Undanfarna daga hefur verið linnulaus fréttaflutningur um afgreiðslu atvinnuveganefndar Alþingis á frumvarpi Svandísar Svavarsdóttur, þá matvælaráðherra, um framleiðendafélög. Í þessum fréttaflutningi, sem hefur verið sérstaklega óbilgjarn, hefur verið farið fram með gífuryrðum og rangfærslum og af því tilefni tel ég rétt að fara hér yfir nokkrar staðreyndir.
Eina Evrópulandið án undanþágu fyrir kjötafurðastöðvar
Allt frá árinu 2020 hafa stjórnarflokkarnir haft það til skoðunar að innleiða undanþágu fyrir kjötafurðastöðvar frá samkeppnislögum. Tvær ástæður búa þar að baki. Fyrri ástæðan er vel þekkt en lengi hefur afkoma í landbúnaði, m.a. vegna reksturs kjötafurðastöðva, verið mjög slæm – reyndar svo slæm að nú er svo komið að kjötafurðastöðvar eru langtum of margar og reksturinn svo erfiður að eigendur þeirra hafa ekki getað ráðist í nauðsynlegar endurbætur. Seinni ástæðuna má rekja til útgáfu skýrslu Lagastofnunar Háskóla Íslands, sem unnin var að beiðni Kristjáns Þórs Júlíussonar, þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að víðtækar undanþágur hefðu gilt í ESB-rétti og norskum rétti um áratugaskeið. Það mætti líkja þessu við að íslenskir bændur mættu með smjörhníf á móti sverði þegar kemur að samkeppni við innfluttar landbúnaðarvörur.
Um frumvarp matvælaráðherra
Sú staða sem íslenskur landbúnaður hefur búið við var ástæða þess af hverju fyrrverandi matvælaráðherra lagði fram frumvarp um undanþágu fyrir framleiðendafélög sem fól í sér undanþágu frá samkeppnislögum. Við framlagningu frumvarpsins var hins vegar strax ljóst að vankantar væru á málinu þar sem það gagnaðist í raun einungis litlum hluta framleiðslukerfis landbúnaðar, nánar tiltekið alifugla- og svínabændum. Þannig var ljóst að frumvarpið hefði ekki gagnast meginþorra afurðastöðva í stórgripa- og sauðfjárslátrun þar sem vandinn hefur verið mestur. Hafandi heyrt ábendingar frá þingmönnum fullyrti fyrrverandi matvælaráðherra þetta í ræðustól á Alþingi í umræðum um málið og sagði: „Ég held að þetta sé gott dæmi um mál sem þingið á að taka til kostanna og sýna hvað í því býr og sýna hvað frumvarpið hefur að geyma þegar það er dregið úr því það mesta og mikilvægasta sem kemur til með að styðja við markmiðin sem við erum sammála um hér. Þingið fær að glíma við þetta. Þingið fær að sýna hvað í því býr.“ Atvinnuveganefnd tók tillit til þessara orða ráðherrans þegar nefndin hóf vinnu sína og móttók umsagnir frá umsagnaraðilum.
Um meirihlutaálit atvinnuveganefndar
Hvað umsagnir umsagnaraðila varðar, þá ber að taka skýrt fram að þær voru mjög misjafnar. Hér var að verulegu leyti um endurtekið efni undanfarinna þriggja ára að ræða. Til að mynda vísaði Samkeppniseftirlitið að mestu leyti til fyrri umsagna sinna þar sem t.d. hefur verið fullyrt að undanþága gangi gegn EES-samningnum. Aldrei hefur hins vegar verið rökstutt af hálfu Samkeppniseftirlitsins, eða þeirra hagsmunaaðila sem vísa til umsagnar þess, hvernig undanþága frá samkeppnisreglum gangi gegn EES-samningnum. Þetta vekur sérstaka athygli í ljósi þess að fyrir liggur í dómum EFTA-dómstólsins sú afstaða dómsins, auk Eftirlitsstofnunar EFTA, framkvæmdastjórnar ESB og íslenskra og norskra stjórnvalda, að framleiðslukerfi landbúnaðar standi almennt utan EES-samningsins. Það væri fróðlegt og gott fyrir umræðuna ef eftirtaldir aðilar gætu rökstutt umsagnir sínar með einhverjum haldbærum gögnum í stað þess að þyrla upp moldviðri. Þá er einnig rétt að halda því til haga að meirihlutaálitið lá fyrir atvinnuveganefndinni í fjóra daga áður en það var birt, án athugasemda frá minnihluta atvinnuveganefndar.
Um gagnrýni Viðreisnar
Viðreisn hefur farið mikinn í gagnrýni sinni á hin nýju búvörulög. Það kemur þeim sem til Viðreisnar þekkja ekki á óvart. Það sem hins vegar kemur á óvart er að stjórnmálaflokkur sem aðhyllist aðild að ESB skuli ekki geta sætt sig við það að innleiddar séu undanþágur fyrir landbúnað, sem í grunninn byggjast á samsvarandi heimildum til samstarfs og gilda innan Evrópu en taka tillit til íslenskra aðstæðna. Viðreisn virðist algjörlega horfa fram hjá því að þar gilda undanþágureglur fyrir evrópskan landbúnað frá samkeppnisreglum og hafa gert í nær 60 ár. Það er því holur hljómur í þingræðum og greinaskrifum þingmanna Viðreisnar þegar það er látið í veðri vaka að fullkomið viðskiptafrelsi gildi á markaði með landbúnaðarvörur innan ESB. Því fer fjarri, þar gilda undanþágureglur, og hafa gert lengi. Af nýjustu fréttum að dæma var ný undanþága frá samkeppnisreglum fyrir landbúnað innleidd í ESB, vegna umhverfissjónarmiða, nú síðast í desember 2023.
Hér má einnig benda á að Viðreisn hefur gert mikið úr því að félög í blönduðum rekstri kunni að hagnast á undanþágunni. Slík afstaða byggist á grundvallarmisskilningi enda tekur undanþágan einungis til slátrunar og/eða vinnslu kjötafurða og afleiddra afurða. Eðli málsins samkvæmt myndi undanþága ekki taka til annarrar starfsemi.
Sérhagsmunir og almannahagsmunir
Hagsmunaaðilar hafa gagnrýnt hin nýju lög og fullyrt að sérhagsmunir hafi gengið framar almannahagsmunum. Það kann að vera auðvelt fyrir hagsmunaaðila, einkum Félag atvinnurekenda, að ganga fram með þeim hætti sem gert er. Enda gætir félagið hagsmuna innflutningsfyrirtækja og gengur mjög hart fram í þeim efnum án þess, að því er virðist, að taka nokkurt tillit til annarra sjónarmiða, s.s. byggðasjónarmiða og fæðuöryggis, o.s.frv. En mál af þessu tagi horfa öðruvísi við hvað þingmenn varðar. Þingmenn þurfa að taka tillit til þess að þjóðin býr ekki bara á höfuðborgarsvæðinu. Þjóðin býr um allt land og það er á ábyrgð löggjafans og framkvæmdavaldsins að tryggja að byggð sé um gjörvallt landið. Það er þingmanna að gæta að atvinnustigi, atvinnuöryggi, fæðuöryggi og þjóðaröryggi, en til alls þessa, hvers og eins þáttar og svo allra til samans, þarf að horfa við lagasetningu.
Það er ágætt lesandi góður að velta fyrir sér í þessu samhengi hvers vegna félag atvinnurekenda, áður nefnt Félag stórkaupmanna, hafi farið svo hart fram síðustu daga sem raun ber vitni. Hér er um að ræða sama félag og vildi selja Íslendingum jurtaost sem venjulegan ost. Er framkvæmdastjóri félags atvinurekenda í alvöru að berjast með hag neytenda að leiðarljósi eða er það kannski frekar fyrir hag umbjóðenda sinna, eftir sem áður? Þá sætir það furðu að Neytendasamtökin og VR hafa kosið að hoppa á þennan vagn og kalla sig nú ásamt Félagi atvinnurekenda „Samkeppnistríóið“!
Um framhald málsins
Ef við horfum til þeirra landa sem við berum okkur saman við sést að allar þjóðir eru í dag að reyna að verja sína framleiðslu með einhverjum hætti, hvers vegna ættum við ekki gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja betri starfsskilyrði fyrir greinina? Ég fullyrði það enn og aftur að neytendur munu njóta góðs af þessum breytingum, því ef bændur og afurðastöðvar standa sig ekki með bættum starfsskilyrðum þá munu neytendur einfaldlega líta fram hjá innlendum landbúnaðarvörum og fara í aðrar vörur. Þetta vita bændur og eigendur afurðastöðva hér á landi.
Atvinnuveganefnd hefur lokið afgreiðslu málsins og er það matvælaráðuneytisins að framkvæma lögin eins og þau eru samþykkt af hálfu löggjafarvaldsins. Enda ríkir þingræði í landinu. Þá vil ég benda á í lokin að atvinnuveganefnd hefði getið gengið lengra og samþykkt að veita undanþágu frá banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu, líkt og gert er í Noregi, en hún taldi ekki rétt að gera það. Það er því fjarri lagi að atvinnuveganefnd hafi gengið erinda einhverra risafyrirtækja, rétt skal vera rétt, heildarmat nefndarinnar grundvallaðist á almannahagsmunum.
Þórarinn Ingi Pétursson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis og þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. apríl 2024.