Categories
Greinar

Konur í áhrifastöðum – innilega til hamingju með daginn!

Deila grein

08/03/2016

Konur í áhrifastöðum – innilega til hamingju með daginn!

Anna kolbrúnDagurinn í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna og er í tilefni dagsins er gott að minna á að við högnumst öll á jafnrétti því eins og sagan sýnir eru það ekki bara konur sem njóta afraksturs jafnréttisbaráttunnar heldur samfélagið allt. Ísland er vissulega í fararbroddi á sviði jafnréttismála í alþjóðlegum samanburði, en betur má ef duga skal. Það eru enn verkefni sem þarf að vinna, huga þarf að réttindum kvenna jafnt innan lands og utan. Til að nefna dæmi þá er launamunur kynjanna enn til staðar hér á landi þó vísbendingar gefi nú til kynna að hann dragist saman. Við þurfum áfram að beita öllum hugsanlegum ráðum til þess að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, það á aldrei að líðast.

Áhrifastöður eru einnig að finna víða í samfélaginu, innan heimilis og utan og í aðalnámsskrá leikskóla er því beinlínis haldið fram að litið sé á leikskólakennara sem áhrifavald í uppeldis- og menntastarfi barna. Með því er verið að segja að það sé áhrifastaða að vera leikskólakennari. Ekki þarf að efast um að þetta sé rétt, leikskólakennara er ætlað að vera leiðandi í mótun starfsins, vera góð fyrirmynd og hann á að vera samverkamaður barna, foreldra og samstarfsfólks.

Einnig má segja að umönnunarstörf séu skipuð fólki í áhrifastöðum. Hver einasta fjölskylda í landinu hefur örugglega átt í samskiptum við einstaklinga sem sinna ástvinum þeirra að alúð og oftar en ekki á erfiðum tímum. Samskipti við umönnunaraðila eru og verða áhrifarík og þar með skipuð fólki í áhrifastöðum.

Þegar talað er um umönnunar- og kennslustörf, þá er oftar en ekki talað um hefðbundin kvennastörf og jafnvel kvennastéttir sem sinna störfunum – aldrei er minnst á áhrifastöður í þessu sambandi.

Um leið og við minnumst dagsins er gott að við hugum einnig að baráttu kvenna utan  landsteinanna, barnungar stúlkur eru enn þvingaðar í hjónabönd, umskurður kvenna viðgengst víða, stúlkum er meinaður aðgangur að menntun og eru jafnvel skotnar í höfuðið ef þær ákveða að sækja sér menntun þrátt fyrir augljósa hættu. Á þessum degi sem og aðra daga eigum við því einnig að sýna kynsystrum okkar stuðning hvar sem þær eru í heiminum og sama hvaða áhrifastöðum þær gegna.

Innilega til hamingu með daginn – öll sem eitt!

Anna Kolbrún Árnadóttir.

Categories
Greinar

Jöfnuður eykst

Deila grein

07/03/2016

Jöfnuður eykst

líneikÞað er virkilega ánægjulegt að verða vitni að vaxandi jöfnuði í samfélaginu. Heimilum sem þurfa fjárhagsaðstoð hefur fækkað milli áranna 2013 og 2014. Árin þar á undan fjölgaði heimilum sem þurftu fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum en milli áranna 2013 og 2014 varð viðsnúningur og heimilum sem fá fjárhagsaðstoð fækkar. Þetta helst í hendur við þróun í átt að auknum tekjujöfnuði en tekjur hafa ekki dreifst jafnar milli fólks hér á landi frá því mælingar Hagstofunnar hófust árið 2004.

Hlutfall landsmanna með tekjur undir lágtekjumörkum hefur dregist saman og aðeins einu sinni á síðustu 10 árum hafa jafn fáir mælst undir lágtekjumörkum, samkvæmt nýbirtum Félagsvísum velferðarráðuneytisins og Hagstofu Íslands 2015.Það er ávallt ánægjulegt þegar hagur heimilanna batnar. Þessi bætta staða er afleiðing margra samverkandi þátta en ætla má að atvinnumöguleikar og aukin áhersla á velferð vegi þar nokkuð. Frá árinu 2013 hafa skapast um 15.000 ný störf og mælist atvinnuleysi á Íslandi nú það minnsta í Evrópu eða 3,6%, samkvæmt tölum Eurostat sem birtar voru í byrjun febrúar. Til samanburðar mælist atvinnuleysi að meðaltali um 9% í Evrópusambandslöndunum. Þetta er magnaður árangur ef við lítum til þess að árið 2010 mældist atvinnuleysi hér á landi 7,6%.

Á síðustu árum hefur ríkisstjórnin ráðist í aðgerðir með það að leiðarljósi að auka velferð í samfélaginu og fleiri verkefni eru í farvatninu. Gerðar hafa verið breytingar á skattkerfinu, þannig hafa skattleysismörk og persónuafsláttur hækkað sem skilar sér í auknum ráðstöfunartekjum. Vörugjöld hafa einnig verið afnumin og skattar lækkað. Nú er til umræðu í velferðarnefnd frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem fjallar um uppbyggingu félagslegra leiguíbúða fyrir efnaminni fjölskyldur. Markmið þeirrar vinnu er að bæta húsnæðisöryggi þessa hóps með auknu framboði á hagkvæmu leiguhúsnæði þar sem húsnæðiskostnaður verði í samræmi við greiðslugetu leigjenda. Auk þess er stefnt að breytingum á húsnæðisbótakerfinu, á þann hátt að húsnæðisstuðningur verði aukinn og grunnfjárhæð húsnæðisbóta og frítekjumörk hækkuð. Með fyrrnefndum aðgerðum eykst stuðningur enn frekar við þá sem minnstar hafa tekjurnar. Fólk sem fest hefur í fátækragildru fær þá möguleika á að komast í þá stöðu að ná endum saman í lok hvers mánaðar og leggja fyrir.

Líneik Anna Sævarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 7. mars 2016.

Categories
Greinar

101 Popúlismi Fréttablaðsins

Deila grein

27/02/2016

101 Popúlismi Fréttablaðsins

haraldur_SRGBLeiðari Fréttablaðsins 25. febrúar undirstrikar þekkingarleysi á málefnum Laugarvatns og að höfundur hefur einungis kynnt sér 101-hlið málsins. Háskóli Íslands er sjálfstæð stofnun en er ekki hafin yfir gagnrýni. Sérstaklega ekki af hálfu þeirra sem veittu Háskólanum 12,5 milljarða króna í síðustu fjárlögum. Þingmenn Suðurkjördæmis, sem og margir aðrir þingmenn, vilja bjóða upp á nám á Laugarvatni eins og hefur reyndar verið boðið upp á síðastliðin 84 ár. Gagnrýni á ákvörðun Háskólans er því ekki einhver popúlismi. Þetta snýst um mikið áfall fyrir litla byggð úti á landi, sem er samofin háskólasamfélaginu og byggir að stórum hluta sína starfsemi í kringum Háskólann og fékk engan fyrirvara. Námið á Laugarvatni er hluti af merkri menntasögu landsins. Laugarvatn hefur verið byggt upp sem menntaþorp, þekkingarsamfélag. Því miður virðast margir ekki bera nokkra virðingu fyrir því. Ákvörðunin um að loka á þessa merku sögu er áfall, ekki bara fyrir Laugarvatn heldur fyrir landið allt.

Nemendur, núverandi og fyrrverandi vilja halda náminu á Laugarvatni. Stjórnendur vilja breyta náminu til að tryggja aukinn áhuga sem og að aðlaga námið að breyttum áherslum samfélagsins. Háskólinn hefur ekki sinnt viðhaldi á fasteignum skólans á Laugarvatni undanfarin ár. Ekkert samtal var við fjárveitingavaldið til að koma til móts við Laugarvatn. Reiknireglan fyrir Laugarvatn miðast við að námið sé í Reykjavík. Allt þetta er gagnrýnivert en ekki popúlismi. Sérstaklega í ljósi þess að mikill stuðningur er við háskólanám í háskólaþorpinu Laugarvatni.

Fækkun nemenda hefur verið töluverð frá árinu 2010, eða frá því námið var lengt úr þremur árum í fimm. Fækkunin hefur þó ekki verið meiri í íþróttanámi en öðru kennaranámi. Aðrar kennaragreinar hafa komið verr út en íþróttakennaranám, þrátt fyrir að vera kenndar í höfuðborginni. Háskólinn hefur ekki gert greiningu á þessari fækkun hjá menntavísindasviði. Ljóst er því að fækkunin hefur ekkert með staðsetninguna að gera heldur kerfisbreytingar á kennaranámi almennt.

Málamyndagjörningur
Markmiðið var aldrei af hálfu Háskólans að halda náminu á Laugarvatni. Annars hefði verið ráðist í breytingar og eflingu á náminu á Laugarvatni líkt og gert var við leikskólakennaranám þegar skráning þar var hvað verst. Það var mikill áhugi heimamanna og velunnara námsins að fara í öfluga kynningu á náminu. Auðvitað hefði átt að vera í gangi alvöru samtal við Alþingi, Bláskógabyggð og háskólafélag Suðurlands, en ekki byrjað á því daginn eftir að ákvörðun Háskólaráðs var frestað, þó það hafi bara verið málamyndagjörningur.

Það er alfarið rangt hjá leiðarahöfundi að það sé einungis hægt að stunda íþróttakennaranám á Laugarvatni. Höfundur ætti að athuga heimasíðu Háskóla Reykjavíkur og endurskrifa greinina. Núna hins vegar verður ekki hægt að stunda íþróttakennaranám á landsbyggðinni. Einnig fer leiðarahöfundur ranglega með gæði náms á Laugarvatni, þar ætti hún að tala við rektor sjálfan enda námið mjög gott og mikil ánægja með það.

Ég fullyrði að nánast allir á Alþingi vilji stuðla að námi úti á landi samhliða uppbyggingu náms í höfuðborginni. Það virðist hins vegar ekki vera hægt í samstarfi við Háskóla Íslands. Háskólinn hefur rofið sátt um að Háskólinn eigi að vera Háskóli allra landsmanna.

Fréttamenn eiga að vera gagnrýnir á ákvarðanir og upplýsandi, ekki gagnrýnir á einstaka stjórnmálaflokka og taka afstöðu með eða á móti ákvörðunum. Það taldi ég vera markmiðið eða er markmiðið 101 Popúlismi?

Haraldur Einarsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. febrúar 2016.

Categories
Greinar

Börnin okkar eru til fyrirmyndar

Deila grein

26/02/2016

Börnin okkar eru til fyrirmyndar

Elsa-Lara-mynd01-vefurÖll viljum við búa í fjölskylduvænu samfélagi. Samvera fjölskyldunnar er mikilvægur þáttur í þroska og velferð barna og unglinga og því er gleðilegt að sjá hvað samverustundum hefur fjölgað síðustu 10 ár. Í nýbirtum Félagsvísum sem Velferðarráðuneytið gefur út kemur þessi afgerandi þróun í ljós. Á einungis 10 árum hefur fjöldi barna á aldrinum 14 – 15 ára, sem segjast verja tíma með foreldrum sínum oft eða nær alltaf um helgar, farið úr 37% árið 2006 og í 63% árið 2014.

Minnkandi notkun áfengis og tóbaks
Lífsvenjur barna og unglinga á Íslandi hafa tekið miklum breytingum til hins betra síðasta áratuginn. Regluleg íþróttaiðkun barna á aldrinum 14 – 15 ára hefur aukist úr 31,8% árið 2006 í 39% árið 2014 og á sama tíma hefur notkun áfengis og tóbaks dregist saman. Fyrir 10 árum sögðust 12% 15 ára barna reykja eina eða fleiri sígarettur á dag en árið 2015 var hlutfallið farið niður í 2,5%. Þróunin er þó enn jákvæðari þegar þróun á notkun áfengis er skoðuð. Á þessum sama tíma hefur notkun áfengis 15 ára unglinga farið úr 26% niður í 4,6%. Ætla má að hér séu mismunandi áhrifavaldar að verkum. Forvarnir og fræðsla hefur aukist til muna og heilbrigði og hreysti hefur blessunarlega komist í tísku, ef svo má segja. Aukin samvera fjölskyldunnar er einnig stór þáttur í breyttu lífsmynstri og hafa breytingar á vinnumarkaði, t.a.m. sveigjanlegir vinnutímar og fjölskyldustefnur fyrirtækja, mikið að segja.

Fjölskylduvænna samfélag
Það er ekki sjálfgefið að þróunin sé með þessum þætti og við megum alls ekki sofna á verðinum. Það er mikilvægt að stjórnvöld hverju sinni leggi áherslu á að viðhalda og bæta það fjölskylduvæna samfélag sem hér hefur skapast. Heildarvinnuálag hjá íslenskum fjölskyldum er meira hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum og þurfum við að gera betur í þeim efnum. Þar má nefna styttingu vinnuvikunnar og samfellu milli fæðingarorlofs og leikskóla, eins og kom fram í tillögum verkefnisstjórnar Velferðarráðuneytisins sem miða að samþættingu fjölskyldu – og atvinnulífs.

Við getum þó sannarlega glaðst yfir því hve langt við höfum náð nú þegar og það er ljóst að framtíðin er í góðum höndum hjá þessari frábæru kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á visir.is 26. febrúar 2016.

Categories
Greinar

Af stóru málunum

Deila grein

26/02/2016

Af stóru málunum

haraldur_SRGBFyrir kosningarnar árið 2013 var ljóst að mörg stór mál biðu úrlausnar á komandi því kjörtímabili. Það er óhætt að halda því fram að stóru málin hafi verið skuldamál heimilanna, afnám hafta, húsnæðismál og verðtryggingin. Það er því góður tímapunktur núna, þegar árið 2016 er gengið í garð, að horfa yfir farinn veg og meta stöðuna. Höfum við gengið götuna til góðs? Hefur eitthvað mjakast áfram og hvað stendur eftir.

„Móðir“ allra kosningaloforða efnt

Allt frá árinu 2009 höfðum við framsóknarmenn talað um mikilvægi þess að leiðrétta stökkbreytt lán heimilanna. Leiðréttingin var unnin af fagmennsku, af sérfræðingum og tókst framkvæmd hennar frábærlega. Tveimur árum eftir kosningar höfðu heimili með verðtryggð húsnæðislán, sem var sá hópur sem hafði beðið hvað lengst eftir leiðréttingu sinna mála, fengið leiðréttingu á allri verðbólgu áranna 2008 og 2009 fyrir ofan 4% vikmörk Seðlabankans. Það er nauðsynlegt að ítreka það að  4 milljóna króna þak var á leiðréttingafjárhæð til að tryggja það að fjármagn leiðréttingarinnar dreifðist fremur á hina tekjulægri. Ekki var hugsað fyrir slíku þaki á 110% leið bankanna og síðustu ríkisstjórnar þar sem um 20 milljarðar fóru til 1% heimila í landinu, eða um 775 heimila.

Staðfesta við afnám hafta

„Hvernig getur þú talað svona með allt öðrum hætti en allir aðrir flokkar sem eru í framboði þings?“ Svona spurði Sigmar Guðmundsson, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, í þættinum Forystusætið á RÚV fyrir síðustu kosningar. Staðreyndin er einfaldlega sú að Framsóknarflokkurinn talaði einn flokka um að mögulegt væri að afnema höftin á kjörtímabilinu og af því gæti hlotist verulegur ávinningur fyrir ríkissjóð. Nú er svo komið að trúverðug áætlun um losun fjármagnshafta liggur fyrir. Ástæða fyrir trúverðuleika og góðum undirtektum kröfuhafa er augljóslega það að þeim voru gefnir upp valkostir ásamt því að réttir hvatar voru til staðar. Talað var um málflutning framsóknarmanna sem „popúlisma“. Nú er hinsvegar gert ráð fyrir að ráðstafanir slitabúanna til þess að uppfylla stöðugleikaskilyrðin nemi um 850 milljörðum og þar af nema greiðslur til stjórnvalda 5-600 milljörðum. Ekki er hægt að nefna eina ákveðna tölu þar sem framlagið er að stórum hluta í formi eigna, en ljóst er að ávinningurinn er gríðarlegur.

Heimilin, verðtryggingin og almannatryggingar

Fjögur húsnæðisfrumvörp eru nú komin til velferðarnefndar. Í þeim má meðal annars finna nauðsynlegar úrbætur í húsnæðismálum tekjulægri fjölskyldna og fjölgun félagslegs húsnæðis. Það má heldur ekki gleyma því að húsnæðisfrumvörpin spiluðu veigamikinn þátt í gerð kjarasamninga síðastliðið vor og því nauðsynlegt að þingið standi saman í því að afgreiða þau sem fyrst. Unnið er að afnámi verðtryggingar í takt við þá áætlun sem starfshópur lagði til árið 2014. Það er hins vegar alveg ljóst að sú barátta verður erfið þar sem við erum ekki einungis að kljást við pólitíkina á Alþingi heldur einnig varðhunda fjármagnseigenda.

Við erum á réttri leið og höfum unnið statt og stöðugt að því að bæta hag heimilanna á kjörtímabilinu. Að bæta hag heimilanna er ekki einhver kosningafrasi eins og heyrst svo oft frá þeim sem ekki treystu sér í þann slag á síðasta kjörtímabili. Það þurfa allir að hafa þak yfir höfuðið og eiga fyrir salti í grautinn. Kaupmáttur launa hefur aukist verulega á kjörtímabilinu. Hann er ekki bara einhver tala á blaði, heldur mælir hann raunverulega kaupgetu fólks. Það er einfaldlega staðreynd að Íslendingar fá meira fyrir launin sín í dag en nokkru sinni áður. Þann 1. janúar síðastliðinn hækkuðu bætur um 9,7%. Frítekjumark hefur hækkað og sú skerðing frá síðustu ríkisstjórn, oft verið kölluð Árna Páls skerðingin, hefur verið dregin að fullu til baka. Bætur almannatrygginga hafa hækkað töluvert meira en verðlag og þannig hefur kaupmáttur lífeyrisþega aukist. Það verður þó ekki sagt að nóg sé að gert. Því fer fjarri. Nú verðum við að halda áfram að gera vel, byggja ofan á því sem þegar hefur náðst og gera samfélagið í heild betra.

Haraldur Einarsson

Greinin birtist í Suðra febrúar 2016.

Categories
Greinar

Það sést til lands

Deila grein

25/02/2016

Það sést til lands

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraLengi hef ég haft trú á því að hægt væri að tryggja Vestfirðingum næga og stöðuga orku eða allt frá því að fulltrúar Vesturverks kynntu mér sínar hugmyndir um virkjunaráform í Hvalá.

Um nokkurn tíma hefur verið unnið að því að láta þetta verða að veruleika.

Hvalárvirkjun ein og sér er um 55 MW virkjun en með öðrum virkjunum, Austurgilsvirkjun og Skúfnavatnavirkjun, má ætla að um 100 MW framleiðsla sé raunhæf.  Síðan má nefna aðra kosti í Ísafjarðardjúpi sem minna eru rannsakaðir en geta talið allt að 35-40 MW. Í ljósi þess að virkjanir á Vestfjörðum framleiða einungis um 15 MW er um verulega aukningu á raforkuframleiðslu að ræða.

Vesturverk og HS Orka hafa sýnt mikla framsýni og keyrt þetta verkefni áfram af rökfestu og fagmennsku.

Forsenda þess að geta nýtt þessa kosti er að hægt sé að tengja framleiðsluna við raforkukerfið og koma henni um Vestfirði sem og inná landskerfið. Jákvæð teikn eru um að Nauteyri í Ísafjarðardjúpi sé góður kostur sem afhendingarstaður raforkunnar sem þýðir að verkefnið er framkvæmanlegt og arðbært.

Enginn þarf að efast um hve gríðarlega mikilvægt það er að geta nýtt þá raforkukosti sem til staðar eru á Vestfjörðum.

Aukin framleiðsla orku inná veitukerfi Vestfjarða eykur um leið hagkvæmni þess að ráðast í línulagnir og um leið möguleika á að nýta orkuna til atvinnuuppbyggingar s.s. kalkþörungaverksmiðju sem og að tryggja raforkuöryggi til fyrirtækja og heimila.

Með því að tengja frá Nauteyri til Ísafjarðar er komin á hringtenging raforku um Vestfirði sem er lykilatriði til að tryggja öryggi og dreifingu.

Ég held það sé óhætt að vera bjartsýnn á að þessi áform nái fram að ganga. Framkvæmdaaðilar hafa sýnt mikinn dugnað og framsýni og haft óbilandi trú á verkefninu og tel ég að nú sé kominn ágætur skilningur og trú á það hjá stjórnmálamönnum og embættismönnum.

Frá því að ég fór að fylgja þessu máli eftir hef ég sannfærst meir og meir um mikilvægi þess og fyrir um tveimur árum varð ég sannfærður um að þarna sé eitt af mörgum tækifærum Vestfjarða til að blómstra á ný.

Það má því segja að það sjáist til lands í raforkumálum Vestfjarða.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist í www.bb.is 23. febrúar 2016.

Categories
Greinar

Fullkomin kaldhæðni

Deila grein

21/02/2016

Fullkomin kaldhæðni

Sigmundur-davíðÞetta er löngu komið gott af stórfurðulegum árásum fáeinna talsmanna stórverslana á íslenska bændur. Kvartanirnar yfir því að fá ekki fullt vald yfir matvælaframleiðendum taka á sig ýmsar myndir en kaldhæðnin gæti varla orðið meiri en þegar stuðningur við innlenda matvælaframleiðslu er gagnrýndur með samanburði við Icesavesamningana.

Á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu árið 2011 sagði þáverandi formaður samtakanna að brýnasta verkefni þjóðarinnar og stjórnvalda væri tryggja samþykkt Icesave-samninganna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það átti að gera til að bæta rekstrarskilyrði fyrirtækja. ,,Ef Icesave verður fellt þá mun engin ríkisstjórn hjálpa okkur upp úr þeirri stöðu” sagði formaður samtaka sem nú bera búvörusamninga saman við Icesavesamninga.

Icesavesamningurinn fól í sér greiðslu hundruða milljarða króna úr landinu í erlendri mynt sem ekki var til. Nýverið var reiknað út að kostnaður skattgreiðenda af fyrsta samningnum væri orðinn vel á annan milljarð evra. Það er ómögulegt að segja hvað það væri mikið í krónum vegna þess ekki er hægt að segja til um hversu mikið gengið hefði hrunið við að taka ábyrgð á Icesavekröfunni. Upphæðin sem fallið hefði á skattgreiðendur næmi þó hæglega 300 milljörðum króna (á núverandi gengi er hún yfir 200 milljarðar) og um leið væri staða ríkisfjármála miklu lakari, vaxtakostnaður ríkissjóðs meiri, meiri verðbólga með veikara gengi, innfluttar vörur dýrari osfrv. osfrv.

Stuðningur við innlenda matvælaframleiðslu snýst hins vegar um að spara gjaldeyri. Nýta auðlindir landsins til að búa til gæðavöru og selja hana á samkeppnishæfu verði. Stuðninginn mætti allt eins kalla neytendastyrki enda er álagning stórverslana meiri á innfluttar vörur en þær innlendu.

Fyrir rúmum sjö árum höfðu menn áhyggjur af því hvort til væri gjaldeyrir til að flytja inn eldsneyti og lyf. Menn geta rétt ímyndað sér hver staðan hefði verið ef við hefðum ekki átt öfluga innlenda matvælaframleiðslu með þeim tugmilljarða gjaldeyrissparnaði sem hún skilar. Svo ekki sé einu sinni hugsað til þeirrar stöðu sem upp hefði komið ef við hefðum ekki haft innlenda matvælaframleiðslu og samþykkt Icesavesamninginn á sama tíma.

Að gagnrýna 13-14 milljarða stuðning við lægra vöruverð til neytenda og gjaldeyrissparnað upp á um 50 milljarða á ári með vísan til áforma um að greiða hundruð milljarða úr landi fyrir ekki neitt þegar enginn gjaldeyrir var til er vægast sagt furðulegt. En það er lýsandi fyrir hvað þeir sem það gera eru komnir langt út í haga í gagnrýni sinni á bændur og landbúnað, undirstöðuatvinnugrein á Íslandi í meira en 1100 ár.

Og allt til að geta eytt meiri gjaldeyri í að flytja inn meira af erlendum matvælum og selja þau með hærri álagningu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist á sigmundurdavid.is 20. febrúar 2016.

Categories
Greinar

Af málefnum Borgunar hf.

Deila grein

11/02/2016

Af málefnum Borgunar hf.

Þorsteinn-sæmundssonÞann 28. nóvember 2014, þrem dögum eftir að gert var uppskátt um sölu á hlut ríkisins (Landsbanka Íslands hf.) í fyrirtækinu Borgun hf til valdra viðskiptavina án útboðs hvatti sá sem hér ritar í ræðustól Alþingis til sérstakrar athugunnar á sölunni.  Þessi krafa hefur verið ítrekuð af hálfu undirritaðs nokkrum sinnum síðan.    Einnig sendi undirritaður Bankasýslu ríkisins formlegt erindi síðastliðið ár um mat á hlut ríkisins sem seldur var en Bankasýslan hafnaði erindinu.  Undirritaður hefur því sent Ríkisendurskoðun formlega beiðni um mat á söluverði hlutar ríkisins í Borgun.  Öllum ætti nú að vera ljóst hvers vegna krafa um sérstaka athugun á þessari dæmalausu vegferð er nauðsynleg.  Frá því að salan fór fram hefur bankastjóri Landsbankans orðið margsaga um atriði tengd sölunni.  Þannig sagði hann þegar salan fór fram að Landsbankinn hefði ekki haft nein efni til að meta verðmæti hlutarins sem seldur var. Hann hélt því reyndar jafnframt fram þá að söluverðið hefði verið hagstætt bankanum hvernig sem þetta tvennt fer saman.  Það kom einnig fram þegar salan fór fram að Bankasýsla ríkisins var ekki höfð með í ráðum  meðan á söluferli á hlut ríkisins í Borgun stóð yfir.  Nú nýlega hélt bankastjórinn því svo fram að kaupendahópurinn hefði borið inn í bankann upplýsingar um verðmæti hlutarins og það mat hefði verið grunnur kaupverðsins.  Það er örugglega einsdæmi í viðskiptum að kaupandi hlutar ákveði verð hans sjálfur. Bankastjórinn hefur enn fremur haldið því fram að Samkeppniseftirlitið hafi rekið á eftir sölunni.  Sú staðhæfing hefur verið borin til baka.   Á síðustu dögum hefur bankastjórinn ánýjað yfirlýsingar sínar um að bankinn hafi ekki haft neina vitneskju um fyrirtækið Borgun, rekstur þess og verðmæti hlutar ríkisins í fyrirtækinu.  Borgun hf hefur nú í dag (8.febrúar) mótmælt þessum orðum bankastjórans í rökstuddri greinargerð.  Bankastjórinn hefur ekki heldur frá upphafi vegar og fram á þennan dag fært fram haldbær rök fyrir því hvers vegna ekki var leitað til óháðs aðila til að meta verðmæti hlutarins.  Hvað þá heldur að rökstyðja það að hlutur ríkisins í Borgun var ekki seldur í gegnsæju opnu ferli sem er krafa eiganda bankans, fólksins í landinu.

Óvæntur hvalreki?
Á síðustu dögum hafa svo komið fram upplýsingar um n.k. hvalreka (e. windfall) sem Borgun varð aðnjótandi í kjölfar yfirtöku VISA Inc. á VISA Europe.  Þessar tekjur munu færa eigendum Borgunar milljarða.  Bæði bankastjóri Landsbankans og fulltrúar Borgunar hf. hafa fullyrt að þeir hafi ekki haft vitneskju um að slíkur hvalreki væri væntanlegur.  Það vekur nokkra furðu vegna þess að snemma árs 2014 komu fram vísbendingar í þessa átt bæði í erlendum fréttamiðlum og í árshlutauppgjörum VISA Inc.  Rétt um mánuði fyrir sölu á hlut ríkisins í Borgun mátti lesa á erlendum fréttamiðlum um hversu stór hvalrekinn yrði og samkvæmt því sem þá kom fram mátti hæglega áætla hlut Borgunar í honum.  Að auki mátti bæði seljanda og kaupanda hlutar ríkisins í Borgun vera ljóst hvernig tekjur Borgunar af erlendri starfsemi fóru síhækkandi árin fyrir sölu hlutarins.  Ef það er rétt og satt að stjórnendur Landsbankans hafi ekki vitað af eða gert sér grein fyrir ábata af yfirtöku VISA Inc. og VISA Europe þrátt fyrir þær upplýsingar sem fram höfðu komið í erlendum fréttamiðum er ljóst að þeir eru ekki starfi sínu vaxnir.  Hafi þeir búið yfir vitneskju um væntanlegan ábata og samt farið fram með þeim hætti sem gert var er það hálfu alvarlegra.  Í þessu sambandi er ekki frítt við að hugurinn reiki til framgöngu bankanna við að yfirtaka sparisjóði víða um land nýlega.  Allir þeir sparisjóðir áttu það sameiginlegt að eiga nokkurn hlut í Borgun sem stóru bankarnir eignuðust við yfirtöku á sjóðunum.

Vantraust
Allt það sem að framan er sagt; misvísandi yfirlýsingar bankastjóra Landsbankans, leyndin við sölu hlutar ríkisins í Borgun, ógagnsætt söluferlið, ,,skyndilegur“ hvalreki vegna yfirtöku VISA Inc. á VISA Europe fylla fólk vantrausti.  Vantrausti á yfirstjórn Landsbankans, vantrausti á Landsbankann sem stofnun, vantrausti á bankakerfið í heild.   Traust er eitt veigamesta atriði við rekstur banka.  Sé því stefnt í voða getur illa farið.  Ljóst er að Landsbanki Íslands og stjórnendur hans njóta ekki trausts almennings sem er eigandi bankans.  Framkvæma þarf því viðamikla athugun á sölu hlutar ríkisins í Borgun, aðdraganda, framkvæmd og áhrifum.  Sú athugun getur ekki verið á ábyrgð Bankasýslu ríkisins sem skipar stjórn Landsbankans.  Athugunin verður að vera framkvæmd af Alþingi, af kjörnum fulltrúum fólksins í landinu, eigendum Landsbankans.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. febrúar 2016.

Categories
Greinar

Takk, Magnús og Fréttablaðið

Deila grein

10/02/2016

Takk, Magnús og Fréttablaðið

Silja-Dogg-mynd01-vefÍ leiðara Fréttablaðsins, Skoðun, þann 1. febrúar sl., skrifar Magnús Guðmundsson lipurlega um áfengisfrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi. Rati frumvarpið í atkvæðagreiðslu segir hann svo um þingmenn: „Hver um sig getur sagt já og sett hagsmuni frjálsrar smávöruverslunar á oddinn eða greitt atkvæði á forsendum lýðheilsu og minni kostnaðar fyrir heilbrigðiskerfið og sagt nei.“ Takk, Magnús, fyrir þessi orð. Í þeim hverfist sannleikur þessa máls.

Allar rannsóknir benda til þess sama, að með auknu aðgengi fylgi aukinn áfengisvandi og minni lýðheilsa. Aðgengi er því lykilorð. Rannsóknir þessar hafa haft áhrif á stefnumótun í flestöllum þróuðum ríkjum, þ. á m. á Íslandi. Hvaða stefnu hafa stjórnvöld á Íslandi þá hvað varðar aðgengi að áfengi? Jú, sú stefna er skýr og endurspeglast í þeirri stefnu sem heilbrigðisráðherra hefur samþykkt og birt undir heitinu Stefna í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020. Stefna þessi er auðfundin á veraldarvefnum fyrir þá sem hafa áhuga. Í stefnunni eru sex yfirmarkmið og er það fyrsta eftirtalið: „Að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum.“ Aðgengi er því lykilorð í stefnu Íslands. Aðgengi á að takmarka en ekki auka.

Hagsmunir
Aukið aðgengi að áfengi og þar með aukin neysla er í mótsögn við bætta lýðheilsu. Verri lýðheilsa mun íþyngja heilbrigðiskerfinu og leiða til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð. Það eru því ekki hagsmunir skattgreiðenda að frumvarpið verði samþykkt. Skattgreiðendum þykir flestum að þeir séu píndir nóg nú þegar. Hverjir græða þá á samþykkt frumvarpsins? Jú, þær verslanir sem ætla sér að selja áfengið, það blasir við. Verði frumvarpið samþykkt verður gríðarleg pressa á að aflétta auglýsingabanni á áfengi. Tekjur af áfengisauglýsingum eru einn stærsti tekjuliður dagblaða erlendis. Því hlýtur það að vera freistandi fyrir fjölmiðla að leggjast á sveif með þeim sem vilja að frumvarpið nái fram að ganga. Það er því þeim mun meiri ástæða til að þakka Magnúsi og Fréttablaðinu fyrir ofangreindan leiðara.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. febrúar 2016.

Categories
Greinar

Fíllinn og fjarkinn

Deila grein

08/02/2016

Fíllinn og fjarkinn

Silja-Dogg-mynd01-vefFlestir vilja eignast eigið húsnæði á einhverjum tímapunkti í lífi sínu. En það mun alltaf vera til sá hópur sem getur ekki eða vill ekki eiga húsnæði. Íslenskur húsnæðismarkaður er í dag, bæði hvað varðar kaup og leigu ómögulegur. Ríkisstjórnarflokkarnir eru samstíga í ályktunum sínum að nauðsynlegt sé að bæta húsnæðiskerfið. Auk þess samþykkti Alþingi  þingsályktun sumarið 2013 um aðgerðaáætlun í tíu liðum. Samkvæmt henni átti að taka á skuldavanda heimila, með því að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán og opna tækifæri til að nýta séreignasparnað til niðurgreiðslu á höfuðstól húsnæðislána. Áætlunin kveður einnig á um að auka stöðugleika og gagnsæi á húsnæðislánamarkaði og vinna að framtíðarskipan húsnæðismála, þar á meðal úrbótum á leigumarkaði.  Markmið ríkisstjórnarflokkanna eru skýr. Við ætlum að bæta hag heimila landsins. Ekki bara húseigenda, heldur allra heimila. Við gleypum ekki fílinn í heilu lagi, en við erum svo sannarlega byrjuð.

Öruggt húsnæði fyrir alla

Umfangsmikið samráð var haft við hagsmunaaðila þegar frumvörpin fjögur um húsnæðismál voru unnin. Þar sem grunnur þeirra er vandaður þá er mjög líklegt að góð samstaða náist um afgreiðslu þeirra á Alþingi. Velferðarnefnd hefur þau nú til meðferðar og sú vinna gengur vel. En um hvað fjalla þessi frumvörp?

  1. Frumvarp til laga um almennar íbúðir felur í sér að byggja samtals 2.300 íbúðir á þessu ári og næstu þremur árum fyrir efnaminni leigjendur. Markmiðið er að fólk geti búið í öruggu húsnæði og að kostnaður fari ekki yfir 20-25% af tekjum. Með auknu framboði og breyttu fjármögnunarformi, lækkar leiguverð.
  2. Frumvarp til laga um húsnæðisbætur felur í sér stóraukinn stuðning fyrir leigjendur. Þar eru frítekjumörk hækkuð og stuðningur miðast við fjölskyldustærð. Verið er að jafna stuðning milli ólíkra búsetuforma svo einstaklingar og fjölskyldur hafi raunverulegt val um búsetuform.
  3. Frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög (sbr. Búseti og Búmenn). Markmið þess er að styrkja rekstur húsnæðissamvinnufélaga, gagnsæi í rekstri þeirra, auka réttindi íbúa og koma á íbúalýðræði innan félaganna.
  4. Frumvarp um breytingu á húsaleigulögum sem felur í sér aukin réttindi leigjenda og leigusala. Auk þess er verið að skerpa á atriðum, sem deilumál hafa orðið um í leigusamningum undanfarin ár.

Næstu skref

Í framhaldi af þessari vinnu við ofangreind frumvörp þarf að taka á verðtryggingunni og endurskoða fjármálakerfið í heild sinni, með neytendavernd og gagnsæi í huga. Með það að markmiði að fólk geti eignast húsnæði á sanngjörnum kjörum. Horfa þarf til þess að fjölga hvötum til sparnaðar og endurskoða þau skilyrði sem sett eru fram um greiðslumat. Sú vinna er hafin í efnahags – og viðskiptanefnd þingsins.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Víkurfréttum 5. febrúar 2016.