Categories
Greinar

Brýnasta velferðarmálið

Deila grein

06/03/2017

Brýnasta velferðarmálið

Um allangt skeið hafa vextir á Íslandi verið mun hærri en gerist og gengur í öðrum vestrænum ríkjum.

Almennt séð hljóta háir vextir að rýra lífskjör almennings sem og samkeppnisstöðu atvinnulífsins og langvarandi vaxtamunur við útlönd, óháð hagsveiflum, hlýtur því að fela í sér töluvert velferðartap fyrir landið. Það ætti því enginn að velkjast í vafa um það að lækkun vaxta sé eitt brýnasta velferðarmálefni sem nú blasir við landsmönnum.

Of háir, of lengi

Vaxtamunur við útlönd hefur gjarnan verið rakinn til þess að verðbólga hér hefur verið hærri en erlendis. Það leiðir til hærri verðbólguvæntinga, sem svo hlýtur að leiða til hærri nafnvaxta. Jafnframt að sparnaðarhneigð sé fremur lítil meðal almennings og því þurfi tiltölulega hátt raunvaxtastig til þess að halda innlendri eftirspurn í skefjum á uppsveiflutímum. Þessi rök eru í sjálfu sér góð og gild. Hins vegar er staðan sú að verðbólga og verðbólguvæntingar hafa verið vel neðan við skilgreind verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands undanfarin þrjú ár. Jafnframt er ljóst að einkaneysla hefur þrátt fyrir allt vaxið hægar en ráðstöfunartekjur á sama tíma, samhliða því að skuldir heimilanna hafa lækkað sem hluti af landsframleiðslu. Virðist því sem að tengslin á milli sparnaðar og vaxta hafi breyst eftir bankahrun. Allan þennan tíma, frá ársbyrjun 2014, hefur Seðlabankinn spáð hærri verðbólgu en raunin hefur orðið og miðað stýrivexti sína við þær spár. Má af því leiða að bankinn hefur haldið vöxtum of háum allan þennan tíma.

Alþingi og Seðlabankinn

Vart verður um það deilt að sjálfstæði seðlabanka er einn af hornsteinum hans. Pólitísk afskipti af bankanum ættu að vera sem minnst. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að lög um markmið Seðlabankans, og bankana að öðru leyti, eru samin af löggjafanum, Alþingi, og eru því í eðli sínu pólitísk. Þá má ekki gleyma því að Seðlabanki Íslands er banki ríkissjóðs. Útgjöld sem ákveðin eru af Alþingi og framkvæmd af ráðherrum eru greidd af Seðlabankanum þar sem helsti viðskiptareikningur ríkissjóðs er til staðar.

Seðlabankinn getur ekki neitað ríkissjóði um bankaþjónustu á borð við útgreiðslu gjalda sem Alþingi hefur samþykkt að skuli eiga sér stað jafnvel þótt Seðlabankinn geti gert athugasemd um hagræn áhrif slíkra útgjalda, sem hann oft gerir. Þá sér Seðlabankinn um að gefa út ríkisskuldabréf á markaði. Starfsemi Seðlabankans er við kemur þjónustu við pólitíska aðila er því töluverð þótt Seðlabankinn sé sjálfstæður þegar kemur að beitingu stýritækja sinna.

Lokkandi stýrivextir

Eitt af helstu stýritækjum Seðlabankans til að tryggja verðbólgumarkmið, eru svo kallaðir stýrivextir, sem eru grundvöllur að vaxtastiginu í landinu. Eftir því sem vextir Seðlabankans eru hærri, því hærri eru vextir á markaði. Það er ekki óalgengt að svo kölluð vaxtamunaviðskipti (e. carry-trade) séu stunduð á mörkuðum smárra mynta, eins og íslensku krónunnar. Þá taka fjárfestar lán á lágum vöxtum og fjárfesta þar sem hærri vextir bjóðast.

Það blasir við að vaxtastefna Seðlabankans átti stóran þátt í því hversu mikið fjármagn kom til landsins í aðdraganda hrunsins; hinir háu vextir lokkuðu fjárfesta hingað. Þess má geta að vextir í mörgum Evrópulöndum eru nú í kringum 0,0%, en á Íslandi eru þeir 5,0%. Staðan um þessar mundir á Íslandi er svo sú, að íslenskir fjárfestar hafa búið við gjaldeyrishöft frá haustinu 2008 og vegna þeirra hefur byggst upp ójafnvægi milli núverandi vægis eigna í eignasöfnum þeirra þegar kemur að innlendum og erlendum eignum. En m.a. vegna hárra vaxta á Íslandi minnkar hvati lífeyrissjóða – og annarra íslenskra aðila – til að dreifa áhættu fjárfestinga sinna milli Íslands og umheimsins. Vægi hins óstöðuga íslenska hagkerfis verður of mikið miðað við erlend hagkerfi í eignasöfnum lífeyrissjóða sem dregur úr styrk þeirra til að mæta efnahagslegum áföllum. Þessi staða getur ekki talist heppileg.

Svara þarf …

Nú hefur verið lögð fram á Alþingi, af þingflokki Framsóknar, tillaga til þingsályktunar um að fela forsætisráðherra að skipa þverpólitíska nefnd óháðra sérfræðinga til að rannsaka með greinargóðum og nákvæmum hætti: Áhrif af breytingum á gengi íslensku krónunnar á innlenda neysluhegðun; áhrif af gengissveiflum á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og atvinnugreinaskiptingu landsins; tengsl stýrivaxta Seðlabanka Íslands og gengis íslensku krónunnar; áhrif af innstreymi gjaldeyris á innlenda vexti, bæði langtíma og skammtímavexti; hvort 3,5% uppgjörskrafa lífeyrissjóða stuðli að háum langtímavöxtum á Íslandi; hvort vaxtastefna Seðlabanka Íslands stuðli að háum vaxtakostnaði fyrir ríkissjóð.

Svör við þessum spurningum eru afar mikilvæg til að tryggja samkeppnishæfni landsins, stöðugleika og almenna velferð.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. mars 2017.

Categories
Greinar

Efnahags- og viðskiptanefnd kemur að borðinu

Deila grein

04/03/2017

Efnahags- og viðskiptanefnd kemur að borðinu

Fjármálakerfið á að styðja við hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu, en ekki vera eingöngu til fyrir sjálft sig. Stjórnvöld eru í einstakri stöðu til að búa svo um hnútana að fjármálakerfið tryggi hagsæld í landinu. Ekki aðeins getur ríkisvaldið mótað lagaumgjörð fjármálafyrirtækja, heldur geta stjórnvöld gripið til beinna aðgerða í ljósi umfangsmikils eignarhalds á stærstu fjármálafyrirtækjum landsins.

Fjármála- og efnahagsráðherra birti nýverið drög að eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins. Í henni er aðallega fjallað um vilja hins opinbera til að selja hlut sinn, en engin framtíðarsýn er sett fram fyrir fjármálakerfið í heild. Ríkissjóður ráðgerir að eiga 34-40% eignarhlut í Landsbankanum hf. til langframa, en selja allan eignarhlut sinn í Íslandsbanka og Arion banka þegar aðstæður leyfa.

Hér þarf að staldra við, því áður en kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki verða selda þurfum við að meta hvernig fjármálakerfi hentar best íslenskum aðstæðum. Við eigum að; 1) skoða heildarstærð bankakerfisins, hvort hægt sé að hagræða og þá lækka þjónustugjöld og vaxtakostnað, 2) meta hversu stór eignarhlutur ríkissjóðs á að vera í fjármálafyrirtækjum til skemmri og lengri tíma litið, 3) meta hvort og þá með hvaða hætti eigi að skilja að viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi, 4) meta hvort dreift eignarhald eða samþjappað þjóni hagkerfinu best til lengri tíma litið og 5) skoða hvernig bankakerfið geti miðlað erlendri lánsfjármögnun í samkeppni við erlenda banka. Í þessari mikilvægu vinnu er brýnt að líta til alþjóðlegrar þróunar og taka mið af reynslu annarra þjóða.

Í umræðum á Alþingi í upphafi vikunnar lagði ég áherslu á mikilvægi þess að ráðast í heildarendurskoðun á fjármálakerfinu áður en sala ríkiseigna hæfist. Víðtæk sátt virðist vera um slíka endurskoðun innan efnahags- og viðskiptanefndar er samstaða um að taka málið að sér og vinna vegvísi að framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar. Það er fagnaðarefni að löggjafinn hafi tekið að sér það mikilvæga hlutverk á fyrstu stigum málsins. Fólkið í landinu á skilið að vandað verði til verka.

Lilja Alfreðsdóttir.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 4. mars 2017. 

Categories
Fréttir

Hvers vegna dregst svo að jafna stöðu foreldra með sameiginlega forsjá?

Deila grein

02/03/2017

Hvers vegna dregst svo að jafna stöðu foreldra með sameiginlega forsjá?

,,Hæstv. forseti. Þann 24. september 2015 skilaði starfshópur um jafna stöðu barna niðurstöðum sínum. Niðurstöðurnar voru að gerðar verði breytingar á barnalögum til að jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna og ákveða að ala upp barn saman á tveimur heimilum. Niðurstöður hópsins voru að nýtt ákvæði ætti að koma inn í lögin sem heimili skipta búsetu barns á grundvelli staðfests samkomulags foreldra að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Auk þess eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum varðandi opinberan stuðning, breytingar á lögum um lögheimili og breytingar á barnalögum. Ásamt því er lagt til að sveitarfélög landsins lagi þjónustu sína að breyttum þjóðfélagsháttum og taki þannig virkt tillit til jafnrar ábyrgðar og skyldna foreldra á uppeldi og umönnun barna í málum sem þau varða og falla undir valdsvið sveitarfélaga.
Nú er komið eitt og hálft ár síðan starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum. Einu breytingarnar sem komið hafa fram eru að með nýjum lögum um húsnæðisbætur telst barn til heimilis hjá báðum foreldrum sínum og eru það afar jákvæð skref. En enn er beðið eftir öðrum aðgerðum sem starfshópurinn lagði til. Þess vegna lagði ég á dögunum fram fyrirspurn á hv. Alþingi til hæstv. dómsmálaráðherra þar sem ég spurði hvort unnið væri að lagabreytingum á grunni skýrslu fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum sem lögð var fyrir Alþingi í september 2015. Ef svo væri, hvenær yrðu frumvörpin um málin lögð fram. Ef ekki, hvenær ætlar ráðherra að hefja þá vinnu?
Ég hef fulla trú á að ráðherra svari fyrirspurn minni fljótt og vel þar sem þetta mál er eitt af áherslumálum núverandi hæstv. ríkisstjórnar.
Í stjórnarsáttmálanum segir m.a. að samfélagið eigi að styðja við ólíkar fjölskyldugerðir og hvetja til þess að foreldrar sem ekki búa saman ali börn sín upp í sátt. Þar kemur jafnframt fram að réttur barna skuli tryggður til að vera skráð í skiptri búsetu á tveimur lögheimilum og að aðstaða umgengnisforeldra á lögheimilisforeldra verði jöfnuð.”
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 1. mars 2017.

Categories
Fréttir

Ekki má breyta fyrri áætlun stjórnvalda um losun hafta

Deila grein

02/03/2017

Ekki má breyta fyrri áætlun stjórnvalda um losun hafta

,,Virðulegi forseti. Sterk erlend staða þjóðarbúsins og styrking krónunnar að undanförnu hafa skapað tækifæri til afnáms fjármagnshafta. Trúverðug áætlun um losun fjármagnshafta hefur skilað miklum árangri og hefur Ísland áunnið sér að nýju traust á alþjóðavettvangi.
Nú berast fregnir af því að stjórnvöld eigi í viðræðum við fulltrúa bandarískra fjárfestingarsjóða til að kanna grundvöll að samkomulagi sem myndi gera þeim kleift að flytja eignir sínar úr landi í skiptum fyrir gjaldeyri. Samtals nema eignir þessara sjóða vel yfir 100 milljarða í aflandskrónum á Íslandi.
Sjóðirnir neituðu á sínum tíma að taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands í júní og fallast á skilyrði stjórnvalda eða skiluðu inn tilboðum í útboðið sem Seðlabankinn gat ekki samþykkt. Sjóðirnir hafa kvartað til eftirlitsstofnunar EFTA vegna aðgerða íslenskra stjórnvalda og segjast ætla að láta reyna á rétt sinn fyrir dómstólum. Í úrskurði sem barst frá ESA í nóvember var hins vegar ekkert gert með athugasemdir sjóðanna heldur sagði að aðgerðir stjórnvalda hefðu verið í samræmi við skuldbindingar Íslands gagnvart EES-samningnum.
Þeir aflandskrónueigendur sem kusu að taka ekki þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans í júní þurfa að sæta því að fjármunir þeirra flytjist yfir á vaxtalausa reikninga um ófyrirséðan tíma. Ég tel afar brýnt að stjórnvöld haldi sig við þá áætlun sem gerð var um losun fjármagnshafta þar sem gengisstöðugleiki og fjármálastöðugleiki í þágu landsmanna var ávallt leiðarstefið í allri vinnu stjórnvalda. Áætlunin hefur notið trúverðugleika og gengið afar vel. Næsta skrefið í losun fjármagnshafta er enn frekari losun á almenning og fyrirtæki í landinu. Því væri það stefnubreyting ef hleypa ætti aflandskrónueigendum með eignir sínar á undan almenningi og fyrirtækjum í landinu.”
Lilja Alfreðsdóttir í störfum þingsins 1. mars 2017.

Categories
Fréttir

Gengur ekki að samþykkt mál þingmanna dagi uppi í ráðuneytunum

Deila grein

01/03/2017

Gengur ekki að samþykkt mál þingmanna dagi uppi í ráðuneytunum

,,Virðulegi forseti. Á Alþingi starfa 63 þingmenn. Helstu verkefni okkar felast í að afgreiða þingsályktanir og lagafrumvörp. Í þá vinnu fara mörg þúsund vinnustundir á ári hverju.
Hæstv. forseti. Það hefur tekið þann þingmann sem hér stendur nokkur ár að komast að því hversu ómarkviss og óskilvirk þessi vinna er oft og tíðum. Við getum gert miklu betur. Dæmi um óskilvirkni er að hér afgreiðum við oft þingmál sem ekki hafa verið kostnaðarmetin. Þingmannamál eru t.d. sjaldnast kostnaðarmetin og hið sama gildir um breytingartillögur nefnda Alþingis. Þar af leiðir að við afgreiðum frá okkur mál sem síðan dagar jafnvel uppi í ráðuneytunum hjá framkvæmdarvaldinu þar sem menn telja sig ekki hafa fjármuni til að framkvæma þau. Dæmi um slíkt verkefni er þingsályktunartillaga sem ég lagði fram og Alþingi samþykkti á síðasta ári. Tillagan gekk út á að fela heilbrigðisráðherra að endurskoða reglur um greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferða fyrir árslok 2016. Velferðarnefnd afgreiddi málið á þann veg að gætt yrði að eftirtöldum atriðum: Að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái til fyrstu glasafrjóvgunarmeðferðar og að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga sé óháð því hvort pör eða einstaklingar eigi barn fyrir.
Svona afgreiddi Alþingi málið frá sér þann 8. september síðastliðinn. Nú erum við að detta inn í þriðja mánuð ársins 2017. Samkvæmt mínum heimildum hefur ekkert gerst í tæknifrjóvgunarmálinu síðan það var samþykkt í september. Það þykir mér miður þar sem ég veit að fjöldi fólks treystir á að reglunum verði breytt.
Við verðum að laga vinnubrögðin á Alþingi þannig að öll mál sem við samþykkjum hafi raunverulegt gildi og séu ekki bara orðin tóm.”‘
Silja Dögg Gunnarsdóttir 28. febrúar 2017.

Categories
Fréttir

Húsnæðisstuðningur barna 15-17 ára skilar sér ekki

Deila grein

28/02/2017

Húsnæðisstuðningur barna 15-17 ára skilar sér ekki

„Hæstv. forseti. Nú hefur hæstv. ríkisstjórn ákveðið að setja á fót aðgerðahóp sem gera á tillögur um samræmdar aðgerðir á sviði húsnæðismála og er það vel. Eins og mörgum er kunnugt fór síðasta ríkisstjórn, undir forystu Framsóknarflokksins, í umfangsmiklar aðgerðir í húsnæðismálum og í þeirri vinnu var m.a. mikið rætt um sérstakar húsnæðisbætur og húsnæðisbætur til námsmanna á aldrinum 15–17 ára sem búa á heimavist eða á viðurkenndum námsgörðum. Í framhaldi af þeirri vinnu var þverpólitísk sátt héðan frá hv. Alþingi um það, meðal allra nefndarmanna í hv. velferðarnefnd, að frá og með síðustu áramótum væri öllum sveitarfélögum skylt að veita þennan stuðning.
Leiðbeinandi reglur voru settar um þennan stuðning en þær eru eftirfarandi: Að sveitarfélög skuli veita sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við nánari reglur sem sveitarstjórn setur og að sveitarfélög skuli veita foreldrum eða forsjáraðilum 15–17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum, vegna náms fjarri lögheimili, húsnæðisstuðning. Sá stuðningur skal vera óháður tekjum og eignum foreldra eða forsjármanna og ekki yfir 75% af húsnæðiskostnaði vegna leigunnar. Auk þessa þarf að meta þunga framfærslubyrði einstaklinga sem sækja um sérstakan húsnæðisstuðning og líta til félagslegra aðstæðna. Markmið þessara laga, um almennan húsnæðisstuðning, og þessara reglna, sem ég vitna hér í, voru að enginn kæmi verr út úr nýja kerfinu en því gamla.
Hins vegar er það svo að við, mörg hver, hv. þingmenn, höfum fengið upplýsingar um að fjöldi einstaklinga fær ekki þennan sérstaka húsnæðisstuðning. Ég hef nú þegar kallað eftir fundi í hv. velferðarnefnd Alþingis til að ræða þessi mál og óskað eftir því að aðilar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar og velferðarráðuneytis mæti á fund nefndarinnar.
Ég skora jafnframt á hæstv. félagsmálaráðherra að beita sér fyrir þessum málum í þeim aðgerðum sem unnið er að í húsnæðismálum þessa dagana. Það er einstaklega mikilvægt að kanna hvort eina leiðin til að þessi sérstaki húsnæðisstuðningur virki eins og hann á að gera sé jafnvel að lögfesta hann. Til þessa verkefnis voru 800 milljónir skildar eftir hjá sveitarfélögunum svo að þau gætu sinnt því.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 28. febrúar 2017.

Categories
Greinar

Dauðafæri: framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar

Deila grein

27/02/2017

Dauðafæri: framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar

Ég vil fjármálakerfi sem er hagkvæmt og traust og þjónar landsmönnum öllum, jafnt heimilum og atvinnulífi. Fjármálakerfi sem er stöðugt og getur tryggt nauðsynlega innviði öllum stundum. Aðstæður á íslenskum fjármálamarkaði eru einstakar til mótunar framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar, þar sem eignarhald Ríkissjóðs Íslands á fjármálafyrirtækjum er með því umfangsmesta meðal ríkja í Evrópu. Ekki aðeins getur ríkisvaldið sett lagaumgjörð um bankana og þannig haft áhrif á framtíðarskipan fjármálakerfisins heldur getur það náð fram breytingum sem eigandi þeirra. Endurskipulagning bankakerfisins eftir fjármálaáfallið hefur tekist vel, bankarnir eru traustir og gæði eigna hafa aukist umtalsvert síðustu ár.

Engin framtíðarsýn í drögum að eigendastefnu
Hinn 10. febrúar sl. birti fjármála- og efnahagsráðherra uppfærð drög að eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki. Engin framtíðarsýn er sett þar fram fyrir utan það að selja skuli eignarhluti í bönkunum. Ríkissjóður stefnir að því að eiga 34-40% eignarhlut í Landsbankanum hf. til langframa í því skyni að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfi landsins og tryggja nauðsynlega innviði þess. Að öðru leyti er nefnt að 60-66% eignarhlutur í bankanum verði seldur á næstu árum þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi og jafnframt verði stefnt að skráningu á hlutabréfamarkaði. Ríkissjóður stefnir að því að selja allan eignarhlut sinn í Íslandsbanka og Arion banka þegar aðstæður leyfa.

Fjármálakerfið þjónusti heimili og fyrirtæki
Áður en lengra er haldið og tilkynnt er um umfangsmikla eignasölu á kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum þarf að ákveða hvernig fjármálakerfi hentar okkur best. Markmiðið hlýtur að vera að bankakerfið þjóni heimilum og atvinnulífi á hagkvæman hátt og að fjármálakerfið sé traust. Í þeirri vinnu þarf meðal annars að horfa til eftirtalinna sjónarmiða.
Heildarstærð bankakerfisins. Skoða þarf umfang bankakerfisins, meta hvort núverandi stærð þess sé æskileg og hvort hægt væri að ná fram frekari stærðarhagkvæmi í kerfinu. Ný eigendastefna skilar hér auðu.
Eignarhlutur og þátttaka á fjármálamarkaði. Meta þarf hversu stór eignarhlutur ríkissjóðs á að vera til skemmri og lengri tíma litið ásamt því að skoða hversu stór þátttakandi ríkissjóður á að vera á fjármálamarkaði. Í ljósi sögunnar er rétt að ríkissjóður sé leiðandi fjárfestir í a.m.k. einum banka.
Endurskipulagning fjármálakerfisins. Skoða þarf hvort hagkvæmt sé að sameina ákveðnar einingar eða skipta þeim upp. Í þessu gætu falist möguleikar til hagræðingar og lækkunar kostnaðarhlutfalla.
Aðskilnaður viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingabankastarfsemi. Greina þarf leiðir til að draga úr áhættu fjármálakerfisins gagnvart ríkissjóði og kanna meðal annars hvort aðskilnaður á viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingabankastarfsemi komi til með að vera heppilegt fyrirkomulag í því sambandi. Þennan þátt þarf sérstaklega að skoða með hliðsjón af því hver þróunin er hjá öðrum ríkjum.
Dreift eignarhald eða leiðandi fjárfestar. Skoða þarf gaumgæfilega hvaða form af eignarhaldi hentar best hagsmunum hagkerfisins og líta til þess hversu burðug eftirspurnarhliðin er í þeim efnum. Einnig ber að líta á fýsileika erlends eignarhalds, hvað sé farsælt til lengri tíma litið og skoða Norðurlandaríkin sérstaklega.
Erlend lánsfjármögnun. Með hækkandi lánshæfismati samhliða trúverðugri endurreisn hagkerfisins hefur fjármögnunarkostnaður bankakerfisins lækkað verulega. Hann er hins vegar ennþá í hærri kantinum. Greina þarf hvernig bankakerfi geti miðlað erlendri lánsfjármögnun í samkeppni við erlenda banka og hvernig samkeppnishæfni þeirra gæti aukist með skynsamlegu rekstrarfyrirkomulagi.
Alþjóðlegur samanburður. Afar brýnt er að líta til alþjóðlegrar þróunar og taka mið af því sem hefur reynst öðrum þjóðum vel.

Tillaga til stjórnvalda
Ég legg til að settur verði á laggirnar hópur sérfræðinga sem gerir drög að vegvísi fyrir framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar þar sem ofangreindir þættir verði skoðaðir. Markmiðið verði að móta tillögu að skipulagi á fjármálamarkaði sem komi til með að þjónusta íslensk heimili og fyrirtæki á ábyrgan og farsælan hátt. Sérstaklega skal litið til annarra lítilla opinna hagkerfi og reynslunnar á Norðurlöndum. Einnig kann að vera skynsamlegt að ríkissjóður skilgreini fyrirfram hvaða skilyrði þurfi að vera til staðar á fjármálamarkaði áður en kemur til söluferlis í þeim tilgangi að auka fyrirsjáanleika og trúverðugleika á markaðnum.
Það er einstakt tækifæri og dauðafæri til að útfæra farsæla stefnu er varðar íslenskan fjármálamarkað og því er brýnt að nýta þetta tækifæri vel og vanda til verks.

Lilja Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. febrúar 2017. 

Categories
Greinar

Jöfnum stöðu foreldra

Deila grein

25/02/2017

Jöfnum stöðu foreldra

Öllum börnum er það mikilvægt að eiga góð samskipti við báða foreldra sína. Lagaþróunin síðustu áratugina hefur verið á þá leið að jafna stöðu foreldra  svo að foreldrar geti tekið jafna ábyrgð á umönnun og velferð barna sinna, má þar m.a. nefna breytingar á barnalögum frá árinu 1992 og ný lög um húsnæðisbætur.
Á síðustu árum hefur mikill meirihluti foreldra sem hafa skilið eða slitið samvistum, eða 85  – 95 % samið um sameiginlega forsjá. Er þá oft um að ræða að barn sé viku hjá föður og viku hjá móður.

Þrátt fyrir þessa staðreynd í okkar ágæta samfélagi og þau spor sem stigin hafa verið, þá er regluverk ríkisins enn talsvert brotakennt þegar kemur að þessum þáttum. Það getur haft áhrif víðar út í samfélagið, t.d. til sveitarfélaga sem reka þjónustu og haga störfum sínum eftir því regluverki sem að þeim er sett.

Þann 12. maí 2014 var samþykkt þingsályktunartillaga um að fela innanríkisráðherra og félags – og húsnæðismálaráðherra að skipa starfshóp sem kanni með hvaða leiðum megi jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna. Þann 24. september 2015 skilaði starfshópurinn niðurstöðum sínum. Niðurstöðurnar voru að gerðar verði breytingar á barnalögum til að jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna og ákveða að ala upp barn saman á tveimur heimilum. Þar komi inn nýtt ákvæði sem heimili skipta búsetu barns á grundvelli staðfests samkomulags foreldra, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Auk þessa eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum varðandi opinberan stuðning, breytingar á lögum um lögheimili og breytingar á barnalögum. Ásamt því er lagt  til að sveitarfélög landsins lagi þjónustu sína að breyttum þjóðfélagsháttum og taki þannig virkt tillit til jafnrar ábyrgðar og skyldna foreldra á uppeldi og umönnun barna í málum sem þau varða og falla undir valdsvið sveitarfélaga.

Nú er komið um eitt og hálft ár síðan starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum. Einu breytingarnar sem komið hafa fram er að með nýjum lögum um húsnæðisbætur telst barn til heimilis hjá báðum foreldrum sínum og eru það afar jákvæð skref. En enn er beðið eftir öðrum aðgerðum sem starfshópurinn lagði til. Þess vegna lagði ég fram fyrirspurn á Alþingi á dögunum til dómsmálaráðherra. Þar spurði ég eftirfarandi spurninga: er unnið að lagabreytingum á grunni skýrslu innanríkisráðherra um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum sem lögð var fram á Alþingi í september 2015? Ef svo er, hvenær verða frumvörp um málið lögð fram? Ef ekki, hvenær ætlar ráðherra að hefja þá vinnu? Ég hef fulla trú á að ráðherra svari fyrirspurn minni fljótt, þar sem þetta mál er eitt af áherslumálum núverandi ríkisstjórnar.

En í stjórnarsáttmálanum segir m.a. að samfélagið eigi að styðja við ólíkar fjölskyldugerðir og hvetja til þess að foreldrar sem ekki búa saman ali upp börn sín í sátt. Þar kemur jafnframt fram að réttur barna skuli tryggður til að vera skráð í skiptri búsetu á tveimur lögheimilum og aðstaða umgengnisforeldra og lögheimilisforeldra jöfnuð.

Hér er linkur á fyrirspurnina sem lögð var fram: https://www.althingi.is/altext/146/s/0254.html

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á visir.is 24. febrúar 2017.

Categories
Fréttir

Margréti finnst það ræfildómur

Deila grein

24/02/2017

Margréti finnst það ræfildómur

,,Hæstv. forseti. Að lesa og skrifa hefur aldrei verið talið til menntunar á Íslandi, segir í Brekkukotsannál. Þar vísar skáldið bæði með kímni en einnig alvöru til þess að Íslendingar hafa frá fornu fari verið menntaþjóð á sinn hátt, sagði ágætur maður. Það má til sanns vegar færa að menntun liggur nærri kjarna þjóðarinnar og skipar æ mikilvægari sess í þjóðfélaginu. Á góðum dögum tölum við um að fjárfesting í menntun og rannsóknum skili sér margfalt til þjóðarinnar í formi nýsköpunar og framfara á sviðum atvinnulífsins. Jafnvel erum við svo brött að halda því fram að áframhaldandi fjárfestingaruppbygging í menntakerfinu jafngildi fjárfestingu í framtíðinni.
Hæstv. forseti. Þetta tel ég reyndar að sé skoðun okkar flestra. Menntunarstig íslensku þjóðarinnar er hátt. Við erum stolt af því, en við viljum gera betur. Það skýtur óneitanlega skökku við þegar menn ákveða að hunsa ráðleggingar virtra fræðimanna sem styðja mál sitt með margra áratuga reynslu og rannsóknum sem byggja á vísindalegum aðferðum. Nú er ég að vísa til orða dr. Margrétar Guðnadóttur í Morgunblaði gærdagsins. Þar talar fræðimaður með mikla reynslu af rannsóknum á veirusjúkdómum í búfé og mönnum. Hún varar alvarlega við innflutningi á kjöti og lifandi skepnum, gripum. Vill með því vernda heilsu búfjárstofna og landsmanna.
Hæstv. forseti. Sérstaða okkar felst í einangrun og hreinleika bústofna. Hér er sjúkdómastaða allt önnur en á meginlandi Evrópu og Bretlands. Íslenskir bændur voru framsýnir þegar þeir hættu að gefa sýklalyf í fóðri því að nú glíma menn víða um lönd við afleiðingar þess sem er m.a. vaxandi sýklalyfjaofnæmi. Ég tek undir orð dr. Margrétar sem finnst það ræfildómur að reyna ekki að halda landinu áfram hreinu. Sýnum nú að við erum menntaþjóð sem byggir ákvarðanir sínar á fræðilegum grunni.
Hæstv. forseti. Ég vona að við berum gæfu til að láta ekki gróðasjónarmið ráða för í þessum efnum. Verum snjallari en það.”
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 24. febrúar 2017.

Categories
Fréttir

Sakna stefnumótandi mála frá ríkisstjórninni

Deila grein

24/02/2017

Sakna stefnumótandi mála frá ríkisstjórninni

,,Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða dagskrána þessa vikuna. Það hefur vakið athygli mína á jákvæðan hátt að á dagskrá hvers þingfundar eru sérstakar umræður. Það er vel, virðulegur forseti, vegna þess að það er tækifæri til að dýpka umfjöllun um mörg mikilvæg málefni sem dagskráin þessa vikuna hefur sannarlega borið vitni um. Á hinn bóginn sakna ég þess verulega að á dagskrá séu stefnumótandi mál frá hæstv. ríkisstjórn. Það er kannski hin hliðin sem er reyndin, eins og margir hafa bent á, að stjórnarsáttmáli hæstv. ríkisstjórnar er býsna opinn þegar kemur að stefnumarkmiðum og fyrirætlunum. Í stjórnarsáttmálanum er til að mynda talað um að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu. Ríkisstjórn sem setur heilbrigðiskerfið í forgang mætti vera mun nákvæmari í sáttmála þegar kemur að þeim þætti. Fjölmargar rannsóknir staðfesta að skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf dregur mjög úr líkum á hvers konar frávikshegðun og ungmenni sem ekki taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi eru mun líklegri t.d. til að nota vímuefni en þau sem eru virkir þátttakendur í slíku starfi. Ég mun örugglega ekki ítreka það nægilega oft að við eigum að beina sjónum okkar að þessum þætti í auknum mæli í forvarnaskyni og beinar aðgerðir og stuðningur stjórnvalda á þessu sviði stuðla að heilsuábata inn í framtíðina og minna álagi á heilbrigðiskerfið og dregur úr tíðni alvarlegra lífsstílssjúkdóma.
Ég ætla hins vegar að enda á jákvæðum nótum, virðulegi forseti, og hrósa hæstv. ríkisstjórn og sér í lagi hæstv. ráðherra ferðamála fyrir stofnun skrifstofu í ráðuneytinu með sérstakri áherslu á þá ört vaxandi atvinnugrein sem ferðaþjónustan er.”
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 24. febrúar 2017.