Categories
Fréttir Greinar

Varðveita skal sterka lýðræðishefð á Íslandi

Deila grein

07/10/2025

Varðveita skal sterka lýðræðishefð á Íslandi

Ísland hefur notið þeirrar gæfu að búa við ríka lýðræðishefð frá stofnun Alþingis árið 930. Stofnun allsherjarþings var merkilegt nýmæli á þeim tíma, án beinnar fyrirmyndar á Norðurlöndum, þar sem þing voru aðeins fyrir afmarkaða landshluta en ekki fyrir heila þjóð. Lögin voru æðsta vald og allir þeim undirgefnir. Alþingi hefur allar götur síðan verið tákn um sjálfsforræði þjóðarinnar og grundvöllur þjóðfrelsisbaráttu. Þessi hefð fyrir lýðræðislegum ákvörðunum og sjálfstæðu réttarkerfi hefur verið burðarás í íslensku þjóðlífi í meira en þúsund ár.

Til að velsæld ríki á Íslandi er nauðsynlegt að efla alþjóðaviðskipti og standa vörð um alþjóðasamvinnu. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er einn mikilvægasti alþjóðasamningur Íslands frá gildistöku hans árið 1994. Hann tryggir íslenskum almenningi og fyrirtækjum aðgang að innri markaði Evrópu, styrkir neytendavernd og stuðlar að samræmdum leikreglum á mörkuðum. Með samningnum tekur Ísland þátt í sameiginlegum reglum án þess að vera hluti af Evrópusambandinu og heldur þannig stjórn á eigin löggjöf. EES-samstarfið byggist á jafnvægi milli sjálfstæðra ríkja sem skuldbinda sig til samvinnu en framselja ekki alfarið löggjöf sína undir yfirþjóðlegt vald. Það er því mikilvægt að varðveita þetta jafnvægi, þar sem Ísland nýtur ávinnings samstarfsins án þess að fórna fullveldi sínu.

Bókun 35 við EES-samninginn gengur gegn íslenskri lýðræðishefð. Bókun 35 felur í sér að íslensk stjórnvöld viðurkenni forgang EES-réttar fram yfir landslög, sem væri í reynd afsal á löggjafarvaldi Alþingis. Samkvæmt Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, er innleiðing bókunar 35 ekki formsatriði heldur efnislegt inngrip í stjórnarskrárbundið sjálfstæði ríkisins. Núverandi fyrirkomulag, þar sem íslenskir dómstólar túlka lög í samræmi við EES-samninginn, tryggir bæði réttindi borgaranna og virðingu fyrir þjóðréttarlegum skuldbindingum án þess að grafa undan stjórnarskránni. Samþykkt bókunar 35 væri hins vegar pólitísk yfirlýsing um að Ísland undirgangist yfirþjóðlegt vald yfir eigin lögum. Það myndi veikja stöðu Alþingis sem æðsta handhafa löggjafarvalds og brjóta gegn þeirri sömu lýðræðishefð sem hefur varðveitt sjálfstæði þjóðarinnar í meira en árþúsund.

Íslensk stjórnskipan byggist á því að valdið komi frá þjóðinni og sé bundið við lög sem hún setur sér sjálf. Með því að hafna bókun 35 ver Ísland lýðræðislega hefð sína og þá meginreglu að engin yfirþjóðleg löggjöf skuli hafa forgang fram yfir vilja Alþingis. Að standa vörð um þessa grundvallarreglu er ekki andstaða við Evrópusamvinnu heldur trygging þess að þátttaka Íslands í henni verði áfram á forsendum sterkrar lýðræðishefðar og fullveldis þjóðarinnar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. utanríkisráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. október 2025.

Categories
Fréttir

Hrafn nýr formaður SUF

Deila grein

07/10/2025

Hrafn nýr formaður SUF

Hrafn Splidt Þorvaldsson kjörinn nýr formaður Sambands ungra Framsóknarmanna á 50. Sambandsþingi SUF helgina 4.–5. október sl.

Samband ungra Framsóknarmanna hélt sitt 50. Sambandsþing í Garðabæ helgina 4. til 5. október. Á þinginu var Hrafn Splidt Þorvaldsson kjörinn nýr formaður sambandsins. Hann tekur við af Gunnari Ásgrímssyni sem gaf ekki kost á sér aftur eftir tveggja ára formennsku. 

Hrafn Splidt Þorvaldsson er 25 ára viðskiptafræðingur frá Mosfellsbæ og hann starfar nú hjá Strætó bs. Hann hefur verið virkur í flokknum síðan 2021 og sér í lagi í starfi SUF þar sem hann hefur verið í framkvæmdastjórn frá árinu 2023, fyrst sem viðburðastjóri og nú síðast sem varaformaður. Einnig hefur hann setið í málefnanefnd flokksins og stjórn Kjördæmasambands Framsóknar í Reykjavík. 

Þá var einnig kjörin ný stjórn SUF, hana skipa: Arnþór Birkir Sigþórsson, Árdís Lilja Gísladóttir, Berglind Sunna Bragadóttir, Birgitta Birgisdóttir, Dísa Svövudóttir, Elín Karlsdóttir, Karítas Ríkharðsdóttir, Kjartan Helgi Ólafsson, Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, Stefán Atli Rúnarsson, Steinþór Ólafur Guðrúnarson og Ýmir Örn Hafsteinsson.

Á þinginu var unnið metnaðarfullt málefnastarf og 47 ályktanir samþykktar. Meðal annars var ályktað gegn þátttöku Íslands í Eurovision á meðan lönd, þar sem ríkisstjórnir beita sóknarsinnuðum hernaði, á borð við Ísrael og Aserbaísjan, eru ekki útilokuð frá þátttöku. Þá hvatti ungt Framsóknarfólk til þess að flokksþing Framsóknar fari fram með góðum fyrirvara á næsta ári, fyrir sveitastjórnarkosningar, eigi síðar en í febrúar 2026.

Þar að auki voru samþykktar ályktanir um margvísleg samfélagsmál, meðal annars:

  • Að frídagar sem lenda á helgi skuli færast á næsta virka dag, eins og tíðkast víða erlendis, t.d. í Bretlandi, svokallaðir bankafrí- eða brúardagar.
  • Að skoða leiðir til að auka tekjur sveitarfélaga af fjármagnstekjuskatti, þar sem útsvar miðast nú eingöngu við launatekjur.
  • Að endurskoða skerðingarreglur Tryggingastofnunar vegna fjármagnstekna maka og barna. Núverandi fyrirkomulag getur valdið því að einstaklingar missa bótarétt eða þurfa að greiða til baka háar fjárhæðir vegna tekna maka eða barna.
  • Að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni, meðal annars með flutningi stofnana eða stofnun útibúa.
  • Að breyta skattkerfi landsins svo þau sem búa í hinum dreifðari byggðum borgi lægri skatta vegna fjarlægðar frá þjónustu líkt og gert er í Noregi.
  • Að sjókvíaeldi sé mikilvæg atvinnugrein á landsbyggðinni, en að huga þurfi að langtímaáhrifum á umhverfi og aðra atvinnuvegi. Hvetja beri til nýsköpunar í átt að lokuðum kvíum og geldum laxi.

Nýkjörinn formaður segir ályktunarpakkann umfangsmikinn og að hann muni reynast gott veganesti fyrir komandi málefnastarf á vettvangi flokksins fyrir komandi flokksþing.

Við í Framsókn óskum Hrafni innilega til hamingju með kjörið og um leið þökkum við Gunnari Ásgrímssyni fráfarandi formanni fyrir vel unnin störf og frábært samstarf.

Categories
Fréttir

„Grafalvarleg staða á Sjúkrahúsinu á Akureyri“

Deila grein

06/10/2025

„Grafalvarleg staða á Sjúkrahúsinu á Akureyri“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, vakti máls í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi uppsagnar ferliverkasamningum við sérfræðilækna á sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk). „Það er ljóst að þjónustan mun dragast verulega saman ef ekki finnst lausn á málinu,“ sagði Ingibjörg og benti á að um væri að ræða 13 sérgreinalækna á sviðum hjarta-, krabbameins-, kvensjúkdóma-, meltingar- og lyflækninga. „Þjónusta sem íbúar á Norðurlandi og víðar hafa hingað til getað treyst á og er okkur nauðsynleg.“

Ingibjörg sagði að áhyggjur væru ekki einungis hjá starfsfólki og sjúklingum, heldur einnig hjá heilsugæslulæknum á upptökusvæði SAk og læknum á Landspítala, sem sjái ekki fram á að geta tekið við öllum þeim sjúklingum sem leiti suður ef þjónustan hverfur af Akureyri. „Þetta er því, má segja, kerfislægt vandamál, ekki staðbundið,“ sagði hún.

Ferliverkasamningar lykill að þjónustu utan höfuðborgarsvæðis

Samningarnir hafi verið við lýði í áratugi, boðnir af stofnunum og samþykktir af stjórnvöldum. „Þeir hafa verið lykillinn í því að tryggja sérfræðiþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins og hafa reynst aðilum vel og ekki síður sjúklingum.“ Hún lýsti jafnframt manneklu, auknum afleysingum og hlutastörfum lækna sem ekki væru búsettir á svæðinu, sem geri eftirfylgni erfiðari.

Var ráðherra í samráði?

Ingibjörg beindi beinum spurningum til heilbrigðisráðherra:

  • hvort ráðherra hafi verið í samráði við stjórn SAk áður en ákvörðunin var tekin,
  • hvort ráðuneytið sé virkt í leit að lausn með stjórnendum SAk,
  • og hvort ráðherra tryggi að sérfræðiþjónusta haldist á Akureyri „svo landsbyggðarfólk haldi áfram jöfnum rétti til heilbrigðisþjónustu í heimabyggð.“

Verði samningarnir felldir niður eða læknar dragi saman seglin gæti SAk átt erfitt með að sinna hlutverki sínu sem varasjúkrahús. Ingibjörg varaði við að loka þyrfti göngudeildum og senda sjúklinga til rannsókna og meðferðar suður, sem gæti tafið greiningar og meðferð.

„Ef hluti þjónustunnar hverfur nú mun taka mörg ár að endurreisa hana… sérgreinar styðja hver aðra. Ef ein hverfur veikist önnur,“ sagði Ingibjörg.

Categories
Fréttir

„Áhyggjur venjulegs fólks“

Deila grein

06/10/2025

„Áhyggjur venjulegs fólks“

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, spurði forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi um mótvægisaðgerðir stjórnvalda í kjölfar uppsagna og samdráttar. Sigurður Ingi benti á mikilvægi þess að næstu skref stjórnvalda væru skýr í kjölfar vaxandi atvinnuleysis, uppsagna á Bakka við Húsavík og áhrifum falls Play á ferðaþjónustu.

Sigurður Ingi lýsti yfir áhyggjum af þróun efnahagsmála þrátt fyrir sterka stöðu ríkisfjármála í nýlegum fjárlagatölum.

„Við þekkjum að það er öflugt atvinnulíf á Íslandi sem býr til mikið af störfum og við höfum blessunarlega búið við það mjög lengi. Á síðustu vikum hafa hins vegar hrannast upp ákveðin óveðursský eða í það minnsta áskoranir.“ Sigurður Ingi vísaði til mats Hagstofunnar um samdrátt á öðrum ársfjórðungi, falls Play og uppsagna „nær allra“ starfsmanna á Bakka við Húsavík.

Atvinnuleysi er að hækka, húsnæðismarkaðurinn er að kólna og þrálát verðbólga ásamt háum vöxtum er að bíta á heimilum og fyrirtækjum. Óskaði Sigurður Ingi eftir skýrum mótvægisaðgerðum stjórnvalda, bæði gagnvart svæðisbundnum áföllum, s.s. á Norðausturlandi, og með beinum stuðningi við ferðaþjónustu yfir vetrarmánuðina. „Kemur til greina að fara í markaðsstarf til að tryggja að það verði ekki svona mikið fall á þessum erfiða tíma?“ spurði hann og bætti við að um væri að ræða áhyggjur „venjulegs fólks“.

Sigurður Ingi beindi jafnframt sjónum að Seðlabankanum og kvað brýnt að stjórnvöld settu fram sínar væntingar og viðbrögð í aðdraganda vaxtaákvörðunar bankans á miðvikudaginn. „Hvers ætlar ríkisstjórnin að grípa til?“ spurði hann forsætisráðherra.

Categories
Fréttir Greinar

Á bak við atvinnuleysi er fólk

Deila grein

04/10/2025

Á bak við atvinnuleysi er fólk

Helsti styrkleiki íslensks samfélags hefur verið hátt atvinnustig og lítið atvinnuleysi. Það hefur einkennt velgengni okkar og skapað traust á framtíðina. Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir óvenjulegum aðstæðum þar sem margir hafa misst atvinnu á stuttum tíma, miklu fleiri en við höfum átt að venjast.

Atvinnumissir er mikið áfall

Svo fátt eitt sé nefnt má vísa til uppsagna á Grundartanga, í sjávarútvegi og iðnaði tengdum honum, lokunar kísilversins á Bakka við Húsavík og falls Play með tilheyrandi afleiðingum fyrir íslenska ferðaþjónustu. Bak við tölur um atvinnuleysi er fólk af holdi og blóði. Atvinnumissir getur haft gríðarlega alvarleg áhrif fyrir einstaklinga og fjölskyldur, bæði efnahagslega og félagslega, og verður fyrir marga mikið áfall. Samfélagið í heild og stjórnvöld þurfa að sýna samkennd með þeim sem nú standa frammi fyrir þessum aðstæðum og ábyrgð með mótvægisaðgerðum.

Tækifærin eru til staðar

Þrátt fyrir áföllin er ljóst að Ísland býr yfir fjölmörgum styrkleikum og tækifærum. Ef rétt er haldið á málum getum við skapað ný störf, byggt upp verðmætasköpun og tryggt að fólk fái störf þar sem hæfileikar þess nýtast. Við búum yfir miklum mannauði, orkuauðlindum, öflugum sjávarútvegi og ferðaþjónustu, ásamt heilnæmri matvælaframleiðslu sem byggist á hreinleika náttúrunnar og telst með því besta sem þekkist í heiminum. Þetta eru hornsteinar sem við getum treyst á til að byggja sterka framtíð ef skynsamlega er staðið að málum. Atvinna fyrir alla, hefur verið og er eitt af grunngildum íslensks samfélags.

Störf og verðmætasköpun í forgangi

Margir hafa bent á að atvinnustefna ríkisstjórnarinnar virðist fyrst og fremst snúast um auknar álögur á heimili og fyrirtæki. Slíkt er hvorki rétta leiðin til að efla atvinnulífið né til að tryggja fólki störf. Þvert á móti getur það dregið úr fjárfestingum og valdið þannig fækkun starfa. Þess vegna er mikilvægt að ríkisstjórnin bregðist nú skýrt og ákveðið við. Hún þarf að leggja fram aðgerðir sem styðja við þá sem misst hafa vinnuna, hlúa að nýsköpun, efla atvinnu í öllum landshlutum og skapa umhverfi þar sem fyrirtæki og einstaklingar geta treyst á stöðugleika og sanngjarnt rekstrarumhverfi. Framsókn hefur alltaf lagt áherslu á atvinnu og verðmætasköpun. Við höfum ítrekað lagt áherslu á samvinnu við lausn stærstu viðfangsefna samfélagsins. Ríkisstjórnin hefur hins vegar kosið að fara aðra leið.

Í dag þurfum við raunhæfa nálgun, samvinnu allra hagaðila, til að snúa af braut vaxandi atvinnuleysis. Í dag þurfum við ekki stór orð, glansandi kynningar eða óraunhæf loforð. Við þurfum jarðbundin og raunsæ stjórnmál sem umfram allt veita fólki von um að betri tímar séu fram undan. Slík stjórnmál byggjast á ábyrgð, samstöðu og því að setja fólk í forgang.

Þannig getum við tryggt að Ísland verði áfram samfélag þar sem velferð og lítið atvinnuleysi eru hornsteinar og framtíðin er byggð á traustum grunni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgumblaðinu 4. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ríkið axli ábyrgð á sjóvörnum

Deila grein

03/10/2025

Ríkið axli ábyrgð á sjóvörnum

Sjávarflóð og landbrot eru ekki lengur eitthvað sem gerist „af og til“. Þetta er raunveruleg vá sem íbúar Suðurnesja finna fyrir aftur og aftur. Við höfum séð sjóinn brjótast inn í byggð, valda tjóni á hafnarmannvirkjum, leggja kirkjugarða í hættu og skemma eignir bænda og fyrirtækja.

Það er ekki nóg að horfa á vandann og bíða eftir næsta stórflóði. Lög um sjóvarnir 1997 nr. 28 5. maí segja skýrt að ríkið beri ábyrgð á þessum málum – innviðaráðherra hefur yfirstjórn og Vegagerðin framkvæmir. Sveitarfélög og landeigendur eiga aðeins að leggja til lítinn hluta kostnaðar. Þrátt fyrir þetta stöndum við sem sveitarfélag í sífelldri baráttu við að fá nauðsynlegar aðgerðir samþykktar.

Af 17 verkefnum sem Suðurnesjabær lagði fram í samgönguáætlun 2024-2028 fengust aðeins sex samþykkt – og jafnvel þau voru skorin niður. Á meðan er árlegt framlag ríkisins til sjóvarna á öllu landinu aðeins 150 milljónir króna. Sú upphæð dugar ekki einu sinni fyrir brýnum verkefnum í okkar sveitarfélagi, hvað þá annars staðar á landinu.

Við Íslendingar höfum byggt upp Ofanflóðasjóð sem ver íbúa gegn snjóflóðum – og það hefur virkað að miklu leyti. Sjávarflóð eru náttúruvá líkt og ofanflóð. Nú þurfum við sambærilegan Sjávarflóðasjóð, sem tryggir að sveitarfélög um land allt fái raunverulegan stuðning til varna gegn ágangi sjávar. Þetta er spurning um öryggi fólks, atvinnulífs og menningarminja.

Ég skora á ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins að gera sjóvarnir að forgangsmáli strax. Við Suðurnesjamenn höfum séð hvað gerist þegar ekkert er gert. Við getum ekki beðið eftir að sjórinn gangi yfir mannvirki – og það mun að öllum líkindum gerast aftur í vetur ef
ekkert verður að gert. Neyðaraðgerða er þörf víða, meðal annars neðst við Hvalsneskirkju þar sem stórt skarð er í landgarðinum. Það getur valdið miklu tjóni bæði á íbúðarhúsi sem þar er nærri auk þess sem kirkjugarðurinn er í stórhættu. Sama má segja um Nátthaga, sem er á milli Sandgerðis og Garðs, og Útgarð í Garði. Þá hefur hafnarstjórn einnig krafist úrbóta fyrir veturinn til að verjast frekara tjóni á hafnarmannvirkjum í Sandgerðishöfn.

Ríkisstjórnin verður að axla ábyrgð.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. október 2025.

Categories
Fréttir

„Vegferð síðustu ára snúið við“

Deila grein

02/10/2025

„Vegferð síðustu ára snúið við“

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar, gagnrýnir áform um að hækka greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Hún bendir á að gert sé ráð fyrir hærri lyfjakostnaði, að ófrjósemisaðgerðir falli undir almennar reglur um greiðsluþátttöku og að rukkað verði fyrir ómættra læknistíma. En þá án þess að tryggt sé að ríkið bæti ferðakostnað þegar tímum er aflýst af hálfu kerfisins.

Segir Ingibjörg að markviss lækkun greiðsluþátttöku síðustu ára verði nú snúið við, meðal annars með hærri kostnaði sjúklinga vegna lyfja.

Ófrjósemisaðgerðir undir almennar reglur

Ingibjörg bendir á að samkvæmt áformunum verði ófrjósemisaðgerðir ekki lengur gjaldfrjálsar heldur falli undir almennar reglur um greiðsluþátttöku.

Einnig er gert ráð fyrir gjaldi þegar sjúklingar mæta ekki í bókaða tíma. Ingibjörg segir að ef kerfið ætli að rukka fólk fyrir ómóttekna þjónustu verði að gæta samræmis þegar þjónusta fellur niður af hálfu hins opinbera.

„Gott og vel, ef ríkið telur eðlilegt að rukka fólk fyrir tímana sem það kemst ekki í hljótum við að geta gert þá kröfu að ríkið greiði ferðakostnaði þeirra sem neyðast til að ferðast langar leiðir að þjónustu sem er svo felld niður með skömmum fyrirvara. Sem er ekki raunin í öllum tilfellum í dag,“ segir Ingibjörg.

Það hefur verið unnið skipulega að því undanfarin ár að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Nú ætlar…

Posted by Ingibjörg Isaksen on Fimmtudagur, 2. október 2025

Categories
Fréttir Greinar

Hafnar­fjörður er bær sem styður við lífs­gæði eldra fólks

Deila grein

02/10/2025

Hafnar­fjörður er bær sem styður við lífs­gæði eldra fólks

Í Hafnarfirði hefur ávallt verið lögð rík áhersla á að eldra fólk fái stuðning og tækifæri til að njóta lífsins, rækta heilsu og samfélagstengsl og eiga öruggt heimili. Lykilþættir í þeirri vinnu eru félagsstarf, heilsueflingu og húsnæðismál.

Félagsstarf – samfélag, samvera og forvarnir

Hafnarfjarðarbær hefur árum saman stutt dyggilega við félagsstarf eldra fólks með því að leggja sjálfsprottnu félagsstarfi Félags eldri borgara í Hafnarfirði til húsnæði og starfsfólk. Nú er verið að vinna að nýjum rekstrarsamningi um það verkefni. Um er að ræða tímamóta samning. Erum að formgera í samningi þann stuðning sem félagsstarfið hefur fengið í gegnum árin.

Samningurinn tryggir eldra fólki í Hafnarfirði fjölbreytt félagsstarf og öflugan vettvang til samveru. Bærinn leggur til húsnæði fyrir starfsemina, greiðir rekstrarkostnað og leggur til starfsfólk sem sinna daglegri umsjón og skipulagi. Félagsstarfið býður þannig upp á fjölbreytt tómstundastarf, viðburði og samveru sem hefur gríðarlegt gildi fyrir lífsgæði eldra fólks.

Félagsstarfið er ekki aðeins skemmtilegt og gefandi heldur hefur það einnig sterkt forvarnargildi. Með því að bjóða upp á vettvang þar sem fólk hittist, rjúfi félagslega einangrun og upplifi sig sem virkan þátttakanda í samfélaginu er dregið úr einmanaleika og líkamleg og andleg heilsa er bætt. Í raun má segja að félagsmiðstöðin Hraunsel sé eins konar hjartsláttur samfélagsins fyrir eldri kynslóðina.

Heilsuefling og frístundastyrkur er fjárfesting í vellíðan

Í Hafnarfirði er litið á heilsueflingu eldra fólks sem fjárfestingu í bættri heilsu, sjálfstæði og lífsgæðum. Í samstarfi við Janus heilsueflingu stendur bæjarfélagið að öflugu verkefni sem býður upp á heilsuráðgjöf, hópþjálfun, fræðslu og einstaklingsmiðaða þjónustu. Hafnarfjarðarbær er einnig með samning við Hress heilsurækt um aðgengi fyrir eldra fólk að tímum og þjálfun.

Markmiðið er að styrkja líkamlega heilsu, efla hreyfigetu og forða því að líkamleg færni skerðist of snemma. Með reglulegri hreyfingu og ráðgjöf eykst sjálfstæði fólks, dregið er úr fallhættu og öðrum slysum, og líkur minnka á langvinnum sjúkdómum á borð við hjarta- og æðasjúkdóma eða sykursýki. Það er því augljóst að heilsuefling er öflugasta forvörnin sem hægt er að veita.

Frístundastyrkurinn einstakt úrræði sem Hafnarfjörður var brautryðjandi í að innleiða. Hann gerir fólki 67 ára og eldra kleift að sækja skipulagt íþrótta- og tómstundastarf á hagkvæmari hátt.

Þessi samsetning, heilsuefling í gegnum faglega þjónustu og styrkur sem hvetur til þátttöku, er ekki aðeins fjárfesting í vellíðan heldur líka öflug forvörn. Hún dregur úr einangrun, minnkar álag á heilbrigðiskerfið og tryggir eldra fólki fleiri góð og virðingarverð ár.

Öruggt heimili fyrir framtíðina

Eitt mikilvægasta málið til framtíðar er að tryggja fjölbreytt og hentugt húsnæði fyrir eldra fólk. Starfshópur á vegum bæjarins er að ljúka vinnu við tillögur að uppbyggingu íbúða sem mæta þörfum þessa hóps og verða þær kynntar á næstunni.

Í Hafnarfirði hefur verið lögð sérstök áhersla á að uppbygging húsnæðis taki mið af ólíkum þörfum íbúanna.

Þegar kemur að eldra fólki er lykilatriði að skapa öryggi og stuðning en jafnframt virða óskir um sjálfstæði. Því er mikilvægt að leggja áherslu blandaðar lausnir: þjónustuíbúðir þar sem fólk fær stuðning við daglegt líf, íbúðir nálægt þjónustu og samgöngum og jafnframt hefðbundið húsnæði sem hentar þeim sem vilja búa áfram sjálfstætt.

Með þessu móti tryggjum við að hver og einn geti fundið lausn sem hentar hans aðstæðum og óskum. Slíkt húsnæði er ekki aðeins mikilvægt fyrir einstaklingana sjálfa heldur styrkir það líka samfélagið í heild. Eldra fólk fær þannig að halda tengslum, vera virkt í nærumhverfi sínu og lifa lífinu af reisn.

Hafnarfjörður hefur sýnt að bærinn hefur staðið sig vel í uppbyggingu íbúða. Við erum staðráðin í að vera fyrirmynd þegar kemur að því að byggja samfélag þar sem allir finna sér heimili.

Framtíðin í okkar höndum

Í Hafnarfirði er enginn látinn standa einn. Með því að efla félagsstarf, heilsu og húsnæðismál tryggjum við að eldra fólk geti notið lífsins með reisn, gleði og öryggi. Það er ekki aðeins þjónusta heldur stefna sem byggir á samkennd, virðingu og framsýni.

Við trúum því að sterkt samfélag byggist á því að allir fái að blómstra á sínum forsendum, hvort sem fólk er ungt eða komið á efri ár. Með áframhaldandi metnaði, samstarfi og hugrekki mun Hafnarfjörður halda áfram að vera bær þar sem gott er að eldast.

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Við krefjumst þess að á okkur sé hlustað

Deila grein

01/10/2025

Við krefjumst þess að á okkur sé hlustað

Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) er öflugur málsvari og drifkraftur byggðaþróunar.

SSA er málsvari sveitarfélaganna á Austurlandi gagnvart ríkisvaldinu og öðrum hagsmunaaðilum. Sambandið stendur vörð um hagsmuni svæðisins í umræðum um byggðamál, verkefnaflutninga og jöfnun á búsetuskilyrðum milli landshluta. Sambandið er mikilvægur vettvangur fyrir sveitarstjórnarmenn á svæðinu til að skiptast á skoðunum, eiga samtal og vinna sameiginlega að verkefnum.

Vegvísir að sameiginlegri framtíð

Árið 2022 var svæðisskipulag Austurlands 2022-2044 samþykkt af sveitarstjórnum allra sveitarfélaga á Austurlandi. Svæðisskipulag er mikilvægt stjórntæki sem markar sameiginlega framtíðarsýn Austfirðinga fyrir næstu áratugi. Það er stefnumarkandi langtímaáætlun sem tekur til allra sveitarfélaga á Austurlandi.

Svæðisskipulagið er meira en bara áætlun, það er leiðarljós fyrir allt samfélagið á Austurlandi. Með því að marka skýra stefnu um uppbyggingu atvinnu, innviða og ferðaþjónustu hjálpar skipulagið til við að laða að nýja íbúa og fyrirtæki og styrkja núverandi samfélag.

Í svæðisskipulagi Austurlands kemur fram að mikilvægt sé að unnið verði að því að bæta vegi, gera jarðgöng og breikka brýr til að stytta leiðir og auka öryggi. Áhersla verði lögð á að byggja Fjarðarheiðargöng, Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng með það að markmiði að hringtengja miðsvæði Austurlands.

Samhljóða samþykktar bókanir

Samband sveitarfélaga á Austurlandi hefur ítrekað bókað um hringtengingu Austurlands með jarðgöngum og má finna bókanir þess efnis áratugi aftur í tímann. Í bókun aðalfundar allt frá árinu 2007 segir: Fundurinn lítur svo á að Norðfjarðargöng verði fyrsti hluti svokallaðra Miðfjarðaganga sem eru jarðgöng frá Eskifirði um Norðfjörð, Mjóafjörð, Seyðisfjörð til Héraðs.

Árið 2008 er síðan samþykkt að aðalfundurinn lýsi yfir fullum stuðningi við baráttu Seyðfirðinga fyrir jarðgöngum á milli Héraðs og Seyðisfjarðar. Bókanir á aðalfundum SSA eru áþekkar árum saman og er smám saman gengið lengra eftir því sem ný Norðfjarðargöng og göng í öðrum landshlutum, s.s. Dýrafjarðar- og Vaðlaheiðargöng, komast á undirbúnings- og framkvæmdarstig.

Áherslur sveitarfélaganna á Austurlandi um næstu göng voru og eru skýrar: Fjarðarheiðargöng eiga að vera næstu göng á Austurlandi. Þung áhersla hefur verið lögð á að hönnun ganga frá Seyðisfirði um Mjóafjörð til Norðfjarðar fari fram samhliða vinnu við Fjarðarheiðargöng með það að markmiði að hringtengja miðsvæði Austurlands.

Við tölum skýrt

Haustþing SSA krefst þess að ráðist verði tafarlaust í hringtengingu Austurlands með jarðgöngum og í löngu tímabærar úrbætur á Suðurfjarðavegi og Öxi í samræmi við áherslur svæðisskipulags Austurlands 2022-2044.

Haustþing SSA ítrekar jafnframt gagnvart núverandi stjórnvöldum að Austurland sé næst í röðinni hvað varðar jarðagangauppbyggingu. Það er ólíðandi að stjórnvöld reyni að komast undan þeirri ábyrgð með því að draga fram gömul þrætuepli í tilraunum sínum til að fjármagna uppbyggingu annars staðar á landinu.

Kæru þingmenn og ráðherrar, það er ekki hægt að vera skýrari í máli. Það er skýlaus krafa okkar að þið talið okkar máli og hlustið á okkar samhljóða samþykktar ályktanir.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings og fulltrúi á haustþingi SSA á Vopnafirði.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Litla gula hænan og Evrópusambandið

Deila grein

30/09/2025

Litla gula hænan og Evrópusambandið

Margir muna eftir sögunni um litlu gulu hænuna sem fann hveitifræ. Hún áttaði sig á því að ef hún myndi sá, slá, þreskja og mala hveitifræið og baka svo brauð, þá væri hægt að njóta ávinningsins. Hún bað önnur dýr á bænum að hjálpa en hundurinn, kötturinn og svínið höfnuðu því öll. Þegar brauðið var loks tilbúið vildu þau þó öll fá sneið, en þá sagði litla gula hænan nei, aðeins hún sem vann verkið ætti rétt á brauðinu.

Fyrirverandi bankastjóri Evrópska seðlabankans og forsætisráðherra Ítalíu, Mario Draghi, er í hlutverki litlu gulu hænunnar. Draghi hefur ítrekað varað við því að Evrópusambandið sé að missa samkeppnishæfni sína vegna aðgerðaleysis. Á síðasta ári lagði hann fram 383 tillögur um umbætur sem gætu aukið framleiðni og hagvöxt, ásamt því að efla ESB-ríkin í tæknikapphlaupinu gagnvart Bandaríkjunum og Kína. Tillögurnar voru samþykktar en aðeins um 11 prósentum hefur verið hrint í framkvæmd. Afgangurinn af tillögunum er fastur í ágreiningi og skrifræði.

Draghi óskar eftir aðstoð: „Hver vill hjálpa mér að sá, mala og uppskera?“ En svörin eru lítil. Leiðtogar ESB-ríkja viðurkenna vandann, jafnvel framkvæmdastjórinn Ursula von der Leyen, en þegar til kastanna kemur er viljinn ekki nægur. Sagan um litlu gulu hænuna felur í sér ákveðinn boðskap. Ef enginn er tilbúinn að leggja hönd á plóginn, þá verður ekkert brauð til að deila. Hagkerfi margra ESB-ríkja er í þeirri stöðu að verðmætasköpun er að minnka. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ESB-ríki geti bakað sitt brauð, en gallinn er að kerfið sem búið er að setja upp dregur úr hvatanum til þess. Gjaldmiðill þeirra hefur ekki skilað þeim árangri sem vænst var í upphafi, fjármögnun erfið, umgjörðin um ríkisfjármálin ekki nægilega sterk og ekki hefur verið ráðist í nauðsynlegar efnahagslegar kerfisbreytingar til að létta róðurinn. Á meðan vex hagkerfi Bandaríkjanna átta sinnum hraðar en hagkerfi Evrópu. Þar hefur fjárfesting í nýsköpun, orkuöryggi og gervigreind skapað mikla framþróun. Kína er á fleygiferð í gervigreindinni, en einnig í innviðum og iðnaði, og styrkir áhrif sín í Asíu og Afríku. Evrópa stendur hins vegar í stað og glímir við að brúa bilið milli háleitra áforma og raunverulegra framkvæmda.

Eins og staðan er í dag, þá á Ísland að tryggja viðskiptakjör sín með alþjóðlegri samvinnu og efla samkeppnishæfni og hagvöxt. Ísland hefur náð miklum framförum síðustu áratugi og gert það í krafti sjálfstæðis með tryggt eignarhald á auðlindum sínum. Ísland á ekki að gerast aðili að ESB, sem er ekki tilbúið að gera það sem þarf til að baka brauðið og njóta síðan ávinningsins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. utanríkisráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. september 2025.