Categories
Fréttir

Gamaldags aðferðir í Seðlabankanum

Deila grein

07/09/2016

Gamaldags aðferðir í Seðlabankanum

160218-Þorsteinn Sæmundsson„Hæstv. forseti. Mig langar að vekja athygli á grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær eftir dr. Eric Stubbs. Hún heitir, með leyfi forseta: „Ísland myndi hagnast á öðruvísi vaxtastefnu“. Sá ágæti maður er fjármálaráðgjafi hjá Royal Bank of Canada í New York. Hann hefur oft verið hér á undanförnum árum og fylgst með íslensku efnahagslífi. Hann segir að það sé út af fyrir sig gamaldags aðferð að reyna að hafa áhrif á neyslu með vöxtum og mælir í staðinn með því að reynt sé að halda ákveðnu gengisstigi með vaxtaákvörðunum. Hann nefnir m.a. hvað Ísland sé útsett fyrir flæði fjármagns og alþjóðaviðskiptum. Það eru hlutir sem ég er búinn að margvara við á undanförnum missirum, þ.e. sú hávaxtastefna sem Seðlabanki Íslands rekur hefur orðið til þess að hingað inn hefur flætt kvikt fjármagn sem getur þegar minnst varir leitað út aftur, og þá á tímum sem koma eigendum þessa fjár vel en okkur mögulega illa.
Þessi ágæti maður bendir á að þau líkön sem nú eru notuð af stjórnendum Seðlabankans séu út af fyrir sig gamaldags, þau hafi verið notuð í 25 ár og að kominn sé tími til að fara nýjar leiðir. Ég held að það væri vel þess virði fyrir stjórnendur Seðlabanka Íslands að gaumgæfa orð þessa ágæta manns ásamt gagnrýni fleiri málsmetandi hagfræðinga sem komið hafa fram á undanförnum vikum og mánuðum og haldið fram nákvæmlega sama hlut, þ.e. að stýrivextir á Íslandi séu einfaldlega alltof háir.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 6. september 2016.

Categories
Fréttir

Hvar eru þessar lækkanir?

Deila grein

07/09/2016

Hvar eru þessar lækkanir?

160218-Karl Garðarsson-02„Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til að auglýsa eftir verðlækkunum á innfluttum vörum vegna styrkingar krónunnar og lækkunar á sköttum og gjöldum sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir. Hvar eru þessar lækkanir? Ég hef ekki séð þær nema að litlu leyti. Þannig bendir Alþýðusamband Íslands á að afnám vörugjalda á byggingarvörur, lægri virðisaukaskattur og styrking krónunnar, hafi ekki skilað sér til neytenda. Þvert á móti hefur vísitala byggingarvara hækkað þrátt fyrir að ætla mætti að vörurnar hefðu lækkað umtalsvert. Það er ekki langt síðan 1 evra var skráð á um 145 krónur. Í morgun var hún skráð á 129 krónur. Það er ekki langt síðan dollarinn stóð í rúmum 130 krónum. Í morgun var hann í um 116 krónum. Pundið hefur síðan hrunið í kjölfar Brexit. En hvar eru verðlækkanir til neytenda?
Staðreyndin er sú að skatta- og gjaldahækkanir skila sér yfirleitt fljótt og vel út í verðlagið með hækkun vöruverðs, skattalækkanir og styrking krónunnar seint og illa. Aðgerðir sem ekki síst eru ætlaðar til að styðja við heimilin í landinu gagnast fyrst og fremst þeim sem stunda innflutning og smásölu. Þannig sýndu kannanir að verðlækkanir á heimilistækjum vegna afnáms vörugjalda og lækkunar virðisaukaskatts á sínum tíma voru mun minni en gera mátti ráð fyrir. Skilaði afnám tolla á fatnað og skóm sér til neytenda? Nei, ekki nema að litlu leyti. Oft lækkar vöruverð tímabundið í kjölfar skattalækkana en leitar fljótt í sama horf aftur. Þetta er ekki bara spurning um viðhorf þeirra sem reka fyrirtæki, þetta er líka dæmi um lítinn og óþroskaðan markað þar sem samkeppni er lítil. Í guðs bænum höfum það hugfast að þó að excel-skjalið segi okkur að verð á vöru og þjónustu eigi að lækka er raunveruleikinn oftar en ekki allt annar.“
Karl Garðarsson í störfum þingsins 6. september 2016.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi

Deila grein

06/09/2016

Stjórnmálaályktun kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi

logo-framsokn-gluggi

Stjórnmálaályktun
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi
haldið að Bifröst Borgarfirði 3. og 4. september 2016

Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi fagnar góðum árangri í mörgum stórum málum undir forystu Framsóknarflokksins. Má þar nefna aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna, viðsnúning á rekstri ríkissjóðs, hvernig tekið var á kröfuhöfum hinna föllnu banka og aukin framlög til rannsókna og nýsköpunar.
Þingið fagnar því að nýverið hækkaði eitt hinna alþjóðlegu matsfyrirtækja lánshæfismat Íslands um tvo flokka sem er mikil viðurkenning á þeim árangri sem náðst hefur.
Sá árangur sem náðst hefur á kjörtímabilinu byggir undir þau fjölmörgu verkefni sem bíða úrlausnar á næsta kjörtímabili.
Betur má ef duga skal og áréttar þingið að nauðsynlegt er að framfylgja stefnu Framsóknarflokksins í byggðamálum. Þar er lögð áhersla á jafnrétti til búsetu og að íbúar landsins fái notið þeirrar grunnþjónustu sem gera á kröfu um í þróuðu nútímasamfélagi. Þingið fagnar hugmyndum um að nýta skattkerfið til jöfnunar búsetu. Þá er nauðsynlegt að samræming í ákvarðanatöku sé til staðar svo markmið byggðastefnu nái fram að ganga.
Þingið mótmælir harðlega samþjöppun og skerðingu á heilbrigðisþjónustu sem orðin er og hvetur til þess að eitt helsta kosningamál Framsóknarflokksins verði aukin heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni. Þá fagnar þingið hugmyndum um mótun heilbrigðisstefnu fyrir Ísland þar sem þarfir landsbyggðarinnar verði metnar með íbúum og útfrá landfræðilegum aðstæðum.
Kjördæmisþingið vill leggja áherslu á löggæslumál á landsbyggðinni. Skortur á fjármagni og sameining lögregluumdæma má aldrei verða til þess að íbúar á landsbyggðinni hljóti af skerta þjónustu í formi lengri útkallstíma eða manneklu.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi leggur áherslu á að frumvarp um almannatryggingar nái fram að ganga. Jafnframt verða bætur almannatrygginga að hækka í samræmi við laun í landinu. Við afgreiðslu frumvarpsins þarf að leggja fram áætlun er sýnir hvernig bætur munu fylgja launaþróun.
Þingið krefst þess að stóraukið fé verði sett í samgöngur. Vegir eru hluti af innviðum landsins og óásættanlegt að ekki fáist fé til bráðnauðsynlegs viðhalds og nýframkæmda. Í kjördæminu eru þúsundir kílómetra án slitlags um leið og umferð hefur stóraukist um þessa vegi m.a. vegna aukinnar ferðamennsku.
Tryggja þarf áætlunarflug til Bíldudals, Gjögurs og Sauðárkróks með framlagi úr ríkissjóði. Jafnframt er mikilvægt að áætlunarflug til Ísafjarðar verði raunhæfur kostur til framtíðar. Áætlunarflug frá höfuðborginni til allra landshluta utan áhrifasvæðis hennar skiptir sköpum fyrir framtíðaruppbyggingu þeirra. Þá minnir þingið á mikilvægi þess að ríkissjóður komi betur til móts við sveitarfélög með framlögum til hafnarmannvirkja.
Kjördæmisþingið gagnrýnir harðlega lokun neyðarbrautarinnar. Lending á henni getur skipt sköpum varðandi sjúkraflug utan af landi, oft í erfiðum aðstæðum. Þingið krefst þess að Alþingi beiti sér fyrir framtíð neyðarbrautar og tryggi þar með áframhaldandi sjúkraflug um Reykjavíkurflugvöll.
Kjördæmisþingið fagnar því að sk. Norðvesturnefnd skilaði tillögum til atvinnuuppbyggingar og byggðarþróunar og hvetur ráðamenn til að fylgja eftir tillögum nefndarinnar og nýta þá fjármuni sem veittir voru í verkefnin. Þá bindur þingið miklar vonir við að nefnd um atvinnuuppbyggingu og byggðarþróun á Vestfjörðum skili tillögum fljótlega.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi leggur áherslu á að tryggt verði aðgengi nemenda að framhaldsskólum í kjördæminu og fjármunir til að standa undir fjölda nemendaígilda til að mæta þeirri eftirspurn. Mjög mikilvægt er að styrkja stoðir menntastofnana og dreifnáms í Norðvesturkjördæmi. Þá þarf að tryggja fjárhagsstöðu, rekstrargrundvöll og framtíð Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólans á Hólum,   Háskólans á Bifröst og Háskólaseturs Vestfjarða auk þess að styðja öflugt starf símenntunarmiðstöðvanna. Grundvallaratriði í byggðaþróun og grunnþjónustu íbúa er aðgengi þeirra að menntastofnunum.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi fagnar því skrefi sem tekið var í ljósleiðaravæðingu landsins en leggur um leið þunga áherslu á að auknir fjármunir verði settir í verkefnið og því hraðað.
Þingið leggur áherslu á að ríkisfyrirtækin Landsnet, Orkubú Vestfjarða og Rarik sem eiga og reka allar meginflutningslínur og dreifikerfi rafmagns á Íslandi tryggi fullnægjandi flutning og afhendingaröryggi raforku um landið. Á þetta ekki hvað síst við um hina ýmsu þéttbýlisstaði á landsbyggðinni sem búa við ófullnægjandi aðstæður hvað þetta varðar sem hamlar rekstri og vaxtarmöguleikum atvinnulífs. Einnig að lokið verði við uppbyggingu á þriggja fasa rafmagni til að tryggja nýsköpun, atvinnu- og byggðarþróun í dreifðari byggðum kjördæmisins. Þingið hafnar alfarið áformum Landsvirkjunar um raforkusölu um sæstreng til annarra landa og telur hugmyndina fjarstæðukennda í ljósi þess að Landsvirkjun getur ekki útvegað nauðsynlega orku til atvinnuuppbyggingar í dag. Þingið beinir því til þingmanna flokksins að leggjast alfarið gegn hugmyndum Landsvirkjunar um sæstreng.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi hvetur til áframhaldandi uppbyggingar ferðaþjónustu í landinu. Finna verður leið til að afla aukinna tekna af ferðamönnum ekki síst til að standa undir uppbyggingu ferðamannastaða um land allt.
Þingið telur rétt að endurskoða skiptingu tekna af ferðamönnum milli ríkis og sveitafélaga þannig að sveitafélög fái tekjur til að standa að uppbyggingu ferðaþjónustunnar.
Landbúnaður er og verður hornsteinn byggðar um allt land og það menningarlandslag ber þjóðinni skylda til að vernda. Þá hvetur þingið ríkisvaldið til að efla eftirlit með innfluttum matvælum og gera reglur um upprunamerkingar skýrari en nú er. Óásættanlegt er, fyrir íslenska neytendur, að við flytjum inn búvörur frá löndum þar sem gerðar eru minni kröfur um framleiðsluaðstæður, lyfjanotkun og aðra þætti er lúta að heilbrigði afurða, en gerðar eru hér á landi.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi fagnar þeirri tæknibyltingu sem er að verða í veiðitækni, aflameðferð og fullvinnslu afurða um þessar mundir. Mikilvægt er að staðinn verði vörður um samkeppnis- og rekstrarhæfi íslensks sjávarútvegs á sama tíma og arður sem fæst úr greininni og sameiginlegum auðlindum landsmanna verði nýttur til uppbyggingar innviða og eflingar byggðarlaga vítt og breytt um landið. Þingið leggur jafnframt áherslu á að auðlindir landsins skulu vera í þjóðareign og gjald eigi að innheimta fyrir nýtingu auðlinda. Þingið minnir á að engin ein löggjöf hefur haft viðlíka jákvæð áhrif á umhverfið á Íslandi og lög um stjórn fiskveiða sem sett voru undir forystu Framsóknarflokksins.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi íterkar að stórauka þarf rannsóknir á sviði fiskeldis en alþjóðlegar spár segja að fiskeldi muni sjá fyrir tveimur þriðju af fiskneyslu í heiminum árið 2030. Mikilvægt er að Íslendingar taki þátt í þeirri þróun og leitist við að hámarka afrakstur og arð úr greininni á sjálfbæran hátt. Tryggja verður að opinbert rannsóknarfé renni beint til fiskeldis- og umhverfis rannsókna. Þá þarf leyfiskerfi vegna eldismála að vera gegnsætt og skýrt og gjaldtaka fyrir leyfi svipað og gerist t.d. í Noregi.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi fagnar breytingum á húsnæðislögum en leggur jafnframt áherslu á að áfram verði haldið í þá átt að tryggja að allir hafi val um búsetuform, hvort sem það er eign, leiga eða húsnæðissamvinnufélög.
Kjördæmisþingið fagnar því að frumvarp um húsnæðisbætur hafi verið samþykkt, en nú eiga nemendur í framhaldsskólum rétt á húsnæðisbótum vegna dvalar á heimavist eða nemendagörðum. Auk þess fagnar þingið því að frumvarp um almennar íbúðir hafi verið samþykkt en samkvæmt því geta ríki og sveitafélög farið í uppbyggingu á heimavistum eða nemendagörðum.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi harmar að í nýjum lögum um dómstóla er reiknað með að dómstóllinn sé eingöngu í Reykjavík. Þingið telur að dómstóllinn ætti einnig að vera utan Reykjavíkur.
Þingið telur að frumvörp um fyrstu eign og breytingar á verðtryggðum lánum lítið skref í jákvæða átt. Mikilvægt er að tekið verði af alvöru á áhrifum verðtryggingar á kjör heimila og krefst þingið þess að þingmenn flokksins geri breytingar á fyrirliggjandi frumvarpi í þá veru. Þá minnir þingið á að afnám verðtrygginar af nýjum neytendalánum var eitt helsta kosningamál flokksins 2013.

Categories
Fréttir

Sigrún Magnúsdóttir ávarpar aðalfund Skógræktarfélags Íslands

Deila grein

06/09/2016

Sigrún Magnúsdóttir ávarpar aðalfund Skógræktarfélags Íslands

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpaði á dögunum aðalfund Skógræktarfélags Íslands sem haldinn var á Djúpavogi. Þá heimsótti hún fyrirtækið Skógarorku sem rekur viðarkyndistöð á Hallormsstað.
SM2Fjölmenni sótti aðalfund Skógræktarfélags Íslands um helgina sem haldinn var í Djúpavogskirkju og á hótel Framtíð. Í ávarpi sínu kynnti ráðherra m.a. nýtt verkefni varðandi aukna skógrækt á skóglausum svæðum, s.s. í Vestur-Húnavatnssýslu, sem sé fyrst og fremst sauðfjárræktarhérað. „Þetta tvennt getur vel farið saman, með góðu skipulagi. Skógar geta veitt búfé skjól og með tíð og tíma orðið gjöfult beitiland með margfalt meiri framleiðni en  núverandi gróðurfar býr yfir,“ sagði ráðherra og bætti við að hún hefði falið Skógræktinni að vinna að sérstöku átaksverkefni á þessu svæði þar sem sækja mætti þekkingu til Skjólskóga á Vestfjörðum varðandi aðferðafræði.
Í heimsókn sinni til Skógarorku ræddi Sigrún Magnúsdóttir við forsvarsmenn fyrirtækisins m.a. um rekstrarskilyrði þess, en um er að ræða nýjung í orkuframleiðslu á Íslandi, sem nýtir aukaafurðir skóga í sinni starfsemi. Hefur rekstrarumhverfi fyrirtækisins breyst síðustu misseri, m.a. vegna aukinnar ásóknar annarra fyrirtækja í trjákurl sem notað er við orkuframleiðsluna.

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Upplýsingar frá landsstjórn

Deila grein

04/09/2016

Upplýsingar frá landsstjórn

Framsoknarhusid-02Landsstjórn Framsóknarflokksins kom saman miðvikudaginn 31. ágúst til að ræða ákvörðun þriggja kjördæmisþinga um boðun flokksþings í aðdraganda alþingiskosninga í samræmi við gr. 9.1. í lögum flokksins. Fyrir fundinn hafði verið óskað eftir áliti laganefndar flokksins um hvernig mætti bregðast við ákvörðun kjördæmisþinganna þriggja, þar sem engin fordæmi lágu fyrir.
Niðurstaða laganefndar var að í lögum Framsóknarflokksins væri miðstjórn einni falið það hlutverk að boða til flokksþings, hvort sem um reglulegt eða annarskonar flokksþing væri að ræða.
Þegar hefur verið boðað til haustfundar miðstjórnar á Akureyri þann 10. sept. 2016, samkvæmt ákvörðun landsstjórnar. Áður hafði landsstjórn ákveðið að leggja til við miðstjórn að haustfundurinn tæki afstöðu til þess hvort flokksþing yrði haldið á reglulegum tíma eða fyrir alþingiskosningar.
Nú þegar ákvörðun kjördæmisþinganna liggur fyrir um að boða skuli til flokksþings í aðdraganda kosninganna, samþykkti landsstjórn að leggja til við haustfund miðstjórnar þann 10. sept nk að flokksþing Framsóknarflokksins verði haldið í fyrsta lagi dagana 1. og 2. október og síðasta lagi 8. og 9. október á höfuðborgarsvæðinu í ljósi þegar boðaðra funda kjördæmissambandanna vegna forvals flokksins á framboðslista. Skrifstofunni var jafnframt falið að yfirfara dagskrá miðstjórnarfundarins í ljósi breyttra verkefna.
Á fundi landsstjórnar var jafnframt samþykkt að skipa starfshóp til undirbúnings kosningunum sem muni skila tillögum til landsstjórnar. Í starfshópnum eigi sæti formenn kjördæmissambandanna ásamt þingflokksformanni, formanni málefnanefndar og framkvæmdastjóra flokksins.

Categories
Fréttir

Mikilvægt að fullgilda Parísarsamninginn

Deila grein

02/09/2016

Mikilvægt að fullgilda Parísarsamninginn

líneik„Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að lýsa ánægju minni með gang þingstarfanna frá því að þing kom saman í ágúst, bæði hér í þingsal og ekki síður við vinnu í nefndum með fjölda mála. Staðreyndin er að þingmenn allra flokka vinna af krafti í nefndum, sækja nefndarfundi og lesa heilu doðrantana milli nefndarfunda. Það kemur hins vegar fyrir að ekki er fjölmenni í þingsalnum enda vitum við það öll sem hér störfum að þegar þingmenn hafa ekki í hyggju að blanda sér í umræður í þingsal um einstök máls getur tími þeirra nýst mun betur í vinnu sé vinnunni sinnt annars staðar en í þingsalnum. Enginn vandi er að fylgjast með umræðum í þingsal nokkurn veginn hvar í heiminum sem þingmenn eru staddir.
Það skiptir okkur öll máli sem hér störfum að mest af þeirri vinnu sem við höfum lagt í skili sér áfram með einhverjum hætti í gegnum þingið. Eitt af þeim málum sem mér er mikið í mun að Alþingi taki fyrir og ljúki með formlegum hætti sem fyrst er heimild til fullgildingar Parísarsamningsins í loftslagsmálum. Þrátt fyrir að fullgildingin krefjist ekki lagabreytingar er mikilvægt að Alþingi taki samninginn til umfjöllunar. Parísarsamningurinn er það mikilvægur fyrir framtíð okkar allra að æskilegt er að Alþingi samþykki sérstaka heimild til fullgildingar samningsins fyrir Íslands hönd. Því fyrr sem Ísland fullgildir samninginn því betra, því að Parísarsamningurinn tekur fyrst gildi 30 dögum eftir að 55 aðilar sem eru ábyrgir fyrir a.m.k. 55% af útblæstri í heiminum hafa fullgilt samninginn. Fullgilding af Íslands hálfu á árinu 2016 yrði því lóð á vogarskálar þess að samningurinn öðlist sem fyrst fullt gildi.“
Líneik Anna Sævarsdóttir í störfum þingsins 31. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

80 milljarða fjárfestingu stefnt í voða

Deila grein

02/09/2016

80 milljarða fjárfestingu stefnt í voða

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Nú er verulega illt í efni svo ekki sé meira sagt. Staðan sem komin er upp vegna framkvæmda í tengslum við Bakkaverkefni svokallað er með fádæmum slæm. Nú standa menn frammi fyrir því að uppbygging og ferli sem hefur verið unnið að árum saman er í hættu. Um er að ræða 80 milljarða fjárfestingu sem stefnt er í voða vegna kærumála.
Helst dettur mér í hug að hér sé um meinbægni að ræða því samfélagslegir hagsmunir eru gríðarlegir og margir eiga mikið undir. Menn hafa unnið samkvæmt öllum reglum á öllum stigum málsins. Sveitarfélög sem að málinu koma hafa unnið samkvæmt ákvæðum skipulagslaga og í þeim öllum er aðalskipulag í gildi. Vera má að menn sem stóðu fyrir kærumálum hafi ekki gert sér grein fyrir afleiðingum þeirra og hafi hugsað þessa aðgerð sem prófmál inn í framtíðina. Ef svo er er þetta algerlega út í hött og fráleitt að koma inn á lokastigi í þessu verkefni til að fá framtíðarsýn í meðferð framkvæmda.
Ákvæði um hraun sem njóta sérstakrar verndar hafa verið í lögum frá 1999 og því einkennilegt að nú vilji menn kollvarpa öllu sem gert hefur verið á grunni nýrra laga. Þetta mál snýst í raun um stutta línulögn yfir eldhraun. Við skulum hafa í huga að eldhraun hefur verið brotið víðsvegar og við þurfum ekki að horfa lengra en til nágrannasveitarfélaga höfuðborgarinnar til að sjá það. Skiptir máli hvar á landinu er verið að framkvæma, spyr sá sem ekki veit?
Þetta verkefni hefur verið unnið í breiðri sátt og pólitískri samstöðu fram að þessu. Það er því ekki undarlegt að heimamönnum sé brugðið og finnist það jafnvel sorglegt þegar einstaka þingmenn gleðjast yfir því að framkvæmd skuli vera komin í uppnám og menn standi frammi fyrir miklu tjóni. Nú er mál að linni. Við verðum að finna leiðina út úr þessum ógöngum og koma þessum málum í þann farveg að hægt sé að vinna áfram í breiðri sátt að uppbyggingu til framtíðar og við glötum ekki trúverðugleika okkar.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 31. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Nýfrjálshyggjukapítalistagræðgisvæðing Steingríms J

Deila grein

02/09/2016

Nýfrjálshyggjukapítalistagræðgisvæðing Steingríms J

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Ein af aukaafurðum þess þegar viðskiptabankarnir voru á sínum tíma afhentir kröfuhöfum var sú að 3% eignarhlutur í Landsbanka Íslands var afhentur völdum starfsmönnum. Það má segja að þetta sé framlag hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar til nýfrjálshyggjukapítalistagræðgisvæðingarinnar, svo notuð séu hans eigin orð. Þessi 3% klíka hefur síðan stjórnað Landsbankanum þrátt fyrir þessa litlu eignaraðild og þjóðin sem á þennan banka hefur ekki haft nein tækifæri til að hafa áhrif á rekstur hans eða hvernig hann fer fram. Hvernig hefur þetta kristallast? Þetta hefur m.a. kristallast í því hvernig farið var með eignarhluta ríkisins í Borgun sem var seldur fyrsta manni sem bankaði á dyrnar með hörmulegum afleiðingum sem síðan hafa kristallast. Þetta hefur líka komið fram í því að það mál ætlar engan endi að taka.
Nú hefur komið í ljós að það virðist svo sem það sé einhvern leyniþráður á milli Landsbankans og eigenda Borgunar. Þannig bárust fréttir af því mjög nýverið að Landsbanki Íslands hefði selt einbýlishús á höfuðborgarsvæðinu til eins af lykilstjórnendum Borgunar undir því verði sem Landsbankinn hafði áður fengið tilboð í, þ.e. Landsbankinn hafði fengið tilboð í þessa eign mánuði áður og seldi hana mánuði síðar lykilstjórnanda í Borgun á lægra verði.
Ég hlýt að spyrja: Hversu lengi á þetta mál að ganga svona án þess að Fjármálaeftirlitið geri neitt? Hversu lengi á þetta mál að ganga svona án þess að kjörnir fulltrúar á Alþingi hafi neitt um það að segja? Hversu lengi eiga menn sem sitja í skjóli 3% eignaraðildar og víla og díla, afsakið orðbragðið, um málefni þjóðarinnar sem á eign þessa í bankanum? Er ekki kominn tími til að hreinsa út þessa bankastjórn?“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 31. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Skattaafslátt vegna ferða til og frá vinnu

Deila grein

02/09/2016

Skattaafslátt vegna ferða til og frá vinnu

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Aðalfundur eignarhaldsfélags Kaupþings fór fram í gær. Þar voru bónusgreiðslur til um 20 starfsmanna félagsins samþykktar með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þessa ákvörðun nema að nú er nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Þær hugmyndir sem voru ræddar í þinginu í gær voru margar hverjar mjög áhugaverðar. Ég hef því óskað eftir því að eiga sérstaka umræðu við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um málið og ég vona svo sannarlega að sú umræða fari fram sem fyrst.
Það var samt annað sem ég ætlaði að ræða í dag. Í dag eru fréttir af verulegri aukningu umferðar um Hvalfjarðargöngin það sem af er þessu ári. Þetta er í samræmi við upplifun fólks sem keyrir þessa leið um göngin og Vesturlandsveg og margir hverjir á hverjum degi. Mikill þungi umferðar kemur úr þeim sveitarfélögum sem liggja hvað næst Hvalfjarðargöngunum norðan megin en eins og fram kom fyrir nokkru síðan aka um 2.000 bílar þessa leið dag hvern úr þeim sveitarfélögum. Þar er m.a. um að ræða fólk sem sækir vinnu og skóla í höfuðborginni. Þessir einstaklingar borga talsvert í ferðakostnað til að komast til og frá vinnu eða skóla. Það er óhætt að segja að mörgum finnist þessi kostnaður ósanngjarn þar sem þetta er eina leiðin úr höfuðborginni þar sem gjaldtaka fer fram. Öll gerum við okkur grein fyrir því að umferðarþunginn er orðinn mikill um Hvalfjarðargöngin og Vesturlandsveg og nauðsynlegt verður áður en langt um líður að fara í úrbætur á þessum vegum. Auk þess hafa átt sér stað umræður um fyrirhugaða Sundabraut sem verður vonandi að veruleika innan einhverra ára og tel ég að hún verði mikil samgöngubót fyrir svæðið.
Í þessu samhengi langar mig að minnast á þingsályktunartillögu sem ég lagði fram í þinginu 5. október 2015. Hún fjallaði um að þeim skattskyldu mönnum sem þurfa að greiða háan kostnað vegna ferða til og frá vinnu verði veittur afsláttur af tekjuskatti. Tel ég að það fyrirkomulag sem tillagan kveður á um, þ.e. að taka upp skattafslátt vegna ferða til og frá vinnu, gæti verið skref í rétta átt við að styrkja atvinnusvæði víða um landið og jafnframt jákvætt fyrir fólk sem þarf að greiða talsverðar upphæðir til að komast til og frá vinnu eða í skóla. Ég vona svo sannarlega að þessi tillaga nái fram að ganga, hún væri mikið framfaraskref.“
Elsa Lára Arnardóttir 31. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Verk ríkisstjórnarinnar tala sínu máli

Deila grein

02/09/2016

Verk ríkisstjórnarinnar tala sínu máli

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Þegar dregur nær kosningum eykst eðlilega spenna og pólitískur titringur. Það mátti og greina í umræðunni á Alþingi í gær um búvörulög og búvörusamning, við greinum þetta í opinberri umræðu. Í umræðu um búvörulögin var að greina slíkan spennutón en þrátt fyrir allt fannst mér sú umræða afar góð og málefnaleg og mun vafalítið taka á sig frekari mynd þegar við ræðum það mál áfram og svo síðar um tollasamninginn.
Þessi spenna kristallast vel í þeirri pólitísku spurningu hversu mörg mál og hvaða mál þingið ætti að klára og mikilvægt er að klára eða yfir höfuð ástæða til að klára áður en yfir lýkur, áður en þingið lýkur störfum, við klárum hina pólitísku baráttu og þjóðin kýs sína fulltrúa.
Virðulegi forseti. Ég mundi auðvitað helst vilja að þessi hæstv. ríkisstjórn sæti sem lengst. Verk hennar tala sínu máli en fyrst og síðast er þessari hæstv. ríkisstjórn umhugað um að klára þann sáttmála sem hún gerði og lofaði þjóð sinni.
Það hefur þessi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sannarlega gert og er umhugað um að ljúka vel við. Það er ástæða til að benda á það hér hver verk þessarar hæstv. ríkisstjórnar hafa verið því að stóra myndin er afar hagfelld. Auðvitað erum við í kapphlaupi við tímann en þannig verður það ekki alltaf. Þrátt fyrir að nú séu uppi óvenjulegar aðstæður með styttra kjörtímabil hefur hingað til, hæstv. forseti, verð ég að segja, í góðri samvinnu við þingflokksformenn, stjórn og stjórnarandstöðu, sem ég vil jafnframt hrósa, verið haldið uppi góðum vinnubrag og það er engin ástæða til annars en að ætla að við klárum þetta með sóma.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 31. ágúst 2016.