Categories
Fréttir Greinar

Þing­menn verða að vita að Lilja segir satt

Deila grein

23/10/2024

Þing­menn verða að vita að Lilja segir satt

Frjáls og virk skoðanaskipti eru grundvöllur hins sterka lýðræðisþjóðfélags sem við búum í. Í gær birtist einmitt áhugaverð skoðanagrein eftir Björn B. Björnsson kvikmyndagerðarmann undir yfirskriftinni Þingmenn verða að vita að Lilja segir ekki satt. Björn fer þar mikinn í umræðunni um Kvikmyndasjóð og meintrar ,,slátrunar‘‘ undirritaðar á sjóðnum þar sem hann rekur hvernig framlög ríkisins til Kvikmyndasjóðs hafa lækkað að undanförnu. Um er að ræða lækkun sem skýrist að stærstum hluta af því að tímabundin framlög sem sett voru í sjóðinn vegna Covid heimsfaraldurs, á grundvelli kvikmyndastefnu fyrir Ísland 2020-2030, eru fallinn niður, líkt og önnur slíkt Covid framlög í öðrum málaflokkum.

Tímabundin framlög eru tímabundin

Björn virðist ekki meðtaka það að tímabundin framlög vegna heimsfaraldurs eru tímabundin framlög ef marka má orð hans: ,,Lilja segir að þessi niðurskurður sé vegna þess að framlög í sjóðinn á árunum 2020 og 2021 hafi verið tímabundin framlög vegna covid. En þetta er því miður ekki satt. Aukin framlög í kvikmyndasjóð á þessum árum komu til vegna nýrrar kvikmyndastefnu sem ætlað var að stórefla greinina – eins og Lilja sagði margoft á þessum tíma í ræðum og riti. Hvergi sagði hún einu orði að þessi framlög væru tímabundin og vegna kóvid – og hvergi er stafkrókur um slíkt í opinberum skjölum.‘‘

Það er hinn eðlilegasti hlutur að berjast fyrir hagsmunum sínum í ræðu og riti, en það hlýtur að vera sanngjörn krafa að fara ekki með staðlausa stafi á þeirri vegferð – sér í lagi áður en menn fara að ásaka aðra um slátranir og lygar. Má ég því til með að benda Birni á þessa fréttatilkynningu frá ráðuneyti mínu þann 8. október 2020 svo dæmi sé tekið, þar sem farið var yfir hluta af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs. Þar stendur skýrum stöfum:

,,Samkvæmt nýrri Kvikmyndastefnu verður 412 milljónum kr. varið til að efla kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð en alls nema framlög vegna nýrrar kvikmyndastefnu 550 milljónum kr. í frumvarpinu. Framlagið er liður í tímabundnu fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar.‘‘

Birni hefði verið í lófa lagið að nenna að leita stundarkorn eftir staðreyndum áður en hann reisti hús sitt á sandi, nema hann hafi einfaldlega kosið að líta fram hjá staðreyndum málsins. Leiðréttist þessi misskilningur og yfirsjón Björns hér með.

Hefur eitthvað verið gert fyrir kvikmyndagerð á Íslandi?

Af lestri greina eins og Björn ritar mætti halda að íslensk menning væri í dauðateygjunum. Því fer víðsfjarri. Staðreynd málsins er sú að mjög margt hefur áunnist á síðastliðnum árum til þess að efla kvikmyndagerð á Íslandi og er ég verulega stolt af því. Raunar er staðan sú að mörgum af þeim aðgerðum sem kynntar voru í kvikmyndastefnu fyrir Ísland 2020-2030 hefur verið hrint til framkvæmdar, og enn eru 6 ár eftir af líftíma hennar. Hér eru nokkur dæmi um það sem hefur verið áorkað.

  • 1,3 milljarði króna, eitt þúsund og þrjú hundruð milljónum króna, hefur verið veitt í tímabundin viðbótarframlög í kvikmyndasjóð frá árinu 2020.
  • Endurgreiðsluhlutfall í kvikmyndagerð var hækkað úr 25% í 35%
  • Velta í kvikmyndagerð hefur stóraukist
  • Fyrstu kvikmyndadeild landsins á háskólastigi við Listaháskóla Íslands var komið á laggirnar. Þar er nú boðið upp á 180 eininga BA nám með kjörsvið í leikstjórn, handritsgerð, framleiðslu, kvikmyndatöku, klippingu eða hljóðtækni.
  • Framlög til náms í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi voru hækkuð
  • Starfslaunasjóður kvikmyndahöfunda verður að veruleika á næsta ári eftir breytingar á lögum um starfslaun listamanna
  • Löggjöf um nýjan fjárfestingarsjóð sjónvarpsefnis ( framleiðslustyrki til lokafjármögnunar) var kláruð
  • Frumvarp um menningarframlag sem unnið hefur verið að er á lokametrunum. Með því yrði lögfest ný skylda á hendur streymisveitum til að greiða fjárframlag, sem rennur til Kvikmyndasjóðs (áætlað allt að 260 m.kr. á ári) eða skyldu til að fjárfesta með beinum hætti í framleiðslu í innlendu hljóð- og myndefni.
  • Efnahagslegt mikilvægi kvikmyndagerðar á Íslandi kortlagt, sbr. úttekt Olsberg
  • Stutt hefur verið sérstaklega við að varðveislu og stafvæðingu á íslenskum kvikmyndaarfi
  • Stutt hefur verið myndarlega við sjálfsprottin verkefni eins og kynningu á íslenskum myndum erlendis, innlendar kvikmyndahátíðir og menningarleg kvikmyndahús
  • Stutt hefur Kvikmyndatengda fræðslu, til dæmis fyrir ungt fólk
  • Sjálfbærni í kvikmyndagerð hefur verið stutt með gerð handbókar þar um

Rúmir 7 milljarðar áætlaðir til kvikmyndamála árið 2025

Heildarframlög til kvikmyndamála á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins 2016-2025.

Áætluð fjárframlög til þeirra kvikmyndatengdu mála sem heyra undir menningar- og viðskiptaráðuneytið eru áætluð rúmir 7 milljarðar á næsta ári. Fellur þar undir, Kvikmyndasjóður, Kvikmyndamiðstöð, Kvikmyndasafn Íslands og endurgreiðslukerfi kvikmynda. Endurspeglar upphæðin þau auknu umsvif sem orðið hafa í kvikmyndagerð hér á landi á undanförnum árum, sem birtast meðal annars í hækkun á endurgreiðslum. Á undanförnum árum hafa upphæðir úr þeim skipst nokkuð jafnt á milli innlendra og erlendra verkefna.

Lægri verðbólga stærsta forgangsmál samfélagsins

Lækkun verðbólgu og þar með vaxta er stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Jákvæð teikn eru á lofti þar en til að ná markmiði um lækkun verðbólgu þarf aðhald í ríkisfjármálum. Fyrir næsta ár birtist þetta meðal annars í sértæku aðhaldi á samkeppnissjóði hjá öllum ráðuneytum. Kvikmyndasjóður er var þar ekki undanskilinn, en hann er einn af 14 sjóðum á sviði menningarmála. Framlög í hann á næsta ári munu nema rúmum milljarði en áform um menningarframlag streymisveita er meðal annars ætlað að efla hann inn til framtíðar.

Þróun framlaga í Kvikmyndasjóð 2016-2025. Eftirstöðvum fjárfestingaráttaksins var dreift inn á árið 2024. Árið 2023 var sérstak 250 m.kr aukaframlag sett í sjóðinn til að standa undir fjármögnun verkefna sem þegar höfðu hlotið vilyrði eða sjóðurinn var skuldbundinn gagnvart með samningi.

Þegar til framtíðar er litið, og þegar efnahagsástand og fjármál hins opinbera leyfa, hljótum við að líta til þess að bæta í Kvikmyndasjóð að nýju, enda er sjóðurinn einn af burðarásum íslenskrar menningar. Ég sé fyrir mér að fyrirsjáanleiki í fjármögnun sjóðsins yrði aukin, til að mynda með samkomulagi til fjögurra ára í senn. Slíkt yrði þó alltaf háð fjárveitingu hvers árs.

Kvikmyndagerð orðin heilsárs atvinnugrein

Meiri háttar breyting sem hefur orðið á kvikmyndagerð hér á landi er að hún er orðin heilsársatvinnugrein og verkefnum, stórum sem smáum, hefur fjölgað. Hér hefur byggst upp dýrmæt sérþekking á öllum sviðum kvikmyndagerðar, hvort sem það snýr að listræna þættinum eða hinum tæknilega og umsóknum í kvikmyndasjóð hefur fjölgað verulega. Í úttekt breska ráðgjafafyrirtækisins Olsberg kom til að mynda fram að 4.200 bein, óbein og afleidd störf hefðu verið til vegna kvikmyndagerðar hér á landi árið 2022 og að heildaratvinnutekjur þeirra sem störfuðu við kvikmyndaverkefni hér á landi hafi numið 48,9 milljörðum króna á árunum 2019 -2022Þá er gríðarlega ánægjulegt að sjá stór verkefni í kvikmyndagerð raungerast á landsbyggðinni sem styrkir stoðir greinarinnar og smærri byggðir á landinu. Þá hafa upphæðir úr endurgreiðslukerfinu skipst nokkuð jafnt á milli innlendra og erlendra verkefna undanförnum árum, eins og rakið er í úttekt Olsberg.

Skipting endurgreiðslna í kvikmyndagerð

Ég hef lagt mig alla fram við að efla menningarlífið á Íslandi og umhverfi kvikmyndagerðar þar á meðal. Í virkilega góðu samráði við haghafa greinarinnar höfum við náð að stíga stór framfaraskref skömmum tíma. Ég vil meina að ekki hefur jafnmikið gerst á jafn stuttum tíma frá því að Kvikmyndasjóður var settur á laggirnar árið 1979 og endurgreiðslukerfinu í kvikmyndagerð var komið á fót árið 1999. Til gamans má geta var hvorug tveggja komið á fót af ráðherrum úr Framsóknarflokknum, sem segir kannski ákveðna sögu. Það breytir því ekki að við viljum sjá enn frekari árangur, og kvikmyndasjóð eflast út líftíma kvikmyndastefnunnar til ársins 2030 og enn lengra inn framtíðar. Íslensk kvikmyndagerð getur treyst því að undirrituð verði áfram góður liðsmaður í því verkefni, sama hvað rangfærslum Björns B. Björnssonar líður.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Bleikur dagur

Deila grein

23/10/2024

Bleikur dagur

Í dag, 23. október, er Bleikur dagur, sem er hluti af októberátakinu. Á þessum degi fögnum við styrknum og seiglunni sem einkennir baráttuna gegn brjóstakrabbameini. Það er tilefni til að íhuga mikilvægi forvarna, klæðast bleikum litum til stuðnings, og hvetja konur til að mæta í skimun. Október er tími umhyggju þar sem við minnumst samstöðu og sýnum stuðning í baráttunni gegn þessum alvarlega sjúkdómi.

Lægri kostnaður

Krabbamein er eitt helsta heilsufarsvandamál okkar tíma, og sérstaklega brjóstakrabbamein, sem er algengasta krabbameinið meðal kvenna. Rannsóknir hafa leitt í ljós að regluleg skimun getur lækkað dánartíðni brjóstakrabbameins um allt að 20%. Skimun auðveldar greiningu á sjúkdómnum á fyrri stigum, sem býður upp á betri meðferðarúrræði og auknar lífslíkur.

Til að auka aðgengi að skimun hefur heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson ákveðið að lækka kostnað við brjóstaskimun niður í 500 krónur. Þetta er mikilvægur áfangi í því að tryggja að þátttaka í skimanir verði ekki háð fjárhagslegri stöðu, og sömuleiðis að fleiri konur sjái sér fært að taka þátt.

Sveigjanleiki atvinnurekenda

Stuðningur atvinnurekenda er einnig ómetanlegur í þessari baráttu. Með átakinu „Skrepp í skimun“ er hvatt til þess að konur njóti sveigjanleika á vinnustöðum til að sækja þessa mikilvægu þjónustu. Það þarf skýra stefnu í að mynda svigrúm fyrir konur svo þær geti nýtt sér skimun sem oft gefst aðeins möguleiki á úti á landsbyggðinni í nokkra daga í einu.

Við höfum öll hlutverk að gegna í því að hvetja konur í okkar nærumhverfi – í vinnunni, innan fjölskyldur og í vinahópum – til að nýta sér skimun. Með hvatningu og samstöðu sýnum við ekki bara stuðning okkar, heldur tökum þátt í að tryggja heilsu fyrir framtíðina.

Tökum þátt, sýnum kærleik og vitund – skreppum í skimun.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. október 2024.

Categories
Greinar

Byggjum upp landsbyggðina

Deila grein

21/10/2024

Byggjum upp landsbyggðina

Ísland er fámenn þjóð á stóru landi og þótt margt hafi áunnist á sviði framfara hefur byggðastefna okkar klikkað þegar kemur að jafnvægi milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Þróunin hefur orðið sú að æ meiri mannfjöldi safnast saman á höfuðborgarsvæðinu, þar sem innviðir eru undir miklu álagi og lóðaskortur og umferðarvandi sívaxandi vandamál. Á sama tíma er víða á landsbyggðinni nóg pláss og mikil tækifæri. Það er tími til kominn að stokka spilin upp á nýtt og horfa til landsbyggðarinnar sem raunhæfs kosts til framtíðaruppbyggingar.

Það er einfaldlega ekki sjálfbært fyrir þjóðina að ætla öllum að búa á sama stað. Þegar aðeins einn landshluti er lagður undir mikla fólksfjölgun verður álag á innviði og þjónustu honum ofviða, á meðan landsbyggðin stendur frammi fyrir fólksfækkun og hnignandi atvinnumöguleikum. Við þurfum nýja stefnu sem lítur til þess að efla og styrkja byggðir landsins – bæði með því að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni og byggja upp fjölbreytt atvinnulíf í samvinnu við heimamenn.

Samvinnuhugsjónin – leiðin að sjálfbærri uppbyggingu

Samvinnuhugsjónin er lykillinn að því að byggja upp sjálfbær samfélög á landsbyggðinni. Í stað þess að fylgja eingöngu markaðsdrifnum ákvörðunum byggist samvinnuhugsjónin á því að fólkið sjálft komi að stjórnun, þróun og nýtingu þeirra auðlinda sem fyrir hendi eru. Þetta þýðir að arðurinn af starfseminni er endurfjárfestur í samfélaginu og skapar þannig langtímaáhrif.

Með því að fjölga samvinnufélögum á sviðum eins og ferðaþjónustu, nýsköpun, matvælaframleiðslu og grænum iðnaði getum við byggt upp sjálfbæra atvinnuvegi sem nýta sér sérstöðu hvers svæðis. Í þessum félögum eiga allir jafnan hlut, sem skapar meiri hvata til að þróa verkefni sem eru bæði arðbær og samfélagslega gagnleg.

Opinber störf út á land

Það er einnig nauðsynlegt að ríkisvaldið axli ábyrgð á þessari þróun. Með því að færa fleiri opinber störf út á landsbyggðina má dreifa fólksfjölda á skilvirkari hátt og stuðla að fjölbreytni í starfsemi á landsvísu. Nú þegar hafa fjölmörg tæknileg framfaraskref, eins og aukin fjarvinna, sýnt að margt af því sem áður þótti ómögulegt getur nú orðið raunverulegt. Ekki er lengur þörf á því að öll stjórnsýslan sé miðlæg í Reykjavík – hún getur virkað jafnvel á landsbyggðinni.

Að færa opinber störf út á landsbyggðina hefur þann ávinning að þau verða mikilvægur grunnur fyrir atvinnulíf á svæðunum, en einnig styðja þau við alla aðra starfsemi sem reiðir sig á öfluga innviði. Það er lífsnauðsynlegt að þessi dreifing eigi sér stað til að jafna álagið og skapa betri lífsskilyrði um land allt.

Nóg pláss og næg tækifæri á landsbyggðinni Landsbyggðin býr yfir miklum möguleikum sem ekki hafa verið nýttir til fulls. Hvort sem litið er til grænna orkumöguleika, sjálfbærrar ferðaþjónustu eða framleiðslu á hreinum íslenskum matvælum, þá eru tækifærin fyrir hendi. Það er nóg pláss á landsbyggðinni fyrir ný fyrirtæki, nýjar hugmyndir og nýtt fólk. Við þurfum bara að nýta þau skynsamlega.

Samvinnuhugsjónin gefur okkur tækifæri til að endurvekja gömlu gildin um að standa saman og byggja sameiginlega framtíð. Með slíkri nálgun getum við stutt við uppbyggingu innviða, skapað stöðugleika í atvinnulífi og tryggt að verðmæti verði eftir í samfélögunum sjálfum.

Byggjum upp framtíð fyrir allt landið

Það er ljóst að höfuðborgarsvæðið getur ekki eitt borið framtíðarþróun landsins. Við verðum að dreifa álaginu og byggja upp sterk samfélög um allt land. Samvinnuhugsjónin er verkfæri sem getur hjálpað okkur að ná þessu markmiði – með því að stuðla að sameiginlegri ábyrgð, fjölbreytni í atvinnulífi og sjálfbærri nýtingu auðlinda.

Með skýrri byggðastefnu sem lítur til framtíðar getum við tryggt jafnvægi milli landshluta og skapað betra og fjölbreyttara Ísland fyrir komandi kynslóðir. Það er tími til að taka af skarið og byggja upp landsbyggðina – til að styrkja landið í heild.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Rödd skyn­seminnar

Deila grein

20/10/2024

Rödd skyn­seminnar

Stjórnvöld og ákvarðanir þeirra spegla þann tíðaranda sem er uppi hverju sinni, enda samsett fólki sem er þverskurður samfélagsins. Það er mikilvægt að líta um öxl og horfa gagnrýnum augum á þær ákvarðanir sem stjórnvöld hafa tekið í tilraun til þess að tryggja að ákvarðanir framtíðarinnar séu hafnar yfir persónulegar kreddur, vanþekkingu, fordóma og óöryggi. Stjórnvöld verða að tryggja það að hagsmunir heildarinnar eru hafðir að leiðarljósi um leið og staða þeirra verst settu í samfélaginu er sett á oddinn og bætt með öllum þeim leiðum sem okkur framast er unnt.

Langar mig í framhaldinu að minna á að Ísland á ekki fegurstu söguna þegar kemur að framkomu gagnvart konum og stúlkum. Í því samhengi nefni ég ástandið en bókin Kynlegt stríð eftir Báru Baldursdóttur kom út nýverið og varpar ljósi á tvö lykilskjalasöfn sem varpa algjörlega nýju ljósi á efnið sem við töldum okkur öll þekkja þokkalega vel. Íslensk stjórnvöld stunduðu á þeim tíma miklar persónunjósnir gagnvart konum og börnum og beittu stúlkur ofbeldi og frelsisviptingu vegna mögulegra samneyta þeirra við erlenda karlmenn.

Við verðum að læra af sögunni og vinna markvisst að því að hún endurtaki sig ekki, að við stöndum ekki vörð um kerfi sem eru mannanna verk og verja sérhagsmuni eða halda ákveðnum hópum samfélagsins í fjárhagslegri eða félagslegri gíslingu.

Bakslag um allan heim í stöðu jafnréttismála er einnig merkjanlegt í íslensku samfélagi og jafnréttisparadísin Ísland rétt slefar í það sæti. Við höfum dregist aftur úr okkar helstu viðlíkjendum hvað varðar t.d. heilsu og menntun kvenna og annarra jaðarsettra hópa hér á landi. Við þurfum í okkar stefnu að beina sjónum okkar að því sem viðheldur bágri stöðu kvenna og annarra jaðarsettra hópa.

Eru það þá helst vinnumarkaðstengdir þættir og í fyrsta lagi má nefna lágt virðismat kvennastétta.

Ég verð hér að benda á kjarabaráttu kennara, einnar stærstu kvennastéttarinnar. Það virðist vera „landlægur andskoti“ að kennarar þurfi að sætta sig við lág laun og krefjandi vinnuaðstæður af því að þeir eru svo lánsamir að „fá að kenna“ eins og formaður Samtaka Atvinnulífsins komst svo skemmtilega að orði í fjölmiðlum í vikunni.

Í öðru lagi og tengist einnig vinnumarkaði eru hlutastörf – en þriðjungur kvenna er í hlutastörfum til að geta axlað frekar þau umönnunarstörf sem falla til innan sem utan heimilisins.

Í þriðja lagi og það sem kemur á óvart að er ekki einu sinni breyta í jafnréttismælingum er kynbundið ofbeldi. Við gætum tekið langa stund til að telja upp nýleg atvik sem snúa að kynbundnu ofbeldi þar sem ljótasta birtingarmyndin eru kvenna- og barnamorð.

Bakslag hvað stöðu jafnréttis varðar er svo sannarlega greinanlegt hér á landi. Tölfræðin er svört þegar við skoðum fjölda kvenna sem starfa eða starfað hafa á Alþingi bæði sem kjörnir fulltrúar og sem starfsmenn þingsins og hafa orðið fyrir kynbundinni áreitni eða ofbeldi í starfi eða 80%. Það eru svimandi háar tölur.

Þetta er ekki fasti, þetta er menning sem þarf að uppræta.

Þessar tölur birtast á sama tíma og við þurfum að hvetja konur til að taka aukinn þátt í stjórnmálum svo jafnrétti verði hér náð. En þátttaka kvenna í stjórnmálum er grundvöllur jafnréttis.

Í stjórnmálum höfum við val um stefnu og strauma. Við höfum valið að setja skynsemina á oddinn og tala af yfirvegun og gegn þeirri pólun sem hefur átt sér stað í stjórnmálunum. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að rödd skynseminnar nái í gegnum falsfréttir og popúlisma og komist alla leið inn að ríkisstjórnarborðinu á ný.

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, kennari og formaður Kvenna í Framsókn.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Stærsta hagsmunamálið

Deila grein

19/10/2024

Stærsta hagsmunamálið

Það er ábyrgðahluti að sitja í rík­is­stjórn Íslands. Á und­an­förn­um árum höf­um við í Fram­sókn ein­beitt okk­ur að því að horfa fram á veg­inn, vera á skófl­unni og vinna vinn­una í þágu ís­lenskra hags­muna. Við höf­um haldið okk­ur fyr­ir utan reglu­legt hnútukast milli annarra stjórn­mála­flokka og reynt að ein­blína frek­ar á verk­efn­in og finna á þeim hag­felld­ar lausn­ir fyr­ir land og þjóð.

Ég er stolt af þeim ár­angri sem náðst hef­ur á ýms­um sviðum þjóðlífs­ins á und­an­förn­um árum. Margt hef­ur áunn­ist þótt það séu fjöl­mörg tæki­færi til þess að gera bet­ur. Þannig er gang­ur lífs­ins.

Lægri verðbólga og lækk­un vaxta eru stærsta hags­muna­mál heim­ila og fyr­ir­tækja um þess­ar mund­ir. Það voru já­kvæð tíðindi þegar Seðlabank­inn lækkaði vexti nú í byrj­un mánaðar. Slíkt ger­ist ekki af sjálfu sér. Lyk­il­atriði á næstu vik­um er að tryggja að at­b­urðarás­in á næst­unni verði ekki til þess að tefja vaxta­lækk­un­ar­ferlið. Fram­sókn mun ekki láta sitt eft­ir liggja í þing­inu til að tryggja að skyn­sam­leg fjár­lög verði samþykkt, líkt og boðað er í því fjár­laga­frum­varpi sem fjár­mála- og efna­hags­ráðherra hafði mælt fyr­ir fyrr í haust. Leiðarljós þess eru að ná niður verðbólgu og bæta þannig kjör heim­ila og fyr­ir­tækja. Það er skoðun okk­ar að traust sam­spil pen­inga­stefnu Seðlabanka Íslands, op­in­berra fjár­mála og aðila vinnu­markaðar­ins sé lyk­il­for­senda þess að stuðla að stöðugu verðlagi og skapa skil­yrði fyr­ir lækk­un verðbólgu og vaxta. Í þágu þessa þarf for­gangs­röðun í op­in­ber­um fjár­mál­um sem kall­ast á við aðgerðir stjórn­valda í þágu lang­tíma­kjara­samn­inga á vinnu­markaði, sem snúa að því að fjár­festa í fólki.

Það eru áhuga­verðir tím­ar í ís­lensk­um stjórn­mál­um um þess­ar mund­ir. Það er skylda okk­ar sem störf­um á þeim vett­vangi að tak­ast á við stöðuna af ábyrgð og festu enda er til mik­ils að vinna að ná mjúkri lend­ingu í hag­kerf­inu. Það er heiður að starfa í umboði kjós­enda lands­ins og vinna í þágu ís­lenskra hags­muna. Í kom­andi kosn­ing­um munu flokk­arn­ir óska eft­ir end­ur­nýjuðu umboði til þess að sitja á Alþingi Íslend­inga. Við í Fram­sókn erum klár í bát­ana og vél­arn­ar hafa verið ræst­ar, til­bú­in til að leggja okk­ur öll áfram fram til þess að gera sam­fé­lagið betra en það var í gær.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Á ríkið að svíkja samninga?

Deila grein

14/10/2024

Á ríkið að svíkja samninga?

Í vik­unni birt­ist frétt í Morg­un­blaðinu um til­lög­ur Viðskiptaráðs, en þær hafa það að mark­miði að spara rík­inu ákveðnar fjár­hæðir. Það sem þar kem­ur aðallega á óvart er að marg­ar til­lög­ur snú­ast um það að ríkið eigi að virða skuld­bind­ing­ar sín­ar að vett­ugi og draga úr mik­il­væg­um aðgerðum fyr­ir fólkið í land­inu.

Að eiga aðild að samn­ing­um er ábyrgð sem ber að sinna af heiðarleika og heil­ind­um og það er eng­um til heilla ef ríkið á að draga til baka lof­orð, skuld­bind­ing­ar og und­ir­ritaða samn­inga. Slík rík­is­stjórn myndi varla vera traust­vekj­andi í aug­um þjóðar­inn­ar, hvað þá ein­stak­linga sem binda mikl­ar von­ir við þær aðgerðir sem ríkið hef­ur skuld­bundið sig til.

Að sjálf­sögðu á ríkið að vera með ábyrga og skyn­sam­lega hag­stjórn. Við sjá­um að aðhald og aðgerðir nú­ver­andi rík­is­stjórn­ar eru far­in að hafa áhrif á lækk­un verðbólgu og vext­ir eru byrjaðir að lækka.

Aðkoma að kjara­samn­ing­um

Það er um­hugs­un­ar­vert að svo virðist sem að Viðskiptaráð beri ekki mikla virðingu fyr­ir rót­gró­inni meg­in­reglu samn­inga­rétt­ar um að samn­inga skuli halda. Það er rétt að skipt­ar skoðanir eru á því hvort ríkið hefði átt að stíga inn í síðustu kjaraviðræður. Einnig er rétt að það er mik­il­vægt að við tök­um þátt í slík­um samn­ingaviðræðum af var­færni, eins og Viðskiptaráð hef­ur bent á. En þegar búið er að gefa fyr­ir­heit, þá er mik­il­vægt að standa við það sem lagt hef­ur verið fram.

Und­ir­rit­un kjara­samn­inga í mars sl. á al­menn­um markaði var mik­il­væg skref. Aðilar al­menna vinnu­markaðar­ins sýndu með þess­um samn­ing­um mikla ábyrgð og fram­sýni. Aðkoma stjórn­valda, bæði rík­is og sveit­ar­fé­laga, skipti sköp­um í þeirri samn­inga­gerð. Þær aðgerðir, sem ríkið skuld­batt sig til, eru til þess falln­ar að auka ráðstöf­un­ar­tekj­ur heim­ila með sér­stakri áherslu á hús­næðis­upp­bygg­ingu, tryggja hús­næðisstuðning og stór­efla stuðning við barna­fjöl­skyld­ur. Þetta er stuðning­ur við þau sem standa höll­um fæti á hús­næðismarkaði og hafa orðið fyr­ir auk­inni byrði vegna hús­næðis­kostnaðar. Aðgerðir til að auka fram­boð íbúðar­hús­næðis stuðla að auknu jafn­vægi á hús­næðismarkaði og lægri hús­næðis­kostnaði.

Er Viðskiptaráð virki­lega að leggja til að auka byrði barna­fjöl­skyldna og auka byrði hús­næðis­kostnaðar þeirra sem síst geta? Það að svíkja skuld­bind­ing­ar sín­ar og láta þann hóp bera auk­inn kostnað get­ur haft langvar­andi áhrif þó svo að það myndi spara rík­is­sjóð ein­hverj­ar fjár­hæð í dag.

Mik­il­væg­ar aðgerðir rík­is­ins í hús­næðismál­um

Hvað varðar til­lögu Viðskiptaráðs um lækk­un vaxta­bóta­kerf­is­ins og hlut­deild­ar­lána er nauðsyn­legt að ít­reka að ríki og sveit­ar­fé­lög hafa aðkomu að þriðjungi af bygg­ingu hús­næðis ár hvert. Það er ekki nýtt að ríkið gangi til aðgerða á hús­næðismarkaði með það að mark­miði að grípa viðkvæma hópa og jafna aðgengi að markaðnum.

Tíma­bilið 2019-2024 hef­ur verið mesta upp­bygg­ing­ar­tíma­bil Íslands­sög­unn­ar, en það hef­ur þó ekki dugað til. Eft­ir­spurn eft­ir hús­næði hef­ur auk­ist um­tals­vert á stutt­um tíma sam­hliða mik­illi fólks­fjölg­un hér á landi. Því erum við að byggja und­ir áætlaðri íbúðaþörf, en ekki vegna aðgerðal­eys­is í hús­næðismál­um.

Við í Fram­sókn höf­um lagt höfuðáherslu á að auka aðgengi að hús­næði, sér­stak­lega fyr­ir ungt fólk, fyrstu kaup­end­ur og leigj­end­ur. Þetta ger­um við m.a. með hlut­deild­ar­lán­un­um, sem hafa reynst þess­um hóp­um vel og reynst mik­il­væg aðgerð í hús­næðismál­um.

Hlut­deild­ar­lán fyr­ir fyrstu kaup­end­ur eru kom­in til að vera og rík­is­stjórn­in hef­ur nú þegar samþykkt að veita 4 millj­arða til hlut­deild­ar­lána á þessu ári. Ann­ars veg­ar til að styðja við fyrstu kaup­end­ur og til að hvetja fram­kvæmdaaðila til að halda áfram að byggja. Eins var þetta til þess að fram­kvæmdaaðilar lækkuðu verð til að passa inn í viðmið hlut­deild­ar­lána. Hlut­deild­ar­lán­in stuðluðu bein­lín­is að því að halda fast­eigna­verði niðri, þvert á orð Viðskiptaráðs.

Við stönd­um við það sem segj­um

Til að mæta aukn­um vaxta­kostnaði heim­il­anna síðustu miss­eri var á ár­inu 2024 greidd­ur út sér­stak­ur vaxt­astuðning­ur til heim­ila með íbúðalán. Grunn­fjár­hæðir hús­næðis­bóta og eigna­skerðinga­mörk í hús­næðis­bóta­kerf­inu hækka 1. júní 2024 auk þess sem aukið til­lit verður tekið til fjöl­skyldu­stærðar og munu fram­lög til hús­næðis­bóta aukast um 2,5 ma.kr. á árs­grund­velli vegna þessa.

Áfram verður dregið úr tekju­skerðing­um barna­bóta þannig að mun fleiri for­eldr­ar njóta stuðnings. Barna­bæt­ur hækka því ríf­lega og unnið verður að því í sam­starfi rík­is og sveit­ar­fé­laga að skóla­máltíðir grunn­skóla­barna verði gjald­frjáls­ar frá og með hausti 2024. Þá verða há­marks­greiðslur úr Fæðing­ar­or­lofs­sjóði hækkaðar í þrem­ur áföng­um á næstu tveim­ur árum. Þegar breyt­ing­ar á fram­lagi til Fæðing­ar­or­lofs­sjóðs verða að fullu komn­ar til fram­kvæmda árið 2027 nem­ur upp­söfnuð hækk­un um 5,7 ma.kr. á árs­grund­velli.

Við í Fram­sókn leggj­um mikla áherslu á hag ís­lensku þjóðar­inn­ar í heild m.a. með nauðsyn­legri íhlut­un rík­is­ins á hús­næðismarkaði. Við höld­um áfram með aðgerðir til að tryggja stöðug­leika og draga úr nei­kvæðum áhrif­um á hag­kerfið og vilj­um stuðla að því að áfram verði unnið með þann grund­völl sem þegar hef­ur verið lagður.

Ingibjörg Isaksen, þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ísland verður leiðandi í gervigreind og máltækni

Deila grein

14/10/2024

Ísland verður leiðandi í gervigreind og máltækni

Þegar reyn­ir á stoðir tungu­máls okk­ar og menn­ing­ar finn­um við til ábyrgðar. Mál­efni tungu­máls­ins hafa sjald­an verið eins áber­andi í umræðunni og síðustu ár. Íslensk­an skipt­ir okk­ur öll máli og okk­ur þykir öll­um raun­veru­lega vænt um tungu­málið okk­ar. Því í tungu­mál­inu býr menn­ing okk­ar, merk og alda­göm­ul saga; sjálf þjóðarsál­in. Mál­tækni­áætl­un stjórn­valda og at­vinnu­lífs hef­ur skilað undra­verðum ár­angri fyr­ir tungu­málið svo eft­ir er tekið um all­an heim. Enn frek­ari aðgerða er þörf á því sviði og ég mun beita mér fyr­ir því að komið verði á fót gervi­greind­ar- og mál­tækni­miðstöð á Íslandi, í áfram­hald­andi sam­vinnu við at­vinnu­lífið.

Mik­il­vægi ís­lensk­unn­ar

Hæfni barna í móður­mál­inu ræður oft för um tæki­færi þeirra til framtíðar. Ég finn vel fyr­ir áhyggj­um Íslend­inga af framtíð tungu­máls­ins. Í minni ráðherratíð, sem ráðherra menn­ing­ar­mála, er þetta lík­lega það mál sem ég er tíðast brýnd til að beita mér fyr­ir. Fólk gef­ur sig á tal við mig úti á götu með áhyggj­ur af stöðu barn­anna okk­ar sem hrær­ast í ensku mál­um­hverfi, í sím­un­um og allt of oft í sjálf­um skól­un­um þar sem sí­fellt fleiri starfs­menn og sam­nem­end­ur þeirra tala litla sem enga ís­lensku. Þegar fólk geng­ur um miðbæ Reykja­vík­ur blasa við því upp­lýs­inga­skilti, aug­lýs­ing­ar og mat­seðlar á ensku. Er­lendu af­greiðslu­fólki fjölg­ar sí­fellt sem tal­ar enga ís­lensku. Nýj­ustu tækni­lausn­ir hafa síðasta ára­tug aðeins verið aðgengi­leg­ar á ensku. Ég leyfi mér þó að horfa bjart­sýn­um aug­um til framtíðar og segja að okk­ur sé að tak­ast að snúa þess­ari þróun við.

Íslensk­an er víða í sókn

Fjöld­inn all­ur af lausn­um sem aðstoða inn­flytj­end­ur við að læra ís­lensku hef­ur birst á síðasta ári, sem all­ar njóta veru­legra vin­sælda. Ég nefni þar sem dæmi RÚV ORÐ, sem kenn­ir fólki ís­lensku í gegn­um afþrey­ing­ar­efni RÚV, og Bara tala, for­rit með sér­sniðinni ís­lensku­kennslu eft­ir orðaforða úr mis­mun­andi starfs­grein­um á Íslandi. Þetta gerðist ekki af sjálfu sér. Upp­lýs­inga­skilti í Leifs­stöð gera nú loks­ins ís­lensku hærra und­ir höfði en ensku, líkt og eðli­legt er á ís­lensk­um flug­velli eins og ég hef bent á ít­rekað und­an­far­in ár. Þetta gerðist ekki af sjálfu sér.

Stærstu mállíkön heims hafa á síðasta ári lært því sem næst lýta­lausa ís­lensku. Nýj­ustu fyr­ir­tækjalausn­ir, sem flest­ar eru byggðar ofan á þau líkön, eru því not­hæf­ar á ís­lensku. Áhrifa­mesta gervi­greind­ar­fyr­ir­tæki heims gum­ar af hæfni mállík­ans síns í tungu­máli sem um 350 þúsund manns tala, ís­lensku. Ekk­ert af þessu gerðist af sjálfu sér.

Sam­vinna at­vinnu­lífs og stjórn­valda skil­ar ár­angri

Far­sælt sam­starf stjórn­valda og at­vinnu­lífs í þróun á nýj­ustu tækni fyr­ir tungu­málið hef­ur sannað sig. Um­fangs­mik­il fjár­fest­ing stjórn­valda í þess­ari þróun, sem hófst árið 2018 með fyrstu mál­tækni­áætl­un, hef­ur borgað sig. Með söfn­un á gríðarlegu magni gagna á ís­lensku og þróun á gervi­greind­ar­tækni á ís­lensku hef­ur Ísland orðið leiðandi afl meðal smáþjóða í heimi mál­tækni og gervi­greind­ar. Fjár­fest­ing og þróun á tækni­leg­um innviðum sem þess­um í nafni tungu­máls og menn­ing­ar­arfs heill­ar þjóðar hef­ur vakið at­hygli út fyr­ir land­stein­ana. OpenAI, eitt stærsta gervi­greind­ar­fyr­ir­tæki heims, hef­ur viljað vinna náið með Íslandi á þess­um for­send­um: við deil­um áhuga með fyr­ir­tæk­inu á tungu­mál­inu og ger­um okk­ur grein fyr­ir að stærsta tækni­bylt­ing síðustu ára­tuga, gervi­greind­ar­bylt­ing­in, grund­vall­ast á sam­spili mann­legs tungu­máls og tölvu­tækni.

Áfram sækj­um við fram

Við erum hvergi af baki dott­in. Ég er þess full­viss að tækn­in muni á næstu árum, jafn­vel mánuðum, færa okk­ur lausn­ir við mörg­um af helstu vanda­mál­um sem nú ógna tungu­máli okk­ar. Tækni sem þýðir og tal­set­ur barna­efni með eins rödd­um og í upp­haf­legri út­gáfu þess er rétt hand­an við hornið. Fleiri tækni­lausn­ir sem auðvelda inn­flytj­end­um að læra ís­lensku eiga eft­ir að koma út. Nýj­ustu lausn­ir frá Microsoft og Google og fleiri tækn­iris­um verða aðgengi­leg­ar á ís­lensku. iP­ho­ne-sím­inn þinn mun á end­an­um geta talað ís­lensku. Ég er viss um það. En þetta ger­ist hins veg­ar ekki af sjálfu sér.

Við verðum að tryggja áfram­hald­andi þróun í ís­lenskri mál­tækni og gervi­greind og að mála­flokk­ar þess­ir tali sam­an. Um síðustu mánaðamót hrinti menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið ann­arri mál­tækni­áætl­un af stað, sem fel­ur í sér mikla fjár­fest­ingu og áfram­hald­andi sókn í mál­tækni. Þar er áhersl­an á hag­nýt­ingu þeirra innviða sem við höf­um smíðað síðustu ár og lausn­ir á ís­lensku sem gagn­ast al­menn­ingi og tungu­mál­inu.

Gervi­greind­ar- og mál­tækni­set­ur

Sýn okk­ar er að Ísland verði að koma á fót öfl­ugri ein­ingu, helst í sam­starfi stjórn­valda og at­vinnu­lífs, sem færi með mál­efni bæði gervi­greind­ar og mál­tækni. Slík ein­ing myndi vinna stöðugt að efl­ingu þess­ara greina á Íslandi, tryggja ný­sköp­un inn­an þeirra, hag­nýt­ar rann­sókn­ir há­skóla sem gagn­ast ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um og vera leiðandi afl á þessu sviði meðal smærri þjóða. Ísland hef­ur alla burði til að standa und­ir slíku starfi. Græn orka og nátt­úru­leg­ar aðstæður eru full­komn­ar fyr­ir fram­leiðslu á reikniafli, sem get­ur um­bylt tækniiðnaði og rann­sókn­ar­starfi á Íslandi. Íslenskt hug­vit og tækni geta staðið stolt á meðal fremstu þjóða heims, og efl­ing þessi verður reist á grund­velli menn­ing­ar og tungu­máls Íslend­inga. Við höf­um lagt til að ráðast í sam­starf við há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðuneytið um að gera þessa framtíðar­sýn að veru­leika og ég von­ast til að við get­um hafið þessa upp­bygg­ingu á allra næstu mánuðum. Mín von er að slík gervi­greind­ar- og mál­tækni­miðstöð yrði rek­in í sam­vinnu stjórn­valda og at­vinnu­lífs með ekki ósvipuðu fyr­ir­komu­lagi og Íslands­stofa. Hægt væri að sam­eina ýms­ar smærri stofn­an­ir og ein­ing­ar í mál­tækni, gervi­greind og ný­sköp­un und­ir ein­um hatti og auka hagræði í mála­flokk­un­um báðum á sama tíma og starf inn­an þeirra yrði eflt.

Bók­mennta­arf­ur Íslands þykir eitt af undr­um ver­ald­ar og er sann­ar­lega fram­lag okk­ar til heims­bók­mennt­anna. Að sama skapi hef­ur Ísland alla burði til að vera ein öfl­ug­asta gervi­greind­ar- og mál­tækniþjóð í heimi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. október 2024.

Categories
Greinar

Á­form um einka­væðingu á vatns­veitu Sand­gerðis

Deila grein

13/10/2024

Á­form um einka­væðingu á vatns­veitu Sand­gerðis

Í nútímasamfélagi er eitt mikilvægasta verkefni okkar að tryggja jafnan aðgang að grunninnviðum eins og vatni og rafmagni. Nú liggja fyrir áform um einkavæðingu á vatnsveitu Sandgerðis í Suðurnesjabæ, áform sem geta haft víðtækar og ófyrirséðar afleiðingar fyrir íbúa. Samkvæmt tillögu núverandi meirihluta bæjarstjórnar – Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Bæjarlistans – er til skoðunar að selja vatnsveituna til HS Veitna. Við teljum þetta mál kalla á athygli og þátttöku íbúa.

Ákvörðun um einkavæðingu grunninnviða á borð við vatnsveitu á ekki aðeins við um rekstur heldur snýr hún beint að því hvernig við tryggjum jafnan og sanngjarnan aðgang að nauðsynlegum auðlindum. Með því að selja vatnsveituna til einkaaðila, eins og núverandi meirihluti leggur til, er verið að opna á möguleika þess að þjónusta muni fara frá almannaeign yfir í hendur einkafjárfesta, með ófyrirséðum afleiðingum. Þar sem þjónustugæði og verðlagning geta ráðist af arðsemiskröfum fjárfesta frekar en samfélagslegum hagsmunum.

Við þekkjum dæmi þar sem slík sala hefur farið fram áður, til dæmis í Garði, þar sem vatnsveitan var seld einkaaðilum. Þar missti sveitarfélagið yfirráð yfir mikilvægum vatnsréttindum við Árnarétt, sem nú gegnir lykilhlutverki á Reykjanesi vegna jarðhræringa. Nú er rekstur vatnsveitunnar í höndum HS Veitna, fyrirtækis sem er að stórum hluta í eigu einkafjárfesta. Reynslan ætti því að vera okkur víti til varnar þar sem slík sala hefur ekki endilega leitt til aukinna hagsbóta fyrir íbúa.

Upptaktur að einkavæðingu

Á 56. fundi framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar lagði Einar Jón Pálsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins og formaður ráðsins, fram starfsáætlun fyrir vatnsveituna. Þar kom í ljós að viðræður væru hafnar við HS Veitur um möguleg kaup á vatnsveitunni í Sandgerði, án þess að formleg umræða hefði átt sér stað innan stjórnsýslu Suðurnesjabæjar. Því er afar mikilvægt að íbúar Suðurnesjabæjar viti hvaða afleiðingar einkavæðing getur haft og hvaða áhrif hún hefur á rekstur og stjórnun vatnsveitunnar. Með því að vera vel upplýst og taka virkan þátt í umræðunni getum við tryggt að hagsmunir íbúa séu settir í forgang.

Grunninnviðir í eigu almennings

Grunninnviðir eins og vatnsveita eru lífsnauðsynlegir fyrir samfélagið. Opinber eign á slíkum innviðum tryggir aðgang allra óháð búsetu eða efnahag. Þegar auðlindir og grunninnviðir færast í hendur einkaaðila, er hætta á að þjónustan verði ekki lengur veitt á jafnræðisgrundvelli, þar sem hagsmunir fjárfesta geta orðið fyrirferðarmiklir.

Gagnsæi og aðkoma íbúa

Við eigum að standa vörð um vatnsveituna sem almannaeign og tryggja að hún haldist í opinberri eigu. Það er á ábyrgð okkar að tryggja að auðlindir okkar séu ekki seldar frá okkur án þess að við fáum tækifæri til að segja okkar skoðun.

Aðkoma íbúa að svona stórum ákvörðunum er lykilatriði. Stöndum saman og tryggjum að grunnþjónusta, eins og vatnsveitan, verði áfram í höndum almennings. Það er mikilvægt að íbúar séu vel upplýstir um slík áform og fái tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri þegar kemur að sölu á sameiginlegum innviðum.

Anton Guðmundsson og Úrsúla María Guðjónsdóttir bæjarfulltrúar Framsóknar í Suðurnesjabæ.
Sunneva Ósk Þóroddsdóttir varabæjarfulltrúi Framsóknar.
Magnús Sigfús Magnússon óháður bæjarfulltrúi.

Categories
Fréttir Greinar

Arð­semi vetrarþjónustu

Deila grein

11/10/2024

Arð­semi vetrarþjónustu

Fyrsti vetrardagur er að nálgast, þótt haustið hafi verið milt þá eru veðurspárnar farnar að boða breytta tíma.

Okkur hefur auðnast að byggja upp, á köflum, ágætt vegakerfi um landið. Þjóðvegakerfið á Íslandi er um 13.000 km. Það er baráttumál íbúa allra landshluta að byggja upp traust og örugg samgöngumannvirki, en hvað þarf til að þau virki sem slík allt árið um kring? Jú, það er öflug vetrarþjónusta.

Breytt samfélag

Það er mikil umferð um vegi landsins allt árið um kring og vetrarþjónusta á vegum landsins er því alltaf að verða mikilvægari. Í dag eru uppi allt aðrar aðstæður heldur en voru hér um aldamótin. Á þeim tíma var samfélagsgerðin önnur. Þá var innan hvers byggðarlags eitt samfélag, þar sem íbúar sóttu sína vinnu, skóla, heilsugæslu og félagslíf innan byggðarlagsins. Í dag eru landfræðileg mörk byggðarlaga og samfélaga mun stærri. Atvinnusóknarsvæði eru stöðugt að stækka, fólk sækir vinnu lengra, keyrir börnin í skólann og jafnvel í leikskóla um langan veg og þjónustan færist svo sífellt á færri staði.

Snjómokstursreglur

Snjómokstursreglur Vegagerðarinnar eru frá árinu 2011. Það hefur margt gerst í lífi þjóðarinnar frá þeim tíma, ferðaþjónusta og fiskeldi, samfélög hafa sameinast og vegaumbætur hafa orðið víða. Þó að snjómokstursreglur hafi verið uppfærðar að hluta á sumum stöðum hefur heildarendurskoðun ekki farið fram.

Styttri opnunartími getur hamlað uppbyggingu atvinnulífs og samfélaga og samkeppnishæfni sveitarfélaga veikist. Það munar nokkuð á milli landshluta þegar litið er til þjónustutíma. Ef við horfum til Vestfjarða þá hefur uppbygging stofnvega verið umtalsverð síðasta áratug, fiskeldi og ferðaþjónusta sívaxandi en þjónustutími vetrarþjónustu ekki fylgt sömu þróun. Þeir sem búa eða eiga erindi á sunnan- og norðanverða Vestfirði þurfa að sætta sig við töluvert skemmri þjónustutíma heldur en íbúar fyrir norðan og á austanverðu landinu.

Við tölum um kostnað á vetrarþjónustu og kostnaðurinn fari vaxandi, 5-6 milljarðar króna er há tala og vissulega erfitt að áætla þennan kostnað og á meðan við höfum sett okkur markmið og vetrarþjónustureglur þá getur sá kostnaður sveiflast.

Ávinningur vetrarþjónustu

Við getum litið á vegakerfið sem æðakerfi landsins, sem ber næringu og orku til og frá byggðarlögum landsins, þar sem samfélagið er undir. Helstu stoðir íslensks efnahagslífs renna líka eftir vegakerfi landsins, ferðaþjónusta, sjávarútvegur og fiskeldi. Allar tafir á því rennsli er hreint tekjutap fyrir þjóðina og þau byggðarlög sem búa ekki við öruggar samgöngur allt árið um kring missa afl.

Nú er veturinn á næsta leiti og þegar áætlað fjármagn í vetrarþjónustu er reiknað út verðum við að taka inn þann ávinning sem sú þjónusta skilar í þjóðarbúið. Þá getum við verið sannfærð um að aftur komi vor í dal.

Megi veturinn verða mildur og miskunnsamur

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Sam­eigin­legt verk­efni okkar allra

Deila grein

10/10/2024

Sam­eigin­legt verk­efni okkar allra

Í vikunni lagði undirrituð fram tillögu til þingsályktunar um rannsókn á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana. Þetta er í annað sinn sem tillagan er lögð fram, nú með nokkrum breytingum sem byggðar eru á góðri þróun, þar sem starfshópur á vegum Lífsbrúar hjá embætti landlæknis hefur tekið til starfa.

Málið snertir okkur öll sem samfélag. Sjálfsvíg og andlát vegna óhappaeitrana eru viðkvæmir og sársaukafullir atburðir sem hafa djúpstæð áhrif á aðstandendur, fjölskyldur og samfélagið í heild. Áhrifin teygja anga sína víða en samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni verða að meðaltali 135 einstaklingar fyrir áfalli eða samskonar áhrifum í kjölfar sjálfsvígs eins einstaklings. Talið er að um sex þúsund manns verði fyrir áhrifum af sjálfsvígum á hverju ári hér á landi. Sjálfsvíg eru því ekki einungis persónulegur harmleikur, heldur verkefni sem við berum öll ábyrgð á að vinna með virkum hætti.

Þegar andlát á sér stað, er það rannsakað til að gera grein fyrir dánarmeini. Rannsóknir lögreglu og héraðslækna fara fram til að ákveða hvort andlát hafi borið að með saknæmum hætti eða ekki. Sjálfsvíg eru ekki rannsökuð afturvirkt þar sem undanfari þeirra er skoðaður í þaula í leit að þáttum sem komu einstaklingnum í það hugarástand sem hann var í við andlátið. Nauðsynlegt er að slík rannsókn fari fram með þeim hætti að fara afturvirkt yfir lýðfræðilegar breytur, aðstæður, atburði og möguleg áföll sem einstaklingurinn upplifði í undanfara sjálfsvígs eða dauðsfall vegna óhappaeitrunar. Þá er m.a. átt við brottfall úr skóla, atvinnumissi eða langvarandi atvinnuleysi, sambandsslit, makamissi, ofbeldi, neyslu vímugjafa og hvað annað sem getur haft áhrif.

Starfshópur á vegum Lífsbrúar, miðstöðvar sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis, hefur þegar hafið mikilvæga vinnu við að rannsaka afturvirkt mögulegt orsakaferli og áhrifaþætti sem geta verið viðvarandi í lífi einstaklinga í undanfara sjálfsvígs og óhappaeitrana. Þessi rannsókn er metnaðarfull og mikilvæg í áframhaldandi vinnu okkar við að bæta forvarnir og myndun fyrirbyggjandi aðgerða í þeirri von að geta komið í veg fyrir andlát af þessu tagi. Markmið tillögunnar er að styðja starfshópinn í vinnu sinni við að afla nauðsynlegra gagna og uppsetningu þeirra svo að rannsóknin skili árangri, sem nýtist til framtíðar, við að ná til einstaklinga í áhættuhópum og öðlast betri skilning á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana.

Í lok rannsóknarinnar skal starfshópurinn skila skýrslu til ráðherra með viðeigandi tölfræði og tillögum að aðgerðum, bæði fyrirbyggjandi og í forvarnarstarfi. Einnig þarf að tryggja að hægt verði að skoða ofangreindar breytur reglulega og á aðgengilegan hátt svo að hægt sé meta árangur aðgerða. Í kjölfar þessarar vinnu verði ákveðið hvort koma eigi á fót sambærilegum starfshópi eða rannsóknarnefnd, sem væri varanlegur liður innan stjórnsýslunnar.

Mikilvægi tillögunnar

Þingheimur hefur allur sameinast á bak við tillöguna, þvert á flokka, sem sýnir fram á mikilvægi hennar. Það er fáheyrt að slíkur stuðningur myndist um þingsályktunartillögu þingmanns, og fyrir það er ég þakklát.

Gagnaöflun af þessu tagi þarf að vera yfirgripsmikil svo hægt sé að gefa heildræna mynd af orsakaferlum, vinna árangursríkar forvarnir og greina áhættuhópa í samfélaginu, þ.e. þá hópa sem líklegri eru til að upplifa sjálfsvígshugsanir, gera tilraun til sjálfsvígs eða deyja í sjálfsvígi eða sökum óhappaeitrunar, umfram hefðbundnar breytur á borð við kyn, aldur og búsetu. Það er mikilvægt að öll gögn sem safnað er séu sett fram á skýran og aðgengilegan hátt svo þau nýtist við að stýra stefnumörkun.

Við verðum að horfa á málið með opnum hug og viðurkenna að sjálfsvíg og andlát vegna óhappaeitrana eru oft niðurstaða margra flókinna þátta sem þarf að greina og skilja til hlítar. Með betri skilningi á orsakaferlum og helstu áhrifaþáttum er hægt að styðja betur við þá sem eiga við andlega erfiðleika að stríða, og gera viðeigandi ráðstafanir áður en hættan á sjálfsskaða eykst. Þetta er ein af þeim leiðum sem hægt er að fara til að tryggja að einstaklingar í áhættuhópum fái þá aðstoð sem þeir þurfa til að ná jafnvægi í lífi sínu og komast í gegnum erfiðleikatímabil.

Við viljum alltaf gera betur

Það er ljóst að við höfum öfluga aðila í samfélaginu okkar sem vinna dag hvern að því að bæta líðan fólks og grípa inn í þar sem þörfin er mest. Við höfum marga sem starfa af heilum hug að geðheilbrigðismálum, sjálfsvígsforvörnum og stuðningi við aðstandendur. Það er nauðsynlegt að þessi vinna verði áfram efld og að við höldum áfram að vera vakandi fyrir leiðum til að bæta geðheilbrigði og lýðheilsu í samfélaginu.

Við verðum að sýna samstöðu, hlúa að þeim sem þurfa á hjálp að halda og tryggja að enginn þurfi að ganga einn í gegnum erfiða tíma. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra.

Ég vona að sú vinna sem starfshópur Lífsbrúar vinnur skili þeim árangri sem við viljum öll sjá – að draga úr sjálfsvígum og dauðsföllum vegna óhappaeitrana með greinagóðri rannsókn og nýtingu afurðar hennar við að mynda árangursríkar aðgerðir.

Það er vel við hæfi að birta þessa grein í dag þar sem Gulur september, sem tileinkaður er geðheilbrigði og sjálfsvígsforvörnum, lýður undir lok í dag, alþjóða geðheilbrigðisdeginum. Ég vil hvetja öll þau, sem glíma við andleg vanlíðan, að leita hjálpar og brýna fyrir okkur öllum að vera vakandi fyrir merkjum um andleg vanlíðan hjá þeim sem standa okkur nærri og vera til staðar.

Ég vil einnig nýta tækifærið og þakka Guðrúnu Jónu hjá embætti landlæknis og Högna Óskarssyni, geðlækni, fyrir aðstoðina við þetta mikilvæga mál.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. október 2024.