Categories
Greinar

Raun­hæfar að­gerðir til handa heimilum

Deila grein

10/02/2022

Raun­hæfar að­gerðir til handa heimilum

Vaxandi verðbólga veldur eðlilega ákveðnum áhyggjum og það mun skipta máli hvernig brugðist verður við þeirri stöðu. Það er því rétt að fara yfir stöðuna eins og hún er. Það er ljóst að kaupmáttur launa hefur ekki verið hærri í mjög langan tíma. Sú staða er tilkomin vegna þess að efnahagsstjórn landsins hefur verið traust á undanförnum árum sem dregur að einhverju marki úr nauðsyn þess að grípa þurfi til sértækra aðgerða. Af því sögðu er rétt að taka fram að við í Framsókn munum áfram standa vörð um hagsmuni tekjulægstu hópana og þá sem finna munu hvað mest fyrir þessu tímabundna ástandi og vaxtahækkun Seðlabankans.

Húsnæðisverð

Hér á Íslandi er það húsnæðisverð sem knýr verðbólguna áfram. Staðan er einfaldlega tilkomin vegna íbúðaskorts, m.a. vegna þéttingarstefnu borgarinnar, sem hefur leitt til talsverðar hækkunar á húsnæðisverði. Það er verið að byggja dýrt húsnæði á dýrum svæðum í stað þess að mynda ný og spennandi hverfi og auka framboð lóða. Afleiðingarnar eru augljósar og áberandi; hátt húsnæðisverð. Nú á markmið næstu mánaða að vera að tryggja viðunandi framboð lóða ásamt því að auka áherslu á byggingu hagkvæms húsnæðis. Í því sambandi liggur beinast við að ráðast tafarlaust í endurskoðun á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Að því sögðu, þá fagna ég nýju innviðaráðuneyti sem er mjög gott skref, tímabær þróun og mikilvægt innlegg í það verkefni að fá heildarsýn á skipulags- og húsnæðismálin almennt. Ég hef trú á því að þetta muni skila okkur því að allir ferlar verði betrumbættir og að öll skipulagsvinnan verði skilvirkari allt frá upphafi þar til hægt er að hefja framkvæmdir af krafti. Með þessu munum við ná ofangreindum markmiðum um að byggja meira og hraðar af góðu og hagkvæmu húsnæði.

Húsnæðisliðurinn í vísitölu neysluverðs

Varðandi umræðu um stuðning til tekjulægstu hópa samfélagsins vil ég minnast á umræður milli mín og fjármálaráðherra á Alþingi í vikunni. Þar spurðist ég fyrir um húsnæðisliðinn og hvort til stæði að taka húsnæðisliðinn úr vísitölu neysluverðs, jafnvel tímabundið á meðan við erum að komast yfir erfiðasta hjallann. Ráðherra fór vel yfir stöðuna og þá vinnu sem hófst á síðasta kjörtímabili varðandi húsnæðisliðinn en var verið sett á bið ef svo má segja. Þeirri vinnu er því ekki lokið.

Að mínu mati væri afnám húsnæðisliðsins, jafnvel tímabundið, vænlegt til árangurs í núverandi stöðu og myndi styðja best við þau heimili sem nú standa frammi fyrir talsverðri hækkun á lánum. Í dag mælist verðbólgan 5,7%, en án húsnæðisliðar stæði hún í 3,7%. Til lengri tíma gæfi það líklega réttari mynd að horfa til greiddrar húsaleigu, sem hefur verið stöðugri og ekki elt þær hækkanir að fullu leyti sem verið hafa á fasteignamarkaði undanfarið. Við þetta má bæta, og ég tel það bæði rétt og sanngjarnt, að nýta arðgreiðslur bankanna til að létta undir með heimilum og fyrirtækjum landsins sem munu finna fyrir hærra vaxtabyrði eftir vaxtahækkun Seðlabankans. Þetta hefur viðskiptaráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir, nú þegar haft orð á.

Varasamar vaxtahækkanir

Að lokum er mikilvægt að horfa til stýrivaxta. Þeir eru hagstjórnartæki Seðlabankans þegar hann telur nauðsyn vera á að grípa inn í sveiflur. Verðbólgan í dag er kostnaðarverðbólga. Því tel ég að SÍ eigi ekki að auka taumhald peningastefnunnar of hratt og mikilvægara sé að fara hægt í vaxtahækkanir og sjá hvort sú kostnaðarverðbólga sem við sjáum í dag sé ekki tímabundin og muni jafna sig um leið og við komumst í það horf sem við þekktum fyrir faraldurinn.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. febrúar 2022.

Categories
Fréttir

Framsókn í Múlaþingi stillir upp á framboðslista

Deila grein

09/02/2022

Framsókn í Múlaþingi stillir upp á framboðslista

Framsóknarfélag Múlaþings hefur falið uppstillingarnefnd að gera tillögu að framboðslista félagsins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Félagsfundur 29. janúar kaus ellefu fulltrúa í uppstillingarnefnd sem hefur tekið til starfa. Formaður nefndarinnar er Stefán Bogi Sveinsson en sérstakur framkvæmdahópur skipaður þremur erindrekum, Eygló Björgu Jóhannsdóttur, Kristjönu Björnsdóttur og Þorvaldi P. Hjarðar, heldur utan um vinnu við uppstillinguna milli funda nefndarinnar.

Þegar tillaga uppstillingarnefndar liggur fyrir mun verða boðað til félagsfundar þar sem framboðslistinn verður borinn upp til samþykktar.

Categories
Fréttir

Fjárhagsstaða sveitarfélaga grafalvarleg í kjölfar heimsfaraldurs

Deila grein

08/02/2022

Fjárhagsstaða sveitarfélaga grafalvarleg í kjölfar heimsfaraldurs

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, gerði að umtalsefni grafalvarlega fjárhagsstöðu sveitarfélaga í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19 á Alþingi.

„Það er þó ljóst að staða þeirra hefur versnað til muna og sum sveitarfélög glíma nú við mjög alvarlegan rekstrarvanda og rekstrarhorfur til framtíðar eru ekki bjartar,“ sagði Stefán Vagn.

Sambandi íslenskra sveitarfélaga birti í september á síðasta ári, samantekt þar sem kemur fram að útgjöld hækkuðu um 13,7% og þar af eru laun og tengd gjöld um 16,3%. Halli á rekstri nær tvöfaldaðist milli ára, fór úr 5,6 milljörðum í 10 milljarða, en halli á rekstri allra sveitarfélaganna í heild nemur um 8,9% af tekjum samanborið við 5,6% á sama tíma í fyrra. Á þetta við um fjögur stærstu sveitarfélög landsins, Reykjavík, Kópavog, Hafnarfjörð og Akureyri. Í þessum sveitarfélögum búa um 221.000 manns eða um 60% þjóðarinnar.

„Mestur var hallinn hjá Reykjavíkurborg eða 10,4% af tekjum sveitarfélagsins. Veltufé frá rekstri árið 2021 var neikvætt sem nemur 2,2% af tekjum og til samanburðar var veltufé frá rekstri jákvætt um 3,1% á sama tíma í fyrra. Skuldir og skuldbindingar námu, í lok júní 2021, um 250 milljörðum og hækkuðu um 13,9 milljarða frá áramótum eða 5,9%.

Af þessu má sjá að staða sveitarfélaga í landinu er grafalvarleg og ég skora á okkur öll sem hér erum á Alþingi að taka til alvarlegrar skoðunar tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga því að vitað er að þau verkfæri sem sveitarfélögin í landinu búa yfir, er kemur að styrkingu tekjustofna, eru verulega takmörkuð í samanburði við ríkið,“ sagði Stefán Vagn.

Categories
Fréttir

Íslenskir háskólar verði í fremstu röð í notkun stafrænna kennsluhátta

Deila grein

08/02/2022

Íslenskir háskólar verði í fremstu röð í notkun stafrænna kennsluhátta

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, sagði í umræðu á Alþingi um fjarnám og stafræna kennsluhætti á háskólastigi að á síðustu tveimur árum hafi almenn færni í notkun stafrænnar miðlunar, fjarvinnu og fjarkennslu tekið stökkbreytingum. Minnti hún þingheim á þingsályktun sína um „fjarnám á háskólastigi“ þar sem einmitt sé lagt til að skipaður verði starfshópur til að vinna aðgerðaáætlun um frekari eflingu fjarnáms með áherslu á þróun stafrænna kennsluhátta.

„Í tillögunni er lögð áhersla á að íslenskir háskólar verði í fremstu röð í notkun stafrænna kennsluhátta, bæði til að auka aðgengi að námi og gæði alls náms, hvort sem nemandi stundar námið innan veggja háskólanna eða í fjarnámi,“ sagði Líneik Anna. 

Líneik Anna kom að spurningum í ræðu sinni til ráðherra, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar og spurði hvernig hægt væri að fá háskóla til að auka framboð á stafrænu námi.  Eins spurði Líneik Anna hvort að til greina komi að skilgreina hópa fólks sem vegna sérstakra aðstæðna, svo sem búsetu, fjölskylduaðstæðna eða ástundunar afreksíþrótta, ættu rétt á tilteknum sveigjanleika í námi þó lögð sé stund á nám sem einkum eru í boði sem staðnám.

„Það er mikið hagsmunamál fyrir einstaklingana og samfélagið á landsbyggðinni að hægt sé að stunda nám án búferlaflutninga en jafnframt að afla þekkingar sem samfélögin þurfa á að halda, svo dæmi sé tekið í félagsráðgjöf og talmeinafræði sem mikið er kallað eftir. Einstaklingarnir hugsa auðvitað um hvað hægt sé að gera núna, ekki eftir fjögur ár þegar innleiðing stefnu háskólanna verður komið til framkvæmda,“ sagði Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Tryggð sé sjálfbærni hafna og samfélaga þar sem er sjókvíaeldi

Deila grein

08/02/2022

Tryggð sé sjálfbærni hafna og samfélaga þar sem er sjókvíaeldi

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um „endurskoðun á laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis“.

Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa starfshóp til þess að yfirfara laga og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi. Markmið starfshópsins verði:

a. að taka saman yfirlit yfir heildargjaldtöku af fiskeldi og undir hverju tekjunum er ætlað að standa, sem og hvernig þær tekjur skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga,

b. að tryggja sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað skýrar heimildir til töku gjalda af sjókvíaeldi,

c. að tryggja að tekjur af slíkri gjaldtöku standi undir nauðsynlegum verkefnum sveitarfélaga og tryggð sé sjálfbærni hafna og samfélaga þar sem sjókvíaeldi fer fram.

Endurskoðun sem felur í sér heildargreiningu á gjaldtöku ríkis og sveitarfélaga af fiskeldi og tillögur að lagabreytingu sem skýra heimildir til töku gjalda til að standa undir nauðsynlegri þjónustu ríkis og sveitarfélaga af sjókvíaeldi skal vera lokið og skýrsla kynnt Alþingi eigi síðar en í lok árs 2022.“

Halla Signý sagði að miðað við það magn sem burðarþolsgeta svæða sem fiskeldinu er afmarkað gæti numið allt að nær 65 milljörðum kr. í útflutningsverðmæti. Útflutningur á eldislaxi skilar orðið næstmestum verðmætum allra fisktegunda sem fluttar eru frá Íslandi. Verðmæti útflutningsins jókst um 29% á milli ára og fór vægi hans í 70% útflutningsverðmætis eldisafurða á árinu 2021.

„Árið 2004 var tekin ákvörðun af stjórnvöldum um að sjókvíaeldi yrði einungis leyft á hluta Austfjarða og Vestfjarða og í Eyjafirði. Sú ákvörðun byggðist á því að vernda þyrfti ár þar sem stundaðar væru veiðar á villtum laxastofni landsins. Frá því að þessi ákvörðun var tekin hefur verið mikil uppbygging í sveitarfélögum á Vestfjörðum og Austfjörðum sem hýsa þessa starfsemi. Sveitarfélögin hafa unnið af miklu kappi við að byggja upp og tryggja innviði sem þurfa að vera til staðar svo að starfsemin geti blómstrað. Hér er um að ræða uppbyggingu við hafnarsvæði og einnig uppbyggingu vegna fjölgunar íbúa og styrkingar grunnþjónustukjarna, svo sem grunn- og leikskóla,“ sagði Halla Signý.

Í greinargerð segir: „Sveitarfélögin njóta þess mikla drifkrafts sem fiskeldið hefur í för með sér. Íbúum fjölgar, atvinnutækifærin verða fjölbreyttari og aldurspíramídinn breytist því að hlutfallsleg fjölgun yngra fólks hefur orðið í umræddum sveitarfélögum. Þessu fylgja aukin verkefni og áskoranir til sveitarfélaga svo um munar. Sum samfélög þar sem íbúum hafði fækkað takast nú á við vaxtarverki í umfangsmikilli og kostnaðarsamri innviðauppbyggingu.“

Samkvæmt lögum um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð er tryggt að þriðjungur tekna af gjaldtöku af fiskeldi renni á komandi árum í fiskeldissjóð sem sveitarfélög geta sótt í til innviðauppbyggingar.

„Ljóst má vera að það dugar þó skammt fyrir innviðauppbyggingu sem sveitarfélög þurfa að ráðast í svo að koma megi til móts við vaxandi þörf vegna aukinna umsvifa fiskeldis. Lítil vissa er hjá sveitarfélögum um hve mikilla tekna er að vænta þar sem sveitarfélögin sækja hvert fyrir sig í sjóðinn og örðugt að áætla tekjur fram í tímann,“ sagði Halla Signý.

„Þar sem hér er um að ræða nýja og stóra atvinnugrein er brýn þörf á að yfirfara laga- og reglugerðaumhverfi gjaldtökunnar í heild, sérstaklega það sem snýr að sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað, og skýra heimildir sveitarfélaga til gjaldtöku. Tryggja þarf að tekjur af slíkri gjaldtöku standi undir nauðsynlegum verkefnum sveitarfélaga ásamt því að tryggð sé sjálfbærni þeirra hafna og samfélaga þar sem þessi atvinnustarfsemi er stunduð,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

Atvinnulífið í lykilhlutverki í loftslagsmálum

Deila grein

08/02/2022

Atvinnulífið í lykilhlutverki í loftslagsmálum

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi loftslagsmál á Alþingi á liðinni viku. Sagði hún mikilvægt að þessi mál væru tekin upp reglulega hér í þingsal. Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið í stjórnarsáttmála um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Vorþingið mun síðan lögfesta markmið um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040. Hafin er vinna við að uppfæra og aðlaga aðgerðaáætlun í loftslagsmálum að þessum markmiðum.

„Ég vil leggja áherslu á samráð og samvinnu við að kortleggja verkefnið og leiðir að markmiðunum. Við höfum raunveruleg tækifæri til að ná þessum markmiðum í samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs, samvinnu ólíkra atvinnugreina, samvinnu atvinnulífs og háskóla um nýsköpun, samvinnu heimila og atvinnulífs og þannig mætti áfram telja. Það er mikill metnaður í samfélaginu sem getur skilað okkur langt. Þar er atvinnulífið í lykilhlutverki í samspili við þá umgjörð og hvata sem stjórnvöld setja,“ sagði Líneik Anna.

Líneik Anna sagði að atvinnulífið vera á tánum að svo mörgu öðru leyti því að vinna í loftslagsmálum væri liður í góðum rekstri fyrirtækja.

„Útgerðin er á fullu við að draga úr útblæstri og hefur sett sér markmið um að gera enn betur. Stór fyrirtæki vinna með skógarbændum að bindingu kolefnis. Þróun svokallaðra óvirkra rafskauta getur leitt til stökkbreytinga við að draga úr losun kolefnis frá álverum. Öll ræktun bindur kolefni í gróðri og til að ná sem bestum árangri á því sviði er mikilvægt að bændur geti nýtt þekkingu sína til kolefnisbindingar í landi og við ræktun orkujurta. Viðarnytjar skapa möguleika til að stuðla að sjálfbærni einstakra byggða og svo mætti áfram telja,“ sagði Líneik Anna að lokum.

Categories
Greinar Sveitarstjórnarfólk

Hafnar­fjörður til fram­tíðar

Deila grein

07/02/2022

Hafnar­fjörður til fram­tíðar

Markvisst hefur verið unnið að því á kjörtímabilinu að halda álögum á íbúum í lágmarki og sérstaklega hefur verið horft til barnafjölskyldna með það að markmiði að létta þeim róðurinn. Það hefur tekist og er óumdeilt. Í upphafi kjörtímabils var systkinaafsláttur á leikskólagjöldum hækkaður verulega og nýjum systkinaafslætti var komið á skólamáltíðir grunnskólabarna. Þar viljum við í Framsókn stíga enn frekari skref á næsta kjörtímabili og halda áfram á þeirri vegferð að lækka kostnað fjölskyldufólks með skynsamlegum hætti og um leið tryggja og treysta þjónustu við íbúa hér í bæ, unga sem aldna.

Kröftug uppbygging íbúðarhúsnæðis er hafin

Kröftug uppbygging íbúðarhúsnæðis er nú hafin víðs vegar um bæinn. Frá upphafi kjörtímabilsins hefur verið mikil uppbygging í Skarðshlíð og hefur kraftur uppbyggingarinnar aukist umtalsvert á undanförnu einu og hálfu ári. Íbúðir í Hamranesi, sem er okkar nýjasta byggingarland, eru nú byrjaðar að rísa en þar verða um 1700 íbúðir þegar hverfið verður að fullu byggt með öllum nauðsynlegum innviðum sem fylgja uppbyggingu nýrra hverfa.

Samhliða uppbyggingu á nýjum byggingarsvæðum hefur þéttingu byggðar miðað vel áfram. Þar má nefna að framkvæmdir eru hafnar á Dvergsreitnum svokallaða, Hrauntungu, Stekkjarbergi og við Hjallabraut. Hús eru eru byrjuð að rísa á Dvergsreitnum, Hrauntungu og Stekkjarbergi og þá er jarðvegsvinna í fullum gangi við Hjallabraut. Lóðarhafar áætla að framkvæmdir hefjist nú á vormánuðum í Hraunum vestur-Gjótur, en þar liggur fyrir samþykkt deiliskipulag fyrir 490 íbúðir auk verslunar og þjónustu. Deiliskipulag fyrir Ásland 4 hefur verið afgreitt úr skipulags- og byggingarráði, en þar má gera ráð fyrir um 500 íbúðum í heildina; mest sérbýli í bland við lítil fjölbýlishús.

Tækniskólinn, byggð við höfnina og miðbærinn

Það er ánægjulegt að segja frá því að mikil ásókn hefur verið í atvinnuhúsalóðir sem rokið hafa út á kjörtímabilinu. Þá hafa jafnframt stór og öflug fyrirtæki ákveðið að reisa höfuðstöðvar sínar í bæjarfélaginu, og má þar nefna fyrirtæki eins og Icelandair sem vinnur nú að því að flytja alla sína starfsemi til Hafnafjarðar. Það er ekkert launungarmál að slík fyrirtæki skila miklum tekjum til bæjarfélagsins, bæði beinum og óbeinum.

Nýr Tækniskóli mun rísa á Suðurhöfninni og ég vil leyfa mér að segja það hreint út að sá áfangi og sú ákvörðun sé ein sú stærsta á kjörtímabilinu. Hér er um að ræða gríðarstóra framkvæmd sem mun hafa jákvæð áhrif á bæjarfélagið allt; styrkja og styðja við miðbæinn okkar og þá starfsemi sem fyrir er. Framkvæmdin kemur einnig til með að efla og styðja enn frekar við þá miklu uppbyggingu sem fram undan er á Óseyrarsvæðinu og við Flensborgarhöfn.

Verkefni sem þessi eru af þeirri stærðargráðu að þau klárast ekki á einum degi, eða jafnvel á einu kjörtímabili. Hér er um að ræða samvinnuverkefni ríkis, sveitarfélags og einkaaðila. Grunnurinn hefur hins vegar verið lagður og nú þarf að halda áfram veginn, vera með augun á boltanum eins og sagt er og fylgja málum vel eftir. Þetta er spennandi verkefni fyrir Hafnarfjörð og íbúa bæjarfélagsins.

Miðbærinn okkar mun einnig taka jákvæðum breytingum á næstu árum. Þar má nefna tvær samþykktar deiliskipulagstillögur, annars vegar stækkun Fjarðar og hins vegar reit 1 sem afmarkast af Strandgötu, Reykjavíkurvegi, Austurgötu og Linnetsstíg. Tillögurnar gera það að verkum að verslunar- og veitingarrýmum mun fjölga umtalsvert í miðbænum á næstu árum, sem mun bæta við þá líflegu flóru verslana og veitingastaða sem fyrir eru í hjarta Hafnarfjarðar. Auk þess gera tillögurnar bæði ráð fyrir skynsamlegri blöndu hótelíbúða og nýrra íbúða. Allt ofangreint mun styðja við það sem fyrir er og gera miðbæ Hafnarfjarðar að enn eftirsóknarverðari stað til að sækja og reka verslun og þjónustu til framtíðar.

Snyrtilegur bær – átaksverkefni

Í upphafi síðasta sumars var samþykkt að bæta 340 milljónum króna í framkvæmdir í bæjarfélaginu. Þar var sérstaklega horft til uppsafnaðar fjárfestingaþarfar á endurnýjun gangstétta í eldri hverfum bæjarins auk nauðsynlegs frágangs í þeim hverfum sem nýrri eru. Við sjáum það nú að þessum fjármunum var vel varið og átakið vel heppnað en merki þess sjást um allan bæ. Snyrtilegur og aðgengilegur bær fyrir alla á að vera okkar helsta keppikefli. Við þurfum að horfa heildstætt á þessi mál og tryggja að bærinn sé snyrtilegur og vel þrifinn; götur sópaðar, rusl tekið, grasblettir slegnir og götur mokaðar. Snyrtilegur og aðgengilegur bær er öruggur bær. Það er Hafnarfjörður og hann verður það áfram.

Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður bæjarráðs í Hafnarfirði.

Greinin birtist á visir.is 5. febrúar 2022

Categories
Greinar

Sam­fylkingin á villi­götum

Deila grein

04/02/2022

Sam­fylkingin á villi­götum

Verðtrygging er mannanna verk, ekki náttúrleg þótt hún virðist haga sér þannig. Þegar henni var komið á hér á landi var um neyðarástand um að ræða. Það átti að tryggja sparifé landsmanna, lánsfé og laun. Vextir voru ekki frjálsir og vandinn óx, en núna erum við á öðrum stað á öðrum tíma.

Því hefur verið gert hérlendum stjórnvöldum skóna að verðbólguskotið núna sé þeim að kenna. Það heyrist talað um óstjórn og ráðaleysi. Samfylkingin rýkur í fjölmiðla með bundið fyrir augun án þess að líta til hvað sé að gerast í öðrum löndum í kringum okkur þar sem verðbólgan rís jafnvel hærra en hérlendis. Hér er um að ræða kostnaðarverðbólga því verðlag og heildareftirspurn hefur aukist umfram þjóðarframleiðslu. Það má gera ráð fyrir að hrávara til framleiðslu haldi áfram að hækka tímabundið bæði til matvælaframleiðslu og í iðnaði, þetta er að gerast út um allan heim. Það er þó von til að síðar á árinu lægi öldur og jafnvægi aukist.

Endurmeta forsendur

Nei, verðtrygging er ekki óklífanlegt fjall. Við getum nefnilega haft áhrif á gang mála. Það er nauðsynlegt að endurmeta forsendur og útreikninga verðbólgu og verðtryggingar. Framsókn hefur ítrekað kallað eftir því að stjórnvöld beiti sér fyrir því að vísitala neysluverðs til verðtryggingar verði hér eftir reiknuð án húsnæðisliðar. Fasteignaverð er liður í neysluvísitölu hér á landi og af þeim sökum hafa stýrivextir og höfuðstólar verðtryggðra lána verið hærri en í nágrannalöndum þar sem stuðst er við samræmda vísitölu neysluverðs.

Húsnæðismarkaðurinn óútreiknanleigur

Sá darraðadans sem hefur átt sér stað á húsnæðismarkaði landsmanna hefur skapað óyndi verðbólgu og hún vex vegna aukinnar eftirspurnar. Þetta hófst á höfuðborgarsvæðinu þar sem eftirspurn eftir húsnæði er umfram framboðinu. Höfuðborgin hefur alls ekki staðið sig undanfarin áratug í framboði á lóðum heldur einblínt á þéttingu byggðar og því fer sem fer. Vaxtasvæði í kringum höfuðborgina hefur staðið sig betur með að bregðast við eftirspurninni. Nágrannalönd okkar nota aðrar forsendur við útreikninga verðbólgu og þar sem húsnæðismarkaðurinn er lítill og auðhreyfður verðum við í alvöru að skoða hvort ekki sé komin tími til að horfa fram hjá honum.

Nú þegar vorar verðum við að líta til sólar. Stjórnvöld hafa borið gæfu til að leggja fram efnahagslegar mótvægisaðgerðir til að minnka þau efnahagslegu áhrif sem heimsfaraldurinn hefur hrundið af stað. Mótvægisaðgerðir eru komnar á þriðja tug. Nú þurfum við enn frekar að horfa til fjölskyldna í landinu.

Afnemum húsnæðisliðinn úr vísitölunni.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. febrúar 2022.

Categories
Fréttir

Þjóðin er að þyngjast með tilheyrandi fylgikvillum

Deila grein

03/02/2022

Þjóðin er að þyngjast með tilheyrandi fylgikvillum

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, ræddi notkun á blóðsykurslækkandi lyfjum í störfum þingsins á Alþingi. Fleiri og fleiri einstaklingar eru að greinast með sykursýki 2 og eru lyf notuð í auknum mæli til að meðhöndla sykursýki 2 og hefur fjöldi notenda nærri tvöfaldast frá árinu 2015. Þá voru þeir nærri 9.000 en eru orðnir meira en 16.000 árið 2021.

„Allt of oft erum við að bregðast við afleiðingum í stað þess að einbeita okkur frekar að forvörnum. Rannsóknir sýna okkur að fjölgun sykursjúkra hér á landi er sambærileg Bandaríkjunum fyrir 20 árum síðan. Innlendar rannsóknir hafa einnig sýnt að aukning á sykursýki dreifist yfir allan aldur fullorðinna og eykst hjá báðum kynjum,“ sagði Ingibjörg.

„Lyf og inngrip með skurðaðgerðum mega ekki vera fyrsti valkostur. Við þurfum að mæta fólki af virðingu og fordómaleysi og veita þeim þá þjónustu og stuðning sem það þarf til að ná markmiðum sínum. Þá þurfum við sem þjóð að líta í eigin barm. Hvað er það sem veldur því að þjóðin er að þyngjast með tilheyrandi fylgikvillum? Það er mikilvægt að heilsuefling og bætt lýðheilsa fái stuðning frá stjórnvöldum og heilbrigðisþjónustan, þá sérstaklega heilsugæslan, taki áfram virkan þátt í því starfi,“ sagði Ingibjörg.

Categories
Greinar

Fjölbreytni í sveitarstjórnum

Deila grein

02/02/2022

Fjölbreytni í sveitarstjórnum

Þann 14. maí nk. verður kosið til sveitarstjórna í landinu. Í dag eru nærri 70 sveitarfélög í landinu, og þau eru grundvallareining í stjórnskipan landsins. Stjórnsýsla þeirra er mikilvæg í lýðræðislegri ákvörðun um grunnþjónustu í nærsamfélagi íbúa landsins. Það er því gríðarlega mikilvægt hverju sveitarfélagi að sveitastjórnin endurspegli sem best íbúasamsetningu þess.

Í núgildandi byggðaáætlun kemur fram mikilvægi þess að auka þátttöku kvenna í sveitarstjórnum og að það þurfi að hvetja konur til þátttöku. Í aðgerðaráætlun með byggðaáætlun er lögð áhersla á þennan þátt með því að fara í fræðslu- og auglýsingaherferð með þetta að markmiði.

Hver er staðan?

Eftir síðustu sveitastjórnarkosningar var niðurstaðan ásættanleg því að 47% sveitarstjórnarfólks voru konur og hefur það aldrei verið hærra. Það er brýnt að viðhalda þeirri skiptingu í komandi kosningum.

Listar endurspegli fjölbreytni

Kvenréttindafélag Íslands, Innviðaráðuneytið, Fjölmenningasetrið og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa hrint á stað framtaki sem kallast Játak. Játak vekur athygli íbúa sveitarfélaga og þeim sem fara í forsvari til þess að huga að fjölbreytni og að standa vörð um rétt allra kynja og að komandi listar til framboðs í komandi sveitarfélögum spanni litróf mannlífsins í viðkomandi sveitarfélagi. Einnig þarf að huga að dreifingu fulltrúa í fjölkjarnasveitarfélögum.

Við erum svo heppin að mannlífið er fjölbreytt um allt land. Til þess að nýta kraftinn og sköpunargleðina sem felst í því þarf að tryggja það að þessi atriði skila sér að ákvarðanatöku innan stjórnsýslu sveitarfélagsins. Ef þess er ekki gætt fer fljótt að gæta togstreitu mismunandi skoðana og hætt er á að samkeppnisstaða samfélagsins verði ekki eins kröftug og ella. Það er jú vilji allra sveitarfélaga að fólk vilji og geti þrifist í samfélaginu.

Af hverju að taka þátt?

Viltu hafa áhrif á samfélagið þitt? Hefur þú hugmyndir og sýn um uppbyggingu og tækifæri sveitafélagsins? Sveitarstjórnir og nefndir þess eru einmitt vettvangurinn til þess. Það fylgir því mikil ábyrgð að taka þátt í stjórnmálum, en það getur líka verið ótrúlega gaman.

Ef þú hefur áhuga þá hvetjum við þig til að íhuga framboð.

Ef þú situr í uppstillinganefnd eða hyggst kjósa í prófkjöri þá hvetjum við þig til að huga að fjölbreytni á lista.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, eru þingmenn Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist í Bæjarins besta 2. febrúar 2022.