Categories
Fréttir Greinar

Aðdáunarverð samstaða

Deila grein

19/11/2023

Aðdáunarverð samstaða

Við á Íslandi höf­um alltaf verið samof­in nátt­úru­öfl­un­um og upp á náð og mis­kunn móður nátt­úru. Þessa dag­ana erum við hressi­lega minnt á þá staðreynd. Á mánu­dags­kvöld voru sett lög á Alþingi um vernd mik­il­vægra innviða. Með þeim er ráðherra veitt skýr laga­heim­ild til að taka ákvörðun um nauðsyn­leg­ar fram­kvæmd­ir í þágu al­manna­varna sem miða að því að koma í veg fyr­ir að mik­il­væg­ir innviðir og aðrir al­manna­hags­mun­ir verði fyr­ir tjóni af völd­um nátt­úru­ham­fara sem tengj­ast elds­um­brot­um á Reykja­nesskaga. Um þess­ar mund­ir eru uppi afar sér­stak­ar aðstæður sem nauðsyn­legt er að bregðast hratt og ör­ugg­lega við. Gert er ráð fyr­ir að ráðherra verði heim­ilt að taka ákvörðun um til­greind­ar fram­kvæmd­ir og hrinda þeim af stað án þess að önn­ur lög tor­veldi slíka ákv­arðana­töku.

Aðgát skal höfð í nær­veru sál­ar

Við aðstæður eins og þær sem upp eru komn­ar þurfa ákv­arðanir að vera fum­laus­ar og upp­lýs­ing­ar til sam­fé­lags­ins á Reykja­nesi skýr­ar og aðgengi­leg­ar. Við þurf­um að hafa í huga í allri umræðu, hvort sem um er að ræða stjórn­völd, fjöl­miðla eða sam­skipti á öðrum op­in­ber­um vett­vangi, að aðgát skal höfð í nær­veru sál­ar. Íbúar í Grinda­vík hafa þurft að upp­lifa það að lifa í stöðugum ótta við harða jarðskjálfta með til­heyr­andi álagi á and­lega líðan og í ofanálag þurft að yf­ir­gefa heim­ili sín á inn­an við 30 mín­út­um í al­gjörri óvissu um hvað framtíðin ber í skauti sér. Viðbragðsaðilar á svæðinu eru líka marg­ir hverj­ir íbú­ar í Grinda­vík og álagið mjög mikið á þá á þess­um tím­um. Að vera fyrst­ur með frétt­irn­ar jafn­gild­ir ekki sigri í öll­um til­vik­um.

Það er afar mik­il­vægt að næstu skref sem stig­in eru séu réttu skref­in. Við þurf­um að grípa vel utan um aðstæðurn­ar sem hafa skap­ast á Reykja­nesskaga og við þurf­um að taka vel utan um fólkið. Á sama tíma þurf­um við að passa upp á gagn­sæi og að all­ar upp­lýs­ing­ar sem hlutaðeig­andi aðilar fá séu skýr­ar, því það er eng­um greiði gerður með því að hylma yfir raun­veru­lega stöðu.

Op­inn faðmur sam­fé­lags­ins

Við þetta tæki­færi er hins veg­ar ekki annað hægt en að hrósa því aðdá­un­ar­verða starfi sem átt hef­ur sér stað und­an­farna daga og vik­ur hjá viðbragðsaðilum okk­ar. Við eig­um flott fag­fólk á öll­um sviðum og höf­um ít­rekað orðið vitni að þeim standa vakt­ina við mjög krefj­andi aðstæður. Við höf­um séð það í verki hversu mik­il­vægt það er að all­ar neyðar- og viðbragðsáætlan­ir séu skýr­ar og öll vinna eft­ir þeim hef­ur verið til fyr­ir­mynd­ar.

Það hef­ur einnig verið aðdá­un­ar­vert að fylgj­ast með sam­fé­lög­um víða um land opna faðminn fyr­ir íbú­um Grinda­vík­ur, þar sem all­ir virðast vilja leggja sitt af mörk­um þegar aðstoðar er þörf. Sam­taka­mátt­ur­inn í sam­fé­lag­inu er sterk­ur þegar hætta steðjar að og þegar áföll dynja yfir. Fyr­ir það get­um við ekki verið annað en þakk­lát.

Hug­ur minn er hjá Grind­vík­ing­um og verður þar áfram. Um þess­ar mund­ir erum við öll Grind­vík­ing­ar og við mun­um halda áfram að virkja hina einu sönnu ís­lensku sam­stöðu.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hug­leiðingar við upp­haf nýs lög­gjafar­þings

Deila grein

17/09/2023

Hug­leiðingar við upp­haf nýs lög­gjafar­þings

Þróun umræðu í samfélaginu síðustu misseri hefur verið um margt umhugsunarverð, stundum byggir umræðan á staðreyndum en oftar en ekki er rangfærslum haldið á lofti. Það hefur sjaldan verið jafn mikilvægt og akkúrat nú á tímum falsfrétta að allar þær upplýsingar sem unnið er með hverju sinni sé réttar og sannar. Aðeins þannig getum við átt upplýsta og málefnalega umræðu og talað okkur saman að niðurstöðu mála. Ég lít svo á að það sé siðferðileg skylda okkar sem störfum í stjórnmálum að vanda til verka í allri umræðu og kynna okkur allar staðreyndir mála, aðeins þannig getum við tekið upplýsta ákvörðun. Annars er hættan alltaf á að við missum umræðuna út í ómálefnaleg úthróp og á villigötur. Fólk veigrar sér við að taka þátt í umræðunni með þeim afleiðingum að þeir sem hafa hæst ná að stela umræðunni. Við höfum séð þetta gerast oftar en einu sinni og erum líklega flest sammála að þetta sé ekki jákvæð þróun, við þurfum að gera betur.

Orð bera ábyrgð

Við sem höfum fengið það ábyrgðarmikla hlutverk að sitja á Alþingi gerum það í umboði þjóðarinnar. Almenningur gerir þá sjálfsögðu kröfu að á Alþingi fari fram rökræn og skynsamleg umræða. Orð sem eru látin falla í þingsal eða annars staðar úti í samfélaginu af hálfu þingmanna bera svo sannarlega ábyrgð. Almenningur treystir á og býst við að við þingmenn nálgumst alla umræðu af skynsemi og réttum staðreyndum. Okkar hlutverk er að vinna að umbóta- og framfaramálum fyrir þjóðina og það er skylda okkar sem eigum sæti á Alþingi að vera skynsemisröddin og ekki í sandkassaleik. Það sem af er þessu kjörtímabili höfum við sem störfum á Alþingi unnið í sameiningu þvert á flokka að ýmsum framfaramálum í þágu þjóðarinnar. Við erum ekki alltaf sammála en í gengum nefndirnar höfum við oft talað okkur saman að niðurstöðu. Mig langar því að nýta hér tækifærið og hvetja okkur áfram til góðra verka. Stjórnmálin eru oft skemmtileg en þau eru líka krefjandi og sérstaklega á tímum sem þessum þar sem margir eru með þungan róður. Í gegnum allt lífið færum við ákveðnar fórnir fyrir þær ákvarðanir sem hafa verið teknar. Þetta ferðalag sem lífið er býður ekki alltaf upp á mikla fyrirhyggju frá degi til dags. Við vinnum þó alltaf af sannfæringu og höfum trú á því að það sem við erum að gera sé það rétta í stöðunni hverju sinni.

Fyrir samfélagið

Að lokum vil ég hvetja okkur öll til að nálgast verkefnin fram undan með samvinnuhugsjón að leiðarljósi og nálgast umræðuna út frá skynsemi og með röksemdum og staðreyndum. Við ættum að forðast að benda fingrum í allar áttir og reyna heldur eftir fremsta megni að vinna saman, þó að okkur greini oft á um aðferðarfræðina erum við í grunninn sammála um að halda áfram að skapa gott samfélag og forsendur fyrir okkur til að vaxa og dafna. Við munum ekki ná árangri sem samfélag nema við stöndum saman og þar verður samvinnan alltaf að vera rauði þráðurinn hvort sem er á Alþingi eða annars staðar í samfélaginu.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. september 2023.

Categories
Greinar

Umferðaröryggi stóreflt!

Deila grein

25/05/2023

Umferðaröryggi stóreflt!

Þann 8. apríl 2020 skrifuðu fulltrúar Vegagerðarinnar og Íslenskra aðalverktaka undir samning um annan áfanga breikkunar Suðurlandsvegar á milli Selfoss og Hveragerðis. Verkinu átti skv. þeim samningi að ljúka haustið 2023.

Í dag er Suðurlandsvegur orðinn tvöfaldur að stórum hluta en hér er um að ræða nýbyggingu Hringvegarins að hluta og breikkun og endurgerð að hluta á alls 7,1 km kafla. Á þeim kafla sem um ræðir hafa fjölmörg og alvarleg slys átt sér stað í gegnum tíðina. Umferðarþungi mikill og fjölmargir leggja leið sína um hann á degi hverjum til dæmis til vinnu eða í frí austur fyrir Hellisheiði. Markmið framkvæmdarinnar var að bæta umferðaröryggi og tryggja greiðari samgöngur um Suðurlandsveg. Framkvæmdin hefur óneitanlega mikil og jákvæð áhrif á samfélagið í heild á Suðurlandi.

Slysatíðni á Suðurlandsvegi hefur verið mikil undanförnum árum og alvarleg umferðarslys verið fleiri en við kærum okkur um. Ferðamenn leggja leið sína á Suðurlandið og samfélagið austan Hellisheiðar er sívaxandi og tækifærin fjölmörg sem þar eru. Fólksfjölgun mikil og stór hluti þeirra sem hafa flutt þangað m.a. sækja störf á Höfuðborgarsvæðið. Það skiptir fólk máli að upplifa öryggi á vegunum okkar og það hefur verið talið grundvöllur að stækkandi vinnusóknarsvæði víða um land. Þar af leiðandi fagna ég því að þessi framkvæmd sé orðin að veruleika en ekki stóð til að hleypa umferð inn á nýja vegarkaflann fyrr en í haust. Nú er svo komið að vegurinn hefur verið formlega opnaður og er verkefnið því um það bil 3 mánuðum á undan áætlun.

Ölfusárbrúin

Þessu til viðbótar mun ný Ölfusárbrú verða að veruleika því þann 6. mars sl. óskaði Vegagerðin eftir þátttakendum í alútboð vegna byggingar nýrrar brúar á Ölfusá ásamt aðliggjandi vegum, vegamótum, brúm og undirgöngum en stefnt er að því að klára verksamning um verkefnið fyrir lok þessa árs. Samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir að framkvæmdirnar taki rúmlega tvö ár og því hægt að áætla að öllu óbreyttu að Sunnlendingar fái að keyra um nýja Ölfusárbrú árið 2026. Þar er annar áfangi sem beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu og því ánægjulegt að það verkefni sé komið af stað.

Umferðaröryggi er forgangsmál

Það er augljóst að frá því að Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra tók við samgöngumálunum hér á landi hefur umferðaröryggi aukist til muna en það hefur verið forgangsmál ráðherra og okkar í Framsókn. Við erum hvergi nærri hætt á þessari vegferð og haldið verður stöðugt áfram að bæta samgöngur hér á landi með umferðaröryggi í forgrunni í þeirri vinnu. Ég má til að senda þakkir til Sigurðar Inga, innviðaráðherra, fyrir hans ötulu baráttu í þágu umferðaröryggis og einnig vil ég hrósa öllum þeim sem að verkinu stóðu. Það hefur verið virkilega aðdáunarvert að keyra í gegnum framkvæmdasvæðið á hverjum degi og finna á eigin skinni þær umbætur sem hafa orðið á veginum. Þetta er verkefni sem markar tímamót í vinnu okkar að auknu umferðaröryggi í landinu við finnum öll fyrir umbótum sem þessum.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á sunnlenska.is 25. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hvar liggur björgunarviljinn?

Deila grein

11/05/2023

Hvar liggur björgunarviljinn?

Allt frá árinu 2019 hefur verið í bígerð tilraunaverkefni um notkun sjúkraþyrlu til að styrkja sjúkraflutninga í landinu með það að markmiði að veita bráðveikum og slösuðum sérhæfða þjónustu með sem skjótustum hætti. Árið 2019 var heilbrigðisráðherra ásamt fjármála- og efnahagsráðherra falið í ríkisstjórn að útfæra fjármögnun og tímasetningu verkefnisins. Síðan eru liðin á að verða fjögur ár en ákveðið var að bíða með verkefnið þegar heimsfaraldur Covid skall á.

Fjármögnun ekki tryggð

Í haust hafði undirrituð í hyggju að setja fram þingsályktunartillögu um tilraunaverkefni um sjúkraþyrlu á Suðurlandi, búið var að óska eftir meðflutningsmönnum þegar ég ákvað að draga tillöguna til baka þar sem ég hafði fréttir af því innan úr heilbrigðisráðuneytinu að Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra væri á fullu við að vinna að slíku tilraunaverkefni um sjúkraþyrlur í samræmi við tillögur sem Svandís Svavarsdóttir kynnti í ríkisstjórn árið 2019. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hafði þegar skipaði samráðshóp samkvæmt tillögu starfshóps frá 2018, um aukna aðkomu þyrlna að sjúkraflugi. En því miður hafa þær tillögur og hugmyndir sem þar hafa komið fram runnið út í sandinn þar sem fjármálaráðherra hefur ekki haft vilja til þess að tryggja fjármögnun verkefnisins. En tilraunaverkefni um sérhæfða sjúkraþyrlu hefur verið lagt fram í fjármálaáætlun síðustu tveggja ára en fjármögnun verkefnisins hefur ekki verið samþykkt. Eðli málsins samkvæmt getur heilbrigðisráðherra ekki tekið verkefnið lengra meðan fjármálaráðherra hefur ekki vilja til þess að tryggja því fjármögnun.

Það þarf að dekka álagssvæði

Landhelgisgæslan sinnir mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi og almenningur í landinu vill standa vörð um hana líkt og bersýnilega kom fram þegar Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ætlaði sér í vetur að selja eftirlitsvél Landhelgisgæslunnar vegna fjárskorts. Almenningur í landinu vill heldur sjá verkefni landhelgisgæslunnar efld heldur en hitt, enda hefur hún löngum sannað mikilvægi sitt. Í fyrirspurn minni til heilbrigðisráðherra á síðasta þingi kom fram að fyrrgreindur starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra sem skilaði af sér skýrslunni Aukin aðkoma þyrlna að sjúkraflugi í ágúst 2018 var sammála um mikilvægi þess að efla sjúkraflutninga með þyrlum en ekki um leiðir að því marki. Meirihlutinn, eða fimm af sjö meðlimum, vildi ná markmiðinu með þyrlum LHG sem einnig sinna leit og björgun en minnihlutinn vildi starfrækja sérstaka sjúkraþyrlu utan Landhelgisgæslunnar.

Sú sem hér skrifa telur afar mikilvægt að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu í dreifbýli, sér í lagi á álagssvæðum líkt og á Suðurlandi en útköll á svæðinu vegna slysa og bráðra veikinda hafa aukist verulega vegna sí stækkandi hóps ferðamanna á svæðinu. Yfir sumartímann ríflega þrefaldast fólksfjöldi landshlutans og það á þeim tíma sem sérfræðingar á sjúkrastofnunum eru margir hverjir í sumarfríum og erfitt reynist að tryggja mönnun reynslumikilla starfsmanna á þessu víðfeðma svæði. Ef ekki er hægt að fjármagna sjúkraþyrlu á svæðinu má velta upp þeim möguleika að bæta við starfsstöð Landhelgisgæslunnar á Suðausturlandi en þannig mætti dekka enn stærra svæði en hægt er í dag og þar með efla björgunargetu Landhelgisgæslunnar. Það þarf líka að tryggja að allar þyrlur Landhelgisgæslunnar fái tafarlaust viðhald og viðgerðir þegar svo ber við og að þær séu allar nothæfar. Það skortir ekki vilja eða frumkvæði af hálfu heilbrigðisráðherra í þessu máli og er vel tilbúinn að setja slíkt verkefni af stað. Boltinn er nú hjá fjármálaráðherra sem þarf að svara hvort og þá hvenær hann muni tryggja fjármögnun á sjúkra- eða björgunarþyrlum.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á Vísi 11. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Eru leikreglurnar sanngjarnar?

Deila grein

08/05/2023

Eru leikreglurnar sanngjarnar?

Hvað ætl­um við að gera og hvernig á að gera það? Það er stóra spurn­ing­in sem all­ir kapp­kosta við að tjá sig um þess­ar mund­ir. Vinnu­markaður­inn kall­ar eft­ir skýr­um aðgerðum stjórn­valda og að kjör fólks séu jöfnuð með ein­hverj­um hætti. Það er út­ópía að halda því fram að full­kom­inn jöfnuður í þróuðu sam­fé­lagi sé mögu­leg­ur. Það er þó hægt að jafna stöðuna með aðgerðum af hálfu rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Við stönd­um frammi fyr­ir stór­um verk­efn­um og það er ekk­ert laun­unga­mál. Það þarf að beita sam­vinnu­hugs­un­inni og sam­heldni til að koma bönd­um á verðbólg­una með fjölþætt­um aðgerðum og stuðla að frek­ari kaup­mátt­ar­aukn­ingu hjá venju­legu launa­fólki.

Mennt­un met­in til launa

Ákveðin kjaragliðnun hef­ur átt sér stað en sú þróun hef­ur átt sér stað lengi.

Við þurf­um líka að horf­ast í augu við að þá gliðnun má einnig rekja til hærra mennt­un­arstigs hér á landi. Það er fagnaðarefni að sjá fólk sækja sér aukna þekk­ingu og þar með er það að skila þeirri þekk­ingu í virðis­aukn­ingu fyr­ir sam­fé­lagið. Við vilj­um að mennt­un sé met­in til launa og að það sé hvati til að auka þekk­ingu sína og færni á vinnu­markaði. Það er eðli­legt að slík­ur hvati sé til staðar til að afla sér frek­ari þekk­ing­ar á sínu sviði og fyr­ir aukna þekk­ingu er sann­gjarnt að fá bet­ur greitt. Við eig­um að hvetja fólk til að sækja sér aukna þekk­ingu og þarna á jöfnuður­inn að vera mest­ur. Að all­ir geti aflað sér þekk­ing­ar í formi mennt­un­ar og að það skili sér í laun­um.

Eru sann­gjarn­ar leik­regl­ur til staðar?

Kjaragliðnun­in er mest á milli fjár­magnseig­enda og launa­fólks en á und­an­förn­um tíu árum hafa fjár­magn­s­tekj­ur auk­ist gíf­ur­lega eða um 120% að raun­v­irði. At­vinnu­tekj­ur í hag­kerf­inu juk­ust um 53%.

Ekki er greitt trygg­ing­ar­gjald né út­svar af út­greidd­um arði og mik­ill mun­ur er á milli skatt­lagn­ing­ar á hagnað lögaðila og tekju­skatts. Það er því spurn­ing hvort ekki sé löngu kom­inn tími til að taka þetta til end­ur­skoðunar. Að mínu mati er þess­ari spurn­ingu auðsvarað. Það þarf að girða fyr­ir tekju­til­flutn­ing milli launa og fjár­magn­stekna.

All­ir skila sínu til sam­fé­lags­ins

Er ekki kom­inn tími til að taka sam­talið um það skatt­hlut­fall sem fjár­magnseig­end­ur greiða af út­greidd­um arði? Við þurf­um að skapa sann­gjarn­ara og skil­virk­ara skatt­kerfi og að fjár­magn­s­tekju­skatt­ur verði sett­ur í þrepa­skipt­ingu. Við eig­um að styðja vel við ný­sköp­un­ar­starf­semi auk lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja. Punkt­ur­inn með þess­ari grein er að breiðu bök­in borgi rétt til sam­fé­lags­ins. Við get­um gert mun bet­ur í þeim efn­um og ég kalla eft­ir því hér með.

Við búum jú öll í þessu landi sam­an og ætt­um þar af leiðandi að bera sam­fé­lags­lega ábyrgð sam­an og að all­ir greiði sitt með skil­virk­ari hætti inn í sam­neysl­una. Það á að vera leiðarljósið í þess­um efn­um og við eig­um að búa til sann­gjarn­ari leik­regl­ur í skatt­kerf­inu okk­ar.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Það þarf heilt sam­fé­lag

Deila grein

25/04/2023

Það þarf heilt sam­fé­lag

Í þeim aðstæðum og þeim hraða sem samfélagið bíður ungum barnafjölskyldum upp á í dag, reikar hugurinn óhjákvæmilega til annarra tíma. Tíma sem voru kannski ekki einfaldari að neinu leiti, áskoranirnar voru aðrar, fjölskyldusamsetningin var kannski önnur, kröfurnar á foreldra og börn aðrar eða jafnvel öðruvísi. Hraðinn í samfélaginu var þó töluvert frábrugðinn því sem við búum við í dag.

Þegar ég sit og skrifa þennan pistil um málefni sem hefur verið mér hugleikið í nokkurn tíma þá reiknar hugurinn minn til Ísafjarðar í kringum 1991 þar sem ung móðir þá rúmlega sextán ára gömul með stúlkubarn tæplega eins árs, bjó innst inn í firði á Ísafirði, það var vetur, allt á kafi í snjó og faðirinn á sjó. En í vinnu þurfti móðirin að fara með barnið á snjóþotu rúmlega tveggja kílómetra leið inn í bæ. Ekki var mikið um það á þessum tíma að börn væru hjá dagmömmu eða snemma í leikskóla en henni var sú lukka að föðuramma stúlkunnar sá um hana frá þriggja mánaða aldri allt að þeim tímapunkti að hún gat farið á leikskóla rúmlega 2 ára gömul. Ekki einungis móðurinni varð af því gæfa heldur varð stúlkunni enn meiri gæfa að hafa fengið tækifæri til að mynda tengsl við ömmu sína sem urðu órjúfanleg fram yfir dauðadag hennar. Slík tengsl eru mikilvæg og gaf bæði ömmu og stúlku mikið því það eru ýmis gildi, ýmsar lífsreglur og lífsspeki sem aðeins fæst frá ömmu og afa. Því megum við ekki gleyma. Í tilviki þessarar stúlku þá voru fyrstu árin ekki alltaf einföld fyrir foreldra hennar en alltaf var þó ákveðin festa í lífinu sem amman hafði uppá að bjóða, alltaf opinn arm, alltaf góð ráð og stórfjölskyldan kom þar að líka sem reyndist ómetanlegt til framtíðar. Að alast upp í kringum ömmu og afa hefur í för með sér öðruvísi dýpt í lífinu, kennir manni aukna samstöðu, samkennd, virðingu og kærleika sem erfitt er að setja fingur á.

Getum við þetta ein og óstudd

Í dag eigum við það til að gleyma okkur í amstri dagsins, allir þurfa að vera mættir á slaginu, það eru börn sem þurfa á æfingar jafnvel tvær og þrjár á dag svo hittast allir heima í lok dags, það er möndlað eitthvað saman í eldhúsinu til að nærast og svo hlaupa allir frá borðinu í því skyni að sinna frekari verkefnum sem bíða þann daginn. Í tilviki barnanna eru það vinir og leikhittingar en í tilviki foreldranna er það að ná inn hreyfingu í daginn, klára vinnu sem náðist ekki þann daginn en þú ert nú samt viss um að ef þú klárar þetta ekki fyrir miðnætti þá hleypur það frá þér og verður ekki þarna þegar þú mætir daginn eftir. Nú svo þarftu að huga að andlegu heilsunni, líkamlegu og félagslegu því samfélagið krefst þess að við séum öll með næg verkefni og alltaf að, því annars ertu ekki að ná árangri eða hvað? Eða hvað felst í árangri fjölskyldunnar? Er það að allir sjái hversu vel þú stendur þig í lífskapphlaupinu sem er búið að temja okkur eða er það að rækta fjölskylduböndin eða jafnvel heilbrigð blanda af hvoru tveggja? Við heyrum jafnframt af því að foreldrar í dag gera menntakerfið og skólana í auknu mæli ábyrga fyrir uppeldi barnanna okkar en er það raunhæft, að leggja þær kröfur á fólk sem sjálft á börn og fjölskyldu og mætir í vinnuna, gerir sitt allra besta við að mennta börnin okkar í ákveðnum þáttum lífsins og svo segjum við fjölskyldan jæja þá er barnið búið að fá allt sem það þarf þetta árið því það mætti í skólann og fékk ákveðna færni sem er mæld á ákveðinn hátt? Ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki kominn tími á að við lítum aðeins inná við. Fjölskyldan hefur ákveðið menntunarhlutverk líka, sem felst í öðruvísi lífsfærni en fæst úr menntakerfinu okkar.

Hverjir bera ábyrgð á börnunum okkar

Það þarf heilt samfélag til að ala upp barn hefur verið sagt og því er ég sammála. Það þarf heilt samfélag en þá er ég ekki að meina Dúnu í næsta húsi heldur eru það kynslóðirnar sem á undan hafa komið, mamma og pabbi, amma og afi og svo frænkur og frændur. Það er bjargföst trú mín að við höfum tapað ýmsu á þessari vegferð sem við höfum verið á og við ætlum að vera svo sjálfstæð í því að klára okkur sjálf í gegnum uppeldi barnsins að við áttum okkur ekki alveg á því hvað það er sem barnið verður af í gegnum lífið en líka amma og afi.

Á ákveðnum tímapunkti bjuggu þrjár kynslóðir undir einu þaki og allir tóku þátt í að ala upp barnið og kenna því á lífsins áskoranir, hvernig eigi að takast á við þær og hvaða lífsgildi þarf að hafa með sér í bakpokanum á því stórkostlega ferðalagi sem lífið er. Ég held að við ættum að líta aðeins tilbaka og gera okkur öll ábyrg fyrir því að koma að uppeldi barnsins, mynda tengsl milli kynslóða sem eru svo sterk og órjúfanleg að þau haldast fram yfir gröf og dauða. Við berum jú öll ábyrgð á menntun barnanna okkar en fjölskyldan þá allra mestu. Það er ekki bara menntakerfið sem hefur með öllu stærsta hlutverkið í uppeldi barnanna okkar. Það erum við – Fjölskyldan.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist á visir.is 25. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Djúpið í örum vexti!

Deila grein

23/04/2023

Djúpið í örum vexti!

Við verðum að tryggja fleiri stoðir undir atvinnulíf þjóðarinnar. Já, við vitum, að þú hefur heyrt þetta nokkrum sinnum áður. En við viljum segja þér frá atvinnugrein sem er að skapa störf og það mjög fjölbreytt störf í samfélagi sem hefur verið í varnarbaráttu allt of lengi.

Undirritaðir áttu mjög fróðlega og góða ferð um liðna helgi er við kynntum okkur eldissvæði Háafells við Skarðshlíð í Ísafjarðardjúpi. Þar hefur verið lax í sjó í hartnær eitt ár með lágum afföllum og góðum vexti. Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells, fór yfir áherslur og framtíðarsýn fyrirtækisins á framleiðslunni í viðkvæmri náttúru og um leið verðmætri auðlind. Fróðlegt var að hlýða á yfirlit yfir þær miklu umhverfisrannsóknir sem fram hafa farið og þann viðamikla undirbúning sem fór fram áður en eldið fór af stað. Eins var upplýsandi að heyra hvað fyrirtækið býr að mikilli þekkingu eftir 20 ár í eldi og síðan áratuga reynslu af rækjuveiðum í Djúpinu.

Háafell vinnur eftir ströngum kröfum og vinnur nú að innleiðingu Whole Foods staðalsins fyrir sínar vörur, sem eru afar kröfuharðar, er varðar efni, fóður og sýnatökur. Whole Foods eru hvað þekktust fyrir sölu á hágæða matvælum sem eins lítið hefur verið átt við í framleiðslu og mögulegt er. Rétt er að geta þess að sýklalyf eru ekki notuð hjá þeim í fyrirtækjum sem í dag stunda laxeldi í sjó á Vestfjörðum. Við erum sannfærð um að góðri umgjörð sé hægt að byggja upp greinina í sátt við náttúruna, en ekki á kostnað hennar.

Við höfum tækifæri til að skapa ný störf og er mikilvægt að farvegurinn sé þannig úr garði gerður að hægt sé að sækja hratt fram. Það er ekki ónýtt að geta tryggt betur og stuðlað að störfum er krefjast fjölbreytts bakgrunns. Gleymum heldur ekki afleiddum störfum, allt helst þetta í hendur að festa í sessi sterkara samfélag á Vestfjörðum.

Það þarf að vinna að sanngjarni skiptingu tekna á milli ríkis og sveitarfélaga og tryggja uppbyggingu innviða. Framsókn hefur talað skýrt í þeim efnum, að gjaldtaka standi undir verkefnum sveitarfélaga ásamt því að tryggð sé sjálfbærni þeirra hafna og samfélaga þar sem eldi er stundað. Það er allra hagur.

Óhætt er að segja að framtíðin sé björt með nýrri atvinnugrein sem laxeldið er og ekki síst á stöðum sem hafa verið í mikilli varnarbaráttu síðustu áratugi. En það þarf einnig að taka af skarið og vera með skýra sýn á ákvarðanir sem þarf að taka. Laxeldið mun verða ein stærsta útflutningsgreinin og um leið tryggjum við frekari stoðir undir fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi.

Ágúst Bjarni Garðarsson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist á visir.is 22. apríl 2023

Categories
Greinar

Tíma­móta­samningur um lið­skipta­að­gerðir og loksins jafnt að­gengi

Deila grein

03/04/2023

Tíma­móta­samningur um lið­skipta­að­gerðir og loksins jafnt að­gengi

Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu er kjarninn í stefnu Framsóknar í heilbrigðismálum. Þær áherslur birtast sömuleiðis í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að aðgengi að heilbrigðisþjónustu er réttlætismál.

Blandað rekstrarform

Við eigum öflugt heilbrigðiskerfi sem byggir á blönduðu rekstrarformi þar sem hið opinbera bæði veitir þjónustu og kaupir af öðrum aðilum. Þegar heilbrigðisþjónusta er fjármögnuð með opinberu fé er áhersla lögð á að þjónustan sé veitt tímanlega, af gæðum og á hagkvæman hátt. Í litlu þjóðfélagi þarf að gæta að jafnvægi og forgangsröðun þannig að opinberar heilbrigðisstofnanir geti sinnt sínu lögbundna hlutverki. Með samningum Sjúkratrygginga Íslands um kaup á heilbrigðisþjónustu er hægt að stuðla að betri nýtingu fjár og mannauðs. Forsenda þess að blandað heilbrigðiskerfi gangi upp er samvinna og samspil kerfisins í heild þannig að hægt sé að fullnýta afkastagetu þess í þágu fólksins í landinu.

700 liðskiptaaðgerðir á þessu ári

Við þekkjum vel umræðuna í tengslum við liðskipaaðgerðir sem hefur fylgt þjóðinni undanfarna áratugi. Ófá biðlistaátök hafa verið sett af stað með ágætis tímabundnum árangri en skömmu síðar höfum við ratað aftur í sama farið. Opinberar stofnanir þurfa að forgangsraða þjónustu sinni til að geta tekist á við lögbundið hlutverk sitt er varðar bráð veikindi, farsóttir og annað. Því sitja stundum á hakanum aðgerðir sem þessar. Fjöldi sjúkratryggða einstaklinga hefur einnig nýtt sér heimildir EES regla um heilbrigðisþjónustu erlendis vegna langrar biðar eftir aðgerð. Er það gert með fullri greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands, með tilheyrandi viðbótarkostnaði, óþægindum og óhagræði.

Frá árinu 2016 hefur Klínikin boðið upp á liðskiptaaðgerðir án greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands sem hefur vissulega hjálpað mörgum. En tvöfalt heilbrigðiskerfi, þar sem efnameiri einstaklingar hafa tækifæri til að borga sig fram fyrir röðina, er eitthvað sem okkur í Framsókn hugnast ekki. Það verður að gæta jafnræðis í nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu þannig að allir geti gengið að góðri og tímanlegri þjónustu þegar á þarf að halda. Það er farsælast að allir þjónustuveitendur heilbrigðiskerfisins geti unnið saman að sameiginlegu markmiði á sömu forsendum. Þannig næst árangur til lengri tíma og tímabundinn á.

Það er því afar ánægjulegt að sjá áherslur Framsóknar setja mark sitt á heilbrigðismál undir öflugri forystu Willums Þórs, heilbrigðisráðherra. Í vikunni staðfesti hann samning Sjúkratrygginga Íslands um kaup á 700 liðskiptaaðgerðum á þessu ári. Samningurinn markar tímamót og stuðlar að auknu og umfram allt jöfnu aðgengi að liðskiptaaðgerðum. Sömuleiðis hefur heilbrigðisráðherra tryggt aðgengi kvenna að endómetríósuaðgerðum með samskonar samningi í upphafi árs.

Tryggjum gæði og förum vel með fé

Sérhæft heilbrigðisstarfsfólk er takmörkuð auðlind í fámennu samfélagi og skipulag þjónustunar þarf að taka mið af því. Höfum hagsmuni einstaklingsins sem þarf á þjónustunni að halda að leiðarljósi. Með kaupum Sjúkratryggingar Íslands á nauðsynlegri heilbirðgisþjónustu tryggjum við jafnt aðgengi, samvinnu, réttláta forgangsröðun, skynsama nýtingu á almanna fé og fullnýtum afkastagetuna í heilbrigðiskerfinu.

Ágúst Bjarni Garðsson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Eigum við ekki að láta græðgina eiga sig

Deila grein

28/03/2023

Eigum við ekki að láta græðgina eiga sig

Vegna ummæla sem látin voru falla í Bítinu á Bylgjunni nú í gærmorgun um að fólk þurfi annað hvort að rísa upp eða gefast upp í því ástandi sem nú ríkir á markaðnum, fannst mér tilvalið að setjast niður og skrifa nokkra punkta inn í umræðuna. Þessi ummæli eru nefnilega ekki til þess fallin að skapa einingu í samfélaginu, heldur þvert á móti til að skapa sundrung og stefna ólíkum hópum upp á móti hverjum öðrum.

Verðbólgan liggur eins og mara á þjóðinni sem virðist aldrei ætla að hypja sig. Þegar við horfum fram á verkefni sem eru jafn þung og þetta, sem nú eru uppi, er afar mikilvægt að horft sé í lausnir og leitað sé leiða um það hvernig og hvar við höfum tök á að stíga niður fæti. Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í síðustu viku um heilt prósentustig og standa þeir núna í 7,5%. Hér er um að ræða ákvörðun sem hefur víðtæk áhrif á samfélagið í heild, á heimilin í landinu, fyrirtækin og verð á matvöru svo dæmi séu tekin. Staðan er þegar orðin verulega krefjandi en umræða um að enginn sé að gera neitt og að enginn ætli sér að gera neitt er hættuleg og verulega óupplýsandi. Við þurfum öll að finna til ábyrgðar þegar kemur að umræðunni, nálgast hana á ábyrgan hátt og láta allan hræðsluáróður eiga sig.

Vaxtakvíði

Framundan er eftir sem áður að leysa stöðuna og þá þarf að horfa til þess hvað sé til ráða? Eigum við að hækka skatta á þá sem minnst mega við því, til þess eins að tryggja útgjaldahlið ríkissjóðs? Að mínu viti er þar engum greiði gerður!

Við vitum að ástandið í samfélaginu hefur gert fólki erfiðara um vik við að komast inn á fasteignamarkaðinn. Það skýrist einna helst af þyngri greiðslumatsskilyrðum og hærri eiginfjárskilyrðum sem Seðlabankinn tók ákvörðun um á síðasta ári, með það að markmiði að kæfa markaðinn og stöðva gífurlegar hækkanir á fasteignaverði sem hafa verið fordæmalausar síðustu árin. Ef þessar aðgerðir skila því sem áætlað er að þær skili, þá er það gott og vel. En við þurfum líka að muna að Róm var ekki byggð á einum degi. Árangur af þessum aðgerðum getur tekið tíma að skila sér þannig að fundið sé fyrir því.

Heimilin í landinu eru einnig farin að finna vel fyrir hækkunum á greiðslubyrði af húsnæðislánum sökum hækkandi vaxta. Kvíði er farinn að myndast hjá þeim sem þó náðu að festa vextina á lánunum sínum á hagstæðum tíma. Fastvaxtatíminn er fljótur að líða og búast má við töluverðri snjóhengju þegar þeim fastvaxtatíma líkur. Það er afar stórt stökk að fara úr 3% föstum vöxtum yfir í 8% vextina sem í boði eru í dag og má því búast við töluverðu höggi.

Samfélagsleg ábyrgð á öllum vígstöðum

En tölum aðeins um samfélagslega ábyrgð. Eru allir aðilar í samfélaginu virkilega nauðbeygðir til að nýta sér í hvert sinn allan þann vaxtahækkunarramma sem myndast við hækkun stýrivaxta? Þarf matarkarfan að hækka í hvert sinn og þarf alltaf að hækka vextina á húsnæðislánin okkar? Miðað við fjárhagsstöðu stórfyrirtækjanna og arðgreiðslurnar, afkomuhagnað bankanna og þau laun sem þeir hafa tök á að greiða stjórnarformönnum sínum er svarið einfaldlega NEI! Hvers vegna skila þessar gríðarlegu hækkanir sér aldrei til neytandans? Hvar er samfélagslega ábyrgðin ef hún er yfir höfuð til staðar?

Þjónustugjöld virðast fara vaxandi á öllum stöðum í samfélaginu. Þó bólar ekkert á aukinni þjónustu tengdri hækkuninni. Þvert á móti virðist þjónustan hægt og bítandi vera að færast alfarið yfir í netheima með tilheyrandi sjálfsafgreiðslum. Tökum sem dæmi gerð greiðslumats. Áður fyrr fór þessi þjónusta í gegnum þjónustufulltrúa bankanna. Í dag er þessi vinna öll sett í hendur neytandans í gegnum sjálfsafgreiðslukerfi á þeirra svæðum. Neytandinn hefur greiðslumatsferli í gegnum sinn netbanka, hakar í að afla megi upplýsinga frá Creditinfo um stöðu hans yfir tekjur og skuldir og bætir svo við tilfallandi auka liðum ef þörf er á. Þessi vinna kostar neytandann 10.000 kr. sem þýðir að hann greiðir þessa upphæð fyrir að þjónusta sig alfarið sjálfur. Hvenær er komið nóg?

Sýnum samstöðu

Hræðsluáróður skapar glundroða í samfélaginu og þegar slík staða kemur upp, horfum við fram á að rökræn nálgun á verkefnið sem framundan er, gæti staðið höllum fæti ef skrefin eru ekki varfærnislega stigin og allir fara saman inn í þetta, gangandi í takt. Sagan sýnir okkur að efnahagskrísa skapar sundrung en ekki sameiningu og því þurfum við að breyta. Við þurfum að sýna samstöðu og nálgast þetta sem ein heild. Við búum hér á landi saman og verðum því öll að finna til okkar samfélagslegu ábyrgðar og hjálpast að við að reisa samfélagið upp aftur. Það verðum við að gera saman.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. mars 2023.

Categories
Greinar

Víst eru börnin leiðar­ljósið

Deila grein

21/03/2023

Víst eru börnin leiðar­ljósið

Í síðustu viku varð frumvarp dómsmálaráðherra um útlendinga að lögum. Frumvarpið hefur hlotið mikla umfjöllun bæði á þingi og í samfélaginu. Um frumvarpið hafa ýmsar rangfærslur komið fram en fyrst og fremst hefur frumvarpið sætt töluverðum misskilningi, þ.e. um hvað þessum breytingum er ætlað að gera og hvað þær fela í sér. Það er mikilvægt að við getum tekið upplýsta umræðu byggða á rökum um það hvernig við ætlum að standa að þjónustu við íbúa og að það sé hægt að breyta lögum til hins betra fyrir samfélagið allt. Hér er einmitt um slíkar breytingar að ræða. Verið er að stíga skref með það að markmiði að ná betur utan um málaflokkinn og standa betur að þjónustu við þá sem til dæmis hingað leita eftir vernd. Samkvæmt lögunum er stjórnvöldum skylt að líta til hagsmuna hvers barns fyrir sig.

Hagsmunir barnsins að leiðarljósi

Í frumvarpinu eru skyldur lagðar á herðar mennta- og barnamálaráðuneytisins varðandi smíði og utanumhald á sérstöku hagsmunamati. Þar er verið að skerpa á lögunum hvað varðar að í hvert sinn sem unnið er með málefni barna í þessu kerfi þurfi að gera sérstakt hagsmunamat og unnin skuli reglugerð um það í samvinnu dómsmálaráðuneytis og þess ráðherra sem fer með barnaverndarmál hverju sinni. Þegar við vinnum með málefni barna, alveg sama hvort það eru börn sem eru komin hingað á flótta með fjölskyldum sínum eða fylgdarlaus börn, þarf að vinna ákveðið hagsmunamat og það þarf að skerpa á því hvernig það er unnið og leiðin til þess er að meta hverju sinni málefni hvers barns fyrir sig.

Mat á hagsmunum hvers barns fyrir sig

Þegar unnið er með stöðu þessara barna má ekki hugsa um fjölskylduna sem eina heild. Meta þarf hagsmuni hvers einstaklings fyrir sig. Sem dæmi má taka systkinahóp, en, þá sé ekki verið að hugsa um öll systkini saman heldur hvern og einn einstakling, hagsmunir hans séu vegnir og metnir. Það kemur fram í lögunum að reglugerð um hagsmunamat verði unnin í samvinnu dómsmálaráðuneytis og mennta- og barnamálaráðuneytis og ég fagna þeirri breytingu á lögunum vegna þess að hún setur auknar skyldur á okkur sem samfélag að gera akkúrat það sem aðilar hafa kallað eftir, það er að setja hagsmuni barna í fyrsta sæti. Það verður gert með þessari reglugerð og við erum þegar byrjuð á undirbúningssamtali við dómsmálaráðuneytið um það. Sú reglugerð verður að vera vönduð og ítarlega unnin. Ég hef trú á því að sú reglugerð muni mæta þeirri gagnrýni sem margir hafa viðrað. Hér er verið að stíga það skref að lögfesta skyldu dómsmálaráðuneytis og þess ráðuneytis sem fer með málefni barna hverju sinni að semja slíkt hagsmunamat.

Framsókn hefur það að leiðarljósi í allri sinni vinnu að hagsmunir barna séu settir í fyrsta sæti og ég treysti engum betur en hæstvirtum mennta- og barnamálaráðherra í þessa vinnu. Það þarf að vera mikill sómi af því hvernig við gætum að réttindum barna á flótta og allra barna svo það sé sagt.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. mars 2023.