Categories
Fréttir Greinar

Stöðugleikakjarasamningar í þágu þjóðar

Deila grein

11/03/2024

Stöðugleikakjarasamningar í þágu þjóðar

Hag­sæld þjóða bygg­ist á sam­spili fjöl­margra þátta sem huga þarf að og stilla sam­an. Þar spila kjara­samn­ing­ar meðal ann­ars veiga­mikið hlut­verk. Íslenska hag­kerfið er þrótt­mikið og sag­an kenn­ir okk­ur að það á til að bregðast hratt við þegar áföll ríða yfir. Viðspyrna hag­kerf­is­ins í fram­haldi af heims­far­aldr­in­um er eng­inn und­an­tekn­ing. Hag­vöxt­ur hef­ur verið meiri en víða í ná­granna­ríkj­un­um frá því að draga tók úr áhrif­um heims­far­ald­urs­ins á ár­inu 2022.

Sam­kvæmt end­ur­skoðuðum töl­um Hag­stof­unn­ar mæld­ist hag­vöxt­ur 8,9% árið 2022 og 4,1% 2023. Þess­ar töl­ur voru tals­vert hærri en jafn­vel nýj­ustu spár gerðu ráð fyr­ir og hef­ur hag­vöxt­ur hér á landi verið með hæsta móti hjá OECD-ríkj­um.

Ísland var fljótt að jafna sig eft­ir heims­far­ald­ur­inn vegna þess þrótt­ar sem er í ís­lensku efna­hags­lífi. Að sama skapi virkuðu stuðningsaðgerðir stjórn­valda vel, eða eins og efna­hags­leg loft­brú. Ný­leg­ar leiðrétt­ing­ar Hag­stof­unn­ar á mann­fjölda­töl­um sýna jafn­framt að hag­vöxt­ur á mann hef­ur verið mik­ill og meiri en fyrstu töl­ur gerðu ráð fyr­ir, eða um 5,9% á ár­inu 2022 og 2,1% á ár­inu 2023, þannig að þær umræður sem urðu um að hag­vöxt­ur á mann væri lít­ill áttu sér ekki stoð í raun. Hag­kerfið hef­ur því í raun verið mun heit­ara en bú­ist var við.

Ný­leg­ar hag­töl­ur benda hins veg­ar til þess að jafn­vægi sé að nást, en sam­kvæmt nýj­ustu töl­um Seðlabanka Íslands var af­gang­ur á viðskipta­jöfnuði við út­lönd eft­ir nokk­urra ára hlé og hag­kerfið virðist vera að kólna hratt ef horft er til einka­neyslu. Auk­inn þjón­ustu­út­flutn­ing­ur, sem skýrist aðallega af fram­lagi ferðaþjón­ustu, hélt uppi hag­vexti á síðasta ári. Á síðustu vik­um og mánuðum hafa verið teikn uppi um að mögu­lega sé að hægja á starf­semi ferðaþjón­ustu og má einkum rekja það til áhrifa af elds­um­brot­un­um a Reykja­nesi. Þrátt fyr­ir þetta eru verðbólga og verðbólgu­vænt­ing­ar áfram þrálát­ar. Það er ljóst að það mun hægj­ast á hag­vexti á kom­andi miss­er­um eins og víða í ná­granna­lönd­un­um. Til að byggja und­ir al­menna hag­sæld er nauðsyn­legt að fara í aðgerðir sem snúa að hag­vexti til framtíðar og orku­skipt­un­um. Hag­kerfið býr yfir mun meiri fjöl­breytni en á árum áður og þarf ekki að vera áhyggju­efni þótt dragi tíma­bundið sam­an í hag­vexti. Hins veg­ar til að byggja und­ir al­menna hag­sæld fer að verða tíma­bært að hefja sam­tal um að huga að aðgerðum sem snúa að hag­vexti til framtíðar.

Lang­tíma kjara- samn­ing­ar í höfn

Nýir kjara­samn­ing­ar á al­menn­um vinnu­markaði sem und­ir­ritaðir voru til fjög­urra ára skipta hag­kerfið miklu máli. Með þeim er leiðin fram á við mörkuð í átt að bætt­um lífs­kjör­um, en stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar er að ná niður verðbólgu og þar með vöxt­um, sem mun skila sér í aukn­um kaup­mætti fólks. Eina raun­hæfa leiðin til þess að ná því mark­miði er sam­stillt átak hins op­in­bera, vinnu­markaðar­ins og pen­inga­stefn­unn­ar í land­inu. Það er já­kvætt að sam­komu­lag hafi náðst til fjög­urra ára en tíma­lengd samn­ing­anna stuðlar að aukn­um fyr­ir­sjá­an­leika á vinnu­markaði. Aðgerðir sem stjórn­völd kynntu til að greiða fyr­ir gerð kjara­samn­ing­anna eru margþætt­ar og er mark­mið þeirra að stuðla að vax­andi vel­sæld í land­inu. Um er að ræða um­fangs­mikl­ar aðgerðir sem nema allt að 80 millj­örðum króna á samn­ings­tím­an­um. Þannig hafa stjórn­völd tekið ákvörðun um að for­gangsraða fjár­mun­um rík­is­ins með skýr­um hætti í þágu stöðug­leika á vinnu­markaði næstu árin. Á sama tíma er mik­il­vægt að ríkið rýni í eig­in rekst­ur, til dæm­is með því að nýta fjár­muni bet­ur, stuðla að auk­inni hag­kvæmni hjá hinu op­in­bera og tryggja sam­keppn­is­hæfa um­gjörð um at­vinnu­lífið til þess að standa und­ir verðmæta­sköp­un fyr­ir sam­fé­lagið.

Veru­leg­ur stuðning­ur á hús­næðismarkaði

Aðgerðir stjórn­valda snerta lífs­kjör fólks með bein­um hætti. Þannig er aðgerðunum ætlað að auka ráðstöf­un­ar­tekj­ur fjöl­skyldna um að allt 500 þúsund krón­ur á ári. Þannig verður sjö millj­örðum varið í ár í sér­stak­an vaxt­astuðning til heim­ila með íbúðalán til að koma til móts við auk­inn vaxta­kostnað, en stuðning­ur­inn kem­ur til viðbót­ar al­menn­um vaxta­bót­um. Gert er ráð fyr­ir að sér­stak­ur vaxt­astuðning­ur greiðist beint inn á höfuðstól hús­næðisláns en heim­ilt verði að óska eft­ir að nýta hann til lækk­un­ar á af­borg­un­um í til­tek­inn tíma. Að sama skapi verður dregið úr íþyngj­andi hús­næðis­kostnaði leigj­enda með hærri hús­næðis­bót­um en grunn­fjár­hæðir hús­næðis­bóta til leigj­enda hækka um 25% þann 1. júní næst­kom­andi og aukið til­lit verður tekið til fjöl­skyldu­stærðar þannig að greidd­ar verða hús­næðis­bæt­ur fyr­ir allt að 6 heim­il­is­menn í stað 4 áður. Kostnaður vegna þessa er um 2,5 millj­arðar króna á árs­grund­velli. Að sama skapi verður hús­næðis­ör­yggi leigj­enda aukið og skýr­ari rammi sett­ur um ákvörðun og fyr­ir­sjá­an­leika leigu­fjár­hæðar með breyt­ing­um á húsa­leigu­lög­um auk bættr­ar ráðgjaf­ar og upp­lýs­inga til leigj­enda. Að sama skapi verður sett­ur enn meiri kraft­ur í upp­bygg­ingu íbúðar­hús­næðis á samn­ings­tím­an­um með stofn­fram­lög­um og hlut­deild­ar­lán­um til upp­bygg­ingu 1.000 íbúða á ári. Sveit­ar­fé­lög­in munu leggja til bygg­ing­ar­hæf­ar lóðir og stofn­fram­lög til að mæta upp­bygg­ing­arþörf og líf­eyr­is­sjóðum verða veitt­ar rýmri heim­ild­ir til fjár­fest­inga í íbúðar­hús­næði.

Stutt við barna­fjöl­skyld­ur

Ráðist verður í um­fangs­mikl­ar aðgerðir til þess að styðja bet­ur við barna­fjöl­skyld­ur á samn­ings­tím­an­um. Þannig verða barna­bæt­ur hækkaðar og dregið verður úr tekju­skerðing­um, sem mun fjölga þeim for­eldr­um sem fá stuðning um 10.000. Fram­lög til barna­bóta verða auk­in um 18 millj­arða króna á samn­ings­tím­an­um. Þá verða há­marks­greiðslur úr Fæðing­ar­or­lofs­sjóði hækkaðar í þrem­ur áföng­um á næstu tveim­ur árum, þann 1. apríl 2024 úr 600.000 þúsund krón­um á mánuði í 700.000 kr., frá og með 1. janú­ar 2025 í 800.000 kr. og frá og með 1. janú­ar 2026 í 900.000 kr. Það er um tíma­bæra breyt­ingu að ræða sem mun ýta und­ir aukn­ar sam­vist­ir barna með báðum for­eldr­um. Ráðist verður í sam­hent átak til að brúa bilið milli fæðing­ar­or­lofs og leik­skóla með það að mark­miði að tryggja öll­um börn­um pláss á leik­skól­um. Þá verða skóla­máltíðir grunn­skóla­barna gerðar gjald­frjáls­ar frá og með ág­úst 2024 til loka samn­ings­tím­ans.

Sam­fé­lag er sam­vinnu­verk­efni

Heim­sókn nó­bels­verðlauna­haf­ans Jós­efs Stig­litz í síðustu viku minnti okk­ur á hvað sú efna­hags­skip­an sem við búum við á Íslandi hef­ur reynst gæfu­rík. Þó að okk­ur greini á um ýmis mál varðandi stjórn efna­hags­mála og skipt­ingu gæða höf­um við sem þjóðfé­lag náð sam­stöðu um fjár­fest­ingu í al­manna­gæðum, mennt­un, sjúkra­trygg­ing­um og fé­lags­lega kerf­inu og með sam­vinnu náð að skapa grund­völl fyr­ir fram­sækið markaðshag­kerfi þar sem frelsi ein­stak­lings­ins er í for­grunni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Hér rís önnur heilsugæslustöð

Deila grein

07/03/2024

Hér rís önnur heilsugæslustöð

Það er ekkert launungamál að margir Akureyringar hafa lengi verið án heimilislæknis og má rekja þá staðreynd mörg ár aftur í tímann. Bið eftir tíma hjá heimilislæknum er í dag yfirleitt mjög löng og í sumum tilfellum nær fólk ekki að fá tíma sem verður til þess að álag eykst á öðrum stöðum í heilbrigðiskerfinu. Tel ég það eitt af okkar forgangsmálum að ráða bót þar á. Rannsóknir hafa sýnt hversu mikilvægt það er að allir hafi fastan heimilislækni um lengri tíma auk þess sem sýnt hefur verið fram á að það minnki einnig marktækt vinnuálag á heimilislæknum og í heilbrigðiskerfinu öllu.

Þegar sagan er skoðuð er athyglisvert að sjá að á Akureyri hefur aldrei verið byggð heilsugæsla frá grunni heldur hefur heilsugæslu verið komið fyrir í eldra húsnæði, sbr. í gamla Amarohúsinu og nú í Sunnuhlíð. En það er ekki þar með sagt að ekki geti vel tekist til eins og ný og glæsileg heilsugæslustöð sem var opnuð á þriðjudaginn sl. ber gott vitni um og er mikið fagnaðarefni fyrir íbúa svæðisins.

Á Akureyri þarf tvær heilsugæslustöðvar

Fyrir fimm árum var gerð ítarleg úttekt á svæðinu sem leiddi í ljós að bærinn þyrfti tvær heilsugæslustöðvar. Þörfin í dag er brýnni ef eitthvað er þar sem íbúum svæðisins hefur farið fjölgandi á síðustu árum. Yfir 20.000 manns eru skráðir á heilsugæslustöðina í Sunnuhlíð sem er töluvert meiri fjöldi en gengur og gerist í höfuðborginni. Heilbrigðisráðherra hefur sjálfur sagt að rýna þurfi hvernig stöðin í Sunnuhlíð muni nýtast og hvar þurfi svo að bæta í. En fyrirætlanir um aðra heilsugæslustöð hafi ekkert breyst á þessum tímapunkti.

Ríkiskaup fh. Framkvæmdasýslu – Ríkiseigna og Heilbrigðisráðuneytið hafa auglýst eftir aðilum til að hanna og byggja nýja heilsugæslu, í tvígang.  Því miður skiluðu tilraunirnar ekki tilætluðum árangri þar sem enginn aðili sá sér fært um að taka þátt.

Vangaveltur um hvort hin heilsugæslustöðin verður ríkis- eða einkarekin er síðan framtíðarmúsík sem verður að koma í ljós með tíð og tíma. Þar þarf áfram að horfa til þarfa samfélagsins, fyrst og fremst snýst þetta um að þjónusta íbúana sem hér eru. Það má aldrei gleymast að heilbrigðisþjónusta þarf fyrst og fremst að snúast um fólkið okkar sem þangað leitar.

Að lokum get ég svo ekki annað gert en að benda á að góðir stjórnmálamenn kynna sér málin vandlega áður en þeir fara að básúna illa ígrundaðar ályktanir. Það er að mínu mati algjört lágmark að vera með allar staðreyndir á hreinu áður en maður setur fram fullyrðingar sem eiga ekki við rök að styðjast.

Við munum byggja aðra heilsugæslustöð, þau áform hafa ekki breyst!

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 7. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Gjald­frjálsar skóla­mál­tíðir

Deila grein

07/03/2024

Gjald­frjálsar skóla­mál­tíðir

Ég er sammála ályktun sveitarstjórnarráðs Framsóknar sem kemur inn á að sveitarfélög tryggi gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum eins og ríkisstjórnin hafi samþykkt, enda er það í anda Framsóknar að setja fjölskyldufólk í forgang. Kjarasamningar eru í vinnslu og þessi aðgerð myndi greiða fyrir gerð þeirra. Það er mikilvægt að þjóðarsátt náist um jafn mikilvæg mál, öllum til heilla. Það væri liður í átt að markmiðum okkar um að ná niður verðbólgu og vöxtum í landinu, enda myndu með því allir vinna, bæði heimili og sveitarfélög. Mörg sveitarfélög í landinu eru skuldug og finna því áþreifanlega fyrir hærri verðbólgu og því vaxtastigi sem nú ríkir í landinu.

Tækifæri til að draga úr ójöfnuði

Mikilvægi skólamáltíða fyrir skólastarfið sjálft er mikið. Góð næring er nauðsynleg fyrir skóladaginn og mikilvægur liður í að jafna kjör og aðstæður barna er að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Það er ekki aðeins brýnt til þess að draga úr ójöfnuði heldur einnig heilsufarslegt og uppeldislegt atriði. Næring er þýðingarmikil fyrir þroska nemenda og starfsorku og rétt næring er liður í forvörnum og lýðheilsu. Börnin búa við misjöfn kjör og koma úr misjöfnum aðstæðum, en þegar þau setjast við morgunhressinguna í skólanum eru þau öll að koma að sama borði.

Munar oft um minna

Börn hér í Reykjavík greiða að jafnaði 12.836 krónur á mánuði fyrir skólamáltíð og er það um 115 þúsund yfir veturinn fyrir barnið. Foreldrar greiða þó ekki nema fyrir tvö börn og þá frítt fyrir þriðja. Þótt þetta sé ekki há upphæð þá getur munað um 230 þúsund yfir veturinn.

Mörg sveitarfélög bjóða nú þegar gjaldfrjálsar skólamáltíðir t.d. Fjarðabyggð og Vogar og enn fleiri sveitarfélög hafa lagt mikið kapp á það á undanförnum árum að niðurgreiða skólamáltíðir í grunnskólum. Nú er hins vegar tímabært að taka af skarið og stíga skrefið til fulls.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Vor á Vestfjörðum

Deila grein

05/03/2024

Vor á Vestfjörðum

Það var fal­legt að fljúga inn til lend­ing­ar á Ísaf­irði í gær þar sem ég varði deg­in­um í að funda með Vest­f­irðing­um um hin ýmsu mál. Það er eng­um blöðum um það að fletta að mik­il breyt­ing hef­ur orðið til batnaðar á Vest­fjörðum á und­an­förn­um árum; kraft­mik­il upp­bygg­ing hef­ur átt sér stað í at­vinnu­líf­inu á svæðinu, fjár­fest­ing hef­ur verið í betri vega­sam­göng­um og auk­in bjart­sýni og til­trú á framtíð svæðis­ins er til­finn­an­leg.

Ferðaþjón­usta hef­ur vaxið á Vest­fjörðum líkt og ann­ars staðar á land­inu. Það var mik­il viður­kenn­ing fyr­ir lands­hlut­ann þegar alþjóðlegi ferðabóka­út­gef­and­inn Lonely Pla­net valdi Vest­f­irði sem besta áfangastað í heimi árið 2022. Slíkt varð til þess að beina hinu alþjóðlega ferðak­ast­ljósi að svæðinu með já­kvæðum áhrif­um enda hef­ur svæðið upp á margt að bjóða. Hef­ur þetta meðal ann­ars birst í mik­illi ásókn í að heim­sækja Vest­f­irði und­an­far­in sum­ur og hef­ur gist­ing selst upp í fjórðungn­um.

Brýn­asta áskor­un­in í ferðaþjón­ustu í lands­fjórðungn­um er hins veg­ar að lengja ferðatíma­bilið, en mark­miðið er að heils­árs­ferðaþjón­usta verði starf­rækt á svæðinu. Lögð hef­ur verið áhersla á að draga úr árstíðasveiflu í öll­um lands­hlut­um und­an­far­inn ára­tug með þónokkr­um ár­angri, þó við get­um gert tals­vert bet­ur í þeim efn­um. Leng­ing ferðatíma­bils­ins stuðlar að betri nýt­ingu innviða, eins og hót­ela og veit­ingastaða, og skap­ar betri skil­yrði fyr­ir auk­inni fjár­fest­ingu í ferðaþjón­ustu.

Á opn­um fund­um mín­um að und­an­förnu um nýja ferðaþjón­ustu­stefnu til árs­ins 2030 og aðgerðaáætl­un henni tengda, sem farið hafa fram um allt land, hef­ur átt sér stað gagn­legt sam­tal við hag­hafa í grein­inni. Þar hafa fyrr­nefnd sjón­ar­mið meðal ann­ars verið reifuð sem mik­il­vægt er að hlýða á og nýta í því verk­efni að styrkja um­gjörð ferðaþjón­ust­unn­ar. Þannig hafa Vest­f­irðing­ar til dæm­is sam­mælst um að vinna að og kynna hina svo­kölluðu Vest­fjarðaleið, 950 kíló­metra langa ferðamanna­leið um Vest­f­irði og Dal­ina sem opnaðist með til­komu Dýra­fjarðarganga í októ­ber 2020. Á leiðinni er að finna marga af fal­leg­ustu áfanga­stöðum Vest­fjarða sem gam­an er að heim­sækja.

Stjórn­völd munu leggja sín lóð á vog­ar­skál­arn­ar til að styðja heima­menn í því að klára verk­efnið með sóma en metnaðarfull vinna ligg­ur að baki verk­efn­inu sem verður til þess að vekja auk­inn áhuga á að heim­sækja Vest­f­irði.

Vest­f­irðing­ar hafa einnig lagt kapp á að hlúa að tungu­mál­inu og aðgengi að því í gegn­um verk­efni Gef­um ís­lensku séns. Með því er leit­ast við að virkja fólk í nærsam­fé­lag­inu sem er til­búið að veita fólki af er­lend­um upp­runa hjálp við að til­einka sér ís­lensku í sam­vinnu við fyr­ir­tæki, stofn­an­ir og ein­stak­linga. Það skipt­ir meðal ann­ars at­vinnu­lífið miklu máli sem og sam­fé­lagið allt.

Tæki­fær­in eru sann­ar­lega til staðar vest­ur á fjörðum sem og út um allt land, nú er bara að vinna sam­an að því að nýta þau til hags­bóta fyr­ir sam­fé­lagið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtis fyrst í Morgunblaðinu 5. mars 2024.

Categories
Greinar

EES-samningurinn vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda

Deila grein

29/02/2024

EES-samningurinn vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda

Eftir 1. júlí 2024 mega bændur ekki endurnota eyrnamerki/ örmerki sín í sauðfé, geitur og nautgripi samkvæmt ákvörðun Matvælastofnunar, á grundvelli EFTA-löggjafar.

Anton Guðmundson.

Í reglugerð 916/2012, með tilskipun 2008/71/EB, kemur fram að ekki sé heimilt að endurnýta einstaklingsmerki. Komi endurnýtt eyrnamerki á sauðfé, geitum og nautgripum inn í sláturtíð haustið 2024 verður þeim, skv. ákvörðun Matvælastofnunar (MAST), fargað í sláturhúsi.

Sé um nautgrip að ræða verður skepnunni fargað og kjötinu eytt, en í tilfelli sauðkindar eða geitar verður merkinu eytt en dýrið samþykkt til slátrunar. 

Þessi reglugerð hefur það í för með sér að gríðarlegur kostnaðarauki er settur yfir á íslenska bændur sem berjast nú víðast hvar við að halda lífi í sveitum landsins sem snýr að byggðastefnu og matvælaöryggi í landinu.

Sem dæmi þá þýðir þetta fyrir bónda sem hefur tæplega 1.000 númer á ári og hvert örmerki kostar 320 krónur, að hann þarf að kaupa á hverju ári 800 hnappa, gerir það 256 þúsund krónur í hreinan aukakostnað fyrir bóndann sem bætist síðan við heildarkostnað á númerum en margir bændur hafa ákveðið að hætta að marka lömbin sín, aðallega vegna dýraverndunarsjónarmiða, og samkvæmt reglugerð verða bændur þá að setja tvö númer, sem sagt númer í bæði eyrun.

Þetta þýðir í raun að bændur þurfa að kaupa merkingar á rúmlega 300 þúsund krónur á hverju ári sem er svo fargað. Hreinleiki íslensks landbúnaðar er einstakur á heimsvísu og það þekkjum við sem byggjum þetta land. Því má með sanni segja að það þykir undrun sæta að íslensk stjórnvöld skuli hleypa reglugerðinni í gegn.

Þau sjónarmið eru ekki höfð að leiðarljósi í ákvörðun þessari að landbúnaður hérlendis er mun faglegri en þekkist víðast hvar í Evrópu. Reglugerð þessi á þess vegna ekki erindi við íslenskan landbúnað. Hún mun hafa í för með sér gríðarlegan kostnaðarauka fyrir íslenska bændur.

Um er að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir bændur og þarf því að endurskoða ákvörðunina út frá því sjónarmiði. Íslendingar eru sjálfstæð þjóð í sjálfstæðu lýðveldi og á ekki ávallt að renna þeim EFTA-tilskipunum sem vinna gegn hagsæld þjóðarinnar áreynslulaust í gegn.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 22. febrúar 2024.

Categories
Greinar

Einn af eld­hugum hag­fræðinnar: Joseph Stiglitz

Deila grein

28/02/2024

Einn af eld­hugum hag­fræðinnar: Joseph Stiglitz

Bandaríski hagfræðingurinn Joseph Stiglitz er einn virtasti hagfræðingur samtímans. Hann er þekktur fyrir framlag sitt til hagfræðinnar, einkum á sviði upplýsingahagfræði, opinberrar stefnumótunar og þróunarhagfræði.

Stiglitz hlaut doktorsgráðu í hagfræði frá Massachusetts Institute of Technology (MIT). Hann er þekktastur fyrir rannsóknir sínar um hagfræði upplýsinga sem varð til þess að hann hlaut Nóbelsverðlaunin fyrir í hagfræði árið 2001. Framlag Stiglitz á þessu sviði breytti skilningi manna á markaðsöflum með því að varpa ljósi á mikilvægi ófullkominna upplýsinga með því að varpa ljósi á það hvernig ójafn aðgangur að upplýsingum getur haft efnahagsleg áhrif.

Áhrif Stiglitz ná langt út fyrir háskólasamfélagið þar sem hann hefur tekið virkan þátt í stefnumótun í efnahagsmálum. Hann fór fyrir efnahagsráðgjafanefnd Bill Clinton Bandaríkjaforseta og talaði meðal annars fyrir stefnu sem mótaðist á svokallaðri „þriðju leið“. Hann gerðist síðar aðalhagfræðingur og aðstoðarforstjóri Alþjóðabankans. Á starfstíma sínum beitti hann fyrir því breyttum áherslum hjá bankanum í þágu fátæktar og sjálfbærrar þróunar sem á þeim tíma viku frá hefðbundnum efnahagslegum venjum. Stiglitz hefur verið íslenskum stjórnvöldum til ráðgjafar, en árið 2000 fékk Seðlabanki Íslands hann til að gera úttekt á íslensku hagkerfi, með áherslu á stýringu peninga- og gengismála í litlum, opnum hagkerfum.

Stiglitz hefur ritað fjölmarar bækur á sviði hagfræði og þjóðfélagsmála. Í bók sinni „Globalization and Its Discontents“ frá árinu 2002 benti hann annmarka ríkjandi efnahagsstefnu varðandi hnattvæðingu þar sem hann gagnrýndi svokallaða eftirlitslausa hnattvæðingu og færði rök fyrir því að hnattvæðingin ýtti undir ójöfnuð og skaðaði í raun þá sem veikast standa. Ákall Stiglitz um jafnari og félagslega meðvitaðri nálgun á hnattvæðingu vakti talsverða athygli á sínum tíma og vakti upp umræður um hlutverk alþjóðlegra stofnana í þeim efnum og nauðsyn sanngjarns alþjóðlegs efnahagskerfis Á undanförnum árum hefur Stiglitz verið ötull talsmaður þess að dregið yrði úr tekjuójöfnuði, sem hann telur eitt mikilvægasta viðfangsefni samtímans. Í bókinni: „The Price of Inequality“ frá árinu 2012 fór hann ofan í rætur og afleiðingar vaxandi tekjumunar og varpaði fram tillögur um hvernig draga úr þeirri þróun. Stiglitz heldur því fram að sanngjörn og réttlát dreifing fjármagns sé ekki aðeins siðferðilega rétt heldur einnig nauðsynleg til að viðhalda hagvexti til lengri tíma.

Hér að ofan eru eingöngu nefndar tvær bækur eftir Stiglitz, en hann hefur ritað fjölda bóka og er von á nýrri bók í apríl nk. og mun hann meðal annars fjalla um efni hennar á fyrirlestri sínum í Háskóla Íslands á föstudaginn.

Stiglitz er einn áhrifamesti hagfræðingur og hugsuður samtímans. Arfleifð Stiglitz liggur ekki aðeins í þeim viðurkenningum sem hann hefur hlotið heldur í þeim áhrifum sem hugmyndir hans hafa á alþjóðlegt efnahagslandslag undangengna áratugi. Hann heldur áfram að móta bæði fræðilega umræðu og efnahagslega stefnumótun sem leggur áherslu á félagslega samvinnu og sjálfbærni.

Haldið verður málþing með Joseph Stiglitz föstudaginn 1. mars í Veröld, húsi Vigdísar, kl. 12-13:30. Áhugasamir eru hjartanlega velkomnir!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Annar heims­far­aldur

Deila grein

27/02/2024

Annar heims­far­aldur

Við í Framsókn höfum síðustu misseri tekið okkur stöðu og verið óhrædd við að benda á þá ógn sem við stöndum frammi fyrir hvað varðar fjölónæmar bakteríur. Þessar áhyggjur eru ekki úr lausu lofti gripnar. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklalyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra skipaði að þessu tilefni starfshóp í samvinnu við matvælaráðherra og umhverfis-, orku- og loflagsráðherra um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Fyrir þessum hópi var fyrrum sóttvarnarlæknir Þórólfur Guðnason. Hópurinn skilaði af sér fyrr í þessum mánuði.

Flestir kannast við frásögur af því þegar sýklalyf fóru að gagnast mannkyninu það er upp úr 1940, fyrir þann tíma voru berklar, blóðeitrun, lungnabólgur og fleiri sjúkdómar virkilega ógn við líf og heilsu. Það var því bylting þegar sýklalyfin voru uppgötvuð og nýtt í baráttunni við áður lífsógnandi sjúkdóma. Á síðust árum hafa sérfræðingar verið að vara við vaxandi sýklalyfjaónæmi og það er enn vaxandi og er orðið verulegt heilbrigðisvandamál. Aukið ónæmi fyrir sýklalyfjum takmarka meðferðarúrræði. Í sumum löndum greinast sýkingar af völdum baktería sem engin sýklalyf vinna á sem skapar ástand sem minnir á aðstæður eins og þær voru áður en sýklalyfin voru fundin upp.

Hvað getum við gert?

Starfshópurinn skilaði af sér fjögurra ára aðgerðaráætlun sem inniheldur sex meginaðgerðir sem samanstanda að því að bæta þekkingu á sýklalyfjaónæmi, auka þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja hjá mönnum og dýrum. Markmið fylgir hverri aðgerð og verkefni. Því fyrr því betra er að ráðist verði af alvöru í þetta verkefni, því betra er að byrgja brunninn og svo framvegis.

Þá kemur það einnig fram í skýrslu hópsins að fæðuöryggi mun enn fremur minnka þar sem sýklalyfjaónæmi hefur einnig áhrif á dýraheilbrigði og þar með matvælaframleiðslu. Sýklalyfjanotkun í landbúnaði hér á landi er með því minnsta sem þekkist í heiminum og hefur það verið staðfesti í eftirliti evrópsku eftirlitsstofnunarinnar um notkun sýklalyfja í landbúnaði.

Sérstaða íslenskrar matvælaframleiðslu

Það er ekki ofsagt að íslensk matvælaframleiðsla eigi sér sérstöðu á heimsvísu. Undir þetta taka helstu sérfræðingar á sviði sýkla- og veirufræða og hafa þeir brýnt fyrir okkur að verja þessa einstöku sérstöðu sem við búum við hér á landi. Á grunni sérstöðunnar á Ísland að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Við þurfum nú og framvegis að styrkja þann grunn sem íslensk matvælaframleiðsla byggir á en ýmsar ógnir steðja að.

Það er því miður staðreynd að innflutningur á nautakjöti jókst um 48% á sl. ári og á kjöti í heild um 17%. Á sama tíma og kjötframleiðsla innanlands var svipuð og árinu á undan og sala í kinda- og nautakjöti dróst saman um 2%. Raunin er sú að innflutt kjötvara er nú byrjuð að taka yfir markaðinn og er orðin að stærri hluta af sölunni í heild. Við þurfum að spyrja okkur, er þetta í takti við tillögur sem áhyggjufullur stýrihópur um aðgerðir til varna útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería bendir á?

Halla Signý Kritjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Varnarmál í brennidepli

Deila grein

26/02/2024

Varnarmál í brennidepli

Tvö ár eru liðin í dag frá því að við fylgd­umst agndofa með því þegar Rúss­ar hófu ólög­lega inn­rás sína inn í frjálsa og full­valda Úkraínu. Stríð var hafið í Evr­ópu. Dag­legu lífi Úkraínu­manna, þess­ar­ar fjöl­mennu Evr­ópuþjóðar, var á einni nóttu snúið á hvolf, með þeim af­leiðing­um að millj­ón­ir hafa neyðst til að rífa sig upp með rót­um og flýja heim­ili sín vegna árása Rúss­lands­hers.

Þó að upp­haf­leg­ar áætlan­ir Rússa um að her­taka alla Úkraínu á nokkr­um dög­um hafi bless­un­ar­lega eng­an veg­inn gengið eft­ir hef­ur þeim tek­ist að her­taka um 18% af landsvæði Úkraínu. Úkraínu­mönn­um tókst að hrekja Rússa á brott frá stór­um landsvæðum fram­an af en á und­an­förn­um mánuðum hef­ur víg­lín­an lítið hreyfst í hörðum átök­um, þar sem mann­fall hef­ur verið mikið.

Áhrif inn­rás­ar­inn­ar hafa hríslast út um víða ver­öld með nei­kvæðum efna­hags­áhrif­um og varpað ljósi á and­vara­leysi í varn­ar­mál­um Evr­ópu­ríkja. Veru­leiki í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um gjör­breytt­ist á svip­stundu og í fyrsta sinn í ára­tugi var mála­flokk­ur­inn aft­ur kom­inn á dag­skrá í þjóðfé­lagsum­ræðunni. Þannig hafa ríki Evr­ópu stór­aukið sam­starf og fram­lög til varn­ar­mála og aðild­ar­ríkj­um Atlants­hafs­banda­lags­ins hef­ur fjölgað með inn­göngu Finna og inn­göngu­ferli Svía sem er á loka­metr­un­um en þau skref telj­ast til sögu­legra stefnu­breyt­inga í lönd­un­um tveim­ur. Þær ákv­arðanir sem tekn­ar hafa verið í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um Íslend­inga hafa verið far­sæl­ar og staðist tím­ans tönn, má þar nefnda stofnaðild okk­ar að Atlants­hafs­banda­lag­inu árið 1949 og tví­hliða varn­ar­samn­ing­inn við Banda­rík­in árið 1951.

Ísland hef­ur tekið virk­an þátt í sam­hæfðum aðgerðum vest­rænna ríkja til að styðja við Úkraínu. Tekið hef­ur verið á móti öll­um þeim Úkraínu­mönn­um sem hingað hafa leitað í skjól, ásamt því að margþætt­ur efna­hags­leg­ur og póli­tísk­ur stuðning­ur hef­ur verið veitt­ur svo dæmi séu tek­in. Það er gríðarlega mik­il­vægt að það verði ekki rof í stuðningi Vest­ur­landa við Úkraínu og sér­stak­lega brýnt að fundn­ar verði leiðir til þess að tryggja öfl­uga hernaðaraðstoð til Úkraínu­manna. Þar eru meðal ann­ars bundn­ar von­ir við að sátt ná­ist milli Re­públi­kana og Demó­krata í full­trúa­deild Banda­ríkjaþings um 60 millj­arða dala hernaðaraðstoð við Úkraínu.

Lang­tíma­hugs­un með marg­háttuðum stuðningi við Úkraínu skipt­ir máli. Sag­an kenn­ir okk­ur að ef ein­ræðis­herr­ar verða ekki stöðvaðir, halda þeir yf­ir­gangi sín­um ótrauðir áfram. Í amstri hvers­dags­ins vill það kannski gleym­ast að sú þjóðfé­lags­gerð sem við og þjóðirn­ar í kring­um okk­ur þekkj­um er ekki sjálf­sögð. Tug­millj­ón­ir manna létu lífið í seinni heims­styrj­öld­inni í bar­átt­unni fyr­ir því frelsi, lýðræði og mann­rétt­ind­um sem við búum við í dag. Inn­rás­in í Úkraínu er grimmi­leg áminn­ing um að þessi gildi eiga und­ir högg að sækja í heim­in­um. Það er óheillaþróun sem sporna verður við.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Skörp stefnu­breyting Sam­fylkingarinnar

Deila grein

20/02/2024

Skörp stefnu­breyting Sam­fylkingarinnar

Enn á ný er nýr tónn sleginn hjá Samfylkingunni og nú eru það útlendingamálin. Það er ekki bara Evrópusambandsaðild og „nýja stjórnarskráin“ sem er komin ofan í kassa og inn í geymslu, því nú hefur flokkurinn tekið upp nýja stefnu í útlendingamálum sem reynt er að mála upp sem einhvers konar stefnumótun. Gamla stefna Samfylkingarinnar lúrir þó enn á heimasíðu flokksins, en þeim finnst betra að viðra aðra stefnu opinberlega, stefnu sem er orðin ansi keimlík stefnu Framsóknar.

Vindar blása í allar áttir

Á sínum tíma lýsti Logi Einarsson fyrrv. formaður Samfylkingarinnar því yfir að hann væri fullkomlega ósammála formanni systurflokks Samfylkingarinnar í Danmörku, Mette Frederiksen, þegar danskir jafnaðarmenn kynntu nýjar tillögur í útlendingamálum. Nú segist formaður Samfylkingarinnar vera að einhverju leyti sammála stefnu Mette Frederiksen hvað málefni útlendinga varðar. Þetta kemur á óvart þar sem meðlimir þingflokks Samfylkingarinnar hafa hingað til verið ósammála þeirri nálgun. Nú þegar kostnaður við málaflokkinn hefur aukist gríðarlega og ólga er farin að myndast í umræðum í samfélaginu þá er Samfylkingin tilbúin að hoppa á vagninn, þrátt fyrir að sami flokkur hafi ítrekað komið í veg fyrir mikilvægar kerfisbreytingar í þessum málaflokki næðu fram að ganga á Alþingi.

Hvað á formaðurinn við?

Ég furða mig á nálgun formanns Samfylkingarinnar. Hún talar í sífellu um innflytjendur og að fjölgun þeirra sé stórt vandamál, en reynir eftir fremsta megni að skauta fram hjá rót vandans, sem er það kerfi sem byggt hefur verið upp í kringum hælisleitendur. Formaðurinn gefur í og dregur úr á sama tíma. Þá gagnrýnir hún atvinnustefnu stjórnvalda og talar um atvinnugreinar sem við sjálf viljum ekki taka þátt í. Hvað á formaður Samfylkingarinnar við með þessum orðum? Er formaður Samfylkingarinnar að leggja til að lögð verði niður störf á landsbyggðinni, líkt og í ferðaþjónustu, sjávarútvegi, iðnaði og svo framvegis? Öflugt atvinnulíf um land allt er forsenda byggðar um land allt. Það skulum við hafa í huga.

Við þurfum á innflytjendum að halda

Ég tel afar brýnt í umræðunni að rugla ekki saman innflytjendum og hælisleitendum. Sá sem hér skrifar getur ekki séð fyrir sér það samfélag sem við hér byggjum án innflytjenda. Staðreyndin er sú að innflytjendur halda uppi lífskjörum og hagvexti hér á landi. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar er hlutfall erlends starfsfólks í nær öllum íslenskum atvinnugreinum almennt orðið um 30-40%. Hingað til lands kemur vel menntað fólk sem vill setjast að í okkar góða samfélagi og við þurfum að nýta þá þekkingu. Hér má nefna nýsköpun sem dæmi svo eitthvað sé nefnt.

Tölum ekki niður innflytjendur, þeir eru fjársjóður fyrir okkur sem þjóð. Þegar að kemur að umræðu um innflytjendur þurfum við að beina spjótum okkar að því hvernig við getum hjálpað því fólki sem hér vill búa og skila til baka til samfélagsins. Hingað til hafa þeir flóttamenn sem hingað koma farið hratt inn á vinnumarkaðinn, en það hefur breyst á síðustu tveimur árum vegna tilhæfulausra umsókna sem erfitt hefur verið að ná tökum á. Ástæðan; ekki hefur verið hægt að gera nauðsynlegar breytingar á útlendingalöggjöfinni vegna meðal annars mjög mikillar andstöðu frá þingmönnum Samfylkingarinnar.

Heildarsýn í útlendingamálum

Að lokum er rétt að minnast á að ríkisstjórnin hefur nú sammælst um aðgerðir í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, flóttafólks og innflytjenda. Á grundvelli þeirra aðgerða verður tekið utan um málaflokkinn með heildstæðum hætti með aukinni samhæfingu á milli ráðuneyta og stofnana. Ætlunin er að fækka umsóknum sem ekki uppfylla skilyrði um vernd og auka skilvirkni í afgreiðslu á umsóknum. Þannig má spara fé sem að hluta til verður nú nýtt í aukna íslenskukennslu, aðstoð við börn í skólum og samfélagsfræðslu fyrir flóttafólk. Þá verður afgreiðslutími umsókna um alþjóðlega vernd styttur í 90 daga að meðaltali á hvoru stjórnsýslustigi fyrir sig.

Markmiðið er að stuðla að betri, skilvirkari og skýrari framkvæmd innan málaflokksins, og bættri þjónustu til að renna styrkari stoðum undir stjórn útlendingamála. Með þessari heildarsýn er lögð áhersla á mannúð og virðingu og unnið gegn skautun í íslensku samfélagi. Horft verður sérstaklega til framkvæmdar þessara mála á Norðurlöndum þannig að aukið samræmi sé á milli landa.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Við þurfum á Reykja­víkur­flug­velli að halda

Deila grein

19/02/2024

Við þurfum á Reykja­víkur­flug­velli að halda

Hvort sem okkur líkar betur eða verr er staðreyndin sú að eldgosatímabil er hafið á Reykjanesskaga, tímabil sem talið er að geti staðið í upp undir 400 ár. Þessi breytta sviðsmynd neyðir okkur til þess að breyta fyrri plönum og taka nýjar ákvarðanir. Síðustu ár hefur mikið verið rætt um uppbyggingu á nýjum flugvelli og ber þar einna hæst hugmyndir um uppbyggingu á flugvelli í Hvassahrauni. Undirrituð telur að flestir séu nú sammála um það að sú staðsetning sé líklega ekki vænlegur kostur en rétt er þó að bíða með allar yfirlýsingar. Skýrslan um Hvassahraun er væntanleg í mars og þá fáum við endanlega niðurstöðu. Til þess að sú mikla vinna sem lögð var í skýrsluna komi að fullum notum og að hún er á lokametrunum er auðvitað skynsamlegast að sjá hvað hún hefur að segja.

Við getum ekki beðið í 20 ár

Það er þó ljóst er að það tekur um 15 til 20 ár að hanna og byggja flugvöll sem rúmað getur innanlandsflug, sjúkraflug og þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar. Á sama tíma ekki hægt að una við núverandi aðstæður til flugsamgangna, brýn þörf er á úrbótum. Sú sem hér skrifar telur að við höfum góðan flugvöll sem getur þjónustað okkur áfram um ókomin ár, Reykjavíkurflugvöll, en hann þarf að efla og bæta. Sigurður Ingi Jóhannsson tilkynnti á síðasta ári um uppbyggingu á nýrri flugstöð, hér er um að ræða uppbyggingu sem lengi hefur verið beðið eftir enda þjónar núverandi flugstöð illa nútíma þörfum. Þá ber að halda því til haga að það er Reykjavíkurborg sem fer með skipulagsvaldið í Vatnsmýrinni og mikilvægt er að það skipulag komi ekki til með að draga úr flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar.

Hlutverk höfuðborgar

Það gleymist oft í umræðunni hversu Reykjavíkurflugvöllur er samfélagslega mikilvægur, nálægð við miðborg, stjórnsýslu, háskóla og Landspítala spilar þar lykilhlutverk. Eins gleymist í umræðunni um uppbyggingu íbúðabyggðar í Vatnsmýrinni mikilvægi nálægðar Reykjavíkurflugvallar við Landspítalann. Samkvæmt lögum eiga allir landsmenn rétt á sömu heilbrigðisþjónustu. Í því samhengi er mikilvægt að einfalt sé að nálgast þá þjónustu, flugvöllur í Reykjavík tryggir það. Það má ekki gleyma að Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna og tryggja verður að allir landsmenn geti sótt þangað þá þjónustu sem þar er veitt.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. febrúar 2024.