Categories
Fréttir

„Á biðtímanum gerist oft afar lítið og vandinn vex“

Deila grein

10/10/2019

„Á biðtímanum gerist oft afar lítið og vandinn vex“

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, sagði í störfum þingsins í gær að fyrir liggji „að börn fá ekki aðstoð tímanlega, bið eftir greiningum er allt of löng og á biðtímanum gerist oft afar lítið og vandinn vex. Aðkallandi er að meiri samfella og samtenging sé á milli opinberra þjónustuaðila en staðan í dag er sú að þeir aðilar sem veita börnum þjónustu tala ekki endilega saman. Dæmi eru um að tiltekin svið sveitarfélaga séu ekki með formlega ferla sín á milli og enginn með skilgreinda ábyrgð. Ef samfella þjónustu er ekki til staðar fær barnið ekki eins góða þjónustu og mögulegt er að veita.“
„Réttindi barna og bætt þjónusta við börn og barnafjölskyldur eru meðal áhersluatriða ríkisstjórnarinnar og birtist með skýrum hætti í stjórnarsáttmálanum. Alþingi samþykkti á dögunum tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar til fjögurra ára. Henni er ætlað að efla grunnvinnslu barnaverndarmála á fyrstu stigum, stuðla að snemmtækri íhlutun, auka samvinnu ríkis og sveitarfélaga og fjölga gagnreyndum úrræðum. Gert er ráð fyrir 600 millj. kr. fjáraukningu til að byggja upp og þróa úrræði og þjónustu í málaflokknum,“ sagði Silja Dögg.
„Mig langar að vekja athygli á þingsályktunartillögu, sem ég hef mælt fyrir og hefur verið send til umsagnar af velferðarnefnd, sem fjallar um rétt barna til að þekkja uppruna sinn. Í henni felst að dómsmálaráðherra verði falið að semja lög sem tryggi þeim börnum sem getin eru með kynfrumugjöf sjálfstæðan rétt til að þekkja líffræðilegan uppruna sinn. Þetta er í fimmta sinn sem Alþingi fjallar um málið. Nágrannaríki okkar, þau sem við berum okkur helst saman við, hafa þegar tryggt þessi réttindi barna með lögum og ég vona að það fari að koma að því að við gerum það líka,“ sagði Silja Dögg.

Categories
Fréttir

Byggðaáætlun og heilbrigðisstefna tryggja framsækna þjónustu

Deila grein

10/10/2019

Byggðaáætlun og heilbrigðisstefna tryggja framsækna þjónustu

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, benti á í störfum þingsins í gær að þar sem segir í stefnumótandi byggðaáætlun að Ísland verði í fararbroddi með nútímainnviði, framsækna þjónustu og nýjustu tækni sem tengi byggðir saman að þá sé mjög ánægjulegt sjá að Landspítali hafi komið á samstarfi við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða um bætt aðgengi að sérfræðilæknum.
„Verkefnið er í samræmi við markmið heilbrigðisstefnu um að jafna aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu um landið og byggðaáætlun eins og fyrr er vísað til. Þarna er verið að spara tíma, löng ferðalög og dýr, svo að ekki sé talað um vinnutap. Einnig er mjög mikilvægt að verið er að styrkja gagnkvæma faglega ráðgjöf milli heilbrigðisstarfsmanna,“ sagði Halla Signý.
„Þörf lækna og hjúkrunarfræðinga á landsbyggðinni fyrir aðstoð og ráðleggingar frá sérfræðingum Landspítala er mikil og getur skipt sköpum við meðferð sjúklinga. Bætt samskipti eru ávinningur, flækjustigið er minnkað og það getur sparað tíma og stytt bataferli. Mest af slíkum samskiptum fer fram með símtölum og tölvupóstum eins og staðan er í dag,“ sagði Halla Signý.
„Það er því mjög ánægjulegt að sjá að nýsamþykkt byggðaáætlun og heilbrigðisstefna eru farnar að vinna í rauntíma,“ sagði Halla Signý.

Categories
Greinar

Betri samgöngur, sterkara samfélag

Deila grein

10/10/2019

Betri samgöngur, sterkara samfélag

Þörf er á sam­göngu­bót­um um land allt og það er trú mín að með betri og fjöl­breytt­ari sam­göng­um verði sam­fé­lagið sterk­ara. Aukið ör­yggi á veg­um skipt­ir höfuðmáli en sömu­leiðis fram­kvæmd­ir sem stytta ferðatíma og leiðir á milli byggðarlaga sem aft­ur efl­ir at­vinnusvæðin.

Við stönd­um frammi fyr­ir því að á næsta ald­ar­fjórðungi er brýnt að sinna 200 vega­tengd­um verk­efn­um um land allt og er kostnaður áætlaður yfir 400 millj­arðar. Upp­hæðirn­ar eru æv­in­týra­leg­ar háar, sem kall­ar á nýja hugs­un í fjár­mögn­un fram­kvæmda. Um­ferðin er víða mik­il og hef­ur auk­ist í takt við fjölg­un ferðamanna. Unnið er að úr­bót­um en bet­ur má ef duga skal. Breytt for­gangs­röðun á sam­göngu­fram­kvæmd­um mun sjást í end­ur­skoðaðri sam­göngu­áætlun í nóv­em­ber þar sem um­ferðarör­yggi er haft að leiðarljósi. Á næstu sjö árum mun fram­kvæmd­um sem metn­ar eru að fjár­hæð í heild um 130 millj­arða króna verða flýtt fyr­ir utan höfuðborg­ar­svæðið.

Aðskilnaður akst­urs­stefnu

Í sam­göngu­áætlun er lagt til að á tíma­bili henn­ar verði lokið við að aðskilja akst­urs­stefn­ur á um­ferðarþyngstu veg­un­um sem eru út frá höfuðborg­ar­svæðinu, þ.e. Reykja­nes­braut­in að Flug­stöð, Suður­lands­veg­ur aust­ur fyr­ir Hellu og Vest­ur­lands­veg­ur að Borg­ar­nesi. Fram­kvæmd­um á um­ferðarþyngstu köfl­un­um verður lokið á fyrsta tíma­bili.

Stytt­ing og minni bið

Ávinn­ing­ur­inn af flýt­ingu fram­kvæmda er efna­hags- og sam­fé­lags­leg­ur. Brú yfir Horna­fjarðarfljót stytt­ir suður­leiðina til Hafn­ar um tæpa 12 km og los­ar um þrjár ein­breiðar brýr. Lág­lendis­veg­ur um Mýr­dal/​jarðgöng um Reyn­is­fjall bæt­ir ör­yggi fjöl­margra farþega sem fara þar um og ný brú yfir Ölfusá dreg­ur úr um­ferðarteppu sem mynd­ast gjarn­an við Sel­foss. Sömu­leiðis mun tvö­föld­un Hval­fjarðarganga og ný Sunda­braut bæta flæði um­ferðar. Þá mun veg­ur yfir Öxi stytta hring­veg­inn um 70 km.

Með sér­stöku gjaldi fyr­ir staðbund­in mann­virki eft­ir að fram­kvæmd­um lýk­ur, t.d. 20-30 ár, líkt og Hval­fjarðarganga­mód­elið gekk út á, geta sam­göngu­mann­virki orðið að veru­leika fyrr en ella. For­senda þess er að val sé um aðra leið. Að því loknu fell­ur gjald­tak­an niður.

Breytt for­gangs­röðun og aukið fjár­magn

Við val á flýtifram­kvæmd­um voru skoðuð verk­efni sem til­heyra grunnn­eti sam­gangna með hliðsjón af um­ferðarör­yggi, um­ferðarþunga og þjóðfé­lags­leg­um sparnaði af fækk­un um­ferðarslysa. Árleg­ur sam­fé­lags­leg­ur kostnaður af um­ferðarslys­um er met­inn um 40 til 60 ma.kr. og er þá ómælt til­finn­inga­legt tjón í viðbót sem fólk upp­lif­ir í tengsl­um við slys. Þannig mætti hugsa sér að ef hægt væri að fækka um­ferðarslys­um um 10% gætu spar­ast 4 til 6 millj­arðar ár­lega sem nýta mætti til vega­gerðar. Ávinn­ing­ur­inn er ótví­ræður.

For­gangs­röðunin birt­ist í að stór­aukið fjár­magn hef­ur verið sett í vega­kerfið og birt­ist í fjár­mála­áætl­un. Um 5,5 millj­arða króna hækk­un er núna á milli ára, 2019-2021 ásamt ríf­lega 10 millj­arða hækk­un síðustu tveggja ára, 2018 og 2019. Til að mæta auk­inni um­ferð renna 27 millj­arðar til ým­issa verk­efna, sem er aukn­ing um 16,8% á milli ára. Þetta eru háar fjár­hæðir sem gera okk­ur kleift að taka risa­stökk inn í framtíðina og renna styrk­ari stoðum und­ir sam­keppn­is­hæft at­vinnu­líf og góð efna­hags­leg lífs­kjör.

Sam­vinnu­verk­efni flýta fyr­ir

En bet­ur má ef duga skal. Fjár­magn til vega­fram­kvæmda ræðst á hverj­um tíma af svig­rúmi í fjár­mála­stefnu. Nauðsyn­legt fjár­magn um­fram svig­rúm verður því best tryggt með sam­vinnu á milli op­in­berra aðila og einkaaðila. Sér­stakt fé­lag, líkt og Hval­fjarðarganga­mód­elið, héldi utan um bæði hvaðan tekj­ur koma og hvert þær fara. Þannig yrði tryggt að inn­heimt veg­gjöld renni með gagn­sæj­um hætti til þeirra fram­kvæmda sem þeim er ætlað að fara. Ábyrgð ut­anaðkom­andi aðila nær til fjár­mögn­un­ar á mann­virk­inu, í heild eða að hluta þar til gjald­töku lýk­ur. Í lok samn­ings­tíma tek­ur Vega­gerðin við eign­inni. Við höf­um ein­fald­lega ekki tíma til að bíða með sum verk­efni, stærsta verk­efnið er að auka ör­yggið í um­ferðinni.

Jarðganga­áætl­un

Jarðganga­gerð er dýr og með um­fangs­mestu op­in­beru fram­kvæmd­un­um hér á landi. Jarðgöng eru þeim kost­um gædd að þau geta um­bylt heil­um svæðum og eflt at­vinnu­líf á fá­menn­um svæðum sem hafa búið við fólks­fækk­un og hnign­un.

Hval­fjarðarganga­mód­elið er dæmi um vel heppnaða fram­kvæmd sem styrkti svæðið sér­stak­lega norðan gang­anna á marg­vís­leg­an hátt og tekj­ur af um­ferð stóðu straum af fram­kvæmd­inni. Dýra­fjarðargöng klár­ast á næsta ári og eru Aust­f­irðing­ar næst­ir í röðinni. Halda þarf áfram og mik­il­vægt er að hafa sýn til lengri tíma. Sér­stök jarðganga­áætl­un verður því hluti af sam­göngu­áætlun. Í henni verður einnig til­greint hvaða jarðgöng falla und­ir gjald­töku, en rekst­ur og viðhald jarðganga er al­mennt dýr­ara en rekst­ur og viðhald vega.

Drög að end­ur­skoðaðri sam­göngu­áætlun liggja fyr­ir og verða brátt til um­sagn­ar á vef ráðuneyt­is­ins. Með henni eru tek­in brýn skref til að svara ákalli um að hraða upp­bygg­ingu vega­kerf­is­ins. Með því er lagður grunn­ur að sterk­ara sam­fé­lagi um allt land.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. október 2019.

Categories
Greinar

Samvinna er svarið

Deila grein

10/10/2019

Samvinna er svarið

Mál­efni norður­slóða eru for­gangs­mál í ís­lenskri ut­an­rík­is­stefnu og má þá áherslu greina glöggt í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Hags­mun­ir Íslands eru mikl­ir en augu alþjóðasam­fé­lags­ins bein­ast í aukn­um mæli að norður­slóðum og sum­ir ræða um að ákveðið kapp­hlaup sé hafið um yf­ir­ráð á þessu víðfeðma svæði. Ísland tók við for­mennsku í Norður­skauts­ráðinu á þessu ári en ráðið er þunga­miðja í okk­ar alþjóðasam­starfi á norður­slóðum. Megin­á­hersl­ur ráðsins á um­hverf­is­mál og sjálf­bæra þróun gera það að verk­um að vís­indi og rann­sókn­ir skipa stór­an sess í störf­um ráðsins. Í ljósi þró­un­ar síðustu miss­era verður æ brýnna að stefnu­mót­un stjórn­valda á norður­slóðum bygg­ist á vís­inda­leg­um grunni og virkri sam­vinnu.

Árang­urs­rík sam­vinna

Ísland og Jap­an hafa um ára­tuga skeið átt frjótt vís­inda­sam­starf á norður­slóðum og það sam­band hyggj­umst við treysta til framtíðar. Ísland og Jap­an standa sam­eig­in­lega að alþjóðleg­um ráðherra­fundi um vís­indi á norður­slóðum í Tókýó í nóv­em­ber 2020. Fund­ur­inn verður sá þriðji í fundaröð sem hófst árið 2016 í Washingt­on, D.C. Ráðherr­ar vís­inda­mála, hvaðanæva úr heim­in­um, munu koma sam­an til að ræða aðgerðir og stefnu­mót­un í mál­efn­um norður­slóða. Það er þörf á auknu alþjóðlegu sam­starfi um rann­sókn­ir á norður­slóðum og ráðherra­fund­irn­ir eru þýðing­ar­mik­ill vett­vang­ur fyr­ir umræðu um sam­eig­in­leg­ar áskor­an­ir okk­ar. Við þurf­um að þekkja stefnu, áhersl­ur og innviði sam­starfs­ríkja til þess að þróa ár­ang­urs­ríka sam­vinnu á sviði vís­inda og rann­sókna, ekki síst í sam­hengi við hlýn­un á norður­slóðum og að mínu mati hvíl­ir á okk­ur ákveðin skylda til þess að vinna sam­an.

Mik­il­vægi mennt­un­ar og vís­inda

Íslensk­ir vís­inda­menn og stofn­an­ir búa yfir dýr­mætri reynslu og þekk­ingu á fjöl­mörg­um sviðum norður­slóðarann­sókna, má þar sem dæmi nefna jökla­rann­sókn­ir, rann­sókn­ir á sam­fé­lags­leg­um áhrif­um lofts­lags­breyt­inga, breyt­ing­um á vist­kerfi sjáv­ar og kort­lagn­ingu hafs­botns­ins. Þá gegn­ir mennta­kerfið lyk­il­hlut­verki í að miðla þekk­ingu til kom­andi kyn­slóða og kveikja áhuga ungs fólks á mál­efn­um norður­slóða, til að mynda með auk­inni áherslu á raun­greina­kennslu og með því að efla vís­inda­áhuga barna og ung­linga á fjöl­breytt­um sviðum.

Gagn­sæi og virk þátt­taka

Við erum þakk­lát fyr­ir það góða sam­band sem er milli Íslands og Jap­an. Sem eyjaþjóðir deil­um við meðal ann­ars áhyggj­um af heil­brigði og lífsþrótti sjáv­ar. Sam­eig­in­lega fleti má einnig finna í áhersl­um ríkj­anna á um­hverf­is­vernd og sjálf­bærni. Leiðarljós í sam­vinnu land­anna í tengsl­um við ráðherra­fund­inn og í áfram­hald­andi sam­starfi okk­ar er gagn­sæi, hag­nýt­ing vís­inda og miðlun. Lögð verður rík áhersla á virkja sem flesta í aðdrag­anda fund­ar­ins og hefst það ferli form­lega í dag, í tengsl­um við Hring­borð norður­slóða. Við finn­um þegar fyr­ir mikl­um áhuga á ráðherra­fund­in­um og trú­um því að hann verði mik­il­væg­ur vett­vang­ur fyr­ir leiðtoga, bæði á hinu póli­tíska sviði og inn­an vís­inda­heims­ins, til þess að ræða aðgerðir og for­gangs­röðun.

Sam­vinna við alla aðila, jafnt inn­an sem utan norður­slóða, mun skipta miklu fyr­ir hag­sæld og ör­yggi á svæðinu. Með aukn­um sigl­ing­um og starf­semi gæti áhersla á sjálf­bæra þróun orðið mik­il­væg­ur liður í að draga úr spennu á svæðinu, t.d. vegna auk­inna hernaðar­um­svifa. Í ljósi þess hve viðkvæmt og marg­brotið svæði norður­slóðir eru, hvort sem litið er til um­hverf­is, ör­ygg­is­mála, efna­hags­legra eða fé­lags­legra þátta, er brýnt að stefnu­mót­un fyr­ir svæðið í heild sinni ein­kenn­ist áfram af stöðug­leika, sjálf­bærni og sam­vinnu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. október 2019.

Categories
Fréttir

„Við framræslu votlendis á Íslandi voru gerð margvísleg mistök“

Deila grein

09/10/2019

„Við framræslu votlendis á Íslandi voru gerð margvísleg mistök“

„Framræst votlendi getur losað mikið af gróðurhúsalofttegundum, þegar gróðurleifar rotna hraðar í þurru landi en blautu. Gleymum samt ekki að náttúran stendur aldrei í stað, hún breytist sífellt eftir árstíðum og með tímanum og lengd grafinna skurða er ekki mælikvarði á losun,“ sagði Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins á dögunum.
„Þannig hefur náttúran nú þegar leyst vandann sums staðar og er búin að bleyta upp í landi sem áður var ræst. Annars staðar er hún á góðri leið með það. Þá er töluvert til af skurðum sem breyttu aldrei neinu því að náttúran lék bæði á mælingarmennina og gröfumennina.“

Flestir skurðir á Íslandi voru grafnir milli 1950 og 1970. Síðan hafa skurðir vegna landbúnaðar einkum verið grafnir til að viðhalda eða bæta framræslu á áður þurrkuðu landi. Það tekur lífrænt efni, mólag, sem er einn metri á þykkt meira en 100 ár að rotna. Á meðan losna gróðurhúsalofttegundir. Lífrænt efni í mýrum er hins vegar mjög misþykkt. Sumt framræst votlendi losar enn mikið en annað gerir það ekki. Rotnun losar líka um næringarefni sem aftur getur aukið grasvöxt og þar með bindingu í hringrás árstíðanna en auk þess getur losunin dregið úr áburðarþörf í landbúnaði.
Endurheimt verður að ígrunda vel, gæta þess að opna ekki land fyrir jarðvegsrofi og muna að allt votlendi þarf afrennsli. Snögg umbreyting getur líka veikt gróðurþekju og mótstöðu vistkerfa. Ef mögulegt er leyfum votlendi sem ekki er notað að blotna upp vegna verkunar náttúrunnar sjálfrar, leyfum skurðum að síga saman og breytast aftur í læki. Notum sem minnst inngrip.

„Við framræslu votlendis á Íslandi voru gerð margvísleg mistök. Dettum ekki í sömu gryfju við endurheimtina. Henni verður ekki best sinnt með gulum gröfum út um allar flár og flóa. Notum skynsemina og vísindin og nýtum fjármagn til endurheimtar vistkerfa vel. Það verður að taka út hvert svæði áður en endurheimt hefst,“ sagði Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Vonbrigði að málið sé ekki enn komið fyrir Alþingi

Deila grein

08/10/2019

Vonbrigði að málið sé ekki enn komið fyrir Alþingi

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, var  málshefjandi í sérstakri umræðu um jarðamál og eignarhald lands á Alþingi í dag.
„Land er auðlind, landið sjálft, jarðvegurinn og gróðurinn sem þar þrífst. Fyrir tæpu ári átti ég hér orðastað við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um eignarhald á bújörðum og mögulegar takmarkanir á því samkvæmt ákvæðum ábúðar- og jarðalaga. Sú umræða fór fram í kjölfar þess að starfshópur um endurskoðun eignarhalds á bújörðum skilaði af sér tillögum og skýrslu. Í framhaldinu var sett af stað vinna á vegum forsætisráðuneytisins,“ sagði Líneik Anna.
Um mitt þetta ár átti Líneik Anna orðastað við forsætisráðherra í fyrirspurnatíma og lýsti hún nú því yfir að það væru vonbrigði að vinna ráðuneytisins væri ekki enn komin til umræðu á Alþingi. Hún taldi sér kunnugt um að vinnan væri enn í gangi og kærkomið tækifæri nú að ræða framvindu vinnunnar í þingsal og fá frekari upplýsingar.
„Mig langar því að spyrja:

Hver er staðan í vinnu á vegum forsætisráðuneytisins við gerð skýrari lagaramma fyrir jarða- og landaviðskipti?
Er vinnan sem fram fer bundin við jarða- og ábúðarlög eða falla fleiri aðgerðir og verkefni þar undir?“

Minnti hún á að þingflokkur Framsóknarmanna hafi lagt fram þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun til styrkingar á lagaumgjörð og reglum um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á landi ásamt aðgerðum til að styrkja grundvöll til eftirfylgni slíkra reglna. Aðgerðaáætlunin hafi það að markmiði að tryggja eignarhald landsmanna á jörðum, þ.e. auðlindum á Íslandi, ásamt því að skapa frekari tækifæri til heilsársbúsetu í dreifbýli og til fjölbreyttrar, sjálfbærrar landnýtingar og matvælaframleiðslu í landinu.
„Tillagan felur í sér sjö verkefni og aðgerðir sem öllum er ætlað að bæta umsýslu lands því að það eru ekki til nein ein töfralausn til að bæta umgjörðina. Lög, stjórntæki og verklag verður að mynda eina heild ef vel á að takast til. Verkefnin eru:

1. Lögfestar verði reglur um að skilgreind tengsl við Ísland séu forsenda fyrir eignarhaldi á jörðum hér á landi og um takmarkanir á fjölda jarðeigna í eigu sama aðila.
2. Jarðakaup verði leyfisskyld.
3. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið flýti gerð leiðbeininga um flokkun landbúnaðarlands og móti leiðir til að skilgreina búsetuskyldu í dreifbýli við skipulagsgerð.
4. Löggjöf á sviði skráningar landeigna og eignarmarka verði endurskoðuð og bætt.
5. Fasteignamat í dreifbýli verði uppfært en dæmi er um að fasteignamat jarða hafi ekki verið uppfært í áratugi. Það mætti nýta sem stjórntæki.
6. Komið verði á lánasjóði vegna jarðakaupa.
7. Lög er varða ráðstöfun jarða og auðlinda á landi verði endurskoðuð í ljósi framvindu annarra aðgerða og reynslu af lögunum. Það þarf m.a. að tryggja betur að tekjur af landi og hlunnindum skili sér til þeirra sem vilja búa í dreifbýli og til dreifbýlissamfélaganna.

Mér leikur því einnig forvitni á að vita að hve miklu leyti vinna forsætisráðuneytisins nær yfir eða skarast við þessar aðgerðir,“ sagði Líneik Anna.
(Svör forsætisráðherra koma inn síðar)

Categories
Greinar

Netógnir í nýjum heimi

Deila grein

08/10/2019

Netógnir í nýjum heimi

Einstaklingar og fyrirtæki hér á landi hafa nú þegar orðið fyrir verulegu fjártjóni og ýmsu öðru tjóni þegar viðkvæmar upplýsingar komast í hendur óviðkomandi. Margt bendir til þess að atvikum af þessu tagi muni halda áfram að fjölga á næstu árum. Talið er að íslensk fyrirtæki hafi orðið fyrir tugmilljarða króna tapi, en aðeins lítið brot er tilkynnt til lögreglu og rannsakað. Fyrirtæki upplifa sig mörg nokkuð varnarlaus gagnvart vaxandi ógnum á netinu. Hið sama má segja um heimilin í landinu sem eru að taka í notkun margs konar snjalltæki, svo sem reykskynjara, hitastilla, öryggiskerfi, eftirlitsmyndavélar og læsingar, sem tengd eru Internetinu með tilheyrandi hættu á að óviðkomandi geti farið að stýra þeim sé ekki gætt fyllsta öryggis.

Októbermánuður er tileinkaður netöryggismálum og hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birt hagnýtar leiðbeiningar fyrir almenning og fyrirtæki á stjornarradid.is/netoryggi til að auðvelda fólki og fyrirtækjum að verjast í netheimum. Einföld atriði geta stóraukið öryggi við notkun snjalltækja svo sem:

  • Að nota ólík lykilorð fyrir mismunandi þjónustur.
  • Að spyrja sölu- eða þjónustuaðila snjalltækja um hvaða öryggisráðstafanir séu mögulegar við uppsetningu og notkun tækjanna.
  • Að breyta upphaflegu lykilorði WiFi-neta og snjalltækja þegar þau eru tekin í notkun.
  • Að breyta persónuverndar- og öryggisstillingum tækis miðað við þarfir og gera þá eiginleika óvirka sem ekki á að nota.
  • Að setja inn öryggisuppfærslur um leið og þær eru fáanlegar.

Nýsamþykkt lög um netöryggismál ásamt nýrri stefnu og aðgerðaáætlun leggja grunn að verkefnum stjórnvalda á þessu sviði. Net- og upplýsingaöryggismál varða samfélagið allt, einstaklinga, fyrirtæki og opinbera aðila.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. október 2019.

Categories
Fréttir

Rödd hins þögla sjúkdóms

Deila grein

07/10/2019

Rödd hins þögla sjúkdóms

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um fræðslu um vefjagigt og endurskoðunar á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu.
„Þingsályktunartillagan felur í sér að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu með það að markmiði að styrkja greiningarferlið og bjóða upp á heildræna meðferð byggða á niðurstöðum gagnreyndra rannsókna,“ sagði Halla Signý.
Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu með það að markmiði að styrkja greiningarferlið og bjóða upp á heildræna meðferð byggða á niðurstöðum gagnreyndra rannsókna.

„Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á síðasta þingi og er nú endurflutt með viðbótarumfjöllun í greinargerð. Við umfjöllun málsins á 149. löggjafarþingi bárust fimm umsagnir um málið en í þeim öllum var tekið undir markmið þingsályktunartillögunnar og þörfin á vitundarvakningu um vefjagigt undirstrikuð. Í umsögn frá embætti landlæknis er tekið undir mikilvægi þess að fram fari endurskoðun á heildarskipulagi þjónustu fyrir einstaklinga með vefjagigt og áhersla lögð á að hún nái til allra þjónustustiga. Félag sjúkraþjálfara benti á að skortur væri á umgjörð fyrir börn með vefjagigt og Þraut ehf. benti á mikilvægi þess að vinnufært fólk með vefjagigt á vægari stigum hefði betri aðgang að þeirri þjónustu sem er í boði,“ sagði Halla Signý.
„Vefjagigt er langvinnur sjúkdómur sem samanstendur af fjölmörgum einkennum frá hinum ýmsu líffærakerfum. Helstu einkenni eru langvarandi og útbreiddir stoðkerfisverkir, stirðleiki, yfirþyrmandi þreyta og svefntruflanir. Önnur algeng einkenni eru fótapirringur, kuldanæmi, órólegur ristill, ofurnæm þvagblaðra, dauðir fingur, einbeitingarskortur og depurð.“
„Árið 1993 var vefjagigt formlega skilgreind sem sjúkdómur af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Töluverðan tíma tók uns sjúkdómurinn öðlaðist almenna viðurkenningu innan læknasamfélagsins en framan af var algengt að litið væri á vefjagigt sem eins konar ruslakistugreiningu. Í gegnum tíðina hafa fordómar verið tengdir sjúkdómnum sem mikilvægt er að eyða með markvissri fræðslu um hann. Vefjagigt mælist hvorki með blóðprufum né röntgenrannsóknum og er það vafalaust ein helsta ástæða fordóma í garð sjúkdómsins.“
„Ef tillagan nær í gegn tel ég að hér sé komin rödd þessa þögla sjúkdóms sem hefur hrjáð svo margar konur og er stór orsakaþáttur í örorku kvenna hér á landi. Það skiptir ekki bara máli að haldið sé utan um þennan hóp og að hann fái rödd heldur skiptir líka gríðarlega miklu máli að konur, og karlar sem hafa líka sjúkdóminn, komist sem fyrst til meðferðar svo að þau komist aftur út á vinnumarkaðinn. Bæði konur og karla eru með þennan sjúkdóm svo að þetta skiptir máli fyrir samfélagið í heild,“ sagði Halla Signý.

Categories
Greinar

Ljósið í bæjarlæknum

Deila grein

07/10/2019

Ljósið í bæjarlæknum

Orkuauðlindir landsins eru í eigu landeigenda. Ríkið er  stærsti eigandi en þar á eftir koma sveitarfélög og aðrir landeigendur svo sem bændur. Flutningskerfi raforku eru í sameign þjóðar en landsmenn sitja ekki við sama borð er kemur að flutningi á raforkunni til síns heima, það fer nefnilega eftir því hvar þeir búa. En erum við að fara yfir lækinn til að nálgast vatnið?

Flutningskostnaður raforku

Í landinu eru tvær gjaldskrár á flutningi rafmagns, þ.e. dreifbýlis­verð og þéttbýlisverð. Dreif­kostnaður raforku hefur hækkað meira í dreifbýli en þéttbýli á undanförnum árum og ljóst er að stöðugt dregur í sundur og núverandi jöfnunargjald er langt frá því að jafna þennan mun. Nú er svo komið að það er u.þ.b. fjórðungi hærra í dreifbýli þrátt fyrir jöfnunargjaldið sem var sett á til að jafna dreifikostnað raforku í landinu.

Skýringin á sífellt hækkandi kostnaði á dreifingu raforku er að kaupendum raforku fækkar í dreifbýlinu og fjárfestingaþörf og endurnýjunarþarfir er meiri í dreifbýli en þéttbýli og einnig átaksverkefni eins og þrífösun rafmagns.  Þetta leiðir af sér aukinn mun á meðalverði í þéttbýli og dreifbýli.

Smávirkjanir styrkja dreifikerfi raforku

Smávirkjanir eru skilgreindar svo sem eru minni en 10MW. Þeim hefur fjölgað á undanförnum árum og eru kostir þeirra margir. Þarna flæðir umhverfisvæn orka og bæði mannvirki og náttúrurask eru oft að fullu afturkræfar framkvæmdir. Smávirkjanir tengjast kerfinu um dreifiveitur landsins og styrkja þannig þær flutningsleiðir, auk þess sem þær lækka flutningstöp raforku og lækka rekstrarkostnað dreifiveita.

Stefna núverandi stjórnvalda er að styrkja byggð í öllu landinu, jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Þar undir fellur það verkefni að stuðla að aukinni jöfnun orkukostnaðar í dreifbýli og þéttbýli.

Gerð smávirkjana stórmál

Virkjunarkostir fyrir smávirkjanir hér á landi eru margir, sérstaklega á Vestfjörðum, Norðurlandi og fyrir austan, eða nánast alls staðar þar sem styrkja þarf dreifikerfið. En skiplags- og leyfismál smávirkjana eru flókin og reglugerðir íþyngjandi. Ferlið frá hugmynd að tengingu er kostnaðarsamt og tímafrekt og langt frá samsvarandi ferli fram­kvæmda t.d. í landbúnaði þar sem framkvæmdir bæði á landi og mann­virkjum geta kostað umtalsvert rask.

Einfalda þarf kerfið

Ljóst er að smávirkjanir eru ein leið til að styrkja dreifikerfi landsins og lækka kostnað við rekstur þess. Með einföldun leyfis- og skipulagsmála smávirkjana er opnað á leið til að ná niður dreifingarkostnaði raforku í dreifbýli og þar með leið að frekari jöfnun á raforkukostnaði og jafnar tækifærin til atvinnu og stuðlar að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Já, við þurfum ekki að vaða bæjarlækinn til að nálgast ljósið.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 4. október 2019.

Categories
Greinar

Öflugir tónlistarskólar

Deila grein

03/10/2019

Öflugir tónlistarskólar

Tón­list­ar­líf hér á landi er öfl­ugt og frjótt. Íslensk tónlist hef­ur átt drjúg­an þátt í að auka orðspor Íslands á alþjóðavett­vangi enda finn­ur ís­lensk menn­ing og sköp­un­ar­kraft­ur sér far­veg um all­an heim. Vel­gengni ís­lenskr­ar tón­list­ar og tón­list­ar­manna hef­ur þó ekki sprottið úr engu. Þar eig­um við tón­list­ar­kenn­ur­um og starfs­fólki tón­list­ar­skóla lands­ins margt að þakka. Fólki sem hef­ur metnað, trú og ástríðu fyr­ir sínu fagi og sí­vax­andi mögu­leik­um mennt­un­ar á því sviði, og ber öfl­ugu starfi tón­list­ar­skól­anna fag­urt vitni.

Starf­semi flestra tón­list­ar­skóla er sam­starfs­verk­efni rík­is og sveit­ar­fé­laga en í gildi er sam­komu­lag um greiðslu fram­lags rík­is­ins til Jöfn­un­ar­sjóðs sveit­ar­fé­laga vegna þess. Nem­end­ur í fram­halds­námi í hljóðfæra­leik og á fram­halds- og miðstigi í söng, og aðrir nem­end­ur sem þurfa af gild­um ástæðum að sækja tón­list­ar­skóla utan lög­heim­il­is sveit­ar­fé­lags, njóta stuðnings sam­kvæmt ákveðnum regl­um. Á þessu ári nær sam­komu­lagið til tæp­lega 600 nem­enda í 35 tón­list­ar­skól­um og nema fram­lög­in rúm­lega 550 millj­ón­um kr. eða um 935.000 kr. á hvern nem­anda. Sam­komu­lagið var end­ur­nýjað í lok síðasta árs og gild­ir til árs­loka 2021.

Með til­komu Mennta­skól­ans í tónlist árið 2017 fækkaði nem­end­um sem sam­komu­lagið nær yfir en ákvörðun var tek­in að lækka þó ekki fram­lög til þess. Með þeirri aðgerð varð því um­tals­verð hækk­un á fram­lagi til hvers nem­enda. Fram­lög til Mennta­skól­ans í tónlist nema 390 millj­ón­um kr. á þessu ári. Því má segja að fjár­mögn­un tón­list­ar­kennslu hér á landi hafi sjald­an verið betri en nú.

Framund­an eru mik­il­væg verk­efni sem unn­in verða í góðri sam­vinnu við hagaðila. Ráðgert er að end­ur­skoða lagaum­hverfi tón­list­ar­skóla og aðal­nám­skrá þeirra sem ekki hef­ur enn verið upp­færð í takt við gild­andi aðal­nám­skrár grunn- og fram­halds­skóla. Þá verður einnig metið hvort ástæða sé til að setja heild­stæð lög um list­kennslu hér á landi. Við treyst­um á gott sam­starf um þau mik­il­vægu verk­efni sem verða án efa til þess að efla enn frek­ar tón­listar­fræðslu og starf tón­list­ar­skóla hér á landi.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. október 2019.