Við á Íslandi höfum alltaf verið samofin náttúruöflunum og upp á náð og miskunn móður náttúru. Þessa dagana erum við hressilega minnt á þá staðreynd. Á mánudagskvöld voru sett lög á Alþingi um vernd mikilvægra innviða. Með þeim er ráðherra veitt skýr lagaheimild til að taka ákvörðun um nauðsynlegar framkvæmdir í þágu almannavarna sem miða að því að koma í veg fyrir að mikilvægir innviðir og aðrir almannahagsmunir verði fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara sem tengjast eldsumbrotum á Reykjanesskaga. Um þessar mundir eru uppi afar sérstakar aðstæður sem nauðsynlegt er að bregðast hratt og örugglega við. Gert er ráð fyrir að ráðherra verði heimilt að taka ákvörðun um tilgreindar framkvæmdir og hrinda þeim af stað án þess að önnur lög torveldi slíka ákvarðanatöku.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar
Við aðstæður eins og þær sem upp eru komnar þurfa ákvarðanir að vera fumlausar og upplýsingar til samfélagsins á Reykjanesi skýrar og aðgengilegar. Við þurfum að hafa í huga í allri umræðu, hvort sem um er að ræða stjórnvöld, fjölmiðla eða samskipti á öðrum opinberum vettvangi, að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Íbúar í Grindavík hafa þurft að upplifa það að lifa í stöðugum ótta við harða jarðskjálfta með tilheyrandi álagi á andlega líðan og í ofanálag þurft að yfirgefa heimili sín á innan við 30 mínútum í algjörri óvissu um hvað framtíðin ber í skauti sér. Viðbragðsaðilar á svæðinu eru líka margir hverjir íbúar í Grindavík og álagið mjög mikið á þá á þessum tímum. Að vera fyrstur með fréttirnar jafngildir ekki sigri í öllum tilvikum.
Það er afar mikilvægt að næstu skref sem stigin eru séu réttu skrefin. Við þurfum að grípa vel utan um aðstæðurnar sem hafa skapast á Reykjanesskaga og við þurfum að taka vel utan um fólkið. Á sama tíma þurfum við að passa upp á gagnsæi og að allar upplýsingar sem hlutaðeigandi aðilar fá séu skýrar, því það er engum greiði gerður með því að hylma yfir raunverulega stöðu.
Opinn faðmur samfélagsins
Við þetta tækifæri er hins vegar ekki annað hægt en að hrósa því aðdáunarverða starfi sem átt hefur sér stað undanfarna daga og vikur hjá viðbragðsaðilum okkar. Við eigum flott fagfólk á öllum sviðum og höfum ítrekað orðið vitni að þeim standa vaktina við mjög krefjandi aðstæður. Við höfum séð það í verki hversu mikilvægt það er að allar neyðar- og viðbragðsáætlanir séu skýrar og öll vinna eftir þeim hefur verið til fyrirmyndar.
Það hefur einnig verið aðdáunarvert að fylgjast með samfélögum víða um land opna faðminn fyrir íbúum Grindavíkur, þar sem allir virðast vilja leggja sitt af mörkum þegar aðstoðar er þörf. Samtakamátturinn í samfélaginu er sterkur þegar hætta steðjar að og þegar áföll dynja yfir. Fyrir það getum við ekki verið annað en þakklát.
Hugur minn er hjá Grindvíkingum og verður þar áfram. Um þessar mundir erum við öll Grindvíkingar og við munum halda áfram að virkja hina einu sönnu íslensku samstöðu.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. nóvember 2023.