mikilvæg til þess að hér skapist aðstæður þar sem vextir geta farið lækkandi. Sú sameiginlega sýn sem náðist milli launafólks og atvinnurekenda um í hverju hagsmunir samfélagsins fælust er til mikillar fyrirmyndar og sýnir að samvinna ólíkra aðila er ekki aðeins möguleg heldur nauðsynleg til að ná alvöru árangri.

Stjórnvöld áttu í góðu samtali við aðila vinnumarkaðarins í þjóðhagsráði. Út frá þeim samtölum vann ríkisstjórnin hörðum höndum að því að skapa umgjörð sem gæti skilað kjarasamningum til langs tíma sem myndu styðja við lækkun verðbólgu og í kjölfarið lækkun vaxta. Afraksturinn er fjölbreyttur og mun auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna verulega á samningstímanum eða um allt að 500 þúsund krónur á ári.

Sérstakur einskiptis vaxtastuðningur

Til að mæta sérstaklega þeim sem eru með há vaxtaútgjöld vegna íbúðarhúsnæðis kemur til sérstakur einskiptist vaxtastuðningur. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Heildarskostnaður er áætlaður sex milljarðar króna og er ekki gert ráð fyrir að aðgerðin verði enduretekin þar sem forsendur kjarasamninga miðast við að vaxtakostnaður heimila muni lækka.

Hærri barnabætur og minni tekjuskerðingar

Barnabætur verða hækkaðar og dregið úr tekjuskerðingum. Með þessari aðgerð mun foreldrum sem fá stuðning með þessum hætti fjölga um tíu þúsund. Viðbótarkostnaður vegna þessa er áætlaður þrír milljarðar króna.

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir

Ísland hefur skorið sig úr samanburðarlöndum þegar kemur að fjölgun barna sem búa við fátækt. Til að mæta því hafa margir lagt til að dregið verði verulega úr kostnaði fjölskyldna vegna skólamáltíða. Velferðarvaktin er meðal þeirra sem lagt hafa áherslu á þessa leið sem verður farin, að minnsta kosti út samningstímabilið og hefst frá og með næsta skólaári. Kostnaður ríkisins á þessu ári er áætlaður 1,5 milljarðar króna og munu um 45 þúsund börn njóta gjaldfrjálsra skólamáltíða.

Hærri húsnæðisbætur til leigjenda

Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda hækka um 25% og með því að taka tillit til fjölskyldustærðar verða greiddar húsnæðisbætur fyrir allt að sex heimilismenn í stað fjögurra áður. Breytingin tekur gildi fyrsta júní næstkomandi. Kostnaður vegna þessa verður um 1,3 milljarðar á árinu.

Hækkun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði

Hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verða hækkaðar úr 600 þúsund krónum á mánuði í 700 þúsund frá 1. apríl síðastliðnum. Viðbótarkostnaður er áætlaður 600 milljónir króna.

Aukin gjaldfærsla vegna hlutdeildarlána

Með aukinni gjaldfærslu er veitt svigrúm fyrir aukin hlutdeildarlán að upphæð einn milljarður króna. Kostnaður vegna þessa er 320 milljónir króna. Hlutdeildarlánin gagnast þeim sem eru með lágar tekjur litlar eignir og gerir þeim kleift að eignast eigið húsnæði.

Framlag til vinnustaðanámssjóðs hækkað

150 milljónir króna eru ætlaðar til að hækka framlag til vinnustaðanámssjóðs til að efla vinnustaðanám og fjölga tækifærum nema til starfsþjálfunar.

Aukið aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu

Með 50 milljóna króna framlagi er dregið úr kostnaði fólks við að sækja heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð.

Hækkun á hámarksábyrgð Ábyrgðarsjóðs launa

Gert er ráð fyrir 49 milljón króna hækkun framlaga til Ábyrgðarsjóðs launa vegna hækkunar á hámarksábyrgð.

Þær aðgerðir stjórnvalda sem koma fram í frumvarpi til fjáraukalaga eru mikilvægar til þess að hér skapist aðstæður fyrir lækkun vaxta. Nú er pressan á hið opinbera og viðsemjendur þeirra að fylgja skynsamlegu fordæmi almenna markaðarins. Lengra verður ekki gengið af hálfu stjórnvalda.

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Öryggisógnir í breyttum heimi

Deila grein

19/04/2024

Öryggisógnir í breyttum heimi

Ein af grundvallarskyldum stjórnvalda á hverjum tíma er að tryggja öryggi borgaranna. Fjölmargir þættir falla þar undir sem flestum eru kunnir en stjórnvöld þurfa einnig að vera vakandi fyrir nýjum hættum sem kunna að ógna íslensku samfélagi. Svokallaðar fjölþáttaógnir falla þar undir en hugtakið vísar til samstilltra aðgerða óvinveittra ríkja eða aðila tengdum þeim sem nýta sér kerfislæga veikleika lýðræðisríkja, stofnana og hópa samfélagsins með það að markmiði að veikja áfallaþol samfélagsins, grafa undan lýðræði, trausti og samfélagslegri samheldni til að ná pólitískum, efnahagslegum og/eða hernaðarlegum markmiðum. Þessar aðgerðir geta falist í dreifingu falsfrétta, netárásum, íhlutun í lýðræðislegt ferli og kosningar og erlendar fjárfestingar í mikilvægum innviðum þar sem annarlegar hvatir búa að baki, en aðstaða fjárfesta getur haft áhrif á virkni mikilvægra innviða á grundvelli beins eða óbeins eignarhalds. Fjölþáttaógnir gera greinarmun á stríði og friði óskýrari. Því getur verið erfitt að verjast fjölþáttaógnum og -aðgerðum, enda virða þær hvorki landamæri, skil á milli stofnana innan ríkja né mörk hins opinbera og einkageirans.

Nýjar leiðir til að valda skaða

Segja má að með þeim aðferðum sem beitt er séu farnar leiðir sem valda skaða án þess að beita hefðbundnum hernaði. Árásir geta verið fjölbreyttar og hægt er að beita þeim í skjóli leyndar og afdráttarlausrar neitunar á ábyrgð. Sú aðferð sem helst hefur borið á hér á landi eru netógnir hvers konar. Gleggsta dæmið er nýleg netárás á tölvukerfi háskólans í Reykjavík en á málþingi Defence Iceland sem fór fram í Grósku fimmtudaginn 11. apríl fjallaði Jacky Mallett, lektor í tölvunarfræði við háskólann um rússneska hakkarahópinn Akira sem bar ábyrgð á netárásinni og innbrotinu í kerfi skólans, hvernig hópurinn virkar, þau tól og tæki sem hann nýtir sér og þá veikleika kerfa sem helst er herjað á.

Þá fjallaði Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika um varnir fjármálakerfisins og þá miklu vinnu sem Seðlabankinn hefur ráðist í á undanförnum árum til þess að mæta netógnum. Á opnum fundi efnahags-og viðskiptanefndar Alþingis þann sama dag þar sem skýrsla Seðlabankans til Alþingis um fjármálastöðugleika var til umræðu kom fram í máli Gunnars að ein helsta ógnin í dag við fjármálastöðugleika fælist í netárásum á fjármálainnviði hér á landi. Sú fullyrðing ásamt mýmörgum dæmum þar sem ráðist hefur verið gegn fyrirtækjum og stofnunum hér á landi sýnir glögglega hversu mikilvægt það er fyrir íslenskt samfélag að stórefla netvarnir hér á landi.

Áhætta vegna netárása eykst

Netárásum getur verið beitt t.a.m. með árásum á mikilvæga innviði og/eða samfélagslega mikilvæga þjónustu. Veikleikar í rekstri net- og upplýsingakerfa þeirra geta haft lamandi áhrif á mikilvæga samfélagslega starfsemi og dregið úr almanna- og þjóðaröryggi. Netárásir geta ekki bara lamað fyrirtæki og stofnanir og valdið fjárhagslegum skaða heldur geta netþrjótar komist yfir viðkvæm gögn sem síðan er lekið með ómældum skaða fyrir þá sem um ræðir. Slík gögn geta verið persónuupplýsingar, trúnaðarupplýsingar af ýmsum toga, viðskiptaleyndarmál, rannsóknargögn og svo má lengi telja. Netárásir geta líka falist í gíslatöku gagna þar sem farið er fram á lausnargjald, valdið skemmdum á netkerfum þannig að starfsemi s.s. bankastarfsemi og ýmis mikilvæg starfsemi hins opinbera stöðvast. Þar sem áhættan á netárásum hefur aukist hafa tryggingafélög boðið upp á tryggingarvernd fyrir netárásum sem sýnir í hnotskurn þá alvarlegu ógn sem stafar af athæfinu. Í dæmi Háskólans í Reykjavík er talið fullvíst að netþrjótar njóti verndar og jafnvel liðsinnis og samstarfs við óvinveitt ríki. Netógnir eru því alls ekki einkamál fyrirtækja og einstaklinga heldur miklu frekar sameiginleg ógn við þjóðina í heild.

Mikil samhæfingarvinna nauðsynleg

Ísland er mjög netvætt samfélag sem reiðir sig á virkni mikilvægra innviða á ábyrgð ríkisins, opinberra stofnana og fyrirtækja á almennum markaði. Virkni þessara innviða byggist í auknum mæli á samvirkni skipulags, mannvirkja og net- og upplýsingakerfa. Aðgerðir stjórnvalda sem miða að því að styrkja net- og upplýsingakerfi og áfallaþol samfélagsins falla undir málefnasvið margra ráðuneyta hér á landi. Netglæpir eru rannsakaðir af lögreglu sem fellur undir málefnasvið dómsmálaráðuneytisins, varnarmál landsins falla undir ráðuneyti utanríkismála, fjarskipti og netöryggi falla undir háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda fellur undir fjármálaráðuneyti, orkumál og orkuöryggi fellur undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og heilbrigðiskerfið undir heilbrigðisráðuneytið svo eitthvað sé nefnt. Mikil samhæfingarvinna er því nauðsynleg til þess að ná ásættanlegum árangri til styrkingar á áfallaþoli samfélagsins. Netöryggisheimurinn fer ört vaxandi hér á landi og því fer þekking á málaflokknum jafnframt ört vaxandi. Ásamt því að taka þátt í öndvegissetri um netöryggismál í Tallin í Lettlandi og um fjölþáttaógnir í Helsinki er starfrækt sérstök netöryggissveit undir Fjarskiptastofu sem í daglegu tali er kölluð CERT-IS. Ísland tekur að auki þátt í netöryggiskeppnum hérlendis og erlendis og fór ein slík keppni fram nýverið er nefnist Gagnaglíman og er stefnan sett á að senda íslenskt lið í Netöryggiskeppni Evrópu (European Cyber Security Challenge, ECSC) sem haldin verður á Ítalíu í haust.

Forvarnir skipta máli

Íslensk fyrirtæki hafa verið að hasla sér völl á sviði forvarna gegn netglæpum á undanförnum árum. Eitt þeirra fyrirtækja er AwereGO sem hjálpar fyrirtækjum og stofnunum við að efla öryggi sitt út frá fræðslu og forvörnum. Stór ástæða innbrota í tölvukerfi gengur út á misnotkun á mannlegum þáttum þar sem starfsmenn eru plataðir með einhverju móti eða glæpamenn nýta sér veikleika ef þekkingu skortir á ábyrgri tölvu-og netnotkun. Má þar nefna vanþekkingu á því hvernig má greina fölsk skilaboð og tölvupósta, skort á uppfærslu lykilorða og tveggja þátta auðkennis, vanþekkingu á mögulegum gagnastuld og svo má lengi telja. Rétt eins og með aðrar forvarnir er alltof algengt að fyrirtæki og stofnanir vanræki þá þætti í starfsemi sinni. Kostnaðurinn við að tryggja tölvukerfi og örugga tölvunotkun er óverulegur samanborið við þann skaða sem innbrot í tölvukerfi getur haft.

Þörf á vitundarvakningu

Stjórnvöld vinna í dag eftir netöryggisstefnu fyrir árin 2022-2037 en í stefnunni er birt framtíðarsýn og markmið stjórnvalda á sviði netöryggis ásamt mælikvörðum og áherslum. Annað af tveimur markmiðum stefnunnar er að efla þekkingu og hæfni með aukinni áherslu á almannafræðslu, menntun, rannsóknir, þróun og alþjóðlega samvinnu. Hitt lýtur að öruggu netumhverfi, þ.e. að til staðar sé öruggt netskipulag sem geti með skilvirkum hætti brugðist við netöryggisatvikum sem ógnað geta þjóðaröryggi, mikilvægum innviðum og réttindum einstaklinga. Ör þróun netöryggismála og síbreytilegar aðstæður krefjast lagaumhverfis sem stuðlar að vernd einstaklinga, atvinnulífs og samfélagsins í heild og að því sé fylgt eftir með löggæslu, þar á meðal með viðeigandi samfélagslegri samvinnu.

Mikilvægt er að taka sérstaklega fram að í stefnunni er lögð áhersla á vernd þeirra sem kunna að vera í viðkvæmri stöðu. Tryggja þarf vernd barna á Netinu með stefnu, skýrri löggjöf og ábyrgð á framkvæmd og eftirfylgni. Í því samhengi telur undirritaður afar mikilvægt að stjórnvöld standi einnig fyrir vitundarvakningu um netöryggi og örugg netnotkun verði tekin inn í aðalnámskrá skóla. Öryggisógnir á netinu eru komnar til að vera og það er afar mikilvægt að við öll aðlögum okkur að breyttum heimi.

Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður framsóknar og situr í Þjóðaröryggisráði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Af húsnæðismarkaði og aðgerðum

Deila grein

18/04/2024

Af húsnæðismarkaði og aðgerðum

Ný­verið mælti Sig­urður Ingi Jó­hanns­son fjár­mála- og efna­hags­ráðherra fyr­ir frum­varpi sem fel­ur í sér rýmk­un á heim­ild­um líf­eyr­is­sjóða til að fjár­festa í fé­lög­um þar sem meg­in­starf­sem­in er lang­tíma­leiga íbúðar­hús­næðis til ein­stak­linga. Það er rík ástæða til að fagna þessu frum­varpi og ég hef áður bent á mik­il­vægi þess í ræðu og riti. Líf­eyr­is­sjóðir þurfa að fá rýmri heim­ild til fjár­fest­inga á hús­næðismarkaði og taka þátt í því mik­il­væga verk­efni að byggja hér upp traust­an leigu­markað til framtíðar. Það er afar brýnt að ná tök­um á stöðunni á hús­næðismarkaði og hef ég bent á leiðir til þess svo hægt sé að ná tök­um á verðbólg­unni til lengri tíma. Þessi heim­ild sem nú hef­ur verið mælt fyr­ir er einn liður í þeirri veg­ferð, en meira þarf til.

Lengi hef­ur verið rætt um skort á leigu­hús­næði á Íslandi og meira ör­yggi á þeim markaði, ásamt fjöl­breytt­ari úrræðum á hús­næðismarkaði. Með því að veita líf­eyr­is­sjóðum heim­ild til þess að fjár­festa í leigu­hús­næði skap­ast aukn­ar for­send­ur fyr­ir því að líf­eyr­is­sjóðir beini fjár­magni í fjár­fest­ingu á leigu­hús­næði og raun­ger­ist slíkt, má vel halda því fram að slíkt muni halda aft­ur af verðhækk­un­um á fast­eigna­markaði. Aukið fram­boð á leigu­hús­næði fjölg­ar val­mögu­leik­um ein­stak­linga til að finna sér hent­ugt bú­setu­form. Þá eru fjár­sterk­ir lang­tíma­eig­end­ur mjög ákjós­an­leg­ir kaup­end­ur að hús­næði og það eitt kann að flýta fyr­ir upp­bygg­ingu íbúða.

Mark­viss skref

Lengi hef­ur verið kallað eft­ir því að ná jafn­vægi á hús­næðismarkaði. Að því hef­ur verið unnið síðustu ár á vakt Fram­sókn­ar og er óum­deilt. Það var meðal ann­ars gert með fram­lagn­ingu hús­næðis­stefnu síðastliðið haust en þar er um að ræða fyrstu heild­ar­stefnu í hús­næðismál­um til 15 ára og aðgerðaáætl­un til fimm ára. Með stefn­unni má stuðla að skil­virk­ari stjórn­sýslu þannig að stefna, áhersl­ur og aðgerðir í hús­næðismál­um skapi skil­yrði til að öll­um sé tryggt aðgengi að góðu og ör­uggu hús­næði með viðráðan­leg­um hús­næðis­kostnaði sem hent­ar ólík­um þörf­um hvers og eins. Það frum­varp tengt aukn­um heim­ild­um líf­eyr­is­sjóða sem Sig­urður Ingi fjár­mála- og efna­hags­ráðherra mælti fyr­ir ný­verið er í sam­ræmi við þá stefnu. Alls hafa níu frum­vörp sem eru hluti aðgerðanna í til­lögu til þings­álykt­un­ar um hús­næðis­stefnu verið í vinnslu eða verið lögð fram á Alþingi. Frum­vörp­in styðja við þau mark­mið sem stefn­an bygg­ist á.

Þá hafa ýms­ar aðrar aðgerðir komið til fram­kvæmda og má þar nefna að alls eru 2.643 nýj­ar leigu­íbúðir komn­ar í notk­un af þeim 3.486 íbúðum sem hafa fengið stofn­fram­lög frá ríki og sveit­ar­fé­lög­um á síðustu átta árum. Lang­flest­ar íbúðanna, eða um 2.227, eru á höfuðborg­ar­svæðinu. Þá hafa 806 íbúðir verið fjár­magnaðar í hlut­deild­ar­lána­kerf­inu, sem er nýtt kerfi og er leið fólks til að kom­ast inn á fast­eigna­markaðinn sem á ekki eða á erfitt með að safna fyr­ir fullri út­borg­un en get­ur greitt mánaðarleg­ar af­borg­an­ir. Skil­yrðin eru að vera að kaupa íbúð í fyrsta skipti eða að hafa ekki átt íbúð síðustu fimm ár. Það er aug­ljóst að hið op­in­bera hef­ur á und­an­förn­um árum verið að gera sitt til að tryggja jafn­vægi á hús­næðismarkaði og óum­deilt að án styrkr­ar for­ystu Fram­sókn­ar í upp­bygg­ingu nýs hús­næðis­kerf­is fyr­ir tekju- og eigna­litla væri staðan mun verri fyr­ir þá hópa sem hér er um rætt.

Við þurf­um Seðlabank­ann með

Stærsta áskor­un sam­fé­lags­ins í hús­næðismál­um á kom­andi árum snýr að því að tryggja nægt fram­boð af fjöl­breyttu hús­næði og skapa um­hverfi svo fýsi­legt sé fyr­ir fram­kvæmdaaðila á al­menn­um markaði að byggja hús­næði. Við vor­um á réttri leið, en það hef­ur komið bak­slag á síðustu árum og það má helst rekja til skorts á lóðum á nýj­um svæðum, vaxtaum­hverf­is og hertra lánþega­skil­yrða. Með öðrum orðum; það vant­ar lóðir, láns­fjár­magn er orðið mjög dýrt sem hef­ur letj­andi áhrif á fram­kvæmdaaðila og fólki hef­ur verið gert erfiðara um vik að kom­ast í gegn­um greiðslu­mat vegna hertra lánþega­skil­yrða. Þetta er eitraður kokteill í nú­ver­andi ástand þar sem nauðsyn­legt er að byggja til að anna eft­ir­spurn. Seðlabank­inn hef­ur að und­an­förnu, með aðgerðum sín­um, hlaðið í snjó­hengju kyn­slóða sem bíða eft­ir tæki­færi til að kom­ast út á markaðinn á sama tíma og hann hef­ur tafið fyr­ir þeirri nauðsyn­legu upp­bygg­ingu sem fram und­an er.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður og 1. vara­formaður efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar Alþing­is.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Um afgreiðslu nýrra búvörulaga

Deila grein

18/04/2024

Um afgreiðslu nýrra búvörulaga

Und­an­farna daga hef­ur verið linnu­laus frétta­flutn­ing­ur um af­greiðslu at­vinnu­vega­nefnd­ar Alþing­is á frum­varpi Svandís­ar Svavars­dótt­ur, þá mat­vælaráðherra, um fram­leiðenda­fé­lög. Í þess­um frétta­flutn­ingi, sem hef­ur verið sér­stak­lega óbil­gjarn, hef­ur verið farið fram með gíf­ur­yrðum og rang­færsl­um og af því til­efni tel ég rétt að fara hér yfir nokkr­ar staðreynd­ir.

Eina Evr­ópu­landið án und­anþágu fyr­ir kjötaf­urðastöðvar

Allt frá ár­inu 2020 hafa stjórn­ar­flokk­arn­ir haft það til skoðunar að inn­leiða und­anþágu fyr­ir kjötaf­urðastöðvar frá sam­keppn­is­lög­um. Tvær ástæður búa þar að baki. Fyrri ástæðan er vel þekkt en lengi hef­ur af­koma í land­búnaði, m.a. vegna rekst­urs kjötaf­urðastöðva, verið mjög slæm – reynd­ar svo slæm að nú er svo komið að kjötaf­urðastöðvar eru langt­um of marg­ar og rekst­ur­inn svo erfiður að eig­end­ur þeirra hafa ekki getað ráðist í nauðsyn­leg­ar end­ur­bæt­ur. Seinni ástæðuna má rekja til út­gáfu skýrslu Laga­stofn­un­ar Há­skóla Íslands, sem unn­in var að beiðni Kristjáns Þórs Júlí­us­son­ar, þáver­andi at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, þar sem kom­ist var að þeirri niður­stöðu að víðtæk­ar und­anþágur hefðu gilt í ESB-rétti og norsk­um rétti um ára­tuga­skeið. Það mætti líkja þessu við að ís­lensk­ir bænd­ur mættu með smjör­hníf á móti sverði þegar kem­ur að sam­keppni við inn­flutt­ar land­búnaðar­vör­ur.

Um frum­varp mat­vælaráðherra

Sú staða sem ís­lensk­ur land­búnaður hef­ur búið við var ástæða þess af hverju fyrr­ver­andi mat­vælaráðherra lagði fram frum­varp um und­anþágu fyr­ir fram­leiðenda­fé­lög sem fól í sér und­anþágu frá sam­keppn­is­lög­um. Við fram­lagn­ingu frum­varps­ins var hins veg­ar strax ljóst að van­kant­ar væru á mál­inu þar sem það gagnaðist í raun ein­ung­is litl­um hluta fram­leiðslu­kerf­is land­búnaðar, nán­ar til­tekið ali­fugla- og svína­bænd­um. Þannig var ljóst að frum­varpið hefði ekki gagn­ast meg­inþorra afurðastöðva í stór­gripa- og sauðfjár­slátrun þar sem vand­inn hef­ur verið mest­ur. Haf­andi heyrt ábend­ing­ar frá þing­mönn­um full­yrti fyrr­ver­andi mat­vælaráðherra þetta í ræðustól á Alþingi í umræðum um málið og sagði: „Ég held að þetta sé gott dæmi um mál sem þingið á að taka til kost­anna og sýna hvað í því býr og sýna hvað frum­varpið hef­ur að geyma þegar það er dregið úr því það mesta og mik­il­væg­asta sem kem­ur til með að styðja við mark­miðin sem við erum sam­mála um hér. Þingið fær að glíma við þetta. Þingið fær að sýna hvað í því býr.“ At­vinnu­vega­nefnd tók til­lit til þess­ara orða ráðherr­ans þegar nefnd­in hóf vinnu sína og móttók um­sagn­ir frá um­sagnaraðilum.

Um meiri­hluta­álit at­vinnu­vega­nefnd­ar

Hvað um­sagn­ir um­sagnaraðila varðar, þá ber að taka skýrt fram að þær voru mjög mis­jafn­ar. Hér var að veru­legu leyti um end­ur­tekið efni und­an­far­inna þriggja ára að ræða. Til að mynda vísaði Sam­keppnis­eft­ir­litið að mestu leyti til fyrri um­sagna sinna þar sem t.d. hef­ur verið full­yrt að und­anþága gangi gegn EES-samn­ingn­um. Aldrei hef­ur hins veg­ar verið rök­stutt af hálfu Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins, eða þeirra hags­munaaðila sem vísa til um­sagn­ar þess, hvernig und­anþága frá sam­keppn­is­regl­um gangi gegn EES-samn­ingn­um. Þetta vek­ur sér­staka at­hygli í ljósi þess að fyr­ir ligg­ur í dóm­um EFTA-dóm­stóls­ins sú afstaða dóms­ins, auk Eft­ir­lits­stofn­un­ar EFTA, fram­kvæmda­stjórn­ar ESB og ís­lenskra og norskra stjórn­valda, að fram­leiðslu­kerfi land­búnaðar standi al­mennt utan EES-samn­ings­ins. Það væri fróðlegt og gott fyr­ir umræðuna ef eft­ir­tald­ir aðilar gætu rök­stutt um­sagn­ir sín­ar með ein­hverj­um hald­bær­um gögn­um í stað þess að þyrla upp moldviðri. Þá er einnig rétt að halda því til haga að meiri­hluta­álitið lá fyr­ir at­vinnu­vega­nefnd­inni í fjóra daga áður en það var birt, án at­huga­semda frá minni­hluta at­vinnu­vega­nefnd­ar.

Um gagn­rýni Viðreisn­ar

Viðreisn hef­ur farið mik­inn í gagn­rýni sinni á hin nýju bú­vöru­lög. Það kem­ur þeim sem til Viðreisn­ar þekkja ekki á óvart. Það sem hins veg­ar kem­ur á óvart er að stjórn­mála­flokk­ur sem aðhyll­ist aðild að ESB skuli ekki geta sætt sig við það að inn­leidd­ar séu und­anþágur fyr­ir land­búnað, sem í grunn­inn byggj­ast á sam­svar­andi heim­ild­um til sam­starfs og gilda inn­an Evr­ópu en taka til­lit til ís­lenskra aðstæðna. Viðreisn virðist al­gjör­lega horfa fram hjá því að þar gilda und­anþágu­regl­ur fyr­ir evr­ópsk­an land­búnað frá sam­keppn­is­regl­um og hafa gert í nær 60 ár. Það er því hol­ur hljóm­ur í þing­ræðum og greina­skrif­um þing­manna Viðreisn­ar þegar það er látið í veðri vaka að full­komið viðskiptafrelsi gildi á markaði með land­búnaðar­vör­ur inn­an ESB. Því fer fjarri, þar gilda und­anþágu­regl­ur, og hafa gert lengi. Af nýj­ustu frétt­um að dæma var ný und­anþága frá sam­keppn­is­regl­um fyr­ir land­búnað inn­leidd í ESB, vegna um­hverf­is­sjón­ar­miða, nú síðast í des­em­ber 2023.

Hér má einnig benda á að Viðreisn hef­ur gert mikið úr því að fé­lög í blönduðum rekstri kunni að hagn­ast á und­anþág­unni. Slík afstaða bygg­ist á grund­vall­armis­skiln­ingi enda tek­ur und­anþágan ein­ung­is til slátr­un­ar og/​eða vinnslu kjötaf­urða og af­leiddra afurða. Eðli máls­ins sam­kvæmt myndi und­anþága ekki taka til annarr­ar starf­semi.

Sér­hags­mun­ir og al­manna­hags­mun­ir

Hags­munaaðilar hafa gagn­rýnt hin nýju lög og full­yrt að sér­hags­mun­ir hafi gengið fram­ar al­manna­hags­mun­um. Það kann að vera auðvelt fyr­ir hags­munaaðila, einkum Fé­lag at­vinnu­rek­enda, að ganga fram með þeim hætti sem gert er. Enda gæt­ir fé­lagið hags­muna inn­flutn­ings­fyr­ir­tækja og geng­ur mjög hart fram í þeim efn­um án þess, að því er virðist, að taka nokk­urt til­lit til annarra sjón­ar­miða, s.s. byggðasjón­ar­miða og fæðuör­ygg­is, o.s.frv. En mál af þessu tagi horfa öðru­vísi við hvað þing­menn varðar. Þing­menn þurfa að taka til­lit til þess að þjóðin býr ekki bara á höfuðborg­ar­svæðinu. Þjóðin býr um allt land og það er á ábyrgð lög­gjaf­ans og fram­kvæmda­valds­ins að tryggja að byggð sé um gjörv­allt landið. Það er þing­manna að gæta að at­vinnu­stigi, at­vinnu­ör­yggi, fæðuör­yggi og þjóðarör­yggi, en til alls þessa, hvers og eins þátt­ar og svo allra til sam­ans, þarf að horfa við laga­setn­ingu.

Það er ágætt les­andi góður að velta fyr­ir sér í þessu sam­hengi hvers vegna fé­lag at­vinnu­rek­enda, áður nefnt Fé­lag stór­kaup­manna, hafi farið svo hart fram síðustu daga sem raun ber vitni. Hér er um að ræða sama fé­lag og vildi selja Íslend­ing­um jurta­ost sem venju­leg­an ost. Er fram­kvæmda­stjóri fé­lags at­vinu­rek­enda í al­vöru að berj­ast með hag neyt­enda að leiðarljósi eða er það kannski frek­ar fyr­ir hag um­bjóðenda sinna, eft­ir sem áður? Þá sæt­ir það furðu að Neyt­enda­sam­tök­in og VR hafa kosið að hoppa á þenn­an vagn og kalla sig nú ásamt Fé­lagi at­vinnu­rek­enda „Sam­keppn­i­stríóið“!

Um fram­hald máls­ins

Ef við horf­um til þeirra landa sem við ber­um okk­ur sam­an við sést að all­ar þjóðir eru í dag að reyna að verja sína fram­leiðslu með ein­hverj­um hætti, hvers vegna ætt­um við ekki gera allt sem í okk­ar valdi stend­ur til að tryggja betri starfs­skil­yrði fyr­ir grein­ina? Ég full­yrði það enn og aft­ur að neyt­end­ur munu njóta góðs af þess­um breyt­ing­um, því ef bænd­ur og afurðastöðvar standa sig ekki með bætt­um starfs­skil­yrðum þá munu neyt­end­ur ein­fald­lega líta fram hjá inn­lend­um land­búnaðar­vör­um og fara í aðrar vör­ur. Þetta vita bænd­ur og eig­end­ur afurðastöðva hér á landi.

At­vinnu­vega­nefnd hef­ur lokið af­greiðslu máls­ins og er það mat­vælaráðuneyt­is­ins að fram­kvæma lög­in eins og þau eru samþykkt af hálfu lög­gjaf­ar­valds­ins. Enda rík­ir þing­ræði í land­inu. Þá vil ég benda á í lok­in að at­vinnu­vega­nefnd hefði getið gengið lengra og samþykkt að veita und­anþágu frá banni við mis­notk­un á markaðsráðandi stöðu, líkt og gert er í Nor­egi, en hún taldi ekki rétt að gera það. Það er því fjarri lagi að at­vinnu­vega­nefnd hafi gengið er­inda ein­hverra risa­fyr­ir­tækja, rétt skal vera rétt, heild­armat nefnd­ar­inn­ar grund­vallaðist á al­manna­hags­mun­um.

Þórarinn Ingi Pétursson, formaður at­vinnu­vega­nefnd­ar Alþingis og þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn klárar verkin

Deila grein

17/04/2024

Fram­sókn klárar verkin

Á helginni verður flokksþing Framsóknar haldið hér í Reykjavík, á þinginu hittist flokksfólk og fer yfir liðna daga og horfir til framtíðar. Ég hlakka til, það er alltaf gott að taka stöðina með grasrótinni. Enda getur Framsókn lagt sín verk á kjörtímabilinu og lengra aftur fram kinnroðalaust. Við höfum sömu orku og vilja til að klára verkin fram að næstu kosningum.

Sú ríkisstjórn sem setið hefur frá hausti 2017 eða í 2329 daga, og var endurkjörin með öruggum meirihluta árið 2021 hefur tekist á við fjölmörg og fjölbreytt verkefni, átt góða og slæma daga enda hefur oft gefið á bátinn á þessu tímabili. Til þess að klára þau verkefni hefur þurft ákveðni, víðsýni og seiglu.

Sterk staða þrátt fyrir áföll

Í nýrri fjármálaáætlun kemur fram sterk staða þjóðarbúsins þrátt fyrir áföll síðustu ára. Við höfum þurft að glíma við heimsfaraldur, stríð og jarðhræringar á Reykjanesskaga sem standa enn yfir og ekki sér fyrir endann á. Í þessu umhverfi er á næstu misserum mikilvægt að beita skynsamri fjármálastefnu til að halda jafnvægi, ná niður verðbólgu og halda í við skuldahlutfall ríkisins. Við neyðumst til að einblína á þau markmið þrátt fyrir stöðugan og góðan hagvöxt sem hefur verið 20% á síðustu þremur árum. Á sama tíma eru nágrannaríkin okkar sum hver að berjast við neikvæðan hagvöxt auk þess sem það mælist enginn hagvöxtur í Evrópu.

Atvinnustigið hér á landi er hátt og íslenska þjóðarsálin vill hafa það þannig, því fylgir þó spenna sem þarft er að halda í við. Meðallaun hafa verið að hækka og það sem mikilvægast er að nú í vetur náðust langtímakjarasamningar sem eru á okkar ábyrgð að haldi, það er öllum til framdráttar. Óvissan er þó áfram og því þarf að fara varlega líkt og þegar þarf að lækka undir pottunum þegar sjóða fer upp úr. Það þýðir að bata og áframhaldandi vöxt þarf að tryggja með því að halda aftur af útgjaldavexti. Þetta lætur ekki vel í eyrum en er staðreynd engu að síður. Þess vegna er ég ánægð með að í stól fjármálaráðherra er sestur maður sem beitir bæði skynsemi og horfir til framtíðar.

Lífið er list

Það er af mörgu góðu að taka þegar kemur að verkum Lilju Daggar Alfreðsdóttur í menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Hún hefur hlotið sérstaklega mikið lof fyrir störf sín sem snúa að listum og skapandi greinum, enda mál sem alltaf þarf að hafa í fararbroddi í framþróun þjóðar. Okkur hefur tekist að koma upp endurgreiðslukerfi í kvikmyndum sem kemur okkur í raðir meðal fremstu þjóða á því sviði. Með því að leggja framlag til kvikmynda með þessum hætti tryggjum við að það sé þjóðhagslega hagkvæmt enda hefur hver króna skilað sér nærri sjöfalt til baka aftur, miðað við bein og óbein og afleidd áhrif. Undir þetta tekur Jonathan Olsberg einn eigandi Olsberg•SPI og sérfræðingur í efnahagslegum áhrifum kvikmyndagerðar. Hann bendir á að það sé mikilvægt að byggja á sterkum grunni og segir að íslenska endurgreiðslukerfið kalli á vandaða kvikmyndagerð og efli íslenskt fagfólk á því sviði. Þá hafa verið mótaðar mikilvægar stefnur fyrir komandi ár, má þar nefna tónlistarstefnu, myndlistarstefnu, bókmenntastefnu og ferðamálastefnu auk góðrar vinnu í málefnum íslenskrar tungu og táknmáls.

Heilbrigði þjóðar

Heilbrigðiskerfið okkar stóðst álagspróf þegar heimsfaraldur gekk yfir, öflugt fagfólk leiddi okkur í gegnum ólgusjó og sannaði að íslenskt heilbrigðisstarfsfólk er meðal þeirra fremstu á heimsvísu. Verkefnin eru fjölmörg og stöðugt þarf að viðhalda og bæta og standast álag. Þá bætast stöðugt við auknar áskoranir eins og mikil og stöðug fjölgun íbúa. Núverandi heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson hefur frá því að hann tók við embætti tekist ná mörgum af þeim markmiðum sem horft var til í framtíðarstefnu okkar í heilbrigðismálum. Mikilvægir og langþráðir samningar við sérfræðilækna náðust loksins á vakt Willums Þórs en þeir eru stór liður í því að jafna aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu. Biðlistar hafa styðst víða, má þar m.a. nefna í liðskiptiaðgerðum, aðgerðum á augasteinum og ekki síst hefur verið brugðist við ákalli kvenna í varðandi endómetríósu og vefjagigt. Það hefur verið gert bæði með fræðslu sem leiðir til breyttra viðhorfa og samningi sem Sjúkratryggingar Íslands hafa gert við Klíníkina um kaup á nauðsynlegum aðgerðum vegna endómetríósu.

Farsæld til framtíðar

Þær breytingar sem gerðar voru af Ásmundi Einari Daðasyni barnamálaráðherra á síðasta kjörtímabili varðandi farsæld barna er bylting sem samfélagið er nú farið að vinna eftir, það tekur vissulega tíma að innleiða svo stóra breytingu en hvar sem maður fer er þessari hugmynd fagnað og sveitarfélög leggja sig fram við að koma þessu inn í sína ferla. Það helst í hendur við breytt barnaverndarlög og til þess að tryggja heildstæða umgjörð er markmiðið að fylgjast með velferð og farsæld barna og foreldra, bregðast við þörf þeirra fyrir þjónustu með skilvirkum hætti strax í upphafi og að tryggja að kerfin tali saman með það að markmiði að þjónusta sé samfelld og samþætt. Þetta eru breytingar sem skila sér í bættu samfélagi til framtíðar.

Áfram veginn

Það tæki of langan tíma að telja upp öll þau góðu atriði sem við í Framsókn höfum staðið að á síðustu árum, því stikla ég hér aðeins á stóru í þessari stuttu grein. En við þig lesandi góður vil ég segja að það er ekki að ástæðulausu að Framsókn vilji áfram vera hluti af þeim sem standa vaktina í stýrishúsinu. Við viljum stefna áfram án átaka, erum ávallt á vaktinni og tökum þannig þátt í sögunni sem horft verður til. Hittumst í Framsókn og tökum þátt.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Árangurssögur í efnahagsmálum

Deila grein

15/04/2024

Árangurssögur í efnahagsmálum

Sam­fé­lagið okk­ar er eitt sam­vinnu­verk­efni. Við í Fram­sókn leggj­um mikla áherslu á að fjár­festa í fólki vegna þess að fjár­fest­ing í mannauði skil­ar sér í auk­inni hag­sæld og vel­sæld í sam­fé­lög­um líkt og hagrann­sókn­ir sýna. Rík­is­stjórn Íslands hef­ur á und­an­förn­um árum sann­ar­lega fjár­fest í fólki, for­gangsraðað í þágu auk­inn­ar verðmæta­sköp­un­ar og náð ár­angri á fjöl­mörg­um sviðum, þar með talið efna­hags­mál­um, þrátt fyr­ir þau innri og ytri áföll sem á vegi henn­ar hafa orðið. Í því sam­hengi er áhuga­vert að skoða þróun nokkra lyk­il­stærða í þjóðarbú­skapn­um á und­an­förn­um árum. Í fyrsta lagi hef­ur hag­vöxt­ur á síðustu þrem­ur árum verið 20%, sem er það mik­ill vöxt­ur að það er ekki mögu­legt að bera hann sam­an við önn­ur ríki. Til dæm­is eru Dan­ir að horf­ast í augu við nei­kvæðan hag­vöxt, eng­inn hag­vöxt­ur er að ráði í Evr­ópu og helst er litið til Banda­ríkj­anna eft­ir ein­hverj­um hag­vexti í nán­ustu framtíð. Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn hef­ur ein­mitt ný­lega lýst því sem miklu áhyggju­efni að þessi ára­tug­ur muni ein­kenn­ast af stöðnun í heims­bú­skapn­um.

Í öðru lagi er at­vinnu­stig mjög hátt en at­vinnu­leysi nem­ur aðeins 3,5%. Auðlegð Íslands er mik­il og það eru fá þjóðríki þar sem fullt at­vinnu­stig er ráðandi yfir langt tíma­bil. Eitt það mik­il­væg­asta í sam­fé­lag­inu okk­ar er að all­ir geti fundið sér starf við hæfi og tekið þannig virk­an þátt í sam­fé­lag­inu okk­ar, eflt at­vinnu­lífið og und­ir­byggt aukna verðmæta­sköp­un sem nýt­ist meðal ann­ars til að fjár­festa enn frek­ar í fólki.

Í þriðja lagi hafa meðallaun verið að hækka og það skipt­ir gríðarlegu máli. Þannig eru meðallaun hér á landi með þeim hæstu á byggðu bóli. Þrátt fyr­ir verðbólgu und­an­far­inna miss­era höf­um við Íslend­ing­ar séð kaup­mátt launa aukast veru­lega und­an­far­in 10 ár. Nýir lang­tíma­kjara­samn­ing­ar eru góð tíðindi fyr­ir áfram­haldið og glím­una við verðbólgu, þar skipt­ir aðkoma stjórn­valda miklu máli.

Í fjórða lagi lang­ar mig til að benda á það að hrein er­lend staða þjóðarbús­ins er óvenju sterk eða sem nem­ur um 40% af lands­fram­leiðslu. Fyr­ir um 20 árum var staðan nei­kvæð um 80%. Við vor­um í gríðarleg­um erfiðleik­um með að halda já­kvæðum gjald­eyr­is­forða en hann var iðulega tek­inn að láni sem reynd­ist mik­il áskor­un fyr­ir þjóðarbúið. Kröft­ug ferðaþjón­usta hef­ur meðal ann­ars drifið þessa þróun áfram ásamt öfl­ug­um sjáv­ar­út­vegi, iðnaði, hug­verk­um og vexti í skap­andi grein­um sem hef­ur skilað sér inn í hag­kerfið okk­ar. Sam­hliða þessu hef­ur gjald­eyr­is­markaður­inn dýpkað á sama tíma og hef­ur dregið úr sveifl­um. Til dæm­is er það merki­legt að jarðhrær­ing­arn­ar á Suður­nesj­um hafi ekki orðið til þess að krón­an hafi sveifl­ast mikið þótt eitt­hvert flökt hafi verið í fyrstu. Of­an­greint ber vitn­is­b­urð um góður ár­ang­ur sem við get­um verið stolt af. Stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar fram á veg­inn verður að ná niður verðbólgu og skapa skil­yrði fyr­ir lækk­un vaxta í þágu heim­ila og fyr­ir­tækja. Pen­inga­stefn­an, rík­is­fjár­mál­in og vinnu­markaður­inn eru far­in að ganga í takt, sem mun skila ár­angri fyr­ir sam­fé­lagið og und­ir­byggja betri lífs­kjör á Íslandi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. ágúst 2024.