Categories
Fréttir Greinar

Lof­orðið sem borgar­stjóri gleymdi

Deila grein

21/08/2025

Lof­orðið sem borgar­stjóri gleymdi

Stundum gleymast kosningaloforð. Fyrir tæpum þremur árum lofaði Samfylkingin því að börn frá 12 mánaða aldri kæmust inn í leikskóla. Nú þegar líður að lokum kjörtímabilsins er ekkert sem bendir til þess að það loforð verði efnt.

Þegar ég benti á loforð Samfylkingarinnar um leikskólapláss fyrir 12 mánaða börn kannaðist borgarstjóri ekki einu sinni við það og spurði: „hvar hefur Samfylkingin lofað því?” Það eitt og sér segir margt um forgangsröðun Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Raunveruleikinn er sá að leikskólapláss í hverfisleikskólum við 12 mánaða og jafnvel 18 mánaða aldur er fjarlæg draumsýn. Því þótt sum börn fái úthlutað pláss við 18 mánaða aldur er það oft í allt öðru hverfi en heimilið þeirra er staðsett í og ef það á eldra systkini er heldur ekki víst að barnið fái pláss í sama leikskóla og eldra systkini þeirra er í. Þetta veldur tilheyrandi álagi á fjölskyldur sem þurfa að samræma vinnu, skóla og daglegt líf við langar ferðir á milli hverfa til að fara með börn í leikskóla. Til að gæta sanngirnis þá tek ég fram að ég átta mig á því að ekki er hægt að draga töfralausn á dagvistunar vandanum úr ímynduðum hatti. Það mun taka tíma að leysa vandann. Ekki er nóg að byggja leikskóla heldur þarf að manna þá og það vantar fleira starfsfólk inn í leikskólakerfið. Samfylkingin virðist þó vera blind á þann raunveruleika og reyndi að draga upp töfralausn á leikskóla vandanum úr ímynduðum hatti fyrir síðustu kosningar.

Þessi sami flokkur sem lofaði foreldrum 12 mánaða barna leikskólapláss virðist einnig blindur á stöðu foreldra sem eru að bíða eftir dagvistun fyrir börn sín og hafnar jafnframt því að veita foreldrum greiðslur heim á meðan þeir bíða eftir plássi. Fjárhagsleg aðstoð við foreldra til að létta undir á meðan þeir bíða eftir dagvistun er til staðar fyrir foreldra í Hafnarfirði, Kópavogi og Hveragerði ásamt fjölda annara sveitarfélaga en meirihlutinn í Reykjavíkurborg vill ekki sjá að foreldrum í Reykjavík sé mætt með sambærilegum hætti. Afleiðingin er sú að foreldrar sem lokið hafa fæðingarorlofinu eru án dagvistunar og sitja eftir með fjárhagsáhyggjur vegna þess að þau geta ekki farið aftur á vinnumarkaðinn. Samfylkingin sem heldur á forsætisráðherrastólnum virðist þá ekki hafa nein áform um að lengja fæðingarorlofið á vettvangi löggjafans til að mæta barnafólki.

Hér er ekki bara um gleymd (og þar með brotin) loforð að ræða heldur snýst þetta um forgangsröðun og ábyrgð meirihlutans gagnvart barnafólki sem á að geta treysti því að stjórnvöld standi við stóru orðin og mæti þeirri stöðu sem uppi er þegar draumastaðan um leikskólapláss við 12 mánaða aldur næst ekki t.a.m. með heimgreiðslum.

Hvaða ,,plan” ætli verði dregið upp úr ímyndaða hattinum næst?

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fasteignagjöld í brennidepli – mikilvægt að huga að stöðu íbúanna

Deila grein

13/08/2025

Fasteignagjöld í brennidepli – mikilvægt að huga að stöðu íbúanna

Nýtt fasteignamat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) fyrir árið 2026 sýnir að hækkunin á Suðurnesjum er meiri en að meðaltali á landsvísu. Á landsvísu hækkar fasteignamat um 9,2% milli ára, en á Suðurnesjum og Norðurlandi er hækkunin mest.

Í Suðurnesjabæ hækkar fasteignamat íbúðarhúsnæðis að meðaltali um 17,2% um næstu áramót og er það ein sú mesta hækkun á landvísu. Þetta er umtalsverð hækkun sem kemur á tíma þegar margir íbúar glíma nú þegar við aukinn kostnað vegna vaxta og verðbólgu. Slík hækkun mun óhjákvæmilega hafa áhrif á fjárhagsstöðu heimilanna, ef ekki er brugðist við í álagningarstuðli fasteignagjaldanna.

Bæjarráð Suðurnesjabæjar hefur þegar lýst vilja sínum til að bregðast við þessari þróun með því að lækka álagningarhlutfall fasteignagjalda. Nánari útfærsla á lækkuninni verður unnin samhliða við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026. Við í Framsókn, sem eigum fulltrúa í bæjarráði, og munum við að sjálfsögðu fylgja málinu eftir í þeirri vinnu að 17,2% hækkun fari ekki beint ofan á núverandi reiknistuðul fasteignargjalda.

Hækkun fasteignamats mun einnig hafa áhrif á aðra reiknistuðla í sveitarfélaginu, til dæmis gjaldskrá vatnsveitu Sandgerðis sem er í eigu Suðurnesjabæjar, Þar hefur meirihluti Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Bæjarlistans lýst vilja til að selja eignarhlut sveitarfélagsins í vatnsveitunni.

Við í Framsókn teljum slíka sölu ekki skynsamlega og í raun óafturkræfa. Það er mikilvægt að grunninnviðir sveitarfélagsins séu í eigu þess sjálfs, því slíkar eignir eru ekki aðeins fjárhagsleg verðmæti heldur einnig trygging fyrir að samfélagið hafi stjórn á eigin þjónustu og verðlagningu. Ef slíkur eignarhlutur er seldur til einkaaðila, hverfur þessi stjórn og framtíðaráhrif geta orðið íbúum kostnaðarsöm.

Því teljum við að réttara sé að endurskoða reiknistuðul vatnsskattarins til að jafna greiðslubyrði á milli byggðarkjarna í Suðurnesjabæ, Garði og Sandgerði. Með því er hægt að ná sanngjarnari skiptingu án þess að selja mikilvæga innviði.

Slík nálgun er betri kostur en að selja innviði sveitarfélagsins úr sameiginlegri eigu. Það er á ábyrgð okkar kjörinna fulltrúa að verja hagsmuni íbúa, tryggja að þjónusta og innviðir haldist í traustri eigu sveitarfélagsins og kappkosta að halda álögum á íbúa okkar í lágmarki.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á vf.is 13. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Óvissuferð

Deila grein

12/08/2025

Óvissuferð

Staða efna­hags­mála í sum­ar­lok ein­kenn­ist af mik­illi óvissu og stór­um áskor­un­um. Í fyrsta lagi hef­ur verðbólga ekki lækkað eins og von­ir stóðu til. Í öðru lagi hef­ur um­hverfi ut­an­rík­is­viðskipta versnað veru­lega, sem dreg­ur úr sam­keppn­is­hæfni. Að lok­um skort­ir skýra og gagn­sæja stefnu í rík­is­fjár­mál­um.

Verðbólga mæl­ist 4% á árs­grund­velli og hækk­an­ir mæl­ast á breiðum efna­hags­leg­um grunni. Á sama tíma hef­ur ávöxt­un­ar­krafa verðtryggðra rík­is­skulda­bréfa til lengri tíma hækkað um­tals­vert. Vænt­ing­ar markaðar­ins um þróun verðbólgu og raun­vaxta til lengri tíma hafa einnig auk­ist. Þetta þýðir að vext­ir til heim­il­anna verða einnig hærri til lengri tíma, þar sem fjár­mögn­un­ar­kostnaður rík­is­ins er grunn­ur að verðlagn­ingu alls kerf­is­ins. Þótt styrk­ing krón­unn­ar ætti að vega á móti verðbólguþrýst­ingi hef­ur sterk­ara gengi ekki enn skilað sér til al­menn­ings. Margt bend­ir til þess að krón­an geti veikst í haust vegna auk­ins viðskipta­halla og mik­ill­ar óvissu á alþjóðamörkuðum.

Óviss­an hef­ur sjald­an verið meiri í alþjóðahag­kerf­inu. Tolla­stríðið sem nú geis­ar í alþjóðaviðskipt­um er án for­dæma. Fyr­ir­séð var að banda­rísk stjórn­völd myndu hefja tíma­bil ný-kaupauðgis­stefnu, sem fel­ur í sér að auka út­flutn­ing Banda­ríkj­anna, draga úr inn­flutn­ingi og hækka tolla til að auka tekj­ur rík­is­sjóðs. Hér er um nýja efna­hags­stefnu að ræða, þar sem ut­an­rík­is­viðskipti eiga að koma með bein­um hætti að hag­stjórn í aukn­um mæli. Á sama tíma hef­ur for­seti Banda­ríkj­anna verið að styrkja laga­lega um­gjörð raf­mynta, og verður fróðlegt að fylgj­ast með sam­spili þess og hvort eft­ir­spurn auk­ist að nýju eft­ir banda­rísk­um rík­is­skulda­bréf­um. Mark­mið efna­hags­stefn­unn­ar er að minnka þrálát­an viðskipta­halla og auka fjár­fest­ing­ar inn­an­lands. Það sem hef­ur komið á óvart eru fyr­ir­hugaðir refsitoll­ar Evr­ópu­sam­bands­ins á fram­leiðslu kís­il­málma og að þeim skuli verða beitt gagn­vart EES-ríkj­um. Ólík­legt þykir að Evr­ópu­sam­bandið haldi sig við þessa stefnu til lengri tíma og virði ekki EES-samn­ing­inn. Mikið er í húfi fyr­ir þjóðarbúið að EES-samn­ing­ur­inn sé virt­ur.

Fyrsta fjár­laga­frum­varp rík­is­stjórn­ar­inn­ar verður kynnt í sept­em­ber. Rík­is­fjár­mála­áætl­un­in hef­ur verið samþykkt og þar er gert ráð fyr­ir auknu aðhaldi, en út­færsla þess hef­ur ekki verið kynnt og eyk­ur því óvissu. Vantað hef­ur upp á ákveðin gögn og fyr­ir­sjá­an­leik­inn því minnkað.

Efna­hags­stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar er óvissu­ferð. Brýnt er að for­gangsraða í þágu verðlags­stöðug­leika og hags­muna­gæslu fyr­ir land og þjóð. Allt stefn­ir í auk­inn viðskipta­halla ef rík­is­stjórn­in hug­ar ekki bet­ur að sam­keppn­is­hæfni og að efla ís­lenska fram­leiðslu. Efna­hags­leg­ar af­leiðing­ar eru þekkt­ar. Lífs­kjör þjóðar­inn­ar ráðast af því hvernig til tekst!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Hetjan mín

Deila grein

05/08/2025

Hetjan mín

Guðný Jóns­dótt­ir langamma mín fædd­ist 5. ág­úst 1910 og því eru liðin 115 ár frá fæðingu henn­ar. Hún fædd­ist á Mel­um í Fljóts­dal og bjó þar fyrstu ævi­ár­in. For­eldr­ar henn­ar, Jón Mika­el­son og Arn­fríður Eðvalds­dótt­ir, reistu sér síðar bú á Una­ósi ásamt sex börn­um sín­um. Þegar langamma var tíu ára lést faðir henn­ar. Langamma var næ­stelst í hópi systkin­anna. Heim­ilið leyst­ist upp og börn­in voru send hvert í sína átt. Móðir henn­ar tók eitt barn­anna með sér, og langamma tók yngsta bróður sinn með sér í vinnu­mennsku og sá fyr­ir hon­um.

Snemma var hún far­in að axla ábyrgð, og sagt var að hún hefði ekki aðeins hlúð að yngsta bróður sín­um, held­ur verið vak­in og sof­in yfir aðbúnaði hinna systkin­anna. Hrepp­ur­inn vildi styrkja hana til náms, en hún þurfti að hafna því vegna skyldna sinna, þá ekki nema tólf ára göm­ul.

Fljótt komu í ljós þeir eig­in­leik­ar sem ein­kenndu hana: sjálfs­bjarg­ar­viðleitn­in og hjálp­sem­in. Þeir urðu síðar marg­ir sem hún tók upp á arma sína og skaut skjóls­húsi yfir, skyld­ir og óskyld­ir. Ekki er ólík­legt að kröpp kjör í bernsku hafi gert lang­ömmu mína að þeirri fé­lags­hyggju­konu sem hún varð. Hún hafði mik­inn áhuga á stjórn­mál­um og skipaði sér í sveit með þeim sem börðust fyr­ir rétt­ind­um verka­fólks og annarra sem minna máttu sín í sam­fé­lag­inu. Á kreppu­ár­un­um voru síld­artunn­ur notaðar sem ræðustól­ar til að vekja at­hygli á rétt­ind­um verka­fólks. Langamma fór síðar meir út í veit­ing­a­rekst­ur. Hún keypti og rak mat­sölu um ára­bil í Aðalstræti 12. Sá rekst­ur gekk vel, enda var hún út­sjón­ar­söm. Mat­ur­inn þótti heim­il­is­leg­ur og meðal fastak­únna voru oft fá­tæk­ir skóla­pilt­ar og verka­menn. Marga þeirra annaðist hún eins og þeir væru úr henn­ar eig­in fjöl­skyldu.

Á aðfanga­dags­kvöld­um var mat­sal­an jafn­an opin og þá margt um mann­inn. Marg­ir áttu sín einu jól hjá lang­ömmu. Hún tók þátt í starfi fé­lags starfs­fólks á veit­inga­hús­um. Hún varð formaður þess árið 1956 og gegndi for­mennsku til 1962. Mat­sölustaðinn seldi hún árið 1966 og keypti þá jörðina Vatns­enda í Vill­inga­holts­hreppi. Þar stundaði hún bú­skap næstu árin af mikl­um mynd­ar­brag. Mjólk­ur­fram­leiðsla henn­ar þótti jafn­an til fyr­ir­mynd­ar og hlaut viður­kenn­ingu frá Mjólk­ur­búi Flóa­manna.

Fram­far­irn­ar sem orðið hafa á ís­lensku sam­fé­lagi frá þess­um tíma eru fá­heyrðar í hag­sögu þjóða. Tæki­fær­in eru gjör­ólík þeim sem voru við upp­haf síðustu ald­ar. Ég velti því oft fyr­ir mér, sem ráðherra, hvar lang­ömmu hefði þótt skór­inn helst kreppa. Ávallt kemst ég að sömu niður­stöðu: Staða mennta­kerf­is­ins. Við þurf­um að efla það áfram og veita öll­um börn­um tæki­færi til mennt­un­ar.

Krafta­verk­in í líf­inu eru mörg og mis­stór, og stund­um eru þau unn­in af ein­stak­ling­um sem lyfta björg­um. Langamma mín var slík kona og hetj­an mín.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. mennta­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Verkstjórnin veldur pólitískri áhættu

Deila grein

10/07/2025

Verkstjórnin veldur pólitískri áhættu

,,Ísland á að standa á grunni festu og ábyrgra ákv­arðana sem tekn­ar eru á traust­um grunni. En þegar rík­is­stjórn legg­ur fram illa und­ir­bú­in laga­frum­vörp án sam­ráðs og bregst ekki við rétt­mætri gagn­rýni verður niðurstaðan óstöðug­leiki og minnk­andi trú­verðug­leiki. Slík­ir stjórn­ar­hætt­ir skapa póli­tíska áhættu.

Þessa hættu sáum við glögg­lega raun­ger­ast á tím­um vinstri­stjórn­ar­inn­ar 2009-2013, þegar stefnt var að því að um­bylta ís­lensku sam­fé­lagi í einni svip­an. Þá var ráðist í hækk­un skatta á al­menn­ing og fyr­ir­tæki, auk til­rauna til bylt­ing­ar­kenndra breyt­inga á ýms­um sviðum sam­fé­lags­ins sem áttu að raun­ger­ast á til­tölu­lega stutt­um tíma. Þessi til­raun mistókst hrap­al­lega.

Stefna sem gref­ur und­an at­vinnu­líf­inu

Rík­is­stjórn­in hef­ur lagt fram frum­vörp og boðað aðgerðir sem skapa aukna óvissu og grafa und­an fjár­hags­leg­um for­send­um mik­il­vægra at­vinnu­greina. Þar ber hæst fyr­ir­hugaða hækk­un veiðigjalda sem mun hafa al­var­leg áhrif á marg­ar sjáv­ar­byggðir. Þrátt fyr­ir varnaðarorð 26 sveit­ar­fé­laga, þar sem um 100 þúsund manns búa, er hvergi hvikað. End­ur­skoðend­ur og fyr­ir­tæki sem þjón­usta sjáv­ar­út­veg­inn, ásamt minni og stærri út­gerðum, hafa gert veiga­mikl­ar at­huga­semd­ir og kallað eft­ir svör­um við mjög áleitn­um spurn­ing­um en ekki verið virt viðlits.

Á sama tíma stend­ur til að hækka álög­ur og skatta á ferðaþjón­ust­una, þrátt fyr­ir blik­ur á lofti á alþjóðleg­um mörkuðum og skerta sam­keppn­is­stöðu grein­ar­inn­ar. Að auki liggja fyr­ir ýms­ar breyt­ing­ar sem snúa að líf­eyr­is­sjóðakerf­inu og munu meðal ann­ars hafa nei­kvæð áhrif á líf­eyris­tekj­ur bæði eldri borg­ara og kom­andi kyn­slóða á vinnu­markaði. Í reynd má segja að megin­áhersla rík­is­stjórn­ar­inn­ar í efna­hags­mál­um sé að auka álög­ur á al­menn­ing og fyr­ir­tæki án þess að fyr­ir liggi mat á áhrif­um á hag­vöxt, fjölda starfa og fjár­fest­ing­ar­vilja í at­vinnu­líf­inu. Gam­al­kunn­ugt stef það.

Óviss­an smit­ar út í hag­kerfið

Þannig eru und­ir­stöðuat­vinnu­grein­ar þjóðar­inn­ar sett­ar í viðvar­andi óvissu­ástand á inn­lend­um vett­vangi, sem bæt­ist ofan á þann óró­leika sem þegar rík­ir á alþjóðleg­um mörkuðum. Allt þetta dreg­ur úr til­trú markaðar­ins á efna­hags­stjórn og eyk­ur lík­ur á viðvar­andi verðbólgu og háu vaxta­stigi, dreg­ur úr fjár­fest­ing­ar­vilja, hæg­ir á at­vinnu­sköp­un og veik­ir þannig grund­völl verðmæta­sköp­un­ar í sam­fé­lag­inu.

Í pistli Gunn­ars Bald­vins­son­ar, fram­kvæmda­stjóra Al­menna líf­eyr­is­sjóðsins, í Viðskipta­blaðinu 4. júlí kem­ur fram að ný­leg­ar aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar kunni að hafa svo veru­leg áhrif að líf­eyr­is­sjóðir neyðist til að hækka mat sitt á póli­tískri áhættu. Þeir þurfi jafn­framt að grípa til aðgerða til að draga úr mögu­legu tjóni, ef áhætt­an raun­ger­ist. Slík þróun und­ir­strik­ar að póli­tísk óvissa hef­ur þegar haft mæl­an­leg áhrif á fjár­hags­legt um­hverfi lyk­il­stofn­ana sam­fé­lags­ins. Með óbreyttri stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar munu fjár­fest­ing­ar drag­ast sam­an og at­vinnu­sköp­un minnka. Slík þróun veik­ir grunnstoðir hag­kerf­is­ins og dreg­ur úr getu sam­fé­lags­ins til að standa und­ir öfl­ugu vel­ferðar­kerfi.

Verk­stjórn rík­is­stjórn­ar­inn­ar er nú þegar far­in að hafa veru­lega nei­kvæð áhrif.”

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júlí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Má bjóða þér lægri vexti?

Deila grein

14/06/2025

Má bjóða þér lægri vexti?

Undir lok síðasta kjörtímabils var ráðist í metnaðarfullt verkefni um úrbætur á húsnæðislánakerfinu. Sigurður Ingi Jóhannsson, þá fjármála- og efnahagsráðherra, fól hagfræðingnum Jóni Helga Egilssyni að leiða vinnu við greiningu og tillögur um óverðtryggð húsnæðislán til langs tíma. Jón Helgi er reyndur sérfræðingur (PhD í hagfræði) og skilaði hann ítarlegri skýrslu í janúar 2025.

Markmið verkefnisins var að greina hvernig bankar geti boðið íslenskum fasteignakaupendum hagstæðari kjör á löngum, óverðtryggðum lánum – sambærileg þeim sem bjóðast í nágrannalöndum okkar. Það er brýnt hagsmunamál fyrir heimili að hafa aðgang að slíkum lánum. Þau veita fjölskyldum fyrirsjáanleika og stöðugleika í greiðslubyrði og draga úr óvissu, en núverandi fyrirkomulag – með skammtíma breytilegum vöxtum eða verðtryggingu – getur þvert á móti kollvarpað fjárhag á lánstímanum.

Tillögur sem krefjast pólitísks vilja

Megin niðurstöður Jóns Helga eru að breyta þurfi umgjörð lánamarkaðarins til að tryggja betri kjör. Til dæmis er bent á að endurskoða þurfi lög um uppgreiðslugjöld og draga úr hömlum á löngum föstum vöxtum. Jafnframt þurfi að þróa virkari afleiðumarkað fyrir vaxta- og gjaldmiðlaskipti. Í skýrslunni er lagt til að stjórnvöld taki virkan þátt í að byggja upp markað fyrir vaxtaskiptasamninga, meðal annars með aukinni fræðslu og beinni þátttöku ríkissjóðs í slíkum samningum til að draga úr vaxtaáhættu og auðvelda bönkum að bjóða fasta vexti til langs tíma. Slíkar aðgerðir myndu hjálpa bönkunum að fjármagna óverðtryggð lán á hagkvæmari hátt og bjóða neytendum betri kjör, en einnig gætu slík viðskipti dregið úr fjármagnskostnaði ríkissjóðs, sem er óásættanlegur. Einnig er bent á að lífeyrissjóðir og ríki gætu unnið saman að gjaldmiðlaskiptasamningum til að sækja hagstæðari fjármögnun erlendis en tryggja að lánin séu í íslenskum krónum.

Þögn í skjóli ESB hugmyndafræði

Skýrslan var kynnt í byrjun árs og afhent nýjum fjármála- og efnahagsráðherra, Daða Má Kristóferssyni. En þrátt fyrir að hér sé um trausta, vel rökstudda greiningu að ræða hefur ráðherrann látið hjá líða að bregðast við. Engar tilraunir hafa sést til að hrinda í framkvæmd þeim úrbótum sem lagðar eru til. Þögnin er áberandi – og margir velta fyrir sér hvers vegna. Ein skýringin gæti verið óþægileg pólitísk staðreynd: Tillögur skýrslunnar kalla á aðgerðir sem falla illa að grunnstefnu Viðreisnar. Viðreisn hefur lengi byggt efnahagsstefnu sína á ESB-aðild og upptöku evru sem lausn fyrir stöðugleika. Í stefnuskrá flokksins er fullyrt að full aðild að Evrópusambandinu og evra bæti lífskjör og auki kaupmátt. Í ljósi þess er hætt við að ráðherra úr þeim flokki hafi lítinn áhuga á að ráðast í umbætur sem styrkja íslenskt lánakerfi innan ramma krónunnar – enda telja forystumenn Viðreisnar að raunveruleg lausn felist í því að skipta um gjaldmiðil. Í stuttu máli: Það skortir ekki efnislegar tillögur um hvernig lækka megi vexti á húsnæðislánum; það sem skortir er pólitískur vilji til að nýta þær.

Hættan á að tækifærið fari forgörðum

Af hverju skiptir þetta máli núna? Staðan á húsnæðislánamarkaði er grafalvarleg fyrir almenning. Verðbólga hefur verið þrálát og þótt hún hafi hjaðnað þá spáir Seðlabankinn því nú að verðbólgan gæti orðið þrálát og hætti að lækka frekar næstu misseri. Vaxtabyrðin er því enn mjög þung: stýrivextir standa í 7,5% og bankar velta þeim kostnaði út til almennings. Seðlabankastjóri hefur sjálfur varað við að ekki sé víst að hægt verði að lækka vexti frekar á næstunni og að mikil óvissa ríki – meðal annars á fasteignamarkaði. Því megum við alls ekki við því að hunsa góð ráð sem gætu dregið úr fjármagnskostnaði heimilanna. Nauðsynlegt er að ítreka að fjárhagslegt svigrúm heimilanna og stöðugleiki á lánamarkaði er ekki eitthvað sem má tefjast í deilum um hugmyndafræði. Það þarf að bregðast við núna með þeim tækjum sem við höfum. Sleggja Kristrúnar Frostadóttur, sem hún mundaði svo myndarlega í kosningabaráttunni haustið 2024 til að „berja niður verðbólguna“, virðist ekki vera að virka eða í það minnsta hittir hún ekki rétta nagla á höfuðið. Mögulega er hún bara flogin af skaftinu.

Skýrslu Jóns Helga ber að taka alvarlega og fylgja eftir í verki. Hagsmunir íslenskra heimila af sanngjörnum lánskjörum hljóta að ganga framar flokkspólitískum draumsýnum um Evrópusambandsaðild einhvern daginn.

Helgi Héðinsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. júní 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Rétt­læti næst ekki með rang­læti

Deila grein

13/06/2025

Rétt­læti næst ekki með rang­læti

Í umræðum á Alþingi spurði ég hæstvirtan dómsmálaráðherra, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur einfaldrar, en mikilvægrar spurningar: Telur hún sem dómsmálaráðherra að það standist stjórnarskrá að skerða áunnin réttindi tugþúsunda sjóðfélaga í lífeyrissjóðum? Þetta eru réttindi sem fólk hefur unnið sér inn með áratugalangri þátttöku í atvinnulífinu – réttindi sem njóta verndar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Í stað málefnalegrar umræðu kaus ráðherra að svara með hroka, umvöndunum og útúrsnúningum í stað þess að fjalla af ábyrgð um eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Svarið bar fremur keim af hroka og útúrsnúningum en ábyrgð.

En þetta mál snýst ekki um leikþátt og hroka ráðherrans í þingsal – þetta mál snýst um grundvallarréttindi fólks.

Þungar áhyggjur lífeyrissjóðanna

Í umsögnum lífeyrissjóða, verkalýðshreyfingar og Landssambands eldri borgara er lýst yfir áhyggjum af því að með frumvarpinu sé verið að færa milljarða króna kostnað frá ríkinu og yfir á sjóðfélaga. Lífeyrissjóðir eins og Stapi á Norðurlandi, þar sem margt af okkar fólki í matvælaframleiðslu og sjávarútvegi greiðir til, gætu þurft að lækka réttindi um allt að 7,5%, réttindum sem njóta verndar stjórnarskrár. Réttindi sem fólk hefur áunnið sér með því að greiða af heilindum til samfélagsins alla sína starfsævi.

Í því ljósi er eðlilegt að spyrja hvort hægt sé að auka réttindi eins hóps með því að skerða rétt annarra? Er það í anda réttaríkis að framkvæma slíkar breytingar án raunverulegs samráðs – og gegn vilja þeirra sem fyrir áhrifunum verða?

Við í Framsókn styðjum heilshugar bætt kjör öryrkja og viljum tryggja réttláta þátttöku þeirra í samfélaginu – það er hins vegar leiðin að markmiðinu sem við gagnrýnum. Við gerum það ekki með því að etja þjóðfélagshópum saman. Ef það er vilji þessarar ríkisstjórnar að ryðja út lagafrumvörpum í nafni verkstjórnar – frumvörpum sem skerða lífeyrisréttindi verkafólks, í beinni andstöðu við grunnréttindi fólks í landinu – þá er illa fyrir okkur komið.

Réttlæti næst ekki með ranglæti

Við getum dregið þetta frumvarp til baka, kallað til samráð og leitað sáttar um útfærslu sem er bæði lögleg, réttlát og sanngjörn. Og það skiptir öllu – því það á enginn að þurfa að horfa upp á það að áunninn lífeyrir þeirra sé tekinn til að bæta útgjaldaáætlun ríkisins.

Ég mun ekki sitja þegjandi hjá í grundvallarmáli sem þessu – sama hvernig ráðherra bregst við eða reynir að snúa umræðunni. Öryrkjar og eldri borgarar – allt þetta fólk á það sameiginlegt að það á rétt á virðingu og réttlæti frá þeim sem fara með völd. Það er ábyrgð okkar hér á þingi að standa vörð um þau réttindi.

Réttlæti næst ekki með ranglæti.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. júní 2025.

Categories
Fréttir

„Stjórnarskrárbrot á kostnað verkafólks“

Deila grein

13/06/2025

„Stjórnarskrárbrot á kostnað verkafólks“

Harðorð gagnrýni hefur komið fram síðustu daga á frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á almannatryggingum, þar sem meðal annars er lagt til að skerða lífeyrisréttindi á almennum vinnumarkaði til að bæta kjör örorkulífeyrisþega.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, segir að með frumvarpinu sé „með einu pennastriki“ verið að lækka eftirlaun þeirra sem hafa greitt í lífeyrissjóði alla starfsævina. „Um leið rýra framtíðarréttindi verkafólks á almennum vinnumarkaði um 5-6%,“ segir hann og bætir við að málið hafi verið „keyrt áfram rétt fyrir þinglok“ og án nægilegs samráðs.

Sigurður Ingi leggur áherslu á að Framsókn styðji bætt kjör örorkulífeyrisþega, en ekki með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir. „Það gerum við ekki með því að skerða áunnin, stjórnarskrárvarin réttindi fólks. Verkalýðshreyfingin, eldri borgarar og atvinnulífið hafa öll varað við afleiðingunum.“

„Þjóðfélagshópum er stillt upp hvorum gegn öðrum. Málið er hroðvirknislega unnið, og ef þetta er dæmi um frábæra verkstjórn ríkisstjórnarinnar þá eru mjög fáir sammála því,“ segir hann og krefst þess að frumvarpinu verði hafnað. „Í grundvallarmáli sem þessu krefjumst við vandaðra vinnubragða, betri greininga og raunverulegs samráðs.“

LÍV varar einnig við áhrifum frumvarpsins

Stjórn Landsambands íslenskra verslunarmanna (LÍV) hefur einnig lýst yfir miklum áhyggjum af frumvarpinu. Í tilkynningu frá sambandinu segir að verði frumvarpið samþykkt muni það „grafa undan samtryggingarkerfi lífeyrissjóða“ og leiða til „eignaupptöku frá ellilífeyrisþegum til örorkulífeyrisþega“.

„Sú tilfærsla sem lögð er til í frumvarpinu mun hafa neikvæð áhrif á lífskjör eftirlaunaþega þar sem tekjur þeirra verða lægri,“ segir í yfirlýsingu stjórnar LÍV. Þar kemur jafnframt fram harð mótmæli við því að stjórn­völd „rjúfi samkomulag sem gert var við aðila vinnumarkaðarins“ án þess að forsendur hafi breyst eða nýtt fyrirkomulag hafi verið samið.

LÍV segir frumvarpið háð „alvarlegum annmörkum“ og krefst samráðs við lífeyrissjóði og aðila vinnumarkaðarins. Samkvæmt sambandinu sé eðlilegt að stjórnvöld tryggi framfærslu örorkulífeyrisþega, en ekki með lausnum sem veikja stoðir lífeyriskerfisins.

Formaður eldri borgara: „Ríkið má ekki etja hópunum saman“

Björn Snæbjörnsson, formaður Landssambands eldri borgara, tekur í sama streng og segir að frumvarpið hafi í för með sér „umtalsverðar skerðingar til ellilífeyrisþega“. Hann segir að ríkisvaldið verði að koma til móts við lífeyrissjóðina til að forða því að skerðingar bitni á eldri borgurum.

„Með þessu frumvarpi þá er raunverulega verið að lofa öryrkjum að hækka við þá bæturnar, en á móti… þá mun það hafa áhrif á ellilífeyrinn til lækkunar,“ segir hann og varar við því að „etja þessum tveimur hópum saman.“

„Við viljum að þetta nái fram að ganga með öryrkjana… en ríkisvaldið verður að jafna þessa byrði svo það verði ekki skerðingar hjá láglaunafólki í almennu verkamannasjóðunum.“

Óvissa um framhald málsins á lokaspretti þingsins

Frumvarpið er nú í meðförum Alþingis, en mótstaða virðist vera að aukast bæði innan þings og utan. Meðal gagnrýnenda eru stjórnarandstaðan, verkalýðsfélög og félagasamtök eldri borgara. Ljóst er að málið mun skapa miklar umræður á lokaspretti þingsins.

Stjórnarskrárbrot á kostnað verkafólks Með einu pennastriki hyggst ríkisstjórnin lækka eftirlaunin hjá fólki sem hefur…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Föstudagur, 13. júní 2025
Categories
Fréttir

Ríkisstjórnin hafnar innlendum heilbrigðisúrræðum

Deila grein

12/06/2025

Ríkisstjórnin hafnar innlendum heilbrigðisúrræðum

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gagnrýndi harðlega stefnu ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur í heilbrigðismálum, í störfum þingsins. Tilefnið er frumvarp sem heimilar greiðslu fyrir meðferð erlendis þegar bið eftir heilbrigðisþjónustu innanlands er of löng. Ingibjörg gagnrýndi að frumvarpið skyldi ekki tryggja að sambærileg meðferð hér á landi yrði nýtt fyrst.

„Þetta er bæði dýrara fyrir samfélagið og brot á jafnræðisreglu,“ sagði hún og bætti við að með þessu sitji ekki allir við sama borð. Framsókn hafi lagt fram breytingartillögu sem hefði tryggt að innlend úrræði yrðu nýtt áður en gripið væri til meðferðar erlendis, en sú tillaga var felld með stuðningi Viðreisnar.

Skref aftur á bak í heilbrigðisþjónustu

Ingibjörg líkti núverandi stefnu við aðdraganda langra biðlista fyrri ára, þar sem vinstri stjórnir hafi dregið úr möguleikum á fjölbreyttum rekstrarformum í heilbrigðiskerfinu. Hún sagði þetta vera „skref aftur á bak“ sem muni leiða til lakari nýtingar á sérþekkingu innanlands og hægari þjónustu við sjúklinga.

Sérstaklega gagnrýndi hún Viðreisn, sem hún sagði hafa barist fyrir fjölbreyttari heilbrigðisþjónustu árum saman, en nú styðji stefnu sem þrengi að einkarekstri.

Minnir á árangur fyrri samstarfs

Þingmaðurinn minnti jafnframt á árangur sem náðist í tíð Willums Þórs Þórssonar sem heilbrigðisráðherra, þegar samstarf við einkaaðila hafi skilað styttri biðlistum og hraðari afgreiðslu flókinna aðgerða. „Sjúklingar fengu betri þjónustu án biðar,“ sagði Ingibjörg og bætti við að það væri „með öllu óskiljanlegt“ að núverandi ríkisstjórn lokaði vísvitandi á slíkar lausnir.

Að lokum hvatti hún til þess að öll úrræði yrðu nýtt – bæði opinber og einkarekin – í þágu þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. „Heilbrigðisþjónusta á að byggja á raunhæfum lausnum, ekki pólitískri þrákelkni,“ sagði hún að lokum.

Categories
Fréttir Greinar

Skref aftur á bak fyrir konur með endómetríósu

Deila grein

12/06/2025

Skref aftur á bak fyrir konur með endómetríósu

Fyrir margar konur sem lifa með endómetríósu hefur lífið snúist um langvarandi verki, bið og baráttu fyrir því að fá hlustun og viðeigandi meðferð. Í gegnum árin hefur Endófélagið unnið ómetanlegt starf við að vekja athygli á þessum ósýnilega sjúkdómi og skapa umræðu sem snýst um skilning, stuðning og virðingu. Það hefur skipt sköpum fyrir fjölmargar konur sem áður voru ósýnilegar í heilbrigðiskerfinu.

Framsókn hefur lengi lagt áherslu á málefni kvenna með endómetríósu og unnið að bættri þjónustu. Eygló Harðardóttir vann ötullega að því að varpa ljósi á þennan sjúkdóm á meðan hún gegndi þingmennsku. Henni tókst, ásamt öðru baráttufólki, að koma umræðunni af stað á stjórnmálavettvangi og leggja grunn að þeirri vitundarvakningu sem hefur átt sér stað á undanförnum árum.

Með áherslum nýs heilbrigðisráðherra hefur skapast óvissa um hvernig sinna eigi þeim konum sem bíða eftir nauðsynlegum aðgerðum vegna endómetríósu. Þess vegna er brýnt að þessari óvissu verði eytt og að stór hópur kvenna þurfi ekki að bera fjárhagslega byrði til að endurheimta lífsgæði sín. Framsókn hefur einmitt lagt áherslu á að heilbrigðiskerfið eigi að snúast um einstaklinginn, ekki kerfið. Það þarf að nálgast þessi mál af yfirvegun, með skilningi og samráði, rétt eins og Willum Þór gerði þegar hann gegndi embætti heilbrigðisráðherra. Við skuldum konunum með endómetríósu skýr svör, raunhæfar lausnir og heilbrigðiskerfi sem setur lífsgæði þeirra í forgang.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. júní 2025.