Categories
Greinar

Fjölbreytni í sveitarstjórnum

Deila grein

02/02/2022

Fjölbreytni í sveitarstjórnum

Þann 14. maí nk. verður kosið til sveitarstjórna í landinu. Í dag eru nærri 70 sveitarfélög í landinu, og þau eru grundvallareining í stjórnskipan landsins. Stjórnsýsla þeirra er mikilvæg í lýðræðislegri ákvörðun um grunnþjónustu í nærsamfélagi íbúa landsins. Það er því gríðarlega mikilvægt hverju sveitarfélagi að sveitastjórnin endurspegli sem best íbúasamsetningu þess.

Í núgildandi byggðaáætlun kemur fram mikilvægi þess að auka þátttöku kvenna í sveitarstjórnum og að það þurfi að hvetja konur til þátttöku. Í aðgerðaráætlun með byggðaáætlun er lögð áhersla á þennan þátt með því að fara í fræðslu- og auglýsingaherferð með þetta að markmiði.

Hver er staðan?

Eftir síðustu sveitastjórnarkosningar var niðurstaðan ásættanleg því að 47% sveitarstjórnarfólks voru konur og hefur það aldrei verið hærra. Það er brýnt að viðhalda þeirri skiptingu í komandi kosningum.

Listar endurspegli fjölbreytni

Kvenréttindafélag Íslands, Innviðaráðuneytið, Fjölmenningasetrið og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa hrint á stað framtaki sem kallast Játak. Játak vekur athygli íbúa sveitarfélaga og þeim sem fara í forsvari til þess að huga að fjölbreytni og að standa vörð um rétt allra kynja og að komandi listar til framboðs í komandi sveitarfélögum spanni litróf mannlífsins í viðkomandi sveitarfélagi. Einnig þarf að huga að dreifingu fulltrúa í fjölkjarnasveitarfélögum.

Við erum svo heppin að mannlífið er fjölbreytt um allt land. Til þess að nýta kraftinn og sköpunargleðina sem felst í því þarf að tryggja það að þessi atriði skila sér að ákvarðanatöku innan stjórnsýslu sveitarfélagsins. Ef þess er ekki gætt fer fljótt að gæta togstreitu mismunandi skoðana og hætt er á að samkeppnisstaða samfélagsins verði ekki eins kröftug og ella. Það er jú vilji allra sveitarfélaga að fólk vilji og geti þrifist í samfélaginu.

Af hverju að taka þátt?

Viltu hafa áhrif á samfélagið þitt? Hefur þú hugmyndir og sýn um uppbyggingu og tækifæri sveitafélagsins? Sveitarstjórnir og nefndir þess eru einmitt vettvangurinn til þess. Það fylgir því mikil ábyrgð að taka þátt í stjórnmálum, en það getur líka verið ótrúlega gaman.

Ef þú hefur áhuga þá hvetjum við þig til að íhuga framboð.

Ef þú situr í uppstillinganefnd eða hyggst kjósa í prófkjöri þá hvetjum við þig til að huga að fjölbreytni á lista.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, eru þingmenn Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist í Bæjarins besta 2. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Endómetríósa

Deila grein

01/02/2022

Endómetríósa

Fram að þessu hef­ur lít­il at­hygli beinst að þeim sjúk­dóm­um sem leggj­ast sér­stak­lega á kon­ur. Þær hafa mætt höfn­un þegar þær leita til heil­brigðis­kerf­is­ins og gengið gegn­um erfitt grein­ing­ar­ferli, en skort­ur er á al­mennri fræðslu um slíka sjúk­dóma.

Einn þeirra sjúk­dóma sem hrjá kon­ur og hef­ur fengið litla at­hygli hingað til, er en­dómetríósa. En­dómetríósa er krón­ísk­ur, fjöl­kerfa sjúk­dóm­ur sem get­ur verið þung­bær og afar sárs­auka­full­ur. Sjúk­dóm­ur­inn leggst á ein­stak­linga sem fæðast í kven­lík­ama og er gjarn­an kallaður „endó“ í dag­legu tali, en einnig er not­ast við hug­takið legs­límuflakk. Af þeim sem hafa sjúk­dóm­inn eru um 60% með ein­kenni og um 20% með mjög sár ein­kenni. Sjúk­dóm­ur­inn ein­kenn­ist meðal ann­ars af mikl­um sárs­auka við blæðing­ar, sárs­auka við egg­los, verkj­um í kviðar­holi á milli blæðinga, verkj­um við sam­far­ir, þvag­lát og hægðalos­un. Auk þess ger­ir sjúk­dóm­ur­inn það erfitt að verða barns­haf­andi og leiðir til erfiðleika á meðgöngu og við fæðingu. Á 20 ára tíma­bili greind­ust um 1.400 kon­ur með sjúk­dóm­inn á Íslandi. Því má reikna með að á hverj­um tíma eigi hundruð ef ekki þúsund­ir kvenna í vanda vegna sjúk­dóms­ins hér á landi, en hjá mörg­um þeirra grein­ist sjúk­dóm­ur­inn seint og ekki fyrr en óaft­ur­kræf­ar vefja­skemmd­ir hafa orðið. Í gegn­um tíðina hafa verið uppi rang­hug­mynd­ir um en­dómetríósu og upp­lýs­inga­gjöf vill­andi, enda er ekki auðvelt að út­skýra sjúk­dóms­mynd­ina. Það hef­ur leitt til þess að minna er gert úr hon­um en ella. Ein rang­hug­mynd­in er að verk­ir séu eðli­leg­ur hluti af lífi kon­unn­ar eða að tíðaverk­ir séu fyrst og fremst sál­ræn­ir.

Jafn­rétti í heilsu og heil­brigðisþjón­ustu

Nú­ver­andi stjórn­völd hafa lagt áherslu á jafn­rétti lands­manna til heil­brigðisþjón­ustu eins og fram kem­ur í heil­brigðis­stefnu sem samþykkt var á Alþingi á vor­dög­um 2019. Það þarf líka að huga að heil­brigðisþjón­ustu út frá kynj­um. Í skýrslu sem dr. Fann­borg Salome Steinþórs­dótt­ir, nýdoktor í kynja­fræði við Há­skóla Íslands, tók sam­an fyr­ir heil­brigðisráðherra á liðnu ári um heilsu­far og heil­brigðisþjón­ustu út frá kynja- og jafn­rétt­is­sjón­ar­miðum kem­ur fram að kon­ur lifi mun fleiri ár við slæma heilsu en karl­ar þótt meðalævi þeirra sé lengri. Það seg­ir kannski til um að nokkuð vanti upp á að kon­ur hafi haft nægj­an­lega aðkomu að heil­brigðisþjón­ustu.

Beina þarf at­hygli að heilsu kvenna

Fyr­ir tveim­ur árum fékk ég samþykkta þings­álykt­un mína um að fela heil­brigðisráðherra að beita sér fyr­ir fræðslu til al­menn­ings um vefjagigt og láta fara fram end­ur­skoðun á skip­an sér­hæfðrar end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu sjúk­linga. Vorið 2020 kom út end­ur­hæf­ing­ar­stefna sem fel­ur í sér að gera sam­an­tekt um end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu sem til staðar er í land­inu og benda á leiðir til úr­bóta í þeim efn­um. Í kjöl­farið var unn­in aðgerðaáætl­un um end­ur­hæf­ingu til fimm ára þar sem m.a. er lögð áhersla á end­ur­hæf­ingu sjúk­linga með vefjagigt. Í maí 2021 komu fram stöðuskýrsla og til­lög­ur starfs­hóps heil­brigðisráðherra um end­ur­hæf­ingu fyr­ir fólk með lang­vinna verki. Í skýrsl­unni eru tekn­ar sam­an tölu­leg­ar upp­lýs­ing­ar um fjölda þess fólks og þær meðferðir sem standa til boða kortlagðar. Auk þess eru gerðar til­lög­ur að úr­bót­um og auk­inni þjón­ustu við ein­stak­linga með lang­vinna verki. Ekk­ert er talað um en­dómetríósu í þess­ari skýrslu þó sjúk­dóm­ur­inn sé or­sök lang­vinnra verkja fjölda kvenna hér á landi. Í loka­orðum skýrsl­unn­ar er tekið fram að hér á landi skorti veru­lega upp á hvert skuli vísa ein­stak­ling­um þegar meðferð hef­ur ekki gagn­ast og talað um að tölu­vert vanti upp á að heil­brigðis­starfs­fólk fái fræðslu og þjálf­un í meðferð lang­vinnra verkja.

Auka þarf fræðslu og þjón­ustu

Ég hef lagt fram þings­álykt­un­ar­til­lögu um að fela heil­brigðisráðherra að beita sér fyr­ir að efla fræðslu meðal al­menn­ings og starfs­fólks heil­brigðis­stofn­ana. Í álykt­un­inni er ráðherra falið að láta fara fram end­ur­skoðun á heild­ar­skipu­lagi þjón­ust­unn­ar með það að mark­miði að stytta grein­ing­ar­ferlið og bjóða upp á heild­ræna meðferð, en í því felst m.a. að skoða verk­ferla, niður­greiðslu lyfja og fjár­mögn­un til að tryggja mönn­un og aðstöðu til að sinna ein­stak­ling­um með en­dómetríósu með sem bestu móti.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. janúar 2022.

Categories
Greinar

Það vorar og veiran veikist

Deila grein

22/01/2022

Það vorar og veiran veikist

Í upp­hafi árs 2020 fóru að ber­ast frétt­ir af því að heims­far­ald­ur væri yf­ir­vof­andi vegna skæðrar veiru. Nokkuð sem við átt­um svo sann­ar­lega ekki von á. Síðan eru liðin tvö ár. Það er óhætt að segja að við höf­um farið hæðir og lægðir í far­aldr­in­um. Nú erum við stödd á enn ein­um toppn­um, sem virðist vera og er von­andi hæst­ur en ekki verst­ur. Stjórn­völd fengu óvænt það öfl­uga verk­efni í fangið að bregðast við af­leiðing­um far­ald­urs­ins með marg­vís­leg­um hætti. Í upp­hafi var tek­in sú skyn­sam­lega ákvörðun að fylgja sér­fræðing­um í sótt­varnaaðgerðum, það var okk­ar gæfa.

Rétt­ar sótt­varnaaðgerðir

Við sjá­um það nú að með því að fylgja sér­fræðing­um náðum við að halda heil­brigðis­kerf­inu það öfl­ugu að það hélt í við veiru­skömm­ina. Ég ætla ekki að leyfa mér að hugsa til þess hvernig ástandið væri ef okk­ur hefði ekki tek­ist það. Í því sam­hengi get­um við litið til annarra þjóða sem börðust í bökk­um þrátt fyr­ir öfl­ugt heil­brigðis­kerfi. Í Banda­ríkj­un­um voru á þessu tíma­bili fleiri lík­geymslugám­ar fyr­ir utan sjúkra­hús í New York en bíl­ar starfs­manna. Fólk hér á landi ger­ir sér kannski ekki al­mennt grein fyr­ir því að heil­brigðis­stofn­an­ir víða um Ísland voru með plön um hvar ætti að geyma lík­in. Við get­um þakkað fyr­ir að sú sviðsmynd raun­gerðist ekki.

Eitt það mik­il­væg­asta er að okk­ur hef­ur tek­ist að halda skól­um lands­ins opn­um. Sér­fræðing­ar eru þegar farn­ir að tala um að langvar­andi sótt­kví og aðskilnaður frá skóla geti haft nei­kvæð áhrif á náms­ár­ang­ur barna og and­lega líðan. Hvernig ætli staðan sé hjá þeim börn­um víða er­lend­is sem voru skikkuð heim í marga mánuði, og eru jafn­vel nú, tveim­ur árum seinna, að sækja skóla tak­markað?

Aðgerðir á aðgerðum ofan

Veir­an hef­ur boðið upp á marg­vís­leg verk­efni og enn blæs úr öll­um átt­um. Stjórn­völd hafa borið gæfu til að leggja fram efna­hags­leg­ar mót­vægisaðgerðir til að minnka þau efna­hags­legu áhrif sem heims­far­ald­ur­inn hef­ur hrundið af stað. Stjórn­völd hafa þurft að hugsa hratt og bregðast við, þær aðgerðir sem stjórn­völd hafa lagt fram telja á þriðja tug. Þær fela í sér stuðning við rekstr­araðila vegna ófyr­ir­séðs tekju­falls, aðgerðir til að örva eft­ir­spurn, aðgerðir til að viðhalda ráðning­ar­sam­bandi og skapa störf, aðgerðir til að varðveita kaup­mátt heim­ila og ekki síst vernd­un viðkvæmra hópa.

Í haust var lagt mat á ár­ang­ur af þess­um aðgerðum. Var það mat sér­fræðings að hag­stæð skuld­astaða rík­is­sjóðs, hag­kvæmt sam­spil pen­inga­stefnu og rík­is­fjár­mála og aðgerðir stjórn­valda hefðu mildað áhrif heims­far­ald­urs­ins á efna­hags­lífið sem end­ur­spegl­ast í hratt minnk­andi at­vinnu­leysi.

Jaka­hlaup

Að standa í stafni og taka ákv­arðanir í þessu ástandi má líkja við jaka­hlaup, erfitt er að taka lang­tíma­ákv­arðanir. Þegar fót­un­um er náð á einn jaka þarf að ákv­arða hvaða jaka skal stefnt á næst. Það eru næg verk­efni fram und­an að fást við eftir­köst veirunn­ar, geðheilsu þjóðar­inn­ar og áfram­hald­andi upp­bygg­ingu at­vinnu­lífs og efl­ingu sam­fé­lags­ins.

Við erum orðin lúin eft­ir þenn­an tíma. En við verðum að halda áfram veg­inn ásamt því að halda okk­ur við skyn­sam­leg­ar sótt­varnaaðgerðir og ár­ang­urs­rík­ar efna­hags­leg­ar aðgerðir. Við meg­um held­ur ekki gleyma því að brosa. Það vor­ar og veir­an gef­ur eft­ir, það er ekki í boði að gef­ast upp núna.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. janúar 2022.

Categories
Greinar

Farðu var­lega, það gæti komið snjó­flóð

Deila grein

19/01/2022

Farðu var­lega, það gæti komið snjó­flóð

Þorrinn er á næsta leiti með öllum sínum tilbrigðum í veðri sem okkur býðst á þessu landi. En það þarf ekki þorrann til að vá liggi yfir á vegum landsins. Í þessari viku urðu öfgar í veðrabrigðum þess valdandi að vegir um Súðavíkur- og Eyrarhlíð lokuðust vegna snjóflóða. Lokunin um Súðarvíkurhlíð stóð yfir í 14 klukkustundir. Þar á undan hafði verið viðvörun vegna snjóflóðahættu í tvo sólarhringa. Þegar veginum var lokað síðastliðið sunnudagskvöld urðu 25 manns veðurtepptir í Súðavík. Súðvíkingar eru þekktir fyrir taka vel á móti fólki í þessum aðstæðum en það er þó ekki auðvelt sérstaklega á tímum samkomutakmarkanna.

Það má segja að Vestfirðingar séu orðnir vanir öðru eins í gegnum árin en þrátt fyrir það er grundvallarþörf þess samfélags sem við erum búin að hanna greiðar samgöngur. Kröfur um enn meiri samvinnu í samfélögum krefjast betri og öruggari samgangna. Gríðarlegar samgöngubætur hafa orðið á Vestfjörðum, þá sérstaklega á norðanverðu svæðinu. Mikil aukning hefur orðið á vetrarþjónustu sl. áratugi en úrbóta er enn þörf. Sér í lagi þegar frekari uppbygging atvinnulífs við Djúp eru fyrirhugaðar, bæði í laxeldinu og á vinnslu kalkþörunga í Súðavík.

Jarðgöng er lausnin

Það er ljóst að það þarf að ráðast í jarðgangnaframkvæmdir milli Súðavíkur og Ísafjarðar, aðeins þannig er hægt að tryggja öryggi vegfarenda. Það er ekki bara lokun vegarins sem skapar vanda heldur eru oft í gildi óvissustig, þá falla snjóflóð utan lokana sem og grjóthrun. Það ber þó að taka fram að vöktun á hættunni hefur aukist og orðið betri. Þrátt fyrir að vegfarendur pirri sig á lokunum, þá er gott að vita af því að fylgst er vel með þegar hættuástand skapast og brugðist við því. Það vill enginn að slys verði á veginum.

Uppbygging samfélaga

Samgöngubætur og greiðar samgöngur er grunnur fyrir uppbyggingu og þéttingu samfélaga. Það er gríðarlega mikilvægt að skoða hugmyndir um jarðgöng milli byggðakjarna á Vestfjörðum af fullri alvöru. Á Vestfjörðum býr fólk sem sækir vinnu daglega milli svæða, fólk sem vinnur m.a. við fiskeldi en það skilar þjóðarbúinu milljarða í útflutningstekjur. Svo að þessi atvinnugrein sem og aðrar á svæðinu haldi áfram að skila tekjum til þjóðarinnar þá þurfa að vera til staðar skilvirkar, öruggar, heilsárs samgöngur. Í þessu samhengi er einnig mikilvægt að huga að jarðgöngum frá Patreksfirði yfir í Tálknafjörð og undir Hálfdán.

Við þurfum að horfa til framtíðar, fleiri jarðgöng eru og eiga að vera möguleg. Mikilvægt er að um þau sé kveðið í samgönguáætlunum næstu ára. Ég get lofað ykkur því að jarðgöng koma til með að borga sig á margan hátt.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. janúar 2022.

Categories
Greinar

Lokað vegna raf­magns­leysis

Deila grein

09/12/2021

Lokað vegna raf­magns­leysis

Fréttir vikunnar þar sem Landsvirkjun tilkynnti að skerða þyrfti nú þegar afhendingu á raforku til fyrirtækja vegna raforkuskorts og annmarka á flutningsgetu hafa væntanlega ekki farið fram hjá mörgum. Þurfum við að vera hissa Nei! Þetta getur ekki komið á óvart. Það er staðreynd að raforkuöryggi víða um land er ábótavant.

Flutningslínur eru mannvirki sem komin eru í mikla viðhaldsþörf og enn eru landshlutar sem hreinlega vantar tengingu við meginstofnæðar landsins og búa við skert raforkuöryggi allt árið.

Lítið hefur þokast síðustu ár

Þetta ástand skapar óþægindi fyrir almenning og veldur því að atvinnutækifæri eru andvana fædd vegna skorts á öruggri raforku. Erfitt er að sjá fyrir vinnutapi ásamt því að margur búnaður er viðkvæmur og þolir ekki rafmagnsleysi.

Fyrir sléttum tveimur árum gekk óveður yfir landið með tilheyrandi tjóni á flutningslínum raforku bæði í dreifikerfi og flutningskerfi Landsnets. Í kjölfarið fóru stjórnvöld á stað með samráðshópa um hvernig mætti koma í veg fyrir slíkt tjón endurtæki sig og að finna veikustu hlekkina í flutningskeðjunni. Hrundið var af stað átaksverkefni og ýmislegt var bætt og endurnýjað. En þau landsvæði sem búa ekki við hringtengingu búa enn við sama óöryggið.

Árið 2009 skipaði þáverandi iðnaðarráðherra ráðgjafahóp til að þess að meta leiðir til að bæta raforkuöryggið á Vestfjörðum og í fyrra kom út skýrsla samstarfshóps um bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. En því er nú verr og miður að lítið hefur þokast í þessum efnum síðasta áratuginn.

Biluð jólaséría

Það á ekki að vera hluti af aðventustemmingunni að uppgötva vanmátt flutningskerfis raforku í landinu, líkt og þegar jóla sería er tekin úr geymslu á þorláksmessukvöld og allar perur eru ónýtar og búið að loka verslunum. Við getum ekki beðið lengur, það verður að huga að fullri alvöru að virkjunarkostum á Vestfjörðum ásamt því að flýta viðhaldi og nýbyggingu flutningskerfis.

Smávirkjanir eru mikilvægur liður í þessari uppbyggingu. Svo hægt sé að nýta þær í auknu mæli þarf að endurskoða lög og reglugerðir sem gilda um leyfisveitingar til uppsetningar smávirkjana með það að markmiði að einfalda umsóknarferli í tengslum við þær. Smávirkjanir tengjast raforkukerfinu um dreifiveitur landsins og styrkja þannig þær flutningsleiðir. Með smávirkjunum er verið að nýta, styrkja og bæta rekstur þess raforkukerfis sem nú þegar hefur verið byggt upp af samfélaginu. Smávirkjunum á Vestfjörðum hefur fjölgað og þær hafa sannað sig sem mikilvægur liður í raforkuöryggi á svæðinu.

Vinna sem þarf að vinna

Það er morgunljóst að við þurfum að fara að sinna þessum málum af fullri alvöru. Útbúa þarf sérstaka rammaáætlun sem nær bæði til minni og stærri virkjunarkosta líkt og lagt er til í skýrslu samstarfshóps um bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Við þurfum að huga að uppbyggingu og leggja fram lausnir til framtíðar. Þá fyrst þá getum við treyst raforkuöryggi um allt land.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. desember 2021.

Categories
Greinar

Aðventa komandi kjörtímabils

Deila grein

02/12/2021

Aðventa komandi kjörtímabils

Á fyrsta sunnudegi í aðventu leit ný ríkistjórn dagsins ljós. Niðurstöður kosninganna voru skýrar en rúm 54% atkvæða skiluðu sér til fyrrum stjórnarflokkana. Ríkisstjórnin fékk endurnýjað umboð frá kjósendum til þess að vinna áfram saman.

Undanfarin misseri hafa boðið upp á fjölbreyttan veruleika og verkefni sem þarf að taka á með festu. Ríkisstjórn Íslands þarf að vera tilbúin að taka ólík sjónarmið inn í komandi verkefni og leiða með samvinnu þjóðarskútunni á öruggan kjöl. Það er verk okkar stjórnarflokkanna og ekki síður minnihlutaflokkana að sýna að við stöndum undir þeirri ábyrgð sem okkur var afhent af þjóðinni.

Samvinnusáttmáli.

Sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar slær nýjan tón, í honum felast mörg tækifæri fyrir landið allt. Veruleikinn sem blasir við nú í upphafi þessa kjörtímabils er allt annar en við stóðum frammi fyrir árið 2017. Við ritun stjórnarsáttmálans var tekin góður tími til að fara yfir liðið tímabil og skilar það sér í metnaðarfullum sáttmála þar sem finna má leiðarstef um efnahagslegar og félagslegar framfarir, vernd umhverfis, kraftmikla verðmætasköpun, jafnrétti kynjanna og síðast en ekki síst jafnvægi byggða og kynslóða. Í sáttmálanum má finna margar megináherslur Framsóknarmanna. Grænar fjárfestingar, jöfnun tækifæra um allt land og áhersla verður lögð á jafnvægi efnahagslegra samfélagslegra og umhverfislegra þátta. En umfram allt má finna að í sáttmálanum ríkir bjartsýni til komandi ára.

Uppbygging byggða

Tryggja má jafnvægi byggða með öflugum samgöngum, þjónustu og atvinnu ásamt því að byggja upp innviði um allt land. Það var gert á síðasta kjörtímabili, en þá var lyft grettistaki í samgöngumálum í NV- kjördæmi. Í augsýn er nútímavegur allan hringveg nr. 60 ásamt því að unnið er að endurbótum á mörgum köflum á Vestfjörðum og einbreiðum brúm fækkað. Hafin er breikkun Vesturlandsvegar, lagt hefur verið aukið fé í tengivegi og samið hefur verið um byggingu stærri samgöngumannvirkja víða um land í gegnum fjárfestingarverkefni.

Áfram skal halda, við Framsóknarmenn göngum ekki frá borði í miðju verki. Við verðum áfram með öflugan ráðherra málaflokksins þar sem Sigurður Ingi situr í nýju innviðaráðuneyti sem tekur fleiri mikilvæga þætti inn til sín. Skapa á meiri festu um gerð jarðganga og að því tilefni er áætlað að móta jarðgangaáætlun þar sem horft er til framtíðar en ekki geðþóttaákvarðana og valdamisræmi milli landssvæða. Undirbúningi Sundabrautar verður framhaldið með það að markmiði að hún opni fyrir umferð innan áratugs. Biðin er senn á enda.  

Í nýja sáttmálanum má finna sterkan vilja til að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu. Meðal annars er horft til að störf hjá ríkinu verði í auknum mæli án staðsetningar og sett verði markmið um hlutfall opinberra starfa á landsbyggðinni. Í því samhengi verður stutt við starfsaðstöðu og klasasamstarfs hins opinbera og einkaaðila á landsbyggðinni. Stefna Framsóknar hefur lengi verið að beita þurfi hagrænna hvata í byggðaþróun m.a. í gengum Menntasjóð námsmanna.

Fjárfesta í fólki

Áherslan næstu ár er á fólkinu í landi og nýta auð íslensks samfélags hvar á landinu sem fólk býr. Hvert samfélag og hver einstaklingur skiptir máli. Öflugt velferðarkerfi er undirstaða jöfnuðar. Vinna að kerfisbreytingum í þágu barna í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna heldur áfram. Nýta skal sömu hugmyndafræði til að samþætta þjónustu annarra hópa eins og eldra fólks, það mun skila okkur betri lýðheilsu og meiri virkni út lífið. Þjóðin er að eldast og því þarf sérstaklega að huga að þessum þáttum til að virkni eldra fólks í samfélaginu sé virtur. Það þarf að auðvelda fólki að búa lengur heima. Samþætting þjónustu er nauðsynleg til að ná fram virkni og aukinni þátttöku eldra fólks í lifandi samfélagi.

Næstu vikur verða aðventa nýs þings. Það var gott að fá öflugan stuðning við áframhaldandi uppbyggingavinnu og mikilvæg verkefni sem bíða.  Nú höldum við áfram næstu fjögur ár við að byggja betra samfélag.

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður NV kjördæmis.

Greinin birtist fyrst á bb.is 2. desember 2021.

Categories
Greinar

Samfélagslegur ávinningur sjókvíaeldis

Deila grein

15/10/2021

Samfélagslegur ávinningur sjókvíaeldis

Í dag ef­ast fáir ef nokkr­ir um mik­il­vægi fisk­eld­is sem at­vinnu­grein­ar hér á landi. Fjár­fest­ing upp á tugi millj­arða króna ligg­ur í grein­inni og frek­ari fjár­fest­ing bíður eft­ir leyf­um til rekstr­ar. Útflutn­ings­verðmæti eld­islax juk­ust um 29% á milli ára og fór vægi hans í 70% út­flutn­ings­verðmæt­is eldisaf­urða á ár­inu. Nú er svo komið að út­flutn­ing­ur á eld­islaxi skil­ar næst­mest­um verðmæt­um allra fisk­teg­unda sem flutt­ar eru frá Íslandi.

Það er skemmti­leg staðreynd sem kom fram á góðum fund­um Vest­fjarðastofu um fisk­eldi nú í sept­em­ber að 3% af út­flutn­ings­verðmæt­um Íslands verða til í 1.500 fer­metra slát­ur­húsi á Bíldu­dal. Sam­fé­lög­in sem hýsa þessa vax­andi at­vinnu­grein mega hafa sig alla við að tryggja þá innviði sem þurfa til að mæta þörf­um og halda þræði í upp­bygg­inga­ferl­inu. Upp­bygg­ing á innviðum er grund­völl­ur að vexti grein­ar­inn­ar og sam­eig­in­leg­um ábata.

Fisk­eld­is­sjóður­inn

Fisk­eld­is­sjóður á sér stoð í lög­um sem voru samþykkt vorið 2019 um töku gjalds vegna fisk­eld­is í sjó og fisk­eld­is­sjóð. Þar er gert ráð fyr­ir að þriðjung­ur tekna af gjald­töku af fisk­eldi renni á kom­andi árum í Fisk­eld­is­sjóð sem sveit­ar­fé­lög geta sótt í til innviðaupp­bygg­ing­ar. Á dög­un­um var út­hlutað fyrstu greiðslum úr fisk­eld­is­sjóði og var til skipt­anna 105 m. kr. sem út­hlutað var út frá um­sókn­um sveit­ar­fé­laga þar sem sjókvía­eldi er stundað.

Þarna hefst kapp­hlaup um hver eigi bita­stæðustu um­sókn­ina en mik­il vinna ligg­ur á bak við hverja um­sókn. Þá eru sveit­ar­fé­lög­in í mis­jafnri stöðu til þess að vinna um­sókn­ir. Tvö sveit­ar­fé­lög á Vest­fjörðum fengu sam­tals 34 m. kr. og 70 m. kr. fóru til Aust­fjarða, þrátt fyr­ir að meiri­hluta eldisaf­urða verði til á Vest­fjörðum. Það er ljóst út frá þess­ari út­færslu að sveit­ar­fé­lög geta ekki gert raun­hæfa fjár­hags­áætl­un eða fram­kvæmda­áætl­un með hliðsjón af starf­semi at­vinnu­grein­ar­inn­ar eins og hægt er að gera út frá öðrum grein­um sem stundaðar eru á svæðinu.

Brýnt að end­ur­skoða gjald­töku­heim­ild­ir

Í ljósi þess­ar­ar reynslu verður því að segj­ast að þessi út­færsla sem gerð var varðandi fisk­eld­is­sjóð árið 2019 voru mis­tök. Það er best að viður­kenna það strax og bretta upp erm­ar. Þörf er á að yf­ir­fara laga- og reglu­gerðaum­hverfi gjald­töku í fisk­eldi og sér­stak­lega það sem snýr að sveit­ar­fé­lög­um þar sem sjókvía­eldi er stundað. Það þarf ekki að snúa að auk­inni gjald­töku held­ur þarf að tryggja að tekj­ur af slíkri gjald­töku standi und­ir nauðsyn­leg­um verk­efn­um þeirra sveit­ar­fé­laga sem standa næst eld­inu.

Sveit­ar­fé­lög eiga ekki að þurfa að ganga bón­leið í sam­keppn­is­sjóð til að fjár­magna upp­bygg­ingu sem nauðsyn­leg er til þess að há­marks­ábati af fisk­eldi skili sér til sam­fé­lag­anna held­ur verða stjórn­völd að tryggja sann­gjarna dreif­ingu þess­ara tekna.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. október 2021.

Categories
Greinar

Af hverju Framsókn?

Deila grein

16/09/2021

Af hverju Framsókn?

Þegar greinar dynja á kjósendum í aðdraganda kosninga er gott að fara yfir hið pólitíska svið. Ég ætla ekki að tala um snögglegan áhuga sumra flokka á byggðamálum nú rétt fyrir kosningar heldur ætla ég að færa fyrir því rök af hverju Framsókn er besti kosturinn fyrir Vestfirðinga í þessum kosningum.

Orð og efndir – Liðið kjörtímabil

Á kjörtímabilinu hefur Ásmundur Einar Daðason hefur umbreytt stjórnsýslu þegar viðkemur málefni barna svo eftir er tekið. Ásmundur hefur breytt húsnæðiskerfinu og komið með sveigjanleg úrræði þannig að nú er verið að byggja húsnæði um land allt, þar á meðal á Vestfjörðum. Stofnframlög HMS hafa nýst í sveitafélögum til framkvæmda. Við getum litið til Bolungarvíkur í því sambandi þar er sveitarfélagið að standsetja 15 íbúðir í húsnæði sem sveitarfélagið átti og áður hýsti skrifstofuhúsnæði. Þetta er stærsta fasteignaframkvæmd sem hefur ráðist hefur verið í Bolungarvík í 30 ár þar hefur algjör stöðnun ríkt í uppbyggingu húsnæðis á þeim tíma. Nú síðast tilkynnti Ásmundur Einar um 134 milljóna króna stofnframlag til nemendagarða fyrir Lýðskólann á Flateyri.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur unnið grettistak í menntamálaráðuneytinu. Tryggð var fjármögnun fyrir nýrri námslínu í Háskólasetri Vestfjarða í sjávarbyggðafræði sem gerir Háskólasetrinu kleift að vaxa og styrkir stoðir þess. Ennfremur samþykkti Lilja lög um Lýðsskóla og gerði sérstakan samning um Lýðsskólann á Flateyri sem tryggði rekstur hans til næstu ára.

Vestfirðingar hafa heldur betur orðið vart við veru  Sigurðar Inga í samgönguráðuneytinu. Helstu framkvæmdir sem ráðist hefur verið í á kjörtímabilinu 2017-2021 á Vestfjörðum eru:

Vegasamgöngur

  • Dýrafjarðargöng.
  • Strandavegur um Bjarnarfjarðarháls
  • Djúpvegur, Hestfjörður-Seyðisfjörður um Hattardalsá.
  • Örlygshafnarvegur, Skápadalsá-Hvalsker.
  • Dynjandisheiði. Annars vegar um 5,7 km langan kafla við Þverdalsá og hins vegar um 4,3 km langan kafla fyrir Meðalnes
  • Vestfjarðavegur um Teigskóg  Gufudalsá-Skálanes. Endurbygging og breikkun á um 6,6 km kafla frá Gufudalsá að Skálanesi. Kinnarsstaðir-Þórisstaðir. 2,7 km kafli yfir Þorskafjörð. 260 m löngsteypt brú.
  • Djúpadalsvegur. Nýbygging Djúpadalsvegar á um 5,7 km kafla.
  • Vestfjarðavegur um Bjarnadalsá í Önundarfirði
  • Bíldudalsvegur um Botnsá í Tálknafirði

Hafnarmannvirki

  • Bíldudalur – Tenging Kalkþörungabryggju, endurbygging Hafskipabryggju og landfylling austan hafnar.
  • Bolungarvík – Endurbygging Brjóts
  • Suðureyri – Endurbygging Vesturkants
  • Hólmavík – Endurbygging stálþils
  • Ísafjörður – Nýr kantur á Sundabakka (300 m) og dýpkun

Flug

  • Ísafjarðarflugvöllur – Grjótvörn, bílastæði og yfirlögn á flugbraut.
  • Bíldudalsflugvöllur – Klæðning á flugbraut.
  • Reykhólar – Endurnýjun yfirlags
  • Gjögur, viðhald
  • Loftbrú!

Við vitum öll að mikið er eftir enn en þetta eru engu að síður risaskref í rétta átt. Til þess að setja hlutina í samhengi þá voru samanlögð útgjöld í nýframkvæmdir á vegunum á vestursvæði síðustu fjögur ár rétt tæpir 23 milljarðar!

Byggðastefna í verki

Stjórnvöld þarf að skapa íbúum og fyrirtækjum þau skilyrði að þau geti vaxið og dafnað þar sem þau kjósa að setja sig niður. Þess vegna þarf þjónusta við íbúana að vera dreifð um landið og grunninnviðir þurfa að vera til staðar svo sem heilbrigðisþjónusta og menntastofnanir. Ákvörðunarvaldið hefur færst frá landsbyggðinni suður á bóginn og stefnumarkandi ákvarðanir eru teknar fjarri fólkinu sem þarf að nýta sér þjónustuna. Við höfum sérstaklega upplifað þetta í heilbrigðisþjónustu.

Orkumál

Hvert landssvæði verður að hafa tækifæri til þess að nýta þá möguleika sem eru til staðar á hverju svæði. Vestfirðingar eiga að geta verið sjálfum sér nægir varðandi raforku og fengið að virkja þá kosti sem eru í rammaáætlun og hagkvæmra kosta svo sem í Vatnsfirði. Loftslagsmál eru stærsta viðfangsefni okkar stjórnmálamanna en ef við eigum að geta stundað orkuskipti verður að vera til græn orka til þess að búa til rafeldsneyti fyrir flutningabílana og skipin eða fjölskyldubílana. Orkuskipti án orku eru orðin innantóm.

Fiskeldi

Fiskeldi hefur verið kærkomin innspýting í atvinnulífið á Vestfjörðum. Framsóknarmenn hafa frá upphafi stutt við uppbyggingu greinarinnar, jafnvel þegar greinin átti sér fáa sem enga málsvara. Mikilvægt er að öll umgjörð og regluverk sé eins og best verður á kosið þannig að umhverfisáhrif verði sem minnst. Til þess að tryggja sjálfbærni á öllum sviðum verður líka að horfa á samfélagslega hlutann og þar er lykilatriði að geta tryggt sveitarfélögum sanngjarnar tekjur á móti þeirri uppbyggingu og kostnaði sem fylgir umsvifunum.

Uppboð á kvóta, feigðarflan fyrir sjávarútvegsfyrirtæki  í NV

Í Norðvesturkjördæmi eru nánast eingöngu bolfiskútgerðir og sjávarútvegsfyrirtækin eru flokkuð sem lítil-meðalstór fyrirtæki. Uppboð á kvóta eins og sum framboð boða er dauðadómur yfir litlum- og meðalstjórum bolfiskútgerðarfyrirtæki í Norðvesturkjördæmi sem ættu ekki roð í stærstu sjávarútvegsfyrirtækin sem halda mörg hver á kvóta í uppsjávartegundum líka og njóta þar af leiðandi mikillar arðsemi úr þeirri grein. Það er því vandséð hvernig uppboð á kvóta á að hjálpa hinum dreifðu byggðum Norðvesturkjördæmis. Kvótakerfið er ekki fullkomið en það borgar sig frekar að vinna í annmörkum þess frekar en að færa aflaheimildir úr Norðvesturkjördæmi til stærstu fyrirtækjanna.

Landbúnaður

Í aðdraganda kosninga er vinsælt að vilja umbylta landbúnaðarkerfinu algjörlega en yfirleitt er óútfært hvernig á að auka hag bænda í þeim breytingum. Aukið tollafrelsi á að frelsa bændur en gerir lítið annað en að berskjalda þá gagnvart samkeppni frá öðrum löndum þar sem sýklalyfjanotkun er meiri og kröfur um aðbúnað eru gjarnan allt aðrar. Framsókn hefur staðið með íslenskum landbúnaði og varið hann ágjöf. Það skiptir máli að standa vörð um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi. Það höfum við fundið í þeirri stöðu sem uppi hefur verið undanfarin misseri. Sterkt landbúnaðar- og mætvælaráðuneyti skapar tækifæri í auknum umsvifum og blómstrandi nýsköpun í landbúnaði. Íslenskir matvælaframleiðendur þurfa meiri frelsi til að auka virði framleiðslu sinnar og heimila ætti heimaslátrun og vinnslu, en hún þarf að sjálfsögðu að standast kröfur. Tækifærin eru fjölmörg, við þurfum að sjá þau og vinna með þeim.

Setjum X við B á kjördag

Ég hef undanfarin fjögur ár setið á þingi fyrir Framsókn og er stolt af þeim árangri sem við höfum náð í ríkisstjórn. Framsókn hefur haft samvinnu að leiðarljósi í þriggja flokka ríkisstjórn þar sem ólík sjónarmið koma saman og þá fæðast bestu lausnirnar. Framtíðin ræðst á miðjunni. Setjum x við B á kjördag.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður og í framboði fyrir Framsókn í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 16. september 2021.

Categories
Greinar

Að miða starfslok við færni ekki aldur

Deila grein

15/09/2021

Að miða starfslok við færni ekki aldur

Á mörgum vinnustöðum hér á landi neyðist eldra fólk til að hætta að vinna fyrr en það vildi vegna reglna um starfslok. Aldurstengdar viðmiðanir varðandi starfslok eiga ekkert erindi í því samfélagi sem við búum í. Það er viðurkennd staðreynd að í dag lifir fólk lengur og að fólk kringum sjötugt er enn margt fullfært um að vinna sína vinnu án vandkvæða. Við gerum eldra fólki og vinnumarkaðinum í heild enga greiða með aldurstengdum viðmiðunum sem þessum.

Framsókn vill miða starfslok við hæfni

Fjölmargir einstaklingar hafa gífurlega margt fram að færa þrátt fyrir að vera komið yfir sjötugt. Fólk verður ekki af reynslu, þekkingu, menntun né dugnaði við ákveðinn afmælisdag. Með þeim reglum sem eru við lýði í dag erum við að neita þeim einstaklingum, sem enn vilja fara út úr húsi, taka þátt í samfélaginu og á atvinnumarkaði, hitta fólk og vinnufélaga og afla tekna (sem stundum er mikil þörf á). Að auki missir vinnumarkaðurinn af starfskrafti sem enn er verðmætur.

Eitt áherslumála Framsóknar fyrir komandi alþingiskosningar er að afnema reglur um að fólk fari á eftirlaun eða hætti störfum við ákveðinn aldur. Þeir sem vilja áfram vera virkir á vinnumarkaði eiga að hafa kost á því ef vilji bæði launafólks og vinnuveitanda stendur til þess. Samtal um starfslok eiga að eiga sér stað meðal vinnuveitanda og starfsmanns, en ekki innan lagabálka ríkisins.

Að eldra fólk vinni án skerðinga

Ásamt þessu er það áherslumál hjá Framsókn að eftirlaunafólk fái að vinna eins og það sýnist án skerðinga í almannatryggingakerfinu. Framsókn leggur áherslu á að almenna frítekjumarkið hækki í skrefum og að lífeyrisskerðingar vegna atvinnutekna verði afnumdar. Fjölmargir eftirlaunaþegar hafa enn brennandi áhuga á að vinna en sjá ekki virði þess eins og staðan er í dag miðað við þær skerðingar sem mæta þeim. Að auki eru brýn þörf á aukatekjum hjá mörgum eftirlaunaþegum. Við eigum ekki að láta eldra fólk gjalda fyrir dugnað.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höf. er þingmaður Framsóknar og situr í 3. sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 15. september 2021.

Categories
Greinar

Húsnæðismál í stafni hjá Framsókn

Deila grein

09/09/2021

Húsnæðismál í stafni hjá Framsókn

Það er staðreynd að stöðnun hefur ríkt í húsnæðismálum víða um land, fyrir utan vaxtarsvæði á suðvesturhorninu, það sem af er þessari öld. Húsnæðisskortur er víða og lágt fasteignaverð hefur fælt fólk frá því að byggja sér húsnæði og þá fer óheillaboltinn að rúlla. Húsnæðisskortur hamlar annarri uppbyggingu eins og í atvinnulífi og það veldur svo sveitarfélögum erfiðleikum að byggja upp innviði sem þarf til að standa undir nauðsynlegri þjónustu og boltinn rúllar. Niðurstaðan er að það vantar alls staðar húsnæði til að eðlileg framþróun eigi sér stað. Á síðasta kjörtímabili hefur þetta smátt og smátt verið að snúast til betri vegar með lausnum sem eflir húsnæðismarkaðinn á landsbyggðinni. Ásmundur Einar félags- og barnamálaráðherra hefur staðið þar í stafni í ráðuneyti húsnæðismála. Það er því mikilvægt að áfram verði unnið að þessum málefnum með festu á komandi kjörtímabilum.

Sveigjanleiki í húsnæðismálum

Ekki gilda sömu viðmið um fasteignamarkað á stór-höfuðborgarsvæðinu og á köldum svæðum. Sveigjanleiki í kerfinu verður að vera til staðar til að koma til móts við sérstakar aðstæður þar. Lykillinn að góðri niðurstöðu í húsnæðismálum er samvinna milli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sveitarfélaga, byggingafyrirtækja og fjármálastofnana. Gagnrýni á úrræðið hefur ekki síst snúið að því að fjármálastofnanir hafa verið tregar til að lána fyrir íbúðakaupum á köldum svæðum. Úrræði sem félags- og barnamálaráðherra hefur ráðist í á landsbyggðinni svarar þeirri gagnrýni málefnalega. Sérstakur lánaflokkur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, bæði til íbúðarkaupa og framkvæmda, hefur nú þegar nýst í nokkrum sveitarfélögum.

Stofnframlög HMS hafa nýst sveitarfélögum til framkvæmda. Við getum litið til Bolungarvíkur í því sambandi, þar er sveitarfélagið að standsetja 15 íbúðir í húsnæði sem sveitarfélagið átti og var skrifstofuhúsnæði. Þetta er stærsta fasteignaframkvæmd sem hefur verið ráðist í, í Bolungarvík í 30 ár en þar hefur algjör stöðnun ríkt í uppbyggingu húsnæðis á þeim tíma.

Hlutdeildarlánin virka

Lög um hlutdeildarlán voru samþykkt á Alþingi á síðasta ári og var undirrituð framsögumaður á málinu í gegnum Velferðarnefnd. Um er að ræða nýjan lánaflokk til kaupa á húsnæði. Hlutdeildarlánin eru tegund lána sem veitt eru með þeim skilmálum að lánað er til tiltekins hlutfalls af verði íbúðarhúsnæðis við fasteignakaup. Þarna opnast gluggi fyrir ungt fólk að kaupa sér sitt eigið húsnæði. Með því að beina hlutdeildarlánum að hagkvæmum nýbyggingum, skapast aukinn hvati til þess að byggja í hinum dreifðu byggðum. Þetta úrræði hefur nýst gríðarlega vel og mikil eftirspurn hefur verið eftir þessu úrræði um allt land. Framsókn vill útfæra hlutdeildarlán fyrir fleiri hópa en fyrstu kaupendur. Þá er sérstaklega horft til eldra fólks og félagslegra veikra hópa í samfélaginu.

Framsókn til framtíðar

Það má finna yfirlit yfir aðgerðir stjórnvalda til húsnæðismála inn á vefnum tryggð byggð sem er samstarfsvettvangur um húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni. Framsókn vill vinna áfram með samvinnu og samtal að leiðarljósi milli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sveitarfélaga, byggingafyrirtækja og fjármálastofnana. Framsókn talar fyrir því að skipulags- og húsnæðismál séu í sama ráðuneyti til að auka skilvirkni þegar kemur að skipulagsmálum sveitarfélaga. Með því má stytta tímann sem þau taka, gera sveitarfélögum kleift að bregðast fyrr við lóðaskorti og tryggja nægilegt framboð af lóðum til húsbygginga á hverjum tíma.

Uppbygging á landsbyggðinni hefst með skóflustungu að heimili fyrir fólk sem vill lifa og starfa á landsbyggðinni.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höf. er þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir flokkinn í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 6. september 2021.