Categories
Fréttir Greinar

Bætt skipu­lag fyrir stúdenta

Deila grein

27/03/2025

Bætt skipu­lag fyrir stúdenta

Svæðið í kringum Háskóla Íslands hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum. Þær breytingar sem þar hafa orðið eru afar jákvæðar, ekki aðeins fyrir háskólasamfélagið og stúdenta heldur einnig fyrir borgina og samfélagið í heild. Háskólar gegna lykilhlutverki í þróun samfélaga með því að stuðla að nýsköpun, efnahagslegum vexti og menntun.

Í kringum Háskóla Íslands hefur byggst upp þorp stúdenta á Stúdentagörðum og háskólasvæðið hefur stækkað t.a.m. með Hótel Sögu sem hýsa á menntavísindasvið og Grósku, sem er miðstöð nýsköpunar. Með vaxandi byggð og fjölgun stúdenta og fyrirtækja á svæðinu er mikilvægt að huga að því að skipulag svæðisins sé notendavænt og öruggt. Stúdentar hafa þá kallað eftir ýmsum úrbótum á svæðinu.

Borgarfulltrúar Framsóknar vilja styðja við áframhaldandi jákvæða þróun háskólasamfélagsins og hafa lagt fram þrjár tillögur í umhverfis- og skipulagsráði sem miða að því að skapa öruggara og notendavænna háskólasvæði.

Bættar almenningssamgöngur frá Háskóla Íslands að lágvöruverslun

Í fyrsta lagi, leggur Framsókn til að því verði beint til Strætó að leiðakerfinu verði breytt þannig að það tryggi aðgengi stúdenta sem búa á stúdentagörðum við Háskóla Íslands að lágvöruverslunum við Granda. Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur kallað eftir bættum almenningssamgöngum og að almenningssamgöngur séu raunhæfur valkostur fyrir stúdenta.

Í dag eru almenningssamgöngur við stúdentagarða Félagsstofnunar Stúdenta við Háskóla Íslands ótengdar við lágvöruverslanir. Íbúar svæðisins sækja ýmsa verslun og þjónustu á Granda en þar eru meðal annars staðsettar lágvöruverslanir. Hið sama á við íbúa Vesturbæjar en í því hverfi er ekki rekin lágvöruverslun. Breyting á leiðakerfi strætó á þann veg að strætó stoppi í nálægð við Háskóla Íslands og fari út á Granda myndi bæta aðgengi íbúa svæðisins að þeim verslunarkjarna sem þar hefur byggst upp. Mikilvægt er að bæta aðgengi stúdenta að lágvöruverslun enda er það hópur sem að jafnaði er lágtekjuhópur. Einnig er vert að taka fram að sá hópur sem ferðast minnst með bíl er á aldrinum 18-24 ára en það er jafnframt sá aldurshópur sem ferðast mest með almenningssamgöngum í Reykjavíkurborg samkvæmt ferðavenjukönnun sem gerð var árið 2024. Ef horft er til búsetu kemur þá fram að íbúar Mið- og Vesturbæjar eru ólíklegastir til að ferðast með bíl en líklegastir til að ferðast með almenningssamgöngum samkvæmt sömu könnun.

Bætt strætóskýli við Háskóla Íslands

Í öðru lagi, leggur Framsókn til að umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar verið falið að vinna tillögur að bættum strætóskýlum við Háskóla Íslands með það að markmiði að bæta upplifun á almenningssamgöngum. Lagt er til að sviðið kanni sérstaklega hvort mögulegt er að hafa þau upphituð á meðan strætó gengur og þannig uppsett að þau veiti aukið skjól frá veðri og vindum. Þá leggjum við áherslu á að í þeirri vinnu verði haft samráð við Stúdentaráð Háskóla Íslands. Íslenskt veðurfar er krefjandi og því er mikilvægt að strætóskýli veiti skjól gegn veðri og vindum á meðan beðið er eftir strætó. Við Háskóla Íslands eru nokkur strætóskýli sem eru mikið notuð af stúdentum sem bíða eftir næsta strætó. Á árum áður var strætóskýli við Háskóla Íslands við Hringbraut upphitað en því var hætt fyrir þó nokkru síðan. Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur kallað eftir því að Reykjavíkurborg komi upp upphituðum og skjólgóðum strætóskýlum á Háskólasvæðinu en Stúdentaráð telur að upphituð skýli myndu bæta upplifun stúdenta á almenningssamgöngum og stuðla að frekari notkun þeirra.

Undirgöng á gatnamótum Sæmundargötu og Hringbrautar

Í þriðja lagi, leggur Framsókn til að umhverfis- og skipulagssvið hefji, í samstarfi við Vegagerðina, skipulagningu á undirgöngum undir Hringbraut við gatnamót Sæmundargötu og Hringbrautar. Stúdentaráð hefur kallað eftir auknu öryggi fyrir gangandi vegfarendur við gatnamótin þar sem mikill fjöldi nemenda styttir sér leið yfir Hringbraut á þessum stað. Undirgöng myndu bæði auka öryggi og bæta tengingu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem eru á leið frá Háskóla Íslands í átt að miðbænum. Meirihlutinn hefur hins vegar lagt til að þar verði skipulögð þverun og umferðarljósum komið upp. Slík útfærsla myndi bitna á flæði bílaumferðar inn í Vesturbæ Reykjavíkur og á Seltjarnarnes. Auk þess hefur lögreglan sett sig á móti gönguljósum á þessum stað. Tillagan er því lögð fram til að koma til móts við kröfur stúdenta um göngu- og hjólaleið við gatnamótin og auka öryggi vegfaranda, án þess að það bitni á flæði umferðar.

Við tökum vel á móti öllum ábendingum sem stuðla að bættu skipulagi svæðisins sem og annara svæða í borginni og hvetjum íbúa til að hafa samband við okkur eða borgina í gegnum ábendingavef Reykjavíkurborgar, https://reykjavik.is/abendingar

Aðalsteinn Haukur Sverrisson og Magnea Gná Jóhannsdóttir eru borgarfulltrúar Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Lækkar erfitt aðgengi að húsnæði fæðingartíðni?

Deila grein

27/03/2025

Lækkar erfitt aðgengi að húsnæði fæðingartíðni?

Ein helsta frétt síðustu viku á Íslandi var sú að frjó­semi hef­ur aldrei verið lægri frá upp­hafi mæl­inga árið 1853. Yf­ir­leitt er miðað við að frjó­semi þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mann­fjölda til lengri tíma litið. Árið 2024 var frjó­semi kvenna bú­settra á Íslandi kom­in niður í 1,56.

Svipaða þróun má sjá víða á Norður­lönd­um. Árið 2023 var fjöldi lif­andi fæddra barna á hverja konu rúm­lega 1,4 í Svíþjóð, Nor­egi og Dan­mörku, en í Finn­landi fór tal­an niður í 1,26. Enn verri er staðan í Suður-Kór­eu, þar sem frjó­semi mæld­ist 0,75 – þó með ör­lít­illi hækk­un árið 2024.

Lækk­andi fæðing­artíðni er mikið áhyggju­efni og veld­ur marg­vís­leg­um áskor­un­um fyr­ir sam­fé­lagið. Færri eru á vinnu­markaðnum og það dreg­ur úr hag­vexti og ný­sköp­un. Að sama skapi eykst hlut­fall eldri borg­ara, sem býr til þrýst­ing á vel­ferðar­kerfið. Inn­lend eft­ir­spurn minnk­ar, sér­stak­lega í þjón­ustu­geir­an­um og á fast­eigna­markaði. Staðan er sú að ef ekki tekst að mæta þess­ari þróun, þá get­ur skap­ast nei­kvæð hringrás sem leiðir til lak­ari lífs­gæða.

Ísland hef­ur lengi haft stefnu sem styður við barneign­ir, t.d. með öfl­ugu leik­skóla­kerfi, fæðing­ar­or­lofi fyr­ir báða for­eldra og barna­bót­um. En sam­kvæmt nýj­ustu lýðfræðigögn­um duga þessi úrræði ekki leng­ur til. Leik­skóla­kerfið ræður ekki leng­ur við eft­ir­spurn­ina og önn­ur úrræði hafa dreg­ist sam­an. Þetta er al­var­legt og brýnt er að finna nýj­ar leiðir til að bregðast við.

Í áhuga­verðum grein­ing­um mann­fjölda­fræðings­ins Lym­ans Stones kem­ur fram að hús­næðismál skipta sköp­um þegar kem­ur að lækk­andi fæðing­artíðni í Banda­ríkj­un­um. Hús­næði veit­ir ákveðinn stöðug­leika og er oft for­senda fjöl­skyldu­mynd­un­ar. Ef ungt fólk á erfitt með að kom­ast inn á hús­næðismarkað – eða ef láns­kjör eru óhag­stæð – minnka lík­urn­ar á því að fólk stofni fjöl­skyld­ur. Þetta á ekki síður við hér á Íslandi.

Eitt mik­il­væg­asta verk­efni okk­ar til framtíðar er að stíga ákveðnari skref í að gera Ísland að fjöl­skyldu­vænu sam­fé­lagi. Stjórn­völd og at­vinnu­líf þurfa að vinna sam­an að því mark­miði, því framtíð lífs­kjara þjóðar­inn­ar er í húfi.

Svarið við spurn­ing­unni hér að ofan er ein­falt: Já!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Hamingjuóskir Valgerður!

Deila grein

24/03/2025

Hamingjuóskir Valgerður!

Valgerður Sverrisdóttir hefur sett sterkan svip á íslensk stjórnmál sem alþingismaður, ráðherra og formaður Framsóknarflokksins. Hún fæddist þann 23. mars árið 1950 á Lómatjörn í Grýtubakkahreppi í Eyjafirði. Á ferli sínum hefur Valgerður brotið blað í sögu íslenskra stjórnmála, ekki síst sem ein fárra kvenna sem komust til áhrifa innan karllægs umhverfis stjórnmálanna á seinni hluta 20. aldarinnar.

Valgerður tók sæti á Alþingi árið 1987 fyrir Framsóknarflokkinn og sat samfleytt sem þingmaður Norðurlands eystra og síðar Norðausturkjördæmis allt fram til ársins 2009. Valgerður var formaður þingflokks Framsóknarflokksins frá 1995-1999. Hún varð fyrsta konan til að gegna embætti iðnaðarráðherra árið 1999, en hún gegndi embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra til ársins 2006 og síðar utanríkisráðherra, fyrst kvenna, frá 2006 til 2007. Með þessum embættisverkum ruddi hún brautina fyrir konur í íslenskum stjórnmálum og var fyrirmynd margra sem á eftir komu.

Árið 2007 tók Valgerður við formennsku í Framsóknarflokknum tímabundið og varð þar með ein fárra kvenna til að leiða íslenskan stjórnmálaflokk og fyrsta og eina konan til þessa að  sinna því embætti.  

Þótt formannstíð hennar hafi ekki verið löng markaði hún skýr spor í  jafnréttisbaráttu og hvatti til aukinnar þátttöku kvenna í stjórnmálum og stjórnunarstöðum. Áhersla  Valgerðar á málaflokka jafnréttis, félagslegra umbóta og eflingu atvinnulífs á landsbyggðinni hefur  skapað henni sess sem áhrifaríkum leiðtoga og rödd dreifðra byggða. Hún hefur einnig tekið þátt í  alþjóðlegu samstarfi og komið fram sem málsvari Íslands á erlendum vettvangi, þar sem hún kynnti  stöðu íslenskra kvenna og hvatti til aukinnar þátttöku kvenna í stjórnmálum víða um heim. Með þátttöku sinni í slíkum verkefnum hefur Valgerður orðið fyrirmynd ekki aðeins fyrir íslenskar konur  heldur einnig alþjóðlega.

Valgerður Sverrisdóttir hefur með störfum sínum sýnt fram á að það er hægt að brjóta múra og ryðja brautina fyrir aukið jafnrétti í stjórnmálum. Hún hefur talað opinskátt um hindranir sem konur hafa mætt á ferlinum og varpað ljósi á hvernig kerfisbreytingar eru nauðsynlegar til að tryggja raunverulegt jafnrétti kynjanna. Þótt Valgerður hafi dregið sig til baka frá virkri stjórnmálaþátttöku heldur hún áfram að tala fyrir jafnrétti og betri stöðu kvenna í samfélaginu. Framlag hennar er vitnisburður um mikilvægi þess að konur séu sýnilegar og virkir þátttakendur í opinberu lífi. Saga hennar minnir okkur á mikilvægi þess að standa vörð um jafnrétti kynjanna og halda áfram þeirri baráttu sem hún tók þátt í að móta og leiða.

Valgerður fagnar um þessar mundir 75 ára afmæli sínu. Fyrir hönd sambands kvenna í Framsókn sendi ég henni kærar kveðjur af tilefninu og um leið innilegar þakkir fyrir sitt mikilvæga framlag til íslenskra stjórnmála og þátttöku kvenna í stjórnmálum. 

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, formaður Kvenna í Framsókn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. mars 2025.

Mynd: Alþingi.

Categories
Fréttir Greinar

Blindflug eða langtímasýn?

Deila grein

22/03/2025

Blindflug eða langtímasýn?

Skýrsla fjár­málaráðherra um lang­tíma­horf­ur í efna­hags- og op­in­ber­um fjár­mál­um var birt á dög­un­um. Skýrsl­an er mik­il­væg und­ir­staða fyr­ir umræður á Alþingi um efna­hags­mál þjóðar­inn­ar og stuðlar að betri yf­ir­sýn yfir áskor­an­ir í fjár­mál­um hins op­in­bera. Í því sam­hengi er mik­il­vægt að hafa í huga að fjár­mála­stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar, sem brátt verður lögð fram á Alþingi, verður að taka eins og kost­ur er mið af þeim áskor­un­um sem við stönd­um frammi fyr­ir til lengri tíma. Svo er þó ekki.

Eng­in innviðaskuld?

Í fyrsta lagi er í skýrslu fjár­málaráðherra lítið sem ekk­ert fjallað um svo­kallaða innviðaskuld og hina tíma­bæru upp­bygg­ingu innviða sem mun óhjá­kvæmi­lega standa yfir næstu ár og jafn­vel ára­tugi. Þessi upp­bygg­ing mun kosta tugi millj­arða króna á ári ef vel á að vera. Vandað mat á þróun út­gjalda vegna átaks í innviðaupp­bygg­ingu er grund­vallar­for­senda þess að hægt sé að leggja raun­hæft mat á þróun efna­hags­mála og op­in­berra fjár­mála.

Eng­in veru­leg aukn­ing út­gjalda til varn­ar- eða ör­ygg­is­mála?

Í öðru lagi fjall­ar skýrsl­an á eng­an hátt um hugs­an­lega aukn­ingu út­gjalda til varn­ar- og ör­ygg­is­mála, sem flest Evr­ópu­ríki standa nú frammi fyr­ir. Útgjöld Íslands til varn­ar­mála gætu hæg­lega numið allt að 2% af lands­fram­leiðslu ár hvert, og jafn­vel meira, verði sama þróun hér­lend­is og í öðrum lönd­um Evr­ópu. Hér gæti verið um tug­millj­arða króna viðbótar­út­gjöld að ræða og mik­il­vægt að bún­ar séu til sviðsmynd­ir um áhrif þeirra næstu ár og ára­tugi. Vissu­lega er erfitt að spá fyr­ir um þróun alþjóðamála í þessu ljósi, en eini til­gang­ur skýrslu um lang­tíma­horf­ur í efna­hags­mál­um er ein­mitt sá að tryggja yf­ir­sýn og stuðla að umræðum um hugs­an­leg­ar (og meiri­hátt­ar) áskor­an­ir næstu ára og ára­tuga.

Eng­in óvissa í tolla­mál­um?

Í þriðja lagi rík­ir veru­leg óvissa um þróun tolla­mála og alþjóðlegra viðskipta. Skýrsl­an fjall­ar að ein­hverju leyti um aukna spennu í sam­skipt­um ríkja, tolla­stríð og mynd­un nýrra viðskipta­blokka. Þá má halda því fram að þróun tolla­mála varði einkum hags­muni til skemmri tíma. Það blas­ir þó við að lands­lag alþjóðaviðskipta hef­ur breyst, meiri hátt­ar óvissa rík­ir um framtíð alþjóðaviðskipta og stór­fyr­ir­tæki um all­an heim eru þegar far­in að end­ur­hugsa fram­leiðsluaðferðir og stjórn­un virðiskeðja.

Skemmti­efni?

Gerð skýrslu um lang­tíma­horf­ur í efna­hags­mál­um er eðli máls­ins sam­kvæmt krefj­andi og vanda­samt verk. Til­gang­ur­inn er þó ekki sá einn að búa til al­menna og fræðilega um­fjöll­un, ein­hvers kon­ar skemmti­efni, held­ur að skapa traust­an grunn fyr­ir ákv­arðanir Alþing­is og rík­is­stjórn­ar við mót­un hag­stjórn­ar og þróun fjár­mála hins op­in­bera.

Í of­an­greindu ljósi er ekki annað hægt en að draga í efa for­send­ur og nyt­semi skýrslu fjár­mála- og efna­hags­ráðherra um lang­tíma­horf­ur í efna­hags­mál­um og op­in­ber­um fjár­mál­um.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fjármálaráðherra á villigötum

Deila grein

20/03/2025

Fjármálaráðherra á villigötum

Það fel­ast gríðarleg tæki­færi fyr­ir íbúðar­kaup­end­ur í því að fjár­mála­fyr­ir­tæki geti boðið fram löng óverðtryggð lán á föst­um vöxt­um. Nú er kom­in fram skýrsla dr. Jóns Helga Eg­ils­son­ar sem skýr­ir for­send­ur og fyr­ir­mynd­ir frá öðrum lönd­um.

Það er miður að fjár­málaráðherra hafi kosið að mistúlka hluta niðurstaðna skýrslu um leiðir til að bæta láns­kjör á ís­lensk­um hús­næðismarkaði með þeim hætti sem hann hef­ur gert op­in­ber­lega.

Skýrsl­an er mjög skýr: Hún set­ur fram sex til­lög­ur til að bæta kjör íbúðalána og að strax verði ráðist í að hrinda þeim í fram­kvæmd. Ráðherra hef­ur valið að hafna því á þeim for­send­um að til­laga um að efla markað með vaxta­skipta­samn­inga sé áhættu­söm fyr­ir ríkið og líkt við Íbúðalána­sjóð! Með því að efla markað með vaxta­skipta­samn­inga geta aðilar á markaði bætt eig­in fjár­stýr­ingu. Þetta er þekkt og viður­kennd aðferð í lönd­un­um í kring­um okk­ur og hef­ur sannað sig í að nýt­ast bæði bönk­um, fyr­ir­tækj­um og einnig við fjár­stýr­ingu rík­is­sjóða. Sem dæmi er markaður með vaxta­skipta­samn­inga í Nor­egi og Svíþjóð mik­il­væg for­senda þess að bank­ar geta boðið hag­kvæm íbúðalán á föst­um vöxt­um til langs tíma. Rík­is­sjóðir landa nýta vaxta­skipta­samn­inga í sinni fjár­stýr­ingu. Rík­is­sjóður Íslands hef­ur um ára­bil nýtt vaxta­skipta­samn­inga í sinni fjár­stýr­ingu en get­ur notið þess í aukn­um mæli ef um­gjörð þessa markaðar verður bætt, eins og lagt er til í skýrsl­unni.

Vaxta­skipta­markaðir í lönd­un­um í kring­um okk­ur gera bönk­um kleift að bjóða lán með föst­um vöxt­um til lengri tíma en þeir ella gætu. Rík­is­sjóður get­ur lagað fjár­mögn­un að sín­um þörf­um á hag­kvæm­ari kjör­um. Báðir aðilar njóta hag­kvæmni.

Það er því óviðeig­andi og vill­andi að fjár­málaráðherra tengi til­lög­ur um vaxta­skipta­samn­inga við reynsl­una af Íbúðalána­sjóði! Þetta eru al­ger­lega ótengd mál og eiga ekk­ert sam­eig­in­legt. Vaxta­skipta­samn­ing­ar eru nýtt­ir út um all­an heim af fyr­ir­tækj­um, bönk­um og líf­eyr­is­sjóðum sem verk­færi í fjár­stýr­ingu til að draga úr áhættu og bæta kjör – ekki til þess að auka hana eins og fjár­málaráðherra virðist halda.

Í ljósi svara ráðherra er vert að velta upp hvort um sé að ræða vanþekk­ingu eða póli­tísk­an út­úr­snún­ing til að ýta und­ir stefnu Viðreisn­ar um ESB-aðild, sem oft er sögð nauðsyn­leg til að bæta láns­kjör al­menn­ings á Íslandi. Skýrsl­an sýn­ir þvert á móti að bæta má láns­kjör á Íslandi án þess að ganga í ESB. Spurn­ing­in sem vakn­ar er hvort það sé það sem raun­veru­lega fer fyr­ir brjóstið á ráðherra.

Það er brýnt að umræðan sé byggð á staðreynd­um og fag­legri þekk­ingu, ekki póli­tísk­um út­úr­snún­ing­um eða röng­um sam­an­b­urði sem get­ur villt fyr­ir og hindrað að hægt sé að bæta láns­kjör fyr­ir al­menn­ing.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Sýnum yfirvegun

Deila grein

20/03/2025

Sýnum yfirvegun

Sjálf­stæði, sterk staða Íslands í alþjóðakerf­inu og mik­il verðmæta­sköp­un hafa frá stofn­un lýðveld­is­ins tryggt þjóðinni góð lífs­kjör. Mik­il­vægt skref var stigið árið 1949 þegar Ísland gerðist stofnaðili að Atlants­hafs­banda­lag­inu (NATO). Þar sem Ísland er herlaust ríki og gat ekki varið sig sjálft, leiddi aðild­in meðal ann­ars til varn­ar­samn­ings Íslands og Banda­ríkj­anna árið 1951.

Á þeim tíma var varn­ar­leysi lands­ins talið ógna ekki aðeins ör­yggi þess sjálfs held­ur einnig friði og stöðug­leika í ná­granna­ríkj­um, eins og fram kem­ur í samn­ingn­um. Með festu og fram­sýni tryggðu ís­lensk stjórn­völd að hér á landi væri aðstaða til að sinna vörn­um og þannig varðveita frið og ör­yggi á svæðinu. Í ljósi þeirr­ar óvissu sem rík­ir í alþjóðamál­um þessi dægrin hafa ýms­ir haldið því fram að flýta eigi þjóðar­at­kvæðagreiðslu um að end­ur­vekja aðild­ar­viðræður við Evr­ópu­sam­bandið. Sum­ir telja að Ísland þurfi á aðild að halda til að tryggja varn­ir sín­ar.

Þessi rök stand­ast ekki og eru vara­söm. Ég minni á að ESB-rík­in, Finn­land og Svíþjóð, gerðust ný­verið aðilar að Atlants­hafs­banda­lag­inu vegna þess að þau töldu varn­ir Evr­ópu­sam­bands­ins ófull­nægj­andi. Þeir sem vilja Ísland inn í Evr­ópu­sam­bandið telja að slík aðild sé nauðsyn­leg vegna stefnu Banda­ríkj­anna, en með því eru þeir reiðubún­ir að fórna sjálf­stæði þjóðar­inn­ar og yf­ir­ráðum henn­ar yfir eig­in auðlind­um. Ég vara ein­dregið við þess­ari nálg­un. Óvissa í alþjóðakerf­inu er vissu­lega óþægi­leg og krefst þess að stjórn­völd leggi mikið á sig til að tryggja stöðu þjóðar­inn­ar. Hins veg­ar er ekki ástæða til þess að gera rót­tæk­ar breyt­ing­ar á ut­an­rík­is­stefnu Íslands. Þessi ákvörðun, ef til henn­ar kæmi, yrði sú stærsta sem Íslend­ing­ar hafa tekið í ut­an­rík­is­mál­um frá lýðveld­is­stofn­un.

Slíkt skref ber að stíga af yf­ir­veg­un og með heild­ar­hags­muna­mat að baki, ekki í fljót­færni vegna von­andi tíma­bund­inn­ar óvissu í alþjóðastjórn­mál­um. Þeir sem vilja hraða at­kvæðagreiðslu án nauðsyn­legr­ar umræðu og grein­ing­ar virða ekki lýðræðis­legt fyr­ir­komu­lag, spor­in hræða svo sann­ar­lega. Evr­ópu­sam­bands­sinn­ar eru hér að nýta sér óvissu vegna Trump-stjórn­ar­inn­ar, en við eig­um hvorki að láta Banda­rík­in né Evr­ópu stýra stefnu Íslands.

Hags­mun­ir Íslands eiga að vera í for­gangi. Rök­semd­ir Evr­ópu­sam­bands­sinna byggj­ast því miður á því að ala á ótta og óör­yggi. Slík nálg­un hef­ur aldrei skilað góðum ár­angri þegar mikl­ir þjóðar­hags­mun­ir eru í húfi, sér­stak­lega varðandi yf­ir­ráð yfir auðlind­um Íslands. Ísland hef­ur átt far­sælt sam­starf við Banda­rík­in allt frá stofn­un lýðveld­is­ins, auk þess sem frjáls viðskipti okk­ar inn­an EES-samn­ings­ins hafa skilað mik­illi verðmæta­sköp­un og góðum lífs­kjör­um. Það er skyn­sam­leg­asta leiðin áfram.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. mars 2025.

Categories
Greinar

Byggð á Geldinga­nesi?

Deila grein

20/03/2025

Byggð á Geldinga­nesi?

Nýr meirihluti borgarinnar virðist ætla að friðþægja Flokk fólksins sem hefur talað fyrir því að ryðja nýtt land með því að vísa uppbyggingu á Geldinganesi í nefnd. Raunverulegur áhugi á uppbyggingu virðist takmarkaður þrátt fyrir yfirlýsingar um mikil uppbyggingaráform.

Tímabært að taka ákvörðun

Það er mikið fagnaðarefni að vinna við valkostagreiningu um legu Sundabrautar er langt komin. Nú liggur því fyrir að taka þarf ákvörðun um hvar Sundabraut fari yfir Geldinganes og hvernig mislæg gatnamót á Geldinganesi verði hönnuð. Ýmsar gerðir mislægra gatnamóta koma til greina en ef skipuleggja á byggð á Geldinganesi er mikilvægt að hönnun gatnamóta anni umferð og að tryggt verði að hjóla- og gönguleiðir séu hannaðar samhliða. Í ört vaxandi borg er aukinheldur þörf á að huga að framtíðar byggingarlandi.

Framsókn lagði fram tillögu þess efnis að fela umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar að hefja skipulagsferli vegna húsnæðisuppbyggingar á Geldinganesi með áherslu á íbúðauppbyggingu.

Vísað beint í nefnd

Áhugavert var að hlusta á málflutning meirihlutans þegar málið var til umræðu á fundi borgarstjórnar. Meirihlutinn sagðist vilja byggja á Geldinganesi en samþykkti samt ekki tillöguna. Í staðinn vísa þau tillögunni til afgreiðslu í umhverfis- og skipulagsráði. Þau segja það vera vegna þess að meirihlutinn vill ekki að tillagan fái flýtimeðferð. Miðað við núgildandi áætlanir verður Sundabraut ekki tekin í gagnið fyrr en í fyrsta lagi árið 2032. Tillaga Framsóknar gerði ekki ráð fyrir sérstakri flýtimeðferð á skipulagi á Geldinganesi. Hins vegar þarf að hanna Sundabraut þannig að hún taki mið af íbúðauppbyggingu ef Reykjavíkurborg ætlar að skipuleggja þar byggð í framtíðinni. Sennilegri skýring á málsmeðferð meirihlutans er að þeir fimm flokkar sem mynda vinstri meirihlutann í Reykjavík eru ekki allir sammála um endanlega niðurstöðu málsins. Enginn vilji var til að ræða uppbyggingu á Geldinganesi í síðasta meirihluta og áhugi á uppbyggingu í Úlfarsárdal lítill. Með semingi var uppbygging í Úlfarsárdal samþykkt inn í síðasta meirihlutasáttmála og sennilega þann nýja líka.

Enn á eftir að ákveða hvort byggja eigi á Geldinganesi. Það er brýnt að ákvörðun um það liggi fyrir sem fyrst enda ljóst að um þannig mannvirki er að ræða þegar kemur að Sundabraut að því verður ekki auðveldlega breytt eftir á.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ræktum fram­tíðina: Ungt fólk og mat­væla­fram­leiðsla

Deila grein

20/03/2025

Ræktum fram­tíðina: Ungt fólk og mat­væla­fram­leiðsla

Það er kominn tími til að hugsa upp á nýtt hvernig við stuðlum að nýsköpun og nýliðun á landsbyggðinni. Hugmyndin um „Nýjar rætur“ er liður í þessu. Með þessari hugmynd er komið til móts við ungt fólk sem vill hefja matvælaframleiðslu, fóðurframleiðslu eða skógrækt.

Kaupréttur til fimm ára

Hugmyndin er á þá leið að t.d. Byggðastofnun, fyrir hönd ríkissjóðs, geti gengið inn í kauptilboð einstaklings (yngri en 45 ára) í jörð, sem seljandi jarðarinnar hefur þegar samþykkt. Gangi allt eftir, verður ríkissjóður tímabundið eigandi jarðarinnar, en upphaflegur tilboðsgjafi (nýliðinn) eignast kauprétt í jörðinni að fimm árum liðnum. Á þessum fimm árum fær nýliðinn tækifæri til að byggja upp þekkingu, stunda framleiðslu og eignast fjármagn til þess svo að nýta sér kaupréttinn og verða eigandi jarðarinnar.

Ríkissjóður (Byggðastofnun) og leigutaki (nýliðinn) gera því næst samning um afnot af jörðinni og kauprétt. Kaupréttur nýliðans er jafnframt algert grundvallaratriði, enda miðast hugmyndin við að jarðnæði á Íslandi sé í einkaeigu, eins og frekast er unnt.

Forsenda matvælaframleiðslu á Íslandi að nýliðun og nýsköpun sé tryggð

Augljós markaðsbrestur

Hugmyndinni er ætlað að leiðrétta augljósan markaðsbrest á lánsfjármarkaði. Forsenda matvælaframleiðslu, og skógræktar, er vitanlega jörð, land eða skiki, sem ungt fólk á erfitt með að fjármagna.

Skilyrði kaupréttar verða vitanlega mörg. Framkvæma þarf ítarlega áreiðanleikakönnun áður en ríkissjóður gengur inn í kauptilboð, til að tryggja að áhætta ríkissjóðs sé í algjöru lágmarki. Leigutaki fær fimm ár til að byggja upp verðmæti og skapa nýjungar í sjálfbærri matvælaframleiðslu, nú eða skógrækt áður en ákvörðun er tekin um að virkja kaupréttarákvæðið.

Lítið skref í rétta átt

Fyrirkomulagið mun aðeins ná til afmarkaðs fjölda jarða, sem uppfylla ströng skilyrði um sjálfbæra landnýtingu, nýsköpun, nýliðun og nýtingar tækni eins og gervigreindar, þar sem það á við. Óþarfi er annars að fjalla á þessu stigi um tæknileg atriði, sem skyggja á megintilgang hugmyndarinnar.

Hagsmunir ríkisins eru tryggðir til fulls þar sem jarðirnar eru keyptar á markaðsforsendum og eru líklegar til að hækka í verði yfir tíma. Þannig eignast ríkið – og þar með almenningur – verðmæti til framtíðar. Sérstök skilyrði verða um nýtingu fasteigna s.s. bygginga á jörðinni.

Þá leiðir hugmyndin til þess að hugað verði að betri nýtingu ríkisjarða og þjóðlendna um allt land.

Nýjar rætur

„Nýjar rætur“ stuðla að því að landið sé í virkri rækt, byggðir styrkist um og ungu fólki sé umfram allt gefið raunhæft tækifæri til verðmætasköpunar.

Nú er tími til kominn að við ræktum saman framtíðina og gefum ungu fólki möguleika, sem í dag eru nánast ekki til staðar, nema fyrir efnameiri einstaklinga eða fyrirtæki.

Matvælaöryggi, auðlindir og tapaðar jarðir

Í ljósi óvissu í alþjóðamálum og auknu mikilvægi fæðuöryggis, sem flestar Evrópuþjóðir stefna að, verðskuldar hugmyndin umræðu.

Þá er staðreyndin sú að jarðir Íslands geyma auðlindir, sem við erum smám saman að missa úr landi, svo að segja. Erlendir aðilar eiga nú þegar fjöldann allan af dýrmætum jörðum, sem í sumum tilvikum eru notaðar til að flytja jarðefni til útlanda. Hjörleifshöfði í Mýrdalshreppi er dæmi um slíkt og er raunar sorgarsaga, enda jörðin keypt fyrir ígildi þriggja íbúða í Reykjavík. Aðrar jarðir landsins geyma t.a.m. rétt til lax- og silungsveiði, jarðhita eða nýtingar grunnvatns í stórum stíl, sem í mörgum tilvikum eru á hendi erlendra ríkisborgara.

Ný hugsun

Hugmyndinni að „Nýjum rótum“ er hvorki ætlað að koma í veg fyrir erlenda fjárfestingu eða kaup erlendra aðila á landi til búseti til skemmri eða lengri tíma. Henni er einfaldlega ætlað að taka á æpandi skorti á nýliðun og nýsköpun í matvælaframleiðslu og varða leiðina að aukinni verðmætasköpun á landsbyggðinni.

Auk „nýrra róta“ þarf að taka fleiri skref. Þannig þarf að skerpa á stefnumótun og áherslum við nýtingu þjóðlendna og ríkisjarða, svo kynnt verða síðar.

Ræktum framtíðina.

Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi og þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. mars 2025.

Categories
Greinar

Verður Frelsið full­veldinu að bráð?

Deila grein

16/03/2025

Verður Frelsið full­veldinu að bráð?

Viðreisn hefur ítrekað talað fyrir frelsi og lýst sig sem flokkur sem berst fyrir opnu, frjálsu þjóðfélagi. Flokkurinn hefur þó jafnframt sett Evrópusambandsaðild á oddinn í sínum málflutningi og telur hana nauðsynlega fyrir framtíð Íslands. En hver er raunveruleg merking frelsis í þeirra huga? Getur Ísland verið frjálst og fullvalda innan Evrópusambandsins, eða felst í þeirri stefnu ákveðin mótsögn?

Viðreisn og Evrópusambandið – frelsi eða fjötrar?

Viðreisn leggur áherslu á mikilvægi þess að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu til að tryggja viðskiptafrelsi og stöðugleika. Það er auðvitað gild röksemd að aðgangur að stærri mörkuðum geti haft efnahagslega kosti, en er verðmiðinn á slíku aðildarferli ekki of hár?

Evrópusambandið er ekki bara viðskiptasamfélag það er pólitískt valdakerfi sem hefur stöðugt verið að auka yfirráð sín yfir aðildarríkjum þess. Með inngöngu í sambandið myndi Ísland þurfa að lúta ákvörðunum framkvæmdastjórnar ESB, þar sem íslensk stjórnvöld hefðu hverfandi áhrif á stefnumótun og lagasetningu. Hvar er þá frelsið sem Viðreisn talar fyrir?

Ísland nýtur nú þegar aðgangs að mörkuðum Evrópu í gegnum EES-samninginn, en samt heldur landið fullveldi sínu og sjálfstæði í ýmsum mikilvægum málaflokkum. Það að afhenda Evrópusambandinu stjórnun yfir íslenskum málefnum, eins og sjávarútvegi, landbúnaði og gjaldmiðli, myndi takmarka getu okkar til að taka sjálfstæðar ákvarðanir.

Fullveldi er forsenda raunverulegs frelsis

Viðreisn virðist vilja skilgreina frelsi fyrst og fremst í ljósi viðskipta og efnahagslegs samstarfs. En frelsi er ekki aðeins efnahagslegt það er einnig pólitískt og menningarlegt. Ísland hefur byggt upp sjálfstæði sitt og fullveldi í meira en 100 ár, eftir harða baráttu fyrir því að ráða eigin örlögum. Að fórna þessu sjálfstæði í nafni frjálshyggju er ekki frelsi heldur fjötrar. Hefur núverandi Ríkisstjórn gleymt þeim atburðum sem áttu sér stað á Þingvöllum að Lögbergi við Öxará 17.júní 1944 ?

Við í Framsókn teljum að hið raunverulega frelsi sé að vera fullvalda ríki. Sjálfstætt Ísland hefur sannað getu sína til að blómstra án þess að lúta yfirþjóðlegu valdi. Aðild að ESB myndi grafa undan þessari getu og veikja stöðu okkar sem sjálfstæðs ríkis.

Framtíð Íslands – utan ESB

Sjálfstætt Ísland hefur sýnt að það getur blómstrað án aðildar að Evrópusambandinu. Við höfum sveigjanleika til að laga okkur að breytingum, sjálfstæða stefnu í atvinnuvegum og getu til að verja hagsmuni okkar án þess að lúta yfirþjóðlegu valdi.

Ef frelsi er virkilega forgangsmál, eins og Viðreisn heldur fram, ætti flokkurinn þá ekki að horfa á leiðir til að styrkja fullveldi Íslands frekar en að selja það undir yfirráð evrópskra embættismanna?

Sannkallað frelsi er að geta sjálfur tekið ákvarðanir um framtíð sína. Ísland hefur staðið vörð um það frelsi í áratugi. Fullveldi og frelsi eru samofin – annað getur ekki verið án hins. Við skulum áfram standa saman sem sjálfstæð þjóð, verja arfleifð okkar og tryggja að komandi kynslóðir megi njóta sama frelsis og forfeður okkar börðust svo hart fyrir.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Orkuöryggi almennings er forgangsmál

Deila grein

15/03/2025

Orkuöryggi almennings er forgangsmál

Hver hefði trúað því fyr­ir aðeins nokkr­um miss­er­um að orku­ör­yggi al­menn­ings á Íslandi yrði mál mál­anna? En þannig er staðan á Íslandi í dag.

Hinn 13. mars sl. lagði ég fram til­lögu til þings­álykt­un­ar um að tryggja orku­ör­yggi al­menn­ings. Orku­ör­yggi al­menn­ings verður að vera eitt af for­gangs­mál­um Alþing­is. Það er fátt sem skipt­ir meira máli fyr­ir lífs­gæði lands­manna en ör­uggt aðgengi að raf­orku á hag­kvæmu verði.

Við höf­um nú orðið vitni að mestu hækk­un­um á raf­orku­verði til al­menn­ings í ára­tugi, og þess­ar hækk­an­ir eru alls ekki vegna skorts á raf­orku. Skýr­ing­in ligg­ur í reglu­verki sem vernd­ar ekki venju­lega not­end­ur, okk­ur al­menn­ing. Hér áður fyrr var þessi laga­lega vörn skýr og Lands­virkj­un gegndi því hlut­verki að tryggja orku­ör­yggi heim­ila. Með nýrri orku­lög­gjöf var þessi for­gang­ur felld­ur niður, án þess að koma í stað annarra úrræða sem styðja við okk­ur sem not­um inn­an við fimmt­ung raf­orku­fram­leiðslunn­ar.

Heim­il­in, ein­stak­ling­ar í rekstri og minni fyr­ir­tæki mega ekki lenda í sam­keppni við stór­not­end­ur sem eru með trausta lang­tíma­samn­inga, á sama tíma og við hin, al­menn­ing­ur og minni fyr­ir­tæki, erum varn­ar­laus fyr­ir hækk­un­um.

Eft­ir­spurn eft­ir end­ur­nýj­an­legri orku eykst stöðugt bæði hér­lend­is og er­lend­is, og í dag er ekk­ert sem kem­ur í veg fyr­ir að stærri aðilar bjóði ein­fald­lega hærra verð í ork­una en al­menn­ing­ur get­ur staðið und­ir. Þetta er óá­sætt­an­leg staða fyr­ir heim­ili, bænd­ur og minni fyr­ir­tæki sem eru upp­spretta fjöl­breyti­leika í at­vinnu­lífi og mik­il­vægt mót­vægi gegn samþjöpp­un valds á markaðnum. Hags­mun­ir þess­ara hópa eru um leið hags­mun­ir lands­byggðar­inn­ar; fólk sem býr á köld­um svæðum og sem þarf raf­orku til upp­hit­un­ar hús­næðis býr við tvö­falda áhættu.

Ég trúi því og treysti að Alþingi lag­færi þetta órétt­læti. Því bind ég von­ir við að um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra und­ir­búi laga­breyt­ing­ar sem tryggi stöðu og hags­muni al­menn­ings. Við þurf­um að tryggja for­gang heim­ila og viðhalda hag­kvæmu raf­orku­verði sem hef­ur verið grund­vall­ar­hluti af lífs­kjör­um lands­manna.

Á sama tíma þurf­um við einnig að taka upp­lýst­ar og ábyrg­ar ákv­arðanir um nýj­ar virkj­an­ir til að styðja við fjöl­breytt­an iðnað og vöxt sam­fé­lags­ins. Það er efni í aðra grein.

Tryggj­um ör­ugga raf­orku til allra lands­manna.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. mars 2025.