Categories
Fréttir Greinar

Uppbygging verk- og starfsnámsaðstöðu

Deila grein

23/05/2024

Uppbygging verk- og starfsnámsaðstöðu

Upp­bygg­ing verk- og starfs­námsaðstöðu um allt land hef­ur verið al­gjört for­gangs­atriði mitt sem mennta­málaráðherra. Mark­miðið er að byggja um 12.000 fer­metra við flesta verk- og starfs­náms­skóla á land­inu á næstu árum. Nú þegar hef­ur verið skrifað und­ir samn­inga um stækk­un Mennta­skól­ans á Ísaf­irði, Fjöl­brauta­skóla Norður­lands vestra, Verk­mennta­skól­ans á Ak­ur­eyri og Fjöl­brauta­skóla Suður­nesja um sam­tals allt að 5.800 fer­metra auk þess sem fram­kvæmd­ir við Fjöl­brauta­skól­ann í Breiðholti eru á næsta leiti. Til viðbót­ar verða nýj­ar höfuðstöðvar Tækni­skól­ans byggðar í Hafnar­f­irði.

Að auka fram­boð og fjöl­breytni iðnnáms hef­ur verið eitt af for­gangs­mál­um okk­ar á þessu kjör­tíma­bili og hef­ur það skilað sér í bæði auk­inni aðsókn og mik­illi umræðu um mik­il­vægi þess að byggja upp sterkt og öfl­ugt iðnnám um allt land. Það er liðin tíð að umræðan snú­ist um að iðnnám sé síðri val­kost­ur fyr­ir ungt fólk. Nú eru nýir tím­ar, aðsókn hef­ur aldrei verið jafn mik­il og vísa þarf hundruðum um­sækj­end­um frá ár hvert. Við verðum að gera bet­ur, það er ekki nóg að benda á mik­il­vægi þess­ara greina, við sem sam­fé­lag verðum að tryggja að þeir sem hefja nám geti lokið því og gera sem flest­um kleift að sækja sér nám sem þeir hafa áhuga á.

Við sem skóla­sam­fé­lag verðum að skapa um­hverfi inn­an skól­anna sem ger­ir þeim kleift að bregðast við fram­förum í tækni og þörf­um vinnu­markaðar­ins. Þessi áform okk­ar um upp­bygg­ingu og stækk­un starfs­námsaðstöðu er til marks um að við ætl­um að bregðast við þessu ákalli og þess­ari þörf. Hverj­um hefði dottið það í hug um alda­mót að raf­magns­bíl­ar yrðu jafn vin­sæl­ir og þeir eru í dag en breyt­ing á starfi bif­véla­virkja er ein­mitt gott dæmi um iðnnám þar sem heil starfs­stétt hef­ur þurft að bregðast við hröðum tækni­breyt­ing­um. Að sama skapi þurfa málm- og vél­tækni­grein­ar sí­fellt að færa sig nær tölvu­stýrðum verk­fær­um og svo mætti lengi telja. Við þurf­um að geta boðið upp á nám sem bregst við ákalli sam­tím­ans og horf­ir til framtíðar.

Rétt und­ir 50 þúsund manns vinna í iðnaði á Íslandi í dag og hef­ur upp­bygg­ing sjald­an verið jafn mik­il. All­ar okk­ar spár gefa sterk­lega til kynna að sú upp­bygg­ing komi til með að halda áfram á næstu árum og ára­tug­um. Við eig­um ekki og ætl­um ekki að sitja og bíða eft­ir að aðstaða til verk- og starfs­náms springi og biðlist­ar inn í verk­nám leng­ist enn frek­ar. Lát­um verk­in tala, sýn­um vilja í verki og lyft­um upp því öfl­uga fólki sem kem­ur til með að stunda verk- og starfs­nám í framtíðinni.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ný­sköpun inn­viða

Deila grein

23/05/2024

Ný­sköpun inn­viða

Innviðir og stafræn þróun

Verkefni sveitarfélaga eru fjölbreytt og verkefnum fjölgar frekar en fækkar.

Hvert og eitt sveitarfélag leggur metnað sinn í góða grunnþjónustu. Aukin krafa er á sveitarfélög um samkeppnishæfni við nágrannasveitarfélög um val á búsetu sem kallar á framúrskarandi þjónustu talsvert út fyrir hin lögbundnu verkefni.

Þessu ákalli vilja sveitarfélögin standa undir og kallar þetta því á forgangsröðun hvers sveitarfélags. Það er því nú sem fyrr hlutverk okkar sveitarstjórnarmanna, að leita allra mögulegra leiða til hagkvæmrar ráðstöfunar á fjármagni.

Eitt stærsta innviðamálið í dag

Stafræn þróun er mikilvægt innviðamál og jafnframt lykilatriði í byggðaþróun. Með stafrænni þróun getum við minnkað álag á starfsfólk stofnana og þar með náð fram aukinni skilvirkni, við getum sparað fjármagn og við getum aukið þjónustu við íbúana. Þjónustan verður nær íbúanum og ávallt til staðar hvort sem sveitarfélagið er lítið eða stórt.

Við sem sveitarstjórnarmenn berum ábyrgð á rekstri sveitarfélaga og því er það okkar hlutverk að leita leiða til að þjónusta sem best á sem hagkvæmastan hátt.

Stafrænt ráð sveitarfélaga

Stafrænt ráð sveitarfélaga er teymi sem sett var saman með fulltrúum landshlutasamtaka sveitarfélaganna árið 2020 til að styðja við stefnumótun og forgangsröðun um stafræna framþróun.

Sex markmið hafa verið samþykkt af landsþingi Sambandsins en markmiðin snúa beint að stafrænni þróun.

  • Sambandið vinni stefnumörkun og aðgerðaáætlun í stafrænni umbreytingu sveitarfélaga í góðu samstarfi við sveitarfélög og ríkið
  • Auka þekkingarstig kjörinna fulltrúa og annarra stjórnenda sveitarfélaga, starfsfólks og annarra hagaðila á tækifærum stafrænnar umbreytingar, nýtingu tækni og nýsköpunar við úrlausn áskorana.
  • Vinna að pappírslausri stjórnsýslu sveitarfélaga og beita sér fyrir rafrænum skilum.
  • Upplýsingartækniinnviðir sveitarfélaga verði þróaðir á grundvelli sameiginlegra kröfulýsinga og út frá sjálfvirkni með það að markmiði að ná fram auknu rekstrarhagræði og bættri þjónustu samhliða því sem öryggi gagna sé tryggt.
  • Stafrænt umbreytingateymi sveitarfélaga verði miðlægur þjónustukjarni með skilgreint umboð og hlutverk, mannað stafrænum leiðtogum í öllum landshlutum sem veita sveitarfélögum stuðning.
  • Efla samstarf við ríkið (Stafrænt Ísland) til að sveitarfélög geti nýtt miðlægan vettvang, ísland.is, við þróun þjónustu fyrir sveitarfélög.

Frá því í haust hefur verið settur enn meiri þungi í að vinna með stefnumótunina og markmiðin sex.

Mikilvægi samstarfs

Samstarf sveitarfélaga innbyrðis og samstarf sveitarfélaga og ríkis – er gríðarlega mikilvægt. Að sveitarfélögin sjálf stígi fram sem ein rödd í samskiptum við ríki. Það er á ábyrgð okkar sveitarstjórnarmanna að eiga samtalið, sameina krafta okkar, fara vel með opinbert fjármagn og forðast tvíverknað.

Stafræn þróun byggir upp sjálfstraust. Við sköpum notendavænar lausnir, aukum sjálfstæði notandans og léttum á innviðunum – enda er hér um nýsköpun innviða að ræða.

Það er von mín að sveitarfélögin og ríki starfi sem ein heild í átt að aukinni þjónustu fyrir íbúa landsins með stafræna þróun að leiðarljósi.

Erindi þetta var flutt á afar gagnlegum nýsköpunardegi hins opinbera sem fram fór þann 15. maí s.l.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir formaður bæjarráðs Hveragerðisbæjar og formaður starfræns ráðs Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. maí 2024.

Categories
Fréttir

Streymisveitur greiði svokallað „menningarframlag“ til íslensks samfélags

Deila grein

22/05/2024

Streymisveitur greiði svokallað „menningarframlag“ til íslensks samfélags

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur birt drög að frumvarpi til laga um menningarframlag streymisveitna í samráðsgátt. Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný skylda innlendra og erlendra streymisveitna til að greiða svokallað „menningarframlag“ til íslensks samfélags. Frumvarpið er á meðal þess sem lagt er til í nýrri skýrslu starfshóps um gjaldtöku á streymisveitur og tæknifyrirtæki.

Streymisveitur eru fjölmiðlaveitur sem miðla efni eftir pöntun (e. VOD), sumar eingöngu innanlands en aðrar yfir landamæri til fleiri ríkja. Stærstu einkareknu streymisveiturnar hér á landi eru Stöð 2+ í eigu Sýnar og Sjónvarp Símans Premium, í eigu Símans. Erlendar streymisveitur með starfsemi hér á landi eru Netflix, Disney+, Viaplay og Amazon Prime Video. Á síðustu árum hefur samkeppni við alþjóðlegar streymisveitur og samfélagsmiðla haft neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi og samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla, sem kemur niður á framleiðslu innlends efnis og veikir þar með stöðu íslenskrar tungu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, var viðmælandi í Kastljósþætti RÚV. „Undanfarin ár hefur samkeppni við alþjóðlegar streymisveitur og samfélagsmiðla haft neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi og samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla sem kemur niður á framleiðslu innlends efnis og veikir um leið stöðu íslenskrar tungu.“

Markmið frumvarpsins er að efla íslenska menningu og tungu með því að hvetja til fjárfestingar í framleiðslu á innlendu efni sem er að meginhluta á íslensku eða með aðra íslenska skírskotun. Frumvarpið er því liður í að jafna samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla gagnvart erlendum streymisveitum. Þá kann aukin fjárfesting í framleiðslu á innlendu efni að leiða til fleiri atvinnutækifæra fagfólks sem starfar við sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu hér á landi.

Lagt er til að innheimta geti verið í formi fjárframlags og/eða beinnar fjárfestingar:

        1) skyldu til að greiða fjárframlag til Kvikmyndasjóðs, sem nemi að hámarki 5%* af áskriftartekjum af starfsemi streymisveitunnar á Íslandi á ársgrundvelli.

        2) skyldu til að fjárfesta með beinum hætti í framleiðslu í innlendu hljóð- og myndefni, í skilningi laganna, fyrir 5% af áskriftartekjum af starfsemi streymisveitunnar á Íslandi á ársgrundvelli.

Áætlað er að frumvarp um menningarframlag streymisveitna muni afla tekna sem renna til Kvikmyndasjóðs. Gert er ráð fyrir að áhrif frumvarpsins verði mest á streymisveitur sem fjárfesta lítið eða takmarkað í nýju, íslensku efni. Til glöggvunar má nefna að innlendar streymisveitur eru nú þegar að fjárfesta í innlendu efni og því yrði kallað eftir upplýsingum um umfang þeirrar framleiðslu. Ef fjárfesting er 5% eða hærra hlutfall af áskriftartekjum á ársgrundvelli félli gjaldtakan niður.Málið er í samráðsgátt til 9. júní nk. Að lokinni birtingu í samráðsgátt verður farið yfir umsagnir og ábendingar sem þar berast. Að því loknu, og með fyrirvara um samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA, verður frumvarpið fullunnið og lagt fram á Alþingi haustið 2024.

*Að hámarki 5% vísar í að hægt sé að notast við bæði leið 1 og 2. Td ef fjárfesting nær ekki 5% væri hægt að greiða það sem útaf stendur til Kvikmyndasjóðs.

Skýrsla um gjaldtöku á streymisveitur og tæknifyrirtæki

Frumvarpið byggir meðal annars á tillögum í skýrslu starfshóps um gjaldtöku á streymisveitur og tæknifyrirtæki sem skipaður var af menningar- og viðskiptaráðherra 23. júní 2023 og skilaði skýrslu sinni til ráðherra 27. febrúar 2024. Starfshópinn skipuðu dr. María Rún Bjarnadóttir (formaður), Heiðdís Lilja Magnúsdóttir, fulltrúi menningar- og viðskiptaráðuneytisins, og Vilmar Freyr Sævarsson, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Við undirbúning skýrslunnar fundaði hópurinn með fulltrúum nokkurra hagsmunaaðila á vettvangi sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu og fjölmiðlunar.

Starfshópurinn lagði fram tvær tillögur auk tillögu um menningarframlag: 

Ákvæði um höfundarrétt sem veitir útgefendum fréttaefnis einkarétt til eintakagerðar og stafrænnar miðlunar útgáfu sinnar á netinu.
– að lögfest verði ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2019/790 um höfundarrétt og skyld réttindi á stafræna innri markaðinum, sem kveður á um skyldu aðildarríkja til að veita útgefendum fréttaefnis einkarétt til eintakagerðar og stafrænnar miðlunar útgáfu sinnar á netinu, sem vara skal í tvö ár. Leggur hópurinn til að fordæmi annarra þjóða verði fylgt og lögfest samningskvaðaheimild til að tryggja samninga vegna þessa nýja réttar. Samningar miði að því að fjölmiðlar fái aukinn hlut í þeim fjárhagslegu verðmætum sem skapast við stafræna dreifingu fréttaefnis á erlendum samfélagsmiðlum og leitarvélum.

Stafrænn þjónustuskattur
– að fylgst verði náið með framgangi vinnu á vettvangi OECD um skattlagningu stafræna hagkerfisins og að stjórnvöld verði undirbúin fyrir mögulegar einhliða aðgerðir til að skattleggja alþjóðlega tæknirisa ef sameiginleg niðurstaða fæst ekki á vettvangi OECD.

Categories
Fréttir Greinar

Tímamót með nýrri ferðamálastefnu

Deila grein

22/05/2024

Tímamót með nýrri ferðamálastefnu

Ferðaþjón­ust­unni hef­ur vaxið fisk­ur um hrygg á und­an­förn­um árum en ferðamenn sem hingað koma hríf­ast af menn­ingu okk­ar og hinni stór­brotnu ís­lensku nátt­úru sem er ein­stök á heimsvísu. Mæl­ing­ar sýna ein­mitt að þeir ferðamenn sem hingað koma njóta veru sinn­ar mikið og gefa Íslandi afar góða um­sögn.

Í liðinni viku tók Alþingi til um­fjöll­un­ar til­lögu mína til þings­álykt­un­ar um nýja ferðamála­stefnu til árs­ins 2030 og aðgerðaáætl­un henni tengda. Þjóðhags­legt mik­il­vægi ferðaþjón­ustu hér á landi hef­ur auk­ist veru­lega sam­hliða vexti grein­ar­inn­ar. Ytri staða þjóðarbús­ins stóð oft á tím­um tæpt hér á árum áður en straum­hvörf urðu á viðskipta­jöfnuði þjóðarbús­ins fyr­ir rúm­lega tíu árum þegar ferðaþjón­ust­an fór á flug í kjöl­far eld­goss­ins í Eyja­fjalla­jökli. Ferðaþjón­ust­an er í dag stærsti gjald­eyr­is­skap­andi at­vinnu­veg­ur þjóðar­inn­ar og mik­il­væg­ur drif­kraft­ur hag­vaxt­ar í land­inu.

Það skipt­ir máli að búa þess­ari stóru og þjóðhags­lega mik­il­vægu at­vinnu­grein sterka um­gjörð og marka skýra sýn á það hvert skal haldið. Þar mun ný ferðamála­stefna skipa veiga­mik­inn sess. Vinna við hina nýju ferðamála­stefnu hef­ur verið eitt af for­gangs­mál­um mín­um í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu. Sjö starfs­hóp­ar hafa unnið að ferðamála­stefn­unni, sem hafa verið skipaðir af 6-8 sér­fróðum aðilum. Ferðaþjón­ust­an er fjöl­breytt og skemmti­leg at­vinnu­grein, sem end­ur­spegl­ast ein­mitt í hóp­un­um en þeir náðu utan um sjálf­bærni og orku­skipti, sam­keppn­is­hæfni og verðmæta­sköp­un, rann­sókn­ir og ný­sköp­un, upp­bygg­ingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veit­inga- og hvata­ferðaþjón­ustu og svo menn­ing­ar­tengda ferðaþjón­ustu.

Framtíðar­sýn ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu er að vera leiðandi í sjálf­bærri þróun á grunni efna­hags­legs og sam­fé­lags­legs jafn­væg­is. Í því felst að ferðaþjón­ust­an sé arðsöm og sam­keppn­is­hæf, í sátt við nátt­úru, ís­lenska menn­ingu og tungu. Það skipt­ir miklu máli að hlúa að ferðaþjón­ust­unni um allt land og skapa þannig skil­yrði að hægt sé að lengja ferðamanna­tíma­bilið hring­inn um landið. Það rík­ir mik­il alþjóðleg sam­keppni í ferðaþjón­ustu og við verðum ávallt að vera á tán­um að tryggja að sam­keppn­is­hæfni ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu sé eins og best verði á kosið.

Það skipt­ir nefni­lega lítið opið hag­kerfi eins og okk­ar öllu máli að hér séu styrk­ar út­flutn­ings­stoðir eins og ferðaþjón­ust­una.

Sag­an kenn­ir okk­ur að þjóðríki sem hafa mikl­ar út­flutn­ings­tekj­ur, mynd­ar­leg­an gjald­eyr­is­forða sem og inn­lend­an sparnað eru í mun sterk­ari stöðu til að kljást við óvænt ytri áföll í efna­hags­líf­inu. Þar mun ferðaþjón­ust­an skipta lyk­il­máli til framtíðar. Leikplanið sem felst í nýrri ferðamála­stefnu er metnaðarfullt, verk­efnið framund­an verður að hrinda því í fram­kvæmd og sækja fram fyr­ir ís­lenska ferðaþjón­ustu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Gæði sem skipta máli ‒ tökum flugið

Deila grein

21/05/2024

Gæði sem skipta máli ‒ tökum flugið

Síðustu ár hafa orðið miklar framfarir þegar kemur að millilandaflugi um Akureyrarflugvöll. Við þekkjum lífsgæðin sem því fylgja, enda er ferðlagið til Keflavíkur oft kostnaðarsamasti og tímafrekasti leggur ferðalagsins þegar haldið er utan. Beint millilandaflug um Akureyrarflugvöll skiptir atvinnulífið einnig verulegu máli enda ein megin forsenda fyrir auknum komum ferðamanna, ekki síst utan háannatíma þegar ferðalög eru að jafnaði styttri. Stærsti einstaki áfanginn á þessari leið er tilkoma Easy Jet, sem flogið hefur beint milli Akureyrar og London frá því síðastliðið haust. Ekkert kemur til af sjálfu sér og fjölmargt hefur þurft að koma saman svo að Akureyri og Egilsstaðir séu raunhæfir valkostir þegar kemur að millilandaflugi.

Heimafólk dregur vagninn

Um árabil hefur heimafólk unnið þrotlaust að því að efla Akureyrarflugvöll, sem þjónar ekki aðeins höfuðstað Norðurlands, heldur víðfeðmu nærsvæði Akureyrar. Má þar nefna frumkvöðla í fluggeiranum, bæjarfulltrúa, áhugafólk um samgöngur og aðra sem lagt hafa hönd á plóg. Markaðsstofa Norðurlands hefur með ýmsum hætti unnið að og sett þrýsting á þróun vallarins og markaðssetningu á honum. Sama má segja um Austurbrú og íbúa Austurlands, þó þróun flugs um Egilsstaðaflugvöll sé skemur á veg komin. Þessi vinna skiptir miklu máli og skilar árangri.

Flugþróunarsjóður

Ein varðan á langri leið var stofnun Flugþróunarsjóðs. Grunnurinn var lagður árið 2015, en sjóðurinn tók til starfa árið 2016. Flugþróunarsjóður hefur það að markmiði að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði. Þannig er stuðlað að betri dreifingu ferðamanna um landið í samræmi við Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030, bættri nýtingu innviða ríkisins, bættum búsetuskilyrðum og lífsgæðum heimamanna og bættum rekstrarskilyrðum atvinnureksturs á Norður- og Austurlandi. Frá stofnun sjóðsins hefur verið unnið markvisst að kynningu hans til flugfélaga og ferðaskrifstofa. Sú vinna er farin að skila sér þrátt fyrir miklar áskoranir. Til að mynda Covid faraldurinn, sem setti verulegt strik í reikninginn.

Uppbygging innviða

Uppbygging og rekstur flugvalla er kostnaðarsöm og veigamikil fjárfesting og ekki sjálfsagt að fjármunum sé forgangsraðað í þágu slíkrar uppbyggingar. Á síðustu árum hefur gríðarmikil uppbygging verið sett á oddinn, bæði hvað varðar uppbyggingu á Akureyrarflugvelli, en einnig á Egilsstöðum. Má þar nefna fjárfestingar í tæknibúnaði, flugstöð og flughlöðum. Síðastliðið sumar var nýtt flughlað tekið í notkun við Akureyrarflugvöll og undirbúningur framkvæmda við Egilsstaðaflugvöll er á fullu skriði. Skóflustunga að nýrri flugstöð við Akureyrarflugvöll markaði langþráð tímamót og nýverið fóru fyrstu farþegarnir í millilandaflugi þar í gegn. Innan skamms verður flugstöðin fullgerð og má með sanni segja að uppbyggingin marki nýja sókn þegar kemur að lífsgæðum íbúa og starfsskilyrðum atvinnulífs á svæðinu. Stefnan til framtíðar var formfest í Flugstefnu Íslands árið 2019, en þar kemur fram að stutt verði við uppbyggingu Akureyrar- og Egilsstaðarflugvalla sem alþjóðlegra fluggátta. Enn fremur að við uppbyggingu innviða vallanna verði lögð áhersla á að þeir mæti sem best þörfum flugrekenda fyrir varaflugvelli hér á landi, en þar verði Egilsstaðaflugvöllur í forgangi.

Stefna Framsóknar

Stefna Framsóknar er skýr þegar kemur að þessu máli, enda hafa þingmenn og ráðherrar flokksins stutt rækilega við þetta brýna verkefni um langt skeið. Sérstaklega má í því samhengi nefna áherslur og verk Sigurðar Inga Jóhannssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem farið hefur með samgöngumál og þar með talið flugvelli landsins um árabil og Lilju Daggar Alfreðsdóttur, viðskipta- og menningarráðherra sem fer með málefni ferðaþjónustunnar. Flokkurinn stendur heilshugar að baki þessum áherslum en í nýsamþykktri ályktun 37. Flokksþings Framsóknar kemur fram að: ,,Framsókn leggur áherslu á styrkingu millilandaflugs um Akureyri og Egilsstaði til að stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna um landið. Tryggja þarf samkeppnishæfni flugvallanna m.t.t. aðstöðu, lendingargjalda og eldsneytisverðs. Byggja þarf upp samhæft samgöngunet í landinu, sem tengir saman innlent og alþjóðleg samgöngunet, hvort heldur sem er flug eða áætlunarferðir á sjó og landi.“

Að lokum

Mikilvægt er að áfram verði unnið markvisst að uppbyggingu beins flugs til Akureyrar og Egilsstaða. Nauðsynlegt er að þróun innviða á alþjóðaflugvöllunum taki mið af framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 einkum hvað varðar dreifingu ferðamanna, samkeppnishæfni og ávinning heimamanna.

Við þekkjum vel hversu viðkvæmt verkefnið er, það krefst úthalds og þrautseigju og þó það ári vel núna megum við ekki missa dampinn. Samstaða og framsýni allra sem að þessu verkefni koma skiptir verulegu máli því alltaf verða til staðar tækifæri til að gera enn betur.

Helgi Héðinsson, varaþingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi og framkvæmdastjóri Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 20. maí 2024.

Categories
Fréttir

Einfaldara tilvísanakerfi fyrir börn vegna heilbrigðisþjónustu

Deila grein

18/05/2024

Einfaldara tilvísanakerfi fyrir börn vegna heilbrigðisþjónustu

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, hefur ákveðið að einfalda fyrirkomulag tilvísana fyrir börn vegna heilbrigðisþjónustu. Drög að reglugerðarbreytingum þessa efnis hafa verið birtar til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Markmiðið er að bæta þjónustu og auka skilvirkni, meðal annars með áherslu á að tími lækna nýtist betur til að sinna beinni þjónustu við sjúklinga.

„Ég tel að þessar breytingar séu skynsamlegar fyrir heilbrigðiskerfið og réttlætismál fyrir börn og foreldra þeirra. Við höldum í heiðri faglegar forsendur tilvísanakerfisins. Við styttum bið barna eftir mikilvægri þjónustu. Síðast en ekki síst sköpum við heilsugæslulæknum aukið svigrúm til að sinna sínum mikilvægu verkefnum í samskiptum við sjúklinga með því að létta af þeim óþarfa skriffinnsku,“ sagði Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Samkvæmt gildandi reglugerð um tilvísanir fyrir börn er áskilið að heilsugæslulæknar skrifi tilvísun fyrir börn frá tveggja ára að 18 ára aldri, þurfi þau á þjónustu sérgreinalæknis að halda. Slík tilvísun er m.a. forsenda þess að þjónusta sérgreinalæknis sé gjaldfrjáls. Án tilvísunar þarf hins vegar að greiða fyrir þjónustuna sem nemur þriðjungi af því gjaldi sem sjúkratryggðir greiða almennt fyrir læknisheimsóknir. Gildistími tilvísunar er að hámarki eitt ár en heimilt er að ákveða að tilvísun fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun gildi í allt að 10 ár. Tilvísun heilsugæslulæknis er áskilin fyrir alla þjónustu sérgreinalækna. Þetta felur m.a. í sér að ef barn hefur fengið tilvísun til sérgreinalæknis sem telur barnið þurfa þjónustu læknis í annarri sérgrein þarf að leita aftur til heilsugæslulæknis eftir tilvísun. 

Helstu breytingar:

  • Sérgreinalæknir sem fær til sín barn samkvæmt tilvísun heilsugæslulæknis getur vísað því sjálfur til læknis í annarri sérgrein telji hann þörf á því, án aðkomu heilsugæslunnar. Ákvæði gildandi reglugerðar um að barn þurfi nýja tilvísun frá heilsugæslulækni verður fellt brott.
  • Læknir sem fær barn til meðhöndlunar á sjúkrahúsi getur vísað barni til sérfræðings telji hann þörf á því. Krafa um tilvísun heilsugæslulæknis í slíkum tilvikum verður felld brott.
  • Bráða- og vaktþjónusta barnalækna verður undanskilin tilvísunum frá heilsugæslulækni og sömuleiðis þjónusta augnlækna og kvensjúkdómalækna. Þjónustan verður gjaldfrjáls þótt krafa um tilvísun heilsugæslulæknis verði felld brott.
  • Rannsóknar- og myndgreiningarþjónusta barna verður gjaldfrjáls þótt ekki liggi fyrir tilvísun frá heilsugæslulækni.
  • Gildistími tilvísana fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun sem nú er 10 ár verður lengdur og getur gilt allt þar til barn nær 18 ára aldri.
  • Heimild verður veitt hjúkrunarfræðingum til að gera tilvísanir fyrir börn vegna þjónustu talmeinafræðinga en hingað til hafa aðeins heilsugæslulæknar getað vísað börnum í þjónustu þeirra.
  • Gerð verður krafa um að tilvísanir skuli færðar í miðlæga sjúkraskrá. Hingað til hefur aðeins verið kveðið á um að þær skuli „að jafnaði“ vera á rafrænu formi.

Áfram verður unnið að hagræðingu og skilvirkni í samvinnu við lækna, sem og mat lagt á þessar breytingar og þá hvort frekari breytinga sé þörf í samráði við félög lækna og stofnanir.

Áformaðar breytingar hafa verið kynntar fyrir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Sjúkratryggingum Íslands og fagfélögum heimilislækna og barnalækna og eru nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.

Categories
Fréttir Greinar

Var­færnis­leg fagnaðar­læti

Deila grein

17/05/2024

Var­færnis­leg fagnaðar­læti

Ísland náði þeim mikilvæga áfanga á dögunum að lenda í öðru sæti á Regnbogakorti ILGA Europe, sem metur lagalega réttindastöðu hinsegin fólks í 49 löndum Evrópu. Þetta er árangur sem við megum vera stolt af og sýnir vilja okkar til að tryggja jöfn réttindi og vernd fyrir öll í okkar samfélagi, óháð kynhneigð eða kynvitund.

Áratugur framfara

Fyrir áratug síðan mættum við aðeins 64% þeirra skilyrða sem lögð voru fram af ILGA Europe. Í dag mætum við 83% þeirra. Löggjafinn situr alls ekki einn að heiðrinum fyrir þann árangur, hann kemur að stórum hluta til vegna sleitrulausrar vinnu aðgerðasinna og aðila innan hinsegin samfélagsins.

Þetta hefur ekki verið bara verið hröð ferð upp á við, við höfum tekið dýfur. Árið 2019 mættum við aðeins 40,2% skilyrðanna og deildum 15 sætinu með Þýskalandi, Írlandi og Króatíu. Þetta orsakaðist af vissri stöðnun hjá löggjafanum í hinsegin málefnum og viðbót nýrra skilyrða frá ILGA varðandi réttindi intersex og trans einstaklinga.

Betur má ef duga skal

Þrátt fyrir að verma topp sæti á listanum eru enn málaflokkar þar sem við getum gert betur. Má þar nefna blóðgjöf. Í dag mega karlar sem stunda endaþarmsmök með öðrum körlum og konur sem stunda kynlíf með körlum sem stunda endaþarmsmök með körlum ekki gefa blóð. Þessi stefna er úrelt og stuðlar að mismunun. Heilbrigðisráðherra hefur tekið undir að þessu þurfi að breyta og gefið til kynna að breytingar séu í sjónmáli.

Annar málaflokkur þar sem úrbóta er þörf er full lagaleg viðurkenning og vernd fyrir intersex fólk. Þrátt fyrir miklar framfarir í réttindum hinsegin fólks glíma intersex einstaklingar enn við verulegar lagalegar og félagslegar áskoranir. Því er mikilvægt að við tökum þétt utan um þennan hóp og tryggjum stöðu þeirra innan samfélagsins.

Kulnar eldur nema kyntur sé

Það er mikilvægt að við höldum þessum framförum okkar við. Reynslan sýnir að góður árangur er ekki sjálfsagður og bakslög í réttindabaráttu eru algeng. Við þurfum að viðhalda og byggja á því sem vel hefur verið gert, halda áfram að þrýsta á breytingar á stefnu stjórnvalda, vekja athygli á þeim málum sem brenna á hinsegin samfélaginu og styðja framtak sem ýtir undir inngildingu og jafnrétti.

Við ættum einnig að líta til annarra landa sem eru ofarlega á Regnbogakortinu og skoða hvað þau gera vel og hvað mætti betur fara. Malta hefur trónað á toppnum núna í nokkurt skeið og hefur víðtæka stefnu til verndar réttindum hinsegin fólks og framsækin lög um kynvitund og vernd gegn mismunun.

Að lokum

Það er full ástæða til að fagna stöðu okkar í öðru sæti á Regnbogakorti ILGA Europe en hún minnir okkur líka á að við eigum enn verk að vinna. Með því að fylla í þær eyður sem fyrirfinnast í stefnu okkar og löggjöf og tryggja að framfarir séu í þágu hinsegin samfélagsins til jafns við samfélagið í heild getum við haldið stolt inn í framtíð þar sem allir Íslendingar geta lifað með reisn í réttlátu samfélagi. Saman getum við tryggt að Ísland haldi áfram að vera leiðandi í réttindabaráttu hinsegin fólks og öðrum þjóðum til fyrirmyndar.

Berglind Sunna Bragadóttir, varaformaður Sambands ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. maí 2024.

Categories
Fréttir

Fjarskipti eru ein af grundvallarstoðunum í nútímasamfélagi

Deila grein

17/05/2024

Fjarskipti eru ein af grundvallarstoðunum í nútímasamfélagi

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, var málshefjandi í sérstakri umræðu um fjarskipti í dreifbýli á Alþingi. „Fjarskipti skipta miklu máli í nútímasamfélagi. Sem dæmi um fjarskipti má nefna farsímasamband, ljósleiðarasamband og Tetra-samband. Hér í dag vil ég nýta tækifærið og einblína á farsímasambandið og stöðu þess í dreifbýli.“

„Eitt af mínum fyrstu verkum eftir að ég settist á þing var að óska eftir upplýsingum um fjölda lögheimila þar sem var ekkert eða stopult símasamband og niðurstaðan var sú að um 1% heimila eru algerlega utan símasambands og fjöldi heimila býr við stopult símasamband. Í kjölfarið var gerður samningur milli Neyðarlínunnar og fjarskiptafyrirtækjanna þar sem samið var um uppbyggingu á farsímasendum utan markaðssvæða. Hvers vegna skiptir það máli? Jú, því að í daglegu lífi skipta fjarskiptakerfin okkur meira og meira máli. Á þessum heimilum sem eru utan símasambands búa foreldrar sem eiga börn í skólum og það þarf að vera möguleiki að ná á foreldrana ef eitthvað kemur upp á. Rafræn skilríki eru einnig orðin mun stærri hluti af okkar tæknivædda lífi og má þar t.d. nefna island.is, en ef símasamband er ekki til staðar þá virka rafrænu skilríkin ekki og því þarf fólk að fara að heiman til að nota þau,“ sagði Lilja Rannveig.

Nefndi Lilja Rannveig að farsímasamband sé sérstaklega mikilvægt upp á öryggi. „Reglulega koma fréttir vegna slysa eða atvika þar sem fólk var utan farsímasambands þegar það nauðsynlega þurfti á því að halda. Má þar nefna þegar bílar bila eða þegar það verður slys á þeim vegaköflum þar sem er ekkert símasamband, og það eru allt of margir þannig kaflar víða um land. Við höfum einnig mörg dæmi þess að fólk sé í fjallgöngu, að veiða uppi á heiðum eða í leitum í öllum veðrum á haustin og það villist. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða aðgerðir hefur ráðuneytið ráðist í til að tryggja það að fólk búi við öruggt fjarskiptasamband á heimilum sínum? Og ef ráðuneytið hefur ekki þegar ráðist í aðgerðir: Hvaða aðgerðir hyggst ráðuneytið ráðast í?“

„Einnig vil ég benda á að það er áætlað að allir stofnvegir verði komnir í farsímasamband fyrir árslok 2026, sem er frábært. En mun hæstv. ráðherra gera sambærilegar kröfur varðandi tengivegi?

Hyggst ráðherra einnig ráðast í aðgerðir með það að markmiði að bæta fjarskiptasamband þar sem samband er til staðar en þarfnast styrkingar? Til að útskýra það frekar þá höfum við mörg dæmi þess að fjarskiptasendar séu með varaafl en það endist mjög takmarkað þannig að ef það er rafmagnslaust í meira en nokkra klukkutíma þá geta heilu dalirnir og sveitirnar verið utan farsímasambands.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra: Hafa algengustu og vinsælustu ferðamannasvæði landsins, þar sem eru t.d. reiðleiðir, gönguleiðir, veiðisvæði, eða bara óbyggðir landsins, verið kortlögð út frá því að tryggja fjarskiptasamband vegna öryggissjónarmiða?“

„Það er mjög mikilvægt fyrir öryggi einstaklinga og fyrir uppbyggingu dreifðari samfélaga að góðir fjarskiptainnviðir séu til staðar á sem flestum stöðum um allt land. Það er ljóst að það þarf að byggja fjarskiptainnviðina upp hraðar hér á landi heldur en við höfum gert hingað til í samræmi við þá hröðu þróun sem hefur verið hvað varðar tækni á síðustu árum. Fjarskipti eru ein af grundvallarstoðunum í nútímasamfélagi,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.

Categories
Fréttir

„Vel gert“

Deila grein

17/05/2024

„Vel gert“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, vakti máls á fyrirhugaðri breytingu á tilvísunarkerfi fyrir börn vegna heilbrigðisþjónustu í störfum þingsins. Heimilislæknar hafa gagnrýnt fyrirkomulagið síðustu misseri enda tekið dýrmætan tíma frá þeim og valdið óþarfaskriffinnsku.

„Það verður ekki af hæstv. heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórssyni tekið að hann hlustar og gengur í verkið. Nú hafa verið birt drög að reglugerðarbreytingum í samráðsgátt. Samkvæmt gildandi reglugerð um tilvísanir fyrir börn er áskilið að heilsugæslulæknar skrifi tilvísun fyrir börn frá tveggja ára aldri að 18 ára aldri þurfi þau á þjónustu sérgreinalækna að halda. Slík tilvísun er m.a. forsenda þess að þjónusta sérgreinalækna sé gjaldfrjáls. Þetta kerfi verður nú einfaldað til muna,“ sagði Halla Signý.

„Eftir reglugerðarbreytingar getur sérgreinalæknir sem fær til sín barn samkvæmt tilvísun heilsugæslulæknis vísað því sjálfur til læknis í annarri sérgrein telji hann þörf á, án aðkomu heilsugæslunnar. Þá getur læknir sem fær barn til meðhöndlunar á sjúkrahúsi vísað barni til sérfræðings telji hann þörf á því. Auk þess getur gildistími tilvísana fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun, sem nú eru tíu ár eða meira, gilt allt til að barnið verður 18 ára. Þá verður hjúkrunarfræðingum veitt heimild til að gera tilvísanir fyrir börn vegna þjónustu talmeinafræðinga en hingað til hafa aðeins heilsugæslulæknar getað vísað börnum í þjónustu þeirra. Fleiri góðar breytingar er að finna í reglugerðardrögum en þær miða allar að því að bæta þjónustu og auka skilvirkni, m.a. með áherslum á að tími lækna nýtist betur til að sinna beinni þjónustu við sjúklinga. Hér er ekki bara verið að stytta bið barna eftir mikilvægri þjónustu heldur einnig verið að bæta starfsumhverfi lækna. — Vel gert,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í gær kom ein lítil og nett tilkynning inn á vef Stjórnarráðsins frá heilbrigðisráðuneytinu. Tilkynningin fjallar um að einfalda eigi tilvísunarkerfi fyrir börn vegna heilbrigðisþjónustu. Tilvísanakerfið hefur sætt þó nokkurri gagnrýni síðustu misseri, ekki síst frá læknum sem talið hafa það taka dýrmætan tíma frá þeim og valdið óþarfaskriffinnsku. Það verður ekki af hæstv. heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórssyni tekið að hann hlustar og gengur í verkið. Nú hafa verið birt drög að reglugerðarbreytingum í samráðsgátt. Samkvæmt gildandi reglugerð um tilvísanir fyrir börn er áskilið að heilsugæslulæknar skrifi tilvísun fyrir börn frá tveggja ára aldri að 18 ára aldri þurfi þau á þjónustu sérgreinalækna að halda. Slík tilvísun er m.a. forsenda þess að þjónusta sérgreinalækna sé gjaldfrjáls. Þetta kerfi verður nú einfaldað til muna. Eftir reglugerðarbreytingar getur sérgreinalæknir sem fær til sín barn samkvæmt tilvísun heilsugæslulæknis vísað því sjálfur til læknis í annarri sérgrein telji hann þörf á, án aðkomu heilsugæslunnar. Þá getur læknir sem fær barn til meðhöndlunar á sjúkrahúsi vísað barni til sérfræðings telji hann þörf á því. Auk þess getur gildistími tilvísana fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun, sem nú eru tíu ár eða meira, gilt allt til að barnið verður 18 ára. Þá verður hjúkrunarfræðingum veitt heimild til að gera tilvísanir fyrir börn vegna þjónustu talmeinafræðinga en hingað til hafa aðeins heilsugæslulæknar getað vísað börnum í þjónustu þeirra. Fleiri góðar breytingar er að finna í reglugerðardrögum en þær miða allar að því að bæta þjónustu og auka skilvirkni, m.a. með áherslum á að tími lækna nýtist betur til að sinna beinni þjónustu við sjúklinga. Hér er ekki bara verið að stytta bið barna eftir mikilvægri þjónustu heldur einnig verið að bæta starfsumhverfi lækna. — Vel gert.“

Categories
Fréttir

„Bravó, Willum Þór Þórsson, hæstv. heilbrigðisráðherra“

Deila grein

17/05/2024

„Bravó, Willum Þór Þórsson, hæstv. heilbrigðisráðherra“

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins fyrirkomulag tilvísana frá heimilislækni vegna heimsókna til sérgreinalækna.

„Þann 22. janúar 2020 skrifa ég eftirfarandi orð á samfélagsmiðla: Fór nýverið með litla drenginn til taugalæknis á LSH. Heimsókn sem er hluti af öllu hans ferli og verður áfram. Næsti tími bókaður í byrjun apríl að beiðni sama taugalæknis og verið hefur með hann. Ég sest upp í bíl og fæ um leið símtal frá LSH um að nú sé drengurinn minn að verða tveggja ára og því þurfi ég að fá tilvísun frá heimilislækni áður en ég kem með hann aftur. Ég skil þetta allt mjög illa,“ sagði Ágúst Bjarni.

Reglur kveða á um að tilvísanir fyrir börn frá tveggja ára aldri að 18 ára aldri sé áskilið að heilsugæslulæknir skrifi þurfi þau á þjónustu sérgreinalækna að halda. Að öðrum kosti er þjónusta sérgreinalæknis ekki gjaldfrjáls.

Breyting á þessu fyrirkomulagi hefur nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda og er áætlað að sérgreinalæknir sem fær til sín barn samkvæmt tilvísun heilsugæslulæknis geti vísað því sjálfur til læknis í annarri sérgrein telji hann þörf á því án aðkomu heilsugæslunnar.

„Læknir sem fær barn til meðhöndlunar á sjúkrahúsum getur vísað barni til sérfræðings telji hann þörf á því. Krafa um tilvísun heilsugæslulæknis í slíkum tilvikum verður felld brott. Rannsóknar- og myndgreiningarþjónusta barna verður gjaldfrjáls þótt ekki liggi fyrir tilvísun frá heilsugæslulækni. Gildistími tilvísana fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun, sem nú er tíu ár, verður lengdur og getur gilt allt þar til barnið nær 18 ára aldri. Hér má svo taka meira til en hægt er að kynna sér reglugerðarbreytinguna í heild í fyrrnefndri samráðsgátt. Ég segi: Bravó, Willum Þór Þórsson, hæstv. heilbrigðisráðherra,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.


Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Þann 22. janúar 2020 skrifa ég eftirfarandi orð á samfélagsmiðla:

„Fór nýverið með litla drenginn til taugalæknis á LSH. Heimsókn sem er hluti af öllu hans ferli og verður áfram. Næsti tími bókaður í byrjun apríl að beiðni sama taugalæknis og verið hefur með hann. Ég sest upp í bíl og fæ um leið símtal frá LSH um að nú sé drengurinn minn að verða tveggja ára og því þurfi ég að fá tilvísun frá heimilislækni áður en ég kem með hann aftur. Ég skil þetta allt mjög illa.“

Samkvæmt gildandi reglugerð um tilvísanir fyrir börn er áskilið að heilsugæslulæknir skrifi tilvísun fyrir börn frá tveggja ára aldri að 18 ára aldri þurfi þau á þjónustu sérgreinalækna að halda. Slík tilvísun er m.a. forsenda þess að þjónusta sérgreinalæknis sé gjaldfrjáls. Þessu stendur nú til að breyta með reglugerðarbreytingum sem hafa verið birtar í samráðsgátt stjórnvalda en það verður m.a. gert með því að sérgreinalæknir sem fær til sín barn samkvæmt tilvísun heilsugæslulæknis getur vísað því sjálfur til læknis í annarri sérgrein telji hann þörf á því án aðkomu heilsugæslunnar. Ákvæði gildandi reglugerðar um að barn þurfi nýja tilvísun frá heilsugæslulækni verður fellt brott. Læknir sem fær barn til meðhöndlunar á sjúkrahúsum getur vísað barni til sérfræðings telji hann þörf á því. Krafa um tilvísun heilsugæslulæknis í slíkum tilvikum verður felld brott. Rannsóknar- og myndgreiningarþjónusta barna verður gjaldfrjáls þótt ekki liggi fyrir tilvísun frá heilsugæslulækni. Gildistími tilvísana fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun, sem nú er tíu ár, verður lengdur og getur gilt allt þar til barnið nær 18 ára aldri. Hér má svo taka meira til en hægt er að kynna sér reglugerðarbreytinguna í heild í fyrrnefndri samráðsgátt. Ég segi: Bravó, Willum Þór Þórsson, hæstv. heilbrigðisráðherra.“