Categories
Greinar

Norsk byggðastefna og jöfnun húshitunarkostnaðar

Deila grein

27/02/2013

Norsk byggðastefna og jöfnun húshitunarkostnaðar

Rafmagnskostnaður í dreifbýli og á köldum svæðum er gríðarlega hár sé miðað við önnur svæði. Þetta er mjög óréttlátt í ljósi þess að rafmagn og húshitun á að flokkast sem sjálfsögð grunnþjónusta. Í Noregi er mjög virk byggðastefna sem m.a. felur í sér að íbúar á dreifbýlum svæðum greiða lægra rafmagnsverð heldur en í stórborgum. Framsóknarflokkurinn hefur lagt til að mótuð verði almenn byggðastefna og höfum við m.a. ítrekað talað fyrir tillögum um fulla jöfnun raforkuverðs.

 

20-35% lægra orkuverð á dreifbýlum svæðum í Noregi

Norsk byggðastefna byggir á almennum aðgerðum fremur en sértækum. Fyrirkomulag raforkumála er gott dæmi um hvernig almenn byggðastefna í Noregi virkar. Á dreifbýlum svæðum er sérstakt dreifbýlisþak sett á rafmagnskostnað. Heimili á þessum svæðum greiða aldrei hærra verð fyrir raforku en sem nemur ákveðinni krónutölu á ári. Í norður Noregi greiða íbúar að jafnaði um 20% lægra verð fyrir raforku heldur en í suður Noregi. Dreifbýlisþakið lækkar síðan eftir því sem norðar dregur og íbúar Tromsfylki og Finnmörk sem eru nyrstu fylkin í Noregi búa síðan við dreifbýlisþak sem tryggir þeim að jafnaði 35% lægra raforkuverð. Stjórnvöld í Noregi hafa ákveðið að auka enn frekar við þennan stuðning enda hefur reynsla undanfarinna ára sýnt að íbúum í norður- Noregi fjölgar á ný eftir mikla fólksfækkun undanfarinna áratuga.

 

RARIK og Orkubú Vestfjarða krafið um arðgreiðslur í ríkissjóð

Íslendingar eru ekki komnir jafn langt í byggðajafnrétti og mikinn skilning skortir á málinu. Þetta kom vel fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2013. Með fjárlögum ársins 2013 er RARIK krafið um 310 milljónir og Orkubú Vestfjarða um 60 milljónir í arðgreiðslur til ríkissjóðs. Af þessari upphæð er einungis 175 milljónum veitt til aukningar á niðurgreiðslum til húshitunar á köldum svæðum og er sú tala um þrisvar sinnum lægri en þarf til að jafna húshitunarkostnað að fullu.

 

Framsókn ítrekað lagt til fulla jöfnun húshitunarkostnaðar

Í desember 2011 skilaði starfshópur um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar skýrslu og lagði til breytingar á fyrirkomulagi til niðurgreiðslu húshitunar. Lagt var til að komið yrði á fót sérstökum jöfnunarsjóði sem fjármagnaður yrði með 0,10 kr skattlagningu á hverja kWst. Fjármagnið yrði síðan notað til að niðurgreiða flutning og dreifingu á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis í dreifbýli og á köldum svæðum. Framsókn hefur lagt fram tillögu um að koma upp slíkum jöfnunarsjóði. Þessar tillögur hafa ekki hlotið brautargengi á Alþingi en hinsvegar var sérstakur orkuskattur sem var settur á árið 2009 framlengdur nú um áramótin. Upphæð skattsins er 0,12 kr. á hverja kWst af seldri raforku en 2% af smásöluverði á heitu vatni. Ekki skortir vilja til þess að innheimta orkuskatt en hinsvegar virðist ríkisstjórnina skorta pólitískan vilja til að veita fjármununum beint til jöfnun húshitunarkostnaðar. Framsókn mun halda áfram að þrýsta á þetta mál og við höfum ítrekað hvatt til þess að þingmenn vinni saman að því að koma upp slíku jöfnunarkerfi.

 

Norsk byggðastefna á Íslandi?

Framsóknarflokkurinn hefur allt þetta kjörtímabil lagt til á Alþingi að fulltrúar ríkisvalds og sveitarfélaga móti í sameiningu stefnu í byggðamálum sem byggir á norskri hugmyndafræði. Landinu verði skipt upp í ákveðin dreifbýlissvæði og á þeim grunni lagðar til almennar byggðajafnréttisaðgerðir. Þessar aðgerðir byggja á því að t.d. skattar, gjöld á einstaklinga og fyrirtæki, afborgunarbirgði námslána, barnabætur, orkukostnaður er hagstæðara eftir því sem lengra er komið frá frá þéttbýlli svæðum. Reynsla Norðmanna sýnir að með bættri umgjörð og almennum byggðaaðgerðum er mögulegt að nýta þau fjölmörgu sóknarfæri sem landsbyggðin býður uppá. Almennar byggðaaðgerðir efla ekki einungis dreifbýl svæði landsins heldur fær ríkissjóður og þjóðin öll þetta margfalt til baka í aukinni verðmætasköpun og gjaldeyristekjum.

Ásmundur Einar Daðason