Categories
Greinar

Vannýtt tækifæri Menntasjóðs

Deila grein

29/11/2022

Vannýtt tækifæri Menntasjóðs

Und­ir liðnum Störf þings­ins í síðustu viku nýtti ég tæki­færið og ræddi um þann lækna­skort sem við búum við hér á landi miðað við þá heil­brigðisþjón­ustu sem við vilj­um veita. Á kom­andi árum eru áhyggj­ur um að skort­ur­inn verði jafn­vel al­var­legri en sá sem við stönd­um frammi fyr­ir í dag. Mann­ekla á heil­brigðis­stofn­un­um er vanda­mál víða og fólks­fjölg­un og öldrun þjóðar­inn­ar mun, eðli máls­ins sam­kvæmt, krefjast auk­inna um­svifa í heil­brigðis­kerf­inu.

Há­skóli Íslands er eini há­skól­inn á Íslandi sem út­skrif­ar lækna en hann get­ur ein­ung­is tekið inn 60 nema á ári. Sá fjöldi næg­ir hins veg­ar ekki til að bregðast við þeim skorti sem við horf­um fram á. Við bregðumst við, ann­ars veg­ar með því að flytja inn sér­menntað fólk og hins veg­ar með því að tryggja ís­lensk­um náms­mönn­um tæki­færi til lækna­náms og auk­inn­ar sér­hæf­ing­ar. Mik­ill fjöldi ís­lenskra náms­manna held­ur út í nám og meiri­hluti þeirra snýr heim með hald­bæra reynslu og sérþekk­ingu sem sam­fé­lagið nýt­ur góðs af. Íslensk­ir lækna­nem­ar sem stunda nám sitt er­lend­is hafa bent á að þeir fái ekki sama stuðning og þeir sem læra hér á landi. Stór hluti náms­gjalda þeirra þarf að greiðast úr eig­in vasa eða með stuðningi frá öðrum, sem veld­ur því að marg­ir missa af tæki­fær­inu til að ger­ast lækn­ar eða neyðast til að hætta í miðju námi. Ávinn­ing­ur sam­fé­lags­ins af því að styðja bet­ur við lækna­nema er­lend­is er mik­ill.

Sér­tæk­ar aðgerðir mennta­sjóðs

Í mennta­sjóði náms­manna er fjallað um sér­stak­ar íviln­an­ir náms­greina. Í 27. grein lag­anna er ráðherra gert heim­ilt með aug­lýs­ingu að ákveða sér­staka tíma­bundna íviln­un við end­ur­greiðslu náms­lána vegna til­tek­inna náms­greina. Fyr­ir þeim íviln­un­um liggja ákveðin skil­yrði eins og að upp­lýs­ing­ar liggi fyr­ir um viðvar­andi skort í starfs­stétt eða að skort­ur sé fyr­ir­sjá­an­leg­ur og að fyr­ir liggi skýrsla unn­in af stjórn­völd­um í sam­ráði við hlutaðeig­andi at­vinnu­rek­end­ur um mik­il­vægi þess að bregðast við aðstæðum.

Þess­ar aðgerðir hafa ekki verið nýtt­ar. Ráðherra hef­ur ekki nýtt þess­ar heim­ild­ir til þess að koma til móts við grein­ar eða byggðir sem þurfa á sér­tæk­um aðgerðum að halda. Við finn­um helst fyr­ir þessu í heil­brigðis­geir­an­um.

Skort­ur á sér­fræðing­um í sveit­ar­fé­lög­um

Í lög­un­um er einnig fjallað um sér­staka íviln­un vegna náms­greina á sér­stök­um svæðum í 28. grein. Þar er ráðherra heim­ilt með aug­lýs­ingu að ákveða sér­staka tíma­bundna íviln­un við end­ur­greiðslu náms­lána til lánþega sem bú­sett­ir eru á svæðum skil­greind­um í sam­ráði við Byggðastofn­un. Skil­yrði fyr­ir íviln­un­um skv. þessu eru að fyr­ir liggi til­laga frá sveit­ar­fé­lagi eða sveit­ar­fé­lög­um til stjórn­valda um þörf á menntuðu fólki í byggð sinni og að fyr­ir liggi skýrsla unn­in af Byggðastofn­un í sam­ráði við Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga um mik­il­vægi þess að bregðast við aðstæðum. Þá seg­ir enn frem­ur að skil­yrði sé að lánþegi hafi lokið námi og sé bú­sett­ur á skil­greindu svæði og nýti mennt­un sína þar að lág­marki í 50% starfs­hlut­falli í a.m.k. tvö ár.

Það er þörf á sér­fræðimenntuðu fólki í mörg sveit­ar­fé­lög og sveit­ar­fé­lög þurfa að vita að þessi mögu­leiki sé til staðar. Ég vil því hvetja þau sveit­ar­fé­lög sem telja sig upp­fylla fram­an­greind skil­yrði til að óska eft­ir því að þess­ar sér­tæku aðgerðir séu nýtt­ar á þeirra svæði.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar

Greinin birtist fyrst á mbl.is 29. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Út með ruslið!

Deila grein

28/11/2022

Út með ruslið!

Aðventa og jólin eru að koma í allri sinni dýrð, samveran lýsir upp skammdegið, gleðin er við völd og sem fyrr bregðumst við felst öll við með því að leggjast í mikla neyslu. Það má auðveldlega halda því fram að líklega sé aldrei meira úrgangur frá heimilum og fyrirtækjum landsmanna en einmitt á þessum árstíma.

Um komandi áramót taka ný lög um söfnun á meðhöndlun úrgangs í landinu gildi, eða hringrásarhagkerfislögin eins og þau eru kölluð. Þessi lög voru samþykkt á vorþingi 2021. Markmiðið með innleiðingu hringrásarhagkerfisins er að lágmarka auðlindanotkun og þar með úrgangsmyndum.

Ábyrgðin er allra

Sveitarstjórnir fara með stjórnsýslu úrgangsmála í landinu en ábyrgðin er einnig á hendi ríkisins, þ.e. að innviðir séu til staðar og að móta lagaumhverfi sem auðveldar innleiðingu hringrásarhagkerfisins. Sveitarfélög um allt land hafa unnið að innleiðingunni og eru þau mislangt á veg komin enda er hér um miklar breytingar að ræða. Um helmingur sveitarfélaga hefur nú þegar tekist að innleiða lögbundnar samræmdar merkingar fyrir úrgangsflokka og þar hafa fámenn sveitarfélag ekki staðið sig verr í innleiðingunni en þau stóru. Sveitarfélög og ríki hafa ríka ábyrgð við innleiðinguna en við íbúarnir höfum einnig mikilvægt hlutverk við að tryggja að innleiðingin gangi vel. Við erum jú öll hluti af hringrásinni.

Plast er ekki sama og plast

Að innleiðingu lokinni er gert ráð fyrir að íbúar geti flokkað úrgang sinn enn frekar en nú er gert og þá í fleiri flokka. Þá flokkast samsvarandi efni líkt og plast í fleiri efnisflokka, er það talið nauðsynlegt til þess að endurvinnslu sé betur möguleg. Samhliða þessu er nauðsynlegt að innleiða samræmda merkingu efna. Þá er það ekki nóg að auka ábyrgð heimila og fyrirtækja heldur þarf einnig að auka ábyrgð framleiðenda í lágmarka og bæta umbúðir með það að sjónarmiði að neytendur geti skilað úrgangi og umbúðum til endurvinnslu á réttan hátt. Markmiðið þarf alltaf að vera að auka endurnýtingu og lágmarka urðun, en í dag er því miður verið að urða mikil verðmæti sem felast í umbúðum og fleiru sem hægt væri að endurvinna inn í hringráshagkerfinu.

Nýsköpun er lausn

Aukin umræða um loftlagsmál og innleiðing hringrásarhagkerfisins hefur þegar skilað sér í aukinni nýsköpun í efnisvinnslu úrgangs. Í því samhengi vil ég nefna verkefnið Bláma á Vestfjörðum þar sem unnið er með hugmyndir á framleiðslu metangass úr lífrænum úrgangi sem fellur til í fjórðungnum og er þónokkur. En lífrænn úrgangur hefur aukist verulega samhliða uppbyggingu á fiskeldi og framleiða má með honum orkugjafa sem þegar skortir á svæðinu. Hér er um að ræða verkefni sem er algjörlega samhljóða markmiðum hringrásarhagkerfisins og spennandi verður að fylgjast með framgangi þess.

Hlutverk okkar er mikilvægt

Líkt og kemur fram í texta sem við öll þekkjum örugglega flest þá erum við aðeins gestir og hótel okkar er jörðin. Við eigum aðeins eina jörð og við eigum ávallt að miða að því að hún verði áfram byggileg fyrir komandi kynslóðir. Þá er það ábyrgð okkar sem gesta á þessari jörð er að taka þátt í að minnka þann úrgang sem urðaður er og taka þátt í möguleikum á meiri endurvinnslu. Okkur ber samfélagsleg skylda til þess að bregðast við í loftlags- og umhverfismálum. Með hringrásarhagkerfinu þurfum við að taka upp nýjan lífstíl sem felur í sér að endurnýta þau hráefni sem við höfum með fjölbreyttum hætti. Það er ekki lengur í boði að henda öllu rusli á haugana heldur þurfum við öll að leggja hendur á plóg til þess að breyta hugarfari og ná þannig jákvæðum árangri til framtíðar.

Categories
Greinar

Venjulega fólkið

Deila grein

28/11/2022

Venjulega fólkið

Ég vil hér í þessum greinarstúf fjalla um hið venjulega fólk, hina venjulegu fjölskyldu sama hvernig hún er samansett. Um er að ræða hóp sem fær ekki alltaf mikla athygli, hver sem ástæðan er fyrir því, hvort sem það er vegna þess að sá hópur telst ekki vera í viðkvæmri stöðu eða til minnihlutahóps. Hann hefur ekki hátt og er í raun nokkuð ósýnilegur ef svo má segja. Hann mætir til vinnu, sér um börnin sín séu þau til staðar, eldar matinn og borgar reikninga. Svona gengur lífið fyrir sig dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Líkt og hamstur í hjóli. Ég leyfi mér að segja að þetta sé hópurinn sem telur sig ekki vera í þeirri stöðu að geta kvartað, eða eiga yfir höfuð rétt á því að kvarta. Þau sem þessum hópi tilheyra eru ekki meðal þeirra tekjulægstu, en eru ólík og bera oft mikið álag. Þetta er hópurinn sem heldur samfélaginu á floti.

Að koma undir sig fótunum

Hér er ég meðal annars að tala um ungt fólk, fólk á aldrinum 25-40 ára, sem er að koma undir sig fótunum í lífinu á sama tíma og það er að ljúka námi, mögulega eignast börn, fara í fæðingarorlof, koma sér þaki yfir höfuðið eða jafnvel stækka við sig. Allt þetta á sama tíma og verið er að byggja upp atvinnuferil með tilheyrandi kröfum um að standa sig vel. Þetta tímabil í lífi fólks getur verið allt í senn hið ánægjulegasta og hið kvíðvænlegasta.

Það er mikil gleði og blessun sem fylgir því að eignast barn. Það hef ég verið svo lánsamur að fá að upplifa. Á sama tíma getur það verið verulega flókið, sérstaklega þegar um er að ræða barn tvö, þrjú eða jafnvel fjögur. Með hverju barni bætist við auka kostnaður vegna leikskóla, fæðiskostnaðar, íþróttaiðkunar og áfram mætti telja. Ofan á þetta bætast síðan við aðrar greiðslur svo sem vegna húsnæðis, trygginga, bifreiða, námslána og svo framvegis. Allt sem fylgir því að reka heimili og fjölskyldu. Það á sama tíma og laun skerðast vegna fæðingarorlofs. Oft og tíðum er þessi hópur of tekjuhár til þess að fá greiddar barnabætur, en hjá hjónum og sambúðarfólki reiknast skerðing á barnabótum vegna tekna af samanlögðum tekjustofni sé hann umfram 9.098.000 kr. Vissulega hafa verið gerðar breytingar á barnabótakerfinu síðustu misseri en betur má ef duga skal, sérstaklega í þeim aðstæðum sem uppi eru í dag.

Hækkanir á hækkanir ofan

Þær hækkanir sem orðið hafa í samfélaginu síðustu mánuði hafa ekki farið framhjá neinum. Þær eru nú þegar farnar að bíta verulega fast í hinn venjulega borgara. Við finnum fyrir þessu, ég fæ sendingar frá fólki; vinum og kunningjum, jafnvel frá fólki sem gefur sér tíma til að setjast niður og skrifa mér og lýsa stöðu sinni. Það kann ég að meta. Þetta er hið duglegasta fólk sem er að keyra sig út í vinnu og jafnvel vinnum til þess eins að ná endum saman milli mánaða. Og það er oft bara fjári erfitt.

Það þarf því ekki að koma neinum neitt sérstaklega á óvart – og það kemur ekki eins og þruma úr heiðskýru – að kallað sé eftir launahækkunum. Við verðum þó að hafa í huga, og horfa um leið á stóru myndina, að hækkun launa ein og sér getur virkað eins og olía á verðbólgubálið á þessum tímapunkti. Því er mikilvægt að leita einnig annarra leiða og þar þurfa ríki, sveitarfélög og atvinnulífið í heild með banka- og fjármálakerfið fremst í flokki að snúa bökum saman.

Þó svo að öllum sé það ljóst að hlutverk Seðlabanka Íslands sé að halda aftur af verðbólgu geta ákvarðanir hans einnig haft veruleg áhrif á líf fólks. Vaxtahækkun Seðlabankans nú á viðkvæmum tíma í kjaraviðræðum geta haft víðtæk áhrif á samfélagið allt ef marka má orð verkalýðsforystunnar. Það virðist því miður vera að raungerast. Hækkun vaxta á þessum tímapunkti er eins og að kasta sprengju inn í kjaraviðræður. Endurteknar yfirlýsingar um Tene-fólkið eru yfirlætisfullar og ekki til þess fallnar að skapa sátt og einingu um baráttuna gegn verðbólgu. Eins og sagt er; af litlum neista verður oft mikið bál. Álögur á heimilin í landinu eru þegar komin að þolmörkum!

Það er lýðheilsumál að taka betur utan um barnafjölskyldur

Það er svo sannarlega rétt að það er ákveðinn hópur fólks hefur það gott, jafnvel mjög gott og það sýnir neyslan. Ég er fullviss um að það eru ekki barnafjölskyldur þessa lands sem halda henni uppi. Hjá þeim er ástandið viðkvæmt og ég tel að það þurfi að ná betur utan um þennan hóp og greina stöðuna. Því tel ég nauðsynlegt að rýna í stöðu barnafjölskyldna á Íslandi með það að markmið að skoða með hvaða hætti og hvaða aðgerðum er hægt að beita til að koma enn betur til móts við þann þunga róður sem margar fjölskyldur í landinu standa frammi fyrir þessa stundina. Það er staðreynd að við þurfum að einbeita okkur betur að barnafjölskyldum. Það er hreinlega lýðheilsumál, því ekki viljum við sjá þennan aldurshóp brenna upp í báða enda fyrir fimmtugt. Það yrði samfélagslega mjög dýrt.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. nóvember 2022.

Categories
Fréttir

Guðveig afhendir ráðherra skýrslu um bættar aðstæður kjörinna fulltrúa

Deila grein

25/11/2022

Guðveig afhendir ráðherra skýrslu um bættar aðstæður kjörinna fulltrúa

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, tók í dag við lokaskýrslu verkefnisstjórnar um bættar starfsaðstæður kjörinna fulltrúa úr hendi Guðveigar Eyglóardóttur, formanns verkefnisstjórnarinnar. Skýrslan hefur að geyma 15 tillögur um hvernig draga megi úr álagi, stuðla að sanngjarnari kjörum, bættum vinnuaðstæðum og samskiptum kjörinna fulltrúa, sín á milli og við almenning. 

Verkefnið er hluti af gildandi aðgerðaáætlun stjórnvalda á sviði sveitarstjórnarmála. Því er ætlað að bæta aðstæður kjörinna fulltrúa í þeim tilgangi að vinna gegn óvenjumikilli endurnýjun fulltrúa í sveitarstjórnum. Endurnýjunarhlutfall í sveitarstjórnum hefur hækkað milli sveitarstjórnarkosninga á síðustu árum og er nokkuð hærra meðal kvenna (70%) en karla (50%). Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum er þó hvergi hærra á Norðurlöndunum en á Íslandi eða 51%.

Tillögurnar byggja m.a. á tveimur nýlegum úttektum, annars vegar á reynslu og viðhorfi kjörinna fulltrúa og hins vegar á misbeitingu valds í menningu íslenskra sveitarstjórna. 

Nokkrar af tillögum verkefnisstjórnarinnar fela í sér ákall um breytingar á sveitarstjórnarlögum. Þar er hægt að nefna að kjaraákvæði sveitarstjórnarlaga verði endurskoðað í þeim tilgangi að stuðla að sanngjörnum kjörum fulltrúa, tryggja að þeir verði ekki fyrir launatapi og njóti eðlilegra kjara á vinnumarkaði. Mælt er með að teknar verði upp svokallaðar barnagreiðslur að danskri fyrirmynd til kjörinna fulltrúa með börn undir 10 ára aldri á sínu framfæri, m.a. til að standa straum af kostnaði við barnagæslu og koma til móts við annað óhagræði foreldra ungra barna af fundum utan hefðbundins vinnutíma.

Með sama hætti er lagt til að metið verði hvort ástæða sé til að endurskoða ákvæði sveitarstjórnarlaga um rétt kjörinna fulltrúa til upplýsinga og rétt íbúa til upplýsinga um starfsemi sveitarfélagsins ásamt því að skoðað verði hvort ástæða sé til að rýmka viðmið um fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum. Af öðrum tillögum er hægt að nefna tillögur um bætt vinnufyrirkomulag, aukna fræðslu og stuðning við kjörna fulltrúa. Með sama hætti er lagt til að Samband íslenskra sveitarfélaga hvetji sveitarstjórnir til þess að setja sér samskiptasáttmála og móta viðeigandi ferla við brotum á sáttmálanum.

Fagteymi vegna eineltis, ofbeldis og áreitni

Lagt er til að fulltrúar ríkis og sveitarfélaga taki höndum saman um stofnun fagteymis til að vernda kjörna aðal- og varafulltrúa í sveitarstjórnum og á Alþingi gagnvart einelti, ofbeldi og kynferðislegri og kynbundinni áreitni. Fagteymið taki við beiðnum um aðstoð, meti, komi í viðeigandi farveg og eftir atvikum fylgi eftir tilkynningum sem því berist og tryggi að þær fái viðhlítandi málsmeðferð. Á vegum fagteymisins verði komið upp miðlægum, gagnagrunni með almennum upplýsingum, lagaramma og úrræðum í tengslum við áreiti og ofbeldi af ýmsu tagi. Jafnframt verði litið til þess hvernig hindra megi áreitni í garð kjörinna fulltrúa á viðburðum á vegum sveitarfélaga og samtaka þeirra.

Rannsókn á starfsaðstæðum sveitarstjórnarfólks leiddi í ljós að 35% kjörinna fulltrúa áttu í samskiptavanda á síðasta kjörtímabili, oftast (86%) við kjörinn fulltrúa í eigin sveitarfélagi. Hátt í fjórðungur (24,8%) hafði orðið fyrir kynferðislegri áreitni á tímabilinu, oftar konur (35,8%) en karlar (14,5%), og oftast (35%) af hendi kjörins fulltrúa í öðru sveitarfélagi. Nærri jafnalgengt var að kjörnir fulltrúar hafi orðið fyrir kynbundnu áreiti (23,4%). 

Eftirtaldir skipuðu verkefnisstjórnina:

Innviðaráðuneytið

  • Guðveig Eyglóardóttir (formaður)
  • Gauti Jóhannesson

Forsætisráðuneytið

  • Bjarki Hjörleifsson

Samband íslenskra sveitarfélaga

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 24. nóvember 2022.

Mynd: stjornarradid.is

Categories
Fréttir

Aðstöðumun læknanema þarf að breyta strax

Deila grein

24/11/2022

Aðstöðumun læknanema þarf að breyta strax

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, ræddi læknaskortinn í landinu í störfum þingsins. Minnti hún á að vilji sé til að veita góða heilbrigðisþjónustu og því áhyggjuefni ef læknaskortur verði alvarlegri á komandi árum.

„Fólksfjölgun og öldrun þjóðarinnar mun eðli málsins samkvæmt krefjast aukinna umsvifa í heilbrigðiskerfinu. Ásamt þessu er mannekla innan geirans eitthvað sem við könnumst of vel við þessa dagana,“ sagði Lilja Rannveig.

Við flytjum inn sérmenntaða lækna til að bregðast við ástandinu og eins með því að tryggja íslenskum námsmönnum tækifæri til læknanáms og aukinnar sérhæfingar.

„Fjöldi íslenskra námsmanna heldur út í læknanám. Í kjölfarið snýr meirihluti þeirra heim með haldbæra reynslu og sérþekkingu sem samfélagið nýtur góðs af. Þeir bætast við þann hóp sem útskrifast úr Háskóla Íslands en hann er eini háskólinn hér á landi sem útskrifar lækna. Hann tekur einungis inn 60 nema á ári sem nægir ekki til að bregðast við þeim skorti sem við horfum upp á,“ sagði Lilja Rannveig.

Aðstöðumunurinn er þó augljós íslenskum læknanemum erlendis í óhag, en þeim er gert að greiða stóran hluta námsgjalda sinna jafnóðum úr eigin vasa eða fá til þess stuðning annarra. Nemar við Háskóla Íslands eru ekki skuldbundnir til þess sama.

„Þetta hafa íslenskir læknanemar sem stunda nám sitt erlendis ítrekað bent á, að þeir fái ekki sama stuðning og þeir sem læra hér heima. … Vegna þessa eru margir sem missa af tækifærinu til að gerast læknar og aðrir neyðast jafnvel til þess að hætta í miðju námi,“ sagði Lilja Rannveig.

„Ávinningur samfélagsins af því að styðja betur við læknanema erlendis er mikill. Þá horfi ég helst til námslánakerfisins og 27. gr. laga um Menntasjóð námsmanna en þar er heimild til sérstakrar ívilnunar námsgreina. Gegnum þá heimild er hægt að gera breytingar á úthlutunarreglum á þann veg að erlendir læknanemar geti fengið lán fyrir allri sinni skólagöngu. Í ljósi aðstæðna er tilefni til þess og ég skora á hæstv. háskólaráðherra að ganga í aðgerðir þess efnis,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.

Categories
Greinar

Uppbygging íbúðarhúsnæðis og metfjöldi lóða umsókna

Deila grein

24/11/2022

Uppbygging íbúðarhúsnæðis og metfjöldi lóða umsókna

Að búa í víðfeðmu fjölkjarna samfélagi getur oft á tíðum verið flókið en það er jafnframt mjög lærdómsríkt því hver og einn byggðarkjarni býr yfir einstakri sögu sem einkennir hann og skilgreinir.

Frá því ég tók sæti sem bæjarfulltrúi í maí hefur ýmislegt gengið á eins og venja er fyrir á þessum vettvangi. Verst finnst mér þegar fólk festist í því að ræða eingöngu neikvæða hluti, við verðum að muna að þakka fyrir og vera stolt af því sem vel er gert og því flotta samfélagi sem við búum í. Ég hef passað að temja mér ávallt framsýni og velta mér ekki upp úr orðnum hlutum sem ég get ekki breytt. Ég vil heldur einbeita mér að framtíðinni og þeim markmiðum sem ég vil ná fyrir samfélagið okkar á þeim tíma sem mér hefur verið úthlutað. Ég brenn fyrir samfélagið okkar og vil að allir geti notið þess að lifa hér, starfa og njóta.    

Við búum í samfélagi sem hefur farið í gegnum margar stórar áskoranir og má þar helst nefna byggingu Alcoa fjarðaráls sem hefur verið gríðarleg lyftistöng fyrir samfélagið. Í kjölfarið fengum við mikið af nýju fólki og samfélagið varð fjölbreyttara en jafnframt mikið opnara. Þá sem og nú varð uppsveifla í sveitarfélaginu, núna skýrist uppsveiflan þó að öðru en hér er mikið atvinnuframboð, góð launakjör og frábært umhverfi fyrir fjölskyldur sem og einstaklinga að setjast að.

Það sem hefur staðið okkur fyrir þrifum er framboð á íbúðarhúsnæði sem hefur verið mjög takmarkandi þáttur og bitnar á mörgum. Þar má til dæmis nefna fyrirtæki sem hér starfa og vilja stækka og efla sína starfsemi en geta ekki bætt við sig starfskröftum vegna íbúðarskorts og það sama á við um iðnaðarmenn sem vilja koma hingað að vinna.

Ég sé þó blikur á lofti í þessum málum. Það er orðið mun fýsilegra að byggja í sveitarfélaginu nú en áður þar sem íbúðarverð hefur loksins náð skurðpunkti byggingarkostnaðar í flestum þéttbýliskjörnum Fjarðabyggðar. Það er fljótt að skila sér þar sem eftirspurn eftir lóðum síðustu mánuði hefur farið fram úr björtustu vonum. Sem formaður Umhverfis- og Skipulagsnefndar finnst mér ótrúlega gaman að segja frá því að í október á þessu ári höfðum við úthlutað 35 lóðum fyrir íbúðarhús og sjö fyrir atvinnu húsnæði sem er mikil aukning frá síðustu árum.

Að finna kraftinn og samheldnina í íbúum hér er ótrúlega hvetjandi, ég held og veit að Fjarðabyggð sem og Austurland allt býr yfir miklum tækifærum ef haldið er rétt á spöðunum. Ég á mér stóra drauma varðandi uppbyggingu, afþreyingu og þjónustu fyrir alla í sveitarfélaginu og tel að í góðu samstarfi við grasrótina, íbúa og starfsfólk Fjarðabyggðar getum við náð ansi langt sem ein heild, Fjarðabyggð.

Þuríður Lillý Sigurðardóttir, formaður umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 22. nóvember 2022.

Categories
Greinar

60 ára stjórnmálasamband vinaþjóða

Deila grein

23/11/2022

60 ára stjórnmálasamband vinaþjóða

Ísland og Suður-Kórea fagna 60 ára stjórn­mála­sam­bandi í ár en lönd­in tóku upp form­legt stjórn­mála­sam­band 10. októ­ber 1962. Á þess­um sex­tíu árum hafa rík­in þróað náið sam­starf á ýms­um sviðum, svo sem í mennta- og menn­ing­ar­mál­um, vís­ind­um og mál­efn­um norður­slóða

Ísland og Suður-Kórea fagna 60 ára stjórn­mála­sam­bandi í ár en lönd­in tóku upp form­legt stjórn­mála­sam­band 10. októ­ber 1962. Á þess­um sex­tíu árum hafa rík­in þróað náið sam­starf á ýms­um sviðum, svo sem í mennta- og menn­ing­ar­mál­um, vís­ind­um og mál­efn­um norður­slóða. Þannig hef­ur Suður-Kórea verið áheyrn­araðili að Norður­skauts­ráðinu síðan árið 2013 og verið virk­ur þátt­tak­andi á þeim vett­vangi. Ný­lega var stofnuð Kór­eu­deild við Há­skóla Íslands sem er afrakst­ur fund­ar míns með Sang-Kon, þáver­andi mennta­málaráðherra og vara­for­sæt­is­ráðherra Suður-Kór­eu í Seúl, árið 2018.

Vænt­ing­ar eru um að deild­in muni vaxa og síðar taka til menn­ing­ar­legra þátta til viðbót­ar tungu­mál­inu. Samn­ing­ar til dæm­is á sviði tví­skött­un­ar og fríversl­un­ar eru í gildi milli land­anna en árið 2020 nam um­fang inn- og út­flutn­ings milli Íslands og Suður-Kór­eu um 8 millj­örðum króna. Suðurkór­esk fyr­ir­tæki hafa fjár­fest í ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um á umliðnum árum, má þar nefna kaup Kór­eu­búa á tölvu­leikja­fyr­ir­tæk­inu CCP og stóra fjár­fest­ingu í lyfja­fyr­ir­tæk­inu Al­votech.

Tíma­mót eins og 60 ára stjórn­mála­sam­band eru merki­leg og vel til þess fall­in að líta yfir far­inn veg og horfa til framtíðar. Fyrr í haust kom sér­stök sendi­nefnd á veg­um suðurkór­eskra stjórn­valda heim­sókn til Íslands í til­efni af þess­um merk­is­áfanga. Í þess­ari viku mun ég svo leiða ís­lenska viðskipta­sendi­nefnd í Suður-Kór­eu, með sér­stakri áherslu á menn­ingu og skap­andi grein­ar, en Kór­eu­bú­ar hafa náð langt í því að flytja út menn­ingu sína. K-Pop-tónlist, marg­verðlaunaðar sjón­varpsþátt­araðir, ósk­ar­sverðlauna­bíó­mynd­ir og annað afþrey­ing­ar­efni hef­ur farið sem eld­ur í sinu um heims­byggðina með til­heyr­andi virðis­auka og út­flutn­ings­tekj­um fyr­ir suðurkór­eskt sam­fé­lag.

Suður-Kórea á einnig sér­stak­an stað í hjarta mér af per­sónu­legri ástæðum en ég var svo hepp­in að búa þar á ár­un­um 1993-1994 þegar ég nam stjórn­mála- og hag­sögu Suður-Kór­eu við Ewha-kvenna­há­skól­ann í Seúl. Það var ein­stakt að fá að kynn­ast þess­ari fjar­lægu vinaþjóð okk­ar með þeim hætti, en þrátt fyr­ir að vera langt í burtu á landa­kort­inu eru ýmis lík­indi með Íslandi og Suður-Kór­eu. Bæði rík­in glímdu við mikla fá­tækt í kring­um sjálf­stæði sitt sem þau fengu um sviptað leyti, Ísland 1944 og Suður-Kórea 1945. Síðan þá hafa bæði lönd náð langt og geta í dag státað af ein­um bestu lífs­kjör­um í ver­öld­inni. Land­fræðileg lega ríkj­anna er mik­il­væg og bæði eiga þau í sér­töku sam­bandi við Banda­rík­in, meðal ann­ars á sviði varn­ar­mála. Áhersla á menn­ingu og sér­stak­lega al­mennt læsi hef­ur lengi verið mik­il. Ég tel að það hafi skipt öllu máli í þeim þjóðfé­lags- og efna­hags­legu fram­förum sem rík­in hafa náð. Ekki má gleyma að því að lönd­in deila gild­um frels­is, lýðræðis og op­inna alþjóðaviðskipta – en Kór­eu­skag­inn, með skipt­ingu sinni í norður og suður, geym­ir best þann lær­dóm hversu mik­il­vægt slíkt stjórn­ar­far er.

Ég er bjart­sýn á framtíðarsam­skipti ríkj­anna og ég tel að lönd­in tvö geti dýpkað sam­starf sitt og vináttu enn frek­ar, með hags­bót­um fyr­ir þegna sína.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 22. nóvember 2022.

Categories
Fréttir

Þekking og þjónusta fyrir einhverfa á einum stað

Deila grein

23/11/2022

Þekking og þjónusta fyrir einhverfa á einum stað

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, hefur lagt fram tillögu á Alþingi um að komið verði á fót þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa. Markmiðið er að til staðar verði á einum stað þekking og þjónusta til að mæta þörfum barna og fullorðina. Hlutverk þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa hefði það verkefni að veita þjónustu á sviði ráðgjafar, hæfingar og endurhæfingar ásamt því að afla og miðla þekkingu á aðstæðum einhverfra í því skyni að bæta þjónustu og stuðla að framförum. Auk þess væri hlutverk þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar að sinna fræðslu, ráðgjöf og stuðningi við aðstandendur, skóla og aðrar þjónustustofnanir.

„Hér á landi greinast árlega einstaklingar, fullorðnir og börn, með einhverfu eða raskanir á einhverfurófi, einhverja röskun á taugaþroska sem kemur jafnan fram snemma í barnæsku. Einhverfa er yfirleitt meðfædd og til staðar alla ævi en kemur fram með ólíkum hætti, allt eftir aldri og þroska og færni og sökum þess hve einhverfa er margbreytileg er oft talað um einhverfuróf, “ sagði Ágúst Bjarni.

„Hægt er að hafa áhrif á framvindu einhverfu með markvissum aðgerðum, sérstaklega snemma á lífsleiðinni. Nokkuð er um að einstaklingar greinist á fullorðinsárum með einhverfu og þá oft í framhaldi af kulnun eða öðrum geðrænum vanda. Þegar einstaklingur hefur fengið greiningu á einhverfurófi er mikilvægt að einstaklingurinn og fjölskyldan fái fræðslu um einhverfurófið og aðferðir sem gætu hentað honum vel. Auk þess er mikilvægt, ef um er að ræða leik- eða grunnskólabarn, að samvinna milli heimilis og skóla sé góð,“ sagði Ágúst Bjarni.

Categories
Fréttir

Lífleg dagskrá í Árborg

Deila grein

23/11/2022

Lífleg dagskrá í Árborg

Það verður lífleg dagskrá hjá Framsóknarfélagi Árborgar næstu þrjár vikurnar og eru öll hvött til að taka þátt.

Dagskráin er eftirfarandi:

26. nóv. – Vöfflukaffi – Gestirnir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Vilhjálmur Birgisson formaður SGS mæta og ræða kjaramál

3. des. – Vöfflukaffi – Gestir eru þingmenn Framsóknar í suðurkjördæmi, þau Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson.

9. des. – Jólaglögg á Eyravegi 15, kl. 20:00 og frameftir kvöldi. 

10. des. – Möndlugrautur.

Allir viðburðirnir fara fram á Eyravegi 15. 

Vöfflukaffið og möndlugrauturinn fara fram milli kl. 11:00 og 12:00.

Endilega takið með ykkur gesti.

mynd Tripadvisor 23. nóv.

Categories
Fréttir

Mótun stefnu í fiskeldismálum

Deila grein

22/11/2022

Mótun stefnu í fiskeldismálum

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, vék að vinnu við mótun stefnu um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldisins á vegum stjórnvalda á Alþingi í vikunni.

„Fiskeldi er stór og öflug atvinnugrein sem er að fóta sig í íslenskri lögsögu og því eðlilegt að mótuð verði skýr stefna til að sátt ríki um greinina, bæði frá umhverfislegum sjónarmiðum og ekki síst til að mynda samfélagslega sátt,“ sagði Halla Signý.

Sveitarfélög, þar sem sjókvíaeldi er stundað, hafa viljað hraða vinnu til að tryggja þeim aukna hlutdeild í auðlindagjöldunum af eldinu til að standa undir kröfum um innviðauppbyggingu atvinnugreinarinnar.

„Á vef Stjórnarráðsins segir um hugmyndir um mótun fiskeldisstefnunnar, með leyfi forseta: „Mótuð verður heildstæð stefna um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldis. Við þá vinnu verður lögð áhersla á tækifæri til atvinnusköpunar og mikilvægi þess að greinin byggist upp á grundvelli sjálfbærni, vísindalegrar þekkingar og verndar villtra laxastofna.“ Þá er tekið fram að gert sé ráð fyrir að niðurstöður vinnunnar verði kynntar á matvælaþingi sem haldið verður á vegum ráðuneytisins sem vinnur að útfærslu stefnunnar, þ.e. matvælaþinginu sem er á morgun,“ sagði Halla Signý.

„En maður hefur lítið frétt af þessari stefnu og ég vil spyrja hæstv. matvælaráðherra hvernig vinnan við matvælastefnuna gangi og þá sérstaklega fiskeldisstefnuna. Í öðru lagi: Ef gert er ráð fyrir því að vinnan við fiskeldisstefnuna dragist á langinn, telur þá hæstv. ráðherra ekki að hraða þurfi sérstaklega að vinnu við að yfirfara laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi, með hliðsjón af því að tryggja sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi stundað skýrar heimildir til töku gjalda af sjókvíaeldi og eins til að tryggja tekjur af greininni til að standa undir þeirri innviðauppbyggingu sem þarf við greinina?,“ sagði Halla Signý að lokum.

Matvælaráðherra svaraði því til að ný matvælastefnan sé hugsuð sem grundvöllur stefnumótunar Íslands í framleiðslu matvæla. Þar séu undir þættir er lúta að loftslagsmarkmiðum, fæðuöryggissjónarmiðum, matvælaöryggi, hringrásarhagkerfi, menntun og rannsóknum o.s.frv.

Ráðherra viðurkenndi að enn væri ekki til staðar stefnumótun stjórnvalda um atvinnugreinina. Ríkisendurskoðun sé að vinna að stöðumati. Ráðherra sagðist leggja mjög mikla áherslu á opið ferli í þessari vinnu, að öll gögn verði lögð fram til samráðs við almenning.