Categories
Greinar

Fjárfestum í lýðheilsu – aðstaða fyrir alla

Deila grein

11/06/2024

Fjárfestum í lýðheilsu – aðstaða fyrir alla

Mosfellsbær er landmikið sveitarfélag með nær óþrjótandi möguleikum á að njóta útivistar. Hér eru græn svæði frá fjöru til fjalla.

Áhersla fólks og áhugi á að það séu byggð upp útivistarsvæði og aðstaða til hreyfingar í nærumhverfi þess hefur líka aukist mikið með árunum. Það er orðinn sjálfsagður hlutur að flest íþrótta- og tómstundafélög eigi svæði, fasteignir og annað er tiheyrir þeirra sérsviði og samfélagsleg sátt virðist vera um að verja hluta af okkar sameiginlegu sjóðum í að byggja það upp.
Á síðasta ári fóru rúm 9% af skatttekjum Mosfellsbæjar til íþrótta- og æskulýðsmála en það eru um 1,7 milljarðar króna. Fyrir þetta fjármagn rekum við meðal annars sundlaugar og íþróttamannvirki, styrkjum íþrótta- og tómstundastarf og rekum félagsmiðstöð. Auk þess var varið um 260 milljónum til fjárfestinga í aðstöðu á árinu 2023 og áætlað er að fjárfesta fyrir um 990 milljónir á þessu ári í íþrótta- og tómstundamannvirkjum.

Breytingar kalla á samtal

Það er að mörgu að huga þegar svæði eru skipulögð og sér í lagi þegar breytingar eru gerðar. Þá þarf að huga að hagsmunum oft ólíkra hópa. Það er nú einmitt tilfellið í þeim hugmyndum sem uppi eru um að gera breytingar á Hlíðavelli.

Mosfellsbær hefur gert samkomulag við Golfklúbb Mosfellsbæjar um að stækka völlinn til að hægt sé að gera breytingar á honum. Breytingarnar ganga aðallega út á að snúa vellinum þannig að frekara öryggis sé gætt á göngu-, hjóla- og reiðstígum í kringum völlinn.

Samkomulagið er tilkomið vegna hættu sem hefur skapast við nýja byggð við Súluhöfða og nálægð húsa við völlinn. Öryggi þessara íbúa í og við sín heimili er lykilforsendan fyrir því að bæjarstjórn samþykkti einróma í desember að ráðast í þetta verkefni með Golfklúbbi Mosfellsbæjar.
Skipulagsmál eru í eðli sínu lýðræðislegasta ferli stjórnsýslunnar. Þegar skipulagið fyrir þetta svæði liggur fyrir þá munu hagaðilar eins og Hestamannafélagið Hörður og íbúar í nágrenninu fá tækifæri til að rýna það og koma með athugasemdir.

Það verður enginn afsláttur gefinn af því þrátt fyrir vilja bæjarstjórnar og Golfklúbbsins til að ráðast í þessar breytingar. Svona breytingar þýða þó alltaf málamiðlanir og að sætta ólík sjónarmið.

Nýtum strandlengjuna saman

Við þurfum að ganga um þessar auðlindir okkar sem felast í grænum svæðum, útsýni og ósnertri náttúru af virðingu og það verður ekki ráðist í framkvæmdir á nýjum svæðum nema að vel ígrunduðu máli og að teknu tilliti til allra sjónarmiða.

Í mörg ár hefur útivistarfólk, hvort sem það eru golfarar, hestamenn, gangandi, hlaupandi eða hjólandi, notið þess að nýta strandlengjuna saman sem útivistarparadís. Það þurfum við að gera áfram en það þarf auðvitað að vera í fyrirrúmi tillitssemi og aðgát hjá okkur öllum sem nýtum þetta svæði og sýna samstöðu svo allir geti notið þess.

Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs
Sævar Birgisson, varaformaður skipulagsnefndar

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 6. júní 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fögnum lýðveldinu

Deila grein

10/06/2024

Fögnum lýðveldinu

Hand­an við hornið er merk­is­áfangi í sögu ís­lensku þjóðar­inn­ar en þann 17. júní næst­kom­andi verða liðin 80 ár frá því að stofn­un lýðveld­is­ins átti sér stað hér á landi. Með því lauk sam­bandi milli Íslands og Dan­merk­ur sem staðið hafði yfir í ald­ir og stjórn­ar­far­inu sem við þekkj­um í dag var komið á. Á ferðum og fund­um mín­um und­an­farið bera þessi tíma­mót nokkuð reglu­lega á góma í sam­töl­um mín­um við fólk. Þökk sé góðu lang­lífi hér á landi er drjúg­ur hóp­ur núlif­andi Íslend­inga sem fædd­ist und­ir dönsk­um kóngi. Átta­tíu ár eru í raun ekki það lang­ur tími þegar maður hugs­ar út í það, en breyt­ing­arn­ar sem orðið hafa á ís­lensku sam­fé­lagi eru ótrú­leg­ar. Frá því að vera eitt fá­tæk­asta ríki Evr­ópu, yfir í það að vera í fremstu röð lífs­kjara í heim­in­um sam­kvæmt helstu mæl­ing­um. Þannig hef­ur sjálf­stæðið reynst bless­un í sókn okk­ar fram á við, blásið í okk­ur enn frek­ari kjarki til þess að gera bet­ur. Það er óbilandi trú mín að það stjórn­ar­far sem er far­sæl­ast bygg­ist á því að ákv­arðanir um vel­ferð fólks eru tekn­ar sem næst fólk­inu sjálfu.

Lýðveldið er hraust og sprelllifn­andi eins og ný­af­staðnar for­seta­kosn­ing­ar eru til vitn­is um. Öflug­ur hóp­ur fram­bjóðenda gaf þar kost á sér til að gegna embætti for­seta Íslands, fjöl­marg­ir sjálf­boðaliðar lögðu for­setafram­bjóðend­um lið með ýms­um hætti og kjör­sókn var sú besta í 28 ár. Allt upp­talið er mikið styrk­leika­merki fyr­ir lýðræðis­sam­fé­lag eins og okk­ar. Því miður er sótt að lýðræði og gild­um þess víða um heim í dag. Það er óheillaþróun sem sporna þarf við. Lýðræðið þarf nefni­lega að rækta og standa vörð um. Þar gegn­ir virkt þátt­taka borg­ar­anna lyk­il­hlut­verki, hvort sem það felst í að bjóða sig fram til embætta, skrifa skoðanap­istla, baka vöffl­ur í kosn­inga­bar­áttu, bera út kosn­inga­bæklinga eða mæta á kjörstað. Allt þetta er hluti af virku lýðræðisþjóðfé­lagi.

Mik­il­væg­ur hluti af því að rækta lýðveldið og lýðræðið er að fagna því og halda upp á mik­il­væga áfanga í sögu þess. Kom­andi lýðveldisaf­mæli er ein­mitt slík­ur áfangi en fjöl­breytt hátíðardag­skrá verður út um allt land í til­efni af 17. júní. Einnig hef­ur nefnd skipuð full­trú­um for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins, menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins, skrif­stofu Alþing­is, skrif­stofu for­seta Íslands og Þing­vallaþjóðgarðs. Nefnd­in hef­ur unnið að und­ir­bún­ingi viðburða til að halda upp á tíma­mót­in um allt land á næstu mánuðum.

Sjálf mun ég fagna þjóðhátíðar­deg­in­um vest­ur á Hrafns­eyri, fæðingastað Jóns Sig­urðsson­ar, þar sem verður skemmti­leg dag­skrá í til­efni lýðveldisaf­mæl­is­ins og einnig 1150 ára af­mæl­is Íslands­byggðar. Ég vil hvetja sem flesta til þess að taka þátt í að fagna 80 ára af­mæli lýðveld­is­ins, enda er það fjör­egg okk­ar sem við verðum að hlúa að til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júní 2024.

Categories
Fréttir

„Atvinnulífið kallar á iðnmenntað starfsfólk“

Deila grein

10/06/2024

„Atvinnulífið kallar á iðnmenntað starfsfólk“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins stóraukna ásókn í verknám og forgang Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, um stækkun verk- og starfsmenntaskóla um allt land á kjörtímabilinu. Eins hafi átak til að auka aðsókn í verk- og starfsnám í tíð Lilju Alfreðsdóttur sem menntamálaráðherra farið fram úr okkar björtustu vonum.

„Síðustu ár hefur atvinnulífið verið að kalla eftir iðnmenntuðu starfsfólki. Samfélagið hefur tekið miklum breytingum og atvinnulífið kallar á iðnmenntað starfsfólk,“ sagði Halla Signý.

„Í morgun las ég frétt um það að metfjöldi nemenda taki nú sveinspróf í múrverki við Tækniskólann og að aukin jákvæðni sé í garð iðnnáms. Það hefur ekki alltaf verið raunin. Sífellt fleiri nemendur koma nú beint úr grunnskóla í iðnnám og það er vel. Það er greinilegt að aðgerðir sem miða að því að efla iðnnám eru að bera árangur,“ sagði Halla Signý.

„Nú þegar liggur fyrir samkomulag um kostnaðarskiptingu milli ríkis og viðkomandi sveitarfélaga til að ráðist verði í stækkun Fjölbrautaskólans í Breiðholti, Menntaskólans á Ísafirði, Fjölbrautaskóla Suðurnesja ásamt Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Verkmenntaskólanum á Akureyri. Til viðbótar verður ráðist í slíka samningagerð við Fjölbrautaskóla Suðurlands, Borgarholtsskóla og Verkmenntaskóla Austurlands og stefnt er á að viðbygging við alla þessa skóla komist í framkvæmdafasa á þessu kjörtímabili. Þessu til viðbótar stendur til að byggðar verði nýjar höfuðstöðvar Tækniskólans í Hafnarfirði,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Síðustu ár hefur atvinnulífið verið að kalla eftir iðnmenntuðu starfsfólki. Samfélagið hefur tekið miklum breytingum og atvinnulífið kallar á iðnmenntað starfsfólk. Á ferðum mínum um kjördæmið hef ég heyrt frá fjölda fyrirtækja sem hafa næg verkefni en skortir tilfinnanlega iðnmenntað starfsfólk. Í morgun las ég frétt um það að metfjöldi nemenda taki nú sveinspróf í múrverki við Tækniskólann og að aukin jákvæðni sé í garð iðnnáms. Það hefur ekki alltaf verið raunin. Sífellt fleiri nemendur koma nú beint úr grunnskóla í iðnnám og það er vel. Það er greinilegt að aðgerðir sem miða að því að efla iðnnám eru að bera árangur. Í ljósi stóraukinnar ásóknar í verknám hefur Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sett stækkun verk- og starfsmenntaskóla um allt land í forgang á þessu kjörtímabili. Í tíð Lilju Alfreðsdóttur sem menntamálaráðherra var farið í átak til að auka aðsókn í verk- og starfsnám. Það átak fór fram úr okkar björtustu vonum. Þessari auknu ásókn hafa þó vissulega fylgt vaxtarverkir og hafna hefur þurft hundruðum umsækjenda vegna plássleysis. Þeirri þróun á nú að snúa við. Nú þegar liggur fyrir samkomulag um kostnaðarskiptingu milli ríkis og viðkomandi sveitarfélaga til að ráðist verði í stækkun Fjölbrautaskólans í Breiðholti, Menntaskólans á Ísafirði, Fjölbrautaskóla Suðurnesja ásamt Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Verkmenntaskólanum á Akureyri. Til viðbótar verður ráðist í slíka samningagerð við Fjölbrautaskóla Suðurlands, Borgarholtsskóla og Verkmenntaskóla Austurlands og stefnt er á að viðbygging við alla þessa skóla komist í framkvæmdafasa á þessu kjörtímabili. Þessu til viðbótar stendur til að byggðar verði nýjar höfuðstöðvar Tækniskólans í Hafnarfirði.

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að þetta átak hafi tekist svo vel eins og raun ber vitni. Ég segi: Vel gert.“

Categories
Fréttir Greinar

Það eina örugga í lífinu

Deila grein

06/06/2024

Það eina örugga í lífinu

Síðustu misseri hafa verið fréttir af rekstrarvanda líkhúsa á Íslandi. Það er morgunljóst að skýra þarf frekar stöðu þeirra hér á landi og hvernig rekstri þeirra verði best háttað til framtíðar. Móta þarf stefnu og skilgreina hver ber ábyrgð á látnum einstaklingi frá dánarvottorði til greftrunar í kirkjugarði og heimila líkhúsum gjaldtöku. En það er ekki einungis rekstrarvandi líkhúsa sem þarf að greina og finna framtíðarlausn á, við þurfum einnig að huga að með hvaða hætti sé best að koma okkur öllum fyrir til eilífðarnóns.

Dýrmætt landrými

Eftir því sem okkur fjölgar, fjölgar þeim látnu. Það liggur fyrir að andlátum mun fjölga um 100% á næstu 20 árum. Samkvæmt lögum má ekki grafa látinn einstakling nema í viðurkenndum grafreit eða kirkjugarði. Sífellt meira landsvæði fer því undir kirkjugarða og erfiðleikar við að finna hentugan stað aukast eftir því sem árin líða. Landrými í þéttbýli er dýrmætt og leggst það á sveitarfélög að leggja til aukið landrými fyrir kirkjugarða.

Þróun síðustu ára sýnir að sífellt fleiri kjósa að láta brenna sig en áður, duftreitir taka mun minna pláss og því væri ákjósanlegt að við myndum færa okkur í auknum mæli í þá áttina. Veruleikinn er sá að bálstofur og líkbrennsla er þjóðhagslega hagkvæmt verkefni. Því fylgir að minna landsvæði þarf að skipuleggja og hirða. Undir eina gröf þarf að gera ráð fyrir 2,5 m á lengd og 1,40 m á breidd. Undir duftker eru stærðarmörkin 75cm*75cm.

Jafnt aðgengi að bálstofum

En eins og staðan er í dag er aðeins ein bálstofa á landinu. Hún var byggð árið 1946, er fyrir löngu komin til ára sinna og er rekin á undanþágu. Ef horft er blákalt á stöðuna er ljóst að það borgar sig að hafa einungis eina bálstofu á landinu vegna fámennis og smæðar. En þá þarf að huga að með hvaða hætti hægt er að jafna kostnaðinn fyrir alla landsmenn þannig að bálför sé raunverulegur og aðgengilegur kostur.

Hver er framtíðin?

En þá komum við aftur að rekstrarvandanum, hver er það sem á að starfrækja líkhús og bálstofur hér á landi? Á það að vera á hendi ríkisins, sveitarfélaga eða einkaaðila? Hvernig viljum við að líkhús og kirkjugarðar landsins þróist á komandi árum? Þessa umræðu þurfum við að taka. Ef við horfum til nágrannalanda okkar er það afar misjafnt með hvaða hætti þetta er gert. Eitt er þó víst og það er að þörf á gagngerri endurskoðun á lögum um kirkjugarða.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. júní 2024.

Categories
Fréttir

„Í alvöru krakkar!? Ætlum við að hafa þetta svona?“

Deila grein

05/06/2024

„Í alvöru krakkar!? Ætlum við að hafa þetta svona?“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, fór í störfum þingsins yfir markmið laga um smásölu áfengis sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð og vernd ungs fólks. Því til grundvallar eru alþjóðlegar leiðbeiningar um forvarnir er mæla með stýrðu aðgengi að áfengi. „Ef breyta á sölufyrirkomulaginu hér á landi þarf það að gerast eftir lýðræðislega umræðu og lagasetningu. Slík ákvörðun er ekki í höndum verslana án samhengis við forvarnastefnu.“

Á Íslandi hefur ÁTVR einkaleyfi til afhendingar og smásölu áfengis. Lögin eru skýr. Einkasölufyrirkomulag áfengis er liður í forvarnastefnu eins og víðar.

„Markmið laga um verslun með áfengi eru m.a. að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð og vernd ungs fólks. Alþjóðlegar leiðbeiningar um forvarnir mæla með stýrðu aðgengi að áfengi. Ef breyta á sölufyrirkomulaginu hér á landi þarf það að gerast eftir lýðræðislega umræðu og lagasetningu. Slík ákvörðun er ekki í höndum verslana án samhengis við forvarnastefnu.“

„Það hefur verið horft til árangurs okkar Íslendinga við að draga úr áfengisneyslu barna og ungmenna en þar höfum við náð þeim árangri að hér er minnst áfengisneysla barna innan OECD. Stýrt aðgengi, há skattlagning og samvinna í gegnum íslenska forvarnamódelið hafa skilað okkur þessum árangri. Við eigum á hættu að missa þetta allt niður ef áfram verður haldið að fara á svig við áfengislög með gervinetsölu.“

„Þrátt fyrir einkasöluna hefur aðgengi að áfengi á Íslandi aukist mikið síðustu áratugi. Í kjölfarið höfum við séð aukinn vanda meðal fullorðinna. Hópurinn stækkar sem drekkur eitthvert áfengi flesta daga og drykkja á mann mæld í hreinum vínanda hefur aukist verulega, með ýmsum fylgikvillum, t.d. sjöföldun á áfengistengdum lifrarsjúkdómum á 20 árum.“

„Í dag skrifar okkar helsti sérfræðilæknir í lyf- og fíknilækningum, Valgerður Rúnarsdóttir, grein á Vísi þar sem hún spyr, með leyfi forseta:

„Í alvöru krakkar!? Ætlum við að hafa þetta svona? Að láta lýðheilsu framtíðar lönd og leið ef einhverjir geta makað krókinn í dag?““

„Ég tek undir þessa spurningu,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Hér á landi hefur ÁTVR einkaleyfi til afhendingar og smásölu áfengis. Lögin eru skýr. Einkasölufyrirkomulag áfengis er liður í forvarnastefnu eins og víðar. Markmið laga um verslun með áfengi eru m.a. að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð og vernd ungs fólks. Alþjóðlegar leiðbeiningar um forvarnir mæla með stýrðu aðgengi að áfengi. Ef breyta á sölufyrirkomulaginu hér á landi þarf það að gerast eftir lýðræðislega umræðu og lagasetningu. Slík ákvörðun er ekki í höndum verslana án samhengis við forvarnastefnu.

Það hefur verið horft til árangurs okkar Íslendinga við að draga úr áfengisneyslu barna og ungmenna en þar höfum við náð þeim árangri að hér er minnst áfengisneysla barna innan OECD. Stýrt aðgengi, há skattlagning og samvinna í gegnum íslenska forvarnamódelið hafa skilað okkur þessum árangri. Við eigum á hættu að missa þetta allt niður ef áfram verður haldið að fara á svig við áfengislög með gervinetsölu.

Þrátt fyrir einkasöluna hefur aðgengi að áfengi á Íslandi aukist mikið síðustu áratugi. Í kjölfarið höfum við séð aukinn vanda meðal fullorðinna. Hópurinn stækkar sem drekkur eitthvert áfengi flesta daga og drykkja á mann mæld í hreinum vínanda hefur aukist verulega, með ýmsum fylgikvillum, t.d. sjöföldun á áfengistengdum lifrarsjúkdómum á 20 árum. Í dag skrifar okkar helsti sérfræðilæknir í lyf- og fíknilækningum, Valgerður Rúnarsdóttir, grein á Vísi þar sem hún spyr, með leyfi forseta:

„Í alvöru krakkar!? Ætlum við að hafa þetta svona? Að láta lýðheilsu framtíðar lönd og leið ef einhverjir geta makað krókinn í dag?“

Ég tek undir þessa spurningu.“

Categories
Fréttir

Hver á að starfrækja líkhús og bálstofur?

Deila grein

05/06/2024

Hver á að starfrækja líkhús og bálstofur?

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, ræddi í störfum þingsins rekstrarvanda líkhúsa á Íslandi og að morgunljóst væri að skýra verði frekar hlutverk og rekstur þeirra til framtíðar. Eins verður það vandasamara að finna hentugt og sífellt meira landsvæði undir kirkjugarða.

„Samkvæmt lögum má ekki grafa látinn einstakling nema í viðurkenndum grafreit eða kirkjugarði. Eftir því sem okkur fjölgar, fjölgar eðlilega þeim látnu. Sífellt meira landsvæði fer því undir kirkjugarða og erfiðleikar við að finna hentugan stað aukast eftir því sem árin líða.“

Landrými í þéttbýli er dýrmætt og sveitarfélögum ber að leggja til aukið landrými fyrir kirkjugarða. Þróun síðustu ára sýnir að sífellt fleiri kjósa að láta brenna sig en áður.

„Duftreitir taka mun minna pláss og því væri ákjósanlegt að við myndum skoða það að færa okkur í auknum mæli í þá átt sem þróunin sýnir.“

Í dag er ein bálstofa í landinu, byggð 1946 og rekin á undanþágu.

„Ef við horfum blákalt á stöðuna er ljóst að það borgar sig að hafa einungis eina bálstofu í landinu vegna fámennis og smæðar og ef það verður framtíðarsýn okkar þá er mikilvægt að við jöfnum kostnaðinn fyrir alla landsmenn til að allir sjái tækifæri í að nýta þessa þjónustu.“

Rekstrarvandinn

„Hver er það sem á að starfrækja líkhús og bálstofur hér á landi? Á þetta að vera þjónusta á vegum ríkis, sveitarfélaga eða einkaaðila? Hvernig viljum við að líkhús og kirkjugarðar landsins þróist á komandi árum? Þetta er umræða sem við þurfum að taka og umræða sem er mikilvægt að taka. Ef við horfum til nágrannalanda okkar er afar misjafnt með hvernig hætti þetta er gert. En eitt er þó víst, það er klárlega þörf á gagngerri endurskoðun á lögum um kirkjugarða,“ sagði Ingibjörg að lokum.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Síðustu misseri hafa verið fréttir af rekstrarvanda líkhúsa á Íslandi og það er morgunljóst að skýra þurfi frekar stöðu þeirra hér á landi og hvernig rekstri þeirra sé best háttað til framtíðar. En það er ekki einungis rekstrarvandi líkhúsa sem þarf að greina. Samkvæmt lögum má ekki grafa látinn einstakling nema í viðurkenndum grafreit eða kirkjugarði. Eftir því sem okkur fjölgar, fjölgar eðlilega þeim látnu. Sífellt meira landsvæði fer því undir kirkjugarða og erfiðleikar við að finna hentugan stað aukast eftir því sem árin líða. Landrými í þéttbýli er dýrmætt og það leggst á sveitarfélög að leggja til aukið landrými fyrir kirkjugarða. Þróun síðustu ára sýnir að sífellt fleiri kjósa að láta brenna sig en áður. Duftreitir taka mun minna pláss og því væri ákjósanlegt að við myndum skoða það að færa okkur í auknum mæli í þá átt sem þróunin sýnir. Eins og staðan er í dag er ein bálstofa í landinu. Hún var byggð 1946 og er fyrir löngu komin til ára sinna og rekin á undanþágu. Ef við horfum blákalt á stöðuna er ljóst að það borgar sig að hafa einungis eina bálstofu í landinu vegna fámennis og smæðar og ef það verður framtíðarsýn okkar þá er mikilvægt að við jöfnum kostnaðinn fyrir alla landsmenn til að allir sjái tækifæri í að nýta þessa þjónustu.

En þá komum við aftur að rekstrarvandanum. Hver er það sem á að starfrækja líkhús og bálstofur hér á landi? Á þetta að vera þjónusta á vegum ríkis, sveitarfélaga eða einkaaðila? Hvernig viljum við að líkhús og kirkjugarðar landsins þróist á komandi árum? Þetta er umræða sem við þurfum að taka og umræða sem er mikilvægt að taka. Ef við horfum til nágrannalanda okkar er afar misjafnt með hvernig hætti þetta er gert. En eitt er þó víst, það er klárlega þörf á gagngerri endurskoðun á lögum um kirkjugarða.“

Categories
Fréttir

Samþættur akstur almenningsvagna og skólabíla ‒ skilar betri þjónustu og loftslagsmarkmiðum Íslands mætt

Deila grein

05/06/2024

Samþættur akstur almenningsvagna og skólabíla ‒ skilar betri þjónustu og loftslagsmarkmiðum Íslands mætt

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi almenningssamgöngur innan sveitar eða milli landshluta í störfum þingsins. Búa verði þannig um hnútana að almenningssamgöngur séu raunhæfur valkostur og mæti þörfum farþega. Einnig sé mikilvægi þeirra þáttur í að jafna aðgengi að þjónustu samkvæmt byggðaáætlun og hún á að styðja við þróun á því.

„Mikilvægi þeirra er gríðarlegt, ekki bara til þess að dreifa ferðamönnum heldur til að mæta þörfum atvinnulífsins og fjölbreyttara samfélags,“ sagði Halla Signý.

Í svari innviðaráðherra við fyrirspurn Höllu Signýjar hvernig hafi gengið með framkvæmd þessarar byggðaaðgerðar segir að unnið hafi verið að endurskipulagning á leiðakerfi landsbyggðarvagna frá árinu 2022. Markmiðið sé að tengja byggðarlög sem deila vinnusóknar- og skólasvæðum og stefnt sé að því að til verði nýtt leiðakerfi í næsta útboði á landsbyggðarvögnum á tímabilinu 2025–2026.

„Auk þess hafa verið tilraunaverkefni um samþættan akstur með stuðningi úr byggðaáætlun. Þar er verið að horfa á að nýta almenningsvagna og skólabíla annars vegar í Borgarbyggð og á sunnanverðum Vestfjörðum. Í Borgarbyggð hefur þessi tilraun reynst vel á meðal íbúa á báðum svæðum og hún verið vel nýtt af börnum og ungmennum sem sækja tómstundir og íþróttir að loknum skóladegi. Samþættur akstur hefur farið fram að frumkvæði sveitarfélaganna og landshlutasamtaka og aðkoma ríkisins að beiðni þessara aðila. Uppruni og gerð hvers verkefnis eru því ólík.“

„Það er mikilvægt að unnið verði hratt og örugglega að því að bæta almenningssamgöngur milli byggðarlaga og landsvæða til að bæta þjónustu og mæta loftslagsmarkmiðum stjórnvalda. Það er allra hagur,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Illa hefur gengið að auka almenningssamgöngur milli staða síðustu ár, hvort sem það er innan sveitar eða milli landshluta. Mikilvægi þeirra er gríðarlegt, ekki bara til þess að dreifa ferðamönnum heldur til að mæta þörfum atvinnulífsins og fjölbreyttara samfélags. Svo að almenningssamgöngur séu raunhæfur valkostur þurfa þær að mæta þörfum farþega. Erfitt hefur verið að feta þennan gullna meðalveg á öllum svæðum. Almenningssamgöngur eru mikilvægar til að jafna aðgengi að þjónustu samkvæmt byggðaáætlun og hún á að styðja við þróun á því.

Nú á vormánuðum sendi ég fyrirspurn til hæstv. innviðaráðherra til að leita svara við því hvernig hefur gengið með þessa aðgerð. Í svarinu segir að unnið hafi verið að endurskipulagningu á núverandi leiðakerfi landsbyggðarvagna síðan 2022, en Vegagerðin tók formlega við rekstri í janúar 2020. Markmiðið er að tengja byggðarlög sem deila vinnusóknar- og skólasvæðum og stefnt að því að innleiða nýtt leiðakerfi í næsta útboði á landsbyggðarvögnum á tímabilinu 2025–2026. Vonir standa til að grunnur að nýju greiðslukerfi verði þá kominn langt á leið. Auk þess hafa verið tilraunaverkefni um samþættan akstur með stuðningi úr byggðaáætlun. Þar er verið að horfa á að nýta almenningsvagna og skólabíla annars vegar í Borgarbyggð og á sunnanverðum Vestfjörðum. Í Borgarbyggð hefur þessi tilraun reynst vel á meðal íbúa á báðum svæðum og hún verið vel nýtt af börnum og ungmennum sem sækja tómstundir og íþróttir að loknum skóladegi. Samþættur akstur hefur farið fram að frumkvæði sveitarfélaganna og landshlutasamtaka og aðkoma ríkisins að beiðni þessara aðila. Uppruni og gerð hvers verkefnis eru því ólík.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að unnið verði hratt og örugglega að því að bæta almenningssamgöngur milli byggðarlaga og landsvæða til að bæta þjónustu og mæta loftslagsmarkmiðum stjórnvalda. Það er allra hagur.“

Categories
Fréttir Greinar

Fjarheilbrigðisþjónusta

Deila grein

05/06/2024

Fjarheilbrigðisþjónusta

Nú í maímánuði voru samþykktar breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Með þessum breytingum var verið að bæta inn í lögin ákvæðum um fjarheilbrigðisþjónustu, skýringum á þeirri þjónustu sem flokkast þar undir ásamt ákvæði um upplýsingaöryggi. Hér er um að ræða enn eitt góða málið frá Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra og því ber að fagna.

En hvað er fjarheilbrigðisþjónusta?

Fjarheilbrigðisþjónusta er ört vaxandi hluti almennrar heilbrigðisþjónustu og notkunarmöguleikar hennar eru fjölmargir og þróunin hröð. Hugtakið fjarheilbrigðisþjónusta er nú í lögunum skilgreint sem nýting stafrænnar samskipta- og upplýsingatækni til að veita heilbrigðisþjónustu þar sem aðilar eru ekki á sama stað á sama tíma. Undir þetta falla þættir eins og fjarsamráð, fjarvöktun, myndsamtöl, netspjall og hjálparsími og er nánar fjallað um inntak þessara þátta í lögunum. Þá fellur velferðartækni einnig þarna undir og er þá vísað til notkunar á stafrænum tæknilausnum í heilbrigðisþjónustu sem styður búsetu einstaklinga í heimahúsi.

Hagnýting tækni á sviði fjarheilbrigðisþjónustu og notkun ýmiss konar snjallforrita skapar stöðugt ný tækifæri óháð staðsetningu. Ljóst er að ávinningurinn af árangursríkri innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu er ótvíræður fyrir sjúklinga, fyrir heilbrigðisstarfsmenn, heilbrigðisstofnanir og samfélagið í heild.

Betri nýting á mannauði

Við þekkjum öll þá umræðu að manna stofnanir okkar með okkar helsta fagfólki til að mæta aukinni eftirspurn. Með fjarheilbrigðisþjónustu höfum við möguleika á að nýta betur þann mannauð sem býr í kerfinu ásamt því að efla samvinnu milli stofnana og landsvæða, auka hagkvæmni, gera þjónustu aðgengilega óháð búsetu og stuðla að nýsköpun. Tækifæri opnast á samvinnu sérfræðinga og teymisvinnu við heilsugæslur á landsbyggðinni og með því færi á að nýta betur fjölbreytta menntun og reynslu heilbrigðisstarfsmanna.

Áframhaldandi innleiðing fjarheilbrigðisþjónustu er liður í því að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í heilbrigðisþjónustu með breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og aukinni eftirspurn eftir þjónustu.

Betra aðgengi

Með markvissri uppbyggingu fjarheilbrigðisþjónustu skapast ráðrúm til að veita enn betri heilbrigðisþjónustu um land allt. Betri tækifæri eru til staðar til þess að veita snemmtæka íhlutun, samfellu í umönnun sjúklinga ásamt því að auðveldara verður að fylgjast með einstaklingum með langvinna sjúkdóma. Auk þess, með því að nýta tæknina í auknum mæli má draga úr tímafrekum ferðalögum sjúklinga sem þurfa að sækja sérhæfða þjónustu í öðrum landshlutum með tilheyrandi raski á daglegu lífi og tilkostnaði. Það þekkjum við sem búum úti á landi.

Hér er um að ræða mikilvægt og stórt skref inn í framtíðina. Ávinningurinn er skýr, ekki síst í því að ná markmiðum okkar um að auka og jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og draga úr kostnaði almennings við að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Það er og hefur verið stefna okkar í Framsókn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. júní 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónustuna

Deila grein

31/05/2024

Þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónustuna

Ferðaþjón­ust­an er í dag stærsti gjald­eyr­is­skap­andi at­vinnu­veg­ur þjóðar­inn­ar og mik­il­væg­ur drif­kraft­ur hag­vaxt­ar í land­inu. Með til­komu henn­ar hef­ur orðið um­turn­un á viðskipta­jöfnuði þjóðarbús­ins á rúm­lega 10 árum. Sveifl­ur í at­vinnu­grein­inni geta þannig fram­kallað nokk­ur hröð áhrif á lyk­il­breyt­ur í efna­hags­líf­inu.

Fyrr á ár­inu var smíði á sér­stöku þjóðhags­líkani fyr­ir ís­lenska ferðaþjón­ustu lokið. Með líkan­inu verður hægt að skoða áhrif breyt­inga í starfs­um­hverfi ferðaþjón­ust­unn­ar á hag­kerf­inu. Um er að ræða fyrsta þjóðhags­lík­an fyr­ir at­vinnu­grein hér­lend­is. Ferðamála­stofa hef­ur haldið á fram­kvæmd verk­efn­is­ins fyr­ir hönd menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins en ann­ars veg­ar er um að ræða sér­stakt þjóðhags­lík­an fyr­ir ís­lenska ferðaþjón­ustu, eða svo­kallað geiralík­an, og hins veg­ar út­víkk­un á spálíkani Seðlabanka Íslands/​Hag­stofu Íslands, þannig að það taki til­lit til hlut­verks ferðaþjón­ust­unn­ar í þjóðarbú­skapn­um.

Til­koma þjóðhags­lík­ans­ins skipt­ir máli í um­gjörð ferðaþjón­ust­unn­ar og mun líkanið gera stjórn­völd­um og öðrum hagaðilum kleift að skoða með raun­hæf­um hætti áhrif breyt­inga á helstu for­send­um ferðaþjón­ustu á hag grein­ar­inn­ar sem og þjóðarbús­ins alls – og öf­ugt. Þannig verður hægt að meta áhrif­in af breyt­ing­um í þjóðarbú­skapn­um á hag grein­ar­inn­ar. Þar má nefna sem dæmi áhrif ferðaþjón­ust­unn­ar á þjóðhags­stærðir eins og VLF og at­vinnu­stig, s.s. við far­sótt­ir, mikl­ar breyt­ing­ar á flug­sam­göng­um eða ferðavilja, og áhrif geng­is, verðlags, at­vinnu­stigs og skatta á ferðaþjón­ust­una.

Unnið er að því að gera gagn­virka og ein­falda út­gáfu þjóðhags­lík­ans­ins aðgengi­lega á vefsvæði Ferðamála­stofu eða Mæla­borði ferðaþjón­ust­unn­ar, þannig að not­end­ur geti breytt meg­in­for­send­um og séð áhrif þeirra breyt­inga skv. líkan­inu á aðrar helstu hag­stærðir.

Sam­keppn­is­hæfni ferðaþjón­ust­unn­ar skipt­ir þjóðarbúið höfuðmáli og þurfa ákv­arðanir stjórn­valda að end­ur­spegla þá staðreynd í hví­vetna. Fleiri ríki sem við ber­um okk­ur sam­an við hafa á und­an­förn­um árum lagt aukna áherslu á að byggja upp ferðaþjón­ustu með mark­viss­um hætti. Ísland verður að vera á tán­um gagn­vart þeirri auknu alþjóðlegu sam­keppni sem af því leiðir. Hið nýja þjóðhags­lík­an mun hjálpa okk­ur að skilja hvaða áhrif fækk­un eða fjölg­un ferðamanna hef­ur á þjóðarbúið og und­ir­byggja enn bet­ur þær ákv­arðanir sem tekn­ar eru í mál­efn­um ferðaþjón­ust­unn­ar.

Ég er bjart­sýn fyr­ir hönd ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu sem hef­ur náð mikl­um ár­angri á und­an­förn­um ára­tug. Mikl­um vexti fylgja oft áskor­an­ir eins og við þekkj­um, en heilt yfir hef­ur okk­ur sem sam­fé­lagi tek­ist vel til við að tak­ast á við þær, enda eru mikl­ir hags­mun­ir í húfi fyr­ir þjóðarbúið í heild.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Bílastæðagjöld á Akur­eyri og á Egils­stöðum

Deila grein

30/05/2024

Bílastæðagjöld á Akur­eyri og á Egils­stöðum

Síðustu misseri hef ég bæði í greinum og í fyrirspurnum á Alþingi lýst áhyggjum mínum af síhækkandi verði á innanlandsflugi síðustu misseri. Flugsamgöngur innanlands skipta þá sem búa á landsbyggðinni miklu máli og mikilvægt er að þær séu raunhæfur kostur fyrir þá sem þar búa. Enn á ný berast fregnir af aukinni gjaldtöku sem mun nú fyrst og fremst verða íþyngjandi fyrir íbúa landsbyggðarinnar, það er gjaldtaka á bílastæðum við flugstöðvarnar á Akureyri, Egilsstöðum og Reykjavík. Nógur er kostnaðurinn nú fyrir.

Landsbyggðarskattur?

Búið er að setja upp bílastæðakerfi með aðgangsstýringu sem les bílnúmer og stefnt er að því að hefja nýtingu þess á næstunni. Markmiðið er sagt vera að bæta gestum þjónustu og ferðaupplifun, sem er verðugt markmið, en mikilvægt er að gjaldtakan sé hófleg og komi ekki á sama tíma niður á notendum þjónustunnar.

Samkvæmt gjaldskrá eru fyrstu fimm klukkustundirnar fríar en gert er ráð fyrir að dagurinn muni kosta 1750 kr. Þess ber að geta að þeir einstaklingar sem ætla að nýta sér innanlandsflug t.d. vegna heilbrigðisheimsóknar ná í flestum tilfellum ekki fram og til baka á innan við fimm klukkustundum. Fyrstu sjö dagana er gert ráð fyrir að dagurinn muni kosta 1750 kr. næstu sjö daga á eftir 1350 kr. og svo 1200 kr. hver dagur eftir 14 daga. Kostnaður vegna skemmri ferða getur því orðið töluverður, og bitnar einna helst á þeim sem búa utan Akureyri eða Egilsstaða og þurfa að keyra lengri leið á flugvöllinn. Þá þarf að huga að hvernig gjaldtakan mun horfa við bílaleigum og tryggja að kerfið sé skilvirkt fyrir þær og að óþarfa kostnaður lendi ekki á þeim, enda mikilvægur liður í ferðaþjónustu á landsbyggðinni.

Það er þörf á betri útfærslu

Vissulega hafa myndast álagspunktar á bílastæðum við flugstöðvarnar, er það þá einna helst þegar stór millilandaflug eru frá flugstöðvunum. Að mínu mati mætti réttlæta gjaldtöku vegna slíkra ferða, enda væri það í samræmi við það sem gengur og gerist við flugstöð Leifs Eiríkssonar. Sú sem hér skrifar telur mikilvægt að huga betur að útfærslu vegna styttri ferða, sér í lagi þeirra sem eru að sækja sér heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðið, en viðbúið er að viðbótarkostnaður komi til með að leggjast á fólk af landsbyggðinni sem þarf að sækja slíka þjónustu.

Sú sem hér skrifar telur mikilvægt að hægja hér aðeins á ferðinni og skilgreina betur gjaldtöku með þessum hætti. Það er ekki boðlegt leggja á auka kostnað á íbúa landsbyggðarinnar með svona einhliða aðgerð. Því hef ég komið málinu á framfæri í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og beitt mér fyrir því að gjaldtakan verði tekin til skoðunar á vettvangi nefndarinnar.

Ingibjörg Isaksen, er þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. maí 2024.