Categories
Fréttir

„Samtal milli þjóða hefur aldrei verið mikilvægara í því ástandi sem nú ríkir í heiminum“

Deila grein

19/10/2023

„Samtal milli þjóða hefur aldrei verið mikilvægara í því ástandi sem nú ríkir í heiminum“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, fór yfir störf þingmannanefndar um norðurskautsmál er fundaði á Egilsstöðum í vikunni í störfum þingsins. Þátttakendur voru þingmenn og starfsmenn þjóðþinga frá Norðurlöndunum, Kanada og Bandaríkjunum. Eins sátu fulltrúar Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs fundina. Margir þátttakendur á þessum fundi munu í framhaldinu taka þátt í Hringborði norðurslóða.

„Áherslurnar í samstarfi þingmannanna snúast nú sem áður um þrjár stoðir sjálfbærni: Í fyrsta lagi þróun mannlífs á norðurslóðum og þar með málefni frumbyggja og velferð í samfélögunum, loftslagsbreytingar og sambúð manns og náttúru og loks sjálfbæra efnahagsþróun.

Áhrif loftslagsbreytinga blasa nú við í öllum þessum löndum, hvort sem er með tíðari krapaflóðum á Austfjörðum eða gróðureldum í Norður-Ameríku. Á fundinum kynnti Morten Høglund formennskuáætlun Noregs í Norðurskautsráðinu og átti virkt samtal við nefndarmenn í gegnum fjarfundabúnað um samstarfið í víðu samhengi. Starfsmenn þeirra vinnuhópa Norðurskautsráðsins sem hafa starfsstöð á Akureyri kynntu vinnuna sem fram fer á þeirra vegum,“ sagði Líneik Anna.

„Á þessum fundum ræða þingmenn leiðir til að ná árangri í baráttu fyrir sameiginlegum hagsmunum íbúa við norðurskautið og kynna sér samfélögin þar sem fundað er hverju sinni, enda alltaf hægt að læra hvert af öðru. Í því skyni fengu gesti kynningu á orkumálum á Austurlandi, heimsóttu Fljótsdalsstöð og hitaveitu Múlaþings auk þess að fá innsýn í sjávarútveg og ýmsa uppbyggingu á ferðaþjónustu. Samtal milli þjóða hefur aldrei verið mikilvægara í því ástandi sem nú ríkir í heiminum,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Þingmannanefnd um norðurskautsmál fundaði á Egilsstöðum í gær. Þann fund sóttu rúmlega 20 manns, þingmenn og starfsmenn þjóðþinga frá Norðurlöndunum, Kanada og Bandaríkjunum. Þá sitja fulltrúar Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs fundina. Margir þátttakendur á þessum fundi munu í framhaldinu taka þátt í Hringborði norðurslóða. Áherslurnar í samstarfi þingmannanna snúast nú sem áður um þrjár stoðir sjálfbærni: Í fyrsta lagi þróun mannlífs á norðurslóðum og þar með málefni frumbyggja og velferð í samfélögunum, loftslagsbreytingar og sambúð manns og náttúru og loks sjálfbæra efnahagsþróun.

Áhrif loftslagsbreytinga blasa nú við í öllum þessum löndum, hvort sem er með tíðari krapaflóðum á Austfjörðum eða gróðureldum í Norður-Ameríku. Á fundinum kynnti Morten Høglund formennskuáætlun Noregs í Norðurskautsráðinu og átti virkt samtal við nefndarmenn í gegnum fjarfundabúnað um samstarfið í víðu samhengi. Starfsmenn þeirra vinnuhópa Norðurskautsráðsins sem hafa starfsstöð á Akureyri kynntu vinnuna sem fram fer á þeirra vegum. Annars vegar er vinnuhópurinn sem hefur skammstöfunina CAFF, sem fjallar um viðhald líffræðilegs fjölbreytileika, bæði flóru og fánu, og hins vegar hópurinn PAME, sem fæst við umhverfisvernd og sjálfbæra nýtingu í hafinu.

Á þessum fundum ræða þingmenn leiðir til að ná árangri í baráttu fyrir sameiginlegum hagsmunum íbúa við norðurskautið og kynna sér samfélögin þar sem fundað er hverju sinni, enda alltaf hægt að læra hvert af öðru. Í því skyni fengu gesti kynningu á orkumálum á Austurlandi, heimsóttu Fljótsdalsstöð og hitaveitu Múlaþings auk þess að fá innsýn í sjávarútveg og ýmsa uppbyggingu á ferðaþjónustu. Samtal milli þjóða hefur aldrei verið mikilvægara í því ástandi sem nú ríkir í heiminum.“

Categories
Fréttir Greinar

Taugatitringur á alþjóðamörkuðum en hægfara bati

Deila grein

19/10/2023

Taugatitringur á alþjóðamörkuðum en hægfara bati

Síðasta vika á fjár­mála­mörkuðum hef­ur ein­kennst af flótta fjár­festa úr áhættu í ör­yggi, þ.e. ávöxt­un­ar­krafa á rík­is­skulda­bréf hef­ur lækkað meðan hluta­bréf­in hafa fallið í verði. Meg­in­or­sök­in er að mikl­ar vær­ing­ar eru í alþjóðastjórn­mál­un­um. Stríðin í Mið-Aust­ur­lönd­um og Úkraínu hafa mest um þessa þróun að segja.

Horf­urn­ar og hagspá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins

Efna­hags­bat­inn á heimsvísu er hæg­fara og ójafn eft­ir svæðum. Hag­vöxt­ur er minni hjá ný­markaðs- og þró­un­ar­ríkj­um. Ýmsir þætt­ir vega þungt, t.a.m. hafa vext­ir hjá ýms­um ný­markaðsríkj­um verið hærri vegna auk­inn­ar verðbólgu, sem hef­ur dregið úr hag­vexti. Sú verðbólga sem heims­bú­skap­ur­inn hef­ur verið að kljást við hef­ur verið drif­in áfram af mörg­um þátt­um, en helst ber að nefna rösk­un á aðfanga­keðjunni, um­fangs­mikl­ar stuðningsaðgerðar op­in­berra aðila til að styðja við eft­ir­spurn vegna covid-19, stríðið í Úkraínu, vax­andi spennu í sam­skipt­um Banda­ríkj­anna og Kína ásamt auk­inni vernd­ar­stefnu ríkja um heim all­an. Verðbólga á heimsvísu er víða í rén­un en það er of snemmt að fagna sigri. Verðbólg­an í Banda­ríkj­un­um er enn býsna treg enda öfl­ug­ur gang­ur efna­hags­lífs­ins, en bet­ur hef­ur gengið með verðbólg­una víða í Evr­ópu, en þar eru önn­ur vanda­mál, t.d. mæl­ist efna­hags­sam­drátt­ur í Þýskalandi. Í efna­hags­spá AGS sem birt­ist í síðustu viku er gert ráð fyr­ir að hag­vöxt­ur á heimsvísu lækki úr 3,5% árið 2022, í 3% bæði árið 2023 og árið 2024. Hagspá­in er und­ir sögu­leg­um vexti á heimsvísu, sem var að meðaltali 3,8% fyrstu tvo ára­tugi ald­ar­inn­ar. Hækk­un stýri­vaxta seðlabanka sem bein­ist gegn verðbólgu held­ur áfram að hægja á efna­hags­um­svif­um. Gert er ráð fyr­ir að verðbólga á heimsvísu lækki úr 8,7% árið 2022 í 6,9% árið 2023 og 5,8% árið 2024. Áætlað er að und­ir­liggj­andi (kjarna)verðbólga lækki meira og smám sam­an og hafa spár um verðbólgu árið 2024 verið end­ur­skoðaðar til hækk­un­ar. Gert er ráð fyr­ir að verðbólga á heimsvísu nái jafn­vægi árið 2025. Spár fyr­ir árið 2023 og 2024 eru hins veg­ar end­ur­skoðaðar lít­il­lega til lækk­un­ar og ekki er gert ráð fyr­ir að verðbólga nái mark­miði fyrr en árið 2025 í flest­um til­vik­um.

Áfram­hald­andi órói í heims­hag­kerf­inu

Áhætt­an í alþjóðahag­kerf­inu held­ur áfram að aukast og end­ur­spegl­ast það á fjár­mála­mörkuðum. Greina má þessa áhættuþætti í fimm þætti. Í fyrsta lagi hafa stríðin í Úkraínu og Mið-Aust­ur­lönd­um veru­lega nei­kvæð áhrif á líf fólks­ins á svæðinu. Skelfi­leg stríð sem bitna verst á sak­lausu fólki. Í öðru lagi, þá hækkaði verðbólg­an í Banda­ríkj­un­um lít­ils hátt­ar, sem gef­ur til kynna að hún er þrálát­ari en von­ir stóðu til. Þetta þýðir að vext­ir verða hærri til lengri tíma í Banda­ríkj­un­um en ýms­ir markaðsaðilar gerðu ráð fyr­ir. Í þriðja lagi rík­ir stöðnun í Kína og hag­kerfið þar er að mæta ýms­um nýj­um áskor­un­um í fjár­mála­kerf­inu og á fast­eigna­markaði. Þetta er ný staða fyr­ir kín­verska hag­kerfið, sem hef­ur vaxið gríðarlega síðustu ára­tugi og að mörgu leyti dregið vagn­inn varðandi hag­vöxt í heims­bú­skapn­um. Að sama skapi skort­ir enn á gagn­sæi á mörkuðum þar og því hafa fjár­fest­ar meiri fyr­ir­vara en ella. Í fjórða lagi hef­ur skuld­astaða ný­markaðs- og þró­un­ar­ríkja versnað og í háu vaxtaum­hverfi þurfa fleiri ríki á end­ur­skipu­lagn­ingu skulda að halda. Sömu lög­mál ríkja um einka­geir­ann sem ekki hef­ur farið var­hluta af vaxta­hækk­un­um eft­ir ára­tugi hag­kvæmra vaxta. Að lok­um má nefna að alþjóðavæðing hef­ur átt und­ir högg að sækja og hef­ur vöxt­ur alþjóðlegra viðskipta­hindr­ana verið mik­ill. Sú þróun ýtir und­ir hækk­an­ir á verðbólgu á heimsvísu.

Tíðar stýri­vaxta­hækk­an­ir hafa ekki skilað til­ætluðum ár­angri – hvað veld­ur?

Pen­inga­stefn­an í Banda­ríkj­un­um hef­ur verið afar aðhalds­söm í rúmt ár og verðbólg­an hef­ur lækkað og nem­ur nú 3,7%. Stýri­vext­ir hafa ekki verið jafn­há­ir í Banda­ríkj­un­um í 22 ár. Banda­ríska hag­kerfið er ekki að bregðast við stýri­vöxt­um með hefðbundn­um hætti. Þrátt fyr­ir það hef­ur fram­leiðslutapið ekki verið mikið né held­ur hef­ur at­vinnu­leysið auk­ist. Meg­in­or­sök verðbólg­unn­ar er dýpri en að hægt sé að skýra hana út ein­vörðungu með efna­hagsaðgerðum sem tengj­ast covid-19. Þó hafa marg­ir talið að um­fram­eft­ir­spurn­in í banda­ríska hag­kerf­inu í kjöl­far covid-19 sé rót vand­ans. Hins veg­ar er það svo að þess­ar efna­hagsaðgerðir hafa aukið ójafn­vægið sem kom vegna þeirra efna­hagsaðgerða sem farið í í kjöl­far alþjóðlegu fjár­málakrepp­unn­ar 2008-2010. Stýri­vext­ir voru lækkaðir veru­lega og hin magn­bundna íhlut­un var afar um­fangs­mik­il, þannig að kaup seðlabanka á skulda­bréf­um voru mik­il og pen­inga­magn í um­ferð jókst veru­lega eða sem nem­ur um 8 trilljón­um banda­ríkja­dala. Aug­ljós­lega hef­ur þessi aukn­ing mik­il áhrif á eft­ir­spurn í hag­kerf­inu. Pen­inga­magn í um­ferð jókst frá því að vera um 500 millj­arðar í 8 trilljón­ir frá 2007-2022. Banda­ríski seðlabank­inn hef­ur hafið áætl­un um að draga úr skulda­bréfa­kaup­un­um og draga úr þessu pen­inga­magni í um­ferð. Að sama skapi hef­ur rík­is­fjár­mál­in skort aðhald enda er fjár­laga­hall­inn í ár um 10% af lands­fram­leiðslu þrátt fyr­ir kröft­uga viðspyrnu hag­vaxt­ar í kjöl­far covid. Á ár­un­um 2020 og 2021 var fjár­laga­halli um 10-14% af lands­fram­leiðslu. Seðlabanki Banda­ríkj­anna hef­ur ekki verið einn í því að stækka efna­hags­reikn­ing­inn sinn veru­lega, sama þró­un­in hef­ur verið í öll­um helstu seðlabönk­um ver­ald­ar.

Stærsta viðfangs­efni ís­lensks sam­fé­lags

Ísland hef­ur ekki farið var­hluta af þeirri verðbólguþróun sem hef­ur átt sér stað í heim­in­um. Á ár­inu 2022 tók verðbólga seinna við sér á Íslandi en í mörg­um sam­an­b­urðarríkj­um. Á tíma­bili mæld­ist sam­ræmd verðbólga á Íslandi sú næst­lægsta í Evr­ópu, eða 6,4% í nóv­em­ber 2022 sam­an­borið við 11,5% hjá ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins. Verðbólg­an hér á landi hélt áfram að hækka þar til hún náði há­marki í byrj­un árs þegar hún mæld­ist 10,2%. Síðan þá höf­um við séð hana lækka en í dag stend­ur hún í 8%. Mik­ill þrótt­ur hef­ur ein­kennt ís­lenska hag­kerfið síðasta ár, sem skýrist af mikl­um viðsnún­ingi í ferðamennsk­unni og hag­kvæm­um viðskipta­kjör­um fyr­ir sjáv­ar­út­veg og iðnað. Helsta stjórn­tæki Seðlabanka Íslands, stýri­vext­irn­ir, er farið að skila til­ætluðum ár­angri til kæl­ing­ar. Rík­is­fjár­mál­in hafa stigið skarpt til hliðar frá því í covid og ný­lega hef­ur rík­is­stjórn­in kynnt aðhald­samt fjár­laga­frum­varp fyr­ir árið 2024 þar sem lögð er áhersla á aðhald og aukna for­gangs­röðun í rík­is­rekstr­in­um á sama tíma og staðinn er vörður um mik­il­væga grunnþjón­ustu í land­inu. Glím­an við verðbólg­una er stærsta viðfangs­efni sam­fé­lags­ins, en verðbólg­an bitn­ar verst á þeim sem síst skyldi; þeim efnam­inni. Það að ná niður verðbólgu er al­gjört for­gangs­mál rík­is­stjórn­ar­inn­ar, en á þeirri veg­ferð þurfa all­ir að ganga í takt; stjórn­völd, Seðlabanki Íslands og aðilar vinnu­markaðar­ins. Ég er bjart­sýn á að við mun­um sjá verðbólg­una lækka á kom­andi mánuðum ef við höld­um rétt á spil­un­um, en það er til mjög mik­ils að vinna fyr­ir heim­ili og fyr­ir­tæki lands­ins að ná tök­um á henni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. október 2023.

Categories
Greinar

Stjórnvöld þurfa að bregðast strax við

Deila grein

19/10/2023

Stjórnvöld þurfa að bregðast strax við

Það blasir við um þessar mundir að íslenskur landbúnaður stendur á krossgötum, upp er komin sú staða sem gerir það að verkum að lítil endurnýjun á sér stað í landbúnaði, meðalaldur íslenskra bænda er 57 ár og er greinin og stéttin að eldast töluvert.

Skortur er á aðgerðum stjórnvalda í þessum efnum til að tryggja rausnarlegan stuðning fyrir nýliðun í landbúnaði
og stuðla að fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar til framtíðar.
Stórauka þarf framlög til bænda í gegnum búvörusamninga og hækka strax tafarlaust tolla á innflutt kjöt sem gengur kaupum og sölu á frjálsum markaði á verði sem íslenskir bændur geta ekki keppt við.

Ráðast þarf tafarlaust í aðgerðir til að stuðla að nýliðun í landbúnaðinum með því að markaðssetja nám í landbúnaðartengdum fræðum og veita fólki stuðning við að taka við af foreldrum sínum. Einnig þarf að styðja við þá sem vilja láta drauminn rætast og hefja búskap. Það er ekki bara fullnægjandi að hafa nýliðunarstyrk, heldur verðum við líka að tryggja aðra hluti. Eins og við sjáum í hlutdeildarlánunum. Þessar ívilnanir þurfum við að innleiða í landbúnaðarkerfinu til að aðstoða ungt fólk við að koma sér upp búi og húsi og aðstöðu. Við þurfum að koma með þessar lausnir með skjótum hætti, sé það meiningin að tryggja hér fæðuöryggi og auka framleiðslu á landbúnaðarvörum.

Bændur hafa fundið rækilega fyrir hækkun á aðföngum, eins og fóðri, plasti og áburði. Ástæðan er sú að hráefni til áburðarframleiðslu eru meðal annars í Rússlandi. Einnig er vaxtakostnaður og verðbætur að sliga íslenska
bændur, sem hafa fjárfest fyrir gríðarlegar fjárhæðir í tækjakost sínum. Sauðfé í landinu er nú orðið færra en mannfólk vegna þess að bændur bregða búi og enginn tekur við, ætlum við að halda áfram á þessari braut inn í framtíðina og glata þannig sjálfstæðri matvælaframleiðslu og um leið fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar?

Anton Guðmundssonodd­viti Fram­sókn­ar og formaður bæj­ar­ráðs í Suður­nesja­bæ

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 19. október 2023

Categories
Fréttir Greinar

Hannað hér – en sigrar heiminn

Deila grein

18/10/2023

Hannað hér – en sigrar heiminn

Hvern hefði órað fyrir því að íslenskir eikarvaðfuglar gætu flogið svo víða? Eða að íslenskt geimhagkerfi yrði til þess að tengja saman milljónir manna? Eða að íslenskt grjót yrði eftirsóknarvert í nytjahluti. Einhverja – en þó fæsta. Elja, áræði og stundum heppni hefur flutt íslenskt hugvit út fyrir landssteinana en aflið sem hefur skilað því hugviti lengst er góð hönnun. Íslensk hönnun er á heimsmælikvarða.

Sýnilegur árangur

Nú stendur yfir sýning á verkum 14 íslenskra hönnuða sem eiga það sammerkt að hafa hannað vörur og húsgögn sem eru þróaðar, framleiddar og seldar á Norðurlöndunum, Bretlandi og Bandaríkjunum. Með sýningunni er varpað ljósi á íslenska húsgagna- og vöruhönnun; fagi sem í alþjóðlegu samhengi er tiltölulega nýtt hér á landi en hefur sannarlega vaxtarmöguleika. Sýningin „Samband“ var upphaflega sett upp í tengslum við hönnunarvikuna 3 days of Design í Kaupmannahöfn í sumar. Það er vel við hæfi að sýningin ferðist líka hingað „heim“ og góðum árangri íslenskrar hönnunar sé miðlað til almennings.

Sóknarfæri

Fagstéttir tengdar hönnunar og arkitektúr fara stækkandi og íslenskum hönnunarfyrirtækjum fjölgar ört. Áhugi á menntun og starfsþróun á sviði hönnunar eykst og til verða spennandi og eftirsóknarverð störf. Við vitum að það eru gríðarleg sóknarfæri til verðmæta- og atvinnusköpunar í hönnunargeiranum, þar er mannauður og hugvit sem við getum virkjað til hagsbóta fyrir samfélagið allt, ekki síst með aukinni hönnunardrifinni nýsköpun og þverfaglegu samstarfi. Það er enda leiðarstef í nýrri hönnunarstefnu sem gefin var út fyrr á þessu ári. Hönnun er okkur mikilvægt breytingaafl og tæki til nýsköpunar sem nýta má á fjölbreyttari hátt en marga órar fyrir.

Gefum hönnun gaum

Íslenskt hugvit er hreyfiafl framfara og íslensk hönnun á sannarlega erindi við heiminn. Hún er allt í kringum okkur, ýmist áþreifanleg og ósýnileg. Og góð hönnun getur verið sannkallaður leikbreytir fyrir árangur og velgengni hugmynda. Um þessar mundir er verið að kynna tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands sem að þessu sinni verða afhentar í þremur flokkum – fyrir verk, stað og vöru. Fjölbreytni þeirra verkefna sem hljóta tilnefningar að þessu sinni fylla mig stolti og bjartsýni, yfir íslenskri hugkvæmni, sköpunarkrafti og fagmennsku. Ég hvet alla til þess að kynna sér tilnefningarnar og gróskuna í íslenskri hönnun.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. október 2023.

Categories
Fréttir

Slysasleppingar í sjókvíaeldi

Deila grein

18/10/2023

Slysasleppingar í sjókvíaeldi

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, var málshefjandi í sérstakri umræðu um slysasleppingar í sjókvíaeldi á Alþingi og var matvælaráðherra var til andsvara.

„Slysasleppingar hafa verið mikið í umræðunni síðustu vikur í kjölfarið á því að það uppgötvaðist gat á netapoka í sjókví í Patreksfirði. Í þá kví vantaði 3.500 fiska samkvæmt tilkynningu MAST. Þegar málið var skoðað nánar kom í ljós að stór hluti laxanna var kynþroska og það er alvarlegt mál,“ sagði Lilja Rannveig.

Hægt er að koma í veg fyrir að fiskar verði kynþroska og er það gert með ljósastýringu. Er rannsókn í gangi hvernig það mátti vera að fiskarnir urðu kynþroska og er mælt kynþroskahlutfall í öðrum fjörðum til að komast að því hvort þetta sé undantekning.

Þar til í ágúst höfðu, samkvæmt upplýsingum Hafrannsóknastofnunar, veiðst átta eldislaxar í skráðum veiðiám frá árinu 2016 þrátt fyrir nokkurn fjölda tilkynntra strokatburða á tímabilinu.

„Því virðist kynþroskinn öllu máli skipta er varðar þessa sprengju í uppgöngu eldislaxa í ár. Sjókvíaeldi er nefnilega einungis leyft á Vestfjörðum og Austfjörðum með mjög miklum skilyrðum til þess að reyna að koma í veg fyrir að eldislax komist í laxveiðiárnar,“ sagði Lilja Rannveig.

Veiðiréttarhafar og landeigendur hafa í mörg ár haft miklar áhyggjur af því að eldislaxar blandist íslenska villta stofninum. Ríkis hagsmunir eru í húfi við að tryggja hreinleika villta laxastofnsins og trúverðugleika og ímynd atvinnugreinarinnar.

„Sjókvíaeldi hefur vaxið með mjög miklum hraða síðastliðin ár. Áhrif sjókvíaeldis á Vestfirði t.d. er óumdeilanlegt. Það er nefnilega mikið í húfi fyrir samfélögin í kringum sjókvíaeldið. Fólk þarf að geta treyst því að þetta sé vel gert.

Þegar upp koma mál eins og þessi slysaslepping þá eru áhrifin víðtækari en bara á þetta eina fyrirtæki. Áhrifin dreifast á önnur fyrirtæki og samfélög á svæðinu þar sem miklir hagsmunir eru einnig undir með fjölda beinna og óbeinna starfa tengdum greininni,“ sagði Lilja Rannveig.

Kallað hefur verið eftir auknu eftirliti í sjókvíaeldi og hafa Vestfirðingar viljað hafa eftirlitsmenn staðsetta í nálægð við fiskeldið. En því miður fyrir daufum eyrum.

„Í byrjun árs gaf ríkisendurskoðandi út skýrslu um lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit í sjókvíaeldi. Í þeirri skýrslu komu fram margar ábendingar og ég ætla að nefna hér nokkrar, með leyfi forseta. Ein ábending var um að það þyrfti að efla eftirlit Matvælastofnunar og það þyrfti að vinna að því markvisst með matvælaráðuneytinu. Þar var nefnt að það þyrfti að gera stofnuninni kleift að sinna óundirbúnu eftirliti og leggja áherslu á eftirlit með skráningum, upplýsingagjöf og innra eftirliti fyrirtækjanna,“ sagði Lilja Rannveig.

„Það kom líka ábending um mótvægisaðgerðir og vöktun vegna strokulaxa þar sem matvælaráðuneytið var hvatt til þess að endurskoða ákvæði laga og reglna um fiskeldi hvað snýr að stroki. Þar var rætt um mögulegar skyldur rekstrarleyfishafa til vöktunar í nærliggjandi ám. En miðað við það hvað eldislaxarnir eru að veiðast á stóru svæði þá mætti kannski spyrja af hverju einungis er verið að horfa á nærliggjandi ár. Það virðist vera þörf á því að hafa vöktun í laxveiðiám um allt land. Því spyr ég ráðherra:

  • Hvernig hyggst hæstv. ráðherra fara í aðgerðir til að tryggja eftirlit áður en farið verður í frekari lagasetningu?
  • Hvers vegna var ekki farið að tryggja strax aukið eftirlit í sjókvíaeldi eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi í vor?
  • Hversu hörð viðurlög telur ráðherra að ættu að vera gagnvart stórum slysasleppingum og takmörkuðu innra eftirliti?
  • Með hvaða aðgerðum hyggst ráðherra koma til móts við áhyggjur um erfðablöndun í laxveiðiám?“

Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:

„Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir að koma hingað og ræða í þingsal um slysasleppingar í sjókvíaeldi. Slysasleppingar hafa verið mikið í umræðunni síðustu vikur í kjölfarið á því að það uppgötvaðist gat á netapoka í sjókví í Patreksfirði. Í þá kví vantaði 3.500 fiska samkvæmt tilkynningu MAST. Þegar málið var skoðað nánar kom í ljós að stór hluti laxanna var kynþroska og það er alvarlegt mál. Sjókvíaeldisfyrirtæki hafa leið til að koma í veg fyrir að fiskar verði kynþroska og það er með ljósastýringu. Verið er að rannsaka þessa dagana hvernig það gat gerst að fiskarnir urðu kynþroska og mæla kynþroskahlutfall í öðrum fjörðum til að komast að því hvort þessi atburður sé undantekning. Þar til í ágúst höfðu, samkvæmt upplýsingum Hafrannsóknastofnunar, veiðst átta eldislaxar í skráðum veiðiám frá árinu 2016 þrátt fyrir nokkurn fjölda tilkynntra strokatburða á tímabilinu. Því virðist kynþroskinn öllu máli skipta er varðar þessa sprengju í uppgöngu eldislaxa í ár. Sjókvíaeldi er nefnilega einungis leyft á Vestfjörðum og Austfjörðum með mjög miklum skilyrðum til þess að reyna að koma í veg fyrir að eldislax komist í laxveiðiárnar. Ástæðan fyrir því er að veiðiréttarhafar og landeigendur, sem í mjög mörgum tilvikum eru bændur, hafa í mörg ár haft miklar áhyggjur af því að eldislaxar blandist íslenska villta stofninum. Það er því mikið í húfi fyrir þau sem fá miklar tekjur af laxveiðiánum sínum og því skiptir miklu máli að hægt sé að tryggja hreinleika villta laxastofnsins sem og trúverðugleika og ímynd atvinnugreinarinnar.

Sjókvíaeldi hefur vaxið með mjög miklum hraða síðastliðin ár. Áhrif sjókvíaeldis á Vestfirði t.d. er óumdeilanlegt. Það er nefnilega mikið í húfi fyrir samfélögin í kringum sjókvíaeldið. Fólk þarf að geta treyst því að þetta sé vel gert. Þegar upp koma mál eins og þessi slysaslepping þá eru áhrifin víðtækari en bara á þetta eina fyrirtæki. Áhrifin dreifast á önnur fyrirtæki og samfélög á svæðinu þar sem miklir hagsmunir eru einnig undir með fjölda beinna og óbeinna starfa tengdum greininni.

Hæstv. forseti. Síðustu ár hafa margir kallað eftir auknu eftirliti í sjókvíaeldi til að tryggja að allt sé gert með bestu mögulegum aðferðum og öllum skilyrðum sé fylgt eftir. Vestfirðingar hafa kallað eftir því að eftirlitsmenn séu staðsettir í nálægð við fiskeldið. Þeir hafa talað fyrir daufum eyrum í mörg ár.

Í byrjun árs gaf ríkisendurskoðandi út skýrslu um lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit í sjókvíaeldi. Í þeirri skýrslu komu fram margar ábendingar og ég ætla að nefna hér nokkrar, með leyfi forseta. Ein ábending var um að það þyrfti að efla eftirlit Matvælastofnunar og það þyrfti að vinna að því markvisst með matvælaráðuneytinu. Þar var nefnt að það þyrfti að gera stofnuninni kleift að sinna óundirbúnu eftirliti og leggja áherslu á eftirlit með skráningum, upplýsingagjöf og innra eftirliti fyrirtækjanna.

Það kom líka ábending um mótvægisaðgerðir og vöktun vegna strokulaxa þar sem matvælaráðuneytið var hvatt til þess að endurskoða ákvæði laga og reglna um fiskeldi hvað snýr að stroki. Þar var rætt um mögulegar skyldur rekstrarleyfishafa til vöktunar í nærliggjandi ám. En miðað við það hvað eldislaxarnir eru að veiðast á stóru svæði þá mætti kannski spyrja af hverju einungis er verið að horfa á nærliggjandi ár. Það virðist vera þörf á því að hafa vöktun í laxveiðiám um allt land. Því spyr ég ráðherra: Hvernig hyggst hæstv. ráðherra fara í aðgerðir til að tryggja eftirlit áður en farið verður í frekari lagasetningu? Hvers vegna var ekki farið að tryggja strax aukið eftirlit í sjókvíaeldi eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi í vor? Hversu hörð viðurlög telur ráðherra að ættu að vera gagnvart stórum slysasleppingum og takmörkuðu innra eftirliti? Með hvaða aðgerðum hyggst ráðherra koma til móts við áhyggjur um erfðablöndun í laxveiðiám?“

Categories
Fréttir

Vonandi er tími aðgerða runninn upp ‒ ekki fleiri skýrslur um skýrslur

Deila grein

18/10/2023

Vonandi er tími aðgerða runninn upp ‒ ekki fleiri skýrslur um skýrslur

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins fjölmargar skýrslur um bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Niðurstöðurnar eru á einn veg „að á Vestfjörðum hafi afhendingaröryggi lengi verið heldur lakara en víðast annars staðar á landinu“.

Árið 2020 kom út skýrsla um skýrslu starfshóps um bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Í apríl 2022 kom út skýrsla starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum. „Þar er minnt á markmið orkustefnu Íslands, að stefna eigi að jöfnu aðgengi að orku um land allt og orkuþörf samfélagsins eigi að uppfylla. Niðurstaða starfshópsins er, eins og segir í samantekt, með leyfi forseta, „að til þess að bæta afhendingaröryggið á Vestfjörðum og tryggja nægilegt afl, ásamt því að auka kerfisstyrk, sé nauðsynlegt að vinna að úrbótum og verkefnum sem snerta nánast alla hluta raforkukerfisins“,“ sagði Halla Signý.

Sagði hún skýrsluna taka ágætlega saman hver sé vandinn og bendi jafnframt á leiðir til úrbóta. Enn ein skýrslan kom svo út í sumar á vegum starfshóps um eflingu samfélags á Vestfjörðum. „Þar er ágæt setning sem segir „ekki í boði að gera ekki neitt““. Eins segir þar: „Í sem skemmstu máli má því segja að á Vestfjörðum þurfi því í senn aukna raforku vegna fólksfjölgunar, aukinna umsvifa í atvinnulífi og orkuskipta …“

„Árið 2018 samþykktu stjórnvöld stefnu um uppbyggingu flutningskerfis raforku í landinu. Þar kemur m.a. fram að stefna stjórnvalda sé styrking á uppbyggingu á flutningskerfinu og að auka afhendingaröryggi raforku á landsvísu með sérstakri áherslu á Vestfirði og Norðausturland.

Virðulegi forseti. Í ritröð um raforkumál og afhendingaröryggi á Vestfjörðum má finna fleiri skýrslur, þar á meðal eina frá 2013. Þar má finna sömu kaflana og sömu ágætu tillögurnar og í nýju skýrslunum — endurtekið efni.

Ég segi nú bara: Vonandi er ekki þörf fyrir fleiri skýrslur um skýrslur heldur að tími aðgerða sé runninn upp því svo sannarlega er það ekki í boði að gera ekki neitt,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Árið 2020 kom út skýrsla um skýrslu starfshóps um bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Þar kemur fram að á Vestfjörðum hafi afhendingaröryggi lengi verið heldur lakara en víðast annars staðar á landinu. Í apríl 2022 kom út skýrsla starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum. Þar er minnt á markmið orkustefnu Íslands, að stefna eigi að jöfnu aðgengi að orku um land allt og orkuþörf samfélagsins eigi að uppfylla. Niðurstaða starfshópsins er, eins og segir í samantekt, með leyfi forseta, „að til þess að bæta afhendingaröryggið á Vestfjörðum og tryggja nægilegt afl, ásamt því að auka kerfisstyrk, sé nauðsynlegt að vinna að úrbótum og verkefnum sem snerta nánast alla hluta raforkukerfisins.“ Þessi skýrsla tekur ágætlega saman hver vandinn er og markar leiðir að úrbótum.

Þá kom út í sumar skýrsla starfshóps um eflingu samfélags á Vestfjörðum, á málefnum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, um raforkumál m.a. Þar er ágæt setning sem segir „ekki í boði að gera ekki neitt“.

Í samantekt þeirrar skýrslu segir, með leyfi forseta:

„Í sem skemmstu máli má því segja að á Vestfjörðum þurfi því í senn aukna raforku vegna fólksfjölgunar, aukinna umsvifa í atvinnulífi og orkuskipta …“

Árið 2018 samþykktu stjórnvöld stefnu um uppbyggingu flutningskerfis raforku í landinu. Þar kemur m.a. fram að stefna stjórnvalda sé styrking á uppbyggingu á flutningskerfinu og að auka afhendingaröryggi raforku á landsvísu með sérstakri áherslu á Vestfirði og Norðausturland.

Virðulegi forseti. Í ritröð um raforkumál og afhendingaröryggi á Vestfjörðum má finna fleiri skýrslur, þar á meðal eina frá 2013. Þar má finna sömu kaflana og sömu ágætu tillögurnar og í nýju skýrslunum — endurtekið efni. Ég segi nú bara: Vonandi er ekki þörf fyrir fleiri skýrslur um skýrslur heldur að tími aðgerða sé runninn upp því svo sannarlega er það ekki í boði að gera ekki neitt.“

Categories
Fréttir

„Stærri skref hafa ekki verið stigin í heilbrigðismálum á Suðurnesjum um langt árabil“

Deila grein

18/10/2023

„Stærri skref hafa ekki verið stigin í heilbrigðismálum á Suðurnesjum um langt árabil“

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, vakti máls, í störfum þingsins, á ályktun um heilbrigðismál á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum nýverið, í henni „var skorað á ríkisvaldið að viðhalda og efla kröftuga uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum.“

Fór Jóhann Friðrik í framhaldi yfir þá gríðarlegu uppbyggingu sem er að eiga sér stað í heilbrigðismálum á svæðinu.

„Nú standa yfir framkvæmdir við viðbyggingu við hjúkrunarheimilið Nesvelli og var sá samningur stækkaður úr 60 rýmum í 80 rými.
Í fyrra var ný röntgendeild opnuð formlega á HSS og nýtt röntgentæki hefur verið tekið í notkun. Þann 3. október vígði heilbrigðisráðherra nýja slysa- og bráðamóttöku sem er bylting í starfseminni. Við sama tækifæri var opnuð ný 19 rýma sjúkradeild og hjúkrunardeildin var einnig uppfærð. Í byrjun ágúst var ný einkarekin heilsugæsla opnuð við Aðaltorg sem bæði mun létta álagi af HSS og auka þjónustustig svæðisins til muna. Nýtt húsnæði hefur verið tekið í notkun fyrir geðheilbrigðisteymi HSS og bygging á nýrri heilsugæslustöð í Innri-Njarðvík var boðin út í sumar. Einnig er unnið að betri aðstöðu og þjónustu í öðrum þéttbýliskjörnum á Suðurnesjum,“ sagði Jóhann Friðrik.

„Samstaðan um betri heilbrigðisþjónustu hefur verið þverpólitísk, bæði á Alþingi og á sveitarstjórnarstiginu. Ég fullyrði að stærri skref hafa ekki verið stigin í heilbrigðismálum á Suðurnesjum um langt árabil og munu allir íbúar finna fyrir þeim árangri sem náðst hefur og er í farvatninu á næstu misserum, okkur öllum til heilla,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.


Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í ályktun um heilbrigðisþjónustu á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum nýverið var skorað á ríkisvaldið að viðhalda og efla kröftuga uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum. Ég vil í því sambandi fara aðeins yfir þá gríðarlegu uppbyggingu sem er að eiga sér stað í heilbrigðismálum á svæðinu. Nú standa yfir framkvæmdir við viðbyggingu við hjúkrunarheimilið Nesvelli og var sá samningur stækkaður úr 60 rýmum í 80 rými. Í fyrra var ný röntgendeild opnuð formlega á HSS og nýtt röntgentæki hefur verið tekið í notkun. Þann 3. október vígði heilbrigðisráðherra nýja slysa- og bráðamóttöku sem er bylting í starfseminni. Við sama tækifæri var opnuð ný 19 rýma sjúkradeild og hjúkrunardeildin var einnig uppfærð. Í byrjun ágúst var ný einkarekin heilsugæsla opnuð við Aðaltorg sem bæði mun létta álagi af HSS og auka þjónustustig svæðisins til muna. Nýtt húsnæði hefur verið tekið í notkun fyrir geðheilbrigðisteymi HSS og bygging á nýrri heilsugæslustöð í Innri-Njarðvík var boðin út í sumar. Einnig er unnið að betri aðstöðu og þjónustu í öðrum þéttbýliskjörnum á Suðurnesjum.

Virðulegi forseti. Samstaðan um betri heilbrigðisþjónustu hefur verið þverpólitísk, bæði á Alþingi og á sveitarstjórnarstiginu. Ég fullyrði að stærri skref hafa ekki verið stigin í heilbrigðismálum á Suðurnesjum um langt árabil og munu allir íbúar finna fyrir þeim árangri sem náðst hefur og er í farvatninu á næstu misserum, okkur öllum til heilla.“

Categories
Fréttir

Mikil uppbygging í kjördæminu

Deila grein

18/10/2023

Mikil uppbygging í kjördæminu

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, ræddi kjördæmaviku þingmanna Norðausturkjördæmis í upphafi októbermánaðar í störfum þingsins.

„Þessi vika er afar mikilvæg okkur þingmönnum sem störfum í þágu landsmanna allra og nauðsynlegt fyrir okkur að nýta þetta tækifæri einmitt til að ná samtali, hvort sem það er við stjórnendur sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skólastofnana eða jafnvel fyrirtækja. Seinni kjördæmavikan, sem verður eftir áramót, er þá hugsuð meira fyrir flokkana og líka til að ná frekara samtali við grasrótina,“ sagði Ingibjörg.

Sagði hún þingmenn hafa náð mikilvægum fundum í kjördæminu þó svo að um langan veg hafi verið að fara, enda Norðausturkjördæmi gríðarlega stórt kjördæmi og víðfemt. Voru þingmenn vel nestaðir fyrir verkefni vetrarins.

„Það kemur kannski ekki á óvart að samgöngur voru rauði þráðurinn á öllum þeim fundum sem við áttum með fólki þar sem var verið að tala um mikilvægi þess að tengja saman atvinnusvæði, stytta vegalengdir og auka umferðaröryggi,“ sagði Ingibjörg.

Heilbrigðismál voru rædd og kom fram að margt hefur verið gert, m.a. „að fjölga heilsugæslulæknum og bæta bráðaþjónustu, en auðvitað má standa enn betur að þessu þó að vel sé gert.“

„Það var virkilega ánægjulegt að sjá þessa miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað í kjördæminu, húsnæðisuppbyggingu víða þar sem ekki hefur sést húsnæðisuppbygging í mörg ár, mikil uppbygging hvað varðar atvinnu og tækifæri og fleira og fleira,“ sagði Ingibjörg að lokum.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Mig langar að nýta tækifærið hér og fara aðeins yfir kjördæmavikuna okkar sem var haldin í upphafi októbermánaðar. Við þingmenn Norðausturkjördæmis ferðuðumst saman og byrjuðum á Austurlandi og fikruðum okkur sífellt nær Norðurlandinu. Þessi vika er afar mikilvæg okkur þingmönnum sem störfum í þágu landsmanna allra og nauðsynlegt fyrir okkur að nýta þetta tækifæri einmitt til að ná samtali, hvort sem það er við stjórnendur sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skólastofnana eða jafnvel fyrirtækja. Seinni kjördæmavikan, sem verður eftir áramót, er þá hugsuð meira fyrir flokkana og líka til að ná frekara samtali við grasrótina.

Það er óhætt að segja að Norðausturkjördæmi sé gríðarlega stórt kjördæmi og víðfemt og um langan veg að fara en við náðum mjög mikilvægum fundum með sveitarstjórnarfólki, stjórnendum heilbrigðisstofnana, menntastofnana og við heimsóttum einnig fjölmörg fyrirtæki. Það er hægt að segja það að við fengum gríðarlega mikilvægt veganesti inn í störf okkar núna í vetur og efni sem við erum enn að vinna með. Vissulega náðum við ekki, því miður, að heimsækja alla en nú er unnið að því að skipuleggja fundi með þeim aðilum.

Það kemur kannski ekki á óvart að samgöngur voru rauði þráðurinn á öllum þeim fundum sem við áttum með fólki þar sem var verið að tala um mikilvægi þess að tengja saman atvinnusvæði, stytta vegalengdir og auka umferðaröryggi. Við sjáum það á landsbyggðinni hversu mikilvægt þetta er þar sem vegalengdirnar eru langar. Einnig var verið að ræða heilbrigðismál og hvað hefur verið gert því að það er ansi margt sem hefur verið gert í þeim málum, m.a. að fjölga heilsugæslulæknum og bæta bráðaþjónustu, en auðvitað má standa enn betur að þessu þó að vel sé gert. Það var virkilega ánægjulegt að sjá þessa miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað í kjördæminu, húsnæðisuppbyggingu víða þar sem ekki hefur sést húsnæðisuppbygging í mörg ár, mikil uppbygging hvað varðar atvinnu og tækifæri og fleira og fleira. Ég vil nýta tækifærið og þakka þeim sem sá um skipulagið fyrir mig og með mér, þ.e. SSNE og Austurbrú.“

Categories
Fréttir Greinar

Líf ís­lensk land­búnaðar hangir á blá­þræði

Deila grein

17/10/2023

Líf ís­lensk land­búnaðar hangir á blá­þræði

Það hefur legið fyrir um tíma að staða bænda hafi farið versnandi á síðustu árum, staðan hefur verið margrædd en lítið að gert. Veruleikinn er sá að afkoma bænda hefur verið með öllu óviðunandi frá árinu 2020, rekstrargrundvöllurinn er hverfandi með hverjum mánuði, nýliðun er lítil sem engin og bændur kalla ítrekað eftir aðgerðum til að koma starfsgreininni aftur í fyrra horf.

Það er ekkert einkamál bænda að standa vörð um fæðuöryggi þjóðarinnar. Fæðuöryggi þjóðarinnar er sameiginlegt verkefni stjórnvalda og bænda. Vel rekin bú berjast í bökkunum vegna fjárhagsvanda. Hækkun stýrivaxta ásamt ófyrirséðum stökkbreytingum í verði á aðföngum síðustu ára hafa eðli málsins samkvæmt gríðarleg áhrif á rekstur búa. Hækkun afborgana vegna hækkunar stýrivaxta nemur allt að 5,8 milljörðum hjá kúabúum, nautakjötsframleiðendum, sauðfjárbúum og í garðyrkju. Á sama tíma hafa bændur undirgengist ýmist strangt regluverk um velferð búfjár, mikilvægt regluverk sem kostað hafa miklar fjárfestingar á síðustu árum. Því miður er staða bænda á Íslandi nú svo grafalvarleg að fjöldagjaldþrot blasir við greininni verið ekkert að gert. Það sér hver í hendi sér að íslenskur landbúnaður getur ekki ofan í allt annað tekið á sig þessar hækkanir, stjórnvöld verða að bregðast við án tafar.

Betri lán í gegnum Byggðastofnun

Til að reka bú í dag þarf að fara í gríðarmikla fjárfestingar, fjárfestingar sem eru í engum takti við veltu búa. Í núverandi stöðu eru bændur að ganga á eignir til þess að geta staðið við rekstrarlegar skuldbindingar. Sá sem hér skrifar telur mikilvægt að við finnum leiðir til þess að hægt sé að byggja afkomu sína á matvælaframleiðslu, við verðum að bæta starfsskilyrði bænda. Rétta leiðin er ekki sú sem lagt er upp með í dag, það er, að eignast húseignir, bústofn, jarðnæði og land á 20 árum. Það er ekki raunhæft að ætla bændum að greiða niður nokkur hundruð milljón króna fjárfestingar á aðeins 20 árum og það er engin skynsemi í því. Við þurfum aðrar leiðir, að mínu mati ætti að veita bændum lán í gegnum Byggðastofnun á lágum vöxtum til lengri tíma, í anda gömlu stofnlánadeildarinnar. Svo það sé mögulegt þarf að stórauka fjármagn til Byggðastofnunar. Það er aðgerð sem myndi skila sér aftur til þjóðarinnar, ekki bara fyrir bændur heldur einnig sem liður í fæðuöryggi þjóðar. Markmiðið með þessum aðgerðum væri ekki að hækka vöruverð til neytenda heldur að tryggja að hér verði öflug matvælaframleiðsla í framtíðinni.

Hlutdeildarlán fyrir nýliða

Þá er nýliðun orðið „orð“ sem maður heyrir allt of sjaldan. Það að gerast bóndi í dag er ekki aðlaðandi verkefni. Það er ekki aðlaðandi fyrir ungt fólk að takast á við allar þær skyldur sem fylgja því að vera í búskap og þurfa síðan auk þess fyrir utan hefðbundinn vinnudag að fara í aðra vinnu til þess eins að geta framfleytt fjölskyldu sinni. Það að fara út í jarðarkaup í dag með öllu tilheyrandi er á fárra færi, undirritaður telur að skoða þurfi af fullri alvöru möguleika á að útfæra hlutdeildarlán til nýliðunar bænda.

Fyrir þá sem ekki þekkja til þá eru hlutdeildarlán úrræði fyrir tekju- og eignaminni einstaklinga og er ætlað að hjálpa fyrstu kaupendum undir ákveðnum tekjumörkum að brúa bilið við fasteignakaup. Í þeim tilvikum veitir HMS kaupanda hlutdeildarlán fyrir allt að 20% kaupverðs. Að mínu mati mætti útfæra lán til bænda með þeim hætti að stjórnvöld legði til 25-30% af kaupverði jarða og líkt og er með hlutdeildarlán til fasteignakaupa endurgreiði stjórnvöld sinn hlut að lánstíma loknum eða ef kæmi til sölu. Í rauninni er þetta eina leiðin sem er fær ef við viljum í alvöru tryggja nýliðun innan bændastéttarinnar.

Það er verk að vinna

Bændur á Íslandi framleiða með heilnæmustu matvörum í heiminum, það segir sig sjálft að það er mun kostnaðarsamara en að framleiða matvöru með aðstoð aukaefna líkt og gert er víða erlendis. Bændur vilja halda áfram að framleiða gæða landbúnaðarvörur, þar sem velferð búfjár, umhverfismál og loftslagsmál eru í fyrirrúmi. Svo að það sé og verði mögulegt áfram verðum við að bregðast við þeirri stöðu sem er nú uppi með ýmsum nýjum ráðum og afkoman verður að batna. Þá verður að tryggja að tollverndin haldi, því kerfið er hriplekt eins og það er í dag. Við verðum að tryggja að skipulag Íslands sem matvælaframleiðslulands verði forgangsmál hjá stjórnvöldum. En fyrsta verkefnið er að setjast niður með bændum og fara yfir stöðuna, hvað er til ráða, því að ef ekkert verður að gert þá mun fara illa og við eigum eftir að sjá á eftir þeirri matvælaframleiðslu sem við stundum í dag.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar og formaður atvinnuveganefndar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Virkjum allt unga fólkið

Deila grein

16/10/2023

Virkjum allt unga fólkið

Mikill meirihluti ungs fólks er í skóla og vinnur hluta úr ári, auk þess að sinna fjölbreyttu tómstundastarfi. Á hverjum tíma er þó ákveðin hópur sem einhverra hluta vegna hefur lítil tækifæri til virkni. Fyrir því geta verið margvíslegar ástæður líkt og áföll, langtíma eða skammtímaveikindi, taugaraskanir, flutningur milli samfélaga eða hreinlega eitthvað allt annað. Það sem skiptir máli fyrir hvert samfélag er að sinna þessum hópi og það á forsendum hvers og eins. Þá þarf að virða að ástæður þess að fólk er ekki virkt eru mismunandi. Allir þessir einstaklingar hafa sína einstöku sögu og þurfa að fá sín tækifæri til þess að ná að vera virkir í samfélaginu. Þessi hópur hefur ekki verið stór hér á landi í samanburði við önnur lönd en við verðum samt stöðugt að vera á vaktinni við að sinna honum.

Það sem hentar einum hentar ekki öllum

Mörgum framhaldsskólum hefur tekist vel við að grípa fólk sem á erfitt með að fóta sig í skóla en sú leið hentar ekki endilega öllum. Það er því mikið fagnaðarefni að á dögunum var undirritaður samningur sem tryggir þjónustu fyrir 80 einstaklinga sem falla undir þann hóp sem oft er skilgreindur sem NEET hópurinn (fólk sem ekki er í vinnu, virkni eða námi og þurfa sérhæfða einstaklingsmiðaða þjónustu til að efla virkni og starfsgetu). Um er að ræða þríhliða samning um samvinnu milli Sjúkratrygginga Íslands, VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og Janusar endurhæfingar ehf. um samþætta og þverfaglega heilbrigðis- og starfsendurhæfingarþjónustu við ungt fólk á aldrinum 18 til 30 ára með flókinn og fjölþættan vanda. Samningurinn er liður í tveggja ára tilraunaverkefni heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra varðandi aukna samþættingu endurhæfingarþjónustu milli ráðuneyta og endurhæfingarúrræða. Gert er ráð fyrir að árlegt fjármagn til þjónustunnar nemi um 330 milljónum króna.

Janus endurhæfing mun veita þjónustuna sem stendur til boða alla virka daga. Þjónustan er sérstaklega ætluð þeim ungmennum sem eru með þráláta, kvíða- og/eða þráhyggju- og árátturöskun, fælni, þunglyndi, persónuleika- og/eða tilfinningavanda eða ungmennum með röskun á einhverfurófi sem jafnframt eru með hamlandi geðræn vandamál. Þá er í endurhæfingunni lögð sérstök áhersla á náið samstarf og samráð við heilbrigðiskerfið og VIRK sem gefur möguleika á góðri, faglegri, heildrænni nálgun og samfellu í þjónustunni. Árangur verkefnisins verður metinn á sex mánaða fresti á samningstímanum með það að markmiði að halda áfram að bæta þjónustu við þennan mikilvæga hóp ungmenna.

Markmið samningsins er skýrt, það er að hjálpa ungu fólki sem hefur átt erfitt með að fóta sig í lífinu til að ná upp virkni og getu. Takist það, aukast lífsgæði þess og opnar fyrir því möguleika til að njóta sín betur í framtíðinni. Samvinnan sem hér á sér stað er mikilvægt skref í samþættingu heilbrigðis- og félagsþjónustu og það er óhætt að segja að við munum öll uppskera ef vel tekst til.

Allir eiga rétt á tækifæri

Verkefnið er í samræmi við aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til ársins 2027 um að efla gagnreynd starfsendurhæfingarúrræði. Endurhæfingarráð hefur leitt undirbúninginn og þátttakendur í því eru m.a. geðheilsuteymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, meðferðareining lyndisraskana á Landspítala og VIRK. Vinnan hefur m.a. falist í að meta þörf einstaklinga fyrir þessa þjónustu ásamt því að sérsníða þjónustuna að þörfum þeirra. Þá er verkefnið mikilvægt í tengslum í breytingum á örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfinu sem m.a. gengur út á að styðja ungt fólk til atvinnu með sérhæfðum stuðningi. Fyrir utan að auka, færni og sjálfstraust er hér lagt upp með að bæta líðan og lífsgæði. Verkefnið getur komið í veg fyrir langtímaatvinnuleysi og skapað sjálfbærara samfélag. Við í Framsókn viljum, að öll eigi raunveruleg tækifæri til að vera virk í samfélaginu.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. október 2023.