„Miðað við málflutning annarra flokka er nú komin upp augljós hætta á því að hér muni skapast verðtryggingarríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Ríkisstjórn sem mun standa vörð um verðtrygginguna og lítur sem svo á að íslensk heimili eigi ekki inni leiðréttingu eftir hrunið. Ríkisstjórn sem er tilbúin að beygja sig undir kröfur erlendra kröfuhafa en er ekki tilbúin að standa með íslenskum heimilum. Ég trúi því ekki að Íslendingar vilji þannig ríkisstjórn, ég trúi því að Íslendingar vilji ríkisstjórn sem þorir.“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson m.a. í ræðu sinni á fjölmennum fundi Framsóknar á Grand Hótel í dag. „Við megum ekki, enn og aftur, glata þeim tækifærum sem stendur þjóðinni til boða þegar kemur að réttlæti fyrir heimilin.“
Nú þegar slétt vika er í kosningar hefur kosningabaráttan harðnað og mikið hefur verið sótt að Framsókn sem hefur mælst stærsti flokkur landsins upp á síðkastið. Sigmundur varaði fundargesti við erfiðri viku framundan en biðlaði jafnframt til þeirra að halda sig á málefnalegum nótum í allri gagnrýni á aðra flokka: „Þetta verður ljót kosningabarátta. Andstæðingar okkar, bæði til hægri og vinstri, virðast ekki sjá aðra leið en að ráðast á Framsókn og það er ekki gert á málefnalegum grundvelli. Flestir aðrir flokkar hafa síðustu vikur viðurkennt að aðferðir Framsóknar eru raunhæfar. En þrátt fyrir það hafa þeir ekki þor til að taka á verkefnunum. Rökþrota um málefnin ráðast þeir því á okkur á persónulegan hátt. Þann hátt sem ég vildi að væri horfinn úr íslenskum stjórnmálum. Framsóknarmenn munu ekki taka þátt í þannig kosningabaráttu. Við munum standa fyrir málefnalegri kosningabaráttu og berjast fyrir því að okkar baráttumál, afnám verðtryggingar og leiðrétting stökkbreyttra lána, nái fram að ganga. Eina leiðin til að tryggja að þessi mál nái fram að ganga er að Framsókn fái nægilega mikinn og góðan stuðning til að samningsstaða flokksins sé sem sterkust þegar kemur að því að mynda ríkisstjórn.“
Hér má finna myndir af fundinum:
https://www.flickr.com/photos/
Ríkisstjórn sem þorir
20/04/2013
Ríkisstjórn sem þorir