Categories
Fréttir Greinar

Verjumst riðu! Ný nálgun við 100 ára gamalt verkefni

Deila grein

18/04/2023

Verjumst riðu! Ný nálgun við 100 ára gamalt verkefni

Á dögunum bárust okkur þær hræðilegu fréttir að riðusmit hafi greinst Miðfjarðarhólfi, en það svæði hefur verið talið musteri sauðfjárræktar í landinu. Það er ávallt áfall þegar riða greinist í sauðfé og aflífa þarf allan stofninn, áfall sem ekki nokkur bóndi á að þurfa að ganga í gegnum. Miðfjarðarhólf var fram að þessu talið hreint svæði og því er erfitt að kyngja þessum nýju tíðindum og hugur okkar er hjá bændum sem nú þurfa að drepa allt sitt fé nokkrum dögum fyrir sauðburð.

Riða hefur verið greind hér á landi í sauðfé í meira en öld, um er að ræða banvænan og ólæknandi sjúkdóm sem ekki hefur fundist lækning við. Því þarf þegar riða greinist á býli að fella allan stofninn auk þess sem mikillar varúðar þarf að gæta í mörg ár því smit getur dvalið í umhverfi og legið sem falin eldur í áratugi.

Á sama tíma er förgun á dýrahræjum í ólestri og einungis ein brennslustöð til taks á landinu til að taka við dýrahræjum til brennslu. Brennsla er nauðsynleg þegar um sýktar afurðir er að ræða. Þá er heldur ekki ásættanlegt að flytja sýkt dýrahræ milli varnarhólfa til förgunar með tilheyrandi áhættu.

Hin verndandi arfgerð

Þau tímamót urðu á síðasta ári að verndandi arfgerð gegn riðu var fundin í kind hér landi, það er að fundist hafa kindur hér á landi með ákveðnar stökkbreytingar sem eru ónæmar fyrir sjúkdómnum. Þessi breytileiki erfist og því væri hægt að rækta riðu úr íslenska sauðfjárstofninum á nokkrum árum. Til þess að það geti talist raunveruleg lausn þarf að setja á stað öflugt verkefni við að kortleggja stofninn og vinna sig þannig upp frá grunni. Því eru það ánægjulegar fréttir að Kári Stefánsson og Íslensk erfðagreining hafa sýnt því áhuga að leita að hinni verndandi arfgerð gegn riðu í öllu íslensku sauðfé. Íslensk erfðagreining er öflugt fyrirtæki með færa sérfræðinga og tæki og tól til að vinna að slíku verkefni.

Íslenski sauðfjárstofninn er nærri 100 % skrásettur og því hægt að vinna hratt og örugglega við að rækta upp riðþolinn stofn hér á landi. Öflug greining gæti líka komið í veg fyrir að það þyrfti að farga heilbrigðu fé og eins og nú er gert. Hægt yrði að grisja úr sýkt fé og koma þannig í veg fyrir sársaukafullar aðgerðir.

Mikilvægt frumkvæði

Fyrir tveimur árum síðan var farið í að safna sýnum úr kindum. Þetta er vinna sem bændur sjálfir hrundu á stað og kostuðu að frumkvæði og forystu Karólínu Elísabetardóttur sauðfjárbónda í Hvammshlíð í Skagabyggð. Þróunarsjóður sauðfjárræktarinnar styrkti verkefnið og tekin voru sýni úr tæplega 30.000 kindum víða um land. Með Karólínu hafa unnið fulltrúar frá þýskri rannsóknarmiðstöð, riðusérfræðingar frá Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins auk þess sem fleiri erlendir sérfræðingar hafa komið að verkefninu. Um er að ræða frumkvöðlastarf sem getur verið upphafið að breytingu sem beðið hefur verið eftir í áratugi við að útrýma riðu í sauðfé hér á landi.

Verkefni sem skiptir máli

Riðutilfelli hér á landi eru ávallt alvarleg, sérstaklega nú þegar sauðfjárræktun stendur höllum fæti vegna annarra ytri komandi þátta. Síðasta áratug hefur verið erfiður rekstrargrundvöllur í sauðfjárrækt og þær aðstæður sem eru nú uppi í efnahagsmálum hvetja bændur enn frekar til að bregða búi og leita á önnur mið. Riðusmit á öflugustu sauðfjársvæðum landsins er fráhrindandi raunveruleiki fyrir unga bændur að búa við.

Undirrituð telja að ríkið verði því að stiga inn með fjármagn í arfgerðargreingar. Við búum við þá góðu stöðu að hér á landi er til staðar þekking og vilji til þess að vinna á þessum vanda. Það er arðsamt verkefni fyrir ríkið að fara í slíkt verkefni enda fylgir því nokkur kostnaður að fara í niðurskurð á þúsundum kinda á nokkrum árum ásamt því að greiða tilheyrandi bætur.

Íslenska lambakjötið er dýrmæt afurð

Íslenska lambakjötið er merkileg vara og það hefur nýlega verið staðfest en í síðasta mánuði fékk íslenska lambakjötið, fyrst íslenskra afurða, upprunatilvísun og er eina matvaran á landinu sem hlotið hefur slíka merkingu. Um er að ræða PDO-merkingu (e. Protected designation of origin), sem er hæsta stig verndaðra upprunatilvísana í Evrópu og er íslenska lambakjötið er þar með komið í hóp með þekktum evrópskum landbúnaðarafurðum líkt og parmaskinku, parmesanosti, kampavíni og fetaosti. Hér er um að ræða gríðarlega stóra viðurkenningu sem kemur til með að skapa aukin verðmæti íslensk lambakjöts ásamt því að festa í sessi stöðu þess á erlendum mörkuðum.

Viðurkenningin er afrakstur mikillar vinnu sem hófst hjá Bændasamtökunum fyrir sex árum og hún kemur til með að auka virði lambakjötsins og eftirspurn. Hér er um að ræða gríðarmikla sönnun á því sem við þó vissum fyrir, að við erum með dýrmæta afurð hérlendis sem við verðum með öllu hætti að vernda. Þessi viðurkenning blæs okkur vonandi byr í seglin við að styðja frekar við og auka framleiðslu á íslensku lambakjöti til þess að standast aukinni eftirspurn. Ásamt því að leita allra leiða til þess að uppræta riðu hérlendis í eitt skipti fyrir öll.

Þórarinn Ingi Pétursson og Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmenn Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Íslensk matvara á páskum 2024

Deila grein

12/04/2023

Íslensk matvara á páskum 2024

Formaður Viðreisnar er framsýn kona og hugsar til framtíðar, þar viljum við öll vera. Hún undirstrikar það í grein sinni á Vísi í gær. Viðreisn horfir stíft til Evrópusambandsins þar sem sólin virðist skína skærar og verndartollar eru ekki til, eða hvað?

Evrópusambandið er tollabandalag og var stofnað sem slíkt, sem lýsir sér í niðurfellingu tolla milli ESB ríkja og sameiginlegum ytri tollum gagnvart ríkjum utan sambandsins. Tollar eru ekki séríslenskt fyrirbæri eins og Grýla og Leppalúði en það er oft látið að því liggja í umfjöllun þeirra sem virðast þjást af einskærri þrá og löngun til að leggja af tolla.

Það er kannski ástæða fyrir því að gula góða Cheerios fæst ekki í mörgum löndum ESB. Það er framleitt í Bandaríkjunum og er það líklega vegna hárra innflutningstolla ESB að það er bara of dýrt til að setja á markað í Evrópu.

Gott ef ekki er þá ekki líklega framleitt enn betra morgunkorn innan sambandsins og þau vilja styðja við sína matvöruframleiðendur.

Tollar eru og verða til staðar á meðan við lifum ekki í hinum fullkomna heimi frjálsra viðskipta. Sá tími mun seint koma því að samkeppnishæfni þjóða og hlutfallslegir yfirburðir þeirra eru mjög ólíkir. Þjóðir munu að sjálfsögðu áfram vernda framleiðslu sína og störf fólks.

Hafa það sem sannara reynist

Formaður Viðreisnar fullyrðir að verndartollar séu hærri hér en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Að langstærstum hluta bera innfluttar matvörur ekki verndartolla. Ef rýnt er í íslensku tollskránna og hún borin sama við önnur lönd sem við svo oft berum okkur saman við, má sjá að Ísland leggur ekki á hærri tolla og tollskráin íslenska inniheldur ekki fleiri tollnúmer en hjá löndum sem við berum okkur saman við og er í mörgum tilfellum búið að gera tvíhliða samninga um viðskipti á matvöru sem ekki er lagt á tollar.

Betri er heimafenginn baggi

Formaður Viðreisnar er annt um íslenska matvælaframleiðslu, þar þekki ég hana. Þar er ég líka. Hún nefnir sérstaklega öfluga mjólkurvinnsluna Örnu í Bolungarvík sem við á Vestfjörðum erum virkilega stolt að. Þrátt fyrir ungt fyrirtæki eru þau búin að koma sér vel fyrir á markaði með öflugt þróunarstarf og nýsköpun að vopni.

Þjóðir leggja á verndartolla til að jafna samkeppnisstöðu innlends landbúnaðar gagnvart innflutningi á sambærilegri vöru. Það þykir sanngjarnt. Það þyrfti ekki að spyrja að framtíðarmöguleikum lítillar mjólkurvinnslu í Bolungarvík ef hún þyrfti að keppa óhindrað við innflutta verksmiðjuframleiðslu frá útlöndum. Við Íslendingar eru heppnir að því leyti að hér ríkir velmegun í samfélaginu. Við viljum horfa til framtíðar og hafa matvælaframleiðslu hér á landi. Við viljum hafa hana til þess að við getum keypt hágæðavöru sem framleidd er við bestu mögulegu aðstæður og skapa á sama tíma vinnu fyrir fólkið í landinu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Strand­veiðar eitt skref á­fram, tvö aftur­á­bak

Deila grein

29/03/2023

Strand­veiðar eitt skref á­fram, tvö aftur­á­bak

Matvælaráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að hverfa aftur til þess fyrirkomulags strandveiða sem var hér fyrir árið 2018. Það er að segja að aflaheimildum sem ráðstafað er til strandveiða verði skipt upp í fjögur landssvæði. Auk þess er lagt upp með að aflaheimildir hvers landssvæðis og tímabils geti verið innan sama svæðis flutt yfir á næsta tímabil innan fiskveiðiársins. Það þýðir að hvert svæði getur geymt þær aflaheimildir sem ekki tókst að ná á land í þeim mánuði sem liðinn er yfir á næsta mánuð.

Mikil vinna var lögð í þær breytingar sem gerðar voru á kerfinu árið 2018 þar sem landið varð eitt svæði. Helstu breytingar sem þá voru gerðar voru að veiðidagar urðu bundnir við 12 daga í hverjum mánuði á hvern bát þessa fjóra mánuði strandveiðitímabilsins og gilti það meðan hámarksafla væri náð. Einnig var ákvæði sem heimilaði strandveiðibátum að landa ufsa sem VS-afla og sá afli myndi þá ekki teljast til viðmunar inn í hámarksafla. Þær breytingar sem voru gerðar voru með stuðningi landssambands smábátaeiganda en vissulega voru háværar raddir um að þetta yrði dauðadómur yfir kerfinu þar sem bátar myndu flykkjast á A- svæðið til þess að veiða þar sem það gæfi meira af sér og heimildir tímabilsins myndu nást strax á fyrstu tveimur mánuðunum.

Breytingar breytinganna vegna

Smábátasjómenn hafa eðli máls samkvæmt mikla skoðun á kerfinu, ekki bara tengt svæðum heldur einnig á flestum útfærslum þess. En svarið við þeirra athugasemdum ætti þó ekki að vera að kollvarpa núverandi kerfi og í raun að taka þá áhættu að markmið kerfisins í heild sé sett í hættu.

Áform matvælaráðherra er að hverfa til fyrra horfs sem veldur í raun meiri misskiptingu milli landssvæða en núverandi kerfi bíður upp á. Ekki er útfært í frumvarpinu hvernig aflaheimildum verði skipt milli landssvæða eða hvaða aðferðum verði beitt við að reikna það út. Erfitt getur reynst að finna út hvaða magn á að fara inn á hvert svæði.

Áður en breytt var úr skiptingu yfir í einn pott gat mismunur á milli svæða verið allt frá 6 dögum en á öðrum 20 dagar og nú hefst aftur kapphlaupið á miðin með ófyrirséðum afleiðingum.

Útkoman alltaf háð óvissu

Árið 2020 tók Byggðastofnun út þær breytingar sem voru gerðar tveimur árum fyrr. Almennt voru svarendur ánægðir með kerfið og þær breytingar sem höfðu verið gerðar. Vestlendingar og Vestfirðingar voru hvað ánægðastir með breytingarnar sem gerðar höfðu verið á strandveiðikerfinu, en Norðlendingar og Austfirðingar síður ánægðir þó meirihluti þeirra taldi þó breytingar á kerfinu til bóta. Ýmsar ábendingar komu fram til þess að bæta kerfið enn betur. Nú hefur matvælaráðherra skipað samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu og hefur hún ekki lokið vinnu sinni og því er það úr takt að koma fram með þetta frumvarp á meðan sú vinna stendur yfir.

Að vori er ávallt óvissa hvernig strandveiði komi til með að verða að sumri. Ytri aðstæður er ekki hægt að festa í lög. Veðurfari, gæftum og fiskgengd væri gott að geta stjórnað en það er því miður ekki í boði. Nú ætti að vera að fara í hönd sjötta sumarið eftir að þessa breytingar voru gerðar. Farsælast væri að í haust væri tekið út hvernig til hafi tekist og hvað mætti betur fara í stað þess að rykkja í bakkgírinn án þess að stíga á kúplinguna.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 29. mars 2023.

Categories
Greinar

Þörunga­eldi er vaxandi grein

Deila grein

16/03/2023

Þörunga­eldi er vaxandi grein

Á dögunum var kynnt skýrsla alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi. Þar var komið inn á tækifæri og áskoranir í þörungaeldi á Íslandi. Í skýrslunni segir að þörungarækt í heiminum hafi færst í vöxt til að mæta aukinni eftirspurn og bæta framleiðslustýringu. Fjallað er um hvernig skipta megi þörungaeldi í tvær talsvert ólíkar undirgreinar, þ.e. smá- og stórþörungaframleiðslu og svo ólíkar aðferðir sem notaðar eru við ræktun, uppskeru og vinnslu. Vöxtur í smáþörungaeldi er áætlaður verulegur auk nýtingu þörunga úr sjó. Hér erum við því að tala um grein sem getur skilað af sér mörgum milljörðum í þjóðarbúið. Nú standa yfir tilraunir með ræktun á stórþörungum í sjó en í skýrslunni kemur fram að vöntun sé á sértækum reglum og stendur það vexti greinarinnar fyrir þrifum. Í skýrslunni segir að Ísland geti stutt við þörungaeldi með því að fylgja fordæmi nágrannaríkja sem hafa sett stefnur og reglur til að ýta undir sjálfbæran vöxt greinarinnar og í skýrslunni er beint á að sértækt regluverk um smáþörungaframleiðslu á Íslandi sé ekki til en vöntun á því muni sennilega ekki hamla vexti verulega.

Lærum af nágrönnum okkar

Við getum litið til nágranna okkar eins og Norðmanna, Færeyinga, Dana og Skota. Þar hafa aðgerðir verið innleiddar til að styðja við vöxt og snúa þær að því að veita þróunarleyfi og setja skýr reglu- og leyfisveitingakerfi fyrir sjálfbæra stórþörungaframleiðslu. Þetta hefur skilað þeim árangri sem stefnt var að.

Aukum verðmætasköpun við nýtingu þörunga

Í vikunni mælti ég fyrir tillögu minni til þingsályktunar um aukna verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Tillagan felur í sér að Alþingi feli matvælaráðherra, í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að skipa starfshóp sem hafi það að markmiði að kanna möguleika á aukinni nýtingu og verðmætasköpun þörunga. Með því að fara yfir lög og reglur við sjálfbæra nýtingu á þörungum sem vaxa villtir eða eru ræktaðir í sjó eða landi. Auk þess miðar vinnan að því að efla rannsóknir og nýsköpun um land allt hvað varðar öflun þörunga, nýtingu þeirra sem og framleiðslu og markaðssetningu á vörum úr þeim. Einnig er mikilvægt að styrkja eftirlitsaðila og auka sérfræðiþekkingu um þörungarækt innan viðeigandi stofnana. Vaxandi markaður er fyrir þörunga og afurðir þeirra í heiminum, en villtir þörungar eru takmörkuð auðlind. Þetta eru oft á tíðum mjög dýrar vörur og skapa því mikil verðmæti. Hér á Íslandi eru, eins og við vitum öll, kjöraðstæður fyrir bæði öflun og ræktun þörunga úr sjó ásamt ræktun á landi.

Löggjöfin sem við styðjumst enn sem komið er við, er annars vegar lög um fiskeldi, sem nær þá utan um ræktun þörunga á landi, eða alla vega að einhverju leyti. Svo erum við með nýleg lög sem fjalla um nýtingu sjávargróðurs. Mikilvægt er að gera grein fyrir hvernig lög og reglur styðja við sjálfbæra nýtingu á þörungum og hvort lögin nái yfir það verkefni sem við stöndum frammi fyrir þegar kemur að vexti í nýtingu á þörungum. Með úttekt á lögunum má vinna áfram að því að bæta lagarammann, greininni til heilla. Þá er einnig mikilvægt að kanna af fullri alvöru hvernig efla megi rannsóknir og nýsköpun um land allt sem varðar öflun þörunga, nýtingu þeirra sem og framleiðslu og markaðssetningu á vörum úr þeim.

Markaður fyrir þörunga fer vaxandi

Það þarf að brauðfæða íbúa heimsins. Þar er sjálfbær matvælaframleiðsla lausnin til framtíðar. Á tímum sem nú, er fæðuöryggi í algleymingi. Fleiri skynja án efa mikilvægi öflugrar matvæla- og heilsuefnaframleiðslu hér á landi og eðlilegt er að horfa til þess hvaða frekari tækifæri kunni að vera fyrir hendi fyrir matvælalandið Ísland á komandi árum. Við strendur landsins eru víðfeðmir þaraskógar sem geta orðið enn ein stoðin í eflingu landsins sem matvæla- og bætiefnalands. Þörungategundir eða efni unnin úr þeim eru nú þegar hluti af daglegu lífi flestra Íslendinga þótt fæstir geri sér grein fyrir því. Þörungamjöl eða þörungaþykkni er metið að verðleikum um allan heim og er það flutt héðan lífrænt vottað.

Við höfum gríðarlega mörg og góð tækifæri ef við einbeitum okkur að því hvernig við getum tryggt aukna verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Heimsmarkaður fyrir þörunga er stór og hann fer vaxandi. Við vitum að þjóðir í Asíu hafa lengi stundað umfangsmikla framleiðslu á þörungum og svæði í Norður-Ameríku eru komin með dágóða reynslu. Hollendingar eru komnir nokkuð framarlega á þessu sviði, bæði varðandi smáþörunga og ræktun þangs á strengjum. Þannig að þjóðir nær og fjær eru komnar vel áleiðis og engin ástæða fyrir okkur að dragast hér aftur úr. Markmiðið er að uppskera villtra þörunga verði sjálfbær. Stuðningur við þörungaframleiðslu er líka stórt byggðamál því tækifæri eru um allt land í greininni.

Halla Signý Kritjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Endóvika

Deila grein

07/03/2023

Endóvika

Vikan er helguð endómetríósu.

Hvað er endóvika? Jú það er vika til vitundavakningar og fræðslu og vekur verðskuldaða athygli á endómetríósu, sem einnig kallast legslímuflakk. Sjúkdóminn sem mátti ekki og var ekki talað um í áranna raðir. Endómetríósa, eða endó til styttingar, hrjáir konur og einstaklinga sem fæðast í kvenlíkama. Sjúkdómurinn er þeim þungbær. Hann er krónískur, fjölkerfa sjúkdómur og afar sársaukafullur. Af þeim sem hafa sjúkdóminn eru um 60% með einkenni og um 20% með mjög sár einkenni. Endó leiðir til yfirborðsþekju endómetríósufruma á líffærum, sem bregðast við mánaðarlegum hormónabreytingum kvenlíkamans og valda bólgum eða jafnvel innvortis blæðingum. Þetta er ekki tæmandi talning einkenna, en þau hafa það öll sameiginlegt að reynast sársaukafull. Þetta er skæður sjúkdómur og það er löngu tímabært að við viðurkennum alvarleika hans og bregðumst við af fullri alvöru.

Heilbrigðiskerfið tekur við sér

Því er einstaklega ánægjulegt að sjá heilbrigðiskerfið taka meðhöndlun sjúkdómsins föstum tökum. Fræðsla hefur bæst til muna og ekki er lengur hvíslað um sjúkdóminn. Endometríósuteymi kvennadeildar Landspítalans vinnur með þverfaglegt teymi kvenlækningadeildar. Teymið sinnir sjúklingum með erfið einkenni sem eru í greiningarferli eða ef meðferð hefur ekki skilað árangri. Allt er þetta gert með það að markmiði að auka lífsgæði sjúklingsins.

Samningur um kaup á aðgerðum

Hæstvirtur heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, staðfest samning, sem Sjúkratryggingar Íslands hafa gert við Klíníkina um kaup á aðgerðum vegna endómetríósu.

Samningurinn er stórt skref sem kemur til með að bæta líf margra. Á sama tíma fá einstaklingar sem sjúkdómurinn hrjáir loksins viðurkenningu á því sem raunverulega er að hrjá þá. Sjúkdómurinn er ekki lengur „túrverkir“ sem á bara að harka af sér, heldur er þetta alvarlegur og sársaukafullur sjúkdómur sem hægt er að meðhöndla.

Ég vil hvetja fólk til að sækja sér upplýsinga og fræðast um þennan sjúkdóm sem hefur ásótt svo marga eins og draugur. Færa hann í ljósið og styðja við þau sem sjúkdómurinn hrjáir.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. mars 2023.

Categories
Greinar

Miklir vaxtamöguleikar sjókvíeldis

Deila grein

02/03/2023

Miklir vaxtamöguleikar sjókvíeldis

Matvælaráðherra hefur hrundið á stað vinnu við að uppfylla markmið stjórnarsáttmálans um að mótuð verður heildstæð stefna um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldis. Við þá vinnu verður lögð áhersla á tækifæri til atvinnusköpunar og mikilvægi þess að greinin byggist upp á grundvelli sjálfbærni, vísindalegrar þekkingar og verndar villtra laxastofna. Eitt skref í þeirri vinnu var að fá skýrslu um stöðu og framtíð lagareldis Íslands. Til þessa verks var Boston Consulting Group fengið, hér eftir nefnt BCG. Skýrslunni var ætlað að meta framtíðartækifæri og áskoranir í íslensku lagareldi og greina tækifæri til sjálfbærrar verðmætasköpunar. Þá er einnig gerður samanburður við önnur lönd.

Rætt um sjókvíeldi

Undanfarnar vikur hefur sjókvíeldi verið mikið í umræðunni eftir að ríkisendurskoðandi birti skýrslu, sem innihélt stjórnsýsluúttekt á sjókvíeldi. Það er margt í skýrslu BCG sem styður við skýrslu ríkisendurskoðanda. Þá sérstaklega gagnrýni á að stjórnsýsla, lagaumgjörð og ekki síst eftirlitið hafi ekki vaxið samhliða uppbyggingu sjókvíeldis hér við land.

Af hverju fiskeldi?

Það þarf að brauðfæða íbúa heimsins. Þar er sjálfbær matvælaframleiðsla lausnin til framtíðar. Ef við tölum um próteinframleiðslu þá er kolefnisfótspor fiskeldis þ.m.t. sjókvíeldi minna en próteinframleiðsla annarra dýraafurða á landi. Kolefnisfótspor fiskeldis má rekja til fóðurframleiðslu og þar má gera betur. Hér á landi eru góð skilyrði fyrir fiskeldi, þ.e. sjálfbær orka, góð vatnaskipti í fjörðum og mikil og góð þekking á lífríki sjávar. Allt þetta er mikilvægt til að fiskeldi vegni vel. Fiskeldið er komið af stað og við höfum alla möguleika að sjá það dafna í sátt við umhverfið og samfélagið. Hvernig gerum við það sem best?

í skýrslu BCG segir: „Lykilþáttur í vexti lagareldis er aðgangur að staðbundinni reynslu og sérþekkingu. Það skapar tækifæri til að þróa staðbundna þekkingargrein sem er drifin áfram af blómlegu rannsóknasamfélagi og öflugum menntastofnunum.“

Rannsóknir og eftirlit nær eldinu

Í skýrslu BCG kemur fram að Ísland geti skapað sér samkeppnisforskot í lagareldi, en til þess þarf sterkan ramma utan um eldið og stjórnsýslan hefur ekki náð að fylgja eftir þeim vexti sem hefur orðið í sjókvíeldinu og ekki síst að sinna því regluverki sem eru í þeim lögum og reglum sem nú eru í gildi.

Bæði fiskeldið og sveitarfélögin sem snúa að eldinu hafa ítrekað kallað eftir að eftirliti og rannsóknum sé sinnt í nærumhverfi þess. Stjórnvöld og þær stofnanir sem sinna eftirlitinu telja vandkvæðum bundið að þeir sem stunda eftirlitið séu einnig hluti af því samfélagi þar sem starfsemin er. Það auki hættu á vanhæfi og að þeir sem sinni eftirlitinu verði samdauna greininni, og geti þar með ekki sinnt sínu hlutverki sem skyldi.

Þær athugasemdir eiga þá við um allt eftirlit með atvinnugreinum í landinu. Við erum örþjóð í stóru landi. Ef öflug þekkingar- og eftirlitsstofnun er byggð á þeim svæðum sem næst standa sjókvíeldinu byggist ekki bara upp þekking á nærumhverfinu heldur einnig mikilvæg sérþekking sem hægt er að deila innan þess kjarna sem slík starfsemi er rekin, samfélaginu og greininni til styrktar.

Gjaldtakan heim

Að lokum, þá tekur BCG undir ákall sveitarfélaganna um að endurskoða þurfi skiptingu skatta og gjalda á milli ríkis og sveitarfélaga til að auka getu sveitarfélaga til fjárfestingar í innviðum. Ef við lítum til þeirra sveitarfélaga sem hafa notið greinarinnar, og hafa á fyrstu 15 árum aldarinnar verið í niðursveiflu sökum fækkunar íbúa, lækkandi fasteignaverðs og óstöðugra atvinnu, er þetta staðfesting þess að til þess að byggja upp sjálfbært samfélag þurfa þau að njóta meiri rentu af greininni til þess að geta vaxið með.

Skýrsla BCG tekur undir málflutning þeirra sem horfa á fiskeldið sem lykilstoð í uppbyggingu sterkar landsbyggðar um leið og það er vaxandi stoð í hagkerfi landsins.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Mikil­vægi strand­svæðis­skipu­lags

Deila grein

23/02/2023

Mikil­vægi strand­svæðis­skipu­lags

Strax í árdaga sjókvíeldis fyrir vestan og austan fóru sveitarfélög á svæðinu að kalla eftir að það yrði gert strandsvæðisskipulag fyrir þau svæði sem þá þegar var búið að ákveða af stjórnvöldum að hentuðu fyrir eldið. Hafist var handa við að loka stærsta hluta strandlengjunnar þannig eldi var aðeins leyft á hluta Austfjarða, á Vestfjörðum og í Eyjafirði.

Sveitarfélögin kölluðu sterkt eftir aðkomu að skipulagi þeirra að hvernig svæðum yrðu úthlutað. Fjórðungssamband Vestfirðinga sendi t.d. inn umsögn um fiskeldislögin sem voru í smíðum árið 2008 og bentu á að aðgengi að strandsvæðum væri auðlind til framtíðar litið. Aðgengi sveitarfélaga á Vestfjörðum að skipulagi nýtingar þeirra væri því mikilvægt enda Vestfirðir með 1/3 af strandlengju Íslands. Afstaðan var skýr að það ætti að líta á aðkomu sveitarfélaga að skipulagi strandsvæða á sama hátt og sveitarfélög komi að skipulagi nýtingu annarra auðlinda, s.s. jarðhita og vatnsorku.

Á þetta var ekki fallist. Þó kom fram í meirihlutaáliti atvinnunefndar það sjónarmið og lögð til sú breyting á frumvarpinu að leitað yrði umsagnar viðkomandi sveitarfélags við svæðaskiptingu fiskeldis, við staðbundið bann við starfsemi og við veitingu rekstrarleyfis. Í framhaldi reyndu sveitarfélögin ítrekað að koma skoðununum sínum á framfæri næstu árin við þær breytingar sem voru gerðar á fiskeldislögum og öðrum lögum sem snéru að auðlindanýtingu fjarða á svæðinu.

Lög um skipulag haf-og strandsvæða

Sveitarfélögum var loks 2018 hleypt að borðinu þegar lög um skipulag haf- og strandsvæða voru samþykkt í þriðju atrennu. Fjórðungssamband Vestfirðinga hafði þá í rúman áratug bent ítrekað á mikilvægi þess fyrir svæðið. Markmið laganna voru m.a. að nýting og vernd auðlinda haf- og strandsvæða yrði í samræmi við skipulag sem hefði efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi að leiðarljósi.

Það var svo á árinu 2019 sem svæðisráð voru endanlega skipuð og hafa þegar skilað tillögu inn til innviðaráðuneytisins sem staðfestir strandsvæðisskipulagið.

Skipulagið unnið í opnu og aðgengilegu ferli

Strandsvæðisskipulagið er unnið undir forystu og stjórn Skipulagsstofnunar með aðkomu fulltrúa sveitastjórnar á svæðinu. Svæðisráð um strandsvæðaskipulag bera svo ábyrgð á gerð þess. Skipulagið er því unnið í samvinnu ríkis og sveitarfélaga og leggur grunn að leyfisveitingum fyrir framkvæmdum og annarri starfsemi á því svæði sem skipulagið nær til og í vinnunni var miðað við að hún væri opin og aðgengileg bæði almennings og hagsmunaaðila. Aðkoma heimamanna er nauðsynleg eins og í annarri skipulagsvinnu fyrir svæðið.

Strandsvæðisskipulagið er skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði í fjörðum og flóum utan netlaga þar sem sett er fram stefna um framtíðarnýtingu og vernd svæðisins. Það getur falið í sér nýtingu svæða til eldis nytjastofna, efnistöku eða ferðaþjónustu, verndun eða samgönguleiða. Við mótun strandsvæðisskipulagsins var umhverfismati beitt til að tryggja að skipulagið stuðli að sjálfbærri þróun og dragi þannig úr neikvæðum áhrifum þess á umhverfið og því fléttað inn í vinnu svæðisráðs. Afurðin er fædd og bíður blessunar innviðaráðuneytisins.

Skipulagið unnið af þekkingu

Þegar tillögurnar lágu fyrir bárust fjölmargar umsagnir líkt og gengur og gerist skipulagsferli, enda verið að skipuleggja þessi svæði í fyrsta sinni. Það er gott að sjá slíkan áhuga og einnig hægt að segja að kynning á tillögunum hafi gengið vel. Það verður ekki annað séð en að skipulagið hafi verið unnið af þekkingu og með ráðgjöf frá til þess bærum aðilum bæði með þekkingu heimamanna og stofnunum sem eru með sérfræðiþekkingu á lífríkinu og skipulagsgerð.

Það er von mín að staðfesting fáist innan tímaramma á mikilvægu skipulagi strandsvæðisskipulags og að í kjölfarið verið fleiri strandsvæði skipulögð hringinn í kringum landið.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Margar hliðar fiskeldis

Deila grein

09/02/2023

Margar hliðar fiskeldis

Út er komin skýrsla sem hefur að geyma stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðanda á lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirliti á sjókvíaeldi hér við land en stjórnsýsluúttektin var gerð að beiðni matvælaráðherra. Niðurstöður skýrslunnar koma ekki á óvart en það eru þó um leið ákveðin vonbrigði að fá það staðfest hversu illa hefur gengið við að byggja upp umgjörð og stjórnsýslu utan um greinina.

Á vorþingi 2019 var lagaramminn uppfærður og var lagt upp með að efla frekari umgjörð um sjálfbært fiskeldi til framtíðar. Þegar frumvarpið var lagt fram var það byggt á vinnu stefnumótunarhóps sjávarútvegsráðherra sem skilaði af sér skýrslu haustið 2017. Í meðferð þingsins var byggt enn betur undir kröfur um vernd villtra nytjastofna ásamt því að gætt yrði að umhverfisverndarsjónarmiðum, heilbrigði og umhverfisvernd með mótvægisaðgerðum og ströngu eftirliti.

Eftirlit fest í sessi

Í lögunum var fest í sess áhættumat erfðablöndunar. Meðal þeirra breytinga var að lögfesta mótvægisaðgerðir sem stofnanir sem vinna að leyfisveitingum verða að taka tillit til. Það er mat Ríkisendurskoðunar að mótvægisaðgerðirnar hafi ekki verið nýttar sem skyldi en að mínu mati var vilji löggjafans skýr um að nýta mótvægisaðgerðir sem meðal annars hafa reynst vel í Noregi. Á sama hátt þarf áhættumat erfðablöndunar að endurspegla notkun þessara mótvægisaðgerða.

Það var líka skýrt í lögum að Hafrannsóknarstofnun var gert að fylgjast með lífríkinu, ástandi þess fyrir upphaf eldis og breytingum á því meðan eldi stendur með það að markmiði að standast viðmið á burðarþoli svæðanna og hefur Hafrannsóknastofnun unnið í vöktunarverkefni samkvæmt því síðastliðin ár.

Öflug atvinnugrein sem skilar milljörðum í þjóðarbúið

Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem getur skipt sköpum fyrir okkur sem þjóð í framtíðinni en mikilvægt er að setja skýrt og sanngjarnt regluverk í kringum það. Aðeins þannig náum við fram markmiðum um að greinin verði sterk og öflug á sama tíma og við tryggjum sjálfbæra þróun og vernd lífríkisins. En þau markmið þurfum við ávallt að hafa að leiðarljósi. Þá eiga nýleg lög um gjaldtöku í fiskeldi að tryggja vaxandi tekjur með vaxandi eldi.

Útflutningur og útflutningsverðmæti laxeldisafurða hefur aukist í samræmi við aukna framleiðslu og var nærri 30 ma. kr. árið 2021 og var alls slátrað 53,1 þúsund tonnum af fiski úr eldi á því ári. Uppbygging sjókvíaeldis hefur farið fram á Vestfjörðum og Austfjörðum og hefur breytt samfélögum á þessum svæðum til betri vega og það má svo sannarlega þakkað sjókvíaeldinu fyrir gríðarlega öfluga uppbygging á landsbyggðinni.

En öllum greinum í örum vexti fylgja vaxtarverkir, því miður hefur eftirliti verið ábótavant þrátt fyrir að aukið eftirlit og aðhald hafi verið undirstrikað í lagasetningu á fiskeldislögunum 2019. Fiskeldið er að skila milljörðum í þjóðarbúið og því er það góð brýning hjá ríkisendurskoðun að stjórnvöld tryggi eftirlitsstofnunum þær heimildir og aðstöðu sem þær þurfa til að sinna nauðsynlegu eftirliti.

Endurskoða þarf laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis

Undirrituð hefur ítrekað lagt fram þingsályktunartillögur sem snúa að fiskeldi í þá átt að bæta laga- og reglugerðarumhverfi sjókvíaeldis. Annars vegar tillögu um að endurskoða þurfi laga- og reglugerðarumhverfi sjókvíaeldis með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi. Endurskoðun sem felur í sér heildargreiningu á gjaldtöku ríkis og sveitarfélaga af fiskeldi og tillögur að lagabreytingu sem skýra heimildir til töku gjalda til að standa undir nauðsynlegri þjónustu ríkis og sveitarfélaga af sjókvíaeldi. Í skýrslu Ríkisendurskoðanda eru sterkar ábendingar um mikilvægi þess að þessi endurskoðun þurfi að fara fram.

Hins vegar hef ég einnig lagt fram tillögu um eignarhald í fiskeldi sem hefur það að markmiði að koma fram með tillögur um hvernig takmarka megi samþjöppun eignarhalds á laxeldisleyfum og takmarka eignarhald erlendra aðila á laxeldisleyfum líkt og gert er í sjávarútvegi.

Eignarhald laxeldisfyrirtækja á Íslandi hefur þróast þannig að mikil samþjöppun hefur átt sé stað, sem getur leitt til þess að fáein fyrirtæki verði allsráðandi. Hugsanlegt er að einn aðili eignist öll gild rekstrarleyfi og stýri þannig allri framleiðslu á eldisfiski og seiðaeldi á sjó og landi. Við það skapast sú hætta að einn aðili stjórni stórum landsvæðum með þeim afleiðingum að samfélög, sveitarstjórnir og stjórnvöld eigi meira undir honum en góðu hófi gegnir. Í skýrslu ríkisendurskoðanda má finna áhyggjur af mikilli samþjöppun í fiskeldinu, þar kemur fram að þrjú ráðandi félög, 14 af 16 rekstrarleyfum sjókvíaeldis, eru á hendi félaga undir yfirráðum þriggja norskra fyrirtækja.

Stjórnsýslan má ekki sofa á verðinum

Til þess að hægt sé að reka og stunda fiskeldi til framtíðar á sjálfbærum grunni þurfa kröfur er varða sjúkdóma og heilbrigðismál að vera skýrar og byggja á bestu mögulegri þekkingu. Tekjur af fiskeldinu eru okkur mikilvægar og nú sem aldrei fyrr, því er gríðarlega mikilvægt að eftirlit með greininni sé traust, ekki bara vegna umhverfisáhrifa heldur einnig fyrir vöxt greinarinnar og fyrir samfélagið.

Þörf er á að einfalda og samþætta eftirlitið líkt og gert er í Færeyjum þar sem ein stofnun fer með málefni fiskeldisins og samþættir bæði eftirlit með eldinu og einnig leyfisveitingum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Það er mismunandi heitt

Deila grein

02/02/2023

Það er mismunandi heitt

Byggðastofnun hefur gefið út skýrslu um samanburð á orkukostnaði heimila fyrir síðasta ár. Byggðastofnun hefur áður gefið út slíkar skýrslur og hefur fengið Orkustofnun til að reikna út kostnað á ársgrundvelli, við raforkunotkun og húshitun á sambærilegum fasteignum víða um land.

Það er fátt í þessari skýrslu sem kemur á óvart eða hefur verið dulið varðandi það hve kostnaður er mismunandi eftir landssvæðum og er margt sem skýrir þann mismun.

Húshitun er munaður

Þegar rýnt er í húshitunarkostnað er sem fyrr að munurinn á milli svæða er mun meiri en á raforkuverði. Hann er mikill , miklu meiri en ásættanlegt er. Munurinn á lægsta og hæsta mögulega húshitunarkostnaði er þrefaldur. Þó hefur þessi munur dregist saman m.a. vegna hækkunar niðurgreiðslna á dreif- og flutningskostnaði, aukinnar samkeppni á raforkusölumarkaði og húshitunarkostnaður hefur lækkað umtalsvert þar sem kynt er með rafmagni með tilkomu varmadæla. Margir hafa nýtt sér styrki til að setja upp varmadælur og geta því lækkað hitunarkosnað umtalsvert.

Það sem heldur kemur ekki á óvart er að Vestfirðir tróni á toppi hvað húshitunarkostnað varðar ásamt Grímsey. Gamansagan af Vestfirðingnum sem var nýfluttur suður og greiddi glaður hitaveitureikninginn fyrir allan stigaganginn og þótti vel sloppið á mögulega enn við.

Sameiginleg auðlind

Við tölum oft um að þeir sem nýti auðlindir sjávarins eigi að greiða fyrir þann aðgang. Aðgangur að heitu vatni er auðlindanýting og það hafa ekki allir aðgang að þeirri auðlind. Íslendingar eru lánsamir að hafa aðgang að þessari einstöku auðlind þar sem jarðhitinn er og þegar við hófum orkuskipti í húshitun var það mikil umskipti og nú eru um 90% heimila kynt með jarðhita

Á Vestfjörðum eru kynntar hitaveitur, raforkuöryggi er ótryggt og vegna þess eru þessar hitaveitur oft kynntar með olíu sem eykur kostnað og losun gróðurhúsalofttegunda eykst. Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Heitt vatn er að finna víða í fjórðungnum og hann þarf að nýta betur. Til þess þarf að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar þannig að hægt verði að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkyntar hitaveitur. Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 m.kr fram til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkra rannsókna myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Raforka er forsenda þess að uppbygging atvinnu, samfélaga og orkuskipta verði á svæðinu. Að auki eykur það jafnræði íbúa á svæðinu gagnvart öðrum íbúum landsins.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Nú árið er liðið

Deila grein

11/01/2023

Nú árið er liðið

Við tökum á móti nýju ári og nýju upphafi. Veðurguðirnir sem virtust hafa gleymt sér í sumrinu hrukku í takt í upphafi aðventu og lögðu snjó með kulda yfir landið. Allt hefur sinn tíma og árstíðir hafa sitt hlutverk sem fyrr. Þó kemur það landanum alltaf jafn mikið á óvart þegar fer að snjóa og það í desember. Ófærðin veldur írafári en það er mögulega merki um breytta samfélagsmynd. Fólk er háð greiðum samgöngum, sækir vinnu og skóla í næstu byggðalög og ferðaþjónustan reiðir sig á að samgöngur séu góðar allt árið um kring.

Það eru sannarlega tímamót að taka móti nýju ári, nýju upphafi fylgir uppgjör þess liðna, söknuður og tilhlökkun í senn.

Þannig hefur árið 2022 liðið. Hófst í samkomutakmörkunum og það ótrúlega gerðist að stríð hófst í Evrópu og stendur enn. Okkur finnst það ótrúlegt og það er líkt og mannkynið læri aldrei af sögunni því þrátt fyrir góð áform birtast vond öfl sem ná of oft yfirhöndinni og allir tapa. Óvissan er mikil og áhrifin breiða sig yfir alla Evrópu þar sem enn sér ekki fyrir endann á áhrifunum og hugur okkar er hjá fólki sem býr við ógnir stríðs í Evrópu og reyndar víðar um heiminn. Áhrif stríðsins vara í nokkrar kynslóðir og enginn verður krýndur sigurvegari.

Staðan hér á landi

Heimsfaraldur og áhrif stríðs í Evrópu gætir hér á landi sem víðar. Traustar undirstöður ríkisfjármála eru lykill að því að mæta sveiflum og áskorunum sem þeim fylgja.  Áherslan fram að heimsfaraldri var að greiða niður skuldir og lækka vaxtabirgði. Ríkissjóður stóð sterkur þegar við gengum inn í öldusjó sem gaf okkur möguleika á viðspyrnu og dýrmætu samspili við peningastefnu og vinnumarkað. Við afgreiðslu fjárlaga 2023 erum við viðbúin að sækja fram og halda áfram að byggja upp inniviði samfélagsins og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Miklu skipir að kjaraviðræður í haust gengu með ágætum og má þar þakka vilja allra aðila til að byggja áfram undir velferð fólks í landinu.

Samgöngur

Síðustu fimm ár hefur verið stórsókn í samgöngubótum á Vestfjörðum sem hófust með Dýrafjarðargöngum en áfram skal haldið þangað til að við getum talað um nútímavegi allan Vestfjarðarhringinn. Unnið er að 12-14 km vegbótum á Dynjandisheiðinni og stórframkvæmdir eru í Gufudalssveitinni þar sem framkvæmdir ganga vel en áfangar þar eru fimm. Einum er lokið, þrír eru í framkvæmd og enn á eftir að bjóða út þann síðasta. Allt eru þetta áfangar í að gera samgöngur greiðari fyrir vaxandi samfélag á Vestfjörðum

Sveitarfélög í sveiflu

Sveitastjórnarkosningar settu svip sinn á síðasta ár. Sem fyrr urðu nokkrar breytingar og margt nýtt og öflugt sveitastjórnarfólk tók við keflinu. Við í Framsókn erum gríðarlega þakklát og auðmjúk yfir sigri okkar í sveitarstjórnarkosningunum og erum stolt af kosningabaráttunni um land allt ekki síst af okkar glæsta árangri í höfuðborginni þar sem náðum inn fjórum fulltrúum. Í Ísafjarðarbæ jókst fylgið þótt fulltrúatalan sé sú sama og í Bolungarvík náði okkar kona að leiða M-listann til sigurs sem eru stórtíðindi. Áfram vinnur okkar fólk að því að leiða starfið í samvinnu til að ná fram árangri.

Sterk sveitarfélög

Unnið hefur verið að sameiningu sveitarfélaga á landsvísu og bara á síðasta ári fækkaði þeim um fimm og eru í dag 64 sveitarfélög á landinu. Fjöldi sveitarfélaga á Vestfjörðum eru níu og hafa verið svo síðustu tuttugu árin. Nú hafa tvö þeirra hafið sameiningarviðræður og ef niðurstaðan verður sú að þeim sé betur borgið saman fækkar enn í hópnum. Stjórnvöld hafa unnið að átaki í að styrkja sveitastjórnarstigið með sjálfbærni sveitarfélaga og lýðræðislegri starfsemi þeirra að markmiði. Auk þess þarf alltaf að vinna að því að tryggja sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að grunnþjónustu. Á síðustu 20 árum hafa vissulega verið breytingar á verkefnum og skyldum sveitarfélaga.  Ber þar hæst flutning á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga. Þar hafa minni sveitarfélög séð hag sínum betur borgið að vinna að verkefninu saman og breytingar eru að verða á sviði barnaverndar og ný farsældarlög í málefnum barna kalla á nýtt verklag. Auknar skyldur og umsýsla hefur aukist og þar skiptir ekki máli hver stærð sveitarfélagsins er.

Nú stendur til að kanna grundvöll fyrir því að sveitarfélögin á Vestfjörðum sameinist um velferðarþjónustu sem sinni barnaverndarþjónustu, þjónustu við fatlað fólk og móttöku flóttafólks. Byggðasamlög um verkefni og skyldur eru góð og oft nauðsynleg en það er þó staðreynd að lýðræði og aðkoma sveitarfélaganna innan slíkra samlaga færist lengra frá stjórnsýslu hvers sveitarfélags fyrir sig en ella.  Sjókvíeldi á Vestfjörðum kallar á aukna samvinnu sveitarfélaga og ábati að nýrri atvinnugrein skiptir öll sveitarfélag fjórðungsins máli.

Það er gott að staldra við og hækka flugið, líta yfir svæðið og horfa á samvinnu og/eða sameiningu sveitarfélaga út frá nýjum sameiginlegum áskorunum og verkefnum. Það er alltaf gott að taka samtalið og svo ákvörðun út frá því.

Áfram veginn

Áherslan næstu ár er á fólkið í landi og að nýta auð íslensks samfélags hvar á landinu sem fólk býr. Hvert samfélag og hver einstaklingur skiptir máli. Öflugt velferðarkerfi er undirstaða jöfnuðar. Vinna að kerfisbreytingum í þágu barna í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna heldur áfram. Nýta skal sömu hugmyndafræði til að samþætta þjónustu annarra hópa eins og eldra fólks, en það mun án efa skila okkur betri lýðheilsu og meiri virkni út lífið. Þjóðin er að eldast og því þarf sérstaklega að huga að þessum þáttum til að virkni eldra fólks í samfélaginu sé virt. Við þurfum að leiða leiða til að auðvelda fólki að búa lengur heima. Samþætting þjónustu er nauðsynleg til að ná fram virkni og aukinni þátttöku eldra fólks í lifandi samfélagi.

Samfélög í blóma

Það má svo sannarlega segja að það hafi verið byr í seglum samfélaga á Vestfjörðum undanfarinn áratug. Ef horft er til síðustu þriggja áratuga má segja að það ríki meiri bjartsýni og þróttur nú en skynja mátti í upphafi þessarar aldar. Uppbygging nýrra atvinnugreina líkt og fiskeldis og ferðaþjónustu hafa komið inn með nýjan kraft og afleidd störf sem leiðir af sér að nú vex íbúatalan á ný.

Það eykur slagkraft, ef við í sameiningu í fjórðungnum vinnum að baráttumálum til að geta staðið jafnfætis við önnur landssvæði. Við ætlum okkur ekki að halla okkur aftur og slaka á í ferðalaginu, heldur standa áfram vörð um verkefni sem eru undirstaða frekari vaxtar og samkeppnishæfni fjórðungsins í heild á komandi árum.

Gleðilegt ár.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst á bb.is 9. janúar 2023.