Categories
Fréttir Greinar

„Hve­nær var þetta sam­tal við þjóðina tekið?“ spurði garðyrkjubóndinn

Deila grein

17/11/2024

„Hve­nær var þetta sam­tal við þjóðina tekið?“ spurði garðyrkjubóndinn

Í vikunni heimsótti ég garðyrkjubændur á Suðurlandi. Úti var dimmur nóvember og veturinn minnti á sig með ísköldum vindkviðum, en inni í gróðurhúsunum ríkti hlýja og birta. Þar var lífið fullt af litum og ferskum ilmi. Það er alltaf jafn heillandi að sjá hvernig jarðhiti og hrein orka landsins skapa þessar ótrúlegu aðstæður sem við Íslendingar höfum byggt upp.

Samt er það ekki þessi hlýlega stemning sem er efst í huga mér heldur spurning sem einn garðyrkjubóndinn varpaði fram í umræðum um raforkumál. Þar ræddum við hvernig almenningur og minni fyrirtæki eiga sífellt erfiðara með að tryggja sér raforku á hagkvæmum kjörum vegna aukinnar samkeppni við stórnotendur, meðal annars garðyrkjubændur sem leika lykilhlutverk í grænmetisframleiðslu landsins og styðja þannig við fæðuöryggi, lýðheilsu og loftslagsmál og færa okkur litagleði blóma víða sömuleiðis. Hann spurði: „Hvenær var þetta samtal tekið, vill þjóðin þetta?“

Þessi spurning hefur setið í mér síðan. Hún hitti beint í hjartastað vegna þess að hún snertir kjarna þess sem ég glímdi við sem orkumálastjóri – hvernig við tryggjum að raforka, þessi sameiginlega auðlind þjóðarinnar, sé nýtt í þágu almennings og smærri fyrirtækja, frekar en að lúta markaðslögmálum þar sem þeir sterkustu ráða ferðinni. Til að skilja hvernig við komumst á þennan stað þurfum við að líta til baka.

Ábyrgðarleysi gagnvart orkuöryggi almennings

Árið 2003 var Landsvirkjun leyst undan þeirri lagalegu skyldu að tryggja orkuöryggi almennings. Með innleiðingu raforkutilskipana Evrópusambandsins í íslensk lög var ábyrgðin færð frá einni stofnun án þess að hún væri sett í hendur annars aðila. Þetta hefur skapað pólitískt tómarúm sem hefur skilið almenning eftir berskjaldaðan – án trygginga um orkuöryggi.

Margir kostir hafa fylgt þessari löggjöf og innan hennar eru heimildir sem hægt er að nota til að tryggja forgang almennings en samt ríkir þetta tómarúm enn í dag. Enginn hefur formlega skyldu til að tryggja að heimili og lítil fyrirtæki njóti aðgangs að nægri orku, jafnvel í neyðarástandi.

Ólíkt því sem víða þekkist eru stórnotendur hér, svo sem álver og gagnaver, ráðandi í raforkunotkuninni. Þeir nýta 80 prósent allrar raforku á Íslandi, önnur fyrirtæki um 15 prósent og heimili einungis 5 prósent. Undanfarið hefur ásókn í orku hér á landi vaxið mjög á sama tíma og við höfum verið að glíma við náttúrulegar áskoranir eins og sögulega lága vatnsstöðu í lónum.

Heimilin senda ekki lögmann til samningagerðar um orkuverð

Sem orkumálastjóri fékk ég oft spurninguna: „Af hverju tryggir þú ekki að nóg sé virkjað?“ Staðreyndin er sú að á síðustu þremur árum hafa verið gefin út leyfi fyrir fleiri megavöttum en áratuginn á undan. Fjöldi nýrra verkefna er í undirbúningi. Hins vegar leysir ný og ný virkjun ekki grunnvandann.

Ný framleiðsla fer einfaldlega þangað sem hæst verð er boðið. Stórnotendur, sem hafa sterka samningsstöðu og fjárhagslegan styrk, tryggja sér forgang með langvarandi samningum. Þetta þýðir að:

  • Orkan getur farið beint í stór verkefni, eins og stóriðju eða útflutning, í stað þess að styðja við almennar þarfir.
  • Minni orkunotendur, eins og grænmetisbændur, lítil og meðalstór fyrirtæki eða heimili, sitja eftir með sama ótrygga aðgang og áður.

Almenningur hefur engan lögmann sem semur fyrir þeirra hönd eða tryggir hagstæða skilmála á orkuverði langt fram í tímann. Venjulegt fólk og slík fyrirtæki treysta því á að stjórnvöld taki þessa ábyrgð að sér og gæti hagsmuna þeirra.

Getum við sætt okkur við að framtíð íslensks atvinnulífs og auðlindanýtingar sé ákvörðuð án þess að þjóðin fái að segja sitt álit? Höfum við raunverulega tekið umræðuna um það hvort við séum tilbúin að fórna garðyrkjubændum okkar, litlum fyrirtækjum og fjölbreyttu atvinnulífi fyrir hámarksarðsemi? Það er ekki lýðræði – það er tómlæti.

Almannahagsmunir mega ekki sitja á hakanum. Við þurfum að spyrja okkur: Viljum við samfélag sem stendur vörð um fjölbreytt atvinnulíf, nýsköpun og sjálfbærni – eða samfélag sem leyfir stærstu aðilunum að stjórna því hvernig við viljum haga framleiðslu okkar og áherslum?

Skortur á stefnu í þágu almennings

Mikið er talað um mikilvægi grænnar orkuöflunar fyrir orkuskipti og heimilin í landinu, þótt vitað sé að það eru ekki þessir aðilar sem geta borgað hæsta verðið fyrir orkuna. Ný uppbygging tryggir því ekki að orkan rati í þau verkefni sem sagt er að eigi að virkja fyrir.

Nýlegt dæmi um þá sundrung sem getur skapast þegar almenningi þykir á hagsmunum annarra troðið má finna í Noregi. Þar snerist almenningur harkalega gegn orkumálunum þegar orkuverð til heimila rauk upp úr öllu valdi í orkukrísunni og skortur var á vernd fyrir almennan notanda.

Auk þess hafa skapast miklar deilur um þróun vindorku í Noregi. Þar hefur allt að 70% af raforkuframleiðslu vindorkuvera farið til stækkunar orkufreks iðnaðar, en almenningur upplifir sig svikinn af fölskum loforðum um að þessi uppbygging myndi bæta orkuöryggi þeirra. Þetta hefur valdið djúpstæðum átökum og traust á stjórnvöldum hefur beðið hnekki.

Þess vegna skiptir sköpum að innleiða öryggisventla sem tryggja almenningi skjól og forgang í orkumálum. Slíkir ventlar gera það ekki aðeins mögulegt að beina nýrri orku í verkefni sem þjóna samfélaginu og grænum orkuskiptum, heldur stuðla einnig að því að heimilin og minni aðilar hafi raunverulegan ávinning af uppbyggingu orkukerfisins. Þegar slíkt jafnvægi er til staðar minnka líkurnar á átökum og vantrausti gagnvart nýjum nýtingarmöguleikum.

Að tryggja almenningi ávinning og vernd í þessum málaflokki er ekki aðeins réttlætismál heldur lykill að því að byggja upp traust og stuðla að þróun sem er til hagsbóta fyrir allt samfélagið. Þetta eru sameiginlegir hagsmunir sem allir ættu að geta sameinast um.

Rifjum upp tilgang stóriðjustefnunnar

Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri og stjórnarformaður Landsvirkjunar, lýsti tilgangi stóriðjustefnunnar sem leið stjórnvalda til að nýta íslenskar orkuauðlindir á hagkvæman hátt og stuðla að efnahagslegum framförum. Í viðtali við Frjálsa verslun árið 2019 sagði hann:

„Markmiðið var að gera okkur kleift að ráðast í hagkvæma stórvirkjun með því að selja verulegan hluta orkunnar til orkufrekrar stóriðju. Þannig var annars vegar komið á fót nýjum útflutningsatvinnuvegi, en hins vegar tryggð hagkvæm raforka fyrir innlenda markaðinn.“

Hann bætti við að með sölu á orku til nýrrar stóriðju hefði bæði verið hægt að koma á nýjum útflutningsiðnaði og tryggja ódýra orku fyrir innlendan markað um langa framtíð.

Þegar við skoðum fortíðina sjáum við hvernig fyrri kynslóðir lögðu grunn að því orkuöryggi sem við njótum í dag. Vel er vitað að orkuöryggi Íslendinga í dag er ekki síst afrakstur orkufrekrar iðnaðaruppbyggingar fyrri kynslóða. Sú hugsun fyrirrennara að byggja upp iðnað, en á sama tíma hlúa ætíð um leið að orkuöryggi almennings, lagði mikilvægan grunn að þeim lífsgæðum sem við búum við í dag, eins og kemur glögglega fram í ævisögu Jóhannesar Nordal. Eða eins og Steingrímur Hermannsson sagði árið 1977 í ræðu um skipulag orkumála: Markmiðið var að tryggja að „allir landsmenn gætu haft aðgang að nægri orku, öruggri orku og ódýrri orku.“

Flestum er ljóst að fjölbreyttur iðnaður á Íslandi er mikilvægur fyrir nútíð og framtíð landsins. Hins vegar er jafn ljóst að stefna okkar í orkumálum þarf að byggja á samhug og skýrri forgangsröðun, þar sem hagsmunir almennings og smærri fyrirtækja eru tryggðir. Að stuðla að sundrung og skipa í fylkingar getur vart talist gott veganesti fyrir frekari uppbyggingu orkumála hér á landi. Við þurfum að læra af fortíðinni, nýta þá reynslu og tryggja að framtíðarsýn okkar taki mið af þörfum allra.

Tilgangur stjórnvalda með því að fá stórfyrirtæki hingað til lands til að byggja upp stóriðju var ekki að íslenskur almenningur myndi keppa við þau um orku á samkeppnismarkaði, eins og sumir fulltrúar stjórnmálanna virðast halda. Heldur var tilgangurinn að efla íslenskt atvinnulíf, að almenningur nyti góðs af uppbyggingu dreifkerfisins og að samfélagið allt myndi njóta efnahagslegs ávinnings af starfseminni og hafa eitthvað um hana að segja.

Þegar um er að ræða auðlindir í þjóðareign er ekki hægt að sætta sig við að almenningur og venjuleg fyrirtæki séu skilin eftir á hliðarlínunni – áhrifalaus og áhorfandi að því hvernig framtíð þeirra er mótuð án þeirra þátttöku.

Og eitt til viðbótar: Bæði Jóhannes Nordal og Steingrímur Hermannsson lögðu áherslu á mikilvægi þess að tryggja jafnvægi milli nýtingar auðlinda og náttúruverndar í ræðum og skrifum sínum.

Þörf á skýrum forgangi

Í starfi mínu sem orkumálastjóri lagði ég mikla áherslu á að tryggja raforkuöryggi fyrir almenning. Ég talaði fyrir því að setja öryggisventla í kerfið – reglur sem myndu tryggja að heimili og minni fyrirtæki fengju raforku í forgangi, sérstaklega á tímum umframeftirspurnar. Þessar tillögur mættu þó andstöðu.

Meðal annars var ég kölluð „skömmtunarstjóri ríkisins“ fyrir það eitt að leggja til að stórnotendur gætu ekki gert nýja samninga á kostnað almennings. En ég trúi því að forgangur heimila og minni fyrirtækja sé ekki skömmtun – það er sanngirni og almannahagsmunir!

Í íslenskri orkustefnu er skýrt kveðið á um að heimili eigi að njóta forgangs og fyrir þeirri stefnu tala ég. En á meðan engar reglur styðja þessa stefnu og enginn stjórnmálamaður talar fyrir henni er hún bara orð á blaði. Eins og fulltrúi Landsvirkjunar sagði nýlega: „Það blasir við að ef aðrir framleiðendur draga úr sölu á raforku inn á almenna markaðinn og selja hana þess í stað til stórnotenda, ógnar það raforkuöryggi almennings.“ Ég benti á þetta fyrir ári síðan en sem embættismaður gat ég ekki tekið endanlegar ákvarðanir eða breytt löggjöf. Það er á ábyrgð stjórnmálamanna að bregðast við.

Eitt helsta erindi mitt í íslensk stjórnmál er að tryggja að hagsmunir almennings mæti ekki afgangi stjórnmálamanna. Ég ætla mér ekki að vera stjórnmálamaður sem stýrist af háværustu hagaðilum með mestu áhrifin í bakherbergjunum. Ég ætla mér að vera stjórnmálamaður sem vinnur í þágu allra landsmanna.

Tími til að hefja samtalið

Spurning garðyrkjubóndans situr enn í mér: „Hvenær var samtal tekið við þjóðina?“ Þetta samtal hefur aldrei verið tekið. Þjóðin hefur ekki verið spurð hvernig við viljum nýta auðlindir okkar eða hverjir eiga að njóta þeirra mest. Það er kominn tími til að breyta því.

Raforka er ekki bara vara sem seld er til hæstbjóðanda. Hún er lífæð samfélagsins, grundvöllur daglegs lífs og atvinnurekstrar. Nú þarf að tryggja að allir njóti góðs af henni. Líka venjuleg fyrirtæki, garðyrkjubændur og heimilin í landinu.

Viljum við verða verstöð fyrir erlenda fjárfestingasjóði, þar sem við seljum auðlindir okkar sem hrávöru til hæstbjóðanda, eða viljum við byggja upp fjölbreytt atvinnulíf sem styður við nýsköpun, minni fyrirtæki, virðisaukandi framleiðslu og gjaldeyrissparandi starfsemi? Þetta er ekki aðeins spurning um hagnað eða markaðslögmál – þetta er spurning um stefnu, gildi og framtíðarsýn fyrir Ísland.

Raforka á ekki að vera lúxusvara sem einungis þeir sterkustu geta leyft sér að nýta á sínum forsendum. Hún er réttur allra landsmanna, réttur sem stjórnvöld verða að tryggja með skýrum reglum.

Garðyrkjubóndinn spurði: „Hvenær var samtal tekið við þjóðina?“ Nú er kominn tími til að svara þeirri spurningu með aðgerðum, ekki bara orðum. Við þurfum að setja hagsmuni almennings í fyrsta sæti, tryggja réttláta nýtingu auðlinda og byggja upp samfélag sem veitir öllum tækifæri til að njóta góðs af þeim lífsgæðum sem náttúra okkar býður upp á. Þetta er spurning um réttlæti, sjálfbærni og framtíðarsýn – og framtíðin byrjar núna.

Halla Hrund Logadóttir, fyrrverandi orkumálastjóri og oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. nóvember 2024.

Categories
Greinar

Sókn og sigrar samvinnuhugsjónarinnar

Deila grein

17/11/2024

Sókn og sigrar samvinnuhugsjónarinnar

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn var stofnaður 16. des­em­ber 1916 við samruna Bænda­flokks­ins og Óháðra bænda og er elsti starf­andi stjórn­mála­flokk­ur á Íslandi.

Fram­sókn er flokk­ur sem set­ur sam­vinnu­hug­sjón­ir á odd­inn, og þær gegna oft á tíðum lyk­il­hlut­verki í því að leiða sam­an ólík öfl við stjórn lands­ins eða í sveit­ar­stjórn­um. Eins og seg­ir í grunn­stefnu flokks­ins aðhyll­umst við frjáls­lynda hug­mynda­fræði og telj­um far­sæl­ast að ná fram niður­stöðu með sam­vinnu ólíkra afla og hags­muna, sem byggð er á hóf­semi og heiðarleika. Lík­lega hef­ur sjald­an verið jafn nauðsyn­legt og nú að rödd og hug­mynda­fræði Fram­sókn­ar heyr­ist, þegar póli­tísk­ur óstöðug­leiki og öfg­ar eru sí­fellt að aukast.

Hvað eru sam­vinnu­hug­sjón­ir?

Sam­vinnu­hug­sjón er hug­tak sem vís­ar til hæfni til sam­vinnu þar sem mark­miðið er að ná sam­eig­in­leg­um lausn­um í hópi eða fé­lags­legu sam­hengi. Það fel­ur í sér getu til að vinna með öðrum, deila upp­lýs­ing­um og hug­mynd­um, þróa traust og skiln­ing á mis­mun­andi sjón­ar­miðum og leggja áherslu á að ná ein­ingu um mark­mið eða lausn­ir. Sam­vinnu­hug­sjón er grund­vall­ar­atriði á mörg­um sviðum lífs­ins, svo sem í vinnu, skóla, stjórn­mál­um og sam­fé­lags­lífi.

Fram­sókn og sam­vinnu­hug­sjón­in

Jón­as Jóns­son frá Hriflu var einn af áhrifa­mestu leiðtog­um Fram­sókn­ar­flokks­ins og mótaði stefnu hans á fyrstu ára­tug­um 20. ald­ar. Hann var öt­ull talsmaður sam­vinnu­hug­sjóna og hafði djúpa trú á því að þjóðin gæti byggt upp öfl­ugt sam­fé­lag með sam­eig­in­legu átaki og sam­vinnu. Á hans tíma var lögð mik­il áhersla á að efla mennt­un, tryggja jafn­an aðgang að tæki­fær­um og byggja upp sam­fé­lags­lega innviði með sam­vinnu að leiðarljósi.

Jón­as stóð fyr­ir stofn­un ým­issa mik­il­vægra fé­laga­sam­taka og menn­ing­ar­stofn­ana sem hafa haft var­an­leg áhrif á ís­lenskt sam­fé­lag. Meðal hans helstu af­reka var stuðning­ur­inn við stofn­un kaup­fé­laga, sem efldu efna­hags­legt sjálf­stæði bænda, og áhersl­an á alþýðumennt­un til að efla vit­und og þekk­ingu al­menn­ings. Jón­as hafði sterka sýn á að byggja sam­fé­lag á rétt­læti og jöfn­um tæki­fær­um og sá sam­vinnu­hug­sjón­ir sem leið að því mark­miði. Fram­sókn beit­ir enn slíkri hug­mynda­fræði og bygg­ir stjórn­mál sín á þess­um gild­um. Við aðhyll­umst frjáls­lynda hug­mynda­fræði og telj­um far­sæl­ast að ná fram niður­stöðu með sam­vinnu ólíkra afla og hags­muna, sem byggð er á hóf­semi og heiðarleika.

Tími öfga­stjórn­mála er liðinn

Við sjá­um það nú á tím­um sem þess­um að tími öfga­stjórn­mála er liðinn. Öfgar frá hægri og vinstri eru ekki raun­veru­leg­ar lausn­ir til framtíðar. Í staðinn þurf­um við að beita skyn­semi og rök­fræði og velja þær leiðir sem eru best­ar fyr­ir þjóðina í heild. Það er margt gott í stefnu vinstrimanna og margt gott í stefnu hægrimanna, en ekki allt. Þess vegna á rödd Fram­sókn­ar svo vel við, þar sem við setj­um sam­vinnu­hug­sjón­ir á odd­inn og beit­um skyn­semi. Við trú­um því að framtíðin ráðist á miðjunni.

Nú skul­um við efla þann flokk sem hef­ur hvað best þjónað þjóðinni þegar hún hef­ur staðið á barmi sundr­ung­ar. Setj­um X við B fyr­ir Ísland.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Okkar Mona Lisa

Deila grein

16/11/2024

Okkar Mona Lisa

Á mánu­dag­inn voru fyrstu hand­rit­in flutt úr Árnag­arði, sem verið hef­ur heim­ili þeirra síðan 1971, í Eddu þar sem þeirra bíður var­an­legt heim­ili. Meðal hand­rita sem flutt voru í Eddu var Kon­ungs­bók eddu­kvæða, stærsta fram­lag Íslands til heims­menn­ing­ar­inn­ar. Hún hef­ur að geyma elsta og merk­asta safn eddu­kvæða skrifað á síðari hluta 13. ald­ar af óþekkt­um skrif­ara. Eddu­kvæði geyma sög­ur af heiðnum goðum, Völu­spá sem geym­ir heims­sögu ása­trú­ar og Há­va­mál sem miðla lífs­speki Óðins.

Til­hugs­un­in um það ef þessi merka bók hefði glat­ast er skrít­in. Eng­inn Óðinn, Þór eða Loki, eng­in Frigg eða Freyja, eng­in Há­va­mál. Chris Hemsworth hefði aldrei klæðst bún­ingi Þórs þar sem eng­ar Mar­vel-mynd­ir um nor­ræna goðafræði hefðu verið gerðar. Þetta er menn­ing sem all­ur heim­ur­inn þekk­ir – menn­ing okk­ar og hluti af sjálfs­mynd okk­ar, sem hef­ur varðveist í hand­rit­un­um í gegn­um ald­irn­ar. Meðal annarra hand­rita sem flutt voru í Eddu eru Flat­eyj­ar­bók, Möðru­valla­bók og hand­rit að Mar­grét­ar­sögu sem ljós­mæður fyrri tíma höfðu í fór­um sín­um til að lina þraut­ir sæng­ur­kvenna. Hand­rit­in varpa ljósi á þann sköp­un­ar­kraft sem hef­ur alltaf ríkt á okk­ar góða landi, en Ísland sker sig úr á Norður­lönd­um þegar kem­ur að bók­mennta­arfi. Árið 2009 voru hand­rit­in okk­ar til að mynda sett á sér­staka varðveislu­skrá UNESCO. Til­gang­ur varðveislu­list­ans er að vekja at­hygli á mik­il­vægi þess að varðveita and­leg­an menn­ing­ar­arf ver­ald­ar með því að út­nefna ein­stök söfn með sér­stakt varðveislu­gildi.

Hand­rit­in varðveita einnig grunn­inn í tungu­máli okk­ar sem hef­ur þró­ast hér á landi í um 1.150 ár. Á und­an­förn­um árum hef ég lagt allt kapp á að setja ís­lensk­una í önd­vegi and­spæn­is áskor­un­um sam­tím­ans sem snúa að tungu­mál­inu. Fjöl­margt hef­ur verið gert til þess að styrkja stöðu henn­ar, allt frá því að herja á Disney+ um að bjóða upp á tal­sett barna­efni á ís­lensku til að gera ís­lensk­una gjald­genga í hinum sta­f­ræna heimi, en nú er svo komið að snjall­tæki og for­rit geta skilið, skrifað og talað hágæðaís­lensku eft­ir sam­starf við alþjóðleg tæknifyr­ir­tæki á borð við OpenAI og Microsoft. Það eitt og sér eru þýðing­ar­mestu vatna­skil fyr­ir ís­lensk­una til framtíðar, og er svo komið að Ísland er orðið fyr­ir­mynd annarra fá­mennra málsvæða í heim­in­um. Ég fyll­ist miklu stolti yfir þess­um ár­angri sem náðst hef­ur á und­an­förn­um sjö árum.

Klukk­an 14 í Eddu í dag verður tungu­mál­inu okk­ar og hand­rit­un­um lyft upp þegar sýn­ing­in Heim­ur í orðum verður opnuð. Með henni verður þessi merki­legi menn­ing­ar­arf­ur okk­ar loks­ins aðgengi­leg­ur þjóð sinni. Einnig verða verðlaun Jónas­ar Hall­gríms­son­ar veitt í Eddu klukk­an 16 við hátíðlega at­höfn auk þess sem veitt verður sér­stök viður­kenn­ing fyr­ir stuðning við ís­lenska tungu. Ég hvet fólk til að fjöl­menna í Eddu í dag, enda er um að ræða okk­ar Monu Lisu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Veg­ferð í þágu barna skilar árangri

Deila grein

13/11/2024

Veg­ferð í þágu barna skilar árangri

Þegar við hófum sameiginlega vegferð í þágu barna á Íslandi, var markmiðið skýrt: Að tryggja öllum börnum og fjölskyldum þeirra þann stuðning og þjónustu sem aðstæður þeirra kalla á. Niðurstöður íslensku æskulýðsrannsóknarinnar 2024, sem birtar voru í gær, sýna svart á hvítu að þessi vegferð er þegar að skila árangri.

Öflugt stuðningsnet og ný úrræði

Við höfum stigið mikilvæg skref í að bæta þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra, meðal annars með stofnun farsældarráða um allt land, sem efla samstarf milli stofnana til að tryggja að börn fái heildstæða og samhæfða þjónustu. Þá höfum við komið á fót skólaþjónustustofnun sem veitir skólasamfélaginu ráðgjöf og stuðning í málum er snúa að velferð og menntun barna. Einnig hafa verið stofnuð þjónustutorg fyrir fjölskyldur barna með sérþarfir, sem auðvelda aðgengi að þeim úrræðum sem best henta hverju barni. Með innleiðingu gjaldfrjálsra skólamáltíða fyrir öll börn hefur jafnframt verið stuðlað að aukinni vellíðan og betri einbeitingu í námi. Auk þess hafa framlög til þróunar og útgáfu námsefnis verið aukin, með áherslu á að nýta stafrænar lausnir og gervigreind til að mæta betur þörfum og áhugasviði nemenda. Þá hafa einnig verið sett á fót úrræði sem tryggja að börn af erlendum uppruna fái markvissan stuðning í aðlögun að íslensku samfélagi og skólaumhverfi. Þessi úrræði eru aðeins örfá dæmi um þau verkefni sem fjárfest hefur verið í til að styrkja umgjörð barna og gera stuðningskerfi okkar skilvirkari og betri.

Jákvæð þróun í líðan barna og ungmenna

Nýjustu niðurstöður æskulýðsrannsóknarinnar gefa skýra vísbendingu um árangur þessarar stefnu. Andleg heilsa barna hefur batnað tvö ár í röð. Í dag segjast aðeins 35% barna í 6. bekk upplifa kvíða, sem er mikil lækkun frá fyrri árum. Um 98% barna segjast eiga vini, félagsfærni er að aukast, þátttaka í íþróttum og tómstundum er vaxandi, og 90% barna í 6.-7. bekk meta heilsu sína góða. Einelti mælist nú einungis hjá 4% í 10. bekk. Þessar tölur staðfesta að breytingarnar sem við höfum innleitt stuðla að betri líðan og sterkari félagsfærni barna.

Árangur og áskoranir

Þrátt fyrir þessar jákvæðu niðurstöður er umræðan ekki alltaf í takt við þann árangur sem náðst hefur. Sumir vilja halda því fram að neyðarástand ríki í málefnum barna á Íslandi. Ég mótmæli því staðfastlega. Vissulega stöndum við frammi fyrir áskorunum, einkum hvað varðar viðkvæma hópa, og við eigum enn verk fyrir höndum. En það er ekki hægt að horfa fram hjá þeim árangri sem hefur náðst – árangri sem er afrakstur þrotlausrar vinnu fagfólks, foreldra og samfélagsins alls.

Framundan er að styrkja enn frekar umgjörð barna og ungmenna

Næstu skref á vegferð okkar eru að ná enn betur utan um viðkvæma hópa barna, útrýma biðlistum eftir þjónustu við börn og tryggja betri stuðning og samhæfingu. Með farsældarlögunum höfum við byggt traustan grunn að þessari vegferð, en til þess að halda áfram þurfum við fjárfestingu, þolinmæði og gott samstarf.

Ég vil þakka öllum sem hafa lagt sitt af mörkum til þessara jákvæðu breytinga. Það þarf þorp til að ala upp barn, og íslenskt samfélag, með foreldra og fagfólk í fararbroddi, sýnir metnað, hugsjón og eldmóð að leiðarljósi – fyrir börnin okkar.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og skipar 1. sæti fyrir Framsókn í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Framsókn til forsætis

Deila grein

12/11/2024

Framsókn til forsætis

Íslend­ing­ar! Nú þurf­um við að hugsa okk­ar ráð!

Hver verður nú for­sæt­is­ráðherra fari kosn­ing­arn­ar á versta veg? Hvaða ein­stak­ling­ur og flokk­ur er lík­leg­ur til að geta leitt hér þriggja flokka stjórn, svo ekki sé talað um fjög­urra flokka stjórn? Stillið nú upp for­mönn­um flokk­anna og spyrjið ykk­ur sjálf hver þeirra sé lík­leg­ast­ur. Ég ef­ast ekki um að þar er Sig­urður Ingi Jó­hanns­son fremst­ur meðal jafn­ingja. Hann sýndi það vel 2016 þegar Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son varð að segja af sér, þá féll allt strax í ljúfa löð og þjóðin kunni að meta störf Sig­urðar Inga. Með hon­um sækja fram ráðherr­ar sem hver og einn hef­ur getið sér gott orð.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, vara­formaður flokks­ins, hef­ur farið fyr­ir mik­illi sókn í menn­ingu og list­um. Lilja hef­ur verið talsmaður ís­lenskr­ar tungu og komið henni inn í gervi­greind og gogg­ul. Lilja stóð í stafni í Seðlabank­an­um þegar þjóðinni var bjargað af gjaldþrots­barmi 2013- 2016.

Will­um Þór Þórs­son er óum­deild­ur einn öfl­ug­asti heil­brigðisráðherra þess­ar­ar ald­ar. Hvar sem ég fer fær hann hrós lækna og heil­brigðis­starfs­fólks sem lausnamiðaður og að hann hafi komið mörg­um mál­um í höfn í starfi sínu, og fólkið vill sjá hann áfram í starfi heil­brigðisráðherra.

Ásmund­ur Ein­ar Daðason hef­ur reynst íþrótta­hreyf­ing­unni öfl­ug­ur ráðherra og tekið að sér viðkvæm­asta og mik­il­væg­asta mála­flokk­inn, blessuð börn­in, og ekki síst þau sem eiga við erfiðleika að búa.

Halla Hrund klíf­ur tinda

Halla Hrund Loga­dótt­ir er nýr stjórn­mála­maður og magnaður talsmaður hug­sjóna og gilda sem snerta við hverj­um þeim sem hlust­ar á boðskap henn­ar. Hún tal­ar fyr­ir auðlind­um Íslands af meiri virðingu en flest­ir aðrir. Hún vill ekki vind­myll­ur á ann­an hvern hól. Hún tal­ar um land­búnað og bænd­ur af þrótti og ósk­ar þess að lands­menn beri sömu virðingu fyr­ir afurðum land­búnaðar­ins, skyr­inu, lamb­inu, ull­ar­vör­un­um og græn­met­inu, og Frakk­ar gera fyr­ir sín­um vör­um. Hún tal­ar fyr­ir land­vernd, grænni orku og nýt­ingu auðlind­anna af skyn­semi. Marg­ir flokk­ar hafa valið sér fræg and­lit en við fram­sókn­ar­menn setj­um fram konu sem klíf­ur tinda.

Fram­sókn­ar­menn og friðflytj­end­ur! Nú skul­um við efla þann flokk sem oft­ast hef­ur reynst best þegar þjóðin hef­ur staðið á sundr­ung­ar­barmi. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn býður upp á lausn­ir í hús­næðismál­um unga fólks­ins, lækkaðan mat­ar­skatt, lægri vexti og að við kjós­um verðbólg­una burtu. Við vilj­um hvorki Trump­ista né sósíal­ískt þjóðfé­lag. Við vilj­um búa í sam­vinnu- og jafnaðarmanna­sam­fé­lagi þar sem at­vinna og at­vinnu­líf blómstr­ar. Send­um sund­ur­lynd­is­fjand­ann á fer­tugt dýpi og kjós­um með land­inu okk­ar og tæki­fær­un­um. Þegar öllu er á botn­inn hvolft er það Fram­sókn sem er besti kost­ur­inn.

Guðni Ágústsson, fyrr­ver­andi alþing­ismaður og ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ungt fólk er meira en bara meme og sketsar á TikTok

Deila grein

12/11/2024

Ungt fólk er meira en bara meme og sketsar á TikTok

Ungt fólk er meira en bara einn hópur. Ungt fólk samanstendur af mörgum mismunandi hópum, með mismunandi skoðanir, áhugamál og þarfir. Að reyna að ná til þeirra einungis með stuttum sketsum, meme-um og „brain rot “ efni á TikTok er mikil einföldun. Ungt fólk hefur líka áhuga á pólitík, vill fara á dýptina í málum og kynna sér stefnur flokka áður en það mótar sér skoðun. Ungt fólk á betra skilið en efni í litlum gæðum sem er of stutt til að geta talist upplýsandi.

Það getur verið ógnvekjandi að stíga fyrstu skrefin sem kjósandi

Að mæta á viðburði og ræða við oddvita og þingmenn getur alveg verið stórt skref.

„Þarf ég ekki að vita eitthvað um öll mál til að geta tekið þátt?“

Gleymum því ekki að sérfræðingar í mörgum málum eru oft ungt fólk. Það þarf ekki að vita allt um alla málaflokka til þess að geta tekið þátt í umræðu um pólitík. Ýtum ekki undir efasemdir og vanmátt með því að tala niður til ungs fólks og gera lítið úr þeim sökum reynsluleysis. Við eigum að efla þátttöku ungs fólks í stjórnmálaumræðu því þar er að finna raddir framtíðarinnar.

Hlustum á ungt fólk og miðlum áfram því sem skiptir þau mestu máli

Þegar að við nálgumst ungt fólk og þá sérstaklega fyrstu kjósendur er mikilvægt að við hlustum á þarfir mismunandi hópa og mætum þeim með mismunandi leiðum eftir þörfum hvers og eins.

Samband ungra Framsóknarmanna hefur nú opnað kosningamiðstöð fyrir ungt fólk í Bankastræti 5 sem nefnist xB5. Þar bjóðum við ungt fólk velkomið sem vill mæta og ræða við annað ungt fólk. Þar getur þú mætt og gengið að því sem vísu að vel verði tekið á móti þér. Þar getur þú rætt um það sem skiptir þig máli við annað ungt fólk sem hefur áhuga á pólitík og stjórnmálum. Opið á virkum dögum 15-20 og svo eftir klukkan 20:00 um helgar.

Þá má finna ungt fólk í efstu sætum á listum Framsóknar í öllum kjördæmum. Finnið þau á viðburðum Framsóknar í ykkar kjördæmi og ég get lofað ykkur því að þau munu taka vel á móti ykkur.

Sigríður – gervigreind

Framsókn hefur einnig kynnt til leiks Sigríðigervigreind Framsóknar sem svarar spurningum um Framsókn út frá stefnumálum flokksins. Mörg höfum við vanist því að spyrja ChatGPT út í hin ýmsu mál, þökk sé Lilju Alfreðsdóttur og hennar ráðuneyti sem hefur staðið að innleiðingu íslenskunnar svo við getum spurt og fengið svör á okkar móðurmáli. Nú getum við á sama hátt spurt Sigríði út í þau mál sem brenna helst á okkur.

Hvað vilt þú vita um stefnu Framsóknar?

Prófaðu að spyrja Sigríði gervigreind, okkur á xB5 kosningamiðstöð ungs fólks eða unga frambjóðendur á listum í þínu kjördæmi. Við viljum heyra hvað brennur á þér!

Skúli Bragi Geirdal í framkvæmdastjórn Sambands ungra Framsóknarmanna og í 4. sæti á lista Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Grindavíkin mín

Deila grein

11/11/2024

Grindavíkin mín

Nú um helgina er ár síðan við Grindvíkingar þurftum að rýma Grindavík og sá dagur rennur mér seint úr minni. Það er svo stutt síðan en á sama tíma svo óralangt síðan.

Sjálfur er ég ekki fæddur og uppalinn í Grindavík en það breytir ekki því að ég er og verð alltaf Grindvíkingur, þarna var vel tekið á móti mér og samfélagið var stórkostlegt. Ég sakna ekki andvarans í Grindavík en ég sakna samfélagsins. Ég sem Grindvíkingur hef þurft að svara alls konar spurningum og vangaveltum kjölfar eldsumbrota eins og:

  • Ætlar þú í alvöru að flytja til baka?
  • Af hverju er verið að borga ykkur út og byggja varnargarða? Er ekki nóg að gera annað hvort?
  • Ég vona að það fari hraun yfir bæinn og Grindavík þurrkist út.
  • Þið fenguð nú ótrúlega gott fyrir húsin ykkar, eruði ekki bara sátt?
  • Grindavík er búin og það fer aldrei neinn þangað aftur.
  • Það hafa nú flestir flutt og þið hafið fengið húsin borguð út án þess að greiða sölulaun.
  • Eruð þið að drekka hérna frítt kaffi? Þið Grindvíkingar fáið allt frítt!

Allt eru þetta vangaveltur sem ég hef heyrt og sumar þeirra á fyrstu vikum eftir rýmingu. Ég segi fyrir mitt leyti að ég vil búa í samfélagi sem grípur þá sem lenda í áfalli eins og þessu og er þakklátur fyrir að vera gripinn sem íbúi Grindavíkur.

Grindavík er öflugur sjávarútvegsbær, staður þar sem fjölskyldur hafa lifað og starfað í kynslóðir og byggt upp sterkt samfélag með djúpum rótum í sjávarútvegi og samheldni. Nú stendur Grindavík frammi fyrir gríðarlegum áskorunum. Það er ólýsanlegt áfall fyrir fjölskyldur að missa heimili sín og griðarstað, þau öruggu svæði þar sem þau hafa átt líf sitt og minningar.

Áfallið er að koma fram hægt og rólega, eins og innri bylgja sorgar sem smám saman skellur á, þegar fólk áttar sig á því að það þarf að aðlagast nýjum aðstæðum. Börnin sérstaklega, þau þurfa að koma sér fyrir í nýjum samfélögum, oft fjarri vinum sínum og daglegu lífi sem þau þekktu. Þau missa vini sína, skólaumhverfið sitt og einfaldleikann sem fylgir því að hafa fastan sess í samfélaginu sínu. Þetta reynir á börnin á marga vegu og það kallar á að við leggjum okkur fram um að styðja þau í þessari breytingu, með hlýju og skilningi.

Mikilvægt er að halda möguleikanum opnum að Grindvíkingar geti farið til baka, til bæjarins sem þeir elska. Stjórnvöld þurfa að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að gera þann möguleika raunhæfan. Þangað til þarf að huga vel að grindvíska samfélaginu, hjálpa fjölskyldum að koma undir sig fótunum og bjóða þeim andlega þjónustu sem styrkir þau á þessum erfiðu tímum. Við þurfum að sjá til þess að andleg líðan fólks fái þann stuðning sem hún þarfnast og tryggja að Grindvíkingar upplifi að samfélagið standi með þeim, hvar sem þau eru.

Grindvíkingar eru nú á mjög ólíkum stað varðandi framtíðina. Sumir eru tilbúnir til að snúa aftur heim, aðrir vilja bíða og sjá hvernig málin þróast, á meðan enn aðrir hafa ákveðið að leita á ný mið. Spurningin er: Hvað þarf til að Grindavík geti aftur orðið það samfélag sem það var?

Ein lausn gæti verið að leyfa fólki að hafa afnot af húsum sínum og greiða aðeins lágmarkskostnað fyrir þá dvöl. Með þessu gætu Grindvíkingar sjálfir séð um heimili sín, tryggt að þau standist tímans tönn og þannig aukið líkurnar á því að fólkið snúi aftur í meira mæli. Þetta myndi ekki einungis styrkja samfélagið heldur veita hverjum og einum möguleika á að finna aftur til tengingar við það sem þeir kalla „heima“ í Grindavík.

Til þess að þetta verði mögulegt þarf að skapa aðstæður fyrir fólk til að dvelja þar, hvort sem það er til lengri eða skemmri tíma. Þetta myndi gera Grindvíkingum kleift að finna aftur til öryggis og festa rætur í sinni heimabyggð, að þeim forsendum sem henta þeim best.

Grindavík er ekki bara bær heldur lífsandi sem býr í fólkinu. „Þú tekur kannski Grindavík frá okkur en Grindavík tekur þú ekki úr okkur.“ Við erum Grindvíkingar og hversu langur sem vegurinn verður, viljum við fá samfélagið okkar aftur, því samheldnin og kærleikurinn sem við deilum er ómetanlegur.

Lengi lifi Grindavík!

Vilhjálmur Ragnar Kristjánsson, frambjóðandi á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Það er ekki allt að fara til fjandans!

Deila grein

11/11/2024

Það er ekki allt að fara til fjandans!

Af hverju tölum við niður kennara og annað starfsfólk sem vinnur með börnunum okkar?

Hvers vegna köllum við ábyrga foreldra leiðinlega og tökum umræðu um börn og ungmenni stöðugt útfrá neikvæðustu rannsóknargögnum sem völ er á? Það tapa allir þegar að við tölum niður framtíð landsins.

Í gegnum starf mitt hef ég verið svo heppinn að geta átt samtal við um 12.000 börn og ungmenni, 700 kennara og 1.600 foreldra síðastliðið ár í 80 mismunandi skólum um allt land. Ég tel það mína ábyrgð að stíga inn í þessa umræðu því mín upplifun er síður en svo að það sé allt að fara til fjandans.

Lítum á þann árangur sem við höfum náð:

  • Árið 2021 voru 60% barna á aldrinum 9-12 ára með aðgang að TikTok og Snapchat. Tveimur árum síðar hafði það hlutfall lækkað niður í 36% á TikTok og 42% á Snapchat. Á báðum miðlum er 13 ára aldurstakmark.
  • Árið 2021 höfðu 42% stúlkna í 8.-10. bekk fengið senda nektarmynd. Það hlutfall var komið niður í 24% árið 2023. Beiðnum um nektarmyndir í sama aldurshópi meðal stúlkna hefur fækkaði úr 51% (2021) í 29% (2023).
  • Hlutfall drengja í 8.-10. bekk sem horfa á klám lækkar úr 61% (2021) í 33% (2023).
  • Hlutfall nemenda sem hafa upplifað einelti á netinu, í símanum eða í tölvuleikjum lækkar einnig bæði meðal drengja og stúlkna 9-18 ára.

Þessi árangur er í boði:

  • Forvarnafræðslu mismunandi aðila sem alltof margir eru fjármagnaðir tímabundið eða án fyrirsjánleika.
  • Kennara um allt land sem vinna sitt starf sannarlega af hugsjón og metnaði.
  • Foreldra sem sýna ábyrgð í verki og taka þátt í skólastarfi barna sinna.
  • Barna og ungmenna sem við dæmum oft út frá neikvæðum gögnum án þess að tala við þau sjálf.

Á ferð minni um landið hef ég fundið fyrir sterku ákalli frá þessum hópum um aukinn stuðning til þess að takast á við nýjar áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í nútíma samfélagi. Til þess að skilja þarfir þessara hópa þurfum að vera tilbúin til að hlusta, setja okkur í þeirra fótspor og aðlaga lausnir að mismunandi þörfum mismunandi hópa.

Höldum áfram að vinna að farsæld barna, þar sem útgangspunkturinn í öllu sem við gerum á að vera barnið og hagsmunir þess. Höldum áfram að tryggja aðgengi að menntun fyrir öll börn. Brúum bilið og höldum áfram að styðja við þátttöku fatlaðra barna. Leggjum áherslu á forvarnir, gagnrýna hugsun, stafræna borgaravitund, miðlalæsi og kynjafræði. Klöppum okkur á bakið fyrir þann árangur sem við höfum náð og höldum áfram þeirri mikilvægu vinnu sem unnin hefur verið á kjörtímabilinu í að efla og styðja við menntun.

Í allri vinnu með börn og ungmenni er mikilvægt að horfa til framtíðar og það gerum við ekki með skyndilausnum. Stórar og nauðsynlegar breytingar geta tekið á, þær geta tekið tíma í framkvæmd og það getur tekið tíma að sjá ávinninginn af þeim. Í menntastefnu til ársins 2030 og í endurskoðun á aðalnámskrá sjáum við að horft er til framtíðar. Höldum áfram þessari vinnu Ásmundar Einars Daðasonar mennta- og barnamálaráðherra og þeirri hugsjón sem hann hefur verið óhræddur við að hrinda í framkvæmd.

Styðjum við kennara og annað starfsfólk skóla-, frístunda-, íþrótta- og tómstundastarfs sem eru fyrirmyndir barnanna okkar! Valdeflum foreldra og höfum trú á næstu kynslóð!

Skúli Bragi Geirdal, sérfræðingur á sviði upplýsinga- og miðlalæsis og í 4. sæti á lista Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Við erum heit, græn og orku­mikil – gerum kröfur um sjálf­bærni, ný­sköpun og betri nýtingu auð­linda!

Deila grein

10/11/2024

Við erum heit, græn og orku­mikil – gerum kröfur um sjálf­bærni, ný­sköpun og betri nýtingu auð­linda!

Við í Suðurkjördæmi búum á heitasta svæði landsins, þar sem fjögur háhitasvæði og jarðvarmavirkjanir veita okkur einstaka orkuauðlind. En það er ekki nóg að nýta þessar auðlindir eingöngu til rafmagnsframleiðslu eða húshitunar – við verðum að gera meiri kröfur um fjölbreyttari og ábyrgari nýtingu þeirra en nú er gert, sem skilar sér í auknum samfélagslegum verðmætum og fjölbreyttum störfum fyrir alla.

Við jarðvarmavinnslu verða til ýmis steinefni, eins og kísill, sem hafa mikla möguleika í framleiðslu á verðmætum iðnaðar- og heilbrigðisvörum. Ef við getum fullnýtt þessi efni hér á landi með nýsköpun og þróun getum við skapað störf á sviði heilsu-, efna- og byggingariðnaðar í Suðurkjördæmi. Slík nýting stuðlar að fjölbreyttara atvinnulífi, eflir sjálfbærni svæðisins og byggir undir sjálfstæði og stöðugleika heimabyggðar.

Sjálfbærni og hringrásarhagkerfi til framtíðar

Sjálfbærni og hringrásarhagkerfi ættu að vera leiðarljós þegar kemur að nýtingu auðlinda á landsbyggðinni. Með því að nýta glatvarma frá gagnaverum og orkuverum, til dæmis í gróðurhúsaræktun eða öðrum verkefnum, getum við skapað fleiri störf án þess að auka orkunotkun. Þannig eykst fjölbreytni atvinnulífsins og nýsköpun í heimabyggð, sem stuðlar að aukinni verðmætasköpun og dregur úr álagi á náttúruna.

Stuðningur við fjölbreytt atvinnulíf og samfélagslegan ávinning

Þegar við beinum jarðvarmanýtingu ekki aðeins í rafmagnsframleiðslu heldur einnig í iðnað, landbúnað og heilbrigðistengd verkefni, skapast tækifæri fyrir fjölbreyttara og sjálfbærara atvinnulíf. Þessi fjölbreytta nýting auðlinda getur byggt upp sjálfstæð samfélög þar sem aðstæður fyrir heimamenn styrkjast og ný atvinnutækifæri verða til í heimabyggð.

Þetta hefur ekki einungis efnahagslega þýðingu heldur einnig félagslega. Með því að skapa fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri gerum við svæðið aðlaðandi fyrir nýja íbúa, þar með talið unga fólkið sem oft flytur í annað í leit að starfi. Fjölbreyttnin eflir grunnstoðir sveitarfélaganna og bætir lífsgæði íbúa, þar sem fjölbreytt atvinnulíf veitir stöðugleika og sjálfbærni.

Styrking sveitarfélaga og sjálfstæð samfélög

Fjölbreytt nýting á auðlindum stuðlar að því að sveitarfélög í Suðurkjördæmi verði ekki aðeins orkuveitur fyrir aðra landshluta heldur verði sjálfstæð, öflug samfélög með blómstrandi atvinnulífi og sjálfbærum innviðum. Með þessu tryggjum við sterkari byggðir og lífvænleg samfélög, þar sem íbúar sjá tækifæri í þeirri þróun sem fram undan er. Sjálfbær samfélög á landsbyggðinni eru forsenda fyrir sterku og lífvænlegu Íslandi til framtíðar.

Tækifærin eru fjölmörg og við eigum öfluga sögu um verðmætasköpun í kringum þekkingu á jarðvarma til að byggja á. Með því að tengjast háskólum og rannsóknarstofnunum má stuðla að þróun nýrra og ábyrgra lausna fyrir jarðvarmanýtingu og sjálfbæran iðnað. Þannig skapast vettvangur fyrir nýsköpun á sviðum eins og efnafræði, umhverfisverkfræði og grænum iðnaði. Slíkt samstarf gerir svæðinu kleift að nýta þá sérstöðu sem það hefur til að leggja sitt af mörkum í alþjóðlegri umhverfisstefnu og sjálfbærni. Með fjárfestingum í rannsóknastarfsemi og frumkvöðlastarfi getur Suðurkjördæmi orðið leiðandi á sviði sjálfbærrar nýtingar og hringrásarhagkerfis, sem ekki aðeins styrkir svæðisbundinn efnahag heldur einnig heildarþróun Íslands í átt að sjálfbærari framtíð.

Hvatning til fjárfestinga í sjálfbærri framleiðslu

Til að nýta auðlindir Suðurkjördæmis á ábyrgan hátt þarf einnig að stuðla að aukinni fjárfestingu í sjálfbærri framleiðslu og nýsköpun. Samstarf milli stjórnvalda, fjármálastofnana og einkageirans er lykilþáttur í að skapa hagstæða umgjörð fyrir svæðisbundna nýsköpun og efla nýtingu náttúruauðlinda á Suðurnesjum. Markviss fjárfesting í grænum iðnaði getur aukið fjölbreytni í atvinnulífi svæðisins og dregið úr einhæfri nýtingu jarðhitaauðlinda.

Stuðningur við nýsköpun í heilbrigðistækni, líftækni og matvælaframleiðslu getur byggst á jarðvarma og öðrum náttúrulegum auðlindum svæðisins. Með markvissri stefnumörkun og fjárfestingaráætlunum er mögulegt að laða að frumkvöðla og fyrirtæki sem leggja áherslu á umhverfisvænar og sjálfbærar lausnir. Þannig skapast fjölbreyttara atvinnulíf sem þjónar samfélaginu á margþættan hátt og styrkir efnahagslega sjálfbærni Suðurkjördæmis til framtíðar.

Framtíðin er ábyrg nýting – fyrir samfélagið og komandi kynslóðir

Við skulum gera kröfur um ábyrga og fjölbreytta nýtingu auðlinda í Suðurkjördæmi, þar sem nýsköpun, sjálfbærni og hringrásarhagkerfi ganga hönd í hönd. Með því að skapa tækifæri fyrir fjölbreytt störf og verðmætasköpun tryggjum við að auðlindir okkar þjóni samfélaginu á margbreytilegan hátt. Þetta er framtíðin sem við stefnum að – framtíð þar sem landsbyggðin blómstrar og auðlindir okkar eru nýttar á ábyrgan hátt til hagsbóta fyrir alla.

Halla Hrund Logadóttir og Fida Abu Libdeh eru fyrrverandi orkumálastjóri, orku- og umhverfistæknifræðingur og skipa 1. og 4. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Categories
Fréttir Greinar

Ein­hver sú besta for­vörn sem við eigum

Deila grein

10/11/2024

Ein­hver sú besta for­vörn sem við eigum

Öflugt og fjölbreytt félagsstarf í heimabyggð skapar grunn fyrir einstaklinga til að blómstra og gefa af sér til samfélagsins. Ein af stóru spurningunum sem við skulum ávallt hafa í huga er „Hvernig get ég gefið af mér til samfélagsins?“ Mér þykir ekkert sjálfsagðara en að gefa af mér til samfélagsins sem ól mig upp og mótaði mig. Mín leið til að gefa af mér til samfélagsins hefur fram að þessu fyrst og fremst verið í gegnum ungmennafélagshreyfinguna.

Að mínu mati er ungmennafélagshreyfingin eitthvað það besta sem við eigum í íslensku samfélagi. Út um land allt vinnur hreyfingin ómetanlegt starf sem styrkir og eflir samfélögin með frábæru og fjölbreyttu félags- og íþróttastarfi. Störf sem oft á tíðum eru unnin í sjálfboðavinnu. Enda sjálfboðaliðinn eitthvað það mikilvægasta sem til er í hverju samfélagi.

Skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf er svo frábært á margan hátt en þar eru veigamestu þættirnir efling félagslegrar, andlegrar og líkamlegrar heilsu. Það er því afar mikilvægt að auka þátttöku barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Samhliða því þarf að tryggja að öll börn geti stundað félags- og íþróttastarf. Í þessu samhengi munu ný stofnaðar svæðisstöðvar Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) um land allt gegna lykilhlutverki. Verkefni sem Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, leiddi af mikilli snilld.

Eitt af megin verkefnum svæðisstöðvanna er að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi. Þar er sérstaklega horft til fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna af erlendum uppruna. Stofnun svæðisstöðva er samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ og stjórnvalda og er jafnframt einn liður í því stóra verkefni sem stjórnvöld vinna að í lögum um farsæld barna.

Einnig má líta á stofnun svæðisstöðvanna sem mikilvægt byggðaþróunarmál, þá sérstaklega fyrir minni byggðarlög sem reiða sig á fáar hendur í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Svæðisstöðvarnar munu styðja við og þar af leiðandi efla félög á hverjum stað. Ef samfélag ætlar að vaxa þarf ákveðin þjónusta að vera til staðar. Eitt af því fyrsta sem fjölskyldufólk horfir til er hvaða tómstundir eru í boði fyrir börnin. Þess vegna skiptir miklu máli að styðja við íþrótta- og æskulýðsstarf um land allt.

Stuðningur við ungmennafélagshreyfinguna má ekki vera vanmetin, hann skilar sér margfalt til baka í blómlegra og heilbrigðara samfélagi. Þessi stuðningur hefur kannski aldrei verið mikilvægari en núna enda skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf einhver sú besta forvörn sem við eigum í íslensku samfélagi.

Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, starfar sem íþrótta- og æskulýðsfulltrúi og skipar 5. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. nóvember 2024.