Categories
Greinar

Ný­sköpun – Sleppum te­skeiðinni og mundum skófluna

Deila grein

08/04/2022

Ný­sköpun – Sleppum te­skeiðinni og mundum skófluna

Ísland er eitt mesta velsældarríki heims. Þrátt fyrir góða stöðu landsins þá eigum við alltaf að bæta okkur til aukinnar velsældar. Það hefur sýnt sig á síðustu árum að margt er hægt að bæta, til dæmis í heilbrigðiskerfinu og samgöngumálum (sérstaklega í höfuðborginni) til að mæta væntingum almennings.

Til þess að við getum tryggt áframhaldandi uppbyggingu og bættri velferð þá þurfum við einnig að tryggja langtímasjálfbærni. Það er gert með því að stækka hagkerfið okkar m.a. með því að hlúa að vænlegustu vaxtasprotum þess.

Hagstætt veðmál

Okkar vænlegustu vaxtasprotar eru ung tæknifyrirtæki. Þau skapa góð og fjölbreytt störf ásamt því að auka útflutnings- og skatttekjur. Við eigum að gefa rækilega í til uppbyggingar á tækniiðnaði hér á landi. Það er til hagsbóta samfélagsins alls og skilar sér í auknum tekjum ríkissjóðs til langs tíma.

Með slíkri uppbyggingu værum við ekki að finna upp hjólið. Í mörgum af auðugustu þjóðum heims má finna mýmörg dæmi um ágæti þess að styðja þétt við bakið á tæknifyrirtækjum. Í þessu samhengi er sérstaklega litið til Ísrael, en ísraelska hagkerfið var tiltölulega veikt fyrir nokkrum áratugum. Þar byrjuðu þarlend stjórnvöld að styðja tækniiðnað með ráðum og dáð. Í kjölfarið hefur iðnaðurinn vaxið hratt og örugglega. Við sjáum jákvæðu áhrifin sem það hefur haft á ísraelskan atvinnumarkað, ríkissjóð þeirra og samfélag.

Árið 2021 var það besta í ísraelskum tækniiðnaði frá upphafi frá en þarlend tæknifyrirtæki sóttu sér 25,4 milljarða dala vaxtafjármagn, sem er 136% vöxtur frá 2020. Ísraelskum einhyrningum, þ.e. tæknifyrirtæki sem metin eru á meira en milljarð dala, fjölgaði um 33 á árinu 2021 og eru núna orðin samtals 53. Þetta er öfundsverð staða, en fjárfestingar og stuðningur ísraelska ríkisins er núna að skila sér margfalt til baka og hefur umbyltað hagkerfi landsins. Gjöf sem heldur áfram að gefa.

Veðjum á tæknifyrirtæki

Það sama getur gerst hér á landi. Við höfum nú þegar byggt grundvöllinn og búum yfir kröftugum iðnaði sem bíður spenntur eftir tækifæri. Margt hefur verið gert hér á landi samanber aukin endurgreiðsla á rannsókna- og þróunarkostnaði og skattalegir hvatar til einstaklinga sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum.

Það er hægt að gera svo margt fleira í kjölfarið. Til dæmis þarf að mæta skorti á tæknimenntuðum sérfræðingum. Við þurfum að geta verið samkeppnishæf á atvinnumarkaði og laðað að erlenda sérfræðinga til starfa svo að íslenskur tækniiðnaður vaxi og dafni enn meir.

Í því sambandi er nauðsynlegt fyrir hið opinbera að fara í gagngera endurskoðun á lögum um innflytjendur og atvinnuleyfi svo að núverandi regluverk fyrir erlenda sérfræðinga sem koma utan ESB verði mun skilvirkara en það er í dag. Ásamt þessu getum við aukið skattalega hvata til að gera Ísland meira aðlagandi. Árið 2016 var opnað fyrir að erlendir sérfræðingar gætu fengið 25% lækkun á tekjuskattsstofni í þrjú ár. Ég tel að við eigum bæði að hækka þetta hlutfall og lengja tímann.

Núna er kominn tími til að hugsa stórt. Við höfum innviðina og fjármunina en okkur sárvantar fólk. Ráðumst í aðgerðir til að ná í þann fjölda erlendra tæknimenntaðra sérfræðinga sem þarf.

Sleppum teskeiðinni og mundum skófluna.

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, varaþingmaður Framsóknar og situr í 4. sæti á lista flokksins í Reykjavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Categories
Fréttir

Katrín sveitarstjóri, leiðir lista Framsóknar og félagshyggjufólks í Dalvíkurbyggð

Deila grein

08/04/2022

Katrín sveitarstjóri, leiðir lista Framsóknar og félagshyggjufólks í Dalvíkurbyggð

Framboðslisti Framsóknar og félagshyggjufólks var samþykktur samhljóða á fundi félagsins í Safnaðarheimilinu í dag.

Gaman er að sjá ungt fólk gefa kost á sér til framtíðarstarfa fyrir sveitarfélagið en yngsti maður á B-listanum verður 22 ára á árinu 👏

Listann skipa einstaklingar alls staðar að úr sveitarfélaginu með víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og er kynjahlutfall jafnt á listanum. Málefnavinna fer í gang á næstu dögum og verður nánar upplýst um þann undirbúning síðar. Mikil tilhlökkun og gleði er ríkjandi í hópnum og vilji til gera gott byggðarlag enn betra.

Áfram veginn!

Categories
Fréttir

Brynja Dan Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri og varaþingmaður leiðir lista Framsóknar í Garðabæ

Deila grein

08/04/2022

Brynja Dan Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri og varaþingmaður leiðir lista Framsóknar í Garðabæ

Framboðslistinn var samþykktur á félagsfundi Framsóknar í Garðabæ í 7. apríl. Í öðru sæti er Hlynur Bæringsson íþrótta- og rekstrarstjóri, Rakel Norðfjörð Vilhjálmsdóttir fjármálaráðgjafi og fjármálaverkfræðingur er í þriðja sæti. 

Haft er eftir Brynju í tilkynningu að hún sé spennt fyrir komandi tímum með framúrskarandi fólki. Hún spyr hvort ekki sé kominn tími á grænt í Garðarbæ. 

Framboðslistinn í heild sinni er hér að neðan. 

  1. Brynja Dan Gunnardóttir, framkvæmdastjóri
  2. Hlynur Bæringsson, Íþrótta og rekstrarstjóri
  3. Rakel Norðfjörð Villhjálmsdóttir, fjármálaráðgjafi
  4. Einar Örn Ævarsson, framkvæmdastjóri
  5. Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, deildarstjóri
  6. Einar Karl Birgisson, framkvæmdastjóri
  7. Elín Jóhannsdóttir, sérfræðingur í þjónustueftirliti
  8. Einar Þór Einarsson, deildarstjóri
  9. Urður Bjög Gísladóttir, heyrnarráðgjafi
  10. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur og f.v bæjarfulltrúi
  11. Anna Gréta Hafsteinsdóttir, hótelstjóri
  12. Páll Viðar Hafsteinsson, nemi
  13. Sveinn Gauti Einarsson, umhverfisverkfræðingur
  14. Stefánía Ólöf Reynisdóttir, leikskólakennari
  15. Úlfar Ármannsson, framkvæmdastjór
  16. Sverrir Björn Björnsson, slökkviliðsmaður
  17. Tinna Rún Davíðsdóttir Hemstock, verslunareigandi
  18. Harpa Ingólfsdóttir, fjármálastjóri
  19. Halldóra Norðfjörð Villhjálmsdóttir, verslunarstjóri
  20. Gunnsteinn Karlsson, eldri borgari
  21. Halldór Guðbjarnason, viðskiptafræðingur
  22. Elín Jóhannsdóttir, f.v kennari
Categories
Fréttir

Björn Þór leiðir B-lista Framsóknar og óháðra í Mýrdalshreppi

Deila grein

08/04/2022

Björn Þór leiðir B-lista Framsóknar og óháðra í Mýrdalshreppi

Categories
Greinar

Að vera vinur í raun

Deila grein

07/04/2022

Að vera vinur í raun

Fæst okkar hefðu trúað því að árið 2022 væri stríð í Evrópu og undirbúa þyrfti komu flóttamanna frá Úkraínu til landsins. Í einum vettvangi er lífi fjölda fólks snúið á hvolf. Í upphafi árs áttu þau venjulegt líf, keyptu í matinn, mættu í skóla og vinnu, héldu barnaafmæli, elskuðu og voru elskuð. Hversdagurinn í reynd en nú tilheyrir hann annarri vídd. Í dag eru þau á flótta frá heimalandinu með ekkert nema handfarangur og sorg í hjarta. Borgir hafa verið lagðar í rúst og saklaust fólk tapað lífinu. Á meðan stjórnvöld bregðast við í alþjóðasamvinnu hefur almenningur á Íslandi fylgist sorgmæddur á þróun mála og fyllst vanmætti. Það er erfitt að fylgjast með úr fjarlægð og geta lítið gert.

Stjórnvöld þurfa að bregðast hratt við

Íslensk stjórnvöld tóku strax ákvörðun um að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu, fyrstu hóparnir eru þessar vikurnar að koma til landsins. 4,6 milljónir barna eru á flótta vegna stríðsins í Úkraínu, þessi börn verða fyrir miklu áfalli og óvíst er hvaða áhrif stríðið kemur til með að hafa á þessi börn og þeirra fjölskyldur, hvort sem litið er til skemmri eða lengri tíma. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra hefur sett á laggirnar sérstakt viðbragðsteymi ásamt sérstöku vöktunarteymi vegna þess fjölda barna sem komin er og væntanleg eru til landsins. Mikilvægt er að þær fjölskyldur sem hingað koma geti leitað á einn staða varðandi þjónustu við börn. Þau þurfa að finna að tekið sé utan um þau með öllum mögulegum hætti.

Íslenska þjóðin er með stórt hjarta

Þá fyllist ég stolti þegar ég sé viðbrögð fyrirtækja og almennings á Íslandi. Fljótt var ljóst að útvega þyrfti húsnæði fyrir allan þann fjölda fólks sem væntanlegur er til landsins. Nú þegar er búið er að semja um pláss fyrir tvö þúsund einstaklinga á mismunandi stigum dvalar flóttamanna. Er það vel gert á svo stuttum tíma, en enn er þó þörf fyrir meira húsnæði. Þá er það sérstaklega ánægjulegt að nokkrir aðilar, fyrirtæki, einstaklingar og stofnanir hafa tekið ákvörðun um að innheimta ekki leigu fyrir húsnæðið sitt.

Síðustu daga hef ég séð inn á hópum á Facebook þar sem unnið er að undirbúningi komu flóttamanna til landsins. Sjálfboðaliðar eru að safna saman fötum, húsgögnum og leikföngum fyrir börn. Allskonar húsbúnaði til þess að búa flóttamönnum fallegt heimili. Þá sá ég að starfsfólk Háskólans á Bifröst ásamt fleiri sjálfboðaliðum gengu úr vinnu til þess að bera inn húsgögn, dusta sængur og búa um rúm. Lítill bangsi var settur ofan á sæng.

Þessi samstaða kemur mér ekki á óvart, en samt sem áður fyllist ég þakklæti að búa í landi sem tekur opnum örmum á móti fólki á flótta og er tilbúið að leggja á sig auka vinnu fyrir aðra. Við erum öll ein stór fjölskylda.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. apríl 2022.

Categories
Greinar

Askur – fram­tíðin á sviði mann­virkja­gerðar

Deila grein

06/04/2022

Askur – fram­tíðin á sviði mann­virkja­gerðar

Nýlega voru styrkir veittir í fyrsta sinn úr Aski – mannvirkjarannsóknarsjóði. Sjóðurinn hefur bæði það hlutverk og þá áherslu að auka þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta þeim samfélagslegu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir á sviði mannvirkjagerðar. Alls var 95 milljónum króna veitt til 23 nýsköpunar- eða rannsóknarverkefna á sviði mannvirkjagerðar.

Sjóðurinn er fjármagnaður af innviðaráðuneytinu og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu en umsýsla hans er í höndum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Sjóðurinn var stofnaður árið 2021 og rann umsóknarfrestur fyrir fyrstu úthlutun rann út 9. desember síðastliðinn. Alls bárust fjörutíu umsóknir og var heildaupphæð umsókna 452 milljónir króna. Til að meta umsóknir var sett á fót sérstakt fagráð sem gerir tillögu að úthlutun til innviðaráðherra sem síðan veitir styrkina samkvæmt reglum sjóðsins.

Það er mikilvægt að sjóðurinn sé farinn að virka og fjármagn byrjað að streyma í hin ýmsu verkefni. Það er alveg ljóst að það er bæði þjóðfélagslega hagkvæmt og mikilvægt að efla rannsóknir og nýsköpun á sviði mannvirkjagerðar. Nauðsynlegt er að efla íslenskt hugvit og kalla fram hugmyndir um notkun á íslensku hráefni í byggingariðnaði. Um leið og slíkt er gert er mikilvægt er að leita leiða til að draga úr kolefnisspori mannvirkja og draga úr notkun óumhverfisvænna byggingarefna. Það verður einungis gert með aukinni nýsköpun á þessu sviði og frekari rannsóknum hér á landi.

Stóra myndin segir okkur það að byggingariðnaðurinn er talinn bera ábyrgð á um 40% af allri losun á heimsvísu. Það er því alveg ljóst að það er til mikils að vinna og þessi stóri iðnaður sem byggingariðnaðurinn er mun geta spilað stórt hlutverk þegar kemur að úrbótum í loftslagsmálum.

Ég er því mjög ánægður að sjá að áherslur sjóðsins í úthlutuninni hafi snúið að þeim samfélagslegu áskorunum sem við höfum staðið frammi fyrir í byggingariðnaði, s.s. rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til lækkunar kolefnisspors. Vistvænt steinsteypa með minna sementi, vistbók – gagnabanki vistvænna byggingarefna á Íslandi, fyrsta hampsteypuhús á Íslandi og hámörkun steinefna til að lækka kolefnisspor venjulegrar og vistvænni steypu eru meðal verkefna sem öll fá styrk úr sjóðnum við fyrstu úthlutun.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. apríl 2022.

Categories
Fréttir

Þorleifur Karl leiðir lista Framsóknar og annarra framfararsinna í Húnaþingi vestra

Deila grein

05/04/2022

Þorleifur Karl leiðir lista Framsóknar og annarra framfararsinna í Húnaþingi vestra

Categories
Greinar

Stuðningur á erfiðum stundum

Deila grein

04/04/2022

Stuðningur á erfiðum stundum

Í síðustu viku voru samþykkt í ríkisstjórn tvö frumvörp sem hófust í félagsmálaráðuneytinu í tíð Ásmundar Einars Daðasonar en frestuðust því miður vegna kórónuveirufaraldursins. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur nú lagt þau fram og koma þau til umræðu á Alþingi á næstu dögum.

Sorgarorlof

Annars vegar er um að ræða frumvarp um sorgarorlof, en hingað til hefur það verið undir vinnuveitanda komið hvort foreldrar fái orlof eða leyfi eftir að þeir missa barn. Að sjálfsögðu á það að vera hlutverk ríkisins að grípa utan um foreldra og fjölskyldur sem verða fyrir áfalli sem þessu. Ekkert foreldri á að þurfa að standa í því að hafa áhyggjur af framfærslu eða vinnuskyldu þegar tekist er á við sorgina við að missa barn. Með frumvarpinu verður foreldrum á vinnumarkaði tryggt leyfi frá störfum auk þess sem þeir fá greiðslur til að koma til móts við tekjutap á tilteknu tímabili í tengslum við fjarveru frá vinnumarkaði í kjölfar barnsmissis. Foreldrum á vinnumarkaði sem verða fyrir barnsmissi verður því tryggður réttur til sorgarleyfis í sex mánuði sem og greiðslur til að koma til móts við tekjutap á tímabilinu. Markmiðið með frumvarpinu er að viðurkenna áhrif sorgarinnar vegna barnsmissis á fjölskylduna í heild, ásamt því að auka líkur á að foreldrar eigi farsæla endurkomu á vinnumarkað og taki frekar virkan þátt í samfélaginu í kjölfar barnsmissis.

Varla er til verri tilhugsun hjá foreldrum en að missa barnið sitt, getur það tekið langan tíma að vinna úr sorginni og áfalli við barnsmissi. Margir foreldra eru lítt vinnufærir fyrstu mánuðina eða árið og þurfa sumir hverjir að leita sér aðstoðar í langan tíma. Í mínum hug er það skylda ríkisins að styðja við þá örfáu foreldra sem missa börn sín ár hvert. Það er það minnsta sem við sem samfélag getum gert.

Umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna

Hins vegar er um að ræða frumvarp um umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna. Þar er lagt er til að sett verði sérstök lög um greiðslur til umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna sem koma í stað gildandi laga, með það að markmiði að styðja betur við umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna. Meðal annars með því að auka skilvirkni stuðningskerfisins og draga úr félagslegri einangrun umönnunaraðila. Frumvarp um umönnunargreiðslur er byggt á skýrslu starfshóps um umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna, en hópurinn skilaði skýrslu til ráðherra í ársbyrjun 2020 með tillögum um breytingar á stuðningskerfinu. Þetta frumvarp er mikið framfaraskref, en það fylgir því oft gríðarlegt álag að eiga fatlað eða langveikt barn sem krefst mikillar umönnunar. Markmiðið með frumvarpinu er að létta byrðarnar á foreldrum þessara barna þannig að þeirra kraftur geti farið í sinna því sem mikilvægast er, barninu.

Einstaklingar sem lenda í þeirri stöðu að missa eða annast langveikt barn eiga ekki að þurfa að glíma við fjárhagsáhyggjur ofan á allt annað. Nóg er álagið fyrir. Ég fagna því að þessi mál eru að koma til umræðu á Alþingi og bind einlægar vonir við þau komist hratt í gegnum þingið. Við hljótum að vera sammála um það hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. apríl 2022.

Categories
Fréttir

Þarf RÚV að vera á auglýsingamarkaði?

Deila grein

04/04/2022

Þarf RÚV að vera á auglýsingamarkaði?

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, sagði í umræðu um umhverfi fjölmiðla á Alþingi í liðinni viku að mikilvægt væri að ræða stöðu Ríkisútvarpsins í nútímanum, hvort að RÚV verði að vera á auglýsingamarkaði? Hvort þörf væri á því að hafa tvær opinberar útvarpsstöðvar, þ.e. Rás 1 og Rás 2?

„Það liggur í augum uppi að það er hægt að hagræða betur, bæði í þágu ríkissjóðs og fjölmiðlastéttarinnar. Mögulega getur það verið til hagsbóta að leggja Rás 2 niður. Fjölmargar einkareknar útvarpsstöðvar eru starfræktar í dag og RÚV þarf einungis eina útvarpsstöð til að sinna sínum starfsskyldum og vera til staðar ef þörf er á,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Virðulegur forseti. Samkeppnin á íslenskum fjölmiðlamarkaði er hörð. Einkareknir miðlar hafa ítrekað bent á erfiðið við að keppa við ríkisrekinn miðil, þ.e. Ríkisútvarpið. RÚV rekur sjónvarpsstöð og útvarpsstöðvar sem eru aðgengilegar öllum ásamt því að vera á auglýsingamarkaði. Sú blanda leiðir vissulega til þess að þeir sem vilja auglýsa leita fyrst til RÚV. Frjáls fjölmiðlun er mikilvæg lýðræðislegri umræðu. Hún veitir stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnunum samfélagsins nauðsynlegt aðhald. Þó getur það reynst þeim erfitt að finna rekstrargrundvöll í samkeppni við þann risa sem RÚV er, en auglýsingamarkaðurinn horfir einnig til erlendra efnisveita á borð við Instagram og Facebook í meira mæli en áður.

Á síðasta kjörtímabili lögfesti ríkisstjórnin styrki til einkarekinna fjölmiðla að norrænni fyrirmynd til að jafna samkeppnisstöðuna í breyttu rekstrarumhverfi. Það hefur sýnt sig að styrkirnir hafa skipt máli við að halda einkareknum miðlum samkeppnishæfum. Þeir hafa komið í veg fyrir brottfall í geiranum og jafnvel fjölgað stöðugildum blaða- og fréttamanna. Það er þó mikilvægt að taka umræðuna um stöðu Ríkisútvarpsins í nútímanum. Þarf RÚV að vera á auglýsingamarkaði? Er þörf á því að hafa tvær opinberar útvarpsstöðvar, þ.e. Rás 1 og Rás 2? Það liggur í augum uppi að það er hægt að hagræða betur, bæði í þágu ríkissjóðs og fjölmiðlastéttarinnar. Mögulega getur það verið til hagsbóta að leggja Rás 2 niður. Fjölmargar einkareknar útvarpsstöðvar eru starfræktar í dag og RÚV þarf einungis eina útvarpsstöð til að sinna sínum starfsskyldum og vera til staðar ef þörf er á.

Að lokum vil ég hvetja hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra áfram til dáða í sinni frábærri vinnu við að tryggja samkeppnishæfni sjálfstæðra fjölmiðla.“

Categories
Greinar

Alþjóðaviðskipti eru lífæð landsins

Deila grein

03/04/2022

Alþjóðaviðskipti eru lífæð landsins

Greiðari alþjóðaviðskipti und­an­far­inna ára­tuga hafa skilað þjóðum heims mikl­um ávinn­ingi og eru það ekki síst fá­tæk­ustu lönd­in sem hafa notið þess í formi bættra lífs­kjara. Alþjóðabank­inn tel­ur að þeim ein­stak­ling­um sem búa við sára fá­tækt hafi fækkað um meira en helm­ing á síðustu þrjá­tíu árum þar sem meira en millj­arði manna hef­ur verið lyft úr gildru fá­tækt­ar. Þessa þróun má ekki síst rekja til greiðari alþjóðaviðskipta.

Á und­an­gengn­um árum hef­ur heims­bú­skap­ur­inn orðið fyr­ir tals­verðum áföll­um og í fyrsta skipti í meira en tvo ára­tugi hef­ur fjölgað í hópi þeirra sem búa við sára fá­tækt. Það eru ákveðnar blik­ur á lofti um sam­drátt í heimsviðskipt­um og spor kreppu­ára síðustu ald­ar hræða. Þá voru fyrstu viðbrögð þjóðríkja ein­angr­un­ar­hyggja og var það ekki fyrr en eft­ir seinni heims­styrj­öld­ina, ekki síst með til­komu Brett­on Woods-stofn­ana og GATT, að viðskipti byrjuðu að glæðast á ný með til­heyr­andi hag­sæld.

Kenn­ing­ar Smith og Ricar­do

Árið 1776 kom út bók skoska hag­fræðings­ins Adams Smith, Auðlegð þjóðanna . Í þeirri bók kynnti hann kenn­ingu sína sem kall­ast al­gjört for­skot (e. ab­solu­te advanta­ge) í alþjóðaviðskipt­um, sem geng­ur út á að hver þjóð ein­blíni á að fram­leiða eina vöru á skil­virk­ari hátt en aðrar. Jafn­framt taldi Smith að viðskipt­um á milli landa ætti ekki að vera stjórnað eða þau tak­mörkuð með inn­grip­um stjórn­valda. Hann full­yrti að viðskipti ættu að flæða eðli­lega í sam­ræmi við markaðsöfl eða „ósýni­legu hönd­ina“. Ekki voru all­ir hag­fræðing­ar sam­mála þess­ari nálg­un og héldu sum­ir hag­fræðing­ar því fram að sum lönd gætu verið betri í að fram­leiða marg­ar vör­ur og þannig haft for­skot á mörg­um sviðum, sem lýs­ir raun­veru­leik­an­um bet­ur. Breski hag­fræðing­ur­inn Dav­id Ricar­do kom fram í kjöl­farið með kenn­ing­una um sam­an­b­urðarfor­skot (e. comparati­ve at­vanta­ge) árið 1817. Hann hélt því fram að jafn­vel þótt land A hefði al­gera yf­ir­burði í fram­leiðslu ým­issa vara gæti samt verið sér­hæf­ing og viðskipti milli tveggja landa. Staðreynd­in er sú að mun­ur­inn á þess­um tveim­ur kenn­ing­um er lít­ill. Alþjóðaviðskipti byggj­ast enn í dag að grunni til á þess­um kenn­ing­um og hag­ur þjóða hef­ur vænkast veru­lega í kjöl­farið.

Áföll­in; Trump, C-19 og Pútín

Inn­rás­in í Úkraínu er þriðja áfallið sem heimsviðskipt­in verða fyr­ir á ein­um ára­tug. Fyrst gaf Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti tón­inn 2016-2020, með boðun ein­angr­un­ar­hyggju og viðskipta­stríði við nokk­ur lyk­il­ríki. Nú­ver­andi stjórn­völd hafa ekki dregið nægj­an­lega mikið til baka í þess­um efn­um og er það áhyggju­efni. Næst tók hin ill­ræmda far­sótt við, þar sem hag­kerf­in urðu fyr­ir mikl­um áföll­um í alþjóðleg­um vöru­viðskipt­um, fjár­magns- og fólks­flutn­ing­um. Nú er hafið skelfi­legt stríð í brauðkörfu Evr­ópu með þeim af­leiðing­um að setið er um hafn­ir Svarta­hafs­ins og efna­hagsþving­an­ir á Rúss­land hafa hrundið af stað fram­boðsáfalli sem allt heims­hag­kerfið finn­ur sár­lega fyr­ir. Verðið á hveiti hef­ur hækkað um 40% og það kann að vera að Evr­ópu­bú­ar upp­lifi skort á gasi til hit­un­ar næsta vet­ur. Þá hef­ur verð á nikk­eli rokið upp en það er meðal ann­ars notað í raf­geyma, t.d. fyr­ir raf­magns­bíla.

Frek­ari aðför að alþjóðaviðskipt­um mun vinna gegn lífs­kjör­um á heimsvísu, því verða þjóðir heims að standa sam­an gegn því að al­var­leg aft­ur­för verði í alþjóðaviðskipt­um. Það kall­ar meðal ann­ars á nýtt átak til efl­ing­ar heimsviðskipt­um þar sem snúið verður af braut viðskipta­tak­mark­ana, sem skotið hafa upp koll­in­um á síðustu árum, en horft verði til þess hvað bet­ur má fara í viðskipt­um landa á milli með skýr­ari regl­um og stuðningi við alþjóðastofn­an­ir á þessu sviði, þar með talið Alþjóðaviðskipta­stofn­un­ina (WTO).

Staða Íslands í alþjóðaviðskipt­um

Ekk­ert er sjálf­gefið í þess­um efn­um. Viðskiptaum­hverfi Íslands er með besta móti. Hags­mun­ir okk­ar eru tryggðir í gegn­um EFTA, með samn­ingn­um um Evr­ópska efna­hags­svæðið, í gegn­um tví­hliða viðskipta­samn­inga og inn­an fjölþjóðlegra stofn­ana eins og Alþjóðaviðskipta­stofn­un­ar­inn­ar og Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (e. OECD). Við erum þjóð sem þrífst á alþjóðaviðskipt­um!

Í sögu­legu ljósi hef­ur hag­ur ís­lensku þjóðar­inn­ar vænkast með aukn­um viðskipt­um enda er talið að smærri ríki njóti einkum góðs af frjáls­um viðskipt­um. Oft er talið að fyrra tíma­bil hnatt­væðing­ar hafi átt sér stað í fram­haldi af tækni­fram­förum upp úr miðri 19. öld og staðið fram að fyrra stríði. Seinna tíma­bilið hófst síðan eft­ir að seinni heims­styrj­öld­inni lauk. Lífs­kjör okk­ar eru góð vegna þess að aðgengi að helstu mörkuðum, hvort held­ur með sjáv­ar­fang, orku, ferðaþjón­ustu eða hug­verk, er gott. Um leið og ein­hverj­ar blik­ur eru á lofti um slíkt aðgengi, þá rýrna lífs­kjör hratt á Íslandi og því þurfa stjórn­völd stöðugt að vera á tán­um og end­ur­meta stöðuna.

Góður ár­ang­ur Íslands utan ESB

Á hverj­um degi á Ísland í frá­bæru alþjóðlegu sam­starfi á fjöl­mörg­um sviðum sem við get­um verið stolt af. Þar er mjög gott sam­starf við Evr­ópu eng­in und­an­tekn­ing. Ísland er í raun í öf­undsverðri stöðu að vera þátt­tak­andi í góðu sam­starfi við Evr­ópu­sam­bandið og önn­ur ríki inn­an Evr­ópska efna­hags­svæðis­ins á grund­velli EES-samn­ings­ins – og á sama tíma geta gert tví­hliða fríversl­un­ar­samn­inga við önn­ur ríki í heim­in­um. Versl­un­ar­frelsi Íslands er gott og á und­an­förn­um árum hef­ur viðskipta­stefna Íslands, til dæm­is hvað varðar álagn­ingu tolla og vöru­gjalda, þró­ast mjög í frjáls­ræðisátt. Þannig voru al­menn­ir toll­ar felld­ir niður af fatnaði og skóm í árs­byrj­un 2016 og af hvers kyns ann­arri iðnaðar­vöru í árs­byrj­un 2017 svo dæmi séu tek­in. Í sam­an­b­urði á tollaum­hverfi Íslands, ESB og hinna EFTA-ríkj­anna kom fram að hlut­fall toll­skrár­núm­era sem bera ekki toll nam tæp­um 90% hér á landi en var um 27% í ESB. Þá var meðaltoll­ur einnig lægri hér, 4,6% miðað við 6,3% inn­an ESB.

Snýst á end­an­um um lífs­kjör

Það er ljóst að vel­meg­un á Íslandi er með því mesta sem geng­ur og ger­ist í ver­öld­inni allri – og þar skip­um við okk­ur í deild með lönd­um eins og Nor­egi og Sviss sem einnig standa utan ESB. Það er stefna okk­ar í Fram­sókn sem og stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar að hags­mun­um Íslands sé best borgið utan ESB. Ný­verið var þings­álykt­un­ar­til­laga um þjóðar­at­kvæðagreiðslu um aðild­ar­viðræður að Evr­ópu­sam­band­inu lögð fram af þing­flokki Pírata, Sam­fylk­ing­ar og Viðreisn­ar. Rök­semd­in fyr­ir tíma­setn­ingu þjóðar­at­kvæðagreiðslu um svona veiga­mikið atriði er vík­ur að skerðingu full­veld­is­ins ligg­ur ekki fyr­ir. En leiða má að því lík­ur að tíma­bund­inn auk­inn stuðning­ur við aðild að ESB í skoðana­könn­un­um spili þar inn í. Stuðning­ur sem sum­ir telja til­kom­inn vegna óviss­unn­ar sem inn­rás Rússa í Úkraínu hef­ur valdið. Síðast þegar stuðning­ur við aðild að ESB jókst tals­vert var í kjöl­far fjár­mála­áfalls­ins 2008. Fram­lagn­ing fyrr­nefndr­ar þings­álykt­un­ar­til­lögu er ekki síður at­hygl­is­verð í ljósi þess að aðeins 6 mánuðir eru liðnir frá þing­kosn­ing­um í land­inu þar sem kjós­end­ur sögðu skoðun sína á lýðræðis­leg­an hátt. Óhætt er að segja að þeir flokk­ar sem vilja ganga í Evr­ópu­sam­bandið, Sam­fylk­ing­in og Viðreisn, hafi ekki riðið feit­um hesti frá þeim kosn­ing­um með aðild­ar­mál­in að vopni. Þannig var Viðreisn gerð aft­ur­reka í kosn­inga­bar­átt­unni með efna­hags­hug­mynd­ir sín­ar um að varða leiðina í átt að upp­töku evru. Mig rek­ur einnig ekki minni til þess að Viðreisn hafi gert aðild­ar­viðræður að Evr­ópu­sam­band­inu að skil­yrði þegar hún hafði tæki­færi til þess í rík­is­stjórn með Sjálf­stæðis­flokkn­um og Bjartri framtíð. Það seg­ir vissu­lega ákveðna sögu. Þegar öllu er á botn­inn hvolft snýst þetta um góð lífs­kjör. Líkt og hef­ur verið rakið hér að ofan hef­ur Ísland komið sér í sterka stöðu á sviði alþjóðaviðskipta og lífs­kjara í fremstu röð. Stefna okk­ar hingað til hef­ur virkað vel í þeim efn­um, og á þeirri braut eig­um við að halda ótrauð áfram.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. apríl 2022.