Categories
Fréttir

Stærsta kerfisbreytingin í málefnum barna á Íslandi í áratugi

Deila grein

01/12/2020

Stærsta kerfisbreytingin í málefnum barna á Íslandi í áratugi

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur kynnt frumvarp um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

„Allt frá því ég tók við ráðherraembætti hefur forgangsverkefni mitt verið að bæta enn frekar hvernig við þjónustum börn og fjölskyldur þeirra. Í víðtæku samráði og samstarfi fjölmargra aðila, leikinna, lærðra, innan þings og utan, hefur verið unnið að því í hartnær þrjú ár að smíða undirstöður undir kerfi sem tryggir að börn og fjölskyldur þeirra falli ekki á milli kerfa og verði ekki send á eigin ábyrgð milli þjónustuaðila innan sveitarfélaga og ríkisstofnana. Verkefnið er risavaxið og ég held að það sé óhætt að segja að við séum að horfa upp á stærstu kerfisbreytingu í þessum málaflokki á Íslandi undanfarna áratugi,” sagði Ásmundur Einar á opnum kynningarfundi í gær.

Frumvarpið er afurð víðtæks og góðs samstarfs fjölda aðila með samþættingu þjónustu í þágu barna að markmiði, sem og að auka samvinnu og bæta samfellu þjónustu við börn og að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi. Verkefnið er umfangsmikið og felur sennilega í sér mestu breytingu sem gerð hefur verið á umhverfi barna á Íslandi í áratugi.

Erum að tryggja snemmbæran, samþættan stuðning þvert á kerfi

Á yfirstandandi kjörtímabili hefur verið unnið að undirbúningi lagaumhverfis sem miðar að því að tryggja börnum og aðstandendum þeirra, snemmbæran, samþættan stuðning þvert á kerfi. Vinnan hefur verið undir forystu félagsmálaráðuneytisins en í víðtæku og þéttu samráði við fjölmarga aðila, svo sem önnur ráðuneyti, þingmannanefnd um málefni barna, félagasamtök og einstaklinga sem hafa lagt hönd á plóg.

Stefnan sem er lögð til í frumvarpinu er að láta mismunandi hluta kerfisins tala betur saman og loka gráu svæðum. Þannig er markmiðið að barnið verði hjartað í kerfinu. Frumvarpið tekur til allrar þjónustu sem fer fram innan skólakerfisins, í leik-, grunn- og framhaldsskólum, á frístundaheimilum og í félagsmiðstöðvum. Það tekur einnig til þjónustu sem er veitt innan heilbrigðiskerfisins, í heilsugæslu, á heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum og félagsþjónustu sem er veitt innan sveitarfélaga, barnaverndarþjónustu og þjónustu við börn með fatlanir, svo dæmi séu til tekin.

Í frumvarpinu er lögð rík áhersla á að börn og foreldrar hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana, ef á þarf að halda. Með breytingunum er leitast við að tryggja að foreldrar og barn fái upplýsingar um þjónustu í þágu barnsins og þjónustuveitendur, foreldrar og börn, eftir atvikum, móti í sameiningu markmið, úrræði og mat á árangri.

Categories
Greinar

Börnin eiga að vera hjartað í kerfinu – breyting í þágu barna

Deila grein

30/11/2020

Börnin eiga að vera hjartað í kerfinu – breyting í þágu barna

Allt frá því ég tók við ráðherraembætti hefur forgangsverkefni mitt verið að bæta enn frekar hvernig við þjónustum börn og fjölskyldur þeirra. Í víðtæku samráði og samstarfi fjölmargra aðila, leikinna, lærðra, innan þings og utan, hefur verið unnið að því í hartnær þrjú ár að smíða undirstöður undir kerfi sem tryggir að börn og fjölskyldur þeirra falli ekki á milli kerfa og verði ekki send á eigin ábyrgð milli þjónustuaðila innan sveitarfélaga og ríkisstofnana. Verkefnið er risavaxið og felur sennilega í sér einhverjar mestu breytingar sem gerðar hafa verið á umhverfi barna á Íslandi í áratugi.

Ég er því gríðarlega stoltur og ánægður að kynna frumvarp um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Frumvarpið ef afurð þessa víðtæka og góða samstarfs þar sem markmiðið er samþætting þjónustu í þágu barna til þess að auka samvinnu og bæta samfellu þjónustu við börn með hagsmunir þeirra að leiðarljósi.

Stefnan sem ég legg til í frumvarpinu er að láta mismunandi kerfi tala betur saman og loka gráum svæðum í þjónustu við börn og fjölskyldur. Í íslensku samfélagi eru of mörg dæmi um að ekki sé gripið nógu snemma inn í aðstæður barna. Einnig hefur verið skortur á því að börnum sé boðinn samþættur stuðningur þvert á stofnanir og kerfi. Í nýju kerfi á barnið, en ekki hver stofnun fyrir sig að vera útgangspunkturinn, þannig að barnið sé hjartað í kerfinu.

Frumvarpið tekur til allrar þjónustu sem fer fram innan skólakerfisins, í leik-, grunn- og framhaldsskólum, á frístundaheimilum og í félagsmiðstöðvum. Það tekur einnig til þjónustu sem er veitt innan heilbrigðiskerfisins, í heilsugæslu, á heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum og félagsþjónustu sem er veitt innan sveitarfélaga, barnaverndarþjónustu og þjónustu við börn með fatlanir, svo dæmi séu til tekin.

Í frumvarpinu er lögð rík áhersla á að börn og foreldrar hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi, án hindrana, ef á þarf að halda. Með breytingunum er leitast við að tryggja að barn og fjölskylda þess fái upplýsingar um þjónustu í þágu barnsins og þjónustuveitendur, fjölskyldan og barnið sjálft, eftir atvikum, móti í sameiningu markmið, úrræði og meti árangur.

Lagabreytingar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, og uppbygging stofnana til að styðja við samþættinguna eru mikilvæg fyrstu skref, en jafnframt eru breytingar á annarri löggjöf sem tengjast veitingu þjónustu í þágu barna nauðsynlegar. Þar má meðal annars nefna breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, barnaverndarlögum, löggjöf um heilbrigðisþjónustu og skólamál. Þegar frumvörpin verða komin í höfn og orðin að lögum, verður Ísland svo sannarlega ekki eftirbátur annarra ríkja hvað varðar þjónustu við börn og fjölskyldur, heldur forysturíki.

Fyrir áhugasama er hægt að horfa á kynninguna á frumvörpunum á vef Stjórnarráðsins. Kynningin hefst kl. 13.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Ályktun frá LFK vegna bleika skattsins!

Deila grein

29/11/2020

Ályktun frá LFK vegna bleika skattsins!

Landssamband Framsóknarkvenna hvetur stjórnvöld til að hlusta á rödd ungra kvenna um land allt um að afnema „bleika skattinn“.

Skattlagning nauðsynjavara sem helmingur þjóðarinnar þarf að nota er ekki ásættanleg og er mismunun ríkisvalds á þegnum sínum í sinni einföldustu mynd. Fjárhagur heimilanna á ekki að vera valdur því að hluti landsfólks geti ekki nálgast nauðsynjavörur á við tíðavörur þegar á þarf að halda.

LFK hvetur efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til að endurskoða afstöðu sína til skattlagningar á tíðavörum og horfa á málið með jafnréttisgleraugum enda starfa þingmenn í þágu alls landsfólks, ekki bara þeirra sem fara ekki á túr.

Hvetur LFK stjórnvöld enn fremur til þess að fylgja Skotum í þessu máli, en nýlega var þar samþykkt frumvarp sem skyldar sveitarfélög til að tryggja öllum þeim sem á þurfa að halda, tíðarvörur á borð við túrtappa, dömubindi, eða margnota tíðarvörur, gjaldfrjálst.

Í það minnsta hvetur LFK stjórnvöld til að gera skólum og öðrum opinberum stofnunum það skylt að bjóða upp á tíðavörur gjaldfrjálst þeim sem þær þurfa að nota”.

Fyrir hönd Landssambands Framsóknarkvenna,

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, varaformaður LFK.

Categories
Greinar

Framsækin frumvörp í boði Framsóknar

Deila grein

27/11/2020

Framsækin frumvörp í boði Framsóknar

Framsóknarflokkurinn hefur verið í fararbroddi á vettvangi jafnréttismála og fjölskyldumála um áratugaskeið. Páll Pétursson var félagsmálaráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins þegar gerð var veigamikil breyting á lögum um fæðingarorlof árið 2000. Ísland var þá fyrsta landið í heiminu til að lögbinda rétt beggja foreldra til töku fæðingarorlofs.

Viðamikil endurskoðun

Núverandi félags- og barnamálaráðherra, og þingmaður Framsóknarflokksins, Ásmundur Einar Daðason hefur nú lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Ráðherra skipaði nefnd í ágúst 2019 sem hafði það hlutverk að endurskoða lögin frá árinu 2000 í heild sinni. Alls er gert ráð fyrir að 19,1 milljarði króna verði varið í fæðingarorlof á árinu 2021 sem er tæplega tvöföldun á þeim fjármunum sem fóru til málaflokksins árið 2017, á verðlagi hvors árs.

12 mánuðir

Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu er lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur frá og með 1. janúar 2021. Sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig verður sex mánuðir en foreldrum verður heimilt að framselja einn mánuð sín á milli, og því getur annað foreldrið tekið fæðingarorlof í sjö mánuði en hitt í fimm.

Undantekningar frá reglunni

Þá eru lagðar til frekari heimildir til yfirfærslu réttinda á milli foreldra þegar annað foreldri getur ekki af nánar tilgreindum ástæðum nýtt sinn rétt til fæðingarorlofs. Það gæti t.d. átt við þegar börn hafa ekki feðruð og þegar umgengni annars foreldris við barnið er engin eða verulega takmörkuð á grundvelli niðurstöðu lögmælts stjórnvalds eða dómstóla.

Styrkur til þeirra sem búa fjarri fæðingarstað

Þá er lagt til að barnshafandi foreldri verði veittur sérstakur styrkur vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu. Það þýðir aðí þeim tilvikum þegar barnshafandi foreldri þarf að mati sérfræðilæknis að dvelja fjarri heimili sínu, fyrir áætlaðan fæðingardag, í tengslum við nauðsynlega þjónustu vegna fæðingar barnsins getur það fengið fjárhagsstyrk. Því síðastnefnda fagna ég sérstaklega, en á haustþingi 2017  lagði ég fram frumvarp þess efnis að fæðingarorlof þeirra sem þyrftu að hefja töku fæðingarorlofs snemma vegna búsetu fjarri fæðingarstað, yrði lengd sem næmi þeim tíma sem fólk yrði að dvelja fjarri heimili. Þar með yrði réttur barna til samveru við foreldra fyrstu mánuði lífsins tryggður án tillits til búsetu þeirra.

Mögulegar breytingar í meðferð Alþingis

Alþingi hefur nú fengið málið til efnislegrar meðferðar. Það kann að fara svo að gerðar verði einhverjar breytingar á framlögðu frumvarpi ráðherra, því þingmenn kunna að hafa ólíka sýn á einstaka útfærslur laganna. Stóra myndin er hins vegar alltaf sú, að vegna áherslna Framsóknarflokksins mun fæðingarorlof foreldra og þar með réttur barna til samvista við foreldra sína verða lengdur úr 9 mánuðum, eins og staðan var við upphafi kjörtímabilsins 2017,  og í 12 mánuði frá og með komandi áramótum.

Enn eitt framfaraskrefið hefur verið stigið í boði Framsóknarflokksins. Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á vf.is 25. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Íslenska iðnbyltingin

Deila grein

27/11/2020

Íslenska iðnbyltingin

Sæt­ur ilm­ur­inn af pip­ar­kök­um, randalín­um og smá­kök­um er alltumlykj­andi, enda jól­in á næsta leiti. Ást Íslend­inga á sæt­um kök­um og brauði er þó ekki bund­in við eina árstíð og fátt er betra en að vakna snemma um helg­ar til að skjót­ast í bakarí fyr­ir fjöl­skyld­una. Bera fram nýbakað brauð, álegg og jafn­vel leyfa börn­un­um að sökkva sér í kleinu­hring eða volg­an snúð.

Bak­araiðn á sér langa sögu hér á landi. Árið 1834 stóð kaupmaður­inn Peter C. Knudt­son fyr­ir bygg­ingu húsa á Torf­unni svo­kölluðu, þar sem eitt hús­anna var búið bak­ara­ofni. Þangað réðst til starfa er­lendi bak­ara­meist­ar­inn Tönnies Daniel Bern­höft og Ber­höfts-bakarí varð til. Fram­an af voru ein­ung­is bakaðar nokkr­ar teg­und­ir af brauði, svo sem rúg­brauð, fransk­brauð, súr- og land­brauð, en smám sam­an jókst úr­valið og þótti fjöl­breytt um alda­mót­in 1900. Þar með var grunn­ur­inn lagður að baka­rís­menn­ingu sem er löngu rót­gró­in í sam­fé­lag­inu. Form­legt nám í bak­araiðn hófst í Iðnskól­an­um í Reykja­vík árið 1964 og greina mátti mikla ánægju yfir því að stórt bar­áttu­mál bak­ara­stétt­ar­inn­ar væri í höfn!

Enn má merkja mikla ánægju með ís­lensk bakarí, en ánægj­an nær einnig til annarra iðngreina. Við erum stolt af fag­mennsku þeirra sem lært hafa sína iðn í ís­lensk­um skól­um og loks­ins er okk­ur að tak­ast að ryðja úr vegi kerf­is­læg­um hindr­un­um í starfs­mennta­kerf­inu – nokkuð sem lengi hef­ur verið rætt, án sýni­legs ár­ang­urs fyrr en nú. Kerf­is­breyt­ing­un­um er ætlað að jafna stöðu iðnnáms og bók­náms, fjölga þeim sem mennta sig í takt við eig­in áhuga, auka veg og virðingu iðngreina og upp­fylla bet­ur þarf­ir sam­fé­lags­ins. Þetta er mín mennta­hug­sjón.

Stefnt er að því að frá og með næsta skóla­ári fái iðnmenntaðir sem vilja aðgang að há­skól­um, rétt eins og bók­menntaðir fram­halds­skóla­nem­ar. Í því felst bæði sjálf­sögð og eðli­leg grund­vall­ar­breyt­ing. Önnur slík felst í nýrri aðferðafræði við vinnustaðanám iðn- og starfsnema en fram­veg­is mun skóla­kerfið tryggja náms­lok nem­enda, sem ráðast ekki af aðstæðum nema til að kom­ast á starfs­samn­ing. Reglu­gerð í þessa veru verður gef­in út á næstu dög­um, en þetta er lík­lega stærsta breyt­ing­in sem orðið hef­ur á starfs­mennta­kerf­inu í ára­tugi. Aukn­um fjár­mun­um hef­ur verið veitt til tækja­kaupa og til að bæta kennsluaðstæður í starfs­mennta­skól­um. Við höf­um ráðist í kynn­ingar­átak með hagaðilum til að vekja at­hygli á starfs- og tækni­námi, skóla­hús­næði verið stækkað og und­ir­bún­ing­ur að nýj­um Tækni­skóla er haf­inn.

Sam­hliða hef­ur ásókn í starfs­nám auk­ist gríðarlega og nú kom­ast færri að en vilja. Ein­hverj­ir kalla það lúxusvanda, en minn ásetn­ing­ur er að tryggja öll­um nám við hæfi, bæði hár­greiðslu­mönn­um og smíðakon­um. Með fjöl­breytta mennt­un og ólíka færni byggj­um við upp sam­fé­lag framtíðar­inn­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Mikilvægi norræns samstarfs fyrr og nú

Deila grein

27/11/2020

Mikilvægi norræns samstarfs fyrr og nú

Margt hef­ur áunn­ist frá þeim tíma sem Norður­landaráð var stofnað árið 1952 til að bæta sam­vinnu og sam­starf land­anna. Sama ár og Norður­landaráð var stofnað var tekið upp vega­bréfa­frelsi á ferðum inn­an Norður­land­anna og tveim­ur árum síðar gekk sam­eig­in­leg­ur vinnu­markaður Norður­landa í gildi með frjálsri för launa­fólks sem varð und­an­fari innri markaðar Evr­ópu­sam­bands­ins.

Árið 1955 tók Norður­landa­samn­ing­ur­inn um fé­lags­legt ör­yggi gildi. Þá höfðu farið fram viðræður um tolla- og efna­hags­banda­lag milli Norður­land­anna og Evr­ópu­ríkj­anna en í júlí árið 1959 ákváðu stjórn­völd land­anna að taka þau áform af nor­rænni dag­skrá. Tíu dög­um síðar náðu Dan­mörk, Nor­eg­ur og Svíþjóð sam­an um Fríversl­un­ar­sam­tök Evr­ópu (EFTA) en Finn­land gerðist aukaaðili árið 1961. Ekki leið á löngu þar til Dan­ir og Norðmenn sóttu um aðild að EBE, Efna­hags­banda­lagi Evr­ópu. Staðan inn­an EFTA breytt­ist og viðleitni nor­rænna landa til að ger­ast aðilar að EBE ýtti und­ir fast­an sátt­mála um nor­rænt sam­starf. Úr varð að „Nor­ræna stjórn­ar­skrá­in“ var samþykkt í Hels­inki hinn 23. mars árið 1962, svo­nefnd­ur Hels­ing­fors­samn­ing­ur. Þar var því slegið föstu að Norður­landaráð skyldi fá tæki­færi til að tjá sig um mik­ils­verð efni nor­rænn­ar sam­vinnu.

Græn­lend­ing­ar verða aðilar að ráðinu

Árið 1958 var um­fangs­meiru nor­rænu vega­bréfa­sam­bandi komið á sem var und­an­fari Schengen-sam­starfs­ins sem við þekkj­um í dag. Þá varð mun auðveld­ara fyr­ir Norður­landa­búa að ferðast til ná­granna­land­anna. Árið 1962 var nor­ræni lýðheilsu­há­skól­inn vígður í Gauta­borg og fjór­um árum síðar var samn­ing­ur um nor­ræna menn­ing­ar­sjóðinn und­ir­ritaður en sjóðnum var einkum ætlað að styrkja menn­ing­ar­verk­efni með þátt­töku eigi færri en þriggja nor­rænna landa. Í ág­úst árið 1968 var Nor­ræna húsið í Reykja­vík vígt en finnski arki­tekt­inn Al­var Aalto teiknaði það. Tveim­ur árum síðar samþykkti Norður­landaráð að full­trú­ar Álands­eyja og Fær­eyja gætu tekið þátt í störf­um ráðsins í gegn­um lands­deild­ir Dan­merk­ur og Finn­lands. Árið 1984 urðu full­trú­ar Græn­lands einnig aðilar að ráðinu í gegn­um lands­deild danska ríkja­sam­bands­ins.

Hindr­an­ir á landa­mær­um

Það er áhuga­vert að líta til baka rúm 60 ár aft­ur í tím­ann þegar und­an­fara Schengen-sam­starfs­ins var komið á en Norður­landaráð hef­ur ein­mitt á for­mennsku­ár­inu nú í ár bent á að marg­ar nýj­ar hindr­an­ir hafa komið upp á landa­mær­um nor­rænu ríkj­anna í tengsl­um við kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn. Þetta hef­ur valdið venju­legu fólki og fyr­ir­tækj­um mikl­um vand­ræðum. Norður­landaráð tel­ur betra að komið sé í veg fyr­ir slík­ar hindr­an­ir og að erfiðleik­ar komi upp með sam­eig­in­leg­um fyr­ir­byggj­andi aðgerðum. Nor­ræna ráðherra­nefnd­in og Norður­landaráð hafa unnið mikið starf á síðustu árum að því að draga úr stjórn­sýslu­hindr­un­um á landa­mær­um ríkj­anna en sér­stakt stjórn­sýslu­hindr­anaráð er að störf­um fyr­ir Nor­rænu ráðherra­nefnd­ina og stjórn­sýslu­hindr­ana­hóp­ur á veg­um Norður­landaráðs.

Áhersla á um­hverf­is­mál

Í lok sjötta ára­tug­ar síðustu ald­ar hófu stjórn­völd ríkj­anna skuld­bind­andi sam­starf með stofn­un Nor­rænu ráðherra­nefnd­ar­inn­ar en á þeim tíma hafði ráðið opnað skrif­stofu í Stokk­hólmi. Stofn­un Nor­ræna fjár­fest­inga­bank­ans gaf til­efni til fyrsta aukaþings Norður­landaráðs sem haldið var í nóv­em­ber árið 1975 en aðal­bækistöðvar hans voru staðsett­ar í Hels­inki í Finn­landi. Í kjöl­far hins al­var­lega kjarn­orku­slyss sem varð í Tsjerno­byl í Norður-Úkraínu árið 1986 hélt Norður­landaráð tvær stór­ar ráðstefn­ur um um­hverf­is­mál þar sem umræðuefn­in voru meng­un and­rúms­lofts­ins ásamt líf­ríki sjáv­ar. Allt frá þess­um tíma hef­ur verið lögð mik­il áhersla á um­hverf­is­mál í nor­rænu sam­starfi.

Múr­inn fell­ur

Árið 1990, áður en Sov­ét­rík­in liðu und­ir lok og Eystra­salts­rík­in end­ur­heimtu sjálf­stæði sitt, höfðu verið tek­in upp sam­skipti við stjórn­mála­fólk í balt­nesku lönd­un­um. Full­trú­ar Eystra­salts­ríkj­anna sóttu þing Norður­landaráðs í Kaup­manna­höfn í lok fe­brú­ar árið 1991 en mánuði áður hafði dregið til tíðinda í Viln­íus og Riga. Þegar lönd­in end­ur­heimtu sjálf­stæði sitt hófst náið sam­starf Norður­landaráðs við ný systra­sam­tök, Eystra­salts­ríkjaráðið. Smám sam­an jókst einnig sam­starf við rúss­neska þing­menn. Árið 1996 flutti skrif­stofa Norður­landaráðs frá Stokk­hólmi til Kaup­manna­hafn­ar und­ir sama þak og skrif­stofa Nor­rænu ráðherra­nefnd­ar­inn­ar. Sam­starfið er enn að þró­ast og Norður­landaráð hef­ur myndað tengsl við þing­menn í ýms­um öðrum lönd­um utan Norður­land­anna. Árið 2007 voru tek­in upp sam­skipti við stjórn­ar­and­stöðu og stjórn­völd í Hvíta-Rússlandi. Grunn­gildi nor­rænna sam­fé­laga eru mann­rétt­indi, lýðræði og rétt­ar­ríkið. Það er mik­il­vægt að Norður­lönd­in haldi þess­um gild­um á lofti, ekki síst nú á tím­um þar sem öfga­hyggja fer vax­andi og sótt er að rétt­ar­rík­inu og lýðræðinu. Norður­lönd­in eiga að taka sér meira pláss í alþjóðasam­fé­lag­inu því þar eig­um við er­indi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokks og forseti Norðurlandsráðs.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. nóvember 2020.

Categories
Fréttir

Framsóknar appið

Deila grein

27/11/2020

Framsóknar appið

Framsóknar appið er til að flokksmenn og áhugamenn um pólitík geti fylgst með fréttum og viðburðum sem Framsókn vill koma á framfæri. Einnig er hægt að sjá þau kjördæmi sem Ísland skiptist upp í og þá fulltrúa sem eru kjörnir fyrir hönd Framsóknar í hverju kjördæmi fyrir sig.

Appið er hægt að sækja á Google Play eða App Store.

Categories
Greinar

Eitt ár í lífi barns

Deila grein

25/11/2020

Eitt ár í lífi barns

Í gær mælti félags- og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason fyrir frumvarpi um fæðingar- og feðraorlof, þar eru lagðar til breytingar um lengingu á fæðingarorlofi í 12 mánuði. Þau börn sem fæðist núna eftir áramótin eiga rétt að njóta samvista við foreldra sína í heilt ár að jöfnu, eða a.m.k. 5 mánuði og eru 2 mánuðir sem foreldrar geta skipt á milli sín. Einnig eru lagðar fram fleiri breytingar á útfærslu fæðingarorlofsins, þar er að finna tillögur sem komu út úr vinnu nefndar sem félags- og barnamálaráðherra skipaði á síðasta ári og hafði það hlutverk að endurskoða lögin í heild sinni. Sú endurskoðun er í samræmi við stefnu stjórnvalda um að efla fæðingarorlofskerfið og það hefur tekist því alls er gert ráð fyrir að 19,1 ma. króna verði varið í fæðingarorlof á árinu 2021 sem er tæplega tvöföldun á þeim fjármunum sem fóru til málaflokksins árið 2017, á verðlagi hvors árs.

Einstæðir foreldrar

Í frumvarpinu er að finna breytingar sem gefur einstæðum foreldrum tækifæri að nýta sér þann rétt sem foreldris sem af einhverjum ástæðum er ekki til staðar. Líkt og þegar ekki hefur reynst mögulegt að feðra barn samkvæmt barnalögum, þegar foreldri er gert að sæta nálgunarbanni eða brottvísun af heimili samkvæmt lögum um nálgunbann eða þegar umgengni annars foreldris við barnið er engin eða hún verulega takmörkuð. Þegar annað foreldrið hefur ekki rétt til töku orlofs í sínu heimaríki er hægt að yfirfæra réttinn milli foreldra.

Fæðingarstyrkur fyrir konur af landsbyggðinni

Það er ekki bara María Mey sem þarf milli byggðarlaga til að eignast barn. Fæðingarstöðum á landinu hefur fækkað á síðustu áratugum og eru nú einungis 8 fæðingardeildir á landinu og ein fæðingarstofa. Konur þurfa ekki lengur að ferðast til fæðingarstaðar á asna en þær þurfa í nokkrum tilfellum að ferðast töluvert. Ef um áhættufæðingu er að ræða þurfa þær að fara til Reykjavíkur og dæmi eru um að konur þurfa að vera fjarri heimili sínu og fjölskyldu jafnvel í nokkrar vikur bæði fyrir og eitthvað eftir fæðingu barns síns. Það er því ánægjulegt að í nýju fæðingarorlofi er gert ráð fyrir fæðingarstyrk í þeim tilvikum og þá er tekið tillit til þess að kona þarf að dvelja í einhvern tíma fyrir áætlaðan fæðingardag fjarri heimili sínu.

Framsókn og fæðingarorlof

Það kemur ekki á óvart að breytingum á fæðingarorlofinu sé komið í framkvæmd á vakt Framsóknarflokksins í ráðuneytinu. Framsóknarflokkurinn hefur á sinni vakt í þessu ráðuneyti stigið stór skref til að bæta réttindi verðandi foreldra, það var Páll Pétursson þáverandi félagsmálaráðherra sem kom því í lög árið 2001 að feður skyldu líka eiga rétt á að taka foreldraorlof. Það þótti mikilvægt að binda í lög rétt barnsins að fá að umgangast báða foreldra sína á fyrstu mánuðum lífs síns.

Tímamótaáfangi

Í sameiginlegri umsögn prófessors í félagsráðgjöf og dósents í félagsfræði við Háskóla Íslands um frumvarpið kemur meðal annars fram að lengingin á rétti foreldra til fæðingarorlofs sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu sé tímamótaáfangi til hagsbóta fyrir fjölskyldur í þágu hagsmuna barna og foreldrajafnréttis. Jafnframt kemur fram að ítrekaðar kannanir meðal foreldra sýni að sjálfstæður réttur foreldra til fæðingarorlofs sé sérstaklega mikilvægur þegar fjölskyldur deila ekki lögheimili, en stór hluti feðra sem deilir ekki lögheimili með börnum sínum nýtir sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs.

Bilið brúað

Lenging fæðingarorlofs auðveldar foreldrum að brúa bilið eftir að fæðingarorlofi líkur þar til börnin fá leikskólapláss. Þetta bil hefur verið streituvaldandi fyrir foreldra og valdið því að foreldrar og þá sérstaklega konur hafa dottið út af vinnumarkaði um tíma. Víða um land eru sveitarfélögin farin að bjóða upp á leikskólapláss allt niður í 12 mánaða aldur. En fæðingarorlof verður að endurspegla samfélagsgerð á hverjum tíma og því er nauðsynlegt að taka þessi mál upp reglulega til að bæta og aðlaga.

Til hamingju með þetta mikilvæga skref í velferð barna og með því er líka verið að stíga mikilvægt skref í jafnrétti foreldra til að njóta samvista við nýjan fjölskyldumeðlim. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Jafn­réttinu rigndi ekki yfir okkur

Deila grein

25/11/2020

Jafn­réttinu rigndi ekki yfir okkur

Við getum öll verið sammála um að jafnrétti ætti að vera sjálfsagður hlutur, en hvorki Ísland né önnur ríki heims hafa náð fullkomnu jafnrétti milli kynjanna. Við getum þó verið stolt af því að Ísland skori hæst þjóða á alþjóðlegum mælikvörðum um jafnrétti kynjanna og hefur gert í allmörg ár. Jafnréttinu rigndi samt ekki yfir okkur af himnum ofan, það hefur verið barist fyrir því í grasrótinni. Leikreglum samfélagsins hefur verið breytt m.a. með lögum og reglum, til að koma okkur þangað sem við erum í dag. Barátta fyrir jafnrétti er og verður stöðugt og viðvarandi verkefni, það birtast nýjar áskoranir og það fæðast nýjar kynslóðir.

Sjálfstæður réttur foreldra til fæðingarorlofs

Nú erum við í miðri umræðunni um áframhaldandi framþróun fæðingarorlofsins og þá er holt að rifja upp að þrátt fyrir sameiginlegan rétt til fæðingarorlofs í fjölda ára voru alltof fáir feður sem nýttu sér réttinn fyrr en þeir fengu sjálfstæðan orlofsrétt. Rannsóknir sýna að fáar aðgerðir stjórnvalda hafa leitt til annarra eins framfara í jafnrétti kynjanna eins og sjálfstæður réttur foreldra til orlofs, sem komið var á 2001, jafnt á vinnumarkaði og inn á heimilum. Ýmsir telja að foreldrar ættu að geta að skipta orlofinu á milli sín eins og hverri fjölskyldu sýnist. Rökin fyrir því eru gjarnan að það muni svo miklu á tekjum, náum við einhvern tíma jafnrétti í launum ef fæðingarorlofinu verður skipt milli foreldra með þessum rökum?

Vissulega hafa almenn viðhorf til orlofs feðra breyst en það er samt langt í land með jafnrétti á kynjaskiptum vinnumarkaði þar sem launamunur er enn alltof mikill. Þá tryggir sjálfstæður réttur foreldra til fæðingarorlofs börnum nauðsynleg tengsl við báða foreldra á fyrstu mánuðum ævinnar. Rannsóknir hafa á síðustu árum sýnt okkur fram á tengslamyndun við foreldra á þessu tímabili skiptir enn meira máli fyrir farsæla ævi en lengst af var viðurkennt.

Við höfum svo sannarlega verið minnt á það á COVID tímum að ekki er sjálfgefið að jafnréttinu miði alltaf fram á við og að allar framfarir í jafnréttismálum haldi. Það er margt sem bendir til bakslags í jafnréttismálum á heimsvísu á árinu 2020. Verjum þann árangur sem við höfum náð og höldum í sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs samhliða framþróun íslenskrar fæðingarorlofslöggjafar. Vinnum saman að auknu jafnrétti og tengslamyndun barna við báða foreldra.

Fæðingarorlofið er afurð jafnréttisbaráttunnar og þarf að vera liður í henni áfram, það er hornsteinn jafnréttis bæði á vinnumarkaði sem og í samfélaginu öllu. Jafnréttismál verða aldrei strikuð út af verkefnalista stjórnmálanna.

Fæðingarorlofið var ekki dregið upp úr hatti, það er mannanna verk og þar hefur Framsóknarflokkurinn sannarlega lagt sitt að mörkum m.a. með frumvarpi Páls Pétursson árið 2000 og frumvarpi Ásmundar Einars Daðasonar 2020.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. nóvember 2020.

Categories
Fréttir

Páll Pétursson látinn

Deila grein

24/11/2020

Páll Pétursson látinn

Páll Pétursson frá Höllustöðum, bóndi, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, lést á Landspítalanum í gær, 23. nóvember, 83 ára að aldri.

Páll var fæddur á Höllustöðum í Blöndudal 17. mars 1937. Foreldrar hans voru Pétur Pétursson (fæddur 30. nóvember 1905, dáinn 7. maí 1977) bóndi á Höllustöðum í Blöndudal og kona hans Hulda Pálsdóttir (fædd 21. ágúst 1908, dáin 9. janúar 1995) húsmóðir. Páll giftist Helgu Ólafsdóttur 26. júlí 1959 en hún var fædd fædd 30. október 1937, dáin 23. maí 1988. Foreldrar hennar voru Ólafur Þ. Þorsteinsson og kona hans Kristine Glatved-Prahl. Páll giftist Sigrúnu Magnúsdóttur giftist Sigrúnu Magnúsdóttur 18. ágúst 1990 (fædd 15. júní 1944) alþingismaður, ráðherra og borgarfulltrúi í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Magnús Jónsson Scheving og kona hans Sólveig Vilhjálmsdóttir. Börn Páls og Helgu eru Kristín (1960), Ólafur Pétur (1962), Páll Gunnar (1967). Dætur Sigrúnar og stjúpdætur Páls eru Sólveig Klara (1971)og Ragnhildur Þóra (1975).

Páll lauk stúdentsprófi frá MA 1957 og var bóndi á Höllustöðum síðan 1957. Skipaður 23. apríl 1995 félagsmálaráðherra, lausn 28. maí 1999. Skipaður 28. maí 1999 félagsmálaráðherra, lausn 23. maí 2003. Páll var formaður FUF í Austur-Húnavatnssýslu 1963–1969. Í hreppsnefnd Svínavatnshrepps 1970–1974. Formaður Veiðifélags Auðkúluheiðar 1972–1977. Fulltrúi Austur-Húnvetninga á fundum Stéttarsambands bænda 1973–1977. Formaður Hrossaræktarsambands Íslands 1974 og 1980. Í Norðurlandaráði 1980–1991, formaður Íslandsdeildar þess 1983–1985. Forseti Norðurlandaráðs 1985 og 1990. Í flugráði 1983–1992. Kjörinn í samstarfsnefnd með Færeyingum og Grænlendingum 1981 um sameiginleg hagsmunamál. Í Rannsóknaráði 1978–1980. Í Vestnorræna þingmannaráðinu 1985–1987, formaður. Í stjórn Landsvirkjunar 1987–1995. Kosinn í Evrópustefnunefnd 1988. Í þingmannanefnd EFTA/EES 1991–1995.

Páll var alþingismaður Norðurlands vestra 1974–2003. Félagsmálaráðherra 1995–2003. Formaður þingflokks Framsóknarmanna 1980–1994. Hann sat í utanríkismálanefnd 1991–1995 (varaform. 1994–1995), iðnaðarnefnd 1991–1995, sérnefnd um stjórnarskrármál 1992–1995.

Við Framsóknarmenn minnumst ráðherra og alþingismanns með djúpri virðingu og þakklæti fyrir störf í þágu Framsóknarflokksins og þjóðarinnar. Framsóknarfólk vottar aðstandendum innilega samúð.

***