Categories
Fréttir Greinar

Brosum breitt

Deila grein

14/06/2024

Brosum breitt

Fyrsti heildstæði langtímasamningurinn um þjónustu tannlækna var undirritaður í morgun milli Tannlæknafélags Íslands og Sjúkratrygginga. Það má með sanni segja að það hafi verið nóg að gera síðasta ár hjá Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra við að leiða saman hópa að samningaborðinu. Nú er búið að semja við sérfræðilækna, sjúkraþjálfara og tannlækna allt með 5 ára samningum sem unnir eru í breiðri sátt. Þessi góði árangur á svo skömmum tíma er eftirtektarverður.

Greiðsluþátttaka tryggð

Með nýjum samningi er greiðsluþátttaka vegna tannlækninga fyrir börn, aldraða og öryrkja tryggð næstu fimm árin. Þá mun meðferðum sem greiddar eru af Sjúkratryggingum Íslands vera fjölgað. Auk þess er horft í samningnum til nútímavæðingar með hliðsjón af nýjungum á fjölda sviða tannlækninga en samningurinn mun að mestu snerta á verklagi tannlækna og gagnasamskiptum við Sjúkratryggingar. Samningurinn mun taka að í gildi að hluta til þann 1. júlí nk. og að fullu leyti þann 1. september nk.

Endurskoðun á reglugerð

Samhliða samningsgerðinni hefur verið unnið að heildarendurskoðun reglugerðar um þátttöku sjúkratryggðra við tannlækningar. Meðal annars verður fallið frá skilyrði um mat tannlæknadeildar sem forsendu fyrir greiðsluþátttöku í tannréttingum vegna alvarlegra meðfæddra galla en Sjúkratryggingum Íslands verður heimilt að kalla eftir slíku mati við upphaf tannréttingaferilsins. Lengi hefur verið kallað eftir þessum breytingum og nú hefur verið hlustað.

Bætt tannheilsa

Það er ljóst að þessi samningur mun leiða af sér bætta tannheilsu barna, aldraðra og öryrkja. Hér er um að ræða enn einn samning sem hefur það að markmiði að draga úr greiðsluþátttöku fólks fyrir heilbrigðisþjónustu og stuðla að jöfnu aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Aukin greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga síðustu fjögur ár hefur stuðlað að því að fjöldi einstaklinga sem leita sér þjónustu tannlækna aukist. Rétt er að geta þess að til viðbótar við þennan samning voru styrkfjárhæðir vegna almennra tannréttinga nær þrefaldaðar í september á síðasta ári. Sú hækkun varð möguleg í kjölfar tímamótasamnings Sjúkratrygginga og tannréttingasérfræðinga sem undirritaður var í júlí í fyrra.

Það ber að hrósa því sem vel er gert, og langar mig í dag að hrósa samningsaðilum sérstaklega fyrir vel unnin störf. Lengi hefur verið kallað eftir samningum sem þessum og nú eru þeir loksins í höfn. Það er svo sannarlega ástæða til þess að brosa breytt.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. júní 2024.

Categories
Fréttir

„Markvisst hefur verið unnið að því að tryggja öllum landsmönnum aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag“

Deila grein

13/06/2024

„Markvisst hefur verið unnið að því að tryggja öllum landsmönnum aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag“

Ræða Ágústs Bjarna Garðarssonar, alþingismanns, á eldhúsdegi á Alþingi miðvikudaginn 12. júní 2024:

„Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Á Íslandi er gott að búa. Hér er mikill hagvöxtur, hér er hátt atvinnustig og kaupmáttur heimilanna hefur farið vaxandi ár eftir ár. Allt skiptir þetta máli og þegar ég horfi á stóru myndina er ég í raun þakklátur fyrir okkar góða samfélag sem vissulega hefur þurft að glíma við áskoranir síðustu misseri líkt og samfélög um allan heim.

Utanaðkomandi þættir sem við höfum litla sem enga stjórn á hafa haft óvenjumikil áhrif á okkar daglega líf. Verkefni stjórnvalda er að bregðast við með skynsamlegum aðgerðum sem miða að því að milda áhrifin á samfélagið og létta þeim byrðar sem þyngstar bera þær nú um stundir.

Hér ætla ég að nefna sérstaklega nýgerða langtímakjarasamninga. Þeir auka á fyrirsjáanleika þar sem markmiðið er að ná niður vöxtum og verðbólgu samhliða því að verja lífskjör og velferð hér á landi. Þar skipti aðkoma ríkisins og samstaða samningsaðila við borðið miklu máli. Við gerð þessara samninga var lögð sérstök áhersla á vaxandi velsæld og stuðning við barnafjölskyldur, til að mynda með gjaldfrjálsum skólamáltíðum, hækkun barnabóta, sérstökum vaxtastuðningi, stuðningi við leigjendur, hærri fæðingarorlofsgreiðslum og svo mætti áfram telja. Ég hef sjálfur fengið skilaboð og símtöl frá fólki sem segir að þessar aðgerðir hafi skipt raunverulegu máli, og þær skiptu raunverulegu máli.

Markvisst hefur verið unnið að því að tryggja öllum landsmönnum aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Eftir áralangt samningsleysi hefur nú m.a. verið samið við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara. Með þessum samningum lækkar greiðsluþátttaka einstaklinga sem hefur hækkað jafnt og þétt í samningsleysinu. Að draga úr greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðisþjónustu er liður í því að jafna aðgengi að þjónustunni sjálfri. Á þeim forsendum var styrkur til almennra tannréttinga tæplega þrefaldaður og hækkaði úr 150.000 kr. í 430.000 kr. þann 1. september síðastliðinn. Við þessa breytingu lækkar kostnaðarþátttaka almennings í almennum tannréttingum um 500 milljónir á ári.

Hér mætti halda áfram að telja. Risastór skref hafa verið tekin í þágu menningar í landinu og það hefur sýnt sig að ógrynni tækifæra felast í því að efla kvikmyndaframleiðslu á Íslandi. Verkefni af þessum toga eru atvinnu- og gjaldeyrisskapandi og landið öðlast kynningu erlendis sem getur skilað sér í jákvæðri ímynd og auknum gjaldeyristekjum vegna komu ferðamanna hingað til lands. Hæstv. mennta- og barnamálaráðherra hefur lagt ríka áherslu á uppbyggingu verk- og starfsnáms og stefnt er að því að byggja 12.000 fermetra fyrir námið um land allt, auk þess sem nýr Tækniskóli mun rísa í Hafnarfirði.

Verðbólga hefur lækkað en hún er enn of há og það er verkefni okkar stjórnmálamanna að sjá til þess að hún lækki enn frekar. Það gerum við með raunhæfum aðgerðum, svo sem á framboðshlið húsnæðis. Þar komum við að stöðunni á húsnæðismarkaði en þar eru að mínu mati áskoranir sem hægt er að leysa hratt og örugglega ef viljinn er til staðar og þar þurfa ríki og sveitarfélög að taka höndum saman.

Hér þarf áfram, með góðum aðgerðum hins opinbera sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum, að tryggja nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði og skapa umhverfi svo að fýsilegt sé fyrir framkvæmdaraðila á almennum markaði að byggja íbúðir fyrir fólk en ekki fjárfesta. Fólki á Íslandi er að fjölga hratt og það er fyrirséð að hér þurfi að byggja meira. Við vorum á réttri leið en það hefur komið bakslag á síðustu árum. Það má helst rekja til skorts á byggingarhæfum lóðum. Þar hefur höfuðborgin á vakt Samfylkingarinnar borið mesta ábyrgð á núverandi stöðu. Seðlabankinn hefur boðið upp á eitraðan kokteil með sinni stefnu. Hátt vaxtastig, sem m.a. eykur kostnað við byggingu húsnæðis og dregur úr vilja framkvæmdaraðila, ásamt hertum lánþegaskilyrðum hafa gert kaupendum erfiðara um vik að stíga skref inn á fasteignamarkaðinn. Þannig hefur verið hlaðið í snjóhengju kynslóða sem bíða eftir tækifæri til að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Aðgerðir Seðlabanka Íslands eru því þvert á það sem við þurfum nú um stundir.

Virðulegur forseti. Við höfum þann eiginleika að vera tiltölulega bjartsýn þjóð. Áfram munum við sýna að þegar þörf er á þá munum við standa saman. — Góðar stundir.“

Categories
Fréttir

„Með Framsókn í fararbroddi í íslenskum stjórnmálum hefur samfélagið okkar náð að blómstra“

Deila grein

13/06/2024

„Með Framsókn í fararbroddi í íslenskum stjórnmálum hefur samfélagið okkar náð að blómstra“

Ræða Lilju Rannveigar Sigurgeirsdóttur, alþingismanns, á eldhúsdegi á Alþingi miðvikudaginn 12. júní 2024:

„Hæstv. forseti. Kæra þjóð. Síðustu ár hafa fært okkur ýmsar áskoranir. Þingið hefur þurft að kljást við fjölda mála á þessu kjörtímabili og því síðasta; mál sem komu skyndilega upp og enginn stjórnmálaflokkur hafði á stefnuskránni sinni. Mál eins og heimsfaraldur og skriðuföll, eldgos og jarðskjálftar og flutningur á heilu bæjarfélagi. Einnig hefur fjöldi vopnaðra átaka aldrei verið meiri í heiminum á sama tíma frá lokum seinni heimsstyrjaldar.

Allt þetta hefur áhrif til skemmri og lengri tíma. En þrátt fyrir þessar aðstæður höfum við í Framsókn unnið hér statt og stöðugt að því að halda samfélaginu gangandi, komið fram með fjölda mála sem eru samfélaginu til bóta og við erum hvergi nærri hætt. Við höfum aldrei áður byggt jafn margar íbúðir. En landsmenn hafa heldur aldrei verið fleiri og okkur fjölgar hratt. Ég get líklega tekið einhverja ábyrgð á því. [Hlátur í þingsal.]

Við komum að gerð kjarasamninga og leggjum okkar af mörkum með ýmsum aðgerðum, m.a. fyrir barnafólk. Má þar nefna hækkun á þaki fæðingarorlofs og hækkun barnabóta. Einnig er aukinn stuðningur við eigendur húsnæðis og leigjendur og lögð áhersla á bætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.

Með Framsókn í fararbroddi í íslenskum stjórnmálum hefur samfélagið okkar náð að blómstra. Við trónum nálægt toppum á listum sem mæla jafnrétti kynjanna eða stöðu hinsegin fólks. En við sjáum bakslag í jafnréttisbaráttunni á heimsvísu og við þurfum stöðugt að vera á verðinum til að tryggja mannréttindi. Við búum á landi þar sem er einna öruggast að vera kona og þar sem eru mestu tækifærin fyrir ungt fólk. Það er vegna þeirra aðstæðna sem við sem samfélag höfum skapað, en það má þó alltaf gera betur.

Mig langar til þess að ræða hér sérstaklega stöðu ungs fólks í íslensku samfélagi. Mér hefur hlotnast sá heiður síðastliðin þrjú ár að vera yngsti kjörni alþingismaðurinn. Það er titill sem tíminn tekur af manni en við sjáum það úti um allan heim að ungu fólki er ekki treyst til þess að kjósa, því er ekki treyst til að bjóða sig fram eða til þess að gegna stjórnunarstöðum. Og sjálfri þykir mér það gríðarlega mikilvægt að ungt fólk taki þátt í öllum ákvarðanatökum. Því að það er nauðsynlegt að hópurinn á bak við stórar ákvarðanir sýni ákveðna breidd þar sem mismunandi sjónarmið liggja að baki og framtíðarsýnin er til staðar á sama tíma og við höfum reynslu fortíðarinnar. En þó að það sé margt ungt fólk á góðum stað og komi að ákvarðanatökum þá er samt nauðsynlegt að taka utan um hópinn í heild því að við erum að sjá það að það eru allt of margir einstaklingar undir þrítugu sem eru hvorki í vinnu né námi. Hópurinn frá 18–30 ára er á viðkvæmu stigi í sínu lífi og við eigum að koma með fleiri aðgerðir sem koma sérstaklega til móts við þann hóp, aðgerðir eins og hlutdeildarlánin sem voru sett á fót til þess að hjálpa ungu fólki til að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Það var tillaga sem Framsókn lagði fram og var samþykkt hér inni. Við þurfum að skoða þennan hóp heildstætt. Við höfum farið af stað í miklar kerfisbreytingar í málefnum barna og erum að stíga fyrstu skrefin þar og það er hægt að horfa til þeirrar vinnu. Ég myndi vilja að ríkisstjórnin setti sér sérstaka ungmennastefnu með aðgerðaáætlun og ég hvet hana eindregið til þess.

Að mínu mati eru stefnur ríkisstjórna eitt besta verkfærið til framtíðarstefnumótunar því að þær standa þó að ný ríkisstjórn komi að borðinu. Í þeim felst framtíðarsýn þingsins í mismunandi málaflokkum og nú á þessu kjörtímabili hafa verið lagðar fram og samþykktar mikilvægar stefnur og aðgerðaáætlanir þeim tengdar. Má þar nefna matvælastefnu og landbúnaðarstefnu, tónlistarstefnu, byggðaáætlun og samgönguáætlun sem og aðgerðaáætlanir um íslenska tungu, í geðheilbrigðismálum og í málefnum hinsegin fólks. Svo eru nú til umræðu hér í þinginu stefnur er varða ferðaþjónustu, bókmenntir og húsnæðismál. Þetta gefur tóninn er varðar stöðu og framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar í ótal mörgum málaflokkum.

Hæstv. forseti. Þrátt fyrir fjölda áskorana síðastliðin ár þá vitum við samt að mörg verkefni bíða okkar. Framsókn mun áfram ganga í þau mál sem þarf að vinna, bæði þau sem eru umdeild og vekja mikla athygli en líka þau sem fá ekki sömu athygli. Við munum halda áfram að vinna fyrir ykkur og ganga í þau verk sem þarf að ganga til þess að allt virki rétt. — Gleðilegt sumar.“

Categories
Fréttir

Bændur þurfa tækifæri til að endurfjármagna lán sín!

Deila grein

12/06/2024

Bændur þurfa tækifæri til að endurfjármagna lán sín!

„Við í Framsókn fögnum áhuga hans á bættum kjörum bænda og bjóðum hann velkominn í hópinn. En umræða um efnahagsmál á Íslandi einkennist hins vegar oft á því að leitað er logandi ljósi að sökudólgi. Í því samhengi er oft bent á íslensku krónuna, hún sé orsök alls ills,“ sagði Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, í störfum þingsins er hún þakkaði þingmanni Viðreisnar opið bréf til Framsóknar í Morgunblaðinu.

„Það er þægilegt að telja sér trú um að til séu sársaukalausar töfralausnir á efnahagsáskorunum Íslendinga, eins og t.d. að skipta bara um gjaldmiðil, eins og hv. þingmaður vill meina að bjargi stöðu landsins. Því miður er slíkt sjaldnast lykillinn. Hvað varðar stöðu bænda í gegnum tíðina hafa sannarlega skipst á skin og skúrir,“ sagði Ingibjörg.

„Síðasta haust urðum við öll vör við ákall ungra bænda um laun fyrir lífi. Samkeppnisstaða bænda á Íslandi er ekki á jafnræðisgrundvelli. Á Íslandi gerum við ríkar kröfur hvað varðar sýklalyfjanotkun og aðbúnað dýra en setjum ekki sömu kröfur hvað varðar innflutning.“

„Hér þarf að endurskoða tolla og lánakjör bænda og við höfum talað fyrir því að skapa tækifæri fyrir bændur til að endurfjármagna lán sín til lengri tíma á sanngjörnum kjörum.
Við viljum auka tækifæri ungra bænda, nýliðun eða ættliðaskipti í greininni, að þeir geti nýtt sér þau úrræði sem stjórnvöld bjóða upp á við fyrstu íbúðarkaup með því að aðskilja búrekstur og heimili, svo eitthvað sé nefnt.“

„Ég get ekki séð að innganga í Evrópusambandið bjargi slíku á næstu mánuðum eða árum. En gefum okkur það að hér verði tekin ákvörðun um að taka upp evru. Slíkt ferli tekur mörg ár og alls óvíst að sú leið muni skila þeirri niðurstöðu sem hv. þingmaður sér í hillingum. Bændur geta einfaldlega ekki beðið í mörg ár,“ sagði Ingibjörg að lokum.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir bréfið til okkar í Morgunblaðinu í morgun. Við í Framsókn fögnum áhuga hans á bættum kjörum bænda og bjóðum hann velkominn í hópinn. En umræða um efnahagsmál á Íslandi einkennist hins vegar oft á því að leitað er logandi ljósi að sökudólgi. Í því samhengi er oft bent á íslensku krónuna, hún sé orsök alls ills. Það er þægilegt að telja sér trú um að til séu sársaukalausar töfralausnir á efnahagsáskorunum Íslendinga, eins og t.d. að skipta bara um gjaldmiðil, eins og hv. þingmaður vill meina að bjargi stöðu landsins. Því miður er slíkt sjaldnast lykillinn. Hvað varðar stöðu bænda í gegnum tíðina hafa sannarlega skipst á skin og skúrir. Nú er staðan sú að bændur á Norðurlandi fengu kalin tún í fangið í vor og ekki bætti veðurfarið síðustu daga fyrir. Síðasta haust urðum við öll vör við ákall ungra bænda um laun fyrir lífi. Samkeppnisstaða bænda á Íslandi er ekki á jafnræðisgrundvelli. Á Íslandi gerum við ríkar kröfur hvað varðar sýklalyfjanotkun og aðbúnað dýra en setjum ekki sömu kröfur hvað varðar innflutning. Hér þarf að endurskoða tolla og lánakjör bænda og við höfum talað fyrir því að skapa tækifæri fyrir bændur til að endurfjármagna lán sín til lengri tíma á sanngjörnum kjörum. Við viljum auka tækifæri ungra bænda, nýliðun eða ættliðaskipti í greininni, að þeir geti nýtt sér þau úrræði sem stjórnvöld bjóða upp á við fyrstu íbúðarkaup með því að aðskilja búrekstur og heimili, svo eitthvað sé nefnt.

Ég get ekki séð að innganga í Evrópusambandið bjargi slíku á næstu mánuðum eða árum. En gefum okkur það að hér verði tekin ákvörðun um að taka upp evru. Slíkt ferli tekur mörg ár og alls óvíst að sú leið muni skila þeirri niðurstöðu sem hv. þingmaður sér í hillingum. Bændur geta einfaldlega ekki beðið í mörg ár.“

Categories
Fréttir

Er tilkoma Loftbrúarinnar um að kenna?

Deila grein

12/06/2024

Er tilkoma Loftbrúarinnar um að kenna?

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins flugsamgöngur sem sé eini raunhæfi samgöngumátinn fyrir almenning frá norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum við höfuðborgarsvæðið. Margir íbúanna þurfa að nýta sér flugið til læknisferða og annarra brýnna erinda.

„En er það raunhæfur valkostur þegar verðið á flugmiðanum getur sveiflast um allt að 30-70% eftir því hvenær flugið er pantað, á hvaða dögum það er eða með hvaða skilmálum það er sett?

Ég þekki til þess að flug sem var pantað með fimm daga fyrirvara fyrir helgi í maí var með sama fyrirvara 30% dýrara en helgin á undan og þó með sömu skilmálum. Aðrar almenningssamgöngur eru ekki í boði á þessu svæði auk þess sem verð í innanlandsflug hefur hækkað eins og fyrr segir,“ sagði Halla Signý.

Tilkoma Loftbrúarinnar, sem sett var á fót árið 2020, er um að kenna vilja margir meina. „Það væri í hæsta máta einkennilegt að tengja þarna á milli. Ef svo væri mætti miklu frekar velta fyrir sér siðferði flugfélaganna. Loftbrúin er ein stærsta byggðaaðgerð sem gripið hefur verið til á undanförnum árum sem til þess er fallin að jafna aðstöðumun þeirra sem nýta sér innanlandsflug sem almenningssamgöngur.“

„Þegar rýnt er í rannsóknir og kannanir sem hafa verið gerðar frá því að Loftbrúin leit dagsins ljós má sjá að mikill meiri hluti þeirra sem hafa nýtt sér úrræðið segjast ánægðir með það en þó er talin ástæða til að endurskoða úrræðið enn frekar. Margir nýta Loftbrúna til að sækja sér heilbrigðisþjónustu eða í tengslum við íþróttaiðkanir og vegna skólasóknar. Það er viðurkennd staðreynd að við fitnum ef við borðum mikið súkkulaði. Tilkoma Loftbrúar og hækkandi flugfargjöld innan lands hafa ekki sömu fylgni,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Undir þessum dagskrárlið talaði ég síðast um almenningssamgöngur og enn er ég hingað mætt, nú til að tala um almenningssamgöngur í lofti. Einu raunhæfu samgöngurnar fyrir almenning frá norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum við höfuðborgarsvæðið er flugið, eini samgöngumátinn sem margir þurfa að nýta sér til læknisferða og annarra brýnna erinda. En er það raunhæfur valkostur þegar verðið á flugmiðanum getur sveiflast um allt að 30–70% eftir því hvenær flugið er pantað, á hvaða dögum það er eða með hvaða skilmálum það er sett? Ég þekki til þess að flug sem var pantað með fimm daga fyrirvara fyrir helgi í maí var með sama fyrirvara 30% dýrara en helgin á undan og þó með sömu skilmálum. Aðrar almenningssamgöngur eru ekki í boði á þessu svæði auk þess sem verð í innanlandsflug hefur hækkað eins og fyrr segir. Margir vilja kenna þar um tilkomu Loftbrúarinnar sem sett var á fót árið 2020. Það væri í hæsta máta einkennilegt að tengja þarna á milli. Ef svo væri mætti miklu frekar velta fyrir sér siðferði flugfélaganna. Loftbrúin er ein stærsta byggðaaðgerð sem gripið hefur verið til á undanförnum árum sem til þess er fallin að jafna aðstöðumun þeirra sem nýta sér innanlandsflug sem almenningssamgöngur. Þegar rýnt er í rannsóknir og kannanir sem hafa verið gerðar frá því að Loftbrúin leit dagsins ljós má sjá að mikill meiri hluti þeirra sem hafa nýtt sér úrræðið segjast ánægðir með það en þó er talin ástæða til að endurskoða úrræðið enn frekar. Margir nýta Loftbrúna til að sækja sér heilbrigðisþjónustu eða í tengslum við íþróttaiðkanir og vegna skólasóknar. Það er viðurkennd staðreynd að við fitnum ef við borðum mikið súkkulaði. Tilkoma Loftbrúar og hækkandi flugfargjöld innan lands hafa ekki sömu fylgni.“

Categories
Fréttir

Gróska í barnamenningu

Deila grein

12/06/2024

Gróska í barnamenningu

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins mikilvægi Barnamenningarsjóðs Íslands til að efla börn og ungmenni til þátttöku í menningarstarfi. Eins hafa styrkirnir sem verkefnin fara til snertiflöt við mjög mörg heimili landsins. Á degi barnsins, þann 26. maí, var styrkjum fyrir árið 2024 úthlutað. Sjóðurinn styrkir 41 verkefni í ár og er heildarupphæð úthlutunar rúmar 100 millj. kr.

„Hann styður fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Byggt er á áherslum menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag,“ sagði Líneik Anna.

„Gróskan í barnamenningu blasti einmitt við okkur öllum í þættinum Sögur, verðlaunahátíð barnanna, sem sýndur var á RÚV síðastliðinn laugardag, þar sem börn verðlaunuðu það sem vel var gert í barnamenningu á Íslandi í beinni útsendingu.“

„Sjóðurinn var festur í sessi á síðasta ári þegar Alþingi samþykkti þingsályktun hæstv. menningarmálaráðherra Lilju Alfreðsdóttur um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024–2028. Meðal verkefna sem fengu styrk í ár eru verkefni sem byggja á samstarfi við leik- og tónlistarskóla í Reykjavík, Akureyri og Ísafirði; Barnamenningarhátíð Vestfjarða, Púkinn 2025, og BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. BRAS-hátíðin er haldin að hausti. Yfirskrift hátíðarinnar í ár er uppspretta og verður hún samstarfsverkefni listafólks, stofnana, skóla og safna á Austurlandi auk þess sem komið hefur verið á samstarfi við Listaleypurin í Færeyjum og verður áhugavert að sjá hvert það samstarf leiðir. Einkunnarorð BRAS eru: Þora, vera, gera,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Á degi barnsins, þann 26. maí, var styrkjum úr Barnamenningarsjóði Íslands fyrir árið 2024 úthlutað. Sjóðurinn styrkir 41 verkefni í ár og er heildarupphæð úthlutunar rúmar 100 millj. kr. Þessir styrkir eru ótrúlega mikilvægir til að efla börn og ungmenni til þátttöku í menningarstarfi og styrkirnir sem verkefnin fara til hafa snertiflöt við mjög mörg heimili landsins. Sjóðurinn var stofnaður á aldarafmæli fullveldisins á hátíðarfundi Alþingis 18. júlí 2018. Hann styður fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Byggt er á áherslum menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.

Gróskan í barnamenningu blasti einmitt við okkur öllum í þættinum Sögur, verðlaunahátíð barnanna, sem sýndur var á RÚV síðastliðinn laugardag, þar sem börn verðlaunuðu það sem vel var gert í barnamenningu á Íslandi í beinni útsendingu. Sjóðurinn var festur í sessi á síðasta ári þegar Alþingi samþykkti þingsályktun hæstv. menningarmálaráðherra Lilju Alfreðsdóttur um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024–2028. Meðal verkefna sem fengu styrk í ár eru verkefni sem byggja á samstarfi við leik- og tónlistarskóla í Reykjavík, Akureyri og Ísafirði; Barnamenningarhátíð Vestfjarða, Púkinn 2025, og BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. BRAS-hátíðin er haldin að hausti. Yfirskrift hátíðarinnar í ár er uppspretta og verður hún samstarfsverkefni listafólks, stofnana, skóla og safna á Austurlandi auk þess sem komið hefur verið á samstarfi við Listaleypurin í Færeyjum og verður áhugavert að sjá hvert það samstarf leiðir. Einkunnarorð BRAS eru: Þora, vera, gera.“

Categories
Greinar

Fjárfestum í lýðheilsu – aðstaða fyrir alla

Deila grein

11/06/2024

Fjárfestum í lýðheilsu – aðstaða fyrir alla

Mosfellsbær er landmikið sveitarfélag með nær óþrjótandi möguleikum á að njóta útivistar. Hér eru græn svæði frá fjöru til fjalla.

Áhersla fólks og áhugi á að það séu byggð upp útivistarsvæði og aðstaða til hreyfingar í nærumhverfi þess hefur líka aukist mikið með árunum. Það er orðinn sjálfsagður hlutur að flest íþrótta- og tómstundafélög eigi svæði, fasteignir og annað er tiheyrir þeirra sérsviði og samfélagsleg sátt virðist vera um að verja hluta af okkar sameiginlegu sjóðum í að byggja það upp.
Á síðasta ári fóru rúm 9% af skatttekjum Mosfellsbæjar til íþrótta- og æskulýðsmála en það eru um 1,7 milljarðar króna. Fyrir þetta fjármagn rekum við meðal annars sundlaugar og íþróttamannvirki, styrkjum íþrótta- og tómstundastarf og rekum félagsmiðstöð. Auk þess var varið um 260 milljónum til fjárfestinga í aðstöðu á árinu 2023 og áætlað er að fjárfesta fyrir um 990 milljónir á þessu ári í íþrótta- og tómstundamannvirkjum.

Breytingar kalla á samtal

Það er að mörgu að huga þegar svæði eru skipulögð og sér í lagi þegar breytingar eru gerðar. Þá þarf að huga að hagsmunum oft ólíkra hópa. Það er nú einmitt tilfellið í þeim hugmyndum sem uppi eru um að gera breytingar á Hlíðavelli.

Mosfellsbær hefur gert samkomulag við Golfklúbb Mosfellsbæjar um að stækka völlinn til að hægt sé að gera breytingar á honum. Breytingarnar ganga aðallega út á að snúa vellinum þannig að frekara öryggis sé gætt á göngu-, hjóla- og reiðstígum í kringum völlinn.

Samkomulagið er tilkomið vegna hættu sem hefur skapast við nýja byggð við Súluhöfða og nálægð húsa við völlinn. Öryggi þessara íbúa í og við sín heimili er lykilforsendan fyrir því að bæjarstjórn samþykkti einróma í desember að ráðast í þetta verkefni með Golfklúbbi Mosfellsbæjar.
Skipulagsmál eru í eðli sínu lýðræðislegasta ferli stjórnsýslunnar. Þegar skipulagið fyrir þetta svæði liggur fyrir þá munu hagaðilar eins og Hestamannafélagið Hörður og íbúar í nágrenninu fá tækifæri til að rýna það og koma með athugasemdir.

Það verður enginn afsláttur gefinn af því þrátt fyrir vilja bæjarstjórnar og Golfklúbbsins til að ráðast í þessar breytingar. Svona breytingar þýða þó alltaf málamiðlanir og að sætta ólík sjónarmið.

Nýtum strandlengjuna saman

Við þurfum að ganga um þessar auðlindir okkar sem felast í grænum svæðum, útsýni og ósnertri náttúru af virðingu og það verður ekki ráðist í framkvæmdir á nýjum svæðum nema að vel ígrunduðu máli og að teknu tilliti til allra sjónarmiða.

Í mörg ár hefur útivistarfólk, hvort sem það eru golfarar, hestamenn, gangandi, hlaupandi eða hjólandi, notið þess að nýta strandlengjuna saman sem útivistarparadís. Það þurfum við að gera áfram en það þarf auðvitað að vera í fyrirrúmi tillitssemi og aðgát hjá okkur öllum sem nýtum þetta svæði og sýna samstöðu svo allir geti notið þess.

Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs
Sævar Birgisson, varaformaður skipulagsnefndar

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 6. júní 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fögnum lýðveldinu

Deila grein

10/06/2024

Fögnum lýðveldinu

Hand­an við hornið er merk­is­áfangi í sögu ís­lensku þjóðar­inn­ar en þann 17. júní næst­kom­andi verða liðin 80 ár frá því að stofn­un lýðveld­is­ins átti sér stað hér á landi. Með því lauk sam­bandi milli Íslands og Dan­merk­ur sem staðið hafði yfir í ald­ir og stjórn­ar­far­inu sem við þekkj­um í dag var komið á. Á ferðum og fund­um mín­um und­an­farið bera þessi tíma­mót nokkuð reglu­lega á góma í sam­töl­um mín­um við fólk. Þökk sé góðu lang­lífi hér á landi er drjúg­ur hóp­ur núlif­andi Íslend­inga sem fædd­ist und­ir dönsk­um kóngi. Átta­tíu ár eru í raun ekki það lang­ur tími þegar maður hugs­ar út í það, en breyt­ing­arn­ar sem orðið hafa á ís­lensku sam­fé­lagi eru ótrú­leg­ar. Frá því að vera eitt fá­tæk­asta ríki Evr­ópu, yfir í það að vera í fremstu röð lífs­kjara í heim­in­um sam­kvæmt helstu mæl­ing­um. Þannig hef­ur sjálf­stæðið reynst bless­un í sókn okk­ar fram á við, blásið í okk­ur enn frek­ari kjarki til þess að gera bet­ur. Það er óbilandi trú mín að það stjórn­ar­far sem er far­sæl­ast bygg­ist á því að ákv­arðanir um vel­ferð fólks eru tekn­ar sem næst fólk­inu sjálfu.

Lýðveldið er hraust og sprelllifn­andi eins og ný­af­staðnar for­seta­kosn­ing­ar eru til vitn­is um. Öflug­ur hóp­ur fram­bjóðenda gaf þar kost á sér til að gegna embætti for­seta Íslands, fjöl­marg­ir sjálf­boðaliðar lögðu for­setafram­bjóðend­um lið með ýms­um hætti og kjör­sókn var sú besta í 28 ár. Allt upp­talið er mikið styrk­leika­merki fyr­ir lýðræðis­sam­fé­lag eins og okk­ar. Því miður er sótt að lýðræði og gild­um þess víða um heim í dag. Það er óheillaþróun sem sporna þarf við. Lýðræðið þarf nefni­lega að rækta og standa vörð um. Þar gegn­ir virkt þátt­taka borg­ar­anna lyk­il­hlut­verki, hvort sem það felst í að bjóða sig fram til embætta, skrifa skoðanap­istla, baka vöffl­ur í kosn­inga­bar­áttu, bera út kosn­inga­bæklinga eða mæta á kjörstað. Allt þetta er hluti af virku lýðræðisþjóðfé­lagi.

Mik­il­væg­ur hluti af því að rækta lýðveldið og lýðræðið er að fagna því og halda upp á mik­il­væga áfanga í sögu þess. Kom­andi lýðveldisaf­mæli er ein­mitt slík­ur áfangi en fjöl­breytt hátíðardag­skrá verður út um allt land í til­efni af 17. júní. Einnig hef­ur nefnd skipuð full­trú­um for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins, menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins, skrif­stofu Alþing­is, skrif­stofu for­seta Íslands og Þing­vallaþjóðgarðs. Nefnd­in hef­ur unnið að und­ir­bún­ingi viðburða til að halda upp á tíma­mót­in um allt land á næstu mánuðum.

Sjálf mun ég fagna þjóðhátíðar­deg­in­um vest­ur á Hrafns­eyri, fæðingastað Jóns Sig­urðsson­ar, þar sem verður skemmti­leg dag­skrá í til­efni lýðveldisaf­mæl­is­ins og einnig 1150 ára af­mæl­is Íslands­byggðar. Ég vil hvetja sem flesta til þess að taka þátt í að fagna 80 ára af­mæli lýðveld­is­ins, enda er það fjör­egg okk­ar sem við verðum að hlúa að til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júní 2024.

Categories
Fréttir

„Atvinnulífið kallar á iðnmenntað starfsfólk“

Deila grein

10/06/2024

„Atvinnulífið kallar á iðnmenntað starfsfólk“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins stóraukna ásókn í verknám og forgang Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, um stækkun verk- og starfsmenntaskóla um allt land á kjörtímabilinu. Eins hafi átak til að auka aðsókn í verk- og starfsnám í tíð Lilju Alfreðsdóttur sem menntamálaráðherra farið fram úr okkar björtustu vonum.

„Síðustu ár hefur atvinnulífið verið að kalla eftir iðnmenntuðu starfsfólki. Samfélagið hefur tekið miklum breytingum og atvinnulífið kallar á iðnmenntað starfsfólk,“ sagði Halla Signý.

„Í morgun las ég frétt um það að metfjöldi nemenda taki nú sveinspróf í múrverki við Tækniskólann og að aukin jákvæðni sé í garð iðnnáms. Það hefur ekki alltaf verið raunin. Sífellt fleiri nemendur koma nú beint úr grunnskóla í iðnnám og það er vel. Það er greinilegt að aðgerðir sem miða að því að efla iðnnám eru að bera árangur,“ sagði Halla Signý.

„Nú þegar liggur fyrir samkomulag um kostnaðarskiptingu milli ríkis og viðkomandi sveitarfélaga til að ráðist verði í stækkun Fjölbrautaskólans í Breiðholti, Menntaskólans á Ísafirði, Fjölbrautaskóla Suðurnesja ásamt Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Verkmenntaskólanum á Akureyri. Til viðbótar verður ráðist í slíka samningagerð við Fjölbrautaskóla Suðurlands, Borgarholtsskóla og Verkmenntaskóla Austurlands og stefnt er á að viðbygging við alla þessa skóla komist í framkvæmdafasa á þessu kjörtímabili. Þessu til viðbótar stendur til að byggðar verði nýjar höfuðstöðvar Tækniskólans í Hafnarfirði,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Síðustu ár hefur atvinnulífið verið að kalla eftir iðnmenntuðu starfsfólki. Samfélagið hefur tekið miklum breytingum og atvinnulífið kallar á iðnmenntað starfsfólk. Á ferðum mínum um kjördæmið hef ég heyrt frá fjölda fyrirtækja sem hafa næg verkefni en skortir tilfinnanlega iðnmenntað starfsfólk. Í morgun las ég frétt um það að metfjöldi nemenda taki nú sveinspróf í múrverki við Tækniskólann og að aukin jákvæðni sé í garð iðnnáms. Það hefur ekki alltaf verið raunin. Sífellt fleiri nemendur koma nú beint úr grunnskóla í iðnnám og það er vel. Það er greinilegt að aðgerðir sem miða að því að efla iðnnám eru að bera árangur. Í ljósi stóraukinnar ásóknar í verknám hefur Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sett stækkun verk- og starfsmenntaskóla um allt land í forgang á þessu kjörtímabili. Í tíð Lilju Alfreðsdóttur sem menntamálaráðherra var farið í átak til að auka aðsókn í verk- og starfsnám. Það átak fór fram úr okkar björtustu vonum. Þessari auknu ásókn hafa þó vissulega fylgt vaxtarverkir og hafna hefur þurft hundruðum umsækjenda vegna plássleysis. Þeirri þróun á nú að snúa við. Nú þegar liggur fyrir samkomulag um kostnaðarskiptingu milli ríkis og viðkomandi sveitarfélaga til að ráðist verði í stækkun Fjölbrautaskólans í Breiðholti, Menntaskólans á Ísafirði, Fjölbrautaskóla Suðurnesja ásamt Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Verkmenntaskólanum á Akureyri. Til viðbótar verður ráðist í slíka samningagerð við Fjölbrautaskóla Suðurlands, Borgarholtsskóla og Verkmenntaskóla Austurlands og stefnt er á að viðbygging við alla þessa skóla komist í framkvæmdafasa á þessu kjörtímabili. Þessu til viðbótar stendur til að byggðar verði nýjar höfuðstöðvar Tækniskólans í Hafnarfirði.

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að þetta átak hafi tekist svo vel eins og raun ber vitni. Ég segi: Vel gert.“

Categories
Fréttir Greinar

Það eina örugga í lífinu

Deila grein

06/06/2024

Það eina örugga í lífinu

Síðustu misseri hafa verið fréttir af rekstrarvanda líkhúsa á Íslandi. Það er morgunljóst að skýra þarf frekar stöðu þeirra hér á landi og hvernig rekstri þeirra verði best háttað til framtíðar. Móta þarf stefnu og skilgreina hver ber ábyrgð á látnum einstaklingi frá dánarvottorði til greftrunar í kirkjugarði og heimila líkhúsum gjaldtöku. En það er ekki einungis rekstrarvandi líkhúsa sem þarf að greina og finna framtíðarlausn á, við þurfum einnig að huga að með hvaða hætti sé best að koma okkur öllum fyrir til eilífðarnóns.

Dýrmætt landrými

Eftir því sem okkur fjölgar, fjölgar þeim látnu. Það liggur fyrir að andlátum mun fjölga um 100% á næstu 20 árum. Samkvæmt lögum má ekki grafa látinn einstakling nema í viðurkenndum grafreit eða kirkjugarði. Sífellt meira landsvæði fer því undir kirkjugarða og erfiðleikar við að finna hentugan stað aukast eftir því sem árin líða. Landrými í þéttbýli er dýrmætt og leggst það á sveitarfélög að leggja til aukið landrými fyrir kirkjugarða.

Þróun síðustu ára sýnir að sífellt fleiri kjósa að láta brenna sig en áður, duftreitir taka mun minna pláss og því væri ákjósanlegt að við myndum færa okkur í auknum mæli í þá áttina. Veruleikinn er sá að bálstofur og líkbrennsla er þjóðhagslega hagkvæmt verkefni. Því fylgir að minna landsvæði þarf að skipuleggja og hirða. Undir eina gröf þarf að gera ráð fyrir 2,5 m á lengd og 1,40 m á breidd. Undir duftker eru stærðarmörkin 75cm*75cm.

Jafnt aðgengi að bálstofum

En eins og staðan er í dag er aðeins ein bálstofa á landinu. Hún var byggð árið 1946, er fyrir löngu komin til ára sinna og er rekin á undanþágu. Ef horft er blákalt á stöðuna er ljóst að það borgar sig að hafa einungis eina bálstofu á landinu vegna fámennis og smæðar. En þá þarf að huga að með hvaða hætti hægt er að jafna kostnaðinn fyrir alla landsmenn þannig að bálför sé raunverulegur og aðgengilegur kostur.

Hver er framtíðin?

En þá komum við aftur að rekstrarvandanum, hver er það sem á að starfrækja líkhús og bálstofur hér á landi? Á það að vera á hendi ríkisins, sveitarfélaga eða einkaaðila? Hvernig viljum við að líkhús og kirkjugarðar landsins þróist á komandi árum? Þessa umræðu þurfum við að taka. Ef við horfum til nágrannalanda okkar er það afar misjafnt með hvaða hætti þetta er gert. Eitt er þó víst og það er að þörf á gagngerri endurskoðun á lögum um kirkjugarða.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. júní 2024.