Categories
Greinar

Staðið með menningu

Deila grein

01/02/2022

Staðið með menningu

Með hækkandi sól og skipulögðum skrefum til afléttingar sóttvarnaráðstafana sjáum við nú loks til lands í faraldrinum sem herjað hefur á heim allan í rúm 2 ár. Listamenn og menningarhús hafa svo sannarlega fundið fyrir högginu sem veiran hefur leitt af sér. Strax í upphafi faraldursins einsettu stjórnarflokkarnir sér að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga til þess að tryggja öfluga viðspyrnu samfélagsins og það hafa mörg sveitarfélög einnig gert. Sérstök áhersla var lögð á listir og menningu enda er mikilvægi þeirra óumdeilt fyrir samfélagið.

Uppskeran er handan við hornið

Það má einnig reikna fastlega með því að framlag lista og menningar til andlegrar og efnahagslegrar viðspyrnu þjóðarinnar verði þýðingarmikið. Mannsandinn nærist meðal annars á menningu, að skemmta sér í góðra vina hópi, sækja tónleika, leiksýningar eða aðra menningarviðburði. Það styttist óðfluga í að samfélagið lifni við eins og við þekktum það fyrir heimsfaraldur. Uppskeran er handan við hornið og vel undirbyggð viðspyrnan fer að birtast okkur með tilheyrandi ánægju. Við horfum því björtum augum fram á veginn, sannfærð um að íslenskt menningarlíf fari að blómstra sem aldrei fyrr.

Nýjustu viðspyrnuaðgerðirnar, og væntanlega þær síðustu, undirstrika það. Með þeim var 450 milljónum króna varið til tónlistar og sviðslista sem hafa farið sérlega illa út úr heimsfaraldri með allt að 87% tekjufalli. Með aðgerðunum er okkar frábæru listamönnum skapað aukið rými til frumsköpunar, framleiðslu og viðburðahalds ásamt því að styðja þá til sóknar á erlenda markaði með listsköpun sína. Íslensk list og menning á mikið erindi á erlendri grundu. Það höfum við ítrekað séð á undanförnum árum, en íslenskir listamenn hafa margir gert það gott á erlendum mörkuðum. Kynningarverðmæti skapandi greina fyrir land og þjóð er óumdeilt og er mikil­væg­ur þátt­ur í alþjóðlegri markaðssetn­ingu Íslands sem áfangastaðar fyrir ferðamenn og skapandi fólk. Við viljum halda áfram á þeirri braut.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar – og viðskiptaráðherra

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Bráðum kemur betri tíð!

Deila grein

27/01/2022

Bráðum kemur betri tíð!

Það er til­efni til bjart­sýni. Það er farið að hilla und­ir lok heims­far­ald­urs­ins eins og við höf­um þekkt hann und­an­far­in tvö ár með til­heyr­andi áhrif­um á dag­legt líf okk­ar. Þessi tími er for­dæma­laus. Það sem stend­ur þó upp úr er óneit­an­lega það hversu vel ís­lensku sam­fé­lagi hef­ur gengið að tak­ast á við þær fjöl­mörgu áskor­an­ir sem fylgt hafa far­aldr­in­um. Strax í upp­hafi far­ald­urs ákvað rík­is­stjórn­in að beita rík­is­fjár­mál­un­um af krafti til þess að tryggja öfl­uga viðspyrnu sam­fé­lags­ins eins og þurfa þykir hverju sinni – með svo­kallaðri efna­hags­legri loft­brú. Loft­brú­in er stór, en þannig nem­ur heild­ar­um­fang efna­hags­ráðstaf­ana árin 2020 og 2021 um 215 millj­örðum króna. Und­an­farna daga hafa stjórn­völd kynnt sín­ar nýj­ustu og von­andi síðustu aðgerðir í þess­um anda, sem er ætlað að styðja við sam­fé­lagið í kjöl­far áhrifa ómíkron-af­brigðis­ins.

Staðan á Íslandi og á heimsvísu

Aðgerðirn­ar hafa skipt miklu máli. Efna­hags­bat­inn á Íslandi hef­ur verið sterk­ur og ger­ir Seðlabank­inn ráð fyr­ir 5,1% hag­vexti á ár­inu. Störf­um hef­ur fjölgað hratt og at­vinnu­leysi er að verða svipað og það var fyr­ir heims­far­ald­ur­inn. Hins veg­ar hef­ur vöxt­ur korta­veltu dreg­ist hratt sam­an í upp­hafi árs sök­um fjölg­un­ar smita í sam­fé­lag­inu. Velta bæði ís­lenskra og er­lendra korta dróst skyndi­lega sam­an fyrstu 10 daga mánaðar­ins. Heild­ar­korta­velta er nú 4% minni en 2019. Lands­menn hafa dregið sig til hlés vegna bylgju ómíkron-af­brigðis­ins. Því er mik­il­vægt að fram­lengja efna­hagsaðgerðir og beina þeim sér­stak­lega í átt að þeim geir­um sem hafa orðið verst úti í far­sótt­inni. Það sama má segja um hag­vaxt­ar­horf­ur á heimsvísu en þær hafa versnað á fyrsta árs­fjórðungi og ger­ir Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn ráð fyr­ir 4,9% hag­vexti árið 2022. Það eru einkum þrír þætt­ir sem skýra versn­andi horf­ur: vænt­an­leg­ar vaxta­hækk­an­ir í Banda­ríkj­un­um og minnk­andi einka­neysla, þrálát verðbólga og viðkvæm staða fast­eigna­markaðar­ins í Kína.

Viðspyrnu- og lok­un­ar­styrk­ir fram­lengd­ir

Meðal þeirra aðgerða sem stjórn­völd kynntu í vik­unni voru fram­leng­ing­ar al­mennra viðspyrnustyrkja til handa fyr­ir­tækj­um um fjóra mánuði – en áætlað um­fang þeirra nemi um tveim­ur millj­örðum króna. Nú þegar hafa 10 millj­arðar króna verið greidd­ir út til um 1.800 rekstr­araðila en um 400 um­sókn­ir á eft­ir að af­greiða. Auk­in­held­ur samþykkti rík­is­stjórn­in fram­leng­ingu lok­un­ar­styrkja til þeirra sem hafa tíma­bundið þurft að loka starf­semi sinni vegna sótt­varn­aráðstaf­ana og orðið af veru­leg­um tekj­um vegna þess. Um­fang aðgerðanna er mikið en um leið mik­il­vægt til þess að standa áfram með ís­lensku at­vinnu­lífi á loka­spretti far­ald­urs­ins. Styrk­irn­ir gera rekstr­araðila bet­ur í stakk búna til þess að taka þátt af full­um krafti að nýju þegar sam­fé­lag án tak­mark­ana tek­ur við og hjól hag­kerf­is­ins fara að snú­ast hraðar.

Veit­ingastaðir varðir

Rekst­ur margra veit­ingastaða hef­ur þyngst veru­lega vegna tekju­sam­drátt­ar í kjöl­far sótt­varn­aráðstaf­ana um­fram flest­ar at­vinnu­grein­ar, meðal ann­ars vegna styttri af­greiðslu­tíma. Veit­ingastaðir eru mik­il­væg­ir sam­fé­lag­inu sem við búum í og eru nauðsyn­leg­ir til að sinna þeim fjölda ferðamanna sem heim­sækja Ísland. Því kynntu þau sér­staka styrki fyr­ir veit­ingastaði til þess að tryggja viðspyrnu þeirra að sótt­varn­aráðstöf­un­um liðnum. Gert er ráð fyr­ir að ein­stak­ir rekstr­araðilar geti fengið að há­marki 10-12 millj­óna styrk á fjög­urra mánaða tíma­bili til að mæta rekstr­ar­kostnaði.

Staðið með menn­ing­unni

Stjórn­völd ein­settu sér að standa með list­um og menn­ingu í gegn­um heims­far­ald­ur­inn en hann hef­ur haft afar mik­il og nei­kvæð áhrif á verðmæta­sköp­un í menn­ing­ar­geir­an­um, sér­stak­lega þeim grein­um hans sem byggja tekju­öfl­un sína að mestu á viðburðahaldi. Þannig voru greiðslur til rétt­hafa í tónlist vegna tón­leika­halds á ár­inu 2021 til að mynda 87% lægri en sam­svar­andi tekj­ur árið 2019. Þá hafa sjálf­stæð leik­hús og leik­hóp­ar farið veru­lega illa út úr far­aldr­in­um vegna þeirra sótt­varnaaðgerða og lok­ana. Það var því ánægju­legt að kynna í vik­unni 450 m.kr. viðspyrnuaðgerðir fyr­ir tónlist og sviðlist­ir. Miða þær að því að tryggja viðspyrnu í viðburðahaldi, efla frumsköp­un og fram­leiðslu lista­manna ásamt því að styðja við sókn á er­lenda markaði. Við eig­um lista­fólk­inu okk­ar margt að þakka, meðal ann­ars að stytta okk­ur stund­irn­ar á tím­um heims­far­ald­urs með hæfi­leik­um sín­um. Það verður ánægju­legt að geta sótt viðburði þeirra að nýju með vin­um og vanda­mönn­um.

Flest­ir munu kveðja þær tak­mark­an­ir sem fylgt hafa veirunni með litl­um söknuði og und­ir­búa sig að sama skapi und­ir betri tíð. Það stytt­ist því í að hin fleygu orð Stuðmanna „bráðum kem­ur ekki betri tíð, því betri get­ur tíðin ekki orðið“ verði orð að sönnu á sama tíma og sam­fé­lagið allt mun lifna við af meiri krafti en við höf­um áður kynnst.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menn­ing­ar­málaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. janúar 2022.

Categories
Greinar

Flæðilínan sem gefur og gefur

Deila grein

25/01/2022

Flæðilínan sem gefur og gefur

Und­an­far­in sunnu­dags­kvöld hef­ur hug­ur lands­manna sveimað vest­ur á firði til þess að fylgj­ast með uppá­tækj­um þeirra Hörpu, Gríms, Jóns, Ein­ars, Ellu Stínu og annarra við rekst­ur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæk­is í sjón­varpsþátt­un­um Ver­búðinni sem fengið hafa verðskuldaða at­hygli fyr­ir mikla fag­mennsku og gæði. Þætt­irn­ir eru enn ein staðfest­ing á þeim mikla krafti sem býr í ís­lenskri kvik­mynda­gerð en grein­in hef­ur verið áber­andi í ís­lensku menn­ing­ar- og at­vinnu­lífi und­an­far­inn ára­tug og velta grein­ar­inn­ar hef­ur þre­fald­ast á þeim tíma en vel á fjórða þúsund starfa við kvik­mynda­gerð.

Í takt við rót­tæk­ar breyt­ing­ar á sam­fé­lög­um heims­ins, sem gjarn­an eru kennd­ar við fjórðu iðnbylt­ing­una, er kallað eft­ir því að fjöl­breytt­ari stoðum verði skotið und­ir ís­lenskt at­vinnu­líf með áherslu á grein­ar sem byggj­ast á hug­viti, há­tækni, sköp­un og sjálf­bær­um lausn­um. Ekki fer milli mála að kvik­mynda­gerð fell­ur að öllu leyti að þess­ari skil­grein­ingu, enda er hún ört vax­andi skap­andi grein sem hef­ur alla burði til að styðja enn frek­ar við verðmæta­sköp­un og sam­keppn­is­hæfni þjóðarbús­ins á næstu árum og ára­tug­um.

Sí­fellt fleira ungt fólk vill starfa við skap­andi grein­ar, eins og kvik­mynda­gerðina. Þá eru kvik­mynd­ir mik­il­væg­ur þátt­ur í alþjóðlegri markaðssetn­ingu Íslands sem lands lista og skap­andi greina og í að laða er­lenda ferðamenn til lands­ins. Af þessu má álykta að með auk­inni fjár­fest­ingu muni grein­in geta skilað þjóðarbú­inu tals­vert meiri verðmæt­um en hún ger­ir nú.

Með þetta í huga kynntu stjórn­völd nýja kvik­mynda­stefnu til árs­ins 2030. Velta kvik­mynda- og sjón­varps­fram­leiðslunn­ar eru tæp­ir 30 ma.kr. á árs­grund­velli og tæp­lega 2.000 ein­stak­ling­ar starfa í grein­inni. Um er að ræða fyrstu heild­stæðu kvik­mynda­stefn­una sem unn­in hef­ur verið hér á landi en hún var afrakst­ur góðrar sam­vinnu stjórn­valda og at­vinnu­lífs. Stjórn­völd hafa ein­hent sér í að fylgja hinni nýju stefnu eft­ir af full­um krafti. Þannig voru til dæm­is fjár­mun­ir strax tryggðir til þess að koma á lagg­irn­ar há­skóla­námi í kvik­mynda­gerð við Lista­há­skóla Íslands og á fjár­lög­um þessa árs má finna rúm­lega 500 m.kr. hækk­un til kvik­mynda­mála – sem að stærst­um hluta renn­ur til fram­leiðslu á kvik­mynda- og sjón­varps­efni. Á kjör­tíma­bil­inu verða einnig stig­in stór skref í að auka alþjóðlega sam­keppn­is­hæfni kvik­mynda­gerðar hér á landi með hærri end­ur­greiðslum á skýrt af­mörkuðum þátt­um til að stuðla að því að fleiri stór verk­efni verði unn­in al­farið á Íslandi með til­heyr­andi tæki­fær­um fyr­ir ís­lenskt menn­ing­ar­líf.

Við höf­um öll unun af því að horfa á gott sjón­varps­efni og ekki skemm­ir fyr­ir ef það er ís­lenskt. Frjór jarðveg­ur fyr­ir sköp­un fleiri gæðasjón­varpsþátta og -kvik­mynda hér á landi er svo sann­ar­lega fyr­ir hendi – og hann á aðeins eft­ir að verða frjórri. Í raun er ís­lensk kvik­mynda­gerð er eins og flæðilína sem held­ur áfram að gefa og gefa svo ég noti orðfæri í anda Ver­búðar­inn­ar. Ég er því sann­færð um að fleiri Ver­búðir, eða þeirra lík­ar, muni líta dags­ins ljós – okk­ur öll­um til yndis­auka.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar­málaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. janúar 2022.

Categories
Greinar

Efnahagsleg loftbrú sem virkar

Deila grein

15/01/2022

Efnahagsleg loftbrú sem virkar

Þær áskor­an­ir sem heim­ur­inn hef­ur þurft að tak­ast á við vegna heims­far­ald­urs­ins eru for­dæma­laus­ar. Íslenskt sam­fé­lag, ekki síður en önn­ur sam­fé­lög, hef­ur þurft að leggja sig allt fram við að tak­ast á við þann veru­leika sem veir­an hef­ur fært okk­ur til að tryggja áfram­hald­andi hag­sæld til framtíðar. Strax í upp­hafi far­ald­urs ákvað rík­is­stjórn­in að beita rík­is­fjár­mál­un­um af krafti til þess að tryggja öfl­uga viðspyrnu sam­fé­lags­ins – sem er meðal ann­ars í anda breska hag­fræðings­ins Johns M. Keynes. Keynes hafði legið und­ir feldi við rann­sókn­ir á krepp­unni miklu, þar sem nei­kvæður spírall dró kraft­inn úr hag­kerf­um um all­an heim.

Niður­sveifla og markaðsbrest­ur snar­fækkaði störf­um, minnkaði kaup­mátt og í leiðinni tekj­ur hins op­in­bera, sem hélt að sér hönd­um til að eyða ekki um efni fram. Keynes hélt því fram að þannig hefðu stjórn­völd dýpkað krepp­una og valdið óbæt­an­legu tjóni. Þvert á móti hefði hið op­in­bera átt að örva hag­kerfið með öll­um til­tæk­um ráðum, ráðast í op­in­ber­ar fram­kvæmd­ir og eyða tíma­bundið um efni fram. Þannig væru ákveðin um­svif í hag­kerf­inu tryggð, þar til kerfið yrði sjálf­bært að nýju.

Með þetta meðal ann­ars í huga hef­ur rík­is­stjórn­in varið millj­örðum króna síðan 2020 til að tryggja kröft­uga viðspyrnu á sviði menn­ing­ar­mála. Með fjár­magn­inu hef­ur tek­ist að brúa bilið fyr­ir lista­fólkið okk­ar þar til hjól sam­fé­lags og at­vinnu­lífs fara að snú­ast á nýj­an leik. Afrakst­ur þess­ar­ar fjár­fest­ing­ar er óum­deild­ur. Menn­ing og list­ir eru auðlind sem skil­ar efna­hags­leg­um gæðum til sam­fé­lags­ins í formi at­vinnu, fram­leiðslu á vöru og þjón­ustu til neyslu inn­an­lands og út­flutn­ings. Við þurf­um ekki annað en að horfa til þeirra landa sem fremst eru, þar sem rann­sókn­ir sýna að skap­andi at­vinnu­grein­ar leggja sí­fellt meira til hag­vaxt­ar.

Sömu sögu má segja af viðspyrnuaðgerðum stjórn­valda fyr­ir ferðaþjón­ust­una en sam­tals var 31 millj­arði króna varið til þeirra árin 2020 og 2021. Ný­verið var kynnt grein­ing KPMG á áætlaðri stöðu ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu í árs­lok 2021. Aðgerðir stjórn­valda hafa skipt sköp­um í að styðja við aðlög­un­ar­hæfni ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tækja á tím­um covid og gera grein­ina bet­ur í stakk búna til þess að þjón­usta fleiri ferðamenn þegar fólks­flutn­ing­ar aukast að ráði milli landa á ný. Ferðaþjón­ust­an verður lyk­ill­inn að hröðum efna­hags­bata þjóðarbús­ins en grein­in get­ur á skömm­um tíma skapað gríðarleg­ar gjald­eyris­tekj­ur fyr­ir landið.

Þrátt fyr­ir að við séum stödd á krefj­andi tíma­punkti í far­aldr­in­um er ég bjart­sýn á framtíðina. Ég trúi því að ljósið við enda gang­anna sé ekki svo ýkja langt í burtu en þangað til munu stjórn­völd halda áfram að styðja við menn­ing­una, ferðaþjón­ust­una og fleira eins og þurfa þykir, með efna­hags­legri loft­brú sem virk­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskipta-, menn­ing­ar- og ferðamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. janúar 2022.

Categories
Greinar

Spennandi tímar fyrir íslenskuna

Deila grein

06/01/2022

Spennandi tímar fyrir íslenskuna

Deyi mál­in deyja líka þjóðirn­ar, eða verða að ann­arri þjóð.“ Svo komst Kon­ráð Gísla­son, pró­fess­or í nor­ræn­um fræðum við Hafn­ar­há­skóla og einn Fjöln­ismanna, að orði árið 1837 í um­fjöll­un sinni um ís­lensk­una. Orð Kon­ráðs ríma við orð fjöl­margra annarra í tím­ans rás um mik­il­vægi tungu­máls­ins okk­ar, enda óum­deilt að ís­lensk­an er dýr­mætt og ein­stakt tungu­mál sem mótað hef­ur sjálfs­mynd okk­ar sem þjóðar og und­ir­byggt sjálf­stæði lands­ins með öll­um þeim menn­ing­ar­arfi sem henni fylg­ir. Hraðar tækni­breyt­ing­ar sam­tím­ans hafa þó dregið fram nýj­ar áskor­an­ir gagn­vart ís­lensk­unni sem mik­il­vægt er að tak­ast á við af festu.

Með of­an­greint meðal ann­ars í huga höf­um við nýtt tím­ann vel und­an­far­in fjög­ur ár og unnið heima­vinn­una okk­ar til þess að styrkja stöðu ís­lensk­unn­ar á marg­vís­leg­an hátt til framtíðar. Góð og al­hliða móður­málsþekk­ing er mik­il­væg fyr­ir per­sónu­leg­an þroska barna, mennt­un þeirra og hæfni til að móta hugs­an­ir sín­ar og hug­mynd­ir. Með auk­inni snjall­tækja­notk­un eykst því þörf­in á að tæk­in skilji móður­málið okk­ar.

Íslensk stjórn­völd hafa leitt sam­an vís­inda­menn, frum­kvöðla og einka­fyr­ir­tæki í um­fangs­mikl­um og metnaðarfull­um verk­efn­um sem miða að því að efla mál­tækni hér á landi. Um 2,3 millj­arðar hafa þannig runnið til Ver­káætl­un­ar um mál­tækni sem áætlað er að ljúki í ár. Á sjötta tug sér­fræðinga hafa und­an­far­in ár unnið að rann­sókn­um og þróun mál­tækni á Íslandi. Til dæm­is eru mörg hundruð klukku­stund­ir af tal­máls­upp­tök­um aðgengi­leg­ar fyr­ir þá sem vilja þróa ís­lensk­ar snjall­tækjaradd­ir. Þúsund­ir klukku­stunda af hljóðdæm­um eru einnig fá­an­leg­ar sem má nota til að kenna tækj­un­um ís­lensku sem nýt­ist í öllu dag­legu lífi fólks.

Á næsta ári verða önn­ur þýðing­ar­mik­il verklok fyr­ir ís­lensk­una og menn­ing­ar­arf­inn henni tengd­an. Hús ís­lensk­unn­ar verður þá form­lega opnað og fær­ir þannig tungu­mál­inu okk­ar nýtt og glæsi­legt lög­heim­ili sem við get­um öll verið stolt af. Hin nýju heim­kyni munu hýsa fjöl­breytta starf­semi Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar í ís­lensk­um fræðum og ís­lensku- og menn­ing­ar­deild Há­skóla Íslands. Þar verða meðal ann­ars les­rými, fyr­ir­lestra- og kennslu­sal­ir, skrif­stof­ur og bóka­safn, að ógleymd­um sér­hönnuðum rým­um s.s. fyr­ir varðveislu, rann­sókn­ir og sýn­ingu á ís­lensk­um skinn­hand­rit­um – okk­ar dýr­mæt­ustu menn­ing­ar­verðmæt­um.

Við mun­um halda ótrauð áfram við að gera veg ís­lensk­unn­ar sem mest­an. Það verður áfram­hald­andi sam­vinnu­verk­efni stjórn­valda, al­menn­ings, at­vinnu­lífs­ins og annarra sem hafa lagt mikið af mörk­um und­an­far­in ár fyr­ir tungu­málið. Það er trú mín að án tungu­máls verði hug­mynd­ir ekki til og ef all­ir tala sama tungu­málið er hug­mynda­auðgi stefnt í voða og fram­förum til lengri tíma. Það eiga ekki all­ir að vera eins, þannig viðhöld­um við marg­breyti­legri og sterk­ari sam­fé­lög­um.

Höf­und­ur er menn­ing­ar­málaráðherra.

Höf­und­ur: Lilja Al­freðsdótt­ir

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. janúar 2022.

Categories
Greinar

Það styttir upp um síðir

Deila grein

23/12/2021

Það styttir upp um síðir

Upp er runn­in stund ljóss og friðar þar sem ást­vin­ir koma sam­an og njóta sam­vista yfir jól­in um heim all­an. Þó svo að þessi jól, líkt og þau síðustu, lit­ist af heims­far­aldri er ekk­ert því til fyr­ir­stöðu að halda gleðileg jól og líta björt­um aug­um til framtíðar. Á ár­inu sem senn fer að líða hef­ur Íslend­ing­um tek­ist vel til að lifa með veirunni og spyrna við fót­um. Þannig hef­ur til dæm­is okk­ar frá­bæra skóla­fólki farn­ast vel í að halda skól­um opn­um í sam­fé­lag­inu, sviðlist­ir og önn­ur menn­ing hef­ur þrif­ist með ágæt­um, af­koma rík­i­s­jóðs var mun betri en bú­ist var við, at­vinnu­leysi hef­ur minnkað mikið og ferðaþjón­ust­an hef­ur tekið við sér miðað við fyrra ár.

Er­lend­ir gest­ir líta enn hýru auga til Íslands sem áfangastaðar en eins og sak­ir standa eru ekki merki um að verið sé að fella niður flug frá því sem plön gerðu ráð fyr­ir áður en þessi upp­sveifla í far­aldr­in­um byrjaði, þó svo að af­bók­an­ir í vél­un­um hafi auk­ist. Útlit er fyr­ir að tals­vert verði að gera um þessi jól og ára­mót í mót­töku er­lendra ferðamanna. 46% nýt­ing er á hót­el­um á höfuðborg­ar­svæðinu miðað við bók­un­ar­stöðu. Á sama tíma í fyrra var bók­un­arstaðan 3%. Tals­verðar bók­an­ir eru líka hjá afþrey­ing­ar­fyr­ir­tækj­um á svæðinu. Þetta er til marks um hversu rík­ur ferðavilji er fyr­ir hendi til þess að koma til Íslands þrátt fyr­ir upp­sveiflu í heims­far­aldr­in­um.

Þess­ar já­kvæðu vís­bend­ing­ar og fleiri til gefa okk­ur fullt til­efni til þess að líta björt­um aug­um til framtíðar. Við vit­um nefni­lega að far­ald­ur­inn mun ekki vara að ei­lífu, það mun stytta upp um síðir. Þangað til mun­um við halda áfram að styðja ferðaþjón­ust­una eins og þurfa þykir. Þannig höf­um strax haf­ist handa við að tryggja aukna fjár­muni í kynn­ingu á Íslandi sem áfangastað und­ir heit­inu Sam­an í sókn sem Íslands­stofa held­ur utan um og búa þannig í hag­inn þegar að fólks­flutn­ing­ar hefjast að nýju. Einnig hafa stjórn­völd greint frá áfor­um um að verja millj­arði í stuðning við veit­inga­hús. Þetta eru mik­il­væg­ar aðgerðir sem mun­ar um til lengri og skemmri tíma. Það er eng­in spurn­ing í huga mér að ferðaþjón­ust­an, og henn­ar öfl­uga fólk, verði burðar­ársinn í viðspyrnu þjóðarbús­ins. Enda hef­ur ferðaþjón­ust­an áður sýnt að hún geti skapað gríðarleg­ar gjald­eyris­tekj­ur fyr­ir landið á nokkuð skömm­um tíma.

Það eru von­ir mín­ar að all­ir okk­ar er­lendu gest­ir muni eiga gæðastund­ir hér á landi yfir þessi jól, ekki síður en við sem hér búum. Ég sendi því öll­um hlýj­ar jóla­kveðjur, full til­hlökk­un­ar og bjart­sýni á að bók­un­arstaðan verði 100% jól­in 2022.

Höf­und­ur er ferðamála-, viðskipta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Höf­und­ur: Lilja Al­freðsdótt­ir

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. desember 2021.

Categories
Greinar

Ferðumst á vit nýrra ævintýra

Deila grein

14/12/2021

Ferðumst á vit nýrra ævintýra

Forfeður okk­ar áttuðu sig snemma á mik­il­vægi þekk­ing­ar og hversu mik­il­vægt það væri að afla sér nýrr­ar þekk­ing­ar með því að ferðast á vit nýrra æv­in­týra en svo er kveðið á í Há­va­mál­um:

Vits er þörf
þeim er víða rat­ar.
Dælt er heima hvað.
Að auga­bragði verður
sá er ekki kann
og með snotr­um sit­ur.

Ég geri ráð fyr­ir að þess­ari heim­speki Há­va­mála hafi frem­ur verið beint til okk­ar heima­fólks um að sækja okk­ur þekk­ingu ytra en að Ísland yrði sá staður sem yrði heim­sótt­ur ríku­lega. Staðreynd­in er hins veg­ar sú að á skömm­um tíma hef­ur ferðaþjón­ust­an vaxið í eina af stærstu út­flutn­ings­grein­um þjóðar­inn­ar.

Ferðaþjón­usta skapaði 553 millj­arða króna verðmæti fyr­ir sam­fé­lagið árið 2019 og mun­ar um minna! Sama ár námu bein­ar gjald­eyris­tekj­ur af er­lend­um ferðamönn­um 383 ma.kr. eða 8,6% af vergri lands­fram­leiðslu. Vegna þessa hef­ur stöðug­leiki gjald­miðils­ins auk­ist og gjald­eyr­is­forði þjóðarbús­ins styrkst veru­lega. Auk­in­held­ur má segja að ferðaþjón­ust­an sé ein ár­ang­urs­rík­asta byggðaaðgerð Íslands­sög­unn­ar, sjálfsprott­in at­vinnu­up­bygg­ing um allt land. Á ár­un­um 2009-2019 skapaði ferðaþjón­usta að jafnaði 500 ný störf á ári á lands­byggðinni. Það er gríðarlega mik­il­vægt að þessi þróun tap­ist ekki.

Það hef­ur eng­um dulist að áhrif heims­far­ald­urs­ins hafa komið hlut­falls­lega verr við ferðaþjón­ust­una en ýms­ar aðrar at­vinnu­grein­ar. Að sama skapi hef­ur það varpað enn skýr­ara ljósi á það hversu mik­il­væg ferðaþjón­ust­an er fyr­ir efna­hags­lífið. Því hafa stjórn­völd lagt þunga áherslu á að styðja við grein­ina til þess að tryggja að hún lendi á báðum fót­um eft­ir heims­far­ald­ur og verði vel und­ir það búin þegar fólks­flutn­ing­ar milli landa aukast enn frek­ar að nýju. Það er aug­ljóst að þeim mun hraðari sem viðspyrna ferðaþjón­ust­unn­ar verður, þeim mun minni verður sam­fé­lags­leg­ur kostnaður af far­aldr­in­um til lengri tíma.

Ferðaþjón­ust­an hef­ur einnig átt stór­an þátt í að auka lífs­gæði okk­ar með ríku­legra mann­lífi, ný­stár­legu fram­boði af afþrey­ingu og góðum mat og gefið Íslend­ing­um tæki­færi á að víkka út tengslanet sín svo dæmi séu tek­in. Sá aukni áhugi á Íslandi sem fylg­ir ferðaþjón­ust­unni hef­ur einnig aukið skiln­ing lands­manna á eig­in landi og varpað ljósi á hversu sér­stakt það er fyr­ir margra hluta sak­ir. Það er ánægju­legt að geta tekið á móti fjölda gesta og deilt með þeim nátt­úru okk­ar, sögu og menn­ingu. Til að styðja enn frek­ar við það munu stjórn­völd meðal ann­ars halda áfram að styðja við markaðssetn­ingu Íslands sem áfangastaðar. Þannig tryggj­um við áfram­hald­andi sókn fyr­ir ferðaþjón­ust­una til að skapa ný æv­in­týri og þekk­ingu, þar sem speki Há­va­mála er höfð að leiðarljósi.

Höf­und­ur er ferðamálaráðherra.

Höf­und­ur: Lilja Al­freðsdótt­ir

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. desember 2021.

Categories
Greinar

Hinar gjöfulu greinar

Deila grein

05/12/2021

Hinar gjöfulu greinar

Það var hátíðleg stund á Alþingi í vik­unni þegar fyrsta stefnuræða kjör­tíma­bils­ins var flutt á full­veld­is­degi okk­ar Íslend­inga hinn 1. des­em­ber. Stefnuræðan mark­ar ávallt ákveðin tíma­mót sem gefa okk­ur kjörn­um full­trú­um tæki­færi til þess að líta yfir far­inn veg og horfa til framtíðar. Und­an­far­in fjög­ur ár hef­ur margt áunn­ist á fjöl­mörg­um sviðum sam­fé­lags­ins og boðar nýr stjórn­arsátt­máli áfram­hald­andi fram­far­ir.

Gert hærra und­ir höfði

Liður í þeim breyt­ing­um sem kynnt­ar hafa verið er hið nýja ráðuneyti ferða-, menn­ing­ar- og viðskipta­mála sem und­ir­rituð mun fara fyr­ir. Breyt­ing­arn­ar eru tíma­bær­ar enda eru tugþúsund­ir sem starfa við menn­ingu, skap­andi grein­ar og ferðaþjón­ustu sem flétt­ast sam­an með ýmsu móti, auka aðdrátt­ar­afl Íslands og skapa gríðarleg verðmæti fyr­ir þjóðarbúið. Grein­arn­ar eru ekki síður mik­il­væg­ar til þess að skapa Íslandi ákveðinn sess í sam­fé­lagi þjóðanna með hinu mjúka valdi og já­kvæðum hug­hrif­um sem þeim fylgja. Öflug menn­ing og ferðaþjón­usta eru einnig mik­il­væg­ur hluti sam­fé­lag­anna hring­inn í kring­um landið og hafa á und­an­förn­um árum gætt ýmis svæði nýju lífi.

Áfram­hald­andi menn­ing­ar­sókn

Á síðasta kjör­tíma­bili var grunn­ur menn­ing­ar styrkt­ur veru­lega. Þannig hef­ur nýtt stuðnings­kerfi við bóka­út­gáfu skilað 36% aukn­ingu í út­gefn­um bók­um, starfs­laun­um var fjölgað, fyrstu sviðslist­a­lög­in sett, hóp­um lista­manna tryggðir kjara­samn­ing­ar, list­mennt­un efld, ný menn­ing­ar­hús fjár­mögnuð, nýj­ar kvik­mynda- og bóka­mennta­stefn­ur sett­ar fram ásamt aðgerðaáætl­un í menn­ing­ar­mál­um svo að fá dæmi séu tek­in. Byggt verður á þess­um góða grunni næstu fjög­ur ár og strax á næsta ári verður rúm­um millj­arði varið í nýja kvik­mynda­stefnu og til auk­inna end­ur­greiðslna í kvik­mynda­gerð, nýj­ar mynd­list­ar- og tón­lista­stefn­ur kláraðar og ný Sviðslistamiðstöð hefja starf­semi svo stiklað sé á stóru.

Ferðaþjón­usta á heims­mæli­kv­arða

Ferðaþjón­ust­an verður áfram stór þátt­ur í ís­lensku efna­hags­lífi og er mik­il­vægt að hún fái tæki­færi til upp­bygg­ing­ar eft­ir áföll heims­far­ald­urs­ins. Lögð verður áhersla á að ferðaþjón­usta á Íslandi sé arðsöm og sam­keppn­is­hæf at­vinnu­grein í sátt við nátt­úru og ís­lenska menn­ingu. Við vilj­um að Ísland sé í far­ar­broddi í sjálf­bærri þróun og ný­sköp­un í ferðaþjón­ustu. Á kjör­tíma­bil­inu verður áfram unnið að upp­bygg­ingu innviða í takt við fjölg­un ferðamanna, stefnu í ferðaþjón­ustu til 2030 sem mótuð var á síðasta kjör­tíma­bili í góðri sam­vinnu hagaðila verður fylgt eft­ir ásamt heild­stæðri aðgerðaáætl­un.

Framtíðin er björt

Fullt til­efni er til þess að líta björt­um aug­um til framtíðar og er ég full til­hlökk­un­ar að tak­ast á við ný verk­efni. Ég heiti því að leggja mig alla fram í þágu minna mála­flokka – hinna gjöf­ulu greina.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar­.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. desember 2021.

Categories
Greinar

Straumhvörf

Deila grein

25/11/2021

Straumhvörf

Jóla­bóka­flóðið er skollið á, af meiri krafti en marg­ir óttuðust fyr­ir fá­ein­um árum þegar bóka­út­gáfa hafði dreg­ist veru­lega sam­an. Sú þróun var óheppi­leg af mörg­um ástæðum enda er bók­lest­ur upp­spretta þekk­ing­ar og færni.

Gamla klisj­an um að Íslend­ing­ar séu og eigi a ð vera bókaþjóð er skemmti­leg, en dug­ar ekki ein og sér til að tryggja blóm­lega bóka­út­gáfu og lest­ur. Viðskipta­leg­ar for­send­ur þurfa líka að vera til staðar. Þess vegna réðust stjórn­völd í aðgerðir til að snúa við nei­kvæðri út­gáfuþróun og stuðla þannig að aukn­um lestri, sér­stak­lega meðal ung­menna. Op­in­ber stuðning­ur við út­gáfu bóka á ís­lensku felst í end­ur­greiðslu á hluta út­gáfu­kostnaðar og hef­ur á fá­ein­um árum skilað ótrú­leg­um ár­angri. Þannig hef­ur út­gefn­um bóka­titl­um fjölgað um 36% frá ár­inu 2017 og fyr­ir vikið get­ur bókaþjóðin státað af mik­il­feng­legri flóru bók­mennta af öllu mögu­legu tagi, fyr­ir aldna sem unga.

Það er óum­deilt að bók­lest­ur eyk­ur lesskiln­ing barna, þjálf­ar grein­ing­ar­hæfi­leika þeirra, ein­beit­ingu og örv­ar ímynd­un­ar­aflið. Bók­lest­ur örv­ar minn­is­stöðvar hug­ans, hjálp­ar okk­ur að skilja heim­inn og tjá okk­ur. Allt of­an­greint – og margt fleira – und­ir­býr börn­in okk­ar fyr­ir framtíðina, sem eng­inn veit hvernig verður. Framtíðarfræðing­um ber þó sam­an um að sköp­un­ar­gáfa sé eitt­hvert besta vega­nestið inn í óvissa framtíðina ásamt læsi af öllu mögu­legu tagi; menn­ing­ar­læsi, talna-, til­finn­inga- og fjár­mála­læsi svo dæmi séu nefnd. Hlut­verk sam­fé­lags­ins, með heim­ili og skóla í far­ar­broddi, er að hjálpa skóla­börn­um nú­tím­ans að rækta þessa eig­in­leika í bland við gagn­rýna hugs­un, dómgreind, lær­dóm­sviðhorf og þraut­seigju. Þar dug­ar ekki að hugsa til næstu fimm eða tíu ára, því börn sem byrjuðu skóla­göngu sína í haust geta vænst þess að setj­ast í helg­an stein að lokn­um starfs­ferli árið 2085.

Þetta stóra sam­fé­lags­verk­efni verður ekki leyst með út­gáfu bóka á ís­lensku einni sam­an, en hún er mik­il­væg for­senda þess að börn nái að til­einka sér nauðsyn­lega framtíðarfærni. Þess vegna er svo mik­il­vægt að börn hafi aðgang að fjöl­breyttu úr­vali bóka og ann­ars les­efn­is á sínu móður­máli og þeim pen­ing­um sem ríkið ver í stuðning við bóka­út­gef­end­ur er vel varið. Á þessu ári hafa ríf­lega 360 millj­ón­ir króna runnið úr rík­is­sjóði til út­gáfu 703 bóka. Það er um­tals­verð fjár­hæð, en það er ein­læg sann­fær­ing mín að hún muni ávaxta sig vel í hönd­um, huga og hæfi­leik­um þeirra sem lesa.

Sam­fé­lags- og tækni­breyt­ing­ar hafa ekki stöðvað jóla­bóka­flóðið í ár, frek­ar en fyrri ár. Þvert á móti er straum­ur­inn nú þyngri en áður og flóðið hef­ur skolað á land ómet­an­leg­um fjár­sjóði. Ég hlakka til að njóta á aðvent­unni og hvet fólk til að setja nýja ís­lenska bók í jólapakk­ann í ár, bæði til barna og full­orðinna. Gleðilega aðventu!

Höf­und­ur er mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Höf­und­ur: Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir

Categories
Greinar

Til hamingju með daginn!

Deila grein

16/11/2021

Til hamingju með daginn!

Við minn­umst í dag fæðing­ar­dags hins merka skálds og vís­inda­manns Jónas­ar Hall­gríms­son­ar. Mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneytið, und­ir for­ystu Björns Bjarna­son­ar fv. mennta­málaráðherra, hafði frum­kvæði að því að gera fæðing­ar­dag Jónas­ar að degi ís­lenskr­ar tungu árið 1996. All­ar göt­ur síðan hafa skól­ar, stofn­an­ir, fjöl­miðlar og al­menn­ing­ur beint at­hygli að tungu­mál­inu okk­ar á þess­um degi, gildi þess fyr­ir mennt­un, menn­ingu og þjóðar­vit­und. Kveðskap­ur Jónas­ar hef­ur fært þjóðinni marg­ar gleði- og lær­dóms­stund­ir og hef­ur nýyrðasmíð hans verið okk­ur til fyr­ir­mynd­ar og eft­ir­breytni.

Þjóð- og frels­is­skáldið Jón­as Hall­gríms­son er í sér­stöku dá­læti hjá mér. Jón­as lagði ríka áherslu á að rækta málið í orðsins fyllstu merk­ingu þess, ásamt því að mennta þjóðina. Hans hug­sjón var að ís­lensk­an væri notuð alls staðar í sam­fé­lag­inu; í leik og starfi, námi og vís­ind­um, skáld­skap, bók­mennt­um og öðrum list­um. Þess vegna stundaði hann nýyrðasmíð af kappi og þýddi er­lent efni sem hann taldi eiga er­indi við þjóðina. Þjóðin stend­ur í mik­illi þakk­ar­skuld við þjóðskáldið og mik­il­vægt að halda hans veg­ferð áfram.

Á und­an­förn­um árum hafa stjórn­völd lagt ríka áherslu á tungu­málið okk­ar. Árið 2019 ályktaði Alþingi að efla skyldi ís­lensku sem op­in­bert mál. Aðgerðaáætl­un til þriggja ára var samþykkt, þar sem meg­in­mark­miðin voru þrjú; að ís­lenska væri notuð á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins, að ís­lensku­kennsla yrði efld á öll­um skóla­stig­um og að framtíð ís­lensk­unn­ar í sta­f­ræn­um heimi væri tryggð. Stór hluti aðgerðaáætl­un­ar­inn­ar er kom­inn til fram­kvæmda. Stuðning­ur við bóka­út­gáfu og fjöl­miðla er orðinn að veru­leika og í kjöl­farið hafa barna- og ung­mennta­bók­mennt­ir blómstrað. Útgáfa hef­ur auk­ist, sem hef­ur aukið aðgengi barna að fjöl­breyttu les- og menn­ing­ar­efni á ís­lensku. Stuðning­ur við fjöl­miðla treyst­ir rekstr­ar­grund­völl þeirra sem miðla til okk­ar um­fjöll­un um mál­efni líðandi stund­ar, en slíkt er lyk­il­atriði fyr­ir mál­vit­und þjóðar­inn­ar. Þá hef­ur mál­tækni­áætl­un stjórn­valda verið hrint í fram­kvæmd, svo tölv­ur og snjall­tæki kunni ís­lenskt rit- og tal­mál. Orðasöfn, mál­fars­bank­ar, beyg­ing­ar­lýs­ing­ar og hljóðupp­tök­ur í þúsunda­vís eru for­ritaðar inn í stýri­kerfi og ár­ang­ur­inn hingað til lof­ar góðu. Dæmi um hann má sjá á vefsíðunni al­mann­arom­ur.is, sem ég hvet alla til að skoða.

Í fyrstu inn­setn­ing­ar­ræðu Vig­dís­ar Finn­boga­dótt­ur, fyrr­ver­andi for­seta og hand­hafa verðlauna Jónas­ar Hall­gríms­son­ar, fjallaði hún um þýðingu ís­lenskr­ar tungu fyr­ir þjóðina. „Tung­an geym­ir sjóð minn­ing­anna, hún ljær okk­ur orðin um von­ir okk­ar og drauma. Hún er hið raun­veru­lega sam­ein­ing­ar­tákn okk­ar og sam­ein­ing­arafl.“ Þessi orð Vig­dís­ar eru jafn sönn í dag og þau voru fyr­ir 41 ári. Til ham­ingju með dag­inn.

Höf­und­ur er mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Höf­und­ur: Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir