Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, flutti skýrslu Íslandsdeildar þingmannanefndar Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðisins (EES) fyrir árið 2023 á Alþingi í liðinni viku. Nefndin myndar sendinefnd Alþingis, bæði í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES. Þá myndar Íslandsdeildin ásamt fjórum þingmönnum úr utanríkismálanefnd sendinefnd Alþingis í sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og ESB.
Fór hún yfir í ræðu sinni hversu veigamiklu hlutverki sem EFTA og EES hafa sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES er Íslendingum tryggður að langmestu leyti sömu viðskiptakjör og 30 önnur Evrópuríki með rúmlega 460 milljóna manna markað. EFTA hefur, að auki rekstri EES-samningsins byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki.
Haldnir hafa verið fundir með ráðherrum EFTA þar sem einkum var fjallað um græna tækni, styrkjakerfi á heimsvísu og stefnu ESB á sviði efnahagsöryggis og eins fund með utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES um EES-samstarfið. Þróun alþjóðaviðskipta, viðskiptastefna ESB og aðgerðir til að bæta samkeppnisstöðu innri markaðarins hafa verið áberandi umfjöllunarefni. Jafnframt iðnaðaráætlun græna sáttmála ESB þar sem tvær tillögur að lagasetningu eru undir, annars vegar um aðgengi að hrávörum innan ESB og hins vegar um kolefnislausan iðnað. „Tillögur þessar miða m.a. að því að draga úr hættu á því að ESB verði háð einstökum ríkjum um mikilvægar hrávörur eða um orkugjafa. Þeim er jafnframt ætlað að stuðla að umhverfisvænni framleiðslu orku og tækni á innri markaði.“
Framkvæmdastjórn þingmannanefndarinnar átti fundi með þingnefndum, ráðherrum, stofnunum og hagsmunaaðilum í Nýju Delí og Mumbai um fríverslunarmál og aukið efnahagslegt samstarf í ljósi þess að fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna og Indlands standa yfir.
„Staða Úkraínu í kjölfar innrásar Rússlands var áberandi í starfi þingmannanefndarinnar síðastliðið ár eins og árið þar á undan. Hinn 27. júní var sérstök athöfn í Schaan í Liechtenstein samhliða fundi þingmannanefndarinnar og ráðherra til að marka upphaf viðræðna við Úkraínu um endurbættan og nútímalegri fríverslunarsamning,“ sagði Ingibjörg.
„Á árinu var jafnframt fjallað um þvingunaraðgerðir ESB gegn Rússlandi sem EES-EFTA-ríkin hafa tekið þátt í. Fjallað var um nýjar þvingunaraðgerðir sem ætlað er að koma í veg fyrir að aðilar komi sér undan reglunum. Þá var einnig rætt um mögulegar aðildarviðræður Úkraínu við ESB en Úkraínu var formlega veitt staða umsóknarríkis að ESB í júní 2022 og í desember síðastliðnum samþykkti ESB að hefja viðræður við Úkraínu.“
„Þingmannanefnd EES fundaði tvisvar sinnum á árinu og var venju samkvæmt fjallað um þróun og framkvæmd EES-samningsins á þeim fundum. Á fyrri fundi nefndarinnar í Strassborg í mars fjölluðu nefndarmenn Íslandsdeildarinnar um fyrirhugaðar breytingar á EES-löggjöf um viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug, sérstöðu Íslands og þeim verulegu áhrifum sem þær kæmu til með að hafa á íslenska hagsmuni yrðu þær teknar óbreyttar upp í EES-samninginn,“ sagði Ingibjörg.
04/02/2024
Efnahagurinn á réttri leið en tryggja verður nægt framboð á húsnæðiVeigamesta hagsmunamál íslenskra heimila og fyrirtækja er að verðbólgan haldi áfram að minnka. Mikil verðbólga bitnar ávallt á þeim sem síst skyldi, það er þeim efnaminni. Fólk jafnt sem fyrirtæki hafa jafnframt fundið vel fyrir háu vaxtastigi. Með samstilltri stefnumótun ríkis og sveitarfélaga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnumarkaðarins – gætum við loksins náð að sjá til lands í glímunni við verðbólguna.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis um 5,2%
Verðbólgan hefur verið yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands í meira en þrjú ár. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 6,7% og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 5,2%. Verðbólgan hefur því lækkað um 1,3 prósentustig á tveimur mánuðum. Því miður var það reiknaða húsaleigan sem hafði mest áhrif til hækkunar og jókst um 0,9%. Þetta sýnir áfram, svart á hvítu, hvar helsta uppspretta frekari verðbólguþrýstings er í hagkerfi okkar. Markaðsaðilar gera ráð fyrir að verðbólga haldi áfram að hjaðna og afar mikilvægt er að sú verði raunin. Því er ekki hægt að leggja nægjanlega mikla áherslu á mikilvægi þess að langtímakjarasamningar séu sniðnir á þá vegu að verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands náist á næstunni.
Húsnæðisliðurinn endurskoðaður
Gleðileg tíðindi bárust í vikunni um að Hagstofa Íslands hefði um hríð unnið að því að endurskoða aðferðir við mat á reiknaðri leigu í vísitölu neysluverðs. Samkvæmt Hagstofunni eru forsendur að skapast fyrir því að breyta um aðferð við mat á húsnæðisliðnum með það að markmiði að búa til betri gögn. Afar brýnt er að mælingar Hagstofunnar endurspegli sem best raunverulega þróun á húsnæðismarkaði. Breytingarnar munu hafa það í för með sér annars vegar að sveiflur í reiknuðum húsnæðislið munu minnka og hins vegar mun þróun stýrivaxta Seðlabanka Íslands ekki hafa sömu áhrif og verið hefur. Um er að ræða löngu tímabæra breytingu.
Horfur í heimsbúskapnum hafa batnað
Uppfærð spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um horfur í heimsbúskapnum sem birtist í vikunni er bjartari en spár að undanförnu. Gert er ráð fyrir meiri hagvexti, eða rúmum 3%, árin 2024-25. Hagspáin hefur hækkað vegna aukins viðnámsþróttar í Bandaríkjunum og hjá stórum nýmarkaðs- og þróunarríkjum. Verðbólga á heimsvísu hefur hjaðnað hraðar en búist var við, sem er jákvætt upp á hagþróun, en á móti koma skellir á framboðshliðinni og hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áhyggjur af áhrifum af vaxandi haftastefnu. Gert er ráð fyrir að verðbólga í heiminum lækki í 5,8% árið 2024 og í 4,4% árið 2025, en verðbólguspáin fyrir árið 2025 er endurskoðuð til lækkunar. Með minnkandi verðbólgu og stöðugum hagvexti hafa líkur á mjúkri lendingu aukist verulega. Þessi hagfellda þróun getur leitt til þess að vextir lækki hraðar en gert hefur verið ráð fyrir. Skilaboð bandaríska Seðlabankans hafa þó verið afar skýr eða að vaxtalækkunarferli muni ekki hefjast fyrr en mjög traustar vísbendingar liggja fyrir um lækkun verðbólgu. Vinnumarkaðurinn í Bandaríkjunum heldur áfram að vera sterkur og störfum fjölgar ört. Markaðir hafa brugðist við væntingum um mjúka lendingu heimbúskaparins undanfarnar vikur og hafa hlutabréfavísitölur tekið við sér og vextir á skuldabréfamörkuðum almennt lækkað. Það eru áfram skiptar skoðanir um hvort verðhækkanir nú séu skammvinnar eða vísbending um viðvarandi þróun. Seðlabankar beggja vegna Atlantsála hafa gefið til kynna að einhver bið kunni að verða á vaxtalækkunum.
Pólitísk spenna og átök vega áfram þungt
Viðskiptaspenna, svæðisbundin átök og pólitískur óstöðugleiki skapar áskoranir í alþjóðlegu samstarfi og mun áfram lita spár um framþróun efnahagsmála. Vaxandi pólitískur órói í Mið-Austurlöndum og árásir á flutningaskip í Rauðahafi geta þó hæglega leitt til hækkunar á hrávöru, sem aftur eykur verðbólguþrýsting. Þröng staða á kínverska fasteignamarkaðnum er líkleg til að draga úr þrótti hagkerfisins þar en vegna stærðar markaðarins geta áhrifin verið mun víðtækari. Búast má við að Kínverjar leggi aukinn kraft í útflutning, sem gæti aftur haft áhrif á viðskiptahöft og verndartolla víða um heim. Útlitið á heimsvísu horfir þó í heild til betri vegar og það eru einkum þrír þættir sem eru þar veigamestir. Aðfangakeðja heimsins er að ná betra jafnvægi, verðbólga er að hjaðna hraðar en spár gerðu ráð fyrir og að lokum þá gera markaðsaðilar ráð fyrir að vaxtalækkunarferlið hefjist fyrr en ella. Hagvöxtur hefur verið kröftugri en búist var við þrátt fyrir háa vexti. Hins vegar er hagvaxtarspáin fyrir næstu ár nokkuð lægri en meðaltal síðustu 20 ára og vega þar væntanlega mest háir raunvextir, minnkandi stuðningur ríkisfjármála, m.a. í ljósi hærri ríkisskulda, og spár um að framleiðni muni minnka.
Mesta áskorunin að tryggja nægt framboð á húsnæði
Áhrif húsnæðismarkaðar hafa verið viðamikil í verðbólgu undanfarinna ára. Mikilvægt er að stjórnvöld bregðist við því að húsnæðismarkaðurinn verði ekki til þess að snúa við hagstæðri verðbólguþróun. Stjórnvöld eiga að styðja við framboðshlið húsnæðismarkaðarins og ráðast í aðgerðir sem auka framboð. Mitt ráðuneyti hefur sent frá sér frumvarp um takmörkun á rekstrarleyfisskyldri gististarfsemi við atvinnuhúsnæði. Markmið frumvarpsins er að losa íbúðir sem nýttar eru í skammtímaleigu og orlofsíbúðir í þéttbýli. Frekari skref stjórnvalda í þessa átt gætu verið að koma íbúðum sem eru í svokölluðu „stoppi“ í uppbyggingu af stað á ný. Þá má vinna að því að skapa skilyrði fyrir aukna íbúðauppbyggingu til lengri tíma með fjárhagslegum hvötum og síðast en ekki síst að tryggt verði nægt framboð byggingarhæfra lóða til framtíðar. Skrefin sem Reykjavíkurborg hefur þegar tekið eru jákvæð og verða til þess fallin að auka framboð á húsnæðismarkaði.
Í litlu opnu hagkerfi eins og hér á Íslandi skipta bæði ytri og innri þættir miklu máli í hagstjórn. Það er jákvætt að sjá heimsbúskapinn þróast í rétta átt, bæði hvað varðar hagvöxt og verðbólgu. Á tímum eins og þessum, þegar stjórnvöld standa frammi fyrir miklum áskorunum innanlands, er ákveðinn léttir að þurfa ekki nauðsynlega að glíma við innflutta þætti sem gætu haft neikvæð áhrif, t.d. innflutt verðlag. Hins vegar er það áhyggjuefni til lengri tíma fyrir útflutningsþjóð, ef útlit er fyrir að alþjóðaviðskipti muni í auknum mæli einkennast af höftum og tollmúrum. Einar Benediktsson, skáld og frumkvöðull, sagði eitt sinn: „Þeim sem vilja, vakna og skilja – vaxa þúsund ráð.“ Þess vegna ríður á að samstillt átak stjórnvalda, sveitarfélaga, Seðlabanka og aðila vinnumarkaðarins – fólks jafnt sem fyrirtækja – verði farsælt og skili okkur sem bestum árangri.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. febrúar 2024.
02/02/2024
Suðurnes sett í samband – mikilvægara nú sem aldrei fyrrNú liggur fyrir að Framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 sé komið í höfn áætlað er að framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 munu hefjast síðsumars, en í vor stendur til að bjóða í út jarðvinnu vegna línulagnarinnar. Þetta varð ljóst eftir úrskurð Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nú í janúar.
Um gríðarlega mikilvæga innviðaframkvæmd er að ræða fyrir öll Suðurnesin í heild sinni. Lengi hefur verið kallað eftir frekari raforku inn á svæðið og hefur deila staðið um framkvæmdina í rúma tvo áratugi. Það hefur legið fyrir um langa hríð að Nauðsynlegt væri að ráðast í framkvæmdir sem þessar til að bæta afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum og auka flutningsgetu raforkukerfisins milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja.
Saga Suðurnesjalínu 2 er bæði löng og stormasöm. Fyrst fékkst leyfi til framkvæmda 2013, landeigendur kærðu það því þeir vildu að línan yrði lögð í jörð. Árið 2016 ógilti Hæstiréttur framkvæmdaleyfið á grundvelli gallaðs umhverfismats. En eftir ítarlega rýni kaus Landsnet að halda loftlínukostinum til streitu og óska eftir framkvæmdaleyfi.
Viðræður um Suðurnesjalínu 2 hafa staðið í hátt í tvo áratugi eins og áður sagði en Þær hafa einkum strandað á afstöðu Voga sem hafa ekki viljað láta háspennulínu í lofti í gegnum sveitarfélagið, en það hefur Landsnet viljað. Nú er langþráð samkomulag í höfn.
Á Suðurnesjum erum við að lifa sögulega tíma, nýtt tímabil eldsumbrota er hafið sem getur ógnað okkar helstu innviðum, því er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur öll sem þjóð og samfélag að menn vinni markvisst að framvindu málsins með skynsemi og hag suðurnesja að leiðarljósi, með það að markmiði að styrkja orkuinnviði fyrir atvinnulíf og búsetu á suðurnesjum.
Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.
Greinin birtist á visir.is 2. febrúar 2024.
Orkumál og orkuöryggi
01/02/2024
Orkumál og orkuöryggiUndanfarið hefur verið mikil umræða um orkumál og orkuöryggi þjóðarinnar. Samkvæmt greiningu Byggðastofnunar koma um 20% af heildar atvinnutekjum íbúa Akraness frá framleiðslu og má áætla að flest störfin séu tengd Norðurál og Elkem á Grundartanga. Þá eru ekki meðtalin þau fjölmörgu afleiddu störf sem starfseminni fylgja, varlega áætlað eru þau ekki færri en framleiðslan sjálf skapar hér innan okkar atvinnusvæðis. Því ætti öllum að vera ljóst að skerðing raforku til lengri eða skemmri tíma, til fyrirtækja sem veita hundruðum íbúa atvinnu, getur haft verulega neikvæð áhrif á afkomu íbúa og fyrirtækja ásamt stöðu bæjarfélagsins.
Samkvæmt gögnum Landsvirkjunar er árlegur vöxtur á almennum markaði um 2-3%. Skýrist það einna helst af því að Íslendingum fer fjölgandi. Eftirspurnin eftir orku í ársbyrjun 2024 var hins vegar tífalt meiri eða um 25%. Það er svo efni í aðra grein hvort og þá hvernig við sem þjóð viljum mæta þessari eftirspurn.
Andstæðum pólum er stillt upp hvor gegn öðrum – og hvorum hópnum ætlar maður að tilheyra? En þarf að tilheyra öðrum hópnum? Má jafnvel samsvara sig með þeim báðum? Setja góð rök framar tilfinningum? Viltu tilheyra hópnum sem sér tækifærin í nýtingu orkukosta og vill nýta þá? Ég er þar, það er minn hópur!
Hvers vegna? Fyrir Skagamenn er nærtækast að horfa til samfélagsins okkar hér á Akranesi og sjá hversu miklu máli orkumálin skipta okkur. Akranes þróaðist í upphafi í kringum útgerð og landbúnað en hefur svo m.a. vaxið og dafnað í kringum iðnað innan bæjarfélagsins og á Grundartanga en á Akranesi reis Sementsverksmiðjan árið 1959 og á Grundartanga reis Íslenska járnblendifélagið 1979 og svo Norðurál 1997. Það dylst vonandi engum hversu mikilvæg þessi fyrirtæki hafa verið okkur Skagamönnum beint og óbeint.
Eða viltu tilheyra hópnum sem vill setja náttúruna í fyrsta sæti og leyfa náttúrunni að njóta vafans? Ég er þar, það er líka minn hópur!
Þau nátturúgæði sem við Íslendingar búum við eru einstök og okkur ber skylda til þess að nálgast þau af sömu virðingu og þær kynslóðir sem ruddu brautina. Sá kraftur sem í nátturunni býr er ein af forsendum áframhaldandi hagsældar þjóðarinnar.
Orkumál eru nefnilega ekki bara svart og hvítt, með eða á móti. Orkumál snúast að svo miklu leyti um það hvernig land við viljum byggja og búa í.
Tryggja þarf jafnvægi á milli nýtingar og verndar og rjúfa þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í allt of langan tíma. Á síðustu 16 árum hefur t.d. einungis verið virkjað um 380 Mw eða að meðaltali 24 Mw á ári. Það sjá allir að með sama áframhaldi er ljóst að langt er í að markmiðum Íslands í orkuskiptum verði náð.
Ríkistjórnin hefur sett sér metnaðarfull markmið um að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040. Til þess að þau markmið gangi eftir þarf að tvöfalda orkuframleiðslu dagsins í dag.
Orkumál eiga ekki og mega ekki eingöngu snúast um að vera með eða á móti stóriðju! Orkusækinn iðnaður er svo miklu meira og fjölbreyttari en sú stóriðja sem okkur dettur fyrst í hug þegar við heyrum orðið nefnt.
En málið er samt ekki svo einfalt að það þurfi bara að tvöfalda framleiðsluna, ef einfalt má kalla. Verkefni stjórnvalda er ekki síður að ráðast í umfangsmikla innviðauppbyggingu þegar kemur að dreifikerfi raforku. Alltof lítið hefur verið gert í alltof langan tíma og þar eru gríðarleg sóknarfæri.
Landsnet hefur lagt mikla áherslu á endurnýjun Blöndulínu 3 og auka þannig afhendingaröryggi og afhendingargetu flutningskerfisins. Hér eru miklir hagsmunir í húfi og því eðlilegt að velta fyrir sér lagaumhverfinu. Er ásættanlegt að jafn þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir veltist um í kerfinu ár eftir ár og á meðan verði þjóðfélagið af milljarða tekjum? Áætlað er að umframorka á Norður- og Austurlandi sem tapast árlega vegna flutningstakmarkana geti numið á bilinu 300 til 400 GWst sem jafngildir allri framleiðslu Kröfluvirkjunar. Væri framkvæmdum lokið við Blöndulínu er mjög líklegt að ekki hefði þurft að koma til þeirra skerðinga sem Elkem og Norðurál verða nú fyrir.
Lög og reglur eru mannanna verk og því er mikilvægt að þau sem með valdið fara hverju sinni hafi kjark og þor til þess að beita því þjóðinni til hagsbóta. Stjórnvöld þurfa að stíga inn og skapa skilvirkari lagaumgjörð líkt og gert hefur verið hjá sumum nágrannaþjóðum okkar sem við gjarnan berum okkur saman við eins og t.d. Svíþjóð. Þannig hefur verið smíðað regluverk sem ætlað er að ná utan um þjóðhagslega mikilvæga innviði, hvort sem um er að ræða virkjanir, flutningskerfi raforku, nýtingu jarðvarma, vegi eða aðra grunn innviði. Slíkt lagaumhverfi getur vissulega takmarkað að ákveðnu leyti skipulagsvald sveitarfélaganna en á sama tíma tryggt mun meiri skilvirkni, losað um hömlur og langvarandi tafir í undirbúningi framkvæmda.
Ragnar Sæmundsson, oddviti Framsóknar og Frjálsra á Akranesi.
Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 31. janúar 2024.
01/02/2024
Stóraukið framboð af íslenskunámiLykillinn að hverju samfélagi er tungumálið. Eitt af því sem ráðherranefnd um íslenskt mál hefur lagt ríka áherslu á er að stórauka aðgengi að menntun í íslensku. Fjarnám í íslensku á BA-stigi, sameiginlegt fjarnám í íslensku sem öðru máli og háskólabrú fyrir innflytjendur eru meðal aðgerða í aðgerðaráætlun í málefnum íslenskrar tungu sem ráðherranefndin kynnti í desember sl. Framangreindar aðgerðir eru á ábyrgð háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins og hafa þær þegar verið fjármagnaðar í gegnum Samstarf háskóla, en samstarf til eflingar íslensku og máltækni var eitt af áhersluatriðum í Samstarfi háskóla þegar það var kynnt á síðasta ári. Aðgerðirnar hafa það að markmiði að bæta aðgengi að námi í íslensku og að undirstrika samfélagslegt mikilvægi háskóla.
Nú þegar er byrjað að vinna að nokkrum verkþáttum í aðgerðaráætlun sem kynnt var í lok síðasta árs og er nú til umfjöllunar sem þingsályktunartillaga á Alþingi. Það er fagnaðarefni hvernig háskólarnir hafa tekið höndum saman í þessu mikilvæga samfélagslega verkefni að bæta aðgengi að íslenskukennslu fyrir fjölbreytta nemendahópa. Það er sérstök ástæða til að hrósa háskólamálaráðherranum fyrir hversu góður gangur eru í málefnum íslenskunnar á hennar ábyrgðarsviði.
Ein aðgerðin snýr að sameiginlegu fjarnámi í íslensku sem öðru máli sem þróað er í samvinnu Háskóla Íslands, Háskólans á Bifröst, Háskólans á Akureyri og Háskólaseturs Vestfjarða. Innflytjendum gefst með þessu tækifæri til að stunda fjarnám í hagnýtri íslensku sem öðru máli og kennsla á hluta námsleiðarinnar hófst haustið 2023.
Aðgengi að íslenskunámi á háskólastigi verður bætt með því að bjóða upp á fjarnám í íslensku til BA-prófs, samstarf Hugvísindasviðs og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Háskólann á Akureyri. Fyrstu námskeið voru kennd síðasta haust og stefnt er á að námsbrautin verði að fullu starfandi síðar á þessu ári.
Í haust verður svo farið af stað með nýja námsleið fyrir nemendur sem hafa grunn í íslensku máli en þurfa stuðning til þess að sækja frekara háskólanám á íslensku. Með þessu verður aðgengi innflytjenda að almennu háskólanámi bætt til muna en að þessu koma Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst.
Tunga hverrar þjóðar er spegill og andlit hennar er menntun. Orðin eru undirstaða tungumálsins en orðin geta ekki verið án einhverrar hugmyndar eða skilnings, viljum við sjá framfarir. Af því orðin leiða hugmyndir fólks í ljós, geta þau hvorki verið fleiri eða öðruvísi en hugmyndunum er samboðið. Séu hugmyndirnar þróttlitlar, óskýrar og á reiki, hljóta orðin að vera það líka. Þannig stendur mál hverrar þjóðar í nauðsynlegu hlutfalli við þá menntun sem hún hefur öðlast. Sé mál hennar orðfátt, má ganga að því vísu að sú þjóð sé ekki komin langt í menntun. Því hefur verið haldið fram að engin þjóð getur átt fagurt og vandað mál sem ekki leggi mikla alúð við menntun. Þannig skrifaði Þórður Jónasson, ritstjóri og dómstjóri, í fyrstu blaðgreininni um íslenskt mál, sem rituð var árið 1847 í Reykjavíkurpósti. Þessar hugleiðingar eru sígildar og eiga enn við í dag. Við verðum að halda áfram að auka framboðið að menntun í íslensku til þess að við sjáum Ísland þróast í þá átt sem við viljum, sem er hiklaust að allir hafi jöfn tækifæri í lífinu.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Greinin birtist fyrst á visir.is 1. febrúar 2024.
01/02/2024
Tveggja ára innviðaráðuneytiÍ dag eru tvö ár liðin frá því að nýtt og öflugt ráðuneyti, innviðaráðuneytið, tók til starfa. Ráðuneytið er ávöxtur breytts stjórnarráðs þar sem ákveðið var að færa málaflokka á milli ráðuneyta til að stjórn ríkisins tæki betur mið af samfélaginu og þeim fjölbreyttu og brýnu verkefnum sem vinna þarf að frá degi til dags til að leggja traustari grunn að framtíðinni. Í fyrsta sinn voru sameinaðir undir eina yfirstjórn málaflokkar sveitarstjórna, samgangna, byggðamála, húsnæðismála og skipulagsmála. Með þessu var stigið stórt skref sem hefur í för með sér mun betri sýn yfir málaflokka sem snerta daglegt líf allra landsmanna.
Vörðum leiðina saman
Verkefni ráðuneytisins eru mörg og þau eru mikilvæg. Innviðaráðuneytið býr að því að eiga innan vébanda sinna öflugt fólk sem vinnur af krafti við að mæta þörfum og kröfum samfélagsins. Við höfum á þeim tveimur árum sem liðin eru frá stofnun ráðuneytisins lagt mikla áherslu á lifandi og djúpt samtal við samfélagið. Haustið 2022 voru haldnir samráðsfundir í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga undir yfirskriftinni Vörðum leiðina saman og voru þeir fundir mikilvægur liður í samhæfingu ráðuneytisins á sviði stefnumótunar í málaflokkum byggða-, samgöngu-, húsnæðis-, sveitarstjórnar- og skipulagsmála. Þessir fundir eru þó aðeins brot af því víðtæka samráði og samtali sem innviðaráðuneytið á í á hverjum tíma.
Á þessu þingi og því síðasta hef ég lagt fyrir þingið áætlanir sem varða alla þessa málaflokka og hafa tvær þeirra verið samþykktar á Alþingi: Byggðaáætlun og stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga. Þessar vikurnar eru nefndir þingsins að vinna að landsskipulagsstefnu, samgönguáætlun og húsnæðisstefnu. Allar eru þessar stefnur ávextir vinnu hins tveggja ára ráðuneytis.
Húsnæðismálin eru í öndvegi
Allir málaflokkar ráðuneytisins eru mikilvægir. Það er þó ljóst að sá málaflokkur sem hefur fengið mesta kastljósið þessi fyrstu tvö árin er húsnæðismálin. Húsnæðisstefnan sem nú liggur fyrir þinginu er ótrúlegt en satt fyrsta heildstæða áætlunin um húsnæðismál á Íslandi. Hún mun ramma inn hugmyndafræði og aðgerðir sem varða leiðina næstu árin og áratugina. Ég hef sem innviðaráðherra lagt höfuðáherslu á gott samstarf við sveitarfélögin sem hafa skipulagsvaldið og eru því mikilvægur hlekkur í þeirri miklu uppbyggingu húsnæðis sem við verðum að ráðast í á næstu árum. Sumarið 2022 undirritaði ég rammasamkomulag við Samband íslenskra sveitarfélaga sem miðar að því að á tíu árum verði byggðar 35 þúsund nýjar íbúðir svo þörf samfélagsins verði mætt. Stóra markmiðið í þeirri stefnu er að vinna gegn þeim miklu sveiflum sem við höfum upplifað á húsnæðismarkaði síðustu ár og áratugi með tilheyrandi áhrifum á verð, verðbólgu og vexti. Í framhaldinu hefur verið unnið að samningum við einstaka sveitarfélög og hef ég undirritað samninga við tvö sveitarfélög, Reykjavík og Vík í Mýrdal. Fleiri samningar eru í uppsiglingu. Þrátt fyrir óhagstætt umhverfi verðbólgu og hárra vaxta hefur þessu stóra verkefni miðað vel. Þótt fyrstu skrefin hafi þurft að vera styttri og varfærnari vegna aðstæðna er markmiðið um 35 þúsund nýjar íbúðir óbreytt. Þarfir ört vaxandi samfélags kalla einfaldlega á öflugt samstarf ríkis, sveitarfélaga og iðnaðarins.
Við gerum gagn
Fyrstu tvö ár innviðaráðuneytisins hafa einkennst af ákveðnum hugsunarhætti sem má ramma inn í orðin: Við gerum gagn. Í þessum orðum má lesa ákveðna auðmýkt en á sama tíma gömul og góð íslensk gildi um dugnað og ósérhlífni.
Við sem störfum í innviðaráðuneytinu munum áfram vinna eftir þessum hugsunarhætti. Þjónusta okkar við samfélagið er okkur alltaf efst í huga. Fyrstu tvö árin eru liðin og við höldum ótrauð áfram veginn.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og innviðaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgnblaðinu 1. febrúar 2024.
31/01/2024
Stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á ÍslandiStefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi. Framleiðsla rafeldsneytis, sem gæti verið vetni, ammóníak, metanól eða metan yrði mikilvægt framlag í baráttu okkar gegn hlýnun loftslags og til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Mælti hann fyrir tillögunni í vikunni.
TILLÖGUGREININ HLJÓÐAR SVO:
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að taka til frumathugunar stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi. Litið verði við þessa frumathugun til starfsemi Equinor í Noregi, fyrrum Statoil.“
„Eftirspurn eftir grænu vetni sem framleitt hefur verið með rafgreiningu vatns og endurnýjanlegri orku, samhliða markmiðum í loftslagsmálum, fer einungis vaxandi á komandi árum,“ sagði Stefán Vagn.
Fór hann yfir að Íslendingum væri mikilvægt að geta orðið sjálfbærir er komi að öflun rafeldsneytis, ekki síst nú er horft er á alvarlegt ástand heimsmála.
Sjálfbærni í orkuöflun er þjóðaröryggismál
„Þjóðhagslegir hagsmunir eru fólgnir í því að framleiða innlenda orkugjafa til notkunar í orkuskiptum Íslendinga. Framtíðartækifæri eru mikil þegar kemur að framleiðslu á rafeldsneyti og hún styður við markmið okkar um orkusjálfstæði Íslands,“ sagði Stefán Vagn.
„Ásamt því að framleiða endurnýjanlega orkugjafa til að fullnægja þörfum innan lands liggja einnig gríðarleg tækifæri í að hefja útflutning á rafeldsneyti.
Framleiðsla á rafeldsneyti er kostnaðarsöm aðgerð. Þótt framleiðsla á rafeldsneyti og sala sé hlutfallslega lítil nú er áhugi fjárfesta mikill. Ákveðin tækifæri felast í því að fjármagna framleiðsluna þegar markaðir eru orðnir tryggir. Á heimsvísu er gert ráð fyrir því að kostnaðarliðir fari lækkandi á næstu árum. Eitt af tækifærum Íslands við framleiðslu rafeldsneytis er að nýta mögulega árstíðabundna umframorku og hámarka arðsemi.
Með stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu sem yrði í meirihlutaeigu ríkisins er tryggt að stærstur hluti ábata af framleiðslunni renni til þjóðarinnar. Ef horft er til Noregs og stofnunar ríkisolíufélagsins Statoil árið 1972 ætti öllum að vera ljós ábati norska ríkisins af þeirri ákvörðun. Norski olíusjóðurinn er einn hinn stærsti í heimi og hefur gerbreytt stöðu Norðmanna við uppbyggingu innviða og þjónustu við íbúa um allan Noreg.
Íslendingar eru í kjörstöðu til að nýta auðlindir sínar til framleiðslu rafeldsneytis, bæði fyrir innanlandsframleiðslu og mögulega til útflutnings, og styrkja þannig tekjustofna ríkissjóðs.“
„Við á Íslandi erum í sterkri stöðu til orkuskipta. Þar af leiðandi þurfum við að gæta þess að tækifærin sem liggja fyrir í þessum málaflokki renni okkur ekki úr greipum. Tæknin er til staðar og okkur ber að nýta hana í þágu þjóðarinnar,“ sagði Stefán Vagn að lokum.
31/01/2024
Rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígsIngibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs. Mælti hún fyrir tillögunni í vikunni en tillagan hefur að markmiði að stuðla að öflun gagna sem nýtast við greiningu á áhættuhópum, í forvarnastarfi og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða með það að markmiði að koma í veg fyrir sjálfsvígstilraunir og sjálfsvíg.
TILLÖGUGREININ HLJÓÐAR SVO:
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem rannsaki afturvirkt mögulegt orsakaferli, áföll, lýðfræðilegar breytur, komur/innlagnir á heilbrigðisstofnanir og breytingar í lífi einstaklinga í undanfara sjálfsvígs. Starfshópurinn skili skýrslu með tölfræði og tillögum að aðgerðum, bæði fyrirbyggjandi og í forvarnarstarfi til framtíðar, eigi síðar en 1. maí 2024.“
„Það er skoðun flutningsmanna að að lokinni gagnaöflun verði tryggt að hægt sé að skoða reglulega og á aðgengilegan hátt breyturnar sem tilteknar eru í tillögugreininni, þannig megi meta árangur aðgerða. Þá verði starfshópnum að meta hvort setja eigi á laggirnar hóp innan stjórnsýslunnar sem tæki að sér þetta verkefni til framtíðar. Tillaga er lögð fram í kjölfar samtala við heilbrigðisstarfsfólk, m.a. við verkefnastjóra sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis,“ sagði Ingibjörg.
„Sjálfsvíg eru ekki rannsökuð afturvirkt þar sem undanfari þeirra er skoðaður í þaula í leit að þáttum sem komu einstaklingnum í það hugarástand sem hann var í við andlátið. Flutningsmenn þingsályktunartillögu þessarar telja nauðsynlegt að slík rannsókn fari fram með þeim hætti að fara afturvirkt yfir lýðfræðilegar breytur, aðstæður, atburði og möguleg áföll sem einstaklingurinn upplifði í undanfara sjálfsvígs. Þá er m.a. átt við brottfall úr skóla, atvinnumissi eða langvarandi atvinnuleysi, sambandsslit, makamissi, ofbeldi, neyslu vímugjafa og hvað annað sem getur haft áhrif. Með slíkri rannsókn er hægt að afla hagnýtra gagna sem geta skipt sköpum í áframhaldandi vinnu samfélagsins gegn sjálfsvígum, bæði í forvarnavinnu og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða. Gögnin myndu einnig nýtast við það mikilvæga verkefni að greina áhættuhópa í samfélaginu, þ.e. þá hópa sem líklegri eru til að upplifa sjálfsvígshugsanir, gera sjálfsvígstilraunir eða deyja í sjálfsvígi, umfram hefðbundnar breytur á borð við kyn, aldur og búsetu. Nú eru slík gögn ekki til staðar,“ segir í greinargerðinni.
31/01/2024
Þjóðinni verði treyst hvort frambjóðandi búi yfir „lipurð og mannþekkingu“Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnaskrá um kjörgengi til forseta Íslands. Hún leggur til að samþykkt verði að fella á brott 35 ára aldurstakmarkið um kjörgengi til forseta. Vill hún þannig undirstrika að aldur eigi ekki vera hæfniviðmið og eins eigi það ekki að liggja til grundvallar hvort einstaklingur hafi öðlast ákveðna reynslu eða hæfni.
Frumvarpsgreinin hljóða svo:
„4. gr. stjórnarskrárinnar orðast svo:
Kjörgengur til forseta er hver maður, sem fullnægir skilyrðum kosningarréttar til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu.“
Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a.: „Krafist er mun hærri lágmarksaldurs frambjóðenda til embættis forseta lýðveldisins en almennt er gert í íslenskri löggjöf. Í athugasemdum við stjórnarskrárfrumvarpið frá árinu 1944 kemur fram að „ekki þykir hlýða, að yngri maður en 35 ára geti orðið forseti“ þar sem forseti þarf að búa yfir, auk margs annars, „lipurð og mannþekkingu, sem ekki fæst nema með nokkrum aldri“. Vegna þessarar afstöðu löggjafans á þeim tíma var ákveðið að festa í stjórnarskrána það kjörgengisskilyrði að frambjóðandi til forseta skyldi hafa náð 35 ára aldri á kjördag. Á þessu ári verða liðin 80 ár frá staðfestingu stjórnarskrárinnar, og þar með umræddu ákvæði, og tíðarandinn annar. Það þykir sjálfsagt að forseti lýðveldisins skuli hafa öðlast ákveðna lífsreynslu og mannþekkingu, sem vissulega öðlast almennt með aldrinum. Hins vegar hlýtur að teljast álitamál hvert aldurstakmarkið á að vera hvað þau atriði varðar.“
Síðan segir: „Almennt er talið að einstaklingur þurfi að hafa sýnt kjósendum fram á hæfni sína til að ná kjöri til embættis. Það á við hvort sem um er að ræða forsetakosningar, alþingiskosningar eða sveitarstjórnarkosningar. Í lýðræðissamfélagi fær þjóðin traust til að velja sér fulltrúa í embætti á vegum ríkisins. Ekki er gerð krafa um ákveðna menntun, ákveðna hæfileika eða ákveðna kunnáttu í slíkri kosningu, enda er gert ráð fyrir að kjósendur kynni sér frambjóðendur og taki upplýsta ákvörðun er þeir greiða atkvæði hverju sinni. Hins vegar virðist svo ekki vera í forsetakosningum þar sem sett er skilyrði um að forseti megi ekki vera yngri en 35 ára. Þó er ekki gerð sérstök krafa í lögum um að forsætisráðherra eða forseti Alþingis séu eldri en 18 ára, en þeir fara með forsetavald, ásamt forseta Hæstaréttar, í ákveðnum tilfellum, sbr. 8. gr. stjórnarskrárinnar.“
„Það er mat flutningsmanna að afnema eigi skilyrði um að forsetaefni skuli hafa náð 35 ára aldri á kjördag. Fjölmargir einstaklingar undir 35 ára aldri gætu hæglega staðist kröfur þjóðarinnar hvað embættið varðar og sinnt því vel. Rétt eins og þjóðinni er treyst til að ákveða hæfi frambjóðenda á grundvelli menntunar og fyrri starfa, þá eigi henni einnig að vera treystandi til að taka ákvörðun um hvort frambjóðandi búi yfir „lipurð og mannþekkingu“, sérstaklega í ljósi þess að upplýsingaflæði innan samfélagsins hefur batnað til muna frá samþykkt stjórnarskrárinnar, t.d. með tilkomu alnetsins. Fólk getur auðveldlega tekið upplýstar ákvarðanir og frambjóðendur hafa aukin tækifæri til að koma hæfi sínu, eiginleikum og reynslu til skila. Það að einstaklingur þurfi að vera orðinn 35 ára til að geta orðið forseti lýðveldisins er tímaskekkja og sýnir ákveðið vantraust gagnvart kjósendum til að velja hæfasta einstaklinginn í embættið.“
30/01/2024
Hvert geta innflytjendur leitað til að fá sína menntun metna?Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi mat á menntun innflytjenda og atvinnuþátttöku þeirra á Íslandi í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi. Félags- og vinnumarkaðsráðherra var til andsvara.
„Innflytjendur eru nú um 18% af heildarfjölda landsmanna og í mörgum samfélögum eru innflytjendur yfir 20% íbúa, það á t.d. við í Fjarðabyggð þar sem ég bý, og það eru dæmi um mun hærra hlutfall, hæst yfir 60% í Mýrdalshreppi og kringum 30% í nokkrum sveitarfélögum eins og Hornafirði, Tálknafirði og Reykjanesbæ,“ sagði Líneik Anna.
Innflytjendur voru um 23% af heildarfjölda starfandi á Íslandi á seinni hluta síðasta árs og er atvinnuþátttaka þeirra orðin mun meiri en í öðrum norrænum ríkjum. Þegar almenn atvinnuþátttaka á Íslandi er 82% sem þykir hátt í alþjóðlegum samanburði, er atvinnuþátttaka innflytjenda er þó enn meiri eða tæplega 87%.
„Innflytjendur sinna mikilvægum störfum, t.d. í fiskvinnslu eða iðnaði, ferðaþjónustu og í vaxandi mæli heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Margir innflytjendur sinna störfum þar sem ekki er gerð krafa um menntun og það oft þrátt fyrir að vera jafnvel með sérhæfða menntun sem mikil þörf er fyrir á íslenskum vinnumarkaði,“ sagði Líneik Anna.
„Að fjárfesta í fólki til framtíðar er eitt af leiðarljósum Framsóknar og þær áherslur endurspeglast í stjórnarsáttmála, m.a. þar sem segir: „Tryggja þarf að innflytjendur sem hér vilja búa og starfa fái tækifæri til aðlögunar og geti nýtt hæfileika sína, þekkingu og reynslu.“
Í því ljósi vil ég spyrja hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra: Hvert geta innflytjendur leitað til að fá sína menntun metna og hvernig fer mat á menntuninni fram? Ég spyr líka hvort og hvernig unnið er að því að tryggja aðgengi að mati á menntun. Gildir það sama t.d. um háskólamenntaða og iðnmenntaða?“
„Við erum ekki með eitt samræmt kerfi eða gátt sem viðkomandi innflytjandi getur leitað í“
Félags- og vinnumarkaðsráðherra benti á að OECD hafi verið fengið til að aðstoða við gerð fyrstu stefnu Íslands í málefnum innflytjenda. Í þeirra vinnu hefur komið fram að um 42% innflytjenda hér á landi inni af höndum störf sem krefjist ekki sérstakrar menntunar, þó svo að hlutfall innflytjenda sem hér búa og ekki hafa lokið sértækri menntun sé 17%. OECD segir einnig að menntunarstig innlendra og innflytjenda sé áþekkt og að ekki sé marktækur munur á menntunarstigi þeirra sem koma utan EES og innan EES.
„Mat á námi innflytjenda heyrir má segja undir þrjú ráðuneyti, þ.e. heilbrigðisráðuneytið hvað varðar starfsleyfi fyrir heilbrigðisstéttir; háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti varðandi lögvarin starfsréttindi iðngreina; og mennta- og barnamálaráðuneytið varðandi starfsleyfi fyrir leik-, grunn- og framhaldsskólakennara. Afleiðingarnar á sviði inngildingar koma þá að ráðuneytinu hjá mér og Vinnumálastofnun sem í sumum tilfellum getur í rauninni ekki fundið störf við hæfi fyrir fólk, þegar um er að ræða aðstoð við það, þar sem starfsréttindin eru ekki viðurkennd. Eitt af vandamálunum er það að við erum ekki með eitt samræmt kerfi eða gátt sem viðkomandi innflytjandi getur leitað í til að fá menntun sína metna. Þess vegna eru leiðirnar ólíkar milli greina, hvernig staðið er að því að meta þetta, óháð því undir hvaða ráðuneyti þau mál síðan að endingu heyra,“ sagði félags- og vinnumarkaðsráðherra.