Categories
Fréttir

Á vaktinni í sjötíu ár – nú er það úttekt á tryggingamarkaðnum á Íslandi

Deila grein

23/03/2023

Á vaktinni í sjötíu ár – nú er það úttekt á tryggingamarkaðnum á Íslandi

Sjötíu ára afmæli Neytendasamtanna er fagnað í dag – Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, mætti færandi hendi á skrifstofur Neytendasamtakanna með afmælistertu.

„Neytendasamtökin hafa staðið vaktina í 70 ár en starf samtakanna skipta neytendur svo sannarlega máli. Það er sérstaklega mikilvægt að huga vel að neytendamálum á tímum hárrar verðbólgu,“ sagði Lilja Dögg að tilefni tímamótanna.

„Í slíku ástandi vex þörfin á öflugu neytendaeftirliti, enn þurfa allir að vera á tánum gagnvart verðlagningu á vörum og þjónustu. Slíkt skiptir máli fyrir lífskjörin í okkar góða landi. Ég óska Neytendasamtökunum til hamingju með þennan merkisáfanga og hlakka til áframhaldandi samstarfs við þau,“ sagði Lilja Dögg.

Lilja Dögg færði samtökunum fimm og hálfa milljón króna frá ríkisstjórninni og ráðuneyti sínu. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR stéttarfélags, var einnig með í för og færði samtökunum fjórar milljónir frá VR.

Lilja Dögg segir í viðhorfsgrein í Fréttablaðinu í dag að umbætur í neytendavernd verði „ekki náð nema með náinni og góðri samvinnu stjórnvalda og Neytendasamtakanna“.

„Ég hef þá bjargföstu trú að árangur náist þegar við öll leggjumst saman á árarnar og róum í sömu átt. Það er til að mynda mikilvægt að neytendur séu á tánum gagnvart verðlagningu á vöru og þjónustu og fyrirtæki hækki ekki verð umfram það sem eðlilegt getur talist. Slíkt skiptir máli fyrir lífskjörin í okkar góða landi.

Það er mín von að Neytendasamtökin haldi áfram að vera það frumkvæðisafl í neytendamálum sem samtökin hafa verið og haldi atvinnurekendum og stjórnvöldum við efnið til langrar framtíðar.“

Fram koma við þessi ánægjulegu tímamót að fjármunirnir séu eyrnamerktir úttektar, sem Neytendasamtökin hafa lengi reynt að hrinda í framkvæmd, á tryggingamarkaðnum á Íslandi, greiningu á því hvers vegna tryggingariðgjöld eru svo miklu hærri hér á landi en í nágrannalöndum okkar.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sagði ánægjulegt að finna stuðningi bæði í orði og á borði. Úttektin væri nærri því að vera fullfjármagnaða og telur Breki að vonir standi til að önnur launþegasamtök muni koma með fjárstuðning fyrir því sem upp á vantar, en áætlað er að úttektin muni kosta um 12 milljónir króna.

„Við erum hins vegar komin svo nálægt fullri fjármögnun að nú getum við farið að leita tilboða í framkvæmd úttektarinnar,“ sagði Breki við tímamótin.

„Það er ánægjulegt á þessum merkisdegi íslenskra neytenda að finna fyrir þessum ríka stuðningi við neytendur frá bæði launþegahreyfingunni og yfirvöldum, ekki aðeins í orði heldur líka á borði.“

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum að veita Neytendasamtökunum þriggja milljóna króna styrk af ráðstöfunarfé sínu í tilefni af 70 ára afmæli samtakanna sem fagnað er í dag.

Markmið styrksins er að styðja við mikilvæg verkefni sem framundan eru hjá Neytendasamtökunum og má þar nefna úttekt þeirra á tryggingamarkaði á Íslandi og réttindum neytenda þegar kemur að tryggingamálum.

Síðastliðið haust voru framlög til Neytendasamtakanna einnig hækkuð í uppfærðum þjónustusamningi menningar- og viðskiptaráðuneytisins við samtökin. Er hækkunin í samræmi við áherslu í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um styrkingu samtaka neytenda.

Ágúst Bjarni Garðsson, alþingismaður, tekur undir og fagnar að baráttumál hans hafi verði tekið fastari tökum.

„Ég hef nú talað fyrir því í töluverðan tíma að ráðast í úttekt á tryggingamarkaðnum hér á landi og fá raunverulegan samanburð við þau lönd sem við berum okkur gjarnan saman við,“ segir Ágúst Bjarni.

Leggjum allt undir í þeirri úttekt sem er framundan

„Við Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, áttum svo fund um nákvæmlega þessi mál og önnur fyrir skemmstu og að þessu hefur verið unnið síðan. Frábært að sjá þetta baráttumál mitt raungerast og á Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra, miklar þakkir skildar fyrir að tryggja verkefninu fjármagn í samvinnu við m.a. VR. Ég hlakka til að fylgjast með þessari vinnu og fylgja eftir afurð hennar,“ sagði Ágúst Bjarni.

Categories
Fréttir Greinar

Á vaktinni í sjötíu ár

Deila grein

23/03/2023

Á vaktinni í sjötíu ár

Í 70 ár hafa Neytendasamtökin unnið einarðlega í þágu neytenda á Íslandi. Fjölmargt hefur breyst á þessum tíma og hafa Neytendasamtökin gegnt mikilvægu hlutverki sem áhrifaafl í þágu bættrar neytendaverndar. Ég vil nýta þetta tækifæri og óska Neytendasamtökunum innilega til hamingju með stórafmælið sem haldið er sérstaklega upp á í dag.

Samstaða er mikilvæg

Það er brýnt að við stöndum saman vaktina í neytendamálum, ekki síst í ljósi þeirrar verðbólguþróunar sem hefur átt sér stað á undanförnum misserum. Neytendamál eru sígilt viðfangsefni og alltaf er rými til að gera betur. Á kjörtímabilinu gerum við ráð fyrir metnaðarfullum umbótum á sviði neytendaverndar. Í menningar- og viðskiptaráðuneytinu stendur nú yfir vinna við heildarendurskoðun á stofnanaumgjörð og nokkrum af mikilvægustu lagabálkum á sviði neytendaverndar ásamt vinnu við stefnumótun í neytendamálum. Liður í því er að styðja betur við starf Neytendasamtakanna en með nýjum samningi voru framlög til þeirra aukin. Ég tel mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram á þeirri braut með hagsmuni neytenda að leiðarljósi.

Samvinna er mikilvæg

Markmiðum um umbætur í neytendavernd verður ekki náð nema með náinni og góðri samvinnu stjórnvalda og Neytendasamtakanna. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir þjóðfélagið að halda verðbólgu í skefjum og það verkefni þarf að nálgast úr ýmsum áttum. Ég hef þá bjargföstu trú að árangur náist þegar við öll leggjumst saman á árarnar og róum í sömu átt. Það er til að mynda mikilvægt að neytendur séu á tánum gagnvart verðlagningu á vöru og þjónustu og fyrirtæki hækki ekki verð umfram það sem eðlilegt getur talist. Slíkt skiptir máli fyrir lífskjörin í okkar góða landi.

Það er mín von að Neytendasamtökin haldi áfram að vera það frumkvæðisafl í neytendamálum sem samtökin hafa verið og haldi atvinnurekendum og stjórnvöldum við efnið til langrar framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. mars 2023.

Categories
Fréttir

„Fiskeldi er sjálfbær matvælaframleiðslulausn til framtíðar“

Deila grein

23/03/2023

„Fiskeldi er sjálfbær matvælaframleiðslulausn til framtíðar“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, fór í störfum þingsins yfir þjóðfélagsumræðuna gagnvart sjókvíaeldi. Umræðan hefur farið hátt eftir að Ríkisendurskoðandi birti nýverið skýrslu sína um stjórnsýsluúttekt á greininni. Boston Consulting Group kom einnig fram með skýrsla þars sem metin voru framtíðartækifæri og áskoranir í íslensku lagareldi og greina tækifæri til sjálfbærrar verðmætasköpunar.

Fjölmargar jákvæðar hliðar lagareldis – engin ástæða til skautunar í umræðunni um laxeldi

„Staðreyndin er að sjókvíaeldi er ekki jafn slæmt og það er málað upp í fjölmiðlum. Fiskeldi er sjálfbær matvælaframleiðslulausn til framtíðar. Ef við tölum um próteinframleiðslu er kolefnisfótspor fiskeldis, þar með talið sjókvíaeldis, minna en próteinframleiðsla annarra dýraafurða á landi. Hér á landi eru góð skilyrði fyrir fiskeldi, þ.e. sjálfbær orka, góð vatnaskipti í fjörðum og mikil og góð þekking á lífríki sjávar. Allt þetta er mikilvægt til að fiskeldi vegni vel. Fiskeldið er komið af stað og við höfum alla möguleika á að sjá það dafna í sátt við umhverfi og samfélag,“ sagði Halla Signý.

Ísland getur skapað sér samkeppnisforskot í lagareldi með skýrum ramma utan um eldið segir í skýrslu Boston Consulting Group. Eins verði að sinna eftirliti og rannsóknum í nærumhverfinu og styrkja þarf getu sveitarfélaganna til að fjárfesta í innviðum með endurskoðun á skiptingu skatta og gjalda á milli ríkis og sveitarfélaga.

„Þessi atriði hef ég bent á hér áður og lagt til tillögur þess efnis. Okkar verkefni er að laga þau atriði sem bent hefur verið á í þessum skýrslum, greininni til heilla,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Undanfarnar vikur hefur sjókvíaeldi verið mikið í umræðunni eftir að ríkisendurskoðandi birti skýrslu sem innihélt stjórnsýsluúttekt á sjókvíaeldi. Þá kom einnig út önnur skýrsla á dögunum, skýrsla sem unnin var af Boston Consulting Group og var ætlað að meta framtíðartækifæri og áskoranir í íslensku lagareldi og greina tækifæri til sjálfbærrar verðmætasköpunar. Skýrslan tekur undir málflutning þeirra sem horfa á fiskeldi sem lykilstoð í uppbyggingu sterkrar landsbyggðar og sem vaxandi stoð í hagkerfi landsins. Í þeirri skýrslu er einnig komið inn á jákvæðar hliðar lagareldis. Því miður er ákveðin skautun í umræðunni hér á landi um laxeldi. Staðreyndin er að sjókvíaeldi er ekki jafn slæmt og það er málað upp í fjölmiðlum. Fiskeldi er sjálfbær matvælaframleiðslulausn til framtíðar. Ef við tölum um próteinframleiðslu er kolefnisfótspor fiskeldis, þar með talið sjókvíaeldis, minna en próteinframleiðsla annarra dýraafurða á landi. Hér á landi eru góð skilyrði fyrir fiskeldi, þ.e. sjálfbær orka, góð vatnaskipti í fjörðum og mikil og góð þekking á lífríki sjávar. Allt þetta er mikilvægt til að fiskeldi vegni vel. Fiskeldið er komið af stað og við höfum alla möguleika á að sjá það dafna í sátt við umhverfi og samfélag.

Í skýrslu BCG kemur fram að Ísland geti skapað sér samkeppnisforskot í lagareldi, en til þess þarf sterkan ramma utan um eldið. Bæði fiskeldi og sveitarfélög sem koma að eldinu hafa ítrekað kallað eftir að eftirliti og rannsóknum sé sinnt í nærumhverfi þess. Þá tekur BCG undir ákall sveitarfélaganna um að endurskoða þurfi skiptingu skatta og gjalda á milli ríkis og sveitarfélaga til að auka getu sveitarfélaga til að fjárfesta í innviðum. Þessi atriði hef ég bent á hér áður og lagt til tillögur þess efnis. Okkar verkefni er að laga þau atriði sem bent hefur verið á í þessum skýrslum, greininni til heilla.“

Categories
Fréttir

„Landfræðilegur munur á viðhorfi og framboði til fjarnáms á háskólastigi“

Deila grein

23/03/2023

„Landfræðilegur munur á viðhorfi og framboði til fjarnáms á háskólastigi“

„Niðurstöðurnar eru skýrar – það er landfræðilegur munur á viðhorfi og framboði til fjarnáms á háskólastigi,“ sagði Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins, um svar háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn hennar um fjölda nemenda í háskólum á Íslandi og um framboð á fjarnámi.

„Ef við horfum á hvern háskóla fyrir sig verð ég að byrja á því að hrósa Háskólanum á Bifröst og Háskólanum á Akureyri fyrir að bjóða upp á alla sína áfanga í fjarnámi. Einnig eru um 70% nemenda í Landbúnaðarháskólanum skráð í fjarnám og í Háskólanum á Hólum er hægt að stunda fjarnám í öllum bóklegum áföngum,“ sagði Lilja Rannveig.

„Þetta er vel hægt – þetta er spurning um viðhorf“

„Í skólunum á höfuðborgarsvæðinu, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Listaháskóla Íslands, eru rúmlega 80% allra áfanga á háskólastigi sem í boði eru á landinu. Af þeim áföngum er einungis hægt að taka 11% í fjarnámi,“ sagði Lilja Rannveig.

„Viðhorfsbreytinga er þörf“

„Við viljum hafa búsetu hringinn í kringum landið og við eigum ekki að þurfa að neyða fólk til að flytjast búferlaflutningum til þess eins að stunda nám nema það sé nauðsynlegt fyrir námsframvindu, eins oft í verklegum fögum. Þess má geta að þetta er líka stórt lýðheilsumál. Rannsóknir sýna að skert aðgengi að menntun getur leitt til verri heilsu. Aukið aðgengi að menntun er eitt af verkfærum okkar til að auka jöfnuð í landinu og fjarnám er ein besta leiðin til þess,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:

„Hæstv. forseti. Í vikunni fékk ég svar frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn minni um fjölda nemenda í háskólum á Íslandi og um framboð á fjarnámi. Niðurstöðurnar eru skýrar; það er landfræðilegur munur á viðhorfi og framboði til fjarnáms á háskólastigi. Ef við horfum á hvern háskóla fyrir sig verð ég að byrja á því að hrósa Háskólanum á Bifröst og Háskólanum á Akureyri fyrir að bjóða upp á alla sína áfanga í fjarnámi. Einnig eru um 70% nemenda í Landbúnaðarháskólanum skráð í fjarnám og í Háskólanum á Hólum er hægt að stunda fjarnám í öllum bóklegum áföngum. Þetta er vel hægt. Þetta er bara spurning um viðhorf. Í skólunum á höfuðborgarsvæðinu, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Listaháskóla Íslands, eru rúmlega 80% allra áfanga á háskólastigi sem í boði eru á landinu. Af þeim áföngum er einungis hægt að taka 11% í fjarnámi. Viðhorfsbreytinga er þörf. Við viljum hafa búsetu hringinn í kringum landið og við eigum ekki að þurfa að neyða fólk til að flytjast búferlaflutningum til þess eins að stunda nám nema það sé nauðsynlegt fyrir námsframvindu, eins oft í verklegum fögum. Þess má geta að þetta er líka stórt lýðheilsumál. Rannsóknir sýna að skert aðgengi að menntun getur leitt til verri heilsu. Aukið aðgengi að menntun er eitt af verkfærum okkar til að auka jöfnuð í landinu og fjarnám er ein besta leiðin til þess.“

Categories
Fréttir

Breytingar á losunarheimildunum í flugi – harkalegar fyrir Ísland

Deila grein

23/03/2023

Breytingar á losunarheimildunum í flugi – harkalegar fyrir Ísland

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar og formaður þingmannanefndar EFTA og EES, sótti fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES í Strassborg á dögunum. Þingmannanefndin hefur það hlutverk að fylgjast með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins og um áskoranir í starfi sínu.

Á fundinum lagði Ingibjörg sérstaka áherslu á áhyggjur Íslendinga af einni grundvallaráskorun sem varðar viðskiptakerfi með losunarheimildir í flugi. Sagði hún Ísland ætla að sjálfsögðu að taka fullan þátt í Parísarloftslagsmarkmiðunum og að Ísland hafi sett metnaðarfull markmið um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 og styðji markmið „Fit for 55 pakkans“. En að Íslendingar hafi verulegar áhyggjur af því hversu harðar fyrirhugaðar breytingar á beitingu ETS-kerfisins yrðu fyrir flugið í landinu.

Endurskoðun ETS-kerfisins mun leiða til alvarlegrar röskunar á jöfnum samkeppnisskilyrða flugfélaga sem nota Ísland til millilendinga á milli Evrópu og Norður-Ameríku. Tilgangur endurskoðunarinnar er skiljanlegur, enda ætlað að flýta fyrir grænum umskiptum í fluggeiranum og ýta neytendum yfir í aðra umhverfisvænni ferðamáta fyrir skemmri leiðir innan ESB.

„Við Íslendingar erum hins vegar ekki með lestarsamgöngur eða aðra sambærilega ferðamáta og landið því háð flugferðum til og frá Evrópu þar sem það er eina raunhæfa leiðin til að ferðast til og frá landinu,“ sagði Ingibjörg,

„Við munum því ekki styðja að fella viðeigandi reglugerð inn í EES-samninginn án aðlögunar, vegna okkar landfræðilegu aðstæðna. Ég vil leggja áherslu á að á meðan Ísland styður fullkomlega markmið „Græna samningsins“ munu áhrifin bitna harðar á Íslandi en öðrum þar til raunhæfar grænar lausnir verða að veruleika. Ísland mun þurfa aðlögun þar til það gerist,“ sagði Ingibjörg.

Stríðið í Úkraínu

Að lokinni umfjöllun um EES málin var stríðið í Úkraínu næst til umræðu líkt og hefur verið í brennidepli í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á síðasta ári.

„Fyrir rúmu ári hefði það verið óhugsandi fyrir flest okkar að við værum hér í dag og ræddum áframhaldandi stríð í Úkraínu. Ár er liðið frá því að Rússar hófu mestu átök á meginlandi Evrópu frá síðari heimsstyrjöldinni. Á þessum tíma hafa íbúar Úkraínu sýnt aðdáunarvert hugrekki og seiglu í baráttunni fyrir sameiginlegum gildum okkar á sama tíma og þola daglegar skelfingar stríðsins,“ sagði Ingibjörg og hélt áfram, „það er aðeins Rússland sem getur og verður að stöðva stríðið. Og það er skylda okkar að styðja Úkraínu, eins lengi og það tekur,“ sagði Ingibjörg.

Ísland hefur tekið á móti yfir tvö þúsund og fimm hundruð úkraínskum flóttamönnum frá stríðsbyrjun, sem er töluvert miðað við íbúafjölda 375.000. Á síðasta ári var fjárhagslegur stuðningur Íslands við Úkraínu áætlaður um 2,2 milljarðar króna (u.þ.b. 14,5 milljónir evra). Áætlað er að fjárstuðningur í ár fari umfram það.

Orkumál í Evrópu

Að lokinni umfjöllun um Úkraínu voru orkumál í Evrópu á dagskrá fundarins, þau munu enda verða ítrekað til umfjöllunar á vettvangi þingmannanefnda EFTA og EES líkt og á síðasta ári. Stríðið í Úkraínu hefur haft gríðarlega mikil áhrif á orkuframboð, orkuverð og orkuöryggi í Evrópu.

„Það er mikilvægt að styðja  við skapandi lausnir nýsköpunariðnaðarins til að draga úr losun. Frábært dæmi er Carbfix verkefnið sem er langvarandi umhverfislausn sem fjarlægir koltvísýring (CO2) úr loftinu og breytir því í stein á innan við tveimur árum. Á síðasta ári fékk Carbfix um 110 milljónir evra styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópu til að reisa koltvísýringsgeymslustöð á Íslandi, þá fyrstu sinnar tegundar í heiminum. Áætlað er að starfsemin hefjist um mitt ár 2026 og fullum afköstum verður náð árið 2031, þegar allt að 3 milljónir tonna af CO2 verða geymd árlega með því að jarðefna það varanlega neðanjarðar,“ sagði Ingibjörg.

„Carbfix verkefnið er fullkomið dæmi um hvernig EES-samningurinn gagnast bæði EES-EFTA aðildarríkjunum og ESB. Ég vil að lokum ítreka skuldbindingu Íslands til að vinna við hlið ESB til að tryggja sjálfbæra og örugga orkuframtíð,“ sagði Ingibjörg.

Categories
Fréttir

„Þegar tæknin skilur íslensku“

Deila grein

22/03/2023

„Þegar tæknin skilur íslensku“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins mikilvægi þess að íslenskan sé fyrst alla tungumála fyrir utan ensku, í þróunarfasa fyrir nýjustu útgáfu gervigreindarmállíkansins GPT-4.

„Samstarf Íslendinga við fyrirtækið OpenAI hefur nú komið því til leiðar að verið er að fínþjálfa stærsta gervigreindarnet heims til að skilja og miðla upplýsingum á íslensku. Það er stórfrétt fyrir okkur öll sem notum íslenska tungu,“ sagði Líneik Anna.

„Það er víða horft til þessarar vinnu frá öðrum sem tala fámennistungumál, m.a. frá fámennum þjóðum frumbyggja á norðurslóðum. Þessi árangur byggist á margra ára samvinnu fólks sem vinnur við tækni, vísindi, stjórnsýslu og stjórnmál, “ sagði Líneik Anna.

„Árangurinn byggir ekki síst á framsýni þessa fólks sem hefur unnið með það sem við höfum kallað tungutækni og seinna máltækni í hátt í aldarfjórðung. Vegna þessarar vinnu komum við Íslendingar með heilmikið að borði erlendra tæknifyrirtækja. Íslendingar hafa með öðrum orðum fjárfest í mikilvægum innviðum á sviði máltækni gegnum fyrstu máltækniáætlun stjórnvalda sem formlega var farið af stað með árið 2019, og nú er komið að því að móta næsta kafla hennar. Gervigreindin hefur vaxandi áhrif á daglegt líf okkar allra, svo sem í gegnum ryksuguvélmenni, yfirlestur á texta, ritgerðarskrif, val á tónlist eða upplýsingar um veðrið. Þegar tæknin skilur íslensku styður hún við daglega notkun tungumálsins og í því felast mörg sóknarfæri. Tungumálið íslenska geymir upplýsingar um menningu, náttúru landsins og þjóð og á henni byggjast mörg tækifæri framtíðar. Þess vegna þarf framtíðin að tala íslensku,“ sagði Líneik Anna að lokum.

***

Ræða Líneikar Önnur í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég má til með að ræða hér um mikilvægi þess að íslenska hafi verið valin í þróunarfasa fyrir nýjustu útgáfu gervigreindarmállíkansins GPT-4, fyrst allra tungumála fyrir utan ensku. Samstarf Íslendinga við fyrirtækið OpenAI hefur nú komið því til leiðar að verið er að fínþjálfa stærsta gervigreindarnet heims til að skilja og miðla upplýsingum á íslensku. Það er stórfrétt fyrir okkur öll sem notum íslenska tungu.

Það eru margir sem velta því fyrir sér hvort samstarfið geti síðar orðið fyrirmynd fyrir önnur tungumál og alþjóðlega er íslenska því ákveðinn brautryðjandi. Það er víða horft til þessarar vinnu frá öðrum sem tala fámennistungumál, m.a. frá fámennum þjóðum frumbyggja á norðurslóðum. Þessi árangur byggist á margra ára samvinnu fólks sem vinnur við tækni, vísindi, stjórnsýslu og stjórnmál.

Árangurinn byggir ekki síst á framsýni þessa fólks sem hefur unnið með það sem við höfum kallað tungutækni og seinna máltækni í hátt í aldarfjórðung. Vegna þessarar vinnu komum við Íslendingar með heilmikið að borði erlendra tæknifyrirtækja. Íslendingar hafa með öðrum orðum fjárfest í mikilvægum innviðum á sviði máltækni gegnum fyrstu máltækniáætlun stjórnvalda sem formlega var farið af stað með árið 2019, og nú er komið að því að móta næsta kafla hennar. Gervigreindin hefur vaxandi áhrif á daglegt líf okkar allra, svo sem í gegnum ryksuguvélmenni, yfirlestur á texta, ritgerðarskrif, val á tónlist eða upplýsingar um veðrið. Þegar tæknin skilur íslensku styður hún við daglega notkun tungumálsins og í því felast mörg sóknarfæri. (Forseti hringir.) Tungumálið íslenska geymir upplýsingar um menningu, náttúru landsins og þjóð og á henni byggjast mörg tækifæri framtíðar. Þess vegna þarf framtíðin að tala íslensku.“

Categories
Greinar

Mælt fyrir þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa

Deila grein

22/03/2023

Mælt fyrir þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa

Mannlegur fjölbreytileiki kemur fram með ýmsum hætti og umræðan um ólík taugakerfi er að verða mun opnari og auðveldari en áður var. Einhverfa er hluti af mannlegum fjölbreytileika og einstaklingar á einhverfurófi glíma oftar en ekki við miklar áskoranir í kerfinu. Við heyrum sögur frá einhverfu fólki og aðstandendum þeirra að kerfið sé oft flókið og erfitt sé að vita hvar rétta aðstoð sé að fá. Slíkt er ekki ásættanlegt og við þurfum að leita leiða sem snúið geta þessari þróun við og hjálpað okkur að bæta ferlið til að tryggja að fólk fái þá aðstoð sem það þarf og getur bætt lífsgæði og aðstæður þess.

Baráttumál Einhverfusamtakanna

Í byrjun mars mælti ég fyrir tillögu minni til þingsályktunar um að komið verði á fót þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa. En rétt er að taka fram að stofnun slíkrar miðstöðvar hefur verið eitt helsta baráttumál Einhverfusamtakanna um árabil. Þar yrði öll sú þjónusta og þekking sem til staðar er um einhverfu dregin saman á einn stað og börn jafnt sem fullorðnir geti fengið þjónustu með þeirra þarfir þeirra að leiðarljósi. Það er mikilvægt að þegar einstaklingur fær greiningu á einhverfurófi að bæði einstaklingurinn og fjölskyldan fái fræðslu um greiningu og aðferðir sem gætu hentað. Samvinna milli heimilis og skóla er einnig sérstaklega mikilvæg. Verkefni miðstöðvarinnar yrði að veita þjónustu á sviði ráðgjafar, hæfingar og endurhæfingar auk þess að afla og miðla þekkingu á aðstæðum einhverfra einstaklinga í því skyni að bæta þjónustu og stuðla að framförum. Yfirsýn yfir aðstæður þeirra sem eru einhverfir yrði einnig á höndum miðstöðvarinnar ásamt því að gegna samhæfingarhlutverki gagnvart öðrum sem veita umræddum notendum þjónustu. Auk framangreinds yrði fræðsla, ráðgjöf og stuðningur við aðstandendur, skóla og aðrar þjónustustofnanir einnig á herðum þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar.

Ávinningur með stofnun miðstöðvarinnar

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa þekkist víða erlendis og er ótvíræð nauðsyn fyrir stofnun hennar hérlendis. Miðstöðin mun styðja við það mikilvæga starf sem þegar er unnið hér á landi, þvert á kerfi og stofnanir. Ávinningurinn af stofnun hennar yrði að einhverfir, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna og aðstandendur þeirra, sem og skólar og vinnustaðir geti sótt upplýsingar um alla þá aðstoð sem stendur þeim til boða ásamt því að fá leiðbeiningar og fræðslu. Almenn fræðsla til að auka skilning og bæta viðmót samfélagsins er nauðsynleg. Þegar unnið er eftir samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og öðrum mannréttindasáttmálum er nauðsynlegt að einstaklingar með einhverfugreiningu séu hafðir með í ráðum. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa getur verið liður í þeirri vinnu. Slík miðstöð verður nefnilega ekki reist, án aðkomu einhverfra sjálfra, enda er henni ætlað að verða staður fyrir rödd og reynslu einhverfra.

Ágúst Bjarni Garðsson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. mars 2023.

Categories
Greinar

Víst eru börnin leiðar­ljósið

Deila grein

21/03/2023

Víst eru börnin leiðar­ljósið

Í síðustu viku varð frumvarp dómsmálaráðherra um útlendinga að lögum. Frumvarpið hefur hlotið mikla umfjöllun bæði á þingi og í samfélaginu. Um frumvarpið hafa ýmsar rangfærslur komið fram en fyrst og fremst hefur frumvarpið sætt töluverðum misskilningi, þ.e. um hvað þessum breytingum er ætlað að gera og hvað þær fela í sér. Það er mikilvægt að við getum tekið upplýsta umræðu byggða á rökum um það hvernig við ætlum að standa að þjónustu við íbúa og að það sé hægt að breyta lögum til hins betra fyrir samfélagið allt. Hér er einmitt um slíkar breytingar að ræða. Verið er að stíga skref með það að markmiði að ná betur utan um málaflokkinn og standa betur að þjónustu við þá sem til dæmis hingað leita eftir vernd. Samkvæmt lögunum er stjórnvöldum skylt að líta til hagsmuna hvers barns fyrir sig.

Hagsmunir barnsins að leiðarljósi

Í frumvarpinu eru skyldur lagðar á herðar mennta- og barnamálaráðuneytisins varðandi smíði og utanumhald á sérstöku hagsmunamati. Þar er verið að skerpa á lögunum hvað varðar að í hvert sinn sem unnið er með málefni barna í þessu kerfi þurfi að gera sérstakt hagsmunamat og unnin skuli reglugerð um það í samvinnu dómsmálaráðuneytis og þess ráðherra sem fer með barnaverndarmál hverju sinni. Þegar við vinnum með málefni barna, alveg sama hvort það eru börn sem eru komin hingað á flótta með fjölskyldum sínum eða fylgdarlaus börn, þarf að vinna ákveðið hagsmunamat og það þarf að skerpa á því hvernig það er unnið og leiðin til þess er að meta hverju sinni málefni hvers barns fyrir sig.

Mat á hagsmunum hvers barns fyrir sig

Þegar unnið er með stöðu þessara barna má ekki hugsa um fjölskylduna sem eina heild. Meta þarf hagsmuni hvers einstaklings fyrir sig. Sem dæmi má taka systkinahóp, en, þá sé ekki verið að hugsa um öll systkini saman heldur hvern og einn einstakling, hagsmunir hans séu vegnir og metnir. Það kemur fram í lögunum að reglugerð um hagsmunamat verði unnin í samvinnu dómsmálaráðuneytis og mennta- og barnamálaráðuneytis og ég fagna þeirri breytingu á lögunum vegna þess að hún setur auknar skyldur á okkur sem samfélag að gera akkúrat það sem aðilar hafa kallað eftir, það er að setja hagsmuni barna í fyrsta sæti. Það verður gert með þessari reglugerð og við erum þegar byrjuð á undirbúningssamtali við dómsmálaráðuneytið um það. Sú reglugerð verður að vera vönduð og ítarlega unnin. Ég hef trú á því að sú reglugerð muni mæta þeirri gagnrýni sem margir hafa viðrað. Hér er verið að stíga það skref að lögfesta skyldu dómsmálaráðuneytis og þess ráðuneytis sem fer með málefni barna hverju sinni að semja slíkt hagsmunamat.

Framsókn hefur það að leiðarljósi í allri sinni vinnu að hagsmunir barna séu settir í fyrsta sæti og ég treysti engum betur en hæstvirtum mennta- og barnamálaráðherra í þessa vinnu. Það þarf að vera mikill sómi af því hvernig við gætum að réttindum barna á flótta og allra barna svo það sé sagt.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. mars 2023.

Categories
Greinar

Alþjóðlegir fjármálamarkaðir vestanhafs titra

Deila grein

18/03/2023

Alþjóðlegir fjármálamarkaðir vestanhafs titra

Því hef­ur stund­um verið fleygt að vika sé lang­ur tími í póli­tík, en það á ekki síður við á fjár­mála­markaði. Í byrj­un síðustu viku grunaði fáa að mikl­ar uppá­kom­ur væru í vænd­um í banda­ríska banka­kerf­inu vegna falls Silicon Valley Bank (SV-bank­inn), sem reynd­ust af þeirri stærðargráðu að ljós voru log­andi alla síðustu helgi í banda­ríska seðlabank­an­um og fjár­málaráðuneyt­inu. Banda­ríkja­for­seti birt­ist síðan nokkuð óvænt á mánu­dag­inn á sjón­varps­skján­um til að til­kynna neyðaraðgerðir sem voru af þeirri gerð að þeim svipaði til þeirra aðgerða sem hér var gripið til á ár­inu 2008. Banka­kerfið hér var svipað að stærð og SV-bank­inn, en hér varð kerf­is­áfall. Í Banda­ríkj­un­um var hins veg­ar ein­ung­is um að ræða sextánda stærsta banka Banda­ríkj­anna, en þó var hér á ferðinni þriðja stærsta banka­gjaldþrot banda­rískr­ar sögu og stærsta banka­áfallið frá 2008. Það að for­set­inn var dreg­inn fram til að róa markaði benti til þess að sér­fræðing­ar höfðu veru­leg­ar áhyggj­ur af ástand­inu og lík­legt að hér væri á ferðinni viðleitni til að koma í veg fyr­ir að krísa næði að breiða úr sér.

Hvað gerðist hjá bank­an­um?

Verðbólg­an í Banda­ríkj­un­um hef­ur verið þrálát­ari en pen­inga­yf­ir­völd gerðu ráð fyr­ir og mæld­ist ný­lega 6%. Spenn­an á vinnu­markaði hef­ur verið mik­il og víða skort­ur á vinnu­afli eft­ir Covid-19. Or­sök falls SV-bank­ans má að ein­hverju leyti rekja til mik­illa hækk­ana á stýri­vöxt­um banda­ríska seðlabank­ans. Í byrj­un árs benti margt til þess að tök­um hefði verið náð í glím­unni við verðbólg­una. Töl­ur um verðbólgu í Banda­ríkj­un­um sem birt­ust fyr­ir um mánuði gáfu hins veg­ar til kynna að enn væri verk að vinna og við það breytt­ust vænt­ing­ar sem leiddi til verðfalls á markaði. Eins og venj­an er þegar slíkt ger­ist fóru markaðsaðilar að líta í kring­um sig að leita uppi veik­leika í kerf­inu. Þegar farið var að rýna í hvað lægi að baki því að SV-bank­inn birt­ist með óvænta fjár­mögn­un­arþörf kom í ljós að bank­inn reynd­ist afar ber­skjaldaður fyr­ir vaxta­áhættu. SV-bank­inn var þar með kom­inn í gin ljóns­ins og um miðja síðustu viku fór að breiðast út orðróm­ur á sam­fé­lags­miðlum um lausa­fjár­vand­ræði bank­ans eft­ir bruna­sölu á rík­is­bréf­um. SV-bank­inn hafði vaxið afar hratt á síðustu árum en hann er með höfuðstöðvar í Kís­ildaln­um og voru helstu viðskipta­menn hans sterk­efnaðir ein­stak­ling­ar úr tækni­geir­an­um og marg­ir þeirra með veru­leg­ar inn­stæður. Þegar orðróm­ur fór að breiðast úr á sam­skiptamiðlum um vand­ræði bank­ans varð hann fyr­ir gam­aldags banka­áhlaupi þar sem viðskipta­vin­ir hans tóku út inn­stæður fyr­ir á fimmta tug millj­arða. Áhlaupið var það öfl­ugt að stjórn­völd þurftu að bregðast skjótt við og taka yfir bank­ann.

Viðbrögð stjórn­valda í Banda­ríkj­un­um

Um síðustu helgi var mik­ill handa­gang­ur í öskj­unni inn­an stjórn­ar­ráðs Banda­ríkj­anna. Það var greini­legt að yf­ir­völd voru ekki ró­leg yfir ástand­inu enda þurfti að taka til­lit til margra þátta. Á sama tíma mátu menn það svo að ekki kæmi til greina að bjarga bank­an­um. Það var þó einnig of­ar­lega í huga manna að vand­ræði vegna vaxta­áhættu væri lík­lega víða að finna í banka­kerf­inu og þörf væri á stuðningsaðgerðum til að koma í veg fyr­ir frek­ari áhlaup. Um helg­ina var því ákveðið að Banda­ríkja­for­seti kæmi strax á mánu­dag­inn fram með fjög­urra liða áætl­un. Áætl­un­in fólst í því að ekk­ert þak yrði á tryggðum inn­stæðum. Bönk­un­um tveim­ur yrði ekki bjargað með skatt­fé, en trygg­ing­ar­sjóður inn­stæðna tæki að sér að tryggja all­ar inn­stæður. Stjórn­völd myndu kom­ast til botns í því sem gerðist og menn yrðu látn­ir sæta ábyrgð. Reglu­verki yrði breytt og banda­ríski seðlabank­inn myndi opna fyr­ir greiðari lausa­fjár­fyr­ir­greiðslu til að koma í veg fyr­ir bruna­út­söl­ur. Þessi ráð virðast hafa dugað til að róa markaðinn í bili þótt enn verði vart við titr­ing á mörkuðum og nú er horft til staðbund­inna banka. Með þess­ari aðgerð var lögð þung byrði á inn­stæðutrygg­ing­ar í Banda­ríkj­un­um. Leik­ur­inn að finna veik­asta hlekk­inn hófst hinum meg­in Atlantsála og fannst hann í formi Cred­it Suis­se, sem lengi hafði legið und­ir ámæli. Í Sviss voru sjón­ar­mið um freistni­vanda ekki að trufla menn í björg­un­araðgerðum í vik­unni og horfðu lík­lega til kerf­isáhættu.

Áhrif­in á pen­inga­stefn­una og á heimsvísu

Í seðlabönk­um er stund­um sagt að verðstöðug­leiki og fjár­mála­stöðug­leiki vegi salt. Þessi at­b­urðarás SV-bank­ans kann að þýða að það muni hægj­ast á vaxta­hækk­un­ar­ferl­inu, þar sem stjórn­völd vilja full­vissa sig um að það ógni ekki fjár­mála­stöðug­leika í land­inu. Þetta get­ur þýtt að ef ekki losn­ar um spennu á vinnu­markaði, þá verður verðbólga í Banda­ríkj­un­um lang­vinn­ari en ella og óvissa meiri. Áhrif­in á heims­hag­kerfið eru þau sömu enda hef­ur ávöxt­un­ar­krafa rík­is­skulda­bréfa lækkað hratt í kjöl­farið. Það er jafn­framt gjarn­an sagt að seðlabank­ar hækki vexti þar til eitt­hvað gef­ur eft­ir. Það má þegar sjá merki þess bæði á fjár­mála­mörkuðum og í raun­hag­kerf­inu, t.d. tækni­geir­an­um, að vænt­an­lega leyn­ast ein­hver vanda­mál und­ir yf­ir­borðinu.

Á síðasta ald­ar­fjórðungi hafa hag­kerfi heims­ins að mestu búið við lág­vaxtaum­hverfi og greitt aðgengi að láns­fé og því afar illa búin und­ir það aðhald sem seðlabank­ar hafa þurft að beita und­an­farið til að ná tök­um á verðbólg­unni. Auk vaxta­lækk­ana hafa björg­unar­úr­ræðin frá alda­mót­um jafn­framt fal­ist í því að kasta pen­ing­um að vand­an­um með svo­kallaðri magn­bund­inni íhlut­un. Nú eru góð ráð dýr þar sem þessi úrræði eru ekki í boði á verðbólgu­tím­um. Banda­rík­in voru fyrr á ferðinni með vaxta­hækk­an­ir og því lík­legt að eitt­hvað muni jafn­framt gefa eft­ir í öðrum lönd­um, t.d. á evru­svæðinu þar sem vext­ir voru hækkaðir í vik­unni og þar sem er lík­lega að finna staðbundna veik­leika.

Staða mála á Íslandi

Þær aðgerðir sem Banda­ríkja­for­seti kynnti á mánu­dag­inn eru Íslend­ing­um því miður vel kunn­ar. Á ár­inu 2008 leituðu markaðir uppi veik­ustu hlekk­ina og fundu þá í ís­lensku bönk­un­um. Þá voru svipuð sjón­ar­mið uppi varðandi lausn­ir hér á ár­inu 2008. Hér var þak numið af inn­lend­um inn­stæðutrygg­ing­um, skatt­fé var ekki notað til að bjarga bönk­un­um, farið var í rann­sókn á því sem hér gerðist og lög­gjöf um fjár­mála­markaði var breytt til að koma í veg fyr­ir að áfall sem þetta end­ur­tæki sig.

Mun­ur­inn hér var hins veg­ar sá að ís­lensk stjórn­völd horfðu fram á kerf­is­áfall. Vegna þess að byggja þurfti kerfið upp úr öskustónni var mögu­legt að ganga í veru­leg­ar kerf­is­breyt­ing­ar og búum við því við ban­kaum­hverfi sem bygg­ist m.a.á öfl­ugu þjóðhags­varúðar­um­hverfi. Fram­kvæmd pen­inga­stefn­unn­ar hef­ur verið með öðrum hætti hér enda magn­bund­in íhlut­un afar tak­mörkuð.

Í kjöl­far banka­áfalls­ins hér hef­ur verið byggt upp afar öfl­ugt fjár­mála­kerfi, en þó er mik­il­vægt er að bank­arn­ir stígi var­lega til jarðar þar sem bú­ast má við að láns­fé verði af skorn­um skammti á helstu mörkuðum á næstu miss­er­um. Áhrif­in hér heima fyr­ir af þess­ari uppá­komu á banda­ríska markaðnum eru þau að ef það rík­ir áfram mik­il óvissa, þá hækk­ar kostnaður við alla fjár­mögn­un. Að sama skapi þarf að hafa í huga að það ríki sem skil­ar mestu til ís­lenska þjón­ustu­jafnaðar­ins eru Banda­rík­in, þannig að viðskipta­kjör gætu versnað í kjöl­farið. Þá er enn verið að hækka vexti í Evr­ópu og má bú­ast við að ein­hver frek­ari vanda­mál skjóti þar upp koll­in­um. Hins veg­ar er staða ís­lenska hag­kerf­is­ins sterk enda kröft­ug­ur hag­vöxt­ur, lítið at­vinnu­leysi, mikl­ar út­flutn­ings­tekj­ur, lækk­andi skuld­ir rík­is­sjóðs og frum­jöfnuður rík­is­fjár­mála næst von bráðar. Verðbólg­an á Íslandi er þó enn líf­seig­ari og kröft­ugri en æski­legt væri. Þess þá held­ur eru verðbólgu­vænt­ing­ar of háar. Verðbólg­an verður stærsta viðfangs­efni hag­stjórn­ar­inn­ar næstu miss­eri.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Val um fjölbreytta ferðamáta

Deila grein

16/03/2023

Val um fjölbreytta ferðamáta

Þegar sam­göngusátt­máli rík­is­ins og sex sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu var und­ir­ritaður árið 2019 hafði ríkt frost í upp­bygg­ingu innviða á höfuðborg­ar­svæðinu og í raun frost í sam­skipt­um höfuðborg­ar­svæðis­ins og rík­is­ins er vörðuðu sam­göng­ur. Sam­göngusátt­mál­inn markaði því tíma­mót.

Í sam­göngusátt­mál­an­um felst sam­eig­in­leg sýn á hvernig um­ferðar­vandi höfuðborg­ar­svæðis­ins verður best leyst­ur til lengri tíma. Það er ljóst að til að mæta þörf­um íbúa höfuðborg­ar­svæðis­ins sem eru helm­ing­ur lands­manna verður sá vandi ekki leyst­ur ein­vörðungu með því að styrkja stofn­vega­kerfið. Hann verður held­ur ekki leyst­ur með því að horfa ein­vörðungu á al­menn­ings­sam­göng­ur. Niðurstaða sam­göngusátt­mál­ans er blönduð leið þar sem ann­ars veg­ar eru lagðir mikl­ir fjár­mun­ir í um­fangs­mikl­ar stofn­vega­fram­kvæmd­ir til að bæta flæði um­ferðar um höfuðborg­ar­svæðið og hins veg­ar upp­bygg­ing hágæðaal­menn­ings­sam­gangna. Auk þess er lögð mik­il áhersla á upp­bygg­ingu göngu- og hjóla­stíga.

Öflugra stofn­vega­kerfi

Fram­kvæmd­ir við stofn­vegi eru tæp­ur helm­ing­ur af kostnaði við sam­göngusátt­mál­ann. Af þeim 10 stóru stofn­vega­fram­kvæmd­um sem eru á sviði sátt­mál­ans er þrem­ur lokið. Nú þegar hef­ur verið lokið fram­kvæmd­um við kafla Vest­ur­lands­veg­ar frá Skar­hóla­braut að Hafra­vatns­vegi, kafla Reykja­nes­braut­ar frá Kaldár­sels­vegi að Krýsu­vík­ur­vegi og kafla Suður­lands­veg­ar frá Bæj­ar­hálsi að Vest­ur­lands­vegi. Á næstu mánuðum hefjast fram­kvæmd­ir við langþráða teng­ingu Arn­ar­nes­veg­ar við Breiðholts­braut og und­ir­bún­ing­ur við gatna­mót Reykja­nes­braut­ar og Bú­staðaveg­ar er á loka­metr­un­um. Þess­ar fram­kvæmd­ir eru meðal þeirra mik­il­væg­ustu í sam­göngusátt­mál­an­um og munu greiða veru­lega fyr­ir um­ferð íbúa svæðis­ins.

Hágæða al­menn­ings­sam­göng­ur

Íbúum höfuðborg­ar­svæðis­ins fjölg­ar hratt og nem­ur fjölg­un­in tug­um þúsunda á síðustu tíu árum.. Það er ljóst að til að tryggja betra flæði um­ferðar og þar með auk­in lífs­gæði fólks á svæðinu er nauðsyn­legt að byggja upp hágæðaal­menn­ings­sam­göng­ur eins og við þekkj­um frá þeim lönd­um og borg­um sem við ber­um okk­ur helst sam­an við. Góðar al­menn­ings­sam­göng­ur eru ekki ein­ung­is mik­il­vægt lofts­lags­mál og brýnt til að draga úr svifryks­meng­un held­ur létta þær veru­lega á kostnaði fjöl­skyldna þegar auðveld­ara verður að fækka bíl­um á heim­ili. Auk­in áhersla á al­menn­ings­sam­göng­ur er nefni­lega ekki, eins og sum­ir halda fram, árás á fjöl­skyldu­bíl­inn. Betri al­menn­ings­sam­göng­ur eru nauðsyn­leg­ar til þess að gera um­ferðina skil­virk­ari og betri. Nú þegar nýta höfuðborg­ar­bú­ar um það bil 12 millj­ón­ir ferða í Strætó og er auðvelt að ímynda sér hversu mikið vand­inn myndi aukast við að 30-35 þúsund manns bætt­ust við á hverj­um degi á göt­un­um í fjöl­skyldu­bíl­um. Að sama skapi er aug­ljóst að betri al­menn­ings­sam­göng­ur draga úr um­ferðarþunga og þeim töf­um sem eru vegna um­ferðar­hnúta í dag.

Auk­in áhersla á virka ferðamáta

Eft­ir því sem tím­inn líður nýta stöðugt fleiri sér aðra sam­göngu­máta en bíl og al­menn­ings­sam­göng­ur í dag­legu lífi. Með bætt­um hjóla­stíg­um hafa mögu­leik­arn­ir til að hjóla til og frá vinnu auk­ist veru­lega, bæði á hefðbundn­um reiðhjól­um en einnig á raf­hjól­um og raf­hlaupa­hjól­um. Þró­un­in hef­ur verið hröð síðustu árin frá því að skrifað var und­ir sam­göngusátt­mál­ann og því hef­ur kraf­an um aukna áherslu á upp­bygg­ingu hjóla­stíga auk­ist í takti við aukna notk­un.Bætt­ar sam­göng­ur þýða auk­in lífs­gæði

Sam­göngusátt­mál­inn er risa­stórt verk­efni. Hann er í stöðugri þróun eins og eðli­legt er með svo um­fangs­mikl­ar fram­kvæmd­ir. Um sátt­mál­ann og þá framtíðar­sýn sem hann boðar er breið sátt enda fel­ast í hon­um gríðarleg­ar um­bæt­ur. Bætt­ar sam­göng­ur á höfuðborg­ar­svæðinu þýða auk­in lífs­gæði fyr­ir íbúa svæðis­ins. Þær stytta um­ferðar­tím­ann, minnka meng­un­ina og búa til betri teng­ing­ar fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki á svæðinu. Mik­il­vægt er að íbú­ar höfuðborg­ar­svæðis­ins geti valið sér ferðamáta, hvort sem það er fjöl­skyldu­bíll­inn, al­menn­ings­sam­göng­ur eða gang­andi og hjólandi. Um þessa fjöl­breytni snýst sam­göngusátt­máli höfuðborg­ar­svæðis­ins.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, innviðaráðherra og formaður Fram­sókn­ar. Ein­ar Þor­steins­son, formaður borg­ar­ráðs og odd­viti Fram­sókn­ar í Reykja­vík, Orri Vign­ir Hlöðvers­son, formaður bæj­ar­ráðs og odd­viti Fram­sókn­ar í Kópa­vogi, Valdi­mar Víðis­son, formaður bæj­ar­ráðs og odd­viti Fram­sókn­ar í Hafnar­f­irði, Brynja Dan, odd­viti Fram­sókn­ar í Garðabæ, Halla Kar­en Kristjáns­dótt­ir, formaður bæj­ar­ráðs og odd­viti Fram­sókn­ar í Mos­fells­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. mars 2023.