Categories
Greinar

Tryggjum jöfnuð gagnvart fæðingarþjónustu

Deila grein

06/12/2018

Tryggjum jöfnuð gagnvart fæðingarþjónustu

Fæðingarstöðum á Íslandi hefur fækkað hin síðari ár. Árið 2003 voru þeir 14 en eru nú 8. Hátt á þriðja hundrað börn fæðast árlega sem eiga foreldra sem búa yfir hundrað kílómetra frá fæðingarþjónustu. Félags- og jafnréttisráðherra hyggst í samvinnu við heilbrigðisráðherra stofna starfshóp til að fara heildstætt yfir aðstæður barnshafandi kvenna á landsbyggðinni með tilliti til staðsetningar fæðingarþjónustu og gera nauðsynlegar úrbætur.

Nýtt sjúkrahótel bætir þjónustuna
Þrátt fyrir að fæðingarstöðum fækkað, þá hefur fátt komið í staðinn fyrir það fólk sem býr fjarri fæðingarþjónustu. Sjúkratryggingar Íslands greiða ferðakostnað fyrir móður, en það er allt og sumt. Mikill kostnaður getur fylgt því að greiða fyrir gistingu nærri fæðingarþjónustu sem og ferðakostnað fyrir aðra fjölskyldumeðlimi og uppihald. Markmið nýs sjúkrahótels við Landspítala, sem opnar á næstunni, er m.a. að útvega gistingu fyrir fólk af landsbyggðinni sem er að sækja þjónustu sem ekki er veitt í heimabyggð og að veita konum af landsbyggðinni gistingu nálægt fæðingardeild meðan beðið er fæðingar sérstaklega ef að er um áhættufæðingar að ræða. Góð aðstaða verður fyrir fjölskyldufólk á sjúkrahótelinu.

Nauðsynlegt að breyta lögum um fæðingarorlof
Vegna þessa augljósa ójafnræðis sem fólk býr við varðandi aðgengi að fæðingarþjónustu lagði undirrituð ítrekað fram frumvarp, ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins, með breytingu á lögum um fæðingarorlof.  Með frumvarpinu var lagt til að réttur foreldra til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks framlengist sem nemur þeim tíma sem þeir þurfa að dveljast fjarri heimili til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp. Sú breyting yrði til þess að öllum börnum yrði tryggður jafn réttur til að njóta samvista við foreldra sína fyrstu mánuði lífsins. Slík breyting yrði einnig í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem veitt hefur verið lagagildi hérlendis með lögum nr. 19/2013. Velferðarnefnd Alþingis tókst ekki að afgreiða frumvarpið á vordögum en því ber að fagna að félagsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra ætli að fara ítarlega yfir stöðu þessa hóps og leggja fram tillögur að úrbótum.

Í svo fámennu og dreifbýlu landi sem Ísland er, er skiljanlegt að erfitt sé að halda úti fæðingarþjónustu á hverjum stað. Engu að síður verðum við að tryggja jöfnuð á milli þegna landsins og því verður kerfið að vera skipulagt á þann hátt, að komið sé til móts við fólk sem ekki á kost á fæðingarþjónustu í heimabyggð.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á feykir.is 4. desember 2018.

Categories
Greinar

Staðsetning fyrirhugaðrar Þjóðgarðastofnunar

Deila grein

06/12/2018

Staðsetning fyrirhugaðrar Þjóðgarðastofnunar

Það hefur staðið til að umhverfis- og auðlindaráðherra komi á fót Þjóðgarðastofnun sem mun annast náttúruvernd á friðlýstum svæðum í samræmi við náttúruverndarlög. Með því er verið að sameina verkefni og stjórnsýslu á þessu sviði undir eina stjórn og á einn stað. Nýlega spurði ég umhverfis- og auðlindaráðherra hvort það kæmi til greina að staðsetja fyrirhugaða stofnun á landsbyggðinni og ef svo er, hvað lægi til grundvallar slíkri ákvörðun.

Gott aðgengi að stjórnsýslu

Þau atriði sem ráðherra telur brýnt að horfa til þegar tekin verður ákvörðun um starfsstöðvar nýrrar stofnunar eru tengsl stjórnenda og lykilstarfsfólks við stjórnsýsluna. Það sé mikilvægt að stofnunin hafi gott aðgengi að stjórnsýslu eins og ráðuneytum og öðrum stofnunum sem snúa að slíkri starfsemi. Ráðherra bendir á að hægt sé með öruggum hætti að viðhalda tengslum á rafrænan hátt en að ekki megi gera lítið úr mikilvægi beinna samskipta.

Ráðherra telur mikilvægt að góð samskipti séu við hagaðila og að virkt samráð sé forsenda þess að vel takist upp. Sterk rök eru fyrir því að á hverju starfssvæði stofnunarinnar eða í hverjum landshluta þurfi að vera nokkuð öflug starfsstöð með getu til þess að sinna slíkum samtölum ásamt annarri þjónustu, t.d. hluta af miðlægri þjónustu stofnunarinnar.

Verkefni um allt land

Verkefni fyrirhugaðrar stofnunar eru á hendi þriggja stofnana sem heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Þær stofnanir starfa víða um land eins og Umhverfisstofnun sem starfar á tíu stöðum á landinu. Eðli starfsemi nýrrar stofnunar sem færi með málefni náttúrverndar, t.a.m. friðlýsingar og rekstur og umsjón friðlýstra svæða, fæli í sér að meginþungi starfseminnar yrði á landsbyggðinni.

Þekking og frumkvæði

Það er ljóst að mikil þekking um náttúruvernd og náttúrurannsóknir býr á landsbyggðinni. Starfsfólk Náttúrustofa og Umhverfisstofnunar um landið sinnir eftirliti með náttúru landsins með gagnasöfnun, fræðslu, ráðgjöf, þjónustu og fleiru.

Á Hvanneyri er Landbúnaðarskóli Íslands. Sérstæða hans er að viðfangsefni skólans er náttúra landsins, nýting, viðhald og verndun, eins og segir á heimasíðu skólans. Þar er rekin öflugur skóli í búfræði og búvísindum auk þess sem þar er öflug rannsóknastarfsemi á sviði búvísinda, náttúru- og umhverfisfræða.

Það er því ekki erfitt að finna hentuga staðsetningu fyrir fyrirhugaða Þjóðgarðastofnun þar sem hægt er að nálgast forsendurnar sem liggja til grundvallar slíkri stofnun.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 5. desember 2018.

Categories
Fréttir

Fjarskiptaáætlun – fjórðu iðnbyltingunni fylgja áskoranir

Deila grein

05/12/2018

Fjarskiptaáætlun – fjórðu iðnbyltingunni fylgja áskoranir

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mælti fyrir tveimur þingsályktunartillögum um fjarskiptaáætlun á Alþingi í dag, annars vegar stefnu í fjarskiptum til fimmtán ára og hins vegar aðgerðaáætlun til fimm ára. Ráðherra segir grunntón í áherslum og aðgerðum áætlunarinnar vera traust og öryggi.
Ný fjarskiptaáætlun felur í sér mikilvæga framtíðarsýn og markmið í fjarskiptum, netöryggismálum, póstmálum og málefnum Þjóðskrár Íslands fyrir árin 2019–2033 en aðgerðaáætlunin nær til tímabilsins 2019-2023.
Ráðherra sagði í framsöguræðu sinni að fjarskiptaáætlanir sem gerðar voru árin 2005 og 2012 hafi varðað farsæla þróun á sviði fjarskipta sem hafi komið Íslandi í fyrsta sæti í fjarskiptum og upplýsingatækni árið 2017 að mati Alþjóðafjarskiptasambandsins. Þriðju fjarskiptaáætluninni væri ætlað að fleyta þjóðinni enn lengra þannig að við héldum stöðu okkar sem eitt af forystulöndum heims í innviðum fjarskipta.
Í áætluninni er horft til umtalsverðrar og fyrirsjáanlegrar tækniþróunar, endurskoðunar á fyrirliggjandi stefnum og sameiningu stefna í fjarskiptum, netöryggismálum, póstmálum og málefnum Þjóðskrár Íslands. Einnig er tekið mið af samþættingu allra stefna og áætlana sem falla undir málefnasvið ráðuneytisins.
Fjórðu iðnbyltingunni fylgja áskoranir
Sigurður Ingi fjallaði um fjölmargar áskoranir fyrir þjóðir heims sem felast í fjórðu iðnbyltingunni þar sem fjarskipti, upplýsingatækni, netöryggi og gervigreind leika lykilhlutverk. „Birtingarmynd þeirra breytinga sem við nú þegar stöndum frammi fyrir er m.a. stórstígar framfarir í tækni, aukin sjálfvirkni, ör þróun í stafrænum samskiptum, síbreytilegt viðskiptamódel markaðsaðila og örar breytingar á regluverki ESB. Einnig má benda á að ríki heims standa nú frammi fyrir vaxandi ógnum á Netinu og þurfa Íslendingar að bregðast við þeim af alvöru. Hvað varðar póstþjónustuna má benda á að það er stór áskorun að takast á við hraða fækkun bréfasendinga og vöxt í verslun á Netinu með tilheyrandi pakkasendingum innanlands og milli landa. Þá vil ég nefna í þessu sambandi að ein allra mikilvægasta grunnskrá landsins, þjóðskráin, þarfnast endurnýjunar til að svara þeim kröfum sem m.a. Alþingi og almenningur gerir til hennar,“ sagði ráðherra í framsöguræðu sinni.
Þrjú stór viðfangsefni í áætluninni eru háð skilyrði um sérstaka viðbótar fjárveitingu að mati ráðherra. Í fyrsta lagi innleiðing á NIS tilskipun sem er grundvöllur brýnna umbóta í netöryggismálum þjóðarinnar. Í öðru lagi fjármögnun á mögulegum kostnaði ríkisins við að tryggja lágmarks póstþjónustu. Og loks í þriðja lagi sérstök ljósleiðaraverkefni eins og þriðji fjarskiptasæstrengurinn til Evrópu, hringtenging ljósleiðara á Austfjörðum auk útbóta við að tryggja betur öryggi mikilvægra fjarskiptainnviða. Ráðherra minnti á að landsátakið Ísland ljóstengt væri þegar fjármagnað en það verkefni hafi reynst ákaflega árangursríkt verkefni til að koma háhraðatengingum út í hinar dreifðu byggðir.
Ör endurskoðun mikilvæg
Þingsályktunartillögur um fjarskiptaáætlun voru samdar í samræmi við stefnu ríkisstjórnar, áherslur ráðherra, aðrar áætlanir hins opinbera og niðurstöður opins samráðs.
Samkvæmt lögum skal stefna í fjarskiptum og tilheyrandi aðgerðaáætlun endurskoðuð eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Ráðherra segir reglulega og öra endurskoðun mikilvæga þar sem þróun í málaflokkum sem fjarskiptaáætlun nær til taki hröðum breytingum. Árlega verður gerð grein fyrir framvindu markmiða og verkefna fjarskiptaáætlunar.
Þingsályktunartillaga um stefnu í fjarskiptum fyrir árin 2019-2033
Þingsályktunartillaga um fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019-2023

Heimild: stjornarradid.is

Categories
Fréttir

„Bjartari tímar framundan í Reykjanesbæ“

Deila grein

05/12/2018

„Bjartari tímar framundan í Reykjanesbæ“

Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, fer yfir helstu atriði í nýsamþykktri fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2019 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2020-2022, í yfirlýsingu í gær. Sveitarfélagið mun ná undir lögboðið 150% skuldaviðmið fyrr en upphafleg aðlögunaráætlun gerði ráð fyrir. Aðlögunaráætlun fyrir árin 2017 til 2022 gerði ráð fyrir að skuldaviðmiðið næði 150% árið 2022.
„Aukning er til nýframkvæmda í skólum og undirbúningur hafinn að byggingu nýs hjúkrunarheimilis. Álögur á íbúa eru lækkaðar eins og kostur er. Horfið hefur verið frá hækkuðu útsvari og nú greiða íbúar Reykjanesbæjar sömu prósentu í útsvar og íbúar flestra annara sveitarfélaga á Íslandi. Þá er ráðgerð lækkun á fasteignaskatti í gjaldskrá úr 0,46% í 0,36% til þess að mæta hækkuðu fasteignamati,“ segir Jóhann Friðrik.
Aðhald í rekstri, hagstæð ytri skilyrði, auknar tekjur og breyttar reglur um útreikning skuldaviðmiðs eru meðal þess sem valdi því að hraðar gangi að nálgast skuldaviðmiðið, samt hefur náðst að forgangsraða til velferðar-og fræðslumála í fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2019.
„Bjartari tímar framundan í Reykjanesbæ,“ segir Jóhann Friðrik Friðriksson.

Categories
Fréttir

Hvað getur unnist af klasastarfi?

Deila grein

04/12/2018

Hvað getur unnist af klasastarfi?

Willum Þór Þórsson, alþingismaður, er flutningsmaður að tillögu til þingsályktunar á Alþingi um mótun klasastefnu.
Í tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að móta opinbera klasastefnu. Stefnan feli í sér fyrirkomulag um hvernig hið opinbera efli stoðkerfi atvinnulífsins á landsvísu í samvinnu við atvinnulífið, rannsóknar- og menntastofnanir, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila sem málið snertir. Stefnan verði unnin í tengslum við stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs sem er í gildi 2017–2019 þar sem markmið nýrrar klasastefnu verði að ráðstafa fjármunum til atvinnuuppbyggingar og byggðaþróunar á markvissari hátt en hingað til, að efla samvinnu vísinda og atvinnulífs, efla nýsköpun, efla samkeppnishæfni fyrirtækja, atvinnugreina og þjóðarinnar og efla hagsæld. Enn fremur er lagt til að ríkisstjórnin skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps í lok maí 2019.
„Ég tel slíka stefnumótun getað skilað miklum ávinningi fyrir atvinnulífið, nýsköpun og ekki síst þegar við skoðum uppbyggingu atvinnu í tengslum við nýtingu auðlinda um landið gervallt og markvissari nýtingu fjölmargra sjóða sem ætlað er að efla rannsóknir og nýsköpun, hvort sem um ræðir vísindamenn innan menntageirans eða verkefnadrifna sjóði. Við getum kallað það innlegg í markvissari byggðastefnu,“ sagði Willum Þór.

Fjárfesting í þekkingarsköpun leiði til betri skilnings á samfélagslegum áskorunum
„Samfélög í dag standa frammi fyrir flóknum, hnattrænum áskorunum á sviði t.d. umhverfis, loftslags, heilsu, orku, fæðu, fólksflutninga og öryggis. Mikilvægt er að fjárfesting í þekkingarsköpun leiði til betri skilnings á samfélagslegum áskorunum og vísi veginn í átt til árangursríkra lausna. Slíkar lausnir krefjast oft umfangsmikils samstarfs þvert á fræðigreinar og á milli háskóla, stofnana og fyrirtækja. Til að ný þekking nýtist samfélaginu verður hún að hafa áhrif til breytinga, t.d. í stefnu stjórnvalda, með lagasetningu, með breyttu verklagi fyrirtækja og stofnana eða með breyttri hegðun fólks. Í samfélagslegum áskorunum felst töluverð óvissa því erfitt er að segja fyrir um áhrif þeirra og hvernig best sé að bregðast við. Skýr framtíðarsýn og markviss fjárfesting í þekkingu eykur möguleikana jákvæðum árangri og farsælli aðlögun að breyttum aðstæðum,“ sagði Willum Þór og vitnaði í ritið Stefna- og aðgerðaráætlun, Vísinda- og tækniráðs 2017-2019.
„Tillagan sem við ræðum, um opinbera klasastefnu, styður vel þær áherslur sem koma fram í aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs um vel ígrundaða stefnumótun og mikilvægi slíkrar stefnumörkunar þar sem upplýsingavinnsla og hagtölugerð er forsenda vandaðrar stefnumótunar og til aukins skilnings á rannsóknar- og nýsköpunarkerfinu, auknum sveigjanleika þess til að fylgja árangri eftir og markvissari ákvörðunartöku stjórnvalda, stofnana eins og háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja,“ sagði Willum Þór.
Hvað getur unnist af klasastarfi?
„Við höfum þrisvar sinnum haldið risastórar alþjóðlegar ráðstefnur sem hafa farið stækkandi og sem dæmi er alþjóðlega jarðvarmaráðstefnan sem haldin var í Hörpu 2016 um fjölnýtingu jarðvarmans. Hún er mjög gott dæmi um hvað getur sprottið á slíkum vettvangi og í samvinnu fyrirtækja í milli og stofnana og fræðasamfélags. Á ráðstefnunni voru fyrirlesarar á borð við Michael Porter. Þar voru 1.000 gestir frá 40 þjóðum að deila þekkingunni. Með ráðstefnunni hefur Íslandi eða íslenska jarðvarmaklasanum tekist að byggja Ísland upp sem helsta umræðuvettvang jarðvarma og endurnýjanlegrar orku á heimsvísu. Okkur tókst síðan í kjölfarið að fá alheimsráðstefnuna, sem er haldin á fimm ára fresti, í samkeppni við lönd eins og Chile, Þýskaland, Holland, Kenýa, Filippseyjar og Bandaríkin. Sú ráðstefna fer fram hér 2020. Ef hið opinbera markar ekki stefnu og tekur ekki þátt í verkefnum eins og því förum við á mis við tækifæri og hætta er á, ef slíkur stuðningur og skuldbinding er ekki fyrir hendi, að slík verkefni fjari út. Þetta er dæmi um það sem getur unnist í klasavinnu þar sem þekking kemur saman úr mörgum áttum, úr fræðasamfélagi, frá stofnunum, hinu opinbera, úr atvinnulífinu,“ sagði Willum Þór Þórsson.

Categories
Fréttir

Umhverfisvernd og dýravelferð við opinber innkaup á matvöru

Deila grein

03/12/2018

Umhverfisvernd og dýravelferð við opinber innkaup á matvöru

Þórunn Egilsdóttir, formaður Þingflokks Framsóknarmanna, mælti fyrir tillögu til þingsályktunar um vistvæn opinber innkaup á matvöru á dögunum á Alþingi. Fram kom í inngangsorðum Þórunnar „að miklu varðar að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda, notkun skaðlegra hormóna og eiturefna, ofnotkun sýklalyfja sem leiðir af sér fjölónæmar bakteríur og önnur skaðleg áhrif á umhverfið og velferð dýra við framleiðslu og flutning matvöru. Ríki og sveitarfélög geta haft veruleg áhrif þar á með því að hafa umhverfisvernd og dýravelferð að leiðarljósi við innkaup á matvöru. Til dæmis má ætla að hátt í 150.000 manns – nemendur, starfsfólk hjá hinu opinbera, vistmenn á dvalar- og öldrunarheimilum og fleiri – eigi reglulega kost á að borða í mötuneytum á vegum hins opinbera. Ef miðað er við að tveir þriðju þeirra neyti þess kosts er um 100.000 manns að ræða,“ sagði Þórunn.
Þórunn lagði áherslu á mikilvægi þess „að ávallt verði tekið tillit til umhverfisverndar og dýravelferðar við opinber innkaup á matvöru.“ Ríki og sveitarfélög geta stuðlað að vistvænni matvælaframleiðslu enda viðurkennt að nýta megi opinber innkaup til að vinna að umhverfisvernd og velferð dýra.
„Við búum hér yfir gríðarlegum gæðum“
Markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2014 kallar á breiðan stuðning við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki og atvinnugreinar í viðleitni þeirra til að setja sér markmið í loftslagsmálum. Allar stærri opinberar áætlanir þarf nú að meta út frá loftslagsmarkmiðum.
Skýrsla um kolefnisspor garðyrkjunnar, sem unnin var fyrir samband garðyrkjubænda, leiðir í ljós að íslensk garðyrkja hefur mest forskot þegar afurð er flutt inn með flugi. Það að flytja salat til landsins kostar rúmlega þrefalt meira kolefni en allt ferlið á Íslandi og er hlutfall íslenska kolefnissporsins um 26% af því innflutta.
„Allt skiptir þetta máli í stóra samhenginu þegar talið berst að umhverfismálum. Til gamans langar mig til að benda á að Danir, sem eru framarlega í þessum málum, eru svo hrifnir af íslenska grænmetinu að þeir vilja það helst af því að ræktunaraðferðirnar hér á landi og hreinleiki vatnsins er langt umfram það sem þekkist annars staðar. Við búum hér yfir gríðarlegum gæðum,“ sagði Þórunn.

Neytendastefna sauðfjárbænda
Í neytendastefnu sauðfjárbænda til ársins 2027 er gert ráð fyrir að búið verði að kolefnisjafna íslenska sauðfjárrækt fyrir þann tíma og að allar íslenskar sauðfjárafurðir verði vottaðar með lágmarksumhverfisspori fyrir 2027. Íslenskt sauðfé er nú þegar alið án hormóna og vaxtarhvetjandi lyfja og erfðabreytt fóður hefur verið bannað. Notkun á sýklalyfjum er með því minnsta sem þekkist í heiminum.
Ríkið er drifkraftur nýsköpunar og til sjálfbærrar þróunar
„Opinber innkaup ríkisins eru umtalsverður hluti af hagkerfinu og því skiptir máli hvernig þeim er hagað. Með hlutdeild sinni á matvælamarkaði getur ríkið haft áhrif á þróun á markaði og verið drifkraftur nýsköpunar og lagt mikið af mörkum til sjálfbærrar þróunar. Metnaður hins opinbera á að felast í því að gefa börnum, öldruðum og öðrum þeim er hið opinbera matreiðir fyrir, lystuga og heilnæma máltíð,“ sagði Þórunn.
„Íslenskur landbúnaður og íslensk landbúnaðarframleiðsla stendur mjög framarlega og það hefur verið mikið kappsmál hjá mínum flokki, Framsóknarflokknum, okkur Framsóknarmönnum, að fylgja þessum málum eftir. Ég hef trú á því að við stöndum með pálmann í höndunum ef við byggjum á þessum grunni,“ sagði Þórunn.
Í ríkisstjórnarsáttmálnum semgir að Ísland eigi að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum og tryggja eigi áframhaldandi samkeppnishæfni sjávarútvegs á alþjóðamörkuðum. Einnig kemur fram að nýta beri tækifæri sem byggjast á áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi, þróa lífhagkerfið enn frekar og stuðla að nýsköpun og vöruþróun til að auka virði afurða og byggðafestu.
„Það er gríðarlega mikið og stórt mál í öllum byggðamálum, að við séum með öflugt atvinnulíf um allt land og við séum að nýta auðlindina okkar, landið, til að framleiða heilnæm matvæli,“ sagði Þórunn Egilsdóttir.

Categories
Greinar

Tryggjum jöfnuð gagnvart fæðingarþjónustu

Deila grein

03/12/2018

Tryggjum jöfnuð gagnvart fæðingarþjónustu

Fæðingarstöðum á Íslandi hefur fækkað hin síðari ár. Árið 2003 voru þeir 14 en eru nú 8. Hátt á þriðja hundrað börn fæðast árlega sem eiga foreldra sem búa yfir hundrað kílómetra frá fæðingarþjónustu. Félags- og jafnfréttisráðherra hyggst í samvinnu við heilbrigðisráðherra stofna starfshóp til að fara heildstætt yfir aðstæður barnshafandi kvenna á landsbyggðinni með tilliti til staðsetningar fæðingarþjónustu og gera nauðsynlegar úrbætur.

Nýtt sjúkrahótel bætir þjónustuna
Þrátt fyrir að fæðingarstöðum fækkað, þá hefur fátt komið í staðinn fyrir það fólk sem býr fjarri fæðingarþjónustu. Sjúkratryggingar Íslands greiða ferðakostnað fyrir móður, en það er allt og sumt. Mikill kostnaður getur fylgt því að greiða fyrir gistingu nærri fæðingarþjónustu sem og ferðakostnað fyrir aðra fjölskyldumeðlimi og uppihald. Markmið nýs sjúkrahótels við Landspítala, sem opnar á næstunni, er m.a. að útvega gistingu fyrir fólk af landsbyggðinni sem er að sækja þjónustu sem ekki er veitt í heimabyggð og að veita konum af landsbyggðinni gistingu nálægt fæðingardeild meðan beðið er fæðingar sérstaklega ef að er um áhættufæðingar að ræða. Góð aðstaða verður fyrir fjölskyldufólk á sjúkrahótelinu.

Nauðsynlegt að breyta lögum um fæðingarorlof
Vegna þessa augljósa ójafnræðis sem fólk býr við varðandi aðgengi að fæðingarþjónustu lagði undirrituð ítrekað fram frumvarp, ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins, með breytingu á lögum um fæðingarorlof. Með frumvarpinu var lagt til að réttur foreldra til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks framlengist sem nemur þeim tíma sem þeir þurfa að dveljast fjarri heimili til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp. Sú breyting yrði til þess að öllum börnum yrði tryggður jafn réttur til að njóta samvista við foreldra sína fyrstu mánuði lífsins. Slík breyting yrði einnig í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem veitt hefur verið lagagildi hérlendis með lögum nr. 19/2013. Velferðarnefnd Alþingis tókst ekki að afgreiða frumvarpið á vordögum en því ber að fagna að félagsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra ætli að fara ítarlega yfir stöðu þessa hóps og leggja fram tillögur að úrbótum.

Í svo fámennu og dreifbýlu landi sem Ísland er, er skiljanlegt að erfitt sé að halda úti fæðingarþjónustu á hverjum stað. Engu að síður verðum við að tryggja jöfnuð á milli þegna landsins og því verður kerfið að vera skipulagt á þann hátt, að komið sé til móts við fólk sem ekki á kost á fæðingarþjónustu í heimabyggð.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst á eyjafrettir.is 3. desember 2018.

Categories
Greinar

Samvinna í lykilhlutverki

Deila grein

03/12/2018

Samvinna í lykilhlutverki

Á 100 ára afmæli fullveldisins finnur maður fyrir nálægð sögunnar í hversdeginum. Lítur yfir farinn veg og sér hvernig hreyfingar samfélagsins dag frá degi verða efniviður í Íslandssöguna. Finnur fyrir ákveðnum þunga á öxlunum en á sama tíma stolti yfir því að fá að taka þátt í sögu þjóðarinnar sem stjórnmálamaður og formaður þess flokks sem hefur í sinni 102 ára sögu haft gríðarleg áhrif á framþróun Íslands. Framsókn á stóran þátt í uppbyggingu atvinnutækifæra á tíma fullveldis Íslands og þá ekki síður í menntamálum og heilbrigðiskerfinu.Okkur hefur farnast velÞað verður víst ekki sagt um okkur Íslendinga að við séum fjölmenn þjóð. Þeim mun mikilvægari verður hver og einn og framlag hans til samfélagsins og þróunar þess. Kannski er það hluti af ástæðu þess hvað okkur hefur auðnast að hreyfa okkur hratt frá fábrotnu samfélagi til þess fjölbreytta og öfluga samfélags sem við byggjum í dag. Okkur Íslendingum hefur farnast vel sem fullvalda þjóð.

Samfélag okkar er ekki fullkomið frekar en önnur samfélög. Við erum þó lánsöm að búa við mikinn jöfnuð og líklega mesta samfélagslega hreyfanleika þannig að fólk getur unnið sig upp samfélagsstigann með hjálp öflugs menntakerfis og námslánakerfis sem sitjandi ríkisstjórn ætlar að breyta í átt að meiri stuðningi og jöfnuði en við höfum þekkt hér á landi áður. Menntun er lykilatriði í því að gefa fólki byr undir vængi og þá um leið samfélaginu. Menntun er grundvöllur allra framfara og við setjum ávallt manngildi ofar auðgildi.

Vélin sem knýr samfélagið

Atvinnulífið er vélin sem knýr samfélagið áfram. Framsókn hefur ávallt verið umhugað um að byggja upp sterkt og fjölbreytt atvinnulíf um allt land. Án atvinnu veikjast bæði samfélög og einstaklingar. Með atvinnu kemur styrkur og áræðni sem skilar fólki og byggðarlögum auknum lífsgæðum og samfélaginu öllu tekjum til að halda utan um þá sem minna mega sín. Stundum þarf að taka umdeildar ákvarðanir til að snúa vörn í sókn. Slíkt verður ávallt að gera með manngildið í öndvegi.

Frjálslyndi og farsæld

Síðasta öld er af mörgum kölluð öld öfganna. Á þeirri öld lék Framsókn og samvinnuhugsjónin oft lykilhlutverk í að leiða saman ólík öfl við stjórn landsins. Eins og segir í grunnstefnu flokksins aðhyllumst við frjálslynda hugmyndafræði og teljum farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð er á hófsemi og heiðarleika. Líklega hefur sjaldan verið nauðsynlegra að rödd og hugmyndafræði Framsóknar heyrist en einmitt nú þegar pólar stjórnmálanna verða ýktari. Nú er mikilvægt að hlusta vel á ólíkar raddir og leiða mál til lykta með samvinnu.

Sátt manns og náttúru

Framtíðin brosir við okkur. Framfarir eru stöðugar, bæði hvað varðar efnahag okkar og lýðræðislegt samfélag. Verkefni okkar stjórnmálamannanna er að þróa áfram samfélagið með því að skapa aðstæður og umhverfi sem gefur öllum tækifæri til að blómstra. Hvert skref sem tekið er verður að hlúa að þeim eiginleikum sem mikilvægastir eru fyrir manneskju og samfélag. Síðustu 100 ár hafa sýnt okkur að Íslendingum eru allir vegir færir. Nú bíður okkar allra verkefnið að efla og styrkja samfélagið í sátt manns og náttúru. Eins og áður er samvinnan þar í lykilhlutverki.

Ég óska Íslendingum öllum til hamingju á hundrað ára afmæli fullveldis Íslands.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. desember 2018.

Categories
Greinar

Menntun og menning til framtíðar

Deila grein

03/12/2018

Menntun og menning til framtíðar

Á þessum hátíðardegi fögnum við aldarafmæli fullveldis þjóðarinnar. Með sambandslögunum milli Íslands og Danmerkur, sem gildi tóku 1. desember 1918, var það viðurkennt að Ísland væri fullvalda og frjálst ríki og hefur dagurinn því sérstöðu í sögu okkar. Ég vona að sem flestir gefi sér tækifæri til þess að taka þátt í viðburðum sem skipulagðir eru víða um land af þessu hátíðlega tilefni. Tímamót gefa færi á að líta um öxl og svo vill til að um þessar mundir er ár liðið frá því að núverandi ríkisstjórn tók til starfa. Þetta fyrsta ár hefur verið afar lærdóms- og viðburðaríkt en sem mennta- og menningarmálaráðherra hef ég fengið að kynnast frábæru og fjölbreyttu starfi sem unnið er að á þeim vettvangi.

Stórsókn í menntamálum

Ríkisstjórnin hefur frá upphafi tekið það verkefni föstum tökum að stuðla að nauðsynlegri uppbyggingu samfélagslegra innviða. Í stjórnarsáttmálanum boðuðum við stórsókn í menntamálum og samþykkt fjármálaáætlun næstu ára ber þess skýr merki. Öflugt menntakerfi er forsenda framfara og leggur grunninn að áframhaldandi velsæld okkar. Við viljum að skapandi og gagnrýnin hugsun, læsi og þátttaka í lýðræðissamfélagi verði áfram undirstaða íslenska skólakerfisins og það geti mætt örum samfélagsbreytingum. Á því byggist samkeppnishæfni okkar til framtíðar. Vinna er hafin við mótun nýrrar menntastefnu til ársins 2030 og þar setjum við í forgang þær áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir í mennta-, atvinnu- og velferðarmálum.

Mikilvægi kennara

Brýnt verkefni okkar á sviði menntamála er að styrkja umgjörð í kringum kennara á öllum skólastigum og auka nýliðun í stétt þeirra. Mikilvægt er að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum því kennarar eru lykilfólk í mótun framtíðarinnar. Fjölþættar aðgerðir sem snúa að nýliðun kennara verða brátt kynntar en við höfum unnið að þeim í góðu samstarfi við skólasamfélagið.

Eflum iðn-, starfs- ogverknám

Eitt forgangsmála okkar er að efla iðn-, starfs- og verknám. Í því felst að styrkja utanumhald með verk- og starfsþjálfun nemenda og auka aðgengi að náminu. Niðurfelling efnisgjalda var mikilvægt skref í þá átt. Þá er brýnt að kynna betur þá fjölbreyttu náms- og starfskosti sem í boði eru. Sú vinna fer einkar vel af stað og sem dæmi fjölgaði innrituðum nemendum á verk- og starfsnámsbrautum framhaldsskóla hlutfallslega um 33% milli ára á haustönn. Kostir verk- og starfsmenntunar eru ótvíræðir og mikil eftirspurn eftir fólki með slíka menntun á ýmsum sviðum atvinnulífsins.

Vinnum gegn brotthvarfi

Annað stórt verkefni eru aðgerðir gegn brotthvarfi nemenda á framhaldsskólastigi. Aðgerðir á því sviði snúast meðal annars um aukin framlög til framhaldsskólastigsins, betri kortlagningu á brotthvarfsvandanum og bætta geðheilbrigðisþjónustu fyrir nemendur framhaldsskólanna. Niðurstöður útreikninga á árlegu nýnemabrotthvarfi sýna að það hefur minnkað miðað við gögn síðustu þriggja ára og er það vel, sem og að nú hefur svokölluð »25 ára regla« verið afnumin.

Styrkara háskólastig

Til að stuðla að hagvexti og umhverfi þar sem nýsköpun blómstrar og verkvit þróast er mikilvægt að fjárfesta í háskólastiginu og hvetja til öflugs samstarfs þess við atvinnulífið. Heildarfjárframlög háskólastigsins nema tæpum 47 milljörðum kr. á næsta ári en að meðtöldum launa- og verðlagsbreytingum er það hækkun um 2,2 milljarða kr. eða um 5% milli ára. Markmiðið með auknum framlögum til kennslu og rannsókna á háskólastigi er fyrst og fremst að auka gæði náms. Fjárfestingar okkar í menntakerfinu hafa aukist að undanförnu og hefur hlutfall háskólamenntaðra hér á landi vaxið hratt. Það er ánægjulegt að atvinnuleysi hjá háskólamenntuðum er mjög lítið hér á alþjóðlegan mælikvarða.

Menningin

Aðgengi að menningu er þýðingarmikill þáttur þess að lifa í framsæknu samfélagi, því skiptir máli að landsmenn allir geti notið lista og menningar og tekið þátt í slíku starfi. Við fylgjum eftir þeirri vinnu sem unnin hefur verið í uppbyggingu menningarhúsa á landsbyggðinni og á þessu ári hafa verið tekin mikilvæg skref í uppbyggingu slíkra húsa, á Sauðárkróki og Egilsstöðum. Menningarhúsin hafa sannað mikilvægi sitt víða um land og þau hafa ótvíræð jákvæð margfeldisáhrif, bæði á bæi og nærsamfélög. Á síðustu árum hefur átt sér stað vitundarvakning í verkefnum tengdum barnamenningu. Í tilefni af fullveldisafmælinu verður stofnaður barnamenningarsjóður með það markmið að styrkja börn til virkrar þátttöku í menningarlífi, listsköpun, hönnun og nýsköpun. Jafnframt verður nýjum styrkjaflokki bætt við styrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem sérstaklega verður ætlaður barna- og ungmennabókum.

Framtíðin er á íslensku

Íslensk stjórnvöld hafa kynnt heildstæða áætlun sem miðar að því að styrkja stöðu íslenskunnar. Aðgerðirnar snerta ólíkar hliðar þjóðlífsins en markmið þeirra ber að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum samfélagsins. Þeim til grundvallar er eindreginn vilji til að tryggja framgang tungumálsins, t.a.m. með stuðningi við bókaútgáfu, einkarekna fjölmiðla, máltækni og menntun. Á næstunni mun ég leggja fram þingsályktunartillögu um að efla íslensku sem opinbert mál hér á landi. Megininntak hennar verða aðgerðir í 22 liðum sem snerta meðal annars skólastarf, menningu, tækniþróun, nýsköpun, atvinnulíf og stjórnsýslu.

Verkin tala

Sem ráðherra fagna ég áhuga á þróun mennta- og menningarmála og þakka þann ríka samvinnuvilja sem ég skynja á vettvangi minna starfa. Hvort tveggja er okkur mikilvægt til að ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem við höfum sett okkur. Nú horfum við 100 ár aftur í tímann, fögnum tímamótum og hugsum jafnframt til framtíðar. Hún er full af spennandi verkefnum og tækifærum. Til hamingju með fullveldisdaginn.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. desember 2018.

Categories
Greinar

Náttúruminjasafn á tímamótum

Deila grein

03/12/2018

Náttúruminjasafn á tímamótum

Sýning Náttúruminjasafns Íslands helguð einni mikilvægustu auðlind okkar, vatninu, verður opnuð í Perlunni á morgun, sjálfan fullveldisdaginn. Sýningin ber yfirskriftina Vatnið í náttúru Íslands og mun veita gestum nýstárlega sýn í leyndardóma vatnsins og mikilvægi þess fyrir farsæla framtíð og búsetu í landinu. Markmið sýningarinnar er meðal annars að benda okkur á að umgangast vatnið í öllum sínum myndum af aðdáun og virðingu og fræða gesti um undur náttúrunnar.

Opnun sýningarinnar er merkur áfangi í sögu Náttúruminjasafnsins. Hún er fyrsta stóra sýningin sem höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum setur upp á eigin vegum síðan safnið var formlega sett á laggirnar árið 2007. Einnig má segja að þessi sýning sé fyrsta skrefið í áttina að því að hér á landi verði til fullbúið safn í náttúrufræðum þar sem fyrir hendi verða sérfræðingar á sviði náttúru- og safnafræða og aðstaða til móttöku náttúruminja, skráningar þeirra og varðveislu. Safnið fær nú til afnota 340 fm hæð í Perlunni í Öskjuhlíð þar sem fyrirtækið Perla norðursins setur upp fjölbreyttar sýningar tengdar íslenskri náttúru og hugviti, listfengi og nýjustu tækni er einnig beitt til þess að gera upplifun gesta sem áhrifaríkasta.

Náttúruminjasafn Íslands er mennta- og fræðslustofnun og ein af grunnstoðum samfélagsins á því sviði. Miðlun með sýningahaldi er mikilvægur þáttur í starfsemi allra safna og nú þegar meiri samkeppni er um tíma fólks og athygli þarf að huga vel að framsetningu og miðlunarleiðum. Nýja sýningin er bæði frumleg og falleg og gerir ráð fyrir virkri þátttöku gesta. Fagnaðarefni er að börnum er gert sérstaklega hátt undir höfði í miðlun sýningarinnar og er sýningin að verulegu leyti sniðin að því að vekja áhuga ungra gesta. Tveir safnkennarar munu sinna sérstaklega móttöku skólahópa á sýninguna og sjá um kennslu, einkum fyrir leik- og grunnskóla.

Íslensk náttúra hefur mikla sérstöðu á alþjóðavísu og er eitt helsta aðdráttarafl fyrir erlendra gesti sem hingað sækja. Í þessari nýju sýningu Náttúruminjasafnsins er þekkingu vísindamanna á íslenskri náttúru miðlað á eftirtektarverðan hátt og fá gestir tækifæri til að upplifa vatnið í nýju og fræðandi ljósi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. nóvember 2018.