Categories
Fréttir Greinar

Orka er vinna, vöxtur og velferð

Deila grein

29/12/2023

Orka er vinna, vöxtur og velferð

Árið 1886 komst Ludwig Boltzmann, einn af stofn­end­um varma­fræðinn­ar, að þeirri niður­stöðu að orka væri hjarta alls. Hann sagði að allt líf væri bar­átta fyr­ir frjálsri orku – orka sem væri til staðar til að snúa fólki til trú­ar. Erw­in Schröd­in­ger, sem hlaut Nó­bels­verðlaun­in í eðlis­fræði 1933, tók í sama streng. Sér­hver líf­vera nær­ist á óheftri orku, skrifaði hann, og þær líf­ver­ur sem vinna best úr þeirri orku hafa for­skot í þró­un­ar­sög­unni. Hvað er orka ann­ars? Orðsifjar orðsins, sem nær aft­ur til Grikk­lands hins forna, eru góður byrj­un­ar­reit­ur. Orðið er komið af nafn­orðinu enér­geia, sem myndað er með orðinu ergon, og merk­ir „vinna“. Og það er nokkuð mikið í staðlaðri vís­inda­legri skil­grein­ingu: „Ork­an er hæfi­leik­inn til að vinna verk.“

Orku­öfl­un hef­ur verið burðarás í ís­lenskri lífs­kjara­sókn en orku­fram­kvæmd­ir fortíðar hafa reynst heilla­drjúg­ar fyr­ir þjóðfé­lagið, en sam­hliða auk­inni orku- og verðmæta­sköp­un í sam­fé­lag­inu hef­ur ís­lenskt sam­fé­lag farið úr því að vera eitt fá­tæk­asta ríki Evr­ópu í eitt það rík­asta. Á þess­um tíma hef­ur einnig ís­lenskt hug­vit orðið til þess að Ísland er í fremstu röð er kem­ur að nýt­ingu end­ur­nýj­an­legr­ar orku, en hingað til lands kem­ur fólk víða að úr heim­in­um til að læra af reynslu okk­ar í orku­mál­um. Þannig er ís­lenskt orku­hug­vit orðið út­flutn­ings­vara til ólíkra horna heims­ins þar sem vatns- og jarðhita­auðlind­ir eru til staðar.

Eitt af keppikefl­um alþjóðastjórn­mál­anna til margra ára hef­ur verið að stemma stigu við lofts­lags­breyt­ing­um. Helstu kröf­ur í því sam­hengi snúa að því að draga veru­lega úr notk­un jarðefna­eldsneyt­is og stuðla að al­vöru orku­skipt­um í lofti, láði og legi. Ljóst er að slíkt um­skipti eru meðal ann­ars háð stór­auk­inni fram­leiðslu á end­ur­nýj­an­legri orku. Þannig hafa fjöl­mörg ríki stór­aukið fjár­fest­ingu í slík­um orku­gjöf­um. Öflug og inn­lend orku­fram­leiðsla er líka eitt stærsta þjóðarör­ygg­is­mál ríkja. Það kom ber­sýni­lega í ljós í kjöl­far ólög­legr­ar inn­rás­ar Rússa í Úkraínu. Orku­skort­ur á meg­in­landi Evr­ópu, með ým­is­kon­ar skerðing­um á af­hend­ingu og mikl­um hækk­un­um á orku­verði í álf­unni, komu ríkj­um henn­ar í koll.

Þessi at­b­urðarás und­ir­strikaði mik­il­vægi þess fyr­ir okk­ur á Íslandi að búa við sjálf­stæði í orku­mál­um. Í ofanálag greiða ís­lensk heim­ili lágt verð fyr­ir orku en verðlagn­ing henn­ar lýt­ur ekki sömu lög­mál­um og verðlagn­ing á orku á meg­in­landi Evr­ópu, þar sem ís­lenska flutn­ingsnetið er ótengt því evr­ópska.

Sú stöðnun sem hef­ur orðið í orku­mál­um hér á landi er ekki af hinu góða og það þarf að vinda ofan af henni. Verðmæti verða ekki til af sjálfu sér, það þarf að hafa fyr­ir því að búa þau til, í sátt við nátt­úru og menn. Á Íslandi hef­ur vinna, vöxt­ur og vel­ferð sam­fé­lags­ins hald­ist hönd í hönd við nýt­ingu orku­auðlinda lands­ins. Okk­ur hef­ur vegnað vel í þeirri sjálf­bærri nýt­ingu og á þeirri braut eig­um við að halda áfram.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Svar við á­kalli heil­brigðis­starfs­fólks

Deila grein

28/12/2023

Svar við á­kalli heil­brigðis­starfs­fólks

Það voru ánægjuleg og mikilvæg tímamót fyrir íslenska heilbrigðiskerfið þegar frumvarp um hlutlæga refsiábyrgð var samþykkt samhljóða á Alþingi rétt fyrr jól. Frumvarpið á sér langan aðdraganda og byggir á tillögum sem komu fram í skýrslu starfshóps um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu ásamt tillögum til úrbóta frá árinu 2015. Á vormánuðum 2022 fól ég starfshóp að rýna tillögur skýrslunnar frá 2015 og skoða áhrif þess ef refsiábyrgð yrði breytt í samræmi við tillögur skýrslunnar. Starfshópurinn vann á breiðum samráðsgrunni og skilaði af sér drögum að frumvarpi í febrúar á þessu ári og var það lagt fyrir Alþingi.

Með nýjum lögum erum við að innleiða hlutlæga refsiábyrgð heilbrigðisstofnana í þeim tilgangi að auka öryggi sjúklinga, að efla öryggismenningu innan heilbrigðiskerfisins, stuðla að umbótum og fækka alvarlegum atvikum. Einnig er tilgangurinn að bæta starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks með því að skýra og auka réttaröryggi framlínufólks heilbrigðiskerfisins.

Að axla ábyrgð

Starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks einkennist oft af miklum hraða og óvæntum aðstæðum. Öll ákvarðanataka og hvert handtak krefst því ekki aðeins reynslu, þjálfunar og þekkingar heldur líka trausts. Það traust á og þarf að vera gagnkvæmt. Rannsóknir sýna að orsakir alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu eru í langflestum tilfellum margir samverkandi og kerfislægir þættir í starfsemi heilbrigðisstofnunar, en sjaldan sök einstaklinga sem vinna verkin.

Með breyttri nálgun laganna verður nú hægt að koma refsiábyrgð á hendur heilbrigðisstofnunar eða rekstraraðila, fremur en einstaka heilbrigðisstarfsmanni, þegar margir samverkandi þættir eða röð atvika eru orsök alvarlegs atviks. Það kallast hlutlæg og uppsöfnuð refsiábyrgð og með henni axlar heilbrigðiskerfið ábyrgð. Breytingarnar eru svar við ákalli heilbrigðisstarfsfólks og sjúklinga um umbætur við meðferð og rannsókn alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu.

Upplýsa til umbóta

Með lagabreytingunum verður áfram unnið að því að efla rannsóknir á orsökum alvarlegra atvika, gera þær ítarlegri, bæta verkferla og tryggja betur aðkomu sjúklinga og aðstandanda. Sú vinna mun fara af stað á næstunni.

Að rannsaka orsök og upplýsa um ástæður alvarlegra atvika sem upp geta komið við veitingu heilbrigðisþjónustu er mikilvægt til umbóta og sömuleiðis til að fyrirbyggja að slíkt atvik endurtaki sig. Brýnt er að rannsókn kalli fram tillögur til úrbóta fremur en að ákvarða um sök eða ábyrgð.

Öryggismenningin er heilbrigðiskerfinu okkar mikilvæg, og byggir á gagnkvæmu trausti. Sterk öryggismenning eykur gæði og öryggi þjónustunnar ásamt því að stuðla að framþróun og umbótum í heilbrigðiskerfinu.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Loksins kviknað á perunni?

Deila grein

22/12/2023

Loksins kviknað á perunni?

Síðustu daga hafa þingmenn og heilu þingflokkarnir lýst því yfir að þeir ætli að beita sér fyrir aukinni orkuöflun til að mæta yfirvofandi raforkuskorti hér á landi. Ítrekaðar áhyggjur hafa verið hunsaðar og nú, þegar vandinn er farinn að vera virkilega alvarlegur og er orðinn öllum kýrskýr, keppast þingmenn við að koma með háfleygar yfirlýsingar eins og að hulunni hafi verið svipt.

Ég fagna því vissulega að kollegar mínir hafi loksins kveikt á perunni og áttað sig á þeim vanda sem lengi hefur legið í loftinu. Vonandi eru þetta ekki tóm orð í von um aukið fylgi. Því það er ljóst að margir þessara þingmanna þurfa að taka U-beygju á sinni afstöðu t.d. hvað varðar friðun og regluverk.

Takmarkaður áhugi hingað til

Ýmsar aðgerðir hafa verið lagðar til með það að markmiði að geta framleitt meiri orku, nýtt hana betur og efla dreifingu hennar. Lengi hafa sérfræðingar í orkugeiranum bent á yfirvofandi orkuskort og kallað eftir aðgerðum, en undirrituð hefur unnið að því að koma skilaboðum þeirra áleiðis bæði í þingsal, á fundum og í hinum ýmsu fjölmiðlum. Áhugi þingheims fyrir alvöru aðgerðum hefur verið takmarkaður hingað til.

Stjórnkerfið í kringum leyfisveitingar og rannsóknir er óþarflega flókið og hægfara. Það líða jafnvel áratugir frá því að virkjanakostur kemur upp sem hugmynd þar til hann verður að veruleika. Við höfum of lengi beðið eftir aðgerðaráætlun og regluverki í kringum nýtingu nýrra grænna orkukosta eins og vindorku. Friðun vatnasviða og þar með útilokun mögulegra virkjunarframkvæmda er sett á dagskrá þrátt fyrir að þörfin fyrir aukna orku liggur fyrir.

Þörf á hugarfarsbreytingu

Stjórnvöld og samfélagið allt þurfa að horfa á orkumál landsins með öðru viðhorfi. Núverandi hugarfar virkar greinilega ekki og það gengur ekki að seinka mikilvægum fyrirbyggjandi aðgerðum um mörg ár og jafnvel virða þær að vettugi. Við viljum vera sjálfum okkur nóg í orkuöflun og tryggja orkuöryggi hér á landi en við sjáum dæmi erlendis um það hversu mikilvægt það reynist að þurfa ekki að stóla á önnur ríki til að fullnægja grundvallarþörfum samfélagsins.

Standið við stóru orðin

Nú er komið að þingheimi að taka á honum stóra sínum og sýna fram á að yfirlýsingarnar séu ekki bara orðin tóm. Miðað við fjölda yfirlýsinga þingmanna og þingflokka þá ætti það ekki að reynast erfitt að skapa sátt og komast að niðurstöðu.

Ég er, og hef lengi verið, tilbúin í þá vinnu.

Við þurfum að setja okkur markmið; hversu mikla orku þurfum við á að halda til framtíðar? Í kjölfarið getum við sett á laggirnar alvöru aðgerðir til að mæta þeirri framtíðarorkuþörf í stað þess að bregðast við aðstæðum hverju sinni.

Á meðan er það virkilega óábyrgt að ræða frekari friðun heilu vatnasviðanna. Það er óforsvaranlegt að setja friðun á dagskrá þegar við höfum ekki gert áætlun til framtíðar. Við megum ekki við því að útiloka heilu virkjunarmöguleikana í því ástandi sem við erum.

Á ríkisstjórnarborðinu er það nauðsyn að endurskoða rammaáætlun á nýjan leik með það að leiðarljósi að endurskoða friðlýsingu vatnasviða, nýta þau tækifæri sem okkur bjóðast og alls ekki útiloka virkjunarmöguleika til framtíðar.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Sterk og snörp

Deila grein

20/12/2023

Sterk og snörp

Það er fastur liður í aðventudagskrá Alþingis að fjalla um og samþykkja fjárlög fyrir komandi ár. Það getur verið vandasamt á krefjandi tímum, óvissa bæði hér á landi sem og í alþjóðlegu samhengi. Að mörgu þarf að huga, bregðast við ríkjandi þörfum en ekki síður að gera ráð fyrir hinu óvænt. Það ríkir nokkur spenna í hagkerfinu og hefur það verið í nokkurri sveiflu sem birtist í vaxandi verðbólgu. Sumir vilja kalla þá verðbólgu séríslenska líkt og Grýla en við höfum séð að bólgan sú hefur einnig verið vandamál í Evrópu og vestanhafs. Þó ætlar skömmin að vera þrálátari hér á landi og við því verður að bregðast. Við í Framsókn höfum lagt á það ríka áherslu að skapa jafnvægi í efnahagsstjórn, til að sporna við frekari þenslu svo að vaxtarstig geti hjaðnað á nýju ári. Þess vegnar tel ég mikilvægt að þessi fjárlög sem við samþykkjum nú fyrir jólin séu hlutlaus fjárlög og ekki þensluhvetjandi.

Snörp viðbrögð stjórnvalda

Miklar náttúruhamfarir á undanförnum vikum vegna eldsumbrota á Reykjanesskaga er hvergi nær lokið. Þá ríkir óvissa vegna stríðsástands í heiminum sem varðar íslenskt samfélag eins og aðrar þjóðir. Þrátt fyrir að nýafstaðinn Covid faraldur sem hafði gríðarleg áhrif á efnahagsumhverfið er staða ríkissjóðs sterk. Við getum tekist á við verkefni, sem okkur óraði ekki fyrir í upphafi þessa árs, sem eru flókin en jafnframt áríðandi að leysa með hraði.  Við höfum vissulega ekki stjórn á öllu sem gerist, en höfum að sama skapi val um viðbrögð og aðgerðir, það er mikilvægt að muna þegar við búum í landi þar sem náttúran stjórnar oft för.

Atburðir síðustu þrjú ár á Reykjanesskaga hafa minnt okkur á að Ísland er land elds og ísa, við þekkjum það sem hér búa. Náttúran ríkir og okkar er að læra að lifa við hana, njóta og nýta. Stórir viðburðir eins og snjóflóð, skriðuföll og eldgos eru tíðir og bjóða upp á allskonar áskoranir. Þeir atburðir sem hófust í nóvember hafa valdið því að heilt samfélag þurftu að flýja heimili sín og hefur enn ekki getað snúið aftur. Framhaldið er í óvissu náttúrunnar, þar sem ekki er ljóst hvort eða hvernig framhald verður á hreyfingu landsins. Stjórnvöld vinna nú að ýmsum mótvægisaðgerðum, finna leiðir til aðstoða íbúa og fyrirtæki á svæðinu, vegna tekjuskerðingar, húsnæðis, skóla og ýmiskonar þjónustu en einnig aðstoðar við það fólk til að takast á við óvissuna og áföllin. Það er erfitt að setja sig í þau spor sem íbúar Grindavíkur eru í núna en mikilsvert að hafa hugfast að áfram er óvissa, það snertir okkur öll. Það er gott að finna þann samhug sem ríkir í samfélaginu, þegar kemur að slíkum náttúruhamförum stöndum við saman.

Eitt stórt heimili

Að reka ríkissjóð er eins og að reka stórt heimili, allir á heimilinu skipta máli og allar ákvarðanir koma við íbúa landsins. Kjarasamningar á vinnumarkaði verða lausir á næstu mánuðum. Ríkið er stærsti atvinnurekandi landsins og þar á eftir eru sveitarfélög, launakostnaður eru einn stærsti útgjaldaliður í þeim rekstri. Nú ríður á að allir taki höndum saman til að bæta lífskjör, ná niður verðbólgu til að skapa aukna hagsæld fyrir alla. Það skiptir máli að ná fram langtímakjarasamningum með hógværum hækkunum, Sveitarfélögin verða því að vera með hófstilltar hækkanir á gjaldsskrám hagsmunir allra er að ná niður vaxtastiginu því þar liggur ávinningurinn. Sveitarfélögin hafa lengi barist fyrir því að varanleg lausn verði fundinn á halla sveitarfélaga á málaflokki fatlaðs fólks. Því ber að fagna að með 5. ma kr. framlagi á þessu ári og 6. ma. framlagi á næsta ári með lækkun tekjuskatts á móti hækkun á útsvari. Áfram er mikilvægt að horfa til breytilegra þarfa, halda áfram að efla uppbyggingu þjónustunnar í samtalið allar aðila er málin varða.

Treystum íslenska matvælaframleiðslu

Hér á Íslandi búum við enn þá við þá sérstöðu að matvælaframleiðsla í hefðbundnum búgreinum er rekin sem fjölskyldubú og því mikið undir. Nýliðar hafa staðið í miklum fjárfestingum í greininni síðustu ár til að bregðast við hagræðingu og nýjum reglugerðum. Við í Framsókn viljum ekki segja staðar numið við þessa aðgerð, heldur er mikilvægt að tryggja rekstrargrunn landbúnaðarins svo það sé raunverulegur kostur fyrir ungt fólk að koma inn í greinina og tryggja neytendum hér á landi heilnæma vöru.

Það er afar ánægjulegt að í fjáraukalögum fyrir árið 2023 var samþykkt að 2,1 ma. króna framlag til þeirra sem starfa við landbúnað, að tillögu starfshóps sem skipaður var til að bregðast við erfiðri stöðu bænda. Framsókn hefur lagt ríka áherslu á að mæti breyttu rekstrarumhverfi í landbúnaði og því ánægjulegt að sjá að hér er verið að bregðast við þessari brýnu þörf. Þá er vert að nefna hversu mikilvert það er að finna vitundarvakningu í samfélaginu um að við þurfum að byggja undir íslenska matvælaframleiðslu. Vandi landbúnaðar varðar okkur öll og því þurfa stjórnvöld áfram að byggja undir greinina og hjálpa þannig til við að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 18. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Framsókn í 107 ár

Deila grein

16/12/2023

Framsókn í 107 ár

Það að ná mjög háum aldri er ekki sjálf­gefið, sér­stak­lega fyr­ir stjórn­mála­flokka. Í dag fögn­um við í Fram­sókn því að 107 ár eru liðin frá stofn­un flokks­ins, en flokk­ur­inn er eini stjórn­mála­flokk­ur­inn sem hef­ur fylgt ís­lensku þjóðinni sam­fleytt í meira en heila öld – og vel það. Þessi vel rúm­lega ald­ar­langa saga Fram­sókn­ar er sam­tvinnuð fram­förum á Íslandi. Heim­ur­inn hef­ur gengið í gegn­um mikl­ar breyt­ing­ar frá stofn­un flokks­ins fyr­ir 107 árum. Þannig hef­ur staða Íslands um­turn­ast til hins betra en á tíma­bil­inu fór Ísland úr því að vera fá­tækt sam­fé­lag und­ir er­lendri stjórn yfir í því að vera sjálf­stætt og full­valda ríki þar sem lífs­kjör eru með því besta sem þekk­ist á byggðu bóli.

Lengst­an part af sögu sinni hef­ur Fram­sókn verið treyst fyr­ir stjórn Íslands. Frjáls­ar kosn­ing­ar eru horn­steinn þess lýðræðis­sam­fé­lags sem við búum í en það að búa í frjálsu og opnu lýðræðisþjóðfé­lagi er ekki sjálf­gef­inn hlut­ur eins og fjöl­mörg dæmi í heim­in­um sanna. Það er mik­ill heiður að vera treyst fyr­ir stjórn lands­ins, en því fylg­ir einnig mik­il ábyrgð.

Grasrót flokks­ins hef­ur í gegn­um tíðina sam­an­staðið af öfl­ug­um hópi fólks sem á það sam­eig­in­legt að vilja vinna sam­vinnu­hug­sjón­inni braut­ar­gengi og stuðla að upp­byggi­leg­um stjórn­mál­um út frá miðjunni. Sem miðju­flokk­ur legg­ur Fram­sókn áherslu á skyn­sam­leg­ar og raun­sæj­ar lausn­ir sem eru til þess falln­ar að bæta líf fólks ásamt því að geta unnið með ólík­um stjórn­mála­flokk­um til að bæta sam­fé­lagið. Hið síðast­nefnda er mik­il­væg­ur eig­in­leiki í heimi þar sem við sjá­um skaut­un í stjórn­mál­um aukast til muna.

Það dylst ekki nein­um að það hef­ur gengið á ýmsu í sam­starfi nú­ver­andi stjórn­ar­flokka. Það vill hins veg­ar oft gleym­ast í umræðunni að mik­ill ár­ang­ur hef­ur náðst í fjöl­mörg­um mála­flokk­um. Þannig hafa fjöl­mörg mál fengið fram­gang í þeim mála­flokk­um sem Fram­sókn ber ábyrgð á. Ný hús­næðis­stefna og auk­in fram­lög til mála­flokks­ins munu marka leiðina fram á við. Kröft­ug upp­bygg­ing sam­göngu­innviða, hvort sem um ræðir vegi, flug­velli eða hafn­ir, hef­ur bætt bú­setu­skil­yrði og sam­keppn­is­hæfni lands­ins alls. Rót­tæk­ar um­bæt­ur í mennta­kerf­inu hafa nú þegar og munu til lengri tíma skila ávinn­ingi. Þannig er kenn­ara­nem­um strax tekið að fjölga veru­lega eft­ir fyr­ir­sjá­an­leg­an skort, sem og nem­um í verkiðn og starfs­námi og unnið er eft­ir mennta­stefnu til árs­ins 2023. Um­gjörð menn­ing­ar­mála hef­ur verið efld veru­lega með fjöl­mörg­um aðgerðum. Rót­tæk­ar breyt­ing­ar hafa verið gerðar á mál­efn­um barna sem auka lífs­gæði þeirra og góður ár­ang­ur hef­ur náðst í að efla heil­brigðis­kerfið, til að mynda með sam­vinnu hins op­in­bera og einka­geir­ans með samn­ing­um við sér­greina­lækna sem aukið hafa aðgengi sjúk­linga að heil­brigðisþjón­ustu óháð efna­hag svo örfá dæmi séu tek­in.

Það er gam­an og gef­andi að taka þátt í stjórn­mál­um og vinna fyr­ir landið sitt á þeim vett­vangi. Hvort sem er í sveit­ar­stjórn­um eða í lands­mál­un­um mun flokk­ur­inn halda áfram að vinna að því að gera sam­fé­lagið betra en það var í gær, með vinnu­semi og sam­vinnu­hug­sjón­ina að leiðarljósi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. desember 2023.

Categories
Greinar

Hvernig vilt þú hafa þjónustu við 0-6 ára börn í Reykja­vík?

Deila grein

12/12/2023

Hvernig vilt þú hafa þjónustu við 0-6 ára börn í Reykja­vík?

Ákall er um lausnir frá sveitarfélögum í dagvistunarmálum. Það er nauðsynlegt svo foreldrar geti lagt samfélaginu til vinnuframlag sitt og séð sér og sínum fyrir framfærslu um leið og þau ala upp yngstu kynslóðina. Sömuleiðis eru sjónarmið um að ríki og sveitarfélög auðveldi foreldrum að vera meira með börnum sínum á fyrstu æviárum þeirra.

Ég lít svo á að eitt megin markmið Reykjavíkurborgar sé að auðvelda foreldrum að búa börnum sínum góð vaxtarskilyrði með það að markmiði að auðvelda líf barnafjölskyldna sem oft getur verið flókið og krefjandi. En stóra spurningin er þessi: Hvaða ákvarðanir þarf að taka til þess að líf þessa hóps verði í raun og veru auðveldað og börnum búin betri skilyrði?

Ekki ein lausn sem hentar öllum

Ólík sjónarmið eru uppi í samfélaginu um hvaða leið teljist ,,rétt” til að þjónusta börn á aldrinum 0-6 ára og ólíklegt er að ein lausn henti öllum. Einnig eru ólík sjónarmið um hvort að sveitarfélög eigi að reka samfélagsleg úrræði fyrir þennan aldurshóp eða hvort sveitarfélög eigi fyrst og fremst að undirbúa jarðveginn fyrir slík úrræði til að spretta upp. Spurt er hvort úrræðin eigi að vera leikskólar sem eru sjálfstætt starfandi eða reknir af hinu opinbera? Hvort sjálfstætt starfandi skólar skuli reknir af foreldrum eða atvinnulífinu? Hvort við viljum leggja áherslu á dagforeldra eða umönunargreiðslur til foreldra? Svo fátt eitt sé nefnt. Aukinheldur eru uppi ólíkar hugmyndir um hvernig skipulag þjónustunnar eigi að vera háttað, til dæmis er varðar lengd á viðveru barna. Bent er á jafnréttissjónarmið og starfsumhverfi fagfólks sem sinnir börnunum, á meðan spurt er hvað sé börnum í raun fyrir bestu?

Ef við snúum okkur aftur að spurningunni um það hvernig við ætlum að auðvelda líf fjölskyldufólks þurfum við að svara því hvernig þjónustu við ættum að veita fyrir aldurshópinn. Við þurfum að spyrja hvernig er að vera barn í Reykjavík og hvernig samfélag og þjónustu við viljum byggja upp í kringum börnin okkar á fyrstu æviárum þeirra?

Opið samráð um þjónustu við börn og barnafjölskyldur

Í gildandi samstarfssáttmála meirihluta borgarstjórnar segir að skipuleggja eigi borgina út frá hagsmunum barna og barnafjölskyldna. Til að mæta því verkefni hefur verið skipaður stýrihópur um mótun heildstæðrar stefnu um umhverfi og aðstæður barna á aldrinum 0-6 ára. Í þeirri vinnu er víðtækt samráð við forsjáraðila og aðra hagsmunaaðila þýðingarmikið, til að varpa ljósi á núverandi stöðu og áskoranir, ásamt því að fá fram fjölbreytt sjónarmið um lausnir og tækifæri fram á veginn.

Hvernig vilt þú bæta þjónustu við ung börn í Reykjavík?

Mikilvægt er að kalla fram ólík sjónarmið um hvernig best sé að þjónusta aldurshópinn, ásamt því að hafa í huga að ein lausn hentar ekki öllum. Það er því afar ánægjulegt að geta farið í opið samráð um þjónustu við börn á aldrinum 0-6 ára enda skiptir máli að raddir sem flestra heyrist í slíkri vinnu. Ég hvet þig til þess að taka þátt í samráðinu í gegnum samráðsvef borgarinnar og með því hafa áhrif á stefnumótun um umhverfi og aðstæður 0-6 ára barna í Reykjavík.

Það er von mín að þessi stefnumótun muni leiða til fjölbreyttra lausna til framfara. Við þurfum að hafa sterka og ígrundaða framtíðarsýn og setja málefni barna í forgang.

Hlekkur á samráðsvef: https://www.samradsvefur.is/

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og formaður stýrihóps um mótun heildstæðrar stefnu og aðgerðaráætlunar um umhverfi og aðstæður barna á aldrinum 0-6 ára í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Mál­stefna fyrir ís­lenskt tákn­mál

Deila grein

11/12/2023

Mál­stefna fyrir ís­lenskt tákn­mál

Í vikunni mælti menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, fyrir þingsályktunartillögu um málstefnu íslensks táknmáls og aðgerðaráætlun. Þar er gengið út frá að íslenskt táknmál sé hefðbundið minnihlutamál og fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra, sbr. lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Stjórnvöld stuðli að þróun, rannsóknum, kennslu og útbreiðslu íslensks táknmáls og styðji að öðru leyti við menningu og menntun táknmálsfólks og táknmálsbarna eins og segir í tillögunni.

Með málstefnu íslensks táknmáls er gert ráð fyrir að hún taki til fimm meginstoða, þ.e. máltöku táknmálsbarna, jákvæðs viðhorfs, fjölgunar umdæma íslensks táknmáls, lagaumhverfis og máltækni. Tillögu um málstefnu fylgir aðgerðaáætlun til þriggja ára. Að þeim árum liðnum verða bæði málstefnan og aðgerðaráætlun endurskoðuð.

Táknmál er ekki einkamál

Táknmál er ekki einkamál heyrnalausra, heldur er það tungumál stórs hóps og opinbert mál hér á landi og því tímabært að táknmáli sé gert hærra undir höfði. Þrátt fyrir að táknmál sé opinbert mál hér á landi er lítil sem engin fræðsla eða kennsla í skólum landsins. Lítið sem ekkert er gert til að kynna og kenna íslenskt táknmál sem og menningu og sögu heyrnarlausra fyrir nemendum, en það er með þetta eins og svo margt annað, því með því að auka fræðslu í samfélaginu myndu fordómar minnka og aukinn skilningur yrði á þörfum náungans.

Táknmál er minnihlutamál og því vegur viðhorf til tungumálsins meira heldur en til meirihlutamáls. Táknmál er ekki einka-mál þeirra sem ekki heyra. Það er heyrnarlausum gagnlaust ef hann getur ekki haft samskipti við aðra á sínu tungumáli. Táknmálið er því mikilvægt inni á heimilum, skóla, vinnustað og í samfélaginu öllu.

Á Íslandi eru tvö opinber tungumál, íslenska og íslenskt táknmál. Það er samt staðreynd að þeir sem tala táknmáli hafa ekki sama aðgengi að þjóðfélaginu og aðrir. Viðhorf til tungumálsins hefur áhrif á stöðu einstaklings í þjóðfélaginu og til að breyta því þarf að breyta viðhorfi þjóðfélagsins til táknmálsins. Jákvæð áhrif stjórnvalda hafa líka áhrif og áðurnefnd þingsályktunartillaga er til þess fallin að bæta viðhorf og gera íslenska táknmálinu hærra undir höfði. Eins og segir í greinagerð með þingsályktunartillögunni, þá er jákvætt viðhorf til íslensks táknmáls grundvöllur þess að táknmálstalandi fólk hafi tækifæri á við aðra og skiptir sköpum fyrir aðgengi aðstandenda og fagfólks að upplýsingum um tungumálið

Talaðu við mig

Þegar barn fæðist heyrnalaust eða einstaklingur missir heyrn er mikilvægt að bæði barnið/einstaklingurinn fái stuðning og ekki bara hann því fjölskyldan og nánasta umhverfi hennar þarfnast líka stuðnings. Í aðgerðaráætlun er talað um að ef barn reynist vera með skerta heyrn verði snemmtækri íhlutun beitt til að tryggja viðkomandi barni og fjölskyldu þess öll úrræði sem koma barninu að gagni. Sé ástæða til, verði foreldrum heyrnarlausra og heyrnarskertra barna bent á þjónustu Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Þetta er atriði sem getur skipt sköpum fyrir framtíð barns sem fæðist heyrnarlaust. Þá er mikilvægt að þessi úrræði grípi fjölskyldur um allt land. Samskiptamiðstöð hefur verið með slík verkefni á sinni könnu og gefist vel. Bæði við að styðja fjölskyldur og skóla sem viðkomandi þarf að sækja.

Það er ósk mín að þessi málstefna íslensks táknmáls og aðgerðaráætlun verði virkjuð sem fyrst okkur öllum til bóta.

Halla Signý Kritjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Raunsæispólitík er nauðsynleg

Deila grein

10/12/2023

Raunsæispólitík er nauðsynleg

Saga ís­lensks þjóðfé­lags er saga fram­fara. Á fyrri hluta 20. ald­ar­inn­ar var Ísland meðal fá­tæk­ustu ríkja Evr­ópu en á und­an­förn­um ára­tug­um hafa lífs­kjör batnað mikið og skip­ar landið sér nú í hóp fremstu ríkja heims þegar ýms­ir mæli­kv­arðar eru skoðaðir. Um­skipti sem þessi ger­ast ekki af sjálfu sér, að baki þeim ligg­ur þrot­laus vinna kyn­slóðanna og sú raun­sæja afstaða að nýt­ing auðlinda lands­ins sé drif­kraft­ur­inn og aflvak­inn á bak við efna­hags­lega vel­sæld.

Inn­lend orka gulls ígildi

Virði inn­lendr­ar orku kom ber­sýni­lega í ljós í kjöl­far ólög­legr­ar inn­rás­ar Rússa í Úkraínu. Orku­skort­ur fór að gera vart við sig á meg­in­landi Evr­ópu og mikl­ar hækk­an­ir á orku­verði í álf­unni urðu til þess að verðbólga hækkaði enn frek­ar. Þannig kynntu stjórn­völd í ýms­um lönd­um aðgerðapakka til þess að dempa áhrif þess­ara hækk­ana á raf­orku, til dæm­is með lánalín­um, bein­greiðslum til heim­ila og hval­reka­skött­um á orku­fyr­ir­tæki til þess að fjár­magna mót­vægisaðgerðir. Ísland býr aft­ur á móti við mikið sjálf­stæði í orku­mál­um miðað við ýms­ar aðrar þjóðir og fram­leiðir mikla end­ur­nýj­an­lega orku fyr­ir heim­ili og fyr­ir­tæki. Íslensk heim­ili greiða lágt verð fyr­ir orku en verðlagn­ing henn­ar lýt­ur ekki sömu lög­mál­um og verðlagn­ing á orku á meg­in­landi Evr­ópu, þar sem ís­lenska flutn­ingsnetið er ótengt því evr­ópska. Orku­öfl­un hef­ur verið burðarás í ís­lenskri lífs­kjara­sókn og til að viðhalda þeirri sókn þarf að afla frek­ari orku. Verðmæti verða ekki til af sjálfu sér, það þarf að hafa fyr­ir því að búa þau til, í sátt við nátt­úru og sam­fé­lagið. Okk­ur hef­ur vegnað vel í sjálf­bærri nýt­ingu nátt­úru­auðlinda og af því get­um við verið stolt. Það er með öllu óraun­sætt fyr­ir hag­kerfið að sækja fram af viðlíka krafti og undafarna ára­tugi án frek­ari orku­öfl­un­ar.

Keppikefli efna­hags­stjórn­ar­inn­ar

Staða rík­is­sjóðs hef­ur styrkst veru­lega á umliðnum ára­tug. Þar skipt­ir miklu máli hvernig stjórn­völd­um tókst á sín­um tíma að tryggja far­sæl­ar mála­lykt­ir í þágu ís­lenskra hags­muna gagn­vart slita­bú­um föll­um bank­anna. Þær ráðstaf­an­ir hafa skilað rík­inu mörg hundruð millj­örðum sem meðal ann­ars hafa nýst til að greiða niður op­in­ber­ar skuld­ir og treysta þannig stöðu op­in­berra fjár­mála. Þá hef­ur ferðaþjón­ust­an einnig fært mikla björg í bú fyr­ir hag­kferið. Það hef­ur sýnt sig á und­an­förn­um árum að rík­is­sjóður hef­ur verið vel und­ir það bú­inn að tak­ast á við risa­stór verk­efni, líkt og heims­far­ald­ur­inn á sama tíma og fjár­fest hef­ur verið af mikl­um mynd­ar­skap í ýms­um mála­flokk­um á veg­um hins op­in­bera. Keppikefli efna­hags­stjórn­ar­inn­ar núna er að ná verðbólg­unni niður í þágu sam­fé­lags­ins alls. Slíkt verk­efni verður ekki leyst nema í sam­vinnu rík­is og sveit­ar­fé­laga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnu­markaðar­ins. Rík­is­stjórn­in hef­ur kynnt aðhalds­samt fjár­laga­frum­varp þar sem Stjórn­ar­ráðið tek­ur á sig hvað mest aðhald. Það sama má segja um launa­hækk­un æðstu emb­ætt­is­manna rík­is­ins sem var lækkuð niður í 2,5%, sem kall­ast á við verðbólgu­mark­mið Seðlabank­ans, og gjald­skrár­hækk­an­ir tak­markaðar við 3,5%. Með þessu vilja stjórn­völd leiða með góðu for­dæmi enda mikið í húfi fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki að ná verðbólg­unni niður. All­ir verða að líta raun­sætt í eig­in rann til að leggja sitt af mörk­um. Þar munu kom­andi kjara­samn­ing­ar skipta lyk­il­máli um fram­haldið. Verk­efnið er stórt og flókið en vel ger­legt að leysa. Ég bind mikl­ar von­ir við sam­taka­mátt okk­ar allra, við þurf­um öll að stunda raun­sæja póli­tík til að ná settu marki; að sigr­ast á verðbólg­unni og halda áfram að bæta lífs­kjör­in í land­inu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. desember 2023.

Categories
Greinar

Fjárfesting í íslenskunni skilar mestum árangri

Deila grein

08/12/2023

Fjárfesting í íslenskunni skilar mestum árangri

Hraðar og um­fangs­mikl­ar þjóðfé­lags­breyt­ing­ar und­an­far­inna ára hafa fram­kallað áskor­an­ir af áður óþekkt­um stærðargráðum fyr­ir tungu­málið okk­ar, ís­lensk­una. Þannig hafa örar tækni-breyt­ing­ar til að mynda gjör­bylt því mál­um­hverfi sem börn al­ast upp í og ensk­an er nú alltumlykj­andi hvert sem litið er.

Birt­ing­ar­mynd­ir þess að tungu­málið okk­ar eigi und­ir högg að sækja geta verið með ýms­um hætti, nú síðast í þess­ari viku þegar niður­stöður úr alþjóðlegu PISA 2022-könn­un­inni voru kynnt­ar en hún mæl­ir hæfni 15 ára nem­enda í lesskiln­ingi, læsi á nátt­úru­vís­indi og læsi á stærðfræði. Niður­stöðurn­ar sýna verri ár­ang­ur nem­enda í þátt­töku­lönd­um miðað við fyrri kann­an­ir, m.a. alls staðar á Norður­lönd­um og er lækk­un­in meiri á Íslandi.

Náms­fram­vinda ræðst af ýms­um þátt­um. Góður námsorðaforði og hug­taka­skiln­ing­ur, álykt­un­ar­hæfni, færni í rök­hugs­un, ánægja af lestri og fjöl­breytni les­efn­is veg­ur mjög þungt í því að nem­end­ur nái tök­um á náms­efn­inu. Til að skilja vel og til­einka sér inni­hald náms­efn­is án aðstoðar þarf nem­andi að þekkja 98% orða í texta. Ef hlut­fallið lækk­ar í 95% þurfa flest­ir nem­end­ur aðstoð, t.d. hjálp frá kenn­ara, sam­nem­end­um eða úr orðabók­um.

Margt gott hef­ur áunn­ist í mennta­mál­um og mál­efn­um tungu­máls­ins á und­an­förn­um árum; ný lög um mennt­un og hæfi kenn­ara og skóla­stjórn­enda urðu að veru­leika, ráðist var í um­fangs­mikl­ar aðgerðir til að fjölga kenn­ur­um með góðum ár­angri og stutt var við út­gáfu bóka á ís­lensku með mjög góðum ár­angri, þar sem aukn­ing­in hef­ur verið mest í flokki barna- og ung­menna­bóka. Á síðasta kjör­tíma­bili samþykkti Alþingi einnig þings­álykt­un um efl­ingu ís­lensk­unn­ar, sem fól í sér ýms­ar aðgerðir sem snúa að um­bót­um í mennta­kerf­inu sem flest­um er búið að hrinda í fram­kvæmd. Þá lagði ég sem mennta­málaráðherra til breyt­ingu á viðmiðun­ar­stunda­skrá grunn­skóla sem fól í sér að meiri tíma yrði varið í ís­lensku á yngri stig­um grunn­skóla og vægi nátt­úru­greina á ung­linga­stigi yrði einnig aukið í anda þess sem tíðkast ann­ars staðar á Norður­lönd­um. Því miður náðist ekki samstaða um þær breyt­ing­ar, sem ég tel þó annarr­ar messu virði að ræða.

Það er hins veg­ar ljóst að áhrif já­kvæðra breyt­inga líkt og þeirra sem nefnd­ar eru að ofan skila sér ekki á einni nóttu. Við verðum að taka nýj­ustu niður­stöðum úr PISA al­var­lega og gera enn bet­ur. Tungu­málið okk­ar verður að fá aukið vægi í víðu sam­hengi í þjóðfé­lag­inu. Í því ljósi kynnti ráðherra­nefnd um ís­lensku nýja aðgerðaáætl­un í liðinni viku til þess að styðja enn frek­ar við tungu­málið okk­ar. Það er sam­fé­lags­legt verk­efni sem all­ir þurfa að taka þátt í til að tryggja viðspyrnu tungu­máls­ins okk­ar til framtíðar. Vit­und og skiln­ing­ur á þessu hef­ur stór­auk­ist sem er já­kvætt, þó að enn sé mikið verk að vinna.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. desember 2023.

Categories
Greinar

Ísland er meira en bara höfuðborgarsvæðið

Deila grein

07/12/2023

Ísland er meira en bara höfuðborgarsvæðið

Ný­lega birti Byggðastofn­un nýj­ar töl­ur um íbúa­fjölda sveit­ar­fé­laga og byggðar­kjarna og kom þar fram að íbú­ar á Íslandi eru 387.758 og þar af búa 369.048 (95%) í byggðar­kjörn­um og 18.710 (5%) í dreif­býli.

Á höfuðborg­ar­svæðinu eru 240.882 íbú­ar (64% lands­manna) en 135.366 (36%) búa utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Íbúum lands­ins fjölgaði um 11.510 (3,1%) á ár­inu 2022 en mest fjölg­un varð á Suður­nesj­um (6,7%) og á Suður­landi (4,2%). Þegar rýnt er í þess­ar töl­ur má sjá að íbú­um lands­byggðar fer fækk­andi og straum­ur­inn ligg­ur all­ur á suðvest­ur­hornið. Ég tel að það sé mik­il­vægt að við höld­um öllu land­inu í byggð og ger­um fólki kleift að velja sér bú­setu í land­inu þar sem það vill búa og stuðla þannig að blóm­legri byggð um allt Ísland. Nú­tímaþjóðmá­laum­ræða snýst að öllu leyti um höfuðborg­ar­svæðið en landið er svo miklu meira en bara borg.

Mikið hef­ur verið talað um að lóðafram­boð sé af skorn­um skammti á höfuðborg­ar­svæðinu og einnig um að sam­göng­ur á því svæði séu komn­ar að þol­mörk­um, ásamt því er óbæri­leg bið fyr­ir fjöl­skyldu­fólk að koma börn­um sín­um að í dag­vist­unar­úr­ræði, t.d. leik­skóla.Auk­in lífs­gæði fólg­in í því að búa á lands­byggðinni

Er það í raun þannig að við þurf­um að hrúga öllu fólki, fyr­ir­tækj­um og stofn­un­um á sama blett­inn á land­inu? Ég tel svo ekki vera, við erum fá­menn þjóð í stóru landi.

Lands­byggðin býður upp á auk­in lífs­gæði, auk­in tæki­færi sér­stak­lega fyr­ir ungt fólk sem hef­ur sótt sér þekk­ingu og mennt­un, lands­byggðin þarf á því fólki að halda. Það eru mik­il lífs­gæði að þurfa ekki að sitja fast­ur í bíl á milli staða, koma barn­inu sínu með skjót­um hætti í leik­skóla og eiga mögu­leika á að eign­ast hús­næði á viðráðan­legu verði.Við þurf­um breytta byggðastefnu

Það er hægt að efla lands­byggðina með ýms­um hætti, með fram­taki ein­stak­linga, fyr­ir­tækja og op­in­berra stofn­ana. Það er sam­fé­lags­leg ábyrgð fyr­ir­tækja að halda nú­ver­andi starf­semi sinni á lands­byggðinni og einnig sækja fram. Kerec­is á Ísaf­irði er gott dæmi um það. Einnig má hið op­in­bera gera mun bet­ur í þess­um efn­um með því að færa í aukn­um mæli stofn­an­ir út á land, það er vel hægt með nú­tíma­tækni.

Með sam­vinnu­hug­sjón­ir að leiðarljósi bæði efl­um við og styrkj­um lands­byggðina með því að hafa trú á lífi í öll­um byggðar­kjörn­um á Íslandi.

Anton Guðmundssonodd­viti Fram­sókn­ar og formaður bæj­ar­ráðs í Suður­nesja­bæ

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. desember 2023