Categories
Fréttir

Leiðréttingin nær til 100 þúsund heimila

Deila grein

26/03/2014

Leiðréttingin nær til 100 þúsund heimila

Sigmundur Davíð GunnlaugssonRíkisstjórnin kynnti í dag tvö lagafrumvörp  sem lækka húsnæðisskuldir heimila í landinu og auðvelda þeim sem ekki eiga íbúð að kaupa húsnæði. Annars vegar er um að ræða leiðréttingu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar skattafslátt vegna séreignarlífeyrissparnaðar. Með lækkuninni léttist greiðslubyrði heimilanna og ráðstöfunartekjur þeirra aukast.

 • Heildarumfang leiðréttingarinnar um 150 milljarðar króna
 • Nær til allt að 100 þúsund heimila
 • Dæmigert húsnæðislán getur lækkað um u.þ.b. 20%
 • Einfalt að sækja um leiðréttinguna á vef ríkisskattstjóra
 • Skattafsláttur veittur af séreignarsparnaði sem nýttur er til húsnæðiskaupa

Leiðréttingin – glærukynning
Ný hugsun í húsnæðismálum
Unnt verður að ráðstafa séreignarlífeyrissparnaði til lækkunar höfuðstóls og býðst sú leið öllum þeim sem skulda húsnæðislán sem veita rétt til vaxtabóta. Einnig býðst fólki að nýta séreignarsparnað til fasteignakaupa og njóta samsvarandi skattafsláttar, en það getur meðal annars nýst fjölskyldum í leiguhúsnæði.
Gert er ráð fyrir að höfuðstólslækkunin hefjist um leið og umsóknartímabili lýkur.
Frumvarp til laga um leiðréttingu fasteignaveðlána
gatt-hja-rikisskattstjora-leidrettingHámarksfjárhæð niðurfærslu verðtryggðra húsnæðislána verður 4 m.kr. á heimili.Til frádráttar koma fyrri opinber úrræði til lækkunar höfuðstóls sem lántakandi hefur þegar notið. Rétt til leiðréttingar skapa verðtryggð húsnæðislán, vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sem mynda stofn til vaxtabóta og voru til staðar á tímabilinu 1. janúar 2008- 31.desember 2009. Leiðrétting er að frumkvæði lántaka og þarf að sækja um hana hjá ríkisskattstjóra á tímabilinu 15. maí til 1. september 2014.
Í frumvarpinu er fjallað um fyrirkomulag leiðréttingar verðtryggðra fasteignaveðlána einstaklinga. Það var samið af starfshópi sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði sérstaklega til að vinna drög að nauðsynlegum lagabreytingum. Frumvarpið var samið í nánu samstarfi við verkefnastjórn um höfuðstólslækkun íbúðalána og samráðshóp um framkvæmd höfuðstólslækkunar.
Í frumvarpinu er lagt til að Alþingi heimili ráðherra að gera samkomulag við lífeyrissjóði, Íbúðalánasjóð og fjármálafyrirtæki um framkvæmd almennrar leiðréttingar þeirra verðtryggðu fasteignaveðlána einstaklinga sem til staðar voru á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009.
Frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar
Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt og lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál.
Efni frumvarpsins má í grófum dráttum skipta í tvennt:

 • Annars vegar er lagt til úrræði sem heimilar fjölskyldu að ráðstafa séreignarsparnaði inn á veðlán sem tekin eru vegna íbúðahúsnæðis til eigin nota. Skilyrði er að lánin séu tryggð með veði í íbúðarhúsnæði og að þau séu grundvöllur til útreiknings vaxtarbóta. Hér undir falla einnig lánsveðslán ef þau uppfylla sömu skilyrði.
 • Hins vegar er lagt til úrræði sem heimilar ráðstöfun iðgjalda sem safnast hafa upp á tilteknu tímabili til kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota (húsnæðissparnaður).

Í báðum tilfellum er um að ræða tímabundin, skattfrjáls úrræði til þriggja ára þegar um er að ræða greiðslu/ráðstöfun iðgjalda inn á lán, en í fimm ár í tilviki húsnæðissparnaðar.
Grunnviðmið eru þessi í báðum tilvikum:

 • Heimili; fjölskyldur og einstaklingar.
 • Með fasteign er átt við íbúðarhúsnæði til eigin nota.
 • Gildistíminn takmarkast við þau iðgjöld sem greidd eru vegna tímabilsins 1. júlí 2014 til 30. júní 2017.
 • Hámarksfjárhæð á ári er samtals 500 þúsund kr. á fjölskyldu og fasteign (samtals 1,5 milljónir kr. á þremur árum).
 • Hámarksiðgjald, 4% frá launþega og 2% frá launagreiðanda.
 • Einstaklingur sparar a.m.k. 2% eða til jafns við framlag launagreiðanda, ef það er lægra en 2%.

„Þetta er stór dagur“
„Þetta er stór dagur. Þetta er stór dagur þegar ríkisstjórnin kemur fram með loforðin og sönnun á því sem við lofuðum fyrir ári síðan,“ sagði Sigrún Magnúsdóttir, á Alþingi, í dag, í umræðum um störf þingsins, um tillögur ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingar sem samþykkt voru í ríkisstjórn í gær og kynnt á blaðamannafundi í dag.
Skuldaleiðréttingarfrumvörpunum var dreift á Alþingi í dag, síðdegis:

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Þingið bregst og almenningur borgar

Deila grein

26/03/2014

Þingið bregst og almenningur borgar

Karl GarðarssonSkattgreiðendur hafa borgað um 1.300 milljónir króna vegna þriggja skýrslna sem rannsóknarnefndir Alþingis hafa gert. Endanleg upphæð verður örugglega nær 1.400 milljónum. Engar fjárhagsáætlanir lágu fyrir þegar þingmenn samþykktu gerð þeirra.

Rannsóknarskýrslan um aðdraganda og fall bankanna, sem kynnt var árið 2010, kostaði rúmar 453 milljónir króna. Nokkur umræða varð um skýrsluna en síðan hefur hún rykfallið ofan í skúffu. Skýrslan um Íbúðalánasjóð kostaði um 250 milljónir. Hún er enn í meðförum þingsins. Nefndin um sparisjóðina átti að skila af sér í lok árs 2012. Síðan hefur gjaldmælirinn gengið og í síðustu viku var kostnaður við skýrslugerðina kominn í um 600 milljónir króna. Enn er beðið eftir skýrslunni. Engin fjárveiting er í fjárlögum ársins 2014 vegna verksins og stefnir í að 100 milljóna króna reikningur bætist við fjáraukalög ársins.

Ljóst er að þingið hefur algjörlega brugðist í þessu máli. Eftirlit hefur ekkert verið og reikningar hafa verið borgaðir þegjandi. Þetta er ekkert annað en sjálftaka. Hluti vandamálsins er síðan að verkefnin hafa ekki verið nógu vel afmörkuð í byrjun og því hafa skýrsluhöfundar lent í vandræðum. Það er líka á ábyrgð þingsins.

Forsætisnefnd á að sinna fjárhagslegu eftirliti á Alþingi. Hér hefur það ekki verið til staðar og reikningurinn, upp á allt að 1.400 milljónir króna, er á endanum sendur á skattgreiðendur.

Íbúðalánasjóðsskýrslan er harðlega gagnrýnd í áliti meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem Ögmundur Jónasson formaður nefndarinnar ritar líka undir. Þannig hefur stjórnskipunarnefnd kallað fyrir fjölmarga aðila sem aldrei voru kallaðir fyrir rannsóknarnefndina, þó full ástæða hefði verið til. Ómaklegar árásir og pólitískar dylgjur er víða að finna. Ljóst er að kostnaður tryggir ekki gæði. Vonum að sparisjóðaskýrslan verði vandaðra plagg.

Þingið hefur nú skipað rannsóknarnefnd til að rannsaka rannsóknarnefndirnar. Bíðum spennt eftir niðurstöðunni en fyrsta mál hlýtur að vera að samþykkja ekki óútfyllta tékka.

 

Karl Garðarsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. mars 2014)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Aukakjördæmaþing KFR

Deila grein

24/03/2014

Aukakjördæmaþing KFR

logo-framsokn-256x300Aukakjördæmaþing Kjördæmasambands Framsóknarmanna í Reykjavík (KFR) verður haldið laugardaginn 5. apríl 2014 að Suðurlandsbraut 24 í Reykjavík, kl. 16:00.
Drög að dagskrá:

 1. Þingsetning
 2. Kosning starfsmanna þingsins.
 3. Tillaga kjörnefndar kynnt
 4. Önnur mál.
 5. Þingslit.

Að kjördæmaþinginu loknu verður boðið upp á léttar veitingar.
 
Þórir Ingþórsson, formaður KFR
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Sigmundur Davíð á Sprengisandi

Deila grein

24/03/2014

Sigmundur Davíð á Sprengisandi

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og formaður Framsóknar var viðmælandi í þættinum á Sprengisandi á Bylgjunni í gær, sunnudag. Hér að neðan má nálgast viðtal Sigurjóns M. Egilssonar við forsætisráðherra.
Sprengisandur (1): Skuldafrumvörpið kemur á þriðjudag
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að skuldaleiðréttingafrumvarpið verði kynnt á þriðjudag. Hann segir einnig að hann sæki ekki ráð til forvera sinna, hvorki á stóli forsætisráðherra né í formennsku í Framsóknarflokksins.
https://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=25666
Sprengisandur (2): Sigmundur Davíð útilokar ekki atkvæðagreiðslu
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra útilokar ekki atkvæðagreiðslu um ESB-aðildarmálið. Hann er ósáttur með fullyrðingar Norðmanna í makríldeilunni.
https://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=25667
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.
 

Categories
Fréttir

Verndaraðgerðir á friðlýstum svæðum og í Þórsmörk í sumar

Deila grein

22/03/2014

Verndaraðgerðir á friðlýstum svæðum og í Þórsmörk í sumar

Sigurður Ingi JóhannssonSigurður Ingi Jóhansson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur ákveðið að veita rúmlega 20 milljónum króna til uppbyggingar og landvörslu á friðlýstum svæðum og mikilvægum ferðamannastöðum. Um er að ræða verkefni á friðlýstum svæðum í umsjón Umhverfisstofnunar, og í Þórsmörk sem er í umsjón Skógræktar ríkisins.
Stofnanirnar telja þessi verkefni vera í forgangi yfir þær aðgerðir sem ráðast þarf í nú þegar til að koma í veg fyrir spjöll vegna ágangs ferðamanna. Stofnanirnar vinna að þessum verkefnum með ýmsum aðilum. Um er að ræða viðbótarframkvæmdir á nokkrum mikilvægum svæðum þar sem mikið álag er á náttúruna og verndaraðgerðir mikilvægar, svo og eflingu landvörslu í sumar.
Lagt verður m.a. til fjármagn til verkefna sem koma eiga til framkvæmda í vor og sumar í Mývatnssveit, Þórsmörk, Friðlandi að Fjallabaki, til gönguleiðarinnar „Laugavegarins“ og við Gullfoss. Jafnframt verður landvarsla og umsjón efld í vor og sumar í Mývatnssveit, Þórsmörk, Friðlandi að Fjallabaki og í Borgarfirði.
Þessi verkefni eru meðal annars umfangsmikil uppbygging og lagfæring göngustíga á Þórsmerkursvæðinu sem hefur látið mikið á sjá, göngustígar og aðrir innviðir við Skútustaðagíga í Mývatnssveit, lagfæringar á gönguleiðum við Gullfoss, auk þess að vinna áætlun um þær aðgerðir sem þarf að fara í við gönguleiðina „Laugaveginn“ milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Einnig verða lagðir fjármunir í öryggismál við Dyrhólaey og aðgerðir gegn utanvegaakstri á Friðlandi að Fjallabaki.
Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er einnig unnið að gerð lagafrumvarps um heildstæða framkvæmdaáætlun um vernd og uppbyggingu í íslenskri náttúru í þágu ferðaþjónustu sem umhverfis- og auðlindaráðherra mun leggja fyrir Alþingi. Samhliða vinnur iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið að útfærslum á leiðum til tekjuöflunar til að fjármagna þá vernd, uppbyggingu og rekstur sem framkvæmdaáætlunin mun skilgreina til framtíðar.

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Blekkingarleikur síðustu ríkisstjórnar

Deila grein

22/03/2014

Blekkingarleikur síðustu ríkisstjórnar

vigdishauksdottirÍ kosningasjónvarpi kvöldið fyrir alþingiskosningarnar vorið 2009 sagði Steingrímur J. Sigfússon að það samrýmdist ekki stefnu Vinstri grænna að hefja undirbúning að því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og að hann hefði ekkert umboð til slíks frá flokknum. Þrátt fyrir þessi orð fór Steingrímur ásamt Samfylkingunni rakleiðis í að undirbúa aðildarumsókn og send var umsókn að ESB um sumarið eftir mikil átök í þinginu. Þegar Steingrímur J. Sigfússon lét þessi orð falla 24. apríl 2009 upphófst einn sá stærsti blekkingarvefur sem spunninn hefur verið hér á landi. Þessi ákvörðun hefur verið landi og þjóð dýrkeypt og ekki sagður nema hálfsannleikur á öllum stigum þrátt ábendingar um annað. Það hefur verið alveg sama hvaða rök og staðreyndir hafa verið dregnar fram í umræðunni sem opinbera eðli og uppbyggingu ESB. Viðkvæðið hjá VG og Samfylkingu var ætíð á þá leið að um mikinn misskilning væri að ræða – viðkomandi væri ekki nógu upplýstur og ekki síst að Ísland væri á fyrsta farrými í aðlögunarferlinu og hinar og þessar staðreyndir um galla umsóknarinnar ættu ekki við.

Byggjum á staðreyndunum
Eftir 2004 var umsóknarferli að ESB breytt og umsóknarríki þurfa nú að laga sig að löggjöf ESB og jafnframt að byggja upp innviði, hagkerfi og lagakerfi að vestur-evrópskri fyrirmynd til að stuðla að svokallaðri einsleitni ESB-ríkja. M.ö.o. stjórnast aðildarferlið af kröfum og viðmiðum sem Evrópusambandið sjálft setur og skiptir skoðun umsóknarríkisins engu þar sem það hefur lýst sig viljugt til inngöngu og sóst formlega eftir henni. Segir í sáttmálum sambandsins að umbreytingafrestir, sérlausnir, undanþágur, tímafrestir skuli vera mjög takmarkaðir og eingöngu gefnir til að gefa svigrúm til skamms tíma til að uppfylla skilyrði ESB. Þetta þýðir að engar varanlegar undanþágur eru gefnar og því um gríðarlegan blekkingaleik að ræða af þáverandi stjórnvöldum í aðlögunarferlinu.

Árið 2006 voru ný viðmið sett er umsóknarríki urðu að lúta hinum svokölluðu opnunar- og lokunarviðmiðum. Ísland var því að sækja um aðild að ESB í umsóknarferli sem hafði tekið miklum breytingum miðað við það sem áður þekktist. Því var það hrein blekking hjá stjórnvöldum að tala um að Ísland fengi hraðferð í aðildarferlinu. Slíkt var aldrei í boði. Líklega eru alvarlegustu blekkingar síðustu ríkisstjórnar þær að margsinnis var fullyrt að Icesave- og makríldeilan væru ekki hluti af baktjaldamakki stjórnvalda og ESB. Þegar opnunar- og lokunarskilyrðin voru sett af ESB þýddi það að eitt ríki eða fleiri gætu beitt neitunarvaldi gagnvart umsóknarríki væru milliríkjadeilur í gangi. Til að halda viðræðunum lifandi lagði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar allt undir í að »semja um« Icesave-skuldina eins og þau kölluðu Icesave-deilurnar. Það er grafalvarlegur hlutur þegar stjórnvöld fara svo gegn þjóð sinni – að taka þannig á sig ólögvarðar kröfur í samningaviðræðum að þjóðarhag er stefnt í hættu. Samt var sífellt hamrað á því að Icesave væri alls ekki tengt ESB-umsókninni. Makríldeiluna er óþarft að rifja upp hér – en hún byggðist á nákvæmlega sömu sjónarmiðum.

Umsóknin strandaði árið 2011
Þetta segir okkur meðal annars hve mikið var að marka formann Vinstri grænna daginn fyrir kosningarnar vorið 2009. Upptakturinn hjá ríkjum ESB er að lagarökum ríkis skal fórnað fyrir samningarök. Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er varpað ljósi á skollaleik síðustu ríkisstjórnar og sýnt fram á að viðræðurnar höfðu siglt í strand í árslok 2011. Samt hélt ríkisstjórnin áfram blekkingarleik sínum með tilheyrandi kostnaði. Í framvinduskýrslum ESB kom fram að sjávarútvegsstefna Íslands væri ekki í samræmi við stefnu ESB og að auki væru miklar takmarkanir á staðfesturétti og frjálsu flæði fjármagns og ekkert hefði verið gert í að aflétta takmörkunum á fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi hér á landi en slíkt væri ekki í samræmi við réttarreglur ESB. Opnunarviðmið setja umsóknarríki þær skorður að umsóknarríkið þarf að leggja fram tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig og hvenær viðkomandi ríki aðlagast löggjöf ESB. Þar sem sjávarútvegsstefna og lagaumgjörð íslensk sjávarútvegs er mjög ólík sjávarútvegi ESB gátu Íslendingar ekki lagt fram aðgerðaáætlun til breytinga nema með því að setja fram óaðgengileg skilyrði fyrir ESB – því þjóðin vill halda yfirráðum yfir sjávarútvegsauðlindinni. Í raun má því fullyrða að viðræðum hafi verið slitið í árslok 2011. Samt var blekkingarleiknum haldið áfram af ríkisstjórninni og guldu VG og Samfylkingin sögulegt afhroð í síðustu alþingiskosningum. Þessir flokkar hrópa nú á þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt yrði hvort halda eigi aðlögunarferlinu áfram, en í því fælist að Íslendingar væru tilbúnir að uppfylla opnunarskilyrði ESB um að ganga inn í sjávarútvegsstefnu sambandsins og aflétta takmörkunum á fjárfestingum erlendra aðila í sjávarútvegi hér á landi. Þá yrði um leið gengið gegn þeim yfirlýsta vilja þjóðarinnar að hún hefði veruleg áhrif á nýtingu auðlindarinnar. Erum við tilbúin til þess?

Vigdís Hauksdóttir

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. mars 2014.)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknar í Kópavogi samþykktur

Deila grein

21/03/2014

Framboðslisti Framsóknar í Kópavogi samþykktur

kopavogur-framsokn-frambodslistinnFulltrúaráð framsóknarfélaganna í Kópavogi samþykkti einróma í gærkvöld tillögu að framboðslista Framsóknarflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor. Efsta sæti listans skipar Birkir Jón Jónsson fyrrverandi alþingismaður, í öðru sæti er Sigurjón Jónsson markaðsfræðingur og í því þriðja Guðrún Jónína Guðjónsdóttir hjúkrunarfræðingur.
Framboðslistinn í heild:

 1. Birkir Jón Jónsson, fv. alþingismaður/MBA
 2. Sigurjón Jónsson, markaðsfræðingur
 3. Guðrún Jónína Guðjónsdóttir, hjúkrunarfr./lífsstílsleiðb.
 4. Kristinn Dagur Gissurarson, viðskiptafræðingur
 5. Ólöf Pálína Úlfarsdóttir, grunnskólakennari
 6. Helga María Hallgrímsdóttir, grunnskólakennari/félagsráðgjafi
 7. Sigurbjörg Björgvinsd., fv. yfirm. öldrunarmála í Kópavogi
 8. Gunnleifur Gunnleifsson, forvarna- og fræðslufulltrúi
 9. Alexander Arnarson, málarameistari
 10. Sigurbjörg Vilmundardóttir, leikskólakennari
 11. Sigmar Ingi Sigurðarson, lögfræðingur
 12. Linda Wessman, konditor/lífsstílsleiðbeinandi
 13. Íris Lind Verudóttir, deildarstjóri/söngkona
 14. Marlena Anna Frydrysiak, viðskiptafræðingur
 15. Kristján Matthíasson, doktor í efnafræði
 16. Björg Baldursdóttir, aðstoðarskólastjóri
 17. Trausti Marel Guðmundsson, nemi
 18. Björg Eyþórsdóttir, hjúkrunarfræðinemi
 19. Einar Baldursson, grunnskólakennari
 20. Hulda Salómonsdóttir, sjúkraliði
 21. Einar Kristján Jónsson, rekstrarstjóri
 22. Willum Þór Þórsson, alþingismaður

Framsóknarmenn fengu einn mann kjörinn í sveitarstjórnarkosningunum 2010, Ómar Stefánsson oddvita flokksins. Hann gaf hins vegar ekki kost á sér að þessu sinni.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Norrænn virðisauki

Deila grein

21/03/2014

Norrænn virðisauki

Eygló HarðardóttirÁ morgun, 23. mars, er Dagur Norðurlanda. Þennan dag fyrir 52 árum komu fulltrúar ríkisstjórna Norðurlanda saman í þinghúsinu í Helsinki og undirrituðu sáttmála sem er ígildi stjórnarskrár norræns samstarfs, í daglegu tali nefndur Helsinkisáttmálinn. Undirritun hans varð til þess að treysta samstarf þjóðanna enn frekar og staðfesti þá nálægð sem ríkir milli Norðurlandabúa að því er varðar menningu, tungumál, samfélagsgerð og gildi. Íslendingar njóta á margan hátt uppskerunnar af samvinnu Norðurlanda án þess að vera meðvitaðir um hvernig til var sáð eða úr hvaða jarðvegi hún er sprottin. Norræna húsið hefur verið styrk stoð í menningarlífi Íslendinga síðan 1968 þar sem norræn menning situr í öndvegi. Norræna húsið er gott dæmi um ávinning Íslendinga af norrænu samstarfi. Framlag Íslands til Norrænu ráðherranefndarinnar, sem er aðeins 0,7% af heildarfjárlögum hennar, rennur óskipt til reksturs Norræna hússins. Starf sem snýr að ungu fólki, og við njótum góðs af, hefur einnig rutt sér rúms á norrænum vettvangi s.s. Nordjobb og Nordplus. Norræni spilunarlistinn er nýr sproti sem höfðar einnig vel til ungmenna.

Norrænt samstarf opnar dyr
Fyrir tilstuðlan norræns samstarfs geta Íslendingar sótt vinnu og nám hvar sem er á Norðurlöndum án hindrana. Samkomulag um sameiginlegan vinnumarkað sem undirritað var fyrir hartnær 60 árum gerir Norðurlandabúum kleift að stunda vinnu og setjast að í hvaða norrænu ríki sem þeir kjósa án þess að hafa til þess sérstök leyfi. Til að auðvelda íbúum að setjast að í öðrum norrænum löndum eru reknar öflugar norrænar upplýsingaskrifstofur sem bera nafnið Halló Norðurlönd. Dyr norrænna háskóla og menntastofnana hafa staðið íslenskum stúdentum opnar í fjölmörg ár vegna norræns samnings um æðri menntun. Ísland hefur alla tíð verið undanskilið því að greiða styrk til Norðurlandanna með hverjum námsmanni og er því eina landið sem greiðir ekkert með stúdentum sem sækja nám á hinum Norðurlöndum. Þetta hefur gert fjölda Íslendinga kleift að stunda nám við norrænar menntastofnanir og hefur skilað mikilli og ómetanlegri þekkingu inn í íslenskt samfélag. Í þessu liggur sérstaða samstarfsins að mörgu leyti, þar sem unnið er að málefnum sem standa íbúum Norðurlanda nærri og snerta þeirra daglega líf, á sviði menntunar, atvinnu og menningar.

Við eigum samleið
Engan bilbug er að finna á norrænu samstarfi, heldur þvert á móti enda sýna ótal kannanir að það nýtur mikils stuðnings og velvildar Norðurlandabúa. Nýleg staðfesting á þessu birtist í könnun Gallup í Danmörku þar sem stuðningur við norrænt sambandsríki mældist 47% ef slíkt stæði til boða en stuðningur við ESB mældist 28%. Norræn samfélög hafa breyst mikið frá því að Helsinkisáttmálinn var undirritaður. Eftir sem áður standa Norðurlöndin þó frammi fyrir sambærilegum áskorunum, hafa svipaðra hagsmuna að gæta og vilja koma líkum hlutum til leiðar. Norrænt samstarf stendur því traustum fótum.

Eygló Harðardóttir

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. mars 2014)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Hvers vegna áburðarverksmiðja?

Deila grein

19/03/2014

Hvers vegna áburðarverksmiðja?

Þorsteinn SæmundssonNýlega lagði sá sem hér ritar ásamt nokkrum öðrum þingmönnum fram þingsályktunartillögu um hagkvæmni þess að reisa og reka áburðarverksmiðju á Íslandi. Tillagan hefur vakið töluverða athygli og umræður sem ber að þakka fyrir. Í umræðunni hefur þó örlað á nokkrum misskilningi sem rétt er að fara örfáum orðum um. Fyrst ber þess að geta að ýmsir virðast halda að til standi að endurreisa Áburðarverksmiðju ríkisins sem hér starfaði á árunum 1954 til 1993. Svo er ekki. Verksmiðja sú sem hér var starfrækt áður var sett á fót af ríkinu til að fullnægja þörfum innanlandsmarkaðar á tímum gjaldeyrisskorts. Þingsályktunartillagan sem nú hefur verið lögð fram snýst um að gerð sé hagkvæmniathugun á því hvort fýsilegt sé að reisa hér á landi áburðarverksmiðju sem framleiða myndi áburð til útflutnings auk þess að anna innlendri eftirspurn.

Sívaxandi áburðarnotkun í heiminum
Það er margt sem mælir með að hagkvæmniathugunin sé unnin. Áburðarnotkun fer sívaxandi í heiminum. Munar þar mestu um aukin kaup Kínverja og Indverja sem berjast við að brauðfæða síaukinn fólksfjölda. Samfara aukinni notkun hefur verð á áburði hækkað umtalsvert. Komið hefur fram í skýrslu OECD að á næstu tuttugu árum þurfi að auka matvælaframleiðslu heimsins um 50% frá því sem nú er til að koma í veg fyrir skort. Ljóst er því að stóraukin eftirspurn verður eftir áburði. Ísland er að mörgu leyti í kjörstöðu til að framleiða áburð. Hér er næga hagkvæma orku að fá og ærið nóg er af vatni en þetta tvennt er undirstaða áburðarframleiðslu. Tiltölulega auðvelt er að framleiða hér köfnunarefni úr andrúmsloftinu. Auk þess er gert ráð fyrir í tillögunni að unninn verði brennisteinn til framleiðslunnar úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar sem nú er til óþurftar og heilsutjóns. Þannig eru til hér í landinu helstu hráefni sem þarf til áburðarframleiðslu.

Ný störf – auknar útflutningstekjur
Ef hagkvæmt reynist að reisa hér áburðarverksmiðju verða til 150-200 framtíðarstörf auk afleiddra starfa. Þar af er fjöldi starfa verkfræðinga, tæknifræðinga, efnafræðinga og annars háskólamenntaðs fólks. Auk þess mun fjöldi velmenntaðra iðnaðarmanna starfa í slíkri verksmiðju. Gert er ráð fyrir að 600 manns fái vinnu við byggingu verksmiðjunnar. Síðast en ekki sízt munu verða flutt út héðan um 700 þúsund tonn af áburði og önnur 700 þúsund tonn af Kalsíumklóríð auk þess sem verksmiðjan mun anna eftirspurn innanlands. Rekstur verksmiðjunnar fellur því vel að áherslu stjórnvalda um aukna matvælaframleiðslu. Við framleiðsluna fellur einnig til nokkuð magn ammoníaks til nota við rekstur kælikerfa en þess má geta að eftir að gamla áburðarverksmiðjan hætti rekstri hefur verð á ammoníaki hækkað nokkuð hérlendis.

Ekki töfralausn
Hugsanleg bygging og rekstur áburðarverksmiðju er ekki töfralausn í atvinnulífi landsmanna en hún getur hæglega orðið liður í almennri og fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu á Íslandi.

 

Þorsteinn Sæmundsson

(Greinin birtist í DV 19. mars 2014)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

„Norðurlandaráð sammála okkur Íslendingum“

Deila grein

19/03/2014

„Norðurlandaráð sammála okkur Íslendingum“

Sigurður Ingi JóhannssonNýgerður samningur Norðmanna, Færeyinga og Evrópusambandsins um veiðar á makríl er gagnrýndur af Umhverfis- og auðlindanefnd Norðurlandaráðs sökum þess að veiðarnar séu langt frá því að geta talist sjálfbærar þar sem að þær heimili langtum meiri veiðar en veiðiráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins ICES kveður á um. 
„„Ráðið gagnrýnir að í samningnum sé gert ráð fyrir veiðum sem séu langt frá því að geta talist sjálfbærar, þar sem þær heimili langt um meiri veiðar en veiðiráðgjöf“ – Norðurlandaráð sammála okkur Íslendingum – það er ánægjulegt,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson á facebook síðu sinni.
Sjúrdur Skaale talsmaður nefndarinnar segir það algert grundvallaratriði að fiskveiðiþjóðir haldi sig við veiðiráðgjöf. Það sé mikilvægt að strandríkin öll nái samkomulagi sín á milli um ákvörðun heildarafla og skiptingu hans. Í ljósi þess að of oft komi upp ágreiningur um þessi mál þá sé það jafnframt mikilvægt að ríkin sem hlut eigi að máli  komi sér saman um traustan lagalegan grundvöll til að byggja á ákvarðanir um veiðar á uppsjávarfiski og flökkustofnum.
Sjá frétt á síðu Norðurlandaráðs
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.