Categories
Greinar

Konur til forystu

Deila grein

05/02/2014

Konur til forystu

Líneik Anna SævarsdóttirMargir hafa á síðustu vikum veitt slagorðinu „Konur til forystu“ athygli á samskiptamiðlum, sem og öðrum miðlum. Slagorðinu er ætlað að hvetja þá sem standa að framboðum til sveitarstjórnarkosninga til að skipa konur í forystusæti til jafns á við karla. Slagorðið á svo að sjálfsögðu við á fleiri sviðum, eins og í atvinnulífinu. Á öðrum sviðum þurfa karlar hins vegar hvatningu til dáða en geymum það að sinni.

Konur í forystu hjá sveitarstjórnum eru miklu færri en karlar en til þess að ná fram jafntefli (jafnrétti) er mikilvægt að hvetja liðið sem er undir. Nú eru konur um 40% sveitarstjórnarmanna. Engu að síður voru konur um helmingur frambjóðenda í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Konur skipuðu hins vegar síður en karlar efstu sæti framboðslista og því náðu færri konur kjöri. Konur voru í leiðtogasæti á fjórðungi lista. Hlutfall kvenna í forystu sveitarfélaga sem bæjarstjórar, sveitarstjórar eða oddvitar er 32%.

Á þeim fundum sem ég hef setið með sveitarstjórnarmönnum frá því ég varð þingmaður kom ég fljótt auga á að konur eru oft um 25-30% fundarmanna. Þetta eru fundir eins og aðalfundir samtaka sveitarfélaga og fundir þar sem forystumenn sveitarfélaganna fylgja eftir áherslumálum sveitarfélaga eða landshlutasamtaka. Þarna er hlutfallið sem sagt enn lægra en hlutfall kjörinna fulltrúa og jafnvel lægra en hlutfall kvenna í forystu sveitarfélaga.  Ég hef velt fyrir mér ýmsum skýringum, t.d. kynjaskiptingu á vinnumarkaði, þar sem konur sinna frekar störfum sem krefjast viðveru á þeim tímum sem fundir fara fram. Eins gæti verið að konur stoppi styttra við í sveitarstjórnum og því telji konur sig síður hafa reynsluna sem þarf til að sinna forystustörfum. Ekki veit ég hvort þetta eru réttar skýringar en það er verðugt viðvangsefni að velta þessum málum fyrir sér.

Ef við viljum ná fram breytingum er mikilvægt að félög sem standa að framboðum til sveitarstjórna og hins vegar sveitarstjórnirnar sjálfar axli ábyrgð og leiti leiða til úrbóta, þó ákvörðun um framboð verði alltaf einstaklingsins.

Félögin sem bjóða fram lista til sveitarstjórna verða að finna aðferðir sem tryggja jafnrétti við röðun á lista, bæði kynjajafnrétti sem og jafnrétti á ýmsum öðrum sviðum og það þarf líka að gæta að jafnrétti þegar skipað er í forystusætin.

Sveitarstjórnir þurfa að velta fyrir sér af fullri alvöru hvort hægt sé að haga starfi sveitarstjórna þannig að það geri þeim sem hafa áhuga og hæfileika til starfa að sveitarstjórnarmálum það mögulegt.  Ég hef talað við fjölda karla og kvenna sem gefast upp á störfum í sveitarstjórnum vegna þess hversu erfitt er að samrýma þau atvinnuþátttöku, löngum ferðalögum í sífellt stærri sveitarfélögum o.s.frv.  Hvernig eru jafnréttisáætlanir sveitarstjórna?

Einstaklingar sem taka þátt í starfinu þurfa einnig að vera duglegir að miðla af sinni reynslu, bæði jákvæðri og neikvæðri.  Störf að sveitarstjórnarmálum geta vissulega verið tímaþjófur og það getur verið krefjandi að sameina þau öðrum hlutverkum en þau eru líka gefandi á margan hátt.  Í gegnum þessi störf gefst tækifæri til að kynnast fjölda fólks, læra ótrúlega margt um fjölbreytt málefni og eiga ánægjulegt samstarf við ólíka einstaklinga.

Ég vil hvetja alla sem hafa áhuga á því samfélagi sem þeir búa í til að skoða möguleika á þátttöku. Ég vil þó sérstaklega hvetja konur til starfa, því við þurfum fleiri KONUR TIL FORYSTU.

 

Líneik Anna Sævarsdóttir

Categories
Fréttir

Auglýst eftir frambjóðendum í Hafnarfirð

Deila grein

05/02/2014

Auglýst eftir frambjóðendum í Hafnarfirð

logo-xb-14Framsóknarfélögin í Hafnarfirði auglýsa eftir áhugasömum frambjóðendum eða ábendingum um frambærilega frambjóðendur.
Fulltrúaráðsfundur í Framsóknarfélögunum í Hafnarfirði hefur falið uppstillingarnefnd að gera tillögu að framboðslista Framsóknarflokksins fyrir kosningar til bæjarstjórnar í Hafnarfirði í vor.
Uppstillingarnefnd auglýsir því hér með eftir framboðum eða ábendingum um frambærilega frambjóðendur til að taka sæti á lista Framsóknarflokksins. Frambjóðendur þurfa að uppfylla ákvæði laga um kjörgengi skv. 3. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna. Frambjóðandi skal hafa lögheimili í Hafnarfirði og hafa náð 18 ára aldri þegar kosning fer fram. Konur jafnt sem karlar, ungir sem aldnir, eru hvattir til að gefa kost á sér.
Uppstillingarnefnd lýsir einnig eftir áhugasömum aðilum sem hafa áhuga á að starfa með okkur fram að kosningum og vinna að ákveðnum málaflokkum eftir kosningar þó þeir gefi ekki kost á sér á framboðslistann. Þegar í bæjarstjórn er komið þarf að manna hinar ýmsu nefndir og ráð Hafnarfjarðarbæjar og má sjá lista um slíkt á vef bæjarins, www.hafnarfjordur.is
Framboðsfrestur er til kl. 12 á hádegi miðvikudaginn 12. febrúar 2014.
Framboðum eða tilnefningum skal skila á netfangið 220framsokn@gmail.com eða til uppstillingarnefndar. Framsókn í Hafnarfirði er á Facebook og er hægt að koma ábendingum á framfæri þar með skilaboðum.
Uppstillinganefnd skipa:
Ingvar Kristinsson
Þórey Matthíasdóttir
Hildur Helga Gísladóttir
Guðmundur Fylkisson
Þórarinn Þórhallsson

Categories
Fréttir

Opinn fundur í Reykjavík

Deila grein

03/02/2014

Opinn fundur í Reykjavík

framsokn-auglysing-reykjavik

Categories
Greinar

Einhugur um afnám verðtryggingar – en hversu hratt?

Deila grein

02/02/2014

Einhugur um afnám verðtryggingar – en hversu hratt?

Frosti SigurjónssonNiðurstaða nefndar um afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum er einróma sú að verðtrygging sé skaðleg og hana þurfi að afnema. Nefndin klofnaði hins vegar í afstöðu sinni til þess hversu hratt eigi að afnema verðtrygginguna. Minnihluti nefndarinnar leggur til afnám strax á miðju ári, en meirihlutinn vill afnema verðtryggingu í áföngum og taka fyrsta skrefið næstu áramót. Þingið þarf því að velja á milli þessara valkosta. Í þessum pistli skoða ég helstu rök meirihlutans gegn afnámi í einu skrefi og set fram mótrök gegn þeim.

Nefndin einhuga um skaðsemi vertryggingar á neytendalánum

Meðal ókosta sem taldir eru í skýrslu meirihlutans: Tekjur lántakenda eru óverðtryggðar og því geta verðtryggð lán skapað hættu á yfirveðsetningu á verðbólgutímum. Verðtrygging freistar til útlánaþenslu því greiðslubyrði verðtryggðra lána létt í upphafi en þyngist mjög í lokin. Ef verðtryggð jafngreiðslulán eru útbreidd þá dregur úr virkni stýrivaxtatækisins. Verðtrygging leiðir þannig til hærri stýrivaxta og vaxtastigs. Verðtrygging varpar allri áhættu af verðbólguskotum yfir á heimilin sem lántaka.

Í áliti minnihlutans koma fram fleiri ókosti verðtryggingar: Verðtrygging hvetji beinlínis til ofskuldsetningar heimila og auki þannig efnahagslegan óstöðugleika. Verðtrygging valdi værukærð gagnvart verðbólgu. Vísbendingar séu um að verðbólga hafi verið ofreiknuð. Bankakerfið hagnast á verðbólgu. Verðtrygging lána sé verðbólguvaldur.

Nefndin varð einhuga um að skaðsemi verðtryggingar sé það mikil að rökstyðja megi skert samningsfrelsi vegna lánssamninga verðtryggðra neytendalána. Ég er því sammála, hér er grein sem ég skrifaði um rök með og móti verðtryggingu.

Meirihlutinn leggur til afnám í skrefum

Tillaga meirihlutans er að frá og með 1. janúar 2015 verði bannað að veita verðtryggð jafngreiðslulán lengri en til 25 ára. Lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur úr 5 í 10 ár. Takmarkanir verði á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána og hvatar auknir til töku og veitingar óverðtryggðra lána. Eigi síðar en 2016 verði reynslan metin og mótuð áætlun um fullt afnám.

Minnihlutinn leggur til afnám í einu skrefi

Tillaga minnihlutans er að verðtrygging nýrra neytendalána verði óheimil frá og með 1. júlí 2014. Gripið verði til mótvægisaðgerða eftir því sem við á, þar á meðal: Skattívilnun til niðurgreiðslu á höfuðstól fyrstu ár lánstímans. Boðið verði upp á afborgunarlaus lán, þ.e. aðeins aðeins vextir greiddir fyrstu ár lánstímans. Nýta megi séreignasparnað til að lækka höfuðstól lána. Vaxtabótum verði beitt til að létta greiðslubyrði. Varnir settar gegn fákeppni og okri á bankamarkaði. Ríkið gefi út verðtryggð skuldabréf. Þak verði sett á verðtryggingu eldri lána. Endurskoða þurfi mælingu neysluvísitölu og leiðrétta hugsanlegan ofreikning hennar.

Helstu rök meirihlutans gegn afnámi í einu skrefi

Meirihlutinn telur að afnám verðtryggingar af neytendalánum í einu vetfangi hefði víðtæk áhrif.

  1. Greiðslubyrði óverðtryggðra lána er hærri en verðtryggðra í upphafi lánstíma, sem þýðir minna aðgengi að fjármagni, minni eftirspurn eftir húsnæði og lægra fasteignaverð. Einnig dragi úr einkaneyslu og þar með hagvexti. Greining Seðlabanka Íslands bendi til þess að afnám verðtryggingar geti haft mjög neikvæð áhrif á hagkerfið.
  2. Heimilin verði berskjölduð fyrir bröttu vaxtahækkunarferli þar sem ólíklegt sé að fastir vextir bjóðist til langs tíma.
  3. Staða Íbúðalánasjóðs myndi versna með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð.
  4. Þá sé óvissa um hvort lífeyrissjóðir muni halda áfram að fjármagna íbúðalán ef þau séu óverðtryggð.

Vegna ofantalinna áhrifa á hagkerfið, neytendur, Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóði, og með fjármálastöðugleika í huga telur meirihlutinn skynsamlegra að afnema verðtryggingu í áföngum.

Hversu vel halda þessi rök? 

Nefndin klofnaði í afstöðu sinni og því er eðliegt að menn skoði rökin og taki afstöðu til þeirra. Ólafur Margeirsson skrifaði pistil með gagnrýni á rök meirihlutans, Marinó G. Njálsson hefur talað fyrir afnámi strax hér og hér, og nú koma mínar hugleiðingar um efnið:

1) Aukin greiðslubyrði í upphafi lækkar fasteignaverð og dregur úr hagvexti

Það er vissulega rétt að greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum er meiri en af verðtryggðum fyrstu árin. En við því mætti bregðast með mótvægisaðgerðum: Bjóða mætti upp á lán sem væru án afborgunar af höfuðstól fyrstu árin, þ.e. eingöngu greiddir vextir. Aðlaga vaxtabætur þannig að þær væru hærri fyrstu árin og þær jafnvel greiddar út í takt við afborganir af lánum.

Meirihlutinn byggir niðurstöðu sína á greiningu Seðlabankans sem við nánari skoðun virðist ekki í samræmi við raunveruleikann. Seðlabankinn reiknar út að fasteignaverð geti lækkað um 14-20% verði verðtrygging bönnuð af nýjum lánum. Í skýrslu Analytica kemur fram að 75% nýrra húsnæðislána eru óverðtryggð og samt hefur fasteignaverð hækkað. Því virðist ósennilegt að fasteignaverð hrynji þótt öll ný úsnæðislán verði óverðtryggð. Það má reyndar vera að fasteignaverð myndi hækka eitthvað hægar en ella. En væri það svo slæmt? Það væru þá minni líkur á fasteignabólu sem er annars getur herjað á hagkerfi innan hafta.

Seðlabankinn varar við því að afnema verðtryggingu nýrra lána því það geti dregið úr einkaneyslu og hagvexti. Það er vissulega rétt, en telur Seðlabankinn æskilegt að einkaneysla í hagkerfinu sé fengin að láni? Væri ekki ábyrgara að hvetja til sparnaðar frekar en skuldsettrar neyslu?

2) Heimilin verða berskjölduð fyrir bröttu vaxtahækkunarferli

Heimilin eru nú þegar berskjölduð fyrir bröttu vaxtahækkunarferli þótt lánin séu verðtryggð. Vextirnir koma einfaldlega fram í formi verðbóta sem bætast við höfuðstólinn og bera síðan vaxtavexti út lánstímann. Skuldin hækkar og gengur þannig á eigið fé heimilisins án minnstu mótspyrnu. Verðtrygging deyfir vaxtaskyn lántakenda og lánastofnunum er veitt minna aðhald. Afleiðingin af þessum doða eru hærri vextir og á endanum meiri greiðslubyrði. Verði verðtrygging hinsvegar afnumin þá yrðu lánastofnanir sjálfar berskjaldaðar fyrir bröttu vaxtahækkunarferli og myndu deila áhættu af verðbólgu með heimilunum. Komi til verðbólguskots, munu lánastofnanir hika við að hækka vexti umfram greiðslugetu lántakenda. Það er betra fyrir þær að taka einhvern hluta af verðbólguskoti á sig og dreifa því á lengri tíma, fremur en að orsaka víðtæk vanskil hjá lántakendum.

Verði lán almennt óverðtryggð þá minnka líkur á snörpum vaxtahækkunum. Ástæðan er sú að stýrivextir Seðlabanka þyrftu ekki að hækka eins skart til að draga úr þenslu. Örlítil hækkun stýrivaxta myndi yfirleitt nægja til að slá á þenslu og vextir yrðu því almennt lægri en nú tíðkast.

3) Staða Íbúðalánasjóðs myndi versna

Fortíðarvandi Íbúðalánasjóðs er því miður orðinn hlutur sem þarf að horfast í augu við. Þeim fortíðarvanda verður vart sópað undir teppið með því að fresta afnámi verðtryggingar af nýjum lánum.

Vandi Íbúðalánasjóðs felst í því að hann getur ekki greitt upp útgefin verðtryggð eigin skuldabréf upp á 700 milljarða. Hann situr á lausu fé vegna þess að lántakendur hafa í talsverðum mæli greitt upp verðtryggð lán hjá sjóðnum. Þetta fé gæti sjóðurinn eflaust lánað út óverðtryggt til að draga úr tapinu. Þá myndi sjóðurinn reyndar sitja uppi með áhættu af misgengi á milli óverðtryggðra eigna og verðtryggðra skulda. Til að draga úr misvæginu gæti Íbúðalánasjóður gert vaxtaskiptasamning við ríkissjóð sem skuldar 700 milljörðum of mikið óverðtryggt. Einnig gæti Íbúðalánasjóður gert vaxtaskiptasamning við Landsbankann sem skuldar ríflega 200 milljörðum of mikið óverðtryggt.

4) Óvissa um að lífeyrissjóðir haldi áfram að fjármagna íbúðalán

Það er mjög erfitt að sjá fyrir sér að lífeyrissjóðir myndu ekki vilja lána til íbúðakaupa. Lán með veði í íbúðarhúsnæði eru traust fjárfesting til lengri tíma og hentar því lífeyrissjóðum einstaklega vel.

Fjármagnshöftin valda því að lífeyrissjóðir þurfa að fjárfesta ríflega 100 milljarða árlega hér á landi. Þótt fjármagnshöftin verði afnumin er ólíklegt að lífeyrissjóðir fengju ótakmarkað svigrúm til að fjárfesta erlendis næstu árin á eftir. Það ætti því að vera næg eftirspurn hjá lífeyrissjóðum eftir óverðtryggðum íbúðabréfum næstu árin.

Brýnt að afnema verðtygginu nýrra lána strax

Skýrslur bæði meiri- og minihluta nefndar um afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum eru fróðleg lesning og bera vitni um mikla og vandaða vinnu. Ég er sammála því að verðtryggingin sé skaðleg og hana beri að afnema. Nefndin klofnaði í afstöðu til þess hversu hratt ætti að afnema verðtryggingu og því er eðlilegt að rökræðan muni snúast um það álitamál.

Að mínum dómi eru veigamikil rök fyrir því að afnema verðtryggingu nýrra lána strax. Því lengur sem verðtrygging er við lýði, því lengur búum við þau vandamál sem henni fylgja: háa stýrivexti, of mikla skuldsetningu heimila, heimilin bera ein áhættu af verðbólgu á meðan bankakerfið hefur hvata til að auka verðbólgu. Það þyrfti því mjög sterk rök til að fresta þeim umbótum sem afnám verðtryggingar er. Þau rök hafa að mínum dómi ekki enn komið fram.

 

Frosti Sigurjónsson

(Greinin birtist á www.frostis.is)

Categories
Fréttir

Verðtryggingarnefnd klofnaði

Deila grein

29/01/2014

Verðtryggingarnefnd klofnaði

STOPPSérfræðingahópur um afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum, sem forsætisráðherra skipaði þann 16. ágúst 2013, hefur skilað skýrslu sinni. Í skýrslu hópsins er lagt til að frá og með 1. janúar 2015 verði tekin veigamikil skref í átt að fullu afnámi verðtryggingar nýrra neytendalána með því að:

  • óheimilt verði að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára,
  • lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur í allt að 10 ár,
  • takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána og
  • hvatar auknir til töku og veitingar óverðtryggðra lána.

Mikilvægt er að draga úr vægi verðtryggðra jafngreiðslulána. Slíkt mun styðja við fjármálastöðugleika til langs tíma, efla virkni stýrivaxta Seðlabankans og byggja undir jafnvægi í hagkerfinu. Greiðsluferill 40 ára verðtryggðra jafngreiðslulána veldur hættu á yfirveðsetningu á fyrri hluta lánstímans og eykur heildarvaxtakostnað yfir lánstímann þar sem verðbótum er velt yfir á höfuðstólinn. Þessi ókostur lánanna ágerist eftir því sem lánstíminn er lengri.
Helstu áhrif afnáms langra verðtryggðra jafngreiðslulána á neytendur eru hækkuð greiðslubyrði og erfiðara aðgengi að lánsfé fyrir tekjulága hópa. Því þarf að koma til móts við tekjulægri einstaklinga og fyrstu kaupendur með aðgerðum eins og betur skilgreindum vaxtabótum, skattaafslætti og úttekt séreignarlífeyrissparnaðar.
Verðtrygging hefur verið samofin íslensku efnahagslífi í 35 ár. Engar hömlur hafa verið settar á verðtryggingu frá árinu 1998 þrátt fyrir vilja og fyrirheit þar um. Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru því fyrstu takmarkanir á notkun verðtryggingar í langan tíma.
Fullt afnám verðtryggingar nýrra neytendalána krefst hins vegar meiri tíma og yfirlegu. Án vandaðs undirbúnings gæti afnám ógnað fjármálastöðugleika og rýrt stöðu neytenda og lánveitenda. Forsendur fyrir því að unnt sé að afnema verðtryggingu að fullu eru einkum að takist hafi að leggja grunn að nýju húsnæðiskerfi, skýra stöðu Íbúðalánasjóðs og endurbæta lífeyrissjóðakerfið. Að þessu er nú þegar unnið á vegum stjórnvalda og mikilvægt að sú vinna gangi greiðlega.
Lagt er til að stjórnvöld hefji eigi síðar en á árinu 2016 vinnu við að meta reynslu af þessum stóru skrefum, sem hér eru lögð til, í átt að afnámi verðtryggingar og móti í framhaldinu áætlun um fullt afnám.
Forsætisráðherra skipaði sérfræðingahópinn 16. ágúst 2013. Í honum áttu sæti eftirfarandi:

  • Ingibjörg Ingvadóttir, hdl., formaður
  • Helga Hlín Hákonardóttir, hdl.
  • Iða Brá Benediktsdóttir, viðskiptafræðingur
  • Sigrún Ólafsdóttir, alþjóðaviðskiptafræðingur í forsætisráðuneytinu
  • Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu
  • Valdimar Ármann, hagfræðingur og fjármálaverkfræðingur
  • Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness

Allir fulltrúar sérfræðingahópsins sameinast um þessar niðurstöður nema Vilhjálmur Birgisson sem skilaði sinni eigin skýrslu. Í skýrslu sinni leggur Vilhjálmur til að verðtrygging nýrra neytendalána verði óheimil frá og með 1. júlí 2014 og gripið verði samhliða til ýmissa mótvægisaðgerða. Þá leggur hann til að böndum verði komið á vexti og verðtryggingu eldri verðtryggðra lána, að rannsakað verði hver raunverulegur vísitölubjagi er við útreikning verðbólgu og að stjórnvöld láti gera óháða rannsókn á íslenska lífeyrissjóðakerfinu.

Sjá einnig:

Categories
Greinar

Stríð og friður

Deila grein

28/01/2014

Stríð og friður

Eygló HarðardóttirNorræn ríki hafa í þúsund ár ýmist átt samstarf, herjað innbyrðis, gengið í bandalög eða hernumið hvert annað. Þann 14. janúar var haldið upp á að Norðurlöndin hafa ekki strítt sín á milli í 200 ár. Þennan dag árið 1814 undirrituðu Danir og Svíar sáttmála um frið í Kiel í Þýskalandi, í kjölfar ósigurs Dana í Napóleonsstríðunum. Danir létu Noreg í hendur Svía og Norðmenn lýstu yfir sjálfstæði en voru þó undir sænskum konungi til ársins 1905. Sáttmálinn markar því upphaf tímabils friðar, stöðugleika og aukinnar samvinnu Norðurlandanna.

Umfangsmikið norrænt vinasamstarf á sér nú stað. Norðurlandaráð, samstarfsvettvangur norrænu þjóðþinganna, var stofnað 1952 eftir seinni heimsstyrjöldina og Norræna ráðherraráðið, samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna, árið 1971. Bæði þessi ráð vaka yfir velferð norrænna íbúa.

Halló Norðurlönd
Eitt af verkefnum norrænar samvinnu er að auðvelda frjálsa för milli Norðurlandanna og fækka svo kölluðum landamærahindrunum. Um 40.000 Norðurlandabúar flytja árlega á milli landanna og svipaður fjöldi sækir vinnu daglega eða vikulega þvert á landamærin. Slík tengsl stuðla að friði. Norrænir samningar hafa reynst vel s.s. um sameiginlegan vinnumarkað, frjálsa för norrænna borgara innan svæðisins og samningurinn um æðri menntun sem er okkur Íslendingum ómetanlegur.

Samstarfsráðherrar Norðurlandanna skipuðu um nýliðin áramót nýtt Landamærahindranaráð sem í sitja fulltrúar allra landanna. Ráðið mun vinna að því að auðvelda för norrænna borgara yfir landamærin eins og hægt er. Upplýsingaþjónustan Halló Norðurlönd er mikilvæg í þessu sambandi, en til hennar geta allir leitað sem vilja kanna rétt sinn varðandi flutninga milli landa. Heimasíða íslensku skrifstofunnar er www.hallonordurlond.is og sími 511-1808.

Sterk og stór saman
Norðurlandabúar eru rúmlega 25 milljónir samtals og sameiginlegt hagkerfi þeirra er það 10. stærsta í heimi. Aukin norræn samvinna felur því í sér öflugan og jákvæðan slagkraft. Saman erum við sterk og stór. Með friði norrænna ríkja á milli og aukinni samvinnu þeirra á sem flestum sviðum ættu möguleikarnir á hagsæld og framförum að vera miklir. Það er því ábatasamt að auka norræna samvinnu. Samvinna er hagkvæm, sérlega við okkar nánustu vinaþjóðir.

 

Eygló Harðardóttir

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. janúar 2014.)

Categories
Fréttir

Kjördæmavika Framsóknar – NORÐAUSTURKJÖRDÆMI

Deila grein

28/01/2014

Kjördæmavika Framsóknar – NORÐAUSTURKJÖRDÆMI

Frambjóðendur Norðaustur 2013Opnir fundir í kjördæmaviku Framsóknar. Þingflokkurinn mun þá verða á faraldsfæti og boðar til opinna funda til að ræða stöðu landsmálanna og einstök mál þar að lútandi. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Fundirnir verða á eftirtöldum stöðum:
Norðausturkjördæmi
Mánudagur 3. febrúar – Egilsstaðir, Austrasalurinn kl. 20:00
Þriðjudagur 4. febrúar – Norðfjörður, Egilsbúð kl. 12:00; Fáskrúðsfjörður, Björgunarsveitarhúsið kl. 20:00.
Miðvikudagur 5. febrúar – Vopnafjörður, Hótel Tangi kl. 12:00; Húsavík, Kiwanishúsið kl. 20:00.
Fimmtudagur 6. febrúar – Fjallabyggð, Allanum sportbar 2.hæð kl. 12:00; Dalvík, Gíslieiríkurhelgi-kaffihús kl. 17:00; Akureyri, salur RKÍ Viðjulundi 2 kl. 20:00.

Categories
Fréttir

Sigmundur Davíð á Sprengisandi

Deila grein

26/01/2014

Sigmundur Davíð á Sprengisandi

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og formaður Framsóknar var viðmælandi í þættinum á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Hér að neðan má nálgast viðtal Sigurjóns M. Egilssonar við forsætisráðherra.
Sprengisandur (1): SDG og afnám verðtryggingar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir einfalt að afnema verðtryggingu, en samt verði að athuga vel hverjar afleiðingarnar verða. Hann segir ríkisstjórnina ekki hafa langan tíma til að vinna að málinu.
https://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP24033
Sprengisandur (2): Störukeppni í fullum gangi
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir að enn sé störukeppni milli Íslendinga og kröfuhafa bankanna. Hann segir einnig að breytingarnar á bankaskattinum hafi komið einna verst við MP banka.
https://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP24034

Categories
Greinar

„Bandamenn íslenskrar verslunar eru í sjónmáli“ – Hvar eru bandamenn neytenda?

Deila grein

25/01/2014

„Bandamenn íslenskrar verslunar eru í sjónmáli“ – Hvar eru bandamenn neytenda?

Þorsteinn SæmundssonÍ nýlegri grein í Fréttablaðinu lýsti formaður Samtaka verslunar- og þjónustu hamingju sinni yfir vilja ríkisstjórnarinnar til að einfalda VSK-kerfið og endurskoða álagningu vörugjalda á innfluttan varning. Ekkert kemur fram í greininni um fyrirætlanir verslunarrekenda sjálfra til að bæta rekstur og lækka vöruverð.

Hvað segir skýrsla McKinsey?
Formaður SVÞ ber sig illa undan svokölluðum alhæfingum um óhagkvæmni verslunarrekstrar á Íslandi. En staðreyndir tala sínu máli. Í skýrslu alþjóðlega fyrirtækisins McKinsey kemur fram að ofmönnun í verslun á Íslandi nemi um 1.700 manns, sem betur væru komnir við vinnu í virðisaukandi greinum. Einnig kemur fram í skýrslunni að á Íslandi er 4,1 fermetri í verslunarhúsnæði á hvern íbúa, en til samanburðar um 1,6 fermetrar á hvern íbúa í Danmörku. Að auki kemur fram að meðalverslunareining á Íslandi er um 549 fermetrar að stærð en í Danmörku um 358 fermetrar. Svipaður munur er uppi á teningnum ef tekin eru til samanburðar önnur norræn lönd og Bretland.

Formaður SVÞ afgreiðir þessa staðreynd með því að höfðatölusamanburður geri okkur Íslendinga til skiptis að hetjum og skúrkum. Ég vona að þessi skýring formannsins sé misheppnuð tilraun til spaugs því offjárfesting og ofmönnun í verslun er ekkert grín heldur ein af höfuðástæðum hás vöruverðs á Íslandi.

Formaðurinn fullyrðir einnig að tækifæri sé fyrir nýja aðila að hasla sér völl á markaði. Mér þætti forvitnilegt að sjá nýja aðila koma inn á matvörumarkaðinn við núverandi aðstæður. Á þeim markaði er að finna aðra af meginástæðum fyrir okrinu, fákeppnina. Fákeppni sem m.a. kom í veg fyrir að veruleg styrking íslensku krónunnar á síðasta ári skilaði sér í lækkuðu verði á innfluttum vörum. Staðreyndin er sú að innfluttar vörur hækkuðu í verði þrátt fyrir styrkinguna.

Enn önnur ástæða fyrir háu vöruverði er óhóflegur afgreiðslutími sem verslunarmenn segja til kominn vegna eftirspurnar eftir slíkri þjónustu, en vandséð er hver þörf er fyrir sólarhringsafgreiðslutíma í 10–20 verslunum á höfuðborgarsvæðinu einu eins og nú er. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um beinan kostnað verslunarinnar af þessum afgreiðslutíma og hvað sá kostnaður vegur í vöruverði.

Breyttar áherslur – fjarri því
Lokaorð formanns SVÞ vekja ekki von um breyttar áherslur. Þar er henni efst í huga bætt staða verslunarinnar að lækkuðum opinberum gjöldum. Það hlýtur því að koma til álita að grípa til einhvers konar aðgerða til að tryggja að lækkanir vegna fyrirhugaðra breytinga á opinberum gjöldum verði ekki eftir í vasa kaupmanna heldur skili sér varanlega til neytenda.

 

ÞORSTEINN SÆMUNDSSON 

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. janúar 2014.)

Categories
Fréttir

Kjördæmavika Framsóknar – SUÐURKJÖRDÆMI

Deila grein

24/01/2014

Kjördæmavika Framsóknar – SUÐURKJÖRDÆMI

Frambjóðendur Suður 2013Opnir fundir í kjördæmaviku Framsóknar. Þingflokkurinn mun þá verða á faraldsfæti og boðar til opinna funda til að ræða stöðu landsmálanna og einstök mál þar að lútandi. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Fundirnir verða á eftirtöldum stöðum:
Suðurkjördæmi
Mánudagur 3. febrúar – Reykjanesbæ, Framsóknarhúsinu Hafnargötu 62 kl. 20:00.
Þriðjudagur 4. febrúar – Vestmannaeyjar, Kaffi Kró kl. 20:00.
Miðvikudagur 5. febrúar – Hornafjörður, kl. 12:00 (súpa); Kirkjubæjarklaustur, Icelandair Hótel Klaustur kl. 17:30; Vík, Hótel Vík kl. 20:30.
Fimmtudagur 6. febrúar – Hvolsvöllur, Hlíðarendi kl. 12:00 (súpa); Selfoss, Hótel Selfoss kl. 20:30.