Categories
Greinar

Hamingjuóskir til Háskólans á Akureyri

Deila grein

13/10/2022

Hamingjuóskir til Háskólans á Akureyri

Mikilvægri vörðu á langri leið háskólans á Akureyri til framtíðar hefur nú verið náð. Það er nokkuð víst að Háskólinn á Akureyri er rétt að byrja sína sókn. Frá stofnun hefur vöxtur háskólans verið hraður. Við höfum fengið að fylgjast með Háskólanum á Akureyri verða að einni helstu mennta- og rannsóknarstofnun landsins sem sýnt hefur fram á hvernig hægt er vaxa í síbreytilegum tækniheimi. Námsframboð hefur aukist jafnt og þétt og nám hefur eflst svo um munar. Nemendafjöldi Háskólans á Akureyri hefur aukist á ári hverju, en það er ekki skrýtið þar sem háskólinn hefur fengið viðurkenningu frá fræðasamsamfélaginu sem og nemum fyrir gæði og þjónustu. Auk þess er Háskólinn á Akureyri brautryðjandi í nýtingu fjarnáms hér á landi og hefur verið fyrirmynd fyrir aðra háskóla og opnað margar dyr fyrir fólk víðsvegar af landinu.

Merkur áfangi

Árið 2009 hófst formlegur undirbúningur á viðurkenningu doktorsnáms við Háskólann á Akureyri og síðan þá hefur það verið eitt af meginmarkmiðum skólans. Undanfarin ár hefur skólinn haft það í stefnu sinni að efla núverandi námsumhverfi, styrkja innviði og auka vægi rannsókna. Nú hefur þessu markmiði verið náð þar sem fyrsta doktorsvörnin fór fram við Háskólann á Akureyri þann 11. október sl. Þar varði Karen Birna Þorvaldsdóttir doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum og má með sanni segja að vörnin hafi ekki aðeins verið merkur áfangi fyrir Karenu Birnu heldur einnig fyrir Háskólann á Akureyri. Þá berast fréttir af því að fyrirhugaðar eru í nánustu framtíð enn fleiri doktorsvarnir. Við vitum öll hversu mikilvægt það er fyrir samfélagið allt að hafa háskóla í þessum gæðaflokki. Mennt er máttur sem sannarlega eflir samfélagið og það er óumdeildur ábati af því að öflugir háskólar séu til staðar þvert yfir landið.

Bættari byggð

Háskólinn á Akureyri er án efa ein öflugasta byggðaaðgerð sem ráðist hefur verið í hér á landi og hefur margsinnis sannað gildi sitt. Mikilvægi háskólans fyrir sitt nærumhverfi er óumdeilt og við erum heppin að hafa svo framsækinn háskóla til staðar í samfélaginu okkar. Þegar einstaklingar geta sótt það nám sem þeir vilja, innan síns sveitarfélags eða í nærliggjandi sveitarfélagi, skiptir það sköpum í byggðamálum. Þannig á það að vera og þannig ætlum við að halda því. Háskólinn á Akureyri dregur einnig að sér nýtt fólk hingað norður sem kemur með nýjar hugsanir og ferska vinda. Þannig vaxa og dafna samfélög.

Til hamingju!

Að endingu vil ég óska Karen Birnu Þorvaldsdóttur innilega til hamingju með doktorsvörnina og starfsfólki Háskólans á Akureyri einnig með þennan merka áfanga. Framtíð Háskólans á Akureyri er svo sannarlega björt.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 13. október 2022.

Categories
Greinar

Eitt mesta upp­byggingar­skeið seinni tíma er hafið í Hafnar­firði

Deila grein

12/10/2022

Eitt mesta upp­byggingar­skeið seinni tíma er hafið í Hafnar­firði

Fyrir kosningarnar í vor var mörgum tíðrætt um þá fólksfækkun sem hafði orðið í Hafnarfirði á Covid tímum. Þá fækkaði íbúum og að hluta mátti rekja það til erlendra verkamanna sem fengu ekki vinnu og þurftu að flytja frá bænum. Á þau sjónarmið var ekki hlustað og meirihlutanum kennt um þessa fólksfækkun. Staðan í dag er sú að íbúum Hafnarfjarðar hefur fjölgað um 2,2% frá 1. desember 2021 til 1. september 2022. Langmesta fjölgun íbúða í byggingu á landinu er í Hafnarfirði en þar hefur íbúðum í byggingu fjölgað um 559 frá því í mars eða um 69% aukning. Eitt mesta uppbyggingarskeið seinni tíma er hafið.

Á fundi bæjarráðs í september var samþykkt að hefja úthlutun lóða í nýjasta hverfi bæjarins, Áslandi 4. Þar verða einbýli í bland við lítil fjölbýli, parhús og raðhús. Ásland 4 verður eitt fallegasta íbúðarhverfi höfuðborgarsvæðisins. Framundan er svo uppbygging á Óseyrarsvæðinu, í miðbænum og Hraun vestur.

Carbfix, Tækniskólinn og Krýsuvík

Samhliða þessari miklu uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og þeirra innviða sem fylgir því eru fjölmörg spennandi verkefni framundan. Búið er að setja verkefnastjórn um Tækniskólann. Viljayfirlýsing um komu hans til Hafnarfjarðar var undirrituð á síðasta kjörtímabili og er vinna hafin við undirbúning. Carbfix verkefnið er ákaflega spennandi umhverfisverkefni sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar styður heilshugar. Fyrsti áfangi þessa verkefnis verður komin til framkvæmda árið 2026 og full starfsemi árið 2032 miðað við verkáætlun. Eins má nefna að bæjarstjórn Hafnarfjarðar stendur heilshugar á bakvið það að byrjað verði að nýta orku og heitt vatn á Krýsuvíkursvæðinu og uppbyggingu auðlindagarðs á því svæði. Það verkefni er að fara af stað.

Kæru bæjarbúar, takk fyrir stuðninginn

Í sveitarstjórnarkosningunum í vor vann Framsókn í Hafnarfirði góðan sigur. Við fórum úr einum bæjarfulltrúa í tvo og í sögulegu samhengi er það mikill sigur fyrir flokkinn hér í Hafnarfirði. Framsókn var í meirihluta í bæjarstjórn kjörtímabilið 2018 – 2022 og svo aftur núna.

Ég vil þakka bæjarbúum fyrir þennan mikla stuðning.

Við í Framsókn ætlum að vinna áfram vel fyrir Hafnarfjörð og Hafnfirðinga. Við hlökkum til samstarfsins á kjörtímabilinu sem nú er farið af stað.

Valdimar Víðisson

Höfundur er formaður bæjarráðs í Hafnarfirði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. október 2022.

Categories
Greinar

Geðheilbrigði: Orð eru til alls fyrst

Deila grein

07/10/2022

Geðheilbrigði: Orð eru til alls fyrst

Á örfáum áratugum hefur samfélagið borið gæfu til þess að lyfta geðheilbrigðismálum ofar og ofar í forgangsröðuninni. Þar er enginn hópur undanskilinn; allt frá börnum til eldri borgara og allt litrófið þar á milli. Ríkisstjórnin hefur skilgreint geðheilbrigði í víðum skilningi sem eitt af sínum forgangsmálum og þingsályktun um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi þann 15. júní með öllum greiddum atkvæðum.

Leikáætlun er nauðsynleg

En hvaða þýðingu hefur geðheilbrigðisstefna til ársins 2030? Stefnan tekur mið af ályktunum Alþingis um heilbrigðisstefnu og lýðheilsustefnu og er í henni lögð áhersla á grunngildi sem hvetja til einstaklingsmiðaðrar heilbrigðisþjónustu og stuðning við heilsueflingu á öllum æviskeiðum. Eins og segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þá eru það sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, efnahagslegir og félagslegir, að lögð sé aukin áhersla á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál. Þannig getum við horft á heilbrigði þjóðarinnar í víðu samhengi.

Heilbrigðiskerfið er komið með leiðarvísi og skýrt umboð Alþingis til að setja geðheilbrigði á oddinn. Verkefnið er krefjandi og áskoranirnar margar en með réttar áherslur og forgangsröðun færumst við áfram veginn og treystum hag geðheilbrigðisþjónustu um land allt.

Til að hrinda stefnunni í framkvæmd verða gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu hagsmunaaðila.

Fjórþætt nálgun

Fyrsti áhersluþátturinn lýtur að geðrækt, forvörnum og mikilvægi heildrænnar heilsueflingar sem beinist að grundvallarþáttum vellíðunar og áhrifaþáttum geðheilbrigðis með áherslu á mikilvægi þess að hlúa að geðheilsunni alla ævi.

Annar áhersluþátturinn lýtur að því að heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggist á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð og endurhæfingu. Geðheilbrigðisþjónustan verði veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi milli hlutaðeigandi þjónustuveitendenda.

Þriðji áhersluþátturinn lýtur að notendasamráði og notendamiðaðri þjónustu á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu. Slíkt samtal þarf að leiða til þess að geðheilbrigðisþjónusta á Íslandi verði í vaxandi mæli notendamiðuð og áhersla sé þar með lögð á valdeflingu notenda.

Fjórði áhersluþátturinn lýtur að nýsköpun, vísindum og þróun og bættu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.

Framfarir í geðheilbrigðisþjónustu

Töluverðar framfarir hafa orðið á undanförnum árum. Sérstaklega er varðar upplýsta umræðu. Landspítali og starfsemi tengd honum hefur þar verið leiðandi og þjónusta hans er í stöðugri þróun. Þá hafa ýmis félagasamtök átt stóran þátt í uppbyggilegri, fordómalausri og lausnamiðaðri umræðu. En eins og nýleg skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu bendir réttilega á þá eru ennþá grá svæði í þjónustunni og sérstaklega þegar farið er út fyrir veggi þjóðarsjúkrahússins, út í samfélagið og út á landsbyggðina.

Undanfarið hafa verið byggð upp þverfagleg geðheilsuteymi heilsugæslunnar víða um landið sem veita aukna geðþjónustu í samfélaginu. Einnig hafa verið stofnuð sérhæfðari geðteymi á borð við geðheilsuteymi fangelsa og geðheilsuteymi fjölskylduvernd. En það þarf að halda áfram að efla geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu og eyða kerfisbundið út gráu svæðunum.

Áherslan á aukna samfellu þjónustunnar og samvinnu milli þjónustustiga og úrræða innan heilbrigðiskerfisins og annarrar velferðarþjónustu. Þá þarf sérstaklega að huga að því að tryggja fullnægjandi mönnun í samræmi við þjónustuþörf á hverju þjónustustigi. Að lokum þarf að tryggja aukið samtal og samræmt upplýsingaflæði á viðeigandi hátt milli mismunandi þjónustuaðila. Kallar það á vinnu þvert á ráðuneyti og stofnanir.

Orð eru til alls fyrst

Opin og fordómalaus umræða um geðheilbrigðismál hefur komið okkur sem samfélagi á betri stað. Umræðan þroskast og þekking eykst. Stefnur eru skrifaðar og síðan er komið að aðgerðum. Við þekkjum öll að þegar lagt er af stað í vegferð umbóta þá fyrst koma raunverulegir brestir kerfisins í ljós. Aðgerðaráætlunin til 2030 mun því leggja áherslu á að ryðja markvisst úr vegi þeim hindrunum sem standa í vegi fyrir framförum í málaflokknum og styðja við umbætur, samvinnu og jafnræði.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. október 2022.

Categories
Greinar

95% samanborið við 57%

Deila grein

06/10/2022

95% samanborið við 57%

End­ur­reisn ferðaþjón­ust­unn­ar á Íslandi hef­ur tek­ist vel eft­ir áföll heims­far­ald­urs­ins. Þannig hef­ur ferðaþjón­usta á Íslandi náð 95% af fyrri styrk frá því fyr­ir heims­far­ald­ur sam­an­borið við 57% þegar horft er á ferðaþjón­ustu á heimsvísu sam­kvæmt töl­um frá Alþjóðaferðamála­stofn­un­inni, einni af und­ir­stofn­un­um Sam­einuðu þjóðanna. Þetta eru áhuga­verðar töl­ur sem við get­um verið stolt af.

Gott gengi ferðaþjón­ust­unn­ar skipt­ir miklu máli en hún er sú at­vinnu­grein sem skap­ar mest­an er­lend­an gjald­eyri fyr­ir þjóðarbúið. Þrótt­mik­ill vöxt­ur grein­ar­inn­ar und­an­geng­inn ára­tug hef­ur átt stór­an þátt í að gera Seðlabank­an­um kleift að byggja upp öfl­ug­an og óskuld­sett­an gjald­eyr­is­vara­forða sem veg­ur nú um 30% af lands­fram­leiðslu miðað við um 5% af lands­fram­leiðslu á ár­un­um fyr­ir fjár­mála­áfallið 2008. Þessi sterka staða eyk­ur sjálf­stæði og getu pen­inga­stefn­unn­ar ásamt því að gera stjórn­völd­um kleift að stunda mark­viss­ari og skil­virk­ari efna­hags­stjórn, bregðast ör­ugg­lega við efna­hags­leg­um áföll­um og stuðla að stöðug­leika fyr­ir heim­ili og fyr­ir­tæki í land­inu.

Þessi kröft­uga viðspyrna ferðaþjón­ust­unn­ar á ár­inu ger­ist ekki af sjálfu sér. For­senda henn­ar er mik­il út­sjón­ar­semi og þraut­seigja ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tækj­anna og starfs­fólks þeirra í góðu sam­starfi við stjórn­völd í gegn­um heims­far­ald­ur­inn. Tím­inn var vel nýtt­ur þar sem stjórn­völd lögðu áherslu á að styðja við fólk og fyr­ir­tæki í gegn­um far­ald­ur­inn. Þannig náðist að verja mik­il­væga þekk­ingu fyr­ir­tækj­anna og þá innviði sem nauðsyn­leg­ir eru til að taka á móti fjölda ferðamanna á ný. Að sama skapi var aukið veru­lega við fjár­fest­ing­ar í innviðum, bæði í sam­göng­um og á ferðamanna­stöðum, svo þeir yrðu bet­ur í stakk bún­ir til að taka á móti fleiri gest­um á ný. Auk­in­held­ur ákvað rík­is­stjórn­in að verja háum fjár­hæðum í markaðssetn­ingu á Íslandi sem áfangastað, með markaðsverk­efn­inu „Sam­an í sókn“ í gegn­um all­an far­ald­ur­inn, þrátt fyr­ir litla eft­ir­spurn eft­ir ferðalög­um á þeim tíma. Eitt af fyrstu verk­um mín­um sem ferðamálaráðherra var að setja 550 m.kr. í aukna markaðssetn­ingu til að skapa fleiri tæki­færi fyr­ir ís­lenska ferðaþjón­ustu um allt land, en mæl­ing­ar á lyk­il­mörkuðum hafa aldrei sýnt jafn rík­an vilja til að ferðast til Íslands og nú.

Við lif­um á tím­um þar sem ýms­ar stór­ar og krefj­andi áskor­an­ir blasa við okk­ur í heims­mál­un­um. Það hef­ur því aldrei verið jafn mik­il­vægt og nú að vera á vakt­inni og gæta að ís­lensk­um hags­mun­um í hví­vetna og tryggja áfram­hald­andi lífs­kjara­sókn á grund­velli öfl­ugs at­vinnu­lífs til framtíðar.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 6. október 2022.

Categories
Greinar

Skrifum söguna áfram á íslensku

Deila grein

06/10/2022

Skrifum söguna áfram á íslensku

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir: „Heyr­an­leiki og sýni­leiki ís­lensk­unn­ar er grund­völl­ur­inn að því að við sem hér búum og gest­ir sem koma kynn­ist ís­lensku sam­fé­lagi á for­send­um ís­lensk­unn­ar.“

„Ef ís­lensk­an hverf­ur tap­ast þekk­ing og við hætt­um að vera þjóð.“ Þessi orð frú Vig­dís­ar Finn­boga­dótt­ur, fv. for­seti Íslands, eru orð að sönnu og eiga er­indi við okk­ar sam­fé­lag. Í vik­unni fór fram mál­rækt­arþing Íslenskr­ar mál­nefnd­ar í Þjóðminja­safni Íslands þar sem áskor­an­ir tungu­máls­ins okk­ar voru rædd­ar. Íslensk tunga stend­ur á kross­göt­um móts við bjarta framtíð eða menn­ing­ar­legt stór­tjón ef ekki er staðið vel að mál­efn­um henn­ar. Íslensk­an stend­ur frammi fyr­ir tækni­breyt­ing­um og sam­fé­lags­breyt­ing­um. Í stað aft­ur­halds­semi er nú nauðsyn­legt fyr­ir ís­lenska tungu að stand­ast tím­ans tönn með því að aðlag­ast með þjóðinni og nýj­um mál­höf­um að fjöl­breyttu heims­sam­fé­lagi. Fjöl­menn­ing­ar­legt sam­fé­lag, sta­f­ræn bylt­ing og kröf­ur íbúa lands­ins til tungu­máls­ins og þeirr­ar þjón­ustu sem hægt er að fá á ís­lensku þurfa að vera leiðarljós stjórn­valda við stefnu­mót­un og aðgerðir í þágu ís­lensk­unn­ar á næstu árum.

Aðgerðir stjórn­valda

Margt hef­ur áunn­ist á síðastliðnum árum þökk sé meðal ann­ars þings­álykt­un um að efla ís­lensku sem op­in­bert mál á Íslandi sem samþykkt á Alþingi í júní 2019 og aðgerðaáætl­un sem henni fylgdi. Meg­in­mark­mið henn­ar var að ís­lenska væri notuð á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins, ís­lensku­kennsla og mennt­un yrði efld á öll­um skóla­stig­um og að framtíð ís­lenskr­ar tungu í sta­f­ræn­um heimi yrði tryggð. Auk­in­held­ur hef­ur fjár­mun­um verið for­gangsraðað í að styðja skap­andi grein­ar þar sem ís­lenska er aðal­verk­færið. Þannig var til að mynda ís­lensk bóka­út­gáfa efld með stuðnings­kerfi fyr­ir ís­lenska bóka­út­gáfu sem fel­ur í sér end­ur­greiðslu allt að 25% út­gáfu­kostnaðar ís­lenskra bóka. Árang­ur­inn hef­ur verið frá­bær og fjöldi út­gef­inna bóka á ís­lensku auk­ist mjög. Þá var svipuðu kerfi komið á til þess að styðja við einka­rekna fjöl­miðla sem gegna mik­il­vægu hlut­verki í að miðla efni á ís­lensku.

Vinna við nýja þings­álykt­un­ar­til­lögu 2023-2025

Stjórn­völd ætla sér áfram­hald­andi stóra hluti í mál­efn­um ís­lensk­unn­ar. Ráðgert er að leggja fram þings­álykt­un­ar­til­lögu um aðgerðir í þágu ís­lenskr­ar tungu fyr­ir árin 2023-2025 á næsta vorþing og á næstu miss­er­um verða áhersl­urn­ar þrenns kon­ar:

Aukið aðgengi að ís­lensku í at­vinnu­líf­inu

Á árs­fundi at­vinnu­lífs­ins í vik­unni kom for­sæt­is­ráðherra inn á mik­il­vægi tungu­máls­ins fyr­ir er­lent starfs­fólk til þess að kom­ast inn í sam­fé­lagið. Því er ég sam­mála en auka þarf aðgengi að ís­lensku fyr­ir þá sem þurfa á því að halda í at­vinnu­líf­inu. Íslensk­an er fyr­ir alla óháð aðstæðum þeirra sem kjósa að setj­ast hér að. Ísland er fjöl­menn­ing­ar­legt sam­fé­lag og með auknu aðgengi að ís­lensku­námi fjölg­um við tæki­fær­um fólks og verðum sterk­ari sem heild. Þetta snýr að vel­sæld þeirra sem hér kjósa að búa og það er rík­ur vilji hjá stjórn­völd­um að efla sam­vinnu um mark­viss­ar aðgerðir og virkja fleiri til þátt­töku, hvort sem það er í menn­ing­ar-, fé­lag-, at­vinnu- eða mennta­mál­um eða at­vinnu­líf­inu. Ég tel til að mynda að stjórn­völd og at­vinnu­líf geti náð mikl­um ár­angri með því að vinna sam­eig­in­lega að búa svo um hnút­anna að er­lent starfs­fólk geti sótt ís­lensku­kennslu á vinnu­tíma. Það er ein­beitt­ur vilji okk­ar að hafa ís­lensk­una í for­grunni og auki aðgengi allra að henni. Umræðan á heima hjá okk­ur öll­um því að hún er menn­ing­ar­leg og sam­fé­lags­leg ábyrgð okk­ar allra.

Fyrsta sæti í al­manna­rými

Íslensk­an þarf að vera í fyrsta sæti í al­manna­rými. Heyr­an­leiki og sýni­leiki ís­lensk­unn­ar er grund­völl­ur­inn að því að við sem hér búum og gest­ir sem koma kynn­ist ís­lensku sam­fé­lagi á for­send­um ís­lensk­unn­ar. Íslensk­an þarf því að heyr­ast og sjást fyrst áður en við tök­um upp önn­ur tungu­mál til að skilja hvort annað. Afla þarf upp­lýs­inga um viðhorf al­menn­ings til tungu­máls­ins og annarra mála. Áætlað er að taka ár­lega stöðu ís­lensk­unn­ar og bregðast við, í sam­ráði við ís­lenska mál­nefnd. Íslensk­an á líka sinn eig­in dag, Dag ís­lenskr­ar tungu, 16. nóv­em­ber næst­kom­andi. Farið verður í aukna vit­und­ar­vakn­ingu á mál­efn­um ís­lensk­unn­ar á þeim degi og í kring­um hann. Heil vika verður til­einkuð ís­lensk­unni í nóv­em­ber.

Mál­tækni er framtíðin

Síðast en ekki síst, er það hjart­ans mál að við get­um talað við tæk­in okk­ar á ís­lensku. Und­an­far­in ári hafa stjórn­völd ásamt at­vinnu­líf­inu fjár­fest ríku­lega í mál­tækni sem mun gera fólki kleift að tala við tæki á ís­lensku. Þess­ar aðgerðir geta veitt öðrum þjóðum og litl­um málsvæðum inn­blást­ur hvernig sækja megi fram fyr­ir tungu­málið í sta­f­ræn­um heimi. Nú þegar innviðaupp­bygg­ingu í mál­tækni er lokið og við höf­um gagna­grunna, mál­heild­ir, radd­sýni, upp­tök­ur og orðasöfn sem nýt­ast fyr­ir­tækj­um og stofn­un­um í því að taka af skarið og nýta sér tól­in í sínu starfs­um­hverfi, al­menn­ingi og ís­lensk­unni til hags­bóta. Aðeins örfá dæmi um hag­nýt­ingu þess­ara mál­tækni­lausa eru raun­tíma­textun sjón­varps­efn­is, þýðing­ar­vél­ar á milli ís­lensku og ensku eða tal­gervilsradd­ir fyr­ir blinda og sjónskerta.

Við ætl­um að sækja fram og styrkja stöðu ís­lensk­unn­ar til framtíðar, því ef við ger­um það ekki, ger­ir það eng­inn fyr­ir okk­ur. Stönd­um því sam­an í því að halda ís­lensk­unni á lofti fyr­ir okk­ur og kom­andi kyn­slóðir – og tryggj­um þannig að saga þjóðar okk­ar verði áfram skrifuð á ís­lensku.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 1. október 2022.

Categories
Fréttir Greinar

Verk­lag í kjöl­far náttúru­ham­fara

Deila grein

30/09/2022

Verk­lag í kjöl­far náttúru­ham­fara

Áskoranir hafa alla tíð fylgt sambúð við náttúruöflin á Íslandi og um nýliðna helgi glímdu landsmenn sannarlega við þau. Illviðri gekk yfir, mikill vindstyrkur sem sumstaðar fylgdi mikil úrkoma og há sjávarstaða. Þetta leiddi til margs konar tjóns s.s. skriðufalla á Vestfjörðum, flóða á Akureyri, skemmda á uppskeru og gríðarlegs foktjóns. Austfirðir urðu hvað verst úti enda náði vindstyrkur þar ótrúlega víða viðmiðum fárviðris. Þegar verðrið stóð sem hæst varð auk þess rafmagnslaust á nálægt helmingi landsins, með tilheyrandi óöryggi, beinu og óbeinu tjóni.

Við getum þakkað fyrir að ekki varð manntjón um liðna helgi. Veðurspár, veðurviðvaranir, lokanir vega og vinna viðbragðsaðila komu í veg fyrir að enn meira tjón hlytist af og fyrir það ber að þakka. Viðbrögð og þrotlaus vinna björgunarsveita og annarra viðbragðsaðila skiptu sköpum á meðan á veðrinu stóð. Starfsmenn sveitarfélaga brugðust einnig við með fjölbreyttum hætti og mikið mun mæða á sveitarfélögum við hreinsunarstarf næstu daga og vikur.

Á síðustu árum hefur verið farið í margvíslegar aðgerðir til að verjast náttúruhamförum og koma á samtryggingu vegna slíkra tjóna. Forvarnir eins og vöktun, spár, lokanir, varnarmannvirki og uppkaup mannvirkja eru dæmi um slíkt. Náttúruhamfaratrygging Íslands gegnir svo lykilhlutverki í tryggingavernd auk þess sem verklag stjórnvalda í viðbrögðum og úrvinnslu er í stöðugri þróun. Þá spila lögboðnar og valfrjálsar tryggingar sem keyptar eru af tryggingarfélögum inn í verndina.

Orðið náttúruhamfarir samkvæmt lögum hefur ekki endilega sömu merkingu og í daglegu tali. Náttúruhamfaratrygging Íslands bætir þannig tjón á eignum af völdum jarðskjálfta, eldgosa, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða en ekki foktjón. Húseignir á Íslandi eru vátryggðar, en innbú og lausafé er það aðeins ef það er brunatryggt hjá sjálfstæðu tryggingarfélögunum. Staða atvinnurekanda er mun óljósari bæði hvað varðar lausamuni og framleiðslutjón og sérstaklega þarf að skoða stöðu bænda en 2009 urðu breytingar á Bjargráðasjóði sem veiktu stöðu þeirra.

Verkefni tengd náttúruhamförum falla undir starfsvið margra ráðuneyta t.d. umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, matvælaráðuneytis, innviðaráðuneytis, auk þess sem fleiri ráðuneyti geta komið að málum. Ítrekað hefur verið gagnrýnt að yfirsýn og ábyrgð á samræmi og samhæfingu verkefna tengdri náttúruvá sé óljós.

Tillaga um heildarúttekt á tryggingarvernd

Í kjölfar óveðursins í desember 2019 var ráðist í afar umfangsmiklar aðgerðir til að greina og byggja upp áfallaþol samfélagsins alls. Meta þarf það verklag sem notast hefur verið við á síðustu árum við samhæfingu aðgerða og læra af reynslunni til frekari framfara.

Við álítum mikilvægt og tímabært að gera heildarúttekt á verklagi og aðgerðumog leggjum því í þriðja sinn fram þingsályktunartillögu um að gerð verði úttekt á tryggingavernd og úrvinnslu tjóna í kjölfar náttúruhamfara. Meðflutningsmenn koma úr öllum þingflokkum og á síðasta löggjafarþingi bárust 10 umsagnir sem styðja tillöguna og draga fram að fara þarf í aðgerðir sem flýtt geta úrvinnslu eftir tjón, stuðlað að frekara jafnræði og sanngirni og fækkað úrlausnarefnum sem stafa af óljósum reglum.

Samhliða því munum við beita okkur fyrir að samræmi í viðbrögðum við náttúruvá verði bætt og ágallar lagfærðir.

Líneik Anna Sævarsdóttir, Ingibjörg Isaksen og Þórarinn Ingi Pétursson, þingmenn Framsóknar og íbúar í NA kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. september 2022.

Categories
Fréttir Greinar

Ný þjóðar­höll í í­þróttum

Deila grein

29/09/2022

Ný þjóðar­höll í í­þróttum

Við Íslendingar höfum átt öflugt íþróttafólk í gegnum tíðina í mörgum íþróttum sem náð hefur undraverðum árangri undir fána smáþjóðar. Samkeppnin harðnar stöðugt og í dag er ekki lengur nóg að hafa hæfileika og metnað til að komast í fremstu röð. Fyrsta flokks aðstaða til íþróttaiðkunar skiptir einnig höfuðmáli.

Málefni þjóðarleikvanga í íþróttum hafa verið til umræðu um alllangt skeið. Kjarni málsins er að okkar fremsta afreksfólk og landslið hafa ekki aðgang að æfingaraðstöðu eða mannvirkjum sem uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til slíkrar aðstöðu í dag. Núverandi þjóðarleikvangar eru komnir til ára sinna og aðstaðan úrelt. Kröfurnar snúa ekki eingöngu að aðstöðu til íþróttaiðkunar heldur einnig að aðstöðu og aðgengi fyrir fjölmiðla, öryggi og jákvæðri upplifun áhorfenda. Með auknum kröfum vegna alþjóðlegrar keppni er jafnframt hætta á því að heimaleikir íslenskra landsliða, sem nú eru haldnir á undanþágu, geti ekki farið fram hér á landi. Við það verður ekki unað og það er forgangsverkefni að hraða byggingu þjóðarleikvanga í íþróttum eins og kostur er.

Boltinn fer að rúlla

Eitt af mínum fyrstu verkum sem ráðherra íþróttamála var að skipa stýrihóp um undirbúning uppbyggingar þjóðarleikvanga fyrir innanhússíþróttir, knattspyrnu og frjálsíþróttir. Víðtækt samtal átti sér stað við íþróttahreyfinguna og Reykjavíkurborg og er myndin byrjuð að skýrast. Byrjað verður á þjóðarhöll í innanhússíþróttum en undirbúningur fyrir nýja þjóðarleikvanga í knattspyrnu og frjálsíþróttum heldur áfram samhliða.

Þann 6. maí síðastliðinn var undirrituð viljayfirlýsing með forsætisráðherra og borgarstjóra Reykjavíkur um byggingu nýrrar þjóðarhallar fyrir innanhússíþróttir í Laugardalnum. Viljayfirlýsingin er fjórþætt. Í fyrsta lagi að ráðist verði í byggingu Þjóðarhallar í samstarfi ríkis og Reykjavíkurborgar, í annan stað að Þjóðarhöllin verði í Laugardal, í þriðja lagi að skipuð verði framkvæmdanefnd og í fjórða lagi að framkvæmdum ljúki árið 2025.

Framkvæmdanefndin hefur hafið störf og það var ánægjulegt að taka þátt í fyrsta fundi nefndarinnar í ágúst. Mikill hugur, kraftur og jákvæðni var í hópnum. Hún vinnur nú að því að skilgreina mannvirkið, ákvarða rekstrarform og áætla kostnað. Fyrsti fasi verkefnisins er í fullum gangi og samkvæmt áætlun.

Ný þjóðarhöll þarf að rísa hratt og örugglega

Við Íslendingar gerum miklar kröfur til íþróttafólks um afrek og framúrskarandi árangur. Það er eðlilegt að íþróttafólk og hreyfingin öll geri kröfur til stjórnvalda um viðunandi aðstöðu til að hámarka árangur.

Eins vel og Laugardalshöllin hefur þjónað íslensku íþróttalífi er hún barn síns tíma. Með nýrri höll í Laugardalnum verður umgjörð fyrir faglega þætti starfsins, fjölmiðla og áhorfendur eins og best verður á kosið. Við ætlum að klára verkefnið og sjá til þess að afreksíþróttafólk okkar Íslendinga geti notið aðstöðu á heimsmælikvarða.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og ritari Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 29. september 2022.

Categories
Greinar

Menning og ferðaþjónusta um allt land

Deila grein

27/09/2022

Menning og ferðaþjónusta um allt land

Með upp­stokk­un á stjórn­ar­ráði Íslands og til­komu nýs menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is urðu tíma­bær­ar breyt­ing­ar að veru­leika. Í fyrsta sinn heyra þannig menn­ing, ferðaþjón­usta og viðskipti und­ir einn og sama fagráðherr­ann. Mála­flokk­arn­ir eru um­svifa­mikl­ir en tugþúsund­ir starfa við menn­ingu, skap­andi grein­ar og ferðaþjón­ustu sem flétt­ast sam­an með ýmsu móti, auka aðdrátt­ar­afl Íslands og skapa gríðarleg verðmæti fyr­ir þjóðarbúið. Þannig nem­ur heild­ar­um­fang mála­flokka ráðuneyt­is­ins rúm­um 40% af lands­fram­leiðslu.

Það er því nauðsyn­legt að hlúa að þeim með mark­viss­um hætti um allt land í sam­starfi við heima­menn á hverju svæði fyr­ir sig. Í liðinni viku heim­sótti ég Aust­ur­land þar sem ég fundaði með full­trú­um sveit­ar­fé­laga og lands­hluta­sam­tak­anna ásamt for­ystu­fólki í menn­ing­ar­lífi og ferðaþjón­ustu og at­vinnu­lífi á svæðinu.

Heim­sókn­in var frá­bær í alla staði og ómet­an­leg fyr­ir mig sem ráðherra til að fá beint í æð hvernig lands­lagið horf­ir við fólki sem starfar í þess­um grein­um hvað lengst frá Reykja­vík og hvaða tæki­færi eru til þess að styrkja um­gjörð þeirra. Ferðaþjón­ust­an er stærsta sjálfsprottna byggðaaðgerð Íslands­sög­unn­ar en með henni hef­ur skap­ast fjöldi starfa um­hverf­is landið. Grein­in hef­ur átt stór­an þátt í að auka lífs­gæði okk­ar með ríku­legra mann­lífi, ný­stár­legu fram­boði af afþrey­ingu og góðum mat. Til þess að tryggja vöxt henn­ar á lands­byggðunum utan há­ann­ar þurfa stjórn­völd að halda áfram að styrkja um­gjörð henn­ar og stuðla að betri dreif­ingu ferðamanna.

Ákveðinn ár­ang­ur náðist af aðgerðum stjórn­valda í þá veru fyrr á þessu ári þegar þýska flug­fé­lagið Condor til­kynnti beint áætl­un­ar­flug til Eg­ilsstaða og Ak­ur­eyr­ar á næsta ári. Það er eitt já­kvætt skref af nokkr­um sem þarf að taka. Tryggja þarf greiðar vega­sam­göng­ur að helstu nátt­úruperl­um lands­byggðar­inn­ar yfir vetr­ar­tím­ann með nægj­an­legri vetr­arþjón­ustu. Stjórn­völd í sam­starfi við Sam­tök fyr­ir­tækja í ferðaþjón­ustu þurfa að leiða sam­tal við fjár­mála­fyr­ir­tæk­in um aðgengi að láns­fjár­magni í ferðaþjón­ustu utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Skort­ur á slíku aðgengi virðist land­læg­ur vandi, meðal ann­ars hjá rót­grón­um ferðaþjón­ustuaðilum, sem vert er að skoða bet­ur. Halda þarf áfram að byggja upp innviði og gera Ak­ur­eyr­ar- og Eg­ilsstaðaflug­völl bet­ur í stakk búna til að taka á móti alþjóðlegu flugi ásamt því að huga ávallt að því að landið allt sé und­ir í alþjóðlegu markaðsstarfi á Íslandi sem áfangastað. Öflug menn­ing á lands­byggðunum styður við ferðaþjón­ust­una og öf­ugt og þar eru fjöl­mörg tæki­færi sem hægt er að virkja, meðal ann­ars með aukn­um stuðningi í kynn­ingu á söfn­um og menn­ing­ar­stofn­un­um. Hef ég þegar óskað eft­ir að þeirri vinnu verði ýtt úr vör.

Ég er bjart­sýn fyr­ir hönd þess­ara greina og ég hlakka til að vinna með öll­um lands­hlut­um að vexti þeirra.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 27. september 2022.

Categories
Greinar

Tímamót í heilsufarssögu Íslendinga

Deila grein

26/09/2022

Tímamót í heilsufarssögu Íslendinga

Ný Brjóstamiðstöð á Landspítala við Eiríksgötu hefur verið starfandi frá því í apríl á seinasta ári en var með formlegum hætti opnuð af Willum Þór, heilbrigðisráðherra í gær. 

Aðstaðan á Brjóstamiðstöðinni er til fyrirmyndar en þjónustu miðstöðvarinnar er ætlað að ná yfir alla skimun og klíníska brjóstamyndagreiningu, göngudeildarþjónustu tengdra sérgreina, meðferð og eftirlit allra brjóstameina. Miðstöðin mun einnig sinna þjónustu úti á landi og fólki sem er í áhættuhópi á að fá krabbamein vegna stökkbreytinga í genum. Henni er því ætlað að vera miðpunktur í þjónustu við þá sem greinast með mein eða sjúkdóm í brjóstum. 

Grundvallarþáttur við undirbúning og skipulagningu þjónustu brjóstamiðstöðvarinnar var að sameina á einum stað sérfræðinga á sviði krabbameinslækninga, brjóstaskurðlækninga, geislalækninga og lýtalækninga. Brjóstamiðstöðin felur í sér fordæmi og fyrirmynd sem byggt verður á við áframhaldandi þróun göngudeildarþjónustu í starfsemi Landspítala.

Framtíðarsýn miðstöðvarinnar er að gera þeim sem á þurfa að halda auðveldara að leita aðstoðar, að tryggja notendum samfellda og samþætta þjónustu við greiningu brjóstameina. Heildræn lausn fyrir öll vandamál frá brjóstum. Hér er um að ræða afar stórt framfaraskref í þjónustu og raun eru þetta tímamót í heilsufarssögu Íslendinga.

Krabbamein er óboðinn gestur

Að meðaltali greinast um 240 einstaklingar með mein í brjóstum á ári. Konum á Íslandi er boðin reglubundin skimun fyrir krabbameini í brjóstum. Konum á aldrinum 40 til 69 ára er boðin skimun fyrir brjóstakrabbameini á tveggja ára fresti og konum á aldrinum 70 til 74 ára á þriggja ára fresti. Einkennalausar konur 40 til 74 ára geta pantað tíma í skimun fyrir brjóstakrabbameini. Ekki nærri því allar konur þiggja þessi boð og við á Íslandi þurfum að bæta okkur þar. Algengasta krabbamein hjá konum á Íslandi er brjóstakrabbamein og því fyrr sem sjúkdómurinn greinist því betri eru lífslíkurnar. Skipuleg skimun er því afar mikilvæg til þess að finna og greina sjúkdóminn snemma. Við megum heldur ekki gleyma að skoða brjóstin okkar sjálfar, t.d. þegar við undirbúum okkur fyrir daginn eða í sturtunni. Ef við gerum þetta einu sinni til tvisvar í hverjum mánuði er mögulega auðveldara að gera sér grein fyrir breytingum á milli skipta og grípa óboðna gestinn áður en hann fer að valda alvöru ónæði.

Við í Framsókn viljum halda áfram að tryggja að heilbrigðisþjónusta hérlendis verði í fremstu röð. Við viljum leggja áherslu á að gæði heilbrigðisþjónustu sé ávallt eins og best verður á kosið með því að leita hagkvæmra og skilvirkra lausna. Einstaklingsmiðuð þjónusta, teymisvinna og nýsköpun eru lykilatriði í þjónustu nýrrar brjóstamiðstöðvar sem byggir á nútímalegri nálgun við skipulag og veitingu göngudeildarþjónustu. Brjóstamiðstöðin við Eiríksgötu felur í sér fordæmi og fyrirmynd sem hægt verður að byggja á við áframhaldandi þróun göngudeildarþjónustu í starfsemi Landspítala.

Landspítala appið

Önnur tímamót í heilbrigðismálum á Íslandi er smáforrit í boði Landspítala. Smáforritið er enn í þróun en í nokkrum áföngum er verið að innleiða það. Upplýsingar sem finna má í appinu eru t.d. innlagnir/komur, tímabókanir, staða rannsókna o.fl. Upplýsingar sem birtast í smáforritinu og tengjast dvöl þinni á spítalanum eru t.d. upplýsingar um lífsmarkamælingar, lyf, starfsmenn, feril dvalar þinnar og svo framvegis. Nýtt Landspítala smáforrit verður einnig tekið til notkunar á brjóstamiðstöðinni fljótlega og verður það bylting í stafrænni upplýsingagjöf og öllu utanumhaldi fyrir einstaklinga sem þurfa á þjónustunni að halda.

Hér er því sannarlega um að ræða tímamótaskref í heilsufarssögu Íslendinga og berum við öll miklar vonir og væntingar við áframhaldandi velgengni á þessu sviði og öllum öðrum sviðum heilbrigðismála. Með Willum Þór í forsvari heilbrigðismála á Íslandi erum við sannarlega á réttri leið.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. september 2022.

Categories
Greinar

Nám­skeið fyrir for­eldra barna með ADHD

Deila grein

20/09/2022

Nám­skeið fyrir for­eldra barna með ADHD

Fjölmargir einstaklingar glíma við ofvirkni og athyglisbrest, sem oft er kallað ADHD (e. Attention Deficit Hyperactivity Disorder) í daglegu tali. Einkenni ADHD skjóta almennt upp kollinum snemma á æviskeiði einstaklings, þ.e. kringum 7 ára aldur, og getur haft áhrif á alla fasa lífsins t.d. í námi, í vinnu og í félagslegum samskiptum. Rannsóknir sýna að allt að eitt af hverjum tíu börnum glímir við ADHD, sem þýðir að í 20-30 manna kennslutíma eru líklega um 2-3 einstaklingar með ADHD.

Uppeldi barna með ADHD getur reynst frábrugðið uppeldi barna án ADHD. Foreldrar þurfa að aðlaga sig að aðstæðum, upplifunum og einkennum ADHD, sem getur leitt til þess að foreldrar eru óvissir um hvaða skref þeir eigi að stíga næst í uppeldinu. Flestir kynna sér ADHD ítarlega og allt sem hún felur í sér. Það hefur oft gefið góða raun, en foreldrar barna með ADHD eru þó allflestir á sama máli. Þeir vilja læra meira sem getur aðstoðað þá við uppeldið og börnum þeirra við komast gegnum nám og vinnu ásamt því að auka félagslega færni þeirra.

Á síðustu árum hafa verið sett á laggirnar námskeið sem bjóða upp á fræðslu og þjálfun fyrir foreldra barna með ADHD og gerðar hafa verið rannsóknir á gagnsemi þeirra fyrir foreldra og börn. Á þeim námskeiðum sitja foreldrar fyrirlestra, fá lesefni og gera verkefni sem tengjast uppeldi barna með ADHD. Námskeið sem þessi hafa verið talin árangursrík. Foreldrar hafa almennt veitt námskeiðunum jákvæða umsögn þar sem þeir telja námskeiðin hafa hjálpað þeim og börnunum. Rannsakendur og foreldrar töldu námskeiðin hafa haft jákvæð áhrif á námshæfileika og félagslega færni barnanna ásamt því að auka þekkingu og skilning foreldrana á ADHD.

Hér á landi eru mikil tækifæri til staðar með setningu slíkra námskeiða. Einnig er nauðsynlegt að slík námskeið verði aðgengileg öllum foreldrum og/eða forráðamönnum barna með ADHD óháð efnahag, og því er talið að seta á námskeiði eigi að bjóðast þeim að kostnaðarlausu. Við eigum að hafa það að markmiði að einstaklingar með ADHD eigi auðveldara með alla fasa daglegs lífs ásamt því að byggja frekari skilning og þekkingu á ADHD, sem margir Íslendingar, bæði ungir sem aldnir, glíma við í dag.

Á næstu dögum mun undirrituð leggja fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um aukna fræðslu og þjálfun foreldra barna með ADHD. Það er mín von að ályktunin verði samþykkt og ríkisstjórnin hefji strax vinnu að setningu slíkra námskeiða hér á landi, sem standi foreldrum og forráðamönnum barna með ADHD til boða þeim að kostnaðarlausu og með markvissum hætti. Það er mikilvægt að við hugum að því hvernig við ætlum að gefa foreldrum barna með ADHD aukin verkfæri og aukið sjálfstraust til að leiðbeina börnunum í gegnum lífið. Því það að vera með ADHD getur verið ofurkraftur ef við sköpum börnum réttar aðstæður bæði heima og í skólakerfinu.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. september 2022.