Categories
Fréttir Greinar

Við vorum líka með plan

Deila grein

22/09/2025

Við vorum líka með plan

Húsnæðismál eldri borgara á Akureyri hafa kallað á frekari athygli og úrbætur og ekki síst eftir að upp kom mygla á Hlíð haustið 2022. Endurbætur hafa enn ekki hafist á þeim 22 hjúkrunarrýmum sem tekin voru úr notkun og ekki hefur heldur verið tekin ákvörðun um framtíð austurálmu Hlíðar sem er illa farin. Þetta hefur valdið fráflæðisvanda á SAk, aukið álag á stuðningsþjónustu og aðstandendur og ekki síst íbúa okkar sem svo nauðsynlega þurfa á þessari þjónustu að halda.

Ekki einungis hefur tafist að ráðast í nauðsynlegar endurbætur á húsnæði Hlíðar, heldur hefur uppbygging nýs hjúkrunarheimilis á Akureyri einnig dregist á langinn. Fyrst átti nýtt hjúkrunarheimili að rísa við Lögmannshlíð en svo var ákveðið, í samráði við ríkið, að stefnt yrði að uppbyggingu í Þursaholti og ráðast í leiðinni í heilmikla uppbyggingu íbúðarhúsnæðis fyrir eldri borgara. Með því gafst tækifæri til að flýta uppbyggingu lífsgæðakjarna, þar sem hvorki var rými fyrir slíka uppbyggingu við Lögmannshlíð né fyrirsjáanlegt að skipulag vegna stækkunar Hagahverfis yrði tilbúið á næstunni. Sú stækkun var ekki einu á aðalskipulagi. Eitt þurfti ekki að útiloka annað.

Í nokkurn tíma hafa farið fram viðræður við ríkið um útfærslu lífsgæðakjarna í Þursaholti og hvernig væri best að haga útboði til að einfalda alla skipulagsvinnu. Þannig lægju fyrir skýrar forsendur til að hefja umfangsmikla uppbyggingu hjúkrunarheimilis og íbúða fyrir eldri borgara. Í vor kom Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, norður og skrifaði undir samning um uppbyggingu 80 hjúkrunarrýma í Þursaholti og stefnt að útboði án frekari tafa. Það verður svo einkennileg vending í málinu í sumar þegar okkur að óvörum kemur sú beiðni frá ríkinu að taka frá 40 rými til viðbótar fyrir mögulega framtíðarviðbyggingu í Þursaholti, án þess að fyrir liggi hvenær slík framkvæmd gæti orðið að veruleika. Þar með urðu að engu fyrirætlanir um lífsgæðakjarna í Þursaholti.

Hvað þýðingu hefur þetta? Næsta uppbygging hjúkrunarrýma verður mögulega annað hvort í nýrri álmu við Hlíð og/eða viðbyggingu í Þursaholti og við sjáum mögulega ekki lífsgæðakjarna rísa á Akureyri í fyrirhugaðri framtíð.

Hvað vilja íbúar?

Undirrituð furðar sig á því að skipulagsráð hafi samþykkt þessa breytingu án frekari umræðu og lagt til við bæjarstjórn að auglýsa breytt skipulag, sem í reynd felur í sér að ekkert verði af sameiginlegri uppbyggingu á lífsgæðakjarna. Þá var málinu ekki vísað til umræðu í bæjarráði, þar sem áður hafði farið fram umræða um mögulegt samkomulag við ríkið um uppbyggingu lífsgæðakjarna í Þursaholti.

Við bæjarfulltrúar Framsóknar lögðum fram eftirfarandi bókun á bæjarstjórnarfundi við afgreiðslu þessa máls og viljum um leið leggja áherslu á að íbúar geta enn haft áhrif á endanlega afgreiðslu málsins:

Lýsum yfir vonbrigðum með breytt fyrirkomulag á skipulagi hjúkrunarheimilis í Þursaholti, enda teljum við það tefja fyrir uppbyggingu lífsgæðakjarna á Akureyri. Áður lá fyrir samkomulag við ríkið um 80 hjúkrunarrými og uppbyggingu lífsgæðakjarna með íbúðum fyrir eldri borgara og viðræður staðið í nokkra mánuði hvernig ætti að haga því útboði. Nú er hins vegar gert ráð fyrir 40 rýmum til viðbótar fyrir framtíðarviðbyggingu, sem tefur og torveldar framgang lífsgæðakjarna og gerir út um þær hugmyndir í Þursaholti. Tafir sem munu valda því að á þessu kjörtímabili hefst engin uppbygging íbúða fyrir eldri borgara. Jafnframt hefur endurbótum á Hlíð seinkað og útboð á nýju hjúkrunarheimili dregist, sem hefur haft neikvæð áhrif á þjónustu við eldra fólk og aukið álag á heilbrigðis- og stuðningsþjónustu. Þrátt fyrir vonbrigði, þá samþykkjum við að auglýsa breytt skipulag, enda ekki ætlunin að standa í vegi fyrir nauðsynlegri uppbyggingu hjúkrunarrýma. Við ítrekum þó gagnrýni okkar á að fyrra samkomulag hafi verið virt að vettugi og teljum að farsælast hefði verið að vinna samkvæmt fyrirliggjandi stefnumótun, enda liggur mjög á uppbyggingu hjúkrunarrýma og íbúða fyrir eldri borgara.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 22. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fjárlög 2026: Missum ekki tækifærið

Deila grein

22/09/2025

Fjárlög 2026: Missum ekki tækifærið

Það er stundum sagt að vextir séu eins og þyngdarafl. Þeir toga alla niður á við, bæði heimili og ríkissjóð. Ríkið ver tugum milljarða í vaxtagreiðslur á hverju ári, um 125 milljarða árið 2026, og ekki er útlit fyrir að þessar greiðslur lækki á næstu árum.

Fjölskyldur búa við svimandi vaxtabyrði af húsnæðislánum sínum og fyrirtæki standa frammi fyrir fjármögnunarkostnaði sem er með því hæsta sem þekkist í Evrópu. Þetta dregur þróttinn úr hagkerfinu og skerðir möguleika okkar til að hraða t.a.m. innviðauppbyggingu og byggja upp sjálfbæra framtíð.

Veruleg tekjuaukning skapar sögulegt svigrúm

Hallinn árið 2026 er áætlaður um 15 milljarðar, sem er minna en eitt prósent af heildarútgjöldum ríkisins. Þetta er tiltölulega lítill halli en hann er táknrænn. Tækifærið sem við höfum til að ná jafnvægi tekna og gjalda er stórt.

Áætlað er að tekjur ríkisins muni aukast um 80 milljarða umfram áætlun árið 2025 og verða 27 milljörðum meiri árið 2026 en gert var ráð fyrir. Þetta eru jákvæðar fréttir. Þessi tekjuauki jafngildir rekstri heilbrigðisstofnana, menntaskóla eða viðbót við innviðauppbyggingu í nokkur ár.

Aðalatriði er þó að þessi tekjuaukning veitir einstakt svigrúm til að koma í veg fyrir hallarekstur strax á árinu 2026 án þess að skerða grunnþjónustu.

Hallalaus fjárlög skipta okkur öll máli

Hallalaus fjárlög 2026 væru ekki bara jákvæðar fréttir fyrir þá sem skulda, sem við flest gerum. Þau væru ein sterkustu skilaboð um aga og ráðdeild sem íslensk stjórnvöld hafa sent frá sér í áraraðir á sviði efnahagsmála. Þau myndu styrkja trúverðugleika ríkisfjármála, bæta verðbólguhorfur og flýta verulega fyrir vaxtalækkunum Seðlabankans.

Fyrir heimilin og fyrirtækin myndi þetta þýða lægri vexti, bætt lánskjör og aukið svigrúm til fjárfestinga. Þetta er verkefni sem allir ættu að sameinast um.

Raunhæfar leiðir

Það þarf ekki róttækan niðurskurð til að ná hallalausum fjárlögum. Hægt er að fresta framkvæmdum sem ekki eru brýnustu forgangsmál e.t.v. um eitt ár. Þá má velta fyrir sér þeim möguleika að endurskoða skattkerfið til skemmri og lengri tíma og draga úr undanþágum. Það er svo mikið í húfi að við verðum að gera betur. Vafalaust mun þetta verða rætt ásamt öðru fram að 2. umræðu frumvarps til fjárlaga.

Svo má ekki gleyma því að fjármögnunarkostnaður ríkisins myndi lækka verulega við endurfjármögnun lána og skuldbindinga um leið og verðbólguvæntingar batna. Í því felst milljarða sparnaður fyrir ríkissjóð.

Nýtum tækifærið

Fjárlög 2026 geta orðið hallalaus. Það væri ekki aðeins hagræn niðurstaða heldur söguleg yfirlýsing um aga, stöðugleika og ábyrgð gagnvart framtíðarkynslóðum. Slík niðurstaða væri til marks um að þjóðin geti staðið saman þegar mest á reynir líkt og gert var í þjóðarsáttinni á níunda áratugnum.

Við stöndum frammi fyrir einstöku tækifæri. Spurningin er hvort stjórnvöld og stjórnarandstaða, atvinnulíf og verkalýðshreyfing, fjölskyldur og fyrirtæki taki höndum saman. Ef allir leggja sitt af mörkum getum við tryggt hallalaus fjárlög 2026 og skapað traustari framtíð fyrir Ísland.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 20. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Endur­skoðun vaxtar­marka for­senda frekari upp­byggingar

Deila grein

19/09/2025

Endur­skoðun vaxtar­marka for­senda frekari upp­byggingar

Höfuðborgarsvæðið stendur á krossgötum. Ef við ætlum að tryggja uppbyggingu næstu áratuga þurfum við að endurskoða vaxtarmörkin í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Í dag eru þau of þröng og setja okkur skorður sem ganga ekki upp til lengri tíma.

Í Hafnarfirði er staðan mjög skýr: við erum að verða uppseld með land. Næsta stóra uppbyggingarsvæðið er Vatnshlíðin, auk nokkurra þéttingarreita sem eru þegar í vinnslu. En þegar sú uppbygging er farin af stað eða lokið, um 2030, verður ekkert land eftir til frekari framkvæmda. Það er stuttur tími þegar horft er til skipulags sem þarf að ná áratugi fram í tímann.

Tryggjum ungu fólki þak yfir höfuðið

Þess vegna segi ég skýrt: vaxtarmörkin verða að breytast. Þetta er ekki bara hagsmunamál Hafnarfjarðar, heldur alls höfuðborgarsvæðisins. Ungt fólk sem vill koma sér upp heimili þarf að vita að það sé hægt. Fyrirtæki sem vilja fjárfesta og vaxa þurfa land til að starfa á. Sveitarfélögin þurfa svigrúm til að byggja upp innviði eins og skóla, samgöngur og þjónustu. Ef við sköpum ekki þennan fyrirsjáanleika, þá stöðnum við.

Ég fagna því að félagsmálaráðherra, Inga Sæland, skuli vera jákvæð fyrir slíkum breytingum, en við hér í Hafnarfirði höfum bent á þessa þörf árum saman. Því miður fyrir daufum eyrum. Það er staðreynd að Reykjavíkurborg hefur barist hvað harðast gegn breytingum á vaxtarmörkum sem tafið hefur fyrir allri umræðu um lausnir. Nú heyrist þó nýr tónn úr þeim herbúðum, sem er jákvætt. Ég vona að það sé merki um að Reykjavík sé loksins tilbúin að horfa til framtíðar með okkur hinum. Á síðustu árum hafa verið lögð fram frumvörp, m.a. af hálfu Ágústar Bjarna, frv. þingmanns Framsóknar, sem hafa það að markmiði að tryggja að sveitarfélög, eins og Hafnarfjörður, hafi það svigrúm innan svæðisskipulagsins sem nauðsynlegt er til að geta haldið áfram að byggja upp með því að brjóta nýtt land samhliða því að þétta byggð með skynsamlegum hætti. Það er það sem við höfum kallað „hafnfirsku leiðina“ í uppbyggingu íbúða.

Lausnin er einföld

Við þurfum bæði þéttingu og ný svæði. Það er ekki annaðhvort eða, heldur jafnvægi. Með því tryggjum við nægt framboð af íbúðar- og atvinnusvæðum og getum byggt sterkt og fjölbreytt samfélag. Það er forsenda þess að höfuðborgarsvæðið geti vaxið og dafnað og verið raunverulegur kostur fyrir komandi kynslóðir.

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Aga­leysi bítur

Deila grein

19/09/2025

Aga­leysi bítur

„Það er mikilvægt að barn komi vel sofið, búið að borða og í ró í skólann.“ Þetta sagði við mig kennari sem hefur langa reynslu af skólastofunni. Þetta er forsenda þess að hægt sé að hefja kennslu og nýta tímann til náms. Þegar ró næst fer ekki dýrmætur tími forgörðum. Ætla má að þetta sé það sem við köllum almenna skynsemi og má fullyrða að flestir foreldrar sinna þessu hlutverki vel. Bæta má hins vegar við að foreldrar þjálfi með börnum sínum jákvæðan aga. Íslenskir kennarar eru ellefu mínútum lengur að ná aga eða ró í bekkjastarfi sínu, að meðaltali, miðað við rannsóknir á Norðurlöndunum. Agi er orð sem oft hefur verið misskilið. Fólk hræðist oft að ræða aga eða réttara sagt hvað agaleysi felur í sér. Þegar skoðaðar eru rannsóknir á skaðlegu umhverfi, bæði í uppeldi og á vinnustöðum, er agaleysi flokkuð sem vanræksla. Áhrifin af vanrækslu í uppeldi eru ákaflega skaðleg. Foreldrum ber skylda til að börn sín séu vel undirbúin til skólagöngunnar en með réttu má segja að leikskólar aðstoði foreldra við aðlögun barna að grunnskólanámi. Í stærri samhengi hlutanna bera foreldrar einnig ábyrgð á því að börnin vaxi úr grasi og verði virkir þátttakendur samfélagsins. Þetta er verkefni sem skólinn og foreldar skipta sín á milli, hvor liður mikilvægur í uppvextinum. En þá spyr maður sig, hvað kemur fyrir barn sem aldrei hefur fengið þjálfun í að fara eftir settum reglum, alist upp án aga og marka? Eða unglingar? Hvað gerist þegar einstaklingurinn verður fullorðinn? Það skín í gegn að agaleysi er vandamál sem er viðvarandi. Það kallar á samfélagsleg viðbrögð og við þufum því að velta því fyrir okkur hvernig við getum náð ró í skólastarfinu. Agaleysi er ekki bara áskorun fyrir skólann heldur samfélagslegt vandamál sem hefur afleiðingar langt fram á fullorðins ár.

Ró í skólastofunni.

Ró í skólastofunni miðast að sjálfsögðu við hvern árgang, hvert barn og þann stuðning sem þarf til að halda uppi skipulögðu starfi. Ró næst líka með því að foreldrar sinni samstarfi við skóla, fylgist með daglegu skólastarfi og taki virkan þátt í foreldrasamstarfi. Ali upp virðingu fyrir kennurum, skólastarfi og menntun. Styðji við barnið sitt svo það geti verið í bekkjar umhverfi frá upphafi. Styðji það til jákvæðrar hegðunar, sýni því fram á að óæskileg hegðun hafi afleiðingar og beiti leiðandi uppeldisaðferðum. Árangur í að koma í veg fyrir einelti, sem dæmi, byggir á að barn geti sett sig í spor annarra. Til þess þarf samstarf heimila og skóla og í raun alls samfélagsins. Rannsóknir sýna að sá hæfileiki, sem er grundvallar hluti af hópstarfi, er á niðurleið. Foreldrar þurfa að leggja sig fram um að barni sé leiðbeint þannig í samskiptum að það geti átt í jákvæðum samskiptum við önnur börn og fullorðið fólk. Það er að sjálfsögðu ekki allir sem getað náð þeirri færni í samskiptum. Þeir sem eru með þroska- og hegðunarraskanir þurfa oftar en ekki aðstoð sem skólanum ber að veita.

Hvernig næst ró í skólakerfinu?

Munum að ró í skólastofu hefst heima, þar er lagður grunnur að þeirri færni sem hvert og eitt barn þarf að búa yfir til að ró náist. Ró í skólastofu næst betur t.d. með því að vera ekki með símana til að trufla athygli. Ró næst t.d. þegar virðing er borin fyrir samnemendum og kennurum.

Pólitísk ró?

Einn af þeim þáttum sem hafa gleymst í þeirri umræðu er að samfélagið hefur breyst hratt á undanförnum árum. Samfélagið innan hvers bekkjar, samfélagið utan bekkjar. Fjölbreytni og þarfir ólíkra hópa hefur vaxið til muna. Skólarnir hafa tekist á við samfélagsbreytingar á aðdáunarverðan máta. Ég hef haft þann heiður að heimsækja marga skóla í Reykjavíkurborg. Þar er unnið fagmannlegt starf. Tími er komin til að við tökum saman höndum um hvernig skólakerfi við viljum. Vandi menntakerfisins liggur í að póltíkin þvælist fyrir. Það er að segja á fjögurra ára fresti er skipt um ráðherra og pólitískt kjörna fulltrúa og þar með stefnumótun í menntakerfinu. Við þurfum að halda okkur við langtímastefnumótun. Þar þarf aga og úthald eins og í uppeldi. Hvolpur sem ekki fær aga í uppeldi getur bitið.

Árelía Eydís Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar í Reykjavík og situr í Skóla- og frístundarráði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Grímu­laus að­för að lands­byggðinni

Deila grein

18/09/2025

Grímu­laus að­för að lands­byggðinni

Ríkisstjórnin hefur að undanförnu boðað breytingar sem munu markvisst fækka störfum æðstu embættismanna á landsbyggðinni. Þetta er sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að hlutfall opinberra starfa á landsbyggðinni er nú þegar lægra en á höfuðborgarsvæðinu.

Niðurlagning sýslumannsembættanna, afnám sex svæðisbundinna heilbrigðiseftirlita, fækkun héraðsdómstóla og nú áform um að miðstýra fjármálum framhaldsskólanna allt ber þetta að sama brunni.

Breytingar sem veikja innviði héraðsins

Í heildina er með þessum aðgerðum verið að flytja eða veikja 40–50 opinber störf á landsbyggðinni. Þetta eru ekki hvers kyns störf heldur stöður menntaðra sérfræðinga sem hafa haft raunverulegt umboð til að forgangsraða fjármagni og móta starfsemi á sínu svæði.

Þegar þessi opinberu störf eru flutt frá héraði tapast ekki bara atvinnutækifæri heldur líka vald til ákvarðanatöku á staðnum. Innviðir sem áður þjónuðu byggðunum með styrk og sjálfstæði eru þannig bitlausir gerðir. Þess í stað verða eftir útibú sem missa áhrif sín og geta lítið annað en fylgt fyrirmælum frá miðlægum skrifstofum.

Sagan sýnir að þegar kemur að niðurskurði er mun auðveldara fyrir embættismenn fjarri viðkomandi starfsstöð að beita niðurskurðarhnífnum þar sem þeir standa ekki í djúpum tengslum við samfélagið sem þjónustan á að þjóna.

Sýslumannsembættin lögð niður

Sýslumannsembættin voru í áratugi burðarás í þjónustu við almenning um land allt. Með niðurlagningu þeirra mun aðgengi að grunnþjónustu veikjast, sérstaklega í dreifðum byggðum. Fólk þarf nú að sækja þjónustu lengra að, sem skapar bæði kostnað og óhagræði.

Heilbrigðiseftirlitin lögð niður

Með því að leggja niður átta svæðisbundin heilbrigðiseftirlit á landsbyggðinni er framkvæmdastjórum fækkað um átta. Það er ekki aðeins spurning um starfsmenn heldur spurning um gæði eftirlits og öryggi íbúa.

Þetta eru opinber störf menntaðra sérfræðinga með staðbundna þekkingu og djúp tengsl við nærumhverfið, fólk sem hefur haft umboð til að forgangsraða fjármagni og tryggja öflugt eftirlit í sínum heimahéruðum. Með breytingunum er þessi vernd veikluð og valdinu kippt til fjarlægra skrifstofa.

Framhaldsskólarnir – sjálfstæðinu ógnað

Nýjasta dæmið er áform um að setja miðlægar fjármálaskrifstofur yfir framhaldsskólana. Með því er sjálfstæði skólastjórnenda skert og sveigjanleiki til að mæta þörfum hvers menntasamfélags minnkar. Skólarnir eiga að vera drifnir áfram af nærumhverfinu, ekki fjarlægum skrifstofum.

Ábyrgð stjórnvalda

Ég innti Ingu Sæland eftir þessu á Alþingi í dag í fyrirspurnartíma. Hún vísaði ábyrgðinni frá sér með þeim rökum að málin heyrðu ekki undir hennar ráðuneyti. En sem oddviti stjórnmálaflokks í ríkisstjórn ber hún fulla pólitíska ábyrgð. Það er ekki hægt að skýla sér á bak við formsatriði.

Aðför að landsbyggðinni

Hvort sem þetta er hluti af svokallaðri tiltekt ríkisstjórnarinnar eða ekki, þá blasir hitt við: uppsafnað eru þessi áform ekkert annað en grimmileg aðför að landsbyggðinni. Með þessum aðgerðum er vegið að mikilvægum innviðum sem skipta byggðirnar utan höfuðborgarsvæðisins sköpum.

Felst í tiltekt ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur í að brjóta og bramla hryggjarstykkið í hinum dreifðu byggðum?

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Börn og ungmenni – áskoranir, ábyrgð og stuðningur

Deila grein

18/09/2025

Börn og ungmenni – áskoranir, ábyrgð og stuðningur

Vellíðan barnanna okkar er eitthvað sem skiptur okkur öll máli. Á undanförnum árum hefur orðið vart við verulega aukningu í vanlíðan meðal barna og ungmenna. Kvíði, depurð og félagsleg einangrun eru meðal algengra einkenna sem hrjá unga fólkið okkar. Samhliða þessu má sjá vísbendingar um aukið ofbeldi og jafnvel vopnaburð í þessum hópi. Slíkt ástand hefur alvarleg áhrif, ekki aðeins á þau börn og ungmenni sem í hlut eiga, heldur á samfélagið allt. Því er mikilvægt að bregðast við þessari þróun sem fyrst svo hægt sé að hlúa að börnunum okkar.

Foreldrar gegna lykilhlutverki í að bregðast við. Það skiptir máli að fylgjast með líðan barna og ungmenna, sýna þeim áhuga og tala opinskátt um tilfinningar, vináttu og áskoranir daglegs lífs. Þegar grunur vaknar um vanlíðan eða áhættuhegðun er mikilvægt að grípa inn í snemma og leita aðstoðar.

Foreldrum og forráðamönnum stendur til boða fjölbreytt stuðningsnet. Félagsþjónusta sveitarfélaga býður upp á ráðgjöf og úrræði sem geta létt undir með fjölskyldum í erfiðleikum. Í skólunum og hjá sveitarfélaginu starfa námsráðgjafar, félagsráðgjafar og sálfræðingar sem eru reiðubúnir að veita aðstoð. Lögreglan sinnir ekki aðeins refsivörslu heldur vinnur einnig í forvörnum og getur gripið inn í þegar ofbeldi eða vopnaburður kemur upp. Heilbrigðisþjónustan, til dæmis heilsugæslur og sértæk geðheilbrigðisteymi, geta veitt faglega aðstoð þegar vanlíðan verður mikil. Þá sinna frjáls félagasamtök og stuðningshópar mikilvægu hlutverki með fræðslu, félagsstarfi og vettvangi fyrir samveru.

Rannsóknir sýna að þátttaka barna og ungmenna í íþróttum og tómstundastarfi hefur jákvæð áhrif á líðan þeirra, sjálfsmynd og félagsfærni. Slík þátttaka getur dregið úr einangrun, aukið vellíðan og minnkað líkur á áhættuhegðun. Rannsóknir á Suðurnesjum sýna að hlutfallslega færri börn og ungmenni sækja skipulagt tómstundastarf en nemendur á landsvísu. Fjölbreytt framboð af frístundastarfi á Suðurnesjum má finna á www.fristundir.is en vefurinn hefur að geyma upplýsingar um allar þær íþróttir og tómstundir sem í boði eru.

Til þess að stemma stigu við þessari þróun þarf samvinnu allra og ganga í takt. Með samstilltu átaki foreldra, skóla, félagsþjónustu, lögreglu, heilbrigðisþjónustu, íþrótta- og tómstundastarfs og samfélagsins alls er hægt að draga úr vanlíðan og stuðla að því að börn og ungmenni fái að vaxa upp við öryggi, virðingu og umhyggju.

Við berum öll ábyrgð á því að skapa börnunum okkar heilbrigð og örugg skilyrði til framtíðar.

Díana Hilmarsdóttir, bæjarfulltrúi.

Greinin birtist fyrst á vf.is 18. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Er það ekki sjálf­sögð krafa að fá bíla­stæði?

Deila grein

16/09/2025

Er það ekki sjálf­sögð krafa að fá bíla­stæði?

Það er margt sem við getum verið stolt af í Reykjavík. Við höfum einstaka náttúru allt í kringum okkur, hreint loft, nálægð við hafið og sterkt samfélag. En við megum ekki gleyma því að borgin okkar er mjög dreifð og því eru góðar samgöngur grundvöllur góðs lífs borgarbúa.

Á undanförnum árum hafa nýjar íbúðir verið byggðar án þess að gera ráð fyrir bílastæðum, það hljómar kannski spennandi á blaði fyrir suma að reyna að gera Reykjavík að Kaupmannahöfn norður atlantshafsins með því að þétta borgina margfalt og neyða íbúa til að taka strætó en fyrir meðal fjölskyldur er þetta mikil áskorun. Við búum í borg þar sem almenningssamgöngur eru einfaldlega ekki komnar á þann stað að fólk geti treyst á þær í daglegu lífi. Við vitum mörg hversu lengi getur tekið að komast milli staða með strætó, vegna umferðar vanda, hversu sjaldan hann gengur á kvöldin og helgar og hvað þá ef veður eru válynd. Strætó er því miður ekki raunhæfur valkostur fyrir stóran hluta borgarbúa eins og staðan er núna.

Áhersla á aðgengi borgarbúa

Það sem skiptir máli er að hugsa um fólk. Fjölskyldur með ung börn þurfa að komast í leikskóla, skóla og íþróttir. Eldri borgarar þurfa að geta farið til læknis eða í búð án þess að þurfa að ganga langar vegalengdir í hálku og kulda. Fatlaðir þurfa einfaldlega að hafa tryggt aðgengi að sínum heimilum og þjónustu. Bílastæði er ekki munaður fyrir þessa hópa, þau eru lífsnauðsyn.

Reykjavík er ekki Kaupmannahöfn eða Osló. Við erum borg með 140 þúsund íbúa í landi sem spannar þúsundir ferkílómetra og með tíu sinnum minni þéttleika sem gerir það að verkum að almenningssamgöngur geta aldrei orðið sambærilegar eins og í fyrr nefndu borgunum. Það er engin raunverulegur valkostur fyrir langflesta borgarbúa annað en að nota bíla. Því er ekki sanngjarnt að bera okkur saman við stórborgir á meginlandinu sem hafa haft áratugi til að byggja upp öflugar járnbrautir, neðanjarðarlestir og skilvirk almenningssamgöngukerfi.

Ekki afturför … heldur skynsemi

Að krefjast þess að nýjar íbúðir hafi að lágmarki eitt bílastæði er því ekki afturför, heldur skynsemi. Það er ábyrgð gagnvart íbúum borgarinnar að tryggja að þeir sem þurfa bílastæði fái að lágmarki eitt stæði fyrir hverja íbúð. Við getum öll sammælst um að stuðla að umhverfisvænni ferðavenjum til lengri tíma, en í dag erum við einfaldlega ekki komin á þann stað að bíllinn sé valkostur sem hægt er að sleppa. Þetta snýst ekki um að vera á móti almenningssamgöngum. Þvert á móti. Við eigum að halda áfram að fjárfesta í þeim, styrkja kerfið og gera það að raunhæfum valkosti fyrir fleiri. En þar til það gerist, verðum við að vera raunsæ og standa vörð um það sem tryggir lífsgæði fólks í dag. Því leggjum við í Framsókn fram tillögu þess efnis í borgarstjórn í dag að Reykjavíkurborg skilyrði að hver ný íbúð sem byggð er í Reykjavík hafi að minnsta kosti eitt bílastæði.

Það er einföld, sanngjörn og mannleg krafa sem tekur mið af raunveruleikanum sem við lifum í.

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, borgarfulltrúi Framsóknar og situr í umhverfis- og skipulagsráði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Börn sem skilja ekki kennarann

Deila grein

16/09/2025

Börn sem skilja ekki kennarann

Á undanförnum árum hefur orðið gríðarleg fjölgun á börnum og ungmennum á Íslandi sem hefja skólagöngu með engan grunn eða þekkingu á íslensku tungumáli. Þrátt fyrir góða viðleitni hefur menntakerfið ekki náð að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til náms. Það á bæði við um þau sem flytja til landsins og þau sem fyrir eru.

Hér stöndum við frammi fyrir kjarna­spurningu: Viljum við að börn hefji nám í bekkjum þar sem þau skilja hvorki kennara né samnemendur?

Sýnum kjark

Við eigum að hafa kjark til að setja skýrar kröfur, kjark til þess að setja skýr og greinileg markmið og fylgja þeim eftir. Kröfur um að allir sem vilja búa hér læri tungumálið og hafi til þess raunveruleg tækifæri!

Það er eðlilegt að allir sem ætla sér að búa hér læri íslensku en jafnframt ber okkur skylda til að tryggja að þau hafi raunhæfan möguleika til þess. Íslenskukunnátta er lykilforsenda þess að taka þátt í samfélaginu og öðlast sjálfstæði. Það að nemandi hafi grunnfærni í íslensku áður en hann kemur inn í bekkjarkennslu skiptir öllu máli, fyrir barnið sjálft, fyrir kennarann og ekki síst fyrir bekkinn í heild.

Ávinningurinn er augljós. Slík krafa gagnast ekki aðeins nýbúabörnunum sjálfum heldur kemur slíkt vinnulag einnig til móts við aðra nemendur. Kennarar hafa rætt um að ólík verkefni innan kennslustofunnar hafi aukið álag verulega. Með því að nemendur fái aukinn stuðning í íslenskunámi mun hinn almenni kennari bæði finna það í bættum árangri barnsins sem ekki á íslensku sem heimamál (móðurmál) en um leið gefa kennaranum aukið svigrúm í sinni kennslu og aukna athygli í öðrum verkefnum kennslunnar.

Öxlum ábyrgð

En það er ekki nóg að setja kröfur á börnin. Við verðum einnig að setja kröfur á okkur sjálf. Við verðum að tryggja að til sé fjölbreytt og aðgengilegt kennsluefni í íslensku sem öðru máli, tilbúið þegar nýjar fjölskyldur flytja til landsins. Við verðum að mennta og endurmennta kennara með sérhæfingu á þessu sviði, styðja þá í verki og útvega þeim verkfæri til að fylgjast með framvindu nemenda og grípa tímanlega inn í.

Þetta krefst fjármagns en til lengri tíma er þetta fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka. Snemmbær tungumálastuðningur dregur úr brottfalli, eflir sjálfstæði barna og stuðlar að virkri samfélagsþátttöku til framtíðar. Fjármunir sem varið er í góða aðlögun skila sér margfalt til baka í formi betri menntunar, aukinnar atvinnuþátttöku og minni félagslegs kostnaðar.

Lærum af nágrönnum okkar

Það þarf ekki alltaf að finna upp hjólið þegar kemur að góðum lausnum. Í Danmörku hefur verið þróað kerfi sem tryggir börnum markvissan tungumálastuðning strax við komuna í landið, áður en þau hefja nám í hefðbundnum skóla. Reynslan í Danmörku sýnir að þetta skilar sér í árangri, fleiri börn ná góðum tökum á dönsku og verða virkir þátttakendur í samfélaginu.

Við eigum ekki að hræðast að setja kröfur um íslenskukunnáttu. Þvert á móti, það er réttur hvers barns að skilja og geta verið virkur þátttakandi. En við berum einnig skyldu til að tryggja kennurum stuðning, aðgengileg námsgögn og stöðugt fjármagn. Þannig fá nýkomin börn öflugan undirbúning og ganga inn í almenna bekki með raunhæfan grunn til að blómstra. Einnig berum við skyldu að allir nemendur hafi jöfn tækifæri til náms og þeir nemendur sem fyrir eru í bekkjum fái jafna athygli og stuðning frá kennurnum. Það er besta leiðin til að styrkja bæði börnin sjálf og samfélagið í heild.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Franskur kanarífugl

Deila grein

16/09/2025

Franskur kanarífugl

Þegar kolanámur voru helsta uppspretta orkuöflunar tóku námuverkamenn með sér litla kanarífugla niður í djúpar og skítugar námur. Fuglarnir voru ekki þar til skrauts, heldur sem viðvörunarkerfi. Ef fuglarnir hættu að syngja eða féllu dauðir til jarðar þá var það merki um ósýnilegan en banvænan gasleka.

Frakkland er forysturíki í Evrópusambandinu, stendur sterkt menningarlega og ein öflugustu fyrirtæki Evrópu eru staðsett þar. Hins vegar ríkir þar nánast stöðug stjórnarkreppa, þar sem skuldir landsins hafa náð hæstu hæðum síðan mælingar hófust. Fjárlagahallinn er meiri en hjá öllum öðrum aðildarríkjum evrusvæðisins. Eins og fuglinn sem hættir að syngja gefa þessar tölur til kynna að mikill kerfisvandi sé til staðar og tímabært að hrinda í framkvæmd neyðaráætlun.

Þegar Emmanuel Macron varð forseti Frakklands árið 2017 lofaði hann að lækka skatta, efla hagvöxt og gera vinnumarkaðinn sveigjanlegri. Að einhverju leyti hefur þetta gengið eftir, þar sem atvinnuleysi hefur minnkað og fjárfestingar aukist. Hins vegar standa ríkisfjármálin það veikt að tvær ríkisstjórnir hafa fallið í vegferð sinni til að minnka útgjöld ríkissjóðs. Vandinn er ekki nýtilkominn, heldur hefur franski ríkissjóðurinn verið rekinn með halla í áratugi. Staða ríkisfjármála í Frakklandi er ósjálfbær og nú þarf franska ríkið að fjármagna sig á hærri vöxtum en fyrirtækin Airbus og L’Oreal. Matsfyrirtækið Fitch hefur lækkað lánshæfiseinkunn franska ríkissjóðsins og nefndir að skuldir geti hækkað í allt að 121% af landsframleiðslu. Jafnframt er talið að áætlun um að lækka fjárlagahallann sé ótrúverðug.

Kanarífuglinn í kolanámunni gaf vísbendingu um að mikil hætta væri á ferðum. Spurning er hvort franski kanarífuglinn sé að vara við stærri hættu sem nær yfir fleiri ríki Evrópusambandsins, þar sem þau glíma við mikinn fjárlagahalla og miklar skuldir hins opinbera. Þessi slæma staða hjá forysturíki í Evrópusambandinu er ekki góð tíðindi fyrir Ísland. Við eigum í miklum viðskiptum við evrusvæðið og ef dregur úr kaupmætti og hagvexti þá dregur úr utanríkisviðskiptum, sem minnkar verðmætasköpun á Íslandi.

Vegna þess mikla efnahagsvanda sem mörg leiðandi ríki Evrópusambandsins standa frammi fyrir eiga íslensk stjórnvöld ekki að eyða dýrmætum tíma lands og þjóðar í ESB-erindisleysu. Stærsta áskorun þessarar ríkisstjórnar er að ná verðbólgu og vöxtum niður. Hægst hefur verulega á lækkun verðbólgu og því hafa vextir ekki lækkað eins og væntingar stóðu til um. Ég hvet ríkisstjórnina til góðra verka, að standa við gefin loforð um lækkun verðbólgu og nýta tíma okkar allra í að efla verðmætasköpun í þágu aukinnar velsældar fyrir fólkið í landinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Framtíð íþrótta í Suðurnesjabæ fórnað

Deila grein

16/09/2025

Framtíð íþrótta í Suðurnesjabæ fórnað

Það er með ólíkindum að árið 2025 skuli Suðurnesjabær enn ekki hafa hrint í framkvæmd gerð gervigrasvallar fyrir börn og ungmenni sveitarfélagsins. Miðað við nýjustu vendingar er málið nú að teygja sig inn á þriðja kjörtímabil sameinaðs sveitarfélags sem varð til 2018.

Á meðan kostnaðurinn hækkar og meirihlutinn hikstar sitja börn og ungmenni eftir án aðstöðu sem annars er talin sjálfsögð í flestum sveitarfélögum. Við sitjum eftir með skýrslur, áætlanir og loforð sem aldrei verða að veruleika.

Kostnaðarmat

Í skýrslu Verkís, sem unnin var fyrir sveitarfélagið í tengslum við hönnun á gervigrasvelli og kom út í maí 2022, var kostnaður metinn svo:

m.kr.

Miðjan: 892

Garður: 656

Sandgerði, aðalvöllur: 575

Sandgerði, æfingavöllur: 620

Þessar tölur eru á verðlagi 2022. Til að meta raunverulegan stofnkostnað í dag er eðlilegt að færa þær í núvirði króna með vísitölu neysluverðs Hagstofu Íslands (VNV).

VNV í maí 2022: 539,5

VNV í september 2025: 658,6

Hækkun: ≈ 22,1%

Verðbættar tölur (2025)

m.kr.

Miðjan: ~1.089

Garður: ~801

Sandgerði, aðalvöllur: ~702

Sandgerði, æfingavöllur: ~757

Ath.: Fyrir hreinan mannvirkjahluta mætti einnig skoða byggingarvísitölu Hagstofu, en hún breytir ekki meginröðun kostanna þar sem Sandgerði nýtir nú þegar innviði (stúku, salerni, félagsaðstöðu o.s.frv.) sem halda stofnkostnaði niðri.

Hagkvæmasti kosturinn er augljós: að byggja á aðalvellinum í Sandgerði. Þar eru þegar fyrir hendi 340 manna steypt stúka, salernisaðstaða, félagsheimili á tveimur hæðum, vélageymsla og öll helstu grunnmannvirki sem þarf. Auk þess er lóðin í eigu sveitarfélagsins sjálfs, sem tryggir bæði eignarhald og einfaldar framkvæmdina án þess að ráðast í kostnaðarsöm lóðarkaup eða viðræður um afnotarétt.

Ákvörðun gegn betri vitund

Hinn 5. júní 2024 samþykkti bæjarstjórn að byggja völlinn á aðalvellinum í Sandgerði, með þeim afleiðingum að klofningur varð innan Sjálfstæðisflokksins og meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, sem myndaður var eftir kosningarnar 2022, sprakk. Nú hefur nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Bæjarlistans hins vegar snúið af þeirri leið og lagt fram tillögu um hönnun á Miðjunni – dýrasta og óraunhæfasta kostinum.

Þar er ekkert til staðar: ekki fráveita, ekki vatn, engin salernisaðstaða og engir búningsklefar. Aðeins lagning aðveitulagna fyrir snjóbræðslu og vatnsból er áætluð 76,8 milljónir króna á verðlagi 2022. Þetta er ekki aðeins óhagkvæmt – þetta er ábyrgðarleysi gagnvart skattgreiðendum og íþróttalífi sveitarfélagsins.

Þungur rekstur og hátt vaxtastig

Suðurnesjabær hefur aðeins 300-350 milljónir króna á ári til framkvæmda án lántöku. Með því að velja Miðjuna er ekki aðeins verið að hækka stofnkostnað um hundruð milljóna heldur er bærinn settur í vegferð sem mun bitna á öðrum brýnum verkefnum, svo sem:

auknu leikskólarými í Garði með byggingu nýs leikskóla

stækkun Sandgerðisskóla

úrlausn fráveitumála

Þetta gerist á sama tíma og stýrivextir Seðlabanka Íslands eru 7,5% og verðbólga mælist 3,8%. Því er augljóst að sveitarfélagið þarf að forgangsraða fjármunum sínum með sérstakri varfærni.

Börnin okkar sitja eftir

Afleiðingarnar eru skýrar:

Börn og íþróttafélög í Suðurnesjabæ búa við lakari aðstöðu en jafnaldrar þeirra í nágrannasveitarfélögum

Íþróttalífið lamast og foreldrar missa áhuga á að senda börn sín til iðkunar

Börnin fá þau skilaboð að þeirra framtíð sé ekki í forgangi

Gervigrasvöllur er forsenda fyrir vetrarstarfi knattspyrnunnar. Því miður heldur meirihlutinn áfram að tefja málið með endalausum skýrslubeiðnum og dýrum hönnunarkostnaði sem leggur tugmilljónir á bæjarsjóð.

Við eigum betra skilið

Íbúar Suðurnesjabæjar eiga betra skilið. Börnin okkar eiga betra skilið. Það er kominn tími til að setja punkt við margra ára aðgerðaleysi og hefja byggingu hagkvæms gervigrasvallar í Suðurnesjabæ – í Sandgerði, þar sem allir innviðir eru fyrir hendi og land í eigu sveitarfélagsins sjálfs.

Hvað þarf að gera núna?

Byggja völlinn í Sandgerði – hagkvæmasti og skynsamlegasti kosturinn

Sýna pólitíska ábyrgð – hætta að fresta og taka ákvörðun

Setja börnin í forgang – tryggja þeim aðstöðu sem þau eiga rétt á

Vernda bæjarsjóð – velja framkvæmdir sem sveitarfélagið ræður við

Íþróttir eru ekki aðeins leikur á vellinum – þær eru grunnur að heilbrigðu líferni og lykill að velsæld barna.

Nú þarf kjark til að taka ákvarðanir með hag bæjarsjóðs og barna í Suðurnesjabæ að leiðarljósi. Íþróttafélögin tvö, Reynir og Víðir, hafa ekki sameinast, en það má ekki standa í vegi fyrir skynsamlegri framtíðaruppbyggingu. Það er kominn tími til að leggja hrepparíginn til hliðar og hugsa fyrst og fremst um hag barnanna okkar. Þar skiptir máli að minna á að sveitarfélagið rekur gjaldfrjálsan frístundaakstur milli byggðarkjarna, sem tryggir öllum börnum jafnan aðgang að æfingum og aðstöðu. Byggjum því upp íþróttamannvirki í Suðurnesjabæ með skynsamlegum hætti – í þágu allra íbúa sveitarfélagsins.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. september 2025.