Categories
Fréttir

Uppfærður samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins

Deila grein

22/08/2024

Uppfærður samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins

Styttri ferðatími, minni tafir, aukið umferðaröryggi, áhersla á að draga úr kolefnisspori, stórbættar almenningssamgöngur, fjölgun hjóla- og göngustíga og uppbygging stofnvega eru kjarninn í uppfærðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem undirritaður var í dag.

Sáttmálinn felur í sér sameiginlega sýn fyrir allt höfuðborgarsvæðið, þar sem lögð verður höfuðáhersla á skilvirka og hagkvæma uppbyggingu samgönguinnviða. Markmiðið er að samgöngur á höfuðborgarsvæðinu verði í fremstu röð þannig að svæðið og Ísland allt sé samkeppnishæft um bæði fólk og fyrirtæki.

Forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, innviðaráðherra og borgarstjóri og bæjarstjórar sveitarfélaganna tóku þátt í undirrituninni á blaðamannafundi í dag. - mynd
Forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, innviðaráðherra og borgarstjóri og bæjarstjórar sveitarfélaganna tóku þátt í undirrituninni á blaðamannafundi í dag.
  • Aukin lífsgæði, greiðari umferð og minni ferðatími í öllum samgöngumátum 
  • Verulegur samfélagslegur ábati og aukið umferðaröryggi 
  • Almenningssamgöngur stórefldar með auknum stuðningi ríkisins

Ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes, gerðu í dag samkomulag um uppfærðan sáttmála sem felur í sér uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á svæðinu til ársins 2040.

Á sama tíma var undirritað samkomulag um samvinnu um rekstur og stjórnskipulag almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er að efla almenningssamgöngur, m.a. með auknum stuðningi ríkisins, en sameiginlegt félag verður stofnað um skipulag og rekstur.

Raunhæf áætlun til 2040

Ráðist var í uppfærslu sáttmálans á síðasta ári vegna aukins umfangs og mikilla almennra kostnaðarhækkana. Kostnaðaráætlanir hafa verið endurskoðaðar með fenginni reynslu og mörg verkefni komin nær framkvæmdatíma. Gildistími sáttmálans hefur verið lengdur til ársins 2040 til að tryggja raunhæfan tímaramma fyrir undirbúning og fjármögnun.

Hagkvæmni og samfélagslegur ábati

Sjálfstæð greining á samfélagslegum ábata á verkefnum samgöngusáttmálans (Cowi 2024) bendir til verulegs ávinnings vegna styttri og áreiðanlegri ferðatíma og minni umferðartafa. Heildarfjárfesting samgöngusáttmálans nemur 311 milljörðum kr. Ábatinn er metinn 1.140 milljarðar kr. til 50 ára, innri vextir 9,2% og ábati sem hlutfall af kostnaði er um 3,5. Það þýðir að fyrir hverja krónu sem lögð er í verkefnið fær samfélagið þrjár krónur til baka.

Aukið valfrelsi í samgöngum er lykilatriði í greiningunni, m.a. þar sem fleiri eigi þess kost að nýta almenningssamgöngur með tilheyrandi minnkun umferðartafa og mengunar auk lægri rekstrarkostnaðar heimila.

Stofnvegir, almenningssamgöngur, hjóla- og göngustígar og snjallari umferðarstýring

Allar lykilframkvæmdir eru þær sömu og áður í samgöngusáttmálanum en breytingar eru gerðar á einstökum verkefnum.

Heildarfjárfesting á fyrsta tímabili í uppfærðum samgöngusáttmála, til ársins 2029, er að jafnaði rúmlega 14 ma. kr. á ári. Það samsvarar þriðjungi af árlegum samgöngufjárfestingum á fjárlögum. Á tímabilinu 2030-2040 er heildarfjárfesting að jafnaði 19 ma. kr. á ári. Heildarfjárfesting til ársins 2040 er áætluð 311 ma. kr.

Verkefni samgöngusáttmálans skiptast í fjóra meginflokka sem eru: Stofnvegir, Borgarlína og strætóleiðir, göngu- og hjólastígar og verkefni tengd umferðarstýringu, flæði og öryggi. Eftirfarandi er nánari lýsing á verkefnaflokkunum og hlutdeild í samgöngusáttmálanum:

  • Stofnvegir – 42%. Ráðist verður í sex stór verkefni við stofnvegi á höfuðborgarsvæðinu til viðbótar við þau þrjú sem lokið er á vegum sáttmálans (stofnvegaverkefni á Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut).
  • Borgarlína og strætóleiðir – 42%. Almenningssamgöngur verða stórbættar með uppbyggingu Borgarlínu í sex lotum. Þjónusta við íbúa verður stöðugt bætt með samþættu leiðaneti strætisvagna og Borgarlínu.
  • Hjóla- og göngustígar – 13%. Hjóla- og göngustígum verður fjölgað og þeir bættir verulega í uppfærðum sáttmála, en lagðir verða um 80 km af nýjum stígum til viðbótar við 20 km sem þegar hafa verið lagðir á vegum sáttmálans.
  • Umferðarstýring, umferðarflæði og öryggisaðgerðir – 3%. Fjárfest verður áfram í nýrri tækni og búnaði til að bæta umferðarflæði og -öryggi á stofnvegum

Miklabraut í jarðgöng og ný gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegs

Stærstu breytingarnar á einstökum verkefnum frá fyrri samgöngusáttmála eru að Miklabraut verði lögð í um 2,8 km jarðgöng með tengigöngum við Kringlumýrarbraut í stað 1,8 km Miklubrautstokks og að Sæbraut verði lögð í stokk í stað fyrri áforma um ein mislæg gatnamót. Þá hafa ný gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar verið útfærð með frjálsu flæði bílaumferðar auk sérrýmis Borgarlínu til að tengja Mjódd við almenningssamgöngukerfið. Loks flytjast framkvæmdir við Suðurlandsveg milli Norðlingavaðs og Bæjarháls yfir á samgönguáætlun. Stöðugt mat er lagt á valkosti sem leiða til aukinnar hagkvæmni og umferðaröryggis.

Aukið framlag í fjármálaáætlun

Skipting fjármögnunar milli ríkis og sveitarfélag verður hin sama og áður, þ.e. sveitarfélög með 12,5% og ríkið 87,5%.

Beint framlag ríkisins í samgöngusáttmálann verður 2,8 ma. kr. á ári frá 2024 til og með ársins 2040. Auk þess er gert ráð fyrir árlegu viðbótarframlagi að fjárhæð 4 ma. kr. í nýsamþykktri fjármálaáætlun ríkisins frá 2025 til og með 2029. Þá er gert ráð fyrir auknum ábata af þróun og sölu Keldnalands sem ríkið lagði inn í verkefnið við undirritun samgöngusáttmálans 2019.

Beint framlag sveitarfélaganna verður 1,4 ma.kr. á ári frá 2024 til og með ársins 2040. Auk þess mun árlegt viðbótarframlag að fjárhæð 555 miljónir kr. bætast við bein framlög sveitarfélaganna frá og með 2025. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu skipta með sér kostnaði á hverju ári miðað við hlutfallslegan íbúafjölda 1. desember árið á undan.

Frá og með árinu 2030 er gert er ráð fyrir tekjum af umferð eða annarri fjármögnun ríkisins. Stjórnvöld vinna að nýrri nálgun á fjármögnun vegakerfisins sem innleidd verður í skrefum á næstu árum. Stefnt er að því að laga fjármögnunarkerfið að orkuskiptum og minnkandi notkun jarðefnaeldsneytis, þar sem gjaldtaka miðast við notkun í stað sértækra gjalda á borð við olíu- og bensíngjöld. Fyrstu skrefin hafa þegar verið tekin með upptöku kílómetragjalds á rafmagnsbíla, sem áður greiddu afar takmarkað fyrir notkun vegakerfisins.

Sameiginlegt félag um stórbættar almenningssamgöngur

Ríkið og sveitarfélögin undirrituðu samkomulag um samvinnu um rekstur og stjórnskipulag almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Samkomulagið felur í sér aukinn fjárstuðning ríkisins og virkari aðkomu að stjórnskipulagi. Ríkið mun bera þriðjung af rekstrarkostnaði að frádregnum farþegatekjum á móti sveitarfélögunum. Þá mun ríkið veita framlög til orkuskipta í almenningssamgöngum.

Samkomulagið felur í sér að sveitarfélögin og ríkið stofni sameiginlegt félag sem beri ábyrgð á skipulagi og rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Rekstur nýja félagsins mun taka hvort tveggja til hefðbundinna strætisvagnaleiða og Borgarlínu. Stefnt er að því að félagið taki til starfa um næstu áramót.

Þjónusta almenningssamgangna verður efld verulega þangað til nýtt leiðanet kemur að fullu til framkvæmda með Borgarlínunni. Með nýju leiðaneti og Borgarlínu er stefnt að því að sjö af hverjum tíu íbúum verði í göngufjarlægð (400 m frá stoppistöð) frá hágæða almenningssamgöngum sem ganga á sjö-tíu mínútna fresti. Bættar almenningssamgöngur eru lykill að því að bæta lífsgæði íbúa og minnka samgöngukostnað þeirra, bæta flæði umferðar og draga úr mengun.

Um starf viðræðuhóps

Viðræðuhópur ríkis og sveitarfélaga hóf uppfærslu samgöngusáttmálans í mars 2023. Viðræðuhópnum var m.a. falið að uppfæra samgöngusáttmálann og framkvæmdaáætlun, vinna áhrifamat af verkefnasafni sáttmálans og gera drög að samningi um eflingu almenningssamgangna til að tryggja rekstur þeirra á höfuðborgarsvæðinu.

Viðræðuhópur ríkis og sveitarfélaga kallaði til fjölda aðila sem sóttu fundi hópsins auk þess sem haft var umfangsmikið samstarf við Betri samgöngur og Vegagerðina. Ragnhildur Hjaltadóttir, stjórnarformaður Betri samgangna, stýrði viðræðuhópnum.

Fylgiskjöl með uppfærðum samgöngusáttmála

  1. Minnisblað samþykkt á fundi forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og innviðaráðherra með bæjarstjórum sveitarfélaganna, borgarstjóra og Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu: Samgöngusáttmáli – verkáætlun um uppfærslu forsenda og undirbúning viðauka (2023) 
  2. Cowi/Mannvit. Capital Area Transport Pact Socioeconomic Analysis (2024)
  3. Minnisblað rýnihóps um úrbætur á stjórnkerfi samgöngusáttmála (2024) 
  4. Minnisblað um Miklubraut í jarðgöng (2024) 
  5. Betri samgöngur. Samgöngusáttmálinn. Mörkun og skilgreining framkvæmda (2024)
  6. Uppfærð rekstraráætlun almenningssamgangna: Nýtt leiðanet með Borgarlínu (2024) 
  7. Forsendur rekstraráætlunar Nýs leiðanets (2024)

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir Greinar

Heilsugæsla á Akureyri

Deila grein

21/08/2024

Heilsugæsla á Akureyri

Á undanförnum árum hefur verið lögð sérstök áhersla á að efla og bæta aðgengi heilsugæslu á Akureyri sem og efla heilsugæslur á landinu öllu sem fyrsta viðkomustað. Breytingar hafa orðið á skipulagi heilsugæslna til að mæta einstaklingum með betri hætti en starf heimilislækna er fjölbreytt, samskiptafjöldi mikill og vinna utan dagvinnutíma töluverð.

Fjölgun heimilislækna

Aðgengi að fast skráðum heimilislækni, sem þekkir skjólstæðing sinn og sögu hans vel, hefur jákvæð áhrif á lífsgæði og ævilengd.

Rannsóknir hafa sýnt þá mörgu kosti við að einstaklingur hafi skráðan heimilislækni um lengri tíma. Það styttir biðtíma eftir viðtali, minnkar vinnuálag á heimilislæknum og í heilbrigðiskerfinu öllu ásamt því að fækka samskiptum utan dagvinnutíma og komum á síðdegis- og vaktmóttökur. Komum á bráðamóttökur sjúkrahúsa og innlögnum fækkar einnig auk þess að eftirfylgd með lyfjameðferð verður betri.[1]

Aðgengi að heimilislæknum á Akureyri hafði á undanförnum árum ekki verið nægilega gott en því hefur nú verið snúið við. HSN var lánsamt í sumar að fá til sín heilsugæslulæknanema, sem stytti bið eftir þjónustu umtalsvert. Einnig hafa breytingar á sérnámi í heimilislækningum orðið til þess að yfir 100 sérnámslæknar eru í sérnámi í dag og munu skila sér inn í kerfið jafnt og þétt á næstu árum. Framtíðin er því alls ekki eins svört og einhverjir vilja láta uppi.

Ég hef í gegnum tíðina verið ötull talsmaður þess að fjölga tækifærum fyrir heilbrigðismenntað fólk til þess að setjast að og starfa á landsbyggðinni. Það getur þó aldrei verið sjálfstætt markmið þegar kemur að skipulagningu þjónustu heldur þarf fyrst og fremst að horfa til aðgengis, gæða og þjónustu við notendur þar sem þeir eru í fyrsta sæti.

Ný heilsugæsla í Sunnuhlíð

Síðasta vetur var opnuð ný og glæsileg heilsugæslustöð á Akureyri í sérhönnuðu 1800 fermetra húsnæði og nú hefur Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, heimilað Heilbrigðisstofnun Norðurlands að taka um 250 fermetra húsnæði til leigu í Sunnuhlíð til að skapa enn meira rými fyrir starfsemina.

Það má með sanni segja að þessi nýja heilsugæsla hafi umbylt allri aðstöðu fyrir bæði starfsfólk og íbúa og verið lyftistöng fyrir svæðið. Með bættum húsnæðiskosti og stærri húsakynnum hefur verið mögulegt að færa ýmsa starfsemi sem rekin hefur verið í leiguhúsnæði annars staðar í bænum undir einn hatt, til bóta fyrir starfsfólk og þá sem þurfa að sækja sér þjónustu.

Þessu til viðbótar er rétt að geta þess að stefnt er að stækkun að Hvannarvöllum um 320 fermetra. Það má því segja að HSN sé með á leigu eða hafi í hyggju að leigja húsnæði sem samsvarar fyrirhugaðri suðurstöð en þegar heilsugæslustöð suður opnar þá verður starfsemin rekin frá tveimur starfsstöðum.

Áframhaldandi umbætur

Unnið er að því þessa dagana að koma nýrri heilsugæslustöð fyrir á lóð Sjúkrahússins á Akureyri, en klínískri þjónustu verður skipt jafnt á milli stöðvanna auk þess að heimahjúkrun og heimaþjónusta munu hafa aðstöðu í Suðurstöðinni. Ákvörðun um rekstrarfyrirkomulag þessara nýju stöðvar hefur ekki verið tekin, enda væri það ótímabært en samkvæmt lögum er Heilbrigðisstofnunar Norðurlands falið að skipuleggja og veita heilsugæsluþjónustu á svæðinu.

Eins og sést þá hefur markvisst verið unnið að því að bæta þjónustu við íbúa á svæðinu og áfram er unnið að því markmiði. Við erum hvergi nærri hætt og höldum ótrauð áfram með verkefnin sem liggja fyrir, enda eru sum þeirra löngu orðin tímabær.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis

[1] University of Cambridge, June 2, 2023: Having a „regular doctor“ can significantly reduce GP workload, study finds.

Categories
Fréttir Greinar

Lítil grein um stóran sátt­mála

Deila grein

21/08/2024

Lítil grein um stóran sátt­mála

Í dag var undirritað samkomulag ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppfærðan samgöngusáttmála. Með þessari undirritun er staðfest sú framtíðarsýn sem birtist í samgöngusáttmálanum sem ég hafði sem samgönguráðherra forystu um árið 2019 og hjó á harðan hnút í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Á þeim árum sem eru liðin frá undirritun sáttmálans hefur nauðsyn hans verið staðfest: Íbúum hefur fjölgað um 21 þúsund og bifreiðum um tæplega 16 þúsund. Það er ljóst nú og hefur lengi verið ljóst að samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu verða að þróast í samspili stofnvegaframkvæmda, öflugra almenningssamgangna og göngu- og hjólastíga.

Aukin lífsgæði

Samgöngur eru lífæð landsins. Mikilvægt er að þær séu greiðar og að allar aðgerðir feli í sér aukið öryggi. Samgöngusáttmálinn er eins og fyrr sagði samspil mannvirkja fyrir fjölskyldubílinn, almenningssamgöngur og virkra ferðamáta. Hann felur í sér að fólk getur valið sér ferðamáta. Aukin tíðni í almenningssamgöngum á eftir að einfalda líf íbúa svæðisins og gera fjölskyldum kleift að minnka kostnað sinn þegar kemur að fjölda bíla á heimili. Höfuðborgarsvæðið verður þegar framkvæmdum sáttmálans lýkur, líkara þeim borgarsvæðum sem við þekkjum í Evrópu þar sem almenningssamgöngur eru öflugar. Það þýðir með öðrum orðum að samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins eykst. Því ekki geta það talist dýrmæt lífsgæði að eyða tíma sínum í umferðarteppum.

Meiri framkvæmdir – meiri kostnaður

Frá því samgöngusáttmálinn var undirritaður árið 2019 hefur heildarkostnaður við verkefnin sem innan hans eru hækkað. Ástæða hækkunarinnar er fyrst og fremst fólgin í því að bæst hafa við stórar og kostnaðarsamar framkvæmdir á borð við göng frá Grensásvegi að Vatnsmýri og stokkur á Sæbraut í stað mislægra gatnamóta. Líkt og í öðrum vegaframkvæmdum á landinu hefur vísitala framkvæmda hækkað mikið á síðustu árum. Það gildir einnig innan höfuðborgarsvæðisins.

Ekkert Hókus pókus!

Óskhyggja dugar skammt þegar kemur að samgöngum. Lögmál veruleikans hverfa ekki sama hversu oft menn hrópa hókus pókus. Samgöngur eru einn af grunnþáttum í uppbyggingu samfélaga. Uppbygging samgangna snýr að því að uppfylla þarfir samfélagsins, ekki aðeins í dag heldur einnig og ekki síst fyrir komandi kynslóðir. Samgöngur og skipulag byggðar snýst um að auka lífsgæði borgaranna. Staðreyndin er sú að án öflugra almenningssamgangna mun alltaf þrengjast meira og meira að fjölskyldubílnum nema sífellt stærri hluti af flatarmáli höfuðborgarsvæðisins fari undir sífellt fleiri akreinar og bílastæði. Ég leyfi mér að efast um að það sé vilji íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Raunsæi kallar á hugrekki

Stundum er það svo að stór verkefni sem taka áratugi í framkvæmd, líkt og raunin er þegar kemur að skipulagsmálum og samgöngumálum, mæta afgangi hjá stjórnmálamönnum því afraksturinn verður ekki sýnilegur í næstu kosningum. Einhver sagði að samgöngur og skipulag væru ekki pólitík heldur framtíðarsýn sem byggðist á gögnum og raunsæi, sem sagt skynsemi – en skynsemi er pólitísk stefna. Stundum er það svo að það raunsæi kallar á pólitískt hugrekki. Undirritun uppfærðs samgöngusáttmála er staðfesting þess að slíkt hugrekki finnst í íslenskum stjórnmálum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. ágúst 2024.

Categories
Greinar

Nýtt við­horf í hús­næðis­málum

Deila grein

21/08/2024

Nýtt við­horf í hús­næðis­málum

Húsnæðismál hafa lengi verið eitt brýnasta verkefni samfélagsins okkar, en aldrei hefur þörfin verið jafn mikil og nú fyrir nýjar lausnir. Í þessum pistli langar okkur í Ung Framsókn í Kraganum að kynna nokkrar nýjar stefnur sem við teljum að geti hjálpað ungu fólki á húsnæðismarkaðinum. Vert er að nefna að margt í okkar stefnum er í takt við það sem kom fram á nýlegum fundi um húsnæðismál sem Ágúst Bjarni þingmaður átti frumkvæði að og stýrði með glæsibrag.

Tímamörk og endurgreiðslur: Hvatning til framkvæmda

Til að tryggja að úthlutaðar lóðir séu nýttar á markvissan hátt, leggjum við til að settar verði reglur um að lóðir, sem úthlutað er til einkaaðila eða fyrirtækja, skuli nýttar innan ákveðins tímabils, til dæmis innan 2-3 ára. Ef framkvæmdir hefjast ekki innan þess tíma, gæti lóðin verið tekin til baka af sveitarfélaginu eða sett aftur í sölu. Þetta stuðlar að því að nýbyggingar hefjist án tafa og lóðirnar nýtist samfélaginu sem best.

Við leggjum einnig til að endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts vegna vinnu við nýbyggingar, viðhald og endurbætur á íbúðarhúsnæði verði hækkað í 60%. Þetta mun ekki aðeins draga úr byggingarkostnaði, heldur einnig hvetja til viðhalds og endurbóta á núverandi húsnæði, sem eykur gæði og öryggi heimila á sama tíma og það skapar störf og eflir atvinnulífið.

Efling einkaframtaksins í húsnæðismálum

Við í Ung Framsókn í Kraganum teljum að einkaframtakið gegni lykilhlutverki í því að leysa húsnæðisvandann. Með því að draga úr opinberum álögum og einfalda regluverk í byggingariðnaði getum við skapað aðstæður þar sem einkaaðilar geta brugðist hratt og örugglega við þeirri miklu eftirspurn sem ríkir á húsnæðismarkaði. Auk þess væri hægt að auka framboð á byggingarlóðum og einfalda ferlið fyrir byggingarleyfi, sem mun hvetja til nýsköpunar og fjölbreytni í húsnæðisuppbyggingu. Með því að skapa jákvætt og samkeppnishæft umhverfi fyrir einkaframtakið tryggjum við að lausnirnar verði fjölbreyttari, hraðvirkari og betur sniðnar að þörfum íbúanna. Einkaframtakið, með stuðningi opinberra aðgerða, er lykillinn að því að tryggja aðgengi að öruggu og hagkvæmu húsnæði fyrir alla.

Endurnýting atvinnuhúsnæðis

Við horfum einnig til nýsköpunar og umhverfisverndar með því að nýta ónotað atvinnuhúsnæði fyrir íbúðabyggð. Með viðeigandi skipulagsbreytingum er hægt að bæta 500 nýjum íbúðum við þéttbýli á næstu fimm árum. Þetta mun ekki aðeins auka framboð á íbúðum heldur einnig draga úr kolefnislosun með því að nýta núverandi byggingar.

Samþætting húsnæðis- og umhverfisstefnu

Sjálfbærni ætti að vera lykilatriði í allri okkar stefnumótun. Með því að samþætta húsnæðis- og umhverfisstefnu, sem leggur áherslu á græna innviði og kolefnishlutleysi, getum við stuðlað að því að auka hlut vistvænna íbúða um 20% á næstu fimm árum. Þetta er stórt skref í átt að sjálfbærri framtíð fyrir okkur öll.

Stuðningur við fyrstu kaupendur

Það er ljóst að ungt fólk stendur frammi fyrir sívaxandi áskorunum þegar kemur að því að eignast sitt fyrsta heimili. Til að mæta þessu ættum við að hækka hlutdeildarlán til ungs fólks um 20% og lækka vexti á þessum lánum. Með þessu stefnum við að því að fjölga fyrstu kaupendum um 15% á næstu þremur árum. Ungt fólk á ekki að þurfa að gefa eftir drauminn um eigið heimili vegna fjárhagslegra hindrana.

Efling innviða og ný tækni

Á meðan við horfum fram á veginn, er nauðsynlegt að tæknin fylgi með. Með innleiðingu stafrænna lausna til að samræma umsóknir um byggingarleyfi, getum við stytt tíma frá umsókn til útgáfu leyfa um 25%. Tæknin á að styðja við, ekki tefja, uppbyggingu samfélagsins okkar.

Við trúum því að með þessum aðgerðum sé hægt að snúa við neikvæðri þróun á húsnæðismarkaði og skapa umhverfi þar sem ungt fólk getur öðlast öryggi í eigin húsnæðismálum. Við hvetjum ykkur til að taka þátt í þessari umræðu og styðja við okkar framtíðarsýn – þar sem allir hafa tækifæri til að skapa sér heimili.

Kjartan Helgi Ólafsson, formaður Ungrar Framsóknar í Kraganum.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. ágúst 2024.

Categories
Fréttir

Námsgögn verði gjaldfrjáls fyrir framhaldsskólanema að 18 ára aldri!

Deila grein

19/08/2024

Námsgögn verði gjaldfrjáls fyrir framhaldsskólanema að 18 ára aldri!

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir löngu tímabært að stórefla námsgagnagerð á Íslandi og að þau verði gjaldfrjáls fyrir framhaldsskólanema að 18 ára aldri!

„Ég hef tekið ákvörðun um að tvöfalda það fjármagn sem úthlutað verður úr tveimur sjóðum, Þróunarsjóði námsgagna og Námsgagnasjóði,“ segir Ásmundur Einar.

„Þessu er ætlað að styðja betur við námsgagnagerð ásamt því að á fyrstu dögum þingsins mun ég leggja fram frumvarp sem gerir námsgögn gjaldfrjáls fyrir framhaldsskólanema upp að 18 ára aldri.

Öflug námsgagnagerð, stuðningur við fagfólkið okkar og jafnrétti allra barna til náms eru lykilþættir í því að efla skólastarf og styrkja stöðu barnanna okkar.“

Fjárframlag til námsgagnagerðar tvöfaldast og námsgögn verða gjaldfrjáls fyrir framhaldsskólanema fram að 18 ára aldri. Aðgerðirnar eru liður í heildarendurskoðun á útgáfu námsgagna og menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030. Nýtt frumvarp um námsgögn hefur verið samþykkt af ríkisstjórn til fyrirlagningar á Alþingi.

Ein af áherslum menntastefnu stjórnvalda er að í boði séu fjölbreytt námsgögn sem taka mið af möguleikum stafrænnar miðlunar og margbreytileika nemenda. Fyrirkomulag útgáfu námsgagna hefur sætt gagnrýni um hríð og þörfin á úrbótum brýn. Gott námsefni gegnir lykilhlutverki í að ná árangri í menntun. Aðgerðir sem nú eru að koma til framkvæmda marka mestu breytingar á útgáfu námsgagna í áraraðir.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, skipaði starfshóp um námsgögn í upphafi árs 2024. Starfshópnum var falið að greina áskoranir og tækifæri vegna fyrirhugaðrar lagasetningar um námsgögn sem ætlað væri að auka aðgengi að fjölbreyttum námsgögnum fyrir öll skólastig. Starfshópurinn hefur skilað tillögum sínum til ráðherra og byggir nýtt frumvarp um námsgögn m.a. á vinnu hópsins.

Meðal tillagna starfshópsins er aukið fjármagn til námsgagnasjóðs og þróunarsjóðs námsgagna. Fjárframlag til þessara sjóða verður tvöfaldað frá árinu 2025 samkvæmt ákvörðun ráðherra. Nemendur munu njóta aukins framboðs námsefnis í ákveðnum greinum strax á vorönn 2025. Markmiðið er að búa til fleiri, fjölbreyttari og vandaðri námsgögn fyrir kennara og skóla til að velja úr.

Nýtt frumvarp um námsgögn var lagt fram til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda í vor eftir að starfshópurinn hafði kynnt bráðabirgðaniðurstöður sínar fyrir ráðherra. Samþykkt var á fundi ríkisstjórnar á föstudag að frumvarpið yrði lagt fram á Alþingi og hefur það nú verið sent þingflokkum stjórnarflokkanna til afgreiðslu. Helstu nýmæli eru að lagt er til að nemendum í framhaldsskóla fram að 18 ára aldri standi til boða gjaldfrjáls námsgögn en námsgögn eru núna gjaldfrjáls fyrir nemendur í leik- og grunnskólum. Stuðningurinn hefst við gildistöku laganna og verður innleiddur í áföngum þar til námsgögn verða að fullu gjaldfrjáls 1. janúar 2029.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um ný heildarlög um námsgögn sem koma í stað núgildandi laga um námsgögn. Lagðar eru til ýmsar breytingar á stuðningi ríkisins við nýsköpun, þróun, gerð, þýðingu og útgáfu námsgagna á fjölbreyttu formi fyrir leik-, grunn-, framhaldsskóla og nú í fyrsta sinn fyrir tónlistarskóla einnig. Námsgögn sem njóta stuðnings námsgagnasjóðs eða þróunarsjóðs námsgagna skulu vera vönduð, í samræmi við aðalnámskrár og styðja við fjölbreyttar þarfir barna og ungmenna. Jafnframt er í frumvarpinu fjallað um heimild ráðherra til að setja gæðaviðmið um gerð og útgáfu námsgagna sem njóta stuðnings hins opinbera og um útgáfuáætlun námsgagna til fimm ára í senn sem ráðherra gefur út.

Í frumvarpinu felast einnig breytingar á uppbyggingu og hlutverki sjóða, m.a. breytingar á skipan og samsetningu stjórnar þróunarsjóðs námsgagna.

Efling námsgagnagerðar og að þau verði gjaldfrjáls fyrir framhaldsskólanema að 18 ára aldri! Það er orðið löngu…

Posted by Ásmundur Einar Daðason on Mánudagur, 19. ágúst 2024

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Grindavík verði aftur öflugt bæjarfélag

Deila grein

19/08/2024

Grindavík verði aftur öflugt bæjarfélag

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra og formaður Framsóknar, kynnti sér stöðuna á vettvangi í Grindavík í síðustu viku. Segir hann að ríkisstjórnin muni áfram gera allt svo að Grindavík verði aftur öflugt samfélag eftir eldsumbrotin.

„Síðasta miðvikudag heimsótti ég Grindavík og naut leiðsagnar Fannars Jónassonar bæjarstjóra og Guðnýjar Sverrisdóttur og Gunnars Einarssonar sem bæði eiga sæti í framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur sem í daglegu tali nefnist Grindavíkurnefndin.

Það er ekki laust við að maður fyllist sorg þegar ekið er inn í bæinn. Það er ákveðinn einmanaleiki sem hellist yfir mann þegar ekið er upp á varnargarðana og horft yfir byggðina umkringda svörtu hrauninu. Á sama tíma fyllist maður trú á getu samfélagsins til að takast á við stórkostlegt afl náttúrunnar hugviti og seiglu að vopni. Öllum sem hingað koma er ljóst að í Grindavík hefur verið unnið stórvirki. Það veitir einnig mikinn innblástur að ræða við atvinnurekendur í Grindavík sem standa með samfélaginu sínu alla leið. Ég ætla ekki að þykjast skilja til fulls hvernig þeim líður sem þurft hafa að yfirgefa heimili sín og fá ekki að snúa aftur, að minnsta kosti um sinn. En ég get þó sagt að ríkisstjórnin mun áfram gera allt sem í hennar valdi stendur til að Grindavík verði aftur það öfluga bæjarfélag sem það var fyrir eldsumbrotin.“

Síðasta miðvikudag heimsótti ég Grindavík og naut leiðsagnar Fannars Jónassonar bæjarstjóra og Guðnýjar Sverrisdóttur og…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Mánudagur, 19. ágúst 2024
Categories
Fréttir

Akureyrarklíníkin – þekkingar- og ráðgjafarmiðstöð um ME-sjúkdóminn

Deila grein

19/08/2024

Akureyrarklíníkin – þekkingar- og ráðgjafarmiðstöð um ME-sjúkdóminn

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, hefur staðfest samstarfsyfirlýsingu um stofnun þekkingar- og ráðgjafarmiðstöðvar um ME-sjúkdóminn og langvarandi eftirstöðvar COVID-19. „Með stofnun miðstöðvarinnar, sem gengur undir nafninu Akureyrarklíníkin, erum við að auka þekkingu og rannsóknir um sjúkdóminn, efla þjónustu við einstaklinga með ME og stuðla að samfélagslegri vitundarvakningu.“

„Í dag var stigið mikilvægt skref þegar undirrituð var samstarfsyfirlýsing um stofnun þekkingar- og ráðgjafarmiðstöðvar um ME-sjúkdóminn og langvarandi eftirstöðvar COVID-19.

Með stofnun miðstöðvarinnar, sem gengur undir nafninu Akureyrarklíníkin, erum við að auka þekkingu og rannsóknir um sjúkdóminn, efla þjónustu við einstaklinga með ME og stuðla að samfélagslegri vitundarvakningu.

Akureyrarklíníkin mun gegna samhæfandi hlutverki á landsvísu og leiða samstarf við Landspítala og aðra aðila sem sinna ME-sjúklingum, styðja við greiningar og vera til ráðgjafar. Að auki mun miðstöðin veita aðstandendum sjúklinga stuðning í hlutverki sínu.

Ég vil þakka þeim sem hafa drifið verkefnið áfram, Finnbirni Sigurðsyni, ME-félaginu ásamt Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Norðurlands.“

Í dag var stigið mikilvægt skref þegar undirrituð var samstarfsyfirlýsing um stofnun þekkingar- og ráðgjafarmiðstöðvar…

Posted by Willum Þór Þórsson on Föstudagur, 16. ágúst 2024
Categories
Fréttir Greinar

Manstu þegar Messenger var ekki til?

Deila grein

15/08/2024

Manstu þegar Messenger var ekki til?

Umræða um menntamál sem farið hefur fram í samfélaginu síðustu vikur gleður mig mjög. Menntun er undirstaða framfara og ef við þróum ekki aðferðir við að fræða og fræðast þá blasir við stöðnun og glötuð tækifæri.

Þegar við veltum fyrir okkur breytingunum sem orðið hafa í samfélaginu síðustu ár – og áratugi. Segjum bara breytingar sem hafa orðið frá árinu 2000 til að vera með eitthvað viðmið. Fyrsti iPhone síminn var gefinn út árið 2007. Í upphafi aldarinnar voru bankar, tryggingafélög og pósthús á hverju götuhorni. Fartölvunotkun var ekki almenn og fjarvinna mögulega ekki orð í íslensku. Það sem hefur gerst á þessum fyrsta fjórðungi nýrrar aldar hefur haft gríðarlega afgerandi áhrif á okkar daglega líf í leik og starfi.   

Hvernig þurfa menntastofnanir framtíðarinnar að vera?

Þessar breytingar kalla á að undirstöður samfélagsins eins og menntakerfið þróist með. Ekki bara hvað er kennt heldur hvernig það er kennt. Við þurfum að greina hvar við höfum staðið okkur vel. Af því að það er alveg augljóst að menntakerfið okkar hefur vaxið með þeim áskorunum sem það hefur staðið frammi fyrir síðustu áratugi. Auk þeirra samfélagslegu og tæknilegu breytinga sem við höfum gengið í gegnum þá eru skólarnir búnir að laga sig að hugmyndafræðinni um skóla án aðgreiningar, mikil fólksfjölgun og þar með talin fjölgun innflytjenda með sértækar þarfir hefur átt sér stað, ný aðalnámsskrá, breytt matskerfi og svo mætti lengi telja. 

Við þurfum líka að skoða hvað hefur ekki gengið vel og við þurfum að vera heiðarleg í þeirri skoðun. Það væri nú eitthvað skrítið ef allar ákvarðanir sem við höfum tekið siðustu árin sem varðar menntakerfið væru svo frábærar að það þyrfti bara ekkert að breyta þeim. 

En það virkaði fyrir mig

Það er einhvernvegin þannig að þegar við ræðum málin opinberlega þá erum við fljót að skiptast í lið og enn fljótari að sammælast um einfalda leið til að leysa málið. En viðfangsefnið er ekki einfalt og lausnirnar verða ekki einfaldar heldur. 

Það er auðvelt fyrir leikmann eins og mig að grípa í að tala fyrir lausnum sem ég skil eins og innleiðingu á samræmdum prófum. Það er kerfi sem ég þekki. Það er kerfi sem ég ólst upp við. Ef það virkaði þá af hverju virkar það þá ekki núna? En á meðan við skiptumst á skoðunum um hluti sem er auðvelt að hafa skoðun á og skiptir okkur í fylkingar þá missum við af tækifæri til að fara á dýptina í umræðunni. Auðvitað þarf að mæla árangur í skólastarfi eins og í öllu öðru starfi. En hvernig á að gera það er ákvörðun sem fagfólkið verður að koma að. Við þurfum að hlusta á þau og þeirra ráðleggingar en skólafólk verður líka hlusta á reynslu úr öðrum áttum og skoða hvaða reynsla og þekking getur nýst okkur til að byggja upp áherslur í menntakerfi framtíðarinnar.  

Aldís Stefánsdóttir, formaður fræðslunefndar Mosfellsbæjar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. ágúst 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Stórmál sem þarf að klára

Deila grein

15/08/2024

Stórmál sem þarf að klára

Auðlind­ir og nýt­ing þeirra er eitt af stærstu hags­muna­mál­um hvers þjóðrík­is og gæta ber þeirra í hví­vetna. Það stytt­ist í að Alþingi komi sam­an að nýju eft­ir sum­ar­leyfi til þess að fjalla um hin ýmsu mál­efni. Fyr­ir þing­inu að þessu sinni mun meðal ann­ars liggja fyr­ir frum­varp um rýni á fjár­fest­ing­um er­lendra aðila vegna þjóðarör­ygg­is og alls­herj­ar­reglu. Með orðinu rýni í þessu sam­hengi er átt við grein­ing­ar og mat á því hvort að viðskiptaráðstaf­an­ir sem tryggja er­lend­um aðilum eign­araðild, veru­leg áhrif eða yf­ir­ráð yfir at­vinnu­fyr­ir­tækj­um eða fast­eigna­rétt­ind­um hér á landi, ógni þjóðarör­yggi eða alls­herj­ar­reglu.

Gild­andi lög­gjöf um þessi mál er kom­in til ára sinna og er for­gangs­mál að úr því verði bætt enda er Ísland orðið eft­ir­bát­ur helstu sam­an­b­urðaríkja í þess­um efn­um. Þannig hafa til að mynda flest ríki á Evr­ópska efna­hags­svæðinu og aðild­ar­ríki Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (OECD) sett lög­gjöf sam­bæri­lega þeirri sem lögð er til með frum­varp­inu. End­ur­spegl­ar þessi þróun í sam­an­b­urðarlönd­um okk­ar meðal ann­ars fjöl­breytt­ar og sí­breyti­leg­ar áskor­an­ir í ör­ygg­is­mál­um sem opið og alþjóðlegt viðskiptaum­hverfi get­ur leitt af sér, meðal ann­ars ógn­um sem geta steðjað að grund­vall­ar ör­ygg­is­hags­mun­um ríkja og spretta af fjár­magns­hreyf­ing­um milli landa. Í tíð minni sem ut­an­rík­is­ráðherra árið 2016 fékkst samþykkt fyrsta þjóðarör­ygg­is­stefn­an fyr­ir Ísland sem stjórn­völd­um var falið að fylgja eft­ir, en í henni er meðal ann­ars lögð áhersla á að vernda virkni mik­il­vægra innviða og styrkja áfallaþol sam­fé­lags­ins gagn­vart hvers kyns ógn við líf og heilsu fólks, um­hverfi, eign­ir og innviði.

Leiðar­stefið í frum­varp­inu um rýni á fjár­fest­ing­um er­lendra aðila er samþætt­ing sjón­ar­miða um mik­il­vægi er­lendra fjár­fest­inga fyr­ir efna­hags­lífið ann­ar­s­veg­ar og hins veg­ar að er­lend­ar fjár­fest­ing­ar í mik­il­væg­um innviðum og ann­arri sam­fé­lags­lega mik­il­vægri starf­semi, sem skil­greind eru sem viðkvæm svið, séu í sam­ræmi við þjóðarör­yggi og alls­herj­ar­reglu. Þar und­ir falla meðal ann­ars innviðir sem tengj­ast orku, hita­veitu, vatns- og frá­veitu, sam­göng­um, flutn­ing­um, fjar­skipt­um, sta­f­ræn­um grunn­virkj­um, fjár­mála­kerfi, vörn­um lands­ins, stjórn­kerfi, land­helg­is­gæslu, al­manna­vörn­um, lög­gæslu, neyðar- og viðbragðsþjón­ustu, rétt­ar­vörslu og heil­brigðis­kerfi. Einnig út­veg­un eða fram­leiðsla á mik­il­væg­um aðföng­um, þ.m.t. í tengsl­um við orku eða hrá­efni eða vegna fæðuör­ygg­is. Að sama skapi nær frum­varpið yfir nýt­ingu vatns­orku, jarðvarma, vindorku, náma og annarra jarðefna í þjóðlend­um, en ýms­ar hindr­an­ir eru í nú­gild­andi lög­gjöf um nýt­ingu nátt­úru­auðlinda, meðal ann­ars í gegn­um leyf­is­veit­inga­ferli og tak­mörk­un­um á er­lendu eign­ar­haldi, líkt og í sjáv­ar­út­vegi. Und­ir viðkvæm svið sam­kvæmt frum­varp­inu fell­ur einnig meðhöndl­un mik­il­vægra trúnaðar­upp­lýs­inga og veru­legs magns viðkvæmra per­sónu­upp­lýs­inga sem og þjón­usta á sviði netör­ygg­is í þágu mik­il­vægra innviða svo dæmi séu tek­in.

Mik­il­vægt er að fram­kvæmd rýn­inn­ar sé skil­virk og slái í takt við það sjón­ar­mið að er­lend fjár­fest­ing er mik­il­væg ís­lensku hag­kerfi. Það er brýnt að Alþingi klári þetta stór­mál á kom­andi þingi, þar sem ís­lensk­ir hags­mun­ir verða hafðir að leiðarljósi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. ágúst 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Hamstrar barnið þitt blýanta?

Deila grein

14/08/2024

Hamstrar barnið þitt blýanta?

Nýverið fjallaði háskólaráðherra um þá ógn sem hugmyndafræðinni um eignarréttinn og ábyrgð stafaði af því að grunnskólabörn fái námsgögn án endurgjalds í skólanum. Þar sagði hún sögur af börnum sem koma heim með töskur fullar af ritföngum og öðrum námsgögnum sem þau hafa ekki notað og hélt því fullum fetum fram að ómögulegt væri að koma fyrir hjá þeim ábyrgðartilfinningu gagnvart þessum hlutum vegna þess að þau ættu þau ekki.

Nú búa tvö börn á mínu heimili og ég get í fullri hreinskilni sagt að þau hafa aldrei – ekki einu sinni – komið heim með töskur fullar af ritföngum. Vissulega er reynsla mín takmörkuð við þessi tvö börn, en ég á ofboðslega erfitt með að ímynda mér að stílabækur og blýantar séu svo heillandi fyrir grunnskólabörnum að stórir hópar þeirra finni hjá sér þörfina til að hamstra þeim. Sé það raunin myndi ég ætla að þar væri kjörið tækifæri fyrir foreldra til að ræða við börnin sín um sjálfstjórn. Að þó eitthvað sé frítt þá þýði það ekki að maður þurfi að taka alla hrúguna.

Það er gífurlega mikilvægt að við temjum börnunum okkar að bera virðingu fyrir hlutunum og ganga vel um þá jafnvel þó þau eigi þá ekki ein. Dæmi um hluti sem börn komast í kynni við daglega sem þau hafa afnot af en eiga ekki sjálf eru leiktæki á leikvöllum, skólabyggingin, íþróttahúsið og búnaðurinn þar, nú og bara nær öll íslensk náttúra. Að sjálfsögðu þurfa þau að læra að fara vel með eigin muni (sem gengur alla jafna upp og ofan) en það er engu síður mikilvægt að þau læri að fara vel með eigur annarra og hluti sem eru í eigu okkar allra.

Upphaf skólaársins er kvíðavaldur fyrir margar fjölskyldur sem þurfa að passa upp á hverja krónu til að ná endum saman í hverjum mánuði og þurfa nú að kljást við öll viðbótar útgjöldin sem nýju skólaári fylgir. Þó það sé vissulega ekki stærsti bitinn af kökunni þá er það tvímælalaust mörgum fjölskyldum kærkomin búbót að þurfa ekki að bæta námsgögnum við í það reikningsdæmi. Mér þykir þetta því áhugaverð tímasetning fyrir háskólaráðherra til að bridda upp á þessu umræðuefni, því þó þessir einstaklingar séu kannski ekki í hennar nærumhverfi þá eru þeir svo sannarlega til og eru, að mér sýnist, umtalsvert fleiri en hana grunar.

Það að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til menntunar felur í sér að tryggja þeim aðgengi að þeim tækjum og tólum sem þarf til að stunda nám. Ég er því þakklát að jafnt aðgengi allra barna að menntun vegi þyngra í huga mennta- og barnamálaráðherra en áhyggjur af meintum hömstruðum blýöntum.

Berglind Sunna Bragadóttir, varaformaður Sambands ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. ágúst 2024.