Það er fastur liður í aðventudagskrá Alþingis að fjalla um og samþykkja fjárlög fyrir komandi ár. Í upphafi kjörtímabils voru krefjandi tímar fram undan, heimsfaraldur stóð yfir og sama dag og takmörkunum var aflétt hér á landi réðust Rússar inn í Úkraínu. Þessir þættir hafa skapað óvissu bæði hér innanlands sem og í Evrópu. Eðli málsins samkvæmt er það ekki óeðlilegt í ástandi sem þessu að verðbólga og hækkun á aðföngum taki sér pláss í fjárlögum líkt og í heimilisrekstri landsmanna. Staðan í efnahagsmálum í Evrópu er erfiðari en lengi hefur verið.
Skýr afkomubati
Þrátt fyrir þessar staðreyndir er það markmið ríkisstjórnarinnar að verja sterka stöðu ríkissjóðs með því að lækka rekstrarhalla og stöðva hækkun skuldahlutfalls á næsta ári. Í framlögðum fjárlögum má finna skynsamleg skef framávið sem lúta að því að styrkja áfram innviði og grunnþjónustu í landinu en það er sterkur leikur til að verja kaupmátt landsmanna. Þá má einnig finna að dregið er úr útgjöldum enda var verulega bætt í útgjöld til að verja störf og heimili í gegnum heimsfaraldurinn. Það er mikilvægt skref til að vinna gegn verðbólgu þegar horft er til næstu missera í þjóðarbúskapnum. Í fjárlögum næsta árs eru þó jákvæð teikn á lofti um að við séum að vaxa út úr þeim stóru verkefnum sem við höfum staðið frammi fyrir og að viðsnúningur geti orðið hraður ef rétt er haldið á spöðunum.
Treystum heilbrigðisþjónustu
Heilbrigðiskerfið með öllu sínu frábæra starfsfólki hefur staðið sem klettur í gegnum heimsfaraldur þrátt fyrir mikla ágjöf. En svo það geti staðið sterkt áfram þarf að bæta verulega í málaflokkinn. Við erum enn að glíma við eftirköstin eftir faraldurinn og þá þurfum við einnig að mæta næstu áskorun sem er fjölgun landsmanna og stækkandi hópur eldra fólks. Auk þess er til staðar uppsöfnuð þjónustuþörf eftir COVID. Ríkisstjórnin stendur með heilbrigðiskerfinu en framlög til heilbrigðismála hækka um 17,4 ma.kr. á næsta ári. Þar vegur þyngst 6.8 ma.kr raunhækkun til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga til að koma til móts við aukna eftirspurn og öldrun þjóðarinnar. Þá verður áfram haldið við að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað innan heilbrigðiskerfisins með 2. ma. viðbótarframlagi auk þess sem horft er til þess að efla heimahjúkrun.
Framlag til jarðhitaleitarátaks
Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Til þess þarf að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar þannig að hægt verði að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkyntar hitaveitur. Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 m.kr fram til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkra rannsókna myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Allt er þetta liður í því að nálgast markmið okkar um að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040.
Ferjurekstur tryggður
Það er örugglega öllum enn í fersku minni þegar Breiðafjarðarferjan Baldur bilaði í siglingu sinni yfir fjörðinn og minnti okkur rækilega á mikilvægi þess að þeir farþegar sem nýta sér þennan samgöngumáta geti treyst á öryggi skipsins. Sveitarfélög beggja megin Breiðafjarðar telja mikilvægt að tryggja þennan samgöngumáta, þrátt fyrir að bættar samgöngur á vegum stæði fyrir dyrum.
Í fjárlögum næsta árs má nú finna 210 m.kr. til þess að tryggja ferjurekstur um Breiðafjörð. Þá er það fyrirséð að núverandi rekstraraðili ferjunnar Baldurs mun hætta siglingum um Breiðafjörð. Þess í stað er gert ráð fyrir því að leigja eða kaupa aðra ferju og hefur eitt skip komið til álita, Röst, sem er nú í siglingum í Norður – Noregi.
Löggæsla efld
Áform eru uppi um að styrkja lögregluna um allt land með því að dreifa verkefnum á lögregluembættin út um landið og dreifa þannig álaginu. Á sama tíma á að styrkja grunnviðbragð lögregluembættanna á landsbyggðunum. Auk þess sem meirihluti fjárlaganefndar lagði til aukna fjárheimild upp á 200 milljónir til að draga úr aðhaldskröfu á lögregluna.
Velferðarfjárlög
Heilt yfir getum við horft til þess að fjárlög fyrir árið 2023 séu velferðarfjárlög, þar má m.a. finna hækkun á frítekjumarki atvinnutekna örorku og endurhæfingalífeyrisþegar í 200 þús , aukið kastljós á heilbrigðiskerfið, tímabundið framlag til sveitarfélaga vegna samræmda móttöku flóttamanna og ásamt sérstöku úrræði í tengslum við móttöku flóttabarna.
Sterk landsbyggð tekur á móti nýjum áskorunum
Við horfum fram á veginn inn í nýja framtíð. Við sjáum það nú að stuðningur stjórnvalda í gegnum heimsfaraldur við atvinnulífið og fjölskyldur í landinu skilaði því að við komum standandi niður eftir heimsfaraldur og stöndum mun betur en margar aðrar þjóðir. Með mörgum ákveðnum og markvissum skrefum voru settir saman aðgerðarpakkar til að verja fólk og fyrirtæki. Áfram verða þó til staðar áskoranir sem takast þarf á við, en þetta ár hefur sýnt að byggðarlög um land allt eru tilbúin í að nýta sér þau tækifæri og sérstöðu sem þau búa við, til að vaxa áfram og dafna.
Áfram veginn.
Halla Signý Kristjánsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmenn Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst á bb.is 10. desember 2022.