Categories
Greinar

Vaxandi tölur

Deila grein

29/09/2014

Vaxandi tölur

Jóhanna maría_SRGB_fyrir_vefÞar kemur fram greinileg aukning á tilkynningum til yfirvalda á milli áranna eða 8%. Tilkynningarnar vörðuðu 4.880 börn árið 2013 og voru þar drengir í meirihluta tilfella. Þá fjölgar tilkynningum í Reykjavík um 12% og á landsbyggðinni um 10%, en fækkar aðeins í nágrenni við Reykjavík. Mál 69% barna sem tilkynnt var um á árinu 2013 fóru í könnun eða voru opin barnaverndarmál. Þetta hlutfall hefur farið vaxandi á síðustu árum, en t.d. var það 60% árið 2011.

Það þarf að líta það alvarlegum augum að ekki sé vitað hvort þessi aukning stafi nákvæmlega af meira svigrúmi barnaverndarnefndar til þess að kanna mál og/eða hvort málin séu nú alvarlegri en fyrr, sér í lagi þegar um er að ræða eins alvarlegan málaflokk og raun er.

Samvinna þings og þjóða

Á Norðurlöndum hefur Ísland vakið athygli fyrir vinnu sína í félags- og barnaverndarþjónustu, árangur þeirra verkefna hefur sýnt okkur fram á hve mikilvægt er að vinna forvarnarstarf og grípa strax í taumana þegar að eitthvað fer miður. Margir fagaðilar hafa komið til landsins til að kynna sér þá vinnu. Þarna er gott dæmi um styrkleika eins lands á sérstöku sviði sem vel er hægt að miða áfram til annarra landa og þau geti nýtt sér í sinni vinnu.

Þingmenn eiga stóran þátt í velferð barna, það er okkar hlutverk að búa til umhverfi þar sem forvarnir, inngrip sem fyrst og góð úrræði eigi sem greiðasta leið. Í skýrslu Barnaverndarstofu kemur fram að börnum á Stuðlum og öðrum meðferðarheimilum hefur fækkað í kjölfar aukinnar meðferðar barna í nærumhverfi þeirra. Hluti af skyldu okkar alþingismanna er að vernd barna nái virkilega til þeirra og utan um þau en endi ekki við þröskuld heimilanna. 

Jóhanna María Sigmundsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. september 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

„Ríka fólkið“

Deila grein

26/09/2014

„Ríka fólkið“

Willum Þór ÞórssonÍ fréttatilkynningu ASÍ sl. föstudag, undir fyrirsögn „Ríkisstjórn ríka fólksins“, er því haldið fram að stjórnvöld leggi kapp á að auka ráðstöfunartekjur best stæðu heimila landsins langt umfram þau tekjulægri.

Finna má í haggögnum upplýsingar um að vel yfir 90% félagsmanna ASÍ á almennum vinnumarkaði eru í efsta þrepi eða miðþrepi tekjuskatts. Meðalheildarlaun ASÍ-félaga á almennum vinnumarkaði voru 425 þúsund í maí 2013. Einungis um 3% af fullvinnandi launamönnum á Íslandi voru með heildarlaun undir 250 þúsund krónum á árinu 2013. Heildarlaun fullvinnandi launamanna voru að meðaltali 526 þúsund á því ári. Þetta er sem sagt „ríka fólkið“ sem ríkisstjórnin eflir með skattalækkunum í því skyni að auka verðmætasköpun og bæta hag allra. „Ríka fólkið“ sem ASÍ nefnir svo í slagorðaskyni eru félagsmenn ASÍ í þessum skilningi.

Ríkisstjórnin byggir stefnu sína á að öflugt atvinnulíf sé undirstaða vaxtar og velferðar. Í stefnuyfirlýsingu hennar segir að ríkisstjórnin muni leggja kapp á að skapa starfsumhverfi sem ýtir undir fjárfestingu og fjölgun starfa. Þetta hefur gengið eftir eins og hagtölur sýna glöggt. Aukin verðmætasköpun og minni skuldir heimila leiða til bættrar stöðu allra tekjuhópa. ASÍ ber enda ekki brigður á það í fréttatilkynningu sinni að aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni skila heimilunum 40 milljörðum í auknar ráðstöfunartekjur á þessu ári og næsta, eða sem svarar um 5% aukningu ráðstöfunartekna. Þetta er gríðarleg aukning ráðstöfunartekna á stuttum tíma.

Auknar ráðstöfunartekjur vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar koma til vegna leiðréttingar á verðtryggðum húsnæðislánum heimilanna, lægri skatta og afnáms vörugjalda. Lægri skattar og minni skuldir koma þeim til góða með beinum hætti sem greiða skatta og skulda húsnæðislán. Meiri verðmætasköpun sem leiðir af lægri sköttum, einfaldara skattkerfi og minni skuldum kemur hins vegar öðrum hópum til góða og gefur færi á frekari aðgerðum til að bæta hag þeirra.

Bæta kjör alls launafólks
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar bæta kjör alls launafólks. Leiðrétting húsnæðislána kemur þeim skuldurum best sem minnstar hafa tekjurnar. Leiðréttingin nemur að meðaltali ríflega þriðjungi árstekna heimila með undir 330 þúsund í mánaðartekjur á meðan hún nemur um 8% af árstekjum tekjuhæstu heimila. Tæplega tveir þriðju hlutar leiðréttingarinnar fara til heimila með mánaðartekjur undir 670 þúsund. Leiðréttingin mun því gagnast félagsmönnum ASÍ afar vel.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að framlög til almannatrygginga, (þ.e. lífeyristryggingar og félagsleg aðstoð) aukast um 2,4 milljarða, að frátöldum bótahækkunum en þær nema um 3 milljörðum til viðbótar. Hér er um að ræða hækkun á frítekjumarki lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega og framlengingu á hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna öryrkja. Ósanngjarn auðlegðarskattur, sem settur var á tímabundið af síðustu ríkisstjórn, var ekki framlengdur. Að auki má nefna aðrar skattabreytingar í tíð ríkisstjórnarinnar, svo sem nýtingu séreignarsparnaðar sem ráðstafað er til íbúðakaupa og til lækkunar á höfuðstól, aukna tekjutengingu barnabóta, stimpilgjöld felld niður af lánsskjölum við fasteignakaup, tryggingagjald lækkað og virðisaukaskattur lækkaður af bleium.

Því fer fjarri að ríkisstjórnin þjóni hagsmunum best stæðu heimila landsins. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar nýtast öllum launamönnum. Sú staðreynd að tekjufrumvarp fjárlaganna hefur aldrei komið jafn snemma fram gefur aukið svigrúm til samvinnu stjórnvalda og samtaka launþega til að tryggja áframhaldandi stöðugleika og aukinn kaupmátt.

Willum Þór Þórsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. október 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Endurútreikninga vantar

Deila grein

22/09/2014

Endurútreikninga vantar

Elsa-Lara-mynd01-vefurÍ sumar hef ég unnið að ýmsum málum er tengjast gengistryggðum lánum og lögmæti þeirra. Til mín hafa leitað einstaklingar sem voru með gengistryggð lán hjá fjármálastofnunum. Þessir einstaklingar eiga það allir sameiginlegt, að þeir eru að reyna leita réttar síns vegna lánanna en baráttan gengur því miður illa, svo vægt sé til orða tekið. Í öllum tilfellum er um að ræða lán sem kom þeim í þrot. Þess ber að geta að samskonar lán, sem inniheldur sömu lánaskilmála hefur verið dæmt ólöglegt fyrir hæstarétti. Þrátt fyrir það þá neita fjármálastofnanirnar að endurreikna lánin nema að þessir einstaklingar fari í mál við bankann.

Ég ætla hér að segja ykkur stutta sögu sem er einmitt lýsandi dæmi fyrir þá einstaklinga sem til mín hafa leitað.

Raunverulegt dæmi
Þessi raunverulega saga, segir frá einstaklingi sem var með gengistryggt lán frá fjármálastofnun. Í kjölfar af hruninu, á haustmánuðum 2008, þá hækkaði lánið upp úr öllu valdi. Samningsviðræður um afborganir voru í fullum gangi við viðskiptabanka viðkomandi, en skiluðu engum árangri. Þetta endar með því að einstaklingurinn fer í þrot. Þetta gerist aðeins örfáum dögum eftir að samskonar lán, með sömu lánaskilmála voru dæmd ólögleg fyrir Hæstarétti.

Neita að leiðrétta
Þessi einstaklingur sem sagan fjallar um, hefur reynt að leita réttar síns. Hann hefur óskað eftir endurútreikningum hjá viðskiptabankanum en þar er því neitað, nema hann fari í mál við bankann. Gerum okkur grein fyrir að lítill hluti í þessari umræddu stöðu, hefur fjárhagslegt bolmagn til að fara á móti fjármálastofnunum. Að vísu er hægt að sækja um gjafsókn í þessum málum, en skilyrðin eru mjög þröng.

Leitað hefur verið til hagfræðings hjá virtri stofnun sem komst að því að endurreikna þurfi lánin þar sem það væri ólögmætt og að einstaklingurinn ætti inni hjá fjármálastofnuninni í kringum 40 milljónir króna. Matsmaður hefur verið ráðinn til að fara yfir lánin, en hann var samþykktur bæði af báðum aðilum, þ.e. bankanum og einstaklingnum. Matsmaðurinn komst að sömu niðurstöðu og hagfræðingurinn. Þrátt fyrir þetta þá neitar fjármálastofnunin enn að endurreikna lánin.

Gengið á veggi
Leitað hefur verið til ýmissa stofnanna sem eiga að tryggja hag neytenda og hafa aðhald og eftirlitsskyldu með fjármálastofnunum. Það hefur ekki gengið vel því það virðist sem enginn geti tekið á þessu máli og allir sem leitað hefur verið til, benda á aðra í þessu máli.

Að lokum
Mikilvægt er að fundin verði leið til að þrýsta á fjármálastofnanir til að klára þau mál sem enn eru eftir í endurútreikningi gengistryggðra lána. Við sem sitjum á Alþingi verðum að skoða þessi mál og reyna eftir fremsta megni að tryggja, að einstaklingar geti sótt rétt sinn í hinum ýmsu neytendamálum.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 19. september 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Flugið heillar – en hverjir hafa ráð á því?

Deila grein

22/09/2014

Flugið heillar – en hverjir hafa ráð á því?

Silja-Dogg-mynd01-vefInnanríkisráðherra lét gera félagshagfræðilega greiningu á framtíð áætlunarflugs innanlands og sú úttekt var kynnt í febrúar sl. Í úttektinni kemur m.a. fram að rannsóknir sýni að hreyfanleiki og aðgengi skipti sköpum við val á búsetu, atvinnu, menntun og afþreyingu. Þetta eigi ekki hvað síst við í byggðum fjærst höfuðborgarsvæðinu. Þar gegni innanlandsflug iðulega mikilvægu hlutverki og sé oft einn grundvöllur búsetugæða, þ.e. grunnþáttur sem verði að vera til staðar til að svæði teljist hæft til búsetu og jafnvel eftirsóknarvert.

Óhófleg gjaldtaka
Í bókun flugráðs frá 5. desember 2012 kemur meðal annars fram að sívaxandi hækkanir á opinberum gjöldum á innanlandsflugið eru komnar yfir þolmörk og munu óhjákvæmilega bitna á farþegum í hækkun fargjalda og samdrætti í þjónustu. Flugráð varar við að sjálfbærni í flugrekstri innanlands sé ógnað og samkeppnisskilyrði verulega veikt með óhóflegri gjaldtöku. Þess vegna sé brýnt að endurskoða rekstrarumhverfi innanlandsflugs og tryggja þar með eðlilega þjónustu við íbúa í landinu.

Almenningssamgöngur fyrir almenning
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að stefna stjórnarflokkanna sé að bæta samgöngur í landinu og tryggja tengingu á milli byggða. Öflugar almenningssamgöngur eru mikilvægar til að tryggja tengingu byggða og innanlandsflug er skilgreint sem almenningssamgöngur. Það ætti því einnig að vera grundvallaratriði að »almenningur« hafi ráð á að notfæra sér »almenningssamgöngur«.

Breytingar snúast um ákvörðun
Undirrituð lagði fram skriflega fyrirspurn um fargjöld innanlandsflugs til innanríkisráðherra í febrúar sl. Ein spurningin var á þann veg hvort ráðherra hygðist beita sér fyrir lækkun flugfargjalda innanlands. Það er ánægjulegt að segja frá því að ráðherra sagðist myndi beita sér fyrir því að opinber gjöld á innanlandsflugi yrðu lækkuð. Nú er starfshópur að störfum á vegum ráðherra sem mun skila niðurstöðum sínum í lok október. Það verður áhugavert að sjá hver niðurstaða hópsins verður því það er afar brýnt að flugfargjöld innanlands lækki, almenningi til hagsbóta.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. september 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Ný neysluviðmið mikilvæg

Deila grein

18/09/2014

Ný neysluviðmið mikilvæg

Elsa-Lara-mynd01-vefurMikilvægt er að endurskoða útreikning neysluviðmiða fyrir íslensk heimili. Tilgangur neysluviðmiða er að veita heimilum í landinu upplýsingar um viðmiðin til að bera saman við áætlun eigin útgjalda. Þau koma að notum við ýmsa fjármálaráðgjöf fyrir einstaklinga og geta verið til hliðsjónar þegar teknar eru ákvarðanir um fjárhæðir sem tengjast framfærslu. Litið hefur verið svo á að neysluviðmið séu ekki endanlegur mælikvarði á hvað telst nægjanleg neysla einstakra heimila, né dómur um hvað einstakar fjölskyldur þurfa sér til framfæris.

Húsnæðiskostnað inn í ný neysluviðmið
Sníða þarf vankanta af núverandi neysluviðmiðum til þess að þau verði nákvæmari mælikvarði á hvað telst nægjanlegt til framfærslu fjölskyldu. Í núverandi neysluviðmiðum er húsnæðiskostnaður ekki innifalinn og helsti rökstuðningurinn fyrir því er að kostnaður við húsnæði sé svo breytilegur að ekki sé rétt að gefa út viðmið í þeim efnum. Talið hefur verið betra fyrir fjölskyldur að bæta raungjöldum við hin opinberu viðmið.

Athugasemdum hefur verið komið á framfæri varðandi þetta fyrirkomulag og óskað hefur verið eftir nýjum útreikningum, þar sem tekið er tillit til húsnæðiskostnaðar. Í þessu samhengi þarf að horfa til mismunandi búsetuforma og staðsetningar húsnæðis. Með húsnæðiskostnaði er átt við allan kostnað sem fellur til vegna eigin húsnæðis eða leiguhúsnæðis.

Opinbert reiknilíkan
Það er morgunljóst að ýmsir fastir útgjaldaliðir hafa hækkað mikið undanfarin ár og hefur það haft áhrif á útgjöld heimilanna. Það er staðreynd að róðurinn hefur þyngst. Þess vegna er afar mikilvægt að hefja sem allra fyrst útreikning á nýjum neysluviðmiðum og vinna það í samstarfi við hlutaðeigandi aðila. Jafnframt þarf að gera könnun á raunframfærslukostnaði einstaklinga og fjölskyldna. Raunframfærslukostnaðurinn verði síðan nýttur til að finna út lágmarks neysluviðmið. Nauðsynlegt er að reiknilíkan útreikninganna verði opinbert, eins og í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Má í því samhengi nefna Svíþjóð, Danmörk og Noreg.

Þingsályktunartillaga lögð fram
Þingmenn Framsóknarflokksins gera sér grein fyrir mikilvægi þess að útreikningur nýrra neysluviðmiða fari fram. Þess vegna hafa nokkrir úr þingmannahópnum lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að fela félags- og húsnæðismálaráðherra að hefja útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili. Samkvæmt tillögunni skulu útreikningarnir liggja fyrir á 144. þingi.

Elsa Lára Árnadóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 18. september 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Hugleiðingar á degi íslenskrar náttúru

Deila grein

17/09/2014

Hugleiðingar á degi íslenskrar náttúru

Sigurður Ingi JóhannssonOkkur Íslendingum finnst landið okkar fagurt og merkilegt. Vissulega er fegurð afstætt hugtak, en við getum þó með nokkru rökstutt þessa skoðun okkar.

Hér er fjölbreytt landslag og stórbrotin náttúra, frá brimsorfnum ströndum til óbyggðra víðerna, þar sem spúandi eldgígar gjósa nú við jökulsporð. Við erum heldur ekki ein um þessa skoðun, því sérstök náttúra Íslands dregur æ fleiri erlenda ferðamenn til sín. Á sama tíma fjölgar stöðugt þeim Íslendingum sem sækjast eftir því að njóta náttúrunnar til útivistar og ferðalaga.

Um leið hafa menn áhyggjur af því að íslenskir ferðamannastaðir séu ekki í stakk búnir til að taka við þeim fjölda ferðamanna sem sækja þá heim. Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er unnið að gerð frumvarps sem tekur til þess með hvaða hætti best verði að byggja upp og jafnframt að viðhalda ferðamannastöðum til lengri tíma í formi framkvæmdaáætlunar. Gert er ráð fyrir að leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi til tólf ára, þar sem fram kemur hvernig uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum verður háttað.

Þá er unnið að því því í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu að útfæra leiðir til að fjármagna uppbyggingu og viðhald á ferðamannastöðum. Mikilvægt er að hafa víðtækt samráð svo ekki myndist gjá á milli ferðaþjónustunnar og almennings í landinu.

Nauðsynlegt er að tryggja, eins og áður, sanngjarnan rétt almennings til frjálsrar farar svo hann geti notið náttúru landsins, án þess að gengið sé á hagsmuni sem þar kunna að liggja fyrir. Spyrja má hvort ekki þurfi að skilja betur að almannaréttinn, þ.e. rétt einstaklinga til frjálsrar farar um landið og svo þeirra sem taka gjald fyrir að fara með ferðamenn um land í eigu annarra.

Þá þurfum við að huga að fagurri ásýnd náttúrunnar og skilja ekkert eftir sem ekki á þar heima. Með samstilltu átaki getum við í sameiningu gætt þess að halda landinu hreinu og umgangast náttúruna af virðingu. Þar þurfum við að byrja á okkur sjálfum og brýna fyrir börnum okkar þá hugsun að henda ekki rusli á almannafæri.

Megi dagur íslenskrar náttúru verða okkur öllum ánægjulegur.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. september 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Gjörningaveðrið í Hrísey 11. september

Deila grein

16/09/2014

Gjörningaveðrið í Hrísey 11. september

sigrunmagnusdottir-vefmyndFáar dagsetningar eru heimsbyggðinni minnisstæðari en 11. september 2001 þegar hryðjuverkin voru unnin í Bandaríkjunum. Enn óttast menn atburði tengda þessari dagssetningu.

Mig langar til að minnast á örlagaríkan atburð sem gerðist hér á landi þann 11. september fyrir 130 árum síðan við Hrísey. Afleiðingar hans höfðu áhrif á atvinnusögu þjóðarinnar.

Þannig var mál með vexti að Norðmenn höfðu stundað umfangsmiklar síldveiðar í Eyjafirði um nokkurra ára skeið. Umsvif Norðmanna voru farin að valda töluverðum ágreiningi og töldu menn að það gengi ekki að leyfa þeim að veiða alveg upp í landsteinum, eða inn í hverri vík, enda sneru átökin meðal annars um skyldu Norðmanna að greiða bændum skatt – landshlut. Deilurnar mögnuðust og tóku allar hreppsnefndir í hreppum við Eyjafjörð sig saman og kærðu aðfarir Norðmanna við síldveiðar í firðinum til amtmanns og landshöfðingja árið 1883.

Íslendingar höfðu hvorki tæki né kunnáttu að ráði til að nýta sér þá auðlind sem síldin var en horfðu blóðugum augum á Norðmenn moka silfri hafsins upp í skip sín. Rétt er einnig að hafa í huga að harðindi einkenndu landið þessi árin og komið var skrið á fólk að leita til Vesturheims í von um betra líf. Þegar litið er til allra þessara þátta er ekki nema von að hugdjörfum ungum manni svelli móður í brjósti.

Galdrar og gjörningar
Aðalaðsetur Norðmanna í Eyjafirði var í Hrísey og varð stundum nokkuð slark og rystingar í landlegum milli landans og þeirra, ekki síst ef Bakkus var með í för. Einn Íslendinga í eynni var kallaður Villi, ungur, hraustur og harðfengur. Á dimmu haustkvöldi fyrir ellefta september hefjast hörku slagsmál, Norðmenn sækja margir að Villa staðráðnir í að hafa hann undir. Að þessu sinni tekst þeim það þar til einn skipstjórinn skakkar leikinn – telur nóg komið. Þegar Villi rís upp úr þvögunni var hann bæði blóðugur og æstur. Hittir hann á ögurstund, þar sem grípur til kjarnyrða sinna og hvessir augu á viðstadda? Fékk hann styrk orðsins og mátt augnanna á vald sitt eins sagt er um fornkappana, þegar þeir fluttu kyngimögnuð kvæði sér til bjargar? Villi fullstafar orðin þegar hann fer með heitstengingar um að eyðingaröfl skuli splundra öllum skipaflota Norðmanna við eyjunna.

Það er eins og við manninn mælt. Ógnvænlegt veður skellur á Hrísey úr suðvestri og trylltir stormar lemja hús og skip í myrkri haustnóttinni þann 11. september. Það er eins og djöfullinn sjálfur sé mættur til leiks. Þegar birtir að degi blasa afleiðingar veðurhamsins við mönnum, gríðarlegar eyðileggingar hvert sem litið er. Hinn glæsti skipafloti allur brotinn og bramlaður og bækistöðvarnar í landi horfnar á bak og burt. Það furðulega við þetta afspyrnurveður eða rok var að það herjaði mest á Hrísey. Talið er að aldrei hafi orðið meira skipatjón við Ísland á einni nóttu, hvorki fyrr né síðar. Voru þetta galdrar?

Jón Árnason þjóðsagnasafnari varar við heitstengingum vegna þess að þær geti orðið að áhrínsorðum eins og hjá kraftaskáldum eða galdramönnum. Sálmaskáldið Hallgrímur Pétursson varar við heiftrækni og reiði í 28. Passíusálmi 9. versi og telur að slíkt geti hitt illa á:

Athugagjarn og orðvar sért,
einkum þegar þú reiður ert;
formæling illan finnur stað,
fást mega dæmin upp á það.

Þjóðtrú
Í fjölmörgum frásögnum um Hríseyjarveðrið er að finna bæði að uppbyggingu og minni – skírskotun til annarra sagna er fjalla um galdramenn. Þar er til staðar persóna sem er skapmikil, gífuryrt og skýtur umhverfinu/andstæðingum skelk í bringu. Þá er ótti við hamfarir veðra og náttúru ríkur þáttur í þjóðarsál Íslendinga, enda hafa þeir þurft að glíma við það gegnum aldirnar. Síðan var umhverfið við Eyjafjörð e.t.v. móttækilegt fyrir trú á yfirnáttúrulega viðburði þegar illa árar.

Tímasetningin er líka allrar athygli verð. Það er fimmtudagur í níunda mánuði ársins. Hvort tveggja tengist göldrum. Samkvæmt þjóðtrúnni er fimmtudagur bestur til að virkja ýmis galdraöfl og þá er hann talinn dagur norna og þeirra vikulegi fundardagur. Fimmtudagur er dagur Þórs í norrænni trú og því máttugur. September er og var jaðartímabil eða uppgjörsmánuður hjá okkur Íslendingum, veðurfar að breytast, heyönnum að ljúka, sláturtíð, haustvertíð að hefjast og skólar að byrja. Jaðartímabil eru móttækilegri fyrir breytingum en önnur. Talan sjálf 9 – er mögnuð segja talnaspekingar.

Afleiðingar
Hvað sem öllu þessu líður fylgdi skuggi þessarar nætur manninum, sem talinn var valda þessu örlagaveðri, alla ævi og fékk hann viðurnefnið Galdra-Villi. Hann hefur verið einnig verið sagður síðasti galdramaður Íslands.

Norðmenn nánast hættu veiðum á Eyjafirði eftir þessar hörmungar. Þar höfðu um 1800 einstaklingar verið við veiðar en voru aðeins rúmlega tvö hundruð árið 1886. Íslendingum óx ásmegin að verða sjálfstæðari og huga að verndum landhelgi. Norðmenn áttu síðar góð síldveiðiár bæði við Siglufjörð og á Austfjörðum.
Enn ber Hrísey minjar um gjörningaveðrið frá 1884. Eitt reisulegasta húsið í eynni, Jörundarhús, var smíðað úr vönduðum skipsviðunum. Lengi var skipsklukka með ártalinu 1727 – kirkjuklukkan sem hringdi inn kirkjulegar athafnir og kirkjuhliðið var lengst af úr einni skipsbrúnni.

Bóndinn á Bakka
Galdra-Villi hét fullu nafni Vilhjálmur Einarsson og varð merkisbóndi að Bakka í Svarfaðardal. Hann var mikill frumkvöðull og framkvæmdamaður í landbúnaði og búvélahönnun. Það má segja að hann hafi verið stórtækur í öllu er hann tók sér fyrir hendur. Undir hrjúfu yfirbragði sló milt hjarta gagnvart þeim er minna máttu sín í samfélaginu, en yfirgang stórbokka þoldi hann illa. Hann taldi mjög mikilvægt að sinna vel ungmennum og mætti gjarnan á samkomur og skemmtanir þeirra. Meðan hann gerði út frá Dalvík hélt hann ávallt skemmtanir í lokin og gerði vel við hjú sín þar sem og í sveitinni. Eins og flestir Svarfdælingar taldi hann dans vera lífsins gleðigjafa. Vilhjálmur eignaðist einstaka konu, ljúfa, vinnusama og geðgóða, Kristínu Jónsdóttur frá Jarðbrú. Átti hún vafalítið stóran þátt í myndarskapnum að Bakka, þó að Vilhjálmur fái oftast heiðurinn. Saman hlúðu þau að stóru búi sem og þeim sem urðu úti á berangri lífsins eins og Jóhanni bera umrenningi, en hann var síðustu ár sín á Bakka.

Hjónin á Bakka, Kristín og Vilhjálmur, voru amma mín og afi í móðurætt.

Sigrún Magnúsdóttir, þjóðfræðingur og þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist í Bændablaðinu 11. september 2014.

Categories
Greinar

Hressileg viðbrögð við góðum fréttum

Deila grein

09/09/2014

Hressileg viðbrögð við góðum fréttum

Silja-Dogg-mynd01-vefÍ síðastliðinni viku birti ég yfirlitsgrein fyrir þá þætti efnahagslífsins sem hafa verið á uppleið á síðustu misserum. Þessi grein fór fyrir brjóstið á nokkrum álitsgjöfum og því sé ég mig knúna til að reifa málið aðeins betur.

Viðskiptajöfnuður hagstæður

Fréttastjóri viðskiptafrétta 365 miðla skrifaði áhugaverðan leiðara föstudaginn 5. september. Leiðarahöfundur heldur því fram að viðskiptajöfnuður sé neikvæður. Það er rétt þegar heildartölur ársins 2014 eru teknar saman en skv. nýjustu tölum, sem komu út í síðustu viku, mælist viðskiptajöfnuður hagstæður um 2,9 ma. króna á 2. ársfjórðungi þessa árs. Það eru væntanlega góðar fréttir fyrir okkur öll.

Betra lánshæfismat

Varðandi bætt lánshæfismat þá heldur leiðarahöfundur því fram að það hafi verið kolrangt hjá mér, sem er skrítið. Staðreyndin er sú að lánshæfismat Íslands er nú í stöðugum horfum hjá lánshæfismatsfyrirtækjum. Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings staðfesti í byrjun ágúst 2014 að horfur fyrir lánshæfismat á langtímaskuldbindingum væru stöðugar. Matsfyrirtækið Standard & Poor‘s breytti horfunum um lánshæfi Ríkissjóðs Íslands úr neikvæðum í stöðugar í janúar 2014 og úr stöðugum í jákvæðar í júlí 2014.

Þetta eru líka góðar fréttir fyrir okkur öll.

Ekki þriðja heims ríki

Niðurstaða leiðarahöfundar var að Ísland væri þriðja heims ríki! Fyrst ber að nefna að í skýrslu World Economic Forum, sem fréttastjóri vísar í, þá hefur Ísland færst upp um sæti frá fyrra ári. Stefnan er að sjálfsögðu sú að ná hærra og að því eru stjórnvöld að vinna. Ég hef víða farið og get með engu móti borið Ísland saman við þriðja heims ríki. Slík niðurstaða er mjög langsótt. Samkvæmt Alþjóðabankanum eru þjóðartekjur á mann í lok árs 2013 hér á landi 5,3 m.kr. en til samanburðar eru tekjur í mörgum þriðja heims ríkjum á bilinu 100-500 þúsund kr. á ári. Við mælumst efst þegar kemur að jafnrétti og iðulega erum við efst á lista friðsælla ríkja. Heilbrigðis- og menntamál hér á landi eru einnig ávallt ofarlega á lista. Telur einhver að þessi samanburður fréttastjóra sé á rökum reistur?

Bjart fram undan

Það er gott að búa á Íslandi. Vissulega eru mörg krefjandi verkefni fram undan. Þar má nefna afnám gjaldeyrishaftanna, nýtt húsnæðiskerfi, afnám verðtryggingar, endurskipulagning almannatryggingakerfisins og sitthvað fleira. Ég get fullyrt að þessi ríkisstjórn hefur þrek og þor til að takast á við þessi verkefni og leysa þau með sóma. Staðreyndin er sú að hér hafa skapast rúmlega 5.000 störf síðan ríkisstjórn Sigmundar Davíðs tók við, hagvöxtur er nú með því mesta sem þekkist, atvinnuleysi minna en víðast hvar, verðbólga sambærileg við það sem er í nágrannalöndum okkar og erlendir aðilar sýna fjárfestingum hér aftur mikinn áhuga.

Við ættum að vera þakklát fyrir að búa á fallega landinu okkar og hjálpast að við að bæta það sem þarf að bæta. Verum jákvæð og bjartsýn á framtíðina.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 9. september 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Náttúra og umhverfi undirstaða velferðar

Deila grein

05/09/2014

Náttúra og umhverfi undirstaða velferðar

Sigurður Ingi JóhannssonÍslensk náttúra gegnir lykilhlutverki í efnahagsbata landsins, bæði vegna sérstöðu sinnar hvað endurnýjanlega orku varðar og einstakrar náttúrufegurðar sem er helsta aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn. Lífsgæði Íslendinga felast ekki síst í hreinu umhverfi sem tryggir okkur framúrskarandi vatnsgæði, litla loftmengun og mikið aðgengi að óspilltri náttúru. Þetta eru nokkrar af meginniðurstöðum heildarúttektar Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) á umhverfismálum á Íslandi árin 2001-2013, sem kynnt var í gær.

Meðal annars er fjallað um hvernig efnahagur og náttúra tengjast – hvernig vöxtur og samdráttur hefur bein áhrif á umhverfið og hvernig náttúran hefur lagt grunninn að endurreisn efnahagslífsins. Við getum verið stolt af þeirri eindregnu jákvæðu umsögn sem gefin er en um leið eru settar fram gagnlegar ábendingar um að hverju beri að gæta. Svo jákvæð umsögn vekur okkur til umhugsunar um mikilvægi þess að varðveita gæðin sem felast í umhverfinu og náttúrunni. Við nýtingu auðlinda okkar þurfum við að bera virðingu fyrir umhverfi, náttúru og sérkennum landsins svo þau haldist jafn óspillt og raun ber vitni. Slíkt er brýnt fyrir þjóð sem byggir afkomu sína á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og hreinni náttúru.

Þannig er undirstrikað í skýrslunni að náttúrutengd ferðamennska sé mikilvæg auðlind og að ferðaþjónustan hefur átt hvað ríkastan þátt í viðreisn efnahags landsins. Þá er fjallað um mikilvægi þess að formgera langtímaáætlun um byggingu innviða á ferðamannastöðum sem er í takt við frumvarp til laga um framkvæmdaáætlun um uppbyggingu ferðamannastaða sem ég mun leggja fram í haust. Í umfjöllun um orkumál fá Íslendingar rós í hnappagatið fyrir að vera það OECD-ríki sem státar af hæsta hlutfalli endurnýjanlegrar orku en bent er á að velja þarf af kostgæfni áframhaldandi nýtingu með hámarks arðsemi og langtímahagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Niðurstöður OECD-skýrslunnar undirstrika einnig að náttúra og umhverfi eru undirstaða velferðar í landinu en þrjár greinar – sjávarútvegur, orkuvinnsla og náttúrutengd ferðaþjónusta – standa undir um 4/5 allra okkar útflutningstekna. Því þarf umhverfis- og náttúruvernd að vera samofin allri stefnumörkun, opinberri starfsemi og stjórnsýslu, þvert á alla málaflokka.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. september 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Góðar fréttir

Deila grein

03/09/2014

Góðar fréttir

Silja-Dogg-mynd01-vefÖll él styttir upp um síðir. Það má segja að þungu fargi hafi verið létt af þjóðinni þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs tók við vorið 2013. Á aðeins einu ári hefur núverandi ríkisstjórn lyft grettistaki og komið efnahagslífinu á réttan kjöl. Það eru bjartir tímar framundan á Íslandi.

Haustið 2008 var dimmur tími í íslensku þjóðlífi. Eldar brunnu á Austurvelli. Vinstristjórnin tók við um vorið eftir erfiðan vetur. Við hana voru bundnar miklar vonir. Skjaldborgin, sem átti að reisa um íslensk heimili, varð því miður ekki að neinu. Vinstristjórnin vildi skattleggja okkur út úr kreppunni og festa okkur í Icesave-skuldafangelsi. Sem betur fer gengu þau plön heldur ekki eftir.

Allt á uppleið
Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hefur nú setið við stjórnvölinn í rúmt ár. Fyrsta mál ríkisstjórnarinnar á haustþingi 2013 var að leggja fram þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi. Tillagan var í tíu liðum og nú að þingi loknu hefur öllum liðum hennar verið lokið eða komið í áframhaldandi farveg. Leiðréttinguna ber þar hæst en með henni er komið til móts við heimili með verðtryggð húsnæðislán með aðgerðum sem fyrri ríkisstjórn hélt fram að væru óframkvæmanlegar. Beinar niðurfærslur á höfuðstól verðtryggðra lána og möguleiki á að nýta séreignarsparnað til að greiða niður höfuðstól munu hjálpa heimilum með verðtryggð lán á beinan hátt með því að lækka mánaðarlega greiðslubyrði af lánum og hækka ráðstöfunartekjur fjölskyldunnar. Heildaráhrif leiðréttingarinnar eru metin um 150 milljarðar fyrir 100 þúsund heimili. Alls bárust 69 þúsund umsóknir frá 105 þúsund einstaklingum.

Jákvæðar umsagnir
Skuldaleiðréttingin hefur hlotið jákvæðar umsagnir hjá erlendum lánshæfismatsfyrirtækjum, sem hafa hækkað lánshæfismat Íslands í kjölfar þess. Standard & Poor‘s breytti lánshæfishorfum Ríkissjóðs Íslands úr neikvæðum í stöðugar þar sem dregið hefur úr áhættu sem tengist ríkisfjármálum (janúar 2014).

Bjartsýni í stað svartsýni
Ótrúleg umskipti hafa orðið í efnahags- og atvinnulífi hér á aðeins einu ári. Hagvöxtur er nú með því mesta sem þekkist, atvinnuleysi minna en víðast hvar, verðbólga sambærileg við það sem er í nágrannalöndum okkar (lægri en í Noregi m.v. júlí), viðskiptajöfnuður jákvæður, rekstur ríkissjóðs jákvæður og erlendir aðilar sýna fjárfestingum hér aftur mikinn áhuga. Bjartsýni hefur tekið við af svartsýni og eymdarvísitalan hefur ekki verið lægri síðan 2007.

Það skiptir sannarlega máli hverjir stjórna!

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 3. september 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.