Categories
Greinar

Unnið að verkefnun í loftslagsmálum

Deila grein

22/10/2015

Unnið að verkefnun í loftslagsmálum

sigrunmagnusdottir-vefmyndÁ dögunum voru kynntar í ríkisstjórn tillögur að verkefnum og áherslum Íslands í loftslagsmálum, sem kynntar verða í tengslum við 21. aðildarríkjaþing Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í París í desember næstkomandi.

Stefnt er að því að ríki jarðar sameinist um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með hnattrænu samkomulagi í loftslagsmálum til 2030 á fundinum í París.

Stærstu tækifærin eru í orkumálum. Ísland hefur lengi verið í fararbroddi á alþjóðavísu hvað varðar loftslagsvæna orku. Við njótum ákveðins forskots frá náttúrunnar hendi að því leyti að hér kemur nær öll orka til rafmagns og hitunar frá endurnýjanlegum orkugjöfum.

Nú er lag að taka næsta skref og nýta endurnýjanlega orku á fleiri sviðum. Þar blasa tækifærin við og við þurfum að hugsa stórt. Forsætisráðherra hefur þegar lýst yfir þeirri skoðun sinni að Ísland eigi að stefna að því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis. Þar þurfa nýir orkugjafar að koma í staðinn.

Í Stjórnarráðinu er unnið að því að setja raunhæf markmið í loftslagsmálum til lengri tíma sem verða útfærð í nýrri sóknaráætlun og kynnt á fundinum í París í desember.

Sem dæmi um verkefni má nefna að nýta þarf rafmagn á bílaflotann í mun meiri mæli en nú er gert og styrkja þarf og stuðla að loftslagsvænni tækni í sjávarútvegi. Íslensk nýsköpunarfyrirtæki hafa þróað framsæknar lausnir og að þeim grænu sprotum þarf að hlúa. Einnig hafa fyrstu skrefin verið stigin til eflingar skógræktar og landgræðslu, sem græðir landið og bindur kolefni úr andrúmslofti um leið. Þá er matarsóun einnig stórt loftslagsvandamál því 30% matvæla heimsins enda í ruslinu.

Loftslagsvandinn er langtímaverkefni og verður ekki leystur í einu skrefi. En lausnir og tækniþróun sem grillir í gefa tilefni til ákveðinnar bjartsýni. Um leið þurfum við að gæta að því að fjölmargar ákvarðanir, bæði stjórnvalda og almennings, sem og daglegar athafnir hvers og eins hafa áhrif í loftslagsmálum. Þannig má segja að lykillinn að framtíðinni sé í okkar eigin höndum.

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. október 2015:

Categories
Fréttir

Háskólamenntun fólks á landsbyggðinni

Deila grein

22/10/2015

Háskólamenntun fólks á landsbyggðinni

fjola-hrund-ha-upplausn„Mig langar til að nýta tækifærið hér í dag undir liðnum störf þingsins til að ræða menntun og þá helst háskólamenntun fólks á landsbyggðinni. Ég er mikil áhugamanneskja um að allir fái að stunda nám óháð búsetu og efnahag. Það er gríðarlega mikilvægt að fólk geti stundað nám óháð búsetu og efnahag. Til að það sé hægt þurfa nokkrir hlutir að spila saman. Gott framboð náms sem kennt er í fjarnámi verður að vera til staðar, nettenging þarf að vera góð og skráningargjöld þurfa að lækka.
Eins og staðan er í dag bjóða opinberir háskólar upp á fjarnám. Þó vantar mikið upp á úrvalið. Skólarnir standa misframarlega hvað það varðar og bjóða upp á mismikið fjarnám í náminu. Það er mikilvægt að einstaklingar hafi kost á að stunda það nám sem þeir hafa áhuga á og geti stundað nám heiman frá sér. Til að það sé hægt er nauðsynlegt að ljósleiðaravæða Ísland. Það er úrelt hugmynd að fólk þurfi að flytja landshorna á milli til að sækja nám í ákveðnum deildum sem einungis er kennt í staðnámi. Við eigum að gera það sem í okkar valdi stendur til að hvetja fólk til að mennta sig. Við viljum ekki missa menntað fólk frá landsbyggðinni.
Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir lagði fram þingsályktunartillögu á síðasta löggjafarþingi sem fjallar um fjarnám á háskólastigi. Ég fagna þeirri þingsályktunartillögu og hvet hv. þingmann til að leggja tillöguna fram aftur.“
Fjóla Hrund Björnsdóttirstörf þingsins,  21. október 2015.

Categories
Fréttir

Um 40% landsmanna á aldrinum 20–29 ára enn í foreldrahúsum

Deila grein

22/10/2015

Um 40% landsmanna á aldrinum 20–29 ára enn í foreldrahúsum

Karl_SRGB„Samkvæmt tölum sem Hagstofan birti fyrir skömmu búa fjórir af hverjum tíu landsmönnum á aldrinum 20–29 ára enn í foreldrahúsum, um 40%. Til samanburðar er hlutfallið um 10% í Danmörku. Ástæður þess að svo margir búa í foreldrahúsum fram undir þrítugt eru eflaust margvíslegar. Margir á þessum aldri eru í háskólanámi og það getur verið erfitt að fjármagna nám samhliða því að borga leigu, hvað þá að kaupa húsnæði. Það vita allir.
Ég minnist hins vegar á þetta mál vegna þess að á fjölmennum og áhugaverðum þjóðfundi í morgun sem þrír ráðherrar blésu til var fjallað um möguleika á nýjum og ekki síst ódýrari leiðum á húsnæðismarkaði. Þetta er gott framtak.
Þessa dagana er m.a. talað um Ikea-íbúðir, stáleiningahús frá Kína o.s.frv. Auðvitað þarf að skoða alla kosti og fara síðan fýsilegustu leiðina. Tími til athafna er kominn. Við getum ekki setið lengur hjá. Félagsmálaráðherra hefur lagt fram ákveðnar hugmyndir sem eru skref í rétta átt. Til að ná utan um húsnæðismál ungs fólks og finna viðunandi lausnir þurfa hins vegar fjölmargir að koma að borðinu og það má enginn vera stikkfrí. Í morgun komu umhverfisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra líka að þessu stóra verkefni.
Staðreyndin er sú að heil kynslóð ungs fólks hefur ekki efni á þaki yfir höfuðið nema með aðstoð foreldra. Þetta unga fólk getur hvorki keypt né leigt. Það er einföld staðreynd. Þetta vandamál er ekki nýtt, það hefur verið viðvarandi í langan tíma. Við getum breytt reglugerðum, barið niður lóðaverð og líka byggingarkostnað en fjármagnskostnaðurinn er öllu venjulegu fólki ofviða. Ódýrt fjármagn er ekki til á Íslandi. Verðtryggingin er allt að drepa í þessu landi og hér mun ekkert breytast fyrr en hún fer.“
Karl Garðarssonstörf þingsins,  21. október 2015.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun kjördæmisþings framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi

Deila grein

21/10/2015

Stjórnmálaályktun kjördæmisþings framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi

logo-framsokn-gluggiKjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi haldið á Akureyri 17. október 2015 fagnar þeim árangri sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur náð í ríkisrekstri. Undir forystu Framsóknarflokksins hefur hagsæld aukist og lífsgæði batnað. Liður í því er leiðrétting húsnæðislána sem ber að fagna.
Þingið telur að afnema beri verðtryggingu af neytendalánum og þak sett á vexti.
Þingið styður áform ríkisstjórnarinnar um að fjölgun hagkvæmra og ódýrra íbúða á leigumarkaði. Sérstaklega verður að huga að úrræðum fyrir þá sem hyggja á kaup á sinni fyrstu fasteign.
Reykjavíkurflugvöllur skal vera í Vatnsmýrinni í núverandi mynd. Tryggja verður fjármuni í viðhald og rekstur innanlandsflugvalla. Þingið lýsir ánægju með vinnu við að opna fleiri fluggáttir inn í landið. Þannig skapast grundvöllur fyrir vöxt í ferðaþjónustu með dreifingu ferðamanna um landið.
Góðar samgöngur eru grunnur að samfélagsþróun. Aukið viðhald og endurbætur malarvega í kjördæminu eru sérlega brýn ásamt áframhaldandi uppbyggingu vegakerfisins. Þær stórframkvæmdir sem nú standa yfir við Norðfjarðar- og Vaðlaheiðargöng eru fagnaðarefni og hvatt er til þess að vinnu við Norðfjarðargöng verði flýtt. Nauðsynlegt er að halda áfram undirbúningsrannsóknum vegna Fjarðaheiðaganga.
Tryggja þarf fjárveitingar í áframhaldandi þróun almenningssamgangna á landi. Mikilvægt er að litið verði á innanlandsflug sem einn lið í almenningssamgöngum. Efla þarf Hafnabótasjóð vegna nýframkvæmda og viðhalds.
Þingið leggur áherslu á að þeirri vinnu sem unnin hefur verið á vegum ríkisstjórnarinnar varðandi ljósleiðaravæðingu dreifbýlisins verði fylgt eftir með framkvæmdaáætlun og fjárveitingum.
Þingið hvetur til aukinna framlaga til heilsugæslu og sjúkrahúsa. Vinna þarf markvisst að áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma og þróun öldrunarþjónustu sem tekur mið af aðstæðum á hverjum stað.
Þingið leggur áherslu á sjálfstæði Háskólans á Akureyri og að hann haldi faglegum og fjárhagslegum styrk til að þjóna hlutverki sínu, m.a. á sviði málefna Norðurslóða.
Þingið leggur áherslu á mikilvægi framhaldsskóla fyrir þróun samfélagsins. Jafnframt er bent á nauðsyn eflingar starfsnáms vegna fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar s.s. í ferðaþjónustu og iðnaði. Þingið lýsir yfir miklum áhyggjum af fjársvelti til framhaldsskóla í kjördæminu og leggur áherslu á að þeir fái tækifæri til að þróast og móta samstarf í takt við nærsamfélagið. Þingið undirstrikar hlutverk LÍN til að tryggja jafna möguleika til náms óháð efnahag og búsetu.
Þingið fagnar jöfnun raforkusverðs til húshitunar enda er það liður í jafnrétti til búsetu.
Þingið bendir á mikilvægi þess að flutningur á raforku sé tryggður til atvinnuuppbyggingar.
Þingið lýsir yfir ánægju með tillögu ríkisstjórnarinnar um aukna fjárveitingu til móttöku flóttafólks og hvetur til þess að áfram verði unnið að því að auka skilvirkni í málefnum hælisleitenda. Þá er hvatt til þess að ríki og sveitarfélög vinni saman við móttöku flóttafólks.
Þingið hvetur til þess að unnið verði í samræmi við löggæsluáætlun á hverjum tíma sem felur m.a. í sér aukið öryggi íbúa.
Þingið fagnar fyrirætlunum Íslands um að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda um 40% í samvinnu við Noreg og Evrópusambandið og hvetur ríkisstjórnina til að setja sér skýr markmið varðandi innleiðingu endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum og sjálfbærrar landnýtingar og verndar. Skipulagi þarf jafnframt að fylgja fjármagn til fyrirbyggjandi aðgerða og uppbyggingu auðlindanna.
Hækka ber lífeyrisgreiðslur til aldraðra og öryrkja til samræmis við lágmarkslaun. Lyfjakostnaður verði lækkaður. Styðja þarf betur einstaklinga sem lenda í langtímaatvinnuleysi og fjölga úrræðum.
Þingið beinir því til ríkisstjórnarinnar að nýgerður samningur um innflutning á búvörum skerði ekki innlenda framleiðslu, hreinleika hans og heilbrigði.
Endurskoða verður tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga þannig að fjármagn fylgi verkefnum.

Categories
Fréttir

Verðtryggingarmálin – Næstu skref verði tímasett á allra næstu dögum

Deila grein

21/10/2015

Verðtryggingarmálin – Næstu skref verði tímasett á allra næstu dögum

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja ræðu mína á að lesa stuttan texta upp úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins, en þar segir, með leyfi forseta:
„Unnið verður að því að dómsmál og önnur ágreiningsmál, sem varða skuldir einstaklinga og fyrirtækja, fái eins hraða meðferð og mögulegt er. Óvissu um stöðu lántakenda gagnvart lánastofnunum verður að linna.“
Flýtimeðferð dómsmála
Á sumarþingi 2013 var samþykkt þingsályktun í tíu liðum sem varðaði skuldavanda íslenskra heimila sem til var kominn vegna efnahagshrunsins haustið 2008. Fimmti liður tillögunnar felur það í sér að lögfest verði flýtimeðferð dómsmála sem tengja skuldavanda heimilanna og varða ágreining um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu. Frumvarp þessa efnis var samþykkt á sumarþingi 2013.
Það sem ég vil velta upp með þessari umræðu er hvað veldur því að t.d. Hagsmunasamtök heimilanna hafa núna í rúmlega þrjú ár þurft að standa í málaferlum vegna lögmæti verðtryggingar. Hvað veldur því að málið fær ekki flýtimeðferð? Þetta stóra mál hefur tekið allt of langan tíma.
Afnám verðtryggingar
Þá kem ég að næsta efni ræðu minnar sem er afnám verðtryggingar. Sjötti liður þeirrar tillögu sem samþykkt var á sumarþingi 2013 felur í sér að settur verði á fót sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum. Fram kemur að tillögur og tímasett áætlun liggi fyrir í árslok 2013. Ríkisstjórnin skipaði sérfræðingahóp sem skilaði af sér tillögum og um var að ræða meirihlutaálit og sérálit. Deilt var um hvaða leið væri best, en allir voru sammála um markmiðið, þ.e. afnám verðtryggingar.
Nú er það svo að verðtryggingarmálin eru á borði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Nú verðum við að fá að vita hver næstu skref eiga að vera og mikilvægt er að þau verði tímasett á allra næstu dögum.“
Elsa Lára Arnardóttir — í störfum þingsins  20. október 2015.

Categories
Fréttir

„Ég beini því til biskups, þeirri bæn og ósk“

Deila grein

21/10/2015

„Ég beini því til biskups, þeirri bæn og ósk“

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Ég hef verið í Þjóðkirkjunni mestallt mitt líf og tel að kirkjan sé einn af hornsteinum þjóðfélagsins sem við byggjum. Þess vegna hefur það valdið mér mikilli hryggð að heyra undanfarnar vikur að það sé hópur fólks sem kirkjunnar þjónar taka ekki á móti jafn opnum örmum og öðrum og beita fyrir sig svokölluðu samviskufrelsi. Þarna er ég að ræða um samkynhneigð pör sem nokkrir prestar Þjóðkirkjunnar hafa tekið sér leyfi til þess að neita að gefa saman í heilagt hjónaband.
Kirkjunnar þjónar eru opinberir embættismenn
Kirkjunnar þjónar eru ekki eingöngu í þjónustu kirkjunnar, þeir eru opinberir embættismenn. Það er gagnstætt bæði stjórnarskrá og stjórnsýslulögum að mismuna fólki í stjórnvaldsathöfnum. Ég tel ástæðu til að geta þess hér að þessu voru gerð ágæt skil um daginn í grein eftir ágætan varaþingmann Vinstri grænna, Andrés Inga Jónsson, þar sem hann fór yfir þetta mál.
Finni sér einfaldlega annan starfsvettvang
Nú virðist það vera þannig, samkvæmt einhverjum skoðanakönnunum, að hér sé um örfáa presta að ræða sem treysta sér ekki til þess að gefa saman samkynhneigð pör. Ég beini því til biskups, þeirri bæn og ósk, að ef það er svo að þessir ágætu prestar treysta sér ekki til þess að uppfylla þessi skilyrði þá finni þeir sér einfaldlega annan starfsvettvang. Ég held að það væri þeim líka hollt að lesa 40. vers úr 25. kafla Matteusarguðspjalls, með leyfi forseta:
„Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.““
Þorsteinn Sæmundsson – í störfum þingsins 20. október 2015.

Categories
Fréttir

Almenningssamgöngur – verðum að hafa heildarsýn

Deila grein

21/10/2015

Almenningssamgöngur – verðum að hafa heildarsýn

líneik„Virðulegi forseti. Samgöngur eru meðal annars heilbrigðismál, menntamál, velferðarmál, atvinnumál, umhverfismál, menningarmál og svona gætum við haldið áfram. Af sömu ástæðu eru almenningssamgöngur mikilvægar, liður í að tryggja félagslegt réttlæti um land allt og liður í þróun samfélaga, svo sem við uppbyggingu ferðaþjónustu. En hver er stefnan í þessum málum?
Á árinu 2012 hófst þróunarverkefni í almenningssamgöngum. Þingið samdi við landshlutasamtök sveitarfélaga um þróun þjónustu með tilteknum fjárstuðningi og að þau tækju um leið við tilteknum sérleyfum frá Vegagerðinni. Frá því að samningar voru gerðir hefur því miður orðið forsendubrestur, því að endurgreiðsla olíugjalds vegna almenningssamgangna hefur verið felld niður í skrefum og sérleyfi, einkaréttur til aksturs á tilteknum leiðum hefur ekki haldið fyrir dómstólum. Þetta hefur leitt til þess að landshlutasamtök sveitarfélaga hafa ýmist safnað skuldum vegna verkefnisins eða þróunin hefur stöðvast án þess að komið sé heildstætt kerfi. Þegar litið er til baka virðist ekki hafa verið ljóst í upphafi hvaða viðmið voru höfð til hliðsjónar hjá ríkinu við skiptingu fjármagns eða að skilgreind hafi verið lágmarkskrafa um þjónustu.
Skynsamlegt er að fela heimamönnum á hverju svæði umsjón með almenningssamgöngum á landi en við verðum samt að hafa heildarsýn á verkið. Á það til dæmis að vera forgangsmál að tengja saman samgöngur á landi, í lofti og á sjó, eða viljum við setja einhverjar lágmarkskröfur svo sem um að hægt sé að komast hringinn um landið með almenningssamgöngum sem ekki er hægt í dag? Er hægt að leita ódýrari lausna fyrir minni staði með því að samþætta við aðra þjónustu? Viljum við setja okkur einhver umhverfismarkmið? Til að þróa verkefnið áfram verðum við að minnsta kosti að setja okkur markmið, tryggja að lagaumhverfið styðji þjónustuna og setja ramma um útdeilingu fjármuna til verkefnisins í samræmi við markmiðin.“
Líneik Anna Sævarsdóttir – í störfum þingsins 20. október 2015.

Categories
Fréttir

Verðtryggingin – „Tíminn er ekki runninn frá okkur“

Deila grein

21/10/2015

Verðtryggingin – „Tíminn er ekki runninn frá okkur“

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Þegar ég fór að undirbúa mig í gær til að flytja þennan ræðustúf hér í dag fór ég yfir nokkrar ræður sem ég flutti í kosningabaráttunni 2013. Ég talaði um verðtrygginguna á hverjum einasta fundi og hversu mikilvægt það væri fyrir heimili landsins að hún yrði afnumin af neytendalánum. Það var sannfæring mín þá og það er sannfæring mín í dag. Framsóknarflokkurinn hélt meira að segja nokkra fundi sem fjölluðu sérstaklega um verðtrygginguna og afnám hennar. Þeir fundir voru vel sóttir og Framsóknarflokkurinn vann glæsilegan kosningasigur. Áherslur okkar í baráttunni voru fyrst og fremst leiðrétting stökkbreyttra húsnæðislána og afnám verðtryggingar á neytendalánum. Ég get því ekki annað en túlkað sigur okkar í kosningabaráttunni sem stuðning fjölmargra Íslendinga við þessi kosningaloforð okkar. Í ályktunum undanfarinna flokksþinga Framsóknarflokksins segir að framsóknarmenn vilji að verðtrygging á neytendalánum verði afnumin. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna segir síðan, með leyfi forseta:
„Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og endurskipulagningu húsnæðislánamarkaðarins verður skipuð á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og mun skila af sér fyrir næstu áramót.“
Þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar var fylgt eftir með þingsályktunartillögu í júní 2013. Hópurinn var stofnaður og skilaði minni- og meirihlutaáliti. Menn deildu um hvaða leið væri best að fara en voru sammála um markmiðið, þ.e. að afnema skuli verðtrygginguna.
Virðulegi forseti. Áætlun ríkisstjórnarinnar hefur staðist hingað til. Tíminn er ekki runninn frá okkur en hann mun gera það ef við höldum ekki vel á spöðunum næstu vikur og mánuði. Nú liggur verkefnið á borði hæstv. fjármálaráðherra, ég treysti því að hann vinni málið vel og hlakka til að sjá frumvarpið þegar það birtist okkur.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir — í störfum þingsins  20. október 2015.

Categories
Fréttir

„Mögulegt framtíðarsöluvirði bankans rennur til ríkisins en ekki til kröfuhafa“

Deila grein

21/10/2015

„Mögulegt framtíðarsöluvirði bankans rennur til ríkisins en ekki til kröfuhafa“

Karl_SRGB„Virðulegur forseti. Nú hafa borist þær fréttir að kröfuhafar Glitnis hyggist bjóða ríkinu Íslandsbanka til að uppfylla stöðugleikaskilyrði. Þessari breytingu á afstöðu kröfuhafa ber að fagna. Þessi niðurstaða að ríkið taki Íslandsbanka yfir virðist betri en það sem áður var boðið. Fyrri tillaga þeirra fól í sér möguleika á að erlendir aðilar mundu eignast bankann. Þá hefði stór hluti af söluvirði bankans og arðgreiðslur úr honum væntanlega farið úr landinu og skapað meiri þrýsting á greiðslujöfnuð til langs tíma. Ef þetta gengur eftir þýðir það væntanlega að greiðslujafnaðaráhrif af mögulegum arðgreiðslum næstu árin hverfa og þessar mögulegu arðgreiðslur falla þá í staðinn til ríkissjóðs á þeim tíma sem ríkið á bankann. Það þýðir einnig að mögulegt framtíðarsöluvirði bankans rennur til ríkisins en ekki til kröfuhafa. Það er ávinningur af hvoru tveggja fyrir ríkið. Að sjálfsögðu á eftir að fara betur yfir þessa tillögu, en við fyrstu sýn virðist hér vera betri kostur á borðinu en kom fram í sumar.
Ef þetta verður raunin er mikilvægt að faglega verði staðið að öllu sem tengist rekstri og framtíðarsöluferli bankans. Stjórnvöld hafa hvergi hvikað frá þeim markmiðum sem kynnt voru í vor þegar haftaafnámsáætlunin var gerð opinber. Tilgangur þessarar áætlunar er að losa um höft án þess að stefna efnahagslegum stöðugleika í hættu, sem sé að taka á greiðslujafnaðarvanda þjóðarbúsins sem til kominn er vegna slitameðferðar þrotabúanna. Þannig er það ekki markmið í sjálfu sér að skapa tekjur fyrir ríkissjóð eða refsa slitabúunum fyrir þátt sinn í bankahruninu.“
Karl Garðarsson — í störfum þingsins  20. október 2015.

Categories
Greinar

Auðveldum kaup á fasteignum

Deila grein

21/10/2015

Auðveldum kaup á fasteignum

VilllumlíneikÍ tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí síðastliðnum sendi ríkisstjórnin frá sér yfirlýsingu um aðgerðir í húsnæðismálum. Þar er til að mynda litið til þess að auðvelda fólki kaup á fasteignum, þá sérstaklega ungu fólki sem vill festa kaup á sinni fyrstu eign.

Séreignarsparnaðarleiðin fest í sessi
Eins og margir muna eflaust fór ríkisstjórnin í skuldaleiðréttingaraðgerðir fyrir íslensk heimili með verðtryggðar húsnæðisskuldir fyrr á þessu kjörtímabili. Aðgerðirnar snerust annars vegar um beina niðurfærslu verðtryggðra lána og hins vegar heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán eða til húsnæðiskaupa. Nú er heimildin til skattfrjálsrar ráðstöfunar tímabundin, til fimm ára þegar um er að ræða húsnæðissparnað. Ein af þeim aðgerðum sem samþykkt var að ráðast í er að skoða möguleika þess að húsnæðissparnaðurinn verði gerður að varanlegu sparnaðarformi. Þannig verði komið til móts við þá sem kaupa sína fyrstu íbúð, með hvata til sparnaðar og skattaafslætti. Þetta er oft ungt barnafólk og einmitt sá hópur sem að flestra mati er mikilvægt að hlúa að.

Hagkvæmari byggingar
Þá er verið að leita leiða til að lækka kostnað vegna byggingar íbúðarhúsnæðis. Lækki byggingarkostnaður eru líkur á að framboð á ódýru húsnæði aukist. Sveitarfélög gætu lagt sitt af mörkum með lækkun lóða- og gatnagerðargjalda til að lækka byggingarkostnað enn frekar.

Umhverfisráðherra skipaði starfshóp þann 30. júní sl. í þeim tilgangi að endurskoða byggingarreglugerð og löggjöf á sviði byggingar- og skipulagsmála með ofangreint að markmiði. Gert er ráð fyrir að hann skili tillögum sínum til ráðherra eigi síðar en 1. nóvember næstkomandi.

Litið til fleiri þátta en greiðslumats
Einnig er unnið að því að um fasteignalán til neytenda verði sett sérlög og lánveitendum veitt svigrúm til að horfa til fleiri þátta en niðurstöðu greiðslumats við ákvörðun um lánveitingu. Í dag er alltof algengt að fólk komist ekki í gegnum greiðslumat þrátt fyrir að greiða leigu sem er hærri en afborganir af húsnæðisláni og vera í raun fullfært um að standa undir greiðslum af húsnæðisláni.

Þær breytingar sem boðaðar hafa verið eru til þess fallnar að greiða leið þeirra sem vilja skapa sér sitt eigið heimili. Við styðjum því þessar aðgerðir heilshugar.

Willum Þór Þórsson og Líneik Anna Sævarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. október 2015.