Categories
Fréttir

Sigrún opnar sýningu á Brjánslæk um Surtarbrandsgil

Deila grein

12/08/2016

Sigrún opnar sýningu á Brjánslæk um Surtarbrandsgil

sigrunmagnusdottir-vefmyndSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnaði í dag sýningu um náttúruvættið Surtarbrandsgil í gamla prestbústaðinum á Brjánslæk.
Surtarbrandsgil var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975 en gilið er einn merkasti fundarstaður plöntusteingervinga á Íslandi. Þar hafa verið greindar um 65 tegundir plantna, aðallega lauftré. Surtarbrandsgil er þekkt víða utan landsteinanna og finna má steingervinga úr gilinu á náttúrugripasöfnum víða í Evrópu. Eins og nafnið gefur til kynna er talsvert af surtarbrandi í gilinu.
Tilgangurinn með sýningunni er að fræða almenning um jarðfræði Surtarbrandsgils og það loftslag og gróðurfar sem var fyrir um 11- 12  milljón árum en steingervingar úr gilinu geyma mikilvægar vísbendingar um það. Bæði steingervingar og surtarbrandur eru til sýnis á sýningunni auk þess sem mikilvægi þess að vernda fundarstaði steingervinga er undirstrikað.

""Sagði ráðherra vonast til að sýningin yrði til þess að styrkja byggð á svæðinu og myndi stuðla að heimsóknum gesta til að skoða þá sögu sem surtarbrandurinn varðveitir. „Það er trú mín að með aukinni fræðslu og leiðbeiningum takist okkur að vernda betur þær gersemar sem steingervingaflóran er – fyrir okkur og komandi kynslóðir og gefi vísindamönnum í dag og í framtíðinni tækifæri til rannsókna á jarðsögu landsins.“

 Mikið magn af steingervingum hafa verið fjarlægðir úr Surtarbrandsgili í gegnum árin og er svæðið á rauðum lista Umhverfisstofnunar. Nú hefur tekist að koma í veg fyrir það að mestu með því að auka landvörslu, setja upp hlið og skilti ásamt því að vera með skipulagðar fræðslugöngur í gilið með landverði fimm sinnum í viku yfir sumartímann.
Hönnuður sýningarinnar er Gunnlaugur Björn Jónsson arkitekt en Hákon Ásgeirsson sérfræðingur Umhverfisstofnunar sá um heimildaröflun og textagerð. Friðgeir Grímsson veitti leyfi fyrir notkun heimilda og mynda úr bók sinni „Late Cainozoic Floras of Iceland“.
Sýningin verður í gamla prestbústaðnum á Brjánslæk sem var byggt árið 1912 og ábúendur á staðnum hafa gert upp en þeir ætla að opna kaffihús í húsinu næsta sumar.

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

12 vilja í forystu fyrir Framsókn í Reykjavík

Deila grein

12/08/2016

12 vilja í forystu fyrir Framsókn í Reykjavík

Lilja Dögg Alfreðsdóttir03Tólf bjóða sig fram á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur en framboðsfrestur rann út á hádegi í dag.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sækist ein eftir efsta sætinu í Reykjavíkurkjördæmi suður en í Reykjavíkurkjördæmi norður sækjast þeir Karl Garðarsson alþingismaður, Þorsteinn Sæmundsson alþingismaður og Haukur Logi Karlsson lögfræðingur allir eftir efsta sætinu.
Þá sækist Lárus Sigurður Lárusson héraðsdómslögmaður eftir 2. sætinu í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Aðrir sem sækjast eftir 2.-5. sæti eru: Alex Björn B. Stefánsson háskólanemi, Ásgerður Jóna Flosadóttir MBA og BA í stjórnmála- og fjölmiðlafræði, Björn Ívar Björnsson háskólanemi, Gissur Guðmundsson matreiðslumaður, Gunnar Kristinn Þórðarson stjórnsýslufræðingur, Ingvar Mar Jónsson flugstjóri og varaborgarfulltrúi og Sævar Þór Jónsson héraðsdómslögmaður.
Kosið verður um fimm efstu sætin á tvöföldu kjördæmisþingi laugardaginn 27. ágúst. Kjör­stjórn yf­ir­fer nú lög­mæti fram­boða, regl­ur um kynja­kvóta og annað fyr­ir þingið.
At­hygli er vak­in á að kosið er um hvert sæti fyr­ir sig og byrjað á efstu sæt­un­um. Eft­ir hverja um­ferð hafa frambjóðend­ur kost á að bjóða sig fram í sæti neðar á list­an­um nái þeir ekki kjöri í sætið sem þeir sækj­ast eft­ir.
 

Categories
Fréttir

Ofanflóðavarnargarður vígður á Bíldudal

Deila grein

12/08/2016

Ofanflóðavarnargarður vígður á Bíldudal

sigrunmagnusdottir-vefmyndSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnaði formlega snjóflóðamannvirki við Búðargil á Bíldudal í gær.  Þar með er lokið fyrsta áfanga ofanflóðavarna á Bíldudal.
Hættusvæði vegna ofanflóða nær til nokkuð stórs hluta byggðarinnar á Bíldudal.  Enn er ólokið framkvæmdum við varnir við Stekkjargil eða Gilsbakkagil og undir svokölluðum Milligiljum. Þar er unnið að endurskoðun á fyrirkomulagi fyrirhugaðra varna og stefnt að því að þeirri vinnu verði lokið í haustbyrjun. Í framhaldinu verða tillögur kynntar bæjaryfirvöldum og íbúum.
Í ræðu sinni fagnaði ráðherra því að með gerð varnargarðsins hafi öryggi bæjarbúa á Bíldudal gagnvart ofanflóðum verið aukið. Hún sagðist vona að íbúar myndu njóta útivistar á svæðinu en strax í undirbúningi verksins hafi verið lögð áhersla á útlit mannvirkisins, uppgræðslu og gerð göngustíga þannig að framkvæmdirnar féllu sem best að umhverfinu og stuðluðu um leið að bættri aðstöðu til útivistar. Þá sagði ráðherra sérstaklega ánægjulegt að vígja ofanflóðamannvirki á Bíldudal, þar sem hún hafi hafið sinn pólítíska feril í sveitarstjórn fyrir tæpri hálfri öld.

""

Vígsluathöfnin fór fram við varnargarðinn þar sem komið hefur verið fyrir upplýsingaskilti um mannvirkið.  Auk ráðherra ávarpaði Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, vígslugesti.
Að lokinni vígslu varnargarðsins bauð Vesturbyggð til kaffisamsætis.

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Mikilvægt er að rödd kvenna heyrist

Deila grein

11/08/2016

Mikilvægt er að rödd kvenna heyrist

logo-lfk-gluggiLandssamband framsóknarkvenna (LFK) vill hvetja konur til þess að gefa kost á sér á lista fyrir Framsókn í komandi kosningum. Mikilvægt er að rödd kvenna heyrist ásamt því að konur eru afar mikilvægar fyrirmyndir. Framsókn hefur verið leiðandi í kynjajafnrétti og við viljum halda því áfram þar sem sýnileiki kvenna eykur líkur á að gildi og viðhorf beggja kynja gefi farsælli sókn til framtíðar.
Einnig vill LFK vekja athygli á að í grein 15.8 í lögum flokksins segir: „Við skipan í trúnaðar- og ábyrgðarstöður innan flokksins sem og við val á framboðslista hans skal hlutur hvors kyns ekki vera lægri en 40% nema þegar gagnsæjar og augljósar ástæður eru því til fyrirstöðu. Jafnréttisnefnd og LFK skulu eftir þörfum vera til ráðgjafar um að ná markmiði þessu fram.“

Categories
Greinar

Framsókn og verðtryggingin

Deila grein

10/08/2016

Framsókn og verðtryggingin

Elsa-Lara-mynd01-vefurGunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraFramsóknarflokkurinn hefur verið skýr í afstöðu sinni til verðtryggingar, að hana beri að afnema af neytendalánum.  Öll sáum við hversu mikil áhrif verðtryggingarinnar voru í hruninu. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar varði hag sparifjáreigenda en gætti ekki að þeim sem fjárfest höfðu í eignum, en fasteign er sú sparnaðarleið sem flestir kjósa fyrir verðtryggt lánsfé. Flestir þekkja framhaldið.

Í fréttum undanfarið hefur heyrst að draga skuli úr vægi verðtryggingar og að ekki sé hægt að afnema verðtrygginguna með einu pennastriki. Það þurfi að gera í skrefum. Þess vegna er mikilvægt að leggja fram trúverðuga og tímasetta áætlun um hvert skref sem taka skal á og hvaða leiðir unnt er að fara í þeim efnum. Það þarf að ganga hratt og vel fyrir sig.

Nú er unnið að tillögum sem eiga að draga úr vægi verðtryggingar. Þær tillögur hafa eingöngu verið gróflega kynntar fyrir þingflokki Framsóknar. Þessar tillögur ná aðeins til ákveðins hóps og efumst við ekki um að það verði til mikilla bóta fyrir þann hóp. En við, ásamt fleirum höfum sett fyrirvara við þau drög og er ástæðan sú að við sjáum ekki hvernig koma eigi á móts við þá tugþúsundir sem nú þegar eru með verðtryggð lán.

Endanlegar tillögur hafa ekki verið kynntar í ríkisstjórn né þingflokki Framsóknarmanna. Ef að þessar tillögur eru „góðar“ þá er ekki útilokað að um þær náist sátt. Mikilvægt er þó að um leið séu næstu skref kynnt að fullu afnámi verðtryggingar af neytendalánum.

Ýmsar hugmyndir hafa verið settar fram um hvernig „draga megi úr vægi verðtryggingar“ þannig að slíkt lánsform verði að minnsta kosti ekki í boði af húsnæðislánum. Þær hugmyndir sem settar hafa verið fram eru m.a. að

  • setja þak á verðtryggingu þannig að lántaki og lánveitandi skipti með sér áhættu. Þannig að ef verðbólgan fer yfir ákveðna prósentu þá taki lánveitandi á sig áhættuna umfram það.
  • að gera breytingar á útreikningi verðbólgu og verðtryggingar þannig að framvegis verði notuð samræmd vísitala neysluverðs (SVN) í stað vísitölu neysluverðs (VNV). Þannig væri húsnæðisþáttur tekinn út úr vísitölunni. Þingmál þessa efnis hefur verið lagt fram af þingmönnum Framsóknarflokksins en ekki fengið afgreiðslu: https://www.althingi.is/altext/145/s/1069.html 
  • að setja takmarkanir á fjölda þeirra verðtryggðu lána sem lánastofnanir geta átt. En það er nú svo að verðtryggðu lánasöfn/eignasöfn bankanna aukast verulega þegar verðbólga fer af stað. Það verður eignatilfærsla frá heimilum landsins til fjármálastofnanna. Það verður að stöðva.
  • að breyta útreikningi verðtryggðra lána þannig að breytingar á vísitölu reiknist á og greiðist af hverjum gjalddaga fyrir sig en ekki höfuðstól. Þannig komum við í veg fyrir þau snjóboltaáhrif sem verðtryggingin hefur á lánasöfn.

Þegar þetta er ritað höfum við ekki heyrt hvort þessar hugmyndir eða aðrar hafi verið skoðaðar. Það er nauðsynlegt að skoða allar hugmyndir um að „minnka enn frekar vægi verðtryggingar“ ef það er ekki meirihluti fyrir því í þinginu að afnema verðtryggingu með öllu.

Við höldum áfram að tala fyrir því að afnema beri verðtryggingu af neytendalánum. Það er ekkert sanngjarnt við það að lántakendur, það eru heimili landsins, beri ein þá áhættu sem felast í verðtryggðu lánaformi.

Elsa Lára Arnardóttir og Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist á www.visir.is 9. ágúst 2016.

Categories
Greinar

Hvenær er maður nógu gamall?

Deila grein

09/08/2016

Hvenær er maður nógu gamall?

Róbert Smári GunnarssonMér líður stundum sem 16 ára ungum manni einsog litið sé niður til mín þegar ég tjái skoðanir mínar opinberlega. Eitt sinn var sagt við mig að ég ætti ekkert að vera tjá mig um hluti sem ég hefði ekkert vit á, sem dæmi.

Ég hef gífurlegan áhuga á þjóðfélagsmálum og dreymir um að taka þátt í pólitískri vinnu í framtíðinni. „En hvenær ætti ég að þora því?“ er spurning sem veltur án efa á mörgu ungu fólki, og ég velti fyrir mér áður en ég sendi þessa grein.

Hvað þarf maður að hafa til að geta farið út í pólitík, eða bara til að vera tekin sjálfsagður í umræðu um pólitík? Þarf ég að vera háskólagenginn, búinn að vera á vinnumarkaði í áratugi, kominn með maka og börn?

Eftir að umræðan átti sér stað meðal fjölda einstaklinga á samfélagsmiðlum þegar Gauti Geirsson var ráðinn sem aðstoðarmaður ráðherra, veltir maður þessum spurningum fyrir sér sem og þegar Jóhanna María Sigmundsdóttir settist á þing, þau voru tætt í sig meðal eldra fólks og sögð vera börn.

Ég lít á þetta unga fólk sem ákveðna hvatningu, hvatningu til ungs fólks að láta í sér heyra, koma sínu á framfæri og láta gott af sér leiða. Þegar einhver nær svona langt og fær gott tækifæri hjá stjórnvöldum er það virðingavert og mikið fagnaðarefni, og sýnir traust stjórnvalda til ungs fólks-, og vilja til að gefa ungu fólki tækifæri, en samt ná neikvæðu raddirnar of oft að verða háværastar.

Getum við ekki breytt þessu þannig að ungt fólk verði tekið sem sjálfsögðum hlut í umræðunni líkt og þeir sem eldri eru?

Það eiga allir sama rétt til að tjá sig, óháð aldri, búsetu, uppruna, efnahag og öðru.

Róbert Smári Gunnarsson

Greinarhöfundur er áhugamaður um pólitík og stjórnarmeðlimur í stjórn SUF

Categories
Greinar

Hinsegin í útlöndum

Deila grein

06/08/2016

Hinsegin í útlöndum

Lilja Dögg Alfreðsdóttir03Á morgun göngum við til gleði. Ísland hefur um árabil verið í hópi forysturíkja hvað varðar virðingu fyrir mannréttindum hinsegin fólks.

Árangursrík barátta gegn hvers konar fordómum og mismunun á grundvelli kynhneigðar og kyngervis hefur aukið fjölbreytileika í þjóðfélaginu.

Víða um heim er það þó svo að hinsegin fólk er ofsótt og nýtur ekki grundvallarmannréttinda. Í sumum ríkjum er samkynhneigð álitin glæpur og stjórnvöld hika ekki við að skerða frelsi og réttindi hinsegin fólks. Í fjölmörgum ríkjum hafa lagalegar og samfélagslegar breytingar átt sér stað að undanförnu sem bætt hafa stöðu hinsegin fólks en hatursglæpir á borð við nýlega árás í Orlando sýna að víða er mikið verk óunnið.

Íslensk stjórnvöld beita sér fyrir mannréttindum hinsegin fólks í tvíhliða samskiptum við önnur lönd og á vettvangi alþjóðastofnana. Stundum er á brattann að sækja en í góðu samstarfi við Norðurlönd og aðra má finna leiðir til þess að knýja fram úrbætur. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur Ísland gagnrýnt mannréttindabrot og bent á skuldbindingar ríkja til að vernda og virða mannréttindi allra. Þá eru réttarbætur hinsegin fólks ávallt á dagskrá í samskiptum við stjórnvöld ríkja þar sem úrbóta er þörf.

Glöggt er gests augað og með alþjóðlegu samstarfi gefst einnig kostur á úrbótum heima fyrir. Þannig veitir ný skýrsla stjórnvalda til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna góða yfirsýn um stöðu mála hérlendis og þann árangur sem náðst hefur, en einnig aðhald þar sem gera má betur. Á haustmánuðum munu stjórnvöld svo njóta liðsinnis Mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE til að efla þekkingu og störf gegn hatursglæpum í íslensku þjóðfélagi.

Saman viljum við stuðla að því að réttur milljóna hinsegin fólks verði virtur í hvívetna og mannlíf í sinni fjölbreyttustu mynd fái blómstrað.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. ágúst 2016.

Categories
Greinar

Landið allt í byggð!

Deila grein

28/07/2016

Landið allt í byggð!

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraEinn af þeim málaflokkum sem ég er að takast á við þessa dagana eru byggðamál. Þrátt fyrir góðan vilja hefur ekki tekist með fullnægjandi hætti að sporna við þeim raunveruleika að sumar byggðir í landinu þurfi stanslaust að standa í baráttu við að verja sinn hlut og berjast gegn því að þjónusta minnki og að fólki fækki.

Skattkerfið
Þessu þarf að breyta. Við Íslendingar erum hinsvegar ekki eina þjóðin sem glímir við þennan vanda. Um allan heim hefur þessi þróun átt sér stað og því ekki úr vegi að líta á hvaða úrræði hafa gagnast vel þar.

Í Noregi, Danmörku og Svíþjóð hefur skattkerfinu verið beitt til þess að styrkja byggðir og skapa þannig jákvæða hvata fyrir fólk að setjast að á dreifbýlum svæðum og hefur árangurinn af þessum aðgerðum verið góður. Það er okkur lífsnauðsynlegt að hringinn í kringum landið sé blómleg byggð og það er ekki bara tilfinning heldur einnig þjóðhagslega mikilvæg aðgerð.

Í ljósi þess hef ég því sett af stað vinnu sem miðar að því að skoða hvernig beita megi skattkerfinu með það að augnarmiði að styrkja byggðir landsins. Byggðastofnun leiðir þá vinnu.

Þetta er í takt við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkana sem innihélt sérstakan kafla um byggðamál og þar er lögð rík áhersla á að ná árangri í byggðamálum.

Opinber störf
Á seinustu árum hefur orðið mikil þróun er varðar möguleika til þess að störf geti verið án staðsetningar þökk sé tækniframförum og breyttum viðhorfum. Þetta gefur opinberum stofnunum svigrúm til þess að dreifa sínum starfsmönnum um landið þar sem starfsmenn geta valið sér sína starfsstöð og hafa nokkrar stofnanir gert það með góðum árangri. Það er ekkert lögmál að opinber störf skuli geirnegld á höfuðborgarsvæðið. Aðalmarkmið ríkisins hlýtur þó alltaf að vera að tryggja góða innviði svo mismunandi svæði á landinu séu samkeppnishæf og fjölbreytt atvinnulíf geti dafnað.

Byggðaáætlun
Um áramótin hófst svo vinna við að móta nýja byggðaáætlun til næstu sjö ára. Unnið er eftir nýjum lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir sem samþykkt voru á Alþingi sl. sumar. Við gerð byggðaáætlunar er haft viðamikið samráð við ráðuneyti, sveitarfélög og landshlutasamtök sveitarfélaga. Þar að auki getur almenningur sent inn tillögur á heimasíðu Byggðastofnunar. Með þessu næst yfirsýn yfir aðgerðir í byggðamálum þvert á stjórnsýsluna og áhersluatriði heimamanna fá að njóta sín.

Eitt af þeim atriðum sem við leggjum áherslu á er að íbúar landsins alls njóti sömu tækifæra hvað varðar aðgengi að opinberri grunnþjónustu. Þar er um að ræða helstu svið opinberrar þjónustu svo sem heilbrigðisþjónustu, menntun, samgöngur, fjarskipti, löggæslu og menningu.

Að lokum
Það er okkur lífsnauðsynlegt sem þjóð að standa saman að uppbyggingu og framförum. Við verðum því að sameinast um að ráðast í aðgerðir sem tryggja að íbúar um land allt fái notið þeirrar þjónustu sem kröfur eru gerðar um í nútímasamfélagi.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist á www.feykir.is 25. júní 2016.

Categories
Fréttir

Ertu með tillögu í Byggðaáætlun 2017-2023

Deila grein

27/07/2016

Ertu með tillögu í Byggðaáætlun 2017-2023

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraMarkviss vinna við nýja byggðaáætlun sem mun gilda fyrir árin 2017-2023 hefur staðið yfir undanfarna mánuði og hefur mikil áhersla verið lögð á samráð og samtal við sveitarfélög og einstaklinga um allt land. Nú gefst öllum kostur á að koma með tillögur í byggðaáætlunina.

Tillögurnar sem berast verða lagðar fyrir verkefnisstjórn byggðaáætlunar og tekur hún afstöðu til þeirra.

Á heimasíðu Byggðastofnunar er jafnframt að finna upplýsingar um áætlunarvinnuna, fyrri byggðaáætlanir og sóknaráætlanir landshluta.

Í haust verður haldið Byggðaþing þar sem drög að nýrri byggðaáætlun verða rædd. Tillaga að nýrri byggðaáætlun á að liggja fyrir í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu 1. nóvember. Ráðherra byggðamála leggur þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun 2017-2023 fyrir Alþingi.

Heimild: www.atvinnuvegaraduneyti.is

Categories
Greinar

Það sem ekki má bíða

Deila grein

26/07/2016

Það sem ekki má bíða

Sigmundur-davíðÞað er sama til hvaða mælikvarða er litið. Á þremur árum hefur ríkisstjórn Íslands náð árangri sem er einstakur í samanburði við önnur þróuð ríki. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér.

Ég hef áður bent á hversu mikilvægt er að halda því til haga að þegar viðraðar voru hugmyndir um að flýta kosningum var það háð því að fyrst tækist að klára mikilvæg verkefni ríkisstjórnarinnar.

Áætlunin

Þegar ríkisstjórnin var mynduð gerðum við samning til fjögurra ára. Eins og ég hef áður lýst unnum við eftir heildaráætlun um hvernig við gætum náð markmiðum okkar á þessum fjórum árum. Áætlunin, fjögurra ára planið, skiptist í megindráttum í tvennt. Fyrri áfanginn snerist um hvernig taka ætti á þeim stóra vanda sem beið okkar, seinni hlutinn um hvernig standa ætti að sókninni og uppbyggingunni sem svo ætti, og þyrfti, að taka við. Fyrri hlutinn snerist um að takast á við vandamál, seinni hlutinn um að nýta tækifæri.

Til að leysa vandamálin þurfti að mínu mati að blanda saman erfiðum en margreyndum aðgerðum annars vegar og óhefðbundnum og róttækum aðgerðum hins vegar. Það þurfti til dæmis einbeittan vilja til að hætta skuldasöfnun og reka ríkissjóð með afgangi öll ár kjörtímabilsins samhliða því að innleiða hvata til fjárfestingar og verðmætasköpunar. En ríkisstjórnin þurfti líka að vera reiðubúin til að ráðast í aðgerðir sem engin stjórnvöld nokkurs staðar höfðu nokkurn tíma reynt, hluti á borð við almenna skuldaleiðréttingu og aðgerðir til að fá kröfuhafa bankanna til að afsala sér hundruðum milljarða króna samhliða afnámi fjármagnshafta – hluti sem sagðir voru óraunhæfur popúlismi, skýjaborgir, og ólögmæt eignaupptaka svo nefnd séu dæmi um hófstilltari hluta gagnrýninnar sem við kvað.

Árangurinn

Þrátt fyrir þetta var ég bjartsýnn. Ég hafði trú á verkefninu. Ég var sannfærður um að þetta væri allt hægt og efaðist ekki um tækifæri landsins. En þrátt fyrir að ég hafi verið bjartsýnn við upphaf vinnunnar gekk hún betur en jafnvel ég þorði að vona.

Það gerðist á hinn bóginn ekki af sjálfu sér, síður en svo. Lagabreytingar til að örva verðmætasköpun og aðhaldssöm fjárlög kölluðu á stöðuga og oft á tíðum harða gagnrýni síðustu fjóra mánuði hvers árs. Það var þó ekkert miðað við stríðið sem leiddi af áformum um að láta vogunarsjóði og aðra kröfuhafa föllnu bankanna borga fyrir losun gjaldeyrishafta og endurreisn efnahagslífsins, eins og ég mun greina betur frá síðar. Þeir sem fylgjast með stjórnmálum muna þó væntanlega eftir dæmum um það sem á gekk í þeim slag, slag þar sem vogunarsjóðirnir vörðu á skömmum tíma 20 milljörðum króna í hagsmunagæslu.

Afrakstur vinnunnar birtist í vel yfir 1.000 milljarða króna viðsnúningi á stöðu ríkisins, líklega nær 1.500 milljörðum. Breytingin fyrir samfélagið í heild er enn meiri. Enn hefur ekki verið bent á annan eins efnahagslegan viðsnúning í seinni tíma hagsögu. Lee Buchheit kallaði enda þann þátt sem sneri að losun hafta og fjárútlátum kröfuhafa einstakan í fjármálasögu heimsins.

Framhaldið

Við erum því einstaklega vel í stakk búin til að framfylgja seinni hluta áætlunarinnar, betur en nokkur hefði trúað, og það verðum við að gera. Þótt lengst af hafi gengið vel að framfylgja stjórnarsáttmálanum eru nokkur mikilvæg verkefni ókláruð. Það eru verkefni sem teljast til seinni hluta fjögurra ára plansins. Nú eru forsendur til að klára þau öll og ótækt að gera það ekki.

Sum þessara verkefna snúast um aðkallandi framhald vinnu við það sem kalla mætti endurbætur á reglunum sem samfélagið starfar eftir. Önnur snúa að fjárfestingu og því að nýta hinn mikla efnahagslega árangur til uppbyggingar.

Leiðrétting fyrir eldri borgara

Um síðustu áramót gáfum við fyrirheit um að áfram yrði lögð áhersla á að bæta kjör eldri borgara og tryggja að efnahagslegur árangur skilaði sér í bættum lífskjörum lífeyrisþega. Samhliða því stóð til að endurskoða örorkubætur og raunar bótakerfið í heild. Pétursnefndin svo kallaða (kennd við Pétur H. Blöndal og síðar undir forystu Þorsteins Sæmundssonar) hefur skilað af sér tillögum um mikilvægar úrbætur í lífeyriskerfinu. Það er óhugsandi fyrir ríkisstjórn sem náð hefur þeim árangri sem við höfum skilað á síðast liðnum þremur árum að vanrækja að skila þeim árangri áfram til fólksins sem byggði upp samfélagið sem við njótum nú góðs af.

Búsetujafnrétti

Frá upphafi hef ég lagt áherslu á að eitt af mikilvægustu verkefnum þessarar ríkisstjórnar væri að vinna að umfangsmiklum úrbótum á því sem nefna má búsetujafnrétti. Reyndar snýst það um meira en jafnrétti landsmanna óháð búsetu. Það snýst um að tryggja að árangur Íslendinga nýtist landinu öllu svo að landið allt nýtist við að ná árangri fyrir Íslendinga.

Í þjóðhátíðardagsræðu var ég afdráttarlaus um að úrbætur í þessu efni væru forgangsmál á seinni hluta kjörtímabilsins. Ég útskýrði að við stæðum á þeim tímamótum að ekki væri forsvaranlegt að bíða lengur með að vinna að bættum fjarskiptum um allt land, einkum ljósleiðaravæðingu, samgöngubótum, endurreisn heilbrigðis- og menntakerfisins á landsbyggðinni auk þess að tryggja forsendur fyrir eðlilegri atvinnusköpun. Hið síðastnefnda snýst um að stjórnvöld skapi þær aðstæður að ný störf verði til um allt land, bæði hjá hinu opinbera og með einkarekstri.

Þessi ríkisstjórn verður að skila áþreifanlegum árangri fyrir byggðir landsins. Klári hún það ekki mun önnur ríkisstjórn ekki gera það. Skaðinn af því að vanrækja stærstan hluta landsins yrði mikill fyrir landið allt.

Aðrir innviðir

Óþarfi er að telja upp þá fjölmörgu mikilvægu innviði landsins sem nauðsynlegt er að halda áfram að bæta nú þegar við höfum efni á því og tækifæri til þess. Á mörgum sviðum höfum við þó ekki aðeins tækifæri til að setja meiri peninga í verkefnin, við getum líka leyft okkur að hugsa upp á nýtt með hvaða hætti við stöndum að uppbyggingunni. Það á ekki hvað síst við á sviði heilbrigðismála.

Fjármálakerfið og verðtrygging

Loks nefni ég mikilvægi þess að ríkisstjórnin hverfi ekki frá því gríðarmikilvæga verkefni að laga fjármálakerfið á Íslandi og losa samfélagið úr viðjum verðtryggingar. Samhliða því þarf að gera ungu fólki auðveldara og ódýrara að taka óverðtryggð lán og eignast húsnæði. Allt er þetta hægt enda hefur það verið í undirbúningi í þrjú ár. Sá undirbúningur fólst í því að búa til forsendurnar (ríkið hefur t.a.m. yfirtekið fjármálakerfið að mestu leyti) og svo að hanna bestu leiðina. Það er allt til reiðu. Fjögurra ára planið hefur gengið upp til þessa. Nú er viljinn allt sem þarf til að klára það.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. júlí 2016.