Categories
Fréttir Greinar

Til hamingju Víkingur Heiðar!

Deila grein

29/10/2025

Til hamingju Víkingur Heiðar!

Árið 2008 hitti ég Víking Heiðar í fyrsta sinn. Hann tók þátt í tónleikaröð fyrir rísandi stjörnur í klassískri tónlist, en viðburðurinn var hluti af sérstakri menningarhátíð sem ég átti þátt í að undirbúa í Brussel. Þarna birtist þessi hógværi hlýlegi maður og spilaði einstaklega fallega fyrir nokkuð stóran hóp í sal eins helsta menningarhúss Brussel, Palais de Bozar.

Nú, tæpum 18 árum síðar, var ég viðstödd þegar Víkingur Heiðar hlaut verðlaun Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Hann er ekki lengur rísandi stjarna, hans stjarna skín skærar sem aldrei fyrr eins og birtist nú með viðurkenningu Norðurlandaráðs en ekki síður í gullverðlaunum Konunglega fílharmóníufélagsins í London og Grammy verðlaunum; en þetta eru aðeins dæmi um þær mörgu alþjóðlegu viðurkenningar sem Víkingur Heiðar hefur hlotið. Hann fyllir tónleikasali hvar sem er í veröldinni, allt frá Belgíu yfir til Bandaríkjanna og Japan og þúsundir hrífast með.

Saga Víkings Heiðars minnir okkur á mikilvægi tónlistarnáms og aðgengi þess fyrir alla óháð efnahag. Hún minnir okkur líka á þá gjöf sem felst í því að búa í samfélagi þar sem við getum ræktað ólík áhugasvið sem oft eru ekki endilega fjárhagslega arðbær eða örugg leið. Síðast en ekki síst minnir saga Víkings okkur á mikilvægi þess að hafa ástríðu og metnað fyrir því sem við vinnum að.

Í ræðu Víkings Heiðars, sem flutt var af sendiherra Íslands í Svíþjóð þar sem Víkingur Heiðar er við tónleikahald í Bandaríkjunum, kom sérstaklega fram mikið þakklæti til allra þeirra sem hafa hjálpað honum að ná árangri í gegnum tíðina. Með þeim ársngri hefur Víkingur Heiðar svo sannarlega lýst upp íslenskt tónlistarlíf og orðið öðrum hvatning og innblástur.

Til hamingju Víkingur Heiðar. Þú ert þjóðinni til sóma.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fyrir­myndar for­varnar­stefna í Mos­fells­bæ

Deila grein

29/10/2025

Fyrir­myndar for­varnar­stefna í Mos­fells­bæ

Það er ánægjulegt að sjá þegar sveitarfélag tekur forvarnarstarf alvarlega. Ákvörðun Mosfellsbæjar um að verja aukalega 100 milljónum króna í forvarnir er skýrt dæmi um slíka hugsun. Átakið hefur fengið nafnið „börnin okkar” og felur í sér aukafjárveitingu uppá 100 milljónir sem verða notaðar í 27 viðbótaraðgerðir. Þær skiptast í þrjá þætti: almennar forvarnir, snemmtækur stuðningur og styrking Barnaverndar. Þetta er stefna sem byggir á raunverulegri sýn á velferð og heilsu íbúa, og endurspeglar ábyrgð og framsýni bæjarstjórnar.

Aðgerðirnar felast meðal annars í að:

  • Auka aðgengi unglinga að sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf.
  • Efla stuðningsúrræði í formi ráðgjafar, stuðnings og námskeiða.
  • Hækka frístundastyrki.
  • Styrkja starf félagsmiðstöðva.
  • Auka samstarf, fræðslu og námskeið fyrir foreldra.
  • Koma á samskiptasáttmála á milli foreldra og skóla.
  • Huga að lýðheilsu barna og ungmenna meðal annars með aukinni opnun íþróttamiðstöðva um helgar.
  • Tryggja aðgengi allra hópa að námskeiðum og íþróttum.

Með þessari fjárfestingu er verið að efla stuðning við börn og ungmenni, bæta aðgengi að sálfræði- og félagsráðgjöf, styrkja frístundastarf og bjóða foreldrum námskeið sem styrkja tengslin milli heimilis og skóla. Þetta eru metnaðarfullar aðgerðir sem hafa bein áhrif á líðan, öryggi og framtíð barnanna okkar.

Mikilvægi íþrótta og tómstunda í forvarnarstarfi er óumdeilt. Þar hefur Mosfellsbær verið til fyrirmyndar. Bærinn hefur lagt ríka áherslu á að börn og ungmenni hafi fjölbreytt tækifæri til þátttöku, hvort sem það er í íþróttum, tónlist, listgreinum eða félagsstarfi. Slíkt starf byggir upp sjálfstraust, tengsl og jákvæð samskipti, sem eru sterkustu forvarnirnar sem til eru. Með öflugum frístundastyrkjum, samstarfi við íþróttafélög og góðum aðgengismálum fyrir öll börn, hefur Mosfellsbær skapað umhverfi þar sem enginn þarf að standa utan við.

Það er auðvelt að tala um forvarnir, en erfiðara að gera eitthvað í þeim málum. Þess vegna er þessi ákvörðun svo mikilvæg. Hún sýnir að bæjarstjórnin í Mosfellsbæ leggur áherslu á verk frekar en orð. Með því að setja raunverulegt fjármagn í málaflokk sem oft hefur setið á hakanum, er verið að senda skýr skilaboð: að heilsa, öryggi og velferð barna og ungmenna skipti mestu máli.

Þessi nálgun fellur vel að stefnumálum Framsóknar í Mosfellsbæ, sem hafa lengi lagt áherslu á forvarnir, fjölskylduvæn samfélög og jafnt aðgengi að þjónustu. Framsókn hefur talað fyrir því að sveitarfélög séu ekki bara þjónustuaðilar, heldur samfélög sem byggja upp manneskjulegt og heilbrigt umhverfi. Þegar fjárfest er í forvörnum, er verið að vinna nákvæmlega eftir þeirri hugsun.

Í þessum aðgerðum birtist líka ákveðinn metnaður: að Mosfellsbær vilji vera leiðandi sveitarfélag í forvörnum. Með fjárfestingu í börnum og ungmennum er verið að styrkja grunninn að betra samfélagi til framtíðar, þar sem fleiri fá tækifæri, færri detta út og allir finna að þeir skipta máli.

Þetta er góð stjórn. Þetta er ábyrg stjórnsýsla. Meirihlutinn í Mosfellsbæ á skilið stórt hrós fyrir þessa framkvæmd.

Kjartan Helgi Ólafsson, Mosfellingur og ritari Sambands ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Tími kerfisbreytinga á lánamarkaði

Deila grein

28/10/2025

Tími kerfisbreytinga á lánamarkaði

Nýlegur dómur Hæstaréttar Íslands hefur blásið nýju lífi í umræðuna um lánakjör heimilanna. Í svokölluðu vaxtamáli komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að óverðtryggð lán yrðu að miðast við stýrivexti Seðlabankans. Þessi tímamótaniðurstaða afhjúpar galla í núverandi fyrirkomulagi og kallar á heildarendurskoðun.

Hollt er að rifja upp uppruna verðtryggingar í þessu samhengi. Verðtrygging var lögleidd með Ólafslögum árið 1979, þegar efnahagslegt ófremdarástand réð ríkjum. Á þeim tíma geisaði óðaverðbólga, raunvextir voru neikvæðir og sparifé í lágmarki. Innstæður voru komnar í sögulegt lágmark og lánsfé þraut. Því var gripið til róttækra ráðstafana: vísitölubinding lána og innlána var tekin upp til að verja sparnað og lán gegn verðbólgu og koma hjólum efnahagslífsins aftur af stað.

Nú, nærri hálfri öld síðar, eru efnahagsaðstæður gjörbreyttar. Verðbólgan er vissulega enn til staðar en stöðugleiki er miklu meiri. Skyldusparnaður í gegnum lífeyrissjóði tryggir að fjármagn safnist fyrir framtíðina, og almenningur hefur fleiri leiðir til ávöxtunar sparnaðar en að geyma fé á bankareikningum. Í stuttu máli: neyðarráðstafanirnar frá 1979 eiga ekki lengur við.

Þrátt fyrir þessar breyttu aðstæður sitjum við enn uppi með úrelt lánakerfi. Ísland er meðal auðugustu landa veraldar. Lífeyrissjóðirnir geyma mikið fjármagn og ríkissjóður er tiltölulega skuldalítill. Samt eru lánakjör þannig að venjulegar fjölskyldur þurfa að skuldbinda sig til 40 ára í mikilli óvissu. Í samfélagi sem býr svo vel ættu landsmenn að geta fengið sanngjarnari og traustari lán til húsnæðiskaupa. Lausnin felst í heildarendurskoðun lánakerfisins. Boða þarf alla hagaðila að borðinu með það eina markmið að bjóða upp á fasteignalán sem endurspegla betur góða stöðu þjóðarbúsins. Hvernig mætti bæta kerfið? Í fyrsta lagi, endurskoða þarf lífeyrissjóðakerfið með tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa á samfélaginu okkar. Í öðru lagi, auka þarf valkosti lántakenda. Fastvaxtalán til 10 eða 20 ára ættu að vera raunhæfur kostur hérlendis líkt og í nágrannalöndum. Lífeyrissjóðir gætu stutt slíkar lánveitingar þannig að bankar bjóði fasta vexti á samkeppnishæfum kjörum, án þess að taka á sig óbærilega áhættu. Í þriðja lagi, markvisst þarf að draga úr vægi verðtryggingarinnar en það verður ekki hægt að gera nema að aðrir raunhæfir kostir fyrir heimilin séu í boði. Umbætur á þessu kerfi eru eitt mesta hagsmunamál samfélagsins og tilvalið samvinnuverkefni. Stefán Vagn Stefánsson þingmaður Framsóknarflokksins óskaði nýlega eftir fundi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til að ræða alvarlega stöðu lánamarkaðarins. Vonandi næst pólitísk samstaða um nauðsynlegar kerfisbreytingar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtis fyrst í Morgunblaðinu 28. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Þegar raunveruleikinn nær meirihlutanum – hundruð milljóna í viðauka í Suðurnesjabæ

Deila grein

27/10/2025

Þegar raunveruleikinn nær meirihlutanum – hundruð milljóna í viðauka í Suðurnesjabæ

Meirihluti bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar – Sjálfstæðisflokkur, Bæjarlistinn og Samfylkingin – samþykkti í fyrra fjárhagsáætlun sem tók ekki tillit til stóra og fyrirséða kostnaðarliði í félagsþjónustunni.

Minnihlutinn gagnrýndi þetta harðlega við afgreiðslu áætlunarinnar og benti á að útgjöld, sérstaklega vegna barna með fjölþættan vanda, væru mun hærri en gert var ráð fyrir. Þrátt fyrir skýrar ábendingar og ráðleggingar fagaðila á félagsþjónustusviði ákvað meirihlutinn engu að síður að áætla einungis 50 milljónir króna í þennan málaflokk árið 2025.

Nú, í október 2025, hefur meirihlutinn lagt fram viðauka við fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 upp á 290 milljónir króna vegna sama málaflokks.
Það staðfestir það sem við í minnihlutanum bentum á í desember í fyrra, að fjárhagsáætlun meirihlutans var hvorki raunhæf né ábyrg.

Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2025, þann 11. desember 2024, lagði minnihlutinn fram bókun þar sem sérstaklega var bent á að kostnaður vegna barna með fjölþættan vanda hefði aukist um 254 milljónir milli ára.

Engu að síður var aðeins áætlað 50 milljónir króna til málaflokksins, og jafnframt var gerð athugasemd við skort á samráði í áætlunarferlinu.

Þegar viðaukinn upp á 290 milljónir króna var lagður fram af meirihlutanum í Suðurnesjabæ nú í október, studdum við í Framsókn hann að sjálfsögðu.
Það var fyrirséð að kostnaðurinn myndi lenda á bæjarsjóði, og mikilvægt að börn í erfiðum aðstæðum fái viðunandi þjónustu.

Ríkisstjórnin undirritaði samkomulag við sveitarfélögin í vor um að taka þennan málaflokk yfir frá sveitarfélögunum og þar með einnig þann kostnað sem honum fylgir, frá og með júní 2025. Það var því fyrir séð að kostnaðurinn frá janúar til júní myndi lenda á bæjarsjóði.
Enn hefur þó ekki ein einasta króna borist frá ríkissjóði vegna þessa málaflokks sem snýr að kostnaði frá júní til október Þrátt fyrir fögur fyrirheit ríkisstjórnarinnar. 

Bókun Framsóknar við afgreiðslu málsins

Bókun frá fulltrúa B lista:
Fulltrúi B-lista Framsóknar vill minna á að á 75. fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar, sem haldinn var þann 11. desember 2024, við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2025, lagði minnihlutinn fram eftirfarandi bókun:

Minnihlutinn, bæjarfulltrúar B-lista Framsóknar og bæjarfulltrúi Magnús S. Magnússon, telja að fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 hjá Suðurnesjabæ, sem hér liggur fyrir, gefi ekki raunhæfa mynd af þeim kostnaði sem fyrirséð er að muni lenda á bæjarsjóði. Í því samhengi vilja bæjarfulltrúar B-lista og bæjarfulltrúi Magnús S. Magnússon benda á að kostnaður vegna barna með fjölþættan vanda hefur aukist um 254 milljónir milli ára, en þrátt fyrir þetta hafa S-, D- og O-listar einungis áætlað 50 milljónir króna í þessum lið.

Bæjarfulltrúar B-listans og bæjarfulltrúi Magnús S. Magnússon vilja einnig gera athugasemdir við skort á samráði við gerð fjárhagsáætlunarinnar. Minnihlutinn fékk einungis aðkomu á tveimur vinnufundum, þar sem einungis var farið yfir glærur og engar ákvarðanir teknar, ásamt því að ákvörðun um fundartíma var ekki í samráði við fulltrúa minnihlutans. Þetta fyrirkomulag samráðs var því hvorki fullnægjandi né í samræmi við það sem ætti að viðhafast í lýðræðislegum vinnubrögðum. Af ofangreindum ástæðum geta bæjarfulltrúar B-lista Framsóknar og bæjarfulltrúi Magnús S. Magnússon ekki stutt framlagða fjárhagsáætlun.

Ljóst er nú, vegna þessara viðauka, að meirihluti S-, D- og O-lista hefur verulega vanáætlað útgjöld í þessum málaflokki og þar með vanfjármagnað þjónustu við börn með fjölþættan vanda.

Þetta staðfestir það sem minnihlutinn benti á við afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar að áætlunin var hvorki raunhæf né byggð á fullnægjandi greiningu á raunverulegum rekstrarkostnaði sveitarfélagsins.

Það er áhyggjuefni að þurfa að gera slíka viðauka upp á hundruð milljóna króna innan ársins vegna vanmats í áætlunargerð meirihlutans.

Slíkt vinnulag grefur undan trúverðugleika fjárhagsáætlunarferlisins og sýnir að brýnt er að bæta bæði faglega undirbúning og samráð við gerð næstu fjárhagsáætlunar.

Framsókn mun áfram beita sér fyrir því að fjárhagsáætlanir Suðurnesjabæjar byggist á raungögnum, ábyrgri stjórnsýslu og samráði við alla bæjarfulltrúa – í lok dags snýst þetta um að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins gefi raunhæfa mynd af rekstrarkostnaði sveitarfélagsins og tryggi ábyrga stjórnsýslu.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á vf.is 27. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ég þarf ekki að læra ís­lensku til að búa hérna

Deila grein

25/10/2025

Ég þarf ekki að læra ís­lensku til að búa hérna

„Ég þarf ekki að læra íslensku til að búa hérna,“ sagði leigubílstjórinn og brosti í baksýnisspeglinum.

Hann hafði búið hér í nokkur ár, talaði varla orð á íslensku en var augljóslega metnaðarfullur og hlýr ungur maður. Hann kom frá Evrópu og í heimalandi sínu hafði hann starfað í slökkviliðinu en kom hingað í leit að betra lífi. Með þrautseigju í byggingarvinnu og leigubílaakstri hafði hann náð því sem marga Íslendinga dreymir um – hann hafði keypt sér íbúð.

Þegar ég spurði hvort hann ætlaði þá að setjast hér að, svaraði hann án hiksta: „Já, Ísland er frábært land, hér er gott að búa.“

En þegar ég spurði hvort hann ætlaði að læra íslensku svaraði: „Við hvern á ég eiginlega að tala? Ég þekki engan Íslending.“

Hann sagðist hafa farið á ýmis námskeiði en aldrei ná að æfa sig. „Vinir mínir eru allir frá öðrum löndum og utan vinnu kemst maður ágætlega af með ensku.“

Byggjum brýr tungumálsins

Ég hugsaði um orð hans lengi eftir ferðina.

Þetta er ekki einstök saga. Ég hef heyrt hana aftur og aftur, sögur fólks sem elskar landið en lifir samt lífi sínu á landinu utan tungumálsins. Við finnum öll að íslenskan á í vök að verjast í daglegu lífi.

Erlendu vinnuafli hefur fjölgað um 50.000 manns á örfáum árum. Hlutfall erlendra íbúa nálgast nú fimmtung þjóðarinnar. Það er hraðari breyting en í flestum Evrópulöndum.

Langflestir koma hingað til að leggja samfélaginu lið, vinna í heilbrigðiskerfinu, byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Þeir eru ómissandi hluti af daglegu lífi okkar. En sú fjölgun reynir á tungumálið, og við finnum það í kringum okkur svo sem í verslunum, á vinnustöðum, í leikskólum og á kaffihúsum.

Þetta er staða sem krefst aðgerða, ekki aðeins fallegra orða. Tyllidagaræður og góðar yfirlýsingar nægja ekki lengur. Nú þarf raunverulegar lausnir – fjölbreyttar, mannlegar og framkvæmanlegar.

Við höfum byggt brýr yfir straumharðar jökulár, en við erum hætt að byggja brýr á milli fólks?

Tungumálið – mikilvægasti innviðurinn okkar

Við tölum oft um fjárfestingar í innviðum – brýr, vegi og hafnir. Það er eðlilegt; slík mannvirki tengja byggðir saman og gera fólki og fyrirtækjum kleift að skapa verðmæti. En við gleymum stundum öðrum, jafn mikilvægum innviði: tungumálinu. Það eru brýrnar og vegirnir sem tengja okkur hvert við annað. Góð samskipti og

sameiginlegt tungumál efla skilning, samkennd, traust og kærleika og leggja þannig grunn að samfélaginu sjálfu.

Án þess grunns eykst hættan á klofningi. Þá skapast „við og þið“ menning sem hefur grafið undan samheldni og stöðugleika í mörgum löndum og er þegar farin að gera það hér.

Við þurfum því að bregðast við, af krafti og með fjölbreyttum lausnum, til að efla íslenskuna og þar með samheldni þjóðarinnar. Gerum það núna.

Ein tillaga: Æfingafélagar í spjalli

Í síðustu viku lagði ég fram þingsályktunartillögu um nýja lausn sem gæti orðið bæði félagslega og menningarlega verðmætt. Tillagan felur í sér að gefa eldri borgurum, sem þess óska, tækifæri til að afla sér aukatekna án þess að skerða lífeyri eða bætur.

Starfið væri ekki kennsla í hefðbundnum skilningi heldur þátttaka í samtalsþjálfun á skólum og vinnustöðum – að vera eins konar æfingafélagi í íslensku nokkra klukkutíma á viku. Þar gætu myndast falleg tengsl í hversdeginum og hægt væri að ræða um veðrið, fjölskylduna, helgina eða það sem er í fréttunum. Slík samtöl skapa tengsl milli kynslóða og hjálpa fólki að verða virkir þátttakendur í samfélaginu.

Ávinningurinn væri tvíþættur:

  • Eldri borgarar, sem vildu, fengju tækifæri til samveru og öflun aukatekna.
  • Samfélagið allt nyti meiri kynslóðatengsla og tungumálalegrar samheldni.

Sumir spyrja kannski hvort þetta dugi ekki sem sjálfboðastarf. Jú, verkefni á borð við það sem Rauði krossinn hefur staðið fyrir eru til fyrirmyndar. En þegar við horfum á þann hóp, um 50.000 manns, sem hefur sest hér að á undanförnum árum, sjáum við að umfangið er allt annað. Við þurfum skýra hvata og markvissar aðgerðir ef við ætlum að ná árangri á næstu þremur til fimm árum og snúa þróuninni við.

Slíkt mun kosta fjármagn en það mun kosta samfélagið margfalt meira til lengri tíma að gera ekki neitt.

Belgíska amman mín

Ég hef sjálf upplifað hversu dýrmætt það getur verið að eiga æfingafélaga í nýju tungumáli. Þegar ég bjó í Brussel þekkti ég í fyrstu aðeins Íslendinga sem unnu með mér. Flestir sem ég kynntist voru aðrir útlendingar í svipuðum störfum, og við töluðum saman á ensku.

Mig langaði þó að læra frönsku, sem er eitt af tungumálum borgarinnar, og var svo heppin að kynnast eldri konu sem hafði mikinn áhuga á Íslandi. Við ákváðum að hittast reglulega, ég myndi segja henni frá Íslandi, ef hún myndi spjalla við mig á frönsku.

Þessi kona, sem var enginn formlegur kennari, gerði miklu meira en að hjálpa mér að bæta tungumálakunnáttu mína. Hún hjálpaði mér að fóta mig í nýju landi, kynnti mér menningu Belga og sögu þeirra, og varð að lokum eins konar belgísk amma mín.

Hún var lykill minn inn í samfélagið – og við þurfum marga slíka lykla að okkar eigin samfélagi í dag.

Æfingafélagaleiðin gæti verið einn af þeim sem opna dyr að betra og samheldnara samfélagi.

Aukum metnaðinn – hækkum ránna

Þessi hugmynd er aðeins ein af mörgum sem hægt væri að útfæra og sameina ef við ætlum að ná árangri. Hér má horfa til fjölbreyttra lausna – tækninýjunga eins og Bara tala, bókaútgáfu, málstefnu atvinnuvega, fleiri íslenskukennara, hvata í löggjöf og öflugs undirbúningsnáms fyrir nýja íbúa landsins okkar.

Heilt yfir þurfum við að hækka ránna og gera meiri kröfur bæði til okkar sjálfra og þeirra sem hingað flytja, hvort sem er til skemmri eða lengri dvalar. Æfum okkur í að skipta ekki sjálfkrafa yfir í ensku. Tölum frekar hægt, hjálpumst að og gleymum ekki að hrós og bros gera kraftaverk í samskiptum.

Fyrirtæki sem ráða starfsfólk erlendis frá bera einnig mikla ábyrgð. Það hlýtur að vera framkvæmanlegt að kenna ungu og efnilegu starfsfólki muninn á snúð og kleinu og hvetja það til að panta pulsu og kók á íslensku. Við eigum að gera skýra kröfu um metnað hjá fyrirtækjum og kröfu til löggjafans um hvata til að efla íslenskuna á vinnustöðum.

Sumir vinnustaðir standa sig greinilega betur en aðrir og þar liggja tækifæri til að læra hver af öðrum og miðla því sem virkar.

Hjálpumst að

Enginn ætlast til þess að þeir sem hingað koma tali íslensku fullkomlega, hvorki um hornaföll né heimsspeki. Alls ekki. Við viljum einfaldlega standa vörð um tungumálið, þennan fjársjóð okkar eins og Bubbi myndi segja, til að tryggja samheldni samfélagsins í stað sundrungar.

Sókn enskunnar grefur undan því og á sama tíma höfum við sjálf misst fótanna í íslenskukunnáttu með tilkomu snjallsímanna. Einangrað eyjaumhverfið sem áður verndaði tungumálið gerir það ekki lengur. Nú þarf vilja, hugrekki og styrk til að halda sjó.

Til þess þurfum við að hækka ránna og láta verkin tala. Stjórnvöld verða að fjármagna raunhæfar lausnir sem byggja brýr tungumálsins, mikilvægustu samgönguinnviði framtíðarinnar. En við hin getum líka lagt okkar af mörkum og spurt okkur: Get ég verið hluti af lausninni hvern dag með því að kenna einhverjum nýtt orð?

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Suðurnesin eiga að vera sókn nýsköpunar en ekki biðstofa tækifæra

Deila grein

24/10/2025

Suðurnesin eiga að vera sókn nýsköpunar en ekki biðstofa tækifæra

Suðurnes eru einstakt og kraftmikið svæði þar sem stórbrotin náttúra, jarðhiti og brimkennd strönd mætast í seilingarfjarlægð frá höfuðborginni, á sama tíma og Keflavíkurflugvöllur tengir svæðið og landið allt beint við umheiminn. Hér mætast náttúruöfl og nýsköpun, orka og hugvit, fjölbreytt samfélag og vaxandi tækifæri á sviðum menntunar, ferðaþjónustu, orkumála og skapandi greina. En allt er breytingum háð og því ber að tryggja framtíð Suðurnesja sem svæði þekkingar, menntunar og framfara.

Tillaga um Háskólafélag Suðurnesja

Í því ljósi hyggst ég brátt leggja fram tillögu til þingsályktunar um stofnun Háskólafélags Suðurnesja (HFSN). Markmið tillögunnar er að efla menntun, rannsóknir og nýsköpun á Suðurnesjum og tengja saman ríki, sveitarfélög, fyrirtæki, menntastofnanir og almenning í sameiginlegri framtíðarsýn fyrir svæðið.

Háskólafélagið yrði vettvangur samvinnu og þróunar þar sem menntun, atvinnulíf og nýsköpun styðji hvort við annað. Með fjölbreyttari námsleiðum, fjarnámi og símenntun má hækka menntunarstig, efla hæfni fólks á vinnumarkaði og auka samkeppnishæfni svæðisins. Þá gæti félagið tengt saman rannsóknir og atvinnuuppbyggingu, stutt við frumkvöðla og skapað ný störf í takt við græna og stafræna umbreytingu atvinnulífsins.

Svæði tækifæra þrátt fyrir áskoranir

Það er öllum ljóst að fyrirtæki og íbúar Suðurnesja hafa staðið frammi fyrir miklum áskorunum síðustu ár. Jarðhræringar hafa sett líf fjölskyldna í uppnám, atvinnulífið hefur glímt við óvissu og fall flugfélagsins Play minnti á hve viðkvæmt atvinnuumhverfið getur verið.

Auk þess hefur íbúasamsetning svæðisins tekið örum breytingum á síðustu árum, sem kallar á að styrkja samfélagið í sessi með sterkari innviðum.

Umræða sem þarf að eiga sér stað

Vel má vera að önnur útfærsla, heiti eða skipulagsform henti betur til að ná ofangreindum markmiðum. En stofnun Háskólafélags Suðurnesja er raunhæf, framtíðarmiðuð og ábyrg tillaga sem sannarlega verðskuldar rækilega og opinskáa umræðu um hvernig megi tryggja framtíð svæðis sem á allt undir því að menntun, hugvit og samvinna fái að blómstra. Suðurnesin eiga einfaldlega að vera sókn nýsköpunar en ekki biðstofa tækifæra.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á vf.is 23. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Heimastjórnir og íbúasamtal – lykilatriði í sameiningu Múlaþings

Deila grein

22/10/2025

Heimastjórnir og íbúasamtal – lykilatriði í sameiningu Múlaþings

Í stóru og fjölbreyttu sveitarfélagi eins og Múlaþingi er mikilvægt að tryggja að allir íbúar upplifi sig sem virka þátttakendur. Með sameiningu byggðarlaga fylgir sú áskorun að viðhalda nálægð og trausti milli íbúa og stjórnsýslu, og að ákvarðanir endurspegli raunverulegar þarfir fólks á öllum svæðum. Þar koma heimastjórnir sterkt inn sem lykilverkfæri í lifandi lýðræði og fjölkjarna sveitarfélagi.

Fjölkjarna sveitarfélög og lærdómur fyrir Múlaþing

Í nýrri skýrslu Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri sem ber heitið Fjölkjarna sveitarfélög og unnin var af þeim Hjalta Jóhannessyni og Arnari Þór Jóhannessyni, er fjallað um reynslu sveitarfélaga sem hafa tekið upp heimastjórnir og önnur form íbúalýðræðis eftir sameiningar. Þar kemur fram að Múlaþing sé eitt af þeim sveitarfélögum sem hefur mótað skýrt kerfi heimastjórna til að tryggja tengsl milli íbúa og sveitarstjórnar.

Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar gegna heimastjórnir lykilhlutverki í að viðhalda staðbundinni þátttöku og skilningi á þörfum mismunandi byggðarkjarna. Þar sem heimastjórnir starfa með skýru hlutverki, reglubundnum fundum og góðu upplýsingaflæði, eykst traust, gagnsæi og skilvirkni í ákvarðanatöku. 

Hlutverk heimastjórna

Heimastjórnir eru brú milli sveitarstjórnar og íbúa. Þær tryggja að raddir fólks á öllum svæðum heyrist í stefnumótun og ákvörðunum. Þær byggja á þeirri einföldu, en áhrifaríku hugmynd, að bestu ákvarðanirnar fæðast þegar þær eru teknar í samvinnu við þá sem þekkja málin best, íbúana sjálfa.

Í fjölkjarna sveitarfélagi eins og Múlaþingi, þar sem aðstæður eru ólíkar milli byggðarlaga, er þessi nálægð sérstaklega mikilvæg. Heimastjórnir hjálpa til við að forgangsraða rétt, byggja upp traust og varðveita sérkenni hvers svæðis. Þær geta einnig verið vettvangur fyrir frumkvæði innan sveitarfélagsins, þar sem hugmyndir spretta beint úr samfélaginu sjálfu.

Gildi íbúafunda og samráðs

Skýrslan bendir jafnframt á að íbúalýðræði blómstrar ekki af sjálfu sér, það þarf að skapa vettvang fyrir samtal. Þar koma íbúafundir sterkast inn. Þeir eru ekki einungis upplýsingafundir heldur tækifæri til að ræða, spyrja og móta framtíðarsýn saman. Reglulegir íbúafundir og opið samráð tryggja að ákvarðanir sveitarfélagsins byggist á gagnsæi og þátttöku. Samkvæmt RHA er þetta eitt af lykilatriðunum sem aðgreinir þau fjölkjarna sveitarfélög sem ná árangri frá þeim sem glíma við sundrung og vantraust.

Heimastjórnir og íbúasamtal eru ekki formsatriði heldur hjarta virks sveitarfélags. Þær tryggja að lýðræðið sé lifandi, að ákvarðanir séu teknar í samvinnu og að samfélagið styrkist út frá sínum eigin grunni.

Heimastjórnir hafa boðað til funda tvisvar á ári og hafa þeir fundir reynst okkur afskaplega vel, bæði er hægt að halda kynningar á helstu málum sveitarfélagsins en einnig taka við ábendingum íbúa er varðar hin ýmsu mál. Heimastjórnirnar fjórar eru nú flestar búnar að boða haustfundi með íbúum sínum og ég vil hvetja íbúa okkar til að mæta á sínu svæði, við hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti B-lista og forseti sveitarstjórnar í Múlaþingi.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 21. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

1500 vanvirk ung­menni í Reykja­vík

Deila grein

21/10/2025

1500 vanvirk ung­menni í Reykja­vík

Um 1500 ungmenni á aldrinum 18–29 ára í Reykjavík eru ekki í námi, vinnu eða virkni. Bakvið þessa tölu eru raunverulegir einstaklingar. Ungt fólk sem á allt lífið framundan. Það skiptir því máli að við grípum ungt fólk í vanvirkni og veitum því þann stuðning sem það þarf til að komast aftur í virkni.

Hugtakið sem notað er yfir hópinn er NEET (e. Not in Education, Employment or Training) og er þetta hópur sem ráðamenn um alla Evrópu hafa haft vaxandi áhyggjur af. Árið 2023 var hlutfall einstaklinga á aldrinum 15-29 ára í hópnum yfir 11% í Evrópusambandinu. Á Íslandi var hlutfallið 6,3% hjá einstaklingum á aldrinum 16–24 ára árið 2022, samkvæmt Hagstofunni. Ástæður þess að einstaklingarnir eru í vanvirkni eru ólíkar. Sum ungmenni hafa flosnað úr skóla eða glímt við námserfiðleika, önnur glíma við andlega vanheilsu, veikindi eða félagslega erfiðleika sem gera þeim erfitt fyrir að hefja eða halda vinnu.

Afleiðingarnar vanvirkni eru miklar bæði fyrir einstaklingana sjálfa og samfélagið. Ungt fólk í vanvirkni byggir ekki upp reynslu, færni eða tengslanet í gegnum nám eða vinnu. Sjálfstraust og félagsfærni einstaklinga í vanvirkni minnkar og hættan á félagslegri einangrun, fátækt og vanlíðan eykst. Fyrir samfélagið getur vanvirkni ungs fólks falið í sér mannauðstap, leitt til lækkunar á framleiðni þjóðarinnar og aukið kostnað við velferðarkerfið. Það er því ljóst að mikilvægt er að auka stuðning við ungmenni sem detta úr virkni.

Við þurfum að stíga stærri skref

Við í Framsókn teljum að Reykjavíkurborg þurfi að stíga stærri skref til að mæta þessum hópi ungs fólks. Á fundi borgarstjórnar í dag leggjum við til að velferðarsviði verði falið, í samstarfi við menningar- og íþróttasvið og skóla- og frístundasvið, að útfæra aðgerðir til að að auka virkni og stuðning við einstaklinga á aldrinum 16-29 ára sem eru ekki í námi, vinnu eða virkni.

Við leggjum einnig til að borgin útfæri farsældarsamninga við foreldra eða forsjáraðila barna sem ljúka grunnskóla, með það að markmiði að auka samstarf borgarinnar við framhaldsskóla og bregðast við brottfalli úr framhaldsskólum. Það gerir það að verkum að framhaldsskólinn og sveitarfélagið geta átt í nánari samstarfi og hægt er að bregðast strax við merkjum um að einstaklingur sé að flosna upp úr námi. Slíkir samningar hafa gefist vel í öðrum sveitarfélögum eins og Árborg.

Reynslan sýnir okkur að með réttri nálgun og samstilltum aðgerðum má ná árangri með hópum sem falla á milli skips og bryggju í hefðbundinni velferðarþjónustu. Með því að grípa inn í með snemmtækri íhlutun, samþættingu á þjónustu og einstaklingsmiðuðum stuðningi getum við hjálpað ungu fólki að finna sína leið og komast í nám, vinnu eða aðra virkni.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Að hafa trú á sam­fé­laginu

Deila grein

21/10/2025

Að hafa trú á sam­fé­laginu

Við í sveitarfélaginu Norðurþingi stöndum frammi fyrir miklum áskorunum. Rekstrarstöðvun PCC Bakki Silicon hefur djúpstæð áhrif á samfélagið okkar – á atvinnulífið, tekjur sveitarfélagsins og trú fólks á framtíðina. Nú þarf bjartsýni, seiglu og aðgerðir sem skapa framtíðina. En sykurhúðum ekki stöðuna. Kringum 200-250 störf tapast beint og óbeint. Það er líkt og 4000 einstaklingar í Reykjavík. Tekjur sveitarfélagsins lækka um nærri 900 milljónum króna á ári, þar af tekjur Hafnasjóðs um 70% eða 300-350 milljónir. Slíkt tekjufall hefur áhrif. Við stöndum samt keik, tökum höggið og svörum með lausnum, ekki uppgjöf.

Bjartsýni og orka

Samfélagið hefur saman farið í gegnum áföll og breytingar og endurbyggt. Við eigum grunninn og innviðina, kraftinn og reynsluna. Við eigum framtíðina ef við nýtum tækifærin sem nú blasa við. Á Bakka er eitt best staðsetta og búna iðnaðarsvæði á Íslandi. Orka. Heitt vatn. Höfn. Og tækifæri til að bæta í fyrir fjölbreyttari starfsemi. Það staðfestir nýútkomin skýrsla ríkisvaldsins. Auk þess menntað fólk og sterka samfélagsvitun. Já, það mun reyna á samstöðuna, viljann og þrautseigjuna. Tækifærið er nú til nýrrar atvinnuuppbyggingar. Við ætlum að vera í fararbroddi í þeirri vinnu. Bjartsýn. Við ætlum að sækja fram. Iðnaður, orkutækni, nýting samgönguinnviða eins og höfn og þá flugvöll til nýrrar starfsemi sem mun skapa tekjur fyrir þjóðarbúið. Að tryggja að hver króna sem fer í uppbygginguna nýtist svæðinu. Höfum þess vegna trú á samfélaginu okkar og stóru myndinni. Samhliða þessu þurfum við að treysta atvinnustarfsemi sem fyrir er og bjóða fyrirtæki, frumkvöðla og nýtt fólk velkomið í verkefnið. Að vera hluti af framtíðinni í okkar sveitarfélagi. Þegar við stöndum saman verður ekkert fjall of hátt eða áskorun of stór.

Hreyfiafl til framfara

Sveitarstjórn mun nota næstu mánuði til að þrýsta áfram á ríkisvaldið og alla haghafa um fjárfestingar og stuðning til nýrra verkefna, tryggja áframhaldandi starfsemi og tekjuöryggi og laða að ný fyrirtæki á Bakka og víðar í sveitarfélaginu. Við munum upplýsa íbúa og vinna í sameiningu að framtíðinni. Því framtíð sveitarfélagsins byggir ekki á því sem við höfum misst heldur því sem við ætlum að byggja upp saman. Bjartsýni og jákvæðni eru þar hreyfiafl til framfara. Höfum trú á samfélaginu okkar, áfallið verður að tækifæri fyrir okkur sjálf, sem hér búum. Við ætlum að halda áfram að byggja upp.

Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Tækifærin liggja í að efla Ísland

Deila grein

21/10/2025

Tækifærin liggja í að efla Ísland

Evrópa hefur sýnt mikla seiglu í gegnum áföll síðustu ára, þ.e. frá heimsfaraldrinum til orkuskortsins sem fylgdi innrás Rússlands í Úkraínu. Engu að síður dregur nýjasta skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um álfuna (e. Regional Economic Outlook: Europe) upp dökka mynd. Evrópa virðist vera að sigla inn í tímabil lítils hagvaxtar og stöðnunar. Stjórnvöld um alla Evrópu átta sig á vandanum en hafa ekki náð að grípa til aðgerða sem gætu snúið þessari þróun við.

Skýrsla AGS gagnrýnir þann hægagang sem virðist vera ráðandi. Viðskiptaerjur við Bandaríkin, styrking evrunnar og viðvarandi pólitísk óvissa hafa dregið úr útflutningi og fjárfestingum. Þrátt fyrir að vaxtalækkanir og aukin ríkisútgjöld ættu að örva eftirspurn atvinnulífsins hefur hagvöxtur ekki tekið við sér. Framleiðni efnahagskerfisins er stöðnuð og Evrópa heldur áfram að dragast aftur úr Bandaríkjunum.

Aðgerðaleysi er rót vandans og er ekki best geymda leyndarmálið í Brussel. Viljann til verka virðist skorta til að efla samkeppnishæfni. Atriði sem nefnd hafa verið í þessu samhengi eru kerfisumbætur á fjármálamarkaði og aukinn hreyfanleiki vinnuafls. Ásamt því að draga úr íþyngjandi og flóknu regluverki. Evrópusambandinu hefur ekki tekist að hrinda þessu í framkvæmd og því hefur framleiðnin dregist saman.

Efnahagslegar afleiðingar þessa stefnuleysis eru augljósar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að skuldabyrði Evrópuríkja geti hækkað í allt að 130 prósent af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2040, ef hagvöxtur tekur ekki við sér. Á sama tíma er mikill útgjaldaþrýstingur á ríkisfjármál ESB-ríkja, sem er tilkominn vegna öldrunar samfélaga og kallar á aukin útgjöld til heilbrigðis- og lífeyrismála. Einnig hafa útgjöld til varnarmála og loftslagsaðgerða vaxið mikið. Án aukinnar framleiðni munu tekjur hins opinbera einfaldlega ekki standa undir nýjum skuldbindingum.

Það eru hagsmunir Íslands að Evrópa standi traustum fótum efnahagslega. Ef Evrópa stendur veikt, þá minnkar það möguleika Íslands til útflutnings á matvælum og þjónustu.

Þess vegna er mikilvægt að ráðist verði í langtíma kerfisumbætur og einföldun regluverks. Evrópusambandið þarf að ráðast í miklar kerfisbreytingar. Ísland á ekki að sækja um aðild að Evrópusambandinu þegar staðan er með þessum hætti.

Undirstaða tækniframfara og atvinnusköpunar er hagvöxtur. Ísland á að bæta sína eigin samkeppnisstöðu með því að efla nýsköpun, bæta framleiðni og treysta undirstöður hagkerfisins. Þannig getum við tryggt áframhaldandi vöxt og stöðugleika, óháð því hvernig vindar blása á meginlandinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. október 2025.