Categories
Greinar

Af atvinnumálum í Mosó

Deila grein

19/09/2024

Af atvinnumálum í Mosó

Nú þegar rétt um ár er síðan gildandi atvinnustefna fyrir Mosfellsbæ var samþykkt af bæjarstjórn er tilvalið að taka stöðuna á framvindu verkefna sem því tengjast.
Atvinnustefnan var tímabær fyrir okkar ört vaxandi sveitarfélag, til að skerpa á áherslum í atvinnumálum og ýta undir frekari framþróun og verðmætasköpun í sveitarfélaginu. Svo ekki sé minnst á þau auknu tækifæri og lífsgæði fyrir íbúa sem fjölbreytt og kröftugt atvinnulíf skapar.

Fyrst ber að nefna þróunarverkefni fyrir Álafosskvos, sem hefur verið í vinnslu síðan í vor í samvinnu við Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. Verkefnið gengur út á að greina áfangastaðinn og finna tækifæri til að efla hann enn frekar.
Álafosskvos hefur að geyma mikla sögu og sterkan karakter sem bæjarbúar eru væntanlega flestir sammála um að þurfi að miðla enn betur, hvort sem það er til íbúa eða ferðamanna. Niðurstöður verkefnisins verða kynntar á opnum fundi þann 14. október nk., eru áhugasamir hvattir til að mæta.

Innleiðing á atvinnustefnunni er komin vel á veg og er nú þegar tveimur verkefnum lokið. Annars vegar er það að gera upplýsingar um framboð atvinnulóða og lóðir samkvæmt skipulagi aðgengilegar á vef bæjarins. Hins vegar er það skilgreining á uppbyggingu atvinnu- og menningar í Álafosskvos í samvinnu við íbúasamtök og aðra hagsmunaaðila.
Fleiri verkefni eru svo komin vel af stað, má þar nefna markaðsáætlun fyrir sveitarfélagið, uppfærslu á viðeigandi upplýsingum á vef bæjarins o.fl.
Þróunarverkefnin á Varmársvæðinu og við Háholt 5 eru líka áhugaverð verkefni sem tala vel við atvinnustefnu bæjarins. Markmiðið þar er að kanna áhuga á samstarfi við uppbyggingu á svæðinu, sem býður upp á fjölda möguleika. Þarna er vafalaust spennandi tækifæri fyrir rétta aðila til að koma að uppbyggingu á sögufrægu svæði sem daglega iðar af mannlífi.

Á dögunum skrifuðu öflug fyrirtæki undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu á nýjum atvinnukjarna á Korputúni, sem er mjög ánægjulegt. Korputún er vistvottaður atvinnukjarni á 15 ha svæði sem væntingar standa til að byggist upp á um 10 ára tímabili. Svæðið er vel staðsett og mun bjóða upp á mjög góðar samgöngutengingar.

Það er allra hagur að í Mosfellsbæ þrífist blómlegt atvinnulíf, með því að beita sér getur sveitarfélagið haft áhrif og stutt undir frekari vöxt og uppbyggingu.
Við munum halda áfram með innleiðingu á atvinnustefnunni ásamt fleiri verkefnum sem hafa það að markmiði að gera Mosfellbæ að enn eftirsóknarverðari kosti þegar kemur að atvinnuuppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu.

Sævar Birgisson, bæjarfulltrúi

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 19. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Mammon hefur náð líf­eyris­sjóðum á sitt band

Deila grein

19/09/2024

Mammon hefur náð líf­eyris­sjóðum á sitt band

Hagkaup hefur hafið sölu á áfengi í gegnum vefverslun. Viðskiptavinum gefst nú tækifæri til að kaupa áfengi á netinu og sækja í Skeifuna um leið og þú verslar ostinn og mjólkina. Jú þú getur verslað allan sólahringinn í Skeifunni. Hér hefur Mammon náð lífeyrissjóðunum á sitt band og Hagar eru að stórum hluta í almenningseigu. Með þessari stefnubreytingu er brotið blað og ættu þau félög sem hér um ræðir og eru í almenningseign að svara fyrir það hvort það sé þeirra stefna að brjóta niður það forvarnarstarfs sem hefur verið unnið að í áratugi.

Þetta er ekki fyrsta netverslunin hér á landi heldur fylla þær brátt tuginn. Þrátt fyrir að smásala áfengis sé ólöglegt fyrir utan ÁTVR. Ég myndi ekki æða út á ritvöllinn ef þetta væri almenn vara eins og sokkar eða hveiti. Við erum að tala um aðgengi að áfengi hefur aukist og ný vídd opnast við að þú hafir aðgengi að því allan sólahringinn.

Það er staðreynd að óhófleg áfengisneysla er böl fólks á öllum aldri. Það er talið að allt að 150 manns látist á hverju ári vegna þess. Fjölskyldur splundrast og ofbeldi eykst.

Íslenska forvarnarmódelið

Íslenska forvarnarmódelið er þekkt og hefur skilað góðum árangri í baráttunni gegn áfengis- og tóbaksnotkun. Það má segja að það sé orðið útflutningsvara. Haldnar hafa verið ráðstefnur á erlendri grundu þar sem íslenska módelið hefur verið kynnt og árangurinn af því. Danir hafa verið þekktir fyrir frjálsræði í áfengismálum og hægt að kaupa áfengi í öllum matvörubúðum. Nú eru stjórnvöld þar farin að horfa til okkar og nokkur sveitarfélög eru að taka upp forvarnarmódelið.

En hér heima eru öfl sem ætla að hundsa það út frá hugmyndafræðinni um frelsi einstaklingsins. Frelsi einstaklingsins getur aldrei orðið meira en það öryggi sem hann býr við.

Áfengisverslun ríkisins vinnur undir strangri löggjöf sem lýtur að því að áfengi sé ekki venjuleg vara heldur vara sem við þurfum að halda frá ungu fólki. ÁTVR er bundin af því að þeir hafa fasta álagningu á áfengi og álagning reiknast af innkaupaverði þeirra frá birgjum. Hagar flytja inn áfengi og eru þá líklega meðal birgja ÁTVR og nú er Hagkaup sem er í eigu Haga komin í samkeppni við ÁTVR á smásölu áfengis á Íslandi.

Það er margt skrýtið í kýrhausnum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Hækkað frítekjumark eldri borgara

Deila grein

19/09/2024

Hækkað frítekjumark eldri borgara

Við í Fram­sókn höf­um lagt áherslu á að vernda hag eldri borg­ara og síðustu ár hafa mik­il­væg skref verið tek­in í átt að því að bæta kjör þeirra. Eitt af þess­um skref­um er til­laga í fjár­lög­um sem nú eru til umræðu í þing­inu. Hækk­un á al­menna frí­tekju­mark­inu fyr­ir eldri borg­ara er mik­il­vægt skref til að stuðla að betri lífs­kjör­um fyr­ir þenn­an hóp. Á sama tíma og þetta skref er tekið er brýnt að greina sér­stak­lega þá ein­stak­linga inn­an hóps­ins sem eiga í mest­um efna­hags­leg­um erfiðleik­um og beina aðstoð til þeirra með mark­viss­ari hætti.

Al­menna frí­tekju­markið nær til allra eldri borg­ara og er það hlut­fall tekna sem eldri borg­ar­ar geta haft án þess að þær hafi áhrif á greiðslur þeirra frá Trygg­inga­stofn­un eða öðrum al­manna­trygg­ing­um. Nú ligg­ur fyr­ir til­laga í fjár­lög­um að hækka frí­tekju­markið, úr 25.000 kr. í 36.500 kr. á mánuði. Hækk­un frí­tekju­marks­ins þýðir að fleiri eldri borg­ar­ar geti haft aukn­ar tekj­ur án þess að þær skerði rétt­indi þeirra til líf­eyr­is­greiðslna. Slík­ar breyt­ing­ar stuðla að meira fjár­hags­legu ör­yggi og bættri af­komu þeirra eldri borg­ara sem eru virk­ir á vinnu­markaði eða hafa aðrar tekju­lind­ir. Hækk­un frí­tekju­marks­ins hef­ur því bein áhrif á lífs­gæði eldri borg­ara og ger­ir þeim kleift að lifa með meiri reisn. Fyr­ir marga er þetta mik­il­vægt, sér­stak­lega þegar horft er til hækk­andi verðlags, auk­ins hús­næðis­kostnaðar og kostnaðar við heil­brigðisþjón­ustu. Þessi hækk­un er tíma­bært skref en einnig er mik­il­vægt að hafa í huga þörf­ina á að halda áfram hækk­un frí­tekju­marks­ins í þrep­um á næstu árum.

Mik­il­vægi mark­vissr­ar aðstoðar

Þrátt fyr­ir þessi mik­il­vægu skref í að bæta lífs­kjör eldri borg­ara er staðreynd­in sú að efna­hags­staða þeirra er mjög mis­mun­andi. Fjár­hags­leg staða eldri borg­ara er al­mennt sterk þar sem sum­ir eiga tölu­verð eigna­söfn eða hafa áunnið sér eft­ir­laun úr líf­eyr­is­sjóðum, en aðrir búa hins veg­ar við fjár­hags­leg­an skort. Ein­stak­ling­ar sem hafa litla sem enga inn­eign í líf­eyr­is­sjóðum, búa við hátt leigu­verð og/​eða eiga ekki íbúðar­hús­næði eða hafa verið utan vinnu­markaðar stór­an hluta ævi sinn­ar, t.d. vegna heim­il­is­starfa eða veik­inda, geta upp­lifað fjár­hags­lega veika stöðu. Því er mik­il­vægt að greina þenn­an hóp sér­stak­lega svo stuðning­ur­inn rati í rétt­an far­veg. Eins mun verða nauðsyn­legt að skoða það bil sem orðið hef­ur á milli lægstu launa og elli­líf­eyr­is. Þenn­an mun verður að minnka í áföng­um yfir næstu ár.

Sam­fé­lags­leg ábyrgð

Sam­fé­lagið ber ríka ábyrgð á að tryggja að all­ir eldri borg­ar­ar fái tæki­færi til að lifa með reisn og ör­yggi á efri árum. Hækk­un frí­tekju­marks­ins er mik­il­vægt skref í þessa átt, en það er jafn­framt brýnt að við gleym­um ekki þeim sem búa við mest­an fjár­hags­leg­an skort eins og áður sagði. Með mark­vissri aðstoð og skýr­ari grein­ingu á þörf­um þessa hóps get­um við byggt upp rétt­lát­ara sam­fé­lag þar sem all­ir eldri borg­ar­ar fá sömu tæki­færi til að njóta ævikvölds­ins. Það er ekki nóg að horfa á meðal­töl­in eða al­menn­ar breyt­ing­ar; við verðum að skilja að það eru hóp­ar sem þurfa á sér­tæk­um aðgerðum að halda. Með því að sam­eina hækk­un frí­tekju­marks við mark­viss­ar aðgerðir fyr­ir þá sem hafa það verst get­um við tryggt betri lífs­kjör fyr­ir alla eldri borg­ara.

Ingibjörg Isaksen, þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Hver er okkar á­byrgð á of­beldi meðal barna

Deila grein

17/09/2024

Hver er okkar á­byrgð á of­beldi meðal barna

Á síðustu vikum hefur okkur verið tíðrætt um ofbeldi barna gagnvart hvort öðru. Það kemur ekki á óvart í ljósi skelfilegra atburða sem hafa átt sér stað hér á landi þar sem börn ganga í meira mæli með eggvopn á sér.

Það eitt og sér að börn gangi vopnuð, eða telji sig þurfa að gera það, er óásættanleg þróun. Hvort sem að ofbeldi barna og ungmenna hafi aukist eða sé orðið sýnilegra, þá er augljóst að staðan er alvarleg og nauðsynlegt er að grípa í taumana og gera allt sem í okkar valdi stendur. Foreldrar, félagsþjónustan og stjórnvöld þurfa öll að taka höndum saman og stoppa þessa þróun.

Ofbeldi barna og ungmenna

Undanfarin ár hafa stjórnendur innan skólakerfisins lýst yfir áhyggjum af auknu ofbeldi m.a. innan skólalóðarinnar. Það á jafnvel við um börn á yngsta skólastigi. Það sama á við utan skólalóðarinnar og á samfélagsmiðlum. Foreldrar, lögreglan og skólayfirvöld benda öll á það að virðingarleysi barna gagnvart hvort öðru er sífellt meira áberandi þar sem ljót samskipti og líkamlegt ofbeldi færast í aukana.

Hvað er verið að gera?

Síðastliðinn júní kynnti Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, 14 aðgerðir gegn ofbeldi meðal barna í samvinnu við dómsmálaráðherra. Þar á að leiða saman fjölbreytta þjónustu- og viðbragðsaðila í samstilltu átaki gegn vaxandi ofbeldi meðal barna og ungmenna á Íslandi. Þessar aðgerðir snúa að auknu forvarnarstarfi, inngripi og meðferð og varða ýmsa aðila innan ríkisins, stjórnsýslunnar og sveitarfélaga.

Viðfangsefnið er víðfeðmt og aðgerðirnar því margskonar og varða m.a. aukna þverfaglega nálgun í ofbeldismálum meðal barna, að mynda verklag fyrir sakhæf og ósakhæf börn og úrræði fyrir þau sem beita alvarlegu ofbeldi, að efla samfélagslögreglu, að auka fræðslu og forvarnir og efla ungmennastarf. Aðgerðir þessar miða að því að fræða börn og ungmenni um afleiðingar, útvega þeim stað þar sem þau geta eflt samskipti í skipulögðu starfi og hvernig eigi að bregðast við þegar ofbeldi á sér stað. Allar þessar aðgerðir eru nauðsynleg skref sem þarf sífellt að endurskoða og meta á meðan á þeim stendur. Hins vegar er ofbeldi barna og ungmenna samfélagslegt mein sem allt samfélagið verður að taka höndum saman við að vinna bug á.

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn

Við erum öll uggandi yfir framangreindri þróun ofbeldis, enda varðar hún okkur öll. Vörumst það að leggjast í skotgrafir og leita að sökudólgum. Þó þurfum við að komast til botns í það hvað veldur, hvar við erum að bregðast og gangast við þeirri ábyrgð. Foreldraeftirlit hvers foreldris fyrir sig með sínu barni og öðrum í sínu nærumhverfi verður að vera öflugt. Samfélagið allt verður að koma saman og vinna að því að kynna börnum okkar fyrir þeim hættum sem stafa af ofbeldi af því tagi sem við heyrum af nánast vikulega. Við þurfum að gangast að okkar ábyrgð sem foreldrar og þar komum við aftur að því að samvera er besta forvörnin eins og okkur hefur verið tíðrætt um undanfarin ár. Foreldrasamfélagið þarf að virkja vel í þessum aðgerðum og hér á landi höfum við góða reynslu af öflugu forvarnarstarfi og aðgerðum til að vinda ofan af óæskilegri hegðun.

Við berum öll ábyrgð á því að koma börnunum okkar vel til manns og kenna þeim samfélagsreglurnar, það gerum við ekki með því að vera fjarverandi sem foreldrar og setja ábyrgðina á aðrar stofnanir eða jafnvel að skella skuldinni á menntakerfið eða heilbrigðiskerfið. Auðvitað þurfum við að hafa öflugt geðheilbrigðiskerfi sem kemur í veg fyrir alvarlegan hegðunarvanda eða vanlíðan meðal barna og ungmenna en það verður ekki fram hjá því litið hver ábyrgð okkar er sem foreldrar.

Við eigum að hafa vökult auga fyrir ofbeldi í okkar nærumhverfi, eiga samtal við ungmennin okkar og grípa einstaklinga í áhættuhópum sem gætu beitt eða lent í ofbeldi. Þegar kemur að velferð barnanna í okkar samfélagi er okkur sem ætlum að vera virkir og góðir þátttakendur í samfélaginu ekkert óviðkomandi, og við eigum að sjá til þess að börnin okkar mótist í rétta átt til framtíðar.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Skelfiskræktun og vinnsla

Deila grein

17/09/2024

Skelfiskræktun og vinnsla

Kræklingarækt hefur verið reynd hér við land en átt erfitt uppdráttar. Áhugi stjórnvalda hefur verið dræmur og lýsir sér best í hvað regluverk um ræktun af þessu tagi hefur verið veikburða og ófullnægjandi. Víða um heim er slík ræktun í blóma og það er ekkert sem segir að það sama geti átt við á Íslandi, en umgjörð stjórnvalda þarf að styðja við framleiðsluna svo að hægt sé að tryggja hámarksábata til framleiðenda og samfélagsins.. Náttúran er ekki til fyrirstöðu, en sjórinn við Ísland er mjög frjósamur og getur vaxtahraði kræklings hér við land verið álíka og það sem þekkist í Evrópu.

Kræklingur

Kræklingaræktun er lífræn og umhverfisvæn starfsemi. Engin fóðrun á sér stað og ekki eru notuð nein efni við ræktunina. Aðeins búnaðurinn sjálfur hefur áhrif á umhverfið en öll framkvæmdin er afturkræf og sjónræn áhrif hennar eru haldin í lágmarki. Þó þarf að hafa varann á þar sem ræktun í of miklum mæli getur haft neikvæð áhrif á þörunga, enda nærast skeldýr á þeim.

Undirrituð óskaði eftir skýrslu frá matvælaráðherra á vordögum um skeldýrarækt, umfang hennar frá árinu 2011 og samanburð á starfsumhverfi og samkeppnishæfni við önnur Evrópulönd. Skýrslan var birt í byrjun þessa mánaðar.

Ræktun og veiðar skeldýra eru einungis heimilar á ræktunarsvæðum sem Matvælastofnun hefur viðkennt á grundvelli heilnæmiskannana. Á útgefnum leyfum má sjá að framleiðsla hefur farið fram í fjörðum víða um land, að undanskildu Suðurlandinu.

Lög og reglur

Um ræktun á skeldýrarækt gilda lög nr. 90/2011 og voru það fyrstu heildarlögin á Íslandi um skeldýrarækt. Samkvæmt mati matvælaráðuneytisins er erfitt að meta áhrif lagasetningunnar á ræktun á kræklingi á Íslandi, en fyrstu árin eftir lagasetninguna jókst ræktun hér við land allt til ársins 2018. Þá fór að halla undir fæti.

Nokkur vinna hefur farið fram í undirbúningi að setningu reglugerðar um skeldýrarækt með stoð í áðurnefndum lögum en meðgangan hefur tekið á og engin afurð litið dagsins ljós né er hún í sjónmáli.

Samanburður á starfsumhverfi

Hér á landi fellur allur kostnaður við sýnatökur og greiningar á þann ræktanda sem hyggst setja krækling á markað. Er það í samræmi við framleiðslu matvæla almennt. En þegar er litið á umfang kræklingaræktunar hér við land verður þetta að segja að kröfurnar eru umtalsverðar. Því almennt vantar mikið upp á rannsóknir og stefnu stjórnvalda varðandi þessa starfsemi. Það hefur letjandi áhrif og vinnur gegn framþróun í starfsgeiranum. Í sumum löndum Evrópu hafa stjórnvöld ákveðið að standa alfarið straum af kostnaði við eftirlit og vöktun á ræktunarsvæði kræklings. Þarna ráða hagsmunir um almannaheill, þar sem sýkingar og eitrun geta komið upp og skiptir því miklu máli að heilnæmi vörunnar skili sér til neytenda. Það á að vera stefna stjórnvalda að styðja við frumkvöðla á þessu sviði hér við land, því sú ræktun sem farið hefur fram hér er enn að slíta barnsskónum og ræktun hvers fyrirtækis er í smáum stíl. Ávinningur að rannsóknum, eftirliti og vöktun fyrir ríkið er mikill m.a. þar sem mikilvægt er að byggja undir stefnu og regluverk um greinina til framtíðar.

Byggðamál

Uppbygging atvinnu um allt land skiptir máli. Það skiptir líka máli að byggt sé undir fjölbreytni og sjálfbæra nýting auðlinda. Það er staðreynd að þessi starfsemi getur þrifist á þeim svæðum þar sem byggðir hafa farið halloka í atvinnumálum og getur því reynst mikilvæg hvað varðar styrkingu byggða um landið.

Matvælaráðherra hefur þegar sett á stað stefnumótun er varðar skeldýrarækt og er hún hluti af stærri stefnumótun um nýtingu þangs og þara. Það er ánægjulegt að sjá aukin áhuga stjórnvalda á málaflokknum. En það er ljóst að hraða þurfi setningu regluverks í kringum greinina. Það hefur nú þegar farið fram vinna í þeim undirbúningi og greinin kallar sterkt eftir föstum grunni til að byggja sína starfsemi á. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að kræklingarækt þróist og vaxi, enda höfum við aflað mikillar þekkingar í þessum efnum á undanförnum árum og hún má ekki tapast.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á bb.is 13. september 2024.

Categories
Greinar

Hvert er hlutverk sveitarfélaga í þjóðarátaki gegn ofbeldi meðal barna?

Deila grein

16/09/2024

Hvert er hlutverk sveitarfélaga í þjóðarátaki gegn ofbeldi meðal barna?

Umræðan um ofbeldi meðal ungs fólks hefur verið áberandi okkur síðustu vikur og langar mig til að byrja á því að votta aðstandendum Bryndísar Klöru samúð mína og þakka þeim fyrir sitt sterka ákall um breytingar.

Ég tel afar mikilvægt að við sem kjörnir fulltrúar tökum umræðuna um hvert hlutverk okkar er og hvernig við sinnum kallinu. Er það ekki okkar hlutverk að leiða samtalið í okkar nærsamfélagi? Er ekki kominn tími til að við setjumst niður og ræðum hvernig við sem samfélag getur gert betur og tekið betur utan um börnin okkar. Fengið heimilin í lið með okkur, skólana, foreldrafélögin, hverfin og ekki síst börnin sjálf.

Ofbeldi er samfélagsvandamál, við upprætum það ekki öðruvísi en með samstilltu átaki.

Fyrsta skrefið er að taka punktstöðuna í okkar sveitarfélagi. Við verðum að tala opinskátt um hlutina en þó án þess að tala um einstök mál. Niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar eru reglulega kynntar og gefa okkur góðar vísbendingar um stöðuna. Þegar hættumerkin birtast þá verðum við að bregðast við með aðgerðum og kynna niðurstöðurnar vel fyrir heimilinum líka. Við þurfum líka að hlusta á fólkið sem vinnur með börnum alla daga; starfsfólk í félagsmiðstöðvum, skólum, heilbrigðisstofnunum og lögreglu sem dæmi.

Þróun sem við getum ekki sætt okkur við

Í sumar var kynnt skýrsla og aðgerðaáætlun stjórnvalda til að sporna gegn ofbeldi meðal ungs fólks og vopnaburði. Þar kemur fram að tilkynningar um ofbeldisbrot sem börn fremja voru árið 2018 542 en eru 1072 árið 2023. Þróun sem við getum ekki sætt okkur við.

Aðgerðahópur var svo settur af stað 4. september síðastliðinn til að vinna að því að hraða aðgerðum og meta stöðuna enn frekar. Þar af snúa þó nokkrar að sveitarfélögum sem við þurfum að taka föstum tökum. Þetta er samvinna mennta- og barnamálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og heilbrigðismálaráðuneytis. Þverfagleg nálgun sem við þurfum einnig að taka upp heima í héraði og með samfélaginu.

Í umræðu á bæjarstjórnarfundi á þriðjudaginn verður ítarlegri umræða um hlutverk sveitarfélaga í samstilltu þjóðarátaki gegn ofbeldi meðal barna sem er vonandi bara byrjunin á samstilltu átaki.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 15. september 2024.

Categories
Greinar

Hvað verður um ís­lenska þjóð­menningu?

Deila grein

16/09/2024

Hvað verður um ís­lenska þjóð­menningu?

Íslensk þjóðmenning er einstök og hefur mótast af sögu landsins, náttúru og samfélagi í meira en eitt þúsund ár. Hún er byggð á arfleifð frá landnámsmönnum, menningararfleifð miðalda, og hinum sterku tengslum þjóðarinnar við náttúruna og sjálfstæði hennar. Á tímum hnattvæðingar, þar sem áhrif erlendra menningarstrauma hafa aldrei verið sterkari, er mikilvægt að standa vörð um þessa þjóðmenningu og viðhalda því sem gerir Ísland einstakt.

Tungumálið sem undirstaða þjóðarvitundar

Íslenska tungumálið er ein af hornsteinum íslenskrar þjóðmenningar. Það hefur varðveist að miklu leyti óbreytt frá því á tímum Snorra Sturlusonar og er lykillinn að því að skilja menningu, sögu og bókmenntir þjóðarinnar. Tungumálið tengir okkur við forn handrit, sögur og ljóð sem geyma dýrmæta þekkingu og gildi. Í hnattrænu samfélagi, þar sem enskan hefur orðið ráðandi, er hætta á að íslenskan týnist eða veikist. Það er því nauðsynlegt að stuðla að notkun hennar í daglegu lífi, menntakerfi og á vinnumarkaði.

Auk þess er íslenskan það verkfæri sem íslenskir rithöfundar, tónlistarmenn og listamenn nota til að skapa menningarverk sem endurspegla veruleika Íslendinga. Ef íslenskan dvínar, gæti það haft áhrif á framtíð sköpunar og fræðilegra rannsókna á Íslandi. Með því að standa vörð um tungumálið, tryggjum við framtíð íslenskrar menningar.

Menningararfurinn – arfleifð sem við berum ábyrgð á

Íslendingar hafa lengi verið stoltir af hinum ríka menningararfi sem mótað hefur þjóðina. Handritin, þjóðsögurnar, sagnirnar og bókmenntir frá miðöldum gegna enn mikilvægu hlutverki í sjálfsmynd landsins. En menningararfurinn er ekki aðeins fornminjar eða sögur frá liðnum tíma – hann er lifandi þáttur í daglegu lífi, hvort sem það er í matargerð, listum, tónlist eða hátíðum. Það er því okkar ábyrgð að viðhalda honum og stuðla að því að komandi kynslóðir njóti hans og læri að meta hann.

Menningararfurinn tengir okkur ekki aðeins við fortíðina, heldur einnig hvert annað. Þjóðhátíðir, hefðir og siðir skapa samheldni í samfélaginu og styrkja tengslin milli fólks. Hátíðir á borð við Þorrablót og Jónsmessu eru ekki aðeins gleðskapur, heldur áminning um þau gildi og hefðir sem sameina þjóðina. Með því að standa vörð um þessar hefðir viðheldur samfélagið einingu og sjálfsmynd sinni.

Ógnir hnattvæðingar og áhrif alþjóðlegra menningarstrauma

Hnattvæðingin hefur leitt til fjölbreyttra menningarlegra áhrifa á Íslandi, sem hefur bæði kosti og galla. Áhrif frá bandarískri, breskri og annarri vestrænni menningu eru orðin ríkjandi í kvikmyndum, tónlist, fatnaði og tækni. Þó að alþjóðleg áhrif auðgi menningu og opni á nýja strauma, eru hættur fólgnar í of miklum áhrifum sem geta veiklað staðbundna menningu og gera þjóðir einsleitari.

Menningin er í sífelldri þróun, en það er mikilvægt að á sama tíma og við tökum þátt í alþjóðasamfélaginu, gleymum við ekki rótum okkar. Við verðum að passa að íslenskar hefðir og menning haldi sér sterkar í bland við nýja strauma. Það krefst meðvitaðrar stefnu af hálfu stjórnvalda og samfélagsins að verja og styrkja íslenskan menningararf og halda í það sem gerir hann sérstakan.

Hlutverk menntunar og fjölmiðla

Menntakerfið gegnir lykilhlutverki í að viðhalda og miðla íslenskri þjóðmenningu. Með því að kenna börnum og unglingum um sögu landsins, þjóðsögur, bókmenntir og listir getum við tryggt að komandi kynslóðir beri virðingu fyrir og haldi áfram að byggja á menningararfleifðinni. Skólarnir þurfa að leggja áherslu á mikilvægi íslenskunnar, kenna nemendum um handritin og sögulegan bakgrunn þeirra, en líka hvetja til skapandi hugsunar sem byggir á rótgróinni menningu.

Fjölmiðlar bera einnig mikla ábyrgð á því að halda íslenskri þjóðmenningu á lofti. Það er mikilvægt að íslenskt efni sé aðgengilegt á sjónvarpsstöðvum, útvarpi og í öðrum fjölmiðlum, ekki síst í samkeppni við erlenda fjölmiðla sem eru sífellt meira áberandi. Fjölmiðlar eiga að miðla íslenskri menningu og koma henni á framfæri á nýjan og áhugaverðan hátt, svo hún haldi áfram að lifa og dafna.

Framtíð íslenskrar þjóðmenningar

Það er ljóst að íslensk þjóðmenning stendur frammi fyrir áskorunum í nútímasamfélagi. En meðvitaðar ákvarðanir um að verja tungumálið, viðhalda hefðum og styrkja menningararfinn eru nauðsynlegar til að tryggja að hún glatist ekki. Við verðum að meta það sem gerir okkur að þeirri þjóð sem við erum – hvort sem það er tungumálið, bókmenntirnar, þjóðsögurnar eða hefðirnar sem hafa borist milli kynslóða.

Við þurfum að standa vörð um íslenska þjóðmenningu og tryggja að hún haldi áfram að vera lifandi, sjálfbær og hluti af daglegu lífi Íslendinga, þrátt fyrir hnattræn áhrif. Þetta er ekki bara skylda okkar við fortíðina, heldur einnig við framtíðina – til að tryggja að íslensk menning blómstri og dafni í komandi kynslóðum.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. september 2024.

Categories
Greinar

Hver er Akureyri framtíðar?

Deila grein

13/09/2024

Hver er Akureyri framtíðar?

Akureyri er blómlegur bær, með öll lífsins gæði; er mikilvæg miðstöð þjónustu og skýr valkostur fyrir þau okkar sem vilja búa í þægilegu borgarumhverfi á þessu landshorni frekar en öðru. Þannig viljum við örugglega öll hafa það og á þeim forsendum viljum við, held ég flest, að bærinn haldi áfram að vaxa og dafna. En hvað þarf til, og hvað getur komið í veg fyrir að bærinn sé og verði besta útgáfan af sjálfum sér?

Allskonar

Hæfir stjórnendur vita það mæta vel að alls konar er ekki stefna, og án stefnu er harla erfitt að örva vöxt og bæta samkeppnishæfni. Samfélög lúta alveg sömu lögmálum. Þau samfélög sem móta sér skýra sýn á hvernig þau vilja þróast áfram, og hvers konar bæjarlíf þau vilja skapa sér, sjá undantekningarlaust aukinn árangur af sinni vinnu. Það sem meira er, þegar vel er haldið á málum þá þróast atvinnulífið iðulega eftir slíkri sameiginlegri sýn. Þá þarf að vera til leiðarvísir og aðgerðaráætlun, sem tengja saman auðlindir, stefnu og frumkvæði til að nýta staðbundinn styrkleika, takast á við áskoranir og fanga tækifærin.

Þurfum við að gera eitthvað?

Ég staðhæfði hér fyrir ofan að alls konar er ekki stefna. Að vona það besta er sannarlega alls engin stefna. Góðir hlutir gerast hægt og við þurfum að hafa fyrir þeim. Eða, kannski gerast þeir hratt en undirbúningurinn er langur. Millilandaflug frá Akureyri er gott dæmi um ávextina sem spretta þegar jarðvegurinn er undirbúinn af kostgæfni. Sveitarfélög og ferðaþjónustufyrirtæki  landshlutans settu sér það metnaðarfulla markmið fyrir allnokkrum árum að hér skyldi hefjast millilandaflug og stofnuðu, af töluverðri forsjálni, flugklasa um það verkefni. Með dugnaði og þrautseigju hefur tekist að koma Akureyrarflugvelli á kortið, með tilheyrandi lífsgæðum fyrir íbúa og ótöldum tækifærum fyrir atvinnulífið. Vegalaus staður hefur upp á lítið að bjóða í alþjóðlegri samkeppni. Verkefninu er hvergi nærri lokið og sannarlega ekki tímabært að nema staðar og kasta frá sér verkfærunum.

Þetta á aldrei eftir að raungerast

Ég er afskaplega hræddur um að þetta sé of algengt viðhorf og auðvelt fyrir kjörna fulltrúa að falla í gryfju sem þessa. Slíkt hugarfar er augljóslega aldrei gagnlegt og sem betur fer hefur þróun bæjarins ekki stjórnast af þannig sofandahætti. Hefði það verið raunin, þá væri Akureyri tæplegast sá blómlegi háskólabær sem hann er í dag. Bærinn væri þá ekki heldur jafn aðlaðandi fyrir þau mörgu þekkingarfyrirtæki sem starfa hér í dag, eða önnur öflug fyrirtæki sem þurfa á fjölbreyttu vinnuafli og þekkingu að halda. Atvinnulífið okkar er sannarlega ekki þjakað af þessu hugarfari. Við sjáum það glöggt á fyrirtækjum eins og Slippnum, sem hefur verið í stöðugri framþróun síðustu ár og sækir stíft ný tækifæri og nýja markaði. Kjörnir fulltrúar eiga að sjálfsögðu að taka atvinnulífið sér til fyrirmyndar og temja sér jákvætt hugarfar gagnvart uppbyggingu og sköpun verðmæta.

Þarf bærinn  að stækka?

Hugarfar sem ég hef reyndar skilning á. Ef allt er gott, hvers vegna þá að breyta nokkru – og vill maðurinn í fúlustu alvöru breyta bænum í Reykjavík? Það held ég nú ekki! Auðvitað á Akureyri að þróast á sínum forsendum. Atvinnuvegir eru hins vegar ekki ónæmir fyrir breytingum og þróun bæjarlífs ekki heldur. Breytingar eru óhjákvæmilegar hvort sem okkur líkar betur eða verr. Svipull er sjávarafli, síldin kemur og síldin fer, eins og sagt er og nágrannar okkar þekkja svo mætavel. Ef við horfum ekki fram á veginn og sjáum sóknarfærin þegar þau gefast, þá er stöðnun næsta vís og hún er helst til gjörn á að bjóða heim hnignuninni. Og það er nú ekki gestur sem við viljum fá í bæinn okkar, því hún er nær alltaf þaulsetin.

Framtíðin ræðst af forsjálni

Framtíðin ræðst af forsjálni. Við þurfum að rýna til framtíðar og móta hana strax á okkar eigin forsendum. Tæknibreytingar eru hraðar, samkeppnin um auðlindir hörð, miklar umbreytingar eru að verða á vinnumarkaði og svo mætti lengi telja. Við eigum að setja okkur vandaða og metnaðarfulla atvinnu- og framtíðarstefnu, með skýrum markmiðum sem byggja á styrkleikum sveitarfélagsins.

Hvar liggja möguleikarnir og hvernig viljum við að bærinn okkar þróist?

Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 13. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Öryggismál verða áfram á oddinum

Deila grein

12/09/2024

Öryggismál verða áfram á oddinum

Á und­an­förn­um 15 árum hef­ur ferðaþjón­usta átt stór­an þátt í því að renna styrk­ari stoðum und­ir ís­lenskt efna­hags­líf. Vöxt­ur henn­ar hef­ur aukið fjöl­breytni at­vinnu­lífs­ins um allt land og skapað ný tæki­færi fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki. Vexti nýrr­ar at­vinnu­grein­ar fylgja áskor­an­ir sem mik­il­vægt er að fást við. Þannig leiðir til að mynda fjölg­un ferðamanna af sér verk­efni sem snúa að ör­ygg­is­mál­um og slysa­vörn­um. Eitt af for­gangs­mál­un­um í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu á þessu kjör­tíma­bili hef­ur verið að styrkja um­gjörð ferðaþjón­ust­unn­ar í víðum skiln­ingi og búa henni hag­felld skil­yrði til þess að vaxa og dafna með sjálf­bær­um hætti til framtíðar í sátt við nátt­úru, menn og efna­hag. Í þings­álykt­un um ferðamála­stefnu og aðgerðaáætl­un til 2030, sem samþykkt var í júní 2024 og unn­in var í breiðri sam­vinnu fjölda hagaðila, er á nokkr­um stöðum að finna áhersl­ur sem lúta að ör­ygg­is­mál­um í ferðaþjón­ustu. Öryggi ferðamanna snert­ir mála­flokka sem heyra und­ir ýmis ráðuneyti, stofn­an­ir og sam­tök, og úr­bæt­ur á því sviði krefjast sam­starfs og sam­hæf­ing­ar þvert á stjórn­völd og at­vinnu­líf.

Í aðgerðaáætl­un ferðamála­stefnu er að finna sér­staka aðgerð sem snýr að bættu ör­yggi ferðamanna.

Mark­miðið er skýrt: að tryggja ör­yggi ferðamanna um land allt, eins og kost­ur er, hvort sem um er að ræða á fjöl­sótt­um áfanga­stöðum eða á ferð um landið al­mennt. Sér­stak­ur starfs­hóp­ur mun á næstu vik­um taka til starfa til þess að fylgja þess­ari aðgerð eft­ir, en verk­efni hans er að greina ör­ygg­is­mál í ferðaþjón­ustu, vinna að fram­gangi þeirra og tryggja sam­tal á milli aðila. Í því sam­hengi mun hóp­ur­inn meðal ann­ars skoða upp­lýs­inga­gjöf, hvernig skrán­ingu slysa og óhappa er háttað, áhættumat á áfanga­stöðum, upp­færslu viðbragðsáætl­un­ar, fjar­skipta­sam­band, viðbragðstíma viðbragðsaðila og sam­ræmda og skýra upp­lýs­inga­gjöf til ferðamanna. Starfs­hóp­ur­inn starfar á víðum grunni en hann skipa full­trú­ar Ferðamála­stofu, menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is, dóms­málaráðuneyt­is, heil­brigðisráðuneyt­is, innviðaráðuneyt­is, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðuneyt­is og Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar. Miðað er við að starfs­hóp­ur­inn hafi víðtækt sam­ráð í starfi sínu, meðal ann­ars við aðrar stofn­an­ir, sveit­ar­fé­lög, fag­fé­lög, mennta­stofn­an­ir og ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæki. Miðað er við að hóp­ur­inn skili til­lög­um sín­um í áföng­um og að fyrstu skil verði 1. des­em­ber 2024. Við erum staðráðin í því að efla Ísland sem áfangastað í víðum skiln­ingi þess orð, og byggja á þeim góða grunni sem hingað til hef­ur verið lagður. Alltaf má hins veg­ar gera bet­ur og það er mark­miðið með því að hrinda nýrri ferðamála­stefnu í fram­kvæmd, meðal ann­ars með ör­ygg­is­mál­in áfram á odd­in­um.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. september 2024.

Categories
Greinar

Ég svelt þá í nafni kven­réttinda

Deila grein

09/09/2024

Ég svelt þá í nafni kven­réttinda

„Ég svelt þá í nafni kvenréttinda” eru orð foreldris sem mætti á borgaraþing um málefni 0-6 ára í Reykjavík vegna gagnrýni á heimgreiðslur. Skoðunin er sennilega speglun á skoðun margra heimila í sömu stöðu sem eru búin með fæðingarorlofið og róa þungan róður vegna tekjutaps því að dagvistunarpláss eru af skornum skammti. Róðurinn er enn þyngri í þrálátri verðbólgu þó að þú sýnir fyrirhyggju með því að dreifa fæðingarorlofinu yfir lengri tíma eða jafnvel sparir fyrir tekjutapinu sem fylgir barneignum. Hvað þá ef einungis eitt foreldrið getur aflað tekna á meðan beðið er eftir dagvistun.

Ekkert er nýtt undir sólinni

Hugmyndir um greiðslur til foreldra vegna umönnunar barna sinna eru ekki nýjar af nálinni hérlendis. Slíkar greiðslur hafi gengið undir ýmsum nöfnum m.a. foreldrastyrkur, heimgreiðsla, umönnunargreiðsla, foreldragreiðsla, biðlistagreiðsla og þjónustutrygging.

Árið 2008 var sett á þjónustutrygging í Reykjavík sem fól í sér greiðslur til foreldra á meðan börn þeirra voru á biðlista eftir dagvistun. Nýlega hafa nokkur sveitarfélög tekið upp slíkar greiðslur til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Í dæmaskyni má nefna Hafnarfjörð, Garðabæ og Hveragerði. Umræddar umönnunargreiðslur eiga það þó sameiginlegt að falla niður þegar barn fær dagvistun.

Umönnunargreiðslur eru einnig vel þekktar á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu. Ólíkt því sem tíðkast hérlendis hefur markmið þeirra erlendis jafnan verið að auka val foreldra. Hérlendis hefur yfirlýst markmið þeirra hins vegar ekki verið að auka val foreldra, heldur frekar að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og dagvistar. Greiðslurnar hafa því verið bundnar við virka umsókn um dagvistun og hafa þær fallið niður þegar vistun hefst.

Ógn við jafnrétti?

Ég hef alla tíð verið mikill femínisti og er alin upp við mikilvægi þess að tryggja réttindi kvenna. Því situr í mér sú staðhæfing sem stundum er haldið fram að heimgreiðslur vinni gegn jafnrétti. Þau sem eru á móti heimgreiðslum hafa meðal annars bent á möguleg áhrif á jafnrétti kynjanna þar sem konur séu líklegri til að vera heima vegna þeirra. Slík röksemdafærsla virðist byggð á því að fólk geti valið að senda barn ekki í leikskóla og fengið greiðslur heim í staðinn. Það er þó ekki í takt við það sem hefur átt sér stað hérlendis enda hafa greiðslurnar, eins og fyrr segir, verið bundnar við virka umsókn um dagvistun barns. Þannig má segja að foreldrið sem fær greiðslurnar væri því hvort sem er heima að hugsa um barnið, án tekna, vegna þess að barnið fær ekki dagvistun að fæðingarorlofi loknu. Greiðslurnar koma þá að einhverju leyti til móts við það tekjutap sem foreldrar verða fyrir vegna þess að börn fá ekki dagvistun strax að loknu fæðingarorlofi. Það má því spyrja sig hvort betra er að foreldrar séu heima alveg án tekna eða fái greiðslur sem að hjálpa til við að halda heimilisbókhaldinu réttu megin við núllið.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi leikskólans fyrir menntun og þroska barna og fyrir tekjuöflun og þátttöku foreldra á vinnumarkaði. Leikskólakerfið hefur einnig stuðlað að jafnari atvinnuþátttöku foreldra. En ef við horfum á stöðuna í leikskólamálum blákalt er ljóst að sú staða mun ekki breytast í bráð jafnvel þó að það sé eitt að forgangsverkefnum sveitarfélaga að tryggja yngstu íbúunum leikskólavist. Því þó við myndum bæta við nægjanlega mörgum byggingum undir starfsemi leikskóla og tryggja ávallt nægilegt fjármagn þá þarf að manna stöður leikskólakennara sem eru ekki að finna á hverju strái. Fjölgun einstaklinga í mikilvægri stétt leikskólakennara er verðugt markmið en það mun taka tíma og því þarf að leita annarra leiða og lausna til að mæta foreldrum sem eru í bráðum vanda og bíða eftir dagvistunarplássi. Það er bara ekki hægt að gera ekki neitt.

Markmiðið með þjónustutryggingunni í Reykjavík árið 2008 var að tryggja „jafnræði borgaranna og jafnrétti kynja, að því leyti að gera báðum foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.“ Krafa var gerð um virka umsókn um dagvistun og greiðslurnar voru skilyrtar þannig að hvort foreldri um sig fékk að hámarki greitt fyrir 2/3 af heildartímabilinu. Slík skilyrðing á greiðslu getur verið mótvægi við hættunni á að einungis konur nýti sér umræddar greiðslur og stuðlar að því að báðir foreldrar skipti umönnunartímabilinu á jafnari hátt sín á milli, líkt og við þekkjum í fæðingarorlofskerfinu.

Þá hefur því verið haldið fram að það séu börnin sem mest þurfi á því að halda að fara í leikskóla sem séu heima vegna heimgreiðslna, t.d. börn innflytjenda sem þurfi að tileinka sér tungumál þess lands sem þau búa í. Þetta á ekki við rök að styðjast því að heimgreiðslurnar eru skilyrtar þannig að þær falla niður þegar tilboð um dagvistun berst og vistun hefst. Ljóst er þó að huga þarf sérstaklega að börnum sem eru ekki í leikskóla, greina hvers vegna svo er og hvort ástæða sé til að mæta því með einhverjum hætti. Einnig þarf að huga sérstaklega vel að börnum af erlendum uppruna og tungumálakunnáttu þeirra og ef til vill er mögulegt að vera með íslenskukennslu á þessum biðtíma. Við þurfum að hafa hugrekki til að horfa út fyrir kassann og leita leiða til bæta hag foreldra ungra barna þó ekki sé hægt að ná óskastöðunni strax. Það er hagur okkar allra að á Íslandi sé skapaður jarðvegur sem öll börn geta blómstrað í.

Hvað er börnunum fyrir bestu?

Rannsóknir hafa ítrekað bent á mikilvægi fyrstu áranna í lífi einstaklings og tengsl foreldra og barna. Þau sem hafa verið hlynnt valfrjálsum heimgreiðslunum hafa bent á það og telja að það sé almennt betra fyrir ung börn að vera lengur í umönnun foreldra. Margir foreldrar vilja þá dvelja lengur heima með börnum sínum eftir fæðingu.

Mín skoðun er sú að það eigi að vera á ábyrgð ríkisins að þróa fæðingarorlof í samræmi við vilja og óskir foreldra og sveitarfélaganna að bjóða upp á dagvistun til að foreldrar geti stundað vinnu. Ríkið gæti því lengt fæðingarorlofið til að mæta röddum foreldra sem vilja vera lengur heima. Reyndar er það svo að ríki og sveitarfélög hafa skuldbundið sig til að vinna saman að því að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla í síðustu kjarasamningum.

Heimgreiðslur geta hins vegar létt undir með foreldrum sem eru tilneyddir að taka lengra hlé frá vinnu en sem nemur fæðingarorlofi, vegna þess að þau fá ekki dagvistunarpláss, og hjálpað þeim að forðast fjárhagslega krísu. Erfiður fjárhagur hefur ekki síður áhrif á stöðu barna en foreldra á marga vegu. Heimgreiðslur geta því verið ákveðin lausn til að mæta foreldrum sem hafa lokið fæðingarorlofi en eru í bið eftir leikskólavist og væru án þeirra tekjulausir þetta tímabil með tilheyrandi fjárhagsbasli og álagi á tíma sem á að vera gefandi og gleðiríkur með þeim sem erfa munu landið.

Ef samþykkt verður að taka upp heimgreiðslu þarf að rýna vel félagslegu áhrifin af þeim s.s. áhrif á jafnrétti og velferð barna en gæta um leið að missa ekki sjónar á markmiðinu um að bjóða upp á nægjanlegt framboð af dagvistun að fæðingarorlofi loknu, svo foreldrar geti stundað nám sitt eða vinnu og lagt sitt að mörkum til að byggja upp okkar ágæta velferðarkerfi.

Fyrst og fremst snýst þetta um börnin og foreldra þeirra, sem mörg hver eru í stórkostlegum vanda með að brúa bilið og ná endum saman. Við eigum að hlusta á foreldra og taka þeirra óskum og ábendingum alvarlega. Þær eru ekki aukaatriði og stjórnmálin verða hverju sinni að ganga varlega þann veg að ákveða hvað sé fólki fyrir bestu og takmarka möguleika þeirra til að lifa lífi sínu á eigin forsendum út frá hugmyndafræði. Nú ríkir neyðarástand hjá foreldrum barna sem bíða eftir dagvistun meðal annars vegna innviðaskuldar síðustu kjörtímabila í viðhaldi skólabygginga og skorts á starfsfólki. Það er okkar verkefni að létta róðurinn með því að leggjast á árarnar og brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Tímabundnar og skilyrtar heimgreiðslur eru einn valkostur til þess að leysa úr þessum vanda. Við megum ekki gleyma því að börn og foreldrar lifa þennan raunveruleika í dag, á meðan rifist er yfir gömlum kreddum.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. september 2024.