Categories
Fréttir

Stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi

Deila grein

31/01/2024

Stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi. Framleiðsla rafeldsneytis, sem gæti verið vetni, ammóníak, metanól eða metan yrði mikilvægt framlag í baráttu okkar gegn hlýnun loftslags og til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Mælti hann fyrir tillögunni í vikunni.

TILLÖGUGREININ HLJÓÐAR SVO:
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að taka til frumathugunar stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi. Litið verði við þessa frumathugun til starfsemi Equinor í Noregi, fyrrum Statoil.“

„Eftirspurn eftir grænu vetni sem framleitt hefur verið með rafgreiningu vatns og endurnýjanlegri orku, samhliða markmiðum í loftslagsmálum, fer einungis vaxandi á komandi árum,“ sagði Stefán Vagn.

Fór hann yfir að Íslendingum væri mikilvægt að geta orðið sjálfbærir er komi að öflun rafeldsneytis, ekki síst nú er horft er á alvarlegt ástand heimsmála.

Sjálfbærni í orkuöflun er þjóðaröryggismál

„Þjóðhagslegir hagsmunir eru fólgnir í því að framleiða innlenda orkugjafa til notkunar í orkuskiptum Íslendinga. Framtíðartækifæri eru mikil þegar kemur að framleiðslu á rafeldsneyti og hún styður við markmið okkar um orkusjálfstæði Íslands,“ sagði Stefán Vagn.

„Ásamt því að framleiða endurnýjanlega orkugjafa til að fullnægja þörfum innan lands liggja einnig gríðarleg tækifæri í að hefja útflutning á rafeldsneyti.

Framleiðsla á rafeldsneyti er kostnaðarsöm aðgerð. Þótt framleiðsla á rafeldsneyti og sala sé hlutfallslega lítil nú er áhugi fjárfesta mikill. Ákveðin tækifæri felast í því að fjármagna framleiðsluna þegar markaðir eru orðnir tryggir. Á heimsvísu er gert ráð fyrir því að kostnaðarliðir fari lækkandi á næstu árum. Eitt af tækifærum Íslands við framleiðslu rafeldsneytis er að nýta mögulega árstíðabundna umframorku og hámarka arðsemi.

Með stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu sem yrði í meirihlutaeigu ríkisins er tryggt að stærstur hluti ábata af framleiðslunni renni til þjóðarinnar. Ef horft er til Noregs og stofnunar ríkisolíufélagsins Statoil árið 1972 ætti öllum að vera ljós ábati norska ríkisins af þeirri ákvörðun. Norski olíusjóðurinn er einn hinn stærsti í heimi og hefur gerbreytt stöðu Norðmanna við uppbyggingu innviða og þjónustu við íbúa um allan Noreg.

Íslendingar eru í kjörstöðu til að nýta auðlindir sínar til framleiðslu rafeldsneytis, bæði fyrir innanlandsframleiðslu og mögulega til útflutnings, og styrkja þannig tekjustofna ríkissjóðs.“

„Við á Íslandi erum í sterkri stöðu til orkuskipta. Þar af leiðandi þurfum við að gæta þess að tækifærin sem liggja fyrir í þessum málaflokki renni okkur ekki úr greipum. Tæknin er til staðar og okkur ber að nýta hana í þágu þjóðarinnar,“ sagði Stefán Vagn að lokum.


Categories
Fréttir

Rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs

Deila grein

31/01/2024

Rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs. Mælti hún fyrir tillögunni í vikunni en tillagan hefur að markmiði að stuðla að öflun gagna sem nýtast við greiningu á áhættuhópum, í forvarnastarfi og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða með það að markmiði að koma í veg fyrir sjálfsvígstilraunir og sjálfsvíg.

TILLÖGUGREININ HLJÓÐAR SVO:
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem rannsaki afturvirkt mögulegt orsakaferli, áföll, lýðfræðilegar breytur, komur/innlagnir á heilbrigðisstofnanir og breytingar í lífi einstaklinga í undanfara sjálfsvígs. Starfshópurinn skili skýrslu með tölfræði og tillögum að aðgerðum, bæði fyrirbyggjandi og í forvarnarstarfi til framtíðar, eigi síðar en 1. maí 2024.“

„Það er skoðun flutningsmanna að að lokinni gagnaöflun verði tryggt að hægt sé að skoða reglulega og á aðgengilegan hátt breyturnar sem tilteknar eru í tillögugreininni, þannig megi meta árangur aðgerða. Þá verði starfshópnum að meta hvort setja eigi á laggirnar hóp innan stjórnsýslunnar sem tæki að sér þetta verkefni til framtíðar. Tillaga er lögð fram í kjölfar samtala við heilbrigðisstarfsfólk, m.a. við verkefnastjóra sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis,“ sagði Ingibjörg.

„Sjálfsvíg eru ekki rannsökuð afturvirkt þar sem undanfari þeirra er skoðaður í þaula í leit að þáttum sem komu einstaklingnum í það hugarástand sem hann var í við andlátið. Flutningsmenn þingsályktunartillögu þessarar telja nauðsynlegt að slík rannsókn fari fram með þeim hætti að fara afturvirkt yfir lýðfræðilegar breytur, aðstæður, atburði og möguleg áföll sem einstaklingurinn upplifði í undanfara sjálfsvígs. Þá er m.a. átt við brottfall úr skóla, atvinnumissi eða langvarandi atvinnuleysi, sambandsslit, makamissi, ofbeldi, neyslu vímugjafa og hvað annað sem getur haft áhrif. Með slíkri rannsókn er hægt að afla hagnýtra gagna sem geta skipt sköpum í áframhaldandi vinnu samfélagsins gegn sjálfsvígum, bæði í forvarnavinnu og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða. Gögnin myndu einnig nýtast við það mikilvæga verkefni að greina áhættuhópa í samfélaginu, þ.e. þá hópa sem líklegri eru til að upplifa sjálfsvígshugsanir, gera sjálfsvígstilraunir eða deyja í sjálfsvígi, umfram hefðbundnar breytur á borð við kyn, aldur og búsetu. Nú eru slík gögn ekki til staðar,“ segir í greinargerðinni.


Categories
Fréttir

Þjóðinni verði treyst hvort frambjóðandi búi yfir „lipurð og mannþekkingu“

Deila grein

31/01/2024

Þjóðinni verði treyst hvort frambjóðandi búi yfir „lipurð og mannþekkingu“

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnaskrá um kjörgengi til forseta Íslands. Hún leggur til að samþykkt verði að fella á brott 35 ára aldurstakmarkið um kjörgengi til forseta. Vill hún þannig undirstrika að aldur eigi ekki vera hæfniviðmið og eins eigi það ekki að liggja til grundvallar hvort einstaklingur hafi öðlast ákveðna reynslu eða hæfni.

Frumvarpsgreinin hljóða svo:

4. gr. stjórnarskrárinnar orðast svo:
Kjörgengur til forseta er hver maður, sem fullnægir skilyrðum kosningarréttar til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu
.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a.: „Krafist er mun hærri lágmarksaldurs frambjóðenda til embættis forseta lýðveldisins en almennt er gert í íslenskri löggjöf. Í athugasemdum við stjórnarskrárfrumvarpið frá árinu 1944 kemur fram að „ekki þykir hlýða, að yngri maður en 35 ára geti orðið forseti“ þar sem forseti þarf að búa yfir, auk margs annars, „lipurð og mannþekkingu, sem ekki fæst nema með nokkrum aldri“. Vegna þessarar afstöðu löggjafans á þeim tíma var ákveðið að festa í stjórnarskrána það kjörgengisskilyrði að frambjóðandi til forseta skyldi hafa náð 35 ára aldri á kjördag. Á þessu ári verða liðin 80 ár frá staðfestingu stjórnarskrárinnar, og þar með umræddu ákvæði, og tíðarandinn annar. Það þykir sjálfsagt að forseti lýðveldisins skuli hafa öðlast ákveðna lífsreynslu og mannþekkingu, sem vissulega öðlast almennt með aldrinum. Hins vegar hlýtur að teljast álitamál hvert aldurstakmarkið á að vera hvað þau atriði varðar.“

Síðan segir: „Almennt er talið að einstaklingur þurfi að hafa sýnt kjósendum fram á hæfni sína til að ná kjöri til embættis. Það á við hvort sem um er að ræða forsetakosningar, alþingiskosningar eða sveitarstjórnarkosningar. Í lýðræðissamfélagi fær þjóðin traust til að velja sér fulltrúa í embætti á vegum ríkisins. Ekki er gerð krafa um ákveðna menntun, ákveðna hæfileika eða ákveðna kunnáttu í slíkri kosningu, enda er gert ráð fyrir að kjósendur kynni sér frambjóðendur og taki upplýsta ákvörðun er þeir greiða atkvæði hverju sinni. Hins vegar virðist svo ekki vera í forsetakosningum þar sem sett er skilyrði um að forseti megi ekki vera yngri en 35 ára. Þó er ekki gerð sérstök krafa í lögum um að forsætisráðherra eða forseti Alþingis séu eldri en 18 ára, en þeir fara með forsetavald, ásamt forseta Hæstaréttar, í ákveðnum tilfellum, sbr. 8. gr. stjórnarskrárinnar.“

„Það er mat flutningsmanna að afnema eigi skilyrði um að forsetaefni skuli hafa náð 35 ára aldri á kjördag. Fjölmargir einstaklingar undir 35 ára aldri gætu hæglega staðist kröfur þjóðarinnar hvað embættið varðar og sinnt því vel. Rétt eins og þjóðinni er treyst til að ákveða hæfi frambjóðenda á grundvelli menntunar og fyrri starfa, þá eigi henni einnig að vera treystandi til að taka ákvörðun um hvort frambjóðandi búi yfir „lipurð og mannþekkingu“, sérstaklega í ljósi þess að upplýsingaflæði innan samfélagsins hefur batnað til muna frá samþykkt stjórnarskrárinnar, t.d. með tilkomu alnetsins. Fólk getur auðveldlega tekið upplýstar ákvarðanir og frambjóðendur hafa aukin tækifæri til að koma hæfi sínu, eiginleikum og reynslu til skila. Það að einstaklingur þurfi að vera orðinn 35 ára til að geta orðið forseti lýðveldisins er tímaskekkja og sýnir ákveðið vantraust gagnvart kjósendum til að velja hæfasta einstaklinginn í embættið.“

Categories
Fréttir

Hvert geta innflytjendur leitað til að fá sína menntun metna?

Deila grein

30/01/2024

Hvert geta innflytjendur leitað til að fá sína menntun metna?

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi mat á menntun innflytjenda og atvinnuþátttöku þeirra á Íslandi í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi. Félags- og vinnumarkaðsráðherra var til andsvara.

„Innflytjendur eru nú um 18% af heildarfjölda landsmanna og í mörgum samfélögum eru innflytjendur yfir 20% íbúa, það á t.d. við í Fjarðabyggð þar sem ég bý, og það eru dæmi um mun hærra hlutfall, hæst yfir 60% í Mýrdalshreppi og kringum 30% í nokkrum sveitarfélögum eins og Hornafirði, Tálknafirði og Reykjanesbæ,“ sagði Líneik Anna.

Innflytjendur voru um 23% af heildarfjölda starfandi á Íslandi á seinni hluta síðasta árs og er atvinnuþátttaka þeirra orðin mun meiri en í öðrum norrænum ríkjum. Þegar almenn atvinnuþátttaka á Íslandi er 82% sem þykir hátt í alþjóðlegum samanburði, er atvinnuþátttaka innflytjenda er þó enn meiri eða tæplega 87%.

„Innflytjendur sinna mikilvægum störfum, t.d. í fiskvinnslu eða iðnaði, ferðaþjónustu og í vaxandi mæli heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Margir innflytjendur sinna störfum þar sem ekki er gerð krafa um menntun og það oft þrátt fyrir að vera jafnvel með sérhæfða menntun sem mikil þörf er fyrir á íslenskum vinnumarkaði,“ sagði Líneik Anna.

„Að fjárfesta í fólki til framtíðar er eitt af leiðarljósum Framsóknar og þær áherslur endurspeglast í stjórnarsáttmála, m.a. þar sem segir: „Tryggja þarf að innflytjendur sem hér vilja búa og starfa fái tækifæri til aðlögunar og geti nýtt hæfileika sína, þekkingu og reynslu.“

Í því ljósi vil ég spyrja hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra: Hvert geta innflytjendur leitað til að fá sína menntun metna og hvernig fer mat á menntuninni fram? Ég spyr líka hvort og hvernig unnið er að því að tryggja aðgengi að mati á menntun. Gildir það sama t.d. um háskólamenntaða og iðnmenntaða?“

„Við erum ekki með eitt samræmt kerfi eða gátt sem viðkomandi innflytjandi getur leitað í“

Félags- og vinnumarkaðsráðherra benti á að OECD hafi verið fengið til að aðstoða við gerð fyrstu stefnu Íslands í málefnum innflytjenda. Í þeirra vinnu hefur komið fram að um 42% innflytjenda hér á landi inni af höndum störf sem krefjist ekki sérstakrar menntunar, þó svo að hlutfall innflytjenda sem hér búa og ekki hafa lokið sértækri menntun sé 17%. OECD segir einnig að menntunarstig innlendra og innflytjenda sé áþekkt og að ekki sé marktækur munur á menntunarstigi þeirra sem koma utan EES og innan EES.

„Mat á námi innflytjenda heyrir má segja undir þrjú ráðuneyti, þ.e. heilbrigðisráðuneytið hvað varðar starfsleyfi fyrir heilbrigðisstéttir; háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti varðandi lögvarin starfsréttindi iðngreina; og mennta- og barnamálaráðuneytið varðandi starfsleyfi fyrir leik-, grunn- og framhaldsskólakennara. Afleiðingarnar á sviði inngildingar koma þá að ráðuneytinu hjá mér og Vinnumálastofnun sem í sumum tilfellum getur í rauninni ekki fundið störf við hæfi fyrir fólk, þegar um er að ræða aðstoð við það, þar sem starfsréttindin eru ekki viðurkennd. Eitt af vandamálunum er það að við erum ekki með eitt samræmt kerfi eða gátt sem viðkomandi innflytjandi getur leitað í til að fá menntun sína metna. Þess vegna eru leiðirnar ólíkar milli greina, hvernig staðið er að því að meta þetta, óháð því undir hvaða ráðuneyti þau mál síðan að endingu heyra,“ sagði félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Categories
Fréttir Greinar

Orkumál í stóra samhenginu

Deila grein

29/01/2024

Orkumál í stóra samhenginu

Síðastliðinn þriðju­dag voru orku­mál lands­ins sér­stak­lega rædd á Alþingi. Umræðan fór fram fyr­ir til­stilli und­ir­ritaðrar og var um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra til andsvara. Ásamt okk­ur mættu full­trú­ar allra þing­flokka til að út­skýra af­stöðu sína varðandi orkuþörf lands­ins og orku­ör­yggi okk­ar til framtíðar. Umræðan var líf­leg og áhuga­verð og kom væg­ast sagt á óvart á köfl­um.

Er orku­skort­ur á Íslandi?

Þrátt fyr­ir að sér­fræðing­ar inn­an orkuiðnaðar­ins hafi lengi bent á aukna orkuþörf þjóðar­inn­ar og yf­ir­vof­andi orku­skort hér á landi þá eru greini­lega aðilar sem enn eru ekki sann­færðir um vand­ann.

Eft­ir­spurn eft­ir raf­orku hér á landi er orðin meiri en fram­boð og sam­fé­lagið er hvatt til þess að spara orku, hvort sem um er að ræða fyr­ir­tæki eða heim­ili. Æ oft­ar ger­ist það að fyr­ir­tæki neyðast til þess að brenna olíu til að halda dag­legri starf­semi sinni gang­andi í sam­ræmi við samn­inga vegna ótryggr­ar orku, sem mik­il­væg­ir eru til að full­nýta kerfið. Í þessu felst kostnaður fyr­ir okk­ur öll ásamt þeim nei­kvæðu um­hverf­isáhrif­um sem slík brennsla hef­ur í för með sér.

Heim­il­in í for­gangi

Í nú­ver­andi ástandi hef­ur rík­is­stjórn­in sett það í al­gjör­an for­gang að yf­ir­vof­andi orku­skort­ur hafi lít­il sem eng­in áhrif á heim­ili fólks né lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki.

Þingið hef­ur nú til meðferðar frum­varp um raf­orku­ör­yggi, en þar kem­ur fram að not­end­ur sem kaupa raf­orku til heim­il­is­nota, mik­il­væg­ir sam­fé­lags­innviðir og fyr­ir­tæki með færri en 50 starfs­menn og ár­sveltu eða efna­hags­reikn­ing sem er ekki yfir 1,5 millj­örðum kr. og hafa ekki samið sér­stak­lega um skerðan­lega notk­un skuli njóta for­gangs ef skerðing á raf­orku á sér stað. Miðað við ræðurn­ar í fram­an­greind­um umræðum býst ég ekki við öðru en að all­ir þing­menn, þvert á flokka, ýti á græna takk­ann þegar frum­varpið fer í at­kvæðagreiðslu.

Stöðnun at­vinnu­lífs­ins vegna skerðinga

Þó svo að heim­ili og lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki verði að mestu óhult ef til skömmt­un­ar á raf­orku kem­ur þá þurf­um við að horfa á stóru mynd­ina. Ef við öfl­um ekki meiri raf­orku og dreif­um henni á sem best­an máta þá mun það hafa tals­verð áhrif á at­vinnu­líf hér á landi. Stór­not­end­ur raf­orkunn­ar okk­ar bera þung­ann af skerðing­um á raf­orku. Um er að ræða þjóðhags­lega mik­il­væg fyr­ir­tæki sem skila sam­fé­lag­inu tals­verðum út­flutn­ings­tekj­um og það kom nokkuð á óvart að tals­menn sumra flokka á Alþingi hefðu tak­markaðar áhyggj­ur af því að slík­ar skerðing­ar eigi sér stað í rekstri þeirra, með til­heyr­andi áhrif­um á vöru þeirra og þjón­ustu.

Þegar öllu er á botn­inn hvolft þá verðum við að ákveða í hvernig sam­fé­lagi við vilj­um búa. Vilj­um við tak­marka orku fyr­ir stór­not­end­ur og þar með gera þá nauðbeygða til að nýta óhreina raf­orku­kosti í sín­um rekstri eða vilj­um við tryggja að stór og stönd­ug fyr­ir­tæki hafi nægj­an­lega orku fyr­ir hendi til að skapa út­flutn­ings­tekj­ur, sem skila sér til fram­kvæmda á mik­il­væg­um innviðum og í vel­ferð sam­fé­lags­ins? Hér er átt við öfl­ug fyr­ir­tæki sem flokk­ast sem stór­not­end­ur og bjóða upp á hald­bær­ar vör­ur og/​eða þjón­ustu. Hér þurf­um við að gera grein­ar­mun á milli slíkra fyr­ir­tækja og annarra stór­not­enda á borð við raf­mynta­gröft, en ekki setja alla stór­not­end­ur und­ir sama hatt.

Auk­in öfl­un í þágu um­hverf­is­sjón­ar­miða

Í umræðunni um orku­mál virða sum­ir áhyggj­ur um orku­skort að vett­ugi. Al­mennt er sagt að við eig­um nóg af hreinni raf­orku í dag og að auk­in eft­ir­spurn þýði ekki endi­lega að orku­skort­ur sé yf­ir­vof­andi.

Sú út­breidda skoðun að við eig­um nóg stenst ekki þegar um 40% af þeirri orku sem við not­um í dag til verðmæta­sköp­un­ar kem­ur í formi inn­fluttr­ar olíu líkt og Sig­urður Hann­es­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka iðnaðar­ins, seg­ir í viðtali við Morg­un­blaðið 24. janú­ar sl. Það get­ur varla tal­ist já­kvætt með til­heyr­andi um­hverf­isáhrif og mark­mið Íslands í loft­lags­mál­um til hliðsjón­ar. Það er um­hugs­un­ar­vert að höfuðáhersla er lögð á að fólk fari frek­ar á raf­magns­bíl­um og breyti dag­leg­um neyslu­venj­um þegar skerðing­ar verða fleiri og óhrein­ir orku­gjaf­ar eru notaðir í tals­verðu magni.

Niðurstaðan hlýt­ur að vera sú að auk­in virkj­un og fram­leiðsla á raf­orku ásamt betra dreifi­kerfi þjóni hags­mun­um okk­ar allra í stóra sam­heng­inu.

Ingibjörg Isaksen, þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

11,5 milljarðar komnir í loftið

Deila grein

29/01/2024

11,5 milljarðar komnir í loftið

Fyrr í mánuðinum fór í loftið við frá­bæra dóma fjórða serí­an af sjón­varpsþátt­un­um True Detecti­ve sem fram­leidd­ir eru af am­er­ísku sjón­varps­stöðinni HBO max, en stöðin er ein af dótt­ur­fyr­ir­tækj­um einn­ar stærstu afþrey­ing­ar­sam­steypu heims, Warner Bros Disco­very. Þar með op­in­beraðist ár­ang­ur þrot­lausr­ar vinnu hér á landi en þáttaröðin, með Jodie Foster í broddi fylk­ing­ar, var að lang­stærst­um hluta fram­leidd hér á landi af ís­lenska fram­leiðslu­fyr­ir­tæk­inu True North. Aðstand­end­ur verk­efn­is­ins hafa hlaðið Ísland og ís­lenska kvik­mynda­gerð miklu lofi í banda­rísk­um fjöl­miðlum.

Um er að ræða stærsta kvik­mynda- og sjón­varps­verk­efni sem ráðist hef­ur verið í hér á landi og um hreina er­lenda fjár­fest­ingu að ræða, en heild­ar­kostnaður verk­efn­is­ins nam um 11,5 millj­örðum króna. Að meðaltali voru um 600 manns að vinna að verk­efn­inu á degi hverj­um en á stærstu dög­un­um vor­um um 1.000 manns á setti. Í heild­ina fengu um 1.200 manns greitt fyr­ir aðkomu sína að verk­efn­inu og átti verk­efnið í viðskipt­um við 2.000 fyr­ir­tæki og ein­stak­linga á töku­tím­an­um, en töku­tíma­bilið varði í rúm­lega hálft ár og fóru tök­ur fram í kvik­mynda­ver­um í Reykja­vík ásamt úti­tök­um á Ak­ur­eyri, Kefla­vík, Vog­un­um, Dal­vík, við Stífl­is­dals­vatn og í Bláfjöll­um.

Stærst­ur hluti þeirra sem störfuðu beint við verk­efnið voru Íslend­ing­ar í hinum ýmsu störf­um. Má þarf nefna kvik­mynda­töku- og tækni­fólk ým­is­kon­ar, fram­leiðslu­stjóra, förðunar-, bún­inga- og leik­mynd­ar­sér­fræðinga, auka­leik­ara og svo lengi mætti áfram telja.

Það er mik­il viður­kenn­ing fyr­ir Ísland sem tökustað að fá verk­efni af þess­ari stærðargráðu hingað og er það ber­sýni­leg staðfest­ing þess að stefna stjórn­valda í mál­efn­um skap­andi greina virk­ar, en til að mynda hef­ur kvik­mynda­stefnu frá ár­inu 2020 verið hrint skipu­lega í fram­kvæmd með fjöl­mörg­um aðgerðum. Einni slíkri var hrint í fram­kvæmt árið 2022 sem fólst í að hlut­fall end­ur­greiðslu af fram­leiðslu­kostnaði í kvik­mynda­gerð sem til fell­ur hér á landi var hækkað úr 25% í 35% fyr­ir verk­efni sem upp­fylla ákveðin skil­yrði hvað varðar stærð, fjölda töku­daga og fjölda starfs­fólks. Árang­ur þeirra breyt­inga fór strax að skila sér líkt og of­an­greint verk­efni sann­ar.

Það er hins veg­ar mik­il­vægt að hafa hug­fast að grunn­ur­inn að hinum mikla ár­angri í kvik­mynda­gerð hér á landi er allt hið magnaða inn­lenda kvik­mynda­gerðarfólk sem hef­ur rutt braut­ina í gegn­um ára­tug­ina. Án þess væri Ísland lít­il­fjör­leg­ur tökustaður í dag, en hróður ís­lensks kvik­mynda­gerðarfólks fer víða enda er það þekkt fyr­ir framúrsk­ar­andi fag­mennsku, vinnu­semi, græn­ar áhersl­ur og lausnamiðað hug­ar­far. Ég mun halda áfram að beita mér af full­um krafti til að efla kvik­myndaiðnaðinn hér á landi í góðu sam­starfi við grein­ina. Það er til mik­ils að vinna að auka verðmæta­sköp­un í hinum skap­andi grein­um enn frek­ar og ég er þess full­viss að framtíðin sé björt á þeim vett­vangi. Ég óska öll­um þeim sem komu að verk­efn­inu True Detecti­ve til ham­ingju með áfang­ann og hvet ykk­ur áfram til góðra verka.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. janúar 2024.

Categories
Fréttir

Fólk í fyrirrúmi!

Deila grein

26/01/2024

Fólk í fyrirrúmi!

„Við erum að færa þjónustuna til, til þess að dreifa álagi innan kerfisins, til þess að nýta allt kerfið, til aðila sem hafa þekkinguna og svigrúmið til að sinna þjónustunni hverju sinni og af viðunandi öryggi og gæðum,“ sagði Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, í sérstakri umræðu á Alþingi um útvistun heilbrigðisþjónustu.

Fyrst vildi Willum Þór ítreka að þingsályktun Alþingis um „Heilbrigðisstefnu til ársins 2030“ væri hryggjarstykkið í allri ákvarðanatöku um forgangsröðun fjármuna, um aðgerðir, um útvistun eða annað í heilbrigðisþjónustu. Eins væri mikilvægt að sameiginlegur skilningur væri á hugtakanotkun í þjóðfélagsumræðunni um skipulag heilbrigðisþjónustu í blönduðu kerfi. Kerfi sem hafi þróast í áratugi, opinberlega fjármögnuð þjónusta og að sátt sé um í þjóðfélaginu. Síðan sé hægt að ræða aðgengið, stefnuna og aðgengi óháð efnahag.

Útvistun aðgerða getur verið innan opinbera kerfisins og styður við markmið að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað

„Útvistun getur verið beint á milli stofnana án nokkurrar aðkomu annarra eða yfirvalda ef því er að skipta. Hún getur líka verið frá opinberum aðila til einkaaðila út frá rekstrarformi, ef við erum að skilgreina það. En fyrst og síðast erum við alltaf að vinna eftir þessari stefnu: Við erum að auka aðgengi. Getur falist í því aukin skilvirkni? Já,“ sagði Willum Þór

Hver eru áform varðandi einkavæðingu hjúkrunarheimila?

„Það eru engin áform um einkavæðingu hjúkrunarheimila. Mikill meirihluti hjúkrunarrýma er rekinn af sjálfseignarstofnunum og alls ekki verið að drepa því á dreif, það er staðreynd,“ sagði Willum Þór og hélt svo áfram, „hafa orðið tafir á uppbyggingu hjúkrunarheimila? Já, og nýjustu viðbrögðin við því eru að auka skilvirknina og að mæta þessari þróun sem raunverulega hefur verið“.

Sveitarfélögin hafa dregið sig út úr þjónustu hjúkrunarheimila. Hafa því verið gerð þjónustukaup í gegnum Sjúkratryggingar af Sjómannadagsráði, af Grund, af Eir, af Heilsuvernd og af Sóltúni. Eins hafa heilbrigðisstofnanir fyrir austan, fyrir norðan og fyrir vestan meira og minna tekið til sín hjúkrunarheimilis þjónustu að öllu leyti.

„Það sem ég og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra erum raunverulega að gera er að skerpa á hlutverki og ábyrgð með breyttu fyrirkomulagi í þeim tilgangi að hraða uppbyggingunni,“ sagði Willum Þór.

Mun aukin skilvirkni fást með útvistun aðgerða?

„Við settum 700 milljónir á síðasta ári í það að leggja áherslu á lýðheilsutengdar aðgerðir eins og liðskipti. Hvað hefur gerst? Við erum búin að auka aðgerðir um 60%. Það þýðir aukið aðgengi, fleiri komast að og það er jafnræði. Aðgerðum í útlöndum hefur fækkað. Það er sparnaður. Það heitir skilvirkni og tölurnar liggja fyrir,“ sagði Willum Þór.

Hvaða gögn liggja að baki ákvörðunum um útvistun aðgerða í heilbrigðiskerfinu?

Það er verið að nýta kerfið og þetta er leið til þess. „Af hverju erum við að semja við sérgreinalækna? Það er til þess að það sé ekki hægt, eins og lögin eru í dag, að rukka aukalega. Það er til heil skýrsla frá Öryrkjabandalaginu um að tekjulægstu hóparnir hafi átt orðið í vandræðum með að borga aukareikninga. Annað hvort var þá að breyta stefnunni eða semja. Og það var samið. Reikningurinn fyrir þessa aukareikninga er 1,9 milljarðar, áætlaðir. Það er í samhengi við 350 milljarða. Ef þetta er einkavæðing eða markaðsvæðing er einhverju öfugt farið,“ sagði Willum Þór.

Fólk í fyrirrúmi

„Við höfum aukið afköst um 60%. Þeim hefur fækkað sem hafa farið erlendis, sem nýta það tækifæri. Markmiðið hlýtur að vera að nýta alla þekkinguna sem er hérlendis til að gera þessar aðgerðir. Við eigum hana til og eigum að geta það,“ sagði Willum Þór að lokum.

Categories
Fréttir Greinar

Rann­sókn á or­saka­ferli í kjöl­far sjálfs­vígs

Deila grein

26/01/2024

Rann­sókn á or­saka­ferli í kjöl­far sjálfs­vígs

Þann 1. desember sl. lagði undirrituð fram tillögu til þingsályktunar um rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs. Tillagan hefur það að markmiði að stuðla að öflun gagna sem nýtast við greiningu á áhættuhópum, í forvarnastarfi og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða með það að markmiði að koma í veg fyrir sjálfsvígstilraunir og sjálfsvíg. Þess er farið á leit í tillögunni að starfshópurinn skili skýrslu með tölfræði og tillögum að aðgerðum, bæði fyrirbyggjandi og í forvarnarstarfi til framtíðar, eigi síðar en 1. maí 2024. Tillagan er unnin í miklu samstarfi við embætti Landlæknis og vil ég sérstaklega þakka Guðrúnu Jónu Guðlaugsdóttur, verkefnastjóra sjálfsvígsforvarna og Högna Óskarssyni, geðlækni og ráðgjafa fyrir þeirra þátt í vinnunni, sem var ómetanlegur.

Þörf á breytingum

Þegar andlát á sér stað, er það rannsakað til að gera grein fyrir dánarmeini. Rannsóknir lögreglu og héraðslækna fara fram til að ákveða hvort andlát hafi borið að með saknæmum hætti eða ekki. Ef raunin er ekki sú, þá er almennt ekki aðhafst meira. Rannsókninni lýkur og orsökin er skráð í dánarmeinaskrá. Það á m.a. við ef um sjálfsvíg er að ræða. Sjálfsvíg eru ekki rannsökuð afturvirkt þar sem undanfari þeirra er skoðaður í þaula í leit að þáttum sem komu einstaklingnum í það hugarástand sem hann var í við andlátið. Nauðsynlegt er að slík rannsókn fari fram með þeim hætti að fara afturvirkt yfir lýðfræðilegar breytur, aðstæður, atburði og möguleg áföll sem einstaklingurinn upplifði í undanfara sjálfsvígs. Þá er m.a. átt við brottfall úr skóla, atvinnumissi eða langvarandi atvinnuleysi, sambandsslit, makamissi, ofbeldi, neyslu vímugjafa og hvað annað sem getur haft áhrif. Með slíkri rannsókn er hægt að afla hagnýtra gagna sem geta skipt sköpum í áframhaldandi vinnu samfélagsins gegn sjálfsvígum, bæði í forvarnavinnu og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða. Gögnin myndu einnig nýtast við það mikilvæga verkefni að greina áhættuhópa í samfélaginu, þ.e. þá hópa sem líklegri eru til að upplifa sjálfsvígshugsanir, gera sjálfsvígstilraunir eða deyja í sjálfsvígi, umfram hefðbundnar breytur á borð við kyn, aldur og búsetu. Nú eru slík gögn ekki til staðar.

Lífsbrú – miðstöð sjálfsvígsforvarna

Í gær kynnti Landlæknir aðgerðir gegn sjálfsvígum og nýja miðstöð sjálfsvígsforvarna. Miðstöðin, sem hlotið hefur nafnið Lífsbrú, varð að veruleika þegar föstu fjármagni frá Heilbrigðisráðuneytinu var veitt ótímabundið í sjálfsvígsforvarnir. Hér er verið að taka risastórt skref í átt að breytingum til hins betra og því ber sannarlega að fagna. Á heimasíðu verkefnisins, www.lifsbru.is segir:

„Markmið Lífsbrúar er að fækka sjálfsvígum á Íslandi í samræmi við áætlun stjórnvalda. Það verður gert með því að velja gagnreyndar aðferðir sem reynst hafa vel í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Einnig að þróa og innleiða verklag, fræðsluefni og leiðbeiningar til að nota á öllum stigum forvarna, ásamt því að stuðla að vitundarvakningu og símenntun.

Markmiðum verður náð með breiðri samvinnu fagfólks, notenda, stofnana og félagasamtaka en einnig með fjáröflun til sjálfsvígsforvarna. Í því skyni hefur verið stofnaður sjóður með sama nafni.“

Sem samfélag viljum við alltaf gera betur

Sjálfsvíg eru viðkvæmt samfélagslegt málefni. Þau hafa mikil áhrif á aðstandendur og jafnvel heilu samfélögin. Áhrifin teygja anga sína víða en samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni verða að meðaltali 135 einstaklingar fyrir áfalli í kjölfar sjálfsvígs eins einstaklings. Talið er að um sex þúsund manns verði fyrir áhrifum af sjálfsvígum á hverju ári hér á landi. Samfélagið vill gera betur, grípa einstaklinga í áhættuhópum, ganga í fyrirbyggjandi aðgerðir, efla forvarnastarf og bjóða upp á sálræna aðstoð fyrir bæði einstaklinga í áhættuhópum og aðstandendur þeirra. Við höfum þörf fyrir að ávallt fari fram rannsókn, svo að komast megi að því hvað hafi gerst og finna alla annmarka sem eru á öryggisneti samfélagsins.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. janúar 2024.

Categories
Fréttir

Alþjóðlegur dagur menntunar!

Deila grein

25/01/2024

Alþjóðlegur dagur menntunar!

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segist enn og aftur hafa fengið að kynnast þeim frábæra mannauði sem sé í íslensku menntakerfi.

„Í dagur er alþjóðlegur dagur menntunar. Tilgangur hans er að undirstrika mikilvægi menntunar og þau gífurlegu áhrif sem hún hefur í baráttunni fyrir betri heimi og auknum jöfnuði.“

Fátt hefur jafn mikil mótunaráhrif á líf barna og farsæld samfélaga eins og menntun

„Í embætti mínu sem mennta- og barnamálaráðherra hef ég ítrekað fengið að kynnast þeim frábæra mannauði sem við eigum í íslensku menntakerfi. Við eigum það til að taka menntakerfi okkar sem sjálfsögðum hlut og það er stundum ekki fyrr en hörmungar skella á að við gerum okkur grein fyrir mikilvægi hluta.

Það er ástæða til að nota þetta tækifæri og nefna sérstaklega hversu magnað það hefur verið að fylgjast með grindvískum stjórnvöldum, skólastjórnendum, kennurum og starfsfólki skóla Grindavíkur gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að tryggja að börn úr Grindavík njóti menntunar og samveru þrátt fyrir ítrekuð áföll.

Kennsla í Grunnskóla Grindavíkur fer fram á fjórum stöðum í Reykjavík og kennarar fylgja börnum sínum sem eru komin í skóla víðsvegar um land eftir með margvíslegum hætti. Heimsótti skólann í dag, átti gott og milliliðalaust samtal við nemendur, kennara og annað starfsfólk um áskorunina sem samfélagið er að takast á við og hver næstu skref þurfi að vera. Eftir þessa heimsókn er ég sannfærðari en nokkru sinni um ótvírætt mikilvægi menntunar á mjög breiðum grunni.“

Í dagur er alþjóðlegur dagur menntunar. Tilgangur hans er að undirstrika mikilvægi menntunar og þau gífurlegu áhrif sem…

Posted by Ásmundur Einar Daðason on Miðvikudagur, 24. janúar 2024
Categories
Fréttir

Þetta er sanngirnismál!

Deila grein

25/01/2024

Þetta er sanngirnismál!

„Við í Framsókn höfum lengi talað fyrir því að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni eða a.m.k. reikna með öðrum hætti en nú er gert. Fyrir mér er þetta sanngirnismál. Þetta er réttlætismál. Við þurfum að reikna þetta með réttum hætti þannig að það gagnist heimilum landsins eins og á að gera,“ sagði Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, í störfum þingsins.

„Þetta er kannski ekki rót vandans en þetta er hluti af vandanum. Við sjáum það núna og það er erfitt, ég hef sagt það áður og segi það aftur, að setja sig í spor Grindvíkinga sem er nú gert að yfirgefa heimili sín, sem er griðastaður fjölskyldna og fólks í þessu samfélagi, en að öllum líkindum mun þessi atburðarás sem við sjáum á Reykjanesi núna auka enn frekar þrýsting á húsnæðismarkaðinn.

Við verðum að bera gæfu til þess að byggja meira en við höfum gert hingað til þannig að við náum að uppfylla þá þörf sem fram undan er,“ sagði Ágúst Bjarni.

Staðan á Reykjanesi hefur áhrif varðandi væntanlegt byggingarland á sveitarfélögin á svæðinu. Lausnin felst í að stjórnvöld, ríki og sveitarfélög setjist niður og vinni að því hvernig við ætlum að byggja upp, byggja nægilegt magn íbúða.

„Nú hins vegar í tíð hæstv. innviðaráðherra er loks áætlun til staðar, en áætlun er ekki nóg. Umhverfið verður að vera með þeim hætti að hægt sé að byggja þannig að uppbygging sé raunverulega tryggð. Það gerist ekki, eins og ég segi, með óvissu á uppbyggingarsvæði, með háa vexti og hörðum lánþegaskilyrðum hjá Seðlabanka. Þetta er samvinnuverkefni ríkis, sveitarfélaga og annarra hagaðila og þetta er vandamál og verkefni sem við þurfum að leysa í sameiningu,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.


Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Við í Framsókn höfum lengi talað fyrir því að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni eða a.m.k. reikna með öðrum hætti en nú er gert. Fyrir mér er þetta sanngirnismál. Þetta er réttlætismál. Við þurfum að reikna þetta með réttum hætti þannig að það gagnist heimilum landsins eins og á að gera. Þetta er kannski ekki rót vandans en þetta er hluti af vandanum. Við sjáum það núna og það er erfitt, ég hef sagt það áður og segi það aftur, að setja sig í spor Grindvíkinga sem er nú gert að yfirgefa heimili sín, sem er griðastaður fjölskyldna og fólks í þessu samfélagi, en að öllum líkindum mun þessi atburðarás sem við sjáum á Reykjanesi núna auka enn frekar þrýsting á húsnæðismarkaðinn. Við verðum að bera gæfu til þess að byggja meira en við höfum gert hingað til þannig að við náum að uppfylla þá þörf sem fram undan er.

Að þessu sögðu þá gerir þetta líka annað, þessi staða sem er uppi á Reykjanesi hefur auðvitað áhrif á alla framtíðarsýn sem sveitarfélögin á þessu svæði hafa varðandi væntanlegt byggingarland. Það er vinna sem stjórnvöld, ríki og sveitarfélög þurfa nú að setjast niður við og huga að því hvernig við ætlum að byggja upp, byggja nægilegt magn íbúða til framtíðar á þessu svæði vegna þess að þetta breytir augljóslega stöðunni. Nú hins vegar í tíð hæstv. innviðaráðherra er loks áætlun til staðar, en áætlun er ekki nóg. Umhverfið verður að vera með þeim hætti að hægt sé að byggja þannig að uppbygging sé raunverulega tryggð. Það gerist ekki, eins og ég segi, með óvissu á uppbyggingarsvæði, með háa vexti og hörðum lánþegaskilyrðum hjá Seðlabanka. Þetta er samvinnuverkefni ríkis, sveitarfélaga og annarra hagaðila og þetta er vandamál og verkefni sem við þurfum að leysa í sameiningu.“