Categories
Fréttir

Nýr þjóðarleikvangur

Deila grein

11/11/2020

Nýr þjóðarleikvangur

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur fengið samþykkt í ríkisstjórn að hefja viðræður við Reykjavíkurborg um næstu skref vegna byggingar nýs þjóðarleikvangs í knattspyrnu.

„Laugardalsvöllur var reistur af stórhug fyrir 63 árum og hefur reynst vel – fært þjóðinni ógleymanleg augnablik og skilað íslensku knattspyrnufólki á stærstu úrslitakeppnir í heimi,“ segir Lilja Dögg.

„Hann er hins vegar barn síns tíma og langt frá því að uppfylla viðmið, m.a. um öryggi og aðstöðu vallargesta, aðgengi fatlaðs fólk, aðstöðu leikmanna, dómara og fjölmiðla, hitakerfi o.s.frv. Það er því löngu tímabært að ráðast í byggingu nýs þjóðarleikvangs og ég er vongóð um að hann muni rísa á næstu 5 árum.“

Með viðræðum við Reykjavíkurborg er mikilvægt skref stigið í að byggja keppnisaðstöðu sem stenst alþjóðlegar kröfur, en undanfarin ár hefur Laugardalsvöllur þurft undanþágur og sérstakan viðbúnað vegna keppnisleikja í alþjóðlegum mótum. Viðræðurnar munu byggja á valkostagreiningu breska ráðgjafafyrirtækisins AFL, sem varð hlutskarpast í útboði sem efnt var til á evrópska efnahagssvæðinu snemma árs. Í greiningunni er kostnaðar- og tekjumat eftirtalinna valkosta, auk viðskiptaáætlunar og mats á efnahagslegum þáttum:

  • Að núverandi völlur verði að mestu leyti óbreyttur, en ráðist verði í lágmarksendurbætur og -lagfæringar.
  • Að Laugardalsvöllur verði endurbættur svo hann uppfylli kröfur og staðla Knattspyrnusambands Evrópu (EUFA) og Alþjóða knattspyrnusambandsins (FIFA).
  • Að byggður verði nýr 15.000 manna leikvangur, með opnanlegu þaki eða án þaks.
  • Að byggður verði fjölnotaleikvangur með 17.500 sætum, með opnanlegu þaki eða án þaks.

Völlur með sætum fyrir 15.000 áhorfendum talinn hagkvæmasti kosturinn
AFL telur að 15.000 manna leikvangur án þaks sé hagkvæmasti kosturinn, ef eingöngu sé horft til beinna fjárhagslegra þátta. Hins vegar myndi slíkur leikvangur með opnanlegu þaki skila bestu heildarniðurstöðunni m.t.t. vinnsluvirðis, efnahagslegra áhrifa, nýtingar og fleiri þátta. Þá telur AFL að ofangreindir valkostir A og B séu ekki fýsileg langtímalausn.

Valkostagreiningin var unnin að undirlagi Þjóðarleikvangs ehf., félags sem KSÍ, Reykjavíkurborg og ríkið stofnuðu til að halda utan um verkefnið.

Categories
Greinar

Nýtum tímann og finnum leiðir

Deila grein

08/11/2020

Nýtum tímann og finnum leiðir

Fram­halds­skól­ar hafa starfað með óhefðbundnu sniði frá því sam­komutak­mark­an­ir voru fyrst boðaðar í mars. Fjöl­breytni skól­anna krist­all­ast í áskor­un­um sem skóla­stjórn­end­ur, kenn­ar­ar og nem­end­ur mæta á hverj­um stað, allt eft­ir því hvort um bók- eða verk­náms­skóla er að ræða, fjöl­brauta­skóla eða mennta­skóla með bekkja­kerfi. Aðstæður eru mis­mun­andi, en í gróf­um drátt­um hef­ur verk­legt nám farið fram í staðkennslu en bók­legt nám al­mennt í formi fjar­kennslu. Marg­ir skól­anna hafa breytt náms­mati sínu, með auk­inni áherslu á símat en minna vægi loka­prófa, og sýnt mikla aðlög­un­ar­hæfni. Með henni hef­ur tek­ist að tryggja mennt­un og halda nem­end­um við efnið, þótt aðstæður séu svo sann­ar­lega óhefðbundn­ar.

Allt frá því að far­ald­ur­inn braust út hef ég verið í mikl­um sam­skipt­um við skóla­stjórn­end­ur, full­trúa kenn­ara og ekki síst fram­halds­skóla­nema. Af sam­töl­um við nem­end­ur má ráða að þeirra heit­asta ósk sé að kom­ast í skól­ann sinn og efla sinn vits­muna- og fé­lagsþroska sam­hliða nám­inu. Hér skal tekið fram, að marg­ir hafa náð góðum tök­um á fjar­nám­inu og því ekki farið á mis við náms­efnið sjálft, en fé­lags­lega hliðin hef­ur visnað og nú­ver­andi fyr­ir­komu­lag er að mínu mati ekki sjálf­bært. Það tek­ur hressi­leg­an takt­inn úr dag­legu lífi unga fólks­ins, eyk­ur lík­urn­ar á fé­lags­legri ein­angr­un, and­legri van­líðan og skap­ar jafn­vel spennu í sam­skipt­um þeirra við for­eldra.

Sótt­varn­a­regl­ur veita skóla­stjórn­end­um lítið svig­rúm, en við ætl­um að nýta tím­ann vel og lenda hlaup­andi um leið og tæki­færi gefst til auk­ins staðnáms. Í því sam­hengi höf­um við skoðað ýms­ar leiðir, fundað með land­lækni og sótt­varna­lækni um horf­ur og mögu­leg­ar lausn­ir, kannað hvort leiga á viðbót­ar­hús­næði myndi nýt­ast skól­un­um – t.d. ráðstefnu­sal­ir, kvik­mynda- og íþrótta­hús sem nú standa tóm – og hvernig megi tryggja stöðug­leika í skóla­starf­inu óháð Covid-sveifl­um í sam­fé­lag­inu. Þeirri vinnu ætl­um við að hraða og styðja skóla­stjórn­end­ur með ráðum og dáð. Öllum hug­vekj­andi til­lög­um má velta upp, hvort sem þær snúa að tví­setn­ingu fram­halds­skól­anna, vakta­fyr­ir­komu­lagi í kennslu eða nýt­ingu grunn­skóla­hús­næðis sem er vannýtt hluta dags­ins.

Í gömlu lagi seg­ir að fátt sé svo með öllu illt að ei boði gott – að finna megi út úr öllu ánægju­vott. Þannig sýna mæl­ing­ar fram­halds­skól­anna að brott­hvarf sé minna nú en oft áður. Að verk­efna­skil og und­ir­bún­ing­ur fyr­ir próf gangi vel. Að nem­end­ur sem ekki kom­ast úr húsi sofi meira og hvíl­ist bet­ur en fé­lags­lynd­ir fram­halds­skóla­nem­ar gera að öllu jöfnu. Slík­ar frétt­ir eru góðar en breyta ekki þeirri staðreynd að fé­lags­starf og sam­skipti við aðra er órjúf­an­leg­ur þátt­ur í góðri mennt­un.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins. – liljaa@alt­hingi.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Við stöndum öll vaktina

Deila grein

29/10/2020

Við stöndum öll vaktina

Í hvert sinn sem ég heyri af eða les um einelt­is­mál fæ ég sting í hjartað. Þetta eru erfið mál og sorg­leg fyr­ir alla hlutaðeig­andi. Við vit­um að líðan nem­enda í ís­lensk­um grunn­skól­um er al­mennt góð; um 90% grunn­skóla­nem­enda líður vel eða þokka­lega í skól­an­um sam­kvæmt könn­un Rann­sókna­stofu í tóm­stunda­fræðum við Há­skóla Íslands. Fyr­ir þá nem­end­ur, og aðstand­end­ur þeirra, sem ekki til­heyra þeim hópi skipt­ir töl­fræði hins veg­ar engu máli.

Skiln­ing­ur á einelti og af­leiðing­um þess hef­ur auk­ist en því miður verða enn of marg­ir fyr­ir einelti í okk­ar sam­fé­lagi. Í alþjóðleg­um sam­an­b­urði er tíðni einelt­is í ís­lensk­um skól­um lág en einelt­is­mál koma engu að síður reglu­lega upp og skól­arn­ir verða þá að hafa leiðir, ferla og verk­færi til að bregðast við. Við, sem sam­fé­lag, vilj­um ekki að „lausn­in“ fel­ist í því að þolandi einelt­is neyðist til að víkja úr sín­um hverf­is­skóla. Það er óviðun­andi niðurstaða.

Til að koma í veg fyr­ir það þurfa stjórn­völd, skóla­sam­fé­lagið og ekki síst sam­fé­lagið í heild að skoða hvað megi gera bet­ur. Ég hef haft þenn­an mála­flokk til skoðunar og hef samþykkt að end­ur­skoða og styrkja lagaum­gjörð einelt­is­mála. Vegna eðlis mál­anna eru úr­lausn­araðilar oft í erfiðri og flók­inni stöðu, en þá þarf kerfið okk­ar að grípa alla hlutaðeig­andi og tryggja fag­lega lausn.

Öflug­ar for­varn­ir gegn einelti eiga að vera al­gjört for­gangs­atriði. Fræðsla er lyk­ill­inn að því að upp­ræta einelt­is­mál og koma í veg fyr­ir þau og ég mun því leggja ríka áherslu á að efla for­varn­ir inn­an skól­anna.

Fagráð einelt­is­mála var sett á lagg­irn­ar fyr­ir nokkr­um árum. Hlut­verk þess er að veita stuðning með al­mennri ráðgjöf, leiðbein­ing­um og upp­lýs­inga­gjöf. Jafn­framt geta nem­end­ur, for­ráðamenn og starfs­fólk skóla leitað eft­ir aðkomu þess ef ekki hef­ur tek­ist að finna full­nægj­andi lausn inn­an skól­anna. Fagráðið hef­ur margoft sannað mik­il­vægi sitt fyr­ir skóla­sam­fé­lagið, bæði með ráðgjöf og við úr­lausn erfiðra mála og mikið fram­fara­spor var stigið þegar ráðinu var gert að liðsinna einnig fram­halds­skól­un­um. Okk­ar helsta verk­efni er nú að auka sýni­leika ráðsins og skerpa á hlut­verki þess. Afar mik­il­vægt er að skóla­sam­fé­lagið og for­ráðamenn viti hvaða úrræði standa þeim til boða við úr­lausn einelt­is­mála.

Rann­sókn­ir sýna að af­leiðing­ar einelt­is­mála til framtíðar geta verið gríðarleg­ar. Við verðum því að gera allt til að koma í veg fyr­ir að einelt­is­mál komi upp. Við verðum að styrkja um­gjörðina, fræðsluna og síðast en ekki síst styrkja hvert annað til að sporna við einelt­is­mál­um í sam­fé­lag­inu. Eitt mál er einu máli of mikið.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. október 2020.

Categories
Greinar

Fjárfesting í fólki og nýsköpun ræður úrslitum

Deila grein

27/10/2020

Fjárfesting í fólki og nýsköpun ræður úrslitum

Í nýrri bók – The Riches of this Land – fjallar Jim Tankers­ley, blaða­maður á New York Times, um minnk­andi kaup­mátt banda­rísku milli­stétt­ar­inn­ar. Höf­und­ur­inn leitar skýr­inga og skoðar hvernig störf milli­stétt­ar­fólks hafa breyst á síð­ustu ára­tug­um, meðal ann­ars vegna tækni­fram­fara. Nið­ur­staðan er afdrátt­ar­laus; land­svæðin sem glatað hafa flestum störfum eiga það sam­eig­in­legt að hafa ekki fjár­fest nægj­an­lega í nýsköpun og mennt­un. Þau hafa skilið fólkið sitt eftir og van­rækt sínar sam­fé­lags­legu skyld­ur.

Menntun er eitt öfl­ug­asta hreyfi­afl sam­fé­laga og þeim ein­stak­lingum vegnar almennt betur sem öðl­ast og við­halda nauð­syn­legri hæfni og færni. Þetta á alls staðar við og í því felst skýr hvatn­ing til íslenskra stjórn­valda um að efla umgjörð mennt­unar og hæfni­þró­unar í land­inu. Nýsam­þykkt vís­inda- og tækni­stefna er liður í því verk­efni, enda leggur fjöl­breytt vís­inda­starf grunn­inn að marg­vís­legri þekk­ing­u.  AUGLÝSINGSýn Vís­inda- og tækni­ráðs til árs­ins 2030 er sú að á Íslandi sé lögð áhersla á gæði mennt­un­ar, jafnan aðgang allra að menntun og að mennta­kerfið þró­ist sífellt í takti við sam­fé­lagið og fram­tíð­ina. Að rann­sókn­ir, hug­vit, sköpun og frum­kvæði sem leiðir til auk­innar verð­mæta­sköp­unar og öfl­ugs athafna- og menn­ing­ar­lífs sé leið­ar­ljósið inn í fram­tíð­ina. Tíu aðgerðir styðja við vís­inda- og tækni­stefn­una og margar eru að öllu eða ein­hverju leyti á ábyrgð mennta- og menn­ing­ar­mála­ráðu­neyt­is. 

Sterk­ari sam­keppn­is­sjóð­ir 

Inn­lendir sam­keppn­is­sjóðir hafa verið stór­efldir á kjör­tíma­bil­inu, en þeir eru for­senda þess að íslenskir vís­inda­menn, frum­kvöðlar og fyr­ir­tæki geti sótt í alþjóð­lega sjóði. Aðferða­fræðin hefur skilað miklum árangri og íslenskum aðilum hefur gengið mjög vel í nor­rænu og evr­ópsku vís­inda­sam­starfi. Styrk­veit­ingar til íslenskra verk­efna úr alþjóð­legum sjóðum hafa vakið eft­ir­tekt, þar sem gamla, góða höfða­tölu­mæl­ingin sýnir magn­aðan árang­ur. Hann verður ekki til af sjálfu sér.Framlög til vísinda og samkeppnissjóða í rannsóknum.Framlög til vísinda og samkeppnissjóða í rannsóknum.

Auka gæði í háskóla­starfi og efla fjár­mögnun háskóla

Stjórn­völd hafa ein­sett sér að fjár­veit­ingar til háskóla­stigs­ins verði sam­bæri­legar þeim á Norð­ur­lönd­unum árið 2025. Í sögu­legu sam­hengi hafa Íslend­ingar varið minna fé til mála­flokks­ins en á kjör­tíma­bil­inu hefur vel gengið að brúa bil­ið. Eitt meg­in­mark­miða stjórn­valda er að styðja við þekk­ing­ar­drifið efna­hags­líf, þar sem sam­spil rann­sak­enda á háskóla­stigi og atvinnu­lífs er lyk­il­at­riði. Nú þegar er unnið að því að styrkja umgjörð fjár­veit­inga til háskól­anna og þróa mæli­kvarða á gæði og skil­virkni háskóla­starfs. Fram­gang­ur­inn hefur verið góður og mun leggja grunn­inn að enn sterk­ari háskólum á Íslandi.Framlög til háskóla og rannsóknarstarfsemi.Framlög til háskóla og rannsóknarstarfsemi.

Aukin færni á vinnu­mark­aði

Á tímum fádæma umskipta, óvissu og örra tækni­breyt­inga þarf Ísland að búa sig undir breyttan heim. Ein­stak­lingar þurfa að laga sig að breyttri færni­þörf í atvinnu­líf­inu og fyr­ir­tæki að þró­ast hratt til að tryggja sam­keppn­is­stöðu sína. Fram­boð á námi og símenntun skal taka mið af þeirri lyk­il­hæfni sem atvinnu­líf og sam­fé­lag kalla eft­ir, enda þarf hæft starfs­fólk til að efla fram­leiðni og skapa ný verð­mæti. Það skal líka áréttað að form­leg menntun segir ekki lengur alla sög­una heldur líta  vinnu­veit­endur í auknum mæli til reynslu og færni við ráðn­ing­ar. 

Opinn aðgangur að gögnum og bætt miðlun vís­inda

Aðgengi að opin­berum gögnum háskóla, rann­sókna­stofn­ana og gögnum sem verða til með styrkjum úr opin­berum rann­sókna- og nýsköp­un­ar­sjóðum á að vera opið, svo sam­fé­lags­legur ábati af slíkum fjár­fest­ingum sé hámark­að­ur. Þannig á vís­inda­starf að nýt­ast í auknu mæli í stefnu­mótun og við lýð­ræð­is­lega ákvarð­ana­töku. Með auknu aðgengi sköpum við umgjörð sem tryggir sýni­leika vís­inda, stuðlar að auk­inni þekk­ingu á vís­inda­legum aðferðum og eykur skiln­ing, traust og virð­ingu fyrir vís­inda­legum nið­ur­stöð­um. Hugað verður sér­stak­lega að því að skapa tæki­færi fyrir kenn­ara og aðra fag­að­ila til að nýta aðferða­fræði vís­inda til að efla þekk­ingu barna- og ung­linga á gildi þeirra.

Þau ríki sem fjár­festa í nýsköpun og mannauði eru lík­leg­ust til að skapa ný störf. Ísland hefur alla burði til þess að láta til sín taka á því sviði og öflug alþjóð­leg fyr­ir­tæki á sviði erfða­rann­sókna, lyfja­fram­leiðslu, svefn­rann­sókna, stoð­tækja o.s.frv. hafa vaxið og dafnað á und­an­förnum árum. Stjórn­völd hafa ákveðið að styðja enn betur við vaxta­tæki­færi fram­tíð­ar­inn­ar, mótað stefnu og veitt ríku­legum fjár­munum til þess. Fjár­veit­ingar til vís­inda- og sam­keppn­is­sjóða í rann­sóknum verða um 10 millj­arðar kr. á næsta ári og hækka því um 67% milli ára. Það er svo sann­ar­lega vel, því við trúum því að Ísland geti orðið land tæki­færa fyrir vís­indi, rann­sókn­ir, menntun og nýsköpun fyrir alla.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­inga­mála­ráð­herra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 27. október 2020.

Categories
Greinar

127 milljarða sókn í mennta- og menningarmálum

Deila grein

26/10/2020

127 milljarða sókn í mennta- og menningarmálum

Heims­far­ald­ur­inn hef­ur haft veru­leg áhrif á mennta­kerfið okk­ar. Unnið er að því dag og nótt að koma skóla­starfi í sem best­an far­veg. All­ir eru að leggja sig fram um að svo megi verða sem fyrst og for­gang­ur stjórn­valda er mennt­un. Framúrsk­ar­andi mennt­un er ein meg­in­for­senda þess að Ísland verði sam­keppn­is­hæft í alþjóðleg­um sam­an­b­urði. Verðmæta­sköp­un næstu ára­tuga mun í aukn­um mæli byggj­ast á hæfni, hug­viti, rann­sókn­um og ný­sköp­un. Þær öru tækni­breyt­ing­ar sem orðið hafa síðustu ár og kennd­ar eru við fjórðu iðnbylt­ing­una munu hafa áhrif á ís­lenskt sam­fé­lag og efna­hags­líf á næstu ára­tug­um. Tækni­fram­far­ir hafa vakið von­ir um að tæki­fær­um til að skapa ný og betri störf muni fjölga ört og lífs­gæði geti auk­ist á mörg­um sviðum sam­fé­lags­ins. Gjald­eyr­is­sköp­un þjóðarbús­ins hef­ur verið mikið auðlinda­drif­in. Skyn­sam­legt er að fjölga út­flutn­ings­stoðunum.

Verðmæta­sköp­un þarf í aukn­um mæli að byggj­ast á hug­viti, rann­sókn­um og ný­sköp­un til að styrkja stoðir hag­vaxt­ar til lang­frama. Mennt­un og auk­in hæfni er und­ir­staða sjálf­bærni, fram­fara og auk­inna lífs­gæða. Rík­is­stjórn sýn­ir vilja í verki í fjár­laga­frum­varp­inu og fjár­veit­ing­ar til mál­efna sem falla und­ir mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneytið hækka um 11% milli ára og verða 127,2 millj­arðar kr. á næsta ári.

Auk­in fjár­fest­ing í mennt­un og vís­ind­um

Um 40% af fjár­veit­ing­um ráðuneyt­is­ins renna til há­skóla­starf­semi, sem er stærsti ein­staki mála­flokk­ur ráðuneyt­is­ins. Fram­lög til há­skóla- og rann­sókn­a­starf­semi hækka um 7% milli ára, þar sem bæði er um að ræða auk­inn bein­an stuðning við skóla­starfið og fjár­veit­ing­ar til ein­stakra verk­efna. Eitt af fyr­ir­heit­um í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar var að fram­lög til há­skóla­stigs­ins næðu meðaltali ríkja Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar. Það hef­ur tek­ist og er það fagnaðarefni.

Auk­in fram­lög í Ný­sköp­un­ar­sjóð náms­manna nema 300 millj­ón­um kr. og 159 millj­ón­ir kr. fara í fjölg­un námsplássa í hjúkr­un­ar­fræði og fagnám fyr­ir sjúkra­liða. Þá er gert ráð fyr­ir veru­lega aukn­um fjár­veit­ing­um vegna stuðnings við náms­menn, þar sem 2021 verður fyrsta heila starfs­ár nýs Mennta­sjóðs náms­manna.

Fjár­veit­ing­ar til fram­halds­skól­anna aukast um 3,6% milli ára og verða 36,2 millj­arðar kr. Fjár­fest verður í marg­vís­leg­um menntaum­bót­um sem eiga að nýt­ast öll­um skóla­stig­un­um og fram­lög í rann­sókna- og vís­inda­sjóði hækka um 67% milli ára, úr 6,2 millj­örðum kr. í 10,3 millj­arða kr.

Auk­in viður­kenn­ing á gildi menn­ing­ar

Um­svif­in á sviði menn­ing­ar­mála aukast veru­lega milli ára. Fjár­veit­ing­ar til safna­mála hækka um 11%, þá nem­ur hækk­un til menn­ing­ar­stofn­ana 9% og menn­ing­ar­sjóðir stækka einnig um 9%. Meðal ein­stakra liða má nefna 300 millj­óna kr. fjár­veit­ingu vegna hús­næðismála Nátt­úru­m­inja­safns Íslands, 200 millj­ón­ir kr. til und­ir­bún­ings vís­inda- og upp­lif­un­ar­sýn­ing­ar fyr­ir börn og ung­menni og 225 millj­óna kr. aukn­ingu vegna tíma­bund­inn­ar fjölg­un­ar lista­manna­launa. Þessi tíma­bund­in hækk­un er ígildi auka­út­hlut­un­ar um 550 mánuði sem kem­ur til viðbót­ar við 1.600 mánuði sem al­mennt er út­hlutað skv. lög­um. Eyrna­merkt fjár­magn vegna lista­manna­launa verður því 905,6 millj­ón­ir kr. á næsta ári sam­kvæmt frum­varp­inu. Þá eru 550 millj­ón­ir kr. eyrna­merkt­ar mark­miðum og aðgerðum í nýrri kvik­mynda­stefnu sem kynnt verður á næstu dög­um.

Áfram er haldið að efla bóka­safna­sjóð höf­unda, sem greiðir höf­unda­rétt­höf­um fyr­ir af­not verka sinna, og eru fjár­heim­ild­ir hans aukn­ar um 75 millj­ón­ir kr. Þá er ráðgert að verja 25 millj­ón­um kr. til að efla starf­semi bóka­safna, og rann­sókn­ir og þró­un­ar- og sam­starfs­verk­efni á sviði bóka­safna- og upp­lýs­inga­mála. Á ár­inu 2021 verður unnið að aðgerðaáætl­un nýrr­ar menn­ing­ar­stefnu. Ég von­ast til þess að hún verði hvatn­ing og inn­blást­ur til þeirra fjöl­mörgu sem vinna á sviði ís­lenskr­ar menn­ing­ar til að halda áfram sínu góða starfi.

Fjár­laga­frum­varpið í ár sýn­ir glögg­lega mik­il­vægi mennta- og menn­ing­ar og hvernig er for­gangsraðað í þágu þessa. Hug­verka­drifið hag­kerfi reiðir sig á framúrsk­ar­andi mennta­kerfi. Við erum að fjár­festa í framtíðinni með því að for­gangsraða í þágu mennt­un­ar. Mennt­un er eitt mesta hreyfiaflið fyr­ir ein­stak­linga, þar sem tæki­fær­in verða til í gegn­um mennta­kerfið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. október 2020.

Categories
Greinar

Skapandi þjóð

Deila grein

20/10/2020

Skapandi þjóð

Við þurf­um að skara fram úr. Vel­meg­un og ör­yggi okk­ar þjóðar ræðst af getu okk­ar til að keppa við aðrar þjóðir um lífs­gæði. Við þurf­um að setja markið hátt og vera reiðubú­in að keppa við þá sem lengst hafa náð. Slíkt ger­ist ekki sjálf­krafa, en með hug­rekki, hug­vit og þraut­seigju að vopni get­um við keppt við þróuðustu hag­kerfi heims­ins.

Við tök­umst nú á við eina al­var­leg­ustu efna­hagskreppu nú­tíma­sög­unn­ar. Í kjöl­far heims­far­ald­urs standa þjóðir heims frammi fyr­ir mikl­um þreng­ing­um og er Ísland þar eng­in und­an­tekn­ing. Ábyrgðar­hlut­verk stjórn­valda er stórt og okk­ur ber að grípa til marg­háttaðra varn­araðgerða til að vernda heim­ili og at­vinnu­líf fyr­ir verstu áhrif­um krepp­unn­ar. Við eig­um þó ekki að gleyma okk­ur í vörn­inni held­ur þora að sækja fram. Mark­viss efl­ing hug­vits, tækni og skap­andi greina get­ur leikið stórt hlut­verk í þeim efn­um. Rík­is­fjár­mála­áætl­un og fjár­laga­frum­varpið bera þess skýr merki.

Við þurf­um ekki að líta langt, því bestu tæki­fær­in búa í okk­ur sjálf­um! Við höf­um byggt upp at­vinnu­líf á auðlind­um ís­lenskr­ar nátt­úru; fiski­miðum, fall­vötn­um og feg­urð lands­ins. Við höf­um líka litið til okk­ar sjálfra, en þurf­um að gera meira því tæki­færi framtíðar­inn­ar liggja ekki síst í menn­ing­unni sem hér hef­ur þró­ast.

Þar geta runnið sam­an sterk­ir alþjóðleg­ir straum­ar og sérstaða Íslands og þegar er haf­in vinna við efl­ingu skap­andi greina; þar sem menn­ing, list­ir, hug­vit og iðnaður renna sam­an í eitt. Skap­andi grein­ar eru þannig svar við áskor­un­um og tæki­fær­um sem fylgja fjórðu iðnbylt­ing­unni, þar sem skil milli efn­is­legra, sta­f­rænna og líf­fræðilegra kerfa mást út. Sjálf­virkni­væðing og marg­vís­leg há­tækni sýna okk­ur eina hlið á nýj­um veru­leika. Þar verða tæki­fær­in best nýtt með sköp­un­ar­gáfu, gagn­rýnni hugs­un og getu til að horfa á hlut­ina með nýj­um hætti.

Við nýt­um nú þegar þá miklu auðlind sem er að finna í kraft­miklu menn­ing­ar- og list­a­lífi. Sú auðlind skil­ar nú þegar mikl­um efna­hags­leg­um gæðum til sam­fé­lags­ins í formi at­vinnu, fram­leiðslu á vöru og þjón­ustu. Þessi öfl­uga at­vinnu­grein veit­ir ekki aðeins tæp­lega 8% vinnu­afls­ins beina at­vinnu, held­ur hef­ur rík áhrif á ferðaþjón­ustu og fleiri at­vinnu­grein­ar. Skap­andi grein­ar eru sveigj­an­legri og vaxa hraðar en aðrar at­vinnu­grein­ar, en til að stand­ast sam­keppni við aðrar þjóðir þurf­um við að greiða leið frum­kvöðla og skap­andi fyr­ir­tækja með hvetj­andi aðgerðum.

Mik­il tæki­færi eru til vaxt­ar á öll­um sviðum hug­vits­drif­inna at­vinnu­greina á Íslandi. Ný kvik­mynda­stefna sem lögð var fram fyr­ir fáum dög­um er dæmi um þær aðgerðir sem op­in­ber­ir aðilar þurfa að grípa til ef við ætl­um að nýta okk­ur tæki­færi framtíðar­inn­ar. Aðrar grein­ar eins og leikja­fram­leiðsla, tón­list­ariðnaður, hönn­un og arki­tekt­úr, mynd­list, bók­mennt­ir og sviðslist­ir þarf að styðja með lík­um hætti með því að tryggja þeim bestu mögu­legu skil­yrði til að blómstra í þágu okk­ar allra.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. október 2020.

Categories
Greinar

Verðmæti menningar og lista er mikið

Deila grein

18/10/2020

Verðmæti menningar og lista er mikið

Heims­byggðin hef­ur ekki tek­ist á við sam­bæri­leg­an far­ald­ur og kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn í heila öld. Viðbrögð til þess að hefta út­breiðslu far­ald­urs­ins eiga sér ekki sam­svör­un og efna­hags­leg­ar af­leiðing­ar eru tald­ar verða meiri en sést hafa frá krepp­unni miklu sem hófst árið 1929.

Far­ald­ur­inn hef­ur mis­mun­andi áhrif á þjóðfé­lags­hópa og ljóst er að menn­ing og list­ir munu koma sér­stak­lega illa und­an þess­um óvissu­tím­um. Sam­komu­bönn og tak­mark­an­ir setja þess­um grein­um mikl­ar skorður og því eru tekju­mögu­leik­ar nær eng­ir.

Sam­kvæmt gögn­um Banda­lags há­skóla­manna frá því í júlí hef­ur at­vinnu­leysi auk­ist mikið inn­an aðild­ar­fé­laga banda­lags­ins í list- og menn­ing­ar­grein­um. Sé horft til hlut­falls bótaþega af heild­ar­fjölda fé­lags­manna má sjá að um­sókn­ir hafa átt­fald­ast inn­an Fé­lags ís­lenskra hljómlist­ar­manna, þre­fald­ast inn­an Fé­lags ís­lenskra leik­stjóra og fer­fald­ast í Leik­ara­fé­lagi Íslands. Þá sýna gögn BHM og Vinnu­mála­stofn­un­ar að fjöldi at­vinnu­lausra ein­stak­linga með list­mennt­un á há­skóla­stigi hafi auk­ist um 164% milli ára, og sé því um 30% meira en á at­vinnu­markaðnum í heild.

Niður­stöður úr könn­un­inni benda til þess að ein­ung­is einn af hverj­um fjór­um hafi fengið úrræði sinna mála þrátt fyr­ir mik­inn tekju­sam­drátt. Ástæður þessa eru marg­vís­leg­ar, en helst má nefna mikl­ar tekju­sveifl­ur hóps­ins í hefðbundnu ár­ferði og hindr­an­ir sem hóp­ur­inn hef­ur mætt sök­um sam­setts rekstr­ar­forms.

Stærst­ur hluti menn­ing­ar- og list­greina á Íslandi sam­an­stend­ur af minni fyr­ir­tækj­um og sjálf­stætt starf­andi lista­mönn­um. Því þurfti að finna leiðir til að mæta þess­um hópi. Ákveðið var að fara í tíu aðgerðir, sem eru bæði um­fangs­mikl­ar og fjölþætt­ar. Það sem veg­ur þyngst í þeim aðgerðum eru tekju­falls­styrk­ir sem ein­yrkj­ar og smærri rekstr­araðilar munu geta sótt um. Ráðgert er að heild­ar­fjármun­ir sem varið verður til al­menns tekju­fallsstuðnings stjórn­valda geti numið rúm­um 14 millj­örðum kr.

Aðgerðirn­ar tíu sem voru kynnt­ar í gær eru afrakst­ur vinnu sam­ráðshóps sem sett­ur var á lagg­irn­ar í ág­úst. Ég vil þakka BHM, Banda­lagi ís­lenskra lista­manna, ÚTÓN, fé­lags­málaráðuneyt­inu og Vinnu­mála­stofn­un fyr­ir þeirra fram­lag.

Öflugt menn­ing­ar­líf hef­ur ein­kennt ís­lenska þjóð frá upp­hafi. Við erum söngva-, sagna- og bókaþjóð. List­sköp­un Íslend­inga hef­ur ít­rekað vakið at­hygli á alþjóðleg­um vett­vangi. Ég tel að við get­um öll verið stolt af aðgerðum okk­ar í þágu menn­ing­ar og lista, enda vit­um við að efna­hags­leg og fé­lags­leg áhrif af lömuðu menn­ing­ar­lífi mun kosta sam­fé­lagið marg­falt meira, til framtíðar litið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. október 2020.

Categories
Greinar

Unga fólkið okkar hefur áhrif

Deila grein

10/10/2020

Unga fólkið okkar hefur áhrif

Unglings­ár­in eru tíma­bil spenn­andi breyt­inga. Lík­ami og sál þrosk­ast, vina­hóp­ur og nærum­hverfi breyt­ast, með til­færslu ung­menna milli skóla­stiga. Ung­ling­ar í dag lifa á tím­um sam­fé­lags­miðla og í því fel­ast tæki­færi en einnig áskor­an­ir. Flæði af upp­lýs­ing­um krefst þess að ung­menni séu gagn­rýnni en fyrri kyn­slóðir á það efni sem fyr­ir þau er lagt. Þörf­in fyr­ir skil­merki­legri og öfl­ugri kyn­fræðslu, kennslu í sam­skipt­um og lífs­leikni hef­ur því aldrei verið meiri.

Kyn­fræðsla er hluti af aðal­nám­skrá og því hef­ur það verið skól­anna að fræða ung­menn­in okk­ar. Flest­ir virðast þó vera sam­mála því, að í breytt­um heimi þurfi að gera bet­ur. Síðastliðið vor ályktaði Alþingi um mik­il­vægi skipu­lagðra for­varna gegn kyn­ferðis­legu og kyn­bundnu of­beldi og áreitni. Tryggja þurfi að inn­tak kennsl­unn­ar verði að meg­in­stefnu til þríþætt. Í fyrsta lagi að al­menn­ar for­varn­ir stuðli að sterkri sjálfs­mynd og þekk­ingu á mörk­um og marka­leysi, þar á meðal í sam­skipt­um kynj­anna og sam­skipt­um milli full­orðinna og barna. Í öðru lagi að auka fræðslu um kyn­heil­brigði og kyn­hegðun, einkum í grunn­skól­um og fram­halds­skól­um. Í þriðja lagi þarf að halda áfram op­in­skárri um­fjöll­un um eðli og birt­ing­ar­mynd­ir kyn­ferðis­legs og kyn­bund­ins of­beld­is og áreitni. Til framtíðar þarf einnig að und­ir­búa starfs­fólk sem starfar með börn­um og ung­menn­um til að sjá um for­varn­ir, fræðslu og viðbrögð við kyn­ferðis­legu og kyn­bundnu of­beldi og áreitni.

Í liðinni viku átti ég áhuga­verðan fund með Sól­borgu Guðbrands­dótt­ur, bar­áttu­konu og fyr­ir­les­ara, og Sig­ríði Dögg Arn­ar­dótt­ur kyn­fræðingi um þessi mál­efni. Báðar hafa þær unnið með ungu fólki, hvor á sinn hátt, og þekkja vel þörf­ina á skil­merki­leg­um aðgerðum. Niðurstaða fund­ar­ins var að fela sér­stök­um starfs­hópi að taka út kyn­fræðslu­kennslu í skól­um og gera til­lög­ur að úr­bót­um í sam­ræmi við of­an­greinda þings­álykt­un. Sú vit­und­ar­vakn­ing sem orðið hef­ur um kyn­ferðis­legt og kyn­bundið of­beldi og áreitni er geysi­lega mik­il­væg fyr­ir sam­fé­lagið, en það er brýnt að þekk­ing­in skili sér mark­visst inn í skóla­kerfið.

Aðkoma barna og ung­menna er lyk­il­atriði til að ná sam­stöðu og sátt um mál­efni sem þeim tengj­ast. Þess vegna hef­ur ráðuneytið haldið sam­ráðsfundi með sam­tök­um nem­enda, til að heyra þeirra skoðanir og viðhorf varðandi ákv­arðana­töku í heims­far­aldr­in­um. Þetta hef­ur gefið mjög góða raun.

Komi í ljós að fræðslan sé óviðun­andi mun ég leggja mitt af mörk­um svo mennta­kerfið sinni þess­ari skyldu. Í mín­um huga er þetta eitt mik­il­væg­asta bar­áttu­málið til að auka vel­ferð ung­menna á Íslandi.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. október 2020.

Categories
Greinar

Íslensk kvikmyndagerð á tímamótum

Deila grein

08/10/2020

Íslensk kvikmyndagerð á tímamótum

Menn­ing og list­ir skipta mestu máli þegar hrikt­ir í stoðum sam­fé­laga. Þær setja líðandi stund í sam­hengi, veita skjól frá amstri hvers­dags­ins og skapa sam­stöðu.

Grósk­an í ís­lensku menn­ing­ar­lífi er með ólík­ind­um. Þar liggja líka mörg af okk­ar stærstu tæki­fær­um til að byggja upp hug­vits­drifið og skap­andi at­vinnu­líf. Óvíða eru þessi tæki­færi meiri en í kvik­myndal­ist og til að ýta und­ir áfram­hald­andi vöxt hafa stjórn­völd nú lagt lín­urn­ar, með kvik­mynda­stefnu til næstu tíu ára. Þessi fyrsta heild­stæða kvik­mynda­stefna var kynnt í vik­unni, en hún bygg­ist á til­lög­um verk­efna­hóps sem skipaður var fyr­ir ári. Í hópn­um sátu full­trú­ar list­grein­ar­inn­ar, at­vinnu­lífs og stjórn­valda og lagði hóp­ur­inn ríka áherslu á sam­ráð við hagaðila í grein­inni. Niðurstaðan er metnaðarfull og raun­sæ, og ég er sann­færð um að stefn­an mun styðja vöxt kvik­mynda­gerðar sem list­grein­ar og alþjóðlega sam­keppn­is­hæfr­ar fram­leiðslu­grein­ar.

Í stefn­unni eru sett fram meg­in­mark­mið til næstu tíu ára og aðgerðir til­greind­ar með kostnaðaráætl­un­um. Um leið eru aðilar gerðir ábyrg­ir fyr­ir ein­stök­um aðgerðum til að tryggja fram­kvæmd og eft­ir­fylgni. Aðgerðirn­ar lúta ann­ars veg­ar að efl­ingu kvik­mynda­menn­ing­ar og kvik­myndal­ist­ar og hins veg­ar að efl­ingu at­vinnu­lífs í kring­um kvik­mynd­a­starf­semi sem er bæði alþjóðleg og sjálf­bær.

Stefn­an set­ur skýr mark­mið um efl­ingu fjöl­breyttr­ar og metnaðarfullr­ar mennt­un­ar á sviði kvik­mynda­gerðar. Boðaðar eru mark­viss­ar aðgerðir til að efla mynd- og miðlalæsi barna og ung­linga og styðja við skap­andi hugs­un. Slíkt hef­ur aldrei verið mik­il­væg­ara en nú, á tím­um of­gnótt­ar af upp­lýs­ing­um sem erfitt er að henda reiður á. Þá er í stefn­unni kveðið á um vandað og metnaðarfullt kvik­mynda­nám á há­skóla­stigi, nokkuð sem grein­in hef­ur kallað eft­ir um langt skeið. Námið mun efla list­rænt sjálf­stæði ís­lenskr­ar kvik­mynda­gerðar, auka fag­lega umræðu og opna spenn­andi tæki­færi til náms og starfa.

Lof­orð um bætt starfs­um­hverfi fyr­ir grein­ina kall­ar einnig á aðgerðir, m.a. breyt­ing­ar á skattaum­hverfi og upp­færslu á end­ur­greiðslu­kerfi. Þar á Ísland í harðri alþjóðlegri sam­keppni, enda sjá marg­ar þjóðir kosti þess að byggja upp kvik­myndaiðnað í sínu landi. Yf­ir­stand­andi al­heimskreppa hef­ur síst dregið úr vilja þjóða til að laða til sín kvik­mynda­fram­leiðend­ur og Ísland get­ur ekki leyft sér að sitja aðgerðalaust hjá. Kost­ir nú­ver­andi end­ur­greiðslu­kerf­is eru marg­ir, en með því að hækka end­ur­greiðslu­hlut­fallið kæm­ist Ísland í flokk þeirra eft­ir­sókn­ar­verðustu. Fyr­ir því mun ég beita mér, til hags­bóta fyr­ir grein­ina sjálfa og hag­kerfið allt.

Rík sagna­hefð Íslend­inga hef­ur skilað okk­ur hundruðum kvik­mynda, heim­ilda- og stutt­mynda, sjón­varpsþátta og öðru fjöl­breyttu efni á síðustu ára­tug­um. Marg­ar er­lend­ar kvik­mynd­ir og þátt­araðir hafa verið tekn­ar hér og fjöldi ferðamanna heim­sótt Ísland ein­göngu vegna ein­stakr­ar nátt­úru­feg­urðar og menn­ing­ar sem birt­ist í kvik­mynd­um og sjón­varpsþátt­um. Ávinn­ing­ur­inn af þessu er mik­ill. Auk­in fjár­fest­ing í kvik­mynda­gerð er því bæði viðskipta­tæki­færi fyr­ir þjóðarbúið og áburður í mót­un menn­ing­ar okk­ar og sam­fé­lags­ins.

Á vor­mánuðum hækkuðu stjórn­völd fjár­veit­ing­ar í Kvik­mynda­sjóð um 120 millj­ón­ir króna, til að tryggja áfram­hald­andi kvik­mynda­fram­leiðslu á erfiðum tím­um. Með nýju kvik­mynda­stefn­unni verður bætt um bet­ur, því í fjár­laga­frum­varpi fyr­ir árið 2021 eru 550 millj­ón­ir króna eyrna­merkt­ar efl­ingu sjóða til fram­leiðslu á fjöl­breytt­ari kvik­mynda­verk­um, stuðningi við sjálfsprott­in kvik­mynda­menn­ing­ar­verk­efni, betri kvik­mynda­mennt­un o.s.frv.

Ég óska þjóðinni til ham­ingju með glæsi­lega kvik­mynda­stefnu. Hún er hvatn­ing og inn­blást­ur öll­um þeim sem vinna við kvik­mynda­gerð og sam­fé­lag­inu sem nýt­ur afrakst­urs­ins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. október 2020.

Categories
Greinar

Hvaða íslenski sjónvarpsþáttur er bestur?

Deila grein

07/10/2020

Hvaða íslenski sjónvarpsþáttur er bestur?

Íslendingar elska íslenskt sjónvarpsefni! Allt frá því að Hrafn Gunnlaugsson, Egill Eðvarðsson og Björn G. Björnsson færðu þjóðinni fyrstu alísl­ensku þáttaröðina árið 1977 – Undir sama þaki – og fram á þennan dag, safnast kynslóðirnar saman við sjónvarpsskjáinn til að upplifa eitthvað alveg sérstakt. Tækniþróun og erlendar streymisveitur hafa skapað fjölmörg tækifæri fyrir íslenskt þáttagerðarfólk, bæði til fjármögnunar og dreifingar. Íslenskt efni nýtur vinsælda víða um heim, nú síðast Brot, sem framleitt var í samstarfi við Netflix og var um tíma efst á áhorfslistum streymisveitunnar. Þrátt fyrir vinsældirnar hefur fjármögnun á íslenskum sjónvarpsþáttum gjarnan verið þung. Kvikmyndasjóður hefur haft takmarkaða burði til að uppfylla þarfirnar, enda umsóknir í sjóðinn langt umfram stærð hans og kvikmyndir í fullri lengd fjárfrekar.

Til að mæta þessari brýnu þörf verður settur á laggirnar sérstakur fjárfestingarsjóður sjónvarpsefnis og er tilurð hans hluti af heildstæðri kvikmyndastefnu fyrir Ísland, sem kynnt var í gær. Sjóðurinn verður rekinn að fyrirmynd Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins og er ætlað að ýta undir framleiðslu, sölu og dreifingu leikinna sjónvarpsþáttaraða. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn fjárfesti í allt að þremur þáttaröðum á ári fyrst um sinn, en í náinni framtíð gæti framleiðslugeta orðið allt að tíu til tólf þáttaraðir á ári.

Sú ríka þörf Íslendinga um aldir að segja sögur hefur orðið kveikjan að hundruðum kvikmyndaverka sem mörg eiga stóran sess í hjörtum okkar. Fyrir elju, einurð og sterka sýn þeirra sem starfað hafa að kvikmyndagerð er nú í mótun burðug list- og atvinnugrein sem stenst fyllilega alþjóðlegan samanburð. Velta greinarinnar hefur þrefaldast á áratug og skapað þúsundir starfa. Þá fjölbreyttu flóru þarf að vökva, svo hún blómstri um ókomna tíð, tryggja greininni bestu mögulegu aðstæður til að vaxa og dafna. Með kvikmyndastefnu til ársins 2030 er vörðuð raunsæ en metnaðarfull braut inn í framtíðina.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greini birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. október 2020.