Categories
Fréttir

Hvers vegna veggjöld?

Deila grein

11/12/2018

Hvers vegna veggjöld?

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var spurður í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær hvort að hann hafi skipt um skoðun á veggjöldum.
Sigurður Ingi sagði í svari sínu að hann vildi árétta það sem hann hafi þurft að segja nokkuð oft. „Fyrir ári sagði ég að það væru engin vegtollahlið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Ég hefði talað gegn þeim, þeir væru ekki í stjórnarsáttmálanum og þar af leiðandi ekki á minni dagskrá. Það breytir því hins vegar ekki að veggjöld hafa alltaf komið til greina. Hvalfjarðarganga-módelið hefur t.d. gengið mjög vel og lauk núna með farsælum hætti þar sem við hættum gjaldtöku, eftir því sem menn höfðu sagt hér á Alþingi. Það var sagt að þessi lög ættu að standa í 20 ár og þegar gjaldtökunni væri lokið yrði göngunum skilað til þjóðarinnar. Við það stóðum við,“ sagði Sigurður Ingi.

Hvers vegna veggjöld?
Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, í orkuskiptum, „höfum við orðið þess fullviss að tekjur ríkisins af bensín- og dísilgjöldum munu fara hratt lækkandi næstu ár. Þær tekjur munu ekki duga fyrir þeim vegaframkvæmdum sem við almennt sættum okkur við. Eru í dag einhverjir 17-18 milljarðar, lækka um 25-50% til ársins 2025 samkvæmt spám og gætu þess vegna verið orðnir að einhverjum 9 milljörðum árið 2025 — og ég held að enginn sætti sig við það,“ sagði Sigurður Ingi.
„Varðandi tímapressuna veit hv. þingmaður (Björn Leví Gunnarsson), sem er áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd, að það hefur verið mikil vinna í allt haust. Þessi áform voru upphaflega kynnt í samgönguáætluninni. Það var talað um að vel kæmi til greina að skoða aðra þætti eins og þá sem verið hafa til skoðunar í nefndinni. Ég veit að í samtölum við alla gesti, sem hafa verið fjölmargir, og á fjölmörgum nefndarfundum og í viðræðum í nefndinni hefur slíkt komið fram og þetta samtal átt sér stað. Ef það gengur upp að ná að ljúka þessu núna væri það frábært vegna þess að fjögurra ára áætlunin er að renna út í lok þessa árs. Það er mjög mikilvægt fyrir Vegagerðina að hafa svolítinn fyrirsjáanleika í áætlunum sínum og hönnun og útboðum, m.a. til að ná fram eins mikilli hagræðingu í rekstri og útboðum og hægt er,“ sagði Sigurður Ingi að lokum.

Categories
Fréttir

Veiðigjald

Deila grein

10/12/2018

Veiðigjald

Eðlilega hafa verið miklar umræður um veiðigjöldin á Alþingi. En stefnt er að því að afkomutengja veiðigjöld og hafa álagningu eins nálægt í tíma og hægt er. Minnihlutinn sakar ríkisstjórnina um að blekkja þingið, enga sátt og segir stöðu greinarinnar ekki alvarlega.
Markmiðið með veiðigjaldinu er að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu. Að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar.
Með frumvarpinu er lagt til að:

  • settur verði nýr reiknistofn veiðigjalds sem verði byggður á afkomu við veiðar hvers nytjastofns,
  • veiðigjald verði 33% af reiknistofni,
  • reglur um frítekjumark veiðigjalds verði óbreyttar,
  • veiðigjald verði ákveðið fyrir almanaksár,
  • stjórnsýslu veiðigjalds verði breytt og dregið verði úr töf við meðferð upplýsinga.

Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi verði um 6–8 milljarðar kr. á ári næstu þrjú árin. Árlegur kostnaður vegna framkvæmdar laganna er áætlaður um 42,5 milljónir kr. Að auki fellur til um 46,1 milljóna kr. stofnkostnaður sem dreifist á árin 2018–2020 og gert er ráð fyrir að þeim kostnaði verði mætt innan útgjaldaramma málefnasviðs 5 í fjármálaáætlun (Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla).
Samkvæmt gildandi lögum er reiknistofn veiðigjaldsins ákvarðaður á grundvelli hagnaðar fyrir skatt (EBT) í sjávarútvegi samkvæmt skýrslu Hagstofu Íslands, Hagur veiða og vinnslu, reiknað annars vegar fyrir botnfisk og hins vegar fyrir uppsjávarfisk. Vegna tímatafar við útgáfu skýrslunnar er með þessu byggt á a.m.k. tveggja ára gömlum upplýsingum. Við ákvörðun veiðigjalds sumarið 2017 var þannig byggt á skýrslunni Hagur veiða og vinnslu 2015, sem kom út 20. janúar 2017 (og var endurskoðuð 29. júní 2017). Með því er reiknistofninn verulega háður gengissveiflum, ekki aðeins hvað snertir sölutekjur heldur einnig árlegt endurmat á lánum eða eignum þar sem bókhaldslegur gengishagnaður (eða tap) er hluti gjaldstofnsins og getur leitt til breytinga sem illa samræmast rekstrarafkomu á þeim tíma. Hér má benda á mikla hækkun hagnaðar (EBT) í fiskveiðum frá árinu 2014 þegar hann var álitinn um 15 milljarðar kr. til ársins 2015 þegar hann var álitinn um 31 milljarður kr. Stóran hluta þessa mátti rekja til áhrifa gengisbreytinga á fjármagnsstofn. Þetta gat síðan af sér mikla hækkun veiðigjalds á fiskveiðiárinu 2017–2018 sem ekki samrýmdist nýjustu fáanlegu upplýsingum um rekstrarafkomu sjávarútvegsins á sama tíma, svo sem rakið var hér að framan.
Með frumvarpinu er lagt til að reiknistofn veiðigjalds endurspegli væntanlega afkomu við veiðar (fyrir skatt) á komandi veiðigjaldsári (almanaksári). Þá er jafnframt lagt til að ekki verði lengur byggt á Hagtíðindum við útreikninga. Þess í stað verði byggt einvörðungu á gögnum úr skattframtölum eigenda fiskiskipa auk skýrslna til Fiskistofu um afla og aflaverðmæti. Reiknistofn frumvarpsins er mun gegnsærri og auðskiljanlegri en reiknistofn gildandi laga þar sem annars vegar eru sóttar upplýsingar um hagnað í birtar töflur Hagstofu Íslands og hins vegar öllum kostnaði jafnað niður samkvæmt svonefndum afkomuígildum, sem um er fjallað ítarlega í skýringum við gildandi lög. Ekki er þörf á slíkri tveggja skrefa aðferð lengur en niðurjöfnun kostnaðarþátta er reist á vegnu hlutfalli aflaverðmætis hverrar tegundar við veiðar hvers fiskiskips.
„Þá vil ég draga fram mikilvægi þess að hafa í huga þá áherslu sem er í lögum um fiskveiðistjórn, að tryggja og treysta atvinnu og byggð í landinu. Eins það sem fram kemur í 20. gr. þeirra laga varðandi þá sem fá úthlutað aflaheimildum samkvæmt þeim lögum eða landa afla, að fari stjórn veiða fram með öðrum hætti en með úthlutun aflamarks skuli greiða veiðigjöld svo sem í lögum um veiðigjöld greinir. Þetta er það sem við erum að ræða, virðulegi forseti, og hefur mikið verið rætt á umliðnum misserum, að gjaldið þurfi að afkomutengja og byggjast á afkomutölum nær rauntíma. Í frumvarpinu sem við ræðum, frumvarpi til laga um veiðigjöld, er þeim sjónarmiðum sannarlega mætt,“ sagði Willum Þór Þórsson, alþingismaður, í ræðu í fyrstu umræðu.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Sjálfstæðisflokks segir:
Við endurskoðun laga um veiðigjöld þarf að hafa það meginmarkmið að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu. Auðlindagjöld eiga annars vegar að vera greiðsla fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind og hins vegar arðgreiðslur af nýtingu hennar.
„Þeim sjónarmiðum er klárlega mætt í frumvarpinu,“ sagði Willum Þór.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, fór yfir, í fyrstu umræðu um veiðigjaldið á Alþingi, að verið væri að að koma til móts við umsagnir og gagnrýni á fyrra frumvarp sem lagt var fram í s.l. vetur. „Þarna er verið að horfa eins og hægt er til hverrar útgerðar og kannski ekki hægt að gera þetta einstaklingsmiðaðra en þetta, því að það skiptir verulegu máli. Eins og í flestum atvinnugreinum eru útgerðin og sjávarútvegsfyrirtækin misjafnlega byggð upp og eru kannski ekki öll jöfn í þeirri skiptingu sem hefur verið, enda er óbreytt álagning veiðigjalds röng miðað við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja í dag,“ sagði Halla Signý.
„Óeðlilega hátt veiðigjald getur dregið úr starfsemi fyrirtækja og samkeppnishæfni greinarinnar á alþjóðlegum markaði. Slík þróun getur haft neikvæð áhrif á þjónustufyrirtæki í sjávarútvegi og sveitarfélög sérstaklega, sem byggja afkomu sína að stórum hluta á tekjum í sjávarútvegi. Þá getur hátt veiðigjald ýtt undir frekari fækkun sjálfstæðra atvinnurekenda í sjávarútvegi, en aflahlutdeildarhöfum hefur fækkað ört á síðustu árum, eða um tæp 60% á 12 árum.
Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa ekki mótmælt því að greiða gjald af auðlindinni enda hreyfðu þau ekki mótmælum þegar vel gekk. En gjaldið verður náttúrlega að vera sanngjarnt og taka mið af afkomu nær í tíma og fleiri þáttum í rekstri eins og tíðkast með afslætti vegna vaxta og framkvæmda. Þjóðin græðir nú ekki á afgjöldum af auðlindinni sem kostar okkur rótgróin fyrirtæki,“ sagði Halla Signý.

Categories
Greinar

Jöfn tækifæri til tónlistarnáms

Deila grein

10/12/2018

Jöfn tækifæri til tónlistarnáms

Tón­list­ar­líf á Íslandi hef­ur átt mik­illi vel­gengni að fagna og vor­um við minnt á það ný­lega á degi ís­lenskr­ar tón­list­ar sem hald­inn var hátíðleg­ur 6. des­em­ber síðastliðinn. Öflugt tón­list­ar­nám legg­ur grunn­inn að og styður við skap­andi tón­list­ar- og menn­ing­ar­líf í land­inu en ný­verið var und­ir­ritað sam­komu­lag rík­is­ins og sveit­ar­fé­lag­anna um stuðning við tón­list­ar­nám til árs­loka 2021. Mark­miðið er að jafna aðstöðumun nem­enda til tón­list­ar­náms á fram­halds­stigi og söngnám á mið- og fram­halds­stigi og festa fjár­mögn­un náms­ins bet­ur í sessi. Ljóst er að um veiga­mikið skref er að ræða en grunn­fjár­hæð fram­lags rík­is­ins er 545 millj­ón­ir kr. á árs­grund­velli sem greiðist til Jöfn­un­ar­sjóðs sveit­ar­fé­lag­anna sem ann­ast út­hlut­an­ir fram­lag­anna. Á móti skuld­binda sveit­ar­fé­lög­in sig til að taka tíma­bundið yfir verk­efni frá ríki sem nema 230 millj­ón­um kr. á ári og sjá til þess að fram­lag renni til kennslu þeirra nem­enda sem inn­ritaðir eru í viður­kennda tón­list­ar­skóla án til­lits til bú­setu. Sam­komu­lagið er um­fangs­mikið en það snert­ir 33 viður­kennda tón­list­ar­skóla víða um land en þar stunda nú um 600 nem­end­ur nám á fram­halds­stigi.Það skipt­ir máli fyr­ir tón­list­ar­lífið í land­inu að um­gjörðin sé sterk og innviðir góðir. Á síðasta ári var gerð út­tekt á veltu ís­lenskr­ar tón­list­ar fyr­ir Sam­tón, ÚTÓN og at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneytið. Úttekt­in var unn­in af dr. Mar­gréti Sigrúnu Sig­urðardótt­ur og Erlu Rún Guðmunds­dótt­ur. Helstu niður­stöður eru þær að heild­ar­tekj­ur ís­lenska tón­list­ariðnaðar­ins á ár­un­um 2015-2016 voru um það bil 3,5 millj­arðar kr., auk 2,8 millj­arða kr. í af­leidd­um gjald­eyris­tekj­um til sam­fé­lags­ins vegna komu tón­list­ar­ferðamanna til lands­ins. Þá stend­ur lif­andi flutn­ing­ur á tónlist und­ir tæp­lega 60% af heild­ar­tekj­um ís­lenskr­ar tón­list­ar á meðan hljóðrituð tónlist og höf­und­ar­rétt­ur nema hvort um sig 20%. Að auki sýn­ir út­tekt­in að lif­andi flutn­ing­ur er mik­il­væg­asta tekju­lind sjálfra tón­list­ar­mann­anna á meðan plötu­sala hef­ur dreg­ist sam­an.

Það er mik­il­vægt að halda áfram að styrkja um­gjörð skap­andi greina í land­inu. Ný­und­ir­ritað sam­komu­lag um tón­list­ar­nám skipt­ir sköp­um á þeirri veg­ferð og mun gera fleir­um kleift að stíga sín fyrstu skref í tónlist um land allt. Að auki hafa verið stig­in mik­il­væg skref í upp­bygg­ingu menn­ing­ar­húsa á lands­byggðinni en þau hafa haft ótví­ræð já­kvæð marg­feld­isáhrif á tón­list­ar- og menn­ing­ar­líf bæja og nærsam­fé­laga. Við vilj­um að all­ir lands­menn geti notið lista og menn­ing­ar og tekið virk­an þátt í slíku starfi.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. desember 2018.

Categories
Greinar

Auknir fjármunir til verkefna í þágu barna

Deila grein

10/12/2018

Auknir fjármunir til verkefna í þágu barna

Þann 1. janú­ar næst­kom­andi tek­ur til starfa nýtt fé­lags­málaráðuneyti í sam­ræmi við ákvörðun Alþing­is um breytta skip­an Stjórn­ar­ráðsins. Embætt­istit­ill minn breyt­ist frá sama tíma og verður fé­lags- og barna­málaráðherra. Fyr­ir þeirri breyt­ingu er ein­föld ástæða. Ég hef frá fyrsta degi í stóli ráðherra sem fer með mál­efni barna lagt sér­staka áherslu á þann mála­flokk og lagt kapp á vinnu við verk­efni í þágu barna og barna­fjöl­skyldna.

Að mínu frum­kvæði und­ir­rituðu fimm ráðherr­ar vilja­yf­ir­lýs­ingu um aukið sam­starf í þágu barna nú í haust. Hún end­ur­spegl­ar vilja okk­ar til að tryggja sam­starf þvert á kerfi, stuðla að sam­felldri þjón­ustu við börn og for­eldra þegar þörf er fyr­ir hendi og skapa meiri viðbragðsflýti inn­an kerf­is­ins með aukn­um hvata til snemm­tækr­ar íhlut­un­ar. Auk ráðherra­yf­ir­lýs­ing­ar­inn­ar hef­ur verið sett á fót þver­póli­tísk þing­manna­nefnd um mál­efni barna, sem er einnig mik­il­vægt til að raun­gera þá ríku áherslu á mál­efni barna sem sam­fé­lag okk­ar þarf svo mikið á að halda.

Þótt orð séu til alls fyrst, þarf líka fjár­muni til að hrinda góðum vilja í fram­kvæmd. Þess vegna er gott að geta sagt frá því að samstaða var í rík­is­stjórn­inni um að auka fram­lög til mál­efna barna um 200 millj­ón­ir króna til að styðja við þá end­ur­skoðun á mála­flokkn­um sem nú stend­ur yfir og vinna að ýms­um mik­il­væg­um verk­efn­um sem varða snemm­tæka íhlut­un og aðstoð og einnig má nefna fjár­magn upp á tugi millj­óna á þessu ári og 80 millj­ón­ir á næsta ári sem nýt­ist börn­um í fíkni­vanda.

1,8 millj­arðar til hækk­un­ar fæðing­ar­or­lofs

Stuðning­ur við for­eldra er stuðning­ur við börn. Þess vegna stend­ur rík­is­stjórn­in ein­huga að baki hækk­un á greiðslum til for­eldra í fæðing­ar­or­lofi á næsta ári. Full­ar greiðslur hækka úr 520.000 kr. á mánuði í 600.000 kr. og nem­ur heild­ar­kostnaður þess­ar­ar aðgerðar 1,8 millj­örðum króna. Enn frem­ur hækk­um við mót­fram­lagið í líf­eyr­is­sjóð úr 8% í 11,5% á næsta ári. Stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar er bæði að hækka greiðslurn­ar og lengja or­lofið og leng­ing þess verður næsta skrefið í þessu máli.

Loks vil ég geta um aukið fram­lag vegna upp­bygg­ing­ar sér­stakra bú­setu­úr­ræða fyr­ir börn með al­var­leg­ar þroska- og geðrask­an­ir en um 150 millj­ón­um króna verður varið á næsta ári til þess.

Það er gam­an að geta kynnt þessi mik­il­vægu verk­efni í þágu barna sem unnið er að. Vilji stjórn­valda er skýr og ein­beitt­ur í þess­um efn­um. Mál­efni barna hafa meðbyr og það er vax­andi skiln­ing­ur fyr­ir því í sam­fé­lag­inu að börn­in okk­ar eru mik­il­væg­asta fjár­fest­ing framtíðar­inn­ar.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. desember 2018.

Categories
Fréttir

„Það er alveg ótrúlegt að hlusta á þetta“

Deila grein

08/12/2018

„Það er alveg ótrúlegt að hlusta á þetta“

Willum Þór Þórsson formaður fjárlaganefndar kom upp í ræðustól Alþingis í atkvæðagreiðslu í 3. umræðu fjárlaga, um tillögu um að heimila fjármála- og efnahagsráðherra að leggja Íslandspósti ohf. til lánsheimild og hlutafé. Var þungt í hinum dagfarsprúða formanni, eins og sjá má á upptöku hér að neðan.

„Ætlar fólk virkilega að láta þetta fyrirtæki að sigla sinn sjó,“ spurði Wilum Þór þingheim. Og sagði svo í framhaldi, „það er alveg ótrúlegt að hlusta á þetta.“ Og bætti við: „Hvar er ábyrgðin? Þetta er í almannaeigu.“
Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar segir: Ráðherrum ber að upplýsa bæði fjárlaganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis um framgang fjárhagslegrar endurskipulagningar og útfærslu á framtíðar rekstrarfyrirkomulag áður en nýttar eru þær lána- og framlagsheimildir sem hér er gerð tillaga um.
„Hvað þýðir þetta,“ spurði Willum Þór.
„Það er verið að fara í gegnum reksturinn, skera upp reksturinn. Það er verið að verja verðmætin í þessu fyrirtæki,“ sagði Willum Þór Þórsson.

Categories
Fréttir

Eiga pening fyrir gjaldeyri á Keflavíkurflugvelli

Deila grein

06/12/2018

Eiga pening fyrir gjaldeyri á Keflavíkurflugvelli

Ásgerður K. Gylfadóttir, varaþingmaður, ræddi samgöngumálin í störfum þingsins í gær, miðvikudag.
„Samgöngumálin hafa verið í brennidepli þessa vikuna og síðast í gær kom út skýrsla starfshóps sem fjallaði um innanlandsflug og rekstur flugvalla með hliðsjón af áherslum ríkisstjórnarinnar undir forystu hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar. Aðgerðirnar sem hópurinn leggur til koma að mínu mati til með að leysa ýmsan vanda sem við hefur verið að etja, til að mynda varðandi millilandaflug, með því að varaflugvöllunum í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum er gefið aukið vægi. Það gefur væntingar um að þær framkvæmdir sem eru nauðsynlegar við þá velli fari af stað. Það mun styrkja vellina til að veita þá þjónustu og það öryggi sem þeir eiga að standa fyrir,“ sagði Ásgerður.
„Ég vil einnig minna á mikilvægi þess að opna fyrir umferð lítilla og meðalstórra flugvéla til og frá landinu um Hornafjarðarflugvöll sem er bæði stuðningur við svæðið varðandi ferðaþjónustuna og svo mikið flugöryggisatriði fyrir vélar, til að mynda í ferjuflugi.
Innanlandsflugið á að vera einn liður í almenningssamgöngunum og er hluti af þessari skýrslu. Sú staðreynd að það sé hægt að fá flugfar til og frá landinu í gegnum Keflavíkurflugvöll fyrir sama verð og almennt fargjald aðra leiðina til Hornafjarðar, Ísafjarðar eða Egilsstaða er ekki boðlegt ástand. Því fagna ég innilega fyrir hönd landsbyggðarinnar að hin svokallaða skoska leið eða útfærsla af henni sé komin í vinnslu og lagt til að það fyrirkomulag taki gildi árið 2020. Aðgengi að þjónustu sem er stöðugt gerð miðlægari á höfuðborgarsvæðinu á að vera sjálfsagt fyrir alla landsmenn.
Til viðbótar má telja að leikhús allra landsmanna, t.d. Þjóðleikhúsið, hljómsveit allra landsmanna, Sinfóníuhljómsveitin, og flugvöllur allra landsmanna, aðalvöllurinn, Keflavíkurflugvöllur, sé á leið hér um og það er gott að við getum átt smápening fyrir gjaldeyri þegar við komum á Keflavíkurflugvöll.“
Ásgerður K. Gylfadóttir varaþingmaður í störfum þingsins 5. desember 2018.

Categories
Fréttir

„Ég treysti þér, máttuga mold“

Deila grein

06/12/2018

„Ég treysti þér, máttuga mold“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, minnti þingheim á alþjóðlegan dag jarðvegs í gær, miðvikudag.
„Jarðvegur er það sem allt líf nærist á og jarðvegur er mjög mikilvæg náttúruauðlind og hann er ekki hægt að endurnýta,“ sagði Halla Signý.
Ég treysti þér, máttuga mold.
Ég er maður, sem gekk út að sá.
Ég valdi mér nótt, ég valdi mér logn,
þegar vor yfir dalnum lá.
– orti Guðmundur Ingi Kristjánsson skáld frá Kirkjubóli
Guðmundur Ingi Kristjánsson sem var bóndi og skildi þá hringrás sem lífið er. Okkur ber skylda að yrkja og varðveita jörðina og skila henni til komandi kynslóða.
Frjómoldin er aðeins þunn skel á yfirborði jarðar. Í henni nærum við meginhluta matvælaframleiðslu heimsins. En jarðarbúum fjölgar hratt og því miður er þessi mikilvæga auðlind jarðar að hopa og verða eyðimerkurmyndun að bráð.
Fyrir þinginu liggur þingsályktunartillaga sem hvetur landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðherra að gera tillögu til breytinga á lögum eða reglugerðum sem miða að því að koma á fót hvatakerfi þannig að landeigendur hafi ávinning af því að græða upp land og stöðva jarðvegsrof með uppskeru af túnum sem nýtist ekki í fóður.
Í loftslagsstefnu Íslands er það eitt af forgangsmálum að huga að landgræðslu eins og segir í aðgerðaáætlun fyrir árin 2018-2030, með leyfi forseta:
„Fáar þjóðir hafa eins góð tækifæri og Íslendingar til að draga úr losun vegna landnotkunar og efla kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi.“
Þar er nefnt sérstaklega að endurheimt votlendis sé veigamikill þáttur í að draga úr losun og að hægt sé að binda kolefni úr andrúmslofti með landgræðslu og skógrækt. Íslenskir bændur hafa sýnt landgræðslu og kolefnisbindingu mikinn áhuga. Landssamtök sauðfjárbænda hafa sett sér aðgerðaáætlun þar sem stefnt er að því að sauðfjárrækt skuli verða kolefnisjöfnuð fyrir árið 2027. Liður í því er landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis. Landgræðsla ríkisins hefur unnið markvisst að því að efla grasrótarstarf í landgræðslu og gróðurvernd og flytja verkefni frá landgræðslunni heim í héruðin undir samvinnuverkefninu Bændur græða landið. Það er dæmi um slíkt framtak.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður í störfum þingsins 5. desember 2018.

Categories
Greinar

Tryggjum jöfnuð gagnvart fæðingarþjónustu

Deila grein

06/12/2018

Tryggjum jöfnuð gagnvart fæðingarþjónustu

Fæðingarstöðum á Íslandi hefur fækkað hin síðari ár. Árið 2003 voru þeir 14 en eru nú 8. Hátt á þriðja hundrað börn fæðast árlega sem eiga foreldra sem búa yfir hundrað kílómetra frá fæðingarþjónustu. Félags- og jafnréttisráðherra hyggst í samvinnu við heilbrigðisráðherra stofna starfshóp til að fara heildstætt yfir aðstæður barnshafandi kvenna á landsbyggðinni með tilliti til staðsetningar fæðingarþjónustu og gera nauðsynlegar úrbætur.

Nýtt sjúkrahótel bætir þjónustuna
Þrátt fyrir að fæðingarstöðum fækkað, þá hefur fátt komið í staðinn fyrir það fólk sem býr fjarri fæðingarþjónustu. Sjúkratryggingar Íslands greiða ferðakostnað fyrir móður, en það er allt og sumt. Mikill kostnaður getur fylgt því að greiða fyrir gistingu nærri fæðingarþjónustu sem og ferðakostnað fyrir aðra fjölskyldumeðlimi og uppihald. Markmið nýs sjúkrahótels við Landspítala, sem opnar á næstunni, er m.a. að útvega gistingu fyrir fólk af landsbyggðinni sem er að sækja þjónustu sem ekki er veitt í heimabyggð og að veita konum af landsbyggðinni gistingu nálægt fæðingardeild meðan beðið er fæðingar sérstaklega ef að er um áhættufæðingar að ræða. Góð aðstaða verður fyrir fjölskyldufólk á sjúkrahótelinu.

Nauðsynlegt að breyta lögum um fæðingarorlof
Vegna þessa augljósa ójafnræðis sem fólk býr við varðandi aðgengi að fæðingarþjónustu lagði undirrituð ítrekað fram frumvarp, ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins, með breytingu á lögum um fæðingarorlof.  Með frumvarpinu var lagt til að réttur foreldra til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks framlengist sem nemur þeim tíma sem þeir þurfa að dveljast fjarri heimili til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp. Sú breyting yrði til þess að öllum börnum yrði tryggður jafn réttur til að njóta samvista við foreldra sína fyrstu mánuði lífsins. Slík breyting yrði einnig í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem veitt hefur verið lagagildi hérlendis með lögum nr. 19/2013. Velferðarnefnd Alþingis tókst ekki að afgreiða frumvarpið á vordögum en því ber að fagna að félagsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra ætli að fara ítarlega yfir stöðu þessa hóps og leggja fram tillögur að úrbótum.

Í svo fámennu og dreifbýlu landi sem Ísland er, er skiljanlegt að erfitt sé að halda úti fæðingarþjónustu á hverjum stað. Engu að síður verðum við að tryggja jöfnuð á milli þegna landsins og því verður kerfið að vera skipulagt á þann hátt, að komið sé til móts við fólk sem ekki á kost á fæðingarþjónustu í heimabyggð.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á feykir.is 4. desember 2018.

Categories
Greinar

Staðsetning fyrirhugaðrar Þjóðgarðastofnunar

Deila grein

06/12/2018

Staðsetning fyrirhugaðrar Þjóðgarðastofnunar

Það hefur staðið til að umhverfis- og auðlindaráðherra komi á fót Þjóðgarðastofnun sem mun annast náttúruvernd á friðlýstum svæðum í samræmi við náttúruverndarlög. Með því er verið að sameina verkefni og stjórnsýslu á þessu sviði undir eina stjórn og á einn stað. Nýlega spurði ég umhverfis- og auðlindaráðherra hvort það kæmi til greina að staðsetja fyrirhugaða stofnun á landsbyggðinni og ef svo er, hvað lægi til grundvallar slíkri ákvörðun.

Gott aðgengi að stjórnsýslu

Þau atriði sem ráðherra telur brýnt að horfa til þegar tekin verður ákvörðun um starfsstöðvar nýrrar stofnunar eru tengsl stjórnenda og lykilstarfsfólks við stjórnsýsluna. Það sé mikilvægt að stofnunin hafi gott aðgengi að stjórnsýslu eins og ráðuneytum og öðrum stofnunum sem snúa að slíkri starfsemi. Ráðherra bendir á að hægt sé með öruggum hætti að viðhalda tengslum á rafrænan hátt en að ekki megi gera lítið úr mikilvægi beinna samskipta.

Ráðherra telur mikilvægt að góð samskipti séu við hagaðila og að virkt samráð sé forsenda þess að vel takist upp. Sterk rök eru fyrir því að á hverju starfssvæði stofnunarinnar eða í hverjum landshluta þurfi að vera nokkuð öflug starfsstöð með getu til þess að sinna slíkum samtölum ásamt annarri þjónustu, t.d. hluta af miðlægri þjónustu stofnunarinnar.

Verkefni um allt land

Verkefni fyrirhugaðrar stofnunar eru á hendi þriggja stofnana sem heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Þær stofnanir starfa víða um land eins og Umhverfisstofnun sem starfar á tíu stöðum á landinu. Eðli starfsemi nýrrar stofnunar sem færi með málefni náttúrverndar, t.a.m. friðlýsingar og rekstur og umsjón friðlýstra svæða, fæli í sér að meginþungi starfseminnar yrði á landsbyggðinni.

Þekking og frumkvæði

Það er ljóst að mikil þekking um náttúruvernd og náttúrurannsóknir býr á landsbyggðinni. Starfsfólk Náttúrustofa og Umhverfisstofnunar um landið sinnir eftirliti með náttúru landsins með gagnasöfnun, fræðslu, ráðgjöf, þjónustu og fleiru.

Á Hvanneyri er Landbúnaðarskóli Íslands. Sérstæða hans er að viðfangsefni skólans er náttúra landsins, nýting, viðhald og verndun, eins og segir á heimasíðu skólans. Þar er rekin öflugur skóli í búfræði og búvísindum auk þess sem þar er öflug rannsóknastarfsemi á sviði búvísinda, náttúru- og umhverfisfræða.

Það er því ekki erfitt að finna hentuga staðsetningu fyrir fyrirhugaða Þjóðgarðastofnun þar sem hægt er að nálgast forsendurnar sem liggja til grundvallar slíkri stofnun.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 5. desember 2018.

Categories
Fréttir

Fjarskiptaáætlun – fjórðu iðnbyltingunni fylgja áskoranir

Deila grein

05/12/2018

Fjarskiptaáætlun – fjórðu iðnbyltingunni fylgja áskoranir

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mælti fyrir tveimur þingsályktunartillögum um fjarskiptaáætlun á Alþingi í dag, annars vegar stefnu í fjarskiptum til fimmtán ára og hins vegar aðgerðaáætlun til fimm ára. Ráðherra segir grunntón í áherslum og aðgerðum áætlunarinnar vera traust og öryggi.
Ný fjarskiptaáætlun felur í sér mikilvæga framtíðarsýn og markmið í fjarskiptum, netöryggismálum, póstmálum og málefnum Þjóðskrár Íslands fyrir árin 2019–2033 en aðgerðaáætlunin nær til tímabilsins 2019-2023.
Ráðherra sagði í framsöguræðu sinni að fjarskiptaáætlanir sem gerðar voru árin 2005 og 2012 hafi varðað farsæla þróun á sviði fjarskipta sem hafi komið Íslandi í fyrsta sæti í fjarskiptum og upplýsingatækni árið 2017 að mati Alþjóðafjarskiptasambandsins. Þriðju fjarskiptaáætluninni væri ætlað að fleyta þjóðinni enn lengra þannig að við héldum stöðu okkar sem eitt af forystulöndum heims í innviðum fjarskipta.
Í áætluninni er horft til umtalsverðrar og fyrirsjáanlegrar tækniþróunar, endurskoðunar á fyrirliggjandi stefnum og sameiningu stefna í fjarskiptum, netöryggismálum, póstmálum og málefnum Þjóðskrár Íslands. Einnig er tekið mið af samþættingu allra stefna og áætlana sem falla undir málefnasvið ráðuneytisins.
Fjórðu iðnbyltingunni fylgja áskoranir
Sigurður Ingi fjallaði um fjölmargar áskoranir fyrir þjóðir heims sem felast í fjórðu iðnbyltingunni þar sem fjarskipti, upplýsingatækni, netöryggi og gervigreind leika lykilhlutverk. „Birtingarmynd þeirra breytinga sem við nú þegar stöndum frammi fyrir er m.a. stórstígar framfarir í tækni, aukin sjálfvirkni, ör þróun í stafrænum samskiptum, síbreytilegt viðskiptamódel markaðsaðila og örar breytingar á regluverki ESB. Einnig má benda á að ríki heims standa nú frammi fyrir vaxandi ógnum á Netinu og þurfa Íslendingar að bregðast við þeim af alvöru. Hvað varðar póstþjónustuna má benda á að það er stór áskorun að takast á við hraða fækkun bréfasendinga og vöxt í verslun á Netinu með tilheyrandi pakkasendingum innanlands og milli landa. Þá vil ég nefna í þessu sambandi að ein allra mikilvægasta grunnskrá landsins, þjóðskráin, þarfnast endurnýjunar til að svara þeim kröfum sem m.a. Alþingi og almenningur gerir til hennar,“ sagði ráðherra í framsöguræðu sinni.
Þrjú stór viðfangsefni í áætluninni eru háð skilyrði um sérstaka viðbótar fjárveitingu að mati ráðherra. Í fyrsta lagi innleiðing á NIS tilskipun sem er grundvöllur brýnna umbóta í netöryggismálum þjóðarinnar. Í öðru lagi fjármögnun á mögulegum kostnaði ríkisins við að tryggja lágmarks póstþjónustu. Og loks í þriðja lagi sérstök ljósleiðaraverkefni eins og þriðji fjarskiptasæstrengurinn til Evrópu, hringtenging ljósleiðara á Austfjörðum auk útbóta við að tryggja betur öryggi mikilvægra fjarskiptainnviða. Ráðherra minnti á að landsátakið Ísland ljóstengt væri þegar fjármagnað en það verkefni hafi reynst ákaflega árangursríkt verkefni til að koma háhraðatengingum út í hinar dreifðu byggðir.
Ör endurskoðun mikilvæg
Þingsályktunartillögur um fjarskiptaáætlun voru samdar í samræmi við stefnu ríkisstjórnar, áherslur ráðherra, aðrar áætlanir hins opinbera og niðurstöður opins samráðs.
Samkvæmt lögum skal stefna í fjarskiptum og tilheyrandi aðgerðaáætlun endurskoðuð eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Ráðherra segir reglulega og öra endurskoðun mikilvæga þar sem þróun í málaflokkum sem fjarskiptaáætlun nær til taki hröðum breytingum. Árlega verður gerð grein fyrir framvindu markmiða og verkefna fjarskiptaáætlunar.
Þingsályktunartillaga um stefnu í fjarskiptum fyrir árin 2019-2033
Þingsályktunartillaga um fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019-2023

Heimild: stjornarradid.is