Categories
Greinar

Flýtimeðferð, já takk

Deila grein

02/03/2014

Flýtimeðferð, já takk

Elsa lára_SRGB_fyrir_vefÍ gær birtist frétt á vef Hagsmunasamtaka heimilanna þess efnis að Neytendastofa hafi birt ákvörðun vegna kvörtunar yfir verðtryggðu húsnæðisláni Íslandsbanka. Með ákvörðuninni eru staðfest alvarleg brot bankans á ákvæðum laga um neytendalán og um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Neytendastofa hefur hér með staðfest að lánveitendum verðtryggðra neytendalána hafi verið með öllu óheimilt að taka mið af 0% verðbólgu við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, heildarlántökukostnaðar og framsetningu á greiðsluáætlun.

Í fréttinni kemur jafnframt fram að rannsóknir Hagsmunasamtaka heimilanna á lánasamningum neytenda hafa leitt í ljós að þeir eru í flestum tilvikum, sama eðlis og má því ætla að flest ef ekki öll verðtryggð neytendalán hér á landi, þar með talin húsnæðislán, brjóti í bága við umrædd lagaákvæði. Ekki er vitað um nein tilfelli þess að lánveitendur verðtryggðra neytendalána hafi á undangengnu tímabili tekið mið af raunverulegri verðbólgu við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar og heildarlántökukostnaði.

Samkvæmt niðurstöðu Neytendastofu hefur lánveitendum því verið óheimilt að innheimta verðbætur af verðtryggðum neytendalánum frá þeim tíma og af fasteignaveðlánum einstaklinga frá ársbyrjun 2001,  þegar lögin voru útvíkkuð.

Þessi niðurstaða staðfestir það sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa um langa hríð vakið athygli á, að framkvæmd verðtryggingar á neytendalánum hér á landi hefur verið ólögleg allt frá gildistöku laga nr. 121/1994 um neytendalán, að meðtöldum fasteignaveðlánum frá og með 2001.

Í ljósi þessara niðurstaðna finnst mér mjög mikilvægt að þau mál sem eru í gangi um lögmæti verðtryggingarinnar, fái flýtimeðferð í gegnum dómskerfið. Í sumar var samþykkt á Alþingi frumvarp sem tekur einmitt til þess, að gefa fordæmisgefandi málum er tengjast skuldamálum heimilanna hraðari meðferð í gegnum kerfið.

En þar segir að lagt er til að í þeim dómsmálum þar sem ágreiningur er uppi um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla, vísitölu eða uppgjöri slíkra skuldbindinga, skuli hraða meðferð slíkra mála og veita forgang fram yfir önnur mál sem bíða meðferðar hjá dómstólum. Í því felst að dómari sjái til þess að allir frestir í máli séu eins stuttir og mögulegt er og að dómur sé kveðinn upp hið fyrsta. Á þetta bæði við um mál sem rekin eru fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.

Það er mín persónulega skoðun að dómsmál er varða lögmæti verðtryggingarinnar af neytendalánum fái þessa flýtimeðferð sem lögin kveða á um. Þá fyrst vitum við raunverulega hverju við þurfum að bregðast við.

Ég leyfi mér að enda þessa færslu á þessum orðum. Lán hafa verið dæmd ólögleg fyrir dómstólum, það getur gerst aftur.

 

Elsa Lára Arnardóttir

Categories
Greinar

Ísland og Japan: Tækifæri í jarðhita

Deila grein

28/02/2014

Ísland og Japan: Tækifæri í jarðhita

Sigurður Ingi JóhannssonMörg ríki reyna nú að draga úr bruna jarðefnaeldsneytis til orkuframleiðslu, sem er helsta orsök skaðlegra loftslagsbreytinga á heimsvísu. Japan er þar engin undantekning og býr raunar við meiri vanda en mörg önnur ríki, því dregið hefur mjög úr notkun kjarnorku eftir slysið í Fukushima-verinu. Japan nýtur þess hins vegar að óvíða er meiri gnótt jarðhita. Hann er þó vannýttur og japönsk stjórnvöld hafa nýlega ákveðið að grípa til ýmissa aðgerða til að efla jarðhitanýtingu. Meðal annars er litið til Íslendinga og þekkingar okkar í þessu sambandi.

Nobuteru Ishihara, umhverfisráðherra Japans, kom síðastliðið sumar til Íslands í vinnuheimsókn að kynna sér jarðhitamál og sýndi reynslu Íslendinga mikinn áhuga. Í fyrri viku var heimsókn Ishihara endurgoldin og var tækifærið notað til að ræða efld samskipti ríkjanna við hann og fleiri ráðamenn og talsmenn atvinnulífs í Japan.

Í heimsókninni til Japans ávarpaði undirritaður málþing í Tókýó um möguleika á samstarfi í jarðhitamálum, sem nær 100 þátttakendur sóttu. Þar kom fram mikill áhugi á nýtingu jarðhita og mögulegu samstarfi. Japönsk fyrirtæki framleiða meirihluta af hverflum í jarðhitaverum á heimsvísu og eru framarlega í allri tækni á þessu sviði. Nýting jarðhita til rafmagnsframleiðslu er þó takmörkuð og nær engin til húshitunar. Þar liggja tækifæri fyrir okkur, því hvergi í heiminum er jafn víðtæk og fjölbreytt nýting á jarðhita og á Íslandi. Reynsla okkar þar er verðmæti.

Grálúða, æðardúnn og norðurljós
Viðskiptatækifæri í Japan eru ekki einungis á sviði jarðhita. Japan er annað helsta viðskiptaland Íslands utan Evrópu og þangað fara yfir 2% af útflutningi okkar að verðmæti um 12-15 milljarða króna árlega. Þar ber hæst ýmsar sjávarafurðir, sem eru 80% af útflutningi okkar til Japans, s.s. grálúða, karfi og loðnuafurðir. Líklega hefur engin þjóð ríkari og fjölbreyttari hefðir í matreiðslu sjávarfangs og Japanar og þar er mikil eftirspurn eftir hágæðafiski og hvers kyns sjávarfangi. Eftirspurn eftir íslenskri gæðavöru er þó ekki bundin við sjávarafurðir, því Japan er stærsti markaður fyrir æðardún, sem er seldur þangað fyrir um 300 milljónir króna.

Japanskir ferðamenn koma til Íslands í stórauknum mæli, ekki síst á veturna, meðal annars til að sjá norðurljós. Áhugavert er að reyna að efla enn frekar samgöngur og viðskipti við Japan og kom áhugi Japana á því skýrt fram í heimsókninni. Meðal annars er áhugi á norðursiglingum, en Japan fékk á fyrra ári áheyrnaraðild í Norðurskautsráðinu. Ef siglingaleið opnast yfir norðurpólinn myndi það stytta vöruflutninga milli Yokohama og Rotterdam um 40%. Japan opnar nú í vor fullmannað sendiráð með sendiherra staðsettum í Reykjavík. Teikn um aukin samskipti Íslands og Japans eru því víða á lofti, sem er vel, því þessar tvær eyþjóðir eiga margt sameiginlegt þótt siðir og saga séu ólík og höf og heimsálfur beri í milli.

Jarðhiti – lausn á heimsvísu
Auk tvíhliða samskipta Íslands og Japans er áhugavert að skoða hvort ríkin geti eflt samstarf í umhverfismálum á alþjóðavettvangi, svo sem með að styrkja græn verkefni í þróunarríkjum. Mögulega geta legið tækifæri í samstarfi Japana og Íslendinga við að auka útbreiðslu jarðhitanýtingar þar, enda er víða að finna jarðvarmaver sem byggja á japanskri tækni og íslenskri þekkingu.

Loftslagsvandinn er að langmestu leyti til kominn vegna bruna kola, olíu og gass til orkuframleiðslu. Endurnýjanleg orka er ekki laus við vandamál, en er þó margfalt betri lausn á heimsvísu í ljósi loftslagsváarinnar. Í jarðhitanum liggja gífurleg tækifæri. Sérfræðingur á fyrrnefndu málþingi taldi að e.t.v. væru aðeins um 6% jarðhita á heimsvísu nýtt nú. Þarna getur Ísland beitt sér til góðra verka og ekki er verra ef við getum unnið að þeim í samvinnu við Japan og önnur ríki sem vilja efla veg loftslagsvænnar orku.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. febrúar 2014.)

Categories
Greinar

Við vorum kosin til að gera breytingar

Deila grein

23/02/2014

Við vorum kosin til að gera breytingar

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSíðustu alþingiskosningar snerust fyrst og fremst um þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera til að koma samfélagi okkar upp úr hjólförunum. Það er vel þekkt staðreynd að í djúpri niðursveiflu felast tækifæri til að ná snöggri uppsveiflu. En á Íslandi varð biðin eftir viðsnúningi löng, enda voru mörg tækifæri vannýtt og árum saman fylgt stefnu sem var síst til þess fallin að ýta undir vinnu, vöxt og velferð. Óþreyjan eftir framförum var því orðin mikil.

Margar þeirra breytinga sem kallað var eftir við kosningar eru gríðarlega stórar og mikilvægar fyrir framtíð Íslands. Þar má meðal annars nefna leiðréttingu á verðtryggðum lánum heimilanna, einföldun skattkerfisins, breytingu á samskiptum Íslands og Evrópusambandsins, bætt viðhorf stjórnvalda til atvinnulífsins, grundvallarbreytingar á fjármálaumhverfinu, m.a. vegna afnáms verðtryggðra neytendalána, skuldaskil þrotabúa gömlu bankanna og afnám fjármagnshafta.

Núverandi ríkisstjórnarflokkar fengu mjög afdráttarlaus skilaboð í alþingiskosningunum. Þau skilaboð tökum við alvarlega. Við vorum kosin til að gera breytingar. Það erum við að gera og munum gera áfram.

Breytingar mæta iðulega mótspyrnu. Miklar breytingar mæta mikilli mótspyrnu og hún getur tekið á sig ýmsar myndir. Gagnrýni og rökræða eru nauðsynleg í lýðræðissamfélagi. Þegar ráðist er samtímis í margar stórar og afgerandi samfélagslegar breytingar sem skipta máli fyrir afkomu heimilanna, skipan fjármálakerfisins, samskipti okkar við umheiminn og komið í veg fyrir að kröfuhöfum bankanna séu tryggð þau sérkjör sem einhverjir þeirra virðast hafa haft væntingar um, þá þarf ekki að koma á óvart að mótstaðan verði bæði mikil og áköf og gangi jafnvel lengra en talist getur til eðlilegrar gagnrýni.

Breytt stefna kallar alltaf á andstöðu þeirra sem vildu halda óbreyttri stefnu (eða stefnuleysi) og þeirra sem hafa hag af óbreyttu ástandi.

Strax og þessi ríkisstjórn tók við kom í ljós að þær breytingar sem boðaðar voru í kosningum, og ríkisstjórnin var mynduð um, mættu mikilli mótspyrnu. Sú mikla varnarbarátta sem nú er háð gegn hreyfiafli breytinganna, bæði í fjölmiðlum og annars staðar í samfélaginu, hefur ekki farið fram hjá neinum og er skýrt merki þess að breytingarnar séu byrjaðar að skila árangri.

Upp úr hjólförunum

Um allt land sjást þess nú merki að íslenskt samfélag er að vakna af þyrnirósarsvefni áranna eftir bankahrunið. Efnahagslífið er að taka við sér með verulega auknum hagvexti, hvarvetna eru framkvæmdir hafnar eða að hefjast. Merki um framfarir blasa víða við.

Ný þjóðhagsspá Arion banka var kynnt á ráðstefnu í vikunni með yfirskriftinni »komin upp úr hjólförunum«. Í fyrra var yfirskrift sömu ráðstefnu »föst í fyrsta gír« og sést ágætlega á þeirri breytingu að mikið hefur gerst á undanförnu ári.

Hagvöxtur tók stökk á afgerandi og jákvæðan hátt síðastliðið haust, hagvaxtarspá Seðlabankans fyrir næsta ár er nú mun jákvæðari en von var á. Fjárfesting hefur aukist meðal smærri fyrirtækja á árinu og byggingariðnaðurinn er að taka verulega við sér. Talið er að um 2.000 störf bætist við í byggingariðnaði á næstu árum og því er spáð að atvinnuleysi muni lækka niður undir 3% – eða nálægt atvinnuleysistölum í venjulegu árferði á Íslandi. Auk þess er því nú spáð að verðbólga muni fara lækkandi fram eftir árinu sem er sérstaklega mikilvægt vegna þess að brýna nauðsyn ber til að auka kaupmátt heimilanna.

Ekkert lát er á fjölgun erlendra ferðamanna og um allt land er uppbygging á spennandi tækifærum í ferðaþjónustu í fullum gangi. Við þetta bætist að hagvaxtarhorfur í helstu viðskiptalöndum okkar fara nú batnandi, lánshæfi landsins er orðið stöðugt og ýmsar vísbendingar eru um bætt vaxtakjör og meira traust á íslenska ríkinu.

Það er því full ástæða til að gleðjast yfir þeim áberandi jákvæðu breytingum sem hafa orðið á stöðu landsins og aðstæðum í samfélaginu síðastliðið ár.

Ísland er land tækifæranna

Framundan eru stór verkefni og mikilvægar breytingar.

Ein þeirra er afnám fjármagnshafta, sem nú er unnið að með skipulegum hætti. Um er að ræða grundvallarmál sem snertir líf allra landsmanna og komandi kynslóða Íslendinga. Inn í það mál blandast gífurlegir hagsmunir vogunarsjóða sem eiga kröfur í þrotabú föllnu bankanna. Skuldaskil þeirra eru eitt þeirra verkefna sem leysa þarf af kostgæfni og með hagsmuni íslensku þjóðarinnar í fyrirrúmi, svo að hægt sé að afnema fjármagnshöft. Það kemur ekki til greina af hálfu stjórnvalda að íslenskur almenningur og íslenskt atvinnulíf taki á sig auknar byrðar til að leysa einn hóp úr höftum á meðan aðrir eru skildir eftir með enn stærri vanda. Lausn þarf því að vera til þess fallin að leyfa almenna afléttingu fjármagnshaftanna.

Það er skiljanlegt að þeir sem eiga gífurlegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta við uppgjör föllnu bankanna reyni að verja þá hagsmuni með kjafti og klóm. En ríkisstjórnin mun ekki undir nokkrum kringumstæðum fórna langtímahagsmunum komandi kynslóða við skuldaskil fallinna banka. Því er óhætt að treysta.

Það er ástæða til að vera mjög bjartsýnn á framtíð Íslands. Íslendingar hafa á liðnum áratugum oft fengið storminn í fangið en í hvert sinn staðið uppréttir eftir. Þjóðin hefur sýnt að hún er fullfær um að standa gegn hvers konar þrýstingi til að verja framtíðarhagsmuni sína.

Nú, þegar við erum loks komin upp úr hjólförunum, eru landinu allir vegir færir. Þjóðir um allan heim hafa áhuga á Íslandi og líta á Ísland sem land tækifæra. Við eigum að nýta þau tækifæri vel og leggja áherslu á að eiga viðskipti og uppbyggileg samskipti við öll þau lönd sem vilja vinna með okkur á slíkum grundvelli.

Þó að breytingar mæti alltaf mótstöðu, þeim mun meiri mótstöðu eftir því sem hagsmunirnir eru meiri, þá mun ríkisstjórnin hvergi hvika. Við vorum kosin til að gera breytingar og það munum við gera.

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. febrúar 2014.)

Categories
Greinar

Gagnaver á Blönduósi

Deila grein

20/02/2014

Gagnaver á Blönduósi

Sigrún MagnúsdóttirAlþingi ályktaði 15. janúar sl að fela stjórnvöldum að koma á samstilltu átaki með sveitarfélögum í Austur-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á Norðurlandi vestra með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun. Jafnframt ber að vinna að markaðssetningu svæðisins sem iðnaðarkosts, svo sem fyrir gagnaver.

Með þessari ákvörðun Alþingis er stigið stefnumarkandi skref til þess að gagnaver rísi á Blönduósi. Forráðamenn sveitarfélagsins hafa undirbúið málið með því að bjóða fram mjög hentugt landsvæði í eigu sveitarfélagsins og komið því á aðalskipulag. Staðhættir bjóða þar upp á flesta hugsanlega kosti til starfrækslu gagnavers. Þar er mjög vítt og hentugt landrými, orkuflutningur frá Blönduvirkjun mjög öruggur og um skamma leið að fara svo orkutap er lágmarkað. Engin hætta er af eldgosum, jarðskjálftum eða annarri náttúruvá. Þá er veðrátta svo sem ákjósanlegust er, köld en ekki stórviðrasöm. Ljósleiðaratengingar auðveldar, samgöngur greiðar bæði norður og suður. Lítill flugvöllur er á Blönduósi sem með litlum endurbótum gæti greitt enn betur fyrir samgöngum.

Svo háttar til að Landsnet vill leggja nýja orkuflutningslínu frá Blönduvirkjun til Akureyrar. Gert er ráð fyrir 220 volta línu á möstrum. Íbúar þeirra sveita sem fyrir mestri röskun yrðu eru þessum áformum mjög andvígir. Þegar af þeirri ástæðu er einboðið að nýta fremur orku Blönduvirkjunar á heimaslóð en að standa í stórdeilum við íbúa annarra sveita. Blöndulínu þrjú þarf því ekki að reisa í bráð og sparast við það ríkisfé sem kemur að góðum notum við atvinnuuppbygginguna í Austur-Hún.

Íslendingar hafa varið geipifé til lagningar sæstrengjanna Farice og Danice. Þeir eru mjög vannýttir og rekstur þeirra er mikill baggi. Gagnaflutningar sem verða með tilkomu gagnavers/gagnavera myndu skipta þar sköpum.

Stjórnvöld hafa það á valdi sínu hvar þau kjósa að iðnaðaruppbygging verði sem og hvar iðjuver rísa í landinu og nægir að benda á álver í Reyðarfirði. Því ber stjórnvöldum nú að beita sér af alefli við að laða þá sem fjárfesta vilja í gagnaverum hingað til lands og fá því stað á Blönduósi, öllum til hagsbóta.

 

Sigrún Magnúsdóttir

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. febrúar 2014)

Categories
Greinar

Suðurnesin eru besti staðurinn-stöndum saman!

Deila grein

18/02/2014

Suðurnesin eru besti staðurinn-stöndum saman!

Silja Dögg GunnarsdóttirFramundan eru spennandi tímar. Norðurslóðamálin eru í brennidepli en þegar siglingar um Norðurslóðir hefjast fyrir alvöru og þegar umsvif vegna olíuleitar og –vinnslu aukast við Grænland og á Drekasvæðinu þá þarf ýmis konar þjónusta að vera til staðar. Tækifærin fyrir okkur Íslendinga eru því mikil á þessu sviði enda lega landsins mjög hentug og innviðirnir sterkir.

Miðstöð leitar og björgunar
Hér á Suðurnesjum er gríðarlega góð aðstaða fyrir hendi á Ásbrú. Þar eru hentugar byggingar og annað sem til þarf, til að byggja upp miðstöð leitar og björgunar á Norðurslóðum. Utanríkisráðherra hefur sagt í fjölmiðlum að hann telji að rétta staðsetningin fyrir slíka starfsemi væri á Suðurnesjum, ef til kemur. Ef Íslendingar ætla að verða miðstöð fyrir Norðurslóðasiglingar þá verðum við að standa saman. Samstaða og samvinna er lykillinn að svo mörgu. Ef við förum að togast á um hver fær hvaða bita af kökunni, þá verður kannski ekkert af neinu. Þess vegna verðum við að undirbúa okkur vel og sýna skynsemi og samstöðu.

Andstaða við flutning Landhelgisgæslunnar
Hið sama gildir um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Ég flutti þingmál fyrir jól um að hafin yrði undirbúningur að flutningi gæslunnar til Suðurnesja. Ég flutti þetta mál vegna þess að ég veit að á Suðurnesjum eru bestu aðstæður til staðar fyrir starfsemi Landhelgisgæslunnar og starfsemi henni tengdri. Auk þess þá væri það hagkvæmara fyrir ríkið til lengri tíma að hafa hana einum stað, á Suðurnesjum. Yfirmenn gæslunnar hafa tjáð mér að þeir vilji að starfsemin flytjist til Suðurnesja. Sýnum nú samstöðu og tölum einu máli fyrir flutningi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja.

Lögregluskólinn til Keilis?
Þessi tvö verkefni, þ.e. uppbygging leitar og björgunarmiðstöðvar og færsla Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja myndi vera mikið gæfuspor fyrir atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum og auk þess eru þarna talsverð samlegðaráhrif. Þessi starfsemi styður hvor aðra tvímælalaust. Annað þessu tengt er stofnun Öryggisakademíu hjá Keili. Skólameistarinn og starfsmenn Keilis hafa unnið lengi að undirbúningi Öryggisakademíu og meðal hugmynda er að Lögregluskóli ríkisins færist þar inn. Nú þegar æfa lögreglunemar og sérsveit lögreglunnar á gamla varnarsvæðinu. Ég vona að Öryggisakademían verði að veruleika og mun styðja það verkefni af öllum mætti sem og önnur góð verkefni sem ég tel vera til hagsbóta fyrir svæðið.

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir

(Greinin birtist í Víkurfréttum 13. febrúar 2014.)

Categories
Greinar

Fjölgum körlum í áhrifastöðum

Deila grein

17/02/2014

Fjölgum körlum í áhrifastöðum

Anna-Kolbrun-ArnadottirLengi hefur heyrst að fjölga þurfi konum í áhrifastöðum, en það má einnig spyrja hvort ekki sé full ástæða til þess að fullyrða að fjölga þurfi körlum í áhrifastöðum? Báðar þessar fyllyrðingar eru réttar, það sem helst er athugavert við fullyrðingarnar er hugtakið áhrifastaða. Samfélagið með hjálp fjölmiðla skilgreinir oftar en ekki áhrifastöður sem stöður er snúa að viðskiptalífinu.

Áhrifastöður er víða að finna í samfélaginu og í aðalnámsskrá leikskóla er því beinlínis haldið fram að litið sé á leikskólakennara sem áhrifavald í uppeldis- og menntastarfi barna. Með því er verið að segja að það sé áhrifastaða að vera leikskólakennari. Ekki þarf að efast um að þetta sé rétt, leikskólakennara er ætlað að vera leiðandi í mótun starfsins, vera góð fyrirmynd og hann á að vera samverkamaður barna, foreldra og samstarfsfólks.

Einnig má segja að umönnunarstörf séu skipuð fólki í áhrifastöðum. Hver einasta fjölskylda í landinu hefur örugglega átt í samskiptum við einstaklinga sem sinna ástvinum þeirra að alúð og oftar en ekki á erfiðum tímum. Samskipti við umönnunaraðila eru og verða áhrifarík og þar með skipuð fólki í áhrifastöðum.

Rannsóknir sýna að kynskiptur vinnumarkaður er hindrun sem erfitt er að yfirstíga og skerðir atvinnumöguleika beggja kynja. Þegar talað er um umönnunar- og kennslustörf, þá er oftar en ekki talað um hefðbundin kvennastörf og jafnvel kvennastéttir sem sinna störfunum. Karlar eiga ekki séns og þeir karlar sem hætta sér inn á óhefðbundinn starfsvettvang hafa margir hverjir lýst fordómum sem þeir urðu fyrir vegna starfsvalsins. Vissulega vekur þetta einnig umhugsun um hvort (fleiri) drengir í framhaldsskóla hafi hug á því að sækja inn á svið umönnunar- eða kennslu þegar í sífellu er talað um kvennastörf. Eða hvort (fleiri) stúlkur hafi vilja til þess að sækja starf í verkgreinum þegar að talað er um hefðbundin karlastörf.

Þessum skrifum er ætlað að opna augu fólks fyrir því að fjölga þurfi körlum í áhrifastöðum.

 

Anna Kolbrún Árnadóttir, jafnréttisfulltrúi

Categories
Greinar

Bætt umræða – aukin virðing

Deila grein

17/02/2014

Bætt umræða – aukin virðing

Þorsteinn SæmundssonUndanfarið hefur nokkuð verið drepið á nauðsyn þess að bæta yfirbragð opinberrar umræðu, sérstaklega í netheimum. Sannarlega er ekki vanþörf á vakningu í þessum efnum því margir orðaleppar sem látnir eru falla eru engum sæmandi. Verst er þó þegar fólk sem vill væntanlega láta taka sig alvarlega lætur ummæli falla sem ganga þvert á allt velsæmi.

Þeir sem vinna opinber störf þurfa að vera við því búnir að finna til tevatnsins vegna aðgerða sinna eða aðgerðaleysis. Allir hafa fullan rétt á að gagnrýna og benda á það sem betur má fara. Ég skal samt viðurkenna að með fullu tilliti til þess sem áður er sagt eru atriði sem ég felli mig ekki við að sé beint að mér og þeim stjórnmálasamtökum sem ég var kosinn á þing fyrir.

Ég felli mig til dæmis ekki við að vera kallaður fasisti eða að ég eða stjórnmálasamtök þau sem ég tilheyri búi yfir slíkum tilhneigingum. Að vísu er það svo að flestar ávirðingar í þessa átt hafa undanfarið borist frá einstaklingum sem eru lítt traustvekjandi og njóta reyndar ekki almenns trausts.

Nú rétt fyrir áramótin var birt viðtal í Fréttatímanum um atburði nýliðins árs. Þar lét annar viðmælandinn hafa eftir sér ummæli um síðustu kosningabaráttu sem gengu gersamlega fram af mér.

Meðal annars sagði viðkomandi: „…að í aðdraganda kosninganna, þegar skoðanakannanir sýndu í hvað stefndi og við sáum fylgi Framsóknar stíga, leið mér eins og ég væri að horfa á hryllingsmynd með raðmorðingja sem gengur laus.“ Og litlu síðar: „…ég held við séum á vissan hátt í gini morðingjans núna og erum að súpa seyðið af þessu.“

Ekki sæmandi
Nú er ekki eins og sá sem lét ummælin falla sé einhver skynskiptingur. Þvert á móti á viðkomandi að heita bókmenntafræðingur og ætti því að þekkja merkingu þeirra orða sem hún lætur falla.

Ekki lítur samt út fyrir að viðkomandi hafi verið á kafi í fagurbókmenntunum. Hvað sem því líður eru ummæli bókmenntafræðingsins náttúrulega ekki sæmandi og bera vitni um litla sjálfsvirðingu því sá sem ekki ber virðingu fyrir sjálfum sér er ekki fær um að bera virðingu fyrir öðrum.

Auðvitað á maður ekki að skensa svona fólk heldur vorkenna því en sá sem hér skrifar er ekki nógu langt kominn á þroskabrautinni til að láta svona ummæli sem vind um eyrun þjóta. Nú er nefnilega kominn tími til að spyrna við fótum.

Opinber umræða á ekki að vera á þessum nótum. Það á ekki að þola að stór hluti þjóðarinnar sé dreginn niður með þessum hætti. Brýn nauðsyn er á því að opinber umræða sé dregin upp úr þessum förum. Vinnum það áramótaheit að bæta opinbera umræðu og hætta slíkum endemis sleggjudómum heimsku og niðurlægingar.

 

Þorsteinn Sæmundsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. febrúar 2014.)

Categories
Greinar

Hriktir í stoðum Evrópusamstarfsins

Deila grein

17/02/2014

Hriktir í stoðum Evrópusamstarfsins

Karl GarðarssonMikil togstreita er innan Evrópu um þessar mundir. Það endurspeglaðist í ræðu Thorbjörns Jaglands, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, á fundi ráðsins fyrir skömmu. Þar lýsti hann yfir miklum áhyggjum af stöðu mála og hver þróunin yrði. Hann benti á að mikil ólga væri innan Evrópusambandsins, spenna milli sambandsins og annarra valdamikilla ríkja og jafnvel spenna innan Evrópuráðsins, sem samanstendur af 47 ríkjum sem eru bæði innan og utan ESB. Ástæðan er ekki síst sú að félagslegt misrétti hefur aukist til muna í aðildarríkjunum. Þá eiga öfgastefnur vaxandi fylgi að fagna og telja margir að það muni endurspeglast í kosningum til Evrópuþingsins í vor. Spyrja verður hvaða áhrif það muni mögulega hafa á Evrópusambandið á næstu árum. Óljóst er hvert sambandið stefnir og margir eru þeirrar skoðunar að evrusamstarfið geti ekki haldið nema til komi sérstakt sambandsríki Evrópu. Mikil andstaða er hins vegar við þá hugmynd innan aðildarríkjanna.

Jagland benti á að sú mikla óþolinmæði sem vart hefði orðið í Evrópu endurspeglaðist síðan í auknu kynþáttahatri og öfgaskoðunum. Minnihlutahópar ættu í vök að verjast, ný félagsleg vandamál væru að koma í ljós, og ofbeldi gegn konum og börnum hefði aukist. Þá væri peningaþvottur alþjóðlegt vandamál. Undirliggjandi væri andstaða við ríkjandi stjórnvöld vegna aukins misréttis. Fólk sættir sig ekki lengur við að sigurvegarinn hirði allt og að stórir hópar sitji eftir.

Mannréttindasáttmáli Evrópu hafi aldrei verið eins mikilvægur og nú. Á sama tíma er hins vegar nauðsynlegt að endurskoða hlutverk Mannréttindadómstóls Evrópu, þar sem þúsundir mála bíða afgreiðslu. Nauðsynlegt er að styrkja til muna lagaverk einstakra þjóða þannig að þau geti leitt til lykta flest mál sem lúta að mannréttindum. Jagland bendir á að einungis stærstu málin ættu að koma inn á borð Mannréttindadómstólsins. Taka verður undir þetta. Hlutverk Evrópuráðsins er ekki síst að standa vörð um mannréttindi og lýðræði í aðildarríkjunum. Þannig er framtíð Evrópuríkja best borgið.

 

Karl Garðarsson

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. febrúar 2014.)

Categories
Greinar

Karlar geta allt!

Deila grein

13/02/2014

Karlar geta allt!

Eygló HarðardóttirHefur ljósfaðir tekið á móti barninu þínu? Hversu líklegt er að karl taki á móti barninu þínu í leikskólanum? Eða í grunnskólanum?

Ekki sérlega líklegt, segja tölurnar okkur. Íslenskur vinnumarkaður er mjög kynskiptur og endurspegla tölur frá menntastofnunum á framhalds- og háskólastigi kynbundið námsval ungmenna. Enginn karl hefur útskrifast með menntun ljósmóður á Íslandi. Aðeins 2% félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga eru karlar, 12% starfandi félagsráðgjafa og hlutfall karla af heildarfjölda nemenda í kennaradeild menntavísindasviðs HÍ er innan við 20%.

Í störfum kennara, félagsráðgjafa og hjúkrunarfræðinga er þjónusta við almenning ríkur þáttur starfsins og snertir því stráka og stelpur, karla og konur. Því er mikilvægt að þjónustan taki mið af báðum kynjum og starfsumhverfið sé aðlaðandi vettvangur fyrir einstaklinga óháð kyni. Ástæður fyrir námsvali ungmenna eru vísast jafn ólíkar og þær eru margar. Staðalmyndir um það hvað sé æskilegt starfsval fyrir konur og karla virðast hins vegar enn vera ráðandi og sýna tölurnar að karlar eiga enn langt í land hvað varðar jafna þátttöku á við konur í umönnunar- og kennslustörfum.

Rannsóknir sýna að þegar annað kynið er í miklum meirihluta í ákveðinni stétt er eins og varnargarðar hafi verið reistir utan um viðkomandi stétt sem virkar hamlandi á hitt kynið. Þannig verður það nær óyfirstíganlegt fyrir einstakling af hinu kyninu að velja sér það nám og starf sem hugur þeirra og hæfileikar standa til. Einstaklingarnir fá ekki að njóta sín og samfélagið líður fyrir.

Eitt verkefna aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti er að stuðla að aðgerðum sem draga úr kynjaskiptingu starfa. Engin ein aðgerð er talin líklegri til að minnka launamun karla og kvenna en uppbrot hins kynskipta vinnumarkaðar. Það staðfesta bæði innlendar og erlendar rannsóknir. Aðgerðahópurinn efnir því til opins umræðufundar þar sem rætt verður um mögulegar leiðir til að fjölga körlum í umönnunar- og kennslustörfum á Grand Hóteli Reykjavík, 13. febrúar.

Brjótum upp hinn kynbundna vinnumarkað og sýnum að karlar geta allt!

 

Eygló Harðardóttir

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 13. febrúar 2014.)

Categories
Greinar

Norrænt samstarf í öryggismálum

Deila grein

12/02/2014

Norrænt samstarf í öryggismálum

Gunnar Bragi SveinssonNorræn samvinna byggir á gömlum merg en á síðustu árum hefur samstarfi í utanríkis- og öryggismálum vaxið fiskur um hrygg. Í þessu sambandi mörkuðu skýrsla Thorvalds Stoltenbergs um aukið samstarf landanna á þessu sviði og norræn samstöðuyfirlýsing um gagnkvæma aðstoð á hættu- og neyðartímum tvímælalaust þáttaskil.

Það fer vel á því að í dag hittist utanríkisráðherrar og varnarmálaráðherrar Norðurlandanna í Keflavík á sama tíma og flugsveitir Norðmanna, Svía og Finna stunda æfingar á Íslandi. Æfingarnar byggja á tillögum Stoltenbergs um norræna loftrýmisgæslu og gefa þátttökulöndunum tækifæri til að samhæfa aðgerðir og efla tengslin sín á milli. Þannig styrkja Norðurlöndin samvinnu sína á heimaslóð en efla jafnframt getu sína til að starfa saman í alþjóðlegum verkefnum.

Aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin gegna lykilhlutverki í varnarmálum Íslands. Norræna samstarfið er mikilvæg viðbót vegna þess að það nær til margra og ólíkra áhættuþátta, m.a. hernaðarógna, skipulagðrar glæpastarfsemi, hryðjuverka, umhverfisöryggis og netöryggis, svo fátt eitt sé nefnt. Samstarf og æfingar með grannríkjunum gera okkur betur í stakk búin til að vinna með frændþjóðunum og styrkir jafnframt staðarþekkingu erlendu gestanna en hvort tveggja getur reynst mikilvægt ef hætta steðjar að.

Dagskrá ráðherrafundarins í dag endurspeglar þessa auknu breidd í samvinnu landanna. Við munum ræða framtíðarþróun norræna samstarfsins, öryggishorfur á norðurslóðum, verkefni Atlantshafsbandalagsins og hvernig Norðurlöndin geta í sameiningu lagt sín lóð á vogarskálar alþjóðlegrar friðaruppbyggingar.

 

Gunnar Bragi Sveinsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. febrúar 2014.)