Categories
Fréttir Greinar

Atlantshafsbandalagið í 75 ár og varnarmálastefna fyrir Ísland

Deila grein

13/07/2024

Atlantshafsbandalagið í 75 ár og varnarmálastefna fyrir Ísland

Eitt það mik­il­væg­asta í líf­inu er góð vinátta, sem reyn­ist traust þegar á reyn­ir. Við kynn­umst mik­il­vægi vináttu strax í bernsku og vit­um líka að brýnt er að velja vini gaum­gæfi­lega. Atlants­hafs­banda­lagið er varn­ar­banda­lag vinaþjóða sem aðhyll­ast lýðræði og frelsi. Í ár fögn­um við 80 ára lýðveldi Íslands og get­um litið stolt yfir far­inn veg, en það er ekki að ósekju held­ur hafa far­sæl­ar ákv­arðanir sem tekn­ar voru á fyrstu árum lýðveld­is­ins varðað þá veg­ferð. Ein giftu­rík­asta ákvörðun lýðveld­is­tím­ans var tek­in á Alþingi hinn 30. mars 1949 um að Ísland skyldi ger­ast stofnaðili Atlants­hafs­banda­lags­ins. Þáver­andi for­sæt­is­ráðherra, Bjarni Bene­dikts­son, und­ir­ritaði síðan stofn­sátt­mála þess í Washingt­on DC fimm dög­um síðar, hinn 4. apríl, ásamt 11 öðrum þjóðarleiðtog­um.

75 ára far­sælt varn­ar­banda­lag

Ákvörðunin var um­deild á sín­um tíma og þótti sum­um ekki sjálfsagt á upp­hafs­ár­um kalda stríðsins að Ísland tæki jafn­skýra af­stöðu til þess að skipa sér í sveit annarra vest­rænna lýðræðis­ríkja með þeim skuld­bind­ing­um sem því fylgja. Það var hins veg­ar hár­rétt ákvörðun fyr­ir herlausa þjóð að mynda banda­lag með ríkj­um sem voru til­bú­in að verja Ísland ef aft­ur kæmi til átaka, og að sama skapi tryggja banda­lagsþjóðum aðstöðu á hernaðarlega mik­il­vægri legu Íslands í Norður-Atlants­haf­inu. Fimmta grein stofn­sátt­mála Atlants­hafs­banda­lags­ins um að árás á eitt aðild­ar­ríki sé árás á þau öll fel­ur í sér afar mik­il­væga vörn og fæl­ing­ar­mátt. Til allr­ar ham­ingju hafa ekki orðið átök né stríð gegn aðild­ar­ríkj­um Atlants­hafs­banda­lags­ins í 75 ár af því tagi sem ein­kenndu fyrri hluta tutt­ug­ustu ald­ar og er ég ekki í nokkr­um vafa um að sam­vinna þess­ara ríkja hafi stuðlað að friði og vel­sæld í Evr­ópu. Aðild­ar­ríki Atlants­hafs­banda­lags­ins eru orðin 32 og rík­ur vilji er hjá fleiri ríkj­um til aðild­ar.

Skelfi­legt árás­ar­stríð í Evr­ópu og stækk­un Atlants­hafs­banda­lags­ins

Hræðilegt stríð geis­ar í Úkraínu og verður vá­legra með degi hverj­um. Tugþúsund­ir hafa fallið og millj­ón­ir eru á flótta um alla Evr­ópu. Hjörtu manna um alla ver­öld haga sér eins í gleði og sorg og er eng­um blöðum um það að fletta að harm­ur úkraínsku þjóðar­inn­ar er mik­ill. Ísland hef­ur tekið á móti yfir fjög­ur þúsund ein­stak­ling­um frá Úkraínu og er það vel. Þetta stríð er áminn­ing um mik­il­væg þess að standa vörð um gildi lýðræðis­ins, sem eru því miður ekki sjálf­sögð víða um heim. Ég hef þá trú að því fleiri ríki sem aðhyll­ist frelsi og lýðræði, því betra fyr­ir frið um all­an heim. Ófriður og stríð bitna ætíð verst á sak­laus­um borg­ur­um og svipta ungt fólk æsku sinni og sól­ar­sýn. Meg­inþung­inn þarf að vera á að koma á sann­gjörn­um friði sem fyrst og koma í veg fyr­ir stig­mögn­un átaka. Í raun og sann hef­ur Rúss­land það í hendi sér. Rúss­land hóf þetta stríð og get­ur lokið því hvenær sem er með því að hætta árás­um og draga herlið sitt til baka en því miður er fátt sem bend­ir til þess að sú leið verði val­in á þess­ari stundu. Atlants­hafs­banda­lagið hef­ur stutt við Úkraínu í átök­un­um við Rúss­land. Stjórn­völd í Úkraínu hafa ít­rekað lýst yfir áhuga á að verða aðild­ar­ríki banda­lags­ins. Það er afar skilj­an­legt og er nauðsyn­legt að vinna að út­færslu á því. Aðild­ar­ríkj­um Atlants­hafs­banda­lags­ins hef­ur fjölgað á und­an­förn­um ára­tug­um í kjöl­far falls hins ill­ræmda járntjalds. Nú síðast bætt­ust við Finn­land og Svíþjóð í kjöl­far árás­ar Rúss­lands á Úkraínu, aðild þess­ara ríkja er sögu­leg og þótti nán­ast óhugs­andi fyr­ir nokkr­um árum. Raun­sætt end­ur­mat á stöðu ör­ygg­is­mála í Evr­ópu varð til þess að rík­in tvö ákváðu að sækja um um aðild og ganga í banda­lagið með sterk­um póli­tísk­um stuðningi inn­an­lands ásamt því að al­menn­ing­ur í báðum lönd­um fylkti sér á bak við ákvörðun­ina. Á sín­um tíma þótti aðild Nor­egs að banda­lag­inu vera lang­sótt af því að landa­mæri rík­is­ins væru við Rúss­land. Hins veg­ar var það svo að Norðmenn töldu afar vara­samt að hverfa aft­ur til hlut­leys­is­stefnu í ut­an­rík­is­mál­um eft­ir seinni heims­styrj­öld­ina.

Ísland þarf að stíga öld­una

„Hver sá sem ræður yfir Íslandi hef­ur ör­lög Eng­lands, Kan­ada og Banda­ríkj­anna í hendi sér“! Þannig ritaði þýski land­herfræðing­ur­inn Karl Haus­hofer og Winst­on Churchill vitnaði oft í þessi orð til að sann­færa Banda­rík­in um mik­il­vægi þess að taka yfir varn­ir Íslands í seinni heims­styrj­öld­inni. Churchill var sann­færður um að til að tryggja sig­ur banda­manna þyrftu Banda­rík­in að taka þátt og fyrsta skrefið þyrfti að vera að sjá til þess að sjó­leiðin yfir Atlants­hafið væri ör­ugg. Banda­rík­in taka yfir varn­ir Íslands í júlí 1941, áður en form­leg þátt­taka þeirra í seinni heims­styrj­öld­inni varð að veru­leika. Í fram­hald­inu hefst far­sælt sam­starf Banda­ríkj­anna og Íslands sem leiðir svo af sér tví­hliða varn­ar­samn­ing sem und­ir­ritaður var árið 1951 og var sam­komu­lag um fram­kvæmd hans síðast upp­fært 2016. Varn­ar­sam­starfið við Banda­rík­in er lyk­il­stoð í vörn­um Íslands ásamt aðild að Atlants­hafs­banda­lag­inu. Ljóst er í mín­um huga að brýnt er að Ísland sinni þessu sam­starfi af alúð og virðingu. Íslend­ing­ar eru friðsöm þjóð og tala alltaf fyr­ir slíku enda er friður for­senda fram­fara. Að mínu mati er mik­il­vægt að styrkja stoðir okk­ar á vett­vangi Atlants­hafs­banda­lags­ins og móta löngu tíma­bæra varn­ar­mála­stefnu fyr­ir Ísland.

Framtíð Atlants­hafs- banda­lags­ins

Á sama tíma og veiga­mik­ill leiðtoga­fund­ur Atlants­hafs­banda­lags­ins fór fram í höfuðborg Banda­ríkj­anna í vik­unni, var loftið lævi blandið þar sem Rúss­ar hafa staðið fyr­ir mann­skæðum árás­um á Kænug­arð, meðal ann­ars á barna­spítala. Ein af meg­inniður­stöðum fund­ar­ins var að auka stuðning við úkraínsk stjórn­völd og halda bar­átt­unni áfram en ákveðin óvissa er þó uppi vegna banda­rísku for­seta­kosn­ing­anna í haust. Don­ald Trump, f.v. for­seti og fram­bjóðandi, leiðir í flest­um skoðana­könn­un­um og hef­ur hann ít­rekað að Evr­ópu­ríki verði að taka meiri ábyrgð á eig­in vörn­um og ekki gefið skýr skila­boð um áfram­hald­andi stuðning Banda­ríkj­anna við Úkraínu. Lík­legt er að ein­angr­un­ar­sinn­um muni vaxa ásmeg­in, ef Trump sigr­ar í nóv­em­ber. Staðan var ekki ósvipuð hjá fyrr­um for­seta Banda­ríkj­anna, Frank­lin D. Roosevelt, í seinni heims­styrj­öld­inni en þá var lít­ill stuðning­ur við þátt­töku Banda­ríkj­anna í því stríði fram að árás Jap­ana á Pe­arl Har­bor. Þátt­taka Banda­ríkj­anna í seinni heims­styrj­öld­inni skipti sköp­um um að lýðræðis­ríki sigruðu hin fasísku and­lýðræðis­legu öfl sem aft­ur lagði grunn­inn að þeim opnu þjóðfé­lög­um á Vest­ur­lönd­um sem við þekkj­um í dag. Afar brýnt er að framtíð Atlants­hafs­banda­lags­ins sé tryggð til framtíðar enda hef­ur þetta varn­ar­sam­starf sýnt fram á mik­inn ávinn­ing fyr­ir aðild­ar­rík­in. Ísland hef­ur aukið fram­lag sitt á síðustu árum og er það mik­il­vægt fyr­ir ör­yggi og varn­ir lands­ins. Hér þarf þó að gera bet­ur eins og ís­lensk stjórn­völd hafa skuld­bundið sig til, nú síðast á ný­af­stöðnum leiðtoga­fundi í Washingt­on.

Öll þessi upp­rifj­un á sög­unni á þess­um tíma­mót­um er ekki að ástæðulausu held­ur er hún áminn­ing um mik­il­vægi þess að Ísland haldi áfram að skipa sér í sveit með lýðræðis­ríkj­um á vett­vangi Atlants­hafs­banda­lags­ins. Á þess­um tíma­mót­um er viðeig­andi að rifja upp forna speki Há­va­mála:

Vin sín­um
skal maður vin­ur vera,
þeim og þess vin.
En óvin­ar síns
skyldi engi maður
vin­ar vin­ur vera.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. júlí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Árið er 2024

Deila grein

09/07/2024

Árið er 2024

Í síðustu viku birtist grein með yfirskriftinni „Árið er 1990“ frá Rebekku Hilmarsdóttur á Patreksfirði. Þar er fullyrt að upplifun á ástandi vega á Vestfjörðum og Vesturlandi séu enn í dag í því ástandi og var á árinu 1990, eða fyrir aldarfjórðung.

Rebekka talar um að í boði séu margar gerðir að vegum, það er rétt. Ef við fylgjum þjóðvegi nr.1 frá Hvalfjarðargöngum, beygjum inn á á þjóðveg 60 og tökum hringveginn á Vestfjörðum þá eru það allt frá malbikuðum vegum, vegir lagðir klæðningu, vegir sem voru klæddir en hafa verið afklæddir og upprunalegir malarvegir sem ætti frekar að friða en keyra og allt kerfið kemur fyrir í margvíslegu ástandi.

En það verður varla sagt að sama staða sé á vegakerfinu á Vestfjörðum eins og það var árið 1990 þegar allur hringvegurinn á Vestfjörðum var malarvegur. Síðan eru liðin mörg ár og margar smáar og stórar framkvæmdir verið í gangi, eins og þrenn jarðgöng og þau síðustu opnuð árið 2020. Það voru stórtíðindi árið 2009 þegar hægt var að keyra á bundnu slitlagi frá Reykjavík um Djúp til Bolungarvíkur, já ! það var ekki fyrr en þá. Þeir sem ferðast frá Reykjavík í Vesturbyggð eiga enn eftir að upplífa það sama.

Undanfarin ár hafa miklar framkvæmdir verið í gangi. Uppbygging vega í Vatnsfirði og Kjálkafirði á öðrum áratugnum og endurbygging og breikkun vega í Hestfirði, Seyðisfirði og í botni Álftafjarðar lauk árið 2021, svo bara sé talað um stórar framkvæmdir.

Í samþykktri samgönguáætlun árið 2020 var lögð sérstök áhersla á vegaframkvæmdir á Vestfjörðum og þá sérstaklega framkvæmdum á sunnanverðum Vestfjörðum. Dýrafjarðargöng voru opnuð á því ári og horft var á að halda áfram vegabótum á sunnanverðum fjórðungnum. Vegbætur á Dynjandisheiðinni áttu að standa fram á árið 2025. Þá væri þessum hring lokið. Það má nefna fleiri verkefni á fyrrnefndri leið eins og framkvæmdir við breikkun vegar á Vesturlandsvegi. Framkvæmdir við vegabætur í Gufudalssveit eru í gangi þar sem unnið er að fyllingum að brúm í tveimur fjörðum.

Það er rétt að mörgum dempurum og dekkjaskiptum síðar er óvissa um að markmiðinu verði náð á tiltækum tíma, en markmið gildandi samgönguáætlunar eru enn í fullu gildi.

Samkeppnisfærir vegir

Þrátt fyrir nokkur áföll og töfum við Teigskóg, þá hefur þetta gengið nokkuð vel en er ekki lokið. Eftir er að setja tvær brýr yfir Djúpafjörð og Gufufjörð í útboð og síðasti kafli Dynjandisheiðarinnar er ekki kominn í útboð. Heiðinni var skipt upp í þrjá áfanga og er tveimur að ljúka. Í þessum rituðu orðum er verið að leggja bundið slitlag á annan kaflann og gengið hefur verið til samninga við Suðurverk um að halda áfram með 900 m. og þá er 6 km kafli eftir. Þeir 6. km eru síðan 1959 og ættu fyrir löngu að heyra sögunni til sem og Ódrjúgsháls, þessir kaflar eru frá dögum svart hvítu kvikmyndanna og ef ekki þeirra þöglu.

En þegar fyrrgreindum markmiðum verður náð gætum við farið að tala um samkeppnisfæra vegi við aðra landshluta, eða hvað? Eru vegir á Snæfellsnesi, Vesturlandi og Norðurlandi eitthvað sem við viljum bera okkur saman við? Vestfirðingar eiga stoltir að krefjast nútíma vega, við eigum það inni og fleiri vegakafla má nefna eins og á milli þéttbýlisstaða í Vesturbyggð.

 Á vormánuðum gáfu sig klæðningar í Dölunum og á Snæfellsnesi vegna álags, þetta eru vegir sem ekki eru gerðir fyrir þá miklu umferð og þungaflutninga sem fara um þá. Þeir vegakaflar hér á Vestfjörðum sem byggðir hafa verið upp á síðasta áratug standast kröfur um vaxandi umferð og þunga og þannig viljum við hafa það um allt land.

Á langri leið

Gildandi samgönguáætlun var samþykkt á vordögum 2020, síðan þá hefur margt gengið á, heimsfaraldur, stríð í Evrópu og eldsumbrot á Reykjanesi, allt þetta hefur sett strik í reikninginn í bókstaflegri merkingu

Samgönguáætlun var lögð fyrir Alþingi á haustdögum 2023. Ekki náðist að samþykkja hana í lok þingsins í vor, þar voru áætlaðir 10.1 ma. kr í vegaframkvæmdir á Vestfjörðum á næstu fjórum árum. Já það eru vonbrigði að ekki náðist að klára hana ! vægast sagt. Nokkrar ástæður lágu þar að baki má þar nefna að stórar framkvæmdir hafa farið mikið framúr  vegna hækkunar á verðlagi. Vinna verkefnastofu um gjaldtöku samvinnuverkefna hefur tekið lengri tíma en áætlað var í upphafi og hefur það áhrif á framkvæmdir á öðrum svæðum en hér um ræðir. Forsendur samgöngusáttmálans á höfuðborgarsvæðinu eru nú til endurskoðunar og var ekki lokið en er á lokametrunum.  Viðhaldsframkvæmdir hafa farið umfram fjárheimildir á síðastliðnum tveimur árum m.a. vegna verðlagshækkana.

Hvenær er verkinu lokið?

Á Íslandi er vegakerfið margþætt og langt. Það verður seint sem við getum sagt að samgöngubótum sé lokið. Það er viðvarandi verkefni og strangt, samfélög breytast og þarfirnar með. Þess vegna eigum við að vera á vaktinni, bæði sem stjórnmálamenn og líka íbúar svæða sem berjast fyrir bættum samgöngum.

Það þarf líka að vera opinn fyrir nýjum leiðum og tækni til að flýta umbótum á vegakerfinu. Nefna má í þessu sambandi að setja á notendagjöld í umferðinni um allt land eins og víðast er gert um allan heim. Það er líka nauðsynlegt að hægt verði að hraða breytingum á notendagjöldum í umferðinni í takt við orkuskiptin og flýtun verkefna. Svo má ylja sér við að ný tækni sem nefnist kyndilborun við jarðgöng verði innan einhvers tíma að veruleika.

Við eigum ekki að gefast upp við verðum að fá þessar framkvæmdir sem skrifað var upp á í samgönguáætlun 2020. Um það getum við öll verðið sammála.

Vegvísir.is – hægt er að fylgjast með stöðu allra samgönguframkvæmda á Vestfjörðum á upplýsingvefnum Vegvísi
https://www.vegvisir.is/kortasja

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Categories
Fréttir Greinar

Auðlegð þjóða

Deila grein

08/07/2024

Auðlegð þjóða

Á und­an­förn­um rúm­um ára­tug hef­ur um­tals­verður ár­ang­ur náðst í efna­hags­mál­um á Íslandi eft­ir högg fjár­mála­áfalls­ins haustið 2008. Aðferðafræði stjórn­valda gagn­vart þrota­bú­um hinna föllnu banka skipti þar sköp­um þar sem rík­is­sjóður Íslands leysti til sín verðmæti upp á hundruð millj­arða króna sem nýtt­ust meðal ann­ars við skulda­leiðrétt­ingu heim­il­anna, upp­bygg­ingu innviða sam­fé­lags­ins og veru­lega lækk­un skulda rík­is­sjóðs. Á sama tíma hef­ur hag­vöxt­ur verið þrótt­mik­ill heilt yfir sem og kaup­mátt­ar­aukn­ing launa.

Í vik­unni birti tíma­ritið The Econom­ist efna­hags­leg­an sam­an­b­urð á milli ríkja heims fyr­ir árið 2023, byggðan á þrem­ur mæli­kvörðum sem tíma­ritið tel­ur að gefi fyllri mynd í slík­um sam­an­b­urði. Þeir eru; lands­fram­leiðsla á mann í banda­ríkja­döl­um, jafn­v­irðismæli­kv­arðinn (e. Purchasing Power Pa­rities, PPP) til að um­reikna lands­fram­leiðslu ein­stakra landa þegar til­lit er tekið til verðlags og lands­fram­leiðslu á hverja vinnu­stund til að mæla af­köst vinnu­afls. Í þess­um sam­an­b­urði tíma­rits­ins er Ísland í 7. sæti á heimsvísu á eft­ir Nor­egi sem leiðir list­ann, Lúx­em­borg, Kat­ar, Belg­íu, Dan­mörku og Sviss. Árang­ur sem þessi er vissu­lega ánægju­leg­ur og er ekki sjálf­sagður, þrátt fyr­ir að það sé vissu­lega rými til þess að gera enn bet­ur.

Þessi staðreynd breyt­ir því ekki að lægri verðbólga er for­gangs­mál efna­hags­stjórn­ar lands­ins um þess­ar mund­ir. Öll sam­an­b­urðarríki Íslands hafa glímt við tals­verða verðbólgu á und­an­förn­um árum, en á tíma­bili mæld­ist verðbólga næst­lægst á Íslandi. Hins veg­ar hef­ur hún reynst þrálát­ari hér á landi en í helstu sam­an­b­urðarríkj­um sem end­ur­spegl­ast meðal ann­ars í háum stýri­vöxt­um Seðlabanka Íslands. Já­kvæð teikn hafa þó verið í verðbólguþró­un­inni en í síðustu mæl­ingu Hag­stof­unn­ar fór hún í fyrsta sinn und­ir 6% í tvö og hálft ár þegar hún mæld­ist 5,8% í júní­mánuði. Traust sam­spil pen­inga­stefnu Seðlabanka Íslands, op­in­berra fjár­mála og aðila vinnu­markaðar­ins er lyk­il­for­senda þess að hægt sé að stuðla að stöðugu verðlagi og skapa skil­yrði fyr­ir lækk­un verðbólgu og vaxta, en það er stærsta ein­staka hags­muna­mál fólks og fyr­ir­tækja í land­inu. Á þeirri veg­ferð hef­ur auk­in for­gangs­röðun í op­in­ber­um fjár­mál­um verið viðhöfð sem kall­ast á við aðgerðir stjórn­valda í þágu lang­tíma­kjara­samn­inga á vinnu­markaði, sem snúa að því að fjár­festa í fólki. Að sama skapi er brýnt að komið verði í veg fyr­ir að kostnaðar­verðbólga á hús­næðismarkaði festi sig í sessi og verði að sjálf­stæðu vanda­máli í ís­lensku hag­kerfi. Þar þurfa um­fangs­mikl­ar aðgerðir á fram­boðshlið hag­kerf­is­ins að raun­ger­ast þar sem nægj­an­legt magn af bygg­ing­ar­hæf­um lóðum til hraðrar upp­bygg­ing­ar þarf að vera til staðar – sam­hliða bættu fjár­mögn­un­ar­um­hverfi sem lægra vaxta­stig myndi leiða af sér.

Þrátt fyr­ir að hægst hafi á hag­kerf­inu á und­an­förn­um mánuðum er staða Íslands samt sem áður sterk í alþjóðleg­um sam­an­b­urði. Stjórn­völd þurfa samt sem áður að vera enn frek­ar á tán­um til að tryggja að ár­ang­ur þeirra aðgerða sem ráðist hef­ur verið í raun­ger­ist og skili sér til fólks og fyr­ir­tækja í land­inu. Með dugnaði, elju og hug­viti mun okk­ar farn­ast vel til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júlí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Afkastamikill þingvetur að baki

Deila grein

29/06/2024

Afkastamikill þingvetur að baki

Þinglok urðu á 154. lög­gjaf­arþingi Alþing­is um síðustu helgi. Þar með lauk viðburðarík­um þing­vetri þar sem fjöl­mörg mál komu til kasta lög­gjaf­ans. Sem menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra lagði ég fram 11 frum­vörp og þings­álykt­un­ar­til­lög­ur sem voru af­greidd. Má þar til dæm­is nefna þings­álykt­un­ar­til­lögu um nýja ferðamála­stefnu til árs­ins 2030 sem var samþykkt en með stefn­unni er leiðin fram á við mörkuð til þess að styrkja um­gjörð þess­ar­ar stærstu gjald­eyr­is­skap­andi at­vinnu­grein­ar þjóðarbús­ins. Stjórn­völd eru staðráðin í styðja við þróun ferðaþjón­ust­unn­ar hér á landi, stuðla að sam­keppn­is­hæfni henn­ar og tryggja að hún vaxi í sátt við nátt­úru og menn. Þá samþykkti Alþingi einnig þings­álykt­un­ar­til­lög­ur mín­ar um aðgerðaáætl­un í mál­efn­um ís­lenskr­ar tungu og nýja mál­stefnu um ís­lenskt tákn­mál sem mun stuðla að auk­inni framþróun þess. Íslensk­an hef­ur mikið verið til umræðu á und­an­förn­um miss­er­um sem er fagnaðarefni. Það ligg­ur fyr­ir að tungu­málið okk­ar stend­ur frammi fyr­ir áskor­un­um af áður óþekktri stærð sem bregðast verður við með skipu­lögðum hætti.

Ýmsar laga­breyt­ing­ar urðu að veru­leika á sviði viðskipta­mála eins og til dæm­is breyt­ing­ar á lög­um um sam­vinnu­fé­lög sem snúa að því að ein­falda stofn­un sam­vinnu­fé­laga, þannig að lág­marks­fjöldi stofn­enda sam­vinnu­fé­laga fari úr 15 í þrjá og tryggja að eign­um sam­vinnu­fé­laga verði út­deilt til upp­bygg­ing­ar á starfs­svæðum þeirra komið til slita á fé­lög­un­um. Hert var á lög­um um rekstr­ar­leyf­is­skylda gisti­starf­semi þannig að hún skuli vera í samþykktu at­vinnu­hús­næði. Því er ekki leng­ur heim­ilt að gefa út leyfi til rekst­urs gisti­staða í íbúðar­hús­næði. Með breyt­ing­un­um er ekki leng­ur hægt að kaupa íbúðar­hús­næði í þétt­býli og gera það út sem gisti­stað um­fram 90 daga regl­una líkt og gerst hef­ur í miðborg­inni þar sem jafn­vel heilu íbúðablokk­irn­ar hafa breyst í hót­el. Með tím­an­um mun breyt­ing­in auka fram­boð af íbúðar­hús­næði í þétt­býli. Með breyt­ing­um á kvik­mynda­lög­um var tryggð heim­ild fyr­ir nýj­um styrkja­flokki inn­an Kvik­mynda­sjóðs til loka­fjár­mögn­un­ar á um­fangs­mikl­um leikn­um sjón­varpsþáttaröðum. Þannig verður mögu­legt að fjár­magna síðustu 15-20% í fram­leiðslu á stór­um leikn­um sjón­varpsþátt­um og fá hluta styrks­ins aft­ur inn til Kvik­mynda­sjóðs, skili verk­efnið hagnaði sam­kvæmt sett­um viðmiðum styrks­ins. Tíma­bær­ar breyt­ing­ar á lög­um um lista­manna­laun voru samþykkt­ar en fjöldi lista­manna­launa hef­ur staðið óbreytt­ur í 15 ár. Með breyt­ing­un­um verður um­fang lista­manna­launa aukið um 55% á fjór­um árum sem mun gefa fleiri lista­mönn­um tæki­færi til að efla ís­lenska menn­ingu, meðal ann­ars með tveim­ur nýj­um sjóðum; Launa­sjóði kvik­mynda­höf­unda og Veg­semd, sjóði lista­manna 67 ára og eldri.

Það er ánægju­legt og gef­andi að vinna mála­flokk­um menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins braut­ar­gengi en mál­efna­svið ráðuneyt­is­ins eru um­fangs­mik­il og snerta þjóðar­hag með fjöl­breytt­um hætti. Inn­an ráðuneyt­is­ins er und­ir­bún­ing­ur að mál­um næsta þing­vetr­ar þegar haf­inn, mál­um er verður er ætlað að gera gott sam­fé­lag enn betra.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. júní 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Nýr tækni­skóli rís við Flensborgarhöfn í Hafnar­firði

Deila grein

29/06/2024

Nýr tækni­skóli rís við Flensborgarhöfn í Hafnar­firði

Það má segja að vegferðin hafi farið af stað sumarið 2021 þegar viljayfirlýsing um framtíðarhúsnæði Tækniskólans var undirrituð hér í Hafnarfirði, m.a. af þáverandi menntamálaráðherra. Það var því stór stund í Hafnarfirði síðastliðinn fimmtudag þegar stjórnvöld, Hafnarfjarðarbær og Tækniskólinn undirrituðu skuldbindandi samkomulag þess efnis að nýr Tækniskóli verði staðsettur í Hafnarfirði og verkefnið fari nú af stað af fullum krafti í samræmi við stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.

Vinna verkefnisstjórnar

Núverandi mennta- og barnamálaráðherra skipað verkefnisstjórn um framtíðarhúsnæði Tækniskólans sem skipuð var fulltrúum þeirra ráðuneyta sem hafa haft aðkomu að málum; forsætisráðuneytinu, mennta- og barnamálaráðuneytinun og fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Hafnarfjarðarbæ og fulltrúum Tækniskólans. Verkefnisstjórnin skilaði af sér fyrir ári síðan og frá þeim tíma hefur verið unnið í samræmi við þá áætlun sem lagt var upp með. Það má því segja að afrakstur mikillar vinnu síðustu ára sé nú að koma í ljós og ánægjulegt að sjá raungerast.

Ég er þakklátur mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, fyrir að hafa treyst mér fyrir því að leiða verkefnisstjórn um þetta mikilvæga verkefni sem skilar svo þessari niðurstöðu. Hann hefur haft mikla trú á verkefninu frá upphafi og fylgt því fast eftir.

Þörf á nýju húsnæði fyrir Tækniskólann

Hér er um risavaxið skref í eflingu verk- og starfsnáms í landinu að ræða og hefur það verið forgangsverkefni menntamálaráðherra og Framsóknar á kjörtímabilinu. Ljóst er eftirspurnin er til staðar, bæði meðal nemenda og atvinnulífsins og því ánægjulegt að við stígum þetta mikilvæga skref til að mæta þeirri þörf og svara því ákalli sem við heyrum svo skýrt. Tækniskólinn er einn af burðarásum iðn-, starfs- og tæknináms á höfuðborgarsvæðinu og býr nú við húsakost sem er kominn til ára sinna. Í dag fer starfsemi skólans fram í átta byggingum á fimm stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Bygging nýs Tækniskóla markar því umbyltingu í aðstöðu til iðn-, starfs- og tæknináms á höfuðborgarsvæðinu. Hér er markmiðið skýrt; hér á að efla námið og aðstöðu, koma allri starfseminni fyrir á einum stað, bregðast við aukinni eftirspurn eftir náminu og mæta þörfum atvinnulífsins. Nú hefst undirbúningur við hönnun og framkvæmdir með áætluð verklok haustið 2029.

Ekkert gerist af sjálfu sér – mikil samgöngubót

Ég hef lengi talað við fyrir því að opinberum stofnunum, skólum og stórum vinnustöðum sé dreift með skynsamlegum hætti um landið. Það er gamaldags hugsun að halda að allt þurfi að staðsetja í miðborg Reykjavíkur. Við verðum að hætta að keyra alla í sömu átt snemma morguns og til baka seinni part dags. Við þekkjum þetta of vel. Hér er verið að vinna í samræmi við þetta og ég veit að framkvæmd sem þessi mun skipta íbúa á höfuðborgarsvæðinu gríðarlegu máli, svo ég tali nú ekki um nemendur og starfsfólk sem kemur af Suðurnesjum eða annars staðar frá.

Það er líka rétt að vissulega mun bygging og starfsemi sem þessi hafa áhrif á innviði í Hafnarfirði. Ég treysti bæjaryfirvöldum vel til þess að leysa farsællega úr þeim málum, en slíkar áhyggjur mega aldrei draga úr krafti okkar sem berjumst fyrir aukinni uppbyggingu, kröftugu atvinnulífi og betra samfélagi. Nýbygging Tækniskólans í Hafnarfirði er lyftistöng fyrir Hafnarfjörð og því ber að fagna.

Hér er rétt að þakka ráðherrum og öllum öðrum sem að málum hafa komið á einhverju stigi þessa verkefnis. Hér er framsýni í forgrunni og auðvitað ber líka að þakka bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði, bæði núverandi og þeirri sem sat á síðasta kjörtímabili, fyrir staðfestu og stuðning – þvert á flokka. Svona vinnur Framsókn.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar, frv. formaður verkefnisstjórnar um framtíðarhúsnæði Tækniskólans, frv. bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs í Hafnarfirði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 29. júní 2024.

Categories
Fréttir

Öllum tryggt pláss í framhaldsskólum

Deila grein

27/06/2024

Öllum tryggt pláss í framhaldsskólum

Alls bárust 4.677 umsóknir um pláss í framhaldsskólum landsins haustið 2024 en innritun er nú lokið. Allir nýnemar úr grunnskóla sem sóttu um hafa fengið inngöngu. Þannig var hægt að samþykkja allar umsóknir þeirra í verknám en á undanförnum árum hefur þurft að vísa stórum hluta frá vegna skorts á aðstöðu og kennurum.

Mennta- og barnamálaráðuneytið, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og framhaldsskólar hafa lagt höfuðáherslu á að koma öllum nýnemum úr grunnskóla að á haustönn. Unnið hefur verið að auknu námsframboði framhaldsskóla til að koma til móts við fjölbreyttan nemendahóp s.s. aukinn fjölda nemenda á starfsbrautum, í verknámi eða með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

„Með góðu samstarfi framhaldskólanna og Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu hefur tekist að innrita alla nýnema úr grunnskóla í framhaldsskóla. Það er mikill áfangi og vil ég þakka okkar öfluga skólafólki fyrir að svara ákallinu. Það er sérstakt ánægjuefni að sjá að skólakerfið okkar getur tekið við öllum nýnemum í verknám en það hefur einmitt verið eitt af stefnumálum ríkisstjórnarinnar,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

FramhaldsskóliVal 1Val 2AllsInnritaðir nemendur
Tækniskólinn441392833383
Kvennaskólinn í Reykjavík308403711212
Verzlunarskóli Íslands522161683370
Menntaskólinn í Kópavogi312349661264
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ251367618200
Menntaskólinn í Reykjavík272276548270
Menntaskólinn við Sund209269478243
Borgarholtsskóli219245464292
Verkmenntaskólinn á Akureyri204209413218
Menntaskólinn við Hamrahlíð210196406231
Flensborgarskólinn í Hafnarfirði167235402188
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti152247399238
Menntaskólinn á Akureyri190124314174
Fjölbrautaskóli Suðurnesja25354307261
Fjölbrautaskóli Suðurlands24459303260
Fjölbrautaskólinn við Ármúla92168260194
Fjölbrautaskóli Vesturlands11131142114
Menntaskólinn að Laugarvatni685712556
Fjölbrautaskóli Norðurlands Vestra753010575
Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ37559262
Menntaskóli Borgarfjarðar31447533
Menntaskólinn á Ísafirði61137464
Menntaskólinn á Egilsstöðum49247351
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum5525756
Framhaldsskólinn á Laugum19355420
Verkmenntaskóli Austurlands32225433
Fjölbrautaskóli Snæfellinga2783527
Menntaskólinn á Tröllaskaga11172812
Framhaldsskólinn á Húsavík1952419
Menntaskóli í tónlist1682414
Framhaldsskólinn í A-Skaftafellssýslu1932219

84,5% nemenda komast inn í þann skóla sem þeir sóttu um sem fyrsta val á meðan 11,8% fá pláss í þeim skóla sem þeir völdu sem annað val. Alltaf eru einhverjir nemendur sem fá ekki inngöngu í annan af þeim skólum sem sótt var um en þeim er þá úthlutað plássi í þriðja skóla. Þetta árið eru það 3,7% umsækjenda.

Skipting milli starfsnáms og bóknáms er með svipuðu sniði og undanfarin ár en alls munu 17,6% nemenda innritast í starfsnám næsta haust. Flestar umsóknir bárust Tækniskólanum en heildarfjölda umsókna í hvern skóla, ásamt úthlutuðum plássum má sjá í eftirfarandi töflu:

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir Greinar

Árangurs­ríkur þingvetur skilar sam­fé­laginu í rétta átt

Deila grein

26/06/2024

Árangurs­ríkur þingvetur skilar sam­fé­laginu í rétta átt

Á Íslandi er gott að búa og hér höfum við byggt upp öflugt velferðarsamfélag; samfélag sem gefur atvinnulífi og einstaklingum súrefni til að vaxa og dafna, samhliða því að styðja við barnafjölskyldur og þá hópa sem höllum fæti standa. Um það sjást augljós merki nú við þinglok. Hér á landi er meiri hagvöxtur en í nágrannaríkjunum, atvinnustig er sterkt og hér hefur verið vaxandi kaupmáttur heimilanna ár eftir ár. Allt skiptir þetta máli og þegar ég horfi á stóru myndina er ég stoltur af okkar góða samfélagi sem hefur vissulega þurft að glíma við áskoranir síðustu misseri líkt og samfélög um heim allan.

Verjum lífskjör og velferð

Utanaðkomandi þættir sem við höfum litla sem enga stjórn á hafa haft óvenju mikil áhrif á okkar daglega líf. Verkefni stjórnvalda er að bregðast við með skynsamlegum aðgerðum sem miða að því að milda áhrifin á samfélagið og létta þeim byrðar sem þyngstar bera nú um stundir.

Hér ætla ég að nefna sérstaklega nýgerða langtímakjarasamninga. Þeir auka á fyrirsjáanleika þar sem markmiðið er að ná niður vöxtum og verðbólgu samhliða því að verja lífskjör og velferð hér á landi. Við gerð þessara samninga var lögð sérstök áhersla á vaxandi velsæld og stuðning við barnafjölskyldur, t.a.m. með gjaldfrjálsum skólamáltíðum og hækkun barnabóta, sérstökum vaxtastuðningi og stuðningi við leigjendur ásamt hærri fæðingarorlofsgreiðslum. Fyrir þessum raunverulegu aðgerðum hefur fólk fundið.

Fjárhagsleg staða eldri borgara á Íslandi er almennt sterk og hafa kjör hópsins batnað umtalsvert síðastliðinn áratug. Gildir það hvort sem litið er til tekna, kaupmáttar eða eigna- og skuldastöðu. Kjör hópsins á ýmsum sviðum hafa batnað umfram yngri aldurshópa. Samhliða hafa útgjöld almannatrygginga til eldri borgara aukist verulega. Kaupmáttur 67 ára og eldri hefur undanfarinn áratug vaxið um að jafnaði tæplega 4% á ári. Sömuleiðis hafa útgjöld ríkisins til málefna aldraðra aukist um 25% að raunvirði frá árinu 2017 og um 91% frá árinu 2014.

Margar jákvæðar fréttir

Markvisst hefur verið unnið að því að tryggja öllum landsmönnum aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Eftir áralangt samningsleysi hefur nú verið samið við sérgreinalækna, sjúkraþjálfara og tannlækna. Með þessum samningum lækkar greiðsluþátttaka einstaklinga sem hefur hækkað jafnt og þétt í samningsleysinu. Að draga úr greiðsluþátttöku almennings við heilbrigðisþjónustu er liður í því að jafna aðgengi að þjónustunni óháð efnahag. Á þeim forsendum var styrkur til almennra tannréttinga tæplega þrefaldaður og hækkaði úr 150 þúsund krónum í 430 þúsund krónur þann 1. september síðastliðinn. Við breytinguna lækkar kostnaðarþátttaka almennings í almennum tannréttingum um 500 milljónir á ári.

Risastór skref hafa verið tekin á þessu kjörtímabili í þágu menningar í landinu. Það hefur sýnt sig að ógrynni tækifæra felast í því að efla kvikmyndaframleiðslu á Íslandi. Verkefni af þessum toga eru atvinnu- og gjaldeyrisskapandi og landið öðlast kynningu erlendis sem getur skilað sér í jákvæðari ímynd og auknum gjaldeyristekjum vegna komu ferðamanna hingað til lands. Það er morgunljóst að stuðningur við listir og skapandi greinar skilar sér margfalt til baka til samfélagsins.

Áfram er unnið að því að efla verk- og starfsnám. Samfélagið hefur tekið miklum breytingum síðustu ár og atvinnulífið kallar á slíka menntun. Mennta- og barnamálaráðherra hefur af því tilefni lagt ríka áherslu á uppbyggingu verk- og starfsnámsaðstöðu og stefnt er að byggja 12.000 fm fyrir námið um land allt auk þess sem nýr Tækniskóli mun rísa í Hafnarfirði.

Lífeyrissjóðir og heilbrigður leigumarkaður

Alþingi samþykkti nú fyrir þinglok breytingar á ákvæðum um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða. Þar er lagt til að heimila lífeyrissjóðum að fjárfesta hluta eignasafns síns í félögum sem hafa það að meginstarfsemi að leigja út íbúðarhúsnæði til einstaklinga og til viðbótar að þeim verði heimilt að eiga stærri hlut en 20% í hverju leigufélagi sem hefur þá meginstarfsemi að leigja út íbúðarhúsnæði til langs tíma til einstaklinga. Hlutur hvers lífeyrissjóðs má þó ekki vera stærri en 50% í slíku félagi.

Ég hef á undanförnum árum skrifað fjölmargar greinar um stöðuna á húsnæðismarkaði og komið með tillögur að aðgerðum sem ég hef talið nauðsynlegt að ráðast í. Ein af þeim tillögum er meðal annars að auðvelda lífeyrissjóðum að fjárfesta í leigufélögum sem ég tel bæði mjög skynsamlega og brýna aðgerð á þeirri vegferð að byggja upp heilbrigðari leigumarkað en hér hefur verið til staðar með meira öryggi og fyrirsjáanleika fyrir fólk.

Það var því sérstaklega ánægjulegt að vera framsögumaður á þessu mikilvæga máli og að um málið hafi verið samstaða, þvert á flokka, í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Það skiptir máli, enda skref í rétta átt.

Við höfum enn verk að vinna

Verðbólga hefur lækkað, en hún er enn of há. Það verður áfram verkefni okkar stjórnmálamanna þar sem við þurfum að halda áfram að vinna að því að ná henni enn frekar niður með skynsamlegum og raunhæfum aðgerðum. Við getum í því sambandi nefnt stöðuna á húsnæðismarkaði, en þar eru að mínu mati áskoranir sem hægt er að leysa hratt og örugglega sé viljinn til staðar. Þar þurfa ríki og sveitarfélög að taka höndum saman – af mun meiri krafti og festu en hingað til. Hér þarf að halda áfram þeim góðu opinberu aðgerðum stjórnvalda til að tryggja nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði, en jafnframt skapa umhverfi svo fýsilegt sé fyrir framkvæmdaaðila á almennum markaði að byggja húsnæði.

Fólki á Íslandi er að fjölga hratt og það er fyrirséð að hér þurfi að byggja meira. Við vorum á réttri leið, en það hefur komið bakslag á síðustu árum og það má helst rekja til skorts á byggingarhæfum lóðum á nýjum svæðum. Þar hefur höfuðborgin á vakt Samfylkingarinnar borið mesta ábyrgð. Seðlabankinn hefur boðið upp á eitraðan kokteil með sinni stefnu. Hátt vaxtastig sem meðal annars eykur kostnað við byggingu húsnæðis og dregur úr vilja framkvæmdaaðila og hert lánþegaskilyrði sem torvelda kaupendum að stíga skref inn á fasteignamarkaðinn. Þannig hefur verið hlaðið í snjóhengju kynslóða sem bíða eftir tækifæri til að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Þvert á það sem þörf er á.

Að lokum

Við höfum þann eiginleika að vera tiltölulega bjartsýn þjóð. Við búum í góðu samfélagi og ég hef hér farið yfir margar góðar aðgerðir en líka þá hlið þar sem við þurfum að gera betur. Það er hægt. Við skulum tala samfélagið okkar upp, en ekki niður.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Categories
Fréttir

Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

Deila grein

25/06/2024

Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

Kæru félagar! 154 löggjafarþingi lauk rétt eftir miðnætti sl. laugardag og þingfundum frestað til 10. september. Þessi þingvetur var afkastamikill og fjölmörg frumvörp voru samþykkt á lokasprettinum. Við höfum tekið saman yfirlit yfir samþykkt stjórnarmál frá ráðherrum okkar sem má nálgast hér.  

Í fyrsta sinn er mörkuð langtímastefna í húsnæðismálum, þar sem jafnframt er stuðlað að skilvirkari og bættri stjórnsýslu. Öllum á að vera tryggt aðgengi að góðu og öruggu húsnæði með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði sem hentar ólíkum þörfum hvers og eins.  

Alþingi samþykkti breytingu á listamannalaunum, fjölgun launasjóða sem starfslaun eru veitt úr og fjölgun árlegra úthlutunarmánaða. Starfslaunamánuðum verður fjölgað úr 1.600 í 2.490 á 4 árum. Einnig verða til tveir nýir sjóðir; Launasjóði kvikmyndahöfunda og Vegsemd, sjóður listamanna 67 ára og eldri. „Ég er ákaflega glöð með að samstarfsfólk mitt í þinginu hafi séð tækifærin sem felast í því að fjárfesta í listafólkinu okkar. Það gleymist oft í þessari umræðu að listir auðga ekki bara andann heldur eru þær líka tekjulind,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.  

Eins voru á  Alþingi samþykkt viðamikil mál s.s. um sölu ríkiseigna, breytt lög um örorkulífeyri, auknar heimildir lögreglu til rannsókna og mannréttindamál. Lögum um örorkulífeyri var breytt með áherslu á sérstaka hvata fyrir lífeyrisþega til atvinnuþátttöku, aukinn stuðningur við fólk í endurhæfingu og hærri lífeyrisgreiðslur. Mannréttindastofnun Íslands verður sett á fót sem sjálfstæð stofnun beint undir Alþingi. Samþykkt voru lög um gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum með framlagi úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga og hertar reglur vegna notkunar rafhlaupahjóla m.a. varðandi aldurstakmark á notkun þeirra.  

Það er að mörgu að taka og til þess að fara enn betur yfir málin og svara spurningum sem eflaust brenna á ykkur varðandi hin ýmsu mál boðum við í þingflokknum til fundar með flokksfólki á Teams nk. fimmtudag, 27. júní, kl. 20.00. Á fundinum förum við yfir þinglokin og hvað stendur út af borðinu.  

Þeir sem hafa ekki áður tekið þátt í STÖRFUM ÞINGSINS – Samtal þingflokksins við grasrótina verða nauðsynlega að skrá sig hér:

Störf þingsins – Rafrænn fundur

Hlekkur á fundinn verður sendur skömmu fyrir fund.  

Eldhúsdagsumræður á Alþingi fóru fram 12. júní og voru ræðumenn Framsóknar Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Ágúst Bjarni Garðarsson. Ræður þeirra mæltust mjög vel fyrir og sagði Lilja Rannveig m.a.: „Með Framsókn í fararbroddi í íslenskum stjórnmálum hefur samfélagið okkar náð að blómstra. Við trónum nálægt toppum á listum sem mæla jafnrétti kynjanna eða stöðu hinsegin fólks. En við sjáum bakslag í jafnréttisbaráttunni á heimsvísu og við þurfum stöðugt að vera á verðinum til að tryggja mannréttindi. Við búum á landi þar sem er einna öruggast að vera kona og þar sem eru mestu tækifærin fyrir ungt fólk. Það er vegna þeirra aðstæðna sem við sem samfélag höfum skapað, en það má þó alltaf gera betur.“ Ágúst Bjarni minnti á hversu vel hefur verið haldið utan um heilbrigðismálin: „Markvisst hefur verið unnið að því að tryggja öllum landsmönnum aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Eftir áralangt samningsleysi hefur nú m.a. verið samið við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara. Með þessum samningum lækkar greiðsluþátttaka einstaklinga sem hefur hækkað jafnt og þétt í samningsleysinu.“  

Vona að sem flestir sjái sér fært um að mæta fyrir framan skjáinn nk. fimmtudagskvöld og hvet ykkur til að hnippa í aðra félaga okkar í Framsókn og minna á fundinn.  

Með kveðju,  
Ingibjörg Isaksen
Categories
Fréttir Greinar

Fjár­fest í menningu

Deila grein

24/06/2024

Fjár­fest í menningu

Í dag er stór dagur þegar samþykktar voru breytingar á frumvarpi Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra á listamannalaunum í fyrsta skipti í 15 ár. Listamannalaun eða starfslaun listamanna eru þungamiðjan í kjörum listamannsins og markmið þeirra er að efla listsköpun í landinu. Listamenn eru mikilvægustu sendiherrar lands og þjóðar og halda merki Íslands á lofti dag hvern í alþjóðasamfélaginu.

Tímabærar breytingar

Listsköpun er afar mikilvæg hverri þjóð og nauðsynlegt að kjör listamanna haldist í horfi við kjör annarra í hagkerfinu. Fjöldi starfslauna hefur haldist óbreyttur í 15 ár eða frá því að gildandi lög tóku gildi árið 2009 auk þess sem umfang listamannalauna hefur staðið í stað frá árinu 2012, utan tímabundinnar aukningar á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru. Með þessum breytingum er verið að fjölga launasjóðum sem starfslaun eru veitt úr og fjölga árlegum úthlutunarmánuðum. Starfslaunamánuðum verður fjölgað úr 1.600 í 2.490 á fjórum árum. Mikilvægt er að umfang og fyrirkomulag listmannalauna sé endurmetið reglulega. Síðustu ár hefur fólki í landinu fjölgað, áherslur á listsköpun tekið breytingum og eftirspurn eftir listamannalaunum og árangurshlutfall umsækjenda í mismunandi sérgreinda sjóði vaxið.

Vegsemd

Þær breytingar sem hér eru komnar fram eru veigamiklar. Fyrst má nefna nýjan sjóð – Vegsemd sem er þverfaglegur sjóður fyrir listamenn 67 ára og eldri sem hafa varið starfsævi sinni til listsköpunar. Ekki er gert ráð fyrir að listamenn sæki beint um framlög úr sjóðnum heldur að listamenn 67 ára og eldri sæki um úthlutun úr hinum sérgreindu sjóðum í samræmi við sína listgrein. Lagt er til að starfslaun úr Vegsemd megi veita til allt að fimm ára í senn auk þess sem fallið er frá því að starfslaunaþegum beri að skila skýrslu um störf sín á starfslaunatíma.

Nýr kvikmyndasjóður

Þá kemur inn nýr sjóður fyrir kvikmyndahöfunda og er sjóðurinn í samræmi við kvikmyndastefnu stjórnvalda til ársins 2030. Með kvikmyndahöfundum er átt við bæði leikstjóra og handritshöfunda auk þess sem aðrir aðalhöfundar kvikmynda geta fallið þar undir, þar á meðal höfundar heimildarmynda. Þriggja manna nefnd, sem ráðherra skipar árlega, mun úthluta fé úr launasjóðnum sem Samtök kvikmyndaleikstjóra og Félag leikskálda og handritshöfunda skulu hvort um sig tilnefna þrjá nefndarmenn í.

Mikilvægi stuðnings við listamenn

Stuðningur í formi listamannalauna gríðarlega mikilvægur fyrir bæði listamennina sjálfa og samfélagið í heild, hér er um að ræða fjárfestingu sem skilar sér margfalt til baka til samfélagsins. Listamannalaun veita listamönnum öryggi og svigrúm til að einbeita sér að sköpun sinni án þess að þurfa að hafa áhyggjur af fjárhagslegum vandamálum. Með þessu fá þeir tækifæri til að þróa hæfileika sína, vinna að nýjum og krefjandi verkefnum og skapa verk sem geta haft djúpstæð áhrif á menningu okkar og samfélag. Listamenn gegna lykilhlutverki í að móta og spegla menninguna. Listamannalaun stuðla þannig að því að tryggja fjölbreytileika og nýsköpun í listum, sem er nauðsynlegt fyrir heilbrigt og þróttmikið menningarlíf.

Það er ljóst að með því að veita listamönnum listamannalaun erum við ekki aðeins að styðja við einstaklingana sjálfa, heldur einnig að efla menningu okkar, auðga samfélagið og styrkja efnahagslífið. Ég fagna þessum breytingum sem munu ævinlega stuðla að því að skapa umhverfi þar sem listir og menning geta blómstrað til hagsbóta fyrir alla.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. júní 2024.

Categories
Fréttir

Ferðamálastefna samþykkt á Alþingi: Áhersla á sjálfbærni og samkeppnishæfni

Deila grein

21/06/2024

Ferðamálastefna samþykkt á Alþingi: Áhersla á sjálfbærni og samkeppnishæfni

Alþingi hefur samþykkt tillögu til þingsályktunar, sem ferðamálaráðherra lagði fram í apríl, um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Öðlast þingsályktunin þegar gildi. 

Með samþykkt þingsályktunar um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030 er um ákveðin tímamót að ræða sem birtist í heildstæðri stefnumótun á sviði ferðaþjónustu með víðtækri þátttöku haghafa og almennings. 

,,Vönduð og yfirgripsmikil vinna fjölda sérfræðinga og hagaðila skilar sér í metnaðarfullri framtíðarsýn sem ég bind miklar vonir við að muni auka stöðugleika og sjálfbærni ferðaþjónustunnar. Það er mikið gleðiefni inn í ferðasumarið að sjá hversu samstíga þingið er í að styðja við stærstu gjaldeyrisskapandi atvinnuveg þjóðarinnar og um leið að skorast ekki undan þeirri ábyrgð sem fylgir því að varðveita og virða landið okkar. Ég óska okkur öllum gleðilegs ferðasumar og hlakka til þess að fylgjast með metnaðarfullri aðgerðaáætlun raungerast á næstu árum,” segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Vinna við ferðamálaáætlunina hefur staðið yfir í um tvö ár með þátttöku fjölda aðila. Um mitt ár 2022 hófst vinna við uppfærslu á stefnuramma ferðaþjónustunnar til 2030 og lauk henni í byrjun árs 2023. Í uppfærðum stefnuramma, sem myndar grunn að ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030, er að finna 12 áherslur sem deilast á fjórar lykilstoðir ferðaþjónustu; þ.e. efnahag, samfélag, umhverfi og gesti. 

Samkvæmt þingsályktuninni er framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni jafnvægis á milli efnahags-, umhverfis- og samfélagslegra þátta. Í því felst að hér sé arðsöm og samkeppnishæf ferðaþjónusta sem starfi í sátt við bæði land og þjóð, að ferðaþjónustan stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld á Íslandi og að ferðaþjónustan sé þekkt fyrir gæði og einstaka upplifun.  

Í maí 2023 skipaði ferðamálaráðherra sjö starfshópa sem falið var að vinna tillögur að aðgerðum inn í aðgerðaáætlun ferðamálastefnu til 2030. Var þar miðað við að stefnan og aðgerðaáætlunin yrði lögð fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar á vorþingi 2024 og gekk sú tímaáætlun eftir. Verkefnið í heild sinni hefur verið leitt af stýrihóp á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytis, með helstu haghöfum, og er nánari upplýsingar að finna um verkefnið á www.ferdamalastefna.is

Starfshóparnir sjö náðu utan um helstu þætti ferðaþjónustu, þ.e. sjálfbærni og orkuskipti, samkeppnishæfni og verðmætasköpun, rannsóknir og nýsköpun, uppbyggingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónustu og menningartengda ferðaþjónustu. 

Viðamikið samráð var haft við haghafa við gerð aðgerðaáætlunar frá maí 2023 til mars 2024, m.a. með fjölda vinnustofa og funda. Beint að þessari vinnu komu yfir 100 manns, og óbeint talsvert fleiri. Fyrstu drög að aðgerðum voru sett í samráðsgátt stjórnvalda í nóvember 2023 og var unnið úr þeim athugasemdum sem þar bárust. 

Frá 14. febrúar til 6. mars 2024 stóðu yfir opnir umræðu- og kynningarfundir ráðherra í öllum landshlutum um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Drög að þingsályktunartillögunni voru sett í samráðsgátt stjórnvalda frá 28. febrúar til 12. mars og í framhaldinu var farið yfir umsagnir og ábendingar, bæði af opnu fundunum og úr samráðsgátt, og vinnu við gerð draganna lokið af hálfu stýrihópsins. 

Á grunni framangreindrar vinnu var gengið frá tillögu til þingsályktunar um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030 og hún lögð fyrir Alþingi 15. apríl. Í þingskjalinu koma fram 43 skilgreindar aðgerðir sem ætlað er að fylgja eftir áherslum ferðamálastefnu og þeim markmiðum sem þar koma fram. Dreifast þær á lykilstoðir ferðaþjónustu. 

Meðal aðgerða má nefna: 

  • Markviss og viðvarandi markaðssetning á Íslandi sem áfangastað 
  • Innleiðing álagsstýringar á ferðamannastöðum 
  • Breytt fyrirkomulagi á gjaldtöku af ferðamönnum 
  • Aukið eftirlit með heimagistingu og hert skilyrði 
  • Grunninnviðir fyrir rannsóknir, greiningu og stefnumótun í ferðaþjónustu 
  • Uppbygging millilandaflugvalla styðji við dreifingu ferðamanna 
  • Endurskoðun á regluverki fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu og skilvirkara eftirlit 
  • Fjölgun fyrirtækja með umhverfis- og/eða sjálfbærnivottanir 
  • Efling náms í ferðaþjónustu þvert á skólastig 

Heimild: stjr.is